- Eignarréttur
- Fasteign
- Þjóðlenda
- Afréttur
- Kröfugerð
- Gjafsókn
- Aðfinnslur
|
Fimmtudaginn 18. september 2014. |
Nr. 24/2014.
|
Sveitarfélagið Hörgárbyggð og Einar S. Valbergsson (Sigurður Sigurjónsson hrl. Auður Björg Jónsdóttir hdl.) gegn íslenska ríkinu (Indriði Þorkelsson hrl. Edda Björk Andradóttir hdl.) |
Eignarréttur. Fasteign. Þjóðlenda. Afréttur. Kröfugerð. Gjafsókn. Aðfinnslur.
Þinglýstir eigendur Vaskárdals í Öxnadal, E og sveitarfélagið H, höfðuðu mál á hendur Í og kröfðust þess aðallega að ógilt yrði ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að sá hluti landsvæðisins Vaskárdals, sem félli innan merkja samkvæmt upphaflegri kröfugerð Í fyrir nefndinni, væri þjóðlenda í afréttareign E og H, en að því frágengnu var krafist viðurkenningar á tilteknum afnotaréttindum þeirra innan þjóðlendu. Það landsvæði sem E og H kölluðu til eignarréttar yfir í málinu tók til syðri hluta Vaskárdals, það er brattra hlíða í allt að 1000 metra hæð, en nyrðri og láglendari hluti dalsins féll utan upphaflegrar kröfugerðar Í og taldist því eignarland E og H. Óumdeilt var að land austan og sunnan landsvæðins Vaskárdals væri háð beinum eignarrétti jarða í Eyjafirði en vestan og norðvestan þess er landsvæði sem taldist til þjóðlendu samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið útilokað að landsvæðið Vaskárdalur kynni að einhverju marki að hafa verið numið og stofnað þar til landareignar, sem háð væri beinum eignarrétti, þótt ekki væru til ritaðar heimildir eða minjar um byggð innan landsvæðisins, en í ljósi staðhátta á fjallendi Vaskárdals var ekki talið unnt að líta svo á að nokkrar líkur gætu staðið til þess að stofnað hefði verið til beins eignarréttar yfir því með námi. Að þeirri niðurstöðu fenginni tók Hæstiréttur til úrlausnar hvernig háttað hefði verið eignarréttindum yfir landsvæðinu. Rakti Hæstiréttur meðal annars að fyrirliggjandi heimildir bæru með sér að Vaskárdalur hefði að minnsta kosti frá því á 14. öld lotið takmörkuðum eignarráðum sem tengd hafi verið eigendum tilgreindra jarða í Öxnadal og Eyjafirði, en heimildirnar taldi rétturinn gefa til kynna að réttindi sem tengd hefðu verið Vaskárdal hefðu ekki fylgt tiltekinni jörð, heldur verið einstaks manns eign. E og H héldu því fram í málinu að af þessu mætti álykta að þar færi óskoraður eignarréttur þeirra yfir Vaskárdal, enda ófært að stofna til takmarkaðra eignarréttinda í eign, sem ekki væri háð slíkum rétti. Hæstiréttur leit meðal annars til þess að ekkert væri fram komuð um að syðri hluti Vaskárdals hefði fyrr eða síðar verið haft til annars en hefðbundinna afréttarnota og hefði landsvæðið ávallt verið nefnt afréttarland í þeim afsölum fyrir því sem lægu fyrir í málinu. Þá taldi rétturinn að með reglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta hefði löggjafinn slegið föstu, svo sem leitt yrði þegar af eðli máls, að land gæti verið háð óbeinum eignarrétti þótt það hefði ekki verið numið í öndverðu eða beinn eignarréttur stofnast yfir því á annan lögmætan hátt, svo og að á grundvelli reglunnar hefðu takmörkuð eignarréttindi í þjóðlendu ítrekað verið viðurkennd í framkvæmd. Engin haldbær rök voru því talin standa til annars en að syðri hluti Vaskárdals teldist til þjóðlendu og var Í því sýknaður af aðalkröfu E og H. Varakröfur E og H, sem lutu að viðurkenningu tiltekinna afnotaréttinda þeirra innan þjóðlendu, komu ekki til álita fyrir Hæstarétti, enda höfðu E og H ekki uppi hliðstæðar kröfur fyrir óbyggðanefnd. Að því virtu stóð úrskurður óbyggðanefndar óraskaður, þar á meðal varðandi afréttareign E og H yfir þjóðlendu á syðri hluta Vaskárdals.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2014. Þeir krefjast þess aðallega að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 3/2008 um að hluti landsvæðisins Vaskárdals sé þjóðlenda með eftirfarandi merkjum: „Upphafspunktur er í skurðpunkti línu sem dregin er frá Rauðuskriðuá ... í Rauðuskriðufjall ... og línu sem dregin er beina stefnu frá Rauðuskriðukinnum í 800 m hæð ... í punkt norðan til í Kaldbakshnjúk í 800 m hæð ... Frá nefndum skurðpunkti er línan dregin um Rauðuskriðufjall eftir fjallsrananum að sveitarfélagamörkum Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar og eftir sveitarfélagamörkum í Melrakkaöxl og áfram eftir fjallsrananum og sveitarfélagamörkum að merkjum Gloppu ... Þaðan er kröfulínu ríkisins fylgt þar til hún sker 800 m hæðarlínu gegnt Melrakkaá. Hæðarlínunni sem jafnframt er upphafleg kröfulína ríkisins er síðan fylgt að upphafspunkti milli Rauðuskriðuár og Rauðuskriðufjalls.“ Áfrýjendur krefjast þess einnig að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að „öllu landi Vaskárdals í samræmi við þinglýsingarvottorð, landamerki, landamerkjabréf aðliggjandi jarða, skráningu í fasteignamati og skv. öðrum framlögðum skjölum“. Til vara krefjast áfrýjendur þess að viðurkenndur verði einkaréttur þeirra á landsvæðinu til „beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu án sérstaks endurgjalds“, en að því frágengnu einkaréttur þeirra þar til „beitar og veiða“. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur hvor fyrir sitt leyti málskostnaðar úr hendi stefnda án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.
Dómendur gengu á vettvang 2. september 2014.
I
Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 29. mars 2007 til meðferðar svæði á vestanverðu Norðurlandi. Nefndin ákvað 28. desember sama ár að skipta svæðinu í tvennt, í syðri hluta og nyrðri. Syðri hlutinn var afmarkaður þannig að til norðurs réðst hann af norðurmörkum fyrrum Bólstaðahlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá, en þaðan af þeirri á allt til ósa hennar. Til austurs fylgdu mörk syðri hlutans Fnjóská frá ósi hennar í Eyjafirði að þeim stað, þar sem hún sker austurmörk Eyjafjarðarsveitar, en þaðan þeim mörkum til suðurs í Fjórðungakvísl. Til suðurs náði syðri hlutinn að suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og síðan suðurjaðri Hofsjökuls allt til upptaka Blöndu, en til vesturs var þeirri á fylgt til norðurmarka fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 14. mars 2008, sem vörðuðu allt svæðið, og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Nefndinni bárust fjölmargar kröfur og athugasemdir. Hún ákvað síðan að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum og var eitt þeirra nr. 3/2008, sem náði til Hörgárbyggðar austan Öxnadalsár. Það mál tók meðal annars til landsvæðisins Vaskárdals, sem áfrýjendur töldu háð beinum eignarrétti sínum. Í upphaflegri kröfugerð stefnda fyrir óbyggðanefnd var miðað við að mörk eignarlands og þjóðlendu yrðu efnislega á þann veg, sem nefndin ákvað í úrskurði sínum 19. júní 2009 og lýst er í framangreindri kröfugerð áfrýjenda fyrir Hæstarétti, en með því krafðist stefndi þess ekki að allt landsvæðið, eins og áfrýjendur töldu rétt að afmarka það, yrði talin þjóðlenda. Í greinargerð fyrir óbyggðanefnd 27. ágúst 2008 jók stefndi á hinn bóginn að hluta við kröfugerð sína um norðurmerki þjóðlendu, þannig að allt landsvæðið Vaskárdalur yrði talið til hennar. Í úrskurði óbyggðanefndar var því hafnað að stefndi fengi komið að breyttri kröfugerð áfrýjendum í óhag og var í hinum áfrýjaða dómi hafnað kröfu stefnda um að þeirri niðurstöðu yrði hnekkt. Fyrir Hæstarétti unir stefndi við þetta og eru því ekki efni til að lýsa hér nánar inntaki breyttrar kröfugerðar hans fyrir óbyggðanefnd. Í úrskurði nefndarinnar var komist að þeirri niðurstöðu að sá hluti landsvæðisins Vaskárdals, sem félli innan merkja samkvæmt upphaflegri kröfugerð stefnda, væri þjóðlenda í afréttareign áfrýjenda samkvæmt 2. mgr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Áfrýjendur höfðuðu mál þetta með stefnu 5. janúar 2010 og er óumdeilt að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Fyrir héraðsdómi leituðu þeir á sama hátt og hér fyrir dómi aðallega ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar og viðurkenningar á eignarrétti sínum að landsvæðinu, en til vara viðurkenningar á tilteknum afnotaréttindum sínum innan þjóðlendu. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af þessum kröfum.
II
Vaskárdalur liggur syðst í Öxnadal í sveitarfélaginu Hörgárbyggð um 25 km sunnan við þann stað, þar sem Öxnadalur greinist frá Hörgárdal til móts við bæinn Syðri-Bægisá, en þaðan eru um 16 km til norðausturs um þann dal til sjávar í Eyjafirði og liggur sú leið um Þelamörk. Á fyrrgreindu 25 km svæði í Öxnadal virðast lengi hafa verið fleiri en 20 jarðir, en nú munu innan við tíu þeirra vera í byggð.
Landsvæðið, sem í máli þessu er nefnt Vaskárdalur, er sem næst ferhyrnt, en með óreglulegu lagi með því að mörk þess teygjast nokkuð til norðausturs. Að norðanverðu eru tæpir 5 km á milli hornmarka í vestri og austri, en að sunnan um 2,5 km. Mörkin að vestan og austan eru um 5 km að lengd frá norðri til suðurs. Landsvæðið liggur til suðausturs inn af Öxnadal og er hornmark þess í norðvestri, sem næst er dalnum, um 3 km frá Öxnadalsá, en frá Vaskárdal rennur Vaská, sem fellur í fyrrnefndu ána nærri botni Öxnadals. Norðan við landsvæðið liggur land eyðijarðarinnar Gloppu að austurbakka Öxnadalsár, gegnt landi eyðijarðarinnar Gils vestan árinnar, en skammt norðan merkja Vaskárdals er Gloppufjall, sem nær 1183 m hæð. Að austan og síðan sunnan liggja að þessu svæði á fjalllendi lönd, sem samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 2/2008 tilheyra annars vegar jörðinni Litladal að norðan og hins vegar Kambfelli að sunnan og eru háð beinum eignarrétti, en þær jarðir eru í sveitarfélaginu Eyjafjarðarsveit. Til vesturs liggja mörk Vaskárdals að landsvæði, sem nefnt er Almenningur og telst til þjóðlendna eftir úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 3/2008. Milli Vaskárdals og Almennings, sem liggur frá norðri til suðurs og snýr að Seldalsá að vestan, er hálendi, sem að hluta er kennt við Almenningsfjall og fer hæst í 1196 m, en að norðanverðu er það skorið af Rauðuskriðudal, sem ræður merkjum milli svæðanna tveggja fram í Vaská. Vestan við Almenning, sem nær yfir um 2 km svæði frá austri til vesturs, er síðan Seldalur og Seldalsfjall, en fyrir óbyggðanefnd kölluðu eigendur Bakkasels til beins eignarréttar yfir þessu landsvæði, sem var hafnað. Vesturmörk þeirrar þjóðlendu liggja að jörðum og afrétti í Skagafirði.
Sem fyrr segir krafðist stefndi þess upphaflega fyrir óbyggðanefnd að einvörðungu hluti af landsvæðinu Vaskárdal, eins og því hefur verið lýst hér að framan, yrði talið til þjóðlendu, en undir rekstri málsins fyrir nefndinni fékk hann ekki komið að breyttri kröfugerð, sem beindist að því að allt landsvæðið yrði talið innan þjóðlendu. Með úrskurði nefndarinnar var þannig kveðið á um að syðri hluti landsvæðisins væri þjóðlenda, en sá hluti, sem talinn var háður beinum eignarrétti áfrýjenda, liggur frá norðurmörkum þess gegnt Gloppulandi og teygist líkt og tunga rúma 3 km til suðurs inn dalinn. Á þessum hluta svæðisins, sem liggur utan þjóðlendu, er meginhluti láglendis innan þess, sem nær frá um 400 m hæð. Umhverfis dalinn til vesturs og austurs til suðurodda hans eru brattar hlíðar í allt að 1000 m hæð, en mörk þjóðlendu og eignarlands samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar liggja þar að mestu um 800 m hæðarlínu. Undirlendi í dalnum er vel gróið nokkuð upp í hlíðar umhverfis það. Í málinu er ekki deilt um merki Vaskárdals gagnvart öðrum löndum, en sá hluti svæðisins, sem aðilana greinir á um hvort telja eigi til þjóðlendna, er nær eingöngu á hálendi.
III
Elsta heimild um landsvæðið, sem málið varðar, virðist vera skjal í Íslensku fornbréfasafni frá 19. maí 1375 með heitinu „Jardarbref vm efsta skriduland“, sem nú mun bera heitið Efstaland, en í því lýstu klausturbræður í Munkaþverárklaustri yfir „at vær hofvm sellt firer fvlla þǫrf ok navdsyn klavstrsins Guðmvndi sigvrdarsyni halfa jǫrd aa efsta skridulandi j yxnadal hveria vær tokvm j proventv með Gro oddzdottur með ǫllvm þeim gognvm ok giædvm sem henni hefir fylgt at fornv ok nyiv ok vær wrdvm eighandi ath.“ Meðal þess, sem fylgdi í kaupunum, var „lambarekstr ok gelldfiaar framm j almenningh ifer vaskaa.“
Í máldögum Ólafs Hólabiskups Rögnvaldssonar frá um 1461 sagði meðal annars að „Kirkia j myklagarde“ ætti „jtolur“, sem meðal annars væru þessar: „Teigur j oxnadal ofan fra lurkasteine j millum tveggia gardstada. er oc sogd vij folalda rekstur j vaskarogsl.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var á árunum 1712 og 1713, sagði meðal annars eftirfarandi um jörðina Djúpadal eða Stóradal, sem þá var í Saurbæjarhreppi en tilheyrir nú sveitarfélaginu Eyjafjarðarsveit: „Selför með tilliggjandi landi á jörðin austan framm á Djúpadal, á millum Strjúgsár og Merkisgarðs með hálfum þverdal, og brúkast jafnlega. Vaskárdal á jörðin og heim í Axlir, en engin not hefur jörðin þessa afrjettar, en áður hafa þángað verið reknir hestar á sumur.“ Meðal þess, sem getið var þar um varðandi jarðir í Öxnadal, var að jörðin Bakki væri með afrétt „á Öxnadalsheiði frá Gils landi alt vestur að Grjótá með öllum Seldal, er gagnvart liggur Almenníngi. Selstaða er hjeðan einninn í sögðu takmarki, ei í manna minni brúkuð.“ Um jörðina Auðnir sagði að þaðan væri „Upprekstur lamba“ á Almenning og ætti það sama við um jarðirnar Hraun, Háls, Þverbrekku, Bessahlaðir, Varmavatnshóla, Gil, Fagranes, Geirhildargarða, Engimýri, Hóla, Þverá, Steinsstaði, Efstaland, Efstalandskot, Miðland, Neðstaland og Syðri-Bægisá. Að lokinni umfjöllun um hverja af þessum jörðum sagði eftirfarandi: „Upprekstur, sem nefndur er frá sérhverjum bæ í öllum Yxnadal (að frátekinni Þverbrekku, sem sjálf þar ítak á), á Almenníng fyrir lömb, hann liggur framm af bygðinni fyrir austan Yxnadalsá, hvörs pláss drög liggja til Eyjafjarðar. Grasatekja er á fyrnefndum Almenníngi, fáeinum bæjum til nægilegra þarfinda, kannske ivum eða v. Ómögulegt væri hjer bygð að setja, þótt engin fólksfæða væri, án sveitarinnar skaða og landsins sjálfs ófrjóðsemi.“ Í umfjöllun um jörðina Gloppu var tekið fram að hún hafi áður átt upprekstur á Almenning, en einnig eftirfarandi: „Vaskárkot er hjer nefnt í landinu, ætla menn að forngildu þar muni bærinn staðið hafa, en vegna skriðuáhlaups fluttur.“
Á manntalsþingi á Skriðu 13. júní 1794 var meðal annars eftirfarandi bókað: „Vidara kom til Trakteringar, hvorjar afretter framveiges brúkast skulu, i þessum Hrepp, og verdur þad eftir Sidveniu Öxnadalsheide, almenningr og Þverárdalur med Vaskárdal, fyrer Öxndælinga. Enn úr Hörgárdal, Hörgárdalur, Flögudalur og Mirkardalur. Þá og so Sveigurinn og Barkárdalur hafa vered her ... gamlar afretter.“
Hinn 7. júní 1841 var á manntalsþingi í Glæsibæ þinglesið svohljóðandi afsal: „Arid 1841, þann 18da Febrúar, frammfór svofeldur Kaupgjorningur milli Prestsins Síra Arna Halldórssonar og Bóndans hr. Jóns Bergssonar á Garðshorni í Bæsár Sókn, ad Presturinn selur nefndum Bónda Afréttarlandid Vaskárdal Liggiandi frammast Austurbygd í Øxnadal, fyrir 36 ... Specíur Danskar og nýar, sem ummgétinn Bóndi hefir afgreidt. Hvorsvegna umgétinn Vaskárdalur heimilast hérmed ádurnefndum Jóni Bergssyni til allra Umráda og Nota svo hann er uppfrá Þessu hans algjorleg Eign, svo sem Presturinn hérmed selur frá sér og til apturnefnds Bónda, allan Eignar rétt á ummgétnu Afréttarlandi Vaskárdal, hvorju til Fullvissu er Prestsins undirskrifad Nafn og hjáþrykkt Signet.“ Afsalið var þinglesið á ný 8. júní 1841 á manntalsþingi á Skriðu.
