Hæstiréttur íslands
Mál nr. 818/2013
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Skaðabótamál
- Eigin sök
|
|
Miðvikudaginn 28. maí 2014. |
|
Nr. 818/2013.
|
Matthías Ólafsson (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Eigin sök.
M höfðaði mál gegn Í og krafðist greiðslu skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknar lögreglu á ætluðu peningaþvætti og auðgunarbrotum því tengdu, þar sem M var meðal sakborninga, og þvingunarráðstafana sem hann þurfti að þola. Talið var að skilyrði hefðu verið fyrir hendi til að handtaka M og hneppa hann í gæsluvarðhald auk þess sem hann hafði sjálfur með framferði sínu stuðlað að því að nauðsynlegt var að grípa til síðarnefnda úrræðisins. Voru honum því ekki dæmdar bætur fyrir að hafa í öndverðu sætt gæsluvarðhaldi, sbr. niðurlag 1. mgr. 175. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Á hinn bóginn þótti gæsluvarðhaldið hafa staðið lengur en efni stóðu til og voru M því dæmdar 200.000 krónur í miskabætur auk vaxta. Kröfu M um bætur fyrir fjártjón var hafnað, enda hafði ekki verið leitt í ljós að uppsögn hans úr starfi yrði rakin til aðgerða lögreglu vegna rannsóknar málsins. Sama átti við um ætlað tjón M vegna sölu á eignarhlut í fjármálafyrirtæki er tengdist málinu, enda kom salan til löngu eftir að aðgerðum lögreglu lauk. Ekki var talið að M hefði sýnt fram á að upplýsingar um málið, sem greint var frá í fjölmiðlum, hefðu verið komnar frá rannsakendum. Þá varð bótaábyrgð Í heldur ekki reist á því að tekið hefði of langan tíma að ljúka rannsókn málsins.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 26. júní 2013. Málið var fellt niður 26. nóvember sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 20. desember sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefndi greiði sér 37.318.215 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2008 til 28. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
I
Um haustið 2008 hóf lögregla rannsókn á ætluðu peningaþvætti og auðgunarbrotum því tengdu og var áfrýjandi meðal sakborninga. Með bréfi ríkislögreglustjóra 13. febrúar 2011 var áfrýjanda tilkynnt að tekin hefði verið sú ákvörðun á grundvelli 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að hætta rannsókn málsins þar sem ekki þættu efni til að halda henni áfram. Málsatvik eru nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi hefur höfðað mál þetta til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknarinnar og þeirra þvingunarráðstafana sem hann hafi þurfti að þola. Telur áfrýjandi að handtaka hans hafi verið ólögmæt, tilgreining sakargifta í öndverðu ófullnægjandi og honum gert að sæta gæsluvarhaldi að ósekju. Þá hafi upplýsingum um málið verið lekið til fjölmiðla og óhæfilegur dráttur orðið á rannsókn þess.
II
Tildrög málsins eru þau að 6. júní 2008 barst ríkislögreglustjóra tilkynning frá Glitni banka hf. um grunsamleg viðskipti á grundvelli laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í tilkynningunni kom fram að fjármálafyrirtæki legði umtalsverðar fjárhæðir inn á bankareikning áfrýjanda en þaðan væri fjármununum ráðstafað nánast samdægurs inn á einkareikning forstöðumanns verbréfamiðlunar sama fyrirtækis. Samkvæmt tilkynningunni nam veltan á reikningi áfrýjanda 169.662.996 krónum frá áramótum það ár. Skömmu áður eða í lok maí 2008 hafði ríkislögreglustjóra borist ábending frá vinnufélaga áfrýjanda, sem óskaði nafnleyndar, um að hann væri að slá um sig meðal samstarfsmanna vegna mikilla peningaumsvifa þótt hann væri ekki í hálaunastarfi. Kom meðal annars fram að vinur áfrýjanda, er starfaði sem verðbréfamiðlari og hefði aðgang að sjóðum, væri að nota nafn hans til að færa fjármuni á milli reikninga og hirða vextina.
Eftir að lögreglu höfðu borist þessar upplýsingar voru umsvif áfrýjanda könnuð og leiddi sú athugun meðal annars í ljós að fjármálafyrirtækið A hf. hafði á skömmum tíma ráðstafað umtalsverðum fjármunum inn á reikning áfrýjanda. Þaðan voru síðan háar fjárhæðir millifærðar inn á reikning B sem var forstöðumaður markaðsviðskipta hjá því fyrirtæki. Einnig aflaði lögregla upplýsinga um önnur viðskipti áfrýjanda og B, en þau fólust meðal annars í því að hann seldi áfrýjanda einbýlishús sitt.
Hinn 12. nóvember 2008 krafðist lögregla að Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði leit á heimili áfrýjanda í því skyni að handtaka hann á grundvelli 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 89. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með úrskurði dómsins degi síðar var sú beiðni tekin til greina. Ákærði var síðan handtekinn við heimili sitt að morgni dags 21. sama mánaðar og yfirheyrður síðdegis þann dag.
Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 var lögreglumönnum rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur væri á að hann hefði framið brot sem sætt gæti ákæru, enda væri handtakan meðal annars nauðsynleg til að koma í veg fyrir að hann spillti sönnunargögnum. Að því virtu hvernig málið horfði við lögreglu í ljósi sakargagna voru fyrir hendi skilyrði til að handtaka áfrýjanda. Er þá haft í huga að koma þurfti í veg fyrir að hann gæti sammælst við aðra hugsanlega sakborninga. Þá hafði lögregla aflað handtökuskipunar dómara með fyrrgreindum úrskurði 13. nóvember 2008 og því var handtakan jafnframt heimil á grundvelli 99. gr. laga nr. 19/1991. Loks verður fallist á það með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að handtakan hafi verið framkvæmd á óþarflega harkalegan, særandi eða móðgandi hátt.
III
Svo sem áður greinir var áfrýjandi færður til skýrslutöku hjá lögreglu 21. nóvember 2008 í kjölfar handtöku. Í upphafi skýrslutökunnar kom fram að sakarefnið væri háttsemi sem kynni að varða við „lög um varnir gegn peningaþvætti“ og ætluð auðgunarbrot, sbr. XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig var haft eftir áfrýjanda í upphafi skýrslunnar að hann kannaðist hvorki við að hafa framið auðgunarbrot né stundað peningaþvætti. Þá var við lok skýrslutökunnar bókað að áfrýjanda hefði verið kynnt að það væri grunur lögreglu að fjármunanna, sem lagðir voru inn á reikning hans, hefði verið aflað með ólögmætum hætti og hann gerst sekur um peningaþvætti. Jafnframt var tekið fram að tilnefndur verjandi áfrýjanda, sem var viðstaddur skýrslutökuna, gerði ekki athugasemdir við hana. Samkvæmt þessu voru sakargiftir kynntar fyrir áfrýjanda og var því gætt að skyldu lögreglu við skýrslutökuna til að gefa sakborningi upplýsingar um kæruefnið, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991. Þá var ekki tilefni fyrir lögreglu að breyta réttarstöðu áfrýjanda í lok skýrslutökunnar þannig að hann nyti ekki lengur réttarstöðu sakbornings.
IV
Við skýrslutöku af áfrýjanda 21. nóvember 2008, í kjölfar handtöku hans, greindi hann frá því að um mitt ár 2007 hefði hann lagt inn hjá A hf. fjárhæð á bilinu 9.000.000 til 12.000.000 krónur, en að stærstum hluta hefði verið um að ræða fjármuni sem hann fékk við sölu íbúðar sinnar. Meðal þeirra starfsmanna sem hefðu annast viðskipti hans hjá A hf. væri [...] B, en þeir tveir ásamt C, bróður B, hefðu síðan í apríl 2008 stofnað fjárfestingafélagið D ehf. Við skýrslutökuna var áfrýjanda kynnt að á tímabilinu frá 5. október 2007 til 12. september 2008 hefði A hf. lagt inn á reikning hans 249.191.361 krónu, en af þeirri fjárhæð hefðu 99.166.667 krónur verið millifærðar þaðan yfir á reikning B. Í framhaldinu var áfrýjandi yfirheyrður um þessar innborganir og greiðslur inn á reikninga B og D ehf. á sama tímabili, en um var að ræða 23 færslur samtals að fjárhæð 453.946.000 krónur. Hjá áfrýjanda kom fram að hann hefði hagnast umtalsvert á viðskiptum við A hf. en ávinningurinn næmi tugum milljóna króna án þess þó að hann vildi giska á þá fjárhæð af meiri nákvæmni. Áfrýjandi gat aftur á móti mjög takmarkað lýst þessum viðskiptum og litla grein gert fyrir mörgum af þeim færslum sem undir hann voru bornar.
Þegar áfrýjandi var handtekinn var B staddur erlendis en hann kom til landsins 23. nóvember 2008 og var þá handtekinn og færður til yfirheyrslu. Við skýrslutökuna kom fram að B teldi áfrýjanda lítið vita um fjármál og því hefði hann leitað til sín um ráðgjöf á því sviði. Haustið 2007 hefði áfrýjandi selt íbúð sína og lagt söluandvirðið inn til A hf. til ávöxtunar. B hefði síðan fjárfest fyrir hann í ábatasömum gjaldeyrisviðskiptum. Um hafi verið að ræða svokallaða „spott“ samninga sem hefðu verið gerðir innan dags eða tveggja daga þar sem áfrýjandi hefði átt 3% eigið fé í tryggingu fyrir markaðsverðmæti samningsins en eftirstöðvarnar verið teknar að láni. Með þessu hefði verið tekin staða gegn íslensku krónunni, frá hálfum milljarði upp í milljarð í hverjum viðskiptum, sem skilað hefði miklum hagnaði við fall krónunnar. Taldi B að með þessu hefði margfaldast það fé sem áfrýjandi hafði upphaflega til ávöxtunar og orðið að 200.000.000 til 300.000.000 krónum, en viðlíka ávöxtun hefði hann ekki séð hjá neinum af sínum viðskiptavinum. Þegar umfang þessara viðskipta var orðið svo mikið hefði fjárfestingarfélagið D ehf. verið stofnað vorið 2008 með jöfnum hlut áfrýjanda og þeirra bræðra.
B gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og greindi frá því að hann hefði í upphafi árs 2008 beðið áfrýjanda um að taka fyrir sig gengisvörn vegna erlendra lána sinna að fjárhæð 80.000.000 til 90.000.000 krónur. Áfrýjandi hefði verið svo vingjarnlegur að fallast á þetta en með þeim viðskiptum, sem gerð hefðu verið í nafni áfrýjanda, hefði B hagnast. Ástæðan fyrir því að þetta var gert í nafni áfrýjanda sagði B vera þá að reglur hefðu verið innleiddar árið á undan sem fólu það í sér að það hefði tekið hann sjálfan lengri tíma eða fimm daga að stofna til þessara viðskipta í eigin nafni. Sá tími hefði einfaldlega verið of langur miðað við þá þróun á gengi krónunnar sem B reiknaði með. Áfrýjandi hefði svo millifært fjármuni til B sem hann hefði notað til að standa straum af útgjöldum á heimili sínu og til greiðslu erlendra lána. Í kjölfarið hefði fjárfestingafélagið D ehf. verið stofnað um þessi viðskipti. Þá hefði C bæst í hópinn en hann hefði einnig skuldað erlend lán.
Samkvæmt 176. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 mátti dæma bætur, þar á meðal vegna gæsluvarðhalds, ef lögmæt skilyrði hefðu brostið fyrir því eða ef ekki hefði verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til að beita því úrræði. Í 1. mgr. 175. gr. laganna kom fram að kröfu um bætur mætti taka til greina ef rannsókn hefði verið hætt eða ákæra ekki gefin út af nánar tilgreindum ástæðum. Þó var heimilt að fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefði valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á.
Svo sem áður er rakið barst lögreglu tilkynning frá Glitni banka hf. 6. júní 2008 um grunsamleg viðskipti áfrýjanda. Við rannsókn málsins kom í ljós að á tímabilinu frá 5. október 2007 til 12. september 2008 höfðu 249.191.361 króna verið lagðar inn á reikning áfrýjanda af A hf. en þar af höfðu 99.166.667 krónur verið millifærðar inn á reikning B. Þegar ákærði var handtekinn og yfirheyrður 21. nóvember 2008 var B staddur erlendis og kom hann, eins og áður segir, til landsins síðdegis 23. sama mánaðar. Þegar af þeirri ástæðu að ekki var unnt að taka skýrslu af B samhliða áfrýjanda stóðu brýnir rannsóknarhagsmunir til að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir að þeir gætu sammælst og hagrætt framburði sínum. Við skýrslutöku af áfrýjanda 21. nóvember 2008 greindi hann lögreglu ekki frá því að hann hefði leyft B að gera viðskipti í sínu nafni, heldur bar hann því við að verulegur hluti innborgana af reikningi sínum á reikning B hefði verið þóknun eða greiðsla fyrir ráðgjöf. Gat hann þá aðspurður ekki skýrt af hverju þær greiðslur voru lagðar inn á persónulegan reikning B í stað þess að greiða kostnað af því tagi til A hf. sem hann átti í viðskiptum við. Með þessu gaf áfrýjandi ekki viðhlítandi skýringar á viðskiptunum sem til rannsóknar voru og námu háum fjárhæðum. Samkvæmt því lék rökstuddur grunur á að áfrýjandi hefði framið brot sem fangelsisrefsing lægi við. Voru því fyrir hendi skilyrði til að áfrýjandi yrði hnepptur í gæsluvarðhald auk þess sem hann hafði sjálfur með framferði sínu stuðlað að því að nauðsynlegt var að grípa til þess úrræðis. Af þeim sökum verða áfrýjanda ekki dæmdar bætur fyrir að hafa í öndverðu sætt gæsluvarðhaldi, sbr. niðurlag 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.
Eftir að skýrsla hafði verið tekin af B skömmu eftir miðnætti 24. nóvember 2008 höfðu viðskipti þau sem hann stóð fyrir verið skýrð í helstu atriðum. Í kjölfarið voru ekki efni til að halda áfrýjanda lengur í gæsluvarðhaldi nema ef vera skyldi til að taka af honum aðra skýrslu í kjölfar þess að B hafði verið yfirheyrður. Því hefði hæglega mátt koma við daginn eftir og var áfrýjanda því haldið í gæsluvarðhaldinu lengur en efni stóðu til en hann var ekki látinn laus fyrr en síðdegis 25. nóvember 2008. Af þeim sökum á hann rétt til miskabóta sem þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Verða vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 reiknaðir af bótunum frá 24. nóvember 2008 en dráttarvextir frá því málið var höfðað 28. júní 2011. Kröfu áfrýjanda um bætur fyrir fjártjón verður hins vegar hafnað, enda hefur ekki verið leitt í ljós að uppsögn hans úr starfi í apríl 2009 verði rakin til aðgerða lögreglu vegna rannsóknar málsins. Sama á við um ætlað tjón hans vegna sölu á eignarhlut í A hf. löngu eftir að aðgerðum lögreglu lauk.
V
Fallist verður á það með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki stutt neinum gögnum þá málsástæðu sína að upplýsingar um málið, sem greint var frá í fjölmiðlum, hefðu verið komnar frá rannsakendum. Þá verður bótaábyrgð stefnda heldur ekki reist á því að tekið hafi of langan tíma að ljúka rannsókn málsins.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda verða staðfest en um málskostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Matthíasi Ólafssyni, 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. nóvember 2008 til 28. júní 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda eru staðfest.
Stefndi greiði áfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2013.
Mál þetta sem dómtekið var 6. mars 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. júní 2011 af Matthíasi Ólafssyni, Bæjargili 94, Garðabæ, á hendur íslenska ríkinu.
Kröfur aðila
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 37.318.215 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2008 til 28. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 28. júní 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. og að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Atvik máls
Hinn 6. júní 2008 barst peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra (RLS) tilkynning frá Glitni banka hf. um peningafærslur inn á og af tilteknum bankareikningi í eigu stefnanda. Upplýst var að velta á umræddum reikningi hefði verið samtals 169.662.996 krónur frá áramótum að telja til 5. júní 2008. Af gögnum að dæma virtist sem verðbréfafyrirtækið A hf. legði umtalsverðar fjárhæðir inn á umræddan bankareikning stefnanda sem millifærði aftur, oft samdægurs, verulegar fjárhæðir inn á bankareikning í nafni B, forstöðumanns verðbréfamiðlunar A hf. Frá 6. júní til 8. september sama ár bárust peningaþvættisskrifstofu RLS fleiri tilkynningar frá Glitni banka hf. um meintar grunsamlegar peningafærslur milli sömu aðila. Þá barst efnahagsbrotadeild RLS ábending í lok maí 2008 frá einstaklingi, sem óskaði nafnleyndar, þess efnis að stefnandi væri ítrekað að slá um sig meðal samstarfsmanna sinna hjá Orkuveitu Reykjavíkur með peningaumsvifum, þrátt fyrir að vera ekki í hálaunastöðu. Stefnandi hefði meðal annars greint frá því að félagi hans, sem starfaði sem verðbréfamiðlari, hefði aðgang að sjóðum og notaði kennitölu stefnanda til að færa peninga milli reikninga og hirða vextina. Þá hefði stefnandi nýlega keypt sér einbýlishús í Garðabæ, hann æki um á Lexus jeppa og hefði nýlega keypt sér Audi Q7 jeppa. Athugun efnahagsbrotadeildar RLS leiddi í ljós að stefnandi hafði 1. febrúar 2008 flutt lögheimili sitt að Bæjargili 94 í Garðabæ og að framangreindur B hefði búið þar áður. Þá leiddi athugunin í ljós að stefnandi hefði 7. apríl 2008 verið skráður umráðamaður bifreiðarinnar OH-688 af gerðinni Lexus en fyrri umráðamaður þeirrar bifreiðar hefði verið B. Þá leiddi athugun efnahagsbrotadeildar RLS í ljós að samkvæmt fyrirliggjandi bankagögnum hefði A hf. greitt tíu sinnum inn á bankareikninga stefnanda, tímabilið 13. desember 2007 til og með 20. maí 2008, samtals 173.997.522 krónur. Af gögnunum mátti sjá að stefnandi hafði millifært háar fjárhæðir yfir á aðra bankareikninga m. a. í eigu B og bróður hans, C. Þá virtust einnig hafa átt sér stað peningafærslur frá félaginu D ehf. inn á bankareikning stefnanda en félagið D ehf. hafði verið stofnað 14. apríl 2008 af þeim B, C og stefnanda en skráður framkvæmdastjóri félagsins var C. Hinn 17. september 2008 krafðist RLS þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að Kaupþing banka hf., Landsbankanum hf. og Glitni hf. yrði gert að láta RLS í té upplýsingar um færslur og stöðu og ljósrit af öllum gögnum er vörðuðu tilgreinda bankareikninga á nafni stefnanda, B og C. Þá var þess jafnframt krafist að bönkunum yrði gert að láta RLS í té upplýsingar um hvort D ehf. og eða A hf. ættu reikninga í bönkunum og ef svo væri að veita RLS upplýsingar um færslur og stöðu á reikningunum og ljósrit af öllum gögnum er þá vörðuðu. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðnirnar með úrskurðum uppkveðnum sama dag. Við athugun á framangreindum gögnum og upplýsingum kom í ljós að tímabilið 5. október 2007 til 29. apríl 2008 höfðu verið færðar af reikningum A hf. inn á bankareikninga stefnanda samtals 177.497.522 krónur en tímabilið 5. október 2007 til 12. september 2008 samtals 249.191.361 krónur. Þá kom einnig í ljós að stefnandi hafði á sama tíma ráðstafað verulegum hluta þessara fjárhæða inn á bankareikning á nafni B. Talsverð fjárhæð hafði verið millifærð inn á reikning á nafni C og háar fjárhæðir inn á reikninga D ehf. Frá því félagi höfðu greiðslur verið færðar inn á reikninga í nafni þeirra allra. 12. nóvember fór RLS þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að leit yrði heimiluð á heimilum stefnanda, B og C, í því skyni að handtaka þá. Þá var þess farið á leit s.d. að heimiluð yrði húsleit hjá A hf. í því skyni að leggja hald á möguleg sönnunargögn. Héraðsdómur féllst á beiðnirnar með fjórum úrskurðum uppkveðnum 13. nóvember 2008. Stefnandi var handtekinn við heimili sitt að morgni 21. nóvember og færður til yfirheyrslu á skrifstofu RLS. C var handtekinn sama dag og færður til yfirheyrslu. Þá var einnig gerð húsleit í húsakynnum A hf. að [...] og hald lagt á möguleg sönnunargögn. Til stóð að handtaka B á sama tíma en hann reyndist staddur erlendis. Hann var síðar handtekinn, 23. nóvember, og færður til yfirheyrslu.
Yfirheyrsla yfir C fór fram 21. nóvember. Honum var kynnt að tilefni yfirheyrslunnar byggði á peningaþvættistilkynningu sem efnahgsbrotadeild hefði borist um grunsamlegar peningafærslur milli nafngreindra aðila og hafi verið ákveðið að hefja opinbera rannsókn á grundvelli hennar. Væri hann einn þeirra aðila sem tengdust umræddum peningafærslum. Ætluð sakarefni þættu kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti. Ennfremur gætu ætluð brot falið í sér refsiverða háttsemi er varðað gæti við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga. Aðspurður kvaðst C skilja tilefni yfirheyrslunnar og kvaðst hann vera algerlega saklaus af öllu því er sneri að peningaþvætti. Hann kvaðst starfa sem framkvæmdastjóri hjá E og vera viðskiptafræðingur að mennt. Félagið D ehf. hefði verið stofnað utan um fjárfestingar og stöðutöku og varnir í gjaldeyri. Hvatinn hjá stofnendum hefði verið að verja eigin erlend lán og því hafi þeir tekið stöðu gegn krónunni. Ef vel gengi hefði ætlunin verið að nýta hagnaðinn til fjárfestinga. Félagið, sem verið hafi í sinni eigu, bróður síns B og stefnanda hafi fyrst og fremst verið í gjaldeyrisviðskiptum. Hann kvað félagið hafa keypt hlut stefnanda í félaginu 12. september 2008 og hann þar með horfið úr því og nafni þess í framhaldinu breytt í F ehf. Það félag ætti nú félagið D1 ehf. sem að öllu leyti hefði verið í eigu D ehf. Gögn um millifærslu af reikningum A hf. inn á reikninga stefnanda, B og D ehf., tímabilið 5. október 2007 til og með 12. september 2008, voru borin undir C. Gögnin sýndu að lagt hafði verið inn á reikningana í 23 tilvikum, samtals 453.946.000 krónur. Þá sýndu gögnin að hluti fjárhæðarinnar hafði verið millifærður af þessum reikningum inn á persónulega reikninga C. C kvaðst engar skýringar kunna á tilvikum 1-10. Varðandi tilvik 11, þar sem A hf. millifærði, 28. apríl 2008, 30.000.000 króna inn á reikning stefnanda, sem sama dag millifærði 11.000.000 króna inn á reikning C, kvað hann fjárhæðina vera sinn hlut í gjaldeyrissamningi, sem tekinn hefði verið á kennitölu stefnanda. Varðandi millifærslu sama dag af reikningi stefnanda inn á reikning D efh., að fjárhæð 22.000.000 króna, taldi hann líklegt að um hefði verið að ræða framlag tveggja hluthafa í D ehf. til félagsins á sama hátt og hann hefði fengið 11.000.000 króna, sem hann hafði lagt í félagið. Hluthafarnir hefðu hver um sig lagt 11.000.000 króna inn í félagið, fyrir utan stofnfé. Það fé hefði farið inn á reikning hjá A hf., sem trygging í viðskiptum. Varðandi tilvik 12 þar sem A hf. hefði 29. apríl 2008 lagt 59.166.667 krónur inn á reikning stefnanda, sem samdægurs hefði ráðstafað 56.666.667 krónum inn á reikning B, sem síðan hefði millifært 54.166.667 krónur inn á reikning verslunar Einars Þorgilssonar, kvað hann D ehf. hafa keypt hlut í A hf. af þessu félagi og ætti einnig að vera til færsla inn á það félag frá D ehf. upp á um 10.800.000 krónur. C taldi að tilvik 13, þar sem A hf. hafi 29. apríl greitt inn á reikning D ehf. 10.833.333 krónur, væri greiðsla vegna kaupa á framangreindri verslun. Varðandi tilvik 14 þar sem A hf. legði, 20. maí, 9.000.000 króna inn á reikning stefnanda, sem sama dag hefði millifært 4.500.000 krónur inn á bankareikning B, sagðist hann ekkert um það vita né sjá tengingu við viðskipti D ehf. Varðandi tilvik 15 þar sem A hf. hefði, 2. júní, greitt inn á reikning D ehf. 15.000.000 króna, sem samdægurs hefði millifært fjárhæðina til þeirra þriggja með 5.000.000 króna inn reikning hvers um sig, kvað hann um að ræða gróða af gjaldeyrisviðskiptum og hefði greiðslu til þeirra verið tvískipt. Annars vegar hefði verið um að ræða eftirstöðvar af 11.000.000 króna framlagi og hins vegar arðgreiðslu. Varðandi tilvik 16 þar sem A hf. hefði lagt 50.000.0000 króna inn á reikning D ehf., sagði hann að um hefði verið að ræða tryggingar sem nauðsynlegar hefðu verið til að geta verið í viðskiptum við Kaupþing og hefðu í kjölfarið verið gerðir gjaldeyrisskiptasamningar við Kaupþing. Varðandi tilvik 17 þar sem A hf. hafi, 4. júlí, lagt 27.000.000 króna inn á reikning D ehf., sem félagið hafi millifært samdægurs til þeirra þriggja með 9.000.000 króna inn á reikning hvers um sig, kvað hann um að ræða arðgreiðslu frá D ehf. Varðandi tilvik 18 þar sem A hf. hefði, 8. ágúst, lagt 20.000.000 króna inn á reikning D ehf. og félagið millifært, 11. ágúst, 10.000.000 króna með 5.000.000 króna inn á reikninga þeirra bræðra, hvors um sig, sagði hann að um arðgreiðslur hefði verið að ræða og hið sama gilti um millifærslur frá D ehf. á 14.000.000 króna, 5. september, með 7.000.000 króna inn á reikninga þeirra bræðra, hvors um sig. Hið sama gilti um millifærslu 7. september á 6.000.000 króna með 3.000.000 króna inn á reikninga þeirra bræðra, hvors um sig. Aðspurður hvers vegna stefnandi hefði ekki fengið arðgreiðslu líka sagðist hann telja að hann hefði verið farinn úr félaginu á þessum tíma. Hann hefði ekki verið tilbúinn til að taka jafn mikla áhættu og félagið hefði verið að taka og hafi stefnandi fengið greiddar 63 - 64 milljónir fyrir sinn hlut. Varðandi tilvik 19 þar sem A hf. hafi lagt 20.000.000 króna inn á reikning D ehf. 12. september kvað hann að um hefði verið að ræða millifærslu milli reikninga í eigu D ehf. Varðandi tilvik 20-23 þar sem D ehf. hafi millifært, 12. september 2008, í fjórum færslum, samtals 62.693.839 krónur, inn á reikning stefnanda, svaraði hann því til að um greiðslur til stefnanda hefði verið að ræða fyrir hlut hans í D ehf. Kvað hann hvorki félagið né sig sjálfan hafi verið að greiða Matthíasi fé eftir 12. september 2008. Kvaðst hann tilbúinn að afhenda lögreglu allt bókhald einkahlutafélaganna D ehf., E ehf. og E1 ehf. Í framhaldi af afhendingu framangreindra gagna var handtöku C aflétt. Eins og áður er rakið var stefnandi handtekinn að morgni 21. nóvember og færður til yfirheyrslu á skrifstofu RLS. Við upphaf skýrslutökunnar var honum var kynnt að tilefni hennar byggði á peningaþvættistilkynningu sem efnahgsbrotadeild RLS hefði borist um grunsamlegar peningafærslur milli nafngreindra aðila og hefði verið ákveðið að hefja opinbera rannnsókn á grundvelli hennar. Væri hann einn þeirra aðila sem tengdust umræddum peningafærslum. Ætluð sakarefni þættu kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti. Ennfremur kynnu ætluð brot að fela í sér refsiverða háttsemi er þætti kunna að varða við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga nr. 19/1940. Þá var stefnanda við upphaf skýrslutökunnar kunngert að hann nyti réttarstöðu sakbornings við yfirheyrsluna. Aðspurður um afstöðu til sakarefnisins kvaðst hann ekki kannast við að hafa framið auðgunarbrot né að stunda peningaþvætti. Hann kvaðst vera í viðskiptum við A hf. og Kaupþing banka hf. og í þeim hefði hann ýmist hagnast eða tapað. Um hafi verið að ræða bæði hlutabréfa- og gjaldeyrisviðskipti. Aðspurður um einkahlutafélagið D ehf. kvaðst hann hafa stofnað það ásamt B og C, vorið 2008, til að halda utan um fjárfestingar þeirra, en gengið úr félaginu í september eða október þar sem B og C hefðu ætlað að fara í miklar áhættur í viðskiptum, sem hann hefði ekki verið tilbúinn að taka þátt í. Kvað hann vörslureikning D ehf. hafa verið í Kaupþingi banka hf. og félagið hafa greitt honum 62.000.000 króna sama dag og hann hafi gengið úr félaginu. Kvaðst hann hafa lagt félaginu til 11.000.000 króna við stofnun þess en það hafi verið fjármunir sem hann hafi hagnast um, í verðbréfa- og gjaldeyrisviðskiptum, áður en félagið hafi verið stofnað. Hann kvað þá B vera æskuvini en hann hefði hins vegar haft lítil tengsl við C fyrir stofnun E ehf. og hafi samskipti þeirra eftir stofnun félagsins verið lítil. Stefnandi kvaðst telja að félagið hefði verið bæði í gjaldeyris- og verðbréfaviðskiptum en sjálfur kvaðst hann ekki hafa verið í viðskiptunum og vita nánast ekkert um þau. Að því er hann best vissi hafi það verið B og aðrir fagaðilar hjá A hf. sem hafi séð um viðskipti fyrir félagið. Hann kvaðst fyrir stofnun D ehf. hafa, frá því um mitt ár 2007, verið í viðskiptum við A hf.. Hann hefði í upphafi lagt fram milli 8 og 9 milljónir, sem hann hefði fengið í milligjöf við sölu á íbúð sinni í Kópavogi, ásamt um 2 milljónum, sem hann hefði fengið sem yfirdráttarlán. Aðspurður sagði hann að starfsmenn eignastýringardeildar A hf., þeir B, F og G, hefðu séð um viðskipti hans hjá A hf. Hann kvaðst aðspurður ekki vita hversu mikla fjármuni A hf. hefði lagt inn á reikninga hans en þeir fjármunir, sem hann hefði fengið inn á reikninga sína, hefðu verið hagnaður af viðskiptum hans við A hf. Þessir fjármunir hefðu síðan verið notaðir í einkaneyslu. Aðspurður kvaðst hann telja að hann hefði hagnast um einhverja tugi milljóna en væri ekki viss um hvað nákvæmlega hefði verið lagt inn á reikninga hans. Honum var þá kynnt að á tímabilinu 5. október 2007 til og með 12. september 2008 hefði A hf. lagt inn á reikninga hans í 16 tilvikum samtals 249.191.361 krónu. Borin voru undir stefnanda gögn vegna millifærslna af reikningum A hf. inn á reikninga hans, B og D ehf., á tímabilinu 5. október 2007 til og með 12. september 2008. Á greindu tímabili hefði verið lagt inn á reikningana í 23 tilvikum samtals 453.946.000 krónur. Aðspurður kvað stefnandi millifærslur af reikningi A hf. inn á reikning hans í tilvikum 1-5, 7-12 og 14, á tímabilinu 5. október 2007 til 29. apríl 2008, vera vegna hagnaðar af viðskiptum hans við A hf. Varðandi tilvik 2, þar sem A hf. leggur, 13. desember 2007, 5.500.000 krónur inn á reikning hans og hann millifærir samdægurs inn á einkareikning B, kvaðst hann telja að um gæti verið að ræða greiðslu fyrir bifreið, sem hann hefði keypt af B. Hann hefði keypt tvær bifreiðar af honum ásamt íbúðarhúsi að [...]. Sagði hann að ef hann hefði lagt inn á reikning B væri það vegna bifreiða- eða íbúðarkaupa eða ráðgjafa- og þóknunarkostnaðar. Stefnandi gaf sömu skýringu vegna tilviks 3 en þar var um að ræða millifærslu til B á 1.500.000 krónum, sama dag og A hf. greiddi inn á reikning stefnanda 3.000.000 króna. Varðandi tilvik 4, þ.e. innborgun frá A hf. 17. janúar að fjárhæð 6.000.000 króna og millifærslu sama dag á 5.000.000 króna inn á reikning A, kvað hann um að ræða viðgerðarkostnað vegna hússins, sem B hefði verið búinn að leggja í. Kvaðst hann hafa keypt húsið á 61.900.000 krónur. Hvað tilvik 5 varðaði, þar sem A hf. greiddi, 29. janúar, 22.830.855 krónur inn á reikning hans og hann millifærði samdægurs aftur inn á bankareikning A hf., kvað hann um að ræða greiðslu vegna kaupa á umræddri fasteign og kvaðst telja að fjárhæðin hefði endað á reikningi B. Kvað hann starfsmann A hafa séð um kaupsamninginn á húsinu. Hann hafi fjármagnað kaupin með 40.000.000 króna lífeyrissjóðsláni og það sem á hafi vantað eða 22.830.855 krónur hefði hann fengið af reikningi sínum hjá A hf. Varðandi tilvik 6 þar sem A hf. hafi, 6. febrúar, lagt 61.921.306 krónur inn á reikning A, taldi hann líklegt að um hefði verið að ræða greiðslu til B vegna framangreindra fasteignaviðskipta. Varðandi tilvik 7 þar sem A hf. hafi 7. febrúar greitt 12.000.000 króna inn á reikning hans og hann millifært daginn eftir á B 6.000.000 króna, kvaðst hann hafa verið að greiða B vegna bifreiðakaupa. Tilvik 8 þar sem A hf. greiddi, 25. febrúar, 10.000.000 króna inn á reikning hans og hann millifærði daginn eftir á reikning B 6.000.000 króna skýrði hann sem greiðslu þóknunar. Hann hefði hagnast talsvert af viðskiptum við A hf. og ekki gert athugasemdir við þessar greiðslur. Varðandi tilvik 9 þar sem A hf. greiddi, 1. apríl, 8.000.000 króna inn á reikning hans og hann millifærði daginn eftir sömu fjárhæð inn á reikning B, taldi hann hugsanlega um að ræða greiðslu vegna bifreiðakaupa. Varðandi tilvik 10 þar sem A hf. greiddi, 17. apríl, inn á reikning hans 16.500.000 krónur og hann millifærði inn á reikning A, 21. apríl, 1.000.000 króna kvað hann þetta hafa verið gert að beiðni A hf. Varðandi tilvik 11 þar sem A hf. hafi, 28. apríl, lagt 30.000.000 króna inn á reikning hans og hann sama dag millifært 5.000.000 króna inn á reikning B, 11.000.000 króna inn á reikning C og 22.000.000 króna inn á reikning D ehf., kvað hann greiðslu til B hafa verið gerða að beiðni B en greiðsla inn á reikning C og D ehf. hafi verið stofnkostnaður vegna D ehf. Aðspurður kvaðst hann hafa greitt stofnfé fyrir sig, C og B. Hann hafi hagnast verulega á viðskiptum við B og A hf. og því ekki séð neitt athugavert við það. Varðandi tilvik 12 þar sem A hf. lagði, 29. apríl, 59.166.667 krónur inn á reikning hans og hann millifærir í kjölfarið inn á reikning B 56.666.667 krónur kvað hann að um gæti verið að ræða greiðslu vegna kaupa hans sjálfs á 5-6% hlut í A hf. og hafi B og A hf. séð um viðskiptin vegna þessara kaupa. Varðandi tilvik 13 þar sem A hf. hafi lagt 10.833.333 krónur inn á reikning D ehf., kvað hann viðskipti sín og þeirra, sem staðið hafi að félaginu, hafa færst á nafn D ehf. Varðandi tilvik 14 þar sem A hf. hafi lagt inn á reikning stefnanda, 20. maí, 9.000.000 króna og hann millifært í kjölfarið 4.500.000 krónur á reikning B, kvað hann greiðsluna til B annað hvort hafa tengst D ehf. eða hafa verið þóknun vegna ráðgjafarstarfa hjá A hf. Varðandi tilvik 15 og 17, þar sem D ehf. hafi, 2. júní, millifært jafnt inn á reikninga þeirra þriggja samtals 15.000.000 króna og 4. júlí samtals 27.000.000 króna, kvað stefnandi að um arðgreiðslur hefði verið að ræða. Samkomulag hefði verið um það þeirra í milli að ef einhvern þeirra vantaði pening, skyldi greitt út jafnt til allra. Varðandi tilvik 16, þar sem A hf. hafi, 18. júní, lagt 50.000.000 króna inn á reikning D ehf., kvað hann félagið hafa verið í viðskiptum við A hf. og þetta verið fjármunir sem verið hafi á reikningum A hf. Varðandi tilvik 18, þar sem lagðar hafi verið inn á reikning D ehf., 8. ágúst, 20.000.000 króna og millifært inn á reikninga B og C, 11. ágúst, 5. september og 7. september, samtals 30.000.000 króna kvaðst hann hissa á að honum hefði ekki líka verið greitt út og ekki reka minni til þess að rætt hefði verið um greiðslur einungis til B og C. Varðandi tilvik 19 þar sem A hf. hafi, 12. september, lagt 20.000.000 króna inn á reikning D ehf., kvað hann umrædda fjárhæð vera hagnað af samningi. Varðandi tilvik 20 til 23, þar sem D ehf. hafi, 12.september, greitt inn á reikning stefnanda, með fjórum greiðslum samtals 62.693.839 krónur, svaraði hann því til að um hefði verið að ræða greiðslu fyrir hlut sinn í D ehf., þegar hann hefði gengið úr félaginu. Stefnanda var kynnt að grunur lögreglu beindist að því að fjármunum, sem lagðir hefðu verið inn á reikninga hans, hefði verið aflað með ólögmætum hætti og hann gerst sekur um peningaþvætti. Kvaðst hann hafa lagt traust sitt á B og A hf. og ekkert hafa að fela. Hann var spurður að því hvort honum hefði ekki þótt óeðlilegt að fá allan þann hagnað sem honum hefði áskotnast miðað við að hafa lagt fram 10-12 milljónir króna í upphafi og ekkert séð óeðlilegt við að endurgreiða inn á reikning B stóran hluta af þeim greiðslum sem til hans hafi borist frá A hf. Stefnandi svaraði því til að þar sem B og A hf. hefðu skilað honum jafn miklum hagnaði og raun ber vitni hefði hann ekki séð neitt óeðlilegt við að greiða inn á reikning B enda hefði hann treyst því að allt væri uppi á borði í þessum viðskiptum öllum. Aðspurður kvaðst hann heimila leit á heimili sínu og könnun símagagna. Hinn 21. nóvember 2009 krafðist RLS þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 7 daga eða til föstudagsins 28. nóvember kl. 16.00. Með úrskurði dómsins uppkveðnum s.d. var fallist á kröfuna. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar en eins og síðar greinir var gæsluvarðhaldi yfir stefnanda aflétt 25. nóvember kl. 16:00. Hinn 23. nóvember var B handtekinn við komu til landsins og færður til yfirheyrslu á skrifstofu RLS. B var kynnt að tilefni yfirheyrslunnar byggði á peningaþvættistilkynningu, sem efnahagsbrotadeild RLS hefði borist um grunsamlegar peningafærslur milli nafngreindra aðila og hefði verið ákveðið að hefja opinbera rannsókn á grundvelli hennar. Væri hann einn þeirra aðila sem tengdust umræddum greiðslum. Ætluð sakarefni þættu kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti. Ennfremur kynnu ætluð brot að fela í sér refsiverða háttsemi, er þættu kunna að varða við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga. Aðspurður kvaðst B skilja tilefni yfirheyrslunnar. Hann kannaðist við peningafærslur á milli sín, stefnanda og D ehf. B kvað sig og stefnanda hafa verið vini frá því þeir hafi verið unglingar. Stefnandi hefði verið illa að sér um fjármál og leitað til sín með allt sem snúið hafði að fjármálum. Stefnandi hefði efnast á fasteignakaupum, með sinni aðstoð, á árinu 2007 og notað hagnaðinn sem stofnfé til fjárfestinga. Stefnandi hefði byrjað í viðskiptum við A hf., þar sem B hefði unnið, síðla árs 2007. Þannig hafi hann unnið fyrir stefnanda, sem hafi byrjað að efnast á gjaldeyrisviðskiptum. Á innan við ári hafi 15 milljónir króna hjá stefnanda orðið að 200-300 milljónum króna. Hann hafi raunar aldrei séð eins mikla ávöxtun hjá nokkrum af sínum viðskiptavinum. Í mars eða apríl hafi umfangið verið orðið það mikið að stefnandi hefði viljað kanna möguleika á að stofna félag um þessar fjárfestingar og niðurstaðan orðið sú að stefnandi, hann sjálfur og bróðir hans, C, hefðu stofnað D ehf., með jöfnum hlut þeirra þriggja. Hann kvað starf sitt hjá A hf. felast í að miðla viðskiptum, gjaldeyrisviðskiptum, verðbréfaviðskiptum og skuldabréfaviðskiptum. Hann væri í samskiptum við viðskiptamenn A hf. og sæi um viðskipti fyrir þeirra hönd. Hann kvaðst persónulega hafa hagnast á viðskiptum í gegnum D ehf., líklegast um eða yfir 100 milljónir króna. Hinn 12. september 2008 hafi stefnandi ekki viljað halda áfram þessum fjárfestingum og þeir bræður keypt hann út úr félaginu. B var kynnt að á tímabilinu 5. október 2007 til 20. maí 2008 hefði í 12 tilvikum verið lagt inn á reikninga stefnanda, af reikningum A hf., samtals 186.497.522 krónur auk þess sem millifært hefði verið af bankareikningi D ehf. 62.693.893 krónur eða samtals 249.191.361 króna. Gögn varðandi millifærslu A inn á reikninga stefnanda, B og D ehf. tímabilið 5. október 2007 til 12. september 2008 voru borin undir B en lagt hafði verið inn á reikningana í 23 tilvikum samtals 453.946.000 krónur. Varðandi tilvik 1 þar sem lagðar höfðu verið 4.500.000 krónur inn á bankareikning stefnanda, 5. október 2007, kvað hann stefnanda hafa verið að taka út hagnað. Varðandi tilvik 2, þar sem lagðar höfðu verið, 13. desember 2007, 5.500.000 krónur inn á reikning stefnanda, sem samdægurs hafði millifært fjárhæðina inn á reikning B, tók hann fram að hann hefði selt stefnanda tvær bifreiðar og hús að Bæjargili 94 og tengt þeim viðskiptum hefði stefnandi keypt af honum innréttingar ásamt því að B hefði tekið að sér endurbætur á sólskála. Taldi hann að með greiðslu til sín hefði stefnandi verið að greiða fyrir annan bílinn, húsið eða innbú. Allt lausafé stefnanda hefði verið inn á reikningum hjá A hf. og í þeim tilvikum sem stefnandi hefði verið að greiða B eða eftir atvikum að lána honum fjármuni, hefði stefnandi þurft að taka af reikningum sínum hjá A hf. Varðandi tilvik 3, þar sem lagðar hafi verið inn á reikning stefnanda 3.000.000 króna 10. janúar 2010 og samdægurs millifærðar 1.500.000 krónur svaraði hann því til að um hefði verið að ræða greiðslu til sín fyrir sérsmíðaða innréttingu. Varðandi tilvik 4 þar sem lagðar hafi verið inn á reikning stefnanda, 17. janúar 2008, 6.000.000 króna en samdægurs millifærðar 5.000.000 króna til B taldi hann að millifærsla til hans skýrðist sem hluti kaupverðs vegna [...]. Fasteignaviðskipti þeirra hafi farið fram í gegnum A hf. Varðandi tilvik 5, þar sem lagðar hafi verið 22.830.855 krónur, hinn 29. janúar 2008, inn á reikning stefnanda, sem samdægurs hafi millifært þá fjárhæð inn á annan reikning A hf., kvað hann þessa greiðslu skýrast af greiðslu vegna [...] og þar sem A hf. hefði séð um fasteignaviðskiptin hefði það verið gert með þessum hætti. Varðandi tilvik 6, þar sem millifærðar hefðu verið frá A hf., 6. febrúar, inn á reikning B samtals 61.921.306 krónur, kvað hann um að ræða greiðslu kaupverðs fyrir [...]. Varðandi tilvik 7 þar sem A hf. hefði, 7. febrúar, lagt 12.000.000 króna inn á reikning stefnanda, sem daginn eftir hefði millifært inn á reikning B 6.000.000 króna, kvaðst hann ekki muna hvaða greiðslu hann hafi verið að fá frá stefnanda. Líklegast hefði stefnandi eitthvað verið að hjálpa honum. Varðandi tilvik 8, þar sem A hf. hafi, 25. febrúar, lagt 10.000.000 króna inn á reikning stefnanda, sem daginn eftir hafi millifært 6.000.000 króna inn á reikning B, kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir þessari greiðslu frá stefnanda og ekki geta skýrt hana nánar en ítrekaði að mikill fjárhagslegur samgangur hefði verið milli þeirra. Varðandi tilvik 9 þar sem A hf. hafi, 1. apríl, lagt 8.000.000 króna inn á reikning stefnanda, sem millifært hafi sömu fjárhæð daginn eftir inn á reikning B, kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir þessari millifærslu en neitaði því aðspurður að þessi aðferð, við að færa fjármuni milli hans og stefnanda, hefði verið til þess notuð að reyna að fela slóð fjármunanna. Varðandi tilvik 10 þar sem A hf. hafi, 17. apríl, lagt 16.500.000 krónur inn á reikning stefnanda og stefnandi millifært, 21. apríl, 1.000.000 krona inn á reikning B, kvaðst hann minnast þess að stefnandi hefði lánað honum eina milljón og teldi hann greiðsluna tengjast því láni. Varðandi tilvik 11, þar sem A hf. hefði lagt 30.000.000 króna inn á reikning stefnanda, 28. apríl, sem sama dag hafi lagt 11.000.000 króna inn á reikning C og 22.000.000 króna inn á reikning D ehf., taldi hann að þær greiðslur gætu tengst stofnun þess félags. Hann kvaðst ekki átta sig á innborgun frá stefnanda þann sama dag inn á reikning hans sjálfs að fjárhæð 5.000.000 króna né geta tjáð sig frekar um þá greiðslu til sín. Varðandi tilvik 12, þar sem A hf. hafi, 29. apríl, lagt 59.166.667 króna inn á reikning stefnanda, sem sama dag hafi millifært 56.666.667 krónur inn á reikning B, sem aftur hafi millifært inn á reikning Verslunar Einars Þorgilssonar, 54.166.667 krónur, kvað hann þetta tengjast kaupum á 6% eignarhlut í A hf. og hafi verið greiðsla á 5% eignarhlut, sem hann sjálfur og stefnandi hafi átt að vera skráðir fyrir. Varðandi tilvik 13 þar sem A hf. hafi, 29. apríl, greitt 10.833.333 inn á reikning D ehf., kvað hann það tengjast kaupum þess félags á 1% eignarhlut í A hf.. Varðandi tilvik 14 þar sem A hf. hafi, 20. maí, lagt 9.000.000 króna inn á reikning stefnanda, sem sama dag hafi millifært inn á reikning B 4.500.000 króna, kvaðst hann ekki muna skýringu á þessari millifærslu til sín. Varðandi tilvik 15, þar sem A hf. hafi lagt inn á bankareikning D ehf. 15.000.000 króna, sem sama dag hafi millifært sömu fjárhæð, með þremur greiðslum hveri að fjárhæð 5.000.000 króna, inn á bankareikninga í eigu stefnanda, B og C, kvað hann um að ræða arðgreiðslur til þeirra þriggja. Varðandi tilvik 16 þar sem A hf. hafi, 18. júní, lagt 50.000.000 króna inn á bankareikning D ehf., taldi hann að verið væri að taka út uppsafnaðan hagnað af fjárfestingum D ehf. Varðandi tilvik 17, þar sem A hf. hafi, 4. júlí, lagt 27.000.000 króna inn á reikning D ehf., sem millifært hafi sama dag sömu fjárhæð með þremur greiðslum, hverri að fjárhæð 9.000.000 króna inn á bankareikninga þeirra þriggja, kvað hann um að ræða arðgreiðslur til þeirra þriggja. Varðandi tilvik 18, þar sem A hf. lagði, 8. ágúst, 20.000.000 króna inn á reikning D ehf., taldi hann greiðsluna tengjast því að verið væri að taka út uppsafnaðan hagnað. Í kjölfarið hafi komið í þrígang millifærslur frá D ehf., eingöngu inn á reikninga B og C, samtals að fjárhæð 30.000.000 króna, 8. ágúst 5.000.000 króna til hvors um sig, 5. september 7.000.000 króna til hvors um sig og 7. september 3.000.000 króna. Kvaðst hann í öllum tilvikum telja að um arðgreiðslur til þeirra væri að ræða en kunna enga skýringu á, hvers vegna engin arðgreiðsla hafi runnið til stefnanda í umrædd skipti. Varðandi tilvik 19, þar sem A hf. hafi lagt inn á reikning D ehf., 12. september, 20.000.000 króna, taldi hann að um hefði verið að ræða greiðslu á uppsöfnuðum hagnaði. B var spurður um fjórar millifærslur 12. september af reikningi D ehf. inn á reikning stefnanda, samtals að fjárhæð 62.693.839 krónur, sbr. tilvik nr. 20-23. Hann kvaðst telja að þessar greiðslur til stefnanda tengdust uppgjöri í kjölfar þess að stefnandi hefði gengið úr félaginu og verið keyptur út úr því. B var kynnt að stefnandi hefði í framburði sínum 21. nóvember greint frá því að greiðslur frá honum til B hefðu annars vegar verið þóknunargreiðslur og hins vegar ráðgjafargreiðslur til B í tengslum við fjárfestingar B fyrir stefnanda. B kvað þetta vera rangtúlkun. Kvað hann stefnanda lítið vita um fjármál og hafi hann, B, séð um öll fjármál hans. Hann ítrekaði að hann og stefnandi ættu eftir að gera fjárhagslegt uppgjör sín í milli vegna ársins 2008 og kvaðst hann ekki ætla að gera neinar kröfur um greiðslur vegna ráðgjafar. Stefnandi hefði greitt fyrir alla ráðgjöf til A hf. og engar frekari greiðslur vegna ráðgjafar myndu eiga sér stað. Þá þyrfti hann frekari gögn til að skýra allar þær millifærslur sem farið hefði verið yfir við yfirheyrsluna. Engin markaðsmisnotkun hefði átt sér stað né peningaþvætti. Um væri að ræða ráðstöfun á eðlilega fengnum hagnaði, fyrst og fremst af gjaldeyrisviðskiptum. Jafnframt hefði full vitneskja verið um þennan ráðahag innan A hf. og allir upplýstir um stöðu mála. Enginn viðskiptavinur hefði orðið fyrir fjárhagstjóni vegna þessara viðskipta. Í lok skýrslutökunnar kvaðst verjandi B telja á skorta að B væri upplýstur um hvaða auðgunarbrot um væri að ræða, þ.e. í hverju brot hans væru talin falin. Hinn 24. nóvember krafðist RLS gæsluvarðhalds yfir B, vegna gruns um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningalaga og peningaþvættis. Í kröfunni er m.a. rakið að skýrsla B hafi að nokkru leyti verið á aðra lund en stefnanda um ástæður þess að stór hluti þeirra fjármuna sem stefnandi hafi fengið frá A hf. hafi í kjölfarið verið færður inn á einkareikning B eða samtals 99.166.667 krónur. Stefnandi hafi talið greiðslurnar að stórum hluta vera vegna viðskiptaráðgjafar en B sagt svo ekki vera. Skýringar þeirra á að verulegir fjármunir hafi farið þeirra í milli vegna bifreiðakaupa væru ekki trúverðugar en samkvæmt athugun lögreglu hefði stefnandi yfirtekið bílasamning með því að yfirtaka lán. Grunur væri um að B hefði misnotað aðstöðu sína hjá A hf., til að eiga viðskipti fyrir hönd stefnanda, sem lítið virtist vera inni í þeim viðskiptum yfir höfuð. Grunaði lögreglu m.a. að B hefði á grundvelli þeirra upplýsinga, sem hann hefði haft um fjárfestingar A hf., komið því svo fyrir að stefnandi hefði átt sams konar viðskipti á undan A hf., svokallað „front running” og þannig hagnast á breyttu gengi þeirra. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi var sérstaklega áréttað að grunur beindist að broti gegn 249. gr. almennra hegningalaga. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember var kröfu um gæsluvarðhald yfir B synjað og hann látinn laus í kjölfarið. Stefnandi var færður til skýrslutöku hjá RLS 25. nóvember. Honum var við upphaf skýrslutökunnar kynnt að ætlað sakarefni þætti kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti, sbr. 264. gr. almennra hegningalaga, og ennfremur kynnu ætluð brot að fela í sér refsiverða háttsemi er þættu kunna að varða við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga nr. 19/1940. Aðspurður kvaðst stefnandi engu vilja breyta eða bæta við fyrri framburð. Honum var kynnt að á tímabilinu 5. október 2007 til 20. maí 2008 hefði A hf. lagt inn á bankareikninga hans í 12 tilvikum samtals 186.497.522 krónur og hann beðinn að útskýra hvernig viðskiptin við A hf. hefðu komið til. Hann kvaðst hafa farið í viðskipti við A hf., eftir að hafa ráðfært sig við B. Kvaðst hann hafa lagt allt sitt traust á starfsmenn A hf., sem tekið hefðu allar ákvarðanir varðandi hans mál, án þess að ráðfæra sig við hann áður. Hann kvaðst að mestu hafa verið í samskiptum við B. Hann sagði að millifærslur inn á bankareikninga hans hefðu verið samkvæmt hans ósk. Stefnandi var beðinn að skýra nánar frá greiðslum inn á reikning B og hélt hann sig við fyrri skýringar um að þær væru til komnar vegna kaupa á íbúðarhúsi B, tveimur bílum og innanstokksmunum og vegna kaupa á 5-6% hlut í A hf. Hann hafi einnig talið sig vera að leggja fjármuni til áframhaldandi rekstrar og greiða þóknun og ráðgjafarkostnað. Hann sagði að ef hann hefði ætlað að innleysa hagnað hafi A hf. lagt inn á reikning hans og B síðan haft símasamband og óskað eftir að ákveðin fjárhæð væri lögð inn á reikning sem hann gaf upp og það hafi hann gert án þess að spá í hver ætti reikninginn eða fyrir hvað hann hafi verið að greiða. Aðspurður hvort hann skuldaði B peninga eða hvort B skuldaði honum kvaðst hann telja svo ekki vera. Í lok skýrslugjafarinnar gerði verjandi stefnanda athugasemdir við að ekki hefði verið upplýst um hvaða brot stefnandi væri grunaður um að hafa framið og taldi ámælisvert að vísa í kafla í almennum hegningarlögum án frekari tilgreiningar á lagagreinum. Stefnandi var látinn laus í lok yfirheyrslunnar. Með bréfi 17. desember 2008 fór skipaður verjandi stefnanda þess á leit við RLS að honum yrðu afhent endurrit af öllum skjölum er málið varðaði og væru í vörslum RLS. Jafnframt var þess krafist að afgreiðslu málsins yrði hraðað eins og unnt væri enda lægi skjólstæðingur hans undir grun um auðgunarbrot og/eða peningaþvætti, sem á engan hátt hefði verið gerð grein fyrir og því ljóst að skjólstæðingi hans væri mikið í mun að fá þau gögn er handtaka hans og gælsuvarðhald væru byggð á. Lögmaðurinn ítrekaði beiðni sína um afhendingu gagna með tölvubréfi 6. janúar 2009. Þá gerði hann athugasemdir við þau vinnubrögð RLS að sakarefni hefði verið kynnt skjólstæðingi sínum sem grunur um auðgunarbrot og/eða peningaþvætti en auðgunarbrotakafli almennra hegningarlaga teldi 15. greinar. Þá var þess krafist að upplýst yrði, hvort skjólstæðingur hans lægi enn undir grun og hvort rannsókn á hendur honum væri enn til staðar eða hefði verið hætt. Með tölvubréfi 7. janúar 2009 ítrekaði lögmaðurinn þá kröfu sína að uppýst yrði um sakarefnið. Lögmaðurinn ritaði RLS enn bréf 30. janúar 2009, með vísan til bréfs síns frá 17. desember og eftirfarandi tölvubréfa. Í bréfinu eru gerðar alvarlegar athugasemdir við rannsókn málsins og vinnubrögð rannsakenda. Ítrekað hafi verið óskað eftir því að sakarefni yrði upplýst en án árangurs. Þá hafi framkvæmd rannsóknarinnar verið með ólíkindum harkaleg og ekkert komið fram sem réttlætti að handtaka hefði þurft skjólstæðing hans og fara fram á gæsluvarðhald yfir honum. Þá harkalegu framgöngu, er skjólstæðingi hans hefði verið sýnd við rannsókn málsins, mætti skrifa á reynslu- og þekkingarleysi rannsakenda og mætti benda á fjölmörg dæmi því til sönnunar. RLS leitaði eftir sérfræðiaðstoð hjá Fjármálaeftirlitinu við skýra þau gögn sem haldlögð höfðu verið hjá A hf. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til RLS, 23. mars 2009, kemur fram að farið hafi verið yfir tölvupósta, hljóðupptökur og MSN samtöl viðkomandi starfsmanns, ásamt því að kallað hafi verið eftir frekari gögnum um viðskiptin. Fjármálaeftirlitið hafi fengið Framverði Ráðgjöf ehf. til þess að veita sér sérfræðiaðstoð við greiningu þeirra gjaldeyrisviðskipta, sem átt hafi sér stað. Meðfylgjandi bréfi Fjármálaeftirlitsins voru álitsgerðir Framvarða Ráðgjöf ehf., dags. 11. febrúar og 10. mars, ásamt öðrum gögnum sem talin eru upp í lok bréfsins. Með hliðsjón af greiningu Framvarða Ráðgjöf ehf, sem tók til tímabilsins frá byrjun júní til loka ágúst 2008, taldi Fjármálaeftirlitið að 46 gjaldeyrisviðskipti D ehf. bæru skýr merki um að D ehf og D1 ehf. hefðu verið sett fram fyrir aðra viðskiptavini í röð viðskipta (e. front-running). Með slíku athæfi gæti starfsmaður fjármálafyrirtækis misnotað upplýsingar um fyrirhuguð viðskipti annarra, til þess að hagnast á þeim verðbreytingum sem þau viðskipti hefðu á gengi krónunnar. Þannig gæti hann keypt áður en krónan styrktist en selt áður en hún veiktist. Slíkt væri enn fremur líklegt til að valda öðrum viðskiptavinum tjóni, eða a.m.k. að draga úr mögulegum hagnaði þeirra. Erfitt væri hins vegar að meta fjárhæð slíks tjóns. Í bréfinu kemur fram að innleystur hagnaður D ehf. og D1 ehf., á tímabilinu júní til loka ágúst 2008, hefði numið rúmlega 142.000.000 króna en á sama tímabili hafi tveir lífeyrissjóðir, sem verið hafi í gjaldeyrisstýringu hjá A hf., tapað rúmlega 500.000.000 króna, þótt sami aðili hafi, að því er virtist, tekið viðskiptaákvarðanir í gjaldeyrisviðskiptum þessara aðila. Var það mat Fjármálaeftirlitsins að um væri að ræða ítrekuð auðgunarbrot skv. 249. alm. hgl. Í niðurlagi bréfs Fjármálaeftirlitsins er tekið fram að þrátt fyrir sterkar vísbendingar teldi Fjármálaeftirlitið rannsókn ekki enn lokið og enn þyrfi að afla frekari gagna í málinu. Í bréfinu voru talin upp þau atriði sem Fjármálaeftirlitið taldi að athuga þyrfti nánar. Hinn 20. maí 2009 krafðist RLS þess að úrskurðað yrði um skyldu Kaupþing banka hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. til afhendingar gagna og upplýsingagjafar, vegna tímabilsins frá 1. september 2007 til ársloka 2008. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðnina og var í kjölfarið kallað eftir gögnum frá bönkunum. Eftir að umbeðin gögn bárust var af hálfu lögreglu kallað eftir frekari gögnum frá A hf. Félagið taldi sér ekki fært að láta þau í té nema að undangengnum dómsúrskurði. Með bréfi til RLS, 6. júlí 2009, krafðist lögmaður stefnanda upplýsinga um stöðu rannóknarinnar á hendur stefnanda. Ítrekaði lögmaðurinn að áríðandi væri að rannsókninni á hendur skjólstæðingi sínum lyki nú þegar en rannsóknin hefði haft alvarlegar afleiðingar á hagi og líðan skjólstæðings síns. Famkvæmd rannsóknarinnar hefði verið með miklum ólíkindum. Skjólstæðingur hans hefði verið gerður ærulaus í fjölmiðlum ásamt því að honum hefði verið sagt upp störfum á vinnustað sínum, Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki yrði séð hvaða hugsanleg brot RLS væri með til rannsóknar og löngu tímabært að rannsóknin yrði felld niður.
Með bréfi til RLS, 19. október 2009, óskaði lögmaður stefnanda enn eftir upplýsingum um stöðu rannsóknarinnar á hendur skjólstæðingi sínum. Í bréfinu er enn ítrekað að ekki verði séð hvaða brot embættið sé með til rannnsóknar er varðað geti skjólstæðings hans. Ekki sé seinna vænna að RLS tilkynni um niðurfelllingu rannsóknarinnar. RLS svaraði framangreindu bréfi lögmanns stefnanda 17. nóvember 2009. Í bréfinu segir að stefnandi sé grunaður um peningaþvætti, sem sé brot gegn 264. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Lögregluskýrsla hafi verið tekin af stefnanda 21. nóvember og 25. nóvember 2008, að lögmanninum viðstöddum, og þá farið ítarlega yfir sakarefnið. Rannsókn málsins sé enn í fulllum gangi. Bréfinu fylgdi skýrsla Fjármálaeftirlitsins frá 23. mars 2009 ásamt álitsgerð Framvarða Ráðgjöf ehf. frá 10. mars og minnisblað þeirra frá 11. febrúar. Hinn 15. desember 2009 krafðist RLS þess að A hf. yrði með úrskurði gert skylt að láta RLS í té upplýsingar um aðila á bak við öll gjaldeyrisviðskipti A hf., á tímabilinu 1. september til 31. desember 2008, sem hefðu verið hjá Kaupþingi banka hf. og Sparisjóðabankanum hf. Jafnframt var þess krafist að A hf. yrði með úrskurði gert skylt að láta í té upplýsingar um önnur gögn og ljósrit af öllum gögnum er tengdust ofangreindum gjaldeyrisviðskiptum. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðnina með úrskurði 21. desember 2009. Með bréfi til RLS, 17. desember 2009, gerði B fjölmargar athugasemdir við framangreinda skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá 23. mars 2009 og skýrslur Framvarða Ráðgjöf frá 11. febrúar og 10. mars 2009. Í athugasemdum hans kemur m.a. fram að viðskiptaákvarðanir fyrir lífeyrissjóði, sem verið hafi í viðskiptum við A hf., hafi verið teknar í eignastýringu A hf., sem G hafi veitt forstöðu. Taldi B að skýrsla Fjármálaeftirlitsins og minnisblöð Framvarða Ráðgjöf ehf. gæfu alranga mynd af viðskiptum sínum í starfi hjá A hf. og að hlutlaus rannsókn á öllum gögnum myndi leiða í ljós að hann hefði ekki gerst brotlegur við lög. Í greinargerð lögmanns A hf., 24. febrúar 2010, kom m.a. fram að yfirmaður eignastýringar hjá A hf., B, hefði annast stýringu fyrir lífeyrissjóðina og endanlega ákvörðunartöku varðandi hana en ekki B. Hafi B séð um að halda tengslum við markaðinn og ráðleggja, þegar þess hafi verið farið á leit af G. Þeir hafi hist að morgni í byrjun vinnudags og farið yfir nýjustu fréttir og væntingar til framtíðar. Ef miklar hreyfingar hafi verið á gjaldeyrismarkaði, hafi fundunum fjölgað en á umræddu tímabili hafi verið miklar sveiflur á markaði. Yfirmaður eignastýringar hafi tekið ákvarðanir m.a. með hliðsjón af ráðgjöf B. Greinargerð A hf. fylgdi staðfesting framkvæmdastjóra tveggja lífeyrissjóða sem staðfestu þær upplýsingar er komu fram í greinargerðinni og vörðuðu umrædda lífeyrissjóði. Jafnframt kom fram í greinargerðinni að á grundvelli upplýsinga frá B hefðu samstarfsmenn hans ranglega talið að gjaldeyrisviðskipti væru undanskilin ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga og að mistök hefðu verið að heimila honum slík viðskipti fyrir eigið félag. Með bréfi, 12. apríl 2010, óskaði efnahagsbrotadeild RLS eftir því að Fjármálaeftirlitið lýsti afstöðu sinni til efnis framangreindra bréfa B og A hf. Með bréfi Fjármálaeftirlitsins, 9. júní 2010, ítrekaði Fjármálaeftirlitið það mat sitt að um væri að ræða meint brot gegn auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga en eftirlit með þeim félli ekki undir eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins og teldi eftirlitið því ekki eðlilegt að það tæki afstöðu til efnis bréfanna. Með bréfi RLS, 21. desember 2010, voru höfundar skýrslna Framvarða Ráðgjöf ehf. boðaðir á fund 28. desember og í framhaldi af því skiluðu þeir að ósk RLS skriflegum athugasemdum með bréfi dags. 31. janúar 2011. Með bréfi, 6. janúar 2011, tilkynnti RLS ríkissaksóknara að til athugunar væri að hætta rannsókn málsins þar sem meint brot væru ekki talin falla undir 249. gr. alm. hgl. Með bréfi, 13. febrúar 2011, tilkynnti RLS stefnanda að RLS hefði tekið þá ákvörðun með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að hætta rannsókninni á hendur stefnanda, þar sem ekki þætti tilefni til að halda henni áfram. Jafnframt var stefnanda tilkynnt að málið hefði verið sent Fjármálaeftirlitinu til yfirferðar og eftir atvikum frekari meðferðar með vísan til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Í bréfinu er rakið að ákvörðun um að hætta rannsókn málsins hjá efnahasgsbrotadeild RLS, hvað varðaði ætluð auðgunarbrot og peningaþvætti, byggði á þeim sjónarmiðum að lagaskilyrði 249. gr. alm. hgl. væru ekki talin vera fyrir hendi hvað varðaði háttsemi B. Var hann hvorki talinn hafa verið að skuldbinda A hf. né lífeyrissjóðina tvo, með því að fara út fyrir umboð sitt gagnvart þeim, er hann hefði stundað viðskipti fyrir eigin reikning og reikninga eigin félaga eða félaga tengdra honum. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að háttsemi sú, sem verið hafi til rannsóknar, félli undir lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Um væri að ræða gjaldeyrisþjónustu, sem væri liður í fjárfestingarþjónustu og væri í tengslum við eignastýringu, sbr. 1. gr. laganna. Brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti sættu því aðeins rannsókn lögreglu, að fyrir lægi kæra Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 148. gr. laganna. Ekki lægi fyrir kæra í málinu frá Fjármálaeftirlitinu vegna brota á lögunum. Með bréfi, 16. júní 2011, krafðist stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna meints fjártjóns og miska vegna handtöku og gæsluvarðhalds og þeirrar málsmeðferðar að öðru leyti, sem átt hefði sér stað frá því að stefnandi hefði verið handtekinn 21. nóvember þar til rannsóknin á hendur honum hafi verið felld niður 13. febrúar 2011. Stefndi hefur alfarið hafnað bótaskyldu gagnvart stefnanda.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir á því að miðað við málavexti hafi ekki verið tilefni til handtöku stefnanda 21. nóvember 2008, sbr. m.a. a.- og b.- lið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 19/1991. Virðist því sem ófullnægjandi rannsókn hafi átt sér stað hjá RLS sem leitt hafi til handtöku stefnanda og þess „klúðurs“ sem fylgt hafi í kjölfarið hjá RLS við að réttlæta handtökuna. Þá verði að telja að breyta hefði átt réttarstöðu stefnanda strax að loknum yfirheyrslum 21. nóvember 2008. Verði varla annað ráðið af málinu öllu en að þeir starfsmenn, sem komið hafi að rannsókn málsins, hafi brugðist þeirri lagaskyldu sinni að gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni og gæta þess að stefnanda yrði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt væri, eftir því sem á hafi staðið, sbr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hafi umræddir starfsmenn átt ítrekaða möguleika á því að koma málinu í lögmætan farveg, sem þeir hafi ekki nýtt, heldur þvert á móti virðist þeir ítrekað hafa reynt að finna nýja fleti á málinu til að réttlæta fyrri aðgerðir. Vart þurfi að taka fram að stefnandi og fjölskylda hans hafi gengið í gegnum miklar raunir vegna máls þessa og þeirra sakargifta sem á hann hafi verið bornar. Þá hafi umfjöllun fjölmiðla vegna málsins verið mikil og óvægin og stefnandi gerður ærulaus af fjölmiðlum. Telja verði ljóst að fjölmiðlum hafi greiðlega borist upplýsingar um málið frá lögreglu m.a. fullyrðingar þess efnis að alvarleg brot hefðu verið framin. Það hafi því skipt stefnanda miklu máli að réttarstöðu hans yrði breytt eins fljótt og kostur væri. Frá því að stefnandi hafi verið handtekinn og þar til rannsókn málsins virðist hafa verið hætt hafi liðið tvö ár og þrír mánuðir. Í því sambandi sé rétt að benda á að samkvæmt tilmælum ríkissaksóknara nr. 5/2009 skuli rannsókn efnahagsbrota lokið innan 2 ára nema sérstakar aðstæður komi í veg fyrir það þ.e. að mál teljist mjög umfangsmikið eða þegar afla þurfi gagna erlendis frá. Ekki verði séð að mál þetta geti talist mjög umfangsmikið, enda hafi það verið upplýst þegar við lok skýrslutöku á handtökudegi stefnanda og ekki sé vitað til þess að afla hafi þurft gagna erlendis frá. Verði dráttur málsins því að teljast vítaverður og brjóta í bága við málshraðaregluna sem m.a. komi fram í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi telji að þeir starfsmenn RLS, sem komið hafi að rannsókn máls hans, hafi m.a. ítrekað brotið gegn 13. og 22. gr. lögreglulaga með því að:
- gæta ekki meðalhófs þegar ákveðið hafi verið að handtaka hann;
- láta hjá líða að upplýsa hann með fullnægjandi hætti um sakarefnið;
- neita að breyta réttarstöðu hans þegar löngu hafi verið orðið ljóst að hann hefði ekki gerst brotlegur gegn 264. gr. hgl.
- hafa ekki komið í veg fyrir og rannsakað augljósan leka innan lögreglunnar á upplýsingum og rangfærslum varðandi rannsóknina til fjölmiðla.
Þegar mál þetta sé metið þurfi að horfa til allra atriða m.a. með hvaða hætti hafi verið farið af stað með málið og upplýsa um hvert hið raunverulega sakarefni hafi verið eða eigi að hafa verið, þegar stefnandi hafi verið handtekinn og yfirheyrður og hvort það sé í samræmi við síðbúnar skýringar. Í máli þessu hafi ekki eingöngu verið brotið gegn grundvallarreglum réttarríkisins um meðalhóf, hvað handtökuna varði, og mannréttindi, með því að upplýsa ekki um sakarefnið, heldur hafi það á sér þann blæ að rannsakendur hafi ekki sjálfir haft vitneskju um hin meintu sakarefni og í stað þess að leiðrétta þau mistök, hafi þeir fallið í þá gryfju að leita að sakarefnum en að lokum ekkert fundið og þá fyrst dregið málið til baka en þó með semingi. Hinn 6. júní 2008 hafi peningaþvættisskrifstofu RLS borist tilkynning frá Glitni banka hf. vegna tiltekinna viðskipta eða peningafærslna. Hafi RLS í kjölfarið aflað gagna m.a. frá Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf. Þau gögn hafi borist í september 2008 og hafi stefnandi í kjölfarið verið handtekinn og yfirheyrður. Telji stefnandi að RLS hafi farið offari við rannsókn málsins í upphafi og að ekki hafi verið tilefni til svo harkalegra aðgerða á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hefði RLS átt að gæta meðalhófs í störfum sínum og kalla stefnanda sjálfviljugan til skýrslutöku þar sem hann hefði gert grein fyrir málavöxtum og gefið útskýringar á umræddum millifærslum, sem allar hafi verið löglegar eins og í ljós hafi komið. Telji stefnandi að umrædd handtaka hafi á engan hátt verið réttlætanleg miðað við aðstæður, enda hafi rannsakendur sjálfir ekki vitað hvaða refsiverða verknað stefnandi hefði mögulega gerst sekur um, eins og ljóst sé af misvísandi upplýsingum um hið meinta sakarefni. Eins og fram hafi komið hafi stefnanda aldrei almennilega verið skýrt frá sakarefninu. Eftir yfirheyrslu hafi sérstaklega verið spurt um meint sakarefni og þá verið vísað til mögulegra brota á lögum um varnir gegn peningaþvætti og auðgunabrotakafla alm. hgl., sem telji 15 lagagreinar, eins og fram komi í skýrslu um yfirheyrslu yfir stefnanda. Orðalagi skýrslunnar og skýringar rannsakenda verði ekki skildar á annan veg en að um hafi verið að ræða meint brot stefnanda á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006. Með vísan til gildissviðs þeirra laga verði hins vegar ekki séð með hvaða hætti stefnandi eigi að hafa getað brotið gegn þeim lögum og því verið ítrekað óskað eftir frekari skýringum, eins og áður hafi verið lýst. Það hafi ekki verið fyrr en 17. nóvember 2009, eða tólf mánuðum eftir handtökuna og eftir ítrekaðar fyrirspurnir lögmanns stefnanda, að RLS hafi „leiðrétt“ það litla sem talið hafi verið vitað í málinu, þ.e. að stefnandi væri ekki grunaður um brot gegn peningaþvættislögunum heldur um peningaþvætti, sem sé brot gegn 264. gr. hgl. Enn hafi þó skort á upplýsingar um hin undirliggjandi brot, en slíkar skýringar hafi að mati stefnanda aldrei komið fram í málinu. Stefnandi byggi á því að samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinbera mála sé skylt að gefa sakborningi upplýsingar um kæruefni áður en hann sé yfirheyrður út af því eða við handtöku ef til hennar komi. Í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 komi síðan skýrt fram sú meginregla að við yfirheyrslu skuli viðkomandi gerð grein fyrir hvort hann sé spurður vegna gruns um refsivert brot. Þá segi í 3. mgr. 32. gr. oml. að sakborningi sé óskylt á öllum stigum opinbers máls að svara spurningum sem varði refsiverða hegðun sem honum sé gefin að sök. Í öllum þessum málsgreinum kristallist sú grundvallarregla opinbers réttarfars að sakborningi skuli vera ljóst hvaða brot hann sé grunaður um, þ.e. hvert sakarefnið sé. Öðruvísi geti hann ekki gætt réttar síns t.d. skv. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991. Þá sé sakborningum tryggð ákveðin grundvallarréttindi í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og í 6. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Komi t.a.m. fram í 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli fá án tafar, á máli sem hann skilji, vitneskju í smáatriðum, um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sæti. Rétt sé að benda á að í tengslum við yfirheyrsluna yfir stefnanda hafi verið lagt fyrir hann skjal með yfirskriftinni „Upplýsingar handa þeim sem hefur verið handtekinn“. Í 1. gr. skjalsins segi: „Þú átt rétt á að fá upplýsingar um réttarstöðu þína á tungumáli sem þú skilur“ og „ Þú átt rétt á að fá upplýsingar um ástæður þess að þú varst handtekinn og hvaða sökum þú ert borinn“. Þrátt fyrir framangreint hafi stefnanda aldrei verið kynnt sakarefnið með fullnægjandi hætti. Eins og að framan sé rakið hafi stefnandi ítrekað reynt að fá upplýsingar um meint sakarefni, en án árangurs. Fyrsta svar RLS varðandi sakarefnið hafi borist stefnanda með bréfi, dagsettu 17. nóvember 2009, tæplega 12 mánuðum eftir að hann hafi verið handtekinn og yfirheyrður. Rétt sé að benda á að í bréfi þessu sé í fyrsta skipti vísað í 264. gr. alm. hgl., en áður hafði einungis verið talað um brot á peningaþvættislögunum og auðgunarbrotakafla alm. hgl. en 264. gr. alm. hgl. geti ekki staðið sjálfstætt þótt um sjálfstætt refsivert brot sé að ræða, þ.e. undirliggjandi frumbrot þurfi ávallt að hafa átt sér stað. Þessar skýringar, sem virðist hafa verið búnar til eftir á, hafi heldur ekki reynst vera á rökum reistar, sbr. niðurstöður FME og RLS. Þá uppfylli framangreindar skýringar um sakarefnið, að mati stefnanda, ekki skilyrði laga. Verði því að telja að um verulega ámælisverða málsmeðferð hafi verið að ræða af hálfu RLS og brot á ákvæðum lögreglulaga, laga nr. 19/1991, stjórnarskrárinnar og mannréttinda-sáttmálans. Stefnandi hafi verið handtekinn 21. nóvember 2008. Núgildandi ákvæði 264. gr. hgl. eigi því ekki við í máli þessu heldur ákvæðið eins og það hafi verið eftir gildistöku laga nr. 10/1997, þ.e. fyrir breytinguna á alm. hgl. með lögum nr. 149/2009. Þágildandi ákvæði 264. gr. hgl. hafi verið þannig:
Hver sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. [...]
Í athugasemdum við ákvæðið, í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 10/1997, komi fram að með lögunum hafi umrætt ákvæði verið gert að sjálfstæðu refsiverðu broti í samræmi við samninginn um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, í þeim tilgangi að hægt væri að ákæra fyrir tilraun eða hlutdeild í þvætti. Það að ákvæðið hafi verið gert að sjálfstæðu refsiverðu broti breyti hins vegar í engu því skilyrði að til þess að hægt sé að gerast sekur um brot á 264. gr. hgl. verði að vera um að ræða undirliggjandi brot samkvæmt alm. hgl. Það verði því enginn ákærður fyrir brot á 264. gr. hgl., ef frumbrotið sé ekki réttilega heimfært undir tiltekið refsiákvæði. Þannig verði enginn grunaður um brot á 264. gr. alm. hgl., ef ekki liggi fyrir hvort brotið hafi verið gegn öðrum ákvæðum alm. hgl. Með vísan til framangreinds virðist því að framan af í rannsókn RLS hafi gætt fullkomins misskilnings og vanskilnings á gildissviði 264. gr. alm. hgl. Ljóst sé að þeir sem handteknir séu og sæti réttarstöðu grunaðra manna, sé gert að sæta verulegum réttarskerðingum. Því setji stjórnarskráin, mannréttindasáttmálinn og lög nr. 19/1991 slíkri réttarskerðingu mjög ákveðnar skorður. Því sé mikilvægt að lögregla sýni trúnað og komi ekki viðkvæmum og eða röngum upplýsingum á framfæri við fjölmiðla. Í máli því sem hér um ræði, hafi umfjöllun fjölmiðla verið mjög mikil og óvægin. Það sem sérstaklega hafi þó vakið athygli hafi verið hversu ítarlegar upplýsingar fjölmiðlar hafi haft um sakarefnið og einstaka færslur sem til skoðunar hafi verið. Hafi fjölmiðlar m.a. getað nafngreint hina grunuðu og komið með mjög ítarlegar upplýsingar varðandi grun lögreglu um peningaþvætti þeirra á milljörðum króna. Verði ekki séð að svo nákvæmar upplýsingar hefðu geta komið frá neinum öðrum en lögreglu. Megi sem dæmi nefna eftirfarandi frétt sem birst hafi á vefsíðu Vísis, 25. nóvember 2008, undir fyrirsögninni: „Með milljarð inn á reikningum sínum“, en fréttin hafi einnig birtist í kvöldfréttum Stöðvar 2 sama kvöld:
Eftir að efnahagsbrotadeildin hóf rannsókn kom í ljós að maðurinn og félag tengt honum hafði fengið nokkur lán hjá Kaupþingi aðeins til eins dags í senn til þess að eiga umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti. Grunur leikur á að þessi viðskipti hafi flest öll verið tengd B.
Telji stefnandi líklegt að upplýsingar til fjölmiðla hafi komið frá rannsakendum og reyndar hafi vottur, sem viðstaddur hafi verið skýrslutöku yfir stefnanda 25. nóvember, staðfest grun stefnanda, þegar lögmaður stefnanda hafi spurst fyrir um leka frá lögreglunni vegna fréttar sem birst hefði 24. nóvember 2008, um að upplýsingar kæmu því miður frá lögreglunni sjálfri og unnið væri að því að koma í veg fyrir slíkt en þetta væri viðvarandi vandamál. Lögmaður stefnanda og stefnandi sjálfur hafi verið viðstaddir samtal þetta. Með vísan til framanritaðs telji stefnanda einsýnt að háttsemi RSL hafi bakað stefnda bótaskyldu. Samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar skuli sá sem sviptur hafi verið frelsi að ósekju eiga rétt á skaðabótum. Vísað sé til XXI. kafla laga nr. 19/1991 en þar komi fram að bæta skuli fjártjón og miska ef því sé að skipta, ef rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki gefin út, vegna þess að háttsemi sú sem sakborningur hafi verið borin hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana. Í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála komi fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða skv. IX. XIV kafla laganna, ef rannsókn máls á hendur sakborningi hafi verið hætt. Ljóst sé að skilyrði laganna séu uppfyllt og því skylt að dæma stefnanda bætur. Samkvæmt 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 skuli bæta fjártjón og miska, ef því sé að skipta. Auk framangreinds geti ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um ólögmæta meingerð gegn æru valdið því að réttur til miskabóta stofnist vegna aðgerða stefnda en þar segi meðal annars að heimilt sé að láta þann sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði æru eða persónu manns greiða miskabætur til þess sem misgert hafi verið við. Í 2. ml. 1. mgr. 175. gr. oml. og 2. ml. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 komi fram sú undantekningarregla að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisi kröfu sína á. Stefnandi telji að túlka beri þetta ákvæði þröngt í ljósi ákvæðis 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveði á um að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Sé sú túlkun einnig í samræmi við ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hlotið hafi lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994, um að hver maður sé saklaus uns sekt sé sönnuð. Stefnandi hafi ekki framið þau brot sem honum hafi verið gefin að sök. Ekkert sé fram komið í málinu sem réttlætt geti að bætur til stefnanda verði lækkaðar, hvað þá felldar niður að öllu leyti. Varðandi lagaskil á milli ákvæða laga nr. 19/1991 og ákvæða laga nr. 88/2008 þá byggi stefnandi á því að ákvæði laga nr. 19/1991 taki til atvika er orðið hafi fyrir 1. janúar 2009 en ákvæði laga nr. 88/2008 um þau atvik er orðið hafi eftir 1. janúar 2009. Ljóst sé því að um bætur fyrir miska vegna handtöku og gæsluvarðhalds fari eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 en bætur fyrir fjártjón og miska vegna atvika sem orðið hafi eftir 1. janúar 2009 m.a. dráttar á málsmeðferð og miska vegna stöðu stefnanda með réttarstöðu grunaðs manns á tímabilinu 1. janúar 2009 13. febrúar 2011 fari eftir ákvæðum laga nr. 88/2008. Stefnandi byggi bótaskyldu stefnda á framangreindri háttsemi RSL og dómara, þegar stefnandi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald að ósekju, auk þess sem ljóst sé að stefndi beri ábyrgð á því að stefnandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings í upphafi og haft þá stöðu allt til 13. febrúar 2011. Þá sé byggt á því að lögreglurannsóknin hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991, sbr. m.a. 31. og 67. gr. og ákvæði um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa skv. lögreglulögum nr. 90/1996, sbr. einkum III. kafla laganna. Þá sé sú ákvörðun á ábyrgð stefnda að stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings að ósekju og mun lengur en verið hefði ef rannsókn og saksókn hefði farið fram í samræmi við lög um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Dráttur þessi hafi á engan hátt verið réttlættur og sé alfarið á ábyrgð stefnda. Ljóst sé að dráttur á rannsókn máls sé viðurkennd málsástæða til refsilækkunar, þegar komi að ákvörðun refsingar í kjölfar sakfellingar, og beri að taka samskonar tillit til dráttar á rannsókn og óútskýrða tafa við ákvörðun miskabóta.
Samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 og 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skuli bæði bæta fjártjón og miska. Skv. 26. gr. laga nr. 50/1993 skuli bæta miska séu skilyrði uppfyllt. Jafnframt leiði af meginreglu íslensks skaðabótaréttar, sakarreglunni, að stefndi beri skaðabótaábyrgð í málinu vegna aðgerða sinna. Á því sé byggt að ekki verði ráðið með óyggjandi hætti hvort um beinan ásetning þeirra sem stýrðu rannsókn og saksókn hafi verið að ræða eða stórfellt gáleysi. Um bótaskylduna gildi það einu enda byggi stefnandi m.a. á almennu skaðabótareglunni utan samninga og reglunni um húsbóndaábyrgð, hvort sem um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða. Stefnandi byggi á því að saknæm og ólögmæt háttsemi rannsóknaraðila og kunnáttumanna, sem hann beri ábyrgð á, hafi leitt til þess að stefnandi hafi að ósekju fengið réttarstöðu sakbornings, en þá stöðu hafi stefnandi haft í á þriðja ár. Fyrir stefnanda hafi það haft mjög skaðlegar afleiðingar að fá þessa réttarstöðu m.a. atvinnumissi og alvarlegar andlegar afleiðingar, sem ekki sjái fyrir endann á. Beri stefndi bótaábyrgð gagnvart stefnanda, á grundvelli almennu skaðabótareglunnar utan samninga og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi lögreglu, sem valdið hafi stefnanda stórfelldu tjóni. Leiði hvert og eitt framangreindra atriða til bótaskyldu. Að minnsta kosti hljóti hluti þeirra eða öll saman að leiða til bótaskyldu enda ágallar á málsmeðferðinni í heild stórfelldir og í brýnni andstöðu við lögvarin réttindi stefnanda. Hafi stefnandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og með því hafi verið brotið gegn mannréttindum hans sem tryggð séu í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Því fylgi mikið opinbert vald að lögum að fara með lögreglurannsóknir og ákvörðun um saksókn og þar með mikil ábyrgð. Þótt játa verði þeim sem fari með vald þetta nokkurt svigrúm til ákvarðanatöku geti það ekki leitt til þess að heimilt sé að standa þannig að málum að í bága fari við lög og grundvallarmannréttindi borgaranna. Þegar út af bregði, með jafn alvarlegum hætti og í þessu máli, beri að bæta allt það tjón sem valdið hafi verið með saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna stefnda, enda séu uppfyllt skilyrði um orsakasamband og sennilega afleiðingu. Þegar stefnandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings hafi hann verið varamaður í stjórn A hf. og átt verulegan hlut í félaginu. Tildrög þess að stefnandi hafi hætt sem varamaður í stjórn félagsins og verið gert óbærilegt að eiga hlut sinn lengur hafi verið að opinber rannsókn vegna meintrar refsiverðrar háttsemi hafi hafist á hendur honum. Í fjölmiðlum hafi verið fluttar fréttir af því að stefnandi hefði sætt lögreglurannsókn. Af umfjöllunum í dagblöðum um málið verði ekki annað séð en blaðamenn hafi haft aðgang að upplýsingum úr lögreglurannsókn, sem trúnaður hafi átt ríkja um. Hafi þetta verið til þess fallið að auka tjón stefnanda. Sú staða sem stefnandi hafi verið í hafi einnig takmarkað verulega möguleika hans á að taka að sér ýmis störf sem falli undir menntun hans, sem sé einhæf og verulega tengd einum vinnuveitanda þ.e.a.s. Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem stefnandi hafi unnið frá unga aldri en honum verið sagt upp störfum án ástæðu 30. apríl 2009 og gert að hætta strax en verið greiddur uppsagnarfrestur eins og gögn málsins beri með sér. Eigi stefnandi rétt á skaðabótum sem nemi fjártjóni hans af því að hafa ekki getað haldið áfram í því starfi sem hann hafi sinnt eða fengið sambærilegt starf annars staðar vegna hinna ólögmætu aðgerða lögreglu. Stefnandi byggi á því að brottrekstur hans frá Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið bein afleiðing af rannsókn lögreglu og hann ekki átt þess kost að ráða sig til sambærilegra starfa hér á landi hjá öðrum. M.a. sé vísað til tölvupósta formanns Rafiðnaðarsambandsins og stjórnarmanns hjá A hf., sem lagðir hafi verið fram í málinu, auk annarra gagna. Stefnandi hafi ekki verið í launuðu starfi frá 1. ágúst 2009 til 1. maí 2010 og frá miðjum október 2010 til mars 2011, er hann hafi ráðið sig til Garðabæjar en hann hafi fengið tímabundna vinnu hjá Garðabæ sumarið 2010. Þess á milli hafi stefnandi verið á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun en honum hafi ekki boðist starf á þeim sviðum þar sem þekking hans, reynsla og menntun gæti nýst og tryggt honum sambærilegar vinnutekjur og hann hafi áður haft og mátt vænta að hafa áfram. Stefnandi miði bótakröfu sína við áætluð heildarlaun sem hann hefði getað vænst að fá áfram hjá Orkuveitu Reykjavíkur eða hjá öðrum sambærilegum aðila. Fjárhæðin sé áætluð enda ekki hægt að sanna hana með óyggjandi hætti, meðal annars vegna þess að laun stefnanda hjá Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið háð vinnuframlagi í hverjum mánuði, þó svo að ákveðið lágmark hafi verið tryggt. Fjártjón stefnanda vegna þessa sé áætlað 350.000 krónur á mánuði frá 1. september 2009 til 1. júní 2010 og frá 1. október 2010 til 1. mars 2011 eða í alls 15. mánuði. Stefndandi telji að stefndi eigi að bera áhættuna af óvissunni fyrir því hvað orðið hefði, ef stefnandi hefði ekki orðið fyrir hinni bótaskyldu háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á. Til vara sé byggt á því að dæma beri bætur vegna fjártjóns vegna tekjumissis að álitum. Stefnandi hafi orðið fyrir stórfelldum miska og álitshnekki vegna lögreglurannsóknarinnar. Eigi 26. gr. skaðabótalaga hér við enda hafi verið brotið gegn persónu stefnanda, æru og friði auk ákvæða oml. og laga nr. 88/2008. Hafi stefnandi mátt sæta því að hafa haft réttarstöðu sakaðs manns á þriðja ár, án þess að það leiddi til neinnar efnislegrar niðurstöðu en mál hafi verið fellt niður á hendur honum. Þurfi ekki að fara mörgum orðum um áhrif þess á flekklausan og gifturíkan feril stefnanda og hvaða áhrif mál þetta hafi haft á allt líf stefnanda og fjölskyldu hans, sbr. framlagt vottorð heimilislæknis stefnanda. Varðandi rökstuðning fyrir fjárhæð miskabóta sé á því byggt að greiða beri 250.000 krónur fyrir hvern sólarhring sem stefnandi hafi verið í gæsluvarðhaldi eða í fjóra daga, samtals 1.000.000 króna. Þá beri að greiða 100.000 krónur fyrir næstu 30 daga en þá hafi mesta álagið verið á stefnanda og fjölskyldi hans auk þess sem fjölmiðlaumfjöllun hafi verið mikil og óvægin, samtals 3.000.000 króna. Loks sé gerð krafa um greiðslu á 25.000 krónum fyrir hvern þann dag, eftir fyrstu 34 dagana, þar til stefnanda hafi verið tilkynnt um niðurfellingu málsins, eða í 768 daga, samtals 19.200.000 krónur. Samtals sé fjárhæð miskabótakröfunnar samkvæmt famangreindu 23.200.000 krónur. Til vara sé byggt á sömu bótafjárhæð en dæma beri fjárhæð bóta að álitum. Um sé að ræða ólögmæta meingerð sem falist hafi í háttsemi lögreglunnar við handtöku og rannsókn málsins. Á því sé byggt að ekki hafi verið nægjanlegt tilefni til aðgerðanna og lögmæt skilyrði hafi skort auk þess sem framkvæmd aðgerðanna hafi verið einkar særandi og móðgandi á allan hátt. Þá sé byggt á því að í frelsissviptingu og því að vera með stöðu grunaðs manns, líkt og í tilfelli stefnanda, felist miski. Stefnandi hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar í kjölfar aðgerða lögreglu og það strax í kjölfar þess að hann hafi verið látinn laus 25. nóvember 2008. Þá sé gerð krafa um greiðslu bóta vegna tapaðra fjármuna en stefnandi hafi verið eigandi að 2,79% hlut í fjármálafyritækinu A hf. en honum hafi verið gert ómögulegt að eiga þann hlut áfram auk þess sem honum hafi, í kjölfar málsins, verið gert að segja af sér sem [...]. Hlutinn hafi stefnandi keypti á 27.082.500 krónur en selt hann á 18.214.285 krónur, 7. maí 2010, með tapi að fjárhæð 8.868.215 krónur.
Stefnukröfu sína sundurliði stefnandi þannig:
|
Fjártjón: |
|
|
Töpuð laun frá 1. sept. 2009 til 1. júní. 2010, 350.000 x 10 |
kr. 3.500.000 |
|
Töpuð laun frá 1. október 2010 til 1. mars 2011, 350.000 x 5 |
kr. 1.750.000 |
|
Tap vegna sölu á hlut í A hf. |
kr. 8.868.215 |
|
Ófjárhagslegt tjón |
|
|
Miskabætur |
kr. 23.200.000 |
|
Samtals bótakrafa |
kr. 37.318.215 |
Kröfur um vexti og dráttarvexti styðji stefnandi við III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Á því sé byggt að hið bótaskylda atvik hafi verið viðvarandi frá 21. nóvember 2008 og allt til 13. febrúar 2011 en krafa um dráttarvexti frá 28. júní 2011 miðist við ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 en þann dag teljist málið höfðað með birtingu stefnu. Um lagarök vísi stefnandi til meginreglna skaðabóta- og refsiréttar, sbr. m.a. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennu sakarreglunnar, auk þess sem vísað sé til meginreglna opinbers réttarfars og stjórnarskrárinnar um þvingunaraðgerðir, sbr. einkum 5. mgr. 67. gr. og 70. gr. Þá vísi stefnandi til ákvæða laga nr. 19/1991, nánar tiltekið XXI. kafla laganna auk laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, nánar tiltekið XXXVII. kafla, sbr. einkum 228. gr. laganna. Auk þess sé vísað til ákvæða lögreglulaga nr. 90/1996 og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Loks vísi stefnandi til 5. og 6. gr. mannréttinda-sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Varðandi kröfu um vexti og dráttarvexti vísi stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, III. og IV. kafla, einkum 8. og 9. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Varðandi málskostnaðarkröfuna vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Varðandi virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varðandi varnarþing vísist til V. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 3. mgr. 33. gr.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Af hálfu stefnda er því hafnað að grundvöllur sé fyrir hendi til greiðslu skaða- eða miskabóta samkvæmt ákvæðum 175. gr. sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vegna málsmeðferðarinnar né eftir 1. janúar 2009 samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Því sé einnig mótmælt að skilyrði b. liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda sé uppfyllt eða að bótaréttur verði fundinn skv. almennum reglum skaðabótaréttar vegna málsmeðferðarinnar. Engri ólögmætri eða saknæmri háttsemi hafi verið til að dreifa er stofnað gæti til bótaábyrgðar að lögum á þeim grundvelli og fráleitt ólögmætri meingerð unninni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi í skilningi 26. skaðabótalaga. Staðhæfingum stefnanda um að rannsakendur í málinu hafi brotið gegn ákvæðum lögreglulaga, um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa og gegn réttindum stefnanda, sem kveðið sé á um í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og réttindum sem njóti verndar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé harðlega vísað á bug. Eigi þessar ásakanir á hendur rannsakendum sér enga stoð í raunveruleikanum og rannsókn málsins. Samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála megi taka til greina kröfu um bætur samkvæmt XXI. kafla laganna, ef rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sönnun hafi ekki fengist um þá háttsemi sem sakborningur hafi verið borinn. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Bæta skuli fjártjón og miska, ef því sé að skipta, sbr. 2. mgr. Samkvæmt 176. gr. megi dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarrra aðgerða sem hafi frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr., ef lögmæt skilyrði hafi brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hafi verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Í ákvæði 176. gr. séu tæmandi taldar þær aðgerðir sem stofnað geti til bótaskyldu á grundvelli 176. gr., sbr. 175. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eigi maður sem borinn hafi verið sökum í sakamáli rétt til bóta skv. 2. mgr., ef mál hans hafi verið fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi, án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann hafi verið talinn ósakhæfur. Samkvæmt 2. mgr. skuli dæma bætur vegna aðgerða skv. IX.-XIV. kafla laganna, ef skilyrði 1. mgr. séu fyrir hendi. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Samkvæmt 5. mgr. skuli bæta fjártjón og miska samkvæmt þessari grein ef því sé að skipta. Ljóst sé, að hvorki grunsemdir, staða sem sakborningur, yfirheyrsla né dráttur á málsmeðferð geti stofnað til bótaábyrgðar á grundvelli 176. gr. sbr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 né frá 1. janúar 2009 á grundvelli 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Eingöngu tilteknar þvingunaraðgerðir sem séu tæmandi taldar í ákvæði 176. gr. laga nr. 19/1991 geti stofnað til bótaábyrgðar á grundvelli þess ákvæðis og frá 1. janúar 2009 þær þvingunaraðgerðir sem kveðið sé á um í ákvæðum IX. til XIV. kafla laga nr. 88/2008 geti stofnað til bótaábyrgðar á grundvelli 228. gr. þeirra laga. Engum þvingunaraðgerðum gagnvart sakborningum hafi verið til að dreifa frá gildistöku þeirra laga er stofnað gæti til bótaábyrgðar á grundvelli 228. gr. þeirra laga. Ekki fái á nokkurn hátt staðist staðhæfingar stefnanda um að rannsakendur hafi sjálfir ekki vitað hvaða refsiverða verknað stefnandi hafi verið grunaður um að hafa framið eða þeir farið offari við rannsókn málsins og ekki hafi verið tilefni til handtöku eða húsleitar hjá A hf., á grundvelli þeirra gagna sem fyrir hafi legið í málinu, né eftirfarandi rannsóknaraðgerða. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 baki sá maður sér fangelsisrefsingu, eins og þar sé fyrir mælt, sem taki við eða afli sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt almennum hegningalögum. Einnig sá, sem geymi eða flytji slíkan ávinning, aðstoði við afhendingu hans eða stuðli á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Samkvæmt dómafordæmum um 264. gr. sé ekki gerð sú krafa að nákvæmlega liggi fyrir um hvaða brot samkvæmt almennum hegningalögum sé að ræða, sem ávinningur stafi frá, og verði að meta í ljósi atvika hverju sinni, hvort sýnt sé nákvæmlega fram á að ávinningur sé ekki af lögmætum toga, heldur stafi hann frá broti á lögunum og sakborningi megi vera það ljóst. Grunur um peningaþvætti, sem mögulega hafi varðað við 264. gr. almennra hegningalaga, hafi fyrst og fremst tengst grun um meðferð ávinnings af umboðssvikum sem sé brot gegn 249. gr. alm. hgl. Lögreglu hafi grunað að B, forstöðumaður verðbréfamiðlunar A hf., hefði misnotað aðstöðu sína hjá félaginu með því að hafa á grundvelli upplýsinga, sem hann hafi haft um fjárfestingar A hf., komið því svo fyrir að félagi hans, stefnandinn Matthías Ólafsson og síðar félag í eigu þeirra tveggja og C, hafi átt í sams konar viðskiptum á undan A hf., svokallað „front running”, og þannig hagnast á breyttu gengi. Með því að setja viðskiptavin þannig fram fyrir aðra viðskiptavini í röð viðskipta geti starfsmaður fjármálafyrirtækis misnotað upplýsingar um fyrirhuguð viðskipti annarra, til þess að hagnast á þeim verðbreytingum, sem þau viðskipti hafi á gengi krónunnar. Þannig geti hann keypt áður en krónan styrkist og selt áður en hún veikist. Uppfyllt hafi verið lögmælt skilyrði til að handtaka sakborninga og gera húsleit og nægilegt tilefni verið til þeirra aðgerða. Stefnandi hafi ásamt tveimur öðrum mönnum legið undir rökstuddum grun um að millifærslur fjármuna milli þeirra fæli í sér peningaþvætti sem gæti varðað við 264. gr. alm. hgl., þar sem fjármunanna hefði verið aflað með ólögmætum hætti með auðgunarbrotum er kynnu að varða við ákvæði almennra hegningalaga. Á engan hátt fá staðist staðhæfingar um að handtökur hafi verið framkvæmdar á óþarflega harkalegan, særandi eða móðgandi hátt og eigi staðhæfingar í þá veru enga stoð í gögnum máls. Til grundvallar handtökum sakborninga og húsleit hjá A hf. hafi legið úrskurðir dómara. Handtökur þeirra hafi verið gerðar sem hluti af rannsóknaraðgerðum og í tengslum við yfirheyrslur og með það í huga að rannsóknarhagsmunir spilltust ekki og hafi þær aðgerðir í hvívetna verið lögmætar og réttmætar, sbr. 1. mgr. 97. og 1. mgr. 99. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ekki fá á nokkurn hátt staðist staðhæfingar stefnanda um að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju. Um hafi verið að ræða háar fjárhæðir sem stefnandi hafi fengið inn á bankareikninga sína frá A hf. og hafði stór hluti fjármunanna verið færður í kjölfarið beint frá honum inn á einkareikning æskuvinar hans og starfsmanns A hf., B. Í yfirheyrslu hafi ekki komið fram trúverðugar skýringar á þessum millifærslum og einkar ótrúverðugar skýringar um ástæður þess að stór hluti þeirra hafi verið lagður inn á einkareikning B eða 99.166.667 krónur og sé þá greiðsla kaupverðs vegna [...] til B algerlega undanskilin en A hf. hafi alfarið séð um milligöngu þeirra greiðslna. Hafi því grunur lögreglu um möguleg auðgunarbrot og peningaþvætti stefnanda og samstarfsmanna hans styrkst. Grunaður vitorðsmaður stefnanda hafi verið staddur erlendis og mikilvægt hafi verið að lögregla tæki af honum skýrslu vegna málsins, áður en hann næði að ráðfæra sig við stefnanda. Þá hafi legið fyrir að fara þyrfti yfir þau gögn sem haldlögð hefðu verið hjá A hf., en þau hafi verið umfangsmikil, og yfirheyra stefnanda og B um þau. Rannsókn málsins hafi verið á viðkvæmu stigi og fyrir hendi verið mikil hætta á að stefnandi torveldaði hana gengi hann laus. Í ljósi þessa hafi í kjölfar yfirheyrslunnar verið krafist gæsluvarðhalds yfir stefnanda og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 21. nóvember 2008 verið fallist á að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 28. nóvember kl. 16:00. Gæsluvarðhaldi yfir honum hafi síðan verið aflétt 25. nóvember kl. 16:00, í kjölfar síðari skýrslutöku af honum, um leið og ekki hafi lengur verið efni til að halda honum í gæsluvarðhaldi. Fullt tilefni hafi verið til að krefjast gæsluvarðhalds yfir B. Grunur hafi verið uppi um að B hefði misnotað aðstöðu sína hjá A hf. til að eiga viðskipti fyrir hönd vinar síns, stefnandans, Matthíasar, sem lítið hafi virst vera inni í þeim viðskiptum yfir höfuð. Hafi lögreglu grunað m.a. að B hefði á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hefði haft um fjárfestingar A hf. komið því svo fyrir að stefnandi hefði átt sams konar viðskipti á undan A hf., svokallað „front running”, og þannig hagnast á breyttu gengi þeirra. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi hafi verið sérstaklega nefnt í því efni að grunur beindist að broti gegn 249. gr. almennra hegningalaga. Skýrsla B hafi að nokkru leyti verið á aðra lund en stefnanda um ástæður þess að stór hluti þeirra fjármuna sem stefnandi hafi fengið frá A hf. hafi í kjölfarið verið færður inn á einkareikning B eða alls 99.166.667 krónur og hafi B ekki getað tjáð sig um sumar af þeim færslum. Stefnandi hafi kveðið greiðslurnar að stórum hluta vera vegna viðskiptaráðgjafar en B sagt svo ekki vera. Skýringar þeirra á að verulegir fjármunir hafi farið þeirra í milli vegna bifreiðakaupa hafi ekki verið trúverðugar en samkvæmt athugun lögreglu hafi stefnandi yfirtekið bílasamning með því að yfirtaka lán. Rannsókn málsins hafi verið á viðkvæmu stigi. Skýrslutökur af vitnum hafi staðið yfir og leitað hafi verið sérfræðiaðstoðar frá Fjármálaeftirlitinu við að lesa úr haldlögðum gögnum. Þá hafi yfirferð yfir MSN samskipti og tölvupósta einnig verið í gangi og nauðsynlegt að vinna betur úr þessum gögnum áður en skýrslur yrðu teknar á ný af B og stefnanda og mikilvægt að þeir næðu ekki að bera saman bækur sínar en þeir hafi verið missaga og ekki gefið líklegar ástæður þess að stefnandi færði háar fjárhæðir á reikning B. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi og gæsluvarðhaldsvist sú er stefnandi hafi sætt á grundvelli hans hafi í einu og öllu verið lögmæt aðgerð, sem helgast hafi af rannsóknarhagsmunum, sbr. a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Rannsókn málsins hafi verið haldið sleitulaust áfram meðan stefnandi hafi sætti gæsluvarðhaldi. Stefnanda hafi mátt vera ljóst mikilvægi þess að skýra greinilega og undanbragðalaust frá, þannig að unnt væri að afla staðfestingar þess að rétt væri frá greint. Með framferði sínu hafi stefnandi torveldað rannsókn málsins sem leitt hafi til gæsluvarðhaldssins sem hann hafi sætt, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinbera mála. Bresti þannig með öllu skilyrði fyrir að stefnandi geti átt bótarétt samkvæmt 176. gr. sbr. 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála. Veiti ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu ekki ríkari bótarétt en þau ákvæði. Á engan hátt fái heldur staðist staðhæfingar stefnanda um ólögmæta og saknæma háttsemi lögreglu, er stofnað geti að lögum til skaðabótaábyrgðar ríkisins vegna handtöku og eftirfarandi frelsisskerðingar á grundvelli almennu sakarreglunnar eða 26. gr. skaðabótalaga. Þeim staðhæfingum stefnanda að kynningu sakarefnis við skýrslutökur í kjölfar handtöku hafi verið áfátt og sakborningum í reynd ekki verið ljóst hvert ætlað sakarefni væri, meðan á rannsókn málsins hafi staðið, sé eindregið vísað á bug. Við skýrslutökur af sakborningum, í kjölfar handtöku, hafi þeim öllum verið kynnt að tilefni yfirheyrslunnar byggði á peningaþvættistilkynningu, sem efnahagsbrotadeild hefði borist um grunsamlegar peningafærslur milli nafngreindra aðila, og að ákveðið hefði verið að hefja opinbera rannsókn á grundvelli hennar. Væri hann einn þeirra aðila sem tengdust umræddum greiðslum. Ætluð sakarefni hafi þótt kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti. Ennfremur gætu ætluð brot falið í sér refsiverða háttsemi er kynni að varða við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga. Því sé eindregið vísað á bug að þessi kynning sakarefnisins hafi brotið gegn rétti stefnanda í sakamálinu. Undir rannsókn málsins og við skýrslutökur hafi ætíð verið rætt um peningaþvætti, sem sé brot gegn 264. gr. almennra hegningalaga, og hafi verjendur verið viðstaddir skýrslutökur og fáist ekki séð að tilvitnun til laga um varnir gegn peningaþvætti, sem ekki séu til, hafi haft áhrif á upplýsingar um sakarefnið til sakborninga og vitneskju þeirra um að um væri að ræða brot gegn 264. gr. alm. hgl. Aðspurður hafi C þannig sagst skilja tilefni yfirheyrslunnar og lýst því yfir að hann væri algerlega saklaus af öllu því er sneri að peningaþvætti. Aðspurður um afstöðu sína til sakarefnisins í upphafi skýrslutökunnar hafi stefnandi sagst ekki kannast við að hafa framið auðgunarbrot né stunda peningaþvætti. Hann hafi sagst vera í viðskiptum við A hf. og Kaupþing banka hf. og í þeim hafi hann ýmist hagnast eða tapað peningum. Stefnanda hafi í lok yfirheyrslu verið kynnt að lögreglu grunaði að fjármuna þeirra sem lagðir hefðu verið inn á reikninga hans hefði verið aflað með ólögmætum hætti og stefnandi gerst sekur um peningaþvætti. Við skýrslutöku 25. nóvember hafi honum verið kynnt að ætlað sakarefni, sem beint væri að honum við yfirheyrsluna, þætti kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti, sbr. 264. gr. almennra hegningalaga, og ennfremur kynnu ætluð brot að fela í sér refsiverða háttsemi er þættu kunna að varða við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga nr. 19/1940. Aðspurður hafi B sagst skilja tilefni yfirheyrslunnar og kannast við peningafærslur á milli sín og stefnanda og D ehf. Í kröfu um gæsluvarðhald yfir B, sem honum hafi verið kynnt við fyrirtöku hennar fyrir dómi, hafi komið fram að lögreglu grunaði m.a. að B hefði á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hefði haft um fjárfestingar A hf. komið því svo fyrir að stefnandi Matthías hefði átt sams konar viðskipti á undan A hf., svokallað „front running” og þannig hagnast á breyttu gengi þeirra. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi hafi sérstaklega verið nefnt í því efni að grunur beindist að broti hans gegn 249. gr. almennra hegningalaga þ.e. umboðssvikum. Fái þannig ekki á nokkurn hátt staðist staðhæfingar stefnanda um að sakborningum hafi ekki verið ljóst sakarefnið eða að stofnast geti að lögum til skaðabótaskyldu af því tilefni. Af stefnu sé ljóst að lögmenn sakborninga hafi í kjölfarið átt mikil samskipti. Öllum sakborningum hafi verið ljóst sakarefnið, frá upphafi, hvað sem líði ítrekuðum síðari fyrirspurnum lögmanna þeirra til lögreglu. Staðhæfingum stefnanda um að rannsakendur hafi ítrekað brotið gegn rétti hans til að fá afhent gögn undir rannsókn málsins og að vítaverður dráttur hafi orðið á meðferð þess er brotið hafi gegn lögum og stofnað geti til bótaskyldu að lögum, sé eindregið vísað á bug. Stefndi byggi á því að afhending gagna í umræddu sakamáli hafi verið í samræmi við lög, sbr. 43. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og 37. gr. sakamálalaga nr. 8/2008, og samskipti við verjendur verið með venjubundnum hætti meðan á rannsókn málsins hafi staðið. Hafa beri í huga að töluverðan tíma hafi tekið að fá gögn inn í málið og síðan afstöðu sérfræðinga til þeirra. Bið eftir gögnum sem tengst hafi öðrum gögnum og þar með afstaða til þýðingar þeirra í málinu kunni að hafa valdið einhverjum töfum á afhendingu gagna til verjenda. Undir rannsókn málsins hafi jafnframt að fullu verið gætt ákvæða 2. mgr. og 3. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála. Staðhæfingum stefnanda um að rannsakendum hafi mátt vera ljóst strax í kjölfar yfirheyrslna yfir sakborningum að engin ólögmæt viðskipti eða millifærslur hafi átt sér stað og að rannsakendur hafi í kjölfarið farið að leita að mögulegum brotum, er réttlætt gætu fyrri aðgerðir, sé harðlega vísað á bug. Órökstuddar staðhæfingar um að rannsakendur hafi farið að leita að mögulegum brotum eftir á séu fráleitar. Alveg sé ljóst, sbr. fyrri umfjöllun, að til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild hafi frá upphafi og allan rannsóknartímann verið grunur um peningaþvætti og meðferð ávinnings af umboðssvikum, er varðað gætu við ákvæði 249. gr. og 264. gr. almennra hegningalaga. Um hafi verið að ræða umfangsmikið sakamál sem kallað hafi á mikla gagnaöflun og fái staðhæfingar um ólögmætan drátt á málsmeðferð ekki staðist. Staðhæfingum stefnanda um að upplýsingum um rannsóknina hafi verið lekið frá lögreglu í fjölmiðla sé harðlega vísað á bug. Séu gögn málsins skoðuð megi sjá að hvorki virðist fjölmiðlar hafa haft mjög ítarlegar upplýsingar um sakarefnið, frá því að þeir fjalli fyrst um rannsókn málsins, né fjalli þeir um einstakar færslur í málinu og sé ekki í umfjöllun þeirra minnst á grun um ítrekuð brot gegn 249. gr. almennra hegningalaga, umboðssvik. Þá verði stefndi ekki að lögum gerður bótaábyrgur fyrir umfjöllun fjölmiðla um málið. Með vísan þess sem rakið hafi verið sé bótaskilyrðum 176. gr. sbr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. nú 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ekki fullnægt í máli þessu. Á engan hátt fái heldur staðist staðhæfingar stefnanda um saknæma og ólögmæta háttsemi sem stofnað geti að lögum til skaðabótaskyldu stefnda. Beri þannig að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist sé krafist lækkunar bóta vegna eigin sakar stefnanda. Miskabótakröfur stefnanda séu í engu samræmi við dómvenju og sé krafist stórfelldrar lækkunar þeirra, verði á annað borð að einhverju leyti á þær fallist. Ósannað sé að miski, umfram það sem almennt megi ætla að leiði af þvingunarráðstöfunum og rannsókn sakamáls, hafi hlotist af málsmeðferðinni og aðgerðum lögreglu. Því sé eindregið vísað á bug að stefndi verði gerður bótaábyrgur fyrir umfjöllun fjölmiðla, ætluðum mannorðsmissi eða viðbrögðum vinnuveitanda stefnanda, sem ekkert liggi fyrir um. Kröfum stefnanda vegna ætlaðs fjártjóns sé harðlega vísað á bug. Engu orsakasambandi sé til að dreifa milli ætlaðs fjártjóns og rannsóknar lögreglu, sem stofnað geti að lögum til skaðabótaskyldu né sé sannað að fjártjón hafi orðið. Hafi stefnandi engin haldbær gögn lagt fram því til stuðnings né um viðmiðunarfjárhæðir. Beri því að sýkna af öllum kröfum stefnanda vegna fjártjóns en til vara sé krafist stórfelldrar lækkunar þeirra. Samkvæmt tölvupósti stefnanda til lögmanns hans hafi stefnanda verið sagt upp starfi sínu hjá Orkuveitu Reykjavíkur löngu eftir að frelsissviptingu hans hafi lokið eða 30. apríl 2009 og hafi hann notið launa til 1. september 2009. Engra gagna njóti yfir höfuð til stuðnings því að starfslok hans hafi tengst rannsókn málsins og geti engu orsakasambandi verið til að dreifa vegna ætlaðs fjártjóns að fjárhæð 5.250.000 krónur, vegna launamissis. Þá verði stefndi ekki að lögum gerður ábyrgur fyrir ákvörðun vinnuveitanda stefnanda um að segja honum upp starfi. Sama gildi um ætlað tjón að fjárhæð 8.868.215 krónur tengt samningsgerð stefnanda við A hf. vegna sölu stefnanda á hlutabréfum í A hf., sem átt hafi sér stað löngu síðar eða 7. maí 2010. Engu orsakasambandi geti þar verið til að dreifa né verði stefndi gerður bótaábyrgur fyrir þeirri samningsgerð stefnanda. Vaxtakröfum stefnanda og upphafstíma vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 sé mótmælt sem vanreifuðum og haldlausum. Fyrir liggi að stefnandi hafi fyrst sett fram ætlaðar bótakröfur sínar, skömmu fyrir þingfestingu máls þessa, en án viðhlýtandi gagna. Sé þess krafist að dráttarvextir dæmist fyrst frá dómsuppsögu í málinu
Forsendur og niðurstaða
Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda um bætur vegna fjártjóns og miska á því að ekki hafi verið nægt tilefni til handtöku hans 21. nóvember 2008. Þá hafi stefnandi ekki verið upplýstur um sakarefni strax við handtöku, eins og skylt hafi verið, og hann úrskurðarður að ósekju í gæsluvarðhald. Ennfremur byggir stefnandi á því að breyta hefði átt réttarstöðu hans strax að loknum yfirheyrslum 21. nóvember, starfsmenn RLS hafi ítrekað brotið gegn ákvæðum lögreglulaga við rannsóknina á hendur honum og of langur tími liðið frá handtökunni 21. nóvember 2008 þar til rannsókn á hendur honum hafi formlega lokið, 13. febrúar 2011. Þá hafi fréttum af rannsókninni verið lekið til fjölmiðla. Af öllum framangreindum ástæðum hafi stefnandi orðið fyrir verulegu fjártjóni og miska, sem stefnda beri að bæta honum, með vísan til 175. gr, sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, hvað varði þær þvingunaraðgerðir sem gripið hafi verið til gagnvart stefnanda fyrir 1. janúar 2009 en með vísan til 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, hvað varði þann drátt er orðið hafi á rannsókninni á hendur stefnanda eftir 1. janúar 2009. Þá hvíli bótaábyrgð stefnda gagnvart stefnanda ennfremur á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/ 1993 og almennu skaðabótareglunni.
Stefndi hafnar öllum framangreindum málsástæðum stefnanda. Af hans hálfu er því andmælt að grundvöllur sé fyrir hendi til greiðslu skaða- eða miskabóta samkvæmt ákvæðum 175. gr., sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og/eða samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá mótmælir stefndi því að skilyrði b. liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda, sé uppfyllt eða að bótaréttur verði grundvallaður á almennum reglum skaðbótaréttar. Engri ólögmætri eða saknæmri háttsemi hafi verið til að dreifa, er stofnað geti til bótaábyrgðar stefnda, og engin ólögmæt meingerð verið unnin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi í skilningi 26. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Samkvæmt framangreindu byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda m.a. á því að ekki hafi verið nægt tilefni til handtöku hans 21. nóvember 2008. Þá hafi meðalhólfs ekki verið gætt við handtökuna en slíkt hafi falið í sér brot gegn 13. og 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.
Samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem í gildi var, þegar stefnandi var handtekinn, mátti taka kröfu um bætur samkvæmt XXI. kafla laganna til greina, ef rannsókn hafði verið hætt eða ákæra ekki gefin út m.a. vegna þess að sönnun hefði ekki fengist um þá háttsemi sem sakborningur var borinn. Þó mátti fella niður bætur eða lækka ef sakborningur hafði valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisti kröfu sína á. Samkvæmt 2. mgr. 175. gr. skyldi bæta fjártjón og miska, ef því væri að skipta. Samkvæmt 176. gr. laganna mátti dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarrra aðgerða, sem höfðu frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr., ef lögmæt skilyrði hafði brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hafði, eins og á stóð, verið nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Þegar stefnandi var handtekinn 21. nóvember 2008 hafði jafnframt verið gefin út handtökuskipun á hendur B og C, vegna meintar þáttöku þeirra í peningaþvætti. C var handtekinn sama dag og stefnandi en ekki varð af handtöku B fyrr en 23. nóvember, þar sem hann var staddur erlendis daginn sem stefnandi og C voru handteknir. Var það mat lögreglu að handaka stefnanda væri nauðsynleg til að hann gæti ekki borið sig saman við B og C. Samkæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 var það skilyrði sett fyrir handtöku að rökstuddur grunur væri um að hinn handtekni hefði framið brot sem sætt gæti ákæru enda væri hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hins handtekna eða koma i veg fyrir að hann spillti sönnunargögnum. Með skilyrðinu um að handtaka væri nauðsynleg var vísað til meðalhófsreglunnar en í henni felst, hvað handtöku varðar, að ekki skuli til hennar gripið sé hægt að ná því markmiði sem að er stefnt með öðru og vægara móti. Eins rakið hefur verið var stefnandi handtekinn í kjölfar þess að RLS höfðu borist ábendingar frá Glitni banka hf. um meintar grunsamlegar peningafærslur inn á bankareikning stefnanda frá verðbréfafyrirtækinu A hf. og af þeim reikningi inn á aðra reikninga m.a. reikninga í eigu B, [...] og eins af starfsmönnum A hf. Um var að ræða verulegar fjárhæðir. Var það mat RLS að umræddar fjármunafærslur gæfu vísbendingu um peningaþvætti, sem gefið gæti tilefni til ákæru. Ekki þarf að liggja nákvæmlega fyrir, þegar maður er handtekinn, hvaða refsiverða háttsemi hann sé grunaður um. Hins vegar þarf háttsemin að mati lögreglu að geta sætt ákæru. Með hliðsjón af framangreindu verður á það fallist með stefnda að skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 fyrir handtöku stefnanda hafi verið til staðar, þegar hann var handtekinn 21. nóvember 2008, og handtakan því verið lögmæt. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að handtaka hans hafi verið framkvæmd á óþarflega harkalegan, særandi eða móðgandi hátt eða stefndi við handtökuna brotið í bága við lögfestar eða óskráðar meginreglur um meðalhóf og eiga staðhæfingar um slíkt enga stoð í gögnum málsins.
Stefnandi byggir kröfur sínar m.a. á því að hann hafi ekki verið upplýstur um sakarefni strax við handtöku eins og skylt hafi verið.
Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 var mælt svo fyrir að gefa skyldi sakborningi upplýsingar um kæruefni, áður en hann væri yfirheyrður út af því eða við handtöku, ef til hennar hefði komið. Reglan var í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Framangreind regla verður ekki samkvæmt orðalagi sínu eða tilgangi skilin á þann veg að tilgreina þurfi þau refsiákvæði, sem talið er að sakborningur hafi brotið gegn, heldur nægi að gera honum í grófum dráttum grein fyrir þeirri háttsemi sem hann er sakaður um.
Við skýrslutökur af stefnanda, í kjölfar handtökunnar 21. nóvember, var honum kynnt að tilefni yfirheyrslunnar byggði á peningaþvættistilkynningu, sem efnahagsbrotadeild RLS hefði borist um grunsamlegar peningafærslur milli nafngreindra aðila og hefði verið ákveðið að hefja opinbera rannsókn á grundvelli hennar. Væri hann einn þeirra aðila sem tengdust umræddum peningafærslum. Ætluð sakarefni þættu kunna að varða við lög um varnir gegn peningaþvætti. Ennfremur gætu ætluð brot falið í sér refsiverða háttsemi, er kynni að varða við auðgunarbrotakafla almennra hegningalaga. Á síðari stigum rannsóknarinnar var sakarefni nánar kynnt stefnanda, sem möguleg brot á 264. gr. alm. hgl., hvað peningaþvætti varðaði og 249. gr. laganna, hvað varðaði umboðssvik.
Fallast verður á það með stefnda að framangreind tilgreining á sakarefni hafi verið nægileg, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 og er umræddri málsástæðu stefnanda því hafnað.
Stefnandi byggir kröfur sínar um fjártjón og miska á því að dómari hafi að ósekju úrskurðað hann í gæsluvarðhald 21. nóvember 2008.
Eins og rakið hefur verið var stefnandi úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 21. nóvember 2008. Í forsendum úrskurðarins er greinargerð RLS fyrir gæsluvarðhaldskröfunni rakin m.a. ábendingar frá Glitni banka hf. um mögulegt peningaþvætti með hliðsjón af fjölmörgum greiðslum frá A hf. inn á bankareikning stefnanda og ráðstöfun þeirra greiðslna að hluta m.a. inn á bankareikning B, starfsmanns verðbréfafyrirtækisins A hf. Þá er rakið að grunaður vitorðsmaður stefnanda væri erlendis en væri væntanlegur til landsins innan fárra daga. Mikilvægt væri að taka af honum skýrslu áður en hann næði að ráðfæra sig við stefnanda. Þá lægi fyrir að fara þyrfti yfir þau gögn sem haldlögð hefðu verið hjá A hf., sem væru umfangmikil, og yfirheyra bæði stefnanda og B. Væri með hliðsjón af öllu þessu mikilvægt, vegna rannsóknarhagsmuna, að þeir gætu ekki haft samband hvor við annan á þessu stigi rannsóknarinnar. Rannsóknin væri á viðkvæmu stigi og teldi lögregla fyrir hendi mikla hættu á að stefnandi myndi torvelda hana, gengi hann laus. Í þágu rannsóknar málsins þætti, með vísan til framangreinds og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, brýna nauðsyn bera til að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember kl. 16.00 þar sem hætta þætti á að hann myndi torvelda rannsókn málsins, fengi hann að halda frelsi sínum. Héraðsdómari féllst á kröfu RLS um gæsluvarðhald yfir stefnanda með eftirfarandi rökstuðningi.:
Með hliðsjón af framanrituðu og framlögðum gögnum þykir dóminum sýnt að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið verknað, sem fangelsisrefsing liggi við og að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þá þykja skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, vera uppfyllt. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Kærði, Matthías Ólafsson, kt. 170577-5589, sæti gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 28. nóvember n.k. kl. 16.00.
Stefnandi kærði framangreindan úrskurð til Hæstaréttar. Gæsluvarðhaldi yfir honum var hins vegar aflétt 25. nóvember, áður en Hæstiréttur hafði tekið afstöðu til kærunnar og féll kærumálið af þeirri ástæðu niður.
Eins og rakið hefur verið beindist grunur lögreglu 21. nóvember 2008 að meintri þátttöku stefnanda í brotum sem talið var að gætu varðað við lagaákvæði um peningaþvætti og ákvæði auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til grundvallar þeim grun lágu tilkynningar Glitnis banka hf. um grunsamlegar peningafærslur af bankareikningum verðbréfafyrirtækisins A hf. á bankareikning stefnanda og færslur af honum inn á reikning í nafni B, starfsmanns A hf. Um var að ræða margar færslur og verulegar fjárhæðir. Skýringar þær sem stefnandi hafði gefið á færslunum í skýrslutöku hjá RLS 21. nóvember, þóttu um margt óljósar og ekki trúverðugar. Eins og rakið hefur verið stóð til að handtaka B 21. nóvember en hann reyndist þá staddur erlendis og var hann ekki væntanlegur til landsins fyrr en 23. nóvember. Með hliðsjón af framangreindu verður fallist á það með stefnda að nægilegt tilefni hafi verið til þess að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald 21. nóvember 2008, á grundvelli rannsóknarhagsmuna, enda hafi hann á því tímamarki verið grunaður um refsiverða háttsemi, sem fangelsisrefsing lá við, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður umræddri málsástæðu stefnanda því hafnað.
Stefnandi byggir á því að breyta hefði átt réttarstöðu hans, strax að loknum yfirheyrslum yfir honum 21. nóvember.
Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 átti sá sem yfirheyrður var við rannsókn máls rétt á því að fá vitneskju um það, þegar mál var orðið svo skýrt að þess væri kostur, hvort hann væri spurður vegna gruns á hendur honum um refsivert brot eða hvort hannn væri kvaddur til vitnisburðar. Fyrir liggur að stefnandi fékk, þegar við skýrslutöku 21. nóvember, stöðu grunaðs manns. Með hliðsjón af þeim upplýsingum og gögnum er lögregla hafði undir höndum 21. nóvember og áður eru rakin verður ekki séð að rök hafi verið til annars eða að ástæða hafi verið til þess í lok skýrslunnar að breyta þessari réttarstöðu stefnanda. Er umræddri málsástæðu stefnanda því hafnað.
Stefnandi byggir á því að starfsmenn RLS hafi við rannsóknina á hendur honum ítrekað brotið gegn ákvæðum lögreglulaga.
Af hálfu stefnanda hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings þessari staðhæfingu. Gegn andmælum stefnda telst hún ekki sönnuð og er henni því hafnað.
Stefnandi byggir á því að upplýsingar um rannsóknina á hendur sér og þær þvingunarráðstafanir sem hann hafi mátt þola hafi „lekið“ frá lögreglu til fjölmiðla og valdið sér og sínum verulegu fjártjóni og miska.
Af hálfu stefnda er því harðlega mótmælt að upplýsingar, sem birst hafi í fjölmiðlum af rannsókninni á hendur stefnanda og þeim þvingunaraðgerðum er henni hafi fylgt, hafi verið frá rannsakendum komnar. Stefnandi hefur ekki stutt framangreinda málsástæðu neinum gögnum, hvorki skriflegum né munnlegum. Kemur málsástæðan því ekki til álita.
Stefnandi byggir á því að of langur tími hafi liðið frá handtöku hans þar til rannsókninni á hendur honum hafi lokið.
Meginregla sakamálaréttarfars um hraða málsmeðferð, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991, á m.a. við um rannsókn lögreglu. Miða má við að rannsóknin á hendur stefnanda hafi hafist með handtöku hans 21. nóvember 2008 en lokið með tilkynningu RLS til stefnanda, 13. febrúar 2011, þess efnis að rannsókninni hefði verið hætt.
Við mat á því hvort rannsóknin á hendur stefnanda hafi tekið lengri tíma en hæfilegt þykir verður að líta til þess að sakarefni var nokkuð umfangsmikið og flókið úrlausnar og fól m.a. í sér öflun gagna, að undangengnum dómsúrskurðum, frá þremur bönkum og verðbréfafyrirtækinu A hf., og rannsókn þessara gagna m.a. í samstarfi við Fjármálaeftirlitið, sem afla þurfti utanaðkomandi sérfræðiálita vegna þeirra álitaefna, sem féllu utan sérsviðs eftirlitsins. Þótt ætla verði rannsakendum talsvert svigrúm í þessum efnum verður að telja að ekki hafi af hálfu stefnda verið skýrt á fullnægjandi hátt hvers vegna rannsóknin hafi þurft að taka jafn langan tíma og raun ber vitni. Þannig virðast veruleg og óútskýrð hlé hafa orðið á rannsókninni m.a. frá júní 2010, þegar afstaða Fjármálaeftirlitsins til meintra brota stefnanda og fleiri lá fyrir, þar til í desember 2010 þegar fulltrúar Framvarða Ráðgjöf ehf. eru boðaðir á fund með rannsakendum. Verður að telja þessar tafir á rannsókn málsins óhóflegar og í andstöðu við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um það efni, sbr. 2. ml. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.
Óhóflegur dráttur á rannsókn og
meðferð máls veitir þeim, sem sökum hefur verið borinn, ekki einn og sér rétt
til bóta á grundvelli laga nr. 88/2008 þ.á.m. rétt til miskabóta samkvæmt 5.
mgr. 228. gr. laganna. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að bætur til
hans, vegna óhæfilegra tafa á rannsókninni, verði reistar á 26. gr.
skaðabótalaga nr. 50/2008 enda verður ekki gegn andmælum stefnda og atvikum
málsins fallist á að rannsakendur hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn
frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda, sbr. b.-lið 26. gr. laga nr. 50/1993.
Þá verður ekki talið að stefnandi hafi, gegn andmælum stefnda, rökstutt svo
viðhlítandi sé, hvernig grundvöllur fyrir bótakröfu hans verði reistur á
almennu skaðbótareglunni.
Með hliðsjón af
öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að stefndi skuli vera sýkn af
kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli
aðila falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu. Gjafsóknarkostnaður
stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Guðbjarna Eggertssonar
héraðsdómslögmanns, 1.800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið
tekið tillit til virðisaukaskatts
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Matthíasar Ólafssonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Guðbjarnar Eggertssonar héraðsdómslögmanns, 1.800.000 krónur.