Hæstiréttur íslands
Mál nr. 762/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Vanreifun
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 10. janúar 2013. |
|
Nr. 762/2012. |
M (sjálfur) gegn K (enginn) |
Kærumál. Kæra. Vanreifun. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K um að fram færu opinber skipti vegna skilnaðar K og M. Kæru M var vísað frá Hæstarétti þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 3. desember 2012 en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2012 um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og öllum kröfum varnaraðila hafnað. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í kæru sóknaraðila er því lýst að með henni sé kærður til Hæstaréttar fyrrgreindur úrskurður þar sem fallist hafi verið á kröfu varnaraðila um opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila. Þar er einnig getið fyrrgreindrar dómkröfu sem sóknaraðili gerir fyrir Hæstarétti. Í kærunni er aftur á móti ekki að finna neinar ástæður sem sóknaraðili reisir kæru sína á og uppfyllir hún því ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í gögnum málsins kemur fram að sóknaraðila var leiðbeint um ritun kæru til Hæstaréttar og að héraðsdómari áminnti hann áður en kærufresti lauk um að kæran uppfyllti ekki framangreint lagaskilyrði. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2012.
Með kröfu móttekinni 17. nóvember 2011 hefur sóknaraðili, K, [...], krafist þess að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila, M, [...].
Við þingfestingu málsins þann 16. desember 2011 mótmælti varnaraðili kröfu sóknaraðila um opinber skipti. Vegna mótmælanna var ágreiningsmál þetta þingfest.
Dómkröfur sóknaraðila eru að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila, M, [...]. Þá er krafist málskostnaðar.
Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru að kröfu sóknaraðila um opinber skipti á búi aðila verði hafnað. Til vara gerir varnaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði verði krafa sóknaraðila um opinber skipti tekin til greina.
Þá er krafist málskostnaðar.
Málið var tekið til úrskurðar 21. nóvember sl.
I
Sóknaraðili og varnaraðili gengu í hjúskap þann [...] 1991. Áður, eða þann [...] 1991, höfðu aðilar gert með sér kaupmála þar sem m.a. er kveðið á um að þar tilgreindar eignir skuli vera séreign varnaraðila og að séreign sóknaraðila skuli engin vera. Þá er kveðið á um það að arður og það sem komi í stað séreignar hvors um sig verði séreign þess sem séreignina á. Aðilar, sem slitu samvistir í júlí 2011, eignuðust tvö börn í hjónabandinu. Þann 29. ágúst 2011 sótti varnaraðili um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík. Kom þá fram að hvorki væri sátt um forsjá barnanna né fjárskipti. Samkvæmt því voru ekki uppfyllt skilyrði þess að sýslumaður gæti gefið út skilnaðarleyfi.
Sóknaraðili höfðaði forsjármál gegn varnaraðila með stefnu sem þingfest var í héraðsdómi Reykjavíkur 17. nóvember 2011. Með stefnu þingfestri í héraðsdómi Reykjavíkur 18. janúar 2012 krafðist sóknaraðili þess að henni yrði veittur lögskilnaður frá varnaraðila en til vara skilnaður að borði og sæng.
Samkvæmt því sem fram kemur í beiðni um opinber skipti eru eignir sem koma til skipta fasteignirnar [...],[...][...], allar í [...] og sumarhús í [...]. Eignirnar eru sagðar eignir varnaraðila. Þá koma samkvæmt beiðninni til skipta fasteign við [...] og íbúð í [...], en þær eignir eru sagðar eignir sóknaraðila. Ekki liggur fyrir verðmat á sumarhúsinu og íbúðinni í [...]. Aðrar eignir hafa verið verðmetnar á samtals 280.000.000 króna 22. júlí 2011. Skuldir eru taldar nema 140.698.700 kr.
Sá dómari sem fór með mál þetta til 6. júlí 2012, er hann vék sæti, hafði málið til sáttameðferðar en hún bar ekki árangur.
II
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hún uppfylli efnisleg skilyrði 96. gr. hjúskapalaga nr. 31/1993 og skilyrði 98. gr. laga nr. 20/1991 og því beri samkvæmt 43. gr. laga nr. 20/1993 að taka kröfu hennar til greina.
Ágreiningslaust sé að aðilar séu í hjúskap eins og hann sé skilgreindur í lögum nr. 20/1993 en sóknaraðili hafi höfðað hjónaskilnaðarmál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Í 2. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991 sé áréttað að þegar dómsmál hafi verið höfðað til skilnaðar hjóna að borði og sæng, lögskilnaðar þeirra eða ógildingar hjúskaparins, geti annað þeirra eða þau bæði krafist að opinber skipti fari fram til fjárslita á milli þeirra.
Sóknaraðili byggir á því að krafa hennar uppfylli formleg skilyrði 101. gr. laga nr. 20/1993. Krafan sé skýr, hún sé skrifleg og ljóst sé að hverjum hún beinist. Gerð sé nákvæm grein fyrir eignum búsins og fylgi gögn hverri eign sem sýni eignarheimild og verðmæti eignanna. Jafnframt sé gerð grein fyrir skuldum hvors hjóna fyrir sig. Gögn málsins sýni að eignir aðila muni nægja fyrir skiptakostnaði.
III
Varnaraðili byggir á að kaupmáli aðila segi til um hvernig beri að skipta eignum aðila. Þrátt fyrir að varnaraðili vilji ljúka skiptum á búi aðila með samkomulagi hafi sættir ekki tekist.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili m.a. fjölmargra ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993 og laga um opinber skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.
IV
Í máli þessu liggur fyrir að sóknaraðili hefur höfðað mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hún krefst þess að henni verði veittur lögskilnaður frá varnaraðila en til vara skilnaður að borði og sæng. Er því uppfyllt skilyrði 98. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. til að verða við kröfu hennar um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu skiptakostnaðar. Af gögnum málsins þykir sýnt að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði. Er það því afstaða dómsins að ekki séu lagaskilyrði til að krefja sóknaraðila um tryggingu, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991.
Verður krafa sóknaraðila um opinber skipti því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Bú sóknaraðila, K og varnaraðila M, er tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður fellur niður.