Hæstiréttur íslands

Mál nr. 79/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsgerð


                                     

Mánudaginn 13. febrúar 2012.

Nr. 79/2012.

 

Klakki ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Kærumál. Matsgerð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K ehf. um að tveimur nafngreindum mönnum yrði gert að endurskoða matsgerð, sem þeir unnu í tengslum við dómkvaðningu að beiðni K ehf., í máli G hf. á hendur K ehf. Héraðsdómur byggði á því að matsmenn hefðu metið það sem meta skyldi að því leyti sem þeim hefði verið það unnt. Þá hefðu þeir rökstutt niðurstöðu sína á fullnægjandi hátt. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tveimur nafngreindum mönnum, sem dómkvaddir voru 25. mars 2010 samkvæmt beiðni hans til að leggja mat á nánar tiltekin atriði í málinu, yrði gert að endurskoða matsgerð, sem hann lagði fram á dómþingi 30. nóvember 2011. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir matsmennina að „þeir endurskoði matsgerð sína, dags. í ágúst 2011, og svari matsspurningum með fullnægjandi hætti.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í bréfi sóknaraðila til héraðsdóms 30. nóvember 2011, þar sem gerð var framangreind krafa um endurskoðun matsgerðar, var þess getið að heiti hans væri Klakki ehf., en í gögnum málsins, sem áður lágu fyrir, bar hann nafnið Exista hf. Þá liggur og fyrir að heiti varnaraðila hefur verið breytt úr Glitni banka hf. í Glitni hf. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Klakki ehf., greiði varnaraðila, Glitni hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012.

Mál þetta sem var tekið til úrskurðar þann 20. desember sl., um ágreining um framkvæmd matsgerðar, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Glitni banka hf., Kirkjusandi, Reykjavík gegn Existu hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 7. október 2009.

Dómkröfur stefnenda eru:

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.524.408.333 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2008 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru:

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, þ.m.t. vegna kostnaðar af virðisaukaskattsskyldu lögmannsþjónustu.

Í þinghaldi þann 30. nóvember sl. lagði lögmaður stefnda fram matsgerð, dags. í ágúst 2011. Matið framkvæmdu Ársæll Valfells, viðskiptafræðingur og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur að beiðni stefnda, matsbeiðanda. Þar var þess óskað að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að leggja mat á gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal (USD), evru (EUR) og japönsku jeni (JPY) á nánar tilgreindum dögum í október og desember 2008. Í matsbeiðni er matsspurningu lýst svo:

„Hvert var markaðsgengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, evru og japönsku jeni þann 7. október 2008, 8. október 2008, 9. október 2008, 11. október 2008 (12. október 2008), 18. október 2008 (19. október 2008), 19. október 2008, 20. október 2008, 21. október 2008, 22. október 2008 og 18. desember 2008? Gengið skal ákvarðað út frá markaðsskilyrðum og markaðsaðstæðum á tilgreindum dögum.

Þess er óskað að matsmenn leggi rökstutt mat á markaðsgengi íslensku krónunnar gangvart Bandaríkjadal, evru og japönsku jeni og skili niðurstöðum í formi miðgengis viðkomandi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni greint niður á framangreinda daga. Við matið skal leitast við að leggja til grundvallar vegið meðaltalsverð íslensku krónunnar í viðskiptum eða eftir atvikum í bindandi kaup- og sölutilboðum með íslensku krónuna.“

Í þinghaldi þann 30. nóvember 2011 var einnig af hálfu matsbeiðanda lagt fram bréf lögmanns hans, dags. 30. nóvember 2011, þar sem fram kemur beiðni um að matsmenn endurskoði matsgerð sína. Þar segir m.a. að matsbeiðandi telji að það sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu hafi ekki verið metið og að matsgerðin sé ekki nægilega rökstudd og því geri matsbeiðandi, með vísan til 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, kröfu um að dómari leggi fyrir matsmenn að endurskoða matsgerðina. Í þinghaldi þann 20. desember 2011 ítrekaði matsbeiðandi þessa kröfu sína og er sú krafa hans hér til úrskurðar.

Af hálfu stefnanda, matsþola, er þess krafist að kröfu matsbeiðanda um að matsmenn endurskoði matsgerð sína verði hafnað. Matsþoli telur að ekki sé ástæða til að leggja frekari spurningar fyrir dómkvadda matsmenn og bendir á að stefndi geti fengið dómkvadda yfirmatsmenn til að endurskoða matsgerðina. Af hálfu matsþola var jafnframt lögð fram bókun stefnanda vegna matsgerðar, dags. 20. desember 2011.

Málavextir

Í stefnu er málsatvikum lýst svo að matsþoli hafi að beiðni matsbeiðanda veitt honum peningamarkaðslán þann 10. júlí 2008 að fjárhæð 1.500.000.000 kr. Upphaflega hafi matsþoli veitt matsbeiðanda peningamarkaðslán að nefndri upphæð frá 11. júlí til 11. ágúst 2008. Þann 11. ágúst hafi verið samið um framlengingu á láninu til 11. september 2008 og aftur þann 11. september 2008 til 10. október 2008. Við framlengingu hafi verið samið um að skuldin skyldi bera 20,20% ársvexti og skyldu áfallnir vextir greiddir á gjalddaga ásamt höfuðstól peningalánsins. Samtals hafi  matsbeiðanda því borið að greiða matsþola á umsömdum gjalddaga lánsins, þann 10. október 2008, 1.524.408.333 kr. sem sé stefnufjárhæð þessa máls. Á gjalddaga lánsins hafi matsbeiðandi hvorki greitt höfuðstól né vexti lánsins og hafi ekki gert enn.

