Hæstiréttur íslands
Mál nr. 835/2017
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Innstæða
- Dráttarvextir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Lögvarðir hagsmunir
- Aðfinnslur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst þess aðallega að „viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til þess að greiða áfrýjanda dráttarvexti, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af innstæðu á bankareikningi áfrýjanda nr. 580-38-553217 hjá stefnda þann 15. október 2008, að frádregnum þegar greiddum innlánsvöxtum, frá þeim degi til greiðsludags“. Til vara krefst áfrýjandi þess að „viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna tjóns áfrýjanda af því að honum var ekki unnt að leysa til sín innstæðuna á bankareikningi hans hjá stefnda nr. 580-38-553217, þar sem stefndi upplýsti áfrýjanda ekki um tilvist, fjárhæð eða uppruna innstæðu reikningsins, frá 15. október 2008 til 28. desember 2015“. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi tók yfir innstæðu áfrýjanda á bankareikningi þeim sem aðalkrafa hans lýtur að 15. október 2008, klukkan 9 samkvæmt 7. tölulið, sbr. 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Frá sama tímamarki tók stefndi við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi en áfrýjandi hafði sagt upp slíkum samningi við bankann 4. ágúst 2008. Engin samningsskuldbinding áfrýjanda á hendur Glitni banka hf. fluttist því yfir til stefnda samhliða yfirfærslu innstæðu í norskum krónum á umræddum reikningi. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að stefndi skuli vera sýkn af aðalkröfu áfrýjanda í málinu.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Gildir það án tillits til þess hvort unnt væri að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Þessi heimild er þó háð því að sá sem höfðar mál hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni.
Í héraðsdómsstefnu kemur fram að varakrafa áfrýjanda sé á því reist að hann hafi orðið fyrir tjóni við það að geta ekki hagnýtt sér þá fjármuni sem hann átti á bankareikningi nr. 580-38-553217 eftir að innstæðan fluttist til stefnda 15. október 2008. Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar segir að tjón þetta sé augljóst og þarfnist hvorki frekari rökstuðnings né sé unnt að veita hann. Er þar jafnframt vísað til þess sem felist í „hinni algerlega óumdeildu hagfræðifullyrðingu um tímavirði peninga“, það er að „peningur í nútíð sé meira virði en sama fjárhæð í framtíðinni vegna ávöxtunarmöguleika sinna“. Þá segir að ekki sé unnt að rökstyðja nákvæmlega hvert tjón áfrýjanda hafi verið þar sem ekki sé unnt að fullyrða um hvernig hann hefði varið fjármununum ef stefndi hefði millifært þá til hans á fyrra tímamarki.
Áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni við það að hafa ekki leyst til sín innstæðu á framangreindum bankareikningi á þeim tíma sem um ræðir. Jafnframt liggur fyrir að hann naut ávöxtunar innstæðunnar á reikningnum hjá stefnda. Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 þannig að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr varakröfu sinni fyrir dómi. Verður kröfunni því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Það athugast að við meðferð málsins lagði áfrýjandi fram fjölmörg skjöl á enskri tungu án þess að þeim fylgdi þýðing á íslensku. Var þetta ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Er það aðfinnsluvert.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af aðalkröfu áfrýjanda, Bedula Ltd.
Varakröfu áfrýjanda er vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017.
I.
Mál þetta sem höfðað var hinn 23. desember 2016, var dómtekið 18. október 2017. Stefnandi er Bedula Ltd., 28-30 Parade Street, Jersey, en stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til þess að greiða stefnanda dráttarvexti, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af innstæðu á bankareikningi stefnanda nr. 580-38-553217 hjá stefnda hinn 15. október 2008, frá þeim degi til 5. ágúst 2016, að frádregnum þegar greiddum innlánsvöxtum.
Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna tjóns stefnanda af því að honum var ekki unnt að leysa til sín innstæðuna á bankareikningi hans hjá stefnda nr. 580-38-553217, þar sem stefndi upplýsti stefnanda ekki um tilvist, fjárhæð eða uppruna innstæðu reikningsins, frá 15. október 2008 til 28. desember 2015.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
II.
Í janúar árið 2007 gerði stefnandi samning um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf. Samkvæmt samningnum tók bankinn að sér vörsluþjónustu, valkvæða eignastýringu og einkabankaþjónustu fyrir stefnanda. Í tengslum við vörslu- og eignastýringaþjónustu Glitnis banka hf. skyldi bankinn m.a. opna vörslureikning þar sem færa bæri inn öll verðbréf stefnanda.
