Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2017
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Starfslokasamningur
- Laun
- Trúnaðarskylda
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að stefndi hafi ekki fyrirgert rétti sínum til greiðslu launa fyrir júní, júlí, ágúst og tíu daga af september 2015 í samræmi við samning um starfslok hans hjá áfrýjanda 11. mars sama ár. Að fenginni þeirri niðurstöðu voru ekki efni til að vísa frá héraðsdómi gagnkröfu áfrýjanda um endurgreiðslu þeirra launa sem hann hafði áður innt af hendi samkvæmt samningnum, svo sem gert var með hinum áfrýjaða dómi, enda var þá um leið brostinn grundvöllur fyrir kröfu áfrýjanda í gagnsök sem hefði þannig átt að sýkna stefnda af.
Áfrýjandi krefst þess til vara að fjárhæð kröfu stefnda verði lækkuð þar sem hann hafi fyrir mistök innt af hendi greiðslur í þágu stefnda sem draga beri frá kröfunni. Samkvæmt gögnum sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt greiddi hann af þeim launum, sem stefndi átti rétt á fyrir júní, júlí og ágúst 2015, lífeyrissjóðsiðgjöld að fjárhæð samtals 324.000 krónur, staðgreiðslu opinberra gjalda alls að fjárhæð 860.106 krónur og barnsmeðlag að fjárhæð samtals 80.589 krónur. Verður krafa stefnda lækkuð sem nemur þessum greiðslum eða alls um 1.264.695 krónur og áfrýjanda þannig gert að greiða stefnda 1.960.578 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Í ljósi úrslita málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Straumhvarf hf., greiði stefnda, Torfa G. Yngvasyni, 1.960.578 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 551.999 krónum frá 1. júlí 2015 til 1. ágúst sama ár, af 1.103.998 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 1.651.305 krónum frá þeim degi til 11. september sama ár en af 1.960.578 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2016.
Mál þetta, sem var höfðað með birtingu stefnu 23. september 2015, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fór fram þann 28. október sl. Aðalstefnandi er Torfi G. Yngvason, Barónsstíg 59 í Reykjavík og gagnstefnandi er Straumhvarf hf., Vatnagörðum 8 í Reykjavík.
Aðalstefnandi krefst þess að gagnstefnandi greiði sér 3.225.273 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 972.000 krónum frá 1. júlí til 1. ágúst 2015, af 1.944.000 krónum frá þeim degi til 13. ágúst 2015 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.
Gagnstefnandi krefst aðallega sýknu af kröfum aðalstefnanda í aðalsök en til vara að kröfurnar verði lækkaðar. Í gagnsök gerir hann kröfu um að grein 3.2 í starfslokasamningi aðila verði breytt á þann veg að 3. málsliður greinarinnar hljóði svo: „Starfsmaður skal engin laun fá frá gerð starfslokasamnings.“ Þá krefst hann þess að aðalstefnandi greiði sér 3.830.886 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. október 2015 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst gagnstefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda.
Aðalstefnandi krefst þess aðallega að kröfum í gagnsök verði vísað frá dómi en til vara að fjárkrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst hann sem fyrr málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.
Í þinghaldi 12. janúar sl. var ákveðið að málflutningur um form- og efnishlið málsins færi fram í einu lagi.
Atvik máls
Aðalstefnandi var um skeið framkvæmdastjóri gagnstefnanda og jafnframt eigandi 25% hlutafjár í félaginu í gegnum einkahlutafélag sitt Sumardal ehf. Á fyrri hluta ársins 2015 seldi hann hlut sinn í félaginu og lét af störfum fyrir félagið. Þann 11. mars það ár gerðu aðilar samkomulag um starfslok aðalstefnanda og er í máli þessu deilt um gildi og efndir þess samnings.
Í 3. gr. samningsins segir að samkomulag hafi orðið með aðilum um að slíta ráðningarsambandi aðila og að aðalstefnandi láti af daglegum störfum hjá félaginu frá og með 11. mars 2015. Í 3. málslið greinar 3.2 er tekið fram að kjarasamningsbundinn uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir en síðan er kveðið á um að aðalstefnandi fái laun í sex mánuði og að með því sé að fullu gerð upp orlofsskuldbinding félagsins gagnvart honum.
