Hæstiréttur íslands

Mál nr. 102/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Handtaka
  • Brot í opinberu starfi
  • Lögreglumaður
  • Skilorð
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 102/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Kristjáni Erni Kristjánssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

(Eva Hrönn Jónsdóttir hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Handtaka. Brot í opinberu starfi. Lögreglumaður. Skilorð. Skaðabætur. Sératkvæði.

Lögreglumaðurinn K var sakfelldur fyrir brot gegn 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 217. gr., sbr. 138. gr. sömu laga, með því að hafa farið offari við handtöku A og beitt hana meira valdi en tilefni var til. Var refsing K ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga og honum gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 400.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð og hann sýknaður af einkaréttarkröfu, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.029.833 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gegndi ákærði starfi lögreglumanns þegar hann handtók brotaþola aðfaranótt 7. júlí 2013 vegna þess að hún hrækti á hann þar sem hann sat í ökumannssæti í lögreglubifreið. Á myndbandsskeiði sem tekið var af efri hæð húss við Laugaveg sést brotaþoli standa á fætur á miðri götunni fyrir framan lögreglubifreið sem hafði staðnæmst þar. Af myndinni verður ráðið að hún var verulega ölvuð og átti erfitt með að halda jafnvægi er hún skjögraði af götunni upp að gangstétt. Þegar lögreglubifreiðinni var ekið hægt fram hjá henni rakst hliðarspegill bifreiðarinnar í andlit brotaþola, þannig að henni hnykkti við. Eftir það opnaði ákærði framdyr bifreiðarinnar og notaði hurðina til að stjaka við brotaþola, þannig að hún flæmdist upp á gangstéttina. Þá gekk hún aftur að bifreiðinni sem enn var kyrrstæð og hrækti inn um opinn glugga hennar. Var þá framhurð bifreiðarinnar svipt upp og steig ákærði út, rykkti í handlegg brotaþola þannig að hún féll utan í bekk á gangstétt, sneri hana niður í götuna og dró eftir henni, setti hné á líkama brotaþola og handjárnaði hana liggjandi á maganum. Að lokum setti ákærði ásamt öðrum lögreglumanni brotaþola inn í bifreiðina um afturdyr og var hún á maganum með höfuð á undan. Þegar litið er til ástands brotaþola sem fyrr er lýst og ástæðu handtöku hennar, fór ákærði offari við handtökuna og beitti brotaþola meira valdi en tilefni var til. Við þessar aðstæður var hvorki þörf á að setja hana í handjárn með þeirri aðferð sem beitt var, né að setja hana inn í bifreiðina með þeim hætti sem gert var. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða, en rétt er að hann sæti fangelsi í 30 daga, sem bundið verði skilorði eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 400.000 krónur í miskabætur að viðbættum útlögðum kostnaði hennar að fjárhæð 29.833 krónur og ber sú krafa vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærða gert að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði, Kristján Örn Kristjánsson, sæti fangelsi í 30 daga. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 429.833 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. júlí 2013 til 25. október sama ár og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 560.150 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Báðir málsaðilar vilja miða við að rétt hafi verið að handtaka A umrætt sinn og vísar ákærði til þess að hann hafi viðhaft eina af þeim aðferðum sem viðurkennd er hjá lögreglu að nota megi. Þrátt fyrir það fellst ég á með héraðsdómi að með því að beita þessari aðferð á þann hátt sem um ræðir, í stað annarrar sem stóð til boða, hafi ákærði beitt meira valdi en nauðsyn bar til, einkum þegar litið er til ástands A. Þá vil ég staðfesta héraðsdóm um að sú aðgerð að setja A í handjárn og færa hana með aðstoð annars lögreglumanns í lögreglubifreiðina með þeim hætti sem gert var teljist ekki hluti af refsiverðri háttsemi ákærða. Að þessu sérstaklega gættu tel ég að héraðsdómur eigi að vera óraskaður um sakfellingu ákærða, ákvörðun refsingar og sakarkostnað. Á hinn bóginn er ég samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um miskabætur og áfrýjunarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2013.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 28. ágúst síðastliðinn, á hendur Kristjáni Erni Kristjánssyni, kennitala [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi sem lögreglumaður, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. júlí 2013 farið offari og eigi gætt lögmætra aðferða við handtöku A á Laugavegi við Vegamótastíg í Reykjavík. Ákærði rykkti án fyrirvara í hægri handlegg A og slengdi henni niður þannig að hún féll með bakhlutann á bekkarm og þaðan í götuna. Ákærði dró A því næst stuttan spöl eftir götunni, setti vinstra hné í bak hennar, hægra hné í hnakka hennar, handjárnaði konuna án þess að aðstæður krefðust þess, auk þess að setja hana á magann með höfuðið á undan inn í lögreglubifreið. Við þetta hlaut A mar á hægri upphandlegg, mar á hægri mjaðmakamb, mar utanvert á hægra hné, bólgu yfir hægra augnloki og mar yfir hægra kinnbeini.