Matsþoli og matsbeiðandi hafi á tímabilinu 20. ágúst til 18. september 2008 gert með sér nokkra samninga um framvirk gjaldeyrisviðskipti (gjaldmiðlaskipta-samninga). Þann 9. október 2008 hafi starfsmaður matsbeiðanda sent matsþola tölvupóst þar sem matsbeiðandi hafi óskað eftir lokun á öllum EUR/ISK gjaldmiðlaskiptasamningum sem þá hafi verið í gildi á milli aðila. Hafi matsbeiðandi óskað eftir því að gjaldmiðlaskiptasamningarnir yrðu gerðir upp á viðmiðunargengi EUR/ISK sem gefið hafi verið út af Evrópska seðlabankanum (ECB). Segir í framangreindum tölvupósti að gengi EUR/ISK hafi verið 305 kr. miðað við 9. október 2008.

Þann 11. október 2008 hafi matsbeiðandi sent skilanefnd Glitnis bréf þar sem hann hafi talið upp skuldir sínar við matsþola og stöðu þeirra þann 9. október 2008. Hafi hann í bréfinu beðið matsþola um að virða kröfu matsbeiðanda um lokun á öllum gjaldmiðlaskiptasamningum þann 9. október. Matsbeiðandi hafi tiltekið í bréfinu að samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningum þessum hafi matsþola borið að afhenda matsbeiðanda rúmlega 240 milljónir evra sem að hluta til yrðu á gjalddaga þann 21. október 2008. Auk þessa hafi dótturfélög matsbeiðanda átt ríflega 175 milljóna króna kröfu á matsþola. Matsbeiðandi hafi farið fram á að ofangreindum skuldbindingum hans gagnvart matsþola yrði skuldajafnað á móti kröfum matsbeiðanda og dótturfélaga gagnvart matsþola.

Í bréfi, dagsettu 22. október 2008, hafi matsbeiðandi tilgreint að hann væri aðili að tveimur gjaldmiðlaskiptasamningum við matsþola með gjalddaga þann 21. október 2008. Í bréfinu hafi því verið lýst að matsbeiðandi hafi á undangengnum tveimur vikum ítrekað að hann mundi standa við skyldur sínar samkvæmt fyrrnefndum samningum og greiða gagngjald sitt samkvæmt þeim í íslenskum krónum gegn því að matsþoli stæði skil á samningsgreiðslu sinni og afhenti félaginu greiðslu í mynt hvers samnings svo sem þar sé kveðið á um. Þá hafi verið vakin athygli á því að þann 9. október hafi matsbeiðandi óskað eftir því að öllum EUR/ISK gjaldmiðlaskiptasamningum hans yrði lokað á gengi Evrópska seðlabankans sem þann dag hafi verið 305 kr. Segir matsbeiðandi í bréfi sínu að matsþoli hafi ekki sinnt fyrrgreindum beiðnum um lokun og uppgjör samninganna. Með bréfinu ítrekaði matsbeiðandi gerðar kröfur félagsins um að fyrrgreindir samningar, sem hafi verið með lokadag 21. október, yrðu gerðir upp miðað við gengi EUR/ISK þann 9. október 2008.

Þann 14. nóvember 2008 hafi matsþola borist yfirlýsing um skuldajöfnuð frá matsbeiðanda. Segir í yfirlýsingunni að matsbeiðandi lýsi yfir skuldajöfnuði á hendur matsþola með fjárhæð 43.671.271.897 kr. á móti kröfum sem matsþoli, Nýi Glitnir banki hf. og Holt Funding 2008-1 Ltd. hafi átt á hendur matsbeiðanda, samtals að fjárhæð 39.211.962.993 kr. Matsbeiðandi hafi tiltekið sérstaklega að væru einhverjar kröfur ekki hæfar til að mætast skyldi skuldajafnaðaryfirlýsingin skoðast sem skuldajöfnun að því er tekur til þeirra krafna sem hæfar væru til að mætast. Uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninga og lánssamninga hafi í yfirlýsingunni verið miðað við skráð gengi Evrópska seðlabankans á þeim degi er krafa hafi verið gerð um lokun afleiðusamninga (gjaldmiðlaskiptasamninga) þann 9. október 2008. Hafi stefndi gert kröfur um að mismunur á kröfum aðila 4.459.308.904 kr. yrði greiddur af hálfu Nýja Glitnis banka hf. innan þriggja mánaða frá dagsetningu skuldajafnaðaryfirlýsingarinnar. 

Með bréfi dagsettu 18. desember 2008 hafi matsþoli hafnað skuldajafnaðaryfirlýsingu matsbeiðanda frá 14. nóvember 2008 þar sem ekki hafi verið taldar forsendur til að samþykkja skuldajöfnuð.

Þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir hafi framangreint lán ekki fengist greitt og hafi stefnanda því verið nauðsynlegt að höfða mál fyrir dómi.

Í greinargerð matsbeiðanda kemur fram að við greiðsluþrot Glitnis banka hf. og hrun íslensku krónunnar hafi skapast þær aðstæður sem matsbeiðandi hafi tryggt sig gegn með gerð framvirkra gjaldmiðlaskiptasamninga við matsþola. Afleiðing greiðsluþrots matsbeiðanda var sú að frá og með 7. október 2008 var fyrirsjáanlegt að matsþoli gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar um afhendingu gjaldeyris gegn afhendingu á íslenskum krónum. Eftir viðræður við starfsmenn matsþola hafi matsbeiðandi sent matsþola tölvupóst 9. október 2008 þar sem hann hafi óskað lokunar þá þegar á gjaldeyrissamningum aðila á viðmiðunargengi Evrópska seðlabankans. Erlendur gjaldeyrir hafi verið ófáanlegur á Íslandi á þessum degi og virkur markaður með krónuna hafi aðeins verið utanlands. Í kjölfarið hafi matsbeiðandi sent skilanefnd matsþola bréf þar sem þess hafi verið óskað að kröfum félagsins samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningunum yrði skuldajafnað á móti skuldbindingum félagsins við bankann. Matsbeiðandi hafi fylgt kröfu um uppgjör og skuldajöfnun eftir með bréfi dagsettu 22. október 2008 og yfirlýsingu um skuldajöfnuð dagsettri 14. nóvember 2008. Síðastnefnda yfirlýsingin hafi verið unnin að höfðu samráði við starfsmenn matsþola, sem hafi m.a. lagt matsbeiðanda til fyrirmynd (form) að slíkri yfirlýsingu.