Á grundvelli samningsins við stefnda um einkabankaþjónustu var stofnaður vörslureikningur nr. 13289. Í tengslum við þann reikning voru einnig opnaðir nokkrir bankareikningar þar á meðal bankareikningur nr. 580-38-553217.
Hinn 4. ágúst 2008, sagði stefnandi upp umræddum samningi um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf., með þeim fyrirmælum að loka skyldi reikningum með númerin 13289, 13290 og 13489, sem tengdust einkabankaþjónustusamningnum, og að innstæður þeirra yrðu millifærðar til Kaupthing Bank í Lúxemborg S.A. Er óumdeilt að allar eignir stefnanda á vörslureikningum hans hjá Glitni banka hf. voru millifærðar og reikningum lokað eins og óskað var eftir en að undanskilinni innstæðu á áðurgreindum bankareikningi nr. 580-38-553217 sem varð eftir hjá Glitni banka hf.
Í tölvupósti sem stefnandi sendi stefnda hinn 4. júní 2009 í kjölfar fyrirspurnar frá stefnda, eru taldir upp átta bankareikingar sem tengdir voru vörslureikningi 13289. Í þeirri upptalningu er ekki getið um bankareikning nr. 580-38-553217.
Í september árið 2015, bárust stefnanda óformlegar upplýsingar um að hann ætti u.þ.b. fjórar milljónir norskra króna á fyrrgreindum bankareikningi hjá stefnda. Var þar um að ræða söluandvirði verðbréfa sem áttu sér stað á árunum 2006 til 2008.
Með tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda, dags. 11. desember 2015 til starfsmanns stefnda, var þess óskað að innstæðan yrði millifærð á reikning stefnanda í Arion banka hf. Stefndi samþykkti að verða við þeirri beiðni hinn 15. desember sama mánaðar, en áður en til þess kom sendi stefnandi beiðni um að hætt yrði við millifærsluna og óskaði um leið eftir nánari upplýsingum. Varð stefndi við þeirri beiðni stefnanda og afturkallaði áður gefin fyrirmæli um millifærsluna til stefnanda. Í kjölfarið fóru bréf á milli málsaðila þessu tengdu, sbr. bréf stefnanda, dags. 23. desember 2015 og svarbréf stefnda hinn 4. janúar 2016.
Með bréfi stefnanda, dags. 8. júní 2016, krafði hann stefnda um greiðslu dráttarvaxta og skaðabóta vegna þess tjóns sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir vegna vörslu stefnda á umræddri innstæðu stefnanda í norskum krónum.
Stefndi hafnaði kröfu stefnanda með bréfi, dags. 7. júlí 2016. Í svari stefnda kemur m.a. fram að umrædd innstæða hafi verið á safnreikningi, sem tengdist eignastýringareikningi. Innstæðan hafi því einungis verið merkt stefnanda í athugasemd á safnreikningi, eins og tíðkast hafi um reikninga sem tengdir voru vörslureikningum vegna eignastýringar. Þar sem ekki hafi lengur verið til að dreifa eignastýringarsamningi, þar eð honum hafi áður verið sagt upp af stefnanda, og þess vegna engri tengingu við vörslureikninga, hafi kerfi bankans ekki gripið innstæðuna. Því hafi engin yfirlit um tilvist hennar verið send til stefnanda, svo vitað væri.
Með tölvupósti stefnanda hinn 4. ágúst 2016, var þess óskað að innstæðan yrði greidd stefnanda og var millifærslan framkvæmd næsta dag með greiðslu höfuðstóls og áfallinna vaxta.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tók stefndi frá og með 15. október 2008 við skuldbindingum vegna innlána viðskiptavina Glitnis banka hf., sbr. 7. tölul. ákvörðunarinnar. Jafnframt tók stefndi við réttindum og skyldum bankans samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi, sbr. 5. tölul. ákvörðunarinnar.
