Hæstiréttur íslands
Mál nr. 361/2003
Lykilorð
- Verksamningur
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2004. |
|
Nr. 361/2003. |
Guðjón Helgason og Snorri Jónsson (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Baldri Halldórssyni(Þorsteinn Hjaltason hdl.) |
Verksamningur.
B tók að sér fyrir G og S tilteknar breytingar á fiskiskipi samkvæmt tilboði. Gaf B út reikning fyrir tilboðsfjárhæðinni en að auki tvo reikninga vegna aukaverka. Greiddu G og S tilboðsfjárhæðina og hluta af reikningum B fyrir aukaverkin án þess að tengja þá greiðslu við tiltekna reikningsliði. Kom fyrst fram hjá þeim undir rekstri málsins að þeir viðurkenndu hluta aukaverkanna, en ekki þóttu þeir hafa skýrt með fullnægjandi hætti hver sérstaða þeirra reikningsliða sem þeir viðurkenndu væri gagnvart öðrum sem þeir viðurkenndu ekki. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu G og S á reikningum B. Í málinu höfðu G og S uppi gagnkröfur vegna nánar tiltekinna galla sem þeir töldu hafa verið á verkinu. Þóttu kröfur þeirra ýmist ekki rökstuddar með fullnægjandi hætti eða studdar nægjanlegum gögnum og var þeim því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. september 2003. Þeir krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 633.152 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. febrúar 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og greinir í héraðsdómi gerði stefndi áfrýjendum tilboð 31. október 1998 um að taka að sér verk við nánar tilteknar breytingar á fiskiskipi þeirra síðarnefndu, sem nú heitir Jón Valgeir ÍS 11, gegn greiðslu á samtals 3.744.000 krónum. Áfrýjendur tóku þessu tilboði og munu hafa komið skipinu til stefnda 27. nóvember 1998, en fengið það afhent á ný 19. ágúst 1999 að verki loknu. Í síðastnefndum mánuði gaf stefndi út reikning á hendur áfrýjandanum Snorra fyrir þeirri fjárhæð, sem tilboð stefnda hafði hljóðað á. Sagði í reikningnum að um væri að ræða breytingar á skipinu, vélbúnaði, tanki og raflögn samkvæmt tilboði. Í sama mánuði gerði stefndi annan reikning á hendur áfrýjandanum að fjárhæð 527.400 krónur fyrir vinnu í 293 klukkustundir við ýmis nánar tiltekin verk við skipið. Loks gaf stefndi út þriðja reikninginn á þann sama í september 1999, þar sem vísað var í fjórar tölusettar nótur og heildarfjárhæð þeirra sögð vera 1.328.050 krónur. Óumdeilt er að áfrýjendur greiddu stefnda í sex áföngum á tímabilinu frá 26. nóvember 1998 til 26. ágúst 1999 samtals 4.300.000 krónur vegna þessa verks eða 556.000 krónum meira en fjárhæð tilboðs hans frá 31. október 1998. Þeir hafa á hinn bóginn mótmælt því að standa í frekari skuld við stefnda vegna eftirstöðva reikninga hans, sem nema 1.299.450 krónum og eiga rætur að rekja til aukaverka við breytingar á skipinu. Mál þetta, sem stefndi höfðaði á hendur áfrýjendum til heimtu á heildarfjárhæð reikninga sinna, 5.599.450 krónum, að frádregnum áðurnefndum greiðslum, var þingfest fyrir héraðsdómi 11. janúar 2001.
Fyrir héraðsdómi kröfðust áfrýjendur sýknu af dómkröfu stefnda með því að ekki hafi verið samið um aukaverk í tengslum við þær breytingar, sem hann tók að sér að gera á skipi þeirra, og fyrirvarar um greiðslu frekari verklauna hafi hvorki komið fram meðan á verkinu stóð né við afhendingu reiknings stefnda fyrir fjárhæð tilboðs hans. Hafi áfrýjendur því talið þann reikning gerðan til endanlegs uppgjörs vegna verksins. Auk þessa höfðuðu áfrýjendur gagnsök fyrir héraðsdómi 8. febrúar 2001 til heimtu skaðabóta að fjárhæð samtals 8.373.668 krónur vegna galla, sem þeir töldu vera á verki stefnda, og rekstrartjóns, sem rakið yrði til þessa og afhendingardráttar á verkinu. Kröfðust áfrýjendur þess að gagnkröfunni yrði eftir atvikum varið til skuldajafnaðar við fjárhæð, sem þeim kynni að vera gert að greiða stefnda í aðalsök í héraði. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi féllu áfrýjendur frá kröfuliðum um skaðabætur vegna rekstrartjóns og lækkuðu auk þess kröfu um bætur vegna galla á verki stefnda í 1.201.160 krónur.
Mál þetta var dómtekið að lokinni aðalmeðferð í héraði 16. apríl 2003. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 10. júní 2003 var gætt ákvæða síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var krafa stefnda þar tekin að fullu til greina, en gagnkröfu áfrýjenda með öllu hafnað.
Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur lýst því yfir að þeir viðurkenni sex nánar tiltekna liði í kröfu stefnda um greiðslu fyrir aukaverk, samtals 1.194.000 krónur. Frá því telja áfrýjendur að draga eigi 70.000 krónur, en þá fjárhæð hafi stefndi sparað af verkþáttum innan tilboðs síns vegna aukaverka, sem komu að hluta í staðinn. Upp í mismuninn, 1.124.000 krónur, hafi áfrýjendur greitt fyrrnefndar 556.000 krónur og standi þá eftir sem inneign stefnda 568.000 krónur. Áfrýjendur hafa leiðrétt reikningsskekkju í gagnkröfu sinni um skaðabætur og lækkað hana þannig í 1.201.152 krónur. Telja þeir inneign stefnda eiga að koma þar til skuldajafnaðar, þannig að út komi fjárhæð dómkröfu þeirra fyrir Hæstarétti, 633.152 krónur.
II.
Reikningar stefnda vegna aukaverka við skip áfrýjenda voru sem fyrr segir samtals að fjárhæð 1.855.450 krónur og dagsettir í ágúst og september 1999, en ekki liggur nánar fyrir hvenær þeim var komið á framfæri við áfrýjendur. Af greiðslunum, sem þeir inntu af hendi á tímabilinu fram til 26. ágúst 1999, gengu sem áður segir alls 556.000 krónur upp í þessa reikninga stefnda. Því hefur ekki verið haldið fram undir rekstri málsins að áfrýjendur hafi með þessu gert upp tiltekna liði í reikningunum.
Í bréfi til stefnda 23. mars 2000 komu fram mótmæli áfrýjenda við því að þeim bæri að standa skil á eftirstöðvum reikninga hans. Sagði þar meðal annars að áfrýjendur teldu „að svo stöddu ekki einsýnt að öll umrædd aukaverk hafi verið umbeðin, þau hafi farið fram eða að þau hafi ekki verið eða átt að vera innifalin í upphaflegu tilboði“. Þessu svaraði stefndi með bréfi 27. apríl 2000, þar sem hann meðal annars kvaðst taka fram að „öll aukaverk sem unnin voru við bátinn og aukabúnaður, sem í hann var settur var framkvæmt að beiðni eða með samþykki Snorra Jónssonar, ef frá er talinn stálkjölur sá, er ég setti undir bátinn og taldi nauðsynlegan vegna stöðugleika hans.“ Gerði stefndi í framhaldi af þessu grein fyrir helstu atriðunum í aukaverkunum ásamt því til samanburðar hvað innifalið hafi verið í einstökum liðum tilboðs hans. Því virðast áfrýjendur ekki hafa svarað fyrr en í máli þessu. Í þinghaldi í héraði 19. desember 2001 leituðu þeir dómkvaðningar matsmanns til þess meðal annars að láta uppi álit um hver væri „réttmæt fjárhæð verkkaups matsþola vegna þeirra aukaverka sem viðurkennd eru“, svo og að hve miklu leyti lækka ætti verkkaup vegna þátta í tilboði stefnda, sem fallið hafi niður vegna aukaverka. Lá þá fyrir að áfrýjendur viðurkenndu þá sex liði í kröfu stefnda vegna aukaverka, sem áður er getið og námu samtals 1.194.000 krónum. Í matsgerð 28. mars 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að fjárhæð einstakra liða í kröfu stefnda vegna aukaverka, sem áfrýjendur viðurkenndu, væri ýmist réttmæt eða lægri en matsmaðurinn hefði talið eðlilega. Gat hann þess að þetta „undirverð“ kynni að geta skýrst af staðhæfingu stefnda á matsfundi um að tillit hafi verið tekið til liða, sem ráðgerðir voru í tilboði hans en ekki þurfti að leysa af hendi, þegar reikningar voru gerðir vegna aukaverka. Að þeirri skýringu frágenginni taldi matsmaðurinn að kostnaður stefnda af þessum verkliðum, sem féllu niður, hefði orðið 70.000 krónur.
Í aðilaskýrslu stefnda fyrir héraðsdómi lýsti hann aðdragandanum að gerð tilboðs síns þannig að áfrýjandinn Snorri hafi rætt við sig í síma og beðið um áætlun um hvað endursmíð á skipinu Jóni Valgeiri myndi kosta. Hafi stefndi „skrifað niður ... tilboð um ákveðin verk“, sem hann hafi sent og fengið svo til baka áritað um samþykki af báðum áfrýjendum. Hafi verið vitað fyrir fram að tilboðið væri ekki tæmandi um það, sem gera þyrfti, og hafi stefndi því gefið áfrýjendum „verð í ákveðna hluti.“ Hafi stefndi ekki treyst sér til að gera tilboðið nákvæmara, enda hafi þá ekki legið ljóst fyrir hvað yrði gert. Hvorugur áfrýjenda kom fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar til að lýsa atvikum að þessu leyti. Eins og að framan greinir stóðu þeir í ágúst 1999 skil á hluta af fjárhæð reikninga stefnda vegna aukaverka, en tengdu þá greiðslu þó ekki á nokkurn hátt við tiltekna reikningsliði. Kom fyrst fram af þeirra hendi undir rekstri málsins að þeir viðurkenndu hluta aukaverkanna, en ekki hefur verið skýrt svo að viðhlítandi sé hver sérstaða þeirra liða sé í samanburði við þá, sem ekki eru viðurkenndir. Áfrýjendur leituðu ekki álits matsmanns, sem þeir fengu dómkvaddan samkvæmt áðursögðu, á því hvort liðirnir í reikningum stefnda, sem þeir hafa ekki viðurkennt, hefðu átt að teljast innifaldir í tilboði hans frá 31. október 1998 eða hver hefðu verið eðlileg verklaun fyrir þá. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem kveðinn var upp með sérfróðum meðdómsmönnum, verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjendum beri að greiða stefnda eftirstöðvar reikninga hans vegna aukaverka.