Matsþoli hafi brugðist við skuldajöfnunaryfirlýsingunni með bréfi dagsettu 18. desember 2008. Þar hafi hann mótmælt skuldajöfnun af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna aðildar þar sem að mestu leyti hafi verið um að ræða skuldir sem ekki hafi verið framseldar Nýja Glitni banka hf. Í öðru lagi hafi kröfurnar samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum aðeins að nokkru leyti verið fallnar í gjalddaga og í þriðja lagi hafi forsendum útreikninga á stöðu gjaldmiðlaskiptasamninganna verið mótmælt. Eina forsenda andmæla matsþola sem eftir stendur er ágreiningur aðila um forsendur útreikninganna á stöðu gjaldmiðlaskiptasamninganna.

Í raun hafi matsþoli viðurkennt að hann hafi skuldað matsbeiðanda mun hærri fjárhæð en hann krefur um í þessu máli. Samkvæmt yfirliti sem matsbeiðandi hafi sent matsþola 25. febrúar 2009 eigi matsbeiðandi inneign vegna afleiðusamninganna (gjaldmiðlaskiptasamninganna) sem hafi numið 12.350.850.000 kr. auk vaxta frá skráðum gjalddögum samninganna. Þrátt fyrir kröfur matbeiðanda um skuldajöfnun hafi matsþoli ekki fengist til þess að ráðstafa óumdeildri inneign matsbeiðanda til skuldajöfnunar og þar með fullnaðargreiðslu þeirrar kröfu sem sótt sé í þessu máli.

Í þessu máli geri matsþoli kröfu um greiðslu peningamarkaðsláns sem hafi verið á gjalddaga 10. október 2008 en aðrar kröfur á hendur matsbeiðanda hafi matsþoli framselt þriðja aðila. Framsölin hafi verið gerð án samþykkis eða vitundar matsþola nema hvað samkomulag hafi verið gert við matsbeiðanda í tengslum við framsal matsþola á lánum til félags sem matsþoli mun hafa stofnað í Írlandi undir nafninu Holt Funding Ltd. Þegar greinargerð matsbeiðanda hafi verið skrifuð hafi þrír aðilar tengdir matþola þingfest mál gegn matsbeiðanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann hafi verið krafinn um greiðslu á kröfum sem skuldajafnað hafi verið gegn með yfirlýsingunni. Séu þetta Eignarhaldsfélagið Glitnir ehf., kt. 481100-2240 og tvö aflandsfélög á vegum matsþola, áðurnefnt Holt Funding Ltd og loks Haf Funding Ltd. Ekki hafi í neinu tilvikanna verið tekið tillit til skuldajöfnunarkröfu matsbeiðanda þótt grundvallarregla kröfuréttarins sé sú að framsal kröfu valdi ekki mótbárumissi hjá skuldara. Telur matsbeiðandi vandséð að unnt sé að leysa úr kröfuréttarsamböndum, sem afleidd sé af eignarhaldi matsþola fyrir framsal, án þess að fyrst fáist botn í þær mótbárur sem matsbeiðandi hafi uppi gegn Glitni í þessu máli. Afleiðing framsalsins sé þó a.m.k. sú að eina krafan sem matsþoli telur sig eiga á hendur matsbeiðanda sé stefnukrafa þessa máls.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það við hvaða gengi skuli miðað við uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninga. Matsþoli telur að miða beri við gengi Seðlabanka Íslands á uppgjörsdegi, þann 9. október 2008, en matsbeiðandi að miða eigi við raunverulegt markaðsgengi þann dag. Fallist dómurinn ekki á að miðað verði við gengi gjaldmiðla þann 9. október 2008 er þess krafist að miðað verði við þann 7. sama mánaðar. Verði ekki á það fallist telur matsbeiðandi að miða beri við markaðsgengi gjaldmiðla á þeim degi sem dómurinn telur að samningarnir hafi verið gjaldfelldir eða eftir atvikum tveimur bankadögum fyrir þann dag.

Með bréfi lögmanns matsbeiðanda, dags. 17. desember 2009, var þess óskað að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að leggja mat á gengi íslensku krónunnar gagnvart USD, EUR og JPY á nánar tilgreindum dögum í október og desember 2008 eins og áður hefur verið nánar rakið.

Í matsbeiðninni segir að tilgangur hennar sé að leiða í ljós hvert hafi verið markaðsgengi íslensku krónunnar í frjálsum viðskiptum framangreinda daga í október og desember 2008. Matsbeiðandi telji að eftir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008 hafi Seðlabanki Íslands ekki lengur skráð markaðsgengi krónunnar gagnvart tilgreindum gjaldmiðlum heldur hafi því verið handstýrt með ákvörðunum stjórnenda bankans. Matsgerðinni sé ætlað að vera sönnunargagn matsbeiðanda í dómsmálinu þar sem matsbeiðandi byggir á því að uppgjör afleiðusamninga skuli gert á markaðsgengi gjaldmiðlanna.

Í beiðninni segir að við matið skuli matsmenn hafa hliðsjón af gengi USD, EUR og JPY gagnvart íslensku krónunni í viðskiptum á tilgreindum dögum, umfangi viðskipta á tilgreindum dögum, gengi bindandi kaup- og sölutilboða USD, EUR og JPY gagnvart íslensku krónunni á tilgreindum dögum, umfangi kaup- og sölutilboða á tilgreindum dögum og við matið verði einungis tekið tillit til viðskipta og bindandi kaup- og sölutilboða þar sem um sé að ræða frjáls viðskipti, þ.e. þar sem gengið ræðst af framboði og eftirspurn. Þess sé óskað að matsmenn leiti upplýsinga á öllum þekktum mörkuðum með íslensku krónuna, bæði innlendum og erlendum, skipulegum mörkuðum jafnt sem öðrum mörkuðum eða í einstökum viðskiptum aðila með íslensku krónuna.

