Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/1999
Lykilorð
- Fjársvik
- Skjalafals
- Hylming
- Tilraun
- Hlutdeild
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 1999. |
|
Nr. 227/1999: |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Stefáni Axel Stefánssyni (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) Erni Karlssyni og (Hilmar Ingimundarson hrl.) Má Karlssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Fjársvik. Skjalafals. Hylming. Tilraun. Hlutdeild.
Níu menn voru ákærðir fyrir stórfelld fjársvik, skjalafals og hylmingu. Með dómi héraðsdóms voru sjö hinna ákærðu sakfelldir og áfrýjuðu þrír þeirra, sem allir höfðu hlotið óskilorðsbundna fangelsisdóma, dómnum, en saksóknari krafðist þyngri refsinga yfir þeim. Hvorki var talið að svo langur tími hefði liðið frá málflutningi fyrir héraðsdómi til dómsuppsögu, að ógilda bæri héraðsdóminn af þeim sökum, né að hann væri að öðru leyti haldinn ágöllum sem vörðuðu ómerkingu. Var dómurinn staðfestur að öðru leyti en því, að refsing eins ákærða var milduð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 1999 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærðu krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefjast þeir sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til þrautavara að refsing verði milduð.
Mál þetta var höfðað í héraði gegn ákærða og sex öðrum mönnum fyrir fjársvik, skjalafals og hylmingu. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir að hluta ásamt fjórum meðákærðu, sem una dómi.
I.
Ákærðu styðja kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms í fyrsta lagi með vísan til 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í héraði hafi málið verið tekið til dóms 21. janúar 1999, en dómur ekki kveðinn upp fyrr en 12. mars, að liðnum rúmum sjö vikum. Einnig benda þeir á að málið sé mjög umfangsmikið og niðurstaða þess ráðist í veigamiklum atriðum af mati á munnlegum framburði. Því hefði héraðsdómur átt að vera skipaður þremur dómurum. Þeir halda og fram að hinn áfrýjaði dómur sé haldinn miklum annmörkum, því atvikum sé þar ekki lýst með viðunandi hætti, ekki sé nægilega greint hvaða atvik teljist sönnuð, tilgreining sönnunargagna fyrir niðurstöðum sé ófullnægjandi og á skorti að mat sé lagt á sönnunargildi munnlegs framburðar.
Í hinum áfrýjaða dómi eru skýringar héraðsdómara á ástæðum þess að dómur hafi ekki verið lagður á málið fyrr en raun varð á. Er þar meðal annars vísað til umfangs þess. Í 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 er kveðið á um að dómur skuli kveðinn upp svo fljótt, sem unnt er, og að jafnaði ekki síðar en þremur vikum eftir dómtöku máls. Af þessu orðalagi er ljóst að sérstök atvik geti réttlætt þá undantekningu að lengri tíma þurfi eftir dómtöku máls en þrjár vikur til að ljúka dómi, þannig að ekki komi til ómerkingar hans vegna tafa í þeim efnum. Fallist verður á að umfang þessa máls sé slíkt að sú undantekning eigi hér við. Verður og að líta til þess að með ómerkingu héraðsdóms yrði valdið enn frekari töfum á að lyktir fáist í málinu, sem telja verður gagnstætt hagsmunum ákærðu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994 og 36. gr. laga nr. 15/1998, er mælt fyrir um heimild en ekki skyldu til að héraðsdómur sé fjölskipaður þegar niðurstaða máls kann að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Verður héraðsdómur hvorki ómerktur af þeirri ástæðu einni að þessarar heimildar hafi ekki verið neytt né eru efni til að ómerkja dóminn vegna ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Í hinum áfrýjaða dómi er nægilega fylgt fyrirmælum 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994. Að öllu þessu athuguðu eru engin efni til að fallast á aðalkröfur ákærðu.
II.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöður héraðsdómara um sakfellingu ákærðu að því leyti, sem þær eru hér til endurskoðunar, svo og um heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða.
Að gættu því, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi varðandi ákvörðun refsingar ákærðu Arnar og Más, verður niðurstaða héraðsdómara í þeim efnum staðfest. Með vísan til þess, sem þar greinir varðandi ákvörðun refsingar ákærða Stefáns Axels, einkum að hann hafi ekki áður gerst sekur um háttsemi, sem máli getur skipt í því sambandi, en einnig með tilliti til þáttar hans í málinu, er hæfilegt að hann sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar þeirri refsingu komi vist hans í gæsluvarðhaldi í 37 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Um sakarkostnað fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir. Við ákvörðun sakarkostnaðarins er litið til þess að Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður var skipaður verjandi ákærða Más að ósk hans 9. júní 1999. Skilaði lögmaðurinn greinargerð af hálfu ákærða 28. september 1999. Ákærði óskaði eftir því 30. sama mánaðar að Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður tæki við starfi verjanda og samþykkti Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður það fyrir sitt leyti. Var fyrrnefndi lögmaðurinn skipaður verjandi ákærða Más sama dag og flutti síðan málið munnlega af hans hálfu. Er málsvarnarlaunum hvað varðar þann ákærða því skipt á milli lögmannanna eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að refsing ákærða, Stefáns Axels Stefánssonar, er ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en til frádráttar henni kemur gæsluvarðhaldsvist hans í 37 daga.
Ákærði Stefán Axel greiði að 2/3 hlutum málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, sem alls eru ákveðin 200.000 krónur, en að öðru leyti greiðast þau úr ríkissjóði.
Ákærði, Örn Karlsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Ákærði, Már Karlsson, greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur, og Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Annan sakarkostnað fyrir Hæstarétti greiði ákærðu Örn og Már óskipt að fullu, en ákærði Stefán Axel með þeim óskipt að 2/3 hlutum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 1999.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 6. október 1998 á hendur:
„M, N, Stefáni Axel Stefánssyni, kennitala 291170-2939, Laugavegi 22, Reykjavík, Erni Karlssyni, kennitala 070955-2379, Hrafnhólum 4, Reykjavík og V.
I.
[...]
II.
Gegn ákærðu M, N og Erni fyrir fjársvik og skjalafals með því að hafa á tímabilinu frá 2. apríl 1996 til 6. maí 1996 í sameiningu svikið kerfisbundið út matvörur í nafni Rúna sf., samtals að verðmæti kr. 6.899.711, í fyrirtækjum víðsvegar um landið undir því yfirskyni að sameignarfélagið væri milligönguaðili fyrir nemendafélög hinna ýmsu framhaldsskóla sem ætluðu vörurnar til endursölu í fjáröflunarskyni. Fyrir vörurnar greiddu ákærðu með tékkum af tékkareikningi Rúna sf. nr. 11059 í Landsbanka Íslands, Suðurlandsbrautarútibúi, útgefnum af ákærða M fyrir hönd Rúna sf. tveimur til fjórum vikum fyrr en dagsetning þeirra sagði til um og reyndust tékkarnir allir innistæðulausir þegar til innlausnar þeirra kom í bankastofnunum enda stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða andvirði tékkanna, né andvirði tveggja falsaðra víxla sem þeir afhentu viðsemjendum sínum til frekari tryggingar greiðslu í tveimur tilvikum. Vörurnar seldu ákærðu aftur skömmu eftir afhendingu þeirra og nýttu andvirðið í eigin þágu:
1) Tékki nr. 1031865 að fjárhæð kr. 925.377 dagsettur 20. maí 1996 notaður til kaupa á 1656,60 kg. af kjúklingum hjá Reykjagarði hf., Urðarholti 6, Mosfellsbæ, 2. apríl 1996 og seldu ákærðu Nóatúni ehf. 1300 kg. af vörunni 11. apríl 1996 á kr. 481.000. Einnig afhentu ákærðu seljendunum tryggingarvíxil að fjárhæð kr. 920.000 útgefinn 2. apríl 1996 af ákærða M og samþykktan til greiðslu af honum fyrir hönd Rúna sf. með falsaðri nafnritun Þorsteins S. Þorsteinssonar sem ábekings.
2) Tékki nr. 1035054 að fjárhæð kr. 588.622 dagsettur 15. maí 1996 notaður til kaupa á 1147,38 kg. af kjúklingum hjá Alifuglabúinu Fögrubrekku, Innri-Akraneshreppi, 18. apríl 1996 sem ákærðu seldu Nóatúni ehf. 19. apríl 1996 á kr. 470.000.
3) Tékki nr. 1031867 að fjárhæð kr. 2.175.980 dagsettur 20. maí 1996 notaður til kaupa á 5151 kg. af lambakjöti hjá Sláturfélaginu Barðanum hf., Hafnarstræti 7, Þingeyri, í lok apríl 1996 sem seljendurnir sendu ákærðu í þrennu lagi, 24. apríl, 29. apríl og 8. maí og ákærðu seldu Nóatúni ehf. 29. apríl, 3. maí og 9. maí á kr. 1.689.130. Einnig afhentu ákærðu seljendunum tryggingarvíxil að fjárhæð kr. 2.400.000 útefinn 19. apríl 1996 af ákærða M og samþykktan til greiðslu af honum fyrir hönd Rúna sf. með falsaðri nafnritun Steinars K. Hlífarssonar sem ábekings.
4) Tékki nr. 1031872 að fjárhæð kr. 504.433 dagsettur 20. maí 1996 notaður til kaupa á 983,10 kg. af kjúklingum hjá Vori hf. kjúklingabúi, Vatnsenda, Villingaholtshreppi, 29. apríl 1996 sem ákærðu seldu Nóatúni ehf. 3. maí 1996 á kr. 403.423.
5) Tékki nr. 1035056 að fjárhæð kr. 963.300 dagsettur 20. maí 1996 notaður til kaupa á 1300 kg. af rækju hjá Hólanesi hf. Túnbraut 1-3, Skagaströnd, 29. apríl 1996 sem ákærðu seldu Sóma ehf. 29. apríl 1996 á kr. 705.888.
6) Tékki nr. 1031869 að fjárhæð kr. 1.125.487 dagsettur 20. maí 1996 notaður til kaupa á 3184,74 kg. af ýsu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa hf., Fiskitanga, Akureyri, 2. maí 1996 sem ákærðu seldu Einari Kristinssyni 6. maí 1996 á kr. 469.800.
7) Tékki nr. 1035055 að fjárhæð kr. 616.512 dagsettur 20. maí 1996 notaður til kaupa á 1040 kg. af rækju hjá Særúnu hf., Efstubraut 1, Blönduósi, 6. maí 1996 sem ákærðu seldu Íslensk-Íslenska sf. 7. maí 1996 á kr. 592.800.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 155. gr. sömu laga að auki hvað varðar ákæruliði II-1 og II-3, en til vara teljast brot ákærða M varða við 1. mgr. 254. gr. sömu laga.
III
Gegn ákærðu M og Erni:
1) Fyrir fjársvik og skjalafals með því að hafa í sameiningu svikið út vélsleðann VF-248, af tegundinni Polaris árgerð 1991, í fyrirtækinu Merkúr hf., Skútuvogi 12a, Reykjavík, sem ákærðu greiddu fyrir með skuldabréfi útgefnu 24. apríl 1996 af ákærða M fyrir hönd Rúna sf. að fjárhæð kr. 318.390 með fölsuðum nafnritunum Þorsteins Smára Þorsteinssonar sem sjálfskuldarábyrgðaraðila og Steinars Karls Hlífarssonar sem vitundarvotts, en aldrei stóð til af hálfu ákærðu að greiða andvirði skuldabréfsins.
2) Ákærða M fyrir fjársvik með því að hafa 28. mars 1996 tekið á kaupleigu hjá Glitni hf. tölvubúnað og faxtæki að verðmæti kr. 403.065 í nafni Rúna sf. sem aldrei stóð til af hálfu ákærða að greiða fyrir og ekki skilaði hann heldur tækjunum til Glitnis hf., sem greiddi Tæknivali hf. kaupverð þeirra.
Ákærða Erni fyrir hylmingu með því að hafa í maí 1996 komið tölvubúnaðinum fyrir í ólæstum kjallara að heimili meðákærða að Klapparstíg 13a, Reykjavík, og að hafa þegið faxtækið að gjöf frá meðákærða þrátt fyrir vitneskju um hvernig hann var að tækjunum kominn.
Brot ákærðu í lið III-1 telst varða við 248. gr. og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, brot ákærða M í ákærulið III-2 telst varða við 248. gr. sömu laga og brot ákærða Arnar í ákærulið III-2 telst varða við 1. mgr. 254. gr. sömu laga.
IV.
Gegn ákærðu M, Stefáni Axel og Erni :
Ákærðu M og Erni fyrir fjársvik með því að hafa blekkt starfsmann fyrirtækisins Fjöreggs hf., Svalbarðsströnd, Eyjafirði, til að láta af hendi 2513 kg. af kjúklingabitum að verðmæti kr. 1.002.687, sem sendir voru með vöruflutningabíl til ákærðu 23. apríl 1996, en vörukaupin gerðu þeir undir því yfirskyni að fyrirtækið Rúnir sf. væri að útvega framhaldsskólanemum kjúklingabitana til að selja vinum og vandamönnum, ágóði yrði notaður til skólaferðalaga. Fyrir vörurnar greiddu ákærðu með tékka nr. 1031863 af tékkareikningi Rúna sf. nr. 11059 í Landsbanka Íslands, Suðurlandsbrautarútibúi, dagsettum 20. maí 1996 útgefnum af ákærða M f.h. Rúna sf. sem reyndist innistæðulaus á innlausnardegi í banka 20. maí 1996 og var ákærðu ljóst við afhendingu tékkans að svo myndi verða.
Ákærða Stefáni Axel fyrir hylmingu með því að hafa 6. maí 1996 selt Haraldi Gunnarssyni 710 kg. af ofangreindum kjúklingabitum á kr. 212.872,20 þrátt fyrir vitneskju um að varan væri illa fengin.
Brot ákærðu M og Arnar telst varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot ákærða Stefáns Axels við 1. mgr. 254. gr. sömu laga.
V.
Gegn ákærðu M og Stefáni Axel:
Ákærða M fyrir hlutdeild í fjársvikum með því að hafa vorið 1996, sem annar eigandi sameignarfélagsins Rúna og eini prókúruhafi félagsins, gefið út tékka nr. 1031859 af tékkareikningi Rúna sf. nr. 11059 í Landsbanka Íslands, Suðurlandsbrautarútibúi, að fjárhæð kr. 399.000, dagsettan 5.júní 1996 sem notaður var til að greiða fyrir 175 kg. af reyktum laxi og 175 kg. af gröfnum laxi sem svikinn var út í fyrirtækinu Eðalfiski hf., Sólbakka 6, Borgarnesi, 21. maí 1996 en tékkinn reyndist innistæðulaus þegar til innlausnar hans kom í banka og stóð aldrei til af hálfu ákærða að greiða andvirði tékkans.
Ákærða Stefáni Axel fyrir hylmingu með því að hafa selt fyrirtækinu Íslensk-Íslenska sf. um 110 kg. af laxinum sumarið 1996 á kr. 77.000 þrátt fyrir vitneskju um að laxinn væri illa fenginn.
Brot ákærða M telst varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot ákærða Stefáns Axels við 1. mgr. 254. gr. sömu laga.
VI.
Gegn ákærðu M, Stefáni Axel og V:
1) Ákærða M fyrir fjársvik og hlutdeild í fjársvikum með því að hafa 27. mars 1996 stofnað til reikningsviðskipta í nafni Rúna sf. í Húsasmiðjunni hf., tekið sjálfur út vörur sem skuldfærðar voru á þann reikning í apríl 1996 að verðmæti kr. 12.507 í versluninni að Skútuvogi 16, Reykjavík og gert öðrum kleift að taka út vörur í sömu verslun að verðmæti kr. 212.871 hinn 22. maí 1996 sem skuldfærðar voru á fyrrgreindan reikning Rúna sf., en aldrei stóð til af hálfu ákærða að greiða fyrir vörurnar.
Ákærðu Stefáni Axel og V fyrir hylmingu með því að hafa selt Jens Sigurðssyni 20 málningarrúllur, 20 rúllusköft og 5 smekkbuxur, allt að verðmæti kr. 45.795, sem var hluti af þeim vörum sem teknar voru út í Húsasmiðjunni hf. 22. maí 1996, þrátt fyrir vitneskju um að vörurnar væru illa fengnar.
2) Ákærða M fyrir hlutdeild í fjársvikum með því að hafa vorið 1996, sem annar eigandi sameignarfélagsins Rúna og eini prókúruhafi félagsins, gefið út tékka nr. 1031862 af tékkareikningi Rúna sf. nr. 11059 í Landsbanka Íslands, Suðurlandsbrautarútibúi, að fjárhæð kr. 254.599 sem notaður var að greiða fyrir 60,25 fermetra af Merbau parketi ásamt gólflistum sem svikið var út í fyrirtækinu Parket og gólf hf., Vegmúla 2, Reykjavík, 9. maí 1996 en tékkinn reyndist innistæðulaus þegar til innlausnar hans kom í banka og stóð aldrei til af hálfu ákærða að standa skil á andvirði tékkans.
Ákærðu Stefáni Axel og V fyrir hylmingu með því að hafa í júlí eða ágúst 1996 selt Vali Ásberg Valssyni um 53 fermetra af parketinu á kr. 130.000 þrátt fyrir vitneskju um að það væri illa fengið.
3) Gegn ákærða M fyrir fjársvik með því að hafa 17. maí 1996 svikið út 660 lítra af málningu að verðmæti kr. 344.352 í fyrirtækinu Hörpu hf., Stórhöfða 44, Reykjavík, í kjölfar þess að hafa í byrjun maí stofnað til reikningsviðskipta í fyrirtækinu í nafni Rúna sf. undir því yfirskyni að til stæði að mála húseign félagsins, en ákærði ætlaði sér aldrei að greiða fyrir málninguna.
Ákærðu Stefáni Axel og V fyrir hylmingu með því að hafa vorið 1996 selt Jens Sigurðssyni 240 lítra af framangreindri málningu þrátt fyrir vitneskju um að hún væri illa fengin.
Brot ákærða M teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 248. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga hvað varðar ákæruliði VI-1 og VI-2 og brot ákærðu Stefáns Axels og V við 1. mgr. 254. gr. sömu laga
VII.
Gegn ákærðu M, Stefáni Axel, V og Erni:
Ákærðu M og Erni fyrir fjársvik með því að hafa blekkt starfsmenn Afurðasölunnar í Borgarnesi hf. til að láta af hendi í tvennu lagi, 1. maí 1996 og 3. maí 1996, samtals 2579,40 kg. af lambakjöti að verðmæti kr. 1.078.287, undir því yfirskyni að Rúnir sf. væri að útvega framhaldsskólanemum kjötið sem þeir ætluðu að selja með „húsgöngu “ til tekjuöflunar fyrir starfsemi sína. Fyrir vörurnar greiddu ákærðu með tékka nr. 1031871 af tékkareikningi Rúna sf. nr. 11059 í Landsbanka Íslands, Suðurlandsbrautarútibúi, dagsettum 20. maí 1996 útgefnum af ákærða M f.h. Rúna sf. til Kaupfélags Borgfirðinga og sömdu ákærðu um að andvirði tékkans yrði fært á ný inn á reikning Rúna sf. eftir að hann var innleystur fyrir mistök 14. maí 1996 gegn loforði þess efnis að senda annan tékka í stað þessa sem þeir ekki gerðu og var því aldrei greitt fyrir kjötið til seljanda.
Ákærðu Stefán Axel og V eru sakaðir um hylmingu með því að hafa í maí 1996 látið Guðjón Sveinsson hafa allt kjötið sem greiðslu hluta kaupverðs fyrir veitingastaðinn Ölkjallarann, þrátt fyrir vitneskju um að það væri illa fengið, en Guðjón seldi kjötið fyrir ákærðu í nafni Rúna sf. í Fjarðakaupum, Hólshrauni 1B, Hafnarfirði í maí 1996 á kr. 823.344.
Brot ákærðu M og Arnar telst varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot ákærðu Stefáns Axels og V við 1. mgr. 254. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Eftirtaldir aðilar krefjast þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta:
1) Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, kt. 410169-4369, Stuðlahálsi 2, Reykjavík, kr. 448.940 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 21. maí 1996 en síðan dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar I.
2) Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, kt. 410169-4369, Stuðlahálsi 2, Reykjavík, kr. 273.791 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 17. maí 1996 en síðan dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar I-2.
3) Björninn ehf., kt. 670274-0479, Borgartúni 28, Reykjavík, kr. 149.250 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 10. júní 1996 en síðan dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar I-3.
4) Kjötumboðið hf., kt. 660593-3069, Kirkjusandi v/Laugarnesveg, kr. 173.654 ásamt dráttarvöxtum frá 5. júní 1996 til greiðsludags og lögfræðikostnaðar kr. 24.804, vegna ákæruliðar I-4.
5) Kristján S. Gunnarsson, 140649-2609, Fögrubrekku, Innri Akraneshreppi, kr. 588.622 auk dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá 15. maí 1996 til greiðsludags, vegna ákæruliðar II-2.
6) Sláturfélagið Barðinn hf., kt. 431088-2589, Hafnarstræti 7, Þingeyri, kr. 2.175.980 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 22. maí 1996 en síðan dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar II-3.
7) Vor hf, kt. 441093-2929, Vatnsenda, Villingaholtshreppi, kr. 504.433 ásamt hæstu lögleyfðu vöxtum frá 20. maí 1996 til greiðsludags, vegna ákæruliðar II-4.
8) Útgerðarfélag Akureyringa hf., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri, kr. 1.125.487 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. maí 1996 til greiðsludags, vegna ákæruliðar II-6.
9) Glitnir hf., kt. 511185-0259, Ármúla 7, Reykjavík kr. 412.048, vegna ákæruliðar III-2.
10) Fjöregg hf., kt. 670392-2369, Svalbarðsströnd, Eyjafirði, kr. 1.002.687 ásamt fullum vöxtum frá 20. maí 1996, vegna ákæruliðar IV.
11) Eðalfiskur hf., 600887-1499, Sólbakka 6, Borgarnesi, kr. 399.000 ásamt hæstu leyfðum vöxtum frá 5. júní 1996 til greiðsludags, vegna ákæruliðar V.
12) Húsasmiðjan hf., kt. 520171-0299, Súðarvogi 3-5, Reykjavík, kr. 200.253 ásamt dráttarvöxtum eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma sbr. lög nr. 25/1987 frá úttektardegi vörunnar til greiðsludags, vegna ákæruliðar VI-1.
13) Parket og gólf hf., kt. 510888-1469, Vegmúla 2, Reykjavík, kr. 254.599 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 5. júní 1996 til greiðsludags, vegna ákæruliðar VI-2.
14) Harpa hf., kt. 600169-2629, Stórhöfða 44, Reykjavík, kr. 356.901,70 auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 um vexti frá 9. september 1996 til greiðsludags auk málskostnaðar, vegna ákæruliðar VI-3. “
Önnur ákæra var gefin út sama dag þ.e. 6. október 1998 á hendur:
„G, Má Karlssyni, kennitala 290537-3989, án lögheimilis en búsettum í Noregi, R, S, Stefáni Axel Stefánssyni, kennitala 291170-2939, Laugavegi 22, Reykjavík og Erni Karlssyni, kennitala 070955-2379, Hrafnhólum 4, Reykjavík, fyrir fjársvik, og ákærða Má einum fyrir skjalafals að auki, í Reykjavík í febrúar og mars 1997 nema annað sé tekið fram.
I.
Gegn ákærða Má fyrir skjalafals með því að hafa 18. mars afhent Magnúsi Karlssyni, veðskuldabréf að fjárhæð kr. 3.600.000 útgefið af ákærða 14. mars 1997 með veði í fasteigninni Stýrimannastíg 10, Reykjavík, í þeim tilgangi að Magnús kæmi skuldabréfinu í verð, og fyrir hans milligöngu seldi þriðji maður bréfið í Sparisjóði Hafnarfjarðar 21. mars, en bréfið hafði ákærði falsað með því að rita nafn föður síns, Karls Ásgeirssonar í reit fyrir samþykki þinglýsts eiganda hinnar veðsettu eignar.
Brot ákærða telst varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Gegn ákærðu Erni og Má:
1) Fyrir fjársvik með því að hafa í sameiningu notað tékka útgefinn af ákærða Má vegna áhugamannafélagsins Brúna, kt. 531295-2939, sem hann var forráðamaður og prókúruhafi fyrir, á tékkareikning hans nr. 2733 í Landsbanka Íslands, Árbæjarútibúi, á eyðublaði nr. 4161337 að fjárhæð kr. 18.300 dagsettan 1. apríl 1997 sem greiðslu fyrir ritvél er þeir keyptu 12. mars í verslun Pennans, Hallarmúla, en tékkinn reyndist innistæðulaus við innlausn í banka og stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða andvirði hans.
2) Fyrir fjársvik með því að hafa 21. febrúar í sameiningu tekið út vörur að verðmæti kr. 26.890, þ.á.m. einn umgang af dekkjum, í verslun Gúmmívinnustofunnar hf., Réttarhálsi 2 og að hafa 21. mars tekið út vörur að verðmæti kr. 208.335, þ.á.m. 2 umganga af dekkjum og 4 álfelgur, í verslun sama fyrirtækis að Skipholti 35, en vörurnar tóku ákærðu út í reikning sem ákærði Már stofnaði í nafni Brúna og stóð aldrei til af þeirra hálfu að greiða fyrir vörurnar.
3) Ákærða Erni fyrir fjársvik og ákærða Má fyrir hlutdeild í þeim fjársvikum með því að ákærði Örn notaði tékka útgefinn af meðákærða Má á tékkareikning hans nr. 514231 í Íslandsbanka hf., Lækjargötu, á eyðublaði nr. 3352330 að fjárhæð kr. 4.000 dagsettan 21. mars 1997, sem greiðslu til Ómars Jóhannssonar fyrir akstur sendiferðabifreiðar að Höfðatúni 2, 22. mars, en tékkinn reyndist innistæðulaus við innlausn í banka og stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða andvirði hans.
4) Ákærða Erni fyrir tilraun til fjársvika og ákærða Má fyrir hlutdeild í þeirri fjársvikatilraun með því að ákærði Örn afhenti Ólafi Birni Ólafssyni, tvo víxla, að fjárhæð kr. 200.000 og kr. 250.000, útgefna 12. mars 1997 af ákærða Má og samþykkta til greiðslu 1. maí 1997 af ákærða Má fyrir hönd Brúna, sem greiðslu upp í kaupverð fasteignarinnar að Nesvegi 13, Grundarfirði, og stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða andvirði þeirra, en áður en Ólafur Björn afsalaði sér fasteigninni uppgötvaði hann að víxlarnir voru verðlausir.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga hvað ákærða Má varðar í ákærulið II-3, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga hvað ákærða Örn varðar og sbr. 2. mgr. 22. gr. sömu laga hvað ákærða Má varðar í ákærulið II-4.
III.
Gegn ákærðu Má, R og Erni:
1) Fyrir fjársvik með því að hafa 10. mars í sameiningu svikið út bifreiðina LT-853, Toyota Hi-Lux árgerð 1990, í fyrirtækinu P. Samúelssyni ehf., Nýbýlavegi 6-8, Kópavogi, í nafni Brúna, en í þágu ákærða Arnar sem fékk bifreiðina afhenta, og greitt kaupverð bifreiðarinnar með skuldabréfi að fjárhæð kr. 928.854 útgefnu 7. mars 1997 af ákærða Má fyrir hönd Brúna, með sjálfskuldarábyrgð hans og ákærða R, og með víxli að fjárhæð kr. 237.390 útgefnum af ákærða Má 11. mars 1997, samþykktum til greiðslu 11. maí 1997 af honum fyrir hönd Brúna, og ábektum af ákærða R, en aldrei stóð til af hálfu ákærðu að greiða andvirði viðskiptabréfanna.
2) Ákærðu R og Má fyrir fjársvik með því að ákærði Már stofnaði til reikningsviðskipta í BYKO hf. 13. mars í nafni Brúna og tók sjálfur út vörur sem skuldfærðar voru á þann reikning, þ.á.m. parket og gagnvarið timbur, í verslun fyrirtækisins að Hringbraut 120, 13. mars, 19. mars og 20. mars, allt að verðmæti kr. 725.295 og ákærði R tók út vörur í sömu verslun 17. mars, 18. mars og 20. mars að verðmæti kr. 15.054 sem einnig voru skuldfærðar á reikning Brúna, en aldrei stóð til af hálfu ákærðu að greiða fyrir vörurnar.
3) Ákærða Má fyrir hlutdeild í fjársvikum með því að hafa, með stofnun viðskiptareiknings þess er í 2. lið greinir, gert öðrum kleift að taka út vörur sem skuldfærðar voru á reikning Brúna í verslunum BYKO hf. að Skemmuvegi 4a, Kópavogi og Hringbraut 120, 20. mars og 21. mars að verðmæti kr. 57.747, en aldrei stóð til að greiða fyrir vörurnar.
4) Ákærðu Má og Erni fyrir fjársvik með því að ákærði Már tók út vörur að beiðni ákærða Arnar sem fékk vörurnar og ráðstafaði þeim, og lét ákærði Már skuldfæra á eigin reikning, 19. mars ofn og helluborð og 20. mars þakull og þolplast, í verslun og timbursölu BYKO hf., Skemmuvegi 4a, Kópavogi, allt að verðmæti kr. 308.156, en aldrei stóð til af hálfu ákærðu að greiða fyrir vörurnar.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga hvað ákærða Má varðar í ákærulið III-3.
IV.
Gegn ákærðu G og S fyrir fjársvik með því að hafa notað 5 tékka, samtals að fjárhæð kr. 206.870, á tékkareikning ákærða Más nr. 514231 í Íslandsbanka hf., Lækjargötu, til að svíkja út vörur í verslunum Reykjavík, og gegn ákærða Erni og Má fyrir hlutdeild í þeim brotum með því að ákærði Örn vélritaði texta tékkanna og ákærði Már gaf þá út með eiginhandarundirritun sinni en tékkarnir reyndust allir innistæðulausir þegar til innlausnar þeirra kom í bankastofnunum, enda stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða andvirði þeirra:
1) Tékki nr. 9601460 að fjárhæð kr. 103.000 dagsettur 24. mars 1997. Notaður 21. mars 1997 til að kaupa sjónvarpstæki og hljómkerfi í Radíobúðinni, Skipholti 19 að verðmæti kr. 90.890 en eftirstöðvar tékkans voru greiddar út í reiðufé.
2) Tékki nr. 9601462 að fjárhæð kr. 34.900 dagsettur 24. mars 1997. Notaður 20. mars 1997 til að kaupa GSM síma í verslun Kaplans ehf., Snorrabraut 27.
3) Tékki nr. 9601478 að fjárhæð kr. 30.000 dagsettur 21. mars 1997 og notaður sama dag til að kaupa myndbandstæki í verslun Bónus sf., Holtagörðum.
4) Tékki nr. 9601479 að fjárhæð kr. 30.000 dagsettur 21. mars 1997 og notaður sama dag til að kaupa myndbandstæki í verslun Bónus sf., Holtagörðum.
5) Tékki nr. 9601481 að fjárhæð kr. 8.970 dagsettur 21. mars 1997 og notaður sama dag sem greiðsla fyrir veitingar að fjárhæð kr. 4.470 á veitingastaðnum Pizza Hut, Hótel Esju en starfsfólk veitingahússins vildi ekki skipta tékkanum og var hann því skilinn eftir sem trygging fyrir því að ákærðu G og S kæmu aftur og greiddu fyrir veitingarnar.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga hvað ákærðu Má og Örn varðar.
V.
Gegn ákærðu Stefáni Axel og Má:
A. Ákærða Stefáni Axel fyrir fjársvik og ákærða Má fyrir hlutdeild í þeim fjársvikum með því að ákærði Stefán Axel notaði 8 tékka, samtals að fjárhæð kr. 1.878.866, útgefna af ákærða Má á tékkareikning hans nr. 2733 í Landsbanka Íslands, Árbæjarútibúi, sem meðákærði Stefán Axel fyllti út að öðru leyti og óskaði í öllum tilvikum eftir að yrðu innleystir nokkrum vikum eftir að viðskiptin áttu sér stað, til að svíkja út vörur í verslunum í nafni Brúna, að frátöldum vörukaupum í verslun GKS hf. sem greinir í lið 5 er hann gerði í nafni Casablanca ehf, en tékkarnir reyndust allir innistæðulausir við innlausn í bankastofnunum og stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða andvirði þeirra:
1) Tékki nr. 4161302 að fjárhæð kr. 99.559 dagsettur 25. mars 1997. Notaður 28. febrúar 1997 sem greiðsla fyrir 2 vatnssalerni, 2 þvagskálar og blöndunartæki í sturtu, allt ásamt fylgihlutum, sturtusett og sturtubotn í verslun Tengis ehf., Smiðjuvegi 11, Kópavogi.
2) Tékki nr. 4161304 að fjárhæð kr. 189.945 dagsettur 2. apríl 1997. Notaður 28. febrúar 1997 sem greiðsla fyrir 2 ísskápa, þurrkara, þvottavél og 2 örbylgjuofna í verslun Heklu hf. Laugavegi 170-174, að verðmæti kr. 217.953 án virðisaukaskatts en verslunin veitti ákærða Stefáni Axel fyrir hönd Brúna 30% afslátt af tækjunum.
3) Tékki nr. 4161305 að fjárhæð kr. 24.500 dagsettur 2. apríl 1997. Notaður 6. mars 1997 sem greiðsla fyrir 4 hjólbarða og vinnu þeim tengda í fyrirtækinu E.R. þjónustunni við Kleppsmýrarveg í Reykjavík.
4) Tékki nr. 4161306 að fjárhæð kr. 64.747 dagsettur 2. apríl 1997. Notaður 7. mars 1997 sem greiðsla fyrir 2 hitapotta í heildversluninni Innnes hf., Dalshrauni 13, Hafnarfirði.
5) Tékki nr. 4161307 að fjárhæð kr. 391.567 dagsettur 2. apríl 1997. Notaður 7. mars 1997 sem greiðsla fyrir 44 Mocca stóla í verslun GKS hf., Smiðjuvegi 2, Kópavogi.
6) Tékki nr. 4161310 að fjárhæð kr. 524.842 dagsettur 2. maí 1997. Notaður 11. mars 1997 sem greiðsla fyrir 4 örbylgju-grillofna, 3 ísskápa, 3 blástursofna, 3 helluborð og 2 GSM síma ásamt hleðslutækjum, rafhlöðum og höldurum í verslun Heklu hf. Laugavegi 170-174, að verðmæti kr. 564.005 án virðisaukaskatts en verslunin veitti ákærða Stefáni Axel fyrir hönd Brúna 30% afslátt af tækjunum.
7) Tékki nr. 4161317 að fjárhæð kr. 202.766 dagsettur 2. apríl 1997. Notaður 21. mars 1997 sem greiðsla fyrir 7 handlaugar, 4 vatnssalerni, 2 sturtubotna og 2 vaska allt ásamt fylgihlutum í verslun Tengis ehf., Smiðjuvegi 11, Kópavogi.
8) Tékki nr. 4161318 að fjárhæð kr. 380.940 dagsettur 2. maí 1997. Notaður 21. mars 1997 sem greiðsla fyrir 2 uppþvottavélar, 3 þvottavélar, 3 þurrkara og 3 örbylgju-grillofna í verslun Heklu hf. Laugavegi 170-174, að verðmæti kr. 437.110 án virðisaukaskatts en verslunin veitti ákærða Stefáni Axel f.h. Brúna 30% afslátt af tækjunum.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. 1. mgr. 22. sömu laga hvað ákærða Má varðar.
B. Fyrir fjársvik með því að hafa svikið út fé til fjármögnunar á kaupum þriggja bifreiða í Samvinnusjóði Íslands hf., Sigtúni 42, á grundvelli tveggja skuldskeytingaskjala og eins skuldabréfs þar sem ákærði Már og/eða Brúnir takast á hendur greiðsluskyldu vegna kaupanna, sem ákærði Stefán Axel samdi um við seljendur bifreiðanna auk þess að sjá um öll samskipti við Samvinnusjóð Íslands hf. vegna lántöku Brúna í lið 3, vitandi að hvorki ákærði Már né Brúnir yrðu greiðslufær þegar að gjalddögum kæmi:
1) Með afsali dagsettu 6. mars keypti ákærði Már bifreiðina ST-036, Mercedes Bens árgerð 1988, af Gæludýrahúsinu ehf. og var kaupverðið greitt með yfirtöku hans á eftirstöðvum skuldabréfs upphaflega að fjárhæð kr. 1.662.443 útgefnu 10. febrúar 1997 af Gæludýrahúsinu ehf. til Samvinnusjóðs Íslands hf. með veði í bifreiðinni, að eftirstöðvum kr. 1.673.355,10 við skuldskeytingu sem undirrituð var 4. mars.
2) Samkvæmt tilkynningu um eigendaskipti ökutækis keyptu Brúnir bifreiðina MT-716, Mazda 323 árgerð 1992, af Leifi heppna ehf. 6. mars og af því tilefni gaf ákærði Már út fyrir hönd Brúna sama dag skuldabréf til Samvinnusjóðs Íslands hf. að fjárhæð kr. 622.801 með veði í bifreiðinni og sjálfskuldarábyrgð ákærða Más.
3) Með afsali dagsettu 13. mars keyptu Brúnir bifreiðina OJ-600, Jeep Wrangler árgerð 1992 af Guðmundi Sigurgeirssyni og var kaupverðið greitt með yfirtöku Brúna á eftirstöðvum skuldabréfs upphaflega að fjárhæð kr. 1.588.370 útgefnu 20. desember 1995 af Þórveri hf. til Samvinnusjóðs Íslands hf., með veði í bifreiðinni PZ-693, að uppgreiðsluverði kr. 1.023.885,30 við skuldskeytingu sem undirrituð var 13. mars, og tókst ákærði Már einnig á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu bréfsins.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
VI.
Gegn ákærða Stefáni Axel fyrir tilraun til fjársvika og ákærðu Má og R fyrir hlutdeild í þeirri tilraun með því að ákærði Stefán Axel reyndi hinn 25. mars að svíkja út tvær bifreiðar, Chevrolet Blazer árgerð 1991 og Hyundai Sonata árgerð 1996, í nafni Brúna í starfsstöð Jöfurs hf., Nýbýlavegi 2, Kópavogi, sem hann hugðist greiða með sex samhljóða skuldabréfum sem hann hafði í fórum sínum og hvert var að fjárhæð kr. 500.000, samtals að fjárhæð kr. 3.000.000, útgefin 20. febrúar 1997 af ákærða Má fyrir hönd Brúna með sjálfskuldarábyrgð ákærðu Más og R. Ákærði Stefán Axel var handtekinn í starfsstöð Jöfurs hf. þegar hann hafði afhent sölumanni eitt skuldabréfanna, en aldrei stóð til af hálfu ákærðu að greiða andvirði þeirra.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga hvað ákærða Stefán Axel varðar og sbr. 2. mgr. 22. gr. sömu laga hvað ákærðu Má og R varðar.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Eftirtaldir aðilar krefjast þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta:
1 )R S. Gíslason, Miðvangi 53, Hafnarfirði, kt. 100752-3449, kr. 3.685.315,60 auk dráttarvaxta frá 7. maí 1997 til greiðsludags, vegna ákæruliðar I.
2) Penninn sf., Hallarmúla, Reykjavík, kt. 451095-2189, kr. 18.300 ásamt hæstu lögleyfðu vöxtum frá 12. mars 1997 til greiðsludags, vegna ákæruliðar II-1.
3) Gúmmívinnustofan ehf., Réttarhálsi 2, Reykjavík, kt. 580169-3769, kr. 33.934 auk dráttarvaxta til greiðsludags, vegna ákæruliðar II-2.
4) Ómar Jóhannsson, Miðleiti 12, Reykjavík, kt. 060159-4409, kr. 4.000, vegna ákæruliðar II-3.
5) BYKO hf., Skemmuvegi 2, Kópavogi, kt. 460169-3219, kr. 855.888 auk dráttarvaxta, vegna ákæruliða III-2, III-3 og III4.
6) Radíóbúðin hf., Skipholti 19, Reykjavík, kt. 560294-2639, kr. 103.000 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 21. mars 1997 en síðan dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar IV-1.
7) Kaplan ehf., Snorrabraut 27, Reykjavík, kt. 441295-3249, kr. 34.900, vegna ákæruliðar IV-2.
8) Bónus sf., Skútuvogi 13, Reykjavík, kt. 670892-2478, kr. 60.000 ásamt dráttarvöxtum frá 24. mars 1997 til greiðsludags, vegna ákæruliða IV-3 og IV-4.
9) Tengi ehf., Smiðjuvegi 11, Kópavogi, kt. 681289-3059, kr. 66.918 auk hæstu leyfilegu vanskilavaxta frá 2. apríl að telja, vegna ákæruliða V/A-1 og V/A-7.
10) Hekla hf., Laugavegi 174, Reykjavík, kt. 600189-5139, kr. 956.311 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 26. mars til greiðsludags, vegna ákæruliða V/A-2, V/A-6 og V/A-8.
11) E.R. þjónustan, við Kleppsmýrarveg, Reykjavík, kt. 170369-5139, kr. 24.500 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 6. mars 1997 en síðan dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar V/A-3.
12) Innnes ehf., Dalshrauni 13, Hafnarfirði, kt. 650387-1399, 64.747 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 7. mars 1997 en síðan dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar V/A-4.
13) GKS ehf., Smiðjuvegi 2, Kópavogi, kt. 691289-1339, kr. 62.293 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 7. mars 1997 en síðan dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, vegna ákæruliðar V/A-5.
14) Samvinnusjóður Íslands hf, Sigtúni 42, Reykjavík, kt. 691282-0829, kr. 1.083.301 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. september 1997 til greiðsludags, vegna ákæruliðar V/B-1 og V/B-3. “
Verjandi ákærða, M, krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og verði dæmd refsing þá verði hún skilorðsbundin. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða, M, komi til frádráttar refsivist að fullri dagatölu. Þess er krafist að skaðabótakröfum á hendur ákærða, M, verði vísað frá dómi. Loks er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða, N, krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun að mati dómsins.
Verjandi ákærða, Arnar Karlssonar, krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu og að skaðabótakröfum er kunni að beinast að ákærða, Erni, verði vísað frá dómi. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.
Verjandi ákærðu, Stefáns Axels og V, krefst þess að báðir ákærðu verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing ef dæmd verður verði skilorðsbundin. Komi til óskilorðsbundinnar refsvistar ákærða, Stefáns Axels, er þess krafist að gæsluvarðhald hans komi til frádráttar refsivistinni að fullri dagatölu. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða, G, krefst aðallega sýknu og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að skaðabótakröfum á hendur ákærða, G, verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði, en til vara að málsvarnarlaun verði að mestu leyti greidd úr ríkissjóði .
Verjandi ákærðu, R og Más Karlssonar, krefst þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að þeir hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa. En verði dæmd refsivist vegna annars hvors þessara ákærðu þá er þess krafist að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin og verði dæmd óskilorðsbundin refsivist er þess krafist að gæsluvarðhald þeirra komi að fullri dagatölu til frádráttar. Þess er krafist að skaðabótakröfum á hendur þessum ákærðu verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.
Verjandi ákærða, S, krefst aðallega sýknu og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði. Til vara var krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að málsvarnarlaun verði alfarið lögð á ríkissjóð, en til þrautavara varðandi málsvarnarlaun, að þau verði að verulegu leyti lögð á ríkissjóð.
Báðar ákærur máls þessa voru þingfestar 2. nóvember sl. og málin sameinuð. Vegna umfangs málanna voru þau síðan greind í sundur, en m.a. dvaldi einn ákærðu erlendis á þeim tíma og ekki vitað nákvæmlega komu hans til landsins.
Málið á hendur M og fleirum (kennt við Rúnir) var dómtekið 9. desember sl., en það mál var endurupptekið er munnlegur málflutningur fór fram í málinu á hendur ákærðu, G, og fleirum (kennt við Brúnir) og málflytjendum gefinn kostur á því að reifa sjónarmið sín og kröfur vegna fyrra málsins að nýju og málin að því loknu sameinuð og dómtekin 20. janúar sl.
Mál þessi sættu að miklu leyti rannsókn samtímis hjá RLR og síðar ríkislögreglustjóra. Fjöldi manns var handtekinn og sættu margir gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar auk farbanns og einn hinna ákærðu var sendur hingað til lands eftir handtöku í Hollandi, en hann hafði verið eftirlýstur vegna grunsemda um aðild að málinu.
Þótt einstakir ákæruliðir séu um margt líkir þykir málið í heild þannig vaxið að ekki sé með góðu móti unnt að reifa málavexti heildstætt í byrjun, eins og venja er, hvorki í heild né í hvorum þætti málsins fyrir sig, Rúna eða Brúna þætti.
Í upphafi hvers ákærukafla verður eftir því sem ástæða þykir gerð grein fyrir kæru og málavöxtum í stuttu máli og síðan reifaður framburður ákærðu og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eins og ástæða þykir.
Ákæra dagsett 6. október 1998 kennd við Rúnir sf.
Samkvæmt tilkynningu til Firmaskrár Reykjavíkur, sem móttekin var 12. mars 1996, seldu eigendur Góðborgarans sf. Páli Þórðarsyni félagið hinn 1. nóvember 1995. Samkvæmt tilkynningunni var enginn rekstur hjá félaginu á tímabilinu 1. janúar 1995 til 31. október sama árs, en með tilkynningunni til Firmaskrár Reykjavíkur, móttekinni 14. mars 1996, er tilkynnt um sölu Páls Þórðarsonar á Góðborgaranum sf. til ákærða, M, hinn 1. mars 1996 og á þeim tíma og frá þeim tíma voru skuldbindingar félagsins Páli óviðkomandi. Þá segir í tilkynningunni að enginn rekstur hafi verið á árinu 1996. Með tilkynningunni er prókúruumboð Páls afturkallað og greint frá því að ákærði, M, fari eftir það með prókúruumboð vegna félagsins. Þá var nafni félagsins breytt úr Góðborgaranum sf. í Rúnir. Firmaskrá Reykjavíkur barst enn tilkynning, sem móttekin var 21. mars 1996, þar sem tilkynnt var um það að 1. mars 1996 hefði Þorsteinn Smári Þorsteinsson, kt. 050440-4789, gengið inn í félagið með ótakmarkaðri ábyrgð og félagið eftir það rekið sem „sameignarfélagið Rúnir sf “.
I
[...]
II.
Ákærðu hafa allir neitað sakargiftum samkvæmt þessum kafla ákærunnar og því að hafa með skjalafalsi og fjársvikum í sameiningu svikið út matvörur eins og lýst er í upphafi þessa ákærukafla.
Verður nú gerð grein fyrir málavöxtum vegna einstakra töluliða þessa kafla ákærunnar en afstaða ákærðu er að mestu leyti hin sama til sakarefnis í öðrum töluliðum í þessum ákærukafla. Verður því að mestu látið nægja að rekja afstöðu þeirra undir tölulið 1 og vísa síðan til þess er vikið verður að málavöxtum í einstökum töluliðum síðar.
II 1
Með bréfi dags. 24. maí 1996 kærði Ástríður Grímsdóttir hdl. ákærða, M og Þorstein Þorsteinsson, forsvarsmenn Rúna sf. Í kærunni segir að þeir hafi komið í Reykjagarð 2. apríl 1996 og keypt kjötvörurnar sem lýst er í þessum ákærulið. Kjötið var afgreitt samdægurs og lögðu mennirnir fram tryggingavíxilinn sem lýst er í ákærunni. Nokkrum dögum síðar barst ávísunin að fjárhæð 925.377 krónur en við innlausn reyndist ekki innistæða fyrir henni og tékkareikningnum hafði verið lokað.
Vitnið, Bjarni Ásgeir Jónsson framkvæmdastjóri, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum og ákærða, M. Bjarni kvað M hafa komið að máli við sig í apríl 1996 og óskað eftir kjúklingum til kaups og sagðist hann vera að afla fjár í ferðasjóð stúdenta. Til stæði að selja kjötið sem yrði greitt að sölu lokinni. Viðskiptin voru ákveðin og afhenti M tryggingavíxilinn, sem lýst er í þessum ákærulið, en áður var athugað hvort einstaklingarnir á víxlinum væru á vanskilaskrá en svo reyndist ekki vera. Er dráttur varð á greiðslu fyrir kjötið barst ávísunin sem reyndist innistæðulaus er til kom.
Vitnið, Einar Örn Jónsson framkvæmdastjóri Nóatúns, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við ákærða, N, en hann seldi Nótatúni vörurnar sem lýst er í þessum ákærulið og næstu þremur liðum einnig, utan lambakjötið í ákærulið II.3, en Einar annaðist ekki þau kaup. Einar Örn kvað sér hafa skilist að N væri að selja fyrir Rúnir sf. Einar spurði N hvar hann hefði fengið vörurnar sem hann seldi Nóatúni og hefði N í öllum tilvikum framvísað reikningi, sem sýndi hvaðan vörurnar voru og að þær væru greiddar. Einar kvaðst hafa veitt því athygli að kílóverð, sem Nóatún keypti vörurnar á, var nokkru lægra en kaupverð Rúna sf. samkvæmt reikningnum sem ákærði, N, framvísaði. Einar kvað allskyns viðskiptamáta þekkjast, einkum með fuglakjöt og sér í lagi þegar um staðgreiðslu væri að ræða og menn við slíkar kringumstæður tilbúnir að taka á sig afföll.
Vitnið, Jón Þorsteinn Jónsson kaupmaður í Nóatúni, lýsti samskiptum sínum við ákærða, N, og er þeim viðskiptum lýst í ákærulið II.3, en hann staðfesti viðskipti ákærða, N, og Nóatúns með kjúklingana.
Vitnið, Þorsteinn Smári Þorsteinsson öryrki, kom fyrir dóminn og kvað sig ekki reka minni til þess að hafa heimilað að nafn hans yrði notað á víxilinn sem hér um ræðir.
Ákærði, M, staðfesti fyrir dóminum að hafa ritað nafn sitt á víxilinn, sem lýst er í þessum ákærulið og að hafa ritað nafn Þorsteins Þorsteinssonar sem ábekings á víxlinum með hans samþykki. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa gefið út tékkann en telja að meðákærði Örn hefði sent tékkann í pósti. Hann lýsti því er hann fór í Reykjagarð og notaði víxilinn þar í viðskiptum eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kvaðst hafa sagt viðsemjanda sínum það, að fyrir dyrum stæði fjáröflun fyrir framhaldsskólanemendur, en þetta hefði hann sagt að undirlagi meðákærða Arnar Karlssonar. Ákærði kvaðst hafa verið auðtrúa og trúað þessu. Ákærði, M, fór síðan ásamt meðákærða, N, er hann seldi kjúklingana í Nóatúni og fékk ákærði víxil í hendur, sem seldur var í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og lagði ákærði andvirði víxilsins inn á tékkareikning Rúna hjá sparisjóðnum.
Ákærði, N, neitar sök, en viðurkenndi að hafa selt kjúklingana sem hér um ræðir. Hann kvað meðákærða, Örn Karlsson, hafa kynnt sig fyrir meðákærða M, eiganda Rúna sf. Hann kvaðst að beiðni meðákærða, Arnar Karlssonar, hafa aflað tilboða í kjúklingana, en meðákærði, Örn, vissi að Einar, framkvæmdastjóri Nóatúns, var skólabróðir ákærða úr æsku. Ákærði hafi verið sölumaður hjá Rúnum sf. í um ½ mánuð á þessum tíma, en ákærði kvað lítið mál hafa verið fyrir sig að selja matvælin, enda hefði hann 10 ára reynslu sem sölumaður. Tilboðin sem ákærði aflaði í matvælin bar ákærði undir meðákærðu, M og Örn, en ekki kveðst ákærði vita hvor þeirra tók ákvörðun um að taka tilboðunum, sem ákærði aflaði í vörurnar, en sér virtist sem meðákærði, Örn, stjórnaði, enda meðákærði, M, að sínu viti ekki í ástandi til að taka slíkar ákvarðanir, en ákærði lýsti ástandi meðákærða, M, svo, að hann hefði verið drukkinn eða í öðru annarlegu ástandi. Hann sá meðákærða, Örn, iðulega vélrita kvittanir vegna þessara viðskipta og minntist þess að hafa afhent honum greiðslur fyrir vörurnar í einhver skipti, en gat ekki nefnt nákvæmlega hvaða tilvik það voru en meðákærði, Örn, hafi í flestum tilvikum verið viðsstaddur er greiðsla var innt af hendi eftir sölu matvælanna. Hann kvað kjúklingana hafa verið komna í geymslu hér í borg er ákærði tók að sér að afla tilboða í vöruna og hið sama eigi við um önnur matvæli, sem ákærði seldi. Í engu tilvikanna tók ákærði þátt í að afla vörunnar. Hann kom í öllum tilvikum að sölunni er varan var komin í geymslu hér í borginni. Ákærði kvaðst sjálfur hafa sótt vörurnar í geymslu og komið til kaupandans, en stundum hefði meðákærði, M, verið með í för. Útbúnir voru reikningar vegna sölunnar á skrifstofu Rúna og varan afhent og söluandvirði afhent meðákærða, M, á skrifstofu Rúna sf. Ákærði N kvaðst ekkert vita um víxilinn, sem um ræðir í þessum ákærulið, og aldrei hafa hitt Þorstein S. Þorsteinsson. Ákærði kvaðst hafa fengið greidd sölulaun, greitt hefði verið lítið í einu, en aðaluppgjörið hefði farið fram er framvísað var í banka tékkum vegna sölunnar til Sóma, sem lýst er í ákærulið II.5.
Ákærði, Örn Karlsson, neitar sök í öllum liðum þessa kafla ákærunnar. Hann mótmælir efnislýsingu ákærunnar í upphafi þessa kafla og einstökum töluliðum einnig. Hann kvaðst ekkert vita um það hvort meðákærðu, M og N, hefðu komið að þessum viðskiptum eins og ákært er fyrir.
Vegna stofnunar Rúna sf. og ætlaðra tengsla ákærða, Arnar, við það félag og/eða ákærða, M, verður í upphafi rakinn framburður ákærða, Arnar, um afskipti hans að stofnun Rúna sf. og samband hans við ákærða, M, og fleira áður en vikið verður að framburði ákærða, Arnar, varðandi eistaka ákæruliði.
Ákærði, Örn Karlsson, lýsti afskiptum sínum að stofnun Rúna sf. svo, að hann hefði hitt ákærða, M, á kaffihúsi hér í borg, en meðákærði, V, hefði bent sér á það að M hefði góðar hugmyndir varðandi framleiðslu og útflutning á víkingamunum, sem hann framleiddi úr leir. Ákærði kvaðst hafa kynnt sér þetta nánar, meðal annars farið heim til ákærða, M, og hefði sér litist vel á. Ákvað Örn þá að leggja fram fjármuni til kaupa á hlutafélagi, en hann lýsti því að í raun hefði ekki verið keypt annað en kennitalan. En svona félög eða kennitölur væru til sölu á almennum markaði fyrir lægri fjárhæð en það kostar að skrá nýtt félag hjá sýslumanni. Hann kvaðst ekki vita um aðrar eignir Rúna sf. en leirstytturnar sem ákærði, M, gerði. Ákærði, Örn, kvað meðákærða, M, hafa sagt sér að hann hefði 75 til 80.000 krónur í fastar tekjur á mánuði og ætti auk þess fasteign. Keypt var félag sem hét Góðborgarinn og nafni þess breytt í Rúnir sf., sbr. það sem áður sagði þar um. Ákærði hafði skrifstofuaðstöðu að Langholtsvegi 115b og úr varð að leigusali þar leigði meðákærða, M, eitt herbergi undir starfsemi Rúna sf. Ákærði neitaði því að hafa aðstoðað ákærða, M, að stofna tékkareikning í Landsbanka, Íslandsbanka og í Sparisjóði vélstjóra, en ákærði, M, greindi svo frá. Ákærði, Örn staðfesti, að hafa lánað meðákærða, M, 30.000 krónur til að leggja inn við stofnun reiknings í Sparisjóði vélstjóra. Um samskipti sín og M greindi Örn frá því, að hann hefði lánað honum 300.000 krónur á löngu tímabili, en Örn kvaðst hafa verið starfsmaður Rúna sf. á því tímabili sem ákæran tekur til og hafa tilkynnt sig af atvinnuleysisskrá er hann hóf störf hjá Rúnum. Ákærði, Örn, nefndi ýmislegt sem gert var í því skyni að markaðssetja leirmunina, sem ákærði, M, framleiddi. Í byrjun hefði M verið virkur og sannfærandi í því sem hann var að fást við, en síðan hallaði undan fæti hjá honum og hann átt í stöðugri óreglu. Ákærði, Örn, staðfesti að hafa tekið á leigu frystihólf fyrir Rúnir sf.
Svo sem lýst var að framan neitar ákærði, Örn, sök. Hann kvaðst ekkert hafa komið nærri þeim viðskiptum, sem hér er lýst. Hann kvaðst aldrei hafa orðið vitni að því að meðákærði, M, væri að semja um kaup á vörum. Hann vissi í engu tilvikanna hver gerði kaupin og vissi í engu tilvikanna hvað varð um vöruna. Hann lýsti því hinsvegar fyrir dóminum að hann hefði bent meðákærða, M, á meðákærða, N, sem mjög góðan sölumann og kvaðst Örn ekki vita um önnur afskipti meðákærða, N, að málinu en sölumennskuna. Örn kvaðst ekki hafa rætt verðtilboð í vöru sem Rúnir sf. áttu og meðákærði, N, seldi og ekki heldur hafa tekið við greiðslu frá honum vegna sölu á vörum, sem um ræðir í þessum kafla ákærunnar. Hann kvaðst iðulega hafa vélritað tékka og reikninga fyrir meðákærða, M, sem hafi átt erfitt með að gera það sjálfur, en M hefði alfarið haft með fjármál Rúna sf. að gera. Í sumum tilvikanna hefði komið fram á tékkunum hver átti að fá þá og þannig hefði hann vitað um kaup á matvörum. Ákærði lýsti því að hann hefði séð meðákærða undirrita alla tékkana sem lýst er í öllum sjö töluliðum þessa kafla ákærunnar.
Ákærði, Örn, staðfesti fyri dóminum framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann hefði vélritað tékka að fjárhæð 925.377 krónur og einnig að hafa vélritað texta víxils að fjárhæð 920.000 krónur. Hann kvaðst hafa séð meðákærða, M, undirrita bæði víxilinn og tékkann, en ekki vita um aðrar nafnritanir á víxilinn. Ákærði, Örn, kvaðst og hafa vélritað greiðslukvittun frá Rúnum sf. til Nótaúns vegna kjötsölunnar sem hér er ákært út af.
II 2
Kæra dagsett 23. maí 1996 var send lögreglu vegna viðskiptanna sem hér er ákært út af. Segir í kærunni að ákærði, M, hefði tekið við kjúklingunum að Gnoðavegi 44, þar sem kjötið var sett í geymslu. Tékkinn sem notaður var reyndist innistæðulaus eins og lýst er í ákærunni.
Vitnið, Kristján Gunnarsson bóndi á Fögrubrekku, kom fyrir dóminn. Hann kvað hafa verið hringt í sig og er hann kynnti sig í símanum hefði viðmælandinn sagt að í símanum væri nafni hans sem hringdi í nafni Rúna sf. Síðan var því lýst að Rúnir keyptu kjúklinga fyrir útskriftarnema í framhaldsskólum í Reykjavík til endursölu. Kristján kvaðst hafa ætlað að kanna málið, sem hann gerði með því að kanna kennitölu Rúna sf., sem reyndist í lagi. Hann kvað Kristján hjá Rúnum síðan hafa hringt og kaupin ákveðin en beðið var um greiðslufrest þannig að ávísun sem greitt yrði með yrði stíluð fram í tímann, því nemendurnir sem ætluðu að selja kjötið þyrftu smátíma til að gera full skil. Varan var síðan afhent að Langholtsvegi 115b hinn 18. apríl 1996. Kristján kvað Þórarinn Magnússon hafa verið með sér í för, en enginn hefði verið við er þeir komu á staðinn. Fljótlega komu þrír menn og sá sem var í forsvari kvaðst heita M og hafði sá eitthvert millinafn sem Kristján mundi ekki hvert er. Þeir hefðu síðan farið afsíðis og gengið frá kaupunum. M hefði afhent sér ávísunina og skrifað undir hana á staðnum og sömuleiðis hefði hann skrifað undir reikning vegna viðskiptanna. Kristján benti á ákærða, M, sem var viðstaddur aðalmeðferð málsins, og kvað hann vera þann mann sem hann átti viðskipti við, eins og lýst var að ofan. Tékkinn hefði ekki fengist greiddur.
Vitnið, Þórarinn Magnússon sendibílstjóri, kom fyrir dóminn og lýsti flutningi kjúklinganna að Langholtsvegi 115b og þaðan í frystigeymslur við Gnoðarvog. Hann mundi ekki eftir mönnunum, sem hann átti samskipti við vegna þessa, og þykir ekki ástæða til að rekja vitnisburð hans frekar.
Vitnið, Haraldur Árnason lögreglufulltrúi, staðfesti fyrir dóminum vinnu sína við rannsókn rithandar á tékkanum sem hér um ræðir. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar eru nokkrar líkur á því að ákærði, M, hafi undirritað tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákærði, M, neitar sök. Hann kvaðst ekki vita um hver samdi um kaup þau sem hér er lýst og ekki hafa komið þar nærri og ekki gefið út tékkann.
Ákærði, N, neitar sök. Hann bar fyrir dóminum að hafa selt þessa vöru í Nóatúni ehf. Má vísa til framburðar hans hér að ofan um samskiptin við Nóatún ehf. og sölu á vöru sem hann seldi fyrir Rúnir sf. og rakið var að ofan.
Ákærði, Örn Karlsson, neitar sök og er vísað til þess sem áður sagði um afstöðu hans og rakið var undir ákærulið II.1. Hann kvaðst ekki geta neitað því að hafa vélritað tékka að fjárhæð 588.622 krónur, sem hér er lýst. Örn kvaðst þekkja rithönd meðákærða, M, á þessum tékka. Hjá lögreglunni bar ákærði, Örn, að hann hefði sennilega vélritað reikning til Nótúns vegna sölu kjúklinganna sem hér um ræðir. Ákærði kvaðst hafa komið fyrir tilviljun að Langholtsvegi 115b ásamt meðákærða, N, er þar var staddur sendiferðabíll og maður sem heitir Kristján en meðákærði, M, verið þar fyrir. Í ljós kom að í sendibílnum voru kjúklingar, sem flytja átti í frystihólfið að Gnoðarvogi 46, en sendibílstjórinn rataði ekki þangað og kvaðst Örn hafa vísað honum leiðina og aðstoðað við að bera kjúklingana inn í frystigeymsluna.
II 3
Birgir Marel Jóhannesson, framkvæmdastjóri Barðans hf., sem seldi kjötið sem hér um ræðir, sendi kæru til lögreglunnar vegna fjársvika hinn 30. maí 1996. Hann kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hefði einungis haft símsamband við mann sem kvaðst heita M og vera framkvæmdastjóri Rúna. Leitað var eftir kjötkaupum og varð af þeim eins og lýst er í ákærunni. Sér hefði verið greint frá því að Rúnir væru að afla fjár fyrir ferðasjóð framhaldsskólanema og ákveðnir skólar nefndir í þessu sambandi. Sér hefði verið sendur víxill sá sem lýst er í ákærunni og eftir athugun hefði ekki annað komið í ljós en að aðilarnir á víxlinum væru ekki á svörtum lista að sér skildist samkvæmt upplýsingum frá banka. Greiða átti helming kjötsins, en gera endanlega upp síðar. Er uppgjör dróst kvaðst Birgir hafa haft samband, en sér verið sagt að svolítið illa gengi að safna saman peningunum hjá félagshópunum og var því send ávísun sú sem lýst er í ákærunni með beiðni um geymslu í viku. Ekki reyndist innistæða fyrir hendi er til innlausnar kom, en tap Barðans vegna þessa máls var mikið og átti stóran þátt í gjaldþroti fyrirtækisins.
Vitnið, Þorbergur A. Viðarsson iðnnemi, kom fyrir dóminn, en hann var starfsmaður Sjófangs er kjötið kom til geymslu þar frá Barðanum hf. Hann benti á ákærða, M, sem einn þeirra manna sem sóttu kjötið. Ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð Þorbergs frekar.
Vitnið, Jón Þorsteinn Jónsson kaupmaður í Nóatúni, lýsti samskiptum sínum við ákærða, N, einkum vegna kaupa á rúmum 5 tonnum af lambakjöti, en Jón Þorsteinn annaðist þau kaup. Hann kvaðst hafa samþykkt tvo víxla vegna þessara kaupa og ekki spurt ákærða, N, út í þetta frekar enda vissi hann að Einar bróðir hans hefði áður keypt kjúklinga af ákærða, N, sem hefði reitt fram kvittanir sem sýndu að varan var greidd. Ekki vissi Jón Þorsteinn um áritanir á víxlana. Þá mundi hann ekki hvort borið hefði á góma milli sín og ákærða, N, hvort N hefði komist yfir kjötið á grundvelli skuldabréfaviðskipta.
Vitnið, Haraldur Árnason lögreglufulltrúi, staðfesti fyrir dóminum vinnu sína við rannsókn rithandar á tékkanum og víxlinum sem hér um ræðir. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar eru nokkrar líkur á því að ákærði, M, hafi undirritað tékkann og víxilinn, sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákærði, M, ýmist neitaði eða vissi ekki hvort hann kom að samskiptunum við Barðann. Hann kvaðst hafa skrifað nafn sitt á víxilinn sem hér er lýst, en ekkert vita um nafnritun Steinars Karls Hlífarssonar. Fyrir liggur að kjötið sem hér um ræðir var sett í geymslu stuttan tíma hjá Sjófangi og ákærði, M, kvaðst að beiðni meðákærða, Arnar Karlssonar, hafa greitt Sjófangi reikning vegna þeirrar geymslu.
Ákærði, N, neitar sök. Hann viðurkenndi hins vegar að hafa selt kjötið í Nóatúni ehf. fyrir Rúnir sf. eins og lýst er. Vísað er til þess sem áður er rakið um afstöðu ákærða, N, varðandi sakarefnið á hendur honum í einstökum töluliðum þessa kafla ákærunnar. Vegna sölu þessa kjöts kvaðst ákærði að beiðni Einars, framkvæmdastjóra hjá Nóatúni, hafa útvegað reikning hjá Rúnum sf., sem sýndi að kjötið var greitt af hálfu þess fyrirtækis.
Vísa má til þess sem áður var sagt um afstöðu ákærða Arnar, en hann neitar sök. Hann kvaðst muna vel eftir því er hann vélritaði tékka að fjárhæð 2.175.980 krónur, sem hér er lýst. Hjá lögreglu bar Örn, og staðfesti þann framburð fyrir dóminum, að þetta hefði eins og áður verið gert samkvæmt beiðni meðákærða, M, og einnig að hans beiðni hefði ákærði vélritað víxil þann er um ræðir í þessum ákærulið. Hann kvaðst ekki vita um nafnritun Steinars Karls Hlífarssonar á víxilinn, en hann kvaðst hafa séð meðákærða, M, skrifa nafn sitt á bæði skjölin.
II 4
Þórunn Kristjánsdóttir, bóndi á Vatnsenda, kærði fjársvik til lögreglunnar 23. maí 1996 vegna háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Hún kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við Rúnir svo, að í apríl 1996 hefði hringt maður sem kynnti sig sem M og starfaði hjá Rúnum, en það fyrirtæki hefði verið stofnað vegna brautskráningar nemenda við menntaskóla hér í borg og tilgangurinn væri að afla fjár vegna ferðalags. Sér hefði fundist þessi saga trúleg, enda á þeim tíma sem brautskráning á sér stað. Samið var um kaupin og veittur greiðslufrestur, því ekki yrði unnt að greiða fyrr en nemendurnir hefðu selt kjötið. Ávísunin var send í pósti og átti að geymast einhvern tíma, en er til innlausnar kom var reikningurinn lokaður. Þórunn fór til Reykjavíkur með kjötið, en þar hitti hún fyrir mann, sem hún kallaði M, en sá hefði hjálpað henni við að koma kjötinu fyrir í frystigeymslu í Gnoðarvogi. Hún kvaðst hafa talið þetta sama mann og hún ræddi við símleiðis og lýst var. Fyrir dóminum kvaðst hún ekki treysta sér að þekkja þennan mann aftur, en nokkrir hinna ákærðu voru staddir í dóminum, meðal annars ákærði, M.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi rannsakaði rithönd á þessum tékka og staðfesti fyrir dóminum þá niðurstöðu sína að nokkrar líkur væru á því að ákærði, M, hefði skrifað undir tékkann sem hér er lýst.
Ákærði, M, neitar sök og kvaðst ekkert vita um þessi viðskipti. Hann kvaðst ekki hafa tekið við þessum kjúklingum er þeir voru fluttir í frystigeymslu í Gnoðarvogi. Hann hefði gert það einu sinni, en ekki er þessir kjúklingar komu austan úr Hreppum. Kjúklingarnir sem hér um ræðir voru seldir Nóatúni á 403.423 krónur og var greitt með víxli. Ákærði, M, kvaðst hafa selt víxilinn í Sparisjóði vélstjóra og með sér í för hefðu verið meðákærðu, Örn Karlsson og N, en andvirði víxilsins var lagt inn á reikning Rúna hjá sparisjóðnum.
Afstaða ákærða, N, til sakarefnis hér er hin sama og fyrr. Hann neitar sök, en viðurkennir að hafa selt vörurnar eins og lýst er í ákærunni. Vísað er til ofanritaðs um afstöðu hans og framburðar ákærða, M, um sakarefni þetta sem og önnur í II.kafla ákærunnar.
Vísað er til þess sem að ofan greinir um afstöðu ákærða, Arnar Karlssonar, til þessa sakarefnis, en hann neitar sök. Hann staðfesti skýrslu þá sem hann gaf hjá lögreglunni, þar sem hann viðurkenndi að hafa vélritað tékka að fjárhæð 504.433 krónur, sem hér er lýst, og að hafa séð meðákærða, M, undirrita tékkann. Hann kvaðst einnig hafa vélritað reikning frá Rúnum sf. vegna sölu kjúklinganna.
II 5
Hinn 23. maí 1996 var send kæra vegna fjársvika, sem lýst er í þessum ákærulið. Í kærubréfinu segir að ákærði, M, hafi tekið við vörunni og greitt með tékka gefnum út á reikning, sem lokaður var er til innlausnar kom.
Vitnið, Arnór Pálsson matreiðslumaður, kom fyrir dóminn, en hann var starfsmaður Sóma, sem keypti rækjurnar af Rúnum, sem lýst er í þessum ákærulið. Hann staðfesti þessi kaup er hann kom fyrir dóminn.
Vitnið, Jóel Kristjánsson framkvæmdastjóri, lýsti fyrir dóminum samskiptum við forsvarsmenn Rúna vegna rækjusölunnar, sem hér er lýst. Hann kvaðst hafa fengið símhringingu þar sem falast var eftir rækju til kaups. Staðfesting um kaupin hefði síðan borist á faxi og eftir að könnuð var kennitala Rúna sf. hefði ekkert athugavert komið í ljós og rækjan seld og átti að staðgreiðast við afhendingu í Vöruflutningamiðstöðinni. Ekkert hefði komið í ljós fyrr en við innlausn tékkans að ekki reyndist vera innistæða á reikningnum, en ávísunin var dagsett fram í tímann sem ekki átti að vera því staðgreiða átti rækjuna. Jóel hitti engan forsvarsmann Rúna vegna viðskiptanna sem öll fóru fram símleiðis.
Vitnið, Haraldur Árnason lögreglufulltrúi, staðfesti fyrir dóminum vinnu sína við rannsókn rithandar á tékkanum sem hér um ræðir. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar eru nokkrar líkur á því að ákærði, M, hafi undirritað tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákærði, M, neitar sök og kvaðst ekki hafa samið um þessi kaup. Hann taldi meðákærða, Örn Karlsson, hafa gert það. M kvaðst hafa farið ásamt meðákærða, N, að sækja rækjuna er hún kom til Reykjavíkur frá Skagaströnd. Hann kvaðst hafa farið með umslag frá Erni Karlssyni og umslagið afhenti hann afgreiðsludömu. Ákærði kvaðst hafa gefið út tékka, sem notaður var til að greiða fyrir flutning vörunnar. Þá lýsti hann því er hann fór ásamt meðákærða, N, í Sóma þar sem rækjurnar voru seldar og greitt var með fjórum tékkum og neitaði ákærði, M, að hafa framselt nokkurn þeirra, en nafn og kennitala ákærða er aftan á einum tékkanna. Þá kveðst ákærði, M, ekkert hafa fengið í sinn hlut af söluandvirðinu.
Ákærði, N, neitar sök, en viðurkennir sölu þessarar vöru fyrir Rúnir sf. Vísað er til þess sem áður er rakið til skýringar og afstöðu hans til sakarefnisins. Hann kvaðst muna það vel að kauptilboð rækjunnar hefði hann borið undir meðákærða, Örn Karlsson, sem samþykkti tilboðið áður en salan fór fram.
Vísað er til þess sem að ofan greinir um afstöðu ákærða, Arnar, til þessa sakarefnis, en hann neitar sök. Hann staðfesti skýrslu þá sem hann gaf hjá lögreglunni, þar sem hann viðurkenndi að hafa vélritað tékka að fjárhæð 963.300 krónur, sem hér er lýst og að hafa séð meðákærða, M, undirrita tékkann. Örn kvaðst einnig hafa vélritað reikninga frá Rúnum sf. vegna sölu rækjunnar, en þetta hefði hann gert samkvæmt beiðni meðákærða, M.
II 6
Í kæru dagsettri 13. maí 1996, vegna viðskiptanna sem hér er ákært út af, segir að Guðmundur Hörður Jónsson hafi haft samband við Útgerðarfélag Akureyrar fyrir hönd Rúna sf. Keyptur var fiskur og hann sagður til sölu fyrir nemendafélag skóla sem safnaði peningum til að standa straum af skólaferðalagi. Sölu fisksins átti að vera lokið 20. maí og var sendur tékki vegna viðskiptanna og hann dagsettur 20. maí, eins og lýst er í ákærunni, en tékkinn hafi reynst innistæðulaus við sýningu og reikningi lokað 21. s.m.
Vitnið, Jón S. Norðkvist fisksölumaður, kom fyrir dóminn. Hann lýsti því er maður ræddi við hann símleiðis í nafni Rúna á árinu 1996. Fram kom að Rúnir keyptu fisk fyrir frmhaldsskóla til að selja. Kaup voru ákveðin og fór Jón til Reykjavíkur til að ganga frá sölunni. Hann kvaðst hafa hitt ákærða, M, á Langholtsvegi og þar hafi M skrifað nafn sitt á víxil vegna kaupanna og þar hefði verið gengið frá sölunni á fiskinum, en ákærði, M, var eini viðsemjandi Jóns. Síðar hefði tékki að fjárhæð 1.125.487 krónur verið sendur í pósti norður.
Vitnið, R Þröstur Grímsson, kom fyrir dóminn og lýsti því er ákærði, N, leitaði til hans um sölu 1 tonns af ýsu á árinu 1996. R afþakkaði og vissi ekkert um afdrif ýsunnar.
Vitnið, Haraldur Árnason lögreglufulltrúi, staðfesti fyrir dóminum vinnu sína við rannsókn rithandar á tékkanum sem hér um ræðir. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar eru nokkrar líkur á því að ákærði, M, hafi undirritað tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákærði, M, neitar sök. Hann kvaðst ekki geta tjáð sig um þessa meintu háttsemi. Hann myndi ekkert eftir þessu. Hann lýsti því einnig að hann teldi meðákærða, Örn Karlsson, hafa dregið sig inn í þetta. M staðfesti að hafa skrifað nafn sitt á víxil þann, sem lýst er í þessum ákærulið. Hann kvaðst ekki hafa hitt Jón S. Norðkvist á skrifstofu Rúna á Langholtsveginum.
Ákærði, N, neitar sök. Hann kvaðst hafa reynt að selja þennan físk, en ekki tekist og hefði fiskurinn þá verið settur í geymslu í Hafnarfirði.
Vísað er til þess sem að ofan greinir um afstöðu ákærða Arnar til þessa sakarefnis, en hann neitar sök. Hann staðfesti skýrslu þá sem hann gaf hjá lögreglunni, þar sem hann viðurkenndi að hafa að beiðni meðákærða, M, vélritað tékka að fjárhæð 1.125.487 krónur, sem hér er lýst og að hafa séð meðákærða, M, undirrita tékkann.
II 7
Kæra vegna þessa ákæruliðar barst lögreglunni 4. júní 1996 og kært var fyrir viðskipti sem lýst er í þessum ákærulið og beindist kæran að ákærða, M.
Vitnið, Kári Snorrason framkvæmdastjóri Særúnar, kom fyrir dóminn. Hann kvað mann hafa hringt í sig og leitað eftir kaupum á rækju, en kaupin hafi verið vegna skólakrakka, sem voru að fjármagna utanlandsferð. Rækjuna sendi Kári sjóleiðina til Reykjavíkur og greiða átti með ávísun, sem send var í pósti, en Kári kvað hafa verið sendar tvær ávísanir, líklega fyrir misgáning, en hann endursendi aðra í ábyrgð, en bréfið var aldrei sótt. Hann kvað einu samskipti Sóma og fyrirsvarsmanna Rúna hafa verið símleiðis.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi staðfesti fyrir dóminum þá niðurstöðu sína, að miklar líkur væru á því að ákærði, M, hefði undirritað ávísun þá, sem hér um ræðir.
Ákærði, M, neitar sök og kvaðst ekki kannast við þessi viðskipti.
Ákærði, N, neitar sök og vísast til þess sem áður er rakið um afstöðu hans til þessa sakarefnis. Hann viðurkennir að hafa selt þessa vöru og kveðst minnast þess vel er hann bar kauptilboð vegna þessarar sölu undir meðákærða, Örn Karlsson, sökum þess að meðákærði, M, var illa haldinn af timburmönnum og ekki viðræðuhæfur.
Vísað er til þess sem að ofan greinir um afstöðu ákærða, Arnar, til þessa sakarefnis, en hann neitar sök. Örn staðfesti skýrslu þá sem hann gaf hjá lögreglunni, þar sem hann viðurkenndi að hafa að beiðni meðákærða, M, vélritað tékka að fjárhæð 616.512 krónur, sem hér um ræðir, og að hafa séð meðákærða, M, undirrita tékkann og einnig að beiðni meðákærða, M, vélritað og fyllt út reikning frá Rúnum sf. vegna sölu rækjunnar, eins og lýst er í ákærunni.
III 1
Ingvar Bjarnason markaðsstjóri kom fyrir dóminn og lýsti því er kaup þessa vélsleða áttu sér stað. Hann kvað hafa verið hringt í Merkúr hf. og spurt um ákveðinn vélsleða. Tilboð í sleðann var samþykkt í fyrirtækinu og útbúnir pappírar vegna sölunnar. Karlmaður kom og sótti pappírana til undirritunar og annar kom með þá til baka undirritaða. Vélsleðinn var síðan fluttur að húsnæði Rúna við Langholtsveg. Ingvar kvað viðsemjanda sinn um kaupin hafa kynnt sig sem M og hann hefði sent tilboð í vélsleðann á faxi og undirritað skuldabréf vegna kaupanna.
Vitnið, Ísleifur Þorbergsson verslunarstjóri, kom fyrir dóminn og lýsti vitneskju sinni um þau viðskipti, sem Ingvar Bjarnason lýsti og rakin voru að framan. Ekki er ástæða að reifa vitnisburð Ísleifs hér.
Vitnið, Þorsteinn Smári Þorsteinsson, lýsti því fyrir dóminum að hann hefði ekki ritað nafn sitt á víxilinn og ekki gefið leyfi til þess að nafn hans yrði notað.
Vitnið, Steinar Karl Hlífarsson, kannast ekki við nafnritun sína sem votts undir skuldabréfið, sem lýst er í þessum ákærulið.
Vitnið, Hafberg Þórisson garðyrkjumaður, kom fyrir dóminn og lýsti því er ákærði, Örn Karlsson, kom með vélsleðann sem hér um ræðir á kerru á heimili Hafbergs að Lambhaga við Vesturlandsveg. Vélsleðinn var óhreyfður á kerrunni uns lögreglan sótti hann.
Ákærði, M, kvaðst fyrir dóminum ekki geta svarað því hvort hann hefði gefið út skuldabréfið eins og ákært er vegna og engu getað svarað vegna þess og þá hvort hann hefði verið borgunarmaður. Ákærði lýsti því að í upphafi hefði staðið til að Rúnir yrðu með leirbrennsluofn vegna framleiðslu er ákærði hugðist leggja út í, en hann hefði enga stjórn haft á þróun mála. Hann sagði að meðákærði, Örn Karlsson, hefði átt hugmyndina að því að keyptur yrði vélsleði sem átti að endurselja bónda á Snæfellsnesi með 100.000 króna hagnaði. Ákærði mundi eftir ferð sinni í Merkúr hf. vegna kaupanna, en taldi að hann hefði farið með umslag þangað sem hann afhenti og vélsleðinn hefði borist nokkrum dögum síðar. Hann mundi ekki hvort hann bað um að vélsleðinn yrði fluttur að Langholtsvegi 115b, en það gæti vel verið. Ákærði, M, lýsti því hjá lögreglunni að hann hefði gefið út skuldabréfið sem hér um ræðir, en kvaðst ekki getað svarað því fyrir dóminum hvort sá framburður væri réttur.
Ákærði, Örn Karlsson, neitar sök. Hann kvað meðákærða, M, hafa keypt vélsleðann sem hefði verið fluttur að Langholtsvegi 115b þar sem hann var skilinn eftir. Þar hefði vélsleðinn verið um hríð uns ákærði stakk upp á því við meðákærða, M, að hann gerði upp skuld sína við ákærða með vélsleðanum. Eftir að meðákærði, M, samþykkti það hefði ákærði flutt sleðann í geymslu að Lamhaga við Vesturlandsveg þar sem hann hefði verið uns honum var skilað, en aldrei kom til þess að meðákærði, M, gæfi út afsal vegna sleðans. Örn kvaðst ekki hafa vitað fyrirfram að til stæði að kaupa þennan vélsleða og það hefði ekki verið gert að sinni ósk. Örn kvaðst ekkert vita um nafnritanir og hið meinta skjalafals, sem lýst er í þessum ákærulið.
III 2
Með kærubréfi dags. 24. júní 1997 barst lögreglu kæra vegna meintra fjársvika ákærða, sem lýst er í þessum ákærulið. Í ákærunni er lýst kaupum ákærða á tölvubúnaði sem hér um ræðir og krafist um skaðabóta.
Ákærði, M, kvaðst einn hafa keypt tækin sem hér er ákært út af. Hann kvað lýsinguna í þessum ákærulið rétta fyrir utan það, að hann ætlaði að greiða kaupverðið. Tækin kvaðst ákærði ekki hafa greitt og lýsti því svo að á þessum tíma hefði allt rúllað „til helvítis“ og hann kominn í eitthvert gervisumarfrí og enga peninga haft til framfærslu.
Ákærði, Örn, neitar sök. Hann kvaðst hafa farið með tölvuna á heimili meðákærða, M, að hans ósk, en kjallarinn var ekki ólæstur eins og lýst er í ákærunni. Faxtækið þáði ákærði Örn að gjöf frá meðákærða, M, og hálfpartinn sem greiðslu fyrir notkun hans á símalínu sem ákærði var skráður fyrir. Hann vissi ekki annað en tækin hefðu verið keypt á heiðarlegan hátt með samningi við Glitni og ekki ástæða til að halda annað en að greitt yrði af samningnum.
IV.
Kæra vegna þessara meintu fjársvika er dagsett 29. maí 1996. Þá kærði Sigurður Steingrímsson fjármálastjóri, en hann starfaði þá hjá Fjöreggi hf.
Sigurður kom fyrir dóminn og lýsti viðskiptunum við forsvarsmenn Rúna, sem leituðu eftir því símleiðis að kaupa kjúklingaafurðir af Fjöreggi. Því var lýst svo að viðskiptin stæðu í sambandi við fjáröflun vegna skólaferðalags nemenda í Hafnarfirði. Matvælin átti að selja í heimahús. Einhver símtöl áttu sér stað vegna þessara viðskipta og að lokum voru seld 2513 kg eins og lýst er í ákærunni. Samið var um greiðslufrest meðan sala færi fram en senda ætti tékka og greiða þannig kaupverðið. Ekki reyndist innistæða fyrir tékkanum að fjárhæð 1.002.687 krónur. Viðskiptin við Rúnir fóru einungis fram símleiðis og hitti Sigurður engan vegna kaupanna.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi staðfesti fyrir dóminum þá niðurstöðu sína, að nokkrar líkur væru á því að ákærði, M, hefði skrifað undir tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákærði, M, neitar sök. Hann kvaðst ekkert vita um afdrif matvörunnar, sem hér um ræðir og sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki vita hvort þessi matvara var á einhvern hátt notuð í tenglsum við sölu á nafngreindum veitingastað hér í borg. Hann kvaðst ekki hafa afhent meðákærða, Stefáni Axel, þessa vöru og ekki vita hvort aðrir gerðu það.
Ákærði, Örn, neitar sök. Hann kvaðst ekki hafa komið nærri þessum kaupum, en bæði fyrir dómi og hjá lögreglunni viðurkenndi ákærði að hafa vélritað tékkann sem hér um ræðir. Hjá lögreglunni lýsti ákærði því að hafa séð meðákærða, M, skrifa undir þennan tékka, en fyrir dóminum kvað hann undirskriftina undir tékkann ekki líkjast rithönd meðákærða, M, en kvað sig hljóta að hafa yfirsést þetta er hann gaf skýrslu hjá lögreglunni, en þá voru borin undir ákærða mörg skjöl. Hann kvaðst vita að meðákærði, N, notaði hluta af þessum kjúklingum til að greiða sinn hluta af kaupverði fyrir Ölkjallarann, en fyrirtækið Haukur í horni, sem ákæðri Örn átti ásamt fleirum, keypti Ölkjallarann. Hann lýsti því að meðákærði, Stefán Axel, hefði fengið hluta af kjúklingunum sem greiðslu fyrir Ölkjallarann og ekki hefði verið rætt við meðákærða, Stefán Axel, um hvaðan kjúklingarnir væru og hefði hann verið grandlaus er hann tók við þeim.
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann kvað meðákærða, M, hafa afhent sér kjúklingabitana á Vöruflutningamiðstöðinni, en ákærði kvaðst hafa verið í góðri trú. Hann taldi meðákærða, M, stjórnanda Rúna sf. Kjúklingabitana hefði ákærði fengið hjá meðaákærða, M, sem greiðslu vinnulauna, en ákærði kvaðst hafa rekið Ölkjallarann í 10 til 14 daga fyrir meðákærða, M. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað betur en M hefði eignast Ölkjallarann á eftir Guðjóni Sveinssyni, en ákærði kvaðst einnig hafa rekið Ölkjallarann fyrir hann. Hann kvaðst engin samskipti hafa haft við meðákærða, Örn, vegna kjúklingabitanna. Hann kvað meðákærða, M, hafa afhent sér reikning frá Rúnum sf. til Bónusborgara vegna þessara kjúklingabita, en ekki vita hver útbjó reikninginn.
V.
Ákærði, M, neitar sök. Hann kvaðst ekki vita um laxinn sem hér um ræðir og ekki hafa afhent meðákærða hann. Ákærði vissi ekki hver greiddi fyrir laxinn, en samkvæmt gögnum málsins fór greiðsla fram að Langholtsvegi 115b.
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann kvaðst ekki vita hvaðan laxinn var sem meðákærði, M, afhenti og ekki hafa vitað að hann var illa fenginn eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað hið sama eiga við og lýst var í ákærulið IV, að ákærði hefði fengið laxinn vegna vangoldinna launa frá meðákærða, M, eftir að ákærði rak Ölkjallarann fyrir hann í 10 til 14 daga.
Vitnið, Ragnar Hjörleifsson framkvæmdastjóri, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við forsvarsmenn Rúna vegna sölu laxsins, sem hér um ræðir. Hann kvað hafa verið hringt í sig frá Rúnum snemma árs 1996 og beðið um verð á laxi, bæði reyktum og gröfnum. Viðmælandi Ragnars hefði kynnt sig sem Axel og samskiptin vegna laxins hefði hann átt við mann sem kynnti sig sem Axel og einnig komi M við sögu. Eftir að hafa náð saman um verð var sala ákveðin og greitt með tékka sem lýst er í þessum ákærulið, en athugað var í banka hvort tékkareikningurinn sem notaður var í viðskiptunum væri í lagi. Laxinn var afhentur á umsömdum tíma að Gnoðarvogi 44, þar sem varan var skilin eftir. Áður hafði Ragnar farið að Langholtsvegi 115b og þar hafi hann hitt mann utandyra, sem afhenti honum umslag sem innihélt ávísunina. Er vitnið, Ragnar Hjörleifsson, kom fyrir dóminn voru staddir þar ákærðu, M, Örn og Stefán Axel. Ragnar var spurður hvort einhver þeirra hefði afhent honum ávísunina og útilokaði Ragnar ákærða, M og Örn, en treysti sér ekki til þess að fullyrða um það hvort ákærði, Stefán Axel, hefði afhent sér umslagið.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi staðfesti fyrir dóminum þá niðurstöðu sína að nokkrar líkur væru á því að ákærði, M, hefði skrifað undir tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
VI 1
Ákærði, M, hefur lýst þennan ákærulið réttan að því leyti að hann stofnaði reikninginn í Húsasmiðjunni og tók út vörur fyrir 12.507 krónur. Hann kvaðst hins vegar ekki með stofnun reikningsins hafa gert öðrum kleift að taka út vörur og ekki vita hver tók út vörur 22. maí 1996 fyrir 212.871 krónu, en ákærði kvaðst ekki hafa verið á landinu þegar þessar vörur voru teknar út.
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann kvaðst hvorki hafa tekið við þessum vörum né kannast við að hafa selt Jens Sigurðssyni 4 málningarrúllur eða 4 málningafötur. Hann vissi ekki hvort meðákærði, V, átti hlut að máli, eins og hér er ákært fyrir.
Ákærði, V, neitar sök. Hann hefði ekki selt nokkra þá muni er hér um ræðir og ekkert um þá vita. Hann lýsti því að það hljóti að vera misminni hjá Jens Sigurðssyni haldi því hann fram að ákærði hefði selt honum þessi hluti, en ákærði hefði af og til frá árinu 1992 selt Jens Sigurðssyni málningu.
Vitnið, Jens Sigurðsson málarameistari, kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hefði keypt vörur af ákærðu á þeim tíma sem hér um ræði, en mundi ekki hvað. Vel gæti verið að hann hefði keypt þær vörur sem ákærði Stefán Axel og V er gefið að sök að hafa selt. Jens mundi þetta ekki vel og bar við langvarandi óreglu, þannig að þetta tímabil væri mjög þokukennt í minningunni.
VI 2
Ákærði, M, neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og kvaðst enga hugmund hafa um parketið og hver tók það út. Hann kvaðst ekki hafa skrifað tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann kvaðst hvorki hafa tekið við parketinu né selt það. Hann kvaðst hins vegar hafa geymt parketið samkvæmt ósk meðákærða, V, og síðar að hans beiðni afhent Val Ásberg Valssyni parketið, en hann vissi ekki um söluverð. Hann taldi V hafa fengið parketið sem greiðslu upp í skuld frá meðákærða, M.
Ákærði, V, neitar sök. Hann hefði fengið parketið upp í skuld frá meðákærða M, en ekki vita að varan var illa fengin. Hann hefði hringt í Parket og hólf hf. þar sem parketið var keypt og fengið þær upplýsingar að varan væri greidd. Hann hefði geymt parketið hjá meðákærða, Stefáni Axel, og síðan selt það, eins og lýst er í ákærunni, eftir að í ljós kom að hann gat ekki notað parketið sjálfur.
Vitnið, Valur Ásbjörn Jónsson, kom fyrir dóminn og lýsti kaupum á parketi því sem hér um ræði af V og að Stefán Axel hefði afhent sér parketið.
Vitnið, Guðlaugur Ómar Friðþjófsson verslunarmaður, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum við þann aðila sem keypti parketið. Greitt var fyrir parketið með tékka, eins og lýst er í ákærunni. Guðlaugur vissi ekki deili á þeim manni sem keypti parketið og gat ekki nafngreint hann og ekki bent á hann með vissu úr hópi hinna ákærðu sem voru viðstaddir er hann gaf skýrslu fyrir dóminum.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi staðfesti fyrir dóminum þá niðurstöðu sína að nokkrar líkur væru á því að ákærði, M, hefði skrifað undir tékkann, sem lýst er í þessum ákærulið.
VI 3
Ákærði, M, viðurkenndi að hafa stofnað til reikningsviðskipta við Hörpu hf. í nafni Rúna sf. Hann mundi ekki hver tók út 660 lítra af málningu 17. maí 1996, en hugsanlega pantaði ákærði málninguna símleiðis. Hann hefði ekki velt því fyrir sér hvernig málningin yrði greidd. Ákærði, M, lýsti því hjá lögreglunni að hann hefði tekið út málningu 17. maí 1996. Hann kvaðst ekki muna þessa atburði nú. Hann kvaðst ekki geta svarað því hvort á kvittun fyrir móttöku málningarinnar væri sín rithönd. Hann vissi ekkert um meinta sölu meðákærðu, V og Stefáns Axels, á málningunni til Jens Sigurðssonar.
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann viðurkenndi að hafa selt Jens Sigurðssyni 240 lítra af málningu, sem hann hefði fengið hjá meðákærða, M, og ekki vita betur en hann hefði keypt málninguna og ekki vitað að hún væri illa fengin. Ákærði kvað hið sama eiga við og áður hefur verið lýst í ákærulið IV og V, að hann hefði tekið við málningunni frá meðákærða, M, upp í skuld eftir að ákærði rak Ölkjallarann fyrir meðákærða, M.
Ákærði, V, neitar sök. Hann hefði ekki selt Jens Sigurðssyni málningu á þessum tíma og ekki vita hvort meðákærði, Stefán Axel, gerði það.
Vitnið, Jón Bjarni Gunnarsson fjármálastjóri hjá Hörpu, kom fyrir dóminn og lýsti því er ákærði, M, sem hann þekkti í réttinum, kom að máli við hann um mánaðarmótin apríl-maí 1996 og kynnti hann sig sem forsvarsmann Rúna sf., og til stæði að mála húseign félagsins. Hann óskaði eftir því að stofna til reikningsviðskipta hjá Hörpu sem varð úr eftir könnun á vanskilaskrá. Ákærði, M, hefði tekið út 660 lítra af málningu 17. maí 1996 og málningin hefði verið send á kostnað ákærða, M, bakatil við skemmtistaðinn Casablanca við Skúlagötu.
Jens Sigurðsson málarameistari, bar fyrir dóminum að vorið 1996 hefði hann keypt málningu af ákærða, Stefáni Axel, sem bauð sér málninguna til kaups og sagði að ákærði, V, ætti hana.
VII.
Ákærði, M, neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og kvaðst ekkert vita um þetta kjöt og hvað af því varð.
Ákærði, Örn Karlsson, neitar sök og má vísa til þess sem áður sagði um starf hans hjá Rúnum og afstöðu til sakarefnisins í heild. Hann kvaðst hvorki vita um kaupin né um afdrif kjötsins. Hjá lögreglunni staðfesti ákærði að hann hefði vélritað þennan tékka og hann myndi vel eftir þessum kjötkaupum M og hann hefði séð hann gefa tékkann út. Ákærði, Örn, bar á sama veg fyrir dómi og sagði að allt sem hann hefði áður sagt um þetta hjá lögreglunni stæði og væri rétt.
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann hefði ekki tekið við kjötinu, en frétt af því eftir á, að það tengdist eitthvað sölu Ölkjallarans.
Ákærði, V, neitar sök. Hann hefði komið á sambandi milli meðákærðu M og Arnar annars vegar og Guðjóns Sveinssonar hins vegar vegna fyrirhugaðra viðskipta með Ölkjallarann. Hann hefði ekki vitað um greiðslu kaupverðs í því sambandi, utan að í umræðunni hefði verið að hluti kaupverðs yrði greiddur með vörum, en ákærði kvaðst að öðru leyti ekki geta borið um sölu Ölkjallarans. Hann hefði ekkert haft með hann að gera. Hann vissi ekki hvernig þessum viðskiptum reiddi af. Ákærði, V, bar að hann hefði aldrei ætlað að kaupa Ölkjallarann. Hann sagði þá Stefán Axel hafa verið í samstarfi á þessum tíma og því vera viss um það að Stefán Axel rak ekki Ölkjallarann á þessum tíma fyrir meðákærða, M, eins og Stefán Axel hefur borið.
Vitnið, Jóhannes Beck Ingason rekstrarfræðingur, kom fyrir dóminn og lýsti því er maður sem kynnti sig sem Kristján hringdi fyrir hönd Rúna í apríl 1996 og leitaði eftir lambakjöti til kaups. Samið var um viðskiptin símleiðis og sá Jóhannes aldrei viðsemjanda sinn og frétti loks af málinu er ávísunin reyndist innistæðulaus, en samið var um stuttan greiðslufrest á tékka, sem sendur var sem greiðsla.
Vitnið, Georg Hermannsson fjármálastjóri hjá Kaupfélagi Borgnesinga, kom fyrir dóminn og lýsti því er hann fékk í hendur ávísun þá sem hér um ræðir. Starfsmaður kaupfélagsins fór með hana í banka og lagði inn á viðskiptareikning kaupfélagsins og samkvæmt því var innistæða fyrir ávísuninni er hún var innleyst í bankanum. Georg lýsti samskiptum við starfsmenn Rúna og því að ávísunin hefði að lokum verið bakfærð á reikning Rúna gegn loforði um að ný ávísun yrði send sem greiðsla. Ekki þykir ástæða að rekja vitnisburð Georgs frekar. Tékkin fékkst aldrei greiddur.
Vitnið, Guðjón Sveinsson verkamaður, lýsti því fyrir dóminum er hann seldi ákærðu, V og Stefáni Axel, veitingastaðinn Ölkjallarann snemma á árinu 1996. En engin skrifleg gögn væru til um þá sölu, en áður hefðu þeir V og Stefán Axel rekið staðinn í 1 ½ til 2 mánuði . Guðjón kvað ákærða, V, hafa boðið sér lambakjöt sem greiðslu fyrir veitnastaðinn og hefði það orðið úr, en hann hefði séð reikninga frá Afurðasölunni í Borgarnesi, sem sýndu að kjötið var greitt. Kjötið var fullnaðargreiðsla, en annar hvor ákærðu, V eða Stefán Axel, vísuðu Guðjóni á kjötið, þar sem það var geymt í frystigeymslu í Hafnarfirði. Guðjón endurseldi kjötið.
Vitnið, Sigurbergur Sveinsson kaupmaður, kom fyrir dóminn og bar um kjötkaup sín af Guðjóni Sveinssyni, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans frekar.
Ákæra dagsett 6. október 1998, kennd við Brúnir áhugamannafélag.
Samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands frá 25. mars 1997 var Brúnir áhugamannafélag skráð 13. desember 1995. Forráðamaður var ákærði, Már Karlsson. Samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands, sem móttekið var 20. janúar 1997, segir að á félagsfundi í Brúnum hinn 10. janúar 1997 hafi verið samþykkt að Ólafur F. Sæmundsson og Örn Karlsson víki úr stjórn félagsins, en R og Már Karlsson tækju sæti þeirra. Már var sagður ábyrgðarmaður og prókúruhafi félagsins. Samkvæmt gögnum málsins var sótt um kennitölu fyrir félagið með umsókn dagsettri 12. desember 1997, en þar segir að tilgangur félagsins sé trjárækt og uppgræðsla landsvæða.
Ákærði, Már, lýsti því fyrir dóminum að fyrirtækið Brúnir hefði verið stofnað til að takast á hendur verklegar framkvæmdir og annað. Ekki hefði komið til þess að áhugamannafélagið hæfi rekstur, en félagið hefði aldrei haft neina starfsemi með höndum og því engar tekjur. Ákærði, Már, lýsti því að með honum í stofnun og fyrirhuguðum rekstri þessa félags hefði verið meðákærðu, Örn og R, og þeim hefði verið kunn fjárhagsstaða sín og greiðslugeta, en ákærði kvaðst öryrki og tekjur hans 53.000 krónur á mánuði í örorkubætur.
Ákærði, R, lýsti því fyrir dóminum hvernig hann kom að áhugamannafélaginu Brúnum. Hann mundi ekki hver útbjó plagg varðandi félagið, sem ákærði undirritaði, og kvaðst ekki hafa komið nálægt stjórn félagsins þótt hann væri skráður stjórnarmaður, enda hefði hann stundað mikla óreglu á þessum tíma og ekki hafa haft hugmynd um það hvort meðákærði Stefán Axel væri í vinnu hjá Brúnum. Ákærði R var handtekinn á Keflavíkurflugvelli 25. mars 1997 ásamt meðákærða, Má, er þeir voru á leið til Thailands í því skyni að gera þar hagstæð innkaup, sérstaklega á timbri að sögn.
I.
Ákærði, Már, neitar sök. Hann kvaðst hafa ritað nafn föður síns á skuldabréfið í reit fyrir samþykki þinglýsts eiganda. Hann hefði rætt við föður sinn um þetta og fengið heimild hans til að veðsetja fasteignina, eins og lýst er í þessum ákærulið. Hann kvað lýsinguna að öðru leyti rétta. Magnús Karlsson seldi skuldabréfið og ákærði fékk aldrei neitt af andvirði þess í hendur. Ákærði, Már, kom fyrir dóm 4. apríl 1997 vegna kröfu um gæsluvarðhald. Þá viðurkenndi hann afdráttarlaust að hafa falsað nafn föður síns, eins og hér er ákært út af. Hann kvað Magnús Karlsson og R hafa verið með sér í för er hann fór á elliheimilið Grund, þar sem hann falsaði skuldabréfið, en faðir ákærða var þar vistmaður. Hann kvaðst hafa afhent Magnúsi Karlssyni skuldabréfið þarna á staðnum. Ákærði viðurkenndi einnig ítrekað við yfirheyrslur hjá lögreglunni þá háttsemi sem hér er ákært vegna. Fyrir dóminum kvað hann þessar játningar ekki marktækar, þar sem hann hefði brotnað saman sökum rannsóknar máls þessa, en hann hefði verið sakaður um 45.000.000 króna fjársvik.
Hannes Thorarensen lögreglufulltrúi og Guðmundur H. Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn komu fyrir dóminn. Þeir lýstu ferð sinni á elliheimilið Grund 31. mars 1997, en þá var Karl Ásgeirsson, faðir ákærða Más, búsettur þar. Þeir lýstu því báðir að samkvæmt þeirra áliti hefði Karl ekki verið áttaður á stað og stund og út úr heiminum sökum ellihrumleika og gerði sér ekki grein fyrir því sem hann var spurður um. Hann gat ekki skrifað nafn sitt að þeirra sögn. Að þeirra áliti var ástand Karls þannig að hann gat ekki gert sér grein fyrir þýðingu veðsetningar.
II 1.
Ákærði, Már, kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hefði keypt ritvél þá, sem hér um ræðir og greitt fyrir með tékka, eins og lýst er. En alltaf hefði staðið til að greiða tékkann, sem dagsettur var fram í tímann. Hann hefði ekki getað greitt sökum þess að hann var handtekinn áður og lokaður inni. Meðákærði, Örn, hefði ekki átt hlut að máli. Hann hefði hins vegar skoðað ritvélina áður, því ákærði hefði getað lagt mat á vélina sjálfur.
Ákærði, Örn, neitar sök. Hann hefði verið með í för er meðákærði keypti ritvélina, en engan þátt átt í kaupunum.
II 2.
Ákærði, Már, kvaðst hafa átt viðskiptareikning hjá Gúmmívinnustofunni og tekið út vörurnar sem hér er lýst. Staðið hefði til að greiða fyrir úttektirnar með fjármunum að rekstri Brúna og með fjármunum sem ákærði fengi við sölu skuldabréfsins, sem lýst er í I. kafla ákærunnar. Hann kvaðst hafa verið einn er hann tók vörurnar út og meðákærði Örn ekki átt þar hlut að máli. Meðákærði, Örn, hefði hins vegar fengið flestar vörurnar að lokum m.a. þannig, að hann ætlaði að kaupa bifreið þá, sem lýst er í ákærulið III.1, en vöruúttektin að fjárhæð 26.890 krónur hefði verið fyrir meðákærða, Örn, sem ætlaði að ganga frá kaupverðinu.
Ákærði, Örn, neitar sök og kvaðst engan þátt hafa átt í viðskiptunum sem hér er lýst. Hann hefði yfirtekið kaup Brúna á Toyota bifreiðinni sem lýst er í ákærulið III.1 og þar með einnig yfirtekið skuld Más við Gúmmívinnustofuna. Hjólbarðarnir sem hér um ræðir voru undir bifreiðinni, en Örn skilaði öðrum dekkjaganginum, sem hann hafði ekki not fyrir, og ætlaði að ganga frá greiðslu hins dekkjagangsins auk felgna. En ekki hefði unnist tími til þess vegna handtöku. Ákærði bar að hjólbarðarnir hans sem teknir voru út á reikning ákærða Más 21. febrúar, hefðu farið undir bifreið sem ákærði átti. En bifreiðin var seld pólskum verkamanni í Grundarfirði, sem hefði tekið löregluafskiptin af málinu mjög nærri sér og greitt hjólbarðana.
Vitnið, Gunnlaugur Ingimundarson verkstjóri hjá Gúmmívinnustofunni í Skipholti, kom fyrir dóminn og greindi frá því að hann hefði afgreitt ákærða, Má, með 8 hjólbarða og 4 felgur þann 21. mars 1997. Már hefði verið einn á ferð og ekki hefði komið fram hjá honum í hvaða skyni vörurnar voru teknar út og vissi Guðmundur ekkert um meintan hlut ákærða Arnar í þessum viðskiptum, en nokkrum dögum síðar kom maður og skilaði 4 hjólbörðum.
Vitnið, Þorsteinn Friðfinnsson verkstjóri, lýsti fyrir dóminum kaupum bifreiðar af Erni Karlssyni. Þessa bifreið seldi Þorsteinn áfram, en undir bifreiðinni voru hjólbarðar sem lýst er í þessum ákærulið. Eftir að mál þetta kom upp hefði hann greitt Gúmmívinnustofunni hjólbarðana, en síðan ætlað að láta Örn Karlsson greiða.
II 3.
Ákærði, Már, kvaðst hafa gefið út tékkann sem hér um ræðir og afhent meðákærða Erni, sem ekki vissi um innistæðuleysi hans og ekki haft ástæðu til að ætla annað en að tékkinn væri í lagi. Hið sama eigi við og fyrr að sögn ákærða, að hann hefði haft í hyggju að greiða tékkann en ekki getað sökum innilokunar í gæsluvarðhaldi.
Ákærði, Örn, neitar sök og hafi hann ekki notað tékkann sem hér um ræðir.
Vitnið, Ómar Jóhannsson sendibílstjóri, gat fyrir dóminum ekkert borið um það hver notaði tékkann eða gaf hann út og ekki er ástæða til að rekja vitnisburð hans frekar.
II 4.
Ákærði, Már, viðurkenndi að hafa gefið út og samþykkt víxlana, sem hér um ræði. Þetta hefði verið gert í tengslum við hugsanleg fasteignakaup í Grundarfirði, en meðákærði, Örn, hefði séð um þetta og vissi ákærði, Már, ekkert um ferðir meðákærða og samskiptin við fyrirhugaða seljendur fasteigna í Grundarfirði. Til stóð af hálfu ákærða að greiða víxlana á gjalddaga 1. maí 1997.
Ákærði, Örn, neitar sök. Hann kvað málavexti þá að Ólafur Björn Ólafsson, sem var á leið úr landi til Noregs, hefði komið að máli við sig og spurt hvort ákærði hefði áhuga á að kaupa fasteign sem hann átti í Grundarfirði en Ólafur hefði átt í erfiðleikum með að selja að sögn ákærða. En Ólafur vissi því að ákærði, Örn, hefði áður keypt fasteign í Grundarfirði. Ákærði sagði Ólafi að hann ætlaði að athuga málið og ræddi eftir það við meðákærða, Má, og spurði hvort hann hefði áhuga á þessum kaupum. Már hefði sýnt þessu áhuga og voru Ólafi sendir þeir víxlar sem hér um ræðir, en meðákærði, Már, gaf út og samþykkti til greiðslu fyrir hönd Brúna vegna hinna fyrirhuguðu kaupa. Ólafur hefði síðan hringt og sagt að bankinn hefði ekki viljað kaupa víxlana og var þá ákveðið að hætta við kaupin og átti Ólafur að senda ákærða víxlana, sem hann gerði ekki og heyrði ákærði ekki í Ólafi eftir það. Ákærði tók fram að einungis hefði verið um þreifingar að ræða og viðskipti hefðu aldrei komist á, en hann hefði verið í góðri trú um greiðslugetu meðákærða og nefndi í því sambandi að meðákærði hefði greint sér frá fyrirgreiðslu frá föður sínum upp á 3,6 milljónir. Auk þess nyti meðákærði, Már, trausts alls staðar, með yfirdráttarheimildir í bönkum og ætti eignir í Thailandi. Þá gat ákærði, Örn, þess að hefðu kaup átt sér stað hefðu leigutekjur dugað til að greiða afborganir vegna kaupanna.
Vitnið, Ólafur Björn Ólafsson tækjamaður, kom fyrir dóminn og kvað ákærða, Örn, hafa komið að máli við sig og boðist til að kaupa íbúð sína í Grundarfirði. Örn greindi Ólafi frá því að Brúnir væri fyrirtæki sem hann væri með en Ólafur fékk aldrei á hreint hvort ákærðu, Örn eða Már, eða Brúnir ætluðu að kaupa íbúð hans en Örn hefði afhent sér víxlana, sem lýst er í þessum ákærulið. Kvað Ólafur sig ráma í það, að það sem hann greindi frá hjá lögreglunni að Örn hefði sagt að aðilarnir á víxlinum væru áreiðanlegir og ættu skuldlaust húsnæði. Aldrei kom til þess að gert yrði kauptilboð eða kaupsamningur og ekkert skriflegt um þessi samskipti utan víxlarnir tveir.
III 1.
Ákærði, Már, kveður lýsingu í þessum ákærulið rétta, utan niðurlagið, því til hefði staðið að greiða. Hann kvað bifreiðina hafa verið keypta í þágu Brúna og átti að nota hana í þágu félagsins og hefði hún því ekki verið keypt í þágu ákærða, Arnar, eins og lýst er í ákærunni. Komið hefði í ljós að bifreiðin hentaði ekki og þá hefði meðákærði, Örn, ætlað að yfirtaka bifreiðina og lánin, sem tengdust kaupunum og hefði Örn ætlað að ganga frá þeim málum. Hjá lögreglunni lýsti ákærði, Már, því svo, að hvorki hann sjálfur né Brúnir hefðu haft greiðslugetu til að greiða skuldabréfið eða víxilinn, sem hér er lýst. Ákærði hefði undirritað skjölin í því skyni að láta líta svo út sem hann væri kaupandi bifreiðarinnar, en Örn Karlsson hefði í raun verið kaupandi og fyrir hans áeggjan hefði ákærði ritað undir þessi skjöl og Örn lofað að standa í skilum með greiðslurnar, enda hefði Örn frá kaupdegi haft með bifreiðina að gera. Er ákærði Már var spurður um þennan framburð sinn fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna atburði vel en samdægurs og bíllinn var keyptur hefði komið í ljós að hann hentaði fyrirtækinu ekki.
Ákærði, R, staðfesti nafnritun sína á þau skjöl sem hér um ræðir vegna kaupa bifreiðarinnar, sem hér er lýst. Hann hefði ekki haft greiðslugetu til þess að standa við fjárskuldbindingarnar, sem hann tókst á hendur, enda talið að Brúnir myndu greiða og taldi hann meðákærða, Má, fjársterkan. Þá ályktun kvaðst hann hafa dregið eftir ferðalög með Má erlendis. Ákærði, R, var atvinnulaus á þessum tíma og vissi ekki um aðdraganda bifreiðakaupanna nema meðákærðu, Már og Örn, hefðu rætt það að bifreiðin yrði notuð í þágu Brúna. Hann vissi ekki hvort bifreiðin var keypt í þágu meðákærða, Arnar, eins og lýst er í ákærunni, en hann vissi að Örn hafði hug á að eignast bifreiðina ef hún hentaði ekki Brúnum.
Ákærði, Örn, neitar sök. Hann hefði keypt bílinn sem hér um ræði af Brúnum eftir að í ljós kom að bifreiðin hentaði fyrirtækinu ekki. Alltaf hefði staðið til að greiða kaupverðið. Örn var yfirheyrður fyrir dómi 26. mars 1997 vegna kröfu um gæsluvarðhald. Þá lýsti hann bifreiðakaupunum svo að hann hefði beðið Má Karlsson að veita sér fyrirgreiðslu varðandi bifreiðakaupin. Ákærði hefði haft samband við Loga Pálsson, framkvæmdastjóra hjá P. Samúelssyni, sem hefði veitt Brúnum fyrirgreiðslu sökum kunningsskapar við ákærða. Kaupin hefðu síðan verið eins og lýst er í ákærunni, en ákærði síðar ábyrgst skuldirnar við fyrirtækið vegna kaupanna. Hjá lögreglunni lýsti ákærði því að hann hefði verið viðstaddur í fyrirtækinu P. Samúelsson, er kaupin voru gerð og séð ákærðu, Má og R, rita á skuldabréfið og ákærði hefði stimplað skjalið á sama stað með stimpli Brúna. Þá var ákærði viðstaddur og vottaði tilkynningu um eigendaskipti bifreiðarinnar frá P. Samúlessyni til Brúna. Kvaðst ákærði sjálfur hafa útbúið tilkynninguna um eigendaskipti dagsett 22. mars 1997, þar sem Brúnir tilkynna eigendaskipti til Hauks í horni og ritaði ákærði á þá tilkynningu fyrir hönd Hauks í horni. Þessi framburður ákærða var borinn undir hann fyir dóminum og breytti hann ekki afstöðu til hans en gaf engar skýringar á breyttum framburði nú, en hann bar efnislega á sama veg um yfirtöku sína, eða Hauks í horni, á skuldum vegna bifreiðakaupanna.
Vitnið, Bogi Óskar Pálsson forstjóri P. Samúelssonar, lýsti því að Örn Karlsson hefði hringt í sig vegna þessa máls. Örn hefði haft flókna sögu að segja, en Bogi mundi þetta óljóst. Hann staðfesti að Örn hefði viljað yfirtaka bílinn og skuldirnar sem á honum hvíldu, en mundi ekki hvernig málinu lauk. Hann minntist þess að Örn hefði boðist til að afsala bílnum til P. Samúlessonar eins og fram kemur í kærubréfi lögmanns fyrirtækisins.
III 2.
Ákærði, Már, kvað háttsemi sinni rétt lýst í þessum ákærulið, utan niðurlagið þar sem segir að aldrei hafi staðið til að greiða fyrir vörurnar. Hann taldi að sér hefði verið veittur greiðslufrestur hjá BYKO, en vörurnar sem teknar voru út átti að nota til að gera upp húsnæði við Stýrimannastíg og við Höfðatún.
Ákærði, R, kvað lýsinguna í ákærunni rétta, utan hann kvaðst hafa talið að vöruúttektin yrði greidd.
III 3
Ákærði, Már, kvað þennan ákærulið réttan utan niðurlagið því til stóð að greiða fyrir vörurnar að hans sögn. Hann kvaðst ekki hafa stofnað reikninginn til að gera öðrum kleyft að taka út vörur, því einungis meðákærði, R, hefði haft heimild til að taka út vörur á reikninginn auk ákærða, Más. Ákærði, Már, mundi ekki eftir þessari úttekt.
III 4
Ákærði, Már, kvaðst hafa tekið út þær vörur sem hér um ræðir á reikning á sitt nafn hjá BYKO. Til stóð að greiða vörurnar. Meðkærði, Örn, hefði fengið eitthvað af þessum vörum, en mundi ekki hvað það var og mundi ekki hvort Örn hefði greitt fyrir þær.
Ákærði, Örn, neitar sök. Vörurnar hefðu ekki verið teknar út að sinni beiðni og rangt niðurlag ákærunnar um að aldrei hefði staðið til að greiða þær. Meðákærði, Már tók vörurnar út til að gera upp húsnæði í Höfðatúni 2, en ekki varð úr því er uppboðsbeiðni barst vegna fasteignarinnar. Ákærði, Örn, tók við vörunum og kvað þær greiddar. Helluborðið og ofninn voru greidd í BYKO, en ákærði greiddi meðákærða fyrir þakullina og þolplastið. Ákærði kvaðst hafa keypt af meðákærða hluta úttektarinnar og ráðstafað hinu eins og lýst var eftir að í ljós kom að setið var uppi með vöruna þar sem ekki var hægt að nota hana í Höfðatúni 2.
Þorsteinn Friðfinnsson verkstjóri lýsti kaupum ofns og helluborðs af Erni Karlssyni í mars 1997. Hann kvað Örn hafa vitað í nokkurn tíma að sig vantaði ofn og helluborð á heimili sitt. Það hefði síðan verið í mars 1997 sem Örn hringdi og sagðist hafa þessa hluti undir höndum og kaup voru ákveðin.
IV
Ákærði, G, neitar sök. Hann kvaðst hafa tekið við tékkunum úr hendi meðákærða Más er hann var staddur á heimili meðákærða, Arnar, í Safamýri, en ákærði kveðst telja að Örn Karlsson hafi vélritað tékkana, en hann vissi það ekki fyrir víst. Hann lýsti því í fyrstu að meðákærði, Már, hefði gefið tékkana út, en síðar í yfirheyrslunni kvaðst hann ekki muna það. Ætlunin var að kaupa vörur fyrir meðákærða, Má, en ákærði kvaðst ekki hafa vitað fyrir fram að tékkarnir reyndust innistæðulausir. Már hefði ekki greint sér frá því og ákærði kvaðst heldur ekki hafa vitað að aldrei hefði staðið til að greiða tékkana eins og lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar. Ákærði, G, hefði framvísað skilríkjum er hann notaði tékkana og ekki hafa velt því fyrir sér hvers vegna meðákærði, Már, bað hann um að kaupa vörurnar. Hann hefði bara verið að skjótast þetta fyrir Má. Þessi afstaða ákærða, G, til sakarefnisins er hin sama varðandi alla ákæruliðina á hendur honum. Nokkurt misræmi var í framburði ákærða hér fyrir dóminum annars vegar og í skýrslu er hann gaf hjá lögreglunni. Hann kvað þær skýrslur að flestu leyti rangar og þykir ekki ástæða til að rekja þær hér. Ákærði kvað meðákærða, S, hafa flækst inn í atburðarásina nánast fyrir tilviljun.
Ákærði, S, kvað háttsemi sinni rétt lýst. Hann kvaðst hafa dregist inn í mál þetta fyrir tilviljun, en meðákærði, Guðjón, hefði komið að máli við sig og sagst hafa vinnu handa ákærða. Vinnan átti í raun að vera fólgin í því að skipta tékkunum, sem lýst er í þessum ákærulið, en hann hefði hvorki vitað um innistæðuleysi tékkanna né hvaðan þeir komu eða að ekki hefði staðið til að greiða þá eins og lýst er í ákærunni. En ákærði kvaðst ekki hafa reiknað með öðru en að tékkarnir yrðu greiddir. Hann kvaðst ekkert þekkja meðákærðu, Örn og Má, en meðákærði, Guðjón, annaðist samskiptin við þá og fékk tékkana í hendur og hann hefði greint sér frá því að hugsanlegt væri að tékkarnir væru „ekki allir í lagi “. Sér hefði skilist að selja ætti munina, sem keyptir voru, og afla þannig lausafjár. Hann mundi ekki vel eftir framburði sínum hjá lögreglunni, en kvað sig ráma í það sem þar segir, að meðákærði G hefði nefnt það að með vörukaupunum væri verið að afla fjár fyrir mann sem væri að fara úr landi.
Ákærði, Már, viðurkenndi fyrir dóminum að hafa gefið út alla fimm tékkana, sem lýst er í þessum kafla ákærunnar, en meðákærði, Örn, vélritaði tékkana að beiðni ákærða. Hann kvaðst hafa kynnst G hjá Erni Karlssyni og afhent G tékkana í því skyni að hann keypti farsíma fyrir andvirði allra tékkanna, en ákærði kvað hafa staðið til af sinni hálfu að greiða alla tékkana og því væri niðurlag ákærunnar rangt. Ákærði, Már, kvaðst hafa ætlað með farsímana með sér úr landi og til Thailands, þar sem hann ætlaði að selja þá, enda símar dýrir þar í landi að sögn ákærða. Ákærði, Már, kvað G hafa verið einan á ferð er tékkarnir voru afhentir og Már kvaðst ekki þekkja meðákærða, S.
Ákærði, Örn, neitar sök og kvaðst ekki vita um uppruna eða notkun tékkana. Hann þekkir meðákærða, Guðjón Má, og vissi að hann hringdi í meðákærða, Má, er hann var staddur á heimili ákærða í Safamýri þar sem þeir hittust, en vissi ekkert um þeirra samskipti.
IV 1
Ákærði, Guðjón, kvaðst ekki hafa keypt vörurnar fyrir tékkana sem lýst er. Til stóð að kaupa hljómkerfi fyrir meðákærða, Má. Sívar Sturla Sigurðsson hefði hins vegar keypt tækin, framselt tékkann og flutt tækin á heimili sitt og síðan selt til að standa straum af fíkniefnaneyslu sinni. Ákærði var hins vegar að sögn á staðnum er tækin voru keypt.
Ákærði, S, kvaðst ekki hafa notað tékkann sem hér um ræðir. Hann hefði verið staddur í versluninni er vörurnar sem hér um ræðir voru keyptar, og meðákærði Guðjón einnig. Hins vegar hefði Sívar Sturla Sigurðsson keypt tækin.
Afstaða ákærða Más til þessa ákæruliðar er lýst í upphafi þessa kafla ákærunnar og er vísað til þess.
Vitnið, Karl Lúðvíksson sölustjóri, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við ákærðu og Sívar Sturlu Sigurðsson vegna kaupanna, sem lýst er hér. Hann kvað 3 menn hafa komið í verslunina daginn áður en kaupin fóru fram. Þeir komu síðan aftur daginn eftir á laugardegi og þá hefði Sívar Sturla sagt, að hann væri að aðstoða ákærða, Guðjón, við kaupin, en Sívar Sturla keypti tækin og framseldi ávísunina að hans sögn. Karl lýsti síðan tilfinningu sinni um það hvað hann teldi hlut hvers og eins hinna ákærðu í þessu kaupum, en ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð hans frekar hér.
IV 2
Ákærði, G, neitar sök. Hann kvaðst hafa keypt GSM símann, sem hér um ræðir fyrir meðákærða, Má, en ekki vita um innistæðuleysi tékkans og neitar að hafa gerst sekur um fjársvik með notkun tékkans og má vísa til þess sem sagði í upphafi þessa kafla ákærunnar um afstöðu ákærða til sakarefnisins að þessu leyti.
Ákærði, S, neitar sök og kvað meðákærða, Guðjón, hafa keypt símann og ákærði hefði beðið í bíl fyrir utan á meðan.
Afstöðu ákærða, Más, til þessa ákæruliðar er lýst að ofan og er vísað til þess.
IV 3
Ákærði, G, neitar sök á sömu forsendum og áður er lýst. Hann viðurkenndi að hafa keypt myndbandstækið fyrir ákærða, Má.
Afstaða ákærða, Más, til þessa ákæruliðar er lýst að ofan og er vísað til þess.
IV 4
Ákærði, S, hefur játað að hafa keypt myndbandstækið, sem hér er lýst en neitar sök á þeim forsendur er raktar voru að framan. Vísa má til afstöðu hans til sakarefnisins, sem rakið var hér að framan.
Afstaða ákærða, Más, til þessa ákæruliðar er lýst að ofan og er vísað til þess.
IV 5
Ákærði, G, neitar sök og kvað meðákærða S hafa notað þennan tékka sem tryggingu fyrir greiðslu veitinga af hálfu meðákærða, S.
Ákærði, S, kvaðst hafa notað tékkann sem hér um ræðir. Ekki var tekið við tékkanum sem greiðslu og því hefði hann verið settur sem trygging og meiningin að koma síðar og greiða, sem ekki varð úr.
Afstaða ákærða, Más, til þessa ákæruliðar er lýst að ofan og er vísað til þess.
V A og B
Ákærði, Már, neitar sök sammkvæmt A-lið þessa kafla ákærunnar. Hann kvaðst ekki hafa ritað nafn sitt á neitt þeirra skjala, sem hér er lýst og ekki vita hver það gerði, en skjölin voru öll borin undir ákærða. Hann kvað einu viðskiptin sín við meðákærða, Stefán Axel, á þeim tíma, sem ákæran tekur til, hafa verið þau að ákærði hefði hitt hann á Nellys kaffi, sem Stefán Axel rak og þar hefði ákærði verið með reikning. Ekki hefði verið um önnur samskipti þeirra að ræða og aldrei hefði staðið til að ákærði keypti veitingastaðinn Casablanca og Stefán Axel hefði ekki verið í vinnu fyrir Brúnir. Ákærða var kynntur framburður meðákærða, Stefáns Axels, um að vörukaupin sem lýst er í þessum kafla ákærunnar hefðu verið gerð samkvæmt beiðni ákærða, Más, og greitt með tékkum, sem hann gaf út. Ákærði, Már, vísaði þessu á bug.
Afstaða ákærða, Más, til sakarefnisins í B-lið þessa kafla ákærunnar er hin sama og áður, hann neitar sök. Hann kveðst ekki hafa ritað nafn sitt á neitt skjalanna og engan þátt eiga í kaupunum, sem lýst er.
V A
Ákærði, Stefán Axel, neitar sök. Hann kvað meðákærða, Má, hafa gefið tékkana út og ákærði ritað á þá og notað eins og í ákæru greinir og staðfesti ákærði fyrir dóminum ritun tékkanna og notkun. Hann hefði keypt vörurnar ýmist að beiðni meðákærða, Arnar eða Más, og í umboði Más. Hann vissi ekki um innistæðuleysi tékkanna og að aldrei hefði staðið til að greiða, eins og lýst er í ákærunni, en hann taldi að ákærði Már gæti greitt þar sem hann hefði talið hann eiga von á arfi. Ákærði lýsti því að ekki hefði staðið til af sinni hálfu að greiða tékkana. Hann hefði talið Má gera það. Hann kvað Örn Karlsson hafa afhent sér tékkana að Má viðstöddum, en ekki hafa séð meðákærða, Má, rita á þá. Meðákærði, Már, vissi kaupverð hefði verið greitt með tékkunum sem lýst er í 8 töluliðum þessa kafla ákærunnar og Már hefði notað sitt bankakort í sumum tilvikanna. Ástæða þess að ákærði bað um að tékkarnir yrðu innleystir nokkrum vikum eftir notkun kvað ákærði þá, að meðákærðu, Már og Örn, hefðu greint sér frá því að von væri á peningum og var í því sambandi minnst á arf og peninga vegna viðskipta, sem ákærði vissi ekki hver voru. Hann hefði keypt munina samkvæmt töluliðum 1 og 2 að beiðni ákærða Más, en munina samkvæmt töluliðum 3 til 8 að beiðni ákærða, Arnar. Ákærði lýsti því að Már hefði ráðið sig til starfa fyrir Brúnir snemma árs 1997, en starf hans hefði verið að annast innkaup, snatt og annan rekstur og létta af ákærða Má störfum, en á þessum tíma var rætt um að ákærði, Már, hæfi rekstur veitingastaðarins Casablanca og undir aðalmeðferð málsins framvísaði ákærði, Stefán Axel, samningi, sem hann sagði undirritaðan af meðákærða, Má, og samningurinn sýni hvað til stóð, þ.e. að Már keypti Casablanca. Már hefur neitað þessu. Og þá hefði meðákærði, Már, verið að breyta húsnæðinu að Stýrimannastíg 10 og taldi ákærði að vörurnar sem keyptar voru ætti að nota við að innrétta það húsnæði. Ákærði, Stefán Axel, hefði að beiðni meðákærða, Más, hafa selt örbylgjuofn, sem keyptur var hjá Heklu og 7 vaska sem keyptir voru hjá Tengi og afhent Má peningana, sem fékkst fyrir söluna. Ákærði, Stefán Axel, ráðstafaði ísskáp til að greiða skuld sína við þriðja mann, en ísskápinn hefði hann tekið upp í skuld Más við sig vegna veitinga sem Már tók út í reikning á Nellys kaffi.
Ákærði, Örn Karlsson, var spurður um vitneskju sína um þau viðskipti sem lýst er í þessum ákærulið, einkum sökum framburðar ákærða Stefáns Axels. Örn kvaðst ekkert vita um þessi viðskipti.
Vitnið, Magnús Andri Hjaltason sölustjóri hjá Tengi efh., kom fyrir dóminn og lýsti því er hann seldi vörurnar, sem lýst er í 1. og 7. tölulið þessa kafla ákærunnar. Ungur maður hefði komið og keypt vörurnar og beðið um að tékkarnir yrðu geymdir. Hann gat ekkert borið um Brúnir eða ákærðu.
Vitnið, Ottó Björn Erlingsson verslunarmaður hjá Heklu, lýsti fyrir dóminum sölu vörunnar sem lýst er í töluliðum 2, 6 og 8 í þessum kafla ákærunnar. Í öll skiptin hefði komið sami maður sem kynnti sig sem starfsmann Brúna og keypt þar vörur sem hann sagði að nota ætti í leiguíbúðir. Beðið var um að tékkarnir, sem greitt var með, yrðu geymdir því von væri á peningum inn á tékkareikninginn.
Vitnið, Karl Eron Sigurðsson bifreiðastjóri, kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hefði stundað akstur fyrir ákærða, Stefán Axel, er hann rak veitingastað hér í borg. Stefán Axel hefði hringt í sig og beðið sig um að keyra vörur úr Heklu og flytja í geymslu í lagerhúsnæði, sem Stefán Axel hafði til umráða. Þetta gerði Karl 11. mars 1997 og fór tvær ferðir í Heklu og flutti vörurnar sem lýst er í 6. tölulið þessa kafla ákærunnar, en vörurnar voru greiddar áður en Karl sótti þær.
Vitnið, Jóhanna Magnúsdóttir guðfræðinemi, kom fyrir dóminn. Ekki þykir ástæða til að reifa vitnisburð hennar hér, en hún bar um samskiptin við ákærða vegna kaupanna, sem lýst er í 4. tölulið þessa ákærukafla.
Vitnið, Halldór Gunnarsson sölustjóri GKS, lýsti því er ákærði, Stefán Axel, kom í fyrirtækið og gaf upp nafnið Casablanca vegna kaupa á stólum, sem lýst er í 5. tölulið þessa kafla ákærunnar. Lögð var áhersla á að útvega stólana fyrir tiltekna helgi er opna átti nýja hæð í veitingastaðnum. Beðið ver um að ávísunin yrði geymd til 2. apríl 1997, en vitnið kvað fullorðinn mann hafa komið og framvísað bankakorti vegna kaupanna og hafi sér verið greint frá því að það hefði verið Már Karlsson, en Halldór sá hann ekki.
Vitnið, Sigurður Hilmar Ólafsson pípulagningameistari, lýsti því fyrir dóminum að hann hefði aðstoðað ákærða, Stefán Axel, í ýmsu er laut að útbúningi skjala. Í því sambandi staðfesti hann að hafa útbúið óundirritaðan starfssamning meðal gagna málsins, en ákærði, Stefán Axel, heldur því fram að samningurinn sýni að hann starfaði hjá Brúnum. Þá bar vitnið að hafa útbúið skjalið um Casablanca, en á því skjali er nafnið Már Karlsson, en ákærði, Már, kvaðst ekki hafa ritað nafn sitt á skjalið eins og rakið var og aldrei hefði staðið til að hann keypti Casablanca. Engin önnur nafnritun er á því skjali.
Vitnið, Guðbjartur Þór Kristjánsson barþjónn, lýsti því fyrir dóminum að hann hefði farið tvisvar sinnum í Heklu og aðstoðað ákærða, Stefán Axel, vegna kaupa þar. Þá voru borin undir vitnið fjölmörg skjöl sem getið er um í V. kafla ákærunnar og ákært er fyrir. Vitnið staðfesti að hafa ritað nafn sitt á þessi skjöl sem vottur. Nafnritun Más Karlssonar er á þessum skjölum, svo sem lýst er í þessum kafla ákærunnar. Vitnið kvaðst í öllum tilvikum hafa verið viðstatt er Már ritaði nafn sitt á skjölin, en hjá lögreglunni bar hann þveröfugt, þ.e. að hann hefði aldrei verið viðstaddur er Már ritaði á skjölin. Stefán Axel hefði komið með skjölin til sín og beðið sig um að votta þau. Engin handbær skýring kom fram á þessum breytta vitnisburði sem þykir ótrúverðugur.
V kom fyrir dóminn sem vitni í Brúnaþætti málsins. Hann kvaðst hafa stundað veitingarekstur í 4 til 5 ár í félagi við ákærða, Stefán Axel. Hann lýsti vitneskju sinni um hugsanlega sölu Casablanca til Más Karlssonar og/eða Brúna og vissi ekki að ekki varð af þeim viðskiptum, en hann kvaðst hafa séð ákærða, Má, skrifa nafn sitt á skuldabréf, sem tengjast átti þeim viðskiptum. V kvaðst þekkja það eitt til Más Karlssonar, að hann hefði hitt hann í örfá skipti á Nelly´s kaffi, þar sem skrifaðar voru hjá honum veitingar. Stefán Axel hefði greint sér frá hugleiðingum um annan rekstur en þann sem þeir áttu í í sameiningu og hefði V ekki litist á það, enda hefðu þeir nóg að gera við þann rekstur.
Verður nú stuttlega vikið að einstökum töluliðum þessa kafla ákærunnar en einkum er vísað er til þess sem rakið hefur verið að framan um málavextina.
V A 1 og 2
Ákærði, Stefán Axel, kvaðst að beiðni meðákærða, Más, hafa sent á Stýrimannastíg 10 hlutina sem keyptir voru samkvæmt þessum ákæruliðum.
V A 3
Ákærði, Stefán Axel, kvað hjólbarðanna hafa verið setta undir bifreið í eigu meðákærða Más, en bifreið þessa notaði ákærði, Stefán Axel, á þessum tíma.
V A 4
Ákærði, Stefán Axel, kvað þessa hluti hafa verið flutta í geymslu að horni Amtmannsstígs og Ingólfsstrætis, en síðan hefði Örn Karlsson flutt þetta að Stýrimannastíg 10.
V A 5-8
Ákærði, Stefán Axel, kvað þessa muni alla hafa verið í flutta geymslu á horni Amtmannsstígs og Ingólfsstrætis.
Þorsteinn Halldórsson lýsti því fyrir dóminum að hann hefði snemma árs 1997 keypt ísskáp, eldavél og ofn af ákærða, Stefáni Axel og hann hefði séð hjá honum reikning frá Heklu, en þaðan voru vörurnar og því ekkert spurt frekar um það hvernig Stefán Axel var að vörunum kominn.
V B 1-3
Afstöðu ákærða, Más, til sakarefnis þessa kafla er lýst að framan, en hann neitar sök.
Ákærði, Stefán Axel, kvað upphaf þessara viðskipta hafa verið það, að meðákærði, Már, hefði komið að máli við sig og beðið sig að kanna hvort hann vissi um bíla á góðum kjörum. Ákærði hefði þá tekið að spyrjast fyrir um það uns maður kom að máli við ákærða og bauð honum bíl til kaups. Hann kvað kaupunum rétt lýst í þessum þremur töluliðum ákærunnar. Ákærði kvaðst hafa annast öll samskiptin við Samvinnusjóð Íslands hf. Meðákærði, Már, hefði skrifað undir skjölin, en ákærði hefði ekki haft vitneskju um það að Már eða Brúnir gætu ekki greitt. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér fjárhagsstöðu Más sem hefði skoðað allar bifreiðarnar áður en kaupin voru gerð. Ákærði, Már, hefði sagt sér að hann mætti hafa umráð Mercedes-Benz bifreiðarinnar, sem lýst er í 1. tölulið þessa kafla ákærunnar, en bifreiðina átti ákærði að nota til að annast verkefni fyrir Má og Brúnir. Sér hefði skilist að Mazda bifreiðin í tölulið 2 hefði verið keypt í þágu dóttur ákærða, Más, en ákærði kvaðst hins vegar hafa lánað Guðjóni Sveinssyni bílinn, sem lagt var hald á hjá honum. Jeppinn samkvæmt 3. tölulið var keyptur í þágu Brúna.
Vitnið, Anthony Karl Gregory ráðgjafi, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum fyrir hönd Samvinnusjóðsins vegna þessa máls. Hann kvað Guðmund Sigurgeirsson, eiganda Gæludýrahússins, hafa hringt og spurt hvort mögulegt væri fyrir Brúnir og Má Karlsson að yfirtaka lán vegna bílakaupanna. Eftir þetta var kannað hvort þessir aðilar væru á vanskilaskrá, svo reyndist ekki vera, auk þess sem Már var skráður fyrir fasteign. Bifreiðakaupin fóru síðan fram eins og lýst er í þessum þremur töluliðum þessa kafla ákærunnar. Hann hefði ekki verið viðstaddur er skjölin voru undirrituð því skjölin voru sótt og þeim skilað undirrituðum síðar.
Vitnið, Guðmundur Jóhann Sigurgeirsson forsvarsmaður Gæludýrahússins, lýsti því fyrir dóminum að bílana, sem lýst er í 1. og 3. tölulið þessa kafla ákærunnar, hefði ákærði, Már, og Brúnir keypt eins og lýst er. Hann hefði farið með lánsumsóknirnar í Samvinnusjóðinn vegna kaupanna á þessum tveimur bílum og kaupin verið samþykkt og gengið frá skjölum til undirritunar, en Jón Ellert Tryggvason sá um sölu bílana fyrir Guðmund. Guðmundur vissi ekki hvort hann sá Má Karlsson nokkurn tíma vegna þessarra bílaviðskipta, sem hann mundi lítið eftir, en hann taldi Jón Ellert sjá um allt er laut að sölu bílanna.
Vitnið, Jón Ellert Tryggvason ferðaheildsali, lýsti milligöngu sinni við sölu bílanna, sem lýst er í 1. og 3. tölulið þessa kafla ákærunnar. Jón kvað ákærða, Stefán Axel, hafa haft samband við sig og spurt um bíla til sölu, en Jón hefði á þessum tíma staðið í bílainnflutningi. Jón hefði þá boðið honum þessa tvo bíla til kaups, fyrst Benz bifreiðina og síðar Willys bílinn. Stefán Axel hefði gefið sér upp tvö nöfn, sem áttu að yfirtaka lánin hjá Samvinnusjóðnum. Jón hringdi þangað og spurði hvort þessi viðskipti gætu gengið og fékk jákvætt svar. Jón hitti ekki ákærða, Má Karlsson, vegna þessara viðskipta.
VI
Ákærði, Már, neitar sök. Hann kvaðst ekki hafa ritað nafn sitt á þau skuldabréf sem hér er lýst og ekki vita hver gerði það.
Ákærði, R, kvaðst ekkert muna eftir atburðum sem lýst er í þessum ákærulið. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa ritað nafn sitt á skuldabréfin og eftir skoðun skuldabréfanna telja að rithönd sín væri fölsuð á bréfunum. Hjá lögreglunni lýsti ákærði því, að hann teldi að meðákærðu, Örn og Stefán Axel, hefðu setið um sig er hann var illa fyrirkallaður sökum óreglu og látið sig skrifa undir skuldabréf. Fyrir dómi gat ákærði ekki lagt mat á þetta, en endurtók að hann myndi ekki eftir þessum viðskiptum og nafnritunum á skuldabréfin.
Ákærði, Stefán Axel, kvað meðákærða, Örn Karlsson, hafa haft samband við sig og beðið sig um að renna við að Stýrimannastíg 10, sem ákærði gerði, og þar hefði Örn Karlsson afhent sér skuldabréfin sem hér um ræðir inn um bílglugga á bifreið ákærða. Ákærði hefði tekið við skuldabréfunum í tengslum við fyrirhuguð kaup meðákærða, Más, á Casablanca og átti ákærði að athuga hvort hægt væri að koma skuldabréfunum í verð. Hann hefði framvísað skuldabréfunum hjá Jöfri og spurt hvort fyrirtækið vildi taka við þeim sem greiðslu fyrir bílana sem lýst er í ákærunni, en bílana átti ákærði að fá sem greiðslu upp í sölulverð fyrir Casablanca. Áður hefði ákærði verið í sambandi við Jöfur og meðal annars gefið upp nafn og kennitölu þeirra aðila sem rituðu á skuldabréfin. Það var síðan 25. mars 1997 sem starfsmaður Jöfurs hringdi í ákærða og bað hann um að koma með skuldabréfin, þar sem hann hefði viljað skoða form skuldabréfanna. En ákærði hefði greint starfsmanni Jöfurs frá því að ekki gæti orðið af viðskiptunum þann dag, þar sem meðákærði, Már, væri ekki til staðar til að ganga frá framsali á skuldabréfin, en ákærði hefði séð meðákærða, Má, undirrita öll skuldabréfin sem hér um ræðir. Ákærði hefði sjálfur ekki verið í aðstöðu til þess að athuga hvort skuldabréfin væru góð. Ákærði staðfesti framburð sinn hjá lögreglunni þess efnis að hann hefði víða framvísað skuldabréfunum 6 í því skyni að selja þau og meðal annars hjá Jöfri eins og lýst var. Hann kvaðst ekki hafa vitað betur en til stæði af hálfu ábyrgðaraðila að greiða skuldabréfin og taldi meðákærða, R, hafa átt eignir á þessum tíma.
Ákærði, Örn Karlsson, var spurður um samskipti sín og Stefáns Axels með skuldabréf þau sem hér um ræðir. Hann kvaðst ekki hafa afhent Stefáni Axel skuldabréfin eins og hann lýsti og rakið var að framan. Hann kvaðst ekkert vita um skuldabréfin og ekki muna eftir því að hafa verið viðstaddur er Már Karlsson undirritaði þau, eins og ákærði, Stefán Axel, hefur borið.
Vitnið, Lúðvík Hraundal sölustjóri hjá Jöfri, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við ákærða, Stefán Axel, sem verið hefði í sambandi við sig vegna bílakaupanna. Lúðvík mundi atburði ekki vel, en þó það að hafa verið búinn að kanna fjármögnun bílakaupanna með því að hafa samband við tryggingafélög, Samvinnusjóðinn og Búnaðarbankann. Skuldabréfin sem hér um ræðir og nota átti sem greiðslu vegna bifreiðanna, eins og lýst er í ákærunni, kvaðst Lúðvík hvergi hafa sýnt nema í Búnaðarbankanum í Kópavogi. Áður en ákærði, Stefán Axel, var handtekinn í starfstöð Jöfurs hefði lögreglan haft samband við sig og spurt hvort hann hefði sótt um fjármögnun bílakaupa hjá Samvinnusjóðnum en lögreglan hefði greint sér frá því að eitthvað væri ekki í lagi með þessi viðskipti og hefði verið óskað eftir því að lögreglan yrði látin vita er Stefán Axel kæmi í Jöfur vegna viðskiptanna. Lúðvík kvaðst ekki hafa beðið Stefán Axel um að hafa skuldabréfin meðferðis er hann kom og var handtekinn, en Lúðvík kvað hugsanlegt að hann hefði verið búinn að greina Stefáni Axel frá því áður en hann kom og var handtekinn, að Búnaðarbankinn vildi ekki kaupa skuldabréfin og fjármagna bílakaupin. Lúðvík mundi þetta ekki og mundi atburðarás að ýmsu leyti óljóst fyrir dóminum, en hann kvað hafa staðið til að Stefán Axel greiddi bílana með skuldabréfunum 6.
V kom fyrir dóminn sem vitni í þessum þætti málsins og lýsti því er hann sá ákærða, Má, rita nafn sitt á skuldabréf sem tengjast átti fyrirhuguðum kaupum hans og/eða Brúna á Casablanca. V sá ekki texta skjalanna svo hann gæti borið nákvæmlega um þau, en framburður hans var rakinn undir ákærulið V A hér að framan.
Vitnið, Guðmundur H. Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, lýsti því fyrir dóminum hvernig lögreglan fékk upplýsingar um skuldabréf þau, sem hér er lýst, en lögreglan hefði fengið upplýsingar frá Samvinnusjóðnum hf. um að skuldabréf frá Brúnum hefði verið boðið til kaups. Samvinnusjóðurinn gaf lögreglunni upp nafn mannsins sem bauð skuldabréfin og að bréfin hefðu á einhvern hátt tengst Jöfri. Guðmundur ræddi símleiðis við Lúðvík Hraundal hjá Jöfri sem greindi frá því að ákærði, Stefán Axel, hefði boðið skuldabréfin sem greiðslu í bifreiðakaupum. Sér hefði skilist að Lúðvík hefði ekki séð skuldabréfin, en ákærði, Stefán Axel, hefði ætlað að hafa samband síðar vegna þessa. Guðmundur bað Lúðvík um að hringja og láta vita ef ákærði Stefán Axel hringdi eða kæmi í Jöfur. Lúðvík hefði síðan hringt síðara hluta dags og sagt að ákærði Stefán Axel hefði hringt og boðað komu sína í Jöfur um kl. 17:00 þennan dag. Lögreglan hafi þá farið þangað og verið viðstödd er ákærði Stefán Axel kom í Jöfur en lögreglumenn þekktu ákærða, Stefán Axel, ekki í sjón. En Lúðvík gaf lögreglunni til kynna hver hefði átt samskipti við hann vegna skuldabréfanna og var ákærði, Stefán Axel, þá handtekinn eftir að hann hafði lagt eitt skuldabréfanna á borðið hjá Lúðvík.
Niðurstöður
Ákæra dagsett 6. október 1998 (Rúnir).
I
[...]
II
Í upphafi verður rakin afstaða dómsins til efnislýsingarinnar í upphafi þessa kafla ákærunnar, en síðan vikið að einstökum töluliðum þessa kafla ákærunnar.
Ákærðu var gefið að sök í þessum ákærulið að hafa í sameiningu svikið út matvöru kerfisbundið, eins og lýst er. Dómurinn telur fjölmargt í gögnum málsins styðja þá efnislýsingu ákærunnar að ákærðu, M og Örn, hafi í sameiningu svikið út matvörurnar eins og lýst er.
Ákærði, N, hefur viðurkennt að hafa selt vörurnar samkvæmt öllum töluliðum þessa kafla ákærunnar, utan ýsuna sem lýst er í 6. tölulið, en hana reyndi ákærði N að selja, en gekk ekki. Ákærði, N, hefur borið að hann hafi ekki átt neinn þátt í útvegun matvælanna og enginn vitnisburður eða önnur gögn hrekja þann framburð hans. Hann lýsti fyrir dóminum samskiptum sínum við meðákærðu og að söluandvirði hefði verið skilað Rúnum og hann fengið greiðslu vegna sölumennsku sinnar eftir söluna sem lýst er í 5. tölulið. Í öllum tilvikunum voru fyrir hendi reikningar sem sýndu að matvaran var greidd og var þeim reikningum framvísað er varan var seld. Þótt fyrir liggi að matvaran var í sumum tilvikanna seld nokkuð undir því verði, sem Rúnir höfðu greitt fyrir vöruna samkvæmt reikningum, leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að ákærða, N, hefði mátt vera ljóst eða átt að vera ljóst að varan var illa fengin og að aldrei hefði staðið til að greiða fyrir hana, enda liggur fyrir og vitni hafa borið að alls kyns sölumáti og afföll tíðkist, einkum varðandi sölu á kjúklingum, og alveg sérstaklega þegar selt er gegn staðgreiðslu eins og var í þeim tilvikum er ákærði, N, seldi vöruna. Þá eru ekki til staðar nein þau gögn sem eru til þess fallin að renna stoðum undir þá fullyrðingu ákæruvaldsins að ákærði N hefði verið í aðstöðu til þess eða haft þess konar samband við meðákærðu að honum hefði mátt vera ljóst að varan væri illa fengin og ekki hefði staðið til að greiða hana. Dómurinn telur því ekki við annað að styðjast en framburð ákærða, N, um að hann hefði verið í góðri trú er hann seldi vörurnar og ekkert er fram komið í málinu um að ákærði, N, hafi ásamt meðákærðu svikið út matvöruna, svo sem lýst er í upphafi þessa kafla ákærunnar. Er því gegn eindreginni neitun ákærða, N, ósannað að hann hafi gerst sekur, svo sem ákært er fyrir og ber að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, Örn Karlsson, lýsti samskiptum sínum og ákærða, M, og kaupum á kennitölu fyrir Rúnir. Félagið átti engar eignir og enginn rekstur var hjá félaginu. Ákærði, Örn, kvaðst hafa verið starfsmaður Rúna og M á því tímabili sem ákæran tekur til. Þessu hefur ákærði, M, neitað og kveður ákærða, Örn, hafa spilað með sig og fremur megi segja að hann hafi verið í vinnu hjá ákærða, Erni. Ákærði, Örn, lýsti því að er hann hóf störf hjá félaginu hefði hann látið taka sig af atvinnuleysisskrá. Hann virðist engin laun hafa haft á þessu tímabili, en þurft að lána vinnuveitanda sínum fé, t.d. til að hann gæti stofnað tékkareikning, en Örn lánaði ákærða, M, peninga til að leggja inn við stofnun slíks reiknings. Þá hefur Örn lýst því að hann hafi lánað ákærða, M, 300.000 krónur á þessu tímabili. Þá útvegaði Örn húsnæði að Langholtsvegi 115b, þar sem Rúnir voru til húsa. Örn Karlsson vélritaði alla tékkana, sem lýst er í hinum 7 töluliðum þessa kafla ákærunnar og einnig víxlana sem lýst er í 1. og 3. tölulið. Þetta kvaðst Örn hafa gert að beiðni ákærða M, en tékkarnir eru allir dagsettir 20. maí 1996, fyrir utan einn sem dagsettur er 15. s.m. Örn hefur borið að hann hafi séð ákærða, M, skrifa undir alla tékkana, sem í þessum ákærulið greinir.
Rannsókn Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa styður þessa niðurstöðu, en samkvæmt niðurstöðu hans á rannsókn tékka sem lýst er í þessum ákæruliðum eru nokkrar líkur á því að M hafi undirritað tékkana.
Mat dómsins á rithönd undir tékkana er það, að rithönd þar líkist mjög rithönd M. Með því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn sannað að mestu leyti gegn neitun ákærða, M, að hann hafi gefið alla tékkana út eins og ákært er út af og notað víxlana sem lýst er í 1. og 3. tl. þessa kafla ákærunnar.
Er málavextir voru raktir að framan var lýst frásögn fólksins sem seldi matvöruna, en í öllum tilvikum var sú saga sögð að verið væri að afla fjár fyrir framhaldsskólanema. Ákærði, M, lýsti því að hann hefði í einfeldni sinni trúað ákærða, Erni, sem hefði lagt fyrir hann að segja þessa sögu er kjúklingarnir voru keyptir, sem lýst er í 1. tölulið þessa kafla ákærunnar.
Ákærði, N, hefur borið um samskipti sín við ákærða, Örn og M vegna sölu matvælanna, svo sem lýst var, en svo virðist sem Örn hafi ráðið ferðinni sökum óreglu meðákærða M, en hann hefur borið um óreglu sína á þeim tíma sem hér um ræðir á sama veg og fleiri hafa gert.
Ráða má af því sem rakið hefur verið að framan, svo sem af því sem rakið var undir málavöxtum, að ákærði Örn átti frumkvæði allt frá því að kennitalan var keypt og til þess að upp komst um svikastarfsemina. Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað, en að mestu leyti gegn neitun ákærða, M, og gegn eindreginni neitun ákærða, Arnar, að þessir tveir ákærðu hafi í sameiningu svikið kerfisbundið út matvörur í nafni Rúna sf., samtals að verðmæti 6.899.711 krónur, eins og lýst er í upphafi þessa ákæruliðar og greitt með tékkum og víxlum eins og þar er lýst og reyndust allir tékkarnir innistæðulausir við innlausn í banka. Ekkert hefur komið fram um að fjárráð ákærðu hafi verið þannig að þeir hefðu getað greitt tékkana. Þvert á móti voru fjárráð þeirra lítil, ákærði Örn nýlega kominn úr refsivist og á atvinnuleysisskrá og ákærði M með 75 til 80.000 krónur í örorkubætur á mánuði og vissi ákærði Örn um tekjur hans. Með vísan til alls ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti þykir sannað að aldrei hafi staðið til af hálfu ákærðu að greiða andvirði tékkanna og víxlanna tveggja, enda að mati dómsins ljóst að ákærðu hugðust vera búnir að selja matvælin áður en innlausnardagur tékkana kæmi, en svo sem rakið var voru allir tékkarnir dagsettir 20. maí 1996 utan einn. Ekki er upplýst hvernig ákærðu ráðstöfuðu söluandvirðinu.
Lýsing ákærunnar á sölum, dagsetningum og fjárhæðum samkvæmt þessum ákæruliðum er rétt svo og notkun skjalanna.
II 1
Ákærði, M, hefur viðurkennt að hafa ritað nafn Þorsteins Þorsteinssonar sem ábekings á víxilinn, en Þorsteinn Þorsteinsson hefur borið að hann hafi ekki veitt samþykki sitt til þessa. Dómurinn telur með vísan til þessa sannað skjalafals það sem hér um ræðir og eins og sambandi ákærðu, M og Arnar, var háttað og hlutverkaskiptingu hvors þeirra um sig þykir sannað að þeir hafi báðir gerst sekir um skjalafals það sem hér er ákært fyrir enda hafa þeir sammælst um framningu brota sinna.
Vísað er til þess sem áður sagði um þá niðurstöðu dómsins, að ákærði, M og Örn, hefðu í sameiningu svikið út vörurnar, eins og lýst var, og má vitna til vitnisburðar Bjarna Ásgeirs Jónssonar, sem bar um samskiptin við ákærða, M, og þá hefur ákærði, M, viðurkennt fyrir dóminum að hafa selt víxil þann sem fékkst sem greiðsla er kjúklingarnir voru seldir. Þetta þykir renna enn frekari stoðum undir sekt ákærða, M.
II 2
Auk þess sem áður greinir um sönnun fyrir sekt ákærðu, M og Arnar, má vísa til vitnisburðar Kristjáns Gunnarssonar bónda, sem bar um viðskipti sín við ákærða, M. Og þá rennir það stoðum undir sekt ákærða, Arnar, að hann flutti kjúklingana í frystihólf, svo sem rakið var. Að öðru leyti er vísað til þess sem áður sagði um sekt ákærðu, M og Arnar.
II 3
Vísað er til þess sem áður var rakið um sönnun fyrir sekt ákærðu, M og Arnar. Ákærði, M, ýmist neitaði eða vissi ekki hvort hann kom að þessum viðskiptum. Hann hefur viðurkennt að hafa notað víxilinn, en kvaðst ekkert vita um falsaða nafnritun Steinars Karls á víxilinn. Með því að nota falsaðan víxil í viðskiptum hefur ákærði gerst sekur um skjalafals, en svo sem sambandi ákærðu, M og Arnar, var háttað og með vísan til þess að ákærði, Örn, útbjó víxilinn og virðist að mestu leyti hafa skipulagt brotastarfsemina telur dómurinn einnig sannað að hann hafi gerst sekur um skjalafals það, sem hér er ákært fyrir.
II 4
Vísað er til ofanritaðra röksemda um sekt ákærðu, M og Arnar, en auk þess sem þar var rakið má hér vísa til þess að ákærði, M, viðurkenndi fyrir dóminum að hafa selt víxil vegna þessara viðskipta og að ákærði, Örn Karlsson hefði þá verið með í för ásamt ákærða, N. Þetta þykir renna enn styrkari stoðum undir sakfellingu ákærðu, M og Arnar, og ásamt öðru sýna að þeir hafi saman staðið að því broti sem lýst er í þessum ákærulið á sama hátt og í öðrum töluliðum þessa kafla ákærunnar.
II 5
Á sama hátt og við aðra töluliði þessa kafla ákærunnar er vísað til ofangreindra röksemda um sekt ákærðu, M og Arnar. Því til viðbótar má geta þess að ákærði, M, telur ákærða, Örn, hafa keypt rækjurnar sem hér um ræðir og kvaðst hann hafa verið sendur með umslag til að afhenda er hann sótti rækjuna. Hann viðurkenndi að hafa selt rækjurnar ásamt ákærða, N, sem lýsti því að hann hefði borið kauptilboð í rækjurnar undir ákærða, Örn Karlsson, áður en salan fór fram.
Dómurinn telur allt það sem hér var rakið renna enn frekari,stoðum undir sekt ákærðu, M og Arnar.
II 6
Vísað er til ofanritaðra raka um sekt ákærðu, M og Arnar, en auk þess er rétt að vísa til þess að ákærði, M hefur játað að hafa ritað nafn sitt á víxil sem útbúinn var vegna viðskiptanna sem hér er lýst og þá bar ákærði, M, að hann teldi ákærða, Örn, hafa dregið sig inn í þau viðskipti sem hér er lýst. Þessar staðreyndir telur dómurinn renna styrkari stoðum undir sekt ákærðu samkvæmt þessum tölulið ákærunnar.
II 7
Vísað er til ofanritaðra raka um sekt ákærðu, M og Arnar, en auk þess telur dómurinn framburð ákærða, N, renna enn frekari stoðum undir sök þeirra. En hann bar að kauptilboð vegna sölunnar hefði verið borið undir ákærða, Örn, sem útbjó tékkann og sá ákærða, M, rita nafn sitt á hann og vísast til þess sem áður var rakið um þetta.
Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað, að mestu leyti gegn neitun ákærðu, M og Arnar, að þeir hafi framið þá háttsemi sem lýst er í þessum kafla ákærunnar og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
III 1
Ekki er sannað gegn eindreginni neitun ákærða, Arnar, að hann hafi átt þátt í kaupum vélsleðans eða komið nærri skjalafalsinu, sem hér er ákært út af. Ber samkvæmt því að sýkna ákærða, Örn, af þessum ákærulið.
Framburður M um þann tilgang með vélsleðakaupunum að hagnast hefði átt um 100.000 krónur með því að selja sleðann til bónda úti á landi þykir fjarstæðukenndur. Sannað er með játningu ákærða hjá lögreglunni, þar sem hann játaði útgáfu skuldabréfsins, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hér er lýst, enda notaði ákærði skuldabréfið við kaupin og vissi að nafnritanir voru falsaðar á skuldabréfið og með notkun skuldabréfsins hefur ákærði, M, gerst sekur um skjalafals sbr. 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, svo sem lýst er í ákærunni. Ákærði bar um tekjur sínar svo sem rakið var og fyrir dóminum. Kaðst hann engu getað svarað um það hvort hann var borgunarmaður vélsleðans. Með öllu þessu telur dómurinn sannað að ákærði hafi ekki verið borgunarmaður og að aldrei hafi staðið til að greiða vélsleðann, enda greiddi ákærði aldrei af honum og hefur hann því einnig gerst sekur um brot gegn 248 gr. almennra hegningarlaga, svo sem ákært er fyrir.
III 2
Sannað er með framburði ákærða að hann var ekki borgunarmaður fyrir tækjunum eins og komið var fyrir honum er þessi kaup fóru fram, en vísa má til framburðar ákærða sem kvað allt hafa rúllað „til helvítis “ á þessum tíma. Með þessum kaupum, sem einsýnt þykir að ákærði gat ekki greitt, hefur hann gerst sekur um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákærunni greinir.
Ákærði, Örn, stóð á engan hátt að þessum kaupum með ákærða, M. Ekki er sannað, gegn neitun hans, að hann hafi vitað hver staðan í þessum kaupum var. Verðmæti faxtækisins sem Örn fékk er heldur ekki svo mikið að hann hefði mátt reikna með öðru en að ákærði, M, gæti eða hefði greitt tækið.
Með vísan til þess þykir ekki fram komin nægileg sönnun gegn eindreginni neitun ákærða, Arnar, að hann hafi haft vitneskju um hvernig meðákærði var að tækjunum kominn og ber því að sýkna ákærða, Örn, af þessum ákærulið.
IV
Öll samskipti starfsmanna Fjöreggs og Rúna fóru fram símleiðis og er ekki hægt að slá neinu föstu um það hver annaðist samskiptin fyrir hönd Rúna og blekkti starfsmenn þess til að láta af hendi kjúklingabitana. Hins vegar telur dómurinn sannað með framburði ákærða, Arnar Karlssonar, og með rithandarrannsókn Haraldar Árnasonar, og einnig er það mat dómsins, að ákærði, M, hafi gefið út tékkann sem hér er lýst og ákærða, M, væri ljóst við afhendingu tékkans að hann yrði innistæðulaus við innlausn í banka 20. maí sem og varð raunin. Þessi háttsemi ákærða varðar við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Þykir að nokkru mega vísa til þess sem rakið var undir niðurstöðum í II. kafla ákærunnar um samstarf ákærðu, M og Arnar, við fjársvikastarfsemi þá sem ákært er vegna í máli þessu. Tékkinn sem hér um ræðir er dagsettur 20. maí, eins og flestir tékkarnir í II. kafla ákærunnar og samskonar saga notuð til að blekkja viðsemjendur. Þá hefur ákærði Örn viðurkennt að hafa vélritað tékkann.
Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað að ákærði, Örn, hafi átt sinn þátt í fjársvikum þeim sem hér er ákært út af og varðar brot hans einnig við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, Örn Karlsson, bar um afdrif kjúklingabitanna, svo sem rakið var, og meðal annars um það að ákærði, Stefán Axel, hefði tekið við þeim í góðri trú.
Ógjörningur er að ráða af gögnum málsins eða framburði ákærðu fyrir dómi hver átti Ölkjallarann, sem virðist hafa gengið í kaupum og sölum pappírslaust í tíma og ótíma.
Ákærði, Stefán Axel, hefur borið að vörurnar sem hann fékk í hendur og hann er ákærður vegna í þessum ákærulið auk varnings, sem lýst er í ákæruliðum V og VI.3, hefði hann fengið sem greiðslu fyrir að reka Ölkjallarann í 10 til 14 daga, en hann kvaðst ekki hafa vitað betur en að ákærði, M, hefði eignast Ölkjallarann á eftir Guðjóni Sveinssyni sem bar fyrir dómi að hann hefði selt ákærða, Stefáni Axel, og V Ölkjallarann snemma árs 1996, en áður hefðu Stefán Axel og V rekið Ölkjallarann í 1 ½ til 2 mánuði.
Ákærði, V, hefur borið fyrir dómi að þeir ákærðu, Stefán Axel, hefðu á þeim tíma sem hér um ræðir átt í samstarfi og því hefði sér verið um það kunnugt að ákærði, Stefán Axel, rak ekki Ölkjallarann á þessum tíma fyrir M.
Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn ljóst, að ákærði, Stefán Axel, rak Ölkjallarann ekki fyrir M eins og hann hefur borið. En miðað við hvernig að öllu var staðið með Ölkjallarann, þá er ekki loku fyrir það skotið að ákærði hafi með réttu talið sig reka staðinn fyrir ákærða, M. Hvernig sem þessu var varið þykir verða að styðjast við framburð ákærða, Stefáns Axels, sjálfs með vitneskju hans varðandi það hvernig kjúklingabitarnir voru tilkomnir.
Samkvæmt þessu telur dómurinn ósannað gegn eindreginni neitun ákærða Stefáns Axels, að hann hafi vitað að kjúklingabitarnir voru illa fengnir og ber samkvæmt því að sýkna hann.
V
Samskipti vegna sölu laxins fóru að mestu leyti fram símleiðis, en greiðsla var innt af hendi að Langholtsvegi 115b á starfstöð Rúna, þar sem laxinn var afhentur. Ragnar Hjörleifsson framkvæmdastjóri, sem tók við greiðslunni, útilokaði að ákærði, M, hefði afhent greiðsluna og þykir það draga úr líkindum fyrir því að ákærði, M, hafi gefið tékkann út, þótt það útiloki það alls ekki.
Ákærði, M, hefur staðfastlega neitað að hafa gefið tékkann út. Ákærði, M, er ákærður fyrir hlutdeild samkvæmt þessum ákærulið og er ekki upplýst hver sveik vöruna út. Gegn eindreginni neitun ákærða, M, er ekki sannað að hann hafi gefið út tékkann, sem hér er lýst, og ber samkvæmt því að sýkna hann af þessum kafla ákærunnar.
Vísað er til þess sem sagði í niðurstöðum ákæruliðar IV um Ölkjallarann og viðskiptin með hann og starfs ákærða, Stefáns Axels, þar. Dómurinn telur að leggja beri framburð ákærða, Stefáns Axels, til grundvallar og er því ósannað gegn eindreginni neitun hans, að hann hafi vitað að laxinn væri illa fenginn og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
VI 1
Sannað er með skýlausri játningu ákærða að hann hafi gerst sekur um að taka út vörur að fjárhæð 12.507 krónur án þess að ætla að greiða og varðar sú háttsemi við 248. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur neitað því að hafa með stofnun reikningsviðskiptanna gert öðrum kleift að taka út vörur og ekki er upplýst hver tók út vörur fyrir 212.871 krónu hinn 22. maí 1996 og hvort það var gert í þágu ákærða og/eða Rúna.
Gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi með stofnun reikningsviðskiptanna gert öðrum kleift að taka út vörur eins og ákært er út af og ber að sýkna ákærða, M, af þeim þætti þessa ákæruliðar.
Vísað er til þess sem rakið var undir IV. kafla ákærunnar um viðskiptin með Ölkjallarann og það, að ákærði, Stefán Axel, taldi sig vera að fá greiðslu fyrir að reka staðinn fyrir ákærða, M.
Ósannað er gegn eindreginni neitun ákærðu, Stefáns Axels og V, að þeir hafi framið þá háttsemi sem þeir eru ákærðir fyrir og ber því að sýkna þá báða.
VI 2
Ákærði, M, er ákærður fyrir hlutdeild í fjársvikum með því að hafa gefið út tékkann, sem lýst er. Ekki er upplýst hver keypti parketið. Gegn eindreginni neitun hans er ósannað að hann hafi gefið þennan tékka út og ber að sýkna hann af þessum kafla ákærunnar.
Upplýst er í málinu og sannað að ákærði, V, seldi Val Ásbergi Valssyni parketið. Ákærði, Stefán Axel, átti þar ekki hlut að máli, þótt hann hefði afhent parketið eins og lýst var og ber því að sýkna ákærða, Stefán Axel.
Parketið var staðgreitt með tékka þeim sem lýst er í ákærunni og ákærði, V, kvaðst hafa hringt í verslunina og leitað upplýsinga og fengið þær upplýsingar að parketið væri greitt og hann hefði því verið í góðri trú. Ekki er við annað að styðjast en framburð ákærða, V, um þetta og ber því að sýkna hann.
VI 3
Sannað er með játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, þar á meðal vitnisburði Jóns Bjarna Gunnarssonar, að ákærði hafi framið þá háttsemi, sem hér er lýst og varða brot ákærða við 248. gr. almennra hegningarlaga, enda kvaðst ákærði ekki hafa velt því fyrir sér hvernig hann greiddi málninguna og ljóst af gögnum málsins að hann hafði ekki greiðslugetu til þess.
Vísað er til niðurstöðu í IV. kafla varðandi það, að ákærði Stefán Axel taldi sig hér vera að taka við greiðslu frá ákærða, M, fyrir að reka Ölkjallarann fyrir hann. Gegn eindreginni neitun ákærða, Stefáns Axels, er ósannað að hann hafi vitað að málningin var illa fengin og ber að sýkna hann.
Gegn eindreginni neitun ákærða, V, er ósannað að hann hafi selt málningu og ber að sýkna hann.
VII
Ákærði, Örn Karlsson, hefur borið að hann muni vel eftir þessum kjötkaupum ákærða, M, og að hafa séð hann gefa tékkann út og ákærði, Örn, hefur viðurkennt að hafa vélritað tékkann sem dagsettur er 20. maí 1996, eins og flestir tékkarnir í II. og IV. kafla ákærunnar og enn var notuð samskonar saga til að blekkja viðsemjendur.
Dómurinn vísar til þess sem áður sagði um samstarf ákærðu, M og Arnar, við fjársvikin, sem þeir stunduðu saman á þessum tíma og röksemda er áður hafa verið raktar og renna stoðum undir sekt þeirra beggja í þeim ákæruliðum. Dómurinn telur sömu röksemdir eiga við í þessum ákærulið. Tékkinn var notaður eins og lýst er í ákærunni.
Með vísan til alls þessa telur dómurinn sannað gegn neitun ákærðu, M og Arnar, að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem hér er ákært út af og er brot þeirra rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.
Ráða má af framburði ákærðu, V og Stefáns Axels, að kjötið sem hér um ræðir tengist á einhvern hátt að mati dómsins hinum óskiljanlegu viðskiptum með Ölkjallarann, en enginn virðist vita hver átti veitingastaðinn á hverjum tíma. Ákærði, V, hefur borið að hann hafi komið á sambandi milli ákærðu, M og Arnar, annars vegar og Guðjón Sveinssonar hins vegar, vegna fyrirhugaðra kaupa á Ölkjallaranum, en ekki er vitað hvernig þeim viðskiptum reiddi af. Guðjón Sveinsson kvaðst hafa selt ákærðu, V og Stefáni Axel, Ölkjallarann og að kjötið hefði verið fullnaðargreiðsla vegna þessara viðskipta. V kveðst aldrei hafa ætlað að kaupa Ölkjallarann. Guðjón Sveinsson kvað annan hvorn ákærðu, V eða Stefán Axel, hafa bent sér á hvar kjötið var í geymslu og seldi Guðjón kjötið áfram eins og lýst var.
Í málinu er ekki upplýst hvernig þessi viðskipti með Ölkjallarann voru í raun og veru. Þá er heldur ekki sannað gegn neitun ákærðu, V og Stefáns Axels, að þeir hafi framið þá háttsemi sem þeir eru ákærðir fyrir og ber að sýkna þá báða.
Ákæra dagsett 6. október 1996 (Brúnir).
I
Svo sem rakið var játaði ákærði Már Karlsson bæði hjá lögreglu og fyrir dómi er hann var yfirheyrður þar vegna kröfu um gæsluvarðhald, að hafa falsað nafn föður síns eins og ákært er vegna. Réttargæslumaður ákærða var viðstaddur þessar játningar. Skýringar ákærða á breyttum framburði nú undir dómsmeðferð málsins þykja ómarktækar og ekki studdar neinum haldbærum rökum og er þeim því hafnað.
Dómurinn telur því sannað með játningu ákærða hjá lögreglunni og fyrir dómi er tekin var fyrir krafa um gæsluvarðhald, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hér er ákært fyrir og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.
II
Dómurinn telur margt benda til þess að Brúnir hafi einvörðungu verið stofnað í því skyni að svíkja út fjármuni eins og lýst er í ákærunni. Fjölmargt í gögnum málsins styður þetta álit dómsins og má meðal annars vísa til framburðar R hjá lögreglunni, þar sem hann lýsti því er ákærði, Örn, boðaði til fundar, þar sem rætt var um stofnun fyrirtækis til að svíkja út peninga eða að nota Brúnir í þessum tilgangi. Ákærði, Már Karlsson, hefur borið að fjárskuldbindingar sem hann tókst á hendur, og ákært er vegna í máli þessu, hafi hann ýmist ætlað að greiða með fjármunum sem hann hefði átt von á við sölu skuldabréfsins, sem lýst er í ákærulið I, eða með fjármunum sem hann átti von á af rekstri Brúna. Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið í hendur fjármuni af sölu skuldabréfsins sem lýst var í I. kafla ákærunnar og ekkert í gögnum málsins er til þess fallið að renna stoðum undir þá fullyrðingu ákærða að hann hefði mátt gera ráð fyrir tekjum af rekstri Brúna, enda lýsti ákærði, Már, því fyrir dóminum að engin starfsemi hefði verið hjá félaginu og því engar tekjur.
Dómurinn telur þessar röksemdir ákærða fyrir því að hann hefði ætlað að greiða fjárskuldbindingar sínar eða hefði ástæðu til að ætla að hann gæti greitt þær ekki haldbærar. Dómurinn telur þannig sannað, eins og rakið verður í einstökum ákæruliðum, að ákærði hafði enga greiðslugetu og aldrei stóð til af hálfu ákærða, Más, að greiða margar þessara fjárskuldbindinga eins og lýst verður. Til að renna frekari stoðum undir þetta álit dómsins er sú staðreynd, að ákærði, Már, var handtekinn í Leifsstöð 23. mars 1997 á leiðinni til Thailands frá öllum skuldunum. Verður vísað til þessara röksemda í niðurstöðu sumra ákæruliðanna hér á eftir að því er snýr að greiðslugetu ákærða, Más.
II 1
Sannað er með játningu ákærða, Más, að hann gaf tékkana út og notaði einn, en ekki í sameiningu við meðákærða, Örn, eins og ákært er út af. Tékkinn var innistæðulaus og dóminum þykir sannað með röksemdum sem raktar voru í upphafi þessa kafla ákærunnar, að aldrei hafi staðið til af hans hálfu að greiða tékkann og hefur ákærði, Már, því gerst sekur um þá háttsemi sem hér er ákært fyrir.
Ósannað er gegn neitun ákærða, Arnar, að hann hafi framið þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
II 2
Með játningu ákærða, Más, sem studd er öðrum gögnum málsins er sannað að hann tók út þær vörur sem hér er lýst. Sumar komust til skila eins og rakið var og sumt var að lokum greitt, þótt ekki gerðu ákærðu það. Með röksemdum sem raktar voru í upphafi þessa kafla ákærunnar telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða Más að hann hafi aldrei ætlað að greiða vörurnar.
Ósannað er gegn neitun ákærða, Arnar, að hann hafi með saknæmum hætti komið hér að máli og ber því að sýkna hann.
II 3
Sannað er með játningu ákærða, Más, að hann gaf út þann tékka, sem hér er lýst og með vísan til röksemda í upphafi þessa kafla ákærunnar telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða, Más, að aldrei hafi staðið til að greiða tékkann og hefur hann því gerst sekur um brot það sem hér er ákært fyrir.
Gegn neitun ákærða, Arnar, er ósannað að hann hafi gerst sekur um þessa háttsemi og ber að sýkna hann af þessum ákærulið.
II 4
Í þessum ákærulið er ákærðu gefið að sök að hafa afhent víxlana sem greiðslu upp í kaupverð fasteignar í Grundarfirði. Svo sem rakið var munu einhverjar þreifingar hafa átt sér stað um þessi kaup. Ekki var gert formlegt kauptilboð og enginn kaupsamningur og engin skrifleg gögn um þetta. Dómurinn telur því að málið hafi ekki verið komið á það stig að hægt hafi verið að tala um það að ákærðu hefðu afhent víxlana sem greiðslu upp í kaupverð. Ber samkvæmt þessu að sýkna báða ákærðu, þar sem þeir hvorki notuðu skjölin í viðskiptum né reyndu það.
Brot ákærða, Más, samkvæmt ákærulið II, töluliðum 1 3 eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
III 1
Leiðrétt hefur verið ritvilla í ákærunni, en skuldabréfið sem hér um ræðir er að fjárhæð 828.854 krónur.
Með vísan til röksemda í upphafi II. kafla ákærunnar um greiðslugetu og greiðsluvilja ákærða, Más. Hjá lögreglu lýsti ákærði, Már, því svo að hvorki hann sjálfur né Brúnir hefðu haft greiðslugetu til að greiða af þessum fjárskuldbindingum. Ákærði, R, hafði heldur enga greiðslugetu, enda ætlaði hann aldrei að greiða heldur taldi það koma í hlut ákærða, Más. Hjá lögreglunni lýsti ákærði, R, því að ákærði, Örn hefði valið bifreiðina og séð um að kaupa hana. Ákærði, Örn, lýsti því hjá lögreglunni að bifreiðakaupin hefðu einungis verið sín vegna og fyrirgreiðsla við sig svo hann gæti eignast bifreiðina. Er ákærði, Örn, var yfirheyrður fyrir dómi vegna kröfu um gæsluvarðhald kvaðst hann hafa beðið ákærða, Má, um að veita sér fyrirgreiðslu varðandi kaupin á þessari bifreið. Hann kvaðst hafa haft samband við Loga Pálsson framkvæmdastjóra hjá P. Samúelssyni og fyrir kunningsskap við hann hefði hann veitt Brúnum þá fyrirgreiðslu sem þurfti vegna kaupanna á bílnum og kvaðst hann síðan hafa gengið inn í kaupin.
Ljóst er af öllu ofanrituðu að bifreiðin var keypt í þágu ákærða Arnar og framburður ákærða, Más, þess efnis að sama dag og kaupin voru gerð hefði komið í ljós að bifreiðin hentaði ekki Brúnum, rennir styrkari stoðum undir það álit dómsins að bifreiðin hafi verið keypt í þágu ákærða, Arnar.
Dómurinn telur þannig sannað með ofangreindum framburði ákærðu hjá lögreglu og að hluta fyrir dómi að bifreiðin hafi verið keypt eins og lýst er í ákærunni. Brúnir afsöluðu bifreiðinni til Hauks í horni, sem var einkafirma ákærða, Arnar. Bifreiðin var aldrei greidd en að lokum afsalað til P. Samúelssonar. Dómurinn telur sannað af þessu og af því sem áður var rakið um greiðslugetu ákærðu, en ákærði, R, var á leiðinni til Thailands er hann var handtekinn ásamt ákærða, Má 23. mars 1997, að aldrei hafi staðið til að greiða andvirði viðskiptabréfanna eins og lýst er í ákærunni og eru því ákærðu allir sakfelldir fyrir þennan ákærulið og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
III 2
Vísað er til röksemda í upphafi II. kafla ákærunnar um greiðslugetu og greiðsluvilja ákærða, Más, og með þeim röksemdum telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða Más, sem segist hafa ætlað að greiða, að hann hafi tekið út vörur fyrir 725.295 krónur án þess að hafa ætlað að greiða eins og ákært er vegna.
Svo sem rakið var, var ákærði, R, handtekinn á leiðinni til Thailands ásmt ákærða Má 23. mars 1997. Ákærði, R, hafði enga greiðslugetu og utanför hans þykir einnig sýna að ekki stóð til af hans hálfu að greiða vöruúttektina hjá BYKO. Er hann gaf skýrslu hjá lögreglunni kvaðst hann hafa ætlað að greiða, en fyrir dóminum kvaðst hann hafa talið að ákærði, Már, myndi greiða. Með vísan til þessa þykir sannað að ákærði R hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært fyrir. Brot ákærðu eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
III 3
Ákærði mundi ekki eftir þessari vöruúttekt, en hann kvað R hafa verið verið heimilt að taka út vörur auk sín. Dómurinn telur ósannað að ákærði hafi með stofnun reikningsins gert öðrum kleift að taka út vörurnar. Hafi það verið gert er það á ábyrgð BYKO og ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
III 4
Ákærðu báru báðir ítrekað hjá lögreglunni og ákærði, Örn, fyrir dómi að þessar vörur sem í þessum ákærulið greinir hefðu verið teknar út að beiðni ákærða, Arnar, sem ráðstafaði þeim. Ákærði Örn hefur lýst fyrir dóminum ráðstöfun varanna og ráða má af gögnum málsins að Þorsteinn Friðfinnsson, sem Örn lét fá ofn og helluborð upp í skuld, greiddi BYKO fyrir vörurnar. Dómurinn telur ekki mark takandi á breyttum framburði ákærðu fyrir dómi, sem er órökstuddur og í engu samræmi við það sem þeir báru báðir efnislega undir rannsókn málsins. Dómurinn telur sannað, svo sem áður hefur verið rakið, að ákærði, Örn, vissi um greiðslugetu ákærða, Más, og að hann gæti ekki greitt og ákærði, Örn, ekki heldur. Dómurinn telur því sannað gegn neitun ákærðu að þeir hafi framið þá háttsemi sem hér greinir og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
IV
Gegn eindreginni neitun ákærða, Arnar, er ósannað að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært fyrir og ber að sýkna hann af þessum ákærulið í heild.
Vísað er til röksemda í upphafi II. kafla ákærunnar um greiðslugetu ákærða, Más, og til þess að hann var á leið úr landi er hann var handtekinn. Dómurinn telur með þessu sannað gegn neitun hans, að hann hafi gefið út alla tékkana eins og lýst er í ákærunni og þannig gerst sekur um þá háttsemi sem hér er lýst.
IV 1
Dómurinn telur ósannað að ákærðu, G og S, hafi notað tékkann sem hér er lýst og framburður þeirra og önnur gögn málsins benda til þess að annar maður sem ekki er ákærður í málinu hafi notað tékkann og notið góðs af, svo sem rakið var. Ber samkvæmt þessu að sýkna báða ákærðu af þessum ákærulið.
IV 2
Ósannað er gegn neitun ákærða, S, að hann hafi átt þátt í kaupum símans og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
Ákærði, G, fékk í hendur marga tékka frá ákærða, Má, og átti að kaupa fyrir þá vörur, sem síðan átti að endurselja til að útvega lausafé vegna fyrirhugaðrar utanfarar ákærða, Más, eins og ákærði, S, hefur borið hjá lögreglunni. Dómurinn telur að ákærða, G, hafi mátt vera það ljóst að tékkarnir voru innistæðulausir og stóð aldrei til af hálfu ákærðu að greiða þá. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst.
IV 3
Ákæruvaldið breytti þessum ákærulið svo, að honum er nú einungis beint gegn ákærða, G, sem neitar sök.
Með sömu röksemdum og raktar voru í næsta ákærulið hér að framan telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært fyrir.
IV 4
Ákæruvaldið hefur breytt þessum ákærulið svo, að honum er einungis beint gegn ákærða, Si, sem neitar sök.
Ákærði hefur borið að hugsanlegt væri að tékkarnir sem hér um ræðir væru ekki allir í lagi og að það væri verið að afla fjár vegna utanfarar manns. Með vísan til þessa telur dómurinn að ákærða hefði mátt vera ljóst að tékkarnir væru innistæðulausir og hefur ákærði því með notkun tékkans gerst sekur um háttsemi þá sem ákært er fyrir.
IV 5
Ákærði, S, notaði tékkann sem hér er lýst sem tryggingu en ákærðu nutu báðir góðs af andvirði tékkans og mátti báðum vera það ljóst, eins og rakið hefur verið að ofan, að tékkinn var innistæðulaus og að hann yrði ekki greiddur eins og ákært er fyrir. Með vísan til þessa telur dómurinn sannað að ákærðu hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst.
Brot ákærðu samkvæmt þessum ákæruliðum eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
V A 1 8
Ákærði, Stefán Axel, notaði tékkana eins og lýst er í öllum töluliðum þessa kafla ákærunnar og kvaðst hafa verið starfsmaður Brúna á þessum tíma. Dómurinn telur engu varða þótt ákærði hafi verið eða talið sig starfsmann Brúna. Ákærði, Stefán Axel, rak veitingastað, þar sem meðákærði var í reikning og ráðstafaði ákærði, Stefán Axel, hluta vörunnar sem hann keypti í eigin þágu og kvað það gert til að gera upp skuld ákærða, Más, vegna framangreindra reikningsviðskipta. Ákærði, Stefán Axel, keypti á stuttum tíma vörur fyrir 1.878.866 krónur, en tékkarnir eru allir dagsettir um svipað leyti og með stuttu millibili svo sem rakið var. Brúnir hafði enga starfsemi með höndum, svo sem ákærði, Már, hefur borið og þetta var ákærða, Stefáni Axel, ljóst, en áður en til allra þessara kaupa kom hafði ákærði, Stefán Axel, milligöngu um bílakaupin sem lýst er í ákærulið V B, en þar tókst tókst ákærði, Már, á hendur milljóna króna fjárskuldbindingar. Ákærði, Stefán Axel, fékk til afnota Mercedes Benz bifreið þá, sem lýst er í ákærulið V B 1. Dómurinn telur af öllu þessu ljóst að ákærði, Stefán Axel, hafi vitað eða mátt vita að ekki yrði innistæða fyrir tékkunum er til innlausnar kom, en ákærði hefur borið að hann hafi aldrei ætlað að greiða, heldur talið meðákærða gera það. Dómurinn telur með því sem nú hefur verið rakið sannað að ákærði, Stefán Axel, hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hér er ákært fyrir og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi rannsakaði rithönd útgefanda allra tékkana, sem hér er lýst. Samkvæmt niðurstöðu hans er yfirgnæfandi líklegt að ákærði Már hafi ritað nafn sitt á alla tékkana. Álit dómsins er það, að rithönd útgefanda tékkanna og rithönd ákærða, Más, séu svo sláandi líkar að beinast liggi við að slá því föstu að um sömu rithönd sé að ræða. Ákærði, Stefán Axel, hefur borið að ákærði, Már, hafi gefið alla tékkana út og þá liggur fyrir að minnsta kosti í einu tilviki framvísaði ákærði, Már, bankakorti sínu er tékki var notaður.
Með vísan til þessa alls þessa telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða, Más, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst og með því gerst sekur um hlutdeildar verknað, svo sem ákært er fyrir.
V B
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi rannsakaði rithönd á skjölum vegna kaupanna á bifreiðunum, sem lýst er í 1. og 3. tölulið þessa kafla ákærunnar. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar eru yfirgnæfandi líkur á því, að ákærði Már hafi skrifað nafn í reit fyrir nafn kaupanda á þessi skjöl. Álit dómsins er að rithönd á þessum skjölum og rithönd ákærða Más séu sláandi líkar.
Ákærði, Stefán Axel, hefur borið að ákærði, Már, hafi ritað á þau skjöl, sem hér um ræðir og leitað eftir bílakaupunum eins og lýst var. Ekki liggur fyrir sérstök rannsókn á undirritun skuldabréfs vegna bílakaupanna, sem lýst er í 2. tölulið þessa kafla ákærunnar, en augljóst virðist að ákærði, Már, ritaði nafn sitt einnig á það skuldabréf og tókst á hendur ábyrgð á greiðslu þess.
Vísað er til þess sem áður hefur verið rakið um greiðslugetu ákærða, Más, samanber upphaf niðurstöðu í II. kafla ákærunnar. Þegar ofanritað er virt telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða, Más, að hann hafi ritað nafn sitt á öll þessi skjöl og tókst á hendur fjárskuldbindingar sem ljóst var að hann gat ekki staðið við og stóð því aldrei til að greiða af hans hálfu. Ákæran á hendur ákærða, Má, er því rétt og brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í þessum kafla ákærunnar.
Vísað er til röksemda í næsta tölulið ákærunnar hér að framan um það, að ákærði, Stefán Axel, hafi vitað eða mátt vita að greiðslugeta ákærða, Más, var engin og að fjárskuldbindingar þær sem hér um ræðir yrðu ekki greiddar af honum og ákærði hefur borið að hann hafi sjálfur ekki ætlað að greiða, þar sem hann taldi ákærða, Má, gera það.
Með vísan til alls þessa telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða, Stefáns Axels, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
VI
Ákærði, R, hefur borið því við að hann muni ekki eftir því að hafa ritað nafn sitt á skuldabréfin og telur hann í sumum tilvikanna, að rithönd á skuldabréfunum líkist sinni. Öll skuldabréfin voru borin undir hann og kvaðst hann ekki muna eftir þeim, en hann hefði á þessum tíma stundað mikla óreglu og nefndi að ákærðu, Stefán Axel og Örn, kynnu að hafa fengið sig til þess að skrifa nafn sitt á skuldabréfin. Ekki var rannsökuð rithönd á skuldabréfunum til að ganga úr skugga um það hvort líklegt væri að ákærði, R, hefði ritað nafn sitt á þau. Þegar allt þetta er virt og það, að ákærði, R, hefur aldrei gengist við þessum nafnritunum, telur dómurinn ósannað að ákærði hafi ritað á skuldabréfin, svo sem ákært er vegna og ber að sýkna hann af þessum kafla ákærunnar.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi rannsakaði rithönd og heimilisfang ákærða, Más Karlssonar, á þeim 6 skuldabréfum sem hér er lýst. Samkvæmt niðurstöðu hans eru yfirgnæfandi líkur á því að ákærði, Már, hafi ritað nafn sitt og heimilisfang á öll skuldabréfin. Að mati dómsins er hægt að taka undir það álit Haraldar er undirritanirnar eru bornar saman við rithönd ákærða, Más.
Dómurinn telur með þessu og af framburði Stefáns Axels sannað að ákærði, Már, hafi ritað nafn sitt á öll skuldabréfin eins og lýst er í ákærunni.
Ákærði, Stefán Axel, lýsti því fyrir dóminum að hafa reynt að koma skuldabréfunum í verð á nokkrum stöðum og framvísað skuldabréfunum, eða að minnsta kosti einu þeirra, hjá Jöfri og til stóð að greiða fyrir bifreiðarnar með skuldabréfunum eins og lýst er í ákærunni og er vitnisburður Lúðvíks Hraundal efnislega á sama veg, það er að til stóð að greiða bifreiðarnar með skuldabréfunum 6. Ákærði, Stefán Axel, ætlaði ekki að greiða, en taldi ákærða Má greiða og vera borgunarmann. Dómurinn telur hins vegar, að ákærði, Stefán Axel, hafi vitað betur eða mátt vita betur, svo sem rakið var að framan. Ákærði reyndi að nota skuldabréfin í viðskiptum 25. mars 1997, eða um svipað leyti og milljónafjárskuldbindingar ákærða, Más, sem lýst er í V. kafla ákærunnar áttu sér stað.
Dómurinn telur því með vísan til ofanritaðs sannað gegn neitun ákærða, Stefáns Axels, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært fyrir.
Brot ákærðu eru rétt heimfærð til refsiákvæða í þessum ákærulið.
Ákærðu, M, Már, Stefán Axel og Örn, sviku milljónir króna út úr fyrirtækjum og einstaklingum. Samanlagt tjón þessara aðila nemur milljónum króna. Dómurinn telur, svo sem rakið hefur verið að framan og ráða má af gögnum málsins í heild, að Rúnir og Brúnir hafi ekki verið annað en tæki sem notuð voru til að komast yfir fjármuni með svikum.
Ákærði, M, á að baki langan afbrotaferil og hefur hlotið 23 refsidóma og 11 dómsáttir frá árinu 1960, þar af eru 2 danskir dómar. Samanlögð óskilorðsbundin refsing samkvæmt þessum dómum er tæplega 9 ára fangelsi og auk þess tveir 18 mánaða fangelsisdómar frá Danmörku, eða samtals tæp 12 ár. Ákærði, M, hefur í þessum dómum verið sakfelldur fyrir ýmiss konar afbrot, en oft fyrir þjófnað, skjalafals og fjársvik. Síðast hlaut ákærði, M, dóm í nóvember 1997 fyrir umferðarlagabrot og ber nú að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða, M, eru stórfelld og skipulögð eins og rakið hefur verið og þykir það sýna einbeittan brotavilja hans, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og eru flest unnin í samvinnu við aðra og er það virt til þyngingar við ákvörðun refsingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Engar refsilækkunarástæður þykja koma til álita fyrir, ákærða M. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til alls ofanritaðs og með vísan til sakaferils ákærða þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, en frá refsivistinni skal draga 10 daga gæsluvarðhald hans.
Ekkert í sakaferli ákærða, Stefáns Axels, hefur áhrif á refsingu í máli þessu og þykir ekki ástæða til að rekja sakaferil hans. Refsing ákærða Stefáns Axels er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Brot hans eru stórfelld og er vísað til sömu lagasjónarmiða við ákvörðun refsingar hans og lýst var í niðurstöðum varðandi ákærða M, utan ákærði, Stefán Axel, hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög og er tekið mið af því við refsiákvörðun. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði, en frá refsivistinni skal draga 37 daga gæsluvarðhald hans.
Ákærði, Örn Karlsson, hefur hlotið 9 refsidóma frá 1991, þar af er einn dómur Hæstaréttar. Hann hefur í þessum dómum verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, þjófnað, hylmingu, fjársvik, skjalafals og fjárdrátt. Ákærði, Örn, hlaut síðast dóm í október 1995, 3 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt og hinn 19. nóvember 1996 hlaut hann reynslulausn í 2 ár á 210 daga eftirstöðvum refsingar. Hinn 26. mars 1997 var ákærði, Örn, yfirheyrður fyrir dómi vegna kröfu um gæsluvarðhald við rannsókn máls þess sem nú er ákært vegna. Dómurinn telur því að rannsókn út af brotum þeim sem hér er ákært fyrir hafi rofnað áður en skilorðstíma lauk og hefur ákærði, Örn, því rofið skilorð reynslulausnarinnar með brotum sínum nú og ber að dæma reynslulausnina upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 42. og 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 77. gr. sömulaga. Þá er vísað til lagasjónarmiða, sem lýst var í niðurstöðu um ákærða, M, hér að ofan, en að mati dómsins eiga sömu lagasjónarmið við um ákvörðun refsingar ákærða, Arnar, m.a. ber að líta til sakaferils hans og þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár, en frá refsivistinni skal draga 37 daga gæsluvarðhald hans.
Ákærða, Má, var síðast gerð refsing á árinu 1969 og ekkert í sakaferli hans, sem hér skiptir máli við ákvörðun refsingar. Brot hans eru stórfelld og er enn vísað til sömu lagasjónarmiða við refsiákvörðun og rakin voru í niðurstöðu um ákærða, M, en sömu sjónarmið eiga við um ákærða, Má, utan hann hefur ekki gerst brotlegur við almenn hegningarlög og er tekið mið af því við refsiákvörðun. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár, en frá refsivistinni skal draga 25 daga gæsluvarðhald hans.
Ákærði, R, hefur hlotið 3 refsidóma frá árinu 1983. Síðast sektardóm fyrir þjófnað í september 1998. Þá hefur hann gengist undir 8 dómsáttir og eina lögreglustjórasátt fyrir áfengislagabrot og umferðarlagabrot. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð 6 mánaða fangelsi, en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistarinnar skal draga frá henni 24 daga gæsluvarðahald er ákærði sætti í þágu rannsóknar málsins.
Ákærði, G, hefur hlotið 4 refsidóma. Á árinu 1996 fyrir líkamsárás, nytjastuld, þjófnað, gripdeild og fjársvik. Síðasti dómur ákærða er frá 29. september 1997, 5 mánaða fangelsi þar af 4 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár fyrir þjófnað, gripdeild, fjársvik og nytjastuld. Ber nú að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, S, hlaut hinn 25. september 1998 4 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár fyrir þjófnað, gripdeild, eignarspjöll, nytjastuld og skjalabrot (157. gr. almennra hegningarlaga). Ber nú að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og sakarefni er háttað á hendur ákærðu, G og S, þykir með vísan til hegningaraukaáhrifa rétt að gera hvorugum þeirra sérstaka refsingu í máli þessu.
Vegna frádráttar gæsluvarðhalds er í öllum tilvikum vísað til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fyrstu fjórar skaðabótakröfurnar í ákærunni sem kennd er við Rúnir eru allar vegna sakarefnis í I. kafla ákærunnar þar sem ákærði, M, er einn hafður fyrir sök en var sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Eftir þessum úrslitum ber að vísa þessum skaðabótakröfum frá dómi sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Fyrsta skaðabótakrafn í ákærunni sem kennd er við Brúnir varðar sakarefni þar sem ákærði, Már Karlsson, er einn hafður fyrir sök. Meðal gagna málsins er leiðrétt skaðabótakrafa frá Rúnari Gíslasyni hdl., vegna sakarefnis í þessum ákærulið. Þar eru þrír menn kærðir og krafan lækkuð. Uppgjör vegna þessarar kröfu þykja svo óljós og verður ekki betur séð en að gerð sé krafa á hendur þremur mönnum með hinni leiðréttu kröfugerð og þykir af þessum sökum verða að vísa skaðabótakröfunni frá dómi.
Aðrar skaðabótakröfur í báðum ákærunum eru allar reistar á ákæruliðum þar sem fleiri en einn aðili er ákærður og sakarefni á hendur þeim misjafnt. Dómurinn telur tilgreininguna í ákæru ófullnægjandi varðandi það úr hendi hverra hinna ákærðu krafist er skaðabóta og sést t.d. ekki hvort þess er krafist að þeir verði dæmdir óskipt til greiðslu bóta. Af þessum sökum þykir bera að vísa öllum skaðabótakröfunum frá dómi.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið ber að vísa öllum skaðabótakröfunum frá dómi á þeim forsendum sem raktar hafa verið.
Ákærðu, M, Stefán Axel, Örn, G, Már, R og S, greiði óskipt 600.000 krónur í saksóknarlaun, sem renni í ríkissjóð, en Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Ákærði, M, greiði 5/6 hluta af 500.000 króna málsvarnarlaunum til Jóhanns Halldórssonar hdl. á móti 1/6 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Stefán Axel, greiði 3/4 hluta af 500.000 króna málsvarnarlaunum til Róberts Árna Hreiðarssonar hdl. á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Örn Karlsson, greiði 3/4 hluta af 500.000 króna málsvarnarlaunum til Hilmars Ingimundarsonar hrl. á móti 1/4 hluta er greiðist úr ríkissjóði.
Samkvæmt 2. mgr. i.f. 165. gr. laga nr. 19/1991 skulu ákærðu, Már og R, greiða óskipt 3/4 hluta af 520.000 króna málsvarnarlaunum til Sigmundar Hannessonar hrl. á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, G, greiði helming 200.000 króna málsvarnarlauna til Sigurðar Georgssonar hrl. á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, S, greiði helming 200.000 króna málsvarnarlauna til Bjarna Þórs Óskarssonar hdl. á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
300.000 króna málsvarnarlaun til Jóns Magnússonar hrl., verjanda ákærða N, og 200.000 króna málsvarnarlaun til Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., verjanda ákærða V, greiðist í báðum tilfellum úr ríkissjóði.
Sakarkostnað að öðru leyti en að ofan greinir greiði ákærðu, M, Stefán Axel, Örn, G, Már, R og S óskipt að 4/5 hlutum á móti 1/5 hluta er greiðist úr ríkissjóði.
Dómsuppsaga hefur dregist nokkuð, einkum vegna umfangs málsins og mikilla embættisanna, en einnig sökum veikinda.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærðu, N og V, eru sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.
Ákærði, Örn Karlsson, sæti fangelsi í 3 ár, en frá refsivist hans skal draga 37 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, M, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, en frá refsivist hans skal draga 10 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, Már Karlsson, sæti fangelsi í 2 ár, en frá refsivist hans skal draga 25 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, Stefán Axel Stefánsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en frá refsivist hans skal draga 37 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, R, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Frá refsivist ákærða, R, dragist 24 daga gæsluvarðhald.
Ákærðu, Guðjóni Agli Guðjónssyni og S, er ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.
Öllum skaðabótakröfum er vísað frá dómi.
Ákærðu, M, Stefán Axel, Örn, G, Már, R og S, greiði óskipt 600.000 króna saksóknarlaun, sem renni í ríkissjóð.
Ákærði, M, greiði 5/6 hluta af 500.000 króna málsvarnarlaunum til Jóhanns Halldórssonar hdl. á móti 1/6 hluta, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Stefán Axel Stefánsson, greiði 3/4 hluta af 500.000 króna málsvarnarlaunum til Róberts Árna Hreiðarssonar hdl. á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Örn Karlsson, greiði 3/4 hluta af 500.000 króna málsvarnarlaunum til Hilmars Ingimundarsonar hrl. á móti 1/4 hluta, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærðu, Már Karlsson og R, greiði óskipt 3/4 hluta af 520.000 króna málsvarnarlaunum til Sigmundar Hannessonar hrl. á móti 1/4 hluta, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, G, greiði helming 200.000 króna málsvarnarlauna til Sigurðar Georgssonar hrl. á móti helmingi, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, S, greiði helming 200.000 króna málsvarnarlauna til Bjarna Þórs Óskarssonar hdl. á móti helmingi, sem greiðist úr ríkissjóði.
300.000 króna málsvarnarlaun til Jóns Magnússonar hrl., verjanda ákærða N, og 200.000 króna málsvarnarlaun til Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., verjanda ákærða V, greiðist í báðum tilfellum úr ríkissjóði.
Sakarkostnað að öðru leyti en að ofan greinir greiði ákærðu, M, Stefán Axel, Örn, G, Már, R og S óskipt að 4/5 hlutum á móti 1/5 hluta er greiðist úr ríkissjóði.