Telst þetta varða við 132. gr. og 217. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 1.451.438, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 7. júlí 2013 þar til 30 dagar eru liðnir frá birtingu kröfunnar, en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.“

                Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er aðallega krafist að bótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Ákærði krefst þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði svo og málsvarnarlaun verjanda hans.

II

                Málavextir eru þeir að ákærði, sem er lögreglumaður í Reykjavík, ók lögreglubíl niður Laugaveg á þeim tíma sem í ákæru greinir. Ásamt honum var annar lögreglumaður í bílnum og lögreglunemi. Á þeim stað, sem í ákæru greinir, komu lögreglumennirnir að konu sem sat á götunni. Ákærði ritaði skýrslu um það sem gerðist og samkvæmt henni gerðist þetta klukkan 05.00 nefnda nótt og hann ritar skýrsluna klukkan 05.22 sömu nótt. Samkvæmt skýrslunni var kallað til konunnar og hún beðin að færa sig, en hún sinnti því ekki og var því beiðnin ítrekuð. Síðan segir í skýrslu ákærða: „Þá stóð hún upp og horfði á okkur. Færði hún sig örlítið til hliðar og ætlaði ég að aka fram hjá henni. Er ég sveigði frá henni til að komast fram hjá henni lét hún sig falla á hlið lögreglubifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hliðarspegill beygðist harkalega á lögreglubifreiðina.“ Í framhaldinu hrækti konan, brotaþoli, á ákærða og var hún því handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún var vistuð í fangaklefa. Klukkan 07.15 að morgni 7. júlí ritar ákærði aðra skýrslu þar sem ætluð brot brotaþola eru tilgreind þau að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu og ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni. Ástæða handtöku er sögð vera að koma í veg fyrir áframhaldandi brot.

                Meðal gagna málsins eru tvö myndskeið sem sýna atburðarásina á vettvangi. Annað myndskeiðið er úr öryggismyndavél verslunar sem er norðan megin við götuna og tekur myndir niður Laugaveginn. Á myndinni sést brotaþoli koma gangandi upp götuna og maður með henni. Bæði eru greinilega drukkin. Maðurinn heldur á poka sem hann missir og brotnar innihald hans og vökvi lekur út á götu. Brotaþoli og maðurinn setjast í götuna og huga að brotnu innihaldi pokans. Brátt bætast tveir aðrir við sem setjast á götuna við hlið brotaþola en maðurinn fer á brott. Eftir nokkra stund kemur lögreglubíll akandi með blikkandi ljósum og stöðvar fyrir framan brotaþola. Hún sést standa fyrir framan bílinn og horfa á hann. Síðan hverfur hún ökumannsmegin við hann. Lögreglumaður kemur út úr bílnum farþegamegin að framan og hraðar sér fram fyrir hann. Skömmu síðar kemur annar lögreglumaður út úr bílnum og fer einnig fram fyrir hann. Í því sést ákærði halda í hægri handlegg brotaþola og draga hana aftur með bílnum og leggja hana á magann. Í því kemur annar lögreglumaður honum til aðstoðar og saman handjárna þeir brotaþola og draga aftur fyrir bílinn. Ákærði sést opna afturdyr lögreglubílsins og ákærði og hinn lögreglumaðurinn draga brotaþola inn í lögreglubílinn að aftan og fara sjálfir inn á eftir. Þriðji lögreglumaðurinn lokar öðrum hurðarvængnum á eftir þeim og þegar ákærði kemur út úr bílnum fer sá þriðji inn í bílinn að aftan og lokar. Ákærði hverfur fram með bílnum sem skömmu síðar er ekið á brott.

