Hæstiréttur íslands

Mál nr. 108/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Afhending gagna


                                     

Mánudaginn 3. mars 2014.

Nr. 108/2014.

LBI hf.

(Halldór H. Backman hrl.)

gegn

Stapa lífeyrissjóði

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Afhending gagna.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. var fallist á kröfu S um að L hf. yrði gert að afhenda S nánar tiltekin gögn, þar á meðal eftirrit gagna, sem lögð höfðu verið fram í máli sem L hf. höfðaði fyrir héraðsdómi á hendur sjö fyrrum stjórnar- og starfsmönnum L hf. svo og 25 erlendum vátryggjendum. Í dómi Hæstaréttar sagði að skýra bæri lagaákvæðið svo að eftir að bú hlutafélags hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta veitti það hluthafa eða kröfuhafa í búið heimild til aðgangs að gögnum þess, eftir atvikum til að kanna hvort aðrir hluthafar, stjórnendur, starfsmenn eða endurskoðendur hefðu gerst brotlegir við lög í aðdraganda gjaldþrotaskipta. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2014 þar sem sóknaraðila var gert að afhenda varnaraðila nánar tiltekin gögn. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 segir að sá sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta geti krafist að fá aðgang að skjölum þrotabús til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hefur þau í vörslum sínum. Eins og gert er í hinum kærða úrskurði verður að skýra þetta ákvæði svo að eftir að bú hlutafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta veiti það hluthafa í hlutafélagi eða kröfuhafa í búið heimild til aðgangs að skjölum þess í þeim tilgangi að kanna hvort aðrir hluthafar í félaginu, stjórnendur þess, starfsmenn eða endurskoðendur hafi gerst brotlegir við lög í aðdraganda gjaldþrotaskipta, enda sýni sá sem þess óskar fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því.

Samkvæmt 9. lið í kröfugerð varnaraðila krefst hann þess að sóknaraðila verði gert að afhenda sér eftirrit af gögnum, sem lögð hafa verið fram í héraðsdómsmálinu nr. E-991/2012, en málið var höfðað af sóknaraðila gegn 32 aðilum og mun hafa verið þingfest í héraði 8. mars 2012. Skýra verður úrlausn héraðsdóms um þennan kröfulið varnaraðila á þann veg að fallist sé á að sóknaraðila sé skylt að afhenda varnaraðila eftirrit af þeim gögnum, sem sóknaraðili hefur fært fram til sönnunar kröfum sínum á hendur fyrrum bankastjórum, stjórnarmönnum og forstöðumanni fjárstýringar sóknaraðila en ekki þeim 25 erlendu vátryggjendum er  stefnt hefur verið í umræddu máli. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur, að öðru leyti en því að sóknaraðila, LBI hf., er samkvæmt 9. lið í kröfu varnaraðila, Stapa lífeyrissjóðs, skylt að afhenda honum eftirrit af gögnum sem sóknaraðili hefur fært fram til sönnunar kröfum sínum á hendur fyrrum bankastjórum, stjórnarmönnum og forstöðumanni fjárstýringar sóknaraðila í málinu nr. E-991/2012.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24 janúar 2014.

Þetta mál, sem barst dóminum 4. maí 2012, með bréfi slitastjórnar LBI hf. var þing­fest 8. júní það ár og tekið til úrskurðar 29. nóvember 2013.

Sóknaraðili, Stapi lífeyrissjóður, kt. [...], Strandgötu 3, Akureyri, krefst þess að varnaraðila, LBI hf., kt. [...], Álfheimum 74, Reykjavík, verði gert að afhenda sóknaraðila eftirrit af eftirtöldum gögnum:

  1. Samningi, dagsettum í júlí 2010, milli slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. og Björg­ólfs Thors Björgólfssonar og félaga tengdra honum um uppgjör skulda.
  2. Bréfaskiptum, þar á meðal tölvubréfum, milli slitastjórnarinnar og Björgólfs Thors Björg­ólfs­sonar og aðila sem komu fram fyrir hans hönd í tengslum við gerð samn­ings skv. lið 1.
  3. Bréfum og tölvubréfum, sem einhver af eftirtöldum mönnum sendi, fékk send, eða fékk afrit af, á tímabilinu frá því að Samson eignarhaldsfélag ehf. varð aðaleigandi Lands­banka Íslands hf. árið 2003 til þess tíma að honum var skipuð skilanefnd 7. októ­ber 2008 og varða tengsl Landsbanka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björgólf Guðmundsson og Björgólf Thor Björgólfsson. Með tengslum er átt við umfjöllun um það

i)                     hvort Björgólfur Thor hafi átt að teljast tengdur aðili, meðal annars í skiln­ingi alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24, sem samþykktur var af fram­kvæmda­stjórn ESB, 29. september 2003, með reglugerð nr. 1725/2003,

ii)                   hvort Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi átt að teljast móðurfélag Lands­banka Íslands hf., meðal annars í skilningi 2. gr. laga nr. 2/1995 og 97. gr. laga nr. 161/2002, eða

iii)                  hvort yfirtökuskylda hafi stofnast hjá Samson eignarhaldsfélagi ehf. gagn­vart hlut­höfum Landsbanka Íslands.

Þeir menn sem þessi kröfuliður taki til séu:

a) Bankaráðsmenn Landsbanka Íslands hf. á hverjum tíma, b) Sigur­jón Þor­valdur Árnason, c) Halldór J. Kristjánsson, d) Ársæll Haf­steins­son, e) Kristján Gunnar Valdimarsson, f) Haukur Þór Haraldsson, g) Sam­son eignarhaldsfélag ehf., h) Björgólfur Guðmundsson, i) Björg­ólfur Thor Björgólfsson, j) Birgir Már Ragnarsson, k) Andri Sveinsson, l) endur­skoðendur Landsbanka Íslands hf. og Samsonar eignarhalds­félags á hverjum tíma, þar á meðal Vignir Rafn Gíslason.

Sóknaraðili endurbætti kröfu sína við meðferð málsins og krafðist þess undir 3. lið að varnaraðila yrði gert að afhenda honum eftirrit neðangreindra tölvuskeyta:

a)            tölvupósts Vignis R. Gíslasonar til Sigurjóns G. Geirssonar, dags. 5. maí 2005, sbr. dómskjal nr. 50  í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

b)            tölvupósts Vignis R. Gíslasonar til Jeremy Foster, dags. 6. maí 2005, sbr. dómskjal nr. 51  í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

c)            tölvupósts Vignis R. Gíslasonar til Hauks Þórs Haraldssonar, dags. 7. maí 2005, sbr. dómskjal nr. 52  í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

d)            tölvupósts Hauks Þórs Haraldssonar til Sigurjóns G. Geirssonar, dags. 7. maí 2005, sbr. dómskjal nr. 53  í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

e)            tölvupósts um tengda aðila frá Hauki Þór Haraldssyni til Einars Þ. Harðar­sonar og Þórðar Örlygssonar, dags. 15. júlí 2006, sbr. dómskjal nr. 58  í héraðs­dómsmálinu nr. E-2210/2012,

f)             tölvupóstssamskipta Sigurjóns G. Geirssonar og Hauks Þórs Har­alds­sonar, dags. 18. október 2006, sbr. dómskjal nr. 59  í héraðsdóms­mál­inu nr. E-2210/2012,

g)            tölvupósts Jóns Sigurðssonar til Hauks Þórs Haraldssonar og Herberts V. Baldurssonar, dags. 16. nóvember 2006, ásamt viðhengi þess pósts, sbr. dóm­skjal nr. 61  í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

h)            tölvupóstssamskipta Ársæls Hafsteinssonar, Sigþórs Sigmars­sonar o.fl. vegna upplýsinga um eignarhald á Samson eignar­halds­félagi ehf., dags. 19. og 20. apríl 2007, sbr. dómskjal nr. 66  í héraðs­dóms­málinu nr. E-2210/2012,

i)             tölvupóstssamskipta Þórðar Örlygssonar, Ársæls Hafsteins­sonar o.fl. vegna félaga tengdra Björgólfi Thor Björgólfssyni og Björgólfi Guð­munds­syni, dags. 9.-17. október 2007, sbr. dómskjal nr. 65  í héraðs­dóms­málinu nr. E-2210/2012,

j)             tölvupóstssamskipta Jan H. Rottiers, Kristjáns G. Valdimarssonar og Sigríðar Torfadóttur um Givenshire Equities Ltd., dags. 30. nóvember til 4. des­em­ber 2007, sbr. dómskjal nr. 67 í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

l)             tölvupósts Hauks Þórs Haraldssonar til Vignis R. Gíslasonar, dags. 22. janúar 2008, sbr. dómskjal nr. 69 í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

m)           tölvupóstssamskipta Andra Sveinssonar við Björgólf Guðmundsson og Björgólf Thor Björgólfsson, dags. 29. desember 2005, sbr. dómskjal nr. 56 í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012,

n)            tölvupóstssamskipta Hauks Þórs Haraldssonar, Vignis Rafns Gísla­sonar og Hjalta Schiöth, dags. 3. janúar 2006 og 9. janúar 2006 ásamt viðhengi þessara sam­skipta, sbr. dómskjal nr. 57 í héraðsdómsmálinu nr. E-2210/2012.

