Hæstiréttur íslands

Mál nr. 198/2004


Lykilorð

  • Hjón
  • Skilnaður
  • Lúganósamningurinn
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. október 2004.

Nr. 198/2004.

M

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Hjón. Skilnaður. Lúganósamningur. Gjafsókn.

M og K, franskir ríkisborgarar, kröfðust bæði hjónaskilnaðar fyrir dómi, M í Frakklandi en K á Íslandi, en deildu um lögsögu og dómsvald. M höfðaði mál í Frakklandi 5. september 2001 en K mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. júní 2002. M krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi samkvæmt 21. gr. Lúganósamningsins, þar sem mál milli sömu aðila, reist á sömu málsástæðum, hefði fyrst verið höfðað í Frakklandi og færu því franskir dómstólar með lögsögu í málinu. Í kjölfar skilnaðarmeðferðar hjá sýslumanni, þar sem ekki náðist samkomulag um forsjá dóttur aðila, höfðaði K mál gegn M 18. júní 2001 um forsjá hennar. Talið var að krafa K í því máli væri svo tengd hjónaskilnaðarmálinu að eðlilegt væri að líta svo á að með þeirri málshöfðun hafi sú deila hafist fyrir dómstól hér á landi í skilningi Lúganósamningsins. Var krafa M um frávísun því ekki tekin til greina. Þá þótti ekkert því til fyrirstöðu að K yrði veittur skilnaður að borði og sæng og var krafa hennar þar að lútandi því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2004 og krefst þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir réttinum.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar greinir eru málsaðilar franskir ríkisborgarar sem gengu í hjúskap hér á landi 29. október 1996. Þau fluttust til Íslands 1998 og bjuggu þar saman þar til þau slitu samvistum í júní 2001. Bæði krefjast þau hjónaskilnaðar fyrir dómi, hann í Frakklandi en hún á Íslandi, en deila um lögsögu og dómsvald. Áfrýjandi höfðaði mál fyrir héraðsdómi Lille 5. september 2001, en stefnda mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. júní 2002. Máli áfrýjanda fyrir héraðsdómi Lille var með úrskurði 25. janúar 2002 vísað frá dómi. Sá úrskurður var kærður til áfrýjunarréttar í Douai, sem staðfesti hann með dómi 5. september sama ár. Þeim dómi var áfrýjað til hæstaréttar Frakklands í París, Cour de Cassation, og er málið þar enn til meðferðar.

Ákvæði 21. gr. Lúganósamningsins frá 16. september 1988, sbr. lög nr. 68/1995, fjalla um áhrif litis pendens. Þar segir að sé krafa milli sömu aðila, reist á sömu málsástæðum, gerð fyrir dómstólum í tveimur samningsríkjum skuli hver dómstóll, annar en sá, sem mál er fyrst höfðað fyrir, sjálfkrafa fresta meðferð þess, þar til fyrir liggur að sá dómstóll hafi dómsvald í málinu. Þegar það liggur fyrir skuli aðrir dómstólar vísa málinu frá dómi í þágu hans.

II.

Stefnda óskaði eftir skilnaði að borði og sæng við áfrýjanda hjá sýslumanninum í Reykjavík 8. júní 2001 á grundvelli 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hún óskaði eftir að hafa forsjá barns þeirra hjóna, A, sem fædd er [...] 1999. Áfrýjandi mætti hjá sýslumanni 2. júlí sama ár og samkvæmt framlögðum gögnum var því lýst yfir að forsjárdeila hjónanna væri til meðferðar hjá dómstólum og verið væri að vinna að gerð fjárskiptasamnings, og var málinu frestað.

Stefnda höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn áfrýjanda 18. júní 2001 með kröfu um að henni yrði vegna hjónaskilnaðar aðila dæmd forsjá dóttur þeirra til 18 ára aldurs hennar. Hún krafðist og úrskurðar um bráðabirgðaforsjá. Áfrýjandi andmælti kröfu stefndu og krafðist sjálfur bráðabirgðaforsjár dótturinnar með beiðni 21. júní sama ár. Hann krafðist þess einnig að bannað yrði að fara með barnið úr landi á meðan forsjármálinu væri ráðið til lykta. Úrskurður var kveðinn upp í héraðsdómi 13. júlí 2001 um að stefnda skyldi fara með forsjá barnsins til bráðabirgða og að óheimilt væri að fara með það úr landi. Dómsmál hjónanna um forsjá barnsins hélt áfram fyrir héraðsdómi og var dómur kveðinn upp 21. janúar 2004, þar sem stefndu var falin forsjá dóttur þeirra til 18 ára aldurs hennar. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 30. júní 2004.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2001 var fallist á kröfu stefndu um að opinber skipti færu fram til fjárslita milli hjónanna vegna skilnaðarins.

