Hæstiréttur íslands
Mál nr. 247/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
|
|
Föstudaginn 10. maí 2013. |
|
Nr. 247/2013.
|
Innheimtustofnun sveitarfélaga (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) gegn Erni Karlssyni (enginn) |
Kærumál. Aðför.
I kærði úrskurð héraðsdóms þar sem ákvörðun sýslumanns um að stöðva aðfarargerð á hendur Ö, með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, var staðfest. Krafan sem I krafðist aðfarar fyrir með beiðni 8. ágúst 2012 laut að endurgreiðslu meðlagsgreiðslna, sem greiddar höfðu verið fyrir Ö á tímabilinu 1. september 2002 til 3. ágúst 2012, í samræmi við ákvæði laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Bú Ö hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2009 og hafði skiptum á því lokið 26. nóvember 2010. Í málinu hélt Ö því fram að sýslumanni hefði verið rétt að stöðva gerðina með vísan til þess að I hefði ekki höfðað mál á hendur honum innan tveggja ára fyrningarfrests 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., eins og þeirri grein var breytt með lögum nr. 142/2010, og fengið dóm um fyrningarslitin, en sú lagabreyting hafði tekið gildi 29. desember 2010. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 væri kveðið á um skyldu barnsfeðra til að endurgreiða I meðlög með barni sínu. Í 7. mgr. greinarinnar væri síðan mælt fyrir um það að I gæti meðal annars krafist lögtaks hjá feðrum og að sá réttur fyrndist ekki. Þá segði í 10. mgr. 5. gr. laganna að endurgreiðslukröfur vegna barnsmeðlaga fyrndust á 10 árum. Var talið að hvað sem liði túlkun á 165. gr. laga nr. 21/1991 gæti sú grein engu skipt um rétt I til að fá gert fjárnám til tryggingar þeim hluta kröfunnar sem tók til barnsmeðlaga frá því að skiptum á búi Ö lauk og til ágúst 2012. Þá hefði I að auki krafist aðfarar innan tveggja ára frá því að gjaldþrotaskiptum á búi Ö lauk í nóvember 2010. Í ljósi þessa og hins að I bar samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 hlutlæga ábyrgð á tjóni, sem leiddi af aðfarargerð sem síðar kynni að verða leitt í ljós að skilyrði skorti til, bar sýslumanni í samræmi við meginreglu 2. mgr. 27. gr. laganna að hafna kröfu Ö um stöðvun gerðarinnar. Þá ætti Ö þess kost að afla úrslausnar héraðsdóms um réttmæti kröfu I eftir að aðfarargerðinni væri lokið, sbr. 15. kafli laga nr. 90/1989. Var ákvörðun sýslumanns um að stöðva gerðina því felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. mars 2013, þar sem staðfest var sú ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 24. október 2012 að stöðva aðfarargerð sóknaraðila gegn varnaraðila í máli nr. 033-2012-01420. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að gera fjárnám hjá varnaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Sóknaraðili krafðist aðfarar 8. ágúst 2012 hjá varnaraðila til tryggingar skuld vegna vangoldinnar endurgreiðslu barnsmeðlaga, sem sóknaraðili kveður að innt hafi verið af hendi fyrir varnaraðila, auk dráttarvaxta og tilgreinds kostnaðar. Samkvæmt greiðsluyfirliti sem fylgdi aðfararbeiðni er um að ræða kröfu um meðlög frá 1. september 2002 til 3. ágúst 2012. Dráttarvextir í aðfararbeiðni eru sagðir vera fyrir tímabilið 8. ágúst 2008 til 1. desember 2012, en sóknaraðili hefur í greinargerð til Hæstaréttar lýst því að um misritun sé að ræða og dráttarvextir séu einungis reiknaðir til 8. ágúst 2012. Að undangengnum formlegum undirbúningi var varnaraðila tilkynnt að beiðni sóknaraðila um aðför yrði tekin fyrir 24. október 2012. Varnaraðili andmælti kröfu sóknaraðila um aðför og krafðist þess að sýslumaður stöðvaði gerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989. Rök hans voru einkum þau að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2009 og skiptum lokið 26. nóvember 2010. Því eigi við í málinu reglur 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., eins og þeirri grein var breytt með lögum nr. 142/2010. Hann kveður að með lagabreytingu þessari hafi reglum um fyrningarfrest verið breytt við aðstæður eins og hér eigi við og jafnframt að nú verði fyrningu aðeins slitið á fyrningarfresti eftir skiptalok að kröfuhafi höfði mál á hendur þrotamanni innan fyrningarfrestsins og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Þar sem það hafi ekki verið gert verði sýslumaður að stöðva aðförina, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili hélt til streitu kröfu sinni um aðför.