Í 5. kafla samningsins er m.a. kveðið á um samkeppnisbann. Í grein 5.2 er ítarlegt ákvæði um bann við því að aðalstefnandi vinni fyrir fyrirtæki í rekstri skyldum þeim sem gagnstefnandi stundar. Segir m.a. í greininni að „[s]tarfsmaður skuldbindur sig til að þess að fjárfesta ekki í eða fjármagna með öðrum hætti, starfa ekki sjálfur eða taka við starfi hjá, hvorki beint né óbeint, hvort sem er gegn launum, þóknunum eða endurgjaldslaust, sem stjórnarmaður, launþegi, ráðgjafi eða með öðrum hætti fyrirækjum í samkeppni við félagið eða hlutdeildarfélög þess, miða við þá starfsemi sem félagið og hlutdeildarfélag þess stunda við gerð samnings þessa“.
Í grein 5.3 er undantekning frá framangreindu banni. Þar segir: „Félaginu er kunnugt um og fellir sig við að starfsmaður eigi hlut í, starfi í þágu eða hafi samstarf við eftirtalin fyrirtæki, enda gert ráð fyrr því að ekkert þeirra stundi samkeppni við félagið eða raski að öðru leyti viðskiptahagsmunum þess: a) Hvalaskoðun Reykjavíkur ehf., b) Sea Safari Ísland ehf., c) Bókun ehf. og d) Vélsleðaleigan ehf.“
Félag aðalstefnanda, Sumardalur ehf., keypti 33% hlut í Vélsleðaleigunni af Eyju ehf. Aðalstefnandi sagði fyrir dómi að kaupsamningurinn hefði verið undirritaður 3. febrúar 2015 og greiðsla innt af hendi þann 16. mars s.á. Í greinargerð gagnstefnanda er kaupverðið sagt hafa verið fjórar milljónir króna en Ásdís Skúladóttir, stjórnarformaður Eyju ehf., seljanda hlutarins, sagði að söluverðið hefði verið þrjár milljónir króna. Aðalstefnandi seldi félaginu sjálfu hlut sinn í því 30. október 2015 fyrir 25.000.000 króna.
Gagnstefnandi greiddi aðalstefnanda laun í samræmi við ákvæði samnings aðila í apríl, maí og júní 2015. Gagnstefnandi hefur ekki greitt aðalstefnanda laun eftir þann tíma og í bréfi lögmanns hans til aðalstefnanda 13. ágúst 2015 kemur fram að ástæðan sé sú að gagnstefnandi telji að aðalstefnandi hafi brotið alvarlega gegn félaginu í tengslum við viðskipti með hluti í Vélsleðaleigunni ehf. Í bréfinu segir að gagnstefnandi telji forsendur brostnar fyrir greiðslum til aðalstefnanda samkvæmt samningi aðila. Þá er þess getið að gagnstefnandi íhugi að kæra aðalstefnanda til lögreglu vegna nefndra viðskipta með hluti í Vélsleðaleigunni. Meðal gagna málsins er kæra, dagsett 17. september 2015. Þar er meintu broti lýst á þann veg að á meðan aðalstefnandi var framkvæmdastjóri gagnstefnanda hafi gagnstefnanda staðið til boða að kaupa hlut í Vélsleðaleigunni á afar hagstæðu verði. Aðalstefnanda hafi borið að ganga frá þeim viðskiptum fyrir hönd gagnstefnanda sem hann hafi ekki gert. Eftir að hann lét af störfum hafi hins vegar komið í ljós að hann sjálfur hafi, í gegnum félag sitt Sumardal ehf., keypt umræddan hlut í Vélsleðaleigunni. Gagnstefnandi telji þessa háttsemi aðalstefnanda vera í andstöðu við 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Meðal gagna í málinu er hluti úr fundargerð Ragnars O. Rafnssonar, starfsmanns Ernst og Young vegna fundar hans með aðalstefnanda 24. febrúar 2015. Þar er þess getið að aðalstefnandi hafi sagt að gagnstefnandi ætti kauprétt að bréfum í Vélsleðaleigunni en nánari upplýsingar vanti um kaupverð og magn. Síðan segir: „Það er ekki til neinn samningur um þetta, stóð til boða á sínum tíma að kaupa 33% hlut á fyrst 4,5 milljónir og svo á 3,5 milljónir en var aldrei neinn uppáskrifaður samningur um það, bara í „good faith“. Sá díll er ekki lengur í boði þar sem velta félagsins hefur stóraukist og hún ekki lengur jafn háð AA og áður var.“
Aðalstefnandi hefur alfarið hafnað því að hafa í nokkru brotið gegn starfsskyldum sínum á meðan hann starfaði fyrir gagnstefnanda og í stefnu þessa máls krefst hann greiðslu eftirstöðva launagreiðslna samkvæmt samningnum.
