Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit
  • Evrópska efnahagssvæðið


                                                         

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 77/2012.

Bifreiðar & landbúnaðarvélar ehf.

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

gegn

Böðvari Ægissyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Evrópska efnahagssvæðið.

B ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál BÆ hendur B ehf. Byggði héraðsdómur niðurstöðu sína á því að ekki yrði séð á hvern hátt túlkun einstakra ákvæða EES-samningsins eða nánar tilgreindrar tilskipunar Evrópusambandsins hefði þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

                                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tengslum við mál það er varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um það hvort b. liður 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup og 2. málsliður 2. mgr. 27. gr. sömu laga „fái samrýmst ákvæðum samningsins um hið evrópska efnahagssvæði og þeim gerðum sem hann byggir á og lögteknar hafa verið sbr. ákvæði laga nr. 2/1993“ og þá einkum ákvæði tilskipunar 1999/44/EB. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurðar er staðfestur.

Sóknaraðili, Bifreiðar & landbúnaðarvélar ehf., greiði varnaraðila, Böðvari Ægissyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012.

I.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 19. desember 2011 um kröfu stefnda um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu, er höfðað 29. júní 2011 af Böðvari Ægissyni, Skipalóni 25 í Reykjavík, gegn Bifreiðum og landbúnaðarvélum hf., Sævarhöfða 2 í Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði honum skaðabætur að fjárhæð 1.631.361 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júlí 2010 til 16. ágúst 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar að mati dómsins. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Í greinargerð stefnda krafðist hann þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en í þinghaldi 3. nóvember 2011 féll hann frá þeirri kröfu.

Málflutningur fór fram 19. desember sl. um kröfu stefnda um að ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins yrði leitað í málinu. Stefndi krefst enn fremur málskostnaðar í þessum þætti málsins. Stefnandi mótmælir því að álitsins verði leitað og krefst þess að beiðninni verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

II.

Helstu málavextir eru þeir að 3. ágúst 2006 undirritaði stefnandi svonefndan bílasamning þar sem stefnandi var tilgreindur leigutaki að nýrri bifreið að tegundinni Hyundai Trajet með fastanúmerinu VA-983. Í samningnum kom fram að stefndi væri seljandi bifreiðarinnar og að Lýsing hf. væri leigusali.

Óumdeilt er að bifreiðin hafi bilað í akstri 8. júlí 2010, en þá hafði henni verið ekið 58.000 km. Hún mun hafa verið færð á verkstæði Ingvars Helgasonar ehf. og þá komið í ljós að stimpill í vél bifreiðarinnar hefði brotnað og „cylender“ verið rifinn. Í stefnu kemur fram að vélin hafi verið metin ónýt og viðgerðarkostnaður áætlaður 793.000 krónur.

Stefnandi mun hafa talið að stefndi ætti að bera kostnað af viðgerð bifreiðarinnar en stefndi mun hafa neitað því. Hinn 16. júlí 2010 lagði stefnandi málið fyrir kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. Nefndin gaf álit sitt á þessu ágreiningsefni 30. september 2010. Hún komst að þeirri niðurstöðu að stefnda, eða Ingvari Helgasyni ehf. fyrir hans hönd, bæri að gera við vélina í bifreiðinni auk þess að greiða stefnanda 20.000 krónur vegna flutningskostnaðar og 31.500 krónur fyrir afnotamissi. Stefndi hafnaði því að hlíta áliti kærunefndarinnar með bréfi 22. október 2010.

Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Valgarðs Zophoniassonar, dags. 26. mars 2011, sem stefnandi aflaði með matsbeiðni, dags. 9. mars 2011. Í matsgerðinni kemur fram að við skoðun á bifreiðinni hafi komið í ljós að „cylender“ hafi verið rifinn „eftir stimpil á nr. 1“ og að einnig hafi brotnað stykki úr stimplinum. Hafi brotið orðið á milli stimpils og ventla og að það sjái á ventlunum nr. 1 eftir það. Orsök bilunarinnar var að mati matsmanns ofhitnun sem telja megi líklegast að hafi orðið vegna leka í spíss. Segir í matsgerðinni að við það að spíss leki fái sprengirými of mikið eldsneyti og hitni of mikið. Þá var í matsgerðinni talið að lekinn í spíssnum hefði eyðilagt óskemmda hluti. Matsmaður svaraði því enn fremur til að endingartími á svona vél færi eftir því hvernig bíllinn væri notaður, en að með almennri notkun mætti ætla að endingartími væri frá um það bil 200.000 km. Um viðgerðarkostnað vísaði matsmaður til þess að hann lægi fyrir hjá verkstæði Ingvars Helgasonar og annar aðili hefði gefið upp svipaðan kostnað eða frá sjö til átta hundruð þúsund krónur.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Í meginatriðum reisir stefnandi kröfu sína á því að lög nr. 48/2003 um neytendakaup eigi við um kaup stefnanda á bifreiðinni af stefnda og breyti engu í því sambandi þó að stefnandi hafi leitað til Lýsingar hf. til að fjármagna þau. Þá byggir stefnandi á því að bifreiðin sé haldin galla, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr. laganna, þar sem fram komi að söluhlutur skuli hafa þá eiginleika til að bera sem neytandi hafi mátt vænta við kaup á slíkum söluhlut að því er varðar endingu og annað. Hafi vélin enst í mun skemmri tíma en stefnandi hafi mátt ætla eða aðeins í tæp fjögur ár og hefði henni á þeim tíma verið ekið 58.000 km. Þar sem vélin sjálf og spíssinn, sem í henni var, hafi enst í töluvert skemmri tíma en stefnandi hafi mátt vænta hafi bifreiðin verið haldin galla í skilningi a-liðar 16. gr. laga nr. 48/2003, auk þess að vera haldin galla í skilningi almennra reglna kröfuréttarins. Stefnandi heldur því fram að vélin hafi verið haldin þessum galla frá því áhættan af bifreiðinni fluttist til stefnanda, jafnvel þótt gallinn hafi ekki komið fram fyrr en síðar, sbr. 1. mgr. 18. gr. fyrrgreindra laga. Hann telur að umræddur spíss hafi verið haldinn veikleika þegar kaupin hafi átt sér stað. Þá telur stefnandi að vélarbilunina megi ekki rekja til annarra ástæðna.

Stefnandi byggir enn fremur á því að hann hafi mátt krefja stefnda um úrbætur í allt að fimm ár frá því að hann veitti bifreiðinni viðtöku, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003. Telur hann að ákvæði þetta eigi við enda sé bifreiðum ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti. Það sama eigi við um íhluti véla í bifreiðum, eins og spíssa.

Bótakrafa stefnanda er rökstudd í stefnu en hún samanstendur af viðgerðarkostnaði, 800.000 krónur; flutningskostnaði, 20.000 krónur; skoðunargjaldi og bilanagreiningu, 86.222 krónur og bótum vegna afnotamissis, 725.139 krónur, samtals 1.631.361 krónu.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um kaup bifreiðarinnar og ágreining aðila gildi lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup en ekki lög nr. 48/2003 um neytendakaup, þar sem viðskiptin hafi ekki verið milli stefnanda og stefnda heldur hafi bifreiðin á sínum tíma verið seld Lýsingu hf. Ekki liggi fyrir að um galla hafi verið að ræða í bifreiðinni í skilningi laga um lausafjárkaup auk þess sem tveggja ára frestur til að bera fyrir sig galla samkvæmt 32. gr. laga um lausafjárkaup hafi verið liðinn þegar kvartað var yfir bilun í bifreiðinni. En jafnvel þó að fallist yrði á að lög um neytendakaup eigi við þá byggir stefndi á því að hvorki hafi verið sýnt fram á að bifreiðin hafi verið gölluð í skilningi þeirra laga né að hann sé á ábyrgð stefnda. Í því efni vísar stefndi meðal annars til þess að sú ályktun stefnanda að um galla hafi verið að ræða verði ekki reist á eigin væntingum stefnanda um endingartíma vélarinnar. Þá liggi ekki fyrir að önnur atriði en hinn ætlaði leki í spíss, sem geti leitt til ofhitnunar vélarinnar, hafi verið athuguð sérstaklega. Þannig sé ekki útilokað að vélinni hafi verið misboðið.