Sýslumaður taldi í ákvörðun sinni 24. október 2012 að með hliðsjón af fortakslausu orðalagi 165. gr. laga nr. 21/1991 bæri að stöðva gerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989.
Sóknaraðili skaut ákvörðun sýslumanns til Héraðsdóms Suðurlands og laut krafa hans að því að ákvörðunin yrði felld úr gildi og gerðinni fram haldið. Varnaraðili krafðist fyrir héraðsdómi að staðfest yrði sú ákvörðun sýslumanns að stöðva aðfarargerðina á hendur sér. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað.
II
Svo sem fram er komið var 165. gr. laga nr. 21/1991 breytt með lögum nr. 142/2010, sem tóku gildi 29. desember það ár. Eftir breytinguna er áfram mælt fyrir um þá meginreglu, að þrotamaður beri ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fáist greiddar við gjaldþrotaskiptin. Á hinn bóginn er eftir breytinguna kveðið á um að ef kröfu hefur verið lýst við skiptin og hún ekki fengist greidd við þau, sé fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi, sem skiptunum sé lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildi þessi sami fyrningarfrestur um hana enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Þá segir að fyrningu framangreindra krafna verði aðeins slitið á ný að kröfuhafi höfði mál á hendur þrotamanninum innan fyrningarfrests og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á, að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gildi almennar reglur um fyrningu kröfunnar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eigu þrotamannsins áður en tveggja ára fresturinn sé á enda, fyrnist krafa hans þá ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingaréttinda.
III
Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila er vegna meðlagsgreiðslna, sem sóknaraðili hefur til innheimtu og hafa verið greidd fyrir varnaraðila. Í lögum nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga er mælt fyrir um það hlutverk sóknaraðila að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 er kveðið á um að barnsfeðrum sé skylt að endurgreiða varnaraðila meðlög með barni sínu þegar og með þeim hætti sem stofnunin krefst. Í 7. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um að vanræki barnsfaðir að einhverju leyti eða öllu að verða við innheimtukröfu geti varnaraðili meðal annars krafist lögtaks hjá honum. Jafnframt segir: ,,Lögtaksrétturinn fyrnist ekki.“ Í 10. mgr. 5. gr. laganna er kveðið á um að kröfur til endurgreiðslu meðal annars barnsmeðlaga, sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila, og endurgreiða ber að lögum, fyrnist á tíu árum.
Eins og fram er komið lýtur krafa sú er sóknaraðili krefst aðfarar fyrir að endurgreiðslu barnsmeðlaga er greidd höfðu verið fyrir varnaraðila, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Krafan tekur til tímabilsins 1. september 2002 til 3. ágúst 2012. Ágreiningur aðila í málinu varðar túlkun á 165. gr. laga nr. 21/1991, eins og þeirri grein var breytt með lögum nr. 142/2010, í ljósi þess að bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2009 og skiptum lokið 26. nóvember árið eftir. Hvað sem líður túlkun á framangreindu lagaákvæði getur sú grein engu skipt um rétt sóknaraðila til að fá gert fjárnám til tryggingar þeim hluta kröfunnar sem tekur til barnsmeðlaga frá því að skiptum á búi varnaraðila lauk og til ágúst 2012. Auk þess krafðist sóknaraðili aðfarar innan tveggja ára frá því að gjaldþrotaskiptum á búi varnaraðila lauk í nóvember 2010. Í ljósi þessa og hins að sóknaraðili ber samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 hlutlæga ábyrgð á tjóni, er leiðir af aðfarargerð, sem síðar kann að verða leitt í ljós að skilyrði skorti til, bar sýslumanni í samræmi við meginreglu 2. mgr. 27. gr. laganna að hafna kröfu varnaraðila um stöðvun gerðarinnar. Á varnaraðili þess kost að afla úrlausnar héraðsdóms um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda eftir að aðfarargerðinni er lokið, sbr. 15. kafla laga nr. 90/1989.
Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og kærumálskostnað.
Dómsorð:
Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 24. október 2012 um að stöðva aðfarargerð sóknaraðila, Innheimtustofnunar sveitarfélaga, á hendur varnaraðila, Erni Karlssyni, í máli nr. 033-2012-01420.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. mars 2013.