Soffía Gunnarsdóttir fyrrverandi starfsmaður eignastýringar Glitnis banka hf. kom fyrir dóminn og gaf skýrslu þegar aðalmeðferð málsins fór fram.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því að að stefnda hafi borið að greiða honum út alla innstæðuna á bankareikningi nr. 580-38-553217, í samræmi við fyrri kröfu hans til Glitnis banka hf. í ágústmánuði árið 2008, um að öllum reikningum í hans eigu hjá bankanum yrði lokað og fjármunir sem á þeim væru yrðu fluttir til Kaupthing Bank Lúxemborg. Þann 15. október 2008 kl. 9.00, hafi Glitnir banki hf. ekki verið búinn að flytja innstæðuna og því hafi sú skylda fylgt innstæðunni við yfirfærsluna til stefnda. Um hafi verið að ræða skuldbindingu sem stefndi hafi tekið yfir.
Stefnandi vísar til 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008. Þó að stefnandi hafi sagt samningnum upp hinn 4. ágúst 2008 sé ljóst að sú uppsögn hafi ekki komið að fullu til framkvæmda af hálfu Glitnis banka hf. Bankinn hafi haldið eftir innstæðunni og skyldur hans hafi flust yfir til stefnda hinn 15. október 2008, að því er innstæðuna varðar.
Stefndi telur að við flutning innstæðunnar hafi verið fyrir hendi tvö aðskilin en tengd samningssambönd á milli Glitnis banka hf. og stefnanda sem bæði hafi flust yfir til stefnda. Annars vegar samningssamband samkvæmt samningi um einkabankaþjónustu, hins vegar samningssamband um innstæðu sem varð til þegar innlánsreikningur var stofnaður í nafni stefnanda hjá stefnda. Efni samningssambandsins um innstæðuna hafi ráðist af þeim skilmálum Glitnis banka hf. sem giltu um kjör slíkra reikninga og réttindi og skyldur aðila að öðru leyti, t.d. að því er varðar vaxtastig og skyldu bankans til að senda stefnanda yfirlit.
Stefnandi telur að í uppsögn hans á samningi um einkabankaþjónustu og fyrirmælum um flutning fjármuna til Kaupthing Bank Lúxemborg sé ákvöð sem hafi verið bindandi fyrir Glitni banka hf. þegar hún barst honum.
Stefnandi telur að þegar uppsögnin og greiðslufyrirmælin bárust Glitni banka hf. hinn 4. ágúst 2008, hafi frestur samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 byrjað að líða. Hafi Glitni banka hf. því borið að greiða stefnanda dráttarvexti af innstæðunni þegar liðinn var einn mánuður frá því að hann var krafinn um greiðslu hennar og allt þar til bankinn greiddi innstæðuna. Skyldan til að greiða vexti af innstæðunni hvort sem um var að ræða samningsvexti eða dráttarvexti, hafi fylgt innstæðunni til stefnda þann 15. október 2008 kl. 9.00, enda hafi stefndi ekki getað öðlast betri eða meiri rétt gagnvart stefnanda að þessu leyti en Glitnir banki hf. hafi notið. Þar sem liðinn hafi verið meira en einn mánuður frá uppsögninni og greiðslufyrirmælunum þegar innstæðan fluttist til stefnda hafi viðeigandi vextir verið dráttarvextir. Stefnandi byggir ekki á því að stefnda beri skylda til að greiða áfallna dráttarvexti á því tímamarki þegar innstæðan fluttist frá Glitni banka hf. til stefnda, enda ljóst að slíkri kröfu væri réttilega beint að Glitni banka hf. Hins vegar sé skyldan til greiðslu dráttarvaxta frá því tímamarki skuldbinding vegna innstæðunnar, enda réttur stefnanda til dráttarvaxta þá orðinn virkur og á þeim vaxtagreiðslum beri stefndi ábyrgð.
Til grundvallar varakröfu sinni tekur stefnandi fram að hann telji sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi hafi hvorki upplýst hann um tilvist né innstæðu bankareiknings nr. 580-38-553217. Stefndi beri bótaábyrgð á því tjóni. Tekur stefnandi fram að umfang tjóns hans sé ekki til umfjöllunar samkvæmt varakröfunni, en einu gildi hvort það verði bætt með greiðslu dráttarvaxta, annarra vaxta eða annarra skaðabóta. Tjón hans stafi af því að þann tíma sem hann átti innstæðu á bankareikningi nr. 580-38-553217 hjá stefnda hafi hann ekki getað hagnýtt sér þá fjármuni. Tjón stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg afleiðing af saknæmri háttsemi starfsmanna stefnda, sem stefndi beri ábyrgð á. Stefndi hafi viðurkennt að honum hafi borið að senda stefnanda yfirlit vegna reikningsins, og að það hafi ekki verið gert. Telur stefnandi að skyldu þessa leiði af almennum skilmálum stefnda. Vísar stefnandi til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 9. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 670/2013.