III.

Í máli þessu var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní 2003 þar sem kröfum áfrýjanda um frestun eða frávísun málsins, meðal annars með vísan til 21. gr. Lúganósamningsins, var synjað. Synjun þessi er hér til meðferðar samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. gr. laga nr. 38/1994. Í forsendum úrskurðarins kemur fram, að tekin var afstaða til lagaskilareglna á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar, sem áfrýjandi setti fram í fjórum töluliðum og var rökum hans hafnað. Einnig var því hafnað að ákvæði 21. gr. Lúganósamningsins leiddu til þess að fresta ætti málinu fyrir íslenska dómstólnum eða vísa því frá. Forsendur héraðsdómarans voru þær, að stefnda hefði krafist skilnaðar að borði og sæng en áfrýjandi lögskilnaðar í Frakklandi. Þetta væru ekki sömu kröfur byggðar á sömu málsástæðum, og því ætti 21. gr. Lúganósamningsins ekki við.

 Að gengnum þeim úrskurði var málið tekið til efnismeðferðar, sem lauk með hinum áfrýjaða dómi 14. október 2003.

IV.

Áfrýjandi styður kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi við 21. gr. Lúganósamningsins, sem rakin hefur verið hér að framan. Skilyrði ákvæðisins séu tvö, að málið sé á milli sömu aðila og að krafan sé reist á sömu málsástæðum. Fyrra skilyrðið sé ágreiningslaust. Hið síðara ætti að vera það einnig, þar sem báðir aðilar hafi höfðað mál með kröfu um hjónaskilað. Mál hans hafi verið höfðað í Frakklandi 5. september 2001 en mál stefndu á Íslandi 14. júní 2002. Ljóst sé því að héraðsdómur hefði átt að fallast á frávísun málsins, enda eigi ákvæðið eingöngu við um málshöfðun fyrir dómstólum en ekki fyrir stjórnvöldum.

Stefnda hefur lagt fram gögn til að sýna að áfrýjun dóms áfrýjunarréttar Douai 5. september 2002 til hæstaréttar Frakklands fresti ekki réttaráhrifum dómsins, en þar hafi frávísunardómur héraðsdóms Lille frá 25. janúar sama árs verið staðfestur. Áfrýjandi hafi ekki hrakið þessi gögn. Samkvæmt þessu hafi máli áfrýjanda verið vísað frá dómi í Frakklandi í janúar 2002 og því ekki fyrir dómi þar í landi mál vegna hjónaskilnaðarkröfu hans þegar stefnda höfðaði sitt mál hér á landi í júní 2002. Verði krafa áfrýjanda um frávísun málsins því ekki reist á 21. gr. Lúganósamningsins. Stefnda bendir auk þess á að skilnaðarferli aðila hafi byrjað 8. júní 2001 hjá sýslumanninum í Reykjavík. Þar hafi áfrýjandi mætt og samþykkt á þeim tíma að skilnaður yrði hér á landi. Þegar hafi komið upp ágreiningur um forræði dóttur þeirra, og hafi stefnda því höfðað dómsmál fyrir héraðsdómi í Reykjavík 18. sama mánaðar og gert kröfu um að henni verði vegna hjónaskilnaðar þeirra dæmd forsjá dótturinnar. En 2. september 2001 hafi áfrýjandi numið barnið á brott í trássi við farbann, sem hann hafi sjálfur krafist, og farið með það til Frakklands. Í kjölfar komu sinnar þangað virðist hann hafa höfðað lögskilnaðarmálið 5. september 2001. Stefnda vísar til skýrra forsendna í úrskurði héraðsdóms Lille 25. janúar 2002, þar sem máli áfrýjanda var vísað frá dómi. Í forsendunum sé tekið fram, að á Íslandi felist fyrsti áfangi skilnaðarumsóknar í því að sækja um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanni, svo og að stefnda hafi höfðað mál gegn áfrýjanda 18. júní 2001 með kröfu um að henni verði vegna hjónaskilnaðar þeirra dæmd forsjá dóttur þeirra og þar með sé ljóst að dvalarstaður barnsins tengist skilnaðarmálinu og ráðist af því, og einnig, að hvað sem öðru líði sé dvalarstaður barnsins helsta ágreiningsefnið, ef ekki það eina, varðandi skilnaðarmálið.

