Hæstiréttur íslands
Mál nr. 6/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Dómsátt
|
|
Miðvikudaginn 29. janúar 2003. |
|
Nr. 6/2003. |
Hlíðardalur ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Eyfaxa ehf. (Sigurður Jónsson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Dómsátt.
Deilt var um gildi fjárnáms sem gert var á grundvelli dómsáttar í máli sem E höfðaði gegn H til uppgjörs á viðskiptum þeirra. Var talið að orðalag sáttarinnar fæli ótvírætt í sér að endurskoðendur aðilanna skyldu í sameiningu útbúa nánar tilgreinda staðfestingu. Var sáttin því skilyrt með þeim hætti að mælt var fyrir um atvik, sem síðar kæmu fram. Þetta skilyrði var ekki uppfyllt. Gat einhliða yfirlýsing endurskoðanda E ekki komið í stað sameiginlegrar yfirlýsingar beggja endurskoðendanna. Varð samkvæmt þessu að fella hið umþrætta fjárnám úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2003. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. desember 2002, þar sem staðfest var fjárnám, sem sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum gerði hjá sóknaraðila 3. maí 2002. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Fjárnámið, sem deila málsaðila snýst um, var gert á grundvelli dómsáttar frá 13. febrúar 2002 í máli, sem varnaraðili höfðaði gegn sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Suðurlands til uppgjörs á viðskiptum þeirra. Er dómsáttin tekin upp orðrétt í hinum kærða úrskurði. Meginefni hennar fólst annars vegar í því að aðilarnir skyldu greiða nánar tilteknar fjárhæðir vegna fiskkaupa og umsýslu fyrir hrognsölu og gera hvor öðrum reikning fyrir þann þátt viðskiptanna. Sætir sá hluti dómsáttarinnar ekki ágreiningi. Hins vegar skyldi sóknaraðili gefa út „staðfestingu um hversu mikinn leigukvóta stefndi hefur keypt á skip stefnanda, Sæfaxa, vegna ársins 2001, gegn ofangreindri heildargreiðslu. Endurskoðendur beggja aðila útbúi ofangreinda staðfestingu.“ Aðilarnir eru ekki á einu máli um hvað falist hafi í þessum hluta dómsáttarinnar og varð það ljóst strax nokkrum dögum eftir undirritun hennar þegar endurskoðendur þeirra leituðust við að ná samkomulagi sín á milli um staðfestinguna, sem dómsáttin kvað á um að þeir skyldu útbúa. Málavöxtum og málsástæðum aðila er nánar lýst í úrskurði héraðsdóms.
Af hálfu sóknaraðila er haldið fram að varnaraðila beri skylda til að gefa út reikning til sóknaraðila vegna þátttöku hins síðarnefnda í kaupum á aflamarki, sem um ræðir í dómsáttinni. Afstaða skattyfirvalda um þetta liggi fyrir. Telji þau eins og sóknaraðili að líta beri á kaupin á aflamarkinu sem fyrirframgreiðslu sóknaraðila vegna kaupa á hráefni til vinnslu af varnaraðila og að honum beri að gefa út reikning til sóknaraðila vegna allra viðskiptanna, en ekki aðeins hluta þeirra. Í því dómsmáli, sem lauk með sátt aðila í febrúar 2002, hafi verið ágreiningur um það hvernig ganga bæri bókhaldslega frá uppgjöri vegna kaupa sóknaraðila á aflamarki á skip varnaraðila. Með því að vísa ágreiningnum til endurskoðenda þeirra hafi sóknaraðili talið tryggt að gengið yrði frá málinu í samræmi við bókhalds- og skattalög. Orðalag sáttarinnar sýni að lagt hafi verið í hendur endurskoðendanna að leysa málið. Það hafi þeim ekki tekist og þar með hafi dómsmálinu ekki lokið með sátt. Slík skilyrt dómsátt geti ekki verið aðfararhæf.
Varnaraðili telur nefnda dómsátt vera skýra og orðalagið afdráttarlaust. Í fyrri hlutanum sé kveðið á um útgáfu reikninga, en í þeim hluta hennar, sem varði aflamark, sé það ekki gert heldur skuli gefin út staðfesting fyrir þeim viðskiptum. Í sambærilegum viðskiptum hafi aldrei verið gerður reikningur þar sem fiskvinnsla kaupi aflaheimildir og færi þær á skip. Ástæða þess að í sáttinni sé kveðið á um að endurskoðendurnir útbúi staðfestingu hafi eingöngu verið til hagræðis til að flýta málinu þar sem þeir hafi búið yfir upplýsingum um aflamagn og fjárhæðir. Málið fjalli um réttmæti fjárnámsgerðar, en ekki skýringu á skattalögum eða lögum um bókhald.