Ef komist verði að þeirri niðurstöðu engu að síður að um galla hafi verið að ræða byggir stefndi á því að frestur stefnanda til að bera hann fyrir sig hafi verið liðinn, sbr. fyrrgreinda tilvísun til 32. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Þá telur stefndi að ef talið verði að beita eigi lögum nr. 48/2003 um neytendakaup þá hafi þessi frestur verið liðinn, sbr. meginreglu 1. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna, þar sem kveðið sé á um tveggja ára kvörtunarfrest. Mótmælir stefndi því að 2. málsl. sömu málsgreinar geti átt við í málinu og vísar þar einkum til aðdraganda að setningu fyrrgreindra laga um lausafjárkaup og laga um neytendakaup og umfjöllunar í lögskýringargögnum um 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. síðargreindu laganna.

Stefndi telur enn fremur að ákvæði b-liðar 2. mgr. 15. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup brjóti í bága við lög nr. 2/1993 um hið evrópska efnahagssvæði.

Varðandi fyrra ákvæðið er á því byggt af hálfu stefnda að það hafi verið ranglega tekið upp í íslensk lög. Þar er vísað til þess að í d-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 1999/44/EB sé hvergi fjallað um endingu söluhlutar, eins og gert sé í b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um neytendakaup, aðeins um gæði hans og virkni. Þá sé jafnframt ljóst af orðalagi ákvæðis tilskipunarinnar að við mat á væntingum neytanda um gæði og virkni vöru beri að líta til sambærilegra hluta svo og yfirlýsinga sem hafi verið gefnar um sérstaka eiginleika söluhlutar. Stefndi byggir á því að ákvæðið hér á landi hafi að þessu leyti í för með sér umtalsverða skerðingu á samkeppnisstöðu innlendra söluaðila gagnvart erlendum samkeppnisaðilum auk þess að vera óbein markaðshindrun. Þannig brjóti ákvæðið gegn 3. gr. laga nr. 2/1993 og ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Stefndi byggir enn fremur á því að sérákvæði 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 verði, í ljósi meginreglunnar um tveggja ára ábyrgðartíma samkvæmt gildandi lögum hér á landi og alþjóðareglum, sbr. m.a. EES-samninginn, að vera skýr og ótvíræð og nauðsynleg til að ná fram fyrir fram skilgreindu markmiði. Þá megi ekki ganga lengra en algerlega er talið nauðsynlegt til að ná því markmiði. Stefndi telur að ákvæðið fullnægi ekki þessum skilyrðum. Það sé óskýrt og gangi mun lengra en nauðsynlegt er til að ná fram markmiðum um aukna vernd neytenda. Þá sé ákvæðið samkeppnishamlandi og feli í sér óbeina markaðshindrun. Verði þetta ákvæði látið gilda í samskiptum aðila leiði það til viðbótarkostnaðar fyrir stefnda sem verði að velta honum út í verðlagið. Þá leiði slík ráðstöfun til þess að hann verði til muna verr samkeppnisfær gagnvart samkeppnisaðilum sínum á hinum evrópska markaði. Þá staðhæfir stefndi að ákvæðið geti haft markaðshindrandi áhrif í för með sér, þar sem það fæli erlenda aðila frá því að bjóða vöru sína hér á landi. Telur stefndi það vera skýrt brot á meginreglum EES-samningsins. Stefndi tekur fram að í 8. gr. tilskipunar 1999/44/EB sé aðildarþjóðum veitt heimild til að setja sér strangari reglur en komi fram í tilskipuninni um neytendavernd. Þær reglur verði samt sem áður að samrýmast ákvæðum sáttmálans, m.a. þeim að raska ekki með óeðlilegum hætti samkeppnisstöðu milli einstakra ríkja.

IV.