                Hitt myndskeiðið er greinilega tekið af efri hæð húss við Laugaveginn, nánast beint yfir þeim stað þar sem atburðirnir gerðust. Í upphafi sést lögreglubíllinn kyrrstæður og brotaþoli á götunni fyrir framan hann að reyna að brölta á fætur. Dylst ekki að hún er verulega ölvuð. Eftir að brotaþoli kemst á fætur stendur hún um stund fyrir framan lögreglubílinn en víkur síðan aðeins til hliðar ökumannsmegin við bílinn sem ekið er hægt áfram. Brotaþoli rekst þá í hliðarspegil bílsins sem leggst upp að honum við það. Framhurð bílsins er ýtt hægt út og hörfar brotaþoli við það aftur á bak og bílnum er ekið hægt áfram. Brotaþoli kemur aftur upp að hurð bílsins ökumannsmegin og mjög nálægt opnum glugga. Skyndilega er hurðinni svipt upp og ákærði kemur út og grípur um hægri handlegg brotaþola sem fellur við það utan í bekk á gangstéttinni. Ákærði heldur um handlegg brotaþola og dregur hana aftur með bílnum og leggur hana þar á magann. Í því sést og annar lögreglumaður koma og saman handjárna þeir brotaþola og færa inn í lögreglubílinn að aftan eins og lýst var hér að framan. Þegar brotaþoli er handjárnuð sést að ákærði heldur vinstra hné við bak hennar og hægra hné á hnakka hennar.

                Brotaþoli leitaði á slysadeild 8. júlí. Í vottorði þaðan segir að hún hafi skýrt svo frá að hún hafi verið „ölvuð og á gangi yfir götu og staðið í vegi fyrir lögreglubifreið og dottið. Stóð svo upp og rakst þá utan í bifreiðina. Lenti þá í orðaskiptum við lögreglu og er ýtt burt með hurðinni, hrækir þá á viðkomandi lögreglumann. Sá stekkur þá út og hefur handtökuferil en hún segist við það hafa rekið höfuðið utan í nærstaddan bekk. Er svo haldið á götunni með andlit niður og handjárnuð.“ Brotaþoli lýsti fyrir lækni verk yfir andliti beggja vegna en þó meira í hægra kinnbeini. Einnig kvaðst hún hafa verk í hægri mjöðm, báðum úlnliðum, vinstri öxl og upphandlegg hægra megin. „Við skoðun á höfði og andliti er sjáanleg bólga yfir hægra augnloki og mar yfir kinnbeini sömu megin, ekki aflögun. Ekki grunur um neina meiriháttar skaða. Eðlileg skoðun á hálsi. Við skoðun á baki eru væg þreyfieymsli yfir neðanverðu mjóbaki, ekki grunur um meiriháttar áverka. Skoðun á brjóstkassa og kvið er eðlileg, ekki merki um áverka. Við skoðun á hægra efra útlim er marblettur yfir aftanverðum upphandlegg og tekin mynd af því. Þreyfieymsli yfir úlnlið en ekki sjáanlegt mar eða bólga, ekki grunur um meiriháttar áverka. Við skoðun á vinstri efri útlim eru fyrst og fremst þreyfieymsli við öxl og ofanvert herðablað en ekki sjáanlegir áverkar. Full hreyfigeta er í öllum liðum efri útlima. Við skoðun á neðra hægra útlim er sjáanlegur marblettur við mjaðmarkamb svo og utanvert hné. Ekki sjáanleg bólga. Vinstri neðri útlimur er eðlilegur að sjá við skoðun.“

                Ákærði leitaði einnig á slysadeild 8. júlí. Er haft eftir honum að ölvuð kona hafi hrækt í vinstra auga hans og bað hann um mat á sýkingarhættu. Ákærði kvaðst þó ekki finna til einkenna annarra en vægra óþæginda. Við skoðun sást slímhúðarbólga en að áliti læknis var mjög ólíklegt að hann hefði sýkst í auganu.