V.

Í athugsemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 68/1995 kemur fram að markmiðið með reglum 8. kafla Lúganósamningsins um áhrif litis pendens sé að koma í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar gangi um sama sakarefni. Hætta gæti verið á slíku ef ágreiningur risi um framkvæmd samnings. Þá gætu báðir aðilar reynt að höfða mál, til dæmis í heimaríki sínu, ef varnarþingsákvæðin leyfðu það. Þegar um skyldar kröfur sé að ræða geti síðari dómstólar frestað málsmeðferð. Skyldar kröfur séu þær kallaðar, sem séu svo tengdar innbyrðis að æskilegt sé að dæma um þær sameiginlega til að koma í veg fyrir ósamrýmanlega dóma.

Samkvæmt 33. gr. hjúskaparlaga skal veita hjónum leyfi til skilnaðar að borði og sæng séu þau sammála um að leita hans og samkvæmt 34. gr. laganna á hver sá maki, sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap, rétt á skilnaði að borði og sæng. Sýslumenn veita leyfi til skilnaðar að borði og sæng þegar hjón eru sammála, en ella verður að höfða dómsmál, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Stefnda hóf skilnaðarmál þeirra hjóna með því að leita eftir skilnaði að borði og sæng hjá sýslumanni 8. júní 2001, eins og almennt tíðkast hér á landi. Þegar áfrýjandi mætti vegna málsins 2. júlí sama ár var ljóst að ágreiningur væri þeirra á milli um forsjá dóttur þeirra, og hafði stefnda þegar 18. júní höfðað mál vegna þess ágreinings fyrir héraðsdómi. Krafa stefndu í því máli er svo tengd hjónaskilnaðarmálinu að eðlilegt er að líta svo á að með þeirri málshöfðun hafi sú deila hafist fyrir dómstól hér á landi í skilningi 21. gr. – 23. gr. Lúganósamningsins. Verður krafa áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi ekki reist á þessum ákvæðum. Önnur rök leiða heldur ekki til frávísunar og er krafa áfrýjanda því ekki tekin til greina.

Stefnda hefur krafist skilnaðar að borði og sæng við áfrýjanda samkvæmt 34. gr. hjúskaparlaga og gert þá kröfu fyrir dómstól samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laganna. Eins og í héraðsdómi greinir er ekkert því til fyrirstöðu að skilnaðurinn verði veittur. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 175.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2003.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 22. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, [...], Reykjavík, með stefnu birtri 14. júní 2002 á hendur M, [...], Frakklandi.

 

         Dómkröfur stefnanda eru þær, að hún fái með dómi skilnað að borði og sæng við eiginmann sinn M, [...]. Þá er að auki krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 18. desember 2002.

 

         Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði frestað ótiltekið, til vara, að málinu verði vísað frá dómi og til þrautavara, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 16. september 2003.

II.

Málavextir:

Stefnandi og stefndi hófu sambúð árið 1995 og giftu sig árið 1996.  Þau eru bæði franskir ríkisborgarar og hófu sambúð sína í Frakklandi, en í júlí 1998 fluttu þau til Íslands. Þau slitu samvistum þann 14. júní 2001.  Stefnandi óskaði eftir skilnaði við stefnda hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 8. júní 2001, en skilnaðarmálinu var vísað frá embætti sýslumannsins í Reykjavík með bréfi, dags. 4. marz 2002.  Byggðist frávísun sýslumanns á því, að hjónin væru ekki sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng, og því gæti sýslumaður ekki veitt skilnaðarleyfi.

         Aðilar eiga saman dótturina A f. […] 1999, og er uppi ágreiningur um forsjá hennar, sem er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.  Þann 13. júlí 2001 var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp úrskurður um, að stefnandi skyldi fara með forsjá barnsins til bráðabirgða.  Þá kvað sýslumaðurinn í Reykjavík upp úrskurð þann 26. október 2001 þess efnis, að stefndi skyldi greiða tvöfalt lágmarksmeðlag með barninu frá 1. júlí 2001, þar til endanleg ákvörðun um forsjá þess liggur fyrir.