II.
Í XV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru almennar reglur um dómsáttir í einkamálum, sem skuldbinda málsaðila eftir almennum reglum einkaréttar. Reynir í málinu á hvort efni dómsáttar 13. febrúar 2002 milli aðila sé svo skýrt að varnaraðila sé unnt að fylgja henni eftir með aðför. Felst í málatilbúnaði sóknaraðila að bæði skorti reikning frá varnaraðila og sameiginlega yfirlýsingu endurskoðenda aðila til að efni dómsáttarinnar geti talist uppfyllt af hálfu varnaraðila.
Skýringar málsaðila á efni dómsáttarinnar og ástæðum fyrir gerð hennar falla ekki saman. Orðalag hennar felur ótvírætt í sér að endurskoðendurnir skuli í sameiningu útbúa staðfestingu um kaup á aflamarkinu, sem um ræðir í málinu. Sáttin er því skilyrt með þeim hætti að mælt er fyrir um atvik, sem síðar komi fram. Þetta skilyrði er ekki uppfyllt. Getur einhliða yfirlýsing endurskoðanda varnaraðila ekki komið í stað sameiginlegrar yfirlýsingar beggja endurskoðendanna. Verður samkvæmt því að fella hið umþrætta fjárnám úr gildi. Sóknaraðili hefur ekki krafist málskostnaðar í héraði og verður hann því ekki dæmdur. Varnaraðili skal greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Fjárnám, sem sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum gerði 3. maí 2002 hjá sóknaraðila, Hlíðardal ehf., að kröfu varnaraðila, Eyfaxa ehf., er fellt úr gildi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. desember 2002.
I.
Mál þetta var þingfest hinn 1. júlí sl., en tekið til úrskurðar að lokinni endurupptöku hinn 9. þessa mánaðar.
Sóknaraðili er Hlíðardalur ehf., Garðavegi 12, Vestmannaeyjum, en varnaraðili er Eyfaxi ehf., Dverghamri 34, Vestmannaeyjum. Dómkröfur sóknaraðila eru þær að fjárnámsgerð Sýslumannsins í Vestmannaeyjum nr. 032-2002-00230 frá 3. maí 2002 sem gerð var í eignum sóknaraðila verði ógilt. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og fjárnámið verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
II. Málavextir
Sóknaraðili er fiskvinnslufyrirtæki en varnaraðili útgerðarfélag sem gerir út skipið Sæfaxa VE 30. Sóknaraðili mun í nokkrum tilvikum hafa greitt ákveðna upphæð inn á bankareikning, sem kvótaþing eitt hafði aðgang að, en sú upphæð sem hverju sinni var lögð inn á reikninginn mun hafa verið notuð til greiðslu leigukvóta sem færður var til útgerðar varnaraðila. Kvittanir vegna kaupa á leigukvóta fóru til varnaraðila, enda var hann með veiðileyfi, en ekki sóknaraðili, en kvóta er úthlutað á skip en ekki fiskvinnslu. Samkvæmt munnlegu samkomulagi aðila var hluti afla Sæfaxa VE 30 lagður upp hjá sóknaraðila og greiddi sóknaraðili ákveðna upphæð fyrir hvert kíló þorsks, ufsa auk hrogna. Upp kom missætti í þessum viðskiptum sem leiddu til þess að varnaraðili höfðaði mál á hendur sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Suðurlands.
Hinn 13. febrúar sl. var gerð svofelld dómsátt í framangreindu máli milli aðila:
„Stefndi, Hlíðardalur ehf. greiði stefnanda, Eyfaxa ehf., 3.100.000 krónur auk virðisaukaskatts á lönduðum fiski 26. og 28. mars 2001, miðvikudaginn 20. febrúar næstkomandi. Stefndi og stefnandi gera hvor öðrum reikninga með virðisaukaskatti, annars vegar gerir stefnandi reikning vegna löndunar á fiski 26. og 28. mars 2001, 81 kr./kg með 14% virðisauksaskatti og stefndi gerir stefnanda reikning vegna umsýslu fyrir hrognasölu, að fjárhæð 164.196 krónur, auk virðisaukaskatts, en nettófjárhæð þess reiknings er innifalin í ofangreindri heildargreiðslu.