Í þinghaldi 25. nóvember 2011 var af hálfu stefnda lögð fram beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu þar sem lagðar yrðu tvær spurningar fyrir dómstólinn. Annars vegar verði leitað svara við því hvort ákvæði b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003, þar sem það sé sett að skilyrði fyrir því að söluhlutur teljist í samræmi við væntingar kaupanda varðandi tegund, magn, gæði og aðra eiginleika að hann uppfylli væntingar að því er varðar endingu, samrýmist ákvæðum tilskipunar 1999/44/EB, einkum d-liða 2. mgr. 2. gr. hennar, sem varði þau skilyrði sem söluvara þurfi að uppfylla til þess að geta talist í samræmi við kaupsamning aðila í neytendaviðskiptum. Ef svar við þeirri spurningu verði jákvætt leggur stefndi til að spurt verði hvort fyrrgreint ákvæði laga nr. 48/2003 sé til þess fallið að skerða samkeppnisstöðu söluaðila á markaði eða hvort það feli í sér óbeina markaðshindrun. Hins vegar að spurt verði hvort ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003, þar sem neytanda sé veittur allt að fimm ára frestur frá afhendingu söluhlutar til að bera fram kvörtun við seljanda í neytendakaupum vegna galla í þeim tilvikum þegar söluhlut er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti, fái með hliðsjón af 8. gr. tilskipunar 44/1999/EB samrýmst ákvæðum 5. gr. tilskipunarinnar. Ef svarið við þeirri spurningu verði jákvætt þurfi enn fremur að fá svar við því hvort ákvæðið þannig útfært geti með beinum eða óbeinum hætti skert samkeppnishæfni seljenda á því markaðssvæði þar sem neytendavaran er seld gagnvart seljendum á öðru markaðssvæði eða haft í för með sér markaðshindrandi áhrif.

Við munnlegan málflutning í þessum þætti málsins kom meðal annars fram af hálfu stefnda að íslenskum dómstólum beri að túlka íslensk lög til samræmis við ákvæði EES-samningsins. Ef vafi leiki á því að íslensk lög samrýmist ákvæðum EES-samningsins beri dómstólum að leita álits EFTA-dómstólsins. Þá liggi fyrir réttlætanlegur vafi um túlkun ákvæðanna og að ljóst sé að skýring EES-samningsins hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins auk þess sem staðreyndir málsins séu nægilega ljósar til að leita ráðgefandi álits.

Af hálfu stefnanda er kröfunni mótmælt og talið að ekki liggi fyrir að til að leysa úr málinu sé nauðsynlegt sé að fá svör við þeim spurningum sem stefndi vilji leggja fyrir EFTA-dómstólinn. Þó að í b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um neytendakaup sé skírskotað sérstaklega til væntinga neytenda til endingar vöru þá sé það ekki í ósamræmi við tilskipun 44/1999/EB. Þá sé þar um lágmarkstilskipun að ræða og langsótt að fyrirmæli laga um neytendakaup feli í sér markaðshindrun eða að þau séu samkeppnishamlandi. Um sé að ræða gallamál sem neytandi hafi höfðað gegn seljanda vöru og um ágreininginn fari eftir íslenskum lögum, eins og væntingar stefnanda hafi staðið til. Réttaröryggissjónarmið styðji þá niðurstöðu, en stefnandi bendir á að ágreining um hvort innleiðing tilskipunarinnar kunni að stangast á við EES-samninginn geti stefndi tekið upp við íslenska ríkið. Þá myndi það leiða til tafa á rekstri málsins og aukins kostnaðar ef fallist yrði á að leita ráðgefandi álits í málinu.

V.

Forsendur og niðurstaða

Mál þetta er höfðað af stefnanda til greiðslu skaðabóta vegna ætlaðs galla á bifreið sem keypt var ný af stefnda í ágúst 2006. Málatilbúnað sinn styður stefnandi við fyrirmæli laga nr. 48/2003 um neytendakaup, eins og hér hefur verið rakið. Meðal röksemda stefnda fyrir því að sýkna beri hann í málinu er að umrædd ákvæði laganna hafi verið lögfest hér á landi til að fullnægja fyrirmælum EES-samningsins, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999, en ekki hafi tekist betur til en svo að þau samrýmist ekki tilskipuninni. Virðist stefndi byggja á því að með lögfestingu umræddra ákvæða hafi verið gengið svo langt hér á landi við að tryggja vernd neytenda að það hafi markaðshindrandi áhrif og raski samkeppni milli seljenda á vörum frá mismunandi aðildarríkjum EES-samningsins. Í greinargerð stefnda eða beiðni um ráðgefandi álit eru þó ekki tilgreind ákveðin fyrirmæli í EES-samningnum, sem setji íslenska ríkinu hömlur að þessu leyti, að öðru leyti en því að þar er vísað til 8. gr. fyrrgreindrar tilskipunar 1999/44/EB. Í 2. mgr. þess ákvæðis segir í íslenskri útgáfu tilskipunarinnar að aðildarríkjum „sé frjálst að samþykkja eða halda í gildi strangari ákvæðum sem samrýmast sáttmálanum, á því svið sem þessi tilskipun nær til í því augnamiði að tryggja neytendum fyllri vernd“.

Ekki skal leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins nema þörf sé á því við úrlausn á máli að taka afstöðu til skýringar á EES-samningnum, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem þar er getið, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagsvæðis. Ber því aðeins að leita slíks álits ef ætla má að túlkun tiltekinna ákvæða EES-samningsins eða viðkomandi gerða Evrópusambandsins geti að einhverju eða öllu leyti breytt niðurstöðu í því ágreiningsmáli sem til meðferðar er. Þegar afstaða er tekin til beiðni um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er því óhjákvæmilegt að dómari taki að einhverju leyti afstöðu til þess hvaða þýðingu röksemdir aðila um beitingu EES-samningsins eigi að hafa.

Eins og tilskipun 1999/44/EB ber með sér hefur Evrópusambandið látið málefni neytendaverndar til sín taka, sbr. enn fremur 153. gr. Rómarsamningsins og 72. gr. EES-samningsins. Af 2. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar leiðir að henni er ætlað að veita neytendum lágmarksvernd og verður sama ályktun dregin af aðfararorðum tilskipunarinnar. Með innlendri löggjöf geta aðildarríki því gengið lengra við að veita neytendum vernd en tilskipunin kveður á um. Löggjafinn verður þó að gæta að því að víðtækari réttarvernd að þessu leyti samrýmist sáttmálanum, sem í tilviki Íslands hlýtur að skírskota til EES-samningsins.

Í samræmi við fyrrgreinda heimild tilskipunar 1999/44/EB til að veita neytendum ríkari réttarvernd hafa verið lögfest hér á landi ákvæði sem mæla meðal annars fyrir um að neytandi geti borið fyrir sig galla í allt að fimm ár frá því að hann veitti söluhlut viðtöku ef honum er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003. Meginreglan um tveggja ára ábyrgð seljanda á galla á söluhlut, sbr. 1. málsl. sömu málsgreinar, er hins vegar í samræmi við lágmarksvernd neytenda samkvæmt 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Ekki verður hins vegar séð að túlkun á fyrrgreindri tilskipun 1999/44/EB varpi neinu ljósi á hvernig skýra eigi fyrrgreint ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003, enda á það enga samsvörun í tilskipuninni. Ekki verður heldur séð að það hafi þýðingu fyrir lögskipti milli neytanda og seljanda vöru hér á landi hvort löggjafinn hafi með lögfestingu ákvæðisins hugsanlega gengið lengra en samrýmst getur öðrum samningsskyldum íslenska ríkisins, sbr. 2. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar. Um þau lögskipti fer eftir íslenskum lögum um neytendakaup, enda hefur samþykkt laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, engu breytt um hver fari með löggjafarvald hér á landi, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þeir sem telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði vegna athafna löggjafans geta hins vegar höfðað mál af því tilefni gegn íslenska ríkinu. Ekki verður því séð að túlkun EES-samningsins eða tilskipunar 1999/44/EB geti breytt niðurstöðu um ágreining aðila að þessu leyti þannig að efni sé til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu.

Í tilskipun 1999/44/EB er í 2. gr. mælt fyrir um þá lágmarksvernd neytenda að söluvara skuli vera í samræmi við sölusamning. Þar kemur meðal annars fram að vara teljist vera í samræmi við samning ef hún hentar „til þeirra nota sem vörur af sömu tegund henta almennt til“ og ef varan hefur „til að bera þau gæði og nothæfi sem séu vanaleg í vörum af sama tagi, og sem neytandinn getur með nokkurri sanngirni vænst af henni, að teknu tilliti til eiginleika vörunnar og