III.
Áfrýjendur telja sig sem fyrr segir eiga gagnkröfu á stefnda að fjárhæð samtals 1.201.152 krónur. Kröfu þessa skýra þeir á þann hátt að í fyrsta lagi hafi stefnda orðið á mistök við framkvæmd verksins, sem um ræðir í málinu, þar sem breytingar á skipi áfrýjenda hafi valdið því að rúmtala þess hafi hækkað, en af þeim sökum hafi staðið til að aflaheimildir þess yrðu felldar niður. Til að leysa þetta hafi áfrýjendur orðið að láta breyta skipinu í þilfarsskip, en kostnaður af því hafi numið 582.811 krónum. Í öðru lagi hafi verið gallar á frágangi stefnda á svokölluðum síðustokkum, en viðgerð þeirra hafi kostað 458.341 krónu. Í þriðja lagi hafi sjálfstýring, sem stefndi setti í skipið, reynst ónothæf, en samkvæmt matsgerðinni, sem áfrýjendur öfluðu fyrir héraðsdómi, sé kostnaður af nýrri 160.000 krónur.
Varðandi fyrstnefnda liðinn í gagnkröfu áfrýjenda liggja fyrir í málinu ýmis gögn um mælingar á skipi þeirra, bæði frá því áður en stefndi vann að breytingum á því og eftir þann tíma. Í bréfi Fiskistofu til áfrýjandans Snorra 16. febrúar 2000 var vísað til upplýsinga frá Siglingastofnun um að skipið Jón Valgeir ÍS 11 hefði verið endurbyggt að verulegu leyti og rúmtala þess aukist um 1,5 m3. Samkvæmt 10. mgr. ákvæðis XXIII til bráðabirgða við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með áorðnum breytingum væri óheimilt að breyta skipi af þessum toga þannig að rúmtala þess ykist nema flutt væri á það veiðileyfi af öðru slíku skipi, sem væri fyrir þrefaldri rúmtölu stækkunarinnar. Veiðileyfi hafi ekki verið flutt á þennan hátt á skip áfrýjenda og væru því brostnar forsendur fyrir leyfi þess til veiða í atvinnuskyni. Var áfrýjendum veittur frestur til 1. mars 2000 til að gera athugasemdir vegna þessa eða fullnægja framangreindu skilyrði. Í málatilbúnaði áfrýjenda er sem fyrr segir á því byggt að þeir hafi orðið að bregðast við þessu með því að breyta skipinu og krefja þeir stefnda um greiðslu skaðabóta af þeim sökum. Ekki hafa komið fram viðhlítandi skýringar af hendi áfrýjenda á því hvers vegna orðið hafi að breyta skipinu fremur en að grípa til annarra úrræða vegna þeirra atvika, sem hér um ræðir, en í málatilbúnaði stefnda fyrir héraðsdómi er staðhæft að áfrýjendum hefði verið unnt að kaupa auknar veiðiheimildir fyrir skipið á 50.000 krónur fyrir hverja rúmlest. Þá er jafnframt til þess að líta að samkvæmt fundargerð frá matsfundi 7. mars 2002 benti matsmaður, sem dómkvaddur var sem fyrr segir að beiðni áfrýjenda, aðilunum á að upplýsingarnar frá Siglingastofnun, sem Fiskistofa hafi stutt framangreint erindi við, hafi fyrir „hrein mistök“ Siglingastofnunar verið rangar og leiðréttar við skoðun skipsins á Ísafirði í febrúar 2000. Um þetta atriði, sem matsmaðurinn ítrekaði í munnlegri skýrslu fyrir héraðsdómi, hafa áfrýjendur ekki aflað frekari gagna. Að öllu þessu virtu hafa þeir ekki fært haldbær rök fyrir þessum lið í kröfu sinni, sem verður því hafnað.
Annar liðurinn í gagnkröfu áfrýjenda er sem fyrr segir reistur á því að gallar hafi verið á verki stefnda að því leyti að frágangur á síðustokkum á skipi þeirra hafi verið ófullnægjandi. Styðja áfrýjendur þetta við skýrslu starfsmanns Siglingastofnunar um skoðun á skipinu á Ísafirði 6. apríl 2000, en þá munu hafa staðið yfir framkvæmdir við breytingu þess í þilfarsskip og virðast síðustokkar um leið hafa verið endurgerðir. Af skýrslu þessari verður ekki ráðið svo að nægilegt sé hvaða annmarkar hafi átt að vera á verki stefnda, hvert umfang þeirra gæti hafa verið eða hvað gera hefði þurft til að ráða bót á þeim. Er þessi liður í kröfu áfrýjenda því ekki studdur viðhlítandi gögnum og verður honum hafnað.
Þriðja liðnum í gagnkröfu áfrýjenda verður hafnað með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.
Samkvæmt framangreindu er gagnkröfu áfrýjenda á hendur stefnda hafnað með öllu.
IV.