                Meðal gagna málsins er vottorð sjúkraþjálfara og segir þar að hann meti það svo að brotaþoli hafi „hlotið tognun á hálsi, hægri öxl, mjóbaki og hægri mjöðm. Hún á erfitt með að vera lengi í sömu stöðu sem bendir til óstöðugleika í hálsi og mjóbaki og versnar henni fljótt ef hún gerir mikið, t.d. í vinnu eða gengur mikið. Einnig aukast verkir fljótt ef hún gerir mikið af æfingum, sem bendir til þess að æfingar þurfi hún að gera daglega til að auka og viðhalda úthaldi og styrk í háls- og bakvöðvum. Ekki er hægt að segja til um árangur meðferðar þar sem hún hefur einungis mætt í 4 skipti. Hún hefur þó fundið mun á sér eftir meðferðartíma og verkir minni. Hún notar verkjalyf eftir þörfum en virðist ekki hafa mikla þörf fyrir verkjalyf. Hún þarf að öllu óbreyttu á áframhaldandi sjúkraþjálfun að halda til að draga úr verkjum og leiðrétta líkamsstöðu.“

                Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur brotaþola 3. september síðastliðinn þar sem henni var gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa hrækt á ákærða. Með dómi 10. október síðastliðinn var ákærða, sem játaði sök, sakfelld og dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

III

                Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði ekið lögreglubílnum umrædda nótt niður Laugaveg. Hann hafi auk þess verið stjórnandi á vettvangi, en tveir aðrir lögreglumenn hafi verið í bílnum. Á þeim stað, sem í ákæru greinir, hafi hann séð tvær konur og einn karlmann sitja á akbrautinni. Hann kvaðst hafa ekið að þeim og flautað og hefðu karlmaðurinn og önnur konan strax staðið upp og maðurinn reynt að toga hina konuna með sér. Konan hafi hins vegar slitið hann af sér og setið kyrr á götunni. Ákærði kvaðst hafa kveikt á hljóðmerki en konan hefði ekki fært sig og hefði hann þá tekið gjallarhorn og kallað tvisvar eða þrisvar og í síðasta skiptið hefði hann varað hana við og sagt henni að hún yrði handtekin ef hún færði sig ekki. Þá hefði konan staðið upp og horft á lögreglumennina en hann hefði ekið aðeins áfram í von um að hún myndi færa sig. Hún hefði þá fært sig en rekist utan í spegil bílsins og kvaðst ákærði hafa spurt hana hvort eitthvað amaði að henni en ekki mundi hann hvort hún hefði svarað honum. Þessi samskipti hefðu endað með því að konan hefði hrækt á sig og inn í bílinn. Hefði hrákinn lent í andliti hans, auganu, upphandlegg og buxum. Eins hefði hann lent á lögreglumanninum sem sat í farþegasætinu. Þá kvaðst ákærði hafa tekið ákvörðun um að handtaka hana og hefði hann gert það. Hann kvaðst hafa „snúið hana niður“ og lögreglumennirnir, sem með honum voru, hefðu komið og aðstoðað hann og hefði hún verið færð inn í lögreglubílinn. Þá hefði verið farið með hana á lögreglustöð þar sem hún var færð í fangaklefa, enda ekki viðræðuhæf. Ákærði kvað konuna hafa verið ölvaða og í annarlegu ástandi en hann hafi metið það svo að ekki hefði verið ástæða til að handtaka hana vegna þessa. Þá hefði hún staðið upp og hann því ekki talið ástæðu til að aðstoða hana við að færa sig af götunni.