Stefnandi gefur út staðfestingu um hversu mikinn leigukvóta stefndi hefur keypt á skip stefnanda, Sæfaxa, vegna ársins 2001, gegn ofangreindri heildargreiðslu.
Endurskoðendur beggja aðila útbúi ofangreinda staðfestingu.
Sátt þessi byggir á þeirri forsendu að stefndi hafi einungis leigt 167.500 kg þorskkvóta fyrir Sæfaxa tímabilið janúar-mars 2001.
Málskostnaður falli niður milli aðila.”
Aðilar máls þessa deila um hvaða skilning leggja eigi í orðið „staðfesting” í dómsáttinni. Sóknaraðili heldur því fram að það skuli þýða að varnaraðili gefi út reikning fyrir þann hluta viðskiptanna er fólst í innleggi varnaraðila á bankareikning til kaupa á kvóta, en varnaraðili heldur því fram að hér dugi einföld yfirlýsing, um magn þess kvóta sem um ræðir.
Hinn 19. febrúar 2002 ritaði Hafsteinn Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi og endurskoðandi varnaraðila, „staðfestingu” til Sævars Gests Jónssonar, bókhaldara sóknaraðila til langs tíma, þar sem segir m.a.:
„...Undirritaður hefur farið yfir gögn varðandi flutning á aflamarki á Sæfaxa VE 30 á umræddu tímabili og staðfestir það hér með að Hlíðardalur ehf. keypti og flutti 167.500 kg af þorski á umrætt fiskiskip á þessu tímabili og var leiguverð þessa magns kr. 18.434.260, einnig voru flutt 9.000 kg af ufsa og var leiguverð þess magns kr. 268.825. Þá greiddi Hlíðardalur þóknun vegna kaupanna að fjárhæð kr. 24.185 og skráningargjöld kr. 8.400. Samtals námu greiðslur Hlíðardals vegna kaupanna kr. 18.736.000.” Jafnframt útbjó varnaraðili reikning dagsettan 20. febrúar sl. samkvæmt skilningi hans á dómsáttinni þar sem fram kom að afli er sóknaraðili hafi keypt af sóknaraðila samkvæmt löndunum dagana 26. og 28. mars 2001 sé að verðmæti kr. 978.989 að meðtöldum virðisaukaskatti.
Endurskoðandi varnaraðila sendi framangreinda „staðfestingu varðandi kvótaflutning” einnig með tölvupósti til bókhaldara sóknaraðila hinn 20. febrúar sl. þar sem þess var getið að sendandinn vildi fá að vita ef breyta ætti efni hennar. Svar frá sóknaraðila barst sama dag í tölvupósti þar sem segir: „Samkvæmt upplýsingum Harðar hjá Hlíðardal ehf., þá voru öll gögn vegna kvótaviðskipta stíluð á og send beint til Eyfaxa ehf. Því eru eingöngu til hreyfingar samkvæmt bankareikningum í bókhaldi Hlíðardals ehf. vegna þessa.
Það sem vantar frá Eyfaxa ehf., er reikningur án vsk vegna kvóta að upphæð kr. 18.736.000,- en skipting hans er þessi:
Þorskur 167.500 kg á krónur 18.458,425,- samtals
Ufsi 9.000 kg. á krónur 269.175,- samtals
og skráningargjöld krónur 8.400,- samtals.”
Hinn 28. febrúar var sóknaraðila birt greiðsluáskorun og framangreind tilkynning varnaraðila „um staðfestingu á því magni kvóta (aflamarki) sem Hlíðardalur ehf. keypti og flutti á skip félagsins, Sæfaxa VE 30, á tímabilinu janúar til mars 2001.”
Í kjölfar þessa eða hinn 13. mars sl. barst Sýslumanni í Vestmannaeyjum aðfararbeiðni varnaraðila.
Sóknaraðili mun um þetta leyti hafa sent Skattstjóranum í Vestmannaeyjum munnlega fyrirspurn um hvernig haga bæri útgáfu reikninga og kvittana vegna viðskipta ef sóknaraðili tæki í raun þátt í kaupum varnaraðila á kvóta.