Í gögnum varðandi jarðamat frá árinu 1849 sagði meðal annars um Stóradal að jörðin ætti afrétt „rúmlega til Heimilisins“, svo og selstöðu á afréttinum Djúpadal auk „tiltölu í afréttunum Hverdal og Branda“ á móti Ytra-Dalsgerði og Syðra-Dalsgerði. Um Litladal sagði ekki annað í þessu sambandi en að „Afrétt liggur undir, sem heimilinu rúmlega nægir.“ Um Gloppu sagði að „Afréttur fylgir jördunni, og er hann nokkud meiri enn fyrir heimilid“, en ekki var sagt hvar hann væri. Í umfjöllun um þrettán aðrar jarðir í Öxnadal var getið um rétt þeirra til upprekstrar ýmist á Öxnadalsheiði, Almenning eða Þverárdal, en um slíkt var ekki rætt varðandi Vaskárdal. Um hann var á hinn bóginn sérstaklega fjallað og eftirfarandi tekið fram: „Það er dalur afréttarland - sem liggur suðaustanmeginn við Gloppu afrétt; er hann ei vídlendt pláts, víðast snögglendur og á sumum stöðum undirorpinn skriðuáföllum. Hann er yfirhöfuð kjarngóðir sauðfjárhagar; þó eru stórgripahagar á nokkrum hluta hans, og er á sumrum tekið á hann sauðfé nokkurt og naut.“ Í „verðhæðarbók“, sem fylgdi jarðamatinu, sagði: „Vaskárdalur afréttur. 50 rdl.“
Á árinu 1850 ritaði prestur í Miklagarðskirkju, sem nú er í Eyjafjarðarsveit, bréf til yfirmatsnefndar vegna jarðamats frá 1849, þar sem hann óskaði eftir að hún léti þess getið að kirkjan ætti eftir máldaga Ólafs biskups frá 1461 teig í Öxnadal ofan frá Lurkasteini á milli tveggja garðsstæða og folaldarekstur í Vaskárgili. Við þessari ósk mun yfirmatsnefndin hafa orðið.
Prestur á Bægisá í Öxnadal beindi 23. september 1854 kvörtun til amtmanns vegna óreglu á fjárleitum og óviðunandi fjárréttum í Skriðuhreppi. Þar lét presturinn þess meðal annars getið að í hreppnum væru „margar afréttir, en eingin stærri en svari rúmgóðum búfjárhögum“, svo og að vanhöld væru á að þær væru allar gengnar, en fé hafi runnið „að líkindum á meðan af þeirri ógengnu afrétt á hina sem búið er að gánga, þegar ekki skilur nema lítil á, eins og stendur á um Seldal og Almenning.“ Hann lagði jafnframt til að fjárréttum yrði fækkað, þar á meðal með því að Vaskárrétt yrði lögð af.
Á manntalsþingi á Skriðu 21. júní 1859 var fært til bókar að þinglesin hafi verið „fridlýsing á afrjettinni í Vaskárdal Jóns Bergssonar á Launguhlíd að hann bannar öllum undir sektir að lögum alla íneyzlu þar, hverju nafni sem heitir“
Landamerkjabréf var gert fyrir jörðina Gloppu 16. janúar 1883 og mun það hafa verið þinglesið 29. maí 1884. Þar var merkjum hennar lýst þannig: „Að sunnan ræður Vaská. Að vestan ræður Öxnadalsá útað Vatnshólum frá því Vaská rennur í Öxnadalsá, síðan ræður síki er rennur úr Varmavatni í Öxnadalsá og þaðan Öxnadalsá þangað til Gloppá rennur í hana. Að norðan ræður Gloppá. Undir jörðina heyra Melrakkadalur og Kinnar að Melrakkaá.“ Bréfið var áritað um samþykki meðal annars af hálfu Skriðuhrepps, sem var samþykkur „þessum landamerkjum, Vaská, milli Gloppulands og Almennings, sem tilheyrir Skriðuhreppi.“
Í ritinu Sýslu- og sóknarlýsingar Eyjafjarðarsýslu, sem mun hafa verið gefið út á árinu 1972 en reist á lýsingum frá síðari hluta 19. aldar, gefur að líta stutta lýsingu á afréttum og dölum, sem hafi tilheyrt Bægisár- og Bakkasókn, þar á meðal Vaskárdal og Almenningi. Þar sagði meðal annars: „Afréttarlönd eru þar eiginleg: Almenningur svokallaður, á hvern 11 jarðir eiga frían upprekstur ... Almenningur þessi inniheldur eiginlega: fyrrnefndan Almenning og Seldal, Öxnadalsheiði norðan til og fyrrnefndan Gilshjalla; þar hjá mega fleiri sveitarjarðir ... brúka þenna almenning fyrir betaling; líka brúka hann nokkrir utansóknarmenn, til að m. úr Glæsibæjarhrepp. Eiginlegar fjárskila- eða lögréttir eru þar 2, sú önnur niður frá bænum Þverá við Öxnadalsá, en hin við Vaská, sem fyrr er getið. Þar hjá eru brúkaðir til afrétta heimalöndin Hóla- og Þverárdalur, Vaskárdalur og þar viðliggjandi pláss, nefndar Gloppukinnar ... Þessar straxnefndu Gloppukinnar brúkast fyrir afréttarland og grasatekju. Þar sem þessar kinnar taka enda, tekur Vaskárdalur við, sem liggur í landsuður. Þá tekur við svokallaður Almenningur að austanverðu við Yxnadalsá, en að vestanverðu Seldalur. Allt eru þetta afréttarlönd, almennt brúkuð bæði úr sjálfum Öxnadal, Þelamörk, og innan úr Kráklingahlíð“.
Í gerðabók vegna fasteignamats 1916 til 1918 var undir liðnum „Afrjettarlönd“ að finna mat á Vaskárdal, þar sem sagði: „Eigandi Jón Guðmundsson bóndi á Krossastöðum. Hreppsnefnd hefur ákveðið að reka megi á landið 500-600 fjár. Land þetta er metið á kr. 200,oo.“ Í gerðabókinni var þess getið um ýmsar jarðir í Öxnadal að þær ættu rétt til upprekstrar á Almenning eða Öxnadalsheiði og um jörðina Gloppu að henni fylgdi „dálítið afrjettarland, Gloppukinnar“, en um Vaskárdal virðist ekki hafa verið rætt umfram það, sem að framan segir.
Stjórnarráðið ritaði bréf til allra sýslumanna 29. desember 1919, þar sem óskað var eftir „skýrslu um svæði þau í sýslu yðar, sem talin eru almenningar, svo og um afrjettarlönd, sem ekki sannanlega hafa tilheyrt eða nú tilheyra nokkru lögbýli.“ Í svari sýslumanns Eyjafjarðarsýslu 27. september 1920 sagði að með því fylgdu bréf hreppstjóra nánar tiltekinna hreppa í sýslunni, sem hafi verið borin saman við landamerkjabók og virst vera rétt. Meðal bréfanna, sem þar var vísað til, var bréf hreppstjóra Öxnadalshrepps 25. febrúar 1920, þar sem sagði meðal annars: „Hér í hreppi er einn afréttur sem nefnist almenningur, þar sem ýmsir jarðar umráðendur telja jörðunum fríann uppregstur, en sem sveitarstjórnin hefir nú undir umsjón. Afréttur þessi liggur fram af byggðinni í Öxnadal, eru því upptök Öxnadalsár í almenningsbotni. Hún er vatnslítil í afréttinni og engir teljandi fossar þar ... Vaskárdalur er lítill afréttarkriki. Fellur áarspræna eftir honum og kemur í Öxnadalsá á milli fremstu bæja í Öxnad. Afréttur þessi er einstaksmanns eign en tilheirir ekki neinu býli. Til ath. Hygg að allar afréttir fram af Öxnad. hafi áður fyr verið almenningar, samanbr. máldaga fyrir Bægisárkyrkju.“
Á manntalsþingi Öxnadalshrepps 3. júlí 1940 var fært til bókar að þinglýst hafi verið afsali Málfríðar Baldvinsdóttur á Moldhaugum til Öxnadalshrepps fyrir „½ afréttarlandinu Vaskárdalur.“ Afsal þetta liggur ekki fyrir í málinu.
Í fylgiriti með bréfi sýslumanns Eyjafjarðarsýslu 1. ágúst 1979, sem virðist hafa verið sent í tilefni af fyrirspurn um afréttarlönd í sýslunni, var meðal annars að finna svofellda umfjöllun um Vaskárdal: „Afréttarmörk eru Melrakkaá og Rauðskriðuá að vestan. Rauðskriðudalur er sunnan Vaskár, liggur til suðurs í fjallgarðinn austan Almenningsfjalls. Hann er brattur og mjög ílla gróinn, að austanverðu. Melrakkadalur liggur í aust-norð austur og síðan norður. Austurhlíðin er fremur hrjóstug. Vaskárdalur liggur í austur og síðan suðaustur. Suðurmörkin eru Rauðskriðufjall milli Vaskárdals og Rauðskriðudals. Austan Melrakkadals ræður fjallsraninn að Melrakkaöxl. Í norður er Melrakkaöxlin, þaðan fjallsraninn að botni Vaskárdals. Úr dalbotninum er stutt í Hagárdal í Eyjafirði, enda fyrrum farið. Vaskárdalur er mjög vel gróinn og grösugur. Nær allt landið er þurlent. Mest skriðuhryggir og grundir, kjörið sauðland. Ítala 400 fjár fullorðið 5 hross. Um eignarrétt Vaskárdals hefir gengið á ýmsu, síðan Bægisárkirkja selur dalinn 1841. Ítök annara jarða hafa hér ekki fundist. Núverandi eigendur: Pétur Steindórsson bóndi Krossastöðum Glæsibæjarhreppi að hálfu og Rútur Þorsteinsson Byggðavegi 148 Akureyri, hinn helminginn.“
Rútur Þorsteinsson gaf út afsal 22. janúar 1980 til Öxnadalshrepps fyrir því, sem nefnt var „afréttarland í Vaskárdal, Öxnadalshreppi, og er það helmingur landsins“, en tekið var fram að það hafi verið í óskiptri sameign Rúts og Péturs Steindórssonar. Landinu, sem var selt fyrir 500.000 krónur, var lýst þannig: „Afréttarmörk eru Melrakkaá og Rauðskriðuá að vestan. Að sunnan Rauðskriðufjall milli Vaskárdals og Rauðskriðudals. Að austan fjallsraninn að Melrakkaöxl og að norðan Melrakkaöxl og þaðan fjallsraninn að botni Vaskárdals.“ Afsalinu var þinglýst 7. febrúar sama ár.
Samkvæmt þinglýsingarvottorði, sem hefur verið lagt fyrir Hæstarétt, eru áfrýjendur þinglýstir eigendur fasteignarinnar Vaskárdals, sem er sögð vera „eyðijörð, nytjað“. Þar kemur fram að hvorum þeirra tilheyri helmingur eignarinnar, en áfrýjandinn Einar S. Valbergsson hafi fengið afsal fyrir sínum hluta 25. október 2004. Áfrýjandinn sveitarfélagið Hörgárbyggð er kominn í stað Öxnadalshrepps og verður að ætla að þinglýst heimild hans sé reist á fyrrnefndu afsali 22. janúar 1980. Að öðru leyti en því, sem hér áður hefur verið getið, liggja ekki fyrir í málinu afsöl fyrir þessari eign, en óumdeilt er að áfrýjendur geti rakið þinglýst réttindi sín aftur til fyrrgreinds afsals frá 18. febrúar 1841.
IV
Í Landnámabók greinir frá því að Þórir þursasprengir hafi numið Öxnadal allan og búið að „Vatsá“. Bæjarheiti þetta mun ekki lengur vera þekkt með vissu, en í gögnum málsins er leitt getum að því að þetta hafi verið sú jörð, sem nú er nefnd Hraun. Í Landnámabók var einnig getið Geirhildar, sem hafi verið „fjǫlkunnig kona ok meinsǫm.“ Ekki var sagt hvar hún hafi búið, en talið mun hafa verið að Geirhildargarðar í Öxnadal hafi dregið nafn af henni. Þá var nefndur til sögu Auðólfr, sem hafi numið „Øxnadal niðr frá Þverá til Bægisár ok bjó at enni syðri Bægisá“. Loks er þess að geta að samkvæmt Landnámabók nam Helgi magri Eyjafjörð, en skipti síðan „landi með sonum sínum ok mágum.“ Hann hafi gefið „Þóru dóttur sína Gunnari syni Úlfljóts, er lǫg hafði út, ok land upp frá Skjálgdalsá til Háls; hann bjó í Djúpadal.“ Djúpidalur mun vera sama jörð og nú ber heitið Stóridalur.
Fyrrnefndar þrjár jarðir í Öxnadal, sem getið var í Landnámabók, liggja allar norðan við landsvæðið Vaskárdal. Í beinni loftlínu eru þannig um 10 km frá norðurmörkum svæðisins til bæjarhúsa, sem munu hafa staðið að Geirhildargörðum, en þar á milli var land jarðarinnar Gloppu. Þá er Hraun um 13 km norðan við svæðið og er sú jörð að auki vestan Öxnadalsár, en bæjarhús á Syðri-Bægisá, sem eru austan árinnar, eru í um 24 km fjarlægð. Býlið í Stóradal í Eyjafjarðarsveit er á hinn bóginn um 10 km austan við ystu merki landsvæðisins Vaskárdals, en jörðin Litlidalur, sem talið mun vera að hafi verið skipt úr landnámsjörðinni Djúpadal, á nú eignarland sem áður segir að austurmerkjum svæðisins samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 2/2008. Til þess verður þó að líta að leiðin frá þessum jörðum vestur til Vaskárdals liggur um Hagárdal yfir sveitarfélagamörk, en upp úr báðum dölum er síðan um mikinn bratta að fara til fjalla, sem skilja þá að og eru í meira en 1000 m hæð, að hluta undir jökli. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er að finna elstu heimildina, sem gagngert varðar Vaskárdal, og var þess þar getið eins og áður greinir að Stóridalur eða Djúpidalur ætti Vaskárdal, en hefði „engin not ... þessa afrjettar“. Við ritun þeirrar bókar voru báðar jarðirnar Stóridalur og Litlidalur til, en um merki þeirra á þeim tíma liggur ekkert fyrir í málinu. Hvorki verður ráðið af þessari síðastnefndu heimild né öðrum að Vaskárdalur hafi nokkru sinni verið numinn eða síðar talinn hluti af Stóradal eða öðrum jörðum, sem nú eru í Eyjafjarðarsveit, og undirorpinn beinum eignarrétti eigenda einhverrar þeirra né standa landfræðilegar aðstæður til slíkrar ályktunar. Að því verður að gæta að eftir gögnum málsins mun fremur lítið land fylgja jörðum í Öxnadal og má því ætla að þar hafi að öðru jöfnu verið rík þörf á landi til upprekstrar. Í því ljósi getur sú staðreynd að landsvæðið Vaskárdalur sé aðskilið frá landi landnámsjarða í Öxnadal ekki ein og sér staðið því í vegi að það geti hafa verið numið í öndverðu, en það fær því ekki breytt að engar fyrirliggjandi heimildir benda til þess að sú hafi verið raunin.
Sem áður segir var getið um býlið Vaskárkot í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þótt kotið hafi ekki lengur verið í byggð við ritun bókarinnar kom þar skýrlega fram að það hafi verið í landi Gloppu. Að þessu gættu virðast eftir gögnum málsins ekki vera til ritaðar heimildir eða minjar um byggð innan landsvæðisins, sem hér er kennt við Vaskárdal. Þótt hvorki þetta né það, sem að framan hefur verið rakið, geti útilokað að þetta landsvæði kunni að einhverju marki að hafa verið numið og stofnað þar til landareignar, sem háð var beinum eignarrétti, verður að líta til þess að í málinu er ekki deilt um að allt láglendi innan svæðisins sé háð slíkum rétti áfrýjenda og standi þannig utan þjóðlendu, en ágreiningur hér lýtur í raun að því einu hvort fjalllendi, sem umlykur dalinn, sé jafnframt eign þeirra. Í ljósi staðhátta á þessu fjalllendi er ekki unnt að líta svo á að nokkrar líkur geti staðið til þess að stofnað hafi verið til beins eignarréttar yfir því með námi.
