Hæstiréttur íslands

Mál nr. 270/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Miðvikudaginn 5. maí 2010.

Nr. 270/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. maí 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. maí 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins virðist varnaraðili hafa upplýst sinn þátt í ætluðu fíkniefnabroti. Verður ekki ráðið að þáttur hans, sem lýst er í hinum kærða úrskurði, sé með þeim hætti að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, líkt og sóknaraðili krefst. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 28. maí 2010 kl. 16.00.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að kærði hafi verið stöðvaður í tollhliði á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 11. apríl 2010 er hann kom til landsins með flugi frá Alicante á Spáni. Í ferðatösku kærða og samferðakonu hans hafi fundist 1765 g af kókaíni. Kærði hafi í fyrstu neitað að hafa vitað um fíkniefnin en síðar hafi hann viðurkennt að hafa ætlað að reyna að flytja efnin til landsins ásamt samferðakonu sinni. Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 11. apríl 2010 og aftur þann 23. apríl, í bæði skiptin á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Lögreglustjóri segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði áfram. Rannsóknin sé orðin nokkuð umfangsmikil og sé hún unninn í samvinnu við lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu. Þann 10. apríl 2010 hafi fundist 1600 g af kókaíni hjá öðrum farþega á leið til landsins og telji lögreglan að tengsl séu á milli þessara tveggja mála. Tíu manns hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Kærði hefur viðurkennt að eiga þátt í stórfelldu fíkniefnabroti. Öruggt má telja að fíkniefnin hafi átt að fara í  sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot þykir alvarlegt. Verður talið að meint brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt og verður því krafa lögreglustjórans tekin til greina.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 28. maí 2010 kl. 16:00.