Í svarbréfi skattstjórans segir m.a.: „Að áliti skattstjóra má líta svo á að upphæð sú sem lögð var inn á áðurnefndan bankareikning til kaupa á leigukvóta hafi verið fyrirframgreiðsla upp í væntanleg fiskkaup af útgerð, og beri að fara með viðskiptin í samræmi við það, þ.e. gefa skal út reikning fyrir heildarupphæð viðskiptanna, bæði það sem lagt er út í formi innleggs á bankareikning til kaupa á leigukvóta auk kílóverðs á innlagðan afla.
Bent skal á að skila ber 14% virðisaukaskatti af fisksölu og ber að taka tillit til þess við útgáfu reiknings.
Það skal tekið fram að engin athugun hefur farið fram á bókhaldi aðila er hlut eiga að máli, og er álit þetta sett fram með þeim fyrirvara.”
Hinn 2. maí 2002 var aðfararbeiðni varnaraðila tekin fyrir hjá sýslumanni og voru bókuð eftirfarandi mótmæli sóknaraðila: „Hann mótmælir því að um sé að ræða aðfararhæfa sátt, enda sé um að ræða skilyrta sátt og skilyrði hennar hafi ekki verið uppfyllt, þessu til staðfestingar leggur málsvari gerðarþola fram bréf skattstjóra Vestmannaeyja, dagsett 30. apríl 2002.”
Bókað var um að málinu væri frestað til 3. maí sl., en samkvæmt framlögðu endurriti frá síðari fyrirtöku fjárnámsgerðarinnar er bókað um að málið sé á ný tekið fyrir 2. maí sl. Af framlögðum athugasemdum Sýslumannsins í Vestmannaeyjum er ljóst að hin síðari fyrirtaka fjárnámsgerðarinnar átti sér raunverulega stað hinn 3. maí sl. og gera aðilar hvorki athugasemd við þá fullyrðingu, né er gerð krafa um að fjárnámið verði ógilt vegna þessarar ónákvæmni í bókun.
Við síðari fyrirtöku málsins ítrekaði sóknaraðili mótmæli sín. Fjárnámið fór fram en varnaraðili lýsti því yfir að hann hygðist kæra ákvörðun sýslumannsins til héraðsdóms skv. 15. kafla laga um aðför nr. 90/1989. Dómnum barst krafa sóknaraðila hinn 11. júní sl.
III. Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að dómsáttin frá 13. febrúar sl. sé skilyrt og hafi efni hennar ekki verið uppfyllt hvað varðar að varnaraðili gefi frá sér staðfestingu um kaup sóknaraðila á leigukvóta á skip sóknaraðila, en í sáttinni sé gert ráð fyrir því að endurskoðendur beggja félaganna útbúi staðfestinguna. Endurskoðendur félaganna hafi hins vegar ekki komið sér saman um frágang umræddrar staðfestingar, en ágreiningur þeirra felist í því að endurskoðandi varnaraðila telji þá staðfestingu, sem hann hefur útbúið, fullnægjandi skjal í kostnaðarbókhald sóknaraðila. Endurskoðandi sóknaraðila sé hins vegar ekki sömu skoðunar og varnaraðili og hafi það mat fengist staðfest hjá Skattstjóranum í Vestmannaeyjum, sem telji skýlaust að varnaraðili eigi að gefa út reikning fyrir heildarupphæð viðskiptanna, sbr. framangreint bréf skattstjórans. Heildarverð hins landaða afla hafi verið peningarnir sem greiddir hafi verið fyrir fiskinn og fyrirframgreiðsla varnaraðila við kaup á kvótanum. Þá vísar sóknaraðili einnig til bréfs Ríkisskattstjóra, ritaðs skattstjórum 30. júlí sl. á grundvelli 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sóknaraðili segir það bréf staðfesta niðurstöðu Skattstjórans í Vestmannaeyjum.
Þá kom fram hjá sóknaraðila við meðferð málsins að ekki stæði á honum að greiða peninga samkvæmt sáttinni, en ekki fyrr en varnaraðili hefði uppfyllt skyldur sínar um útgáfu reiknings samkvæmt skýru áliti Ríkisskattstjóra. Sóknaraðili geti hins vegar ekki staðið að ólöglegum gerningi, þ.e. gerningurinn verði aldrei löglegur fyrr en kvittun verði gefin út. Dómsátt geti ekki vikið skattalögum til hliðar.
Í ljósi þess að um sé að ræða skilyrta sátt og skilyrðin hafi ekki verið uppfyllt þá liggi fyrir að ekki sé um að ræða aðfararhæfa sátt samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Að öðru leyti vísar sóknaraðili til 15. kafla laga um aðför.
