Hæstiréttur íslands
Mál nr. 610/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2012. |
|
Nr. 610/2012. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði bönnuð för frá Íslandi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100 gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2012, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til 16. október 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2012.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess, vísan til 1. mgr. 100. gr., sbr. b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til 16. október 2012, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að upphaf málsins má rekja til þess að A hafi þann 2. júlí sl. lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Hafði hún leitað til ákærða sem sé nuddari en lýsti því að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn sér í nuddtímanum. Hann hefði beðið hana að fara úr nærbuxum og leggjast á bakið. Þá hefði hann nuddað yfir lífbein hennar og óþægilega nálægt kynfærasvæðið. Þá hefði hann rennt hendi um klof hennar svo hann snerti skapabarma hennar og sett fingur í klof hennar. Kærði hafi sagt við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði verið að beita tækni sem hann hefði talið að myndi gagnast brotaþola. Hins vegar hefði einn fingur hans runnið til og farið inn í leggöng hennar. Ákærði sagðist hafa brugðið mjög og gat ekki gefið skýringar á því sem hafði gerst.
Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru 23. júlí sl. þar sem ákærða sé gefið að sök nauðgun með því að hafa fimmtudaginn 28. júní 2012, á nuddstofu sem ákærði starfrækti að [...], haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hana ofbeldi eða ólögmætri nauðung. Ákærði, sem hafi starfað sem nuddari í [...] ár, lét A, sem hafi verið í nuddi hjá honum vegna vandamála í mjóbaki, afklæðast nærbuxum, káfaði á kynfærum A þar sem hún hafi legið nakin á nuddbekk og sett fingur inn í leggöng konunnar, henni að óvörum. Sé brotið talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að 16 árum. Aðalmeðferð í málinu hafi farið fram í gær.
Ákærði sé íslenskur ríkisborgari en hafi búið í [...] sl. [...] ár og þar búi hans nánasta fjölskylda. Ákærði sé að mati ríkissaksóknara undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Þá megi ætla að gangi hann frjáls ferða sinna, kunni hann að reyna að koma sér undan dómi. Sé þess því krafist að fallist verði á kröfu um farbann.
Brot ákærða séu talin varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 194. gr. en til vara 199. gr. og 209. gr. sömu laga. Vísað sé til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1 mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Með hliðsjón af því að ákæra hefur verið gefin út á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot er hann undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Ákærði er íslenskur ríkisborgari en hefur búið í [...] um árabil. Ákærði hefur lítil tengsl við landið og er fallist á að ætla megi að hann kunni að koma sér undan málsmeðferð hjá dómstólum. Sækjandi upplýsti að mál það sem ákærði er ákærður í hafi verið flutt fyrir dóminum og sé beðið dóms héraðsdóms. Með vísan til þessa og samkvæmt 1. mgr. 100. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að sæta farbanni svo sem í úrskurðarorði greinir.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ákærða, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til 16. október 2012, kl. 16.00.