V
Af þeim heimildum sem áður voru raktar, svo og öðrum þeim heimildum sem liggja fyrir í málinu um jarðir í Öxnadal, verður ráðið að skýr greinarmunur hafi allt frá elstu heimildum verið gerður á Vaskárdal annars vegar og landsvæðum vestan og norðvestan dalsins hins vegar, sem eins og fyrr greinir nefnast Almenningur, Seldalur og Öxnadalsheiði talið frá austri til vesturs frá Vaskárdal. Þessi landsvæði teljast öll til þjóðlendu samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 3/2008 og hefur þeirri niðurstöðu ekki verið hnekkt fyrir dómi. Þrátt fyrir að þegar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að engar fyrirliggjandi heimilda styðji að Vaskárdalur hafi verið numinn með sjálfstæðum hætti eða sem hluti jarðar, stendur enn eftir að komast að niðurstöðu um hvernig háttað hefur verið eignarréttindum yfir þessu landsvæði.
Af öðrum heimildum, sem áður var getið og þetta varða, verður að gæta að því að jarðakaupabréf um Efsta Skriðuland í Öxnadal frá 19. maí 1375, sem nú ber heitið Efstaland, snýr ekki eftir hljóðan sinni að nokkrum réttindum yfir landsvæðinu, sem deilt er um í málinu, þótt vatnsfallið Vaská hafi verið nefnt þar á nafn. Í máldögum frá um 1461 var rætt um að meðal ítalna kirkjunnar í Miklagarði væri réttur til að reka sjö folöld á Vaskáröxl, en beins eignarréttar að því landi var að engu getið. Á manntalsþingi á Skriðu í Hörgárdal 13. júní 1794 var rætt um afréttarnot og tekið þar fram að fyrir siðvenju væru tiltekin svæði afréttir Öxndælinga, þar á meðal Vaskárdalur. Í afsali fyrir Vaskárdal 18. febrúar 1841, sem þinglesið var á manntalsþingi í Glæsibæ, var rætt um hann sem afréttarland og var það sama gert í jarðamati 1849, friðlýsingu sem var þinglesin 21. júní 1859, sóknarlýsingu frá síðari hluta 19. aldar og fasteignamati 1916 til 1918. Enn var það sama gert í afsölum frá 1940 og 1980, sem áfrýjendur rekja réttindi sín til. Þótt orðfæri þetta eitt út af fyrir sig geti ekki ráðið úrslitum liggur ekkert fyrir um að landið, sem ágreiningur aðilanna tekur til, hafi fyrr eða síðar verið haft til nokkurra nota annarra en hugsanlegrar beitar fyrir búfénað.
Áður er komist að þeirri niðurstöðu að ekkert liggi fyrir til stuðnings því að í öndverðu hafi stofnast til beins eignarréttar yfir Vaskárdal. Engu að síður bera fyrrnefndar heimildir og aðrar þær, sem liggja fyrir í málinu, með sér að landsvæðið Vaskárdalur hafi að minnsta kosti frá því á 14. öld lotið takmörkuðum eignarráðum, sem tengd voru eigendum tilgreindra jarða í Öxnadal og Eyjafirði, þar á meðal Munkaþverár og Miklagarðs. Í heimildum allt frá Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns hefur Vaskárdalur á líkan hátt verið tengdur eigendum tiltekinna jarða, þar á meðal Stóradals, Garðshorns, Lönguhlíðar, Krossastaða og Moldhauga, en þó þannig að rætt hefur verið um að landsvæðið tilheyri þeim. Hafa þessi eignarréttindi gengið kaupum og sölu að minnsta kosti frá 1841 og er ekki ágreiningur um að áfrýjendur geti rakið þinglýsta eignarheimild sína allt aftur til þess tíma. Gefa heimildirnar til kynna að þau réttindi, sem tengd hafa verið Vaskárdal, hafi ekki fylgt tiltekinni jörð, heldur verið einstaks manns eign, svo sem komist var að orði í áðurnefndu bréfi hreppstjóra Öxnadalshrepps 25. febrúar 1920. Af þessu telja áfrýjendur að draga megi þá ályktun að þar hafi farið óskoraður eignarréttur yfir Vaskárdal, enda ófært að stofna til takmarkaðra eignarréttinda í eign, sem ekki sé háð slíkum rétti. Í þessu sambandi er þó óhjákvæmilegt að horfa til þess að ekkert er fram komið um að landið hafi fyrr eða síðar verið haft til annars en hefðbundinna afréttarnota og hefur landsvæðið ávallt verið nefnt afréttarland í afsölum fyrir því, sem liggja fyrir í málinu. Má einnig gæta að því að á árinu 1980 var helmingur þessara réttinda sem fyrr greinir seldur fyrir 500.000 krónur, sem svarar nú til rúmlega 300.000 króna að teknu tilliti til myntbreytingar og verðlagsbreytinga. Loks er til þess líta að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 58/1998 skulu þeir, sem sannanlega hafa haft land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða fyrir önnur hefðbundin afréttarnot, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Með þessari reglu hefur löggjafinn slegið föstu, svo sem leitt verður þegar af eðli máls, að land geti verið háð óbeinum eignarrétti þótt það hafi ekki verið numið í öndverðu eða beinn eignarréttur stofnast yfir því á annan lögmætan hátt. Á grundvelli þessarar heimildar hafa takmörkuð eignarréttindi í þjóðlendu jafnframt ítrekað verið viðurkennd í úrskurðum óbyggðanefndar og úrlausnum dómstóla í málum um þjóðlendur. Að þessu virtu standa ekki haldbær rök til annars en að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af aðalkröfu áfrýjenda.
Varakröfur áfrýjenda snúa báðar að því að viðurkenndur verði einkaréttur þeirra til nánar tilgreindra nota af landsvæðinu. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998 er unnt að leggja til úrlausnar dómstóla hverja þá kröfu, sem gerð hefur verið fyrir óbyggðanefnd, en í 2. mgr. 14. gr. sömu laga er tiltekið að mál, sem heyrir undir nefndina samkvæmt 7. gr. laganna, verði ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að hún hefur lokið umfjöllun sinni um það. Fyrir óbyggðanefnd höfðu áfrýjendur ekki uppi hliðstæðar kröfur og koma þær þegar af þeim sökum ekki til álita fyrir Hæstarétti. Að þessu virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar á meðal um að úrskurður óbyggðanefndar skuli standa óraskaður að því er varðar afréttareign áfrýjenda yfir þjóðlendu á landsvæðinu Vaskárdal.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða óröskuð. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Það athugast að mál þetta var þingfest í héraði 11. febrúar 2010. Gengið var á vettvang 15. október sama ár, en aðalmeðferð fór ekki fram í málinu fyrr en rúmu hálfu þriðja ári síðar, 6. maí 2013, og var það þá dómtekið. Málið var tekið fyrir að nýju á dómþingi 21. ágúst sama ár og var þá fært til bókar að vegna anna dómara hafi ekki tekist að leggja dóm á málið, sem var við svo búið flutt á ný og dómtekið. Enn var málið tekið fyrir 2. október 2013 og bókað að lagðar væru fram yfirlýsingar lögmanna málsaðila samkvæmt 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að þeir teldu ekki þörf á að flytja málið á ný og var því síðan frestað til dómsuppkvaðningar. Hinn áfrýjaði dómur var loks kveðinn upp 11. sama mánaðar. Þessi málsmeðferð er stórlega aðfinnsluverð.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Sveitarfélagsins Hörgárbyggðar og Einars S. Valbergssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur vegna hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. ágúst sl., hafa sveitarfélagið Hörgársveit, kt. 510101-3830, Þelamerkurskóla, og Einar S. Valbergsson, kt. 270373-2919, Engimýri 1, Akureyri, höfðað með stefnu birtri 5. janúar 2010, á hendur íslenska ríkinu, sem þingfest var 11. febrúar 2010. Þá var mál höfðað af íslenska ríkinu á hendur aðalstefnendum með gagnstefnu, þingfestri 11. febrúar 2010.
Dómkröfur aðalstefnenda á hendur gagnstefnanda eru:
Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 3/2008, þess efnis að Vaskárdalur sé þjóðlenda, sbr. eftirtalin úrskurðarorð:
„Það [er] því niðurstaða óbyggðanefndar að Vaskárdalur, svo sem hann er afmarkaður hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
Upphafspunktur er í skurðpunkti línu sem dregin er frá Rauðuskriðuá (punktur nr. 1 á kröfulínu Vaskárdals) í Rauðuskriðufjall (punktur nr. 5 á kröfulínu vegna Vaskárdals) og línu sem dregin er beina stefnu frá Rauðuskriðukinnum í 800 m. hæð (punktur nr. 37 á þjóðlendukröfulínu íslenska ríkisins, skv. kröfulýsingur dags. 14. mars. 2008) í punkt norðan til í Kaldbakshnjúk í 800 m. hæð (punktur nr. 38 á þjóðlendukröfulínu íslenska ríkisins, skv. kröfulýsingu, dags. 14. mars. 2008). Frá nefndum skurðpunkti er línan dregin um Rauðuskriðufjall eftir fjallsrananum að sveitarfélagamörkum Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar og eftir sveitarfélagamörkum í Melrakkaöxl og áfram eftir fjallsrananum og sveitarfélagamörkum að merkjum Gloppu (punktur nr. 1 á kröfulínu ríkisins skv. greinargerð dags. 27. ág. 2008). Þaðan er kröfulínu ríkisins fylgt þar til hún sker 800 m. hæðar línu gegnt Melrakkaá. Hæðarlínu sem jafnframt er upphafleg kröfulína ríkisins er síðan fylgt að upphafspunkti milli Rauðuskriðuár og Rauðuskriðufjalls.“
Af hálfu aðalstefnenda er höfð uppi sú dómkrafa að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra á öllu landi Vaskárdals í samræmi við þinglýsingarvottorð, landamerki, landamerkjabréf aðliggjandi jarða, skráningu í fasteignamat og samkvæmt öðrum framlögðum skjölum, og þannig að viðurkennt landamerki Vaskárdals séu eftirfarandi:
„Að mörkin séu við Rauðuskriðu að vestan, sbr. punkt 1 og við Melrakkaá sbr. punkt 2 að norðan við Melrakkaöxl sbr. punkt 3. Að austan fjallsrani að botni Vaskárdals sbr. punkt 4. að hreppamörkum að sunna í hornmark að vestan frá Rauðuskriðufjalli sbr. punkt 5. Vísað er til loftmyndar Búrgarðs ehf. dags. 13.10.2008.“
Til vara hafa aðalstefnendur uppi þá dómkröfu, að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu án sérstaks endurgjalds á svæði því, sem úrskurðað var afréttareign stefnanda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. þjóðlendulaga nr. 58, 1998 þó að landið teljist vera þjóðlenda að öllu leyti eða hluta.
Aðalstefnendur krefjast málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 12. febrúar 2010. Af hálfu aðalstefnenda er gerð sú krafa, með vísan til 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, að málskostnaður verði ákvarðaður sérstaklega úr hendi gagnstefnanda til hvors aðalstefnanda fyrir sig og jafnframt að við ákvörðun málskostnaðar til stefnda Einars Valbergssonar verði tekið tillit til 25,5% virðisaukaskatts.
Dómkröfur gagnstefnanda, íslenska ríkisins, eru:
Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 3/2008, Hörgárbyggð austan Öxnadalsár, að því leyti er varðar Vaskárdal.
Að viðurkennt verði, að landsvæði sem afmarkast af eftirfarandi línu sé þjóðlenda: „Upphafspunktur er 1311 m. hæðarpunktur (1) á fjallinu milli Melrakkadals og Hagaárdals á sveitarfélagamörkum milli Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar. Þaðan er línan dregin til vesturs í Melrakkaá (2) og henni fylgt til vesturs að Vaská (3). Þaðan er línan dregin um Rauðuskriðufjall (4) eftir fjallsrananum (5) að sveitarfélagamörkum Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar (6). Þaðan er sveitarfélagamörkunum fylgt til austurs og norðurs að upphafspunkti.“
Gagnstefnandi krefst að auki málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins úr hendi aðalstefnenda.
Aðalstefnendur krefjast sýknu í gagnsök, en einnig málskostnaðar líkt og í aðalsök.
Gagnstefnandi krefst sýknu í aðalsök af öllum kröfum aðalstefnenda, auk málskostnaðar, en til vara að hver aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Sveitarfélagið Hörgársveit hefur tekið við aðild að málinu, en það gjörðist í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps í byrjun árs 2010.
I.
1. Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls. Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd. Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann. Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A)“. Svæðið var afmarkað þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa. Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan. Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl. Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd. Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.
Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd gagnstefnanda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum aðalstefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. júní 2008, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í apríl 2008 barst óbyggðanefnd leiðrétting fjármálaráðherra á þeirri afmörkun umfjöllunarsvæðis sem fram kom í kröfulýsingunni 14. mars, en þjóðlendukröfusvæðið stóð óbreytt. Tilkynning um hina leiðréttu afmörkun var birt í Lögbirtingablaðinu 30. apríl 2008 og var þá skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 30. júní 2008. Kom jafnframt fram að yfirlýsingu um kröfugerð og málsmeðferð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Samkvæmt gögnum voru kröfur fjármálaráðherra gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar. Jafnframt var málið kynnt í fjölmiðlum.
Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Lögboðin kynning fór fram með því að yfirlit og uppdrátturinn lágu frammi á skrifstofum fyrrnefndra sýslumanna frá 18. júlí til og með 18. ágúst 2008, sbr. 12. gr. laga nr. 58, 1998, og var athugasemdafrestur veittur til 25. ágúst s.á. Engar athugasemdir bárust fyrir lok athugasemdafrests.
Fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins lagði fram kröfulýsingar um þjóðlendur á svæðinu í tveimur hlutum og þrjár kröfulýsingar vegna jarðeigna ríkisins. Á móti bárust 107 kröfulýsingar ýmissa aðila.
Lýstu þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins var skipt í fimm mál, þ.e. 1-5/2008.
Mál nr. 3/2008 er takmarkað við Hörgárbyggð, nú Hörgársveit, austan Öxnadalsár. Var það mál fyrst tekið fyrir af óbyggðanefnd, sem skipuð var Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni, þáverandi héraðsdómara, og Huldu Árnadóttur, héraðsdómslögmanni, og forsvarsmönnum aðila 25. ágúst 2008. Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð. Við aðra fyrirtekt málsins 31. ágúst sama ár var vettvangur í Öxnadal skoðaður, en jafnframt lögð fram ný gögn af hálfu óbyggðanefndar. Að auki var þá af hálfu gagnstefnanda, íslenska ríkisins, lögð fram greinargerð, dagsett 27. ágúst, þar sem meðal annars var lýst breyttum þjóðlendukröfum í málinu. Fólu breytingarnar í sér aukningu á þjóðlendukröfum innan kröfusvæða Vaskárdals, Almennings og Bakkasels. Málið var enn tekið fyrir 16. september, 13. október og 10. nóvember sama ár, en svokölluð aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd fór fram 2. desember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi og það tekið til úrskurðar. Málsmeðferðin var endurupptekin 5. júní 2009 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Vaskárdalur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið væri í afréttareign aðalstefnenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst. Í úrskurðinum var miðað við það landsvæði sem vísað var til í kröfugerð gagnstefnanda, íslenska ríkisins, frá 14. mars 2008, en hafnað kröfu sem tók til þess hluta landsins sem fyrst var lýst í greinargerð 27. ágúst sama ár og var það niðurstaða nefndarinnar að það teldist ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu 21. júlí 2009.
Málsaðilar undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu og gagnstefnu.
Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir gagnstefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.
Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 15. október 2010.
2. Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 3/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu Vaskárdals í Öxnadal.
Vaskárdalur tilheyrði áður Öxnadalshreppi í Öxnadal, en þar áður Skriðuhreppi hinum forna. Öxnadalshreppur sameinaðist um síðustu aldamót Glæsibæjarhreppi og Skriðuhreppi og nefndist hið sameinaða sveitarfélag Sveitarfélagið Hörgárbyggð. Hörgárbyggð sameinaðist á árinu 2010 Arnarneshreppi og tilheyrir Vaskárdalur nú hinu nýja sveitarfélagi, Hörgársveit, og er það nú annar aðalstefnandi máls þessa.
3. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum í úrskurði óbyggðanefndar. Einnig verður vikið að öðrum gögnum sem aðilar máls lögðu fram og vísa til, eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.
Úrskurður óbyggðanefndar skiptist í sjö kafla og er 66 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á. Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og afmörkun, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins. Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir, en að lokum eru úrskurðarorð. Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum.
4. Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók Landnámu, en þar segir m.a. frá því að Helgi hinn magri hafi numið allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá). Reisti hann bú sitt í Kristnesi.
Samkvæmt Landnámu námu tveir menn Öxnadal. Hét annar Þórir þursasprengir. Nam hann Öxnadal allan og bjó á Vatnsá, en samkvæmt munnmælum er um að ræða býlið Hraun, en það nafn kemur fyrst fyrir á 14. öld. Hinn landneminn hét Auðólfur og eignaði hann sér dalinn niður frá Þverá til Bægisár. Hann átti Þórhildi, dóttur Helga magra. Þá nam Eystein Rauðúlfsson land niður frá Bægisá til Kræklingahlíðar. Tveir menn námu Hörgárdal, Geirleifur er bjó að Myrká, en þar ofan nam land Þórður slítandi.
Í ritinu Byggðir Eyjafjarðar, I. bindi, sem aðalstefnendur vísa til, er frásögn um að bóndinn Vaskur hafi numið Vaskárdal og að hann hafi reist þar bú sitt.
5. Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, Vaskárdalur, er einn af þremur afdölum í austurhluta Öxnadals, og er hann afmarkaður að nokkru af fjallsbrúnum. Austan og suðaustan fjallsbrúna eru jarðirnar Litli-Dalur og Kambsfell í Eyjafirði. Hinir afdalirnir í austurhluta, sem eru nokkru norðar, eru Þverárdalur/Hóladalur og Bægisárdalur. Þessir dalir tengjast samnefndum býlum. Að auki er allra fremst í Öxnadal afdalur, sem nefndur er Almenningur/Seldalur.
Um Vaskárdal segir í úrskurði óbyggðanefndar:
„Dalurinn sem hefur leguna norðvestur-suðaustur og liggur í yfir 400 m hæð yfir sjávarmáli. Rennur Vaská eftir dalnum í norðvestur. Undirlendi Vaskárdals er gróið og nær gróðurinn upp með hlíðum hans. Dalurinn er allbrattur og ná hlíðar hans í allt að 1000 metra hæð.“
6. Í framlögðum gögnum, ekki síst þeim er stafa frá Þjóðskjalasafni Íslands, en til þeirra er m.a. vísað í úrskurði óbyggðanefndar, eru að nokkru raktar heimildir um Vaskárdal. Aðilar vísa í málatilbúnaði sínum ítrekað til þessara gagna og verður þeirra getið hér á eftir.
Í gögnum Þjóðskjalasafns er staðhæft að fyrsta heimild um Vaská og eftir atvikum Vaskárdal komi fyrir í bréfi frá 21. mars 1375, en þar sé því lýst að munkar í Munkaþverárklaustri hafi samþykkt:
„ vegna þröngvandi nauðsynjar sölu Árna ábóta, á þeim hluta Skriðulands í Öxnadal sem Gróa Oddssdóttir hafði gefið með sér í próventu, til Guðmundar Sigurðssonar. Salan á hálfu Skriðulandi fór svo fram 19. maí 1375 en jörðinni fylgdi:
[...] lambarekstr ok gielldfiaar framm j almenningh ifer vaskaa.“
Í síðari heimild máldagabók Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá 1461, en einnig í máldagabók Miklagarðskirkju í Eyjafirði segir:
„þessar jtolur sagdi ornolfur j þuerardal af modru(u)ollum. ... er oc sagdur vij. folallda rekstur j vaskarogsl.“
Þá segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 að jörðin Djúpidalur/Stóridalur í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði sé skráð eigandi Vaskárdals:
„Selför með tilliggjandi landi á jörðin austan framm á Djúpadal, á millum Strjúgsár og Merkisgarðs með hálfum þverdal, og brúkast jafnlega. Vaskárdal á jörðin og heim í Axlir, en engin not hefur jörðin þessa afrjett(ar), en áður hafa þángað verið reknir hestar á sumur.“
Í Jarðabókinni segir um jörðina Gloppu í Öxnadal:
„Vaskárkot er hjer nefnt í landinu.“
Í gögnum Þjóðskjalasafns er greint frá því að þann 13. júní 1794 hafi Jón Jakobsson, sýslumaður, sett manntalsþing að Skriðu í Hörgárdal, en þar kom eftirfarandi fram um Vaskárdal og notkun afrétta í Skriðuhreppi hinum forna:
„Vidara kom til Trakteringar, hvorjar afretter framveiges brúkast skulu, i þessum Hrepp, og verdur þad eftir Sidveniu Öxnadalsheide, almenningr og Þverárdalur med Vaskárdal, fyrer Öxndælinga. Enn úr Hörgardal, Hörgárdalur, Flögudalur og Mirkardalur. Þá og so Sveigurinn og Barkárdalur hafa vered her gamlar afretter.“
Frá miðri 19. öldinni er í heimildum vikið að Vaskárdal í tengslum við kaupgerninga. Segir þannig frá því í kaupbréfi frá 18. febrúar 1841 að afréttarlandið Vaskárdalur liggi fram af Austurbyggð í Öxnadal. Og í júní sama ár segir frá því að á manntalsþingum að Glæsibæ í Eyjafirði og að Skriðu í Hörgárdal hafi verið upplesin kaup- og afsalsbréf um kaup Jóns Bergssonar, bónda í Garðshorni í Glæsibæjarhreppi, á afréttarlandinu Vaskárdal innst í Öxnadal, af séra Árna Halldórssyni á Tjörn, fyrir 72 ríkisbankadali.
Í jarðamati frá 1849 er Vaskárdal lýst þannig:
„Það er dalur afréttarland sem liggur suðaustanmeginn við Gloppu afrétt; er hann ei vídlendt pláts, víðast snögglendur og á sumum stöðum undirorpinn skriðuáföllum. Hann er yfirhöfuð kjarngóðir sauðfjárhagar; þó eru stórgripahagar á nokkrum hluta hans, og er á sumrum tekið á hann sauðfé nokkurt og naut.“ Í veðurhæðarbók jarðamatsins frá sama ári segir um Vaskárdal:
„Vaskárdalur - afréttur. 50 rdl.“
Í sýslu- og sóknalýsingu Eyjafjarðarsýslu frá 1839, um Bakkasókn, sem talin er rituð af Kristjáni Þorsteinssyni, presti á Bægisá, segir um landsvæðið við mörk Vaskárdals:
„Fram frá Gloppu liggur fjallið enn nú, allt fram að svokölluðum Gloppukinnum, sem liggja til suðausturs allt fram að svokölluðum Melrakkadal, sem er lítill afdalur og liggur rétt í austur. Þessar straxnefndu Gloppukinnar brúkast fyrir afréttarland og grasatekju. Þar sem þessar Kinnar taka enda, tekur Vaskárdalur við, sem liggur í landsuður. Þá tekur við svokallaður Almenningur að austanverðu við Yxnadalsá, en að vestanverðu Seldalur. Allt eru þetta afréttarlönd, almennt brúkuð bæði úr sjálfum Öxnadal, Þelamörk, og innan úr Kráklingahlíð, [Kræklinga-].“
Á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal þann 21. júní 1859 var afrétturinn Vaskárdalur friðlýstur, og öll íneysla bönnuð, undir sektir að lögum, en þar um hafði forgöngu fyrrnefndur Jón bóndi Bergsson í Garðshorni.
Í tilefni af setningu landamerkjalaga 1882 voru gerð landamerkjabréf fyrir jarðir í Öxnadal, en þó ekki um Vaskárdal. Í landamerkjabréfi fyrir Gloppu, sem liggur að Vaskárdal að norðanverðu, og dagsett er 16. janúar 1883, segir m.a.:
„Að sunnan ræður Vaská. Undir jörðina heyra Melrakkadalur og Kinnar að Melrakkaá.“
Stefán Stephensen umboðsmaður ritaði undir landamerkjabréfið. Það var samþykkt af séra Arnljóti Ólafssyni, fræðimanni, þingmanni og oddvita Glæsibæjarhrepps, en hann var og sóknarprestur á Bægisá á þessum tíma. Arnljótur samþykkti bréfið að því er varðaði það að Gloppá teldist markalína milli býlanna Fagraness og Gloppu, Jón Bergsson handsalaði bréfið vegna býlisins Varmavatnshóla, vestan Öxnadalsár, og Júlíus Hallgrímsson, settur hreppsnefndaroddviti, samþykkti fyrir hönd Skriðuhrepps að Vaská teldist landamerkjalína milli Gloppulands og Almennings sem tilheyrði Skriðuhreppi.
Landamerkjabréf fyrir Litla-Dal, í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, sem eins og áður er rakið er aðliggjandi Vaskárdal að austanverðu, er dagsett 18. maí 1885 og þinglesið sama dag. Í bréfinu segir m.a.:
„[S]íðan ræður Hagá í merkjum á fjall upp. [ ] Djúpadalsá á fjall upp.“
Landamerkjabréfið var ekki áritað um samþykki vegna Vaskárdals.
Landamerkjabréf fyrir Kambfell í Saurbæjarhreppi, sem er sunnan og suðvestan við Vaskárdal, er dagsett 27. maí 1885 og þinglesið sama dag, en þar segir m.a.:
„Landamerki jarðarinnar Kambfells í Saurbæjarhreppi er að sunnan Hrauná fram í gegn á Hraunárdal. [ ] Að norðan er Hagá merki fram í gegn á Hagárdal.“
Bréfið var ekki áritað um samþykki vegna Vaskárdals.
Í fasteignamati 1916-1918 er að finna kafla um afréttarlandið Vaskárdal og segir þar:
„Eigandi Jón Guðmundsson bóndi á Krossastöðum. Hreppsnefnd hefir ákveðið að reka megi í landið 500600 fjár. Land þetta er metið á kr. 200.“
Stjórnarráð Íslands sendi öllum sýslumönnum landsins bréf 29. desember 1919, en þar var þeim tilkynnt að vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“, frá 27. september s.á., bæri þeim að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra, sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli. Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 27. september 1920, segir hann m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók. Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Stefáns Bergssonar, hreppstjóra í Öxnadalshreppi, sem dagsett er 25. febrúar 1920, en þar segir m.a.:
„Hér í hreppi er einn afréttur sem nefnist almenningur, þar sem ýmsir jarðar umráðendur telja jörðunum fríann uppregstur, en sem sveitarstjórnin hefir nú undir umsjón. Afréttur þessi liggur fram af byggðinni í Öxnadal, eru því upptök Öxnadalsár í almenningsbotni. Áin er vatnslítil í afréttinni og engir teljandi fossar þar. ....“ Í bréfi hreppstjórans segir um Vaskárdal:
„Vaskárdalur er lítill afréttarkiki. Fellur áarspræna eftir honum og kemur í Öxnadalsá á milli fremstu bæja í Öxnad. Afréttur þessi er einstaksmanns eign en tilheirir ekki neinu býli. ... Til ath. Hygg að allar afréttir fram af Öxnad. hafi áður fyrr verið almenningar, samanber máldaga fyrir Bægisárkyrkju.“
Á manntalsþingi Öxnadalshrepps þann 3. júlí 1940 var tekið fyrir afsal á afréttarlandinu Vaskárdal, en þar segir frá því að Málfríður Baldvinsdóttir á Moldhaugum í Glæsibæjarhreppi hafi afsalað Öxnadalshreppi hálfu afréttarlandinu Vaskárdal.
Vegna fyrirspurnar nafngreinds aðila sendi sýslumaðurinn á Akureyri frá sér eftirfarandi upplýsingar um afrétti nokkurra hreppa þann 1. ágúst 1979. Er af þessu tilefni m.a. lýst Vaskárdal, Almenningi og Öxnadalsafrétt. Um Vaskárdal segir:
„Afréttarmörk eru Melrakkaá og Rauðskriðuá að vestan Rauðskriðudalur er sunnan Vaskár, liggur til suðurs í fjallgarðinn austan Almenningsfjalls.
Hann er brattur og mjög ílla gróinn, að austanverðu. Melrakkadalur liggur í aust- norð austur og síðan í norður. Austurhlíðin er fremur hrjóstug. Vaskárdalur liggur í austur og síðan suðaustur. Suðurmörkin eru Rauðskriðufjall milli Vaskárdal og Rauðskriðudals.
Austan Melrakkadals ræður fjallsraninn að Melrakkaöxl. í norður er Melrakkaöxlin, þaðan fjallsraninn að botni Vaskárdals. Úr dalbotninum er stutt í Hagárdal í Eyjafirði enda fyrrum farið.
Vaskárdalur er mjög vel gróinn og grösugur. Nær allt landið er þurlent. Mest skriðuhriggir og grundir, kjörið sauðland.
Ítala 400 fjár fullorðið 5 hross ...
...
Ítök annara jarða hafa hér ekki fundist.
Núverandi eigendur: Pétur Steindórsson bóndi Krossastöðum Glæsibæjarhreppi að hálfu og Rútur Þorsteinsson Byggðavegi 148 Akureyri, hinn helminginn.“
Með afsali dagsettu 22. janúar 1980 seldi nefndur Rútur hálfan Vaskárdal til Öxnadalshrepps. Þá seldu eigendur Krossastaða í Glæsibæjarhreppi aðalstefnanda, Einari Steindóri, hálfan Vaskárdalinn, með afsali dagsettu 28. október 2004.
7. Í niðurstöðukaflanum í úrskurði óbyggðanefndar er að nokkru vísað til framangreindra gagna að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun á eignarrétti og nýtingu á hinu umþrætta landsvæði, Vaskárdal í Öxnadal. Er m.a. staðhæft að ekki liggi fyrir heimildir um byggð í Vaskárdal og að hans hafi einkum verið getið í tengslum við beitarnot jarða, sem liggi aðskildar frá dalnum. Er staðhæft að Vaskárdalur hafi haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands, sem almennt hafi verið miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga, en hvort að í því hafi falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort þar sé eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningu 1. gr. þjóðlendulaga, sé hins vegar atriði sem þurfi skoðunar við.
Í niðurstöðukaflanum tekur óbyggðanefnd fyrst til skoðunar hvort kröfur fjármálaráðherra, fyrir hönd gagnstefnanda, íslenska ríkisins, séu tækar til efnislegrar úrlausnar fyrir óbyggðanefnd, að því leyti sem þær breyttust frá því þær voru upphaflega gerðar. Er á það bent að kröfulýsingar íslenska ríkisins um þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi, syðri hluta, hafi borist óbyggðanefnd þann 14. mars 2008, og að þær hafi í framhaldi af því fengið lögboðna kynningu, en þar hafi þjóðlendukröfulínu verið lýst svo:
„[E]r haldið til vesturs í 800 metra hæðarpunkti norðan til í Framnesfjalli (34), en síðan er brúnum Fagranesfjalls fylgt í sömu hæðarlínu í botn Gloppugils (35), úr botni Gloppugils er haldið til suðurs í botn Vaskárdals (36). Er Vaskárdal og Vaská fylgt þaðan í Rauðuskriðukinnar í 800 metra hæð (37). Þaðan er fylgt beinni stefnu í punkt norðantil í Kalbakshnjúk (800 metra hæðarpunkt).“
Þá er í úrskurðinum bent á að í röksemdum fyrir kröfulínunni hafi eftirfarandi komið fram hjá íslenska ríkinu, þ.e. gagnstefnanda:
„Úr botni Gloppugils er haldið til suðurs í botn Vaskárdals, í samræmi við merkjalýsingu Gloppu.“
Á það er jafnframt bent að eftirfarandi fyrirvari hafi verið gerður við kröfulýsinguna af hálfu íslenska ríkisins.:
„Sérstakur fyrirvari er gerður vegna einstakra landamerkjalýsinga sem talið er af hálfu íslenska ríkisins að séu í samræmi við þjóðlendukröfulínu, ef í ljós kemur að svo reynist ekki vera.“
Í úrskurðinum er á það bent að í greinargerð fjármálaráðherra, sem hafi borist óbyggðanefnd 27. ágúst 2008, hafi kröfulínu íslenska ríkisins verið breytt og lýst svo:
„Upphafspunktur er á hreppamörkum við merki Gloppu (lokapunktur í máli 2/2008) (1). Þaðan er suðurmerkjum Gloppu fylgt til vesturs að Vaská (2). Þaðan er Vaská fylgt til norðurs að Öxnadalsá (3), sem síðan er fylgt að sýslumörkum.“
Bent er á að gagnaðilar íslenska ríkisins hafi mótmælt nefndri breytingu á kröfugerð og talið hana óheimila enda hafi þar ekki verið hnikað til kröfulínunni heldur hafi verið um að ræða stórfellda færslu, sem hafi leitt til þess að mestallur Vaskárdalur hafi fallið innan þjóðlendukröfusvæðisins. Vísað er til þess að við aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd hafi af hálfu íslenska ríkisins verið staðhæft að tilfærsla kröfulínunnar rúmaðist innan texta hinnar upphaflegu kröfugerðar, en jafnframt hafi verið bent á þann fyrirvara sem þar hafi verið gerður. Hafi og verið talið að lýstum merkjum Gloppu væri fylgt í hinni upphaflegu kröfulýsingu en síðan hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið og kröfunni því verið breytt í samræmi við þau.