Í gagnstefnu krefst gagnstefndi þess á hinn bóginn að ákvæði samnings aðila um greiðslur til aðalstefnanda verði fellt niður auk þess sem hann setur fram fjárkröfu sem felur í sér endurgreiðslu á því sem hann hefur þegar greitt aðalstefnanda á grundvelli samningsins.
Aðalstefnandi og forsvarsmaður gagnstefnanda, Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson, stjórnarmaður í gagnstefnanda, gáfu skýrslu fyrir dómi og auk þess vitnin, Ásdís Skúladóttir, stjórnarmaður í Eyju ehf., Jón Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri gagnstefnanda, Jón Heiðar Andrésson, fyrrverandi eigandi í stefnanda, Ragnar O. Rafnsson, starfsmaður Ernst og Young ehf., Helgi Júlíusson, starfsmaður Landsbréfa, Þorgils Nikulás Þorvarðarson, hluthafi í Vélsleðaleigunni. Framburður þeirra er rakinn í niðurstöðukafla dómsins, að svo miklu leyti sem tilefni er til.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda
Aðalstefnandi byggir kröfu sína í aðalsök á því að gagnstefnanda beri að efna samning aðila um starfslok hans og standa skil á umsömdum launagreiðslum. Ekki sé deilt um að samningur hafi verið gerður og að samkvæmt honum beri aðalstefnanda laun í sex mánuði eftir að hann lét af störfum án þess að vinnuframlag komi á móti.
Aðalstefnandi hafnar því að hafa í nokkru brotið gegn starfsskyldum sínum sem framkvæmdastjóri gagnstefnanda. Ásakanir þar að lútandi séu óljósar og órökstuddar.
Aðalstefnandi byggir fjárhæð kröfu sinnar á því að hann eigi rétt til launa í sex mánuði frá og með 11. mars, þegar starfslokasamningur aðila hafi verið gerður. Honum hafi verið greidd laun fyrir mars, apríl og maí. Krafa hans sé um full laun, sem hafi verið 900.000 krónur á mánuði, fyrir júní, júlí og ágúst auk launa til 11. september, eða í 7 af 22 dögum þess mánaðar. Auk þess krefst hann greiðslu framlags launagreiðanda í lífeyrissjóð fyrir sama tímabil. Samtals nemi fjárhæð kröfu hans 3.225.273 krónum.
Aðalstefnandi gerir kröfur um greiðslu dráttarvaxta frá gjalddaga launagreiðslna 1. júlí og 1. ágúst 2015 en af allri stefnufjárhæðinni frá og með 13. ágúst sama ár en þann dag tilkynnti gagnstefnandi að ekki yrðu frekari greiðslur inntar af hendi á grundvelli samnings aðila.
Frávísunarkrafa aðalstefnanda í gagnsök er á því reist að kröfugerð í gagnsök sé óljós og vanreifuð og því í andstöðu við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé fjárhæð kröfugerðar gagnstefnanda verulega vanreifuð auk þess sem ekki sé samhengi á milli málsástæðna og kröfugerðar.