  1. Bréfum og tölvubréfum sem fóru á milli starfsmanna og stjórnenda Lands­banka Íslands hf. og Fjármálaeftirlitsins, á tímabilinu frá því að Samson eignarhalds­félag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til 7. október 2008 er honum var skipuð skilanefnd.
  2. Fundargerðum og vinnugögnum bankaráðs Landsbanka Íslands hf., á tíma­bil­inu frá því að Samson eignarhaldsfélag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til 7. október 2008 er honum var skipuð skilanefnd, sem varða tengsl Lands­banka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björgólf Guð­munds­son og Björ­gólf Thor Björgólfsson. Með tengslum er átt við skilgreiningu skv. lið 3 að framan.
  3. Tölvupóstssamskiptum, bréfaskiptum, innanhússgögnum, minnisblöðum og öðrum vinnugögnum starfsmanna Landsbanka Íslands hf., á tímabilinu frá því að Sam­son eignarhaldsfélag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til 7. október 2008 er honum var skipuð skilanefnd, sem varða tengsl Lands­banka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björgólf Guðmundsson og Björg­ólf Thor Björg­ólfs­son. Með tengslum er átt við skilgreiningu skv. lið 3 að framan.

                Við meðferð málsins endurbætti sóknaraðili kröfu sína og krafðist þess undir 6. lið að varn­ar­aðila yrði gert að afhenda honum eftirrit:

k)            tölvupóstssamskipta Anna-Dreeta Rantamaa, Gogo Georgalla o.fl., dags. 30. nóvember til 13. desember 2007, sbr. dómskjal nr. 68 í héraðsdóms­mál­inu nr. E-2210/2012.

  1. Skýrslum og öðrum gögnum frá innri endurskoðanda Landsbanka Íslands ehf., á tímabilinu frá því að Samson eignarhaldsfélag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til 7. október 2008 er honum var skipuð skilanefnd sem varða tengsl Landsbanka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björg­ólf Guðmunds­son og Björgólf Thor Björgólfsson. Með tengslum er átt við skil­grein­ingu skv. lið 3 að framan.
  2. Skýrslum og öðrum gögnum frá regluvörslu Landsbanka Íslands ehf., á tíma­bil­inu frá því að Samson eignarhaldsfélag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til 7. október 2008 er honum var skipuð skilanefnd, sem varða tengsl Lands­banka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf. Með tengslum er átt við skil­grein­ingu skv. lið 3 að framan.
  3. Gögnum sem lögð hafa verið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í héraðs­dóms­málinu nr. E-991/2012: Landsbanki Íslands hf. gegn 32 nánar tilgreindum aðilum, sem var höfðað með stefnu, dags. 16. janúar 2012, er þingfest var í Héraðsdómi Reykja­víkur, 8. mars 2012.
  4. Bréfum og tölvubréfum sem fóru á milli starfsmanna og stjórnenda Lands­banka Íslands ehf. og starfsmanna PricewaterhouseCoopers, á tímabilinu frá því að Sam­son eignarhaldsfélag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til 7. október 2008 er honum var skipuð skilanefnd, sem varða tengsl Lands­banka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björgólf Guðmundsson og Björg­ólf Thor Björg­ólfs­son. Með tengslum er átt við skilgreiningu skv. lið 3 að framan.
  5. Öðrum upplýsingum um ofangreint efni sem ekki eru tilgreindar að framan, en slita­stjórn er kunnugt um og geta skipt máli við mat á því hvort sóknaraðili eigi bóta­kröfu vegna brota gegn reglum um tengda aðila eða varða vangaveltur um það hvort Sam­son eignarhaldsfélag ehf. skuli teljast móðurfélag Landsbanka Íslands og hvort yfir­töku­skylda hafi stofnast hjá Samson eignarhaldsfélagi ehf. gagnvart öðrum hlut­höfum Lands­banka Íslands hf.

Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila. 

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili krefst auk þess málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málsatvik

Sóknaraðili átti hlutafé í Landsbanka Íslands fyrir fall hans og lýsti kröfu við slit hans. Varnaraðili, LBI, slitabú Landsbanka Íslands er fjár­mála­fyrir­tæki í skilningi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Bankanum var, 7. október 2008, skipuð skila­nefnd með heimild í lögum nr. 125/2008. Þá misstu hlutabréf í bank­anum verðgildi sitt alger­lega. Bankinn fékk heim­ild til greiðslu­stöðv­unar, 5. des­em­ber 2008, í sam­ræmi við lög nr. 129/2008. Bankinn var, 29. apríl 2009, tekinn til slita­með­ferðar er Héraðs­dómur Reykja­víkur skipaði honum slita­stjórn í samræmi við lög nr. 44/2009. Slita­meðferð bankans er ekki lokið.

Með bréfi, 15. nóvember 2011, óskaði lögmaður sóknaraðila, fyrir hönd fjöl­margra hluthafa í Landsbankanum, eftir nánar tilgreindum gögnum slita­stjórnar varn­ar­aðila. Slita­stjórnin svaraði með bréfi, 13. desember 2011, þar sem tekið var fram að áður en lengra væri haldið yrði að gera grein fyrir því fyrir hvaða hlut­hafa beiðnin væri sett fram. Lögmaður sóknaraðila svaraði með bréfi, 23. des­em­ber 2011, og til­kynnti að sóknaraðili, sem jafnframt væri kröfuhafi við slitameðferðina, setti beiðn­ina fram.

Slitastjórn varnaraðila tók fram, í bréfi til sóknaraðila 27. janúar 2012, að nauð­syn­legt væri, áður en efnisleg afstaða yrði tekin, að sóknaraðili afmarkaði eins nákvæm­lega og honum væri unnt þau skjöl sem hann krefðist aðgangs að. Slík afmörkun væri forsenda þess að hún gæti metið hvort hann hefði lögvarða hags­muni, í skiln­ingi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., af endurriti ein­stakra skjala og hvort þau teldust háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrirtæki.

Sóknaraðili sendi slitastjórninni því nýja beiðni um aðgang að gögnum hjá varn­ar­aðila með bréfi, 1. febrúar 2012, þar sem sóknaraðili afmarkaði eftir föngum þau gögn sem hann óskaði eftir. Með bréfi, 24. febrúar 2012, hafnaði slitastjórnin einnig þeirri beiðni. Að mati slitastjórnarinnar yrði af tveimur nánar til­greindum dómum Hæsta­réttar ráðið að þeir lögvörðu hagsmunir sem vísað væri til í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 yrðu að varða slitameðferðina. Ekki yrði séð að aðili ætti á grund­velli fram­an­greinds ákvæðis rétt á því að fá afhent skjöl í slitameðferð til sönnunar­færslu vegna fyrir­hugaðs einkamáls á hendur þriðja aðila. Þá mætti, að mati slita­stjórnar, draga í efa að skilyrði 7. og 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og með­ferð persónu­upp­lýs­inga væru uppfyllt. Af þeim sökum væri nauðsynlegt að afla sér­stakrar heim­ildar Persónu­verndar sem tæki afstöðu til þess hvort uppfyllt væru skil­yrði 3. mgr. 8. gr. lag­anna. Það væri auk þess mat slitastjórnar, vegna þess hvernig beiðni sókn­ar­aðila væri sett fram, að hún gæti ekki metið hvort það færi í bága við 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki að verða við beiðninni.

Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar með bréfi, 1. mars 2012. Hann rökstuddi nánar þá lögvörðu hagsmuni sem hann taldi sig hafa af aðgangi að umbeðnum gögnum, ítrekaði beiðni sína og krafð­ist þess að ágrein­ingnum yrði vísað til héraðsdóms yrði slita­stjórn ekki við beiðninni. Slitastjórnin hafnaði beiðni sóknar­aðila að nýju með bréfi, 22. mars 2012. Síðan beindi hún ágreiningi málsaðila til Héraðs­dóms Reykjavíkur í sam­ræmi við 171. gr. laga nr. 21/1991.

Að mati sóknaraðila lýtur ágreiningur þessa máls aðallega að því

i)      annars vegar hvort hann hafi lögvarða hagsmuni af aðgangi að umkröfðum gögnum í skiln­ingi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 og

ii)     hins vegar hvort hann setji kröfu sína fram á þann hátt að slitastjórn geti metið hvort það fari í bága við 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki að verða við beiðninni.

Sóknaraðili lagði greinargerð sína í málinu fram á dómþingi 5. september 2012 og varnaraðili sína 15. október það ár. Með úrskurði 22. nóvember 2012 féllst Héraðs­dómur Reykjavíkur á að sóknar­aðili fengi, á grundvelli 14. gr. laga nr. 91/1991, afhenta stefnu og skjalaskrá í máli nr. E-2210/2012: Landsbanki Íslands gegn Price­water­house­Coopers ehf. o.fl.

Með stoð í þessum gögnum afmarkaði sóknaraðili kröfu sína frekar við með­ferð málsins og krafðist nánar tilgreindra gagna sem eru nú stafliðir í  kröfuliðum 3 og 6.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili styður dómkröfur sínar við 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. 3. málslið 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki.