Í tilefni af framkominni beiðni um dómkvaðningu matsmanna var bókað eftir lögmanni  matsþola í þinghaldi þann 15. janúar 2010 að hann telji matsbeiðnina tilgangslausa og fyrirsjáanlegt sé að hún muni ekki hafa sönnunargildi í málinu.

Í niðurstöðukafla matsgerðar, sem dagsett er í ágúst 2011, segir:

 „Veruleg truflun varð á viðskiptum með íslensku krónuna í tengslum við hrun íslensku bankanna í október 2008. Óvissa sem hafði gert var við sig fyrr, allt frá vormánuðum, magnaðist við fall fjármálafyrirtækjanna. Stóð sú óvissa allt það tímabil sem hér um ræðir, þ.e. til 3. desember 2008 og stendur að vissu marki en. Takmarkanir á fjármagnsviðskipti voru innleiddar þegar við fall Landsbankans þann 7. október, síðan 8. október við fall Glitnis og 9. október við fall Kaupþings. Þau fólust í banni af hálfu FME og skilanefnda að inna af hendi tilteknar greiðslur af erlendum skuldbindingum bankanna. Þessar takmarkanir voru tilkynntar með dreifibréfi Seðlabankans þann 10. október, þar sem þess var óskað að sala á gjaldeyri takmarkaðist við kaup á vörum og þjónustu. Þessi tilmæli voru treyst með samkomulagi Seðlabanka við viðskiptavaka með íslensku krónuna 15. október og loks fengin styrkari lagastoð með breytingum á lögum um gjaldeyrismál 28. október 2008 og reglugerð um gjaldeyrismál sem sett var sama dag á grundvelli hinna nýju laga. Með reglugerðinni voru innleidd höft á ný á fjármagnsviðskipti. Þannig var skilaskylda á útflutningstekjum innleidd á ný og sala á gjaldeyri til annarra þarfa en vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd bönnuð að mestu. Þessum aðgerðum var ætlað að draga úr spurn eftir erlendum gjaldeyri á innlendum markaði til að varðveita gjaldeyrisforða landsins. Óbein áhrif þessa voru að stuðla að því að fall á gengi krónunnar samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands varð minni en ella hafði verið.

Þá liggur einnig fyrir að Seðlabanki Íslands beitti sér meira á innlendum gjaldeyrismarkaði með eigin viðskiptum á þessu tímabili en hann hafði gert um langa hríð. Þau viðskipti, eða inngrip, eru þó ekki meiri en tíðkaðist á fyrstu árum innlends gjaldeyrismarkaðar. Daganna 6. til 8. október 2008 gerði Seðlabankinn tilraun til að handstýra gengi krónunnar með inngripum. Viðurkennt var af hálfu Seðlabankans þann 8. október að sú tilraun hefði mistekist og var fallið frá þeirri aðgerð eins og sést af skráðu gengi krónunnar þá daga sem tilraunin stóð yfir sem vék verulega frá því gengi sem Seðlabankinn reyndi að festa.

Á tímabilinu frá 10. október til 3. desember 2008 greip Seðlabankinn til þess ráðs að hverfa aftur til þess að halda daglega uppboðsfundi til að eiga viðskipti með erlenda gjaldmiðla gagnvart krónu sbr. 14. grein reglna um gjaldeyrismarkað um neyðarviðbrögð. Þrátt fyrir afbrigði, var sú skráning í samræmi við ákvæði reglna Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti. Seðlabankanum tókst þannig, þrátt fyrir erfiðar aðstæður að skrá gengi krónunnar þrátt fyrir bankahrun og gjaldeyriskreppu á þessu tímabili.

Við þessar aðstæður óx verulega munur á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum á innlendum gjaldeyrismarkaði og í viðskiptum erlendis en sá munur hafði verið óverulegur fyrir hrun. Fyrir liggja upplýsingar um gengi krónunnar og viðskipti á innlendum markaði Seðlabankans á þessu tímabili. Erlendis frá liggja fyrir upplýsingar um bindandi tilboðsverð í viðskiptakerfi REUTERS en ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárhæð viðskipta í því kerfi. Umsjónaraðili kerfisins, REUTERS, birtir ekki slíkar upplýsingar. Þá liggja fyrir upplýsingar um viðmiðunargengi  íslensku krónunnar hjá Evrópska Seðlabankanum. Þar er ekki heldur upplýst um fjárhæð viðskipta, enda er þar um að ræða söfnun upplýsinga vegna uppgjörskerfa Evrópska seðlabankakerfisins. Loks liggja fyrir upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti á vegum Straums fjárfestingarbanka á þessu tímabili.

Engin vafi er um að utan innlends gjaldeyrismarkaðar áttu sér stað umfangsmikil viðskipti með íslensku krónuna á lægra gengi (hærra verð á erlendum gjaldmiðlum) en skráð var á innlendum gjaldeyrismarkaði Seðlabankans á sama tíma, bæði innanlands og erlendis ef miðað er við upplýsingar frá Straumi – fjárfestingarbanka, Evrópska seðlabankanum og viðskiptakerfi REUTERS.