Þá byggir stefnandi varakröfu sína á því að bankareikningur nr. 580-38-553217 hafi verið stofnaður á grundvelli samnings hans og Glitnis banka hf. um einkabankaþjónustu. Við þeim skyldum hafi stefndi tekið, sbr. 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki átt aðkomu að samningi stefnanda við Glitni banka hf. Stefndi hafi einungis yfirtekið innstæðuskuldbindingu Glitnis banka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og hafi greitt stefnanda innstæðuna þegar krafa um það hafi verið gerð.
Stefndi bendir á að innstæða á reikningi nr. 580-38-553217 hafi ekki verið millifærð í kjölfar uppsagnarbréfs stefnanda hinn 4. ágúst 2008 til Glitnis banka hf. þar sem um það hafi ekki verið beðið í umræddu bréfi, hvorki þá né síðar.
Stefndi hafnar því að hafa tekið á sig ábyrgð á einstaka verkum eða störfum Glitnis banka hf. almennt, þar með töldum ætluðum misgjörðum, þegar hann tók við skuldbindingum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Stefndi hafi frá 15. október 2008, tekið við innlánum viðskiptavina Glitnis banka hf. svo og réttindum og skyldum bankans samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini hans á Íslandi. Á þeim tíma hafi samningur stefnanda við Glitni banka hf. verið niður fallinn, en innstæðukrafan eftir þetta verið skuldbinding stefnda. Stefndi hafi gengist við henni og efnt að fullu. Stefndi beri ekki ábyrgð á því að innstæðan á bankareikningi nr. 580-38-553217 í eigu stefnanda hafi ekki verið millifærð til Kaupthing í Lúxemborg í ágúst 2008.
Stefndi telur að stefnandi hafi sýnt af sér algjört tómlæti. Þegar upp hafi komist um stöðu mála stefnanda um sjö árum síðar, hafi stefndi tilkynnt stefnanda hvers kyns væri og lýst sig reiðubúinn til að greiða fjárhæðina. Í ljósi þessa og með vísan til uppsagnar einkabankaþjónustu stefnanda hjá Glitni banka hf. í ágúst 2008 og að kröfu um millifærslu innstæðunnar hafi fyrst verið beint að stefnda með bréfi 11. desember 2015, líti stefndi svo á að ekki sé unnt að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt tjón af ætluðum mistökum Glitnis banka hf. eða stefnda. Ekki hafi verið sýnt fram á að afdrif þessara hagsmuna hefðu orðið betri á þeim tíma sem um ræðir með öðrum fjárfestingum. Með lögum nr. 125/2008 hafi innstæðuskuldbindingar verið gerðar að forgangskröfum við slitameðferð og í framhaldinu hafi íslensk stjórnvöld flutt þær skuldbindingar án nokkurrar skerðingar yfir til stefnda. Stefnandi virðist byggja á því að flytja hafi átt innstæðurnar til Kaupþings í Lúxemborg sem sætti slitameðferð. Telur stefndi að ef stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, þá sé það fyrst og fremst sprottið af því að stefnandi hafi sjálfur gefið óskýr fyrirmæli um millifærslu peningainnstæðna.
Stefndi hafnar því að í uppsögn stefnanda á einkabankaþjónustusamningi við annan lögaðila, felist að stefnandi hafi sannanlega krafið stefnda með réttu um greiðslu kröfunnar. Þá geti upplýsingabeiðni stefnanda sem fram kom í bréfi hans 23. desember 2015 ekki jafngilt kröfu um greiðslu sem virki upphafstíma dráttarvaxta.
Staðreyndin sé sú að stefnandi hafi fyrst farið þess á leit við stefnda með tölvupósti 11. desember 2015, að bankinn millifærði innstæðu reikningsins á annan reikning félagsins í öðrum banka. Stefndi hafi orðið við þeirri beiðni 15. desember. Síðar sama dag hafi stefnandi sent beiðni um að hætt yrði við millifærsluna og hafi óskað eftir frekari upplýsingum. Stefndi hafi að sjálfsögðu orðið við þeirri beiðni. Um átta mánuðum síðar, 4. ágúst 2016, sendi stefnandi stefnda með tölvupósti annað bréf og fór þess á leit að innstæðukrafan yrði greidd. Millifærslan hafi verið framkvæmd næsta dag með greiðslu höfuðstóls og áfallinna vaxta. Með greiðslunni hafi stefndi staðið við allar skuldbindingar hvað innstæðuna varðar og áfallna vexti. Samkvæmt þessu standi engin rök til þess að verða við kröfu stefnanda um reiknaða dráttarvexti.