Sóknaraðili er Innheimtustofnun sveitarfélaga, kt. 530372-0229, en varnaraðili er Örn Karlsson, kt. 080460-3179, Klettagljúfri 10, Þorlákshöfn.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi frá 24. október sl. um að stöðva aðfarargerð sóknaraðila á hendur varnaraðila og að gerðinni verði fram haldið. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt reikningi.
Varnaraðili krefst þess dómurinn staðfesti ákvörðun sýslumannsins á Selfossi frá 24. október sl. um að stöðva aðfarargerð á hendur varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Mál þetta barst dóminum þann 31. október sl. en það var þingfest 12. desember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 25. febrúar sl.
Málavextir.
Málavextir eru þeir samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins á Selfossi að þann 24. október sl. var tekin fyrir aðfarargerð nr. 033-2012-01420 þar sem gerðarbeiðandi, sóknaraðili máls þessa, krafðist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 11.940.428 krónur hjá gerðarþola, varnaraðila máls þessa. Varnaraðili mótmælti kröfunni og krafðist þess að sýslumaður stöðvaði gerðina á grundvelli 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga á þeim grundvelli að hann hefði orðið gjaldþrota árið 2009. Hefði skiptum á búinu lokið 26. nóvember 2010 og því gildi 3. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2010 um breytingu á gjaldþrotalögum um slit á fyrningarfresti á hendur honum. Samkvæmt því verði fyrningu kröfuréttinda á hendur varnaraðila aðeins slitið á fyrningarfresti eftir skiptalok að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Þar sem slíkur dómur liggi ekki fyrir verði sýslumaður að hafna fjárnámsbeiðninni og sé jafnframt ljóst að heimili sýslumaður aðför sé fyrningu slitið í bága við ákvæði breytingarlaga nr. 142/2010. Afstaða sóknaraðila var sú að hann óskaði eftir því að gerðin næði fram að ganga þar sem engin rök væru fyrir öðru og vísaði hann m.a. til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun og sérákvæði laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga um 10 ára fyrningu og 2. gr. laga nr. 142/2010 um breytingu á gjaldþrotalögum nr. 21/1991. Sýslumaður ákvað með hliðsjón af mótmælum varnaraðila og fortakslausum ákvæðum 165. gr. gjaldþrotalaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 142/2010 að stöðva gerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga. Sóknaraðili lýsti því þá yfir að hann myndi skjóta ákvörðuninni til héraðsdóms samkvæmt 3. mgr. 27. gr. aðfararlaga, sbr. 14. kafla laganna.
Sóknaraðili segir kröfu sína á hendur varnaraðila hafa risið vegna vangoldinna meðlaga sem varnaraðila sé skylt að endurgreiða sóknaraðila en meðlagsskyldan grundvallist á skilnaðarleyfisbréfi dags. 6. janúar 2003 og staðfestum samningi um meðlag frá 19. ágúst 2002.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því í fyrsta lagi að sýslumanni hafi verið óheimilt að stöðva gerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 þar sem 2. mgr. geri aðeins ráð fyrir því að sýslumaður skuli stöðva gerðina ef hann telur að gerðarbeiðandi eigi ekki þau réttindi sem hann krefst að sé fullnægt eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti sem hann krefst. Telur sóknaraðili ekkert í málinu benda til þess að þessi áskilnaður laganna sé uppfylltur. Beiðni sóknaraðila sé byggð á gildri kröfu og hafi ekkert komið fram við meðferð málsins sem vefengi það. Þá hafi beiðni hans um aðför verið byggð á gildri aðfararheimild, sbr. 10. gr. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga sé barnsföður skylt að endurgreiða sóknaraðila meðlag með barni sínu þegar og með þeim hætti sem stofnunin krefjist. Þá sé að finna beina aðfararheimild í 2. tl. 7. mgr. 5. gr. laganna. Þegar aðfararbeiðnin hafi verið móttekin hjá sýslumanni þann 16. ágúst 2012 hafi hún jafnframt verið ófyrnd. Sóknaraðili getur því með engu móti séð að atvik máls þessa séu með þeim hætti að áskilnaði 27. gr. aðfararlaga um stöðvun gerðar sé fullnægt.