                Um ástæður handtökunnar kvaðst ákærði hafa tekið því mjög alvarlega þegar hrækt var á hann og kvaðst hann hafa beitt framangreindri handtökuaðferð til að koma í veg fyrir að konan hrækti á sig aftur eða slægi sig. Hann kvað þessa aðferð vera þá öruggustu til að verða ekki fyrir frekara ofbeldi. Hann kvaðst ekki hafa tekið þá áhættu að beita vægara úrræði en það væri mat á aðstæðum hverju sinni sem réði því hvaða aðferðum væri beitt. Ákærði kvað konuna ekki hafa sýnt mótþróa, enda hefði hún ekki fengið tækifæri til þess. Handtakan hefði verið fumlaus og tekið stutta stund. Eftir að ákærði hafi verið búinn að snúa konuna niður hefði annar lögreglumaður komið sér til aðstoðar og þeir fært hana að lögreglubílnum. Hún hefði verið lögð á magann vegna þess að ef hún hefði verið upprétt hefði hún alltaf getað hrækt aftur, og af sömu ástæðu hefðu þeir ákveðið að leggja hana á magann í lögreglubílnum, það er til að koma í veg fyrir að hún gæti beitt frekara ofbeldi. Konan hefði hins vegar ekki sýnt mótþróa við handtökuna. Ákærði kvaðst ekki hafa misst stjórn á skapi sínu í umrætt sinn en hann hefði þurft að taka ákvörðun um handtökuna mjög snöggt eins og oft væri við aðstæður eins og þessar. Þá neitaði hann alfarið að hafa ætlað að valda konunni meiðslum, en  aldrei hefði annað komið til greina, eins og á stóð, en að handjárna hana. Þá kvaðst ákærði ekki hafa sett hné í hnakka hennar heldur hefði hann sett vinstra hné í mjóbak og hægra hné í öxl konunnar. Hann kvaðst hafa dregið hana þannig að hún hélst uppi þar til hún var lögð á magann. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir bekknum á gangstéttinni þar sem brotaþoli var handtekin.

Ákærði kvaðst hafa útskrifast úr Lögregluskólanum í desember 2008 og starfað sem lögreglumaður samfleytt frá þeim tíma. Hann kvaðst hafa verið farsæll í starfi og ekki fengið áminningar.

Brotaþoli bar að hún hefði verið mjög drukkin þessa nótt. Hún hefði komið gangandi upp Laugaveginn með vini sínum sem hafi haldið á poka sem hann svo missti í götuna. Þá hefðu þau sest á götuna og setið þar í smástund. Vinurinn hefði svo farið og skömmu síðar hefði lögreglubíll komið að sér þar sem hún sat á götunni. Hún hefði verið beðin, í gegnum kallkerfi, vinsamlegast að færa sig af götunni. Hún kvaðst hafa verið eitthvað sein til að standa á fætur og hafi það verið vegna ölvunar hennar. Þá hefði karlmannsrödd kallað til sín að færa sig og hefði röddin verið frekar ruddaleg. Þá hefði hún verið spurð að því hvort hún væri þroskaheft og hvort hún ætlaði að láta handtaka sig. Eins hefði röddin sagt sér að „drulla“ sér af götunni og hefði þetta líklega verið kallað út um glugga bílsins. Brotaþoli kvaðst hafa staðið upp til að færa sig og hefði það tekið smátíma. Hún kvaðst hafa gengið til hliðar við bílinn ökumannsmegin og hefði bíllinn ekið mjög hægt fram hjá sér og hefði andlit hennar strokist við hliðarspegilinn. Bíllinn hefði síðan stöðvað og hefði hún þá verið við opinn gluggann. Einhver orðaskipti hefðu átt sér stað, en ekki kvaðst hún muna hver þau voru. Hurð bílsins hefði verið opnuð og sér ýtt með henni. Síðan hefði bíllinn ekið löturhægt af stað áfram. Brotaþoli kvaðst líklega hafa sagt eitthvað við ökumanninn því að bíllinn var stöðvaður og kvaðst hún þá hafa gengið upp að bílnum og „tuffað“ inn um gluggann. Hún kvaðst hafa hrækt inn um gluggann en hvorki safnað munnvatni né ræskt sig heldur hafi þetta gerst mjög hratt. Eftir þetta kvaðst hún ekki muna mikið, en mundi þó að hafa verið í jörðinni og að hafa komið inn í lögreglubílinn og verið þar á maganum og með andlitið í gólfinu en síðan hafi hún verið sett í sæti og í öryggisbelti. Eftir það hefði henni verið ekið á lögreglustöð þar sem hún hefði verið vistuð í fangaklefa.