Fallist dómari ekki á framangreindan málatilbúnað stefnda um að ekki sé heimilt að reikna dráttarvexti af kröfunni er á því byggt að lög heimili einungis reiknaða dráttarvexti til 15. desember 2015, þegar stefndi bauð sannanlega fram greiðslu sína. Dráttarvextir eftir þann dag komi ekki til athugunar enda fyrirskipaði stefnandi sjálfur bankanum að hætta við millifærsluna. Þá er kröfu um eldri dráttarvexti en fjögurra ára frá stefnubirtingu mótmælt, enda sé hún fallin niður fyrir fyrningu. Dráttarvextir reiknist því tímabilið 23. desember 2012 til 15. desember 2015, verði fallist á kröfu stefnanda.
Með vísan til sjónarmiða fyrir sýknukröfu krefst stefndi sýknu af varakröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Stefndi telur einnig að varakrafa stefnanda sé algerlega ósönnuð og hafnar því að uppfyllt séu önnur lagaskilyrði fyrir skaðabótaskyldu hans, hvort heldur á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um skaðabótaábyrgð innan samninga eða á grundvelli hinnar ólögfestu sakarreglu skaðabótaréttarins vegna skaðaverka utan samninga. Hvað fyrrgreinda atriðið varðar bendir stefndi á að málatilbúnaður stefnanda um ætlað tjón hans sé bæði vanreifaður og órökstuddur með öllu. Í stefnu sé ekki útskýrt í hverju ætlað tjón stefnanda felist. Bendir stefndi á að innstæða stefnanda beri vexti í samræmi við skilmála frá 15. október 2008 þegar innlánið var fært frá Glitni banka hf. til stefnda. Fjármunir hans hafi því aukist fremur en hitt.
Að mati stefnda uppfyllir varakrafa stefnanda ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og geti af þeim sökum varðað frávísun án kröfu.
Stefndi byggir á því á að hann hafi hvorki vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda ný sýnt af sér gáleysi sem hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Í þessu sambandi verði að líta til aðkomu stefnda að málinu og vitneskju hans um innstæðu stefnanda. Í reynd sé það svo að sökum þess að innstæðan hafi tengst í upphafi eignastýringareikningi þá hafi fjármunirnir verið geymdir á safnreikningi í Glitni banka hf. og síðar Íslandsbanka hf. Innstæðan hafi því einungis verið merkt stefnanda í athugasemd á safnreikningnum, líkt og tíðkast með reikninga sem tengdir séu vörslureikningum vegna eignastýringar. Þar sem eignastýringarsamningi sé ekki til að dreifa, sökum þess að honum hafði verið sagt upp af stefnanda, hafi safnreikningurinn ekki verið tengdur neinum vörslureikningi. Af þeirri ástæðu „gripu“ kerfi stefnda ekki innstæðuna þegar hún fluttist yfir í október 2008 með þeim afleiðingum að starfsmenn stefnda voru grandlausir um tilvist hennar. Það sé því ekki við stefnda að sakast að hafa ekki rekið augu í fjármunina eða upplýst stefnanda um þá, t.d. með útgáfu yfirlita. Orsökin virðist liggja hjá stefnanda sjálfum sem virðist ekki hafa haft yfirsýn yfir eigin fjármál og sýndi af sér stórfellt tómlæti varðandi innstæðuna.
Stefndi hafði einfaldlega engar forsendur til að aðhafast gagnvart stefnanda með öðrum hætti en gert var. Um er að ræða eigin sök stefnanda.
IV.
Stefnandi sagði upp samningi sínum um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf. í ágúst árið 2008 með þeim fyrirmælum að loka skyldi tilgreindum vörslureikningum og millifæra innstæður þeirra til Kaupthing Bank í Lúxemborg. Er óumdeilt að allar inneignir stefnanda samkvæmt samningnum voru millifærðar af reikningum stefnanda hjá Glitni banka hf., en að undanskilinni innstæðu á nánar tilteknum bankareikningi, að fjárhæð fjórar milljónir NOK, sem varð eftir og fluttist síðan yfir til stefnanda hinn 15. október 2008, með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til nýja Glitnis banka hf. Í aðalkröfu sinni krefst stefnandi þess að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til greiðslu dráttarvaxta á innstæðuna frá 15. október 2008 til 5. ágúst 2016, sem er sá tími sem innstæðan var í vörslu stefnda. Stefnandi telur að með yfirfærslunni hafi stefndi tekið á sig skuldbindingar vegna ætlaðra mistaka forvera stefnda í tengslum við uppsögn stefnanda á samningi sínum um einkabankaþjónustu, þegar hann óskaði eftir því að allar inneignir hans yrðu færðar yfir til Kaupthing bank í Lúxemborg hinn 4. ágúst 2008.