Krafa um sýknu af gagnsök er á því byggð að aðalstefnandi hafi í engu brotið gegn starfsskyldum sínum. Því séu skilyrði til að víkja til hliðar samningi aðila um launagreiðslur í uppsagnarfresti á grundvelli 33. eða 36. gr. samningalaga ekki fyrir hendi. Staðhæfingar gangstefnanda um þau atriði séu rangar og ósannaðar. Þá sé tjón gagnstefnanda ósannað og því beri að sýkna aðalstefnanda af fjárkröfu gagnstefnanda sem líta verði á sem skaðabótakröfu miðað við röksemdir í gagnstefnu.
Til vara krefst stefnandi þess að kröfur í gagnsök verði lækkaðar verulega og vísar til þess að verði fallist á að honum beri að endurgreiða gagnstefnanda geti sú endurgreiðslukrafa aldrei orðið hærri en sú fjárhæð sem hann sannanlega fékk í hendur.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda
Gagnstefnandi krefst aðallega sýknu af kröfu í aðalsök. Byggir hann þá kröfu á því að aðalstefnandi hafi, með því að kaupa hlut í Vélsleðaleigunni á meðan hann var ennþá framkvæmdastjóri gagnstefnanda, brotið gegn starfsskyldum sínum gagnvart gagnstefnanda. Jafnframt hafi hann brotið gegn starfsskyldum sínum með því að upplýsa ekki stjórn gagnstefnanda um kaupin auk þess sem hann hafi sagt starfsmanni Ernst og Young ósatt um möguleika gagnstefnanda á að kaupa umræddan hlut í fyrirtækinu.
Gagnstefnandi byggir á því að framangreind háttsemi aðalstefnanda veiti honum rétt til að rifta einhliða ráðningarsambandi aðila og jafnframt að forsendur séu brostnar fyrir launagreiðslum samkvæmt starfslokasamningi aðila. Starflokasamningur aðila sé enn í fullu gildi að öðru leyti en því að víkja eigi til hliðar ákvæði 3.2 sem kveður á um greiðslu í uppsagnarfresti til aðalstefnanda þar sem það sé óheiðarlegt og ósanngjarnt af hálfu aðalstefnanda að bera það ákvæði fyrir sig.
Varakrafa gagnstefnanda í aðalsök er á því byggð að hann hafi þegar greitt hluta af kröfu í aðalsök. Um lagarök fyrir sýknu í aðalsök vísar gagnstefnandi til meginreglu vinnuréttar um samningssamband starfsmanns og vinnuveitanda, til meginreglna félagaréttar um eðli og starfsskyldur framkvæmdastjórastarfsins og jafnframt til 41., 44. og 51. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um það atriði.
Gagnstefnandi byggir kröfu sína í gagnsök um að víkja beri til hliðar ákvæði í samningi aðila um greiðslur í uppsagnarfresti á 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og vísar til þess sem að framan er rakið um að óheiðarlegt sé og ósanngjarnt af hálfu aðalstefnanda að bera það samningsákvæði fyrir sig. Auk þess krefst hann endurgreiðslu launa sem hann hefur þegar greitt á grundvelli starfslokasamningsins en samtals nemur sú krafa 3.830.886 krónum. Auk endurgreiðslu launa sem greidd voru fyrir mars, apríl og maí, krefst gagnstefnandi endurgreiðslu staðgreiðslu skatta og launatengdra gjalda, sem hann kveðst af misgáningi hafa greitt af launum aðalstefnanda í júlí og ágúst. Um lagarök fyrir kröfu sinni um endurgreiðslu vísar gagnstefnandi til framangreindra ákvæða samningalaga, almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur sem leiða eigi til þess að hann verði eins settur og ef það samningsákvæði sem hann krefst ógildingar á hefði aldrei verið gert. Til vara byggir hann á því að aðalstefnanda beri að endurgreiða honum fjárhæðina á grundvelli almennu sakarreglunnar, þar sem hann hafi valdið honum tjóni með saknæmum hætti.