Brotaþoli kvaðst ekki muna hvað henni og lögreglumanninum fór á milli en kvaðst þó muna að hann hafi verið mjög ágengur í orðum. Þá kvaðst hún ekki geta útskýrt af hverju hún hefði hrækt á hann, en tók fram að hún ætti ekkert sökótt við lögregluna eða lögreglumenn. Hún kvaðst í raun ekki hafa tekið ákvörðun um að ganga upp glugganum og hrækja. Þetta allt væri mikilli ölvun sinni að kenna. Brotaþoli kvað sér hafa liðið illa í andlitinu eftir þetta og eins hefði hún verið víða með marbletti og för eftir grip. Þá hefði hún verið bólgin á hægri öxl og baki. Loks hefði sér verið illt í mjöðm og þar hefði verið stór marblettur. Hún kvaðst enn vera mjög slæm í mjöðmum og víðar um líkamann. Þá væru ýmsar hreyfingar sér erfiðar og hún hefði verið í sjúkraþjálfun. Hún ætti erfitt með svefn vegna verkja. Þá hefði þetta haft andlegar afleiðingar og hún kvaðst til dæmis hafa orðið fyrir miklu áreiti eftir að myndband af handtökunni birtist á netinu.

Lögreglunemi, sem var með ákærða í lögreglubílnum og sat í aftursæti, bar að þrennt hafi setið í götunni og hafi þau verið beðin að fara. Tvennt hafi orðið við því en ein stúlka hafi setið eftir. Hún hafi svo staðið á fætur og gengið til hliðar og komið að glugga lögreglubílsins. Ekki kvaðst neminn muna eftir orðaskiptum. Stúlkan hefði rekist utan í hliðarspegil eða spegillinn í hana og í framhaldi hafi orðið frekari orðaskipti og svo hafi stúlkan hrækt inn í bílinn en ekki sá neminn hvar hrákinn lenti. Eftir þetta hefði ákærði farið út úr bílnum og svo lögreglumaðurinn sem sat í framsætinu. Neminn kvaðst hafa sett á sig hanska og húfu og einnig farið út. Þegar neminn kom að ákærða og hinum lögreglumanninum hafi þeir verið með stúlkuna í tökum og verið að handjárna hana. Hún hafi síðan verið sett inn í lögreglubílinn og kvaðst neminn hafa farið inn og lokað hurðinni á eftir sér. Stúlkan hafi verið lögð eins og á vinstri hlið í bílnum og sett í fótlás, enda hefði hún verið að brjótast um. Hún hefði legið svoleiðis alla leiðina og ekki verið látin setjast.

Lögregluneminn kvaðst ekki muna eftir orðaskiptum ákærða og stúlkunnar, en stúlkan hafi verið drukkin. Neminn kvaðst ekki hafa séð sjálfa handtökuna, en séð þegar stúlkan var handjárnuð.

Lögreglumaðurinn, sem sat í farþegasætinu við hlið ákærða, bar að fólk hafi setið á götunni umrædda nótt eins og rakið var. Ákærði hefði gefið fólkinu skipun um að fara af götunni og hefðu allir orðið við því nema ein kona. Hún hafi þó staðið upp um síðir og staðið í smástund fyrir framan lögreglubílinn en komið svo til hliðar við hann og rekið sig í hliðarspegil. Ákærði hefði þá opnað hurðina og með því ýtt konunni frá bílnum. Einhver orðaskipti voru milli ákærða og konunnar í framhaldinu en ekki kvaðst hann mun hver þau voru. Síðan hefði konan ræskt sig, horft á ákærða og hrækt inn í bílinn og að ákærða, en ekki kvaðst hann hafa séð hvar hrákinn lenti. Lögreglumaðurinn kvað sig og ákærða hafa farið út úr bílnum og þegar hann kom að kvaðst hann hafa séð konuna liggja á jörðinni og ákærða standa yfir henni og vera að setja hana í tök. Hann kvaðst hafa komið að konunni vinstra megin og aðstoðað ákærða við að handjárna hana. Þeir hafi síðan fært hana inn í bílinn þar sem hún hefði verið lögð á magann og þannig hafi hún verið flutt á lögreglustöðina. Á leiðinni þangað kvaðst lögreglumaðurinn hafa haldið við konuna um axlirnar en lögregluneminn við fæturna enda hafi konan barist mikið um og sparkað frá sér.

Lögreglumaðurinn kvað konuna hafa verið mjög ölvaða, en sér hefði ekki staðið ógn af henni fyrr en eftir að hún hrækti. Eftir það gátu lögreglumennirnir ekki vitað við hverju mátti búast af henni. Hann kvað konuna ekki hafa sýnt mótþróa eftir að hann kom að handtökunni.