IV. Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili reisir kröfur sínar á því að framangreind dómsátt frá 13. febrúar 2002 sé skýr og orðalag hennar klárt þannig að aldrei hafi verið gert ráð fyrir að varnaraðili gæfi út reikning vegna leigu á kvóta. Sáttin sé því gild aðfaraheimild eins og málið sé tilkomið samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. laga nr. 90/1989, um aðför. Það hafi verið algjört skilyrði sáttarinnar af hálfu varnaraðila að ekki yrði gefinn út reikningur heldur staðfesting á viðskiptunum og orðalag sáttarinnar sé því með þessum hætti. Krafa Sævars Gests Jónssonar bókhaldara sóknaraðila, fyrir hönd sóknaraðila, um að útbúinn yrði reikningur án virðisaukaskatts vegna aflamarkskaupa sóknaraðila án virðisaukaskatts, sé í algjöru ósamræmi við dómsáttina, sem sé skýr um þetta atriði og þetta skilyrði hafi verið sérstaklega umrætt er sáttin var gerð. Í sáttinni komi það meðal annars greinilega fram að reikning eigi að gefa út vegna fiskkaupa en staðfestingu um kaup á leigukvóta. Varnaraðili hafi þann 20. febrúar sl. verið tilbúinn til að gefa staðfestingu á öllum þeim kvóta sem sóknaraðili hafi keypt á skipið fyrir gjalddaga sáttarinnar. Þá ítrekar varnaraðili þann skilning sem fram komi í framlögðu bréfi frá endurskoðendafyrirtækinu Deloitte & Touche að ekki sé rétt að gefa út reikning fyrir einhverju sem ekki er keypt enda það staðfest með réttarsáttinni og bréfi endurskoðendafyrirtækisins. Þá heldur varnaraðili því fram að engu máli skipti í þessu sambandi þó skattayfirvöld kunni að hafa aðra skoðun enda komi það þessu máli ekkert við og framangreind endurskoðendaskrifstofa sé ósammála skattyfirvöldum.
Þá nefnir varnaraðili að sóknaraðila hafi verið birt bæði greiðsluáskorun og tilkynning, staðfesting endurskoðendafyrirtækisins Deloitte & Touche samkvæmt dómsáttinni, auk reiknings dagsetts 20. febrúar 2002, sem varnaraðili hafi átt að gefa út vegna sölu á fiski vegna landana 26. og 28. mars 2001. Varnaraðili hafi með þessu staðið við dómsáttina að öllu leyti og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 90/1989, um aðför, einkum 1. gr. og 14. og 15. kafla laganna. Kröfu sína um málskostnað reisir varnaraðili á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
VI. Niðurstöður.
Af málatilbúnaði sóknaraðila og því sem fram er komið við flutning málsins verður ekki ráðið að hann sé að krefjast þess að umrædd dómsátt verði talin ógild sbr. ákvæði 2. mgr. 110. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, né að sáttin hafi verið ólögleg, enda er ekki til umfjöllunar í þessu máli lögmæti þeirra viðskipta sem liggja að baki sáttinni, en upphaflegt deiluefni málsaðila var afgreitt er hliðsettur dómari heimilaði að gera umrædda dómsátt. Í máli þessu er því einungis til skoðunar hvernig túlka beri orðalag dómsáttarinnar og hvort einhliða staðfesting varnaraðila á viðskiptum aðila dugi til að sáttin teljist aðfararhæf og þá jafnframt hvort þessi einhliða staðfesting varnaraðila sé þess efnis að hann hafi uppfyllt sínar skyldur samkvæmt sáttinni þannig að hún sé aðfararhæf.