Forsendur og niðurstaða
Aðalstefnandi, sem er fyrrum framkvæmdastjóri gagnstefnanda, krefur gagnstefnanda um greiðslu launa í uppsagnarfresti á grundvelli starfslokasamnings sem aðilar undirrituðu þann 11. mars 2015. Í grein 3.2 er skýrlega kveðið á um að aðalstefnandi eigi rétt til launa í sex mánuði frá og með undirritun samningsins. Ekki er ágreiningur með aðilum um að ekki var óskað vinnuframlags aðalstefnanda í uppsagnarfresti. Þá er einnig óumdeilt að aðalstefnandi fékk greidd laun fyrir mars, apríl og maí á grundvelli framangreinds samnings.
Gagnstefnandi byggir á því að honum hafi verið heimilt að fella niður greiðslur til aðalstefnanda þar sem komið hafi í ljós að hann hafi vanefnt starfsskyldur sínar á meðan hann gegndi starfi sem framkvæmdastjóri gagnstefnanda. Kveður hann brot hans felast í því að aðalstefnandi hafi fest kaup á hlut í Vélsleðaleigunni ehf., á meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra en með réttu hefði hann átt að ganga frá kaupum gagnstefnanda á þessum hlut. Þá hafi hann leynt kaupunum fyrir stjórn gagnstefnanda og sagt ósatt um málsatvik á fundi með endurskoðanda félagsins.
Fallast má á það með aðalstefnanda að reifun á málavöxtum varðandi ætlað brot hans sé verulega óljós í greinargerð gagnstefnanda og í gagnstefnu. Af þeim gögnum og skýrslum Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar fyrir dómi má þó ráða að byggt sé á því að gagnstefnanda hafi staðið til boða að kaupa umdeildan hlut í Vélsleðaleigunni á mjög hagstæðu verði og að stjórn félagsins hafi falið aðalstefnanda að ganga frá kaupunum. Þá er í skýrslu Jón Þórs Gunnarsonar, núverandi framkvæmdastjóra gagnstefnanda, greint frá því að aðalstefnandi hafi sagt honum frá framangreindum möguleika á kaupum. Ef frá er talin fundargerð Ragnars O. Rafnssonar sem greint er frá í atvikalýsingu, hefur gagnstefnandi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings framangreindum staðhæfingum fyrirsvarsmanna gagnstefnanda um að félaginu hafi staðið þessi viðskipti til boða. Fundargerð þessi er afar óljós um atvik máls og í skýrslu fyrir dómi gat Ragnar ekki varpað frekara ljósi á atvikin. Er fundargerð þessi ekki viðhlítandi sönnunargagn um þær staðhæfingar um atvik sem gagnstefnandi byggir á. Skýrslur annarra vitna fyrir dómi renna ekki heldur frekari stoðum undir staðhæfingar gagnstefnanda. Þannig sagði Ásdís Skúladóttir, stjórnarformaður Eyju ehf., sem seldi aðalstefnanda umdeildan hlut í Vélsleðaleigunni, að hún hefði aldrei boðið gagnstefnanda hlut sinn til sölu og það hefði aldrei staðið til að selja honum hlutinn. Þá skýrði Þorgils Nikulás Þorvarðarson, einn eigenda Vélsleðaleigunnar, frá því fyrir dómi að það hefði komið fram á fundi með stjórnarformanni gagnstefnanda að hann hefði ekki áhuga á að kaupa hlut í félaginu. Með vísan til þessa verður að telja ósannað að gagnstefnanda hafi staðið til boða að kaupa hlut í Vélsleðaleigunni á tilteknu verði og jafnframt er það ósannað að stjórn gagnstefnanda hafi falið aðalstefnanda að ganga frá þeim kaupum. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til álita sú málsástæða gagnstefnanda að aðalstefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum framkvæmdastjóra með því að ganga ekki frá kaupum á Vélsleðaleigunni fyrir hönd gagnstefnanda. Af því leiðir jafnframt að hafnað er málsástæðum gagnstefnanda sem lúta að ógildi samnings aðila á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 en gagnstefnandi byggir á því að óheiðarlegt sé og ósanngjarnt af aðalstefnanda að bera starfslokasamninginn fyrir sig þar sem hann hafi brotið starfsskyldur sínar.