Engin leið er til þess að fullyrða með neinni vissu hvert er rétt gengi á íslensku krónunni á þessu tímabili. Ljóst er að takmarkanir á fjármagnsviðskiptum á innlendum markaði höfðu áhrif til þess að draga úr falli íslensku krónunnar. Jafnframt er líklegt að takmarmarkanir á innlendum gjaldeyrisviðskiptum, m.a. þrýstingur á skilum á gjaldeyristekjum til Seðlabankans hafði stuðlað að veikara gengi krónunnar erlendis. Þá verður að hafa í huga að í tilboðskerfi REUTERS er ekki um viðskiptavakt að ræða og framsetning tilboða  ræðst eingöngu af viðskiptaþörfum þátttakenda kerfisins.

Íslenskir bankar höfðu ekki aðgengi að erlendum mörkuðum frá 7. október. Erlendir bankar, mótaðilar þeirra í viðskiptum, lokuðu viðskiptaheimildum þeirra strax við hrun. Hinir nýju bankar sem stofnsettir voru 9. – 19. október, höfðu fyrst í stað engin erlend bankatengsl, og þurftu að fara með öll sín gjaldeyrisviðskipti í gengum Seðlabanka Íslands eins og fram kemur í fréttatilkynningum Seðlabankans frá 16. október 2008, 21. október 2008 og 3. nóvember 2008. Það þýðir jafnframt að íslenskir bankar voru í raun bundnir gengi krónunnar sem Seðlabankinn skráði á hverjum degi. Íslensku bankarnir þrír, Landsbanki, Glitnir og Kaupþing, og síðar nýju bankarnir sem reistir voru á grunni þeirra, höfðu því ekki aðgang að erlendum mörkuðum og þeim verðum sem þar giltu frá degi til dags og verð á þeim markaði því varla raunhæft í viðskiptum íslensku bankanna á þessu tímabili.

Gjaldeyrisviðskipti Straums fjárfestingarbanka byggðust á því að kaupa gjaldeyri af innlendum aðilum öðrum en Seðlabanka og selja til ýmissa aðila innlendra og erlendra. Þessi viðskipti voru ekki ólögleg fram til 28. nóvember 2008 þegar skilaskyldu var komið á með breyttum lögum og reglugerð. Viðskiptin hófust 22. október 2008. Fjárhæðir þessara viðskipta eru þó litlar og erfitt að leggja mat á það hvort þau verð sem þar birtast hefðu verið raunhæf verð fyrir allan markaðinn. Í ljósi tilmæla Seðlabankans frá 10. október 2010 voru það áhættusæknari eigendur erlends gjaldeyris sem seldu Straumi gjaldeyri og jafnframt er líklegt að kaupendur þess gjaldeyris hafi verið þeir sem óþolinmóðastir voru losa krónueignir og koma þeim í erlendan gjaldeyri.

Að því gefnu að um réttmæt gögn frá Straumi sé um að ræða þá kunna þrátt fyrir framangreinda annmarka viðskiptaverð hjá Straumi að vera besta vísbending um hvert gengi krónunnar hjá innlendum aðilum í frjálsum viðskiptum aðila sem á þeim tíma hafa ekki aðgengi að gjaldeyrismarkaði í gegnum banka eða Seðlabanka Íslands, þangað til að lögum um gjaldeyrismál var breytt þann 28. nóvember 2008. Sá galli er hins vegar á gögnunum frá Straumi að þau ná ekki yfir allar dagsetningar sem spurt var um í matsspurningu sem og eru heldur illa nothæf til að reikna út gjaldmiðlakrossa annarra mynta en viðskiptin áttu sér stað í.

Verð á ISK/EUR samkvæmt REUTERS viðskiptakerfinu er líklegri til að byggja á viðskiptum milli erlendra aðila en íslenskra. Í viðskiptum milli erlendra aðila geta ríkt aðrar verðmyndandi ástæður en milli innlendra aðila. Með neyðarlögum, yfirtöku FME og skilanefnda á stærstu aðilum að gjaldeyrismarkaði, sem forgangsröðun um aðgengi að gjaldeyri í kjölfar temprunar Seðlabanka á gjaldeyrisviðskiptum sem markaðsaðilar fóru eftir; lýsa viðskipti Straums því best því verði sem innlendir aðilar sem ekki höfðu aðgang að millibankamarkaði né Seðlabanka Íslands gátu átt viðskipti sín á milli með krónur og gjaldeyri. Þegar lögum um gjaldeyrisviðskipti er síðan breytt þann 28 nov sýna gögn frá Straumi banka nánast sama verð og hjá Seðlabanka. Þessu ber þó að taka með þeim fyrirvara að ekki er hægt að segja til um magn viðskipta sem þarna liggja að baki.“

Í matsgerð er að finna töflu sem sýnir verð íslenskrar krónu á móti evru og Bandaríkjadal eftir þeim dögum sem tilgreindir eru í matsspurningu út frá þeim gögnum sem matsmenn gátu aflað. Þar er tilgreint verð ISK/EUR umbeðna daga, utan 11. og 19. október 2008 en þá daga voru ekki viðskipti og er því stuðst við næsta viðskiptadag á undan, frá Evrópska seðlabankanum, REUTERS og Seðlabanka Íslands en einungis verð frá 22. október og 18. desember 2008 frá Straumi fjárfestingarbanka. Ekki liggja heldur fyrir gögn frá Evrópska seðlabankanum frá 18. desember 2008.

Einnig er í töflunni tilgreint verð ISK/USD frá Seðlabanka Íslands nefnda daga en frá Straumi fjárfestingarbanka einungis frá 22. október og 18. desember 2008.

Hvað varðar ISK/JPY liggja einungis fyrir gögn frá Seðlabanka Íslands.

Síðan segir í matsgerðinni:

„Meta má gengi ISK/USD út frá gengi EUR/USD sem og meta ISK/JPY útfrá EUR/JPY útfrá viðmiðunarverðum sem Seðlabanki Evrópu birtir. Um er að ræða miðgengi á stundar kaup- og sölutilboða metið með tölfræðilegum aðferðum bankans.