Sóknaraðili hefur lögvarða hagsmuni af aðgangi að umkröfðum gögnum

Sóknaraðili vísar til þess að hann sé hvort tveggja hluthafi í Lands­banka Íslands og kröfuhafi við slit hans. Hann hafi orðið fyrir umtalsverðu tjóni eftir að bank­anum var skipuð skila­nefnd og hann síðar tekinn til slitameðferðar. Hlutafé sókn­ar­aðila í bankanum hafi orðið verð­laust auk þess sem aðeins lítill hluti muni fást upp í kröfu sókn­ar­aðila á hendur varn­ar­aðila, slitabúi bankans.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé fjallað um atriði sem, að mati sóknar­aðila, gefi tilefni til að ætla að í aðdraganda falls bankans hafi æðstu stjórn­endur og eig­andi hans sýnt af sér saknæma háttsemi sem hafi valdið sóknaraðila og fleirum tjóni. Sóknaraðili telur meðal annars að aðaleigendur Landsbankans, feðgarnir Björg­ólfur Guð­munds­son og Björgólfur Thor Björgólfsson, hafi í gegnum félag sitt, Sam­son eign­ar­halds­félag ehf., haft óeðlileg áhrif á starfsemi bankans og á skipu­lagðan og ólög­mætan hátt notað þau áhrif til þess að veita Björg­ólfi Thor og félögum í hans eigu lán umfram heim­ildir. Til að leyna þeim lánveitingum hafi þeir á skipu­lagðan og ólög­mætan hátt brotið gegn reglum um birtingu upp­lýs­inga um við­skipti við tengda aðila. Varn­ar­aðili virðist sömu skoðunar og geri fram­an­greint raunar að umfjöllunarefni í stefnu sinni vegna skaðabótamáls sem hann hafi höfðað á hendur 32 nánar til­greindum aðilum, meðal annars fyrrverandi banka­ráðs­mönnum og banka­stjórum varn­ar­aðila.

Tilgangur sóknaraðila, með því að óska þessara gagna, sé að leggja mat á það hvort fyrir hendi séu atvik og aðstæður sem geti leitt til þess að hann sem hluthafi í bank­anum og nú kröfuhafi við slit varnaraðila, geti átt skaða­bóta­kröfur á hendur bank­anum sjálfum, stjórn hans, stjórnendum eða aðaleiganda eða fyrir­svars­mönnum aðal­eig­anda. Sókn­ar­aðili hyggist einnig leggja mat á það hvort efni séu til þess að hann reki mál á hendur stjórn, stjórnendum eða öðrum aðilum, til hags­bóta fyrir varnaraðila á grund­velli 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., ákveði slitastjórn að halda hagsmununum ekki uppi.

Þau atvik sem sóknaraðili telur að rannsaka þurfi nánar séu samskipti stjórnar og stjórnenda bankans við aðaleigendur hans, ytri og innri endur­skoð­endur, sem og Fjár­mála­eftir­litið, og hvernig það hafi komið til að upplýsingum um raun­verulegt eign­ar­hald bankans hafi verið leynt, miðað við það sem fram komi í stefnu slita­stjórnar, í máli nr. E-991/2012. Jafnframt hver eða hverjir beri ábyrgð á því að við­skipta­mönnum og hluthöfum bankans hafi, langa hríð, verið veittar rangar og villandi upp­lýs­ingar um eignarhald hans. Sóknaraðili telur tilefni til að rannsaka hvort stjórn og stjórn­endur bankans hafi lagt á ráðin með aðaleigendum sínum um að veita rangar og vill­andi upplýsingar um eignarhaldið og halda leyndum umfangs­miklum lánum til Björg­ólfs Thors og tengdra félaga sem voru langt umfram lög­bundnar heim­ildir. Helstu atriði sem sóknaraðili telur þurfa að rannsaka og leitast við að leiða í ljós séu:

  1. Af hverju Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi ekki verið skilgreint sem móður­félag Landsbanka Íslands hf. og hver eða hverjir hafi haft áhrif á það. Fyrir­liggj­andi upplýsingar, svo sem úr stefnu slitastjórnar frá 16. janúar 2012, á hendur fyrrverandi bankaráðsmönnum og bankastjórum Landsbankans, bendi til þess að gróflega hafi verið farið á svig við reglur hluta­félaga­laga og laga um fjár­mála­fyrirtæki, um skilgreiningu á móðurfélagi. Hefði Sam­son eignar­halds­félag ehf. verið réttilega skilgreint sem móðurfélag Lands­banka Íslands hf. hefði það haft margvísleg áhrif, meðal annars þau að ekki hefði verið undan því vikist að upplýsa um lánveitingar til eigenda Sam­sonar eignar­halds­félags ehf. og yfirtökuskylda gagnvart öðrum hlut­höfum hefði stofnast.
  2. Tengt 1. lið telur sóknaraðili að rannsaka þurfi sérstaklega hvort stjórn­endur og stjórn Landsbanka Íslands hf. hafi tekið þátt í því að leyna raun­veru­legri eignar­hlut­deild Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í Landsbanka Íslands hf., í því skyni að aðstoða aðaleigendur bankans við að fara á svig við reglur um yfir­töku­skyldu.
  3. Hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi vísvitandi og skipulega farið á svig við reglur um svokallaða tengda aðila. Sóknaraðili telur þá laga­skyldu hafa hvílt á Landsbanka Íslands hf. að skilgreina Björgólf Thor Björg­ólfs­son sem tengdan aðila, en þeirri skyldu hafi bankinn ekki fylgt og þannig farið á svig við reglur um stórar áhættuskuldbindingar og komið sér hjá því að upp­lýsa um umfangsmikil lán til hans, sem hafi verið langt umfram heimildir.
  4. Hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi vísvitandi og skipulega farið á svig við reglur um skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum. Sókn­ar­aðili telur sterkar vísbendingar um það að stjórn og stjórn­endur Lands­banka Íslands hf. hafi, í samvinnu við Björgólf Thor Björg­ólfs­son, ákveðið að tengja hann ekki við öll félög sem hann réði yfir, svo sem Actavis hf. Það hafi verið gert til þess að fara á svig við reglur um stórar áhættu­skuld­bind­ingar.

Sóknaraðili byggir á því að hann eigi rétt til þess að fá öll gögn sem þetta mál varði þannig að hann geti sjálfur lagt mat á það hvort tilefni sé til að fara í skaða­bóta­mál við þá sem að meintum ólögmætum gerningum komu.

Varðandi þá kröfu sína að fá afrit af samningum slitastjórnarinnar við Björg­ólf Thor Björgólfsson, sbr. 1. og 2. lið dómkrafna, kveðst sóknaraðili vilja rann­saka hvort slita­stjórn hafi gætt hagsmuna bank­ans nægilega við gerð þeirra samn­inga og hvort hún hafi afsalað, fyrir hönd Landsbanka Íslands hf., rétti til að hafa uppi frekari kröfur á hendur Björgólfi Thor. Sóknaraðili telur eðli­legt að sér, sem kröfu­hafa, sé veittur aðgangur að þessum gögnum, enda lúti slita­stjórn aðhaldi og eftir­liti kröfuhafa, sbr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Að öllu framangreindu virtu telur sóknaraðili sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að umkröfðum gögnum.

Unnt er að meta hvort afhending gagna fari í bága við ákvæði um bankaleynd

Sóknaraðili bendir á að í bréfi slitastjórnar varnaraðila, 24. febrúar 2012, sé því haldið fram að beiðni hans um afhendingu gagna sé þannig sett fram að erfitt sé að meta hvort það fari í bága við 58. gr. laga nr. 161/2002 að verða við beiðninni. Í bréfi slita­stjórnar, 22. mars 2012, sé jafnframt vísað til sömu raka.

Sóknaraðili telur beiðni sína um afhendingu gagna úr fórum varnaraðila svo skýra og vel afmarkaða að varnaraðili geti auðveldlega metið hvort það fari í bága við 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki að verða við henni.

Sóknaraðili telur ákvæði um þagnarskyldu í lögum um fjármálafyrirtæki ekki geta staðið í vegi fyrir afhendingu gagnanna, enda biðji hann ekki um gögn sem falli undir ákvæðið, það er upplýsingar um viðskipti eða einkamálefni við­skipta­manna Lands­banka Íslands hf. Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um þagnar­skyldu komi ekki í veg fyrir að gerðar séu opinberar upplýsingar sem beri að opin­bera sam­kvæmt öðrum lögum, svo sem upplýsingar um störf og samninga sem skipta­stjórar eða slitastjórnir geri um uppgjör á kröfum sem falli undir slitin, hverjir séu tengdir aðilar, hvernig eign­ar­haldi Lands­banka Íslands hf. hafi raunverulega verið háttað og við­skipti hans við tengda aðila. Einnig standi ákvæði laga um fjár­mála­fyrirtæki um þagn­ar­skyldu, um við­skipta- og einkamálefni viðskiptamanna bank­ans, því ekki í vegi að upp­lýst sé um bréfa­skipti við eftirlitsaðila, eða að afhent séu innanhússgögn eða sam­skipti við ytri endur­skoð­anda, um þau álitaefni sem sókn­ar­aðili telur að rannsaka þurfi frekar.

Landsbanka Íslands hf. hafi verið skylt að upplýsa nákvæmlega um tengsl bank­ans við aðal­eig­endur sína og þær upplýsingar séu meðal þess sem sóknaraðili óski aðgangs að. Að auki sé spurt um efni samninga um uppgjör við Björgólf Thor, en eins og viður­kennt sé í stefnu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., dags. 16. janúar 2012, hafi Björg­ólfur Thor verið nátengdur Landsbanka Íslands hf. og því hafi bank­anum borið á hverjum tíma að upp­lýsa um allar lánveitingar til hans og félaga sem hann réði yfir, sem og aðra samn­inga við hann, sbr. ákvæði 53. gr. og 63. gr. laga nr. 3/2006 um árs­reikn­inga. Sam­kvæmt ákvæðum 3. mgr. 95. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki, beri að hafa ársreikn­ing og skýrslu stjórnar aðgengilega öllum við­skipta­mönnum bank­ans og því ljóst að þær upplýsingar sem eigi að koma fram í árs­reikn­ingi séu ekki háðar banka­leynd samkvæmt sömu lögum. Þá sé einnig nauðsynlegt að veita slíkar upp­lýs­ingar til þess að hlut­hafar geti metið hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum 76. gr. laga nr. 2/1995 um hluta­félög, þannig að skaðabótaskylda hafi stofn­ast skv. 134. gr. sömu laga.

Sóknaraðili telur því að ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, geti ekki staðið því í vegi að veittar séu upplýsingar um viðskipti Landsbanka Íslands hf. við Björg­ólf Thor Björgólfsson, enda falli hann í það minnsta undir ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, teljist hafa verið nátengdur Björgólfi Guð­munds­syni, formanni bankaráðs Landsbanka Íslands hf., og einnig Samson eign­ar­halds­félagi ehf., móðurfélagi Landsbanka Íslands hf.

Að öllu framangreindu virtu telur sóknaraðili beiðni sína þannig úr garði gerða að vel sé hægt að meta hvort afhending einstakra gagna fari í bága við ákvæði um banka­leynd og að ekki sé fyrir fram við því að búast að í þeim gögnum sem óskað sé afhend­ingar á séu upplýsingar háðar bankaleynd.

Önnur atriði er varða fyrirliggjandi afstöðu slitastjórnar í málinu

Sóknaraðili vísar til þess að í bréfi slitastjórnar, 22. mars 2012, sé tekið fram að gagnabeiðni sóknaraðila eigi sér ekki hliðstæðu að umfangi og efni í slita­með­ferð varn­ar­aðila auk þess sem þeir hæstaréttardómar sem gengið hafi um afhendingu skjala úr slitum fjármálafyrirtækja hafi fjallað um afmark­aðri efni.

Sóknaraðili bendir á að flest varðandi slitameðferðir hinna föllnu banka eigi sér vart hliðstæðu að umfangi. Ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 geri ekki ráð fyrir að aðgangur að gögnum þrotabús (í þessu tilviki slitabús) eigi að tak­mark­ast við ákveðið umfang. Þvert á móti geri ákvæðið ráð fyrir að þeir sem hafi lög­varða hags­muni geti að jafnaði fengið aðgang að hvaða gögnum þrotabús, eða bús í slita­með­ferð, sem er. Ráða megi af bréfi slitastjórnarinnar að hún hafi umbeðin gögn undir höndum en sé ekki reiðubúin að afhenda þau sökum þess hve umfangsmikil beiðni sókn­ar­aðila sé. Eins og að framan greini geri ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 ekki ráð fyrir því að aðgangur að gögnum þrotabús eigi að takmarkast við ákveðið umfang og því fái sóknaraðili ekki séð hvaða þýðingu það hafi að þeir hæstaréttar­dómar, sem gengið hafi um afhendingu skjala úr slitum fjármálafyrirtækja, hafi fjallað um afmark­aðri efni.

Í afstöðu slitastjórnarinnar frá 24. febrúar 2012 og 22. mars 2012 sé tekið fram að ekki verði séð að aðili eigi, á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, rétt á því að fá skjöl úr þrota­búi eða úr búi í slitameðferð til sönnunarfærslu vegna fyrirhugaðs einka­máls á hendur þriðja aðila. Bent sé á að XII. kafli laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála eigi við þegar aðili vilji freista þess að afla sönn­unar­gagna áður en mál sé höfðað.

Sóknaraðili mótmælir þessum rökum slitastjórnar. Í fyrsta lagi geri ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 ekki ráð fyrir að skjala sé, eða sé ekki, aflað í ákveðnum til­gangi. Í annan stað kveði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 á um heim­ild, en ekki skyldu, til að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varði lögvarða hags­muni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Ákvæðið geri augljóslega ráð fyrir að hægt sé að afla skjala og annarra sýni­legra sönn­un­ar­gagna, sem geti ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af máls­höfðun vegna þeirra, á annan hátt en með dómi.

Í bréfi slitastjórnar, 22. mars 2012, sé því haldið fram að grundvöllur þess að kröfu­hafi geti neytt úrræðis 130. gr. laga nr. 21/1991 sé að slitastjórn hafi ákveðið að halda ekki uppi tilteknum hagsmunum sem fjármálafyrirtæki í slitum njóti eða geti notið. Engin slík ákvörðun hafi verið tekin og að mati slitastjórnar verði krafa um aðgang að skjölum ekki reist á því að kröfuhafi vilji rannsaka atvik sem síðar gætu leitt til þess að hann ákveði að halda uppi slíkum hagsmunum. Þegar af þeirri ástæðu geti sóknar­aðili ekki átt lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðin gögn á þeim grund­velli.

Vegna þessarar röksemdar bendir sóknaraðili á að kröfuhafar eigi rétt á að leggja sjálfir mat á það hvort þrotabú eigi tiltekna hagsmuni, en séu ekki háðir ein­hliða mati skipta­stjóra um það. Kjósi skiptastjóri að láta hjá líða að rannsaka það, hvort til­teknir hags­munir séu fyrir hendi, séu kröfuhafar ekki bundnir af þeirri ákvörðun og hún takmarki ekki rétt kröfuhafa til að fá gögn sem geri þeim kleift að leggja sjálfstætt mat á við­komandi hags­muni. Telji kröfuhafi tiltekna hagsmuni fyrir hendi geti hann innt skipta­stjóra (í þessu tilviki slitastjórn) eftir því hvort hann muni halda hags­munum uppi. Hyggist skiptastjóri ekki gera það geti kröfu­hafi í kjölfarið ákveðið að halda þeim hagsmunum uppi. Réttur sóknaraðila til að fá í hendur upp­lýs­ingar geti því ekki verið háður því hvort slitastjórn varnaraðila hafi tekið ákvörðun um að halda uppi þessum hugsanlegu hagsmunum, eða ekki.

Í bréfi slitastjórnar til sóknaraðila, 22. mars 2012, segi að þeir samn­ingar sem varn­ar­aðili gerði við Björgólf Thor Björgólfsson og fyrirtæki tengd honum í júlí 2010 úti­loki ekki að slitastjórn geti farið í skaðabótamál við hann og fyrir­tæki hans. Þessa samn­inga hafi innlend og erlend fjármálafyrirtæki gert og séu aðilar bundnir trúnaði um efni þeirra. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrirtæki sé ekki unnt að verða við beiðni sóknaraðila um aðgang að þeim. Það sama eigi við um þau samskipti sem leiddu til gerð þessara samn­inga.

Sóknaraðili telur skiptastjóra (í þessu tilviki slitastjórn) ekki geta gert samn­inga, í raun fyrir hönd kröfuhafa, sem hann sé síðan bundinn trúnaði um gagnvart kröfu­höfum. Skiptastjóri lúti aðhaldi og eftirliti kröfuhafa, sbr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Að sama skapi geti sá sem semji við skiptastjóra ekki átt kröfu til þess að hann haldi þagnar­skyldu um efni samninganna gagnvart kröfuhöfum. Ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 geri ekki heldur ráð fyrir að aðgangur að gögnum þrotabús sé tak­mark­aður við ákveðin gögn, til dæmis gögn sem ekki séu háð trúnaði. Þá telur sókn­ar­aðili ákvæði um banka­leynd ekki geta átt við um samninga sem slita­stjórn geri við fyrrum fyrirsvars­mann aðaleiganda varnaraðila, sbr. það sem áður segir.

Að lokum mótmælir sóknaraðili þeirri afstöðu slitastjórnar að draga megi í efa að skilyrði 7. og 8. gr. laga nr. 77/2000 um meðferð persónuupplýsinga og persónu­vernd séu uppfyllt, sem leiði til þess að nauðsynlegt sé að afla sérstakrar heimildar Persónu­verndar, sem taki þá afstöðu til þess hvort uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 8. gr. lag­anna. Þær upplýsingar sem sóknaraðili óski eftir falli almennt ekki undir skil­grein­ingu framangreindra laga á persónu­upplýsingum, enda varði þær í fæstum tilvikum ein­stakl­inga, heldur varði þær fyrir­tæki, svo sem Landsbanka Íslands hf., Samson ehf. og Fjármálaeftirlitið. Að því leyti sem upp­lýs­ingar sem um sé beðið gætu fallið undir lög nr. 77/2000, sé heimild sóknar­aðila til að fá þessar upplýsingar alveg skýr skv. 3. og 7. tölulið 1. mgr. 8. gr. laganna. Sókn­ar­aðili sjái ekki heldur hvernig ákvæði laga nr. 77/2000 eigi að koma í veg fyrir aðgang hans að umbeðnum gögnum. Telji slita­stjórn varnaraðila sig þurfa að afla sér­stakrar heimildar Persónu­verndar sé henni frjálst að gera það. Skylda slita­stjórn­ar­innar til að veita aðgang að gögnum sé engu að síður afdrátt­arlaus og geri ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 enga þá fyrirvara sem slita­stjórnin haldi fram.

Sóknaraðili styður kröfu sína um málskostnað við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir því að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir aðgangi sóknaraðila að umkröfðum gögnum og upplýsingum og krefst þess því að öllum dómkröfum sókn­ar­aðila verði hafnað.

Varnaraðili vísar í fyrsta lagi til þess að með 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki veittur almennur aðgangur að skjölum þrota­bús eða fjármálafyrirtækis í slita­með­ferð. Það nægi ekki að sá sem krefjist aðgangs að skjölum sýni fram á að hann hafi hags­muni af aðgangi heldur þurfi þeir hagsmunir að vera lögvarðir.

Varðandi kröfu sóknaraðila um aðgang að gögnum og upplýsingum í þeim til­gangi að leggja mat á hvort fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem geti leitt til þess að sókn­ar­aðili, sem hluthafi í Landsbanka Íslands hf. og kröfuhafi við slit hans, geti átt skaða­bóta­kröfur á hendur fyrrverandi stjórn bankans, stjórnendum, aðaleiganda eða fyrir­svars­mönnum aðaleiganda bendir varnaraðili á að af dómum Hæsta­réttar megi ráða að þeir lögvörðu hagsmunir sem vísað sé til í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 verði að varða viðkomandi þrotabú eða fjármálafyrirtæki í slitameðferð, þ.e. hags­muni þess sem krefst skjala á grundvelli ákvæðisins gagnvart búinu eða þrota­manni.

Í samræmi við þetta byggir varnaraðili á því að sóknaraðili eigi ekki rétt til aðgangs að gögnum í slitameðferð Landsbanka Íslands hf. á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til sönnunarfærslu vegna fyrirhugaðs einkamáls á hendur þriðja aðila. Ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála eigi við þegar aðili freisti þess að afla sönnunargagna áður en mál sé höfðað. Sóknaraðili hafi því ekki lögvar­inna hagsmuna að gæta í skilningi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til aðgangs að umkröfðum gögnum í þeim tilgangi að leggja mat á hvort fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem geti leitt til þess að sóknar­aðili höfði mál á hendur þriðja aðila.

Varnaraðili bendir á að annar tilgangur sóknaraðila með gögnunum sé að leggja mat á hvort fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem geti leitt til þess að sókn­ar­aðili, sem kröfu­hafi og hluthafi í Landsbanka Íslands hf., geti átt skaða­bóta­kröfu á hendur bank­anum sjálfum. Vegna þessa tilgangs vísar varnaraðili til þess að Lands­banki Íslands hf. sé í slitameðferð eftir ákvæðum B-liðar XII. kafla laga nr. 161/2002 og að um þá meðferð gildi í megin­atriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. Í því felist meðal annars að kröfum á hendur bank­anum verði almennt ekki komið fram nema á þann hátt sem kveðið sé á um í XVIII. kafla laga nr. 21/1991. Slitastjórn Lands­banka Íslands hf. hafi, 30. apríl 2009, gefið út inn­köllun til kröfuhafa sem fyrst var birt í Lögbirtingablaðinu þennan sama dag. Að liðnum sex mánuðum frá fyrstu birt­ingu, á miðnætti 30. októ­ber 2009, hafi kröfu­lýs­ingar­fresti lokið. Sóknaraðili hafi ekki lýst skaða­bótakröfu á hendur Lands­banka Íslands hf., hvorki áður en né eftir að kröfu­lýsingar­frestur rann út. Þar sem ekki verði séð að eitthvert þeirra atriða sem eru talin í 118. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við um slíka kröfu sókn­ar­aðila á hendur varn­ar­aðila byggi varn­ar­aðili á því að ekki sé unnt að telja hags­muni sókn­ar­aðila af mál­sókn á hendur Lands­banka Íslands hf. lög­varða í skiln­ingi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991. Af þessum sökum beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila.

Varnaraðili mótmælir því í þriðja lagi að sóknaraðili eigi rétt á aðgangi að umkröfðum gögnum í þeim tilgangi að leggja mat á hvort efni séu til þess að sóknar­aðili reki mál á hendur stjórn, stjórnendum eða öðrum aðilum, til hags­bóta fyrir varn­ar­aðila á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., ákveði slita­stjórn varnaraðila að halda hagsmunum ekki uppi. Samkvæmt þessu ákvæði geti kröfu­hafi í eigin nafni og á eigin áhættu haldið uppi hagsmunum sem þrotabú kunni að njóta eða geti notið enda hafi skiptastjóri ákveðið að halda þeim ekki uppi. Grund­völlur þess að kröfu­hafi geti neytt þessa réttar sé sá að slitastjórn hafi ákveðið að halda ekki uppi til­teknum hagsmunum sem fjár­mála­fyrir­tæki í slitameðferð njóti eða geti notið. Slita­stjórn hafi ekki tekið slíka ákvörðun. Varn­ar­aðili byggi á því að krafa um aðgang að skjölum verði ekki reist á því að sókn­ar­aðili vilji rann­saka atvik sem síðar gætu leitt til þess að hann ákveði að halda uppi slíkum hags­munum. Geti sóknaraðili þegar af þessari ástæðu ekki átt lög­varða hags­muni í skiln­ingi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til aðgangs að umkröfðum gögnum á þessum grund­velli. Því beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila.

Auk framangreinds vísar varnaraðili til þess að dómkröfur sóknaraðila um afhend­ingu nánar tilgreindra gagna varði að verulegu leyti gögn sem teljist til persónu­upp­lýsinga þannig að vinnsla þeirra, það er leit upplýsinga, afritun og hvers konar umsýsla, heyri undir gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og með­ferð pers­ónu­upplýsinga. Varnaraðili byggi á því að skilyrði 7. og 8. gr. laga nr. 77/2000 fyrir vinnslu persónuupplýsinga séu ekki uppfyllt að því er varði dómkröfur sókn­ar­aðila um afhend­ingu gagna. Af þessum sökum sé nauðsynlegt að afla sér­stakrar heim­ildar Pers­ónu­verndar sem taki þá afstöðu til þess hvort uppfyllt séu skil­yrði 3. mgr. 8. gr. lag­anna fyrir vinnslu persónuupplýsinganna.

Varnaraðili tekur fram að dómkröfur sóknaraðila eigi sér ekki hlið­stæðu að umfangi og efni í slitameðferð varnaraðila. Landsbanki Íslands hf. hafi verið og sé fjár­mála­fyrir­tæki í skilningi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síð­ari breyt­ingum og verði því að skoða sjálfstætt í hverju tilviki hvort uppfyllt séu skil­yrði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, annars vegar hvort sóknaraðili hafi lög­varða hags­muni og hins vegar hvort bankaleynd hvíli á umbeðnum gögnum og upp­lýs­ingum. Varnar­aðili byggi á því að kröfur sóknaraðila varði gögn með við­kvæmum upplýsingum sem séu háðar banka­leynd samkvæmt ákvæði 58. gr. Vegna þessa ákvæðis sé varnaraðila bæði óskylt og óheimilt að afhenda sókn­ar­aðila umkrafin gögn. Í öllu falli byggi varn­ar­aðili á því að dómkröfur sóknar­aðila um aðgang að gögnum, eins og þær séu afmark­aðar, séu of víð­tækar til þess að unnt sé að meta hvort afhending gagnanna fari í bága við 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Því beri að hafna öllum kröfum sókn­ar­aðila.

Í 1. og 2. lið dómkrafna krefjist sóknaraðili þess að varnar­aðila verði gert að afhenda sóknaraðila eftirrit samnings milli slitastjórnar Lands­banka íslands hf. og Björg­ólfs Thors Björgólfssonar og félaga sem tengist honum um upp­gjör skulda svo og bréfa­skipta slitastjórnar og Björgólfs Thors og aðila sem komu fram fyrir hans hönd við gerð þess samnings.

Varnaraðili krefst þess að þessum liðum í kröfu sókn­ar­aðila verði hafnað. Auk áðurnefndra röksemda vísar varnaraðili sérstaklega til þess að sam­kvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 sé slitastjórn varnaraðila bundin þagnarskyldu um allt það sem hún fái vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varði viðskipta- eða einka­málefni við­skipta­manna, nema skylt sé að veita upp­lýs­ingar samkvæmt lögum. Þessu ákvæði sé ætlað að vernda persónulega og við­skipta­lega hags­muni þeirra sem eigi viðskipti við fjár­mála­fyrir­tæki. Varnaraðila sé bæði óskylt og óheim­ilt að afhenda sóknaraðila gögn samkvæmt 1. og 2. lið í kröfu sókn­ar­aðila þar sem þessi samningur við Björg­ólf Thor, og félög sem tengist honum, hafi verið gerður við hann sem við­skipta­mann í skiln­ingi 1. mgr. 58. gr. og varði við­skipta- og einkamálefni hans og félaga honum tengdra. Varn­ar­aðili vísar til þess að leiki vafi á því hvort sá sem upp­lýs­ingarnar varði sé við­skipta­maður í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 beri að túlka ákvæðið þröngt. Varn­ar­aðili mótmælir því að þetta séu upp­lýs­ingar sem Lands­banka Íslands hf. sé skylt að veita á grundvelli laga nr. 3/2006 um árs­reikn­inga og laga nr. 2/1995 um hluta­félög.