         Þá hefur enn fremur verið uppi ágreiningur um fjárskipti aðila, og var bú þeirra tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. desember 2001.

         Stefndi höfðaði mál á hendur stefnanda, sem þingfest var í Frakklandi þann 5. september 2001, þar sem hann krefst lögskilnaðar frá stefnanda.  Í byrjun september 2002 vísaði áfrýjunardómstóll Douai í Frakklandi því máli frá dómi á þeim grundvelli, að málið verði rekið hér á landi.  Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Parísar (f. Court de Cassation, e. Supreme Appeal Court of Paris), þar sem málið mun enn vera til meðferðar.

III.

Gangur málsins:

Óhjákvæmilegt þykir að rekja gang málsins nokkuð.  Málið var þingfest 3. september 2002, og var greinargerð stefnda lögð fram 10. október s.á.  Fór Dögg Pálsdóttir hrl. með málið af hálfu stefnanda, en Guðmundur St. Ragnarsson hdl. af hálfu stefnda.  Undirritaður dómari fékk málið til meðferðar 1. nóvember það ár.  Var málið tekið fyrir tvívegis til sáttaumleitunar og gagnaöflunar, auk þess sem því var frestað utan réttar um hríð vegna veikinda dómarans.  Því næst var ákveðinn munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda þann 13. maí 2003, en það var á þeim tíma eina krafa stefnda í málinu, auk málskostnaðarkröfu.  Í því þinghaldi var bókað, að Ólafur Ragnarsson hrl. hefði tekið við málinu af Guðmundi St. Ragnarssyni hdl.  Lagði lögmaðurinn fram allnokkur gögn og fór fram á frekari frest til gagnaöflunar, sem samþykkt var af hálfu stefnanda.  Fór munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fram í þinghaldi 19. maí 2003.  Við það tækifæri var af hálfu stefnda jafnframt gerð krafa til vara um að málinu yrði frestað, þar til lögskilnaðarmáli, sem rekið er í Frakklandi milli sömu aðila, væri endanlega lokið.  Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 11. júní 2003, var frávísunarkröfu stefnda, sem og kröfu hans um frest, hafnað.  Var málinu frestað til að ljúka gagnaöflun til 29. ágúst, en þann dag var málinu frestað til aðalmeðferðar til 22. september.  Áður en að því kom, voru aðilar boðaðir í þinghald til að dómtaka málið, þar sem í ljós hafði komið, að engar kröfur stóðu eftir í málinu af hálfu stefnda og því enginn ágreiningur uppi.  Af hálfu stefnda var þeirri málsmeðferð og þessum skilningi dómara hafnað og þess krafizt, að stefndi kæmi að frekari kröfum og málsástæðum.  Í þinghaldi 10. september sl. féllst lögmaður stefnanda á, að stefndi kæmi að sýknukröfu í málinu, sem hann gerði í sama þinghaldi, en óskaði jafnframt eftir stuttum fresti til að orða málsástæður vegna sýknukröfu.  Var málinu því næst frestað til næsta dags.  Lögmaður stefnda fékk í því þinghaldi bókaðar málsástæður stefnda vegna sýknukröfu, en í sama þinghaldi vakti dómari athygli á því, að sátta hafði ekki verið leitað með aðilum lögum samkvæmt, og var sáttameðferð ákveðin 16. september sl.  Þann dag mætti stefndi ekki og var því borið við, að dómara bæri skylda til að útvega stefnda túlk í þinghaldinu.  Var lögmanni stefnda bent á, að stefndi skyldi sjálfur sjá um það atriði, og var málinu enn frestað til 18. september sl.  Í þinghaldi 18. september var sátta leitað með aðilum án árangurs, að viðstöddum dómtúlki.  Þá óskaði stefndi eftir að fá að flytja yfirlýsingu fyrir dóminum, sem varðar ágreining um lögsögu, en þeirri beiðni var hafnað, þar sem þegar hafði verið skorið úr þeim ágreiningi fyrir dóminum.  Lögmaður stefnda lagði því næst fram gjafsóknarleyfi stefnda, dags. 16. september 2003, auk annarra skjala.  Þá fór lögmaður stefnda fram á tveggja mánaða frest til undirbúnings aðalmeðferðar, og kvað stefnda jafnframt vera forfallaðan á þeim degi, sem ákveðinn hafði verið til aðalmeðferðar, þ.e. 22. september.  Af hálfu stefnanda var samþykkt að veita frest til 2. október og var aðalmeðferð ákveðin þann dag.  Við aðalmeðferð 2. október sl. mætti stefndi í þinghaldið, en lögmaður hans hafði boðað, að hann myndi gefa skýrslu fyrir dóminum.  Aðilinn kom fyrir dóminn og lýsti því yfir, að hann væri ekki kominn til þess að taka þátt í þinghaldinu heldur til að flytja yfirlýsingu, sem hann kvað varða deiluefni aðila.  Flutti hann yfirlýsinguna á frönsku og var hún því næst túlkuð á íslenzku og tekin þannig upp á snældu.  Þegar yfirlýsingin var þýdd kom í ljós, að hún snerti eingöngu ágreining um lögsögu, sem þegar hafði verið skorið úr um fyrir dómi hér.  Voru engar spurningar lagðar fyrir aðilann.  Að svo búnu yfirgaf stefndi réttarsalinn og var málið því næst munnlega flutt.  