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að sýslumanni hafi verið óheimilt að stöðva gerðina með vísan til 165. gr. gjaldþrotalaga eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 142/2010. Sóknaraðili telur sýslumann og varnaraðila túlka 1. gr. laga nr. 142/2010 með þeim hætti að stöðva beri gerðina á þeim grundvelli að aðfarargerðin slíti fyrningu og það gangi þvert á fyrirmæli 3. mgr. 1. gr. laganna. Sóknaraðili hafnar þessari túlkun og bendir á að 1. gr. breytingarlaganna fjalli aðeins um fyrningu krafna og slit á fyrningarfresti, þ.e. hvenær gildar kröfur fyrnist og hvernig fyrningarfresti á þeim verður slitið. Þannig geti 1. gr. aldrei staðið því í vegi að aðfarargerð á gildri kröfu nái fram að ganga og varði greinin hins vegar réttaráhrif slíkrar aðfarargerðar, en mál það sem hér sé til úrlausnar fjalli ekki um réttaráhrif gerðarinnar sem slíkrar. Verði 1. gr. því aldrei túlkuð með þeim hætti að hún stöðvi aðfarargerðina. Þá bendir sóknaraðili á að síðasti málsliður 3. mgr. 1. gr. laganna geri beinlínis ráð fyrir að aðfarargerðir nái fram að ganga, en þar segi að hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda. Þá verði af greinargerð með ákvæðinu ekki annað ráðið en að með tryggingarréttindum sé jafnframt átt við fjárnám, en þar segi að lagt sé til að eignist skuldari á þessu tveggja ára tímabili eign og lánardrottinn geri fjárnám í henni, þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði þess sem fjárnám var gert í. Sá hluti kröfunnar sem greiðist ekki af andvirði eignarinnar mundi á hinn bóginn fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils.
Sóknaraðili heldur því fram að gera verði skýran greinarmun á því hvort aðfarargerð á gildri kröfu nái fram að ganga og því hver hugsanleg réttaráhrif þeirrar aðfarargerðar geti verið í framtíðinni, s.s. þegar fyrningarfrestur á henni er liðinn. Mál þetta fjalli ekki um réttaráhrif aðfarargerðarinnar, aðeins um það hvort sýslumaður hafi haft viðhlítandi lagaheimildir til að stöðva framgang hennar.
Sóknaraðili vísar til laga nr. 90/1989, sérstaklega 1. gr. og 27. gr. Þá vísar sóknaraðili til laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971, sérstaklega 5. gr. Málskostnaðarkrafa er reist á 129.-131. gr. laga nr. 91/991, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur. Hann byggir á því að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2010 sé það fortakslaust skilyrði fyrir fyrningarslitum krafna eftir gjaldþrot að fyrir þeim liggi viðurkenning með dómi. Hafi skiptum í búi varnaraðila lokið í nóvember 2010 og hafi sóknaraðili ekki aflað sér slíks dóms eftir því sem næst verði komist. Sé því engin heimild til fjárnámsgerðarinnar. Þá verði ekki séð að móttaka fjárnámsbeiðninnar hjá sýslumanni geti rofið fyrningu, sbr. gagnályktun frá 3. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2010, hafi kröfuhafi í þessu tilfelli átt að fara með fullnustugerð sína fyrir héraðsdóm en ekki beint til sýslumanns vegna framangreindra lagaákvæða.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila séu dráttarvextir reiknaðir í lengri tíma en 4 ár, þ.e. frá 8. ágúst 2008 til 1. desember 2012, en þetta brjóti gegn almennum ákvæðum fyrningarlaga um fyrningu vaxta. Þetta atriði valdi því að aðfararbeiðnin sé ekki rétt formuð og hefði sýslumaður átt að vísa henni frá af sjálfsdáðum á grundvelli 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/1989. Þá telur varnaraðili að af eðli dráttarvaxta leiði að ekki sé heimilt að reikna þá fram í tímann, eða til 1. desember 2012. Slík framsetning sé með öllu óforsvaranleg og ekki samkvæmt lögum og hefði sýslumaður átt að vísa beiðninni frá af sjálfsdáðum með vísan til framangreindra lagaákvæða.
Varnaraðili segist ekki fá séð að nokkur lagaskilyrði séu til áframhaldandi meðferðar aðfararbeiðninnar og vísar um kröfu um málskostnað til 129.-131. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989.
Athugasemdir sýslumanns skv. 5. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989.