Í héraðsdómsstefnu var byggt á því að krafa samkvæmt reikningum stefnda, samtals 5.599.450 krónur, hafi fallið í gjalddaga 1. janúar 2000. Áðurnefndar greiðslur áfrýjenda til stefnda á samtals 4.300.000 krónum höfðu allar verið inntar af hendi fyrir þann dag. Eru því engin efni til annars en að dæma stefnda eingöngu mismuninn á þeim fjárhæðum eða 1.299.450 krónur með dráttarvöxtum svo sem í dómsorði greinir.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Guðjón Helgason og Snorri Jónsson, greiði í sameiningu stefnda, Baldri Halldórssyni, 1.299.450 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjendur greiði í sameiningu stefnda samtals 850.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. júní 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. apríl s.l., hefur Baldur Halldórsson, Hlíðarenda, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Guðjóni Helgasyni, Eyktarási 9, Reykjavík og Snorra Jónssyni, Fjarðarstræti 4, Ísafirði, með stefnu birtri 12. og 20. desember 2000. Með stefnu þingfestri þann 8. febrúar 2001 höfðuðu Guðjón Helgason og Snorri Jónsson gagnsakarmál gegn Baldri Halldórssyni.
Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að aðalstefndu greiði honum kr. 5.599.450,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 1. janúar 2000 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð kr. 4.300.000,-. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefndu.
Stefndu í aðalsök krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum aðalstefnanda. Til vara krefjast þeir þess að dómkröfur aðalstefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefjast aðalstefndu málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda.
Endanlegar dómkröfur stefnenda í gagnsök eru þær að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða þeim kr. 1.201.160,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 8. febrúar 2001 til 1. júlí s.á. en skv. lögum nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefjast gagnstefnendur höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti skv. 12. gr. s.l., í fyrsta sinn þann 8. febrúar 2002. Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar.
Stefndi í gagnsök krefst sýknu af kröfum gagnstefnenda og að þeir verði dæmdir til að greiða honum málskostnað.
Í máli þessu deila aðilar um efndir á verksamningi þeirra í milli um endurbætur á báti í eigu aðalstefndu. Aðalstefnandi hefur höfðað málið til heimtu endurgjalds fyrir það er hann kveður aukaverk við verksamninginn. Aðalstefndu byggja annars vegar á að þeim beri ekki að greiða meira en þeir hafa þegar gert fyrir nefnda verkþætti og hins vegar að verk aðalstefnanda hafi verið haldið göllum.
Málsatvik í aðalsök og gagnsök eru þau að með bréfi dags. 31. október 1998 gerði stefnandi í aðalsök og stefndi í gagnsök, hér eftir nefndur aðalstefnandi, tilboð í breytingar á báti í eigu stefndu í aðalsök og stefnenda í gagnsök, hér eftir nefndir aðalstefndu, Jóni Valgeiri, skipaskrárnúmer 5989. Tóku aðalstefndu þessu tilboði aðalstefnanda sem samkvæmt efni sínu var að fjárhæð kr. 3.744.000,-. Aðila greinir hins vegar á um hvort tilboð þetta hafi verið í heildarverkið líkt og aðalstefndu halda fram eða hvort tilboðið hafi verið í ákveðna hluta breytinganna en að fyrir þau verk sem nauðsynlegt væri að vinna, en ekki væru inni í tilboðinu, skildi greiða sérstaklega líkt og byggt er á af hálfu aðalstefnanda.
Báturinn kom til aðalstefnanda 27. nóvember 1998 og hóf hann vinnu við bátinn 2-3 mánuðum síðar. Smíði bátsins lauk sumarið eftir og var hann afhentur aðalstefndu 19. ágúst 1999. Í ágúst og september 1999 gaf aðalstefnandi út þrjá reikninga vegna verksins að fjárhæð kr. 5.599.450,-. Aðalstefndu greiddu kr. 300.000,- inn á verkið við gerð samningsins 26. nóvember 1998, kr. 1.500.000,- 5. mars 1999, kr. 800.000,- 3. júní 1999, kr. 800.000,- 16. júlí 1999 og kr. 300.000,- 11. ágúst 1999.
Er reikningar aðalstefnanda bárust aðalstefndu lá fyrir að eftirstöðvar skv. kröfugerð aðalstefnanda voru kr. 1.899.450,-. Aðalstefndu mótmæltu því að eftirstöðvarnar væru svo miklar og töldu með vísan til tilboðsins að þær væru einungis kr. 44.000,-. Aðalstefndu óskuðu eftir því við aðalstefnanda að hann skýrði reikningsgerð sína. Upplýsti aðalstefnandi að mismunurinn stafaði af því er hann kvað vera umsamin aukaverk sem féllu utan tilboðs hans. Eftir enn frekari útlistun af hálfu aðalstefnanda greiddu aðalstefndu honum kr. 600.000,- þann 26. ágúst 1999. Halda aðalstefndu því fram að með þeirri greiðslu hafi þeir gert upp að fullu við aðalstefnanda þar sem fram hefðu komið gallar á verkinu. Þessu mótmælti aðalstefnandi. Aðilum tókst ekki að leysa ágreining sinn og höfðaði aðalstefnandi því mál þetta.
Aðalstefnandi kveður kröfu sína í aðalsök vera þannig til komna að þann 31. október 1998 hafi tilboð hans í breytingar á bát í eigu aðalstefndu verið samþykkt. Tilboð hans í verkið hafi verið að fjárhæð kr. 3.744.000,-. Aðalstefnandi hafi í kjölfarið unnið verkið og afhent bátinn í ágúst 1999.