Um ofangreint álitaefni vísar óbyggðanefnd til þess að í landamerkjabréfi Gloppu frá 16. janúar 1883 segi svo um suðurmörk Gloppu: „Að sunnan ræður Vaská.“ Bendir nefndin á að í hinni upphaflegu kröfugerð ríkisins hafi 800 m hæðarlínu verið fylgt inn austanverðan Vaskárdal og sömu hæðarlínu fram dalinn vestanverðan í Rauðuskriðukinnar. Í hinni endanlegu kröfugerð ríkisins sé á hinn bóginn suðurmerkjum Gloppu fylgt til vesturs í Vaská og Vaská síðan til norðurs í Öxnadalsá. Hafi kröfulínan færst um leið norðar með þeim afleiðingum að sá hluti kröfusvæðis Vaskárdals sem liggi norðvestast og sé láglendastur falli nú innan þjóðlendukröfusvæðisins en hafi fallið utan þess áður, bæði samkvæmt texta kröfugerðar og framlögðu kröfulínukorti. Um þetta segir nánar í niðurstöðukafla óbyggðanefndar:
„Sú kröfulýsing sem fyrst birtist í greinargerð íslenska ríkisins 27. ágúst 2008 verður ekki talin rúmast innan texta hinnar upphaflegu kröfulýsingar þar sem fylgt er 800 m hæðarlínu um Vaskárdal. Verður með engu móti fundin stoð fyrir þeirri línu í tilvitnuðum texta í landamerkjabréfi Gloppu og er því haldlaus sú skýring að kröfugerðin hafi frá upphafi fylgt ætluðum merkjum Gloppu.
Almennur fyrirvari íslenska ríkisins „vegna einstakra landamerkjalýsinga sem talið er [ ] að séu í samræmi við þjóðlendukröfulínu, ef í ljós kemur að svo reynist ekki vera“ nægir hér engan veginn til að fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, geti komið að auknum og breyttum þjóðlendukröfum innan kröfusvæðis Vaskárdals. Samkvæmt framangreindu hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir þeim málatilbúnaði íslenska ríkisins að umrædd breyting rúmist innan upphaflegrar kröfugerðar, enda þótt tekið sé tillit til fyrirvara við hana. Ljóst er einnig að afmörkun gagnaðila ríkisins á Vaskárdal í heild sinni, innan og utan upphaflegs þjóðlendukröfusvæðis, kom m.a. fram við opinbera kynningu á heildarkröfum á svæði 7 suður, sbr. 12. gr. laga nr. 58/1998,..... Af hálfu íslenska ríkisins var þó ekki látið reyna á ákvæði lokamálsliðar 12. gr. af því tilefni, að gættum þeim skilyrðum sem þar koma fram.
Sú málsmeðferð sem lög nr. 58/1998 mæla fyrir um hefði ekki tilætlaða þýðingu ef íslenska ríkið gæti aukið við kröfur sínar og sett þær fram á allt öðrum grundvelli, eftir að lokið er lögboðinni kynningu ásamt athugasemdafresti og gegn mótmælum gagnaðila. Jafnframt liggur fyrir sú skýra afstaða dómstóla að óbyggðanefnd sé bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur er íslenska ríkisins eða annarra, og verði að leysa úr máli á þeim grundvelli, sbr. kafla 8.1.1 í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Afstaða óbyggðanefndar til eignarréttarlegrar stöðu landsvæða sem falla utan við lögformlega kröfugerð fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, kemur því ekki til álita.
Niðurstaðan er því sú að í máli þessu koma ekki til úrlausnar þjóðlendukröfur umfram þá kröfugerð sem barst 14. mars 2008, þ.e. norðan línu sem dregin er í 800 m hæð úr botni Gloppugils suður í botn Vaskárdals og þaðan í Rauðuskriðukinnar í 800 m hæð og loks í beina stefnu í punkt norðan til í Kaldbakshnjúk (800 m hæðarpunkt).“
Að ofangreindu sögðu fjallar óbyggðanefnd í niðurstöðukafla sínum um hvað ráðið verði af heimildum um landamerki Vaskárdals og um eignarréttarlega stöðu hins umþrætta landsvæðis og segir að athugun óbyggðanefndar þar um taki til heildarmerkja landsvæðisins, enda falli það samkvæmt afmörkun stefnanda innan lýsts þjóðlendukröfusvæðis.
Í niðurstöðu sinni segir óbyggðanefnd að ekki hafi fundist landamerkjabréf fyrir Vaskárdal eða heimildir um afmörkun landsvæðisins frá því fyrir tíma landamerkjabréfa. Á það er bent að lýsingu á mörkum Vaskárdals sé fyrst að finna í áðurröktu afsali Rúts Þorsteinssonar fyrir helmingi Vaskárdals til Öxnadalshrepps frá 22. janúar 1980 og verði því litið til þeirrar afmörkunar sem þar komi fram svo og heimilda um merki aðliggjandi landsvæða. Bent er á að norðan kröfusvæðis Vaskárdals sé land jarðarinnar Gloppu. Í landamerkjabréfi þeirrar jarðar, sem dagsett sé 16. janúar 1883 og þinglesið 29. maí 1884, sé um suðurmerki miðað við Vaská og Melrakkaá, en að bréfið hafi ekki verið áritað vegna Vaskárdals. Þá segir að vestan kröfusvæðis Vaskárdals sé kröfusvæði Almennings, og er staðhæft að ekki sé til landamerkjabréf né aðrar heildstæðar merkjalýsingar fyrir það svæði. Þá segir að austan og suðaustan kröfusvæðis Vaskárdals séu jarðirnar Litli-Dalur og Kambfell í Eyjafjarðarsveit. Bent er á að landamerkjabréf Litla-Dals hafi verið útbúið 18. maí 1885 og þinglesið sama dag, en þar sé merkjum lýst eftir Djúpadalsá og Hagá á fjall upp, en ekki sé lýst hvernig mörkin skuli dregin að vestanverðu. Í landamerkjabréfi Kambfells frá 28. maí 1885, sem þinglýst hafi verið samdægurs, sé merkjum þeirrar jarðar lýst um Hagá að norðan og Hrauná að sunnan, en ekki sé lýst hvernig mörkin skuli dregin að vestanverðu. Bent er á að landamerkjabréf Litla-Dals og Kambfells hafi ekki verið árituð vegna Vaskárdals.
Í niðurstöðukaflanum er til þess vísað að aðalstefnendur dragi kröfulínu sína fyrir eignarrétti að Vaskárdal að austan og suðaustan á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Eyjafjarðarsveitar á háfjallinu og verði ekki séð að afmörkun þeirra á dalnum skarist við merki Kambfells eða Litla-Dals eins og þeim sé lýst í áðurgreindum landamerkjabréfum.
Að ofangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að afmörkun aðalstefnenda á kröfusvæði Vaskárdals skarist ekki við merki aðliggjandi fasteigna. Fái hún þannig samrýmst þeirri afmörkun sem lýst sé í fyrrgreindu afsali frá 1980. Þá er á það bent að enginn ágreiningur sé meðal aðila um merkin á þessu svæði. Áðurrakin gögn bendi því ekki til annars en að merkjum sé rétt lýst af hálfu aðalstefnanda.
Að því er varðar eignarréttarlega stöðu Vaskárdals sunnan upphaflegrar kröfulínu gagnstefnanda er í niðurstöðukafla óbyggðanefndar vísað til áðurrakinna eldri heimilda og á það bent að Vaskárdals hafi þar jafnan verið getið sem afréttar. Hafi þannig í afsali fyrir hálfu Skriðulandi frá árinu 1375 verið getið um: „lambarekstr ok gielldfiaar framm j almenningh ifer vaskaa“. Tekið er fram að óljóst sé hvort með hinum tilvitnuðu orðum sé að einhverju leyti átt við það svæði er varði Vaskárdal eða einungis landsvæði þar sunnan við, þ.e. Almenning, en að yngri heimildir taki á hinn bóginn ótvírætt til ágreiningssvæðisins. Þar um er vísað til áðurrakinna gagna, þ. á m. máldagabókar frá 1461 þar sem getið sé um folaldarekstur í Vaskáröxl. Enn fremur er bent á að í umfjöllun um Djúpadal/Stóradal í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712 sé sagt að jörðin eigi Vaskárdal „en að engin not hefur jörðin þessa afrjettar, en áður hafa þángað verið reknir hestar á sumur.“ Bent er á að Vaskárdalur sé nefndur afréttur í heimildum frá árinu 1794 til ársins 1940, þ. á m. afsalsbréfi frá 7. júní 1841, en þar sé talað um „afréttarlandid Vaskárdal Innast Yxnadal“. Staðhæft er í úrskurðinum að fyrir liggi óslitin framsalsröð fyrir Vaskárdal allt frá nefndu afsali, en að engin gögn liggi fyrir um að hið umþrætta landsvæði í Vaskárdal hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Að þessu sögðu segir í niðurstöðukafla óbyggðanefndar:
„Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að Vaskárdalur hafi verið afréttur í þeim skilningi að þar hafi menn átt óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Telja verður að það séu slík réttindi sem í raun hafi gengið manna í millum með afsölum, a.m.k. frá árinu 1841, en að öllum líkindum mun lengur, sbr. m.a. það að Vaskárdalur heyrði undir Djúpadal/Stóradal samkvæmt Jarðabókinni 1712. Í afsölunum gat ekki falist víðtækari eignarréttur afsalshöfum til handa en sannanlega var á hendi afsalsgjafa, sbr. dóma Hæstaréttar frá 10. apríl 1997 í máli nr. 66/1996 (Auðkúluheiði), 21. október 2004 í máli nr. 47/2004 (Biskupstungnaafréttur norðan vatna) og 5. október 2006 í máli nr. 67/2006 (Skjaldbreiður).“
Að fenginni framangreindri niðurstöðu víkur óbyggðanefnd m.a. að því sem áður sagði um landnám í Hörgárdal og Öxnadal, en síðan er niðurstaða nefndarinnar dregin saman í lokaorðum með svofelldum orðum:
„Af frásögnum Landnámu verður ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á þessu svæði náði, ... Verða því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að nyrðri hluti þessa landsvæðis hafi verið numinn en vafi um þetta atriði hlýtur að vaxa eftir því sem sunnar dregur og land hækkar. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota annarra. Í því sambandi ber að líta til þess sönnunarmats sem lagt hefur verið til grundvallar um afrétti einstakra jarða og/eða stofnana og styðst við fjölda dóma í sambærilegum málum, .... í kafla 8.1.2 í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar sem birtar eru í viðauka með úrskurði þessum. Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem nærri Vaskárdal liggja eru bæði eignarlönd og þjóðlendur, sé litið heildstætt á niðurstöður í máli nr. 3/2008 og afmörkun þjóðlendukrafna íslenska ríkisins á svæði 7 hjá óbyggðanefnd.
Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til Vaskárdals hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.
Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að Vaskárdalur sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að landsvæðið hafi verið nýtt sem afréttur og undirorpið slíkum rétti. Í því sambandi hafa ekki aðrir lagt fram kröfur en Einar S. Valbergsson og Hörgárbyggð. Þau eru skráðir eigendur Vaskárdals samkvæmt þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna og byggja rétt sinn á afsölum, en í málinu liggur fyrir óslitin framsalsröð fyrir Vaskárdal aftur til ársins 1841.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Vaskárdalur, svo sem hann er afmarkaður hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.“
II.
Málsástæður og lagarök aðalstefnenda í aðalsök.
Aðalstefnendur byggja kröfur sínar á því, að samkvæmt þinglýstum eignarheimildum, landabréfum nærliggjandi jarða og öðrum skráðum eignarheimildum hafi Vaskárdalur frá örófi alda verið skráður sem sérstök eign og að öll afnot og nýting dalsins hafi verið eigendanna sjálfra og háð leyfi landeigenda, enda enginn mátt nota landið með nokkrum hætti nema þeir.
Aðalstefnendur benda á að jörðin Vaskárdalur eða Vaskadalur sé kennd við Vaska, sem talið sé að hafi reist bú í Vaskárdal og numið þar land. Vísa þeir til þess að hér sé um gamla sögn að ræða, sem hafi fullt gildi líkt og svo margar aðrar sagnir um landnám, m.a. heimildir úr Landnámu.
Aðalstefnendur benda á að Vaskárdalur hafi verið grösugur og góður til búskapar á öldum áður. Dalurinn hafi þannig verið búsældarlegur enda þótt á síðari öldum hafi með kólnandi tíð möguleikar til búsetu farið versnandi. Þá sé dalurinn afmarkaður af fjöllum á alla vegu og hafi hann ávallt verið sérgreindur sem eign og gengið kaupum og sölum á milli kirkjunnar og jarðeignamanna í héraði í gegnum aldirnar. Hafi því aldrei verið um að ræða almenning eða afrétt í skilningi laganna, en í því sambandi vísa þeir til áðurgreindra heimilda, þ. á m. Jarðabókar Árna Magnússonar frá 1712 svo og þeirrar umfjöllunar sýslumanns sem fram kom á manntalsþingi þann 13. júní 1794, þar sem Vaskárdals hafi sérstaklega verið getið, en síðan hafi á þinginu verið fjallað um afrétt landeigenda í Skriðuhreppi, þ. á m. í Almenningi og Þverárdal. Þá vísa þeir til þess að í heimildum frá árinu 1841 sé getið um sölu á afréttarlandinu Vaskárdal, innst í Öxnadal, og benda á að allt frá þeim tíma hafi dalurinn gengið kaupum og sölum. Aðalstefnendur byggja og á því að friðlýsing landeigenda í Vaskárdal, hinn 21. júní 1899, á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal, hafi verið gerð til að árétta og undirstrika að um séreign og einkaeign væri að ræða.
Að því er varðar álitaefnið hvort í Vaskárdal hafi áður fyrr verið búið og hvort dalurinn hafi verið sérstök jörð, sem allar löglíkur standi til, benda aðalstefnendur á að meginmáli skipti í því sambandi að dalurinn hafi ávallt verið afmarkaður og skilgreindur sem sérstök fasteign en ekki ótiltekið afréttarland. Við flutning var af hálfu aðalstefnenda í þessu viðfangi vísað til heimilda um að bóndinn að Vaská hafi forðum verið landseti Hóladómstóls, sbr. frásögn þar um í æviminningum Tryggva Emilssonar, fyrsta bindi, frá 1978. Þeir benda á að á hinn bóginn hafi eigendur Vaskárdals sumir hverjir kosið að nýta dalinn sem beitiland. Það geti hins vegar ekki eitt og sér leitt til skerðingar á beinum eignarrétti. Er á það bent að sala og eignarréttarlegar ráðstafanir eigenda Vaskárdals á hverjum tíma hafi viðgengist, sbr. áðurnefnd heimildarskjöl.
Aðalstefnendur byggja á því að fullur hefðartími sé liðinn frá því að eignarheimildum og landamerkjalýsingum var þinglýst vegna Vaskárdals. Þar um vísa þeir til 1. og 2. gr. laga um hefð nr. 46, 1905 og er byggt á því að þeir hafi þannig unnið beinan eignarrétt að landinu.
Aðalstefnendur byggja á því að eigendur Vaskárdals hafi á hverjum tíma getað bannað öðrum notkun dalsins og hafi svo verið gert með fullu samþykki yfirvalda, en dalurinn hafi eitt sinn tilheyrt Bægisá og kirkju þess staðar, en þáverandi yfirvöld hafi selt dalinn frá jörðinni. Að því leyti byggja aðalstefnendur á viðskiptavenju og benda á að til þess að gæta réttaröryggis verði að vera fyrir hendi festa í viðskiptum manna í millum og að menn eigi að geta treyst þeirri grundvallarreglu réttarríkis, sem felist í yfirfærslu á eignarrétti með skriflegum, löglegum og fullgerðum eignarheimildum, sem hafi viðgengist um aldir. Í því viðfangi benda aðalstefnendur á að landamerki Vaskárdals séu ágreiningslaus og að þinglýst mörk aðliggjandi jarða séu til staðar. Beri að líta svo á að það sé meginregla íslensks réttar að land með þingfestum landamerkjum sé undirorpið beinum eignarrétti. Í því sambandi minna þeir á að gengið sé út frá venjurétti sem eignarheimildar, sbr. athugasemdir þar um við 5. gr. í frumvarpi til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.
Aðalstefnendur byggja á því að véfenging gagnstefnanda á gildum eignarheimildum og krafa hans í máli þessu, líkt og hún sé sett fram, sé niður fallin vegna tómlætis og fyrningar, enda hafi hann engin rök eða sönnur fært fyrir henni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004. Að auki telja þeir að úrskurður óbyggðanefndar í máli þessu gangi í berhögg við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.
Aðalstefnendur vísa máli sínu til stuðnings til úrskurðar óbyggðanefndar um Blikdal á Kjalarnesi, enda sé um að ræða algjörlega sambærileg tilvik og með Vaskárdal í þessu máli. Í því sambandi benda þeir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 1996: 696 og árétta að ekki sé ágreiningur um mörk landsvæðisins, en þar um vísa þeir til afmörkunar svæðisins samkvæmt heimildarbréfum, þ. á m. í landamerkjabréfum jarða í Öxnadal, m.a. að því er varðar Bakkasel, Gloppu og Almenning. Telja þeir að að mörgu leyti sé þessu líkt farið með jörðina Krossastaði í Hörgárbyggð, en að landamerkjabréf hafi ekki fundist vegna Vaskárdals, enda sé talið að það hafi glatast í Möðruvallabruna.