Stefndi hafnar því að hafa tekið á sig ábyrgð á einstaka verkum eða störfum Glitnis banka hf. almennt, þar með töldum ætluðum misgjörðum sem orðið hafi fyrir yfirtökuna hinn 14. október 2008.
Samkvæmt 7. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tók stefndi yfir innstæðu stefnanda á bankareikningi hans á tímamarki framsals samkvæmt 5. tölul. ákvörðunarinnar. Þá tók stefndi frá og með því tímamarki við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi, sbr. 5. tölulið ákvörðunarinnar. Þegar yfirfærsla fjármunanna átti sér stað hafði stefnandi sagt upp samningi sínum um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf. Því verður ekki fallist á með stefnanda að réttindi og skyldur sem tengdust þeim samningi hafi flust yfir til stefnda. Þá er einnig ljóst af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 að kröfur viðskiptavina Glitnis banka hf. um skaðabætur á hendur þeim banka vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna hans voru ekki á meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til stefnda með þeirri ákvörðun. Getur stefnandi því ekki heldur á þeim grunni beint máli þessu á hendur stefnda.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína um viðurkenningu einnig á því að stefnda beri að greiða honum dráttarvexti þar sem hann hafi ekki sent honum yfirlit um innstæðuna eftir að hún var millifærð til stefnda. Stefnandi vísar til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 9. gr. reglna nr. 670/2013, um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, en einnig til 15. gr. samnings stefnanda og Glitnis banka hf. um einkabankaþjónustu. Í greindu ákvæði reglna nr. 670/2013 er m.a. mælt fyrir um að allar viðeigandi upplýsingar um vöru og þjónustu, þ. á m. um allan kostnað, séu veittar á skýran og skiljanlegan hátt, áður en viðskipti fara fram og meðan á viðskiptasambandi stendur. Stefndi hefur borið því við að hann hafi ekki haft vitneskju um innstæðu stefnanda, sem rekja megi til þess að eignastýringarsamningnum hafi verið sagt upp og inneignin því ekki tengd við sérstakan vörslureikning, heldur hafi hún verið geymd á sérstökum safnreikningi í Glitni banka hf. og síðar Íslandsbanka hf. Af þeim sökum hafi starfsmenn stefnda verið grandlausir um tilvist inneignarinnar.
Almenn
skylda hvílir á kröfuhafa til að gæta kröfu sinnar. Það á sérstaklega við um
stefnanda máls þessa sem er fagfjárfestir. Á honum hvíldi viss ábyrgð til að
fylgjast með því að inneignir hans skiluðu sér eftir að hann sagði upp
samningi sínum um einkabankaþjónustu hjá forvera stefnda og enn fremur í
framhaldi af því að sjá til þess að gjaldfella kröfur sínar hjá stefnda ef því
var að skipta. Það hefur hann ekki gert. Af því leiðir að aðalkrafa stefnanda á
hendur stefnda um viðurkenningu á dráttarvöxtum telst ekki á rökum reist.
Stefnandi reisir varakröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi hafi hvorki upplýst hann um tilvist né innstæðu bankareikningsins. Stefnandi tekur fram að umfang tjóns hans sé ekki til umfjöllunar samkvæmt varakröfunni, en einu gildi hvort það verði bætt með greiðslu dráttarvaxta, annarra vaxta eða annarra skaðabóta.
Sem fyrr greinir sagði stefnandi upp samningi sínum um einkabankaþjónustu áður en yfirfærslan til stefnda fór fram 15. október 2009 og í framhaldi af því bar honum sem fjárfesti að fylgjast með því að eignir hans skiluðu sér. Er það því niðurstaða dómsins eins og atvikum er hér háttað að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi beri ábyrgð á því fjártjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir samkvæmt varakröfu sinni. Ber því einnig að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Bedula Ltd., í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.