Hafa ber í huga að munur er á verði EUR/USD og EUR/JPY viðmiðunargengi ECB og því verði EUR/USD og EUR/JPY sem leiða má af gengiskrossum ISK/EUR og ISK/USD og ISK/JPY hjá Seðlabanka Íslands. Enn meiri munur er á ISK/EUR og ISK/USD og ISK/JPY í gögnum frá Straumi Banka og eru frávikin það mikil frá EUR/USD og EUR/JPY og gögnin svo strjál að ekki er treystandi að framkvæma mat byggt á gögnum frá Straumi Banka. Ekki er vitað hvað útskýrir þennan mun en margvíslegar ástæður geta verið t.a.m. vegna mismunandi aðferða (tímasetningar mælinga innan dagsins) við að ákvarða gengi gjaldmiðla.“

Í matsgerðinni er einnig að finna tvær töflur sem sýna verð ISK á móti EUR, USD og JPY eftir dögum sem tilgreindir voru í matsspurningu út frá gögnum REUTERS og ECB. Verð USD og JPY er þar reiknað út frá gengi þessara gjaldmiðla gagnvart EUR. Þann 3. desember 2008 hætti ECB að skrá gengi krónunnar á móti evru og eru því ekki upplýsingar í töflu um verð 18. desember 2008.

Fyrir liggur bréf lögmanns matsbeiðanda til matsmanna dags. 15. september 2011. Þar segir að engin leið sé fyrir matsbeiðanda að draga fram úr töflum í matsgerð ótvíræð svör við matsspurningu. Með bréfi þessu óski hann þess að matsmenn láti honum í té mat á því hvert hafi verið markaðsgengi krónunnar á tilgreindum dagsetningum. Undirstrikað sé að leitað sé eftir mati þeirra sem dómkvaddra sérfræðinga og þá gengið út frá því að metið verði miðað við gefnar forsendur það verð í krónum (gengi) sem greiða hefði þurft fyrir viðkomandi gjaldmiðla á tilgreindum dögum.

Svar dómkvaddra matsmanna við ofangreindu bréfi liggur einnig fyrir. Þar segir:

„Í matsgerðinni eru raktar ítarlega þær sérstöku aðstæður sem sköpuðust á gjaldeyrismarkaði með íslensku krónuna í kjölfar falls íslensku bankanna 7. – 9. október 2008. Í grófum dráttum sköpuðust þrír markaðir með íslensku krónuna allt eftir aðstæðum markaðsaðila þar sem verðlagning var mismunandi. Ástæður þessa voru þær takmarkanir sem settar voru á viðskipti innlendra aðila með krónuna auk þess sem aðgangur fallina og nýrra íslenskra banka sem settir voru á laggirnar að erlendum mörkuðum lokaðist eins og nánar er rakið í matsgerðinni. Innanlands starfaði áfram gjaldeyrismarkaður sem Seðlabanki Íslands skipulagði. Aðgangur að honum var háður takmörkunum sem Seðlabankinn setti með tilkynningu 10. október 2008 (Tímabundin temprun gjaldeyrisviðskipta) og enn fremur með samkomulagi við viðskiptavaka á markaðnum 15. október 2008 eins og rakið er í matsgerðinni. Auk þessa ákváðu skilanefndir sem tóku yfir rekstur föllnu bankanna að fresta greiðslu erlendra skuldbindinga þeirra. Til hliðar við innlendan markað Seðlabankans myndaðist nýr markaður, fyrir forgöngu Straums fjárfestingarbanka með íslensku krónuna, þar sem þátttakendur sem ekki voru bundnir af skilyrðum Seðlabankans. Þá myndaðist erlendis markaður þar sem erlendir aðilar áttu viðskipti með krónuna án skilyrða Seðlabankans og án þátttöku íslenskra fjármálafyrirtækja.

Öll þau verð sem mynduðust á þessum mörkuðum eru í raun markaðsverð en aðstæður, takmarkanir og væntingar þátttakenda gera það að verkum að verð íslensku krónunnar (gengi) er verulega mismunandi milli þeirra eins og rakið er í matgerðinni. Það var skoðun okkar að í ljósi aðstæðna matsbeiðanda væru verð þau sem mynduðust í viðskiptum  Straums fjárfestingarbanka líklegust til að endurspegla þau kjör sem gilt hefðu um viðskipti þau er um ræðir hefðu þau farið fram. Ástæðan er annars vegar að markaður Straums fjárfestingarbanka var óbundinn af þeim skilyrðum að viðskipti væru bundin við gjaldeyrisviðskipti vegna vöru og þjónustu og hins vegar var sá markaður aðgengilegur innlendum aðilum. Erlendir markaðir voru á þessum tíma lokaðir innlendum bönkum eins og áður segir. Hér er þó sá hængur á, að viðskipti á markaði Straums fjárfestingarbanka eru bundin við tiltölulega fáa gjaldmiðla og eiga sér ekki stað í viðkomandi gjaldmiðlum alla þá daga sem matsbeiðnin nær til.

Markaðsverð er eins og orðið segir verð sem myndast á markaði, í viðskiptum aðila á milli, og verður ekki metið neinum hætti. Annað hugtak, eins og til dæmis „rétt verð“ mætti hugsanlega reyna að meta á grundvelli tölfræðilegra aðferða, en það er annað hugtak en markaðsverð. Munurinn sést meðal annars í því að sennilega er markaðsverð, sérstaklega á gjaldeyri, líklega aðeins í undantekningartilvikum „rétt verð“. Því valda hagfræðilegir þættir sem verið hafa ráðgáta allt til þessa dags. Þetta endurspeglast í þeirri staðreynd að engin hagfræði- eða tölfræðilíkön eru til sem segja til um „rétt gengi“. Helst er um að ræða að hægt sé að spá um hvert gengi ætti að vera á löngu tímabili, til dæmis árabili, en engin þekkt aðferð er til að spá eða reikna „rétt gengi“ ákveðins dags.