Til áréttingar um eignarrétt sinn vísa aðalstefnendur til fyrrgreindra heimildarskjala, landamerkjabréfa og kaupgerninga um Vaskárdal, er hafi alla tíð verið þinglýst athugasemdalaust og verið viðurkennd af öllum aðilum sem land eigi að dalnum og af valdsmönnum hverju sinni. Þá séu merki ágreiningslaus, en þar um er vísað til úrskurðar óbyggðanefndar.
Af hálfu aðalstefnenda er rökstuðningi gagnstefnanda fyrir endanlegri kröfulínu í málinu andmælt, líkt og þeir gerðu fyrir óbyggðanefnd. Benda aðalstefnendur á að kröfulínan sé dregin þannig að sunnan hennar sé sameiginlegur afréttur jarða á landsvæðinu. Aðalstefnendur andmæla þessu og árétta að öll nýting í Vaskárdal hafi verið skilgreind, en óumdeilt sé að eigendur dalsins hafi nýtt hann, en ekki aðrir aðilar. Því hafi verið um einkanot að ræða og beri gagnstefnanda sönnunarbyrði um annað.
Aðalstefnendur byggja á því að eigendur Vaskárdals hafi litið á dalinn sem lögmæta eign sína og hafi haft lögmætar væntingar þar um. Þeir hafi og ávallt greitt skatta og lögboðin gjöld af landinu. Styðji þessi atriði að Vaskárdalur hafi verið í séreignarhaldi um ómunatíð, en þar um benda þeir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 1997: 2792.
Stefnendur andmæla rökum gagnstefnanda, svo og óbyggðanefndar, um að Vaskárdalur hafi aldrei haft stöðu jarðar, enda þótt staðurinn sé í fremstu byggðum Öxnadals, og árétta í því sambandi efni áðurrakinna kaupgjörninga og byggja á því að þeir sanni það að landeigandi hafi hverju sinni öðlaðist eignarréttarlegan eignar- og ráðstöfunarrétt á dalnum. Byggja þeir og á því að aðrir aðilar hafi enga aðkomu haft þar að, enda séu engin dæmi um almenn afnot af Vaskárdal. Afnotin hafi einungis verið í höndum þeirra sem höfðu gildar eignarheimildir á hverjum tíma. Máli sínu til stuðnings vísa þeir til dóma Hæstaréttar í málum nr. 24/2007, nr. 536/2006 og nr. 448/2006.
Um lagarök vísa aðalstefnendur einkum til 72. gr. stjórnarskrár Íslands. Enn fremur vísa þeir til laga nr. 41, 1919 um landamerki, laga nr. 46, 1905 um hefð, laga nr. 94, 1976 um skráningu og mat fasteigna, laga nr. 39, 1978 um þinglýsingar, einkum 25. - 27. gr. Þá vísa þeir til laga nr. 6, 1986 um afréttarmál og fjallskil, laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur o.fl., einkum 1. gr., 5. gr., 11. gr., 15. gr. og 17. gr. Aðalstefnendur vísa einnig til Mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 2. og 6. gr. og 1. gr. 1 um samningsviðauka, en benda auk þess á rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um málskostnað vísa þeir til XXI. kafla laga nr. 91, 1991, sbr. einnig 17. gr. laga nr. 58, 1998. Um virðisaukaskatt vísa þeir til laga nr. 50, 1998 og um aðild, varnarþing og sakarefni til 1. mgr. 19. gr., 2. mgr. 25. gr. og 34. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda, íslenska ríkisins, í gagnsök og aðalsök.
Af hálfu gagnstefnanda er á því byggt að umþrætt landsvæði, Vaskárdalur, sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 58, 1998. Byggja þeir á að fullljóst sé af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati gagnstefnanda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á aðalstefnendum, að sýna fram á tilvist eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.
Gagnstefnandi byggir á því að engar heimildir liggi fyrir sem styðji að Vaskárdalur hafi nokkru sinni haft stöðu jarðar að lögum. Hann bendir á að óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn í málinu á umfangsmikilli upplýsingaöflun. Þá sé niðurstaða nefndarinnar byggð á kerfisbundinni rannsókn á fjölda gagna, sem fram hafi komið við gagnaöflun nefndarinnar eða verið lögð fram af málsaðilum. Að auki hafi nefndin byggt á skýrslum, sem gefnar hafi verið við meðferð málsins. Hafi það verið ótvíræð niðurstaða óbyggðanefndar, að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hefði landsvæði það sem um er deilt í málinu talist til afréttar, sbr. þá eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.
Gagnstefnandi vísar til áðurrakinna heimilda og áréttar að engar heimildir liggi fyrir sem styðji að Vaskárdalur hafi nokkru sinni haft stöðu jarðar að lögum heldur hafi verið um afréttarland að ræða. Er í því sambandi vísað til máldagabókar Ólafs biskups frá 1461 og máldaga Miklagarðskirkju í Eyjafirði. Einnig bendir hann á umfjöllun í 10. bindi Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 um Djúpadal/Stóradal í Eyjafirði þar sem greint sé frá folaldarekstri jarðanna í Vaskárdal og í Vaskáröxl, en einnig til umfjöllunar í síðari heimildum um jörðina Gloppu í Öxnadal þar sem greint sé frá Vaskárkoti í landi jarðarinnar. Þessu til viðbótar bendir hann á tilskrif sýslumanns á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal frá 13. júní 1794 um afrétt Skriðuhrepps í Vaskárdal, sbr. og kaup- og afsalsbréf frá árinu 1841 og jarðamat frá 1849. Þessu til viðbótar vísar hann til áðurrakins bréfs Stefáns Bergssonar, hreppstjóra í Öxnadalshreppi, þar sem Vaskárdal sé lýst sem litlum afréttarkrika og sé einstaka manns eign, en tilheyri ekki neinu býli. Einnig bendir gagnstefnandi á yngri heimildir um Vaskárdal, þ. á m. sýslu- og sóknalýsingu Eyjafjarðarsýslu, fasteignamat frá 1916-1918 og loks kaupgerninga um dalinn frá árunum 1940 og 1980. Loks bendir hann á að samkvæmt því sem fram hafi komið við skýrslutökur fyrir óbyggðanefnd hafi Vaskárdalur verið nýttur sem upprekstrarland fyrir búfé af jörðum í Hörgársveit. Byggir gagnstefnandi á því að allar þessar heimildir bendi eindregið til að Vaskárdalur sé afréttarland, og hafi aldrei haft stöðu jarðar að lögum. Af þessum sökum sé um að ræða landsvæði sem sé þjóðlenda samkvæmt 1. mgr. laga nr. 58, 1988.
Gagnstefnandi vísar til þess að í úrskurði sínum hafi óbyggðanefnd hafnað að taka hluta af þjóðlendukröfum hans til efnislegrar meðferðar þar sem kröfur hans hafi komið of seint fram. Þá hafi nefndin úrskurðað að hluti Vaskárdals væri eignarland. Gagnstefnandi andmælir þessari niðurstöðu óbyggðanefndar. Vísar hann til þess að kröfulína hans fylgi ætluðum landamerkjum jarðarinnar Gloppu, en þar um sé einkum stuðst við landamerki hennar frá 16. janúar 1883. Að auki fylgi kröfulínan ætluðum merkjum milli Vaskárdals og Almennings og sé það í samræmi við afmörkun aðalstefnenda á kröfusvæði sínu fyrir óbyggðanefnd. Loks fylgi kröfulína hans háfjallinu milli Vaskárdals og Almennings, en síðan sveitarfélagsmörkum, á háfjöllum, en handan þeirra séu jarðirnar Kambfell og Litli-Dalur, sbr. landamerkjabréf frá 18. og 27. maí 1885.
Um rök fyrir nefndri kröfulínu vísar gagnstefnandi til þess að hann hafi upphaflega lýst þjóðlendukröfum sínum á umræddu svæði í máli nr. 3/2008, Hörgárbyggð austan Öxnadals, til óbyggðanefndar þann 14. mars 2008, en þá jafnframt sagt að hún væri í samræmi við merkjalýsingu Gloppu í Öxnadal. Gagnstefnandi bendir á að hann hafi gert eftirfarandi fyrirvara við kröfugerðina: „Sérstakur fyrirvari er gerður vegna einstakra landamerkjalýsinga sem talið er af hálfu íslenska ríkisins að séu í samræmi við þjóðlendukröfulínu, ef í ljós kemur að svo reynist ekki vera.“
Gagnstefnandi bendir á að hann hafi breytt kröfugerð sinni með greinargerð til óbyggðanefndar, þann 27. ágúst 2008, líkt og lýst sé í úrskurði óbyggðanefndar, en að nefndin hafi hafnað henni sem of seint fram kominni.
Gagnstefnandi bendir á að hin endanlega kröfulína hans, sbr. dómkröfur hans í máli þessu, um viðurkenningu á þjóðlendumörkum að því er varðar Vaskárdal, séu í samræmi við þær kröfur sem hann hafi gert hjá óbyggðanefnd með fyrrnefndri greinargerð frá 27. ágúst 2008. Óbyggðanefnd hafi hafnað því að taka kröfurnar til efnislegrar meðferðar að því leyti sem þær hefðu aukist frá kröfunum sem áður var lýst þann 14. mars 2008. Hafi niðurstaða nefndarinnar því í reynd verið sú að kröfunum hafi verið hafnað.
Gagnstefnandi byggir á því að óbyggðanefnd hafi borið að taka kröfur hans til efnislegrar meðferðar og fallast á þær. Í öllu falli sé dómkrafa hans tæk til meðferðar og dómsálagningar fyrir dómi. Byggir gagnstefnandi á því að í samræmi við fyrrgreindan fyrirvara hafi honum verið heimilt að kom að umræddri leiðréttingu á kröfulínu með greinargerðinni frá 27. ágúst 2008. Í því sambandi er áréttað að strax og kröfugerðin þann 14. mars 2008 kom fram, hafi verið tiltekið að kröfulínunni hafi verið ætlað að fylgja merkjum Gloppu. Hafi landamerkjabréf Gloppu þá legið fyrir á meðal málsgagna fyrir óbyggðanefnd. Sú breyting sem gerð hafi verið síðar á kröfunni og lýst var í greinargerðinni frá 27. ágúst 2008 hafi miðast við að færa línuna til samræmis við merki Gloppu. Bendir hann á að þegar hinar auknu kröfur hafi komið fram hafi málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd verið fremur skammt á veg komin. Þá hafi aðalstefnendur verið þeir einu, sem gert hafi kröfur á hendur íslenska ríkinu fyrir óbyggðanefnd vegna Vaskárdals. Það hafi þeir gert áður en hinum auknu þjóðlendukröfum var lýst, en þær hafi einungis náð til svæðis, sem aðalstefnendur höfðu þegar lýst kröfum til. Og eftir að greinargerð íslenska ríkisins með hinum auknu kröfum lá fyrir, þ.e. við aðra fyrirtöku málsins fyrir óbyggðanefnd þann 31. ágúst og 1. september 2008, hafi verið gengið á vettvang. Við fjórðu fyrirtöku málsins hjá óbyggðanefnd, þann 13. október s.á., hafi verið lagðar fram greinargerðir af hálfu aðalstefnenda. Aðalmeðferð með munnlegum málflutningi og skýrslutökum hafi síðan farið fram þann 2. desember 2008. Og þegar horft sé til þess að hinar auknu kröfur komu fram á undan vettvangsferð og aðalmeðferð og áður en aðalstefnendur skiluðu greinargerð sinni fyrir óbyggðanefnd, verði með engu móti séð að það hafi valdið þeim réttarspjöllum að kröfunum hafi ekki verið lýst fyrr. Hafi möguleikar aðalstefnenda á að hafa uppi varnir eða koma að andsvörum eða sjónarmiðum vegna fyrrgreindra leiðréttinga á kröfunum því með engu móti verið skertir. Þessu til viðbótar byggir gagnstefnandi á að horfa verði til þess að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998 beri óbyggðanefnd, þegar kröfulýsing íslenska ríkisins liggi fyrir, að gefa út tilkynningu og láta birta í Lögbirtingablaði, þar sem skorað sé á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda, á því svæði sem ríkið gerir kröfu til, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd. Hljóti tilgangurinn með ákvæðinu að vera fyrst og fremst sá, að tryggja að þeim sem kunna að telja til eignarréttinda á umræddu svæði sé gefið færi á að lýsa kröfum til svæðisins. Gagnstefndi bendir á að í máli þessu liggi fyrir að aðalstefnendur séu þeir einu sem kalla til eignarréttinda á áðurgreindu svæði í Vaskárdal og því sé ljóst að með hinni breyttu kröfugerð sé ekki gengið á fyrrgreindan rétt þeirra til að telja til eignarréttinda á svæðinu, þ.e. til að koma að sjónarmiðum sínum. Hafi margnefnd leiðrétting því ekki verið í andstöðu við markmið nefndrar lagagreinar hvað það varðar.
Í ljósi ofangreindra atriða byggir gagnstefnandi á að óbyggðanefnd hafi borið að taka hina breyttu kröfugerð hans til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu og kveða upp úrskurð á grundvelli og með hliðsjón af henni.
Gagnstefnandi byggir á að óbyggðanefnd sé stjórnsýslunefnd og að um málsmeðferð fyrir henni gildi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, þ. á m. rannsóknarreglan sem lögfest sé í 10. gr. laganna. Forræði málsaðila á sakarefninu sé því takmörkunum háð. Hann bendir á að tilgangur þjóðlendulaga nr. 58, 1998 sé að koma eigendalausum svæðum undir eignarráð ríkisins. Sú málsmeðferð sem lögin kveða á um miði að því að efnislega rétt niðurstaða fáist. Hann bendir jafnframt á að algengt sé að kröfulínur taki breytingum undir rekstri máls fyrir óbyggðanefnd eftir því sem gagnaöflun vindur fram og í kjölfarið á vettvangsferðum og skýrslutökum af aðilum og vitnum. Þannig kunni málsmeðferðin að leiða í ljós að staðsetning kennileita sé önnur en upphaflega hafi verið talið. Því sé brýnt að málsaðilum sé játað nokkurt svigrúm til breytinga á kröfulínum meðan á málsmeðferð stendur. Eigi það ekki síst við þar sem óbyggðanefnd sé bundin af kröfugerðum málsaðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 571/2006, og máli nr. 367/2005. Þá sé til þess að líta að tilgangurinn með setningu þjóðlendulaga og þeirri málsmeðferð sem þar sé kveðið á um sé fyrst og fremst að skera úr um eignarrétt að landsvæði, þ.e. hvort landsvæði sé innan eða utan eignarlanda, sbr. 1., sbr. 7., gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt og í samræmi við fyrrgreind markmið laganna hafi óbyggðanefnd borið að taka efnislega afstöðu til hinnar breyttu kröfugerðar, sbr. dómkröfur gagnstefnanda í máli þessu.
Gagnstefnandi gerir niðurstöður óbyggðanefndar að sínum til stuðnings sýknukröfu í aðalsök. Hann áréttar áðurrakin rök um að hið umdeilda svæði, þ.e. Vaskárdalur, sé svæði utan eignarlanda og vísar til áðurrakinna heimilda um Vaskárdal og staðhæfir að ekkert liggi fyrir sem styðji að Vaskárdalur hafi nokkru sinni haft stöðu jarðar að lögum. Nefndar heimildir bendi þvert á móti eindregið til þess að Vaskárdalur sé afréttarland.
Til frekari rökstuðnings byggir gagnstefnandi á að umrætt landsvæði hafi ekki verið numið í öndverðu. Hvorki Landnáma né aðrar heimildir sýni fram á slíkt nám, en í því sambandi verði að horfa til staðhátta og gróðurfars, en þau atriði styðji ekki að landið hafi verið numið. Bendi gagnstefnandi á að þetta sé til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað, að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. m.a. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 66/1996 (Auðkúluheiði) og nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi henni fram. Byggir gagnstefnandi á að réttur aðalstefnenda til hins umdeilda landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og e.t.v. annarrar takmarkaðrar notkunar.
Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir gagnstefnandi á að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Vísar hann til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Um þetta atriði bendir gagnstefnandi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).
Gagnstefnandi byggir á því til vara að verði talið að greint landsvæði kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu þá er á því byggt að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Gagnstefnandi andmælir þeim röksemdum aðalstefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði. Segir hann að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ. m. t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu aðalstefnenda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Gagnstefnandi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Áréttar hann að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.
Með vísan til framangreindra atriða þá telur gagnstefnandi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í máli þessu, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng. Þá bendir hann á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „landsvæði sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“. Hann segir að engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir á því að umrætt landsvæði, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð aðalstefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.