Stúlka, sem sat við hliðina á brotaþola umrædda nótt, kvaðst hafa staðið upp þegar skipun barst um það frá lögreglubílnum. Skipunin hafi verið á þá lund að ef þau færu ekki þá yrðu þau handtekin. Brotaþoli hafi staðið upp á eftir. Sjálf hafi hún farið á gangstéttina til manns síns, er staðið hafði upp á undan henni. Þau hafi haldið sig til hlés og það næsta sem hún kvaðst hafa séð var þegar brotaþoli hafi verið að lenda í götunni og eins hefði hún séð handtökuna en ekki þegar brotaþoli var færð inn í lögreglubílinn. Stúlkan kvað brotaþola hafa verið „vel í glasi“ eins og hún orðaði það.

Maður framangreindrar stúlku bar að hafa haft samskipti við brotaþola eins og að framan er lýst. Þá bar hann á sama hátt og að framan er lýst um skipun frá lögreglubílnum. Hann kvaðst hafa gengið frá og skömmu síðar heyrt mikil læti og öskur. Hann kvaðst ekki hafa séð þegar brotaþoli var handtekinn. Maðurinn kvað brotaþola hafa verið mjög ölvaða.

Stúlka, sem var á vettvangi, bar að hafa séð að eitthvað hafi verið að gerast fyrir framan lögreglubílinn og séð að ung kona, sem hafi farið vinstra megin við lögreglubílinn, var slegin niður í bekkinn sem var við hliðina á lögreglubílnum. Þessu næst hafi konan verið dregin eftir jörðinni og inn í lögreglubíl og hent þar á gólfið eins og hún orðaði það. Stúlkan kvað konuna hafa verið ofurölvi.

Önnur stúlka, sem einnig var á vettvangi, bar að hafa séð kyrrstæðan lögreglubíl og eitthvað hafi verið að gerast fyrir framan hann. Hún bar að hafa séð lögreglumenn taka konu harkalega og eiginlega köstuðu þeir henni inn í lögreglubílinn eins og hún orðaði það.

Læknirinn, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann kvaðst ekki sjálfur hafa skoðað brotaþola heldur hefði deildarlæknir gert það. Læknirinn kvaðst hafa ritað vottorðið upp úr sjúkraskrá brotaþola. Hann kvað áverka brotaþola hafa getað orsakast af handtöku. Hann kvað ekki líkindi til langvarandi skaða af áverkunum. Þá kvaðst læknirinn hafa skoðað ákærða vegna gruns um sýkingu í auga, en hún hafi ekki verið til staðar.

Sjúkraþjálfari, sem brotaþoli gekk til, staðfesti vottorð um brotaþola. Hann bar að brotaþoli hefði fengið verki í háls og bak í kjölfar handtökunnar. Hún hefði leitað til sín fjórum sinnum. Þá staðfesti hann framangreint álit sitt um áverka á henni.

Þá kom fyrir dóm lögreglufulltrúi sem kennir lögreglutök við lögregluskólann svo og tveir lögreglumenn sem þjálfa lögreglumenn í þessum tökum. Þeir báru um það hvernig lögreglumönnum er kennt að handtaka fólk en enginn þeirra var vitni að þeim atburði sem málið fjallar um. Ekki er þörf á að gera grein fyrir framburði þeirra.

IV

                Á myndböndunum, sem lýst var í II. kafla, sést, svo ekki fer milli mála, að brotaþoli var verulega drukkin og er það í samræmi við framburð ákærða og vitna, þar á meðal hennar sjálfrar. Á myndböndunum sést að hún er lengi að standa á fætur og eftir að hún er loksins staðin upp er eins og hún rambi frekar fram og til baka en að hún gangi. Á þann hátt er eins og hún í tvígang komi upp að lögreglubílnum og í seinna skiptið hrækir hún á ákærða eins og lýst var. Með þessu veittist brotaþoli að ákærða með ofbeldi og braut þannig gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga eins og hún hefur verið dæmd fyrir. Ákærða var því rétt að handtaka brotaþola, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 og 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í 14. gr. lögreglulaga segir að handhöfum lögregluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei megi þó ganga lengra í beitingu valds en þörf sé á hverju sinni.                         