Starfslokasamningur aðila er skýr varðandi rétt aðalstefnanda til launa í sex mánuði frá og með gerð samningsins. Samningurinn er einnig skýr varðandi rétt stefnanda til þess að eiga hlut í og starfa fyrir tiltekin félög, þar á meðal Vélsleðaleiguna ehf. Samkvæmt orðanna hljóðan felur 5. gr. samningsins í sér að gagnstefnanda er kunnugt um og gerir ekki athugasemd við að aðalstefnandi eigi hlut í umræddu félagi. Staðhæfingar forsvarsmanna gagnstefnanda, um að þrátt fyrir þetta orðalag hafi það verið skýr forsenda samningsins að aðalstefnandi ætti ekki í félaginu við gerð samningsins, fá hvorki stoð í samningnum sjálfum, öðrum gögnum málsins né skýrslum vitna fyrir dómi. Hafi þetta verið forsenda samningsgerðarinnar stóð það gagnstefnanda nær að færa hana með skýrum hætti inn í samning aðila. Er það ekki síst mikilvægt í ljósi þess að slík forsenda skerðir atvinnufrelsi aðalstefnanda og nauðsynlegt er að kveða á um slíkar takmarkanir með skýrum hætti. Því er hafnað þeirri málsástæðu gagnstefnanda að forsendur samnings aðila séu brostnar.
Þá er fallist á það með aðalstefnanda að kröfugerð í gagnsök sé haldin slíkum annmörkum að vísa beri henni frá dómi í heild sinni. Er þar bæði til þess að líta að gagnstefnandi hefur ekki stutt staðhæfingar í gagnstefnu um ætluð brot á starfsskyldum aðalstefnanda viðhlítandi gögnum né lýst því með skýrum hætti í hverju brotin felist. Er þetta í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Skortir þannig á að gagnstefnandi hafi lagt skýran grunn að kröfu sinni um breytingar á hluta samnings aðila auk þess sem ekki verður séð að það hafi sjálfstæða þýðingu fyrir úrlausn málsins að taka afstöðu til þeirrar kröfu sem í reynd er líkari málsástæðu fyrir fjárkröfunni. Þá er fjárkrafan verulega óljós og vanreifuð og ekki studd gögnum að því leyti sem henni er mótmælt. Loks skortir á að gerð sé grein fyrir því hvernig reglur skaðabótaréttar renni stoðum undir kröfu gagnstefnanda en í gagnstefnu kemur fram að krafan sé annaðhvort byggð á reglum um vangildisbætur eða bætur á grundvelli sakarreglunnar, án þess að nánar sé gerð grein fyrir því hvernig þær réttarreglur styðji kröfu gagnstefnanda um endurgreiðslu launa og launatengdra gjalda, svo sem krafan hljóðar upp á. Fer þetta í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Með þessum rökstuðningi er gagnsök vísað frá dómi.
Samkvæmt öllu framansögðu verður aðalkrafa aðalstefnanda tekin til greina og gagnstefnanda gert að greiða honum 3.225.273 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður gagnstefnanda gert að greiða aðalstefnanda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 750.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Skarphéðinn Pétursson hrl. flutti málið fyrir aðalstefnanda og Bernhard Bogason hdl. fyrir gagnstefnanda.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Dómsorð:
Gagnstefnandi, Straumhvarf hf., skal greiða aðalstefnanda, Torfa G. Yngvasyni, 3.225.273 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 972.000 krónum frá 1. júlí til 1. ágúst 2015, af 1.944.000 krónum frá þeim degi til 13. ágúst 2015 en af 3.225.273 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að auki skal gagnstefnandi greiða aðalstefnanda 750.000 krónur í málskostnað.
Kröfum í gagnsök er vísað frá dómi.