Að öðru leyti mótmælir gagnstefnandi öllum sjónarmiðum og málsástæðum aðalstefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu og greinargerð, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008, auk þess sem byggt er á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar voru fram af hálfu gagnstefnanda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í fyrrnefndum kröfulýsingum hans fyrir nefndinni þann 14. mars og 27. ágúst 2008, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009, í fyrrgreindu máli, verði staðfestur, að því leyti sem hann varðar ágreiningssvæði þessa máls.
Um lagarök er af hálfu gagnstefnanda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944. Hann byggir á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905, en vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá vísar hann til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.
Málsástæður aðalstefnenda í gagnsök.
Aðalstefnendur hafna öllum kröfum og röksemdum gagnstefnanda í gagnsök er lúta sérstaklega að því að hnekkja beri úrskurði óbyggðanefndar til að úrskurða allan Vaskárdalinn þjóðlendu í samræmi við síðar tilkomna kröfu íslenska ríkisins undir rekstri málsins fyrir óbyggðanefnd. Þar um vísa þeir sérstaklega til hinna þinglýstu heimilda og annarra skráðra gagna sem áður er lýst. Þá árétta þeir fyrri rök sín um að Vaskárdalur hafi stöðu jarðar. Sú staðreynd að Vaskárdalur hafi verið um aldur séreign standi því óhögguð.
Aðalstefnendur andmæla því alfarið að óbyggðanefnd hafi borið að taka breyttar kröfur íslenska ríkisins til efnislegrar meðferðar. Benda þeir á að óbyggðanefnd sé bundin af lögum í umfjöllun sinni og þar sem lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur og fleira sleppi, taki við lög nr. 91, 1991 um meðferð einkamála varðandi málsmeðferð. Benda þeir á að Hæstiréttur hafi fjallað um samkynja tilvik í fyrri dómum, sbr. mál nr. 571/2006 og nr. 367/2005, en þar hafi það verið staðfest að í reynd verði kröfukynningu og auglýsingu, sbr. 12. gr. þjóðlendulaga, jafnað við þingfestingu og stefnukröfur í dómsmáli. Í þessu samhengi vísa þeir enn fremur til ákvæða 29. gr. og 80. gr. laga nr. 91, 1991, sbr. og ákvæði 1. mgr. 27. gr. laganna, en einnig til 12. gr. laga nr. 56, 1998 in fine.
Aðalstefnendur benda á að fyrrnefnd breyting á kröfugerð gagnstefnanda, íslenska ríkisins, hafi komið fram er málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd hafi verið langt komin og gagnaöflun að mestu lokið. Því sé ljóst að framgöngu ríkisins verði jafnað við vanrækslu líkt og rökstuðningi ríkisins sé háttað, og þar með hafi gagnstefnandi fyrirgert öllum rétti sínum til að koma að nýjum og auknum kröfum í ljósi framangreindra raka.
Að öðru leyti árétta aðalstefnendur kröfur og röksemdir um eignarrétt yfir Vaskárdal. Þar um vísa þeir helst til þess að ekki sé ágreiningur um að landamerki séu ágreiningslaus og að um óslitið eignarhald hafi verið að ræða um aldir, sbr. lýsingu í Jarðabók frá árinu 1712. Loks andmæla þeir röksemdum óbyggðanefndar um að hluti Vaskárdals sé þjóðlenda og að það byggist á rannsókn nefndarinnar. Staðhæfa þeir að nefndarmenn hafi í raun aldrei litið Vaskárdal augum og þ. á m. ekki farið í eiginlega vettvangsferð. Að auki hafi engin vísindaleg rannsókn farið fram á dalnum, en vera kunni að mannvistarleifar finnist þar.
III.
1. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.
Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er afréttur í lagagreininni skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“
Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar. Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.
Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.
Eins og hér að framan hefur verið rakið hafa aðalstefnendur og gagnstefnandi krafist þess að úrskurðarorð óbyggðanefndar að því er varðar Vaskárdal verði fellt úr gildi. Gagnstefnandi krefst þess að miðað verði við kröfulínu sem hann kynnti í greinargerð hinn 27. ágúst 2008 fyrir óbyggðanefnd, líkt og nánar segir í kröfugerð hans hér fyrir dómi. Af hálfu aðalstefnenda er breytingu á kröfulínu gagnstefnanda andmælt, en jafnframt krefjast þeir, gegn andmælum gagnstefnanda, að viðurkennt verði að umrætt landsvæði, Vaskárdalur, sé eignarland þeirra.
Mál nr. 3/2008 er takmarkað við Hörgárbyggð, nú Hörgársveit, austan Öxnadalsár. Eins og áður hefur verið rakið var málið fyrst tekið fyrir hjá óbyggðanefnd að viðstöddum lögmönnum og forsvarsmönnum aðila þann 25. ágúst 2008. Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð. Til grundvallar lágu tilkynningar óbyggðanefndar í Lögbirtingablaðinu 28. mars og 30. júní 2008 um meðferð á svæðinu svo og útdráttur úr kröfum gagnstefnanda, íslenska ríkisins, sem borist höfðu nefndinni þann 14. mars sama ár, ásamt uppdrætti, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í framhaldi af því voru birtar tilkynningar þar sem skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda eða annarra réttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis íslenska ríkisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 30. júní 2008. Kom jafnframt fram að yfirlýsingum um kröfugerð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði, sbr. ákvæði þjóðlendulaga nr. 58, 1998, 10. og 12. gr.
Liggur fyrir að samhliða greindum ráðstöfunum voru kröfur gagnstefnanda, íslenska ríkisins, gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna Norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar. Að auki var málið kynnt í fjölmiðlum. Ágreiningslaust er að ekki var óskað eftir fresti af hálfu málsaðila eða annarra, sbr. heimildarákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.
Við aðra fyrirtekt málsins hjá óbyggðanefnd þann 31. ágúst 2008 var m.a. vettvangur í Öxnadal skoðaður, en jafnframt lagði gagnstefnandi fram greinargerð, dagsetta 27. sama mánaðar, þar sem hann lýsti breyttum kröfum, sem fólu í sér aukningu á þjóðlendukröfum hans. Þýddi það m.a. að Vaskárdalurinn var allur innan þjóðlendusvæðis, eins og lýst er í dómkröfum gagnstefnanda. Var þessum málatilbúnaði gagnstefnanda andmælt af hálfu aðalstefnenda.
Eins og fyrr sagði var málið tekið fyrir hjá óbyggðanefnd 16. september, 13. október og 10. nóvember 2008, en að lokinni aðalmeðferð, 2. desember 2008 og 5. júní 2009, kvað nefndin upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að miða skyldi við það landsvæði sem vísað var til í kröfugerð gagnstefnanda, íslenska ríkisins, frá 14. mars 2008, og hafnaði nefndin því kröfu hans sem tók til þess hluta landsins sem fyrst var lýst í greinargerðinni 27. ágúst sama ár. Óbyggðanefnd rökstuddi niðurstöðu sína með því að hún væri bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur væri íslenska ríkisins eða annarra og bæri því að leysa málið á grundvelli kröfugerðar gagnstefnanda frá 14. mars 2008. Um sambærilegt ágreiningsefni hafði nefndin áður vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 367/2005 og 571/2006, sbr. og til hliðsjónar mál nr. 517/2009. Það var því niðurstaða nefndarinnar að nyrsti hluti Vaskárdals teldist ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., þjóðlendulaga.
Af hálfu gagnstefnanda er framangreindri niðurstöðu og rökstuðningi óbyggðanefndar, sbr. og kröfum aðalstefnanda í máli þessu, um ofangreint álitaefni andmælt, eins og hér að framan hefur verið lýst.
Með breytingarlögum nr. 65, 2000, 5. gr. á þjóðlendulögum nr. 58, 1998, 12. gr., var fyrra verklagi breytt á þann veg að óbyggðanefnd ber nú að beina því fyrst til ríkisins að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á tilteknu svæði, ef einhverjar eru og er veittur þriggja til sex mánaða frestur til verksins. Jafnframt er kveðið á um að yfirlýsingu þessa efnis eigi að þinglýsa á eignir á svæðinu. Og þegar kröfugerð ríkisins liggur fyrir skal óbyggðanefnd birta tilkynningu í Lögbirtingablaði. Samkvæmt þessu er landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum á því svæði sem ríkið gerir kröfu til veittur lögbundinn þriggja til sex mánaða frestur til að lýsa kröfum sínum. Með þessu móti var til þess ætlast af hálfu löggjafans að landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum væri ljóst frá upphafi hverjar kröfur ríkisins væru og gætu þá hagað málatilbúnaði sínum í samræmi við það. Með þessu móti var við það miðað að almennt gæfust sex til tólf mánuðir til skjalarannsókna og annars undirbúnings í stað þriggja áður, þ.e. frá því að málatilbúnaðurinn hefst með ákvörðun óbyggðanefndar um tiltekið svæði og þar til kröfulýsingarfresti landeigenda og annarra mögulegra rétthafa er lokið. Sem fyrr er kveðið á um það í lögunum, að þegar kröfulýsingar landeigenda og annarra mögulegra rétthafa á því svæði, sem er til meðferðar hverju sinni, liggja fyrir er óbyggðanefnd skylt að birta yfirlit yfir framkomnar kröfur og uppdrátt af þeim. Skal kynning á þessum gögnum vara í einn mánuð, en frestur til athugasemda er síðan vika þar á eftir.
Það er álit dómsins að gagnstefnandi, íslenska ríkið, hafi með fyrrgreindri kröfugerð sinn hinn 27. ágúst 2008 ekki hagað málum í samræmi við fyrrgreind ákvæði laga nr. 56/1998, einkum 12. gr. Fór þannig ekki fram sú opinbera kynning á breyttri kröfugerð gagnstefnanda sem kveðið er á um í 12. gr. og nægði að því leyti ekki sá fyrirvari sem gagnstefnandi viðhafði í upphaflegri kröfugerð sinni. Að því sögðu og með vísan til röksemda óbyggðanefndar og andmæla aðalstefnanda er það niðurstaða dómsins að hafna beri lýstri kröfu gagnstefnanda og verða aðalstefnendur því sýknaðir af gagnsakarkröfu hans.
2. Það var niðurstaða óbyggðanefndar, að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, og eftir stendur, sbr. ofangreinda niðurstöðu, þ.e. að syðri hluti Vaskárdals sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið sé í afréttareign aðalstefnenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst.
Af hálfu aðalstefnanda er á því byggt að umrætt landsvæði í Vaskárdal sé háð eignarrétti þeirra.
Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og staðkunnugum aðila. Er ekki ágreiningur með aðilum um að Vaskárdalur sé rétt afmarkaður með fyrrgreindum gögnum og lýsingu, en hún er m.a. í samræmi við áðurrakið afsal um dalinn frá 1980 og landamerkjabréf aðliggjandi svæða, m.a. í Eyjafirði, en einnig jarðarinnar Gloppu í Öxnadal.
Í úrskurði óbyggðanefndar er Vaskárdal, sem er einn af afdölum Öxnadals, lýst þannig:
„Dalurinn sem hefur leguna norðvestur-suðaustur og liggur í yfir 400 m hæð yfir sjávarmáli. Rennur Vaská eftir dalnum í norðvestur. Undirlendi Vaskárdals er gróið og nær gróðurinn upp með hlíðum hans. Dalurinn er allbrattur og ná hlíðar hans í allt að 1000 metra hæð.“ Í úrskurðinum er auk þess um staðhætti og afmörkun m.a. vísað til Jarðamats frá árinu 1849, svo og áðurrakins bréfs hreppstjórans í Öxnadalshreppi frá 1920.
Um Vaská segir í nefndum gögnum, að hún falli um Vaskárdal í Öxnadalsá, kippkorn sunnan við eyðijörðina Gloppu; „... fellur bratt og strangt ofan gegnum gljúfur til undirlendis og gjörir þar víðar og miklar eyrar, um hverjar hún dreifist, svo aldrei óreið verður, enda er hún ekki afar vatnsmikil ...“ Í Vaská renna uppi á dalnum tvær smáár, Melrakkaá úr áðurnefndum Melrakkadal að norðaustan og Rauðuskriðuá úr samnefndu dalverpi að suðvestan.
Á Vaskáreyrum, undir Vaskárhólum, var á 19. öldinni skilarétt Öxndælinga, en þá voru lögréttir tvær í dalnum, Þverárrétt og Vaskárrétt. Segir í heimildum að í Vaskárrétt hafi verið rekið það safn sem af afdölunum kom og svo af Öxnadalsheiðinni, en þar gat verið skagfirskt fé og því hafi það verið til stórra þæginda að hafa skilarétt svo innarlega í Öxnadalnum.
Í heimildum, m.a. í Lýsingu Eyjafjarðar I, sem Steindór Steindórsson náttúrufræðingur gaf út 1949, Byggðum Eyjafjarðar frá 1973 og sóknarlýsingu Bakkasóknar frá 1839, er Öxnadal nánar lýst og þar á meðal hinu umþrætta landsvæði, Vaskárdal. Einnig er í þessum heimildum vikið að nálægum svæðum, en í hinni fyrst nefndu segir m.a.:
„Öxnadalurinn er langur og þröngur, og eru há fjöll og brött á báðar hliðar. Dalurinn er í vestanverðum Eyjafirði, inn af Hörgárdal. Eru um 35 kílómetrar fram í botn frá Bægisá, nyrsta býlisins í Öxnadal að austan. Undirlendi í dalnum er alls staðar sáralítið. Víðast eru þar aðeins hallandi skriðugrundir. Þó eru nokkrir bakkar hjá Steinsstöðum og síðan í framdalnum. Fremsti hluti dalsins er nú allur í eyði, en innstu bæir í byggð eru Engimýri og Háls. Fremsti bærinn var Bakkasel, sem fór í eyði 1960 og var einn af þeim síðustu í innri hlutanum í byggð.“
Stefna Öxnadals er fyrst suðlæg, en nokkru sunnan við afdalinn Vaskárdal er Öxnadalsheiðin, sem einnig ber nafnið Heiðardalur og er um 2-300 metrum hærra en aðaldalurinn. Þar við heiðina sveigir dalurinn til suðausturs og nefnist hann þá Seldalur að vestan, en Almenningur að austan, kenndir við samnefnd fjöll. Dalir þessir eru býsna langir, svo drag þeirra er nálægt dragi Hvassafellsdals, sem gengur suðvestur úr Eyjafirði. Um Öxnadal fellur Öxnadalsá, bergvatnsá, sem á upptök sín í fjöllunum inn af dalnum.
Jörðin Ytri-Bægisá á Þelamörk, í fyrrum Glæsibæjarhreppi, er gegnt nyrsta býlinu í Öxnadal, Syðri-Bægisá, en er norðan árinnar. Býlið Garðshorn er næsta jörð norðan Ytri-Bægisár, en býlið Krossastaðir er um 7 km norðar. Ytri-Bægisá, Garðshorn og Krossastaðir tilheyrðu áður Glæsibæjarhreppi.
Býlin Bakki og Ytri-Bægisá í neðanverðum Öxnadal eru fornir kirkjustaðir, en Bakka- og Bægisársóknir voru forðum lagðar til Möðruvalla í Hörgárdal. Til Bakkasóknar heyrðu áður fremstu jarðir í Öxnadal, þ. á m. Miðland, Steinsstaðir, Þverá, Hólar og þau býli sem nú eru komin í eyði framan Engimýrar, þ.e. Geirhildargarðar, Fagranes, Gloppa, Bakkasel, Gil, Varmavatnshólar, Bessahlaðir og Þverbrekka.
Staðháttum í Öxnadal er nánar lýst í nefndum heimildum, þ. á m. í sýslu- og sóknarlýsingu Eyjafjarðar og í Lýsingu Eyjafjarðar. Segir m.a. frá því að afdalir til austurs séu m.a. Þverárdalur er gengur til suðausturs og síðan til suðurs. Er hann um 10 km að lengd. Að sunnanverðu heitir dalurinn Hóladalur. Dalurinn er um 5-600 metrar yfir sjó. Suðaustur úr honum er lítill afdalur sem nefndur er Lambárdalur, en upp úr honum liggur svonefnt Kambsskarð, en þar yfir var alfaravegur skemmstu leið til Eyjafjarðar í svonefndan Skjóldal, en þaðan lá leið til býlanna Möðrufells eða kirkjujarðarinnar Miklagarðs í hinum forna Saurbæjarhreppi.
Gegnt Hóladal og undir Drangafjalli, sem tilheyrir vesturhluta Öxnadals, gengur hólahrúgald mikið þvert yfir dalinn. Þar fyrir utan breytir Öxnadalurinn allmjög um svip. Er neðri hluti dalsins allþröngur, en fyrir framan hólana þrengist hann enn meir. Eru hlíðar snarbrattar og mjög skriðurunnar og gróðurlitlar. Næst fyrir sunnan Hóladal heitir Hólafjall, en síðan er fjallið venjulega nefnt einu nafni Fagranesfjall allt fram að Gloppugili. Þar er snarbratt mjög og giljum grafið og skriðurunnið. Er þar harla torfært víða, einkum er frjósa tekur á haustin. Mjög er hlíðin sú öll gróðursnauð. Hólahrúgald allmikið gengur fram úr fjallinu hjá Geirhildargörðum. Víða er þar snjóflóða- og skriðuhætt, og er svo einnig að vestanverðu í dalnum. Fyrrnefnd fjöll eru um 1.200-1.300 metra há. Við enda Fagranesfjalls er hamragil mikið og djúpt, fyrrnefnt Gloppugil. Fellur árspræna úr því og hefur hún skapað miklar malarskriður. Upp úr gilinu er Gloppuskarð, breitt en ekki ýkja djúpt. Liggur drag þess í botninn á dalverpi, er Melrakkadalur heitir. Gloppufjall heitir síðan fjallið austan Öxnadals að Vaská, er kemur úr þverdal úr austri, en sunnan hans er Almenningsfjall.