IV.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfu sína um skilnað að borði og sæng á 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og höfðar mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til 2. mgr. 42. gr. og 2. tl. l. mgr. 114. gr. sömu laga.

         Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 60/1988.  Stefnandi máls þessa kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyld.

         Stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 18. desember 2002.

 

Málsástæður stefnda:

Málsástæður stefnda, sem bókaðar voru eftir lögmanni stefnda við aðalmeðferð eru þær vegna aðal- og varakröfu, að með vísan til dómskjala nr. 31-33 hafi stefnandi orðið ber að ósannsögli fyrir dómstólum í Frakklandi varðandi hjónaskilnaðarmál, skiptamál og forræðisdeilu á Íslandi.

         Málsástæður varðandi þrautavarakröfu eru þær í fyrsta lagi, að það sé skoðun stefnda, að niðurstaða dómara, ásamt forsendum í úrskurði í málinu vegna kröfu stefnda um frávísun málsins, hafi verið mjög hæpin.  Í öðru lagi telur stefndi, að stefnandi hafi veitt rangar upplýsingar til franskra dómstóla og franskra stjórnvalda um dómsmál á Íslandi milli málsaðila.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Krafa stefnanda í máli þessu er um skilnað að borði og sæng.  Þegar hefur verið skorið úr um frávísunarkröfu stefnda og frestkröfu og þeim hafnað, svo sem fyrr er rakið, og hefur stefndi ekki fært fram nein ný rök, sem leiða til þess að þeirri niðurstöðu verði breytt.  Þá hafa engar varnir komið fram af hálfu stefnda, sem leitt geta til sýknu, en málsástæður þær, sem stefndi hefur uppi, lúta að ósætti hans við það, að málið skuli rekið hér fyrir dómi og ósætti hans við niðurstöðu vegna frávísunarkröfu hans.  Af þessum sökum ber að taka kröfur stefnanda til greina. 

         Eins og mál þetta er vaxið er ljóst, að það hefur dregizt óþarflega vegna atriða, er stefnda varða, eftir að úrskurður gekk um frávísunarkröfu hans, og hafa kröfur verið gerðar, og fresta krafizt, sem virðast hafa þann tilgang einan að draga málsmeðferðina á langinn.  Ber að átelja þessa málsmeðferð og verður ekki hjá því komizt að líta til þessa við ákvörðun málskostnaðar. 

         Eftir niðurstöðu málsins ber að dæma stefnda til að greiða upp í málskostnað kr. 200.000, sem rennur í ríkissjóð.  Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskatts.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 300.000, greiðist úr ríkissjóði.

         Gjafsóknarkostnaður stefnda ákveðst kr. 350.000, þar með talinn útlagður kostnaður vegna túlkaþjónustu, kr. 125.000, og greiðist úr ríkissjóði. 

         Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefnanda, K, er veittur skilnaður að borði og sæng við eiginmann sinn, stefnda, M.

         Stefndi greiði kr. 200.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 300.000, greiðist úr ríkissjóði.

         Gjafsóknarkostnaður stefnda, kr. 350.000, greiðist úr ríkissjóði.