Engin leið er til þess að okkar mati að verða við þeirri ósk yðar að við matsmenn metum „miðað við gefnar forsendur, það verð í krónum (gengi) sem greiða hefði þurft fyrir viðkomandi gjaldmiðla á tilgreindum dagsetningum.“ Erfitt er að skilja þetta orðalag öðruvísi en óskað sé þess að meta „rétt verð“ á íslensku krónunni. Með vísan til þess sem greint er frá hér að ofan er slíkt ekki hægt.

Í matsspurningunni sem vísað er til í inngangi bréfs yðar var gefin sú forskrift að „Við matið skal leitast við að leggja til grundvallar vegið meðaltalsverð íslensku krónunnar í viðskiptum eða eftir atvikum í bindandi kaup- og sölutilboðum með íslensku krónuna.“

Niðurstaða okkar eins og kemur fram í matsgerðinni er að sú leið sé ekki fær. Ekki aðeins skortir upplýsingar um viðskipti á einstökum mörkuðum heldur eru þau verð sem þar eru tilgreind efnislega mismunandi. Sum eru markaðsverð (viðskiptaverð), önnur tvíhliða tilboðsverð og loks einhliða tilboðsverð. Þegar af þeim sökum væri útreikningur meðaltalsverðs á grundvelli þeirra ófær og jafnframt marklaus. Þá er eins og rakið er efnislega er í greinargerðinni engin leið að fullyrða að markaðsverð („rétt verð“) hefði verið á því bili sem markast af hæstu og lægstu verðum sem voru á þessum mörkuðum á þessu tímabili hefðu viðskipti verið „frjáls“ eða jafn frjáls og þau voru fyrir 7. október 2008. Verulegar takmarkanir voru innleiddar á spurn innlendra eftir gjaldeyri þegar við fall bankanna meðal annars vegna þeirra viðskipta sem umdeild eru í máli matsbeiðanda. Hugsanlegt er, hefði sú eftirspurn komið fram, að verð krónunnar í erlendum gjaldmiðli hefði verið mun hærra en í tilboðum á erlendum mörkuðum. Um það verður ekkert fullyrt.“

Í bréfi lögmanns matsbeiðanda til héraðsdóms, dags. 30. nóvember 2011, er þess krafist að dómari leggi fyrir matsmenn að endurskoða matsgerðina, þar segir m.a.:

„Í matsgerðinni eru ítarlegar upplýsingar um viðskipti með krónu á því tímabili sem um ræðir og þau greind eftir mörkuðum. Að gefnum forsendum er lýst þeirri niðurstöðu að viðskiptaverð hjá Straumi gefi bestu vísbendinguna um hvert gengi krónunnar hafi verið hjá innlendum aðilum í frjálsum viðskiptum. Í framhaldinu eru niðurstöður settar fram í töfluformi án þess að þar komi fram með skýrum hætti svör við matsspurningum. Engin leið er fyrir matsbeiðanda að draga fram úr töflunum ótvíræð svör við matsspurningum.

Af þessu tilefni sendi matsbeiðandi matsmönnum bréf, dags. 15. september sl., þar sem óskað var eftir að þeir létu matsbeiðanda í té mat þeirra á því hvert hafi verið markaðsgengi krónunnar á tilgreindum dagsetningum. Undirstrikað var að leitað væri eftir mati þeirra sem dómkvaddra sérfræðinga og þá gengið út frá að metið yrði, miðað við gefnar forsendur, það verð í krónum (gengi) sem greiða hefði þurft fyrir viðkomandi gjaldmiðla á tilgreindum dagsetningum. Þá var matsmönnum bent á að sýnilega hefðu slæðst villur inn í matsgerðina.

Í svarbréfi matsmannanna, dags. 13. október sl., er þeirri skoðun þeirra lýst að markaðsverð, þ.e. verð sem myndast á markaði í viðskiptum aðila á milli, verði ekki metið með neinum hætti. Þá sé heldur ekki hægt að meta svokallað “rétt verð”. Loks segir orðrétt í bréfinu:

Engin leið er til þess að okkar mati að verða við þeirri ósk yðar að við matsmenn metum “miðað við gefnar forsendur, það verði í krónum (gengi) sem greiða hefði þurft fyrir viðkomandi gjaldmiðla á tilgreindum dagsetningum.” Erfitt er að skilja þetta orðalag öðruvísi en óskað sé þess að meta “rétt verð” á íslensku krónunni. Með vísan til þess sem greint er frá hér að ofan er slíkt ekki hægt.

 

Matsbeiðandi er ósammála þeirri afstöðu matsmanna að markaðsverð verði ekki metið með neinum hætti. Matsbeiðandi bendir á að í fjölmörgum málum hafa matsmenn verið dómkvaddir til að meta verðmæti fasteigna, hlutafjár o.s.frv. Í slíkum tilvikum er það hlutverk matsmanna að draga ályktanir af fyrirliggjandi gögnum. Ákveðið mat fer alltaf fram. Það þjónaði engum tilgangi að dómkveðja matsmenn ef hlutverk þeirra væri einungis að afla nákvæmra upplýsinga um það sem óskað væri mats á, þ.e. “finna svarið” í fyrirliggjandi gögnum. Þá er matsbeiðandi ósammála matsmönnum um að erfitt sé að skilja matsbeiðnina og bréf matsbeiðanda til matsmanna, dags. 15. september sl., öðruvísi en svo að óskað sé mats á “réttu verði” íslensku krónunnar. Matsbeiðandi telur þvert á móti að í gögnunum komi skýrt fram að óskað sé mats á markaðsverði, ekki “réttu verði”.