Sýslumaður tekur fram að bú varnaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 4. desember 2009 og hafi skiptum lokið þann 26. nóvember 2010. Samkvæmt 165. gr. laga nr. 21/1991, eins og því ákvæði hafi verið breytt með lögum nr. 142/2010, fyrnist kröfur sem ekki fáist greiddar við gjaldþrotaskipti skuldara á tveimur árum frá þeim degi er skiptum er lokið, sbr. 2. gr. 165. gr. laganna. Í 3. mgr. 165. gr. laganna komi fram að fyrningu krafna sem um ræði í 2. mgr. verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar viðurkenningardóm á fyrningarslitum gagnvart honum. Í 3. málsl. 2. mgr. segi ennfremur að hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda. Í 2. gr. laga nr. 142/2010 komi fram að hafi skiptum á þrotabúi lokið fyrir gildistöku laganna fyrnist kröfur sem þar fengust ekki greiddar og ekki séu fyrndar á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Þá sé tekið fram að fyrningu þessara krafna verði aðeins slitið eftir reglum laganna.
Sýslumaður telur að með setningu laga nr. 142/2010 skorti á að tekið hafi verið fram hvernig lögin eigi að samvirka við ákvæði annarra laga. Ákvæði laganna séu mjög óljós og ekki sé að finna fullnægjandi skýringar í lögskýringargögnum. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hafi fjölmargir einstaklingar sætt gjaldþrotaskiptum og sæti enn. Sé því ljóst að sambærileg tilvik og hér sé fjallað um eigi oft eftir að koma upp í framtíðinni. Sé því nauðsynlegt að fá úrlausn dómstóla um það hvernig skýra beri ákvæði laga nr. 142/2010, enda sé óljóst að hvaða marki sýslumanni ber að taka slík mómæli sem hér um ræði til greina við fullnustugerðir.
Sýslumaður telur ljóst að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila fyrnist skv. 2. gr. laga nr. 142/2010 á tveimur árum frá gildistöku laganna. Lögin hafi verið birt í stjórnartíðindum þann 28. desember 2010 og af því leiði að kröfur þær sem hér um ræði hafi fyrnst þann 28. desember 2012. Þá liggi fyrir að undantekningarákvæði 1. gr. laga nr. 142/2010 eigi ekki við þar sem sóknaraðili hafi hvorki aflað viðurkenningardóms um fyrningarslit kröfunnar sem fjárnámsbeiðnin grundvallast á né fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign varnaraðila. Verði þegar af þeim sökum að telja að sóknaraðili eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um álitaefni þetta og því að gerðin nái fram að ganga. Beri því að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda meti sýslumaður það svo að móttaka aðfararbeiðni geti ekki sjálfkrafa rofið fyrningu.
Bent er á að í lokamálslið 3. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2010 sé gert ráð fyrir að kröfuhafi geti, án þess að hafa áður aflað viðurkenningardóms um fyrningarslit kröfunnar, gert fjárnám í eign skuldara og þar með slitið fyrningu kröfu að því marki sem fullnusta fæst ekki á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda. Sýslumaður telur að með ákvæði þessu sé tæmandi talið með hvaða hætti sé hægt að slíta fyrningu krafna með öðrum hætti en ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga n r. 142/2010 kveði á um að öðru leyti, enda um undantekningu frá meginreglunni að ræða. Þar sem aðeins sé í ákvæði laganna tekið fram að kröfuhafi geti gert fjárnám í eign hjá skuldaranum, verði að gagnálykta frá því að ekki sé gert ráð fyrir að árangurslaust fjárnám nái fram að ganga. Enda hefði slík aðfarargerð í för með sér fyrningarslit kröfu, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989, þar sem kveðið sé á um að fyrningu kröfu verði slitið með framlagningu aðfararbeiðni hjá héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma, enda sé gerðinni fram haldið án ástæðulauss dráttar. Réttaráhrif slíkrar fullnustugerðar færu því þvert gegn ákvæðum 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. ákvæði laga nr. 142/2010. Þá fari það gegn anda laganna og markmiði laga nr. 142/2010 að hægt sé að gera árangurslaust fjárnám til að slíta fyrningu slíkra krafna. Í lögskýringargögnum komi fram að lögunum sé ætlað að veita skuldurum frið og tækifæri til að rísa upp aftur eftir áföll undanfarinna ára og rétta fjárhag sinn af á ný, í stað þess að vera hundeltir af skuldheimtumönnum vegna óuppgerðra skulda. Þá sé það viðurkennt lögskýringarsjónarmið að vafaatriði við túlkun beri að skýra skuldara í hag.