Á verktímanum segir aðalstefnandi að við hafi bæst ýmis aukaverk og hafi gjald fyrir þau komið til viðbótar tilboðsupphæðinni. Þann 23. mars 2000 hafi lögmaður aðalstefndu sent aðalstefnanda bréf þar sem upphæð verklauna og framkvæmd verksins hafi verið mótmælt. Aðalstefnandi hafi svarað bréfinu 27. apríl s.á. og hafnað kröfum aðalstefndu í öllum megin atriðum og krafist greiðslu. Engin viðbrögð hafi orðið við þessu bréfi af hálfu aðalstefndu.
Kröfur sínar í aðalsök segir aðalstefnandi byggja á þremur útgefnum reikningum er samtals nemi stefnufjárhæðinni. Til stuðnings kröfunum vísar aðalstefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en reglan fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39, 1922. Um gjalddaga kröfunnar kveðst aðalstefnandi einkum vísa til 12. gr. sömu laga.
Gagnkröfur sínar í aðalsök og kröfur í gagnsök byggja aðalstefndu á því að gjaldtaka aðalstefnanda umfram tilboð og það sem aðalstefndu hafi þegar greitt sé í andstöðu við skriflegt og samþykkt tilboð aðalstefnanda sjálfs. Aðalstefndu hafi þegar greitt fyrir alla vinnu aðalstefnanda og gott betur. Fyrir liggi að aðalstefndu hafi greitt sem nemi kr. 556.000,- umfram samþykkt tilboð og sé þar um að ræða ríflega greiðslu fyrir þau aukaverk sem þeir hafi fallist á og þau verk sem aðalstefnandi hafi framkvæmt óumbeðið og hafi verið aðalstefndu til hagsbóta, ekki verið ónýt eða kallað á verulegar lagfæringar af hálfu aðalstefndu.
Jafnframt byggja aðalstefndu á því að hluti þeirra meintu aukaverka sem aðalstefnandi segist hafa framkvæmt hafi aldrei farið fram. Þannig hafi aðalstefnandi t.d. krafist greiðslu fyrir tvo stóla í stýrishúsi en þar hafi hann eingöngu komið einum stól fyrir. Byggja aðalstefndu á að aðalstefnandi hafi viðurkennt þetta atriði, sbr. bréf hans til lögmanns aðalstefndu dags. 27. apríl 2000. Þá benda aðalstefndu á að sundurliðun hinna meintu aukaverka á dómskjölum nr. 5, 6 og 13 fjalli að talsverðu leyti um verk sem innifalin hafi verið í tilboði aðalstefnanda, t.d. sé í tilboðinu innifalin uppsetning og frágangur á rafkerfi, breyting á stýrishúsi, dekkun og frágangur lestarlúgu, frágangur borðstokka og frágangur á vélbúnaði. Ekki verði annað séð en aðalstefnandi geri í málinu kröfur um sérstakar greiðslur fyrir þessa verkþætti umfram umsamda greiðslu.
Aðalstefndu segjast einnig byggja á því að aðalstefnandi, sem fagaðili, hljóti að bera hallann af óskýrum samningi, þ.e. hinu samþykkta tilboði. Aðalstefnandi hljóti að þurfa að sanna að umrædd og meint aukaverk hafi á annað borð verið framkvæmd. Aðalstefnanda hafi borið að geta þess sérstaklega að í tilboði hans fælist ekki öll sú vinna sem nauðsynleg var til þeirra endurbóta sem aðalstefndu óskuðu.
Þá byggja aðalstefndu á því að um kröfur aðalstefnanda í málinu verði ekki fjallað á grundvelli 5. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39, 1922 þegar af þeirri ástæðu að fyrirliggjandi sé samþykkt tilboð, ígildi verksamnings milli aðila. Samið hafi verið fyrirfram um verkið og fjárhæð verklauna sem leiði til þess að stefnanda beri að sanna réttmæti kröfu sinnar. Aðalstefndu taka sérstaklega fram að í greiðslu þeirra á kr. 556.000,- umfram tilboðsfjárhæð felist engin viðurkenning á réttmæti kröfu aðalstefnanda í málinu. Aðalstefndu hafi greitt þessa fjárhæð fyrir þau aukaverk sem viðurkennt hafi verið af þeirra hálfu að fram hefðu farið eða ella verið þess eðlis að þau voru þeim til hagsbóta.
Aðalstefndu byggja einnig á því að aðalstefnandi hafi í verulegum atriðum vanefnt verksamning aðila um endurbætur á umræddum báti. Verkið hafi verið haldið stórfelldum göllum. Vegna þeirra hafi aðalstefndu orðið fyrir miklum fjárútlátum. Þeir hafi þurft að greiða kostnað við krana sem nauðsynlegur hafi verið þegar báturinn hafi verið tekinn upp vegna viðgerða. Kostnaður hafi hlotist af sérstökum skoðunum Siglingastofnunar sem nauðsynlegar hafi verið og rekja megi beint til gallanna. Þá hafi aðalstefndu orðið að leggja í kosnað vegna plastviðgerða á bátnum, einkum algerra endurbóta á síðustokkum. Teikna hafi þurft bátinn upp á nýtt sökum þess að hann hafi verið of breiður og framkvæma hafi þurft hallaprófun á honum eftir áðurnefndar endurbætur á síðustokkum. Kostnaður hafi einnig fallið til vegna þessara aðgerða.
Kröfur sínar í aðalsök segjast aðalstefndu byggja á almennum reglum fjármunaréttarins; kröfuréttar, samningaréttar og meginreglna um lausafjárkaup. Þá byggi aðalstefndu kröfur sínar jafnframt á ákvæðum laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup og laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Kröfur sínar í gagnsök og mótmæli gegn kröfum stefndu í aðalsök byggir aðalstefnandi á því að samningur aðila hafi í raun verið um kaup í skilningi laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup. Aðalstefndu hafi verið að kaupa nýjan bát. Aðalstefnandi hafi lagt til allt efni og byggt hann frá grunni. Pöntun aðalstefndu á bátnum teljist því kaup í skilningi 2. gr. laga nr. 39, 1922. Viðskipti aðila séu að minsta kosti mjög kauparéttarleg í eðli sínu og því haldi aðalstefnandi því fram að beita eigi ákvæðum kaupalaga með lögjöfnun verði ekki fallist á að um kaup sé að ræða.
Aðalstefnandi kveður viðskipti aðila verslunarkaup, sbr. 4. gr. laga nr. 39, 1922, þar sem báðir samningsaðilar séu atvinnurekendur er selji sínar vörur.
Því er haldið fram af hálfu aðalstefnanda að kaupverðið hafi ekki verið fastákveðið nema að hluta og aðalstefndu verði því að greiða uppsett verð nema þeim takist að sanna að það teljist ósanngjarnt, sbr. 5. gr. laga nr. 39, 1922. Því hafi þeir hvorki haldið fram né reynt að sanna.
Þá segi í 6. gr. laga nr. 39, 1922 að ef kaupandi í verslunarkaupum vilji mótmæla verði sem tilgreint sé í reikningi verði hann að gera það eins fljótt og hann fái því við komið ella verði hann að greiða reikninginn nema hann geti sannað að um lægra verð hafi verið samið eða reikningurinn sé bersýnilega ósanngjarn. Aðalstefndu hafi hins vegar ekki mótmælt reikningunum fyrr en rúmum sjö mánuðum eftir að þeir fengu þá í hendur. Þau mótmæli hafi augljóslega ekki verið sett eins fljótt fram og aðalstefndu var mögulegt.
Aðalstefnandi segir að aðalstefndu hafi þurft að hafa uppi kröfur sínar vegna meintra galla innan ákveðinna fresta, sbr. 52. til 54. gr. laga nr. 39, 1922. Kvartanir hafi borist út af sjálfstýringu og hafi hún verið lagfærð. Við það tækifæri hafi ekki verið kvartað yfir öðru en sjáfstýringunni. Það hafi ekki verið fyrr en rúmum sjö mánuðum eftir afhendingu bátsins sem minnst hafi verið á frekari galla. Í greinargerð og gagnstefnu hafi síðan enn verið bætt við fullyrðingum um meinta galla. Aðalstefnandi segir að aðalstefndu hafi borið að koma með þessar athugasemdir strax en þar sem þeir hafi ekki gert það geti þeir ekki borið hina meintu galla fyrir sig, sbr. 52. gr. laga nr. 39, 1922.
Aðalstefnandi kveður fráleitt að smíði heils báts hafi átt að felast í tilboði hans dags. 31. október 1998. Um þetta hafi verið rætt við aðalstefndu á meðan á verkinu stóð og rangt sé af þeim að halda öðru fram. Bendir aðalstefnandi á að stærsta verkið utan tilboðsins sé nýtt stýrishús en um það hafi aðalstefndu sérstaklega beðið. Svo hafi einnig verið með önnur verk. Þá bendir aðalstefnandi jafnframt á að í greinargerð sinni í aðalsök viðurkenni aðalstefndu að hafa óskað eftir aukaverkum.
Sem dæmi um verk sem ekki hafi fallið undir tilboðið nefnir aðalstefnandi skipti á stýrishúsi og lagnir að vél. Vísar aðalstefnandi að öðru leyti til lista á dómskjali nr. 28, sundurliðun á kostnaði við verk utan tilboðs. Hann segir aðalstefndu alla tíð hafa verið ljóst að engin þeirra atriða sem fram komi á nefndu dómskjali hafi verið innifalin í tilboði þó þeir nú haldi öðru fram til að freista þess að komast hjá að borga fyrir bátinn.
Aðalstefnandi segir ekkert liggja fyrir um það í málinu að aðalstefndu hafi verið knúðir til að dekka bátinn. Hins vegar liggi nokkuð ljós fyrir að það hafi alltaf verið ætlun aðalstefndu. Það sé hins vegar ekki réttmætt að krefja aðalstefnanda um kostnaðinn við þær breytingar. Aðalstefndu haldi því fram að báturinn hafi orðið 7 cm of breiður og láti eins og aðalstefnandi hafi breikkað bátinn upp á sitt einsdæmi. Hið rétta sé að aðalstefndu hafi sjálfir óskað eftir þessum breytingum. Aðalstefnandi hafi hins vegar stytt bátinn á móti svo hann stækkaði ekki í rúmlestum talið. Mótmælir aðalstefnandi því sérstaklega að nýi báturinn sem hann hafi smíðað fyrir aðalstefndu sé 7 cm breiðari en gamli báturinn. Hið rétta sé að nýi báturinn sé um 3-4 cm breiðari en sá gamli, sbr. m.a. staðfestingu skoðunarmanns Siglingastofnunar dags. 11. ágúst 1999. Aðalstefnandi kveður aðalstefndu ekki tiltaka hvaða reglur það séu sem valdið hafi því að þeir hafi neyðst til að kosta sérstaka dekkun á bátnum. Fullyrðir aðalstefnandi að engar reglur sé til sem segi að ef bátur sé 7,30 cm á lengd og 2,28 m breidd þá eigi hann að vera dekkaður. Það sé því algerlega úr lausu lofti gripið að krefjast þess af aðalstefnanda að hann greiði kostnað við að gera bátinn að þilfarsbáti. Þá bendir aðalstefnandi á að skv. upplýsingum frá Siglingastofnun hafi ekki verið hlutast til um það af eiganda bátsins að láta mæla hann upp á nýtt eftir að reglur breyttust um mælingar. Að endingu bendir aðalstefnandi á að aðalstefndu hafi stundað veiðar á nýja bátnum á veiðiári því sem lokið hafi 1. september 1999 og enn fremur að vori 2000 athugasemdalaust en það hafi verið áður en bátnum var breytt í þilfarsbát. Þetta hefði verið þeim ómögulegt ef þeir hefðu að boði opinberra aðila ekki mátt stunda veiðar á bátnum.
Aðalstefnandi segir útreikninga sýna að nýi báturinn sé örlítið minni í rúmlestum talið en sá gamli. Mælibréfin séu hins vegar ekki rétt og hefðu aðalstefndu átt að láta leiðrétta skráningarlengd og skráningarbreidd bátsins. En þó aðalstefndu hafi látið það ógert hafi ekkert knúð þá til að dekka bátinn. Þeir hefðu einfaldlega getað keypt úreldingu, 1,2 rúmlestir á kr. 60.000,-.
Hvað hina meintu galla að öðru leyti varðar kveður aðalstefnandi gagnaðila fljótlega eftir afhendingu hafa kvartað yfir því að sjálfstýring virkaði ekki. Aðalstefnandi hafi þá sent viðgerðarmann til að líta á sjálfstýringuna og hafi hún verið lagfærð. Í tilefni af aðfinnslum aðalstefndu hafi aðalstefnandi í bréfi dags. 27. apríl 2000 boðist til að taka sjálfstýringuna aftur ef hún væri enn gölluð, en engin viðbrögð hafi komið frá aðalstefndu vegna þessa. Aðalstefnandi segir þessa kröfu aðalstefndu vera með öllu órökstudda.
Þá mótmælir aðalstefnandi fullyrðingum aðalstefndu um að einungis hafi verið einn stóll í stýrishúsi bátsins sem ósönnuðum. Hann mótmælir því einnig að báturinn hafi verið óstöðugur. Þessi fullyrðing aðalstefndu sé órökstudd og hafi engin gögn verið lögð fram henni til stuðnings.
Hvað varðar kröfur aðalstefndu um að aðalstefnandi greiði kostnað þann er fram kemur á reikningum á dómskjölum nr. 15-22 og 24 tekur aðalstefnandi fyrst fram að þessar kröfur hafi hann ekki séð fyrr en þær voru settar fram fyrir dómi. Kröfurnar séu órökstuddar og allt of seint fram komnar. Efnislega kveður aðalstefnandi reikninga á dómskjölum nr. 15 og 16 vera vegna krana sem þurft hafi til að taka bátinn upp til viðgerða. Ekkert komi hins vegar fram kvaða viðgerðir hafi verið um að ræða og þá sé greiðsluskylda aðalstefnanda órökstudd með öllu. Reikningar á dómskjölum nr.17, 21, 22 og 24 séu að sögn aðalstefndu vegna sérstakrar skoðunar af hálfu Siglingastofnunar sem nauðsynlegar hafi verið og hafi verið bein afleiðing af göllum. Aðalstefnandi kveður kröfuna órökstudda með öllu og ekki sé tilgreint hvað stofnunin hafi verið að skoða og hvers vegna. Aðalstefnandi segir líklegast að Siglingastofnun hafi verið að skoða bátinn vegna breytinga á honum yfir í þilfarsbát. Kostnaður við það sé hins vegar í samræmi við framangreint alfarið aðalstefndu og aðalstefnanda óviðkomandi.
Reikning á dómskjali nr. 18 segir aðalstefnandi vera vegna breytinga á bátnum í þilfarsbát. Í samræmi við framangreint beri aðalstefnandi enga ábyrgð á þessum kostnaði. Krafan sé röng, ósönnuð, of seint fram komin og að auki fallin niður vegna tómlætis og fyrningar. Reikningur á dómskjali nr. 19 sé vegna teiknivinnu. Það sama gildi um hann áður hafi verið sagt. Ósannað sé að breidd bátsins hafi orsakað nauðsyn þess að teikna bátinn upp. Ekki komi fram hvað hafi verið teiknað, ekki komi fram af hverju báturinn eigi að teljast of breiður, og þá of breiður fyrir hvað, hvaða reglur banni breidd hans, hverjar væru afleiðingar þess að báturinn teldist of breiður, hvaða opinberi aðili hafi krafist dekkunar o.s.frv. Kröfum um að aðalstefnandi greiði þennan reikning sé því hafnað sem órökstuddum og ósönnuðum.
Fyrir liggur að aðalstefnandi gerði tilboð í breytingar á báti aðalstefndu, Jóni Valgeiri, skipaskrárnúmer 5989, með bréfi dags. 31. október 1998. Óumdeilt er að aðalstefndu tóku þessu tilboði aðalstefnanda. Við það komst á bindandi verksamningur milli aðila.
Fram kemur í málatilbúnaði aðalstefndu að þeir hafi ætlað að hefja sjósókn þegar aðalstefnandi lyki breytingum á bátnum. Það er mat hinna sérfróðu meðdómsmanna að báturinn í því ástandi sem hann hefði verið að loknum þeim breytingum sem fram koma í tilboði aðalstefnanda hefði ekki verið tilbúinn til róðra. Aðalstefndu hafa ekki bent á neinn þann aðila sem ljúka hafi átt við endurbæturnar á bátnum svo róa mætti á honum. Þá hafa aðalstefndu viðurkennt að hafa beðið um og/eða samþykkt einhvern hluta aukaverkanna. Að þessu athuguðu þykja nægjanlegar líkur standa til þess að aðalstefnandi hafi unnið þau aukaverk, sem hann vann, með samþykki aðalstefndu líkt og hann hefur haldið fram.
Að mati dómsins falla allir þeir verkþættir sem fram koma á dómskjali nr. 28; „Sundurliðun á kostnaði við verk utan tilboðs“ utan tilboðs aðalstefnanda dags. 31. október 1998. Þykir dóminum það verð sem tilgreint er í skjalinu fyrir einstaka verkþætti vera hæfilegt. Er þessi niðurstaða dómsins í góðu samræmi við álitsgerð dómkvadds matsmanns Agnars Erlingssonar, skipaverkfræðings, dags. 28. mars 2002.
Með vísan til alls framangreinds þykir verða að fallast á kröfur aðalstefnanda um að aðalstefndu greiði honum kr. 1.855.450,- vegna hinna umdeildu aukaverka.
Sævar Sæmundsson, skoðunarmaður Siglingastofnunar, tók út verk aðalstefnanda við verklok. Samkvæmt bréfi Sævars og framburði hans fyrir dómi kom ekkert athugavert fram við skoðun hans. Kvað hann smíði aðalstefnanda hafa litið vel út og sagði það skoðun sína að verkið hafi verið fagmannlega unnið. Þegar litið er til þess tíma sem leið frá verklokum aðalstefnanda og þar til báturinn var skoðaður af Guðmundi Óla K. Lyngmo, skoðunarmanni, svo og notkunar bátsins á þeim tíma þykir dóminum óvarlegt að telja sannað að þeir gallar sem skoðunarmaðurinn kvað hafa verið á bátnum 6. apríl 2000, hafi verið til staðar við verklok.
Samkvæmt framlögðum teikningum á dómskjali nr. 33, sem Sævar Sæmundsson, skoðunarmaður, staðfesti fyrir dómi að aðalstefnandi hefði farið eftir við verkið var skráningarlengd bátsins eftir breytingar 7,30 m og skráningarbreidd 2,28 m, hafði báturinn þá verið breikkaður um 3 cm og styttur um 7 cm. Mesta lengd skv. vottorði Sævars dags. 11. ágúst 1999 var hins vegar 8,25 en mesta lengd 2,45. Að þessu sögðu liggur fyrir að rúmlestatala bátsins breyttist ekki við verk aðalstefnanda svo áhrif hefði á veiðileyfi hans en aðilar eru sammála um að það hafi verið ein forsenda breytinganna.
Aðalstefnandi bar fyrir dómi að hann hafi sent mann til að gera við sjálfstýringu bátsins er honum bárust kvartanir aðalstefndu um að hún virkaði ekki. Óumdeilt er að umræddur maður hafi komið um borð í bátinn til að framkvæma nefnda viðgerð. Staðhæfingar aðalstefndu um að viðgerðin hafi verið árangurslaus eru ekki studdar neinum gögnum. Er þeim því hafnað sem ósönnuðum.
Að öllu framangreindu sögðu þykir ósannað að verk aðalstefnanda hafi verið haldið göllum. Ber því að sýkna hann af öllum kröfum stefnenda í gagnsök.
Í samræmi við allt framangreint dæmast aðalstefndu til að greiða aðalstefnanda kr. 5.599.450,- ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. janúar 2000 til 1. júlí 2001 en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum; kr. 300.000,- 26. nóvember 1998, kr. 1.500.000,- 5. mars 1999, kr. 800.000,- 3. júní 1999, kr. 800.000,- 16. júlí 1999 kr. 300.000,- 11. ágúst 1999 og kr. 600.000,- 26. ágúst 1999.
Að atvikum máls athuguðum þykir rétt að ákvarða málskostnað í aðalsök og gagnsök í einu lagi. Með vísan til úrslita málisins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, dæmast aðalstefndu til greiða aðalstefnanda málskostnað sem hæfilega þykir ákveðinn kr. 700.000,-.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri, ásamt meðdómsmönnunum Hallgrími Skaptasyni, skipasmið og Páli Hlöðvessyni, skipatæknifræðingi.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu í aðalsök, Guðjón Helgason og Snorri Jónsson, greiði aðalstefnanda, Baldri Halldórssyni, kr. 5.599.450,- ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. janúar 2000 til 1. júlí 2001 en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum; kr. 300.000,- 26. nóvember 1998, kr. 1.500.000,- 5. mars 1999, kr. 800.000,- 3. júní 1999, kr. 800.000,- 16. júlí 1999, kr. 300.000,- 11. ágúst 1999 og kr. 600.000,- 26. ágúst 1999.
Gagnstefndi, Baldur Halldórsson, skal sýkn af öllum kröfum stefnenda, Guðjóns Helgasonar og Snorra Jónssonar, í gagnsök.
Aðalstefndu greiði aðalstefnanda kr. 700.000,- í málskostnað í aðalsök og gagnsök.