Með vísan til ofangreinds telur matsbeiðandi að það sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu hafi ekki verið metið og að matsgerðin sé ekki nægilega rökstudd, svo notað sé orðalag 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Matsbeiðandi telur að matsmönnum hefði í það minnsta borið að skila niðurstöðum á ákveðnu bili. Á grundvelli heimildar í 1. mgr. 66. gr. laganna fer matsbeiðandi þess því hér á leit við dómara að hann leggi fyrir matsmenn að þeir endurskoði matsgerðina með framangreind sjónarmið í huga.“

Í bókun matsþola í tilefni af ofangreindu bréfi matsbeiðanda, dags. 19. desember sl., segir eftirfarandi:

„Í þinghaldi þann 30. nóvember 2011 lagði lögmaður stefnda fram dómskjal nr. 41 þar sem hann fer þess á leit við dómara að hann leggi fyrir matsmenn að svara skýrar þeim spurningum sem til þeirra var beint í matsbeiðni.

Stefndi hefur þegar komið sínum aðfinnslum við matsgerðina á framfæri við matsmenn og krafist leiðréttingar, sbr. bréf stefnda til matsmanna dags. 30. nóvember 2011 sem er að finna á dskj. nr. 42. Í ljósi þess að matsmenn hafa nú þegar svarað þessari kröfu stefnda telur stefnandi það engum tilgangi þjóna að dómari máls leggi fyrir matsmenn að svara spurningu aftur sem þegar hafi verið svarað. Matsmenn hafa komist að tiltekinni niðurstöðu og verða þeir ekki knúnir til að svara öðru en þeir hafa þegar gert. Af þeim sökum mótmælir stefnandi að dómari hafi einhver afskipti af matsmönnum vegna framangreinds. Stefndi getur óskað eftir yfirmati ef hann er ósáttur við niðurstöðu matsmana.”

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat.

Eins og rakið hefur verið er það álit matsbeiðanda að það sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu hafi ekki verið metið og að matsgerðin hafi ekki verið nægilega rökstudd. Gerir matsbeiðandi þá kröfu að dómari beini því til matsmanna að endurskoða matsgerðina. Af hálfu matsþola er þess krafist að kröfu matsbeiðanda verði hafnað.

Samkvæmt 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 má dómkveðja þann einn til að framkvæma mat sem er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hefur nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestrar er kostur.

Með vísan til beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanna voru Ársæll Valfells viðskiptafræðingur og Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur dómkvaddir þann 21. júní 2010. Málsaðilar komu sér saman um að dómkveðja þá sem matsmenn og hefur hvorugur aðila efast um hæfni þeirra til að framkvæma matið. Ekki er því um það deilt hvort matsmenn hafi yfir að ráða þeirri sérfræðiþekkingu sem þarf til að framkvæma matið.

Hinir dómkvöddu matsmenn skiluðu niðurstöðu sinni í matsgerð sem dagsett er í ágúst 2011. Þar segir, eins og rakið hefur verið, að matsmenn telji að engin leið sé til þess að fullyrða með nokkurri vissu hvert hafi verið rétt gengi á íslensku krónunni á þessu tímabili og vísað til þeirra sérstöku aðstæðna sem ríktu á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma. Þó telji þeir að það verð sem myndaðist í viðskiptum Straums fjárfestingarbanka sé líklegast til að endurspegla þau kjör sem gilt hefðu í viðskiptunum hefðu þau farið fram. Hér sé þó sá hængur á að viðskipti á markaði Straums fjárfestingarbanka hafi verið bundin við tiltölulega fáa gjaldmiðla og hafi ekki átt sér stað í viðkomandi gjaldmiðlum alla þá daga sem matsbeiðnin hafi náð til. Svör matsmanna hafi því ekki verið að formi til í samræmi við það sem óskað var eftir í matsbeiðni, þ.e. að tilgreint væri miðgengi viðkomandi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni á tilgreindum dögum heldur hafi þeir tilgreint verð gjaldmiðla hjá einstökum fjármálastofnunum á tilgreindum dögum eftir því sem upplýsingar voru til um það. Engu að síður megi ráða af matsgerðinni að matsmenn hafi leitað svara við þeirri spurningu sem fyrir þá var lögð og rökstutt ítarlega niðurstöðu sína.

Eins og rakið hefur verið óskaði lögmaður matsbeiðanda með bréfi dags. 15. september sl., eftir frekari svörum frá matsmönnum. Í svarbréfi þeirra frá 13. október 2011 ítreka þeir að þeir telji að sú leið sé ekki fær að meta verð krónunnar í viðskiptum á þann hátt sem óskað sé eftir í matsbeiðni. Einnig segir þar að ekki aðeins skorti upplýsingar um viðskipti á einstökum mörkuðum heldur séu þau verð sem þar eru tilgreind efnislega mismunandi. Sum séu markaðsverð (viðskiptaverð), önnur tvíhliða tilboðsverð og loks einhliða tilboðsverð. Þegar af þeim sökum yrði útreikningur meðaltalsverðs á grundvelli þeirra ófær og jafnframt marklaus.

Af matsgerð og bréfi dómkvaddra matsmanna frá 13. október 2011 má ráða að matsmenn nýttu sér sérfræðiþekkingu sína við framkvæmd matsins og öfluðu sér jafnframt tiltækra gagna í því skyni að framkvæma matið. Líta verður svo á að í matinu komi, eins og á stendur, fram svar við matsspurningu. Matsmenn verða því ekki krafðir frekari svara við matsspurningu.

Það er mat dómara, með hliðsjón af atvikum, að það hafi verið metið sem meta skyldi að því leyti sem dómkvöddum matsmönnum hafi það verið mögulegt og einnig að matsmenn hafi rökstutt niðurstöðu sína á fullnægjandi hátt. Kröfu matsbeiðanda um að matsmenn endurskoði mat sitt er því hafnað.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddir matsmenn, Ársæll Valfells viðskiptafræðingur og Yngi Örn Kristinsson hagfræðingur, endurskoði matsgerð sína, dags. í ágúst 2011, er hafnað.