Sýslumaður telur að eftir eignakönnun hafi komið í ljós að ekki sé til að dreifa fjárnámstækri eign hjá varnaraðila. Hefði krafan náð fram að ganga hefði aldrei komið til þess að gert yrði fjárnám í eign varnaraðila. Þá verði að líta til þess að falli úrskurður á þann veg að gerðin nái fram að ganga sé krafan engu að síður fyrnd, sbr. það sem áður segir, nema ákvæði 52. gr. aðfararlaga rjúfi fyrningu kröfunnar sem færi þó þvert gegn 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. ákvæði laga nr. 142/2010. Enda þótt sóknaraðili myndi afla sér fjárnáms fyrir kröfu sinni sé tilgangur slíkrar fullnustugerðar óljós, enda gæti fjárnámið aldrei orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila. Yrðu réttaráhrif fjárnámsins í besta falli óljós og í versta falli engin og því mjög óljóst hvort um raunverulega lögvarða hagsmuni sé að ræða.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila máls þessa lýtur að því hvort sýslumanninum á Selfossi hafi verið heimilt að stöðva aðfarargerð þann 24. október sl. með vísan til 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, en sóknaraðili krafðist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 11.940.428 krónur hjá varnaraðila. Varnaraðili var úrskurðaður gjaldþrota þann 4. desember 2009 og lauk skiptum í búinu þann 26. nóvember 2010. Varnaraðili byggir á 3. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2010 um breytingu á gjaldþrotalögum um slit á fyrningarfresti á hendur honum og telur að samkvæmt því lagaákvæði verði fyrningu kröfuréttinda á hendur varnaraðila aðeins slitið á fyrningarfresti eftir skiptalok að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Þar sem slíkur dómur liggi ekki fyrir verði sýslumaður að hafna fjárnámsbeiðninni. Sóknaraðili krefst þess að gerðin nái fram að ganga og vísar hann m.a. til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun og sérákvæði laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga um 10 ára fyrningu og 2. gr. laga nr. 142/2010 um breytingu á gjaldþrotalögum nr. 21/1991.
Það athugast að sýslumaður er ekki aðili máls þessa en hann hefur sent dóminum athugasemdir samkvæmt heimild í 5. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989, en dómara er heimilt að taka fullt tillit til þeirra við úrlausn málsins.
Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrot nr. 21/1991, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, ber þrotamaðurinn ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Samkvæmt 2. mgr. laganna, sbr. fyrrgreind breytingalög, verður fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda. Með framangreindum lagabreytingum var styttur fyrningarfrestur á þeim kröfum eða þeim hluta þeirra sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt lögskýringargögnum var tilgangurinn sá að auðvelda þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta, en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.
Samkvæmt lögunum er fyrningartími allra krafna sem lýst er í þrotabú nú tvö ár án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða og þá gildir sami frestur um kröfur sem ekki hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin, nema þær fyrnist á skemmri tíma samkvæmt almennum reglum. Þá gera lögin jafnframt ráð fyrir því að ekki verði hægt að slíta fyrningunni innan þessa tveggja ára frests nema í undantekningartilfellum og þarf þá dómsmál gegn þrotamanni til. Á þetta við hvort sem kröfu hefur verið lýst eða ekki.
Fyrir liggur í máli þessu að sóknaraðili hefur ekki höfðað dómsmál á hendur varnaraðila samkvæmt framangreindum lagafyrirmælum í því skyni að fá viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Í slíku dómsmáli verður sóknaraðili að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af rofi fyrningar með dómi og auk þess verður sóknaraðili að sýna fram á að líkur séu til að hann fái kröfu sína greidda eftir að hafa fengið rof á fyrningu samþykkta fyrir dómi. Slík sönnunarfærsla getur hvorki farið fram fyrir sýslumanni við fyrirtöku aðfararbeiðni né fyrir dómi við rekstur máls samkvæmt 14. kafla laga nr. 90/1989. Þar sem telja verður óvíst að sóknaraðili eigi þau réttindi sem hann krafðist fullnægt og hann hefur ekki neytt þeirra réttarfarsúrræða sem honum voru tiltæk til að tryggja þau, var sýslumanni því rétt að stöðva framangreinda aðfarargerð með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989. Verður kröfum sóknaraðila í máli þessu því hafnað.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989 verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 80.000 krónur í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Öllum kröfum sóknaraðila, Innheimtustofnunar sveitarfélaga á hendur varnaraðila, Erni Karlssyni, í máli þessu, er hafnað og er ákvörðun sýslumannsins á Selfossi frá 24. október 2012 um að stöðva aðfarargerð sóknaraðila á hendur varnaraðila í máli nr. 033-2012-01420 staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 80.000 krónur í málskostnað.