Dómsáttin er allítarleg, en orðalag hennar hefði mátt vera gleggra. Aðilar deila þó ekki um fyrsta hluta dómsáttarinnar. Þar er kveðið á um skyldu sóknaraðila til greiðslu tiltekinnar peningafjárhæðar. Er þar sérstaklega tilgreint að málsaðilar skuli gera hvorir öðrum „reikning” og tilgreint nákvæmlega fyrir hvað. Annars vegar skuli varnaraðili gera reikning vegna löndunar á fiski 26. og 28. mars 2001, en hins vegar skuli sóknaraðili gera varnaraðila reikning vegna umsýslu fyrir hrognasölu. Til samanburðar er í hinum umdeildu ákvæðum dómsáttarinnar ekki kveðið á um útgáfu reiknings, heldur sérstaklega tiltekið að um „staðfestingu” skuli vera að ræða um hversu mikinn leigukvóta sóknaraðili „keypti” á skip varnaraðila, Sæfaxa VE 30, „vegna ársins 2001 gegn ofangreindri heildargreiðslu”. Með síðastgreindum orðum virðist sem verið sé að skírskota til þeirrar fjárhæðar sem tilgreind er í upphafi sáttarinnar. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að upplýst er að dómsáttin var gerð og undirrituð af lögmönnum og fyrirsvarsmönnum beggja málsaðila eftir strangar samningaviðræður. Þá var dómsáttin gerð áður en sú niðurstaða eða álit skattyfirvalda lá fyrir sem sóknaraðili skírskotar til máli sínu til stuðnings. Hins vegar liggur fyrir að varnaraðili kveðst hafa staðið í þeirri trú að ekki þyrfti að gera reikning fyrir slíkum tilfæringum og hefur varnaraðili ítrekað það álit sitt eftir umsögn endurskoðanda síns þar um. Þegar litið er til framangreindra atriða verður ekki lagður sá skilningur í orð dómsáttarinnar að fyrirvara um útgáfu „staðfestingar” beri að túlka á þá lund að varnaraðili hafi þar með sérstaklega skuldbundið sig til útgáfu sérstaks reiknings til handa sóknaraðila. Álit skattyfirvalda breyta engu um þessa niðurstöðu, þar sem ekki verður annað séð en að dómsáttin hefði getað verið aðfararhæf óháð skilyrði í sáttinni um útgáfu staðfestingar, enda sjaldnast tekið fram í aðfararhæfum dómsáttum að sérstakan reikning skuli gefa fyrir greiðslu á skuld, hvað þá sérstaka staðfestingu á viðskiptum. Verður því ekki talið að framangreint bókhaldslegt eða skattalegt álitaefni eigi að koma til umfjöllunar í þessu ágreiningsmáli um réttmæti aðfarargerðar.
Samkvæmt því sem áður er rakið var dómsáttin heimiluð af hliðsettum dómara, en venja er til þess að heimilað sé að gera skilyrta dómsátt, sbr. einnig að sínu leyti ákvæði 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi skilyrta dóma. Verður skylda aðila þá virk er gagnaðili hefur uppfyllt sína skyldu. Sátt sú sem hér um ræðir verður þó að teljast nokkuð óvenjuleg um það atriði að í sáttinni er ekki einungis kveðið á um gagnkvæma skyldu heldur að málsaðilar standi síðar sameiginlega að staðfestingu, eða öllu heldur að „endurskoðendur beggja aðila útbúi ofangreinda staðfestingu”, eins og segir í sáttinni. Fyrir liggur að endurskoðandi varnaraðila hefur gefið út slíka staðfestingu og varnaraðili þar með efnt sinn hluta sáttarinnar. Þá kom fram við meðferð málsins að niðurstaða framangreindra bréfa endurskoðenda málsaðila frá 19. og 20. febrúar sl. er ekki vefengd hvað varðar magn þess kvóta sem um ræðir, heldur stendur deilan einungis um form staðfestingarinnar, en samkvæmt framansögðu bar varnaraðila ekki að gefa út reikning til að fullnægja hinu umþrætta efni sáttarinnar. Þá er í máli þessu til úrlausnar gildi fjárnáms sem gert var til fullnustu fjárkröfu sem sóknaraðili hefur viðurkennt með sátt fyrir dómi.
Varnaraðili telst samkvæmt því sem að framan er rakið hafa uppfyllt nægilega skyldur sínar samkvæmt sáttinni, en sóknaraðili hefur gert honum ómögulegt að fá efndir samkvæmt henni með því að neita að standa að útgáfu þeirrar staðfestingar sem í sáttinni greinir. Samkvæmt öllu framanrituðu er framangreint fjárnám Sýslumannsins í Vestmannaeyjum staðfest.
Þar sem dómsátt aðila er óljós og báðum aðilum verður um kennt, þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn hluta málskostnaðar.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Fjárnámsgerð Sýslumannsins í Vestmannaeyjum nr. 032-2002-00230, sem fram fór í eignum sóknaraðila hinn 3. maí 2002, er staðfest.
Málskostnaður fellur niður.