Nefndur þverdalur sem Vaská rennur um er í sumum heimildum allur nefndur Vaskárdalur, en dalurinn er klofinn í þrennt, því grunnir afdalir eða dalverpi liggja, líkt og fyrr var rakið, bæði til norðurs og suðurs. Norðurhlíð þverdalsins sunnan í Gloppufjalli heitir Gloppukinnar, en andspænis þeim eru Rauðuskriðukinnar og Rauðuskriðudalur er liggur til suðurs, en þar um rennur samnefndur lækur í Vaská. Gloppukinnar enda við Melrakkadal, sem liggur eins og að framan var rakið að baki Gloppufjalli til norðurs, en þar um rennur samnefnd á í Vaská. Eftir það tekur hinn eiginlegi Vaskárdalur við, en hann liggur til suðausturs. Eru um 4 km frá ármótum Vaskár og Melrakkadalsár að dalbotni Vaskárdals, en rétt um 2 km frá nefndum ármótum, til vesturs, að mynni þverdalsins við mót Öxnadals, við svonefnt Vaskárgljúfur og nærri Vaskárdalshólum. Í sýslu- og sóknarlýsingu Eyjafjarðar segir að nálægt dragi Vaskárdals liggi svokölluð Hraunárheiði við Eyjafjörð.
Til þess er að líta að Öxnadalur var fyrrum hluti Skriðuhrepps, en var árið 1910 gerður að sérstöku sveitarfélagi. Náði hreppurinn yfir Öxnadal allan allt út að Bægisá að austan. Með sameiningum hreppsfélaga tilheyrir dalurinn nú Hörgársveit.
Eins og fyrr var rakið námu samkvæmt Landnámu tveir menn Öxnadal. Hét annar Þórir þursasprengir og er af fræðimönnum talið að hann hafi reist bú sitt að Hrauni í vestanverðum dalnum. Er í Landnámu sagt að hann hafi numið allan Öxnadal. Hinn landneminn hét Auðólfur og eignaði hann sér dalinn niður frá Þverá til Bægisár og reisti hann bú sitt á landnámsmörkum, að Syðri Bægisá, en þar við tók landnám Eysteins, en hann var „son Rauðólfs Oxna-Þórissonar“. Samkvæmt Landnámu nam land vestan Hörgár og að mörkum samnefnds dals og Öxnadals Geirleifur, en hann bjó að Fornhaga.
Í Landnámu er auk nefndra landnámsmanna getið um Geirhildargarða í Öxnadal, en býlið var austan Öxnadalsár, um 2 km sunnan landnámsjarðarinnar Hrauns. Er nafnið talið dregið af Geirhildi hinni meinsömu og fjölkunnugu. Á síðustu öld stóð býlið undir skriðuvæng, sem kemur nyrst úr Fagranesfjalli.
Samkvæmt ofangreindu virðist ofmælt að Þórir landnámsmaður hafi numið allan Öxnadalinn, enda er talið að Auðólfur hafi numið dalinn báðum megin ár frá Þverá.
Í Jarðabókinni frá 1712 er þess getið að jörðin Gloppa, sem löngum hefur verið talið fremsta býlið í austanverðum Öxnadal, hafi til forna verið reiknuð sem heimaland Auðbrekku í Hörgárdal, en tekið er fram að býlið hafi ekki verið í byggð á greindu ári. Í Jarðabókinni segir nánar um Gloppu að hún eigi upprekstur á Almenning, en að einnig hafi í landi hennar verið býlið Vaskárkot. Samkvæmt heimildum var Gloppujörðin endurbyggð og segir m.a. frá því í Sóknarlýsingunni frá 1839 að hún sé bóndaeign, 10 hundruð að dýrleika; „... útheyskapur mjög slitróttur en landkostir góðir til beitar og útigangur nokkur, grastekja og nokkurt hrisrif; staklega áfallahætt af skriðum.“ Í Jarðamati frá 1849 segir að Gloppu fylgi dálítið afréttarland, sem kallist „Gloppukinnar.“ Landamerkjabréf Gloppu var þinglesið 1883 og m.a. lesið á manntalsþingi Skriðuhrepps 1884. Samkvæmt heimildum féllu í september 1887 skriður í Gloppulandi, en einnig á mörgum nágrannabýlum. Jörðin fór í eyði árið 1950, en hún er nú í eigu ábúandans að Auðnum, sem er vestan Öxnadalsár.
Samkvæmt ritinu Byggðir Eyjafjarðar eru óljósar sagnir um fyrrnefnt Vaskárkot í landi Gloppu. Er álitið að kotið hafi verið nærri Vaskárgili/gljúfri og Vaskárdalshólum, þar sem síðast voru beitarhús Gloppu. Nærri nefndum hólum eru Vaskárkinnar austan Vaskár, en fyrrnefndar Rauðuskriðukinnar eru vestan árinnar.
Í þjóðsögum er minnst á býlið Vaská í kaþólskum sið, en áhöld er um hvort þar sé um ræða það kot, sem Hóladómstóll hafði uppi kröfu um, eins og vikið er að í alþekktum æviminningum Tryggva Emilssonar, I. Bindi, frá árinu 1978. Þá eru sagnir um að óspektamaður hafi hafst við í Vaskárkoti/Vaská og sé það við hann kennt, en sá mun m.a. hafa stolið bústofni frá Öxndælingum, en einnig Eyfirðingum. Er sagt að örlög hans hafi orðið þau að Eyfirðingar hafi sótt að honum og fellt, en þar um er vísað á dys, sem sögð er hafa fundist neðan Vaskárgils.
Frá Vaskárdalshólum neðan samnefnds gils og að syðstu mörkum landnáms Auðólfs, neðar í Öxnadal og austan ár, við Þverá, eru um 14 km. Þá eru um 24 km frá hólunum að landnámsjörðinni Syðri-Bægisá. Loks eru um 22 km frá hólunum og að landnámsjörðinni Hrauni, vestan Öxnadalsár.
Samkvæmt framansögðu eru engar heimildir um byggð í nefndum þverdal, sem Vaská rennur um eða í hinum eiginlega Vaskárdal, fremur en í öðrum afdölum Öxnadals. Samkvæmt skýrslu Fornleifastofnunar Íslands um menningarminjar á miðhálendinu eru heldur ekki örnefni í Vaskárdal sem vísa til búskaparnytja. Er í því samhengi til þess að líta að Vaskárdalur er lítill og miklu hærri en aðaldalurinn.
Að virtum staðháttum og gróðurfari og þeim gögnum og skýrslum sem hér að framan hafa verið rakin, auk vettvangsgöngu, verður ráðið að búfénaður sem rekinn var á afréttarsvæðin fremst í Öxnadal hafi í venjulegu árferði gengið á milli svæða, þ.e. á Almenning, Seldal, Vaskárdal og þeirra dalskora sem þar eru, og farið yfir áðurnefndar ár og læki án teljandi vandkvæða. Liggur og fyrir að ekki tíðkaðist að reisa afréttargarða eða girðingar á þessu landsvæði.
Af hálfu aðalstefnenda er m.a. á því byggt að umrætt landsvæði, og þar á meðal Vaskárdalur, hafi verið numið í öndverðu, en því til stuðnings vísa þeir til landnámslýsingar, en ekki síst fyrrnefndra sagna um bóndann Vask.
Þegar áðurgreind atriði eru virt í heild, m.a. frásögn Landnámu um landnám í Öxnadal, er að áliti dómsins líklegt að meginhluti aðaldalsins hafi verið numinn við upphaf Íslandsbyggðar, en að vafi þar um vaxi eftir því sem sunnar dregur og land hækkar og þá sérstaklega að því er varðar hálendið austan ár, milli Gloppufjalls og Almenningsfjalls, þ.e. á Vaskárdal og Melrakkadal. Er Vaskárdalur þannig fjalladalur, en landsvæði hans er í um 500-600 m hæð yfir sjó, og er Vaskáin tíðum lituð jökulvatni.
Aðalstefnendur byggja kröfur sínar um beinan eignarrétt á Vaskárdal ekki síst á áðurröktum eldri skráðum heimildum um kaupgerninga er varða Vaskárdal, en einnig á þinglýstum eignarheimildum er varða nálægar jarðir og þeirri afmörkun landsvæðisins sem þar er lýst. Ágreiningslaust er að eiginlegt landamerkjabréf hefur aldrei verið gert fyrir Vaskárdal, en merkjum hans er hins vegar lýst í afsali frá 1980.
Í dómum sínum hefur Hæstiréttur Íslands í sambærilegum málum margoft vikið að gildi landamerkjabréfa og annarra álíka gagna, sbr. m.a. mál nr. 48/2004. Er það niðurstaða réttarins að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæði, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því, að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland.
Að ofangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að þrátt fyrir tilvist lýsts afsals og annarra sambærilegra eldri gerninga þá takmarkast gildi þeirra af því, að almennt er ekki unnt að eigna sér meiri rétt en viðsemjandinn átti fyrir, enda geta menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt.
Eins og áður er rakið eru elstu heimildir um Vaskárdal frá árunum 1375 og 1461. Í þessum heimildum er vikið að beitarnotum, en dalurinn er ekki beinlínis nefndur heldur er annars vegar vísað til Almennings við Vaská og hins vegar til örnefnisins Vaskáröxl. Þá er í Jarðabókinni 1712 skráð að jörðin Djúpidalur/Stóridalur í Eyjafirði eigi afréttinn Vaskárdal, en brúki hann ekki. Á manntalsþingi sýslumanns Eyfirðinga, sem haldið var að Skriðu í Hörgárdal 1794, var fjallað um afréttarmál Skriðuhrepps hins forna, en Öxnadalur tilheyrði þá hreppnum. Er þar skráð að samkvæmt venju séu afréttir hreppsins fyrir Öxndælinga Öxnadalsheiði, Almenningur og Þverárdalur með Vaskárdal. Í heimildum frá árinu 1841 er vikið að Vaskárdal í kaup- og afsalsbréfum, en samkvæmt gögnum Þjóðskjalasafns eru aðilar sem þar áttu hlut að máli m.a. nafngreindur prestur á Tjörn í Svarfaðardal og Jón Bergsson, þá bóndi í Garðshorni í Glæsibæjarhreppi. Jón bar viðurnefnið hinn ríki, en hann átti um tíma um tuttugu jarðir, þ. á m. Lönguhlíð í Hörgárdal og Auðnir og Varmavatnshóla í Öxnadal, en einnig afréttarlandið Vaskárdal, eins og það er nefnt í fyrrnefndum kaupgerningum frá 1841.
Í jarðamati frá 1849 er sagt að Vaskárdalur sé afréttarland og metinn á 50 ríkisdali, en 10 árum síðar, árið 1859, er dalurinn á manntalsþingi friðlýstur af fyrrnefndum Jóni Bergssyni. Jón var einn þeirra er ritaði á fyrrnefnt landamerkjabréf Gloppujarðar 1883 vegna nágrannabýlisins Varmavatnshóla, vestan Öxnadalsár, en hann ritaði hins vegar ekki nafn sitt á bréfið vegna afréttarlandsins á Vaskárdal. Jón lést árið 1892, en samkvæmt gögnum hafði hann árið áður selt barnabarni sínu, Jóni Jóhannssyni, „afréttarlandið Vaskárdal“, sem aftur seldi það sama ár Jóni Guðmundssyni, bónda á Krossastöðum í Glæsibæjarhreppi, sbr. m.a. fasteignamat frá 1916-1918. Heimildir er um að árið 1925 hafi nefndur Krossastaðabóndi með gjafagerningi ánafnað fósturbörnum sínum, Málfríði Baldvinsdóttur og Grími Stefánssyni, afréttarlandinu Vaskárdal. Eftir það eru skýrar heimildir um að dalurinn hafi gengið kaupum og sölum og þar á meðal til núverandi eigenda, aðalstefnenda þessa máls.
Eins og áður er rakið hefur ekki fundist landamerkjabréf fyrir Vaskárdal.
Samkvæmt framansögðu er frá fyrstu tíð í heimildum getið um landsvæðið við Vaská sem afréttarland. Er það í samræmi við áðurrakið svarbréf Stefáns Bergssonar, bónda og hreppstjóra á Þverá í Öxnadal, sem hann ritaði til sýslumanns í tilefni af fyrirspurn Stjórnarráðs Íslands í lok árs 1919 um almenninga og afréttarlönd. Segir hreppstjórinn í bréfi sínu, dagsettu 25. febrúar 1920 að Vaskárdalur sé lítill afréttarkriki, sem sé „einskis manns eign tilheyri ekki neinu býli“. Og í athugasemd getur hreppstjórinn þess, að hann ætli að allar afréttir fram af Öxnadal hafi áður fyrr verið almenningur, en þar um vísar hann til máldaga fyrir Bægisárkirkju.
Fyrir liggur að landsvæði Vaskárdals hefur verið aðskilið um aldir frá áðurnefndum landnámsjörðum, Hrauni og Syðri-Bægisá, en þar í milli eru nokkrar bújarðir í Öxnadal og allnokkur vegalengd. Vaskárdalur er afdalur aðaldalsins og á hálendu landsvæði og verður eins og áður er rakið ekki ályktað hversu langt landnám hafi náð í öndverðu. Engar heimildir eru um byggð eða mannvirki á Vaskárdal vegna búskaparnytja, en að áliti dómsins skipta þar engu fyrrnefndar þjóðsögur um búsetu skógarmanns, sem talið er að hafi neyðst til að hafast þar við.
Að áliti dómsins benda heimildir ekki til annars en að Vaskárdalur, svo sem hann er afmarkaður af aðilum og ekki er ágreiningur um, hafi einvörðungu verið notaður til beitar fyrir búfénað og hafi þannig verið afréttur. Er það og álit dómsins að þeir kaupgerningar sem áður er lýst og varða hið umþrætta landsvæði Vaskárdal, hafi varðað afréttarnot en ekki önnur og víðtækari réttindi. Er það niðurstaða dómsins að líkur standi til að marglýst orðalag í heimildum um Vaskárdal varði þannig óbein eignarréttindi og nægir, að virtum röksemdum og andmælum gagnstefnanda, einhliða forboðsbréf frá 1859 að því leyti ekki til að dæma aðalstefnendum eignarrétt að því.
Að þessu sögðu og þegar litið er til legu hins umþrætta afréttarsvæðis og annarra þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndu Hæstaréttarmáli nr. 48/2004, en einnig með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 67/2006, 517/2009 og 749/2009, er það niðurstaða dómsins að aðalstefnendur hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir eigi beinan eignarrétt að Vaskárdal í Fram-Öxnadal.
Að öllu þessu virtu og þar sem kröfur og heimildir stefnenda styðjast ekki við önnur gögn verður fallist á með gagnstefnanda að ekki hafi verið sýnt fram á að umþrætt landsvæði sé eignarland, hvorki fyrir löggerninga né með öðrum hætti.
Aðalstefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrðum eignarhefðar á greindu landi hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því, ásamt fleiri bændum, sem nýtt hafa það til sumarbeitar.
Að þessu virtu, andmælum gagnstefnanda, en einnig með hliðsjón af ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki séð að aðalstefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.
Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að umrætt landsvæði, Vaskárdalur, eins og það er afmarkað í úrskurði nefndarinnar, sé þjóðlenda því staðfest.
Aðalstefnendur hafa ekki rökstutt frekar þau réttindi, sem varakrafa þeirra tekur til, en krafan þykir heldur ekki hafa viðhlítandi stoð í lögum, og er henni hafnað.
Í ljósi kröfugerðar aðila fyrir dómi verður fallist á að Vaskárdalur sé afréttareign aðalstefnenda, en aðrir aðilar hafa ekki lýst kröfum til landsins.
Verður gagnstefnandi samkvæmt öllu því sem að framan er rakið sýknaður af kröfum aðalstefnenda í aðalsök, en aðalstefnendur eru eins og fyrr er rakið sýknaðir af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.
Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Allur gjafsóknarkostnaður aðalstefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, og verður það gert í einu lagi, sbr. 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91, 1991.
Með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferðar, en einnig vegna endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 800.000 krónur og er þá virðisaukaskattur ekki meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar þeirra í dómi.
Fyrir uppsögu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :.
Aðalstefnendur, Hörgársveit og Einar Steindór Valbergsson, eru sýknaðir af kröfum gagnstefnanda, íslenska ríkisins, í gagnsök.
Gagnstefnandi er sýkn af kröfum aðalstefnenda í aðalsök
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðalstefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur.