Hæstiréttur íslands

Mál nr. 260/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Aðild
  • Vitni


Þriðjudaginn 2

 

Þriðjudaginn 2. júní 2009.

Nr. 260/2009.

Magnús Ívar Guðbergsson

(Marteinn Másson hrl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. og

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

Bygg Ben ehf.

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Aðild. Vitni.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að B væri heimilt að leiða M, fyrirsvarsmann A, sem vitni í máli sem B hafði höfðað gegn F. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að M yrði ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Um skýrslugjöf hans, sem fyrirsvarsmanns A, giltu reglur um aðilaskýrslur samkvæmt VII. kafla laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila Bygg Ben ehf. um að sóknaraðila væri skylt að gefa skýrslu sem vitni í máli þessa varnaraðila gegn varnaraðilanum Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að honum verði dæmt óskylt að koma fyrir dóm sem vitni í málinu. 

Varnaraðilinn Bygg Ben ehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. gerir ekki sjálfstæðar kröfur í málinu en hefur í skriflegum athugasemdum til Hæstaréttar tekið undir kröfu sóknaraðila.

I

Hinn 19. maí 2008 var fasteignin Kólguvað 5, fnr. 227-8572, Reykjavík, seld nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík. Þinglesinn eigandi fasteignarinnar, og þar með gerðarþoli við söluna, var Arn ehf. Óumdeilt er að sóknaraðili er fyrirsvarsmaður Arns ehf. Varnaraðilinn Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. varð hæstbjóðandi við söluna og var boð hans, 35.000.000 krónur, samþykkt.

Hinn 23. júlí 2008 gerði sýslumaður frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar. Á 1. til og með 5. veðrétti hvíldu tryggingarbréf varnaraðilans Bygg Bens ehf. og hafði hann samtals lýst á grundvelli þeirra kröfu að fjárhæð 14.703.995 krónur til söluandvirðis eignarinnar. Í frumvarpi sýslumanns var ekki gert ráð fyrir úthlutun til greiðslu á þessari kröfu, heldur var söluandvirðinu, að greiddum sölulaunum og lögveðskröfum, úthlutað til varnaraðilans Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á grundvelli skuldabréfs á 6. veðrétti. Liggur fyrir í gögnum málsins að afstaða sýslumanns um að úthluta ekki af söluverðinu til varnaraðilans Bygg Ben ehf. á grundvelli tryggingarbréfanna byggðist á því að ekki hefði verið sýnt fram á skuldir að baki bréfunum. Hafði varnaraðilinn Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. mótmælt úthlutun til varnaraðilans Bygg Ben ehf. á þessari forsendu.

Varnaraðilinn Bygg Ben ehf. mótmælti frumvarpinu og krafðist greiðslu kröfu sinnar. Varnaraðilinn Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. andmælti kröfunni og krafðist þess að frumvarpið yrði látið standa óbreytt. Haldinn var fundur í tilefni mótmælanna hjá sýslumanni 20. nóvember 2008. Á hann mættu fulltrúar beggja varnaraðila og ítrekuðu kröfur sínar. Ekki verður séð af gögnum málsins að sóknaraðili hafi verið boðaður til þessa fundar. Málið var tekið fyrir á ný hjá sýslumanni 21. nóvember 2008 og var þá enn mætt af hálfu sömu aðila. Sýslumaður tilkynnti á fundinum að hann hefði ákveðið að taka ekki til greina mótmæli varnaraðilans Bygg Ben ehf. við frumvarpinu. Lýsti hann þá yfir að úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur yrði leitað um þessa ákvörðun. Gerði hann það síðan með bréfi 27. nóvember 2008, sem stimplað var um móttöku héraðsdóms 2. desember 2008.

Varnaraðilinn Bygg Ben ehf. skilaði greinargerð til héraðsdóms 9. janúar 2009 og gerði kröfu um breytingu á fumvarpi sýslumanns á þann veg að hann fengi úthlutað fyrrgreindri fjárhæð af söluverðinu vegna tryggingarbréfa sinna. Í greinargerðinni tiltók hann vitni sem óskað væri að skýrslur yrðu teknar af fyrir dómi. Meðal þeirra var sóknaraðili, Magnús Ívar Guðbergsson, fyrirsvarsmaður Arns ehf., sem var gerðarþoli við uppboðssöluna. Af hálfu varnaraðilans Frjálsa fjárfestingarbankans hf. var í greinargerð 30. janúar 2009 aðallega krafist frávísunar málsins, til vara staðfestingar frumvarps sýslumanns en að því slepptu lækkunar á kröfu varnaraðilans Bygg Ben ehf. um úthlutun. Frávísunarkrafan var aðallega studd þeim rökum að málatilbúnaður varnaraðilans Bygg Ben ehf. væri svo óskýr að ekki yrði lagður á hann dómur. Hinn 16. apríl 2009 gaf héraðsdómur út kvaðningu til sóknaraðila um að mæta við aðalflutning málsins 27. apríl 2009 til vitnisburðar. Var kvaðningin birt sóknaraðila 22. apríl 2009. Með bréfi til héraðsdóms 26. apríl 2009 mótmælti sóknaraðili kvaðningu héraðsdómsins. Voru mótmælin á því byggð að hann hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn deilu um úthlutun uppboðsandvirðis af eign sinni og rétt hefði verið að veita sér aðilastöðu í málinu samkvæmt 4. málslið 2. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Væri því ekki unnt að kveðja sig til vitnisburðar. Í upphafi aðalmeðferðarinnar lagði varnaraðilinn Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. fram bókun og ítrekaði meðal annars kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi, og nú meðal annars með þeim rökum að gerðarþola, Arni ehf., hefði ekki verið veitt aðild að málinu. Þá var því einnig mótmælt að fyrirsvarsmaður Arns ehf. væri skylt að gefa skýrslu sem vitni í málinu. Í framhaldinu kom sóknaraðili fyrir dóminn. Neitaði hann að svara spurningum og felldi héraðsdómur þá hinn kærða úrskurð um skyldu hans til að gefa skýrslu sem vitni. Að svo búnu var bókað að sóknaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og var aðalmeðferð síðan frestað ótiltekið.

II

Svo sem að framan greinir bar varnaraðilinn Bygg Ben ehf. ágreining um frumvarp sýslumanns til úthlutunar á söluverði hinnar seldu fasteignar undir héraðsdóm með heimild í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, þar sem vísað er til XIII. kafla laganna um málsmeðferð. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. skal dómari ákveða hvernig aðild máls verði háttað ef því er ekki þegar vísað frá dómi. Af endurritum héraðsdóms verður ekki séð að tekin hafi verið sérstök ákvörðun um þetta, en hins vegar er ljóst af þeim að varnaraðilinn Bygg Ben ehf. var talinn sóknaraðili málsins í héraði og varnaraðilinn Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. varnaraðili þess. Sóknaraðila var ekki gefin aðilastaða. Í 4. málslið 2. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 er meðal annars kveðið á um að gerðarþoli við nauðungarsöluna skuli talinn varnaraðili ef ágreiningsefnið varði hagsmuni hans. Ágreiningurinn sem undir héraðsdóm var borinn varðar án nokkurs vafa hagsmuni gerðarþolans, Arns ehf., þar sem í reynd er deilt um hvort fyrir hendi sé skuld hans sem tryggingarbréf varnaraðilans Bygg Ben ehf. sé ætlað að tryggja. Héraðsdómi var því skylt samkvæmt nefndu lagaákvæði að gefa Arni ehf. aðilastöðu til varnar í málinu. Þó að ákvörðun dómsins um aðild málsins sé í sjálfri sér ekki til endurskoðunar í þessu máli felst í því sem hér hefur verið rakið að um skýrslu fyrir dómi af fyrirsvarsmanni Arns ehf., sóknaraðila þessa máls, gilda reglur um aðilaskýrslur samkvæmt VII. kafla laga nr. 91/1991. Af því leiðir að sóknaraðila verður ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2009.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins þann 27. apríl 2009 kom fram að vitnið Magnús Ívar Guðbergsson, stjórnarformaður Arn ehf., myndi neita að svara spurningum fyrir dóminum.

Vitnið, sem boðað var með kvaðningu útgefinni af dómara málsins dagsettri 16. apríl 2009, kom því næst fyrir dóminn. Eftir að vitnaskylda og vitnaábyrgð hafði verið brýnd fyrir vitninu neitaði það að svara spurningum lögmanns sóknaraðila.

 Byggði vitnið neitun sína á því að veita hefði átt því stöðu aðila í málinu, sbr. 4. málsliður 2. mgr. 74. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Það hefði skapað því færi á að koma að andmælum við kröfum og rökstuðningi sóknaraðila málsins.

Samkvæmt 74. gr. laga nr. 90/1991 ákveður dómari hvernig aðild er háttað að málum sem rísa vegna ágreinings sem rís við nauðungarsölu. Aðild að máli þessu var ákveðin með þeim hætti að Bygg Ben hf., sem óskaði úrlausnar dómsins, væri sóknaraðili en að Frjálsi fjárfestingabankinn hf. væri varnaraðili. Ekki var talið að gerðarþoli við nauðungarsöluna, Arn ehf., þyrfti að eiga aðild að málinu.

Með hliðsjón af því hvernig aðild að málinu er háttað er það niðurstaða dómsins að Magnúsi Ívari Guðbergssyni, sem ekki er samkvæmt því aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, sé skylt að koma fyrir dóm í málinu sem vitni og svara munnlega spurningum sem til hans er beint um málsatvik, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Magnúsi Ívari Guðbergssyni er skylt að gefa skýrslu sem vitni í máli nr. Z-5/2008.