Að auki áréttar varnaraðili að þeir samningar sem hann gerði við Björg­ólf Thor Björg­ólfsson og félög tengd honum, í júlí 2010, útiloki ekki að slita­stjórn varnaraðila geti farið í skaðabótamál við Björgólf og fyrirtæki hans. Auk varnaraðila hafi innlend og erlend fjár­mála­fyrirtæki komið að gerð samninganna og séu samningsaðilar bundnir trúnaði um efni þeirra. Varnar­aðila sé því óskylt og óheimilt að afhenda sókn­ar­aðila umkrafin gögn og því beri að hafna 1. og 2. kröfu­lið í dómkröfu sókn­ar­aðila.

Varðandi 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið í dómkröfum sóknaraðila vísar varn­ar­aðili til áðurnefndra raka fyrir því að sóknaraðili hafi ekki lögvarinna hags­muna að gæta í skiln­ingi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til þess að fá aðgang að umkröfðum gögnum sem og til umfjöllunar um lög nr. 77/2000 um persónuvernd og með­ferð per­sónu­upp­lýs­inga og ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki. Varn­ar­aðili áréttar að á sóknaraðila hvíli sönnunarbyrði fyrir þeirri full­yrð­ingu að varn­ar­aðila sé skylt að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991. Sóknar­aðila hafi ekki lánast sú sönnunar­færsla og því krefjist varnaraðili þess að kröfum í 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið sókn­ar­aðila verði hafnað.

Í 4. lið dómkrafna sinna krefjist sóknaraðili þess að varnar­aðila verði gert að afhenda sóknaraðila eftirrit bréfa og tölvubréfa sem fóru á milli starfsmanna og stjórn­enda Landsbanka Íslands hf. og Fjármálaeftirlitsins, á tímabilinu frá því að Sam­son eign­ar­haldsfélag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til þess tíma að bankanum var skipuð skilanefnd, 7. október 2008. Varnaraðili mót­mælir sér­stak­lega þessari kröfu sóknaraðila og krefst þess að henni verið hafnað. Sóknaraðili krefj­ist ekki ákveðinna gagna eða sam­skipta vegna afmark­aðra mála á milli Lands­banka Íslands hf. og Fjármálaeftirlitsins heldur allra sam­skipta þessara aðila á fimm ára tíma­bili. Þessi liður í kröfu sókn­ar­aðila sé of víðtækur til þess að unnt sé að sann­reyna og meta hvort sóknaraðili hafi lögvarinna hags­muna að gæta af aðgangi að umkröfðum gögnum. Á þessu fimm ára tímabili hafi starfs­menn og stjórn­endur Lands­banka Íslands hf. átt mikil samskipti við Fjár­mála­eftir­litið vegna ýmissa mála, þar á meðal vegna ann­arra málefna en þeirra sem krafa sókn­ar­aðila um afhend­ingu gagna og upp­lýs­inga í þessu máli varði. Sókn­ar­aðili hafi ekki sýnt fram á lög­varða hagsmuni sína sam­kvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til þess að krefjast aðgangs að ótilgreindum gögnum og sam­skiptum Lands­banka Íslands hf. og Fjár­mála­eftir­litsins, vegna ótil­greindra mála, á tíma­bil­inu. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna 4. lið í kröfu sókn­ar­aðila. Varnar­aðili vísar jafnframt til fram­an­greindrar umfjöllunar um lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónu­upp­lýs­inga og ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002.

Í 9. lið krefjist sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að afhenda honum eftir­rit framlagðra gagna í Héraðsdómi Reykjavíkur í héraðs­dóms­mál­inu nr. E-991/2012. Varnaraðili mótmælir sérstaklega þessari kröfu og krefst þess að henni verði hafnað. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á hvaða lög­vörðu hags­muni, í skilningi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, hann hafi af afhend­ingu allra fram lagðra gagna í þessu tiltekna dómsmáli. Mála­til­búnaður sókn­ar­aðila sýni að hann viti ekki hvaða gögn hafi verið lögð fram í málinu og geti hann því, eðli máls­ins sam­kvæmt, ekki sýnt fram á lögvarða hags­muni af því að fá gögnin afhent. Krafa hans sé því að þessu leyti of víð­tæk til þess að unnt sé að sann­reyna og meta hvort, og að hvaða leyti, sókn­ar­aðili hafi lögvarinna hags­muna að gæta af aðgangi að umkröfðum gögnum. Sókn­ar­aðili hafi ekki sýnt fram á hina lög­vörðu hagsmuni samkvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 vegna kröfu um afhend­ingu ótilgreindra gagna sem hann viti hvorki hver séu né hvað í þeim standi. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna 9. lið í kröfu sókn­ar­aðila. Varn­ar­aðili vísar jafn­framt til framan­greindrar umfjöll­unar um lög nr. 77/2000 um per­sónu­vernd og með­ferð per­sónu­upp­lýs­inga og til ákvæðis um banka­leynd í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002.

Í 11. lið krefjist sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að afhenda sókn­ar­aðila eftirrit af „öðrum upplýsingum um ofangreint efni sem ekki eru tilgreindar að framan, en slitastjórn er kunnugt um og geta skipt máli við mat á því hvort sóknar­aðili eigi bótakröfu vegna brota á reglum um tengda aðila eða varða vangaveltur um það hvort Samson eignarhaldsfélag ehf. skuli teljast móðurfélag Landsbanka Íslands og hvort yfirtökuskylda hafi stofnast hjá Samson eignarhaldsfélagi ehf. gagnvart öðrum hlut­höfum Landsbanka Íslands hf.“. Varnaraðili mótmælir sérstaklega þessari kröfu og krefst þess að henni verði hafnað. Krafa sókn­ar­aðila lúti ekki að ákveðnum gögnum eða skjölum í vörslu varnaraðila heldur sé krafist ótil­greinda „upplýsinga“ sam­kvæmt mati slitastjórnar varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki heldur vegna þessarar kröfu sýnt fram á að hann hafi lögvarinna hags­muna að gæta í skiln­ingi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 til að fá aðgang að hinum ótil­greindu upp­lýs­ingum. Varnaraðili byggir á því að svo víðtæk krafa fái ekki stoð í 2. mgr. 80. gr. enda sé skýrt tekið fram í ákvæðinu að sá sem hafi lög­var­inna hagsmuna að gæta geti kraf­ist aðgangs að skjölum þrota­bús en þar sé ekki vikið að aðgangi að ótil­greindum „upp­lýs­ingum“ sem þrotabú kunni að búa yfir. Varn­ar­aðili byggir á því að skýra beri ákvæði 2. mgr. 80. gr. þröngri lög­skýr­ingu og að hugtakið „upp­lýsingar“ sam­kvæmt 11. kröfu­lið sókn­ar­aðila rúm­ist ekki innan ákvæðisins. Þá byggir varnar­aðili á því að krafa sókn­ar­aðila sé að þessu leyti of víð­tæk til þess að unnt sé að sann­reyna og meta hvort sókn­ar­aðili hafi lög­var­inna hags­muna að gæta af aðgangi að umkröfðum upp­lýs­ingum. Sóknar­aðili hafi ekki sýnt fram á hina lögvörðu hags­muni, sam­kvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, til þess að krefj­ast afhendingar ótil­greindra upp­lýs­inga. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna 11. lið í kröfu sóknar­aðila. Varn­ar­aðili vísar jafn­framt til fram­an­greindrar umfjöll­unar um lög nr. 77/2000 um persónu­vernd og með­ferð persónu­upplýsinga og ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002.

Varnaraðili mótmælir að öðru leyti öllum dómkröfum og málsástæðum sókn­ar­aðila í heild sinni og krefst þess með vísan til alls þess sem að framan er rakið að öllum dóm­kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki með síðari breytingum, laga nr. 2/1995 um hlutafélög og laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Krafa hans um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl.

Niðurstaða

Sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Lands­bank­anum urðu verðlaus, 7. október 2008. Til viðbótar því tjóni muni aðeins lítill hluti fást upp í þá kröfu sem sókn­ar­aðili lýsti við slit varn­ar­aðila. Sóknaraðili hefur hug á að fá tjón sitt bætt en hefur ekki enn náð að meta til fullnustu hver beri ábyrgð á tjóni hans sem og margra annarra í sömu stöðu. Hann kveðst þurfa gögnin til þess að geta metið hvort fyrir hendi séu atvik og aðstæður sem veiti honum, sem kröfu­hafa og hluthafa í varn­ar­aðila, rétt til skaða­bóta frá bankanum sjálfum, stjórn hans, stjórnendum eða aðal­eig­anda eða fyrir­svars­mönnum aðaleiganda. Sókn­ar­aðili hyggist einnig leggja mat á það hvort efni séu til þess að hann reki mál á hendur stjórn, stjórnendum eða öðrum aðilum, til hags­bóta fyrir varnaraðila á grund­velli 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., ákveði slitastjórn varnaraðila að halda hagsmununum ekki uppi.

Sóknaraðili telur tjónið mega, að minnsta kosti að hluta, rekja til ólögmætra og sak­næmra athafna í starfsemi bankans sem hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tek­inn til slita. Þau atriði sem sóknaraðili telur að þurfi að afla frekari gagna um, með heim­ild í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, áður en hann  ákveður hvort hann höfði mál og á hendur hverjum, séu samskipti stjórnar og stjórnenda bankans við aðaleigendur hans, ytri og innri endur­skoð­endur, sem og Fjár­mála­eftir­litið, svo og hvernig það hafi komið til að upp­lýsingum um raun­verulegt eign­ar­hald bank­ans hafi verið leynt, miðað við það sem fram komi í stefnu slita­stjórnar í máli nr. E- 991/2012. Jafnframt hver eða hverjir beri ábyrgð á því að langa hríð hafi við­skipta­mönnum og hlut­höfum bankans verið veittar rangar og vill­andi upplýsingar um eign­ar­hald hans. Sókn­ar­aðili telur til­efni til að rann­saka hvort stjórn og stjórnendur bank­ans hafi lagt á ráðin með aðal­eig­endum sínum um að veita rangar og villandi upp­lýs­ingar um eignar­haldið og halda leyndum umfangs­miklum lán­veit­ingum til Björ­gólfs Thors Björgólfssonar og tengdra félaga sem voru langt umfram lög­bundnar heim­ildir.

Það er alkunna að hlutafé í Landsbankanum missti verðgildi sitt 7. október 2008 þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans. Eigendur hlutafjár í bank­anum urðu þar með fyrir tjóni. Samkvæmt dómum Hæstaréttar í málum nr. 64/2011 og 259/2013 er slíkt tjón nægjanlega einstaklingsbundið til þess að sérhver hluta­fjár­eig­andi geti höfðað mál gegn stjórnendum fjármálafyrirtækis með stoð í 2. málslið 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög vegna brota gegn ákvæðum þeirra laga eða sam­þykktum félags. Þar sem sóknaraðili átti hlutabréf í Landsbankanum þegar þau urðu verðlaus þykja þau atvik sem hann leitar sönnunar um, orsakir tjóns­ins, varða lög­varða hags­muni hans.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. 3. málslið 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 segir að sá sem sýni skiptastjóra fram á að hann hafi lög­var­inna hags­muna að gæta geti krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoð­unar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hafi þau í vörslum sínum. Varnaraðili telur þetta ákvæði bundið við það að þeir lögvörðu hagsmunir sem það vísi til verði að varða viðkomandi þrotabú eða fjármálafyrirtæki í slita­með­ferð, hags­munir þess sem krefjist skjala á grundvelli ákvæð­is­ins verði að varða búið eða þrota­manninn en ekki svonefnda þriðju menn, sem hann telur fyrrverandi stjórnendur og eigendur bankans vera.

Lagaákvæðið er ekki orðað þannig og sú merking verður ekki heldur ráðin af grein­ar­gerð með frumvarpi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt þeirri greinargerð giltu almennar réttar­fars­reglur um aðgang að skjölum fyrir gildis­töku laga nr. 21/1991 enda tóku héraðs­dóm­arar þá við þeim skjölum sem skiptastjórar og slita­stjórnir taka nú við og varð­veita vegna skipta þrotabúa og fjármálafyrirtækja í slita­með­ferð. Í greinargerð með frumvarpinu kemur ekki fram að til standi, við gildis­töku laga nr. 21/1991, að þrengja heim­ildir til aðgangs að gögnum sem tengist þrota­búum.

Væri talið að heimild til aðgangs að gögnum í vörslum skiptastjóra eða slita­stjórnar væri tak­mörkuð á þann hátt sem sóknaraðili heldur fram verður ekki horft fram hjá því að þrota­maður í þessu tilviki er ekki ein­stakl­ingur heldur lögaðili, banki. Hann gerði ekkert nema fyrir tilstilli þeirra einstaklinga sem stýrðu honum, sumir vegna yfirráða yfir háum hundraðshluta hluta­fjár í bankanum en aðrir sem starfsmenn hans. Eins og kemur fram í stefnu varnar­aðila í máli nr. E-991/2012 á hendur sjö fyrrum stjórnendum bank­ans og 25 breskum og þýskum vátryggjendum sem ábyrgðar­tryggðu stjórn og aðra stjórn­endur bankans svo og í stefnu í máli nr. E-2210/2012 á hendur endurskoðendum bankans telur varn­ar­aðili sjálfur að þeir sem stýrðu bank­anum hafi ekki, að minnsta kosti undir það síð­asta, fylgt út í hörgul þeim lögum og öðrum reglum sem giltu um starf­semi bankans og það hafi valdið bankanum fjártjóni sem slitabú bankans, varnaraðili, reynir nú að end­ur­heimta.

Á sama hátt telur sóknaraðili að tjón hans verði rakið til þess hvernig sömu menn stýrðu bankanum sem leiddi til þess að bankinn fór í greiðslu­þrot og eign hlut­hafa, eins og sóknaraðila, varð að engu. Mál til heimtu skaða­bóta úr hendi þeirra sem héldu um stjórnvöl bankans fram að því að Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn hans er því ekki mál gegn þriðja manni sem er ótengdur þrota­mann­inum, slitabúinu. Fyrrum eig­endur og stjórnendur bankans eru jafn tengdir slitabúinu og útgerð og skipstjóri strönd­uðu skipi. Hags­munir sóknar­aðila, af því að afla upplýsinga til þess að geta metið hvort efni séu til málshöfðunar á hendur eigendum og stjórnendum bankans vegna þess tjóns sem hann varð fyrir við fall hans, þykja því fylli­lega falla undir gild­is­svið ákvæð­is­ins jafnvel þótt það væri þrengt eins og varnar­aðili ber við.

Það dregur ekki úr rétti sóknaraðila til gagnanna þótt hann hafi tilgreint í beiðni sinni að hann vilji einnig nota þau til þess að meta hvort hann höfði máli gegn bank­anum eða hygg­ist nýta þau til þess að meta hvort hann haldi uppi hagsmunum sem slita­stjórnin láti hjá líða að halda til haga fyrir varnaraðila.

Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að honum sé óheimilt að afhenda upp­lýs­ing­arnar vegna þagnarskyldu sem á honum hvíli samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í því ákvæði segir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, fram­kvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taki að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fái vitneskju um við fram­kvæmd starfa síns og varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan haldist þótt látið sé af starfi.

Í 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið krefst sóknaraðili gagna sem varða tengsl Lands­banka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björgólf Guð­munds­son og Björg­ólf Thor Björgólfsson. Sóknaraðili útskýrir jafnframt að með tengslum eigi hann við umfjöllun um það

i)           hvort Björgólfur Thor hafi átt að teljast tengdur aðili, meðal annars í skiln­ingi alþjóð­legs reikningsskilastaðals IAS 24, sem samþykktur var af fram­kvæmda­stjórn ESB, 29. september 2003, með reglugerð nr. 1725/2003,

ii)         hvort Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi átt að teljast móðurfélag Lands­banka Íslands hf., meðal annars í skilningi 2. gr. laga nr. 2/1995 og 97. gr. laga nr. 161/2002, eða

iii)        hvort yfirtökuskylda hafi stofnast hjá Samson eignarhaldsfélagi ehf. gagn­vart hlut­höfum Landsbanka Íslands.

Í 9. gr. alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24 segir í stórum dráttum að ein­stakl­ingur eða náinn meðlimur fjölskyldu hans flokkist sem tengdur aðili upp­gjörs­félags a) hafi hann full yfir­ráð yfir félaginu, beint eða vegna samvinnu, b) hafi hann veru­leg áhrif í félagi, eða c) sé lykil­stjórn­andi félags, eða lykilstjórnandi móðurfélags þess. Þær upplýsingar sem þarf til þess að svara því hvort eitthvað af þessu þrennu eigi við um tengsl Björgólfs Thors við Landsbankann eru ekki upplýsingar um við­skipta- eða einkamálefni við­skipta­manns fjármálafyrirtækis.

Upplýsingar um hlutafjáreign Samsonar eignarhaldsfélags í Landsbanka Íslands svara lið ii og iii. Þær eru enn síður upplýsingar um viðskipta- eða einka­mál­efni viðskiptamanns fjár­mála­fyrir­tækis. Þær upplýsingar sem sóknaraðili óskar eftir í 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið falla því ekki undir 58. gr. laga nr. 161/2002 og verður kröfu hans ekki hafnað af þeim sökum.

Í kröfuliðum 3, 5, 6, 7, 8 og 10 biður sóknaraðili um bréf eða tölvubréf og nafn­greinir sendendur og viðtak­endur þeirra. Vitað er hverjir voru banka­ráðsmenn Lands­banka Íslands á hverjum tíma og hverjir endurskoðuðu reikn­inga bankans og eignar­haldsfélagsins Samsonar. Krafa sókn­ar­aðila þykir því ekki of óljóst tilgreind til þess að ekki sé unnt að verða við henni.

Upplýsingar um tengsl eru jafnframt upplýsingar sem áttu að vera opinberar og því hefur réttur sóknaraðila til aðgangs að þeim ekki aukist við það að Lands­bank­inn er nú í slitameðferð og hægt er að krefjast aðgangs að skjölum í fórum slitastjórnar sam­kvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. málslið 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Eins og segir í lýsingu málavaxta féllst Héraðs­dómur Reykjavíkur á, 22. nóv­em­ber 2012, að sóknar­aðili skyldi fá afhenta stefnu og skjalaskrá í máli nr. E-2210/2012: Landsbanki Íslands gegn PricewaterhouseCoopers ehf. o.fl.

Með stoð í þessum gögnum afmarkaði sóknaraðili kröfu sína frekar við með­ferð málsins og krafðist nánar tilgreindra gagna, tölvuskeyta, sem eru nú taldir í staf­liðum a-n í kröfuliðum 3 og 6 en varnaraðili hefur lagt þá fram sem gögn til stuðnings kröfum sínum í máli nr. E-2210/2012. Miðað við lýsingu málavaxta og málsástæðna í stefnu þess máls varða þessi gögn hvorki við­skipti þeirra, sem rita eða fá send tölvu­skeyti, við Landsbankann né einka­mál­efni þeirra. Þvert á móti sýnir stefnan að varn­ar­aðili byggir kröfur sínar á svip­uðum atvikum og sókn­ar­aðili leitar sönnunar um. Ekkert bendir því til þess að varnar­aðili sé bund­inn trún­aði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 vegna upplýsinga í þeim tölvu­skeytum sem sóknaraðili hefur til­greint nánar undir 3. og 6. tölulið kröfu sinnar og verður kröfu hans ekki hafnað af þeim sökum.

Varnaraðili mótmælir sérstaklega 1. og 2. lið dómkrafna sóknaraðila þar sem þær varði samning milli slitastjórnar Lands­banka Íslands og Björg­ólfs Thors Björg­ólfs­sonar og félaga sem tengist honum um upp­gjör skulda og bréfa­skipta slita­stjórnar og Björgólfs Thors og aðila sem komu fram fyrir hans hönd við gerð þess samn­ings.

Sóknaraðili byggir rétt sinn til þess að sjá þennan samning á því að hann sé gerður við aðra kröfuhafa við slitameðferð varnaraðila eins og komi fram í frétta­til­kynn­ingu varnaraðila 28. ágúst 2010. Sóknaraðili telur eðli­legt að sér, sem kröfu­hafa, sé veittur aðgangur að þessum gögnum, enda lúti slita­stjórn aðhaldi og eftir­liti kröfu­hafa, sbr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Við munnlega meðferð málsins fyrir dómi kom fram að þeir kröfuhafar sem vísað er til í fréttatilkynningunni hafi átt kröfu á Björgólf Thor persónulega en ættu ekki þar með sagt kröfu við slit bankans. Allir þeir sem hafi átt kröfu á Björgólf Thor, eða að minnsta kosti þeir sem áttu hæstu kröfurnar, hafi gert við hann rammasamning um heild­ar­uppgjör skulda.

Þrátt fyrir að varnaraðili sæti nú slitameðferð er hann engu að síður fjár­mála­fyrir­tæki í skilningi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar sem ekki hefur annað komið fram en að sá samningur sem sóknaraðili krefst eftirrits af hafi verið gerður við Björg­ólf Thor Björgólfsson sem viðskiptamann varnaraðila en þó ekki hvað síst vegna þess að aðrir kröfuhafar Björgólfs komu að gerð þessa rammasamnings við hann þykir 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki koma í veg fyrir að unnt sé að fallast á 1. og 2. lið í kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili mótmælir jafnframt sérstaklega 4. lið dómkrafna sóknaraðila þar sem hann krefst endurrita bréfa og tölvubréfa sem fóru á milli starfsmanna og stjórn­enda Lands­banka Íslands hf. og Fjármálaeftirlitsins, á tímabilinu frá því að Samson eign­ar­halds­félag ehf. varð aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. árið 2003 til þess tíma að honum var skipuð skilanefnd, 7. október 2008.

Í 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið krefst sóknaraðili gagna sem varða tengsl Lands­banka Íslands hf. við Samson eignarhaldsfélag ehf., Björgólf Guð­munds­son og Björg­ólf Thor Björgólfsson.

Í 4. lið tilgreinir sóknaraðili ekki á sama hátt eftir hvaða upplýsingum hann slæg­ist í þeim skjölum sem hann óskar afrits af. Fallist er á það með varnaraðila að sókn­ar­aðili verði að tilgreina það eða þau efnisatriði sem hann telur að fjallað sé um í gögn­unum og tengja þau efnisatriði við lögvarða hagsmuni sína, það er þau atvik sem hann leitar sönnunar um, orsakir tjóns síns. Að mati dómsins er þessi krafa ekki nægi­lega reifuð og þykir því verða að vísa henni frá dómi.

Enn fremur mótmælir varnaraðili sérstaklega 9. lið dómkrafna sóknaraðila. Þar sem hann krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda honum eftir­rit framlagðra gagna í Héraðsdómi Reykjavíkur í héraðs­dóms­mál­inu nr. E-991/2012.

Alla jafna leggur sá, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá eftir­rit málsskjala, kröfu þess efnis fyrir héraðsdóm á grundvelli 14. gr. laga nr. 91/1991. Héraðs­dómari gefur aðilum málsins kost á því að tjá sig um þá kröfu. Eins og fram er komið höfðaði varnaraðili það einkamál á hendur sjö æðstu stjórnendum bankans og 25 vátryggj­endum þeirra. Stefndu í því einkamáli hafa ekki átt þess kost við meðferð þessa ágreiningsmáls að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila um afhendingu málsskjala í einka­málinu. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á að varnaraðila beri að afhenda honum greinar­gerðir stefndu eða önnur gögn sem stefndu lögðu fram í því máli.

Sóknaraðili hefur hins vegar lagt fram stefnu máls nr. E-991/2012 og veit því hvaða máls­atvik og málsástæður varnaraðili þarf að sanna með þeim gögnum sem hann hefur lagt fram í því máli en varnaraðili lýsir þar atvikum sem svipar mjög til þeirra sem sóknar­aðili leitar nú sönnunar um.

Þykir mega fallast á rétt sóknaraðila til aðgangs að þeim gögnum sem varnar­aðili færir fram til sönnunar kröfum sínum á hendur þeim Íslendingum sem er stefnt í mál­inu. Sóknaraðili þykir ekki eiga rétt til þeirra gagna sem varnaraðili leggur fram til sönn­unar kröfum sínum á hendur erlendu vátryggj­endunum enda hefur sóknaraðili ekki tengt þá við lögvarða hagsmuni sína.

Varnaraðili höfðar það einkamál, nr. E-991/2012, á hendur stjórn og stjórn­endum Lands­bank­ans vegna þess tjóns sem þeir hafi valdið bankanum með störfum sínum. Af fram lagðri stefnu verður ekki séð að viðskipta- eða einka­mál­efni stefndu komi þar neitt við sögu. Skyldur varnaraðila samkvæmt ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 koma því ekki í veg fyrir að honum sé skylt að afhenda sókn­ar­aðila skjölin.

Dómurinn fellst á það með varnaraðila að krafa í 11. lið sé of óljós til þess að unnt sé að fallast á hana.

Dómurinn hefur því fallist á að varnaraðila beri að afhenda sóknaraðila þau gögn sem hann tilgreinir í 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið kröfu sinnar svo og gögn til­greind í 11. lið, en þó aðeins þau sem varnar­aðili færir fram til sönnunar kröfum sínum á hendur þeim Íslendingum sem er stefnt í málinu.

Til viðbótar því að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni og varn­ar­aðili sé bund­inn trúnaði um öll þau gögn sem hann krefst byggir varnaraðili á því að ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og með­ferð persónuupplýsinga komi í veg fyrir að honum sé heimilt að afhenda sóknar­aðila umbeðin gögn.

Þær upplýsingar sem sóknaraðili leitar eftir og fallist hefur verið á að skuli afhenda honum varða einkum og sér í lagi, tengsl Landsbanka Íslands, frá þeim tíma þegar Samson eignarhaldsfélag ehf. keypti bankann af ríkinu, við það félag svo og við Björg­ólf Guðmundsson og Björgólf Thor Guðmundsson, eigendur Samsonar.

Leit og söfnun upplýsinga um þessi tengsl að því marki sem hún varðar þessa tvo lög­aðila, Samson eignarhalds­félag og Landsbankann, er ekki vinnsla persónu­upp­lýs­inga. Að því marki sem þær upp­lýs­ingar, sem varnaraðili þarf að leita að og safna saman, eru persónu­upp­lýs­ingar þykja persónu­verndar­sjónarmið ekki geta leitt til þess að hafna eigi aðgangi sóknaraðila að þeim enda bar Landsbankanum að upplýsa um tengsl sín við aðal­eigendur sína. Þar sem fallist hefur verið á að sóknaraðili hafi lög­varða hagsmuni af því að fá eftirrit gagnanna er vinnsla þeirra jafnframt heimil á grund­velli 7. tölu­liðar 8. gr. laga nr. 77/2000 enda verður ekki séð að grund­vallar­rétt­indi og frelsi einstaklinganna sem áttu bankann og stýrðu honum vegi þyngra en hags­munir sóknaraðila af því að fá að kynna sér efni gagnanna í því skyni að gæta lögvar­inna hagsmuna sinna, það er til þess að meta hvort tjón hans verði rakið til athafna stjórn­enda eða eig­enda bankans.

Þar sem einungis er fallist á kröfu sóknaraðila að hluta til þykir rétt, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, að hvor máls­aðili beri sinn kostnað af málinu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Varnaraðila, LBI hf., er skylt að afhenda sóknaraðila, Stapa lífeyrissjóði, eftir­rit þeirra gagna sem hann lýsir í 3., 5., 6., 7., 8. og 10. lið kröfu sinnar, svo og þau gögn sem sóknaraðili krefst í 9. lið, þó aðeins þau gögn sem varnar­aðili færir fram til sönn­unar kröfum sínum á hendur þeim Íslendingum sem er stefnt í máli nr. E-991/2012.

Kröfu sóknaraðila samkvæmt 1., 2., og 11. lið er hafnað.

Kröfu sóknaraðila samkvæmt 4. lið er vísað frá dómi.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.