                Ákærða er gefið að sök að hafa farið offari við handtöku brotaþola og eigi gætt lögmætra aðferða við hana. Því er hins vegar ekki haldið fram að ekki hafi verið fullt tilefni til handtökunnar og var það áréttað af sækjandanum við flutning málsins. Þá er því heldur ekki haldið fram að ákærði hafi ekki beitt réttum lögreglutökum við handtökuna. Lýsingin í ákæru á aðferðum ákærða við handtökuna er í samræmi við það sem sést á myndböndunum og fær auk þess stoð í framburði ákærða og vitna eins og rakið var. Það er því fyrst til úrlausnar hvort ákærði hafi farið offari við handtökuna og við hana gengið lengra en þörf var á. Brotaþoli hafði beitt ákærða ofbeldi með því að hrækja á hann og var því fullt tilefni fyrir hann að tryggja að hún gerði það ekki aftur. Þess vegna var rétt af honum að gæta þess við handtökuna að brotaþoli sneri ekki andliti sínu að honum. Hins vegar er á það að líta að ákærða gat ekki dulist mikil ölvun brotaþola og þá um leið að þess var vart að vænta að hún myndi veita mikla mótspyrnu. Þess vegna verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að snúa brotaþola niður á þann hátt sem gert var og draga hana eftir götunni, þótt aðeins væri um stuttan spöl að ræða og í kjölfarið að handjárna hana liggjandi á maganum í götunni og setja hné í hana á þann hátt sem lýst var. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi beitt meira valdi við handtökuna en nauðsyn bar til. Hann hafi því farið offari við hana og ekki gætt lögmætra aðferða. Með þessu braut ákærði gegn 132. gr. almennra hegningarlaga eins og hann er ákærður fyrir. Hins vegar verður ekki séð að ákærði hafi farið offari við að setja brotaþola inn í lögreglubílinn eins og lýst var. Þá verður ekki fallist á það með ákæruvaldinu að ónauðsynlegt hafi verið að setja brotaþola í handjárn. Hafa verður í huga við hvaða aðstæður brotaþoli er handtekin, en myndböndin bera með sér að allmargt fólk hafi verið á vettvangi, að líkindum flest undir áhrifum áfengis. Alkunna er að við slíkar aðstæður vilja margir hafa skoðanir á verkum lögreglumanna og eiga þá til að láta hendur skipta ef ekki er farið að tillögum þeirra. Það verður því fallist á með ákærða að nauðsynlegt hafi verið að handtakan gengi fljótt fyrir sig til að öryggi lögreglumanna og brotaþola væri tryggt.

                Í öðru lagi er það til úrlausnar hvort ákærði hafi brotið gegn 217. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga. Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hefði farið offari við handtökuna og hann hefði beitt meira valdi við hana en nauðsynlegt var. Ákærða mátti vera ljóst að brotaþoli myndi, með þeirri aðferð sem hann beitti, meiðast umfram það sem búast má við að gerist þegar fólk er handtekið. Eins og framangreint læknisvottorð ber með sér meiddist brotaþoli og voru meiðsli hennar umtalsvert meiri en búast hefði mátt við ef rétt hefði verið að handtökunni staðið. Samkvæmt þessu verður hann einnig sakfelldur fyrir brot á 217. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Með hliðsjón af refsiramma lagaákvæðanna, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir að brjóta, er refsing hans hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði segir.

                Með vísun til framangreindrar niðurstöðu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur. Við aðalmeðferð lækkaði hún bótakröfu sína í 1.368.683 krónur. Krafan sundurliðast svo að krafist er miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna og 29.833 króna vegna útlagðs kostnaðar. Þá var krafist lögmannskostnaðar en fallið var frá þeim kröfulið er lögmaður hennar var skipaður réttargæslumaður og krafðist hann launa sem réttargæslumaður.  Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 200.000 krónur og þá verður krafa um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar tekin til greina. Samkvæmt þessu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 229.833 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er 30 dagar voru liðnir frá þeim degi.

                Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns ásamt þóknun réttargæslumanns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til aksturskostnaðar.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Kristján Örn Kristjánsson, greiði 300.000 krónur í sekt og komi 22 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.

                Ákærði greiði A 229.833 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. júlí 2013 til 25. október sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 68.000 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, Gríms Hergeirssonar hdl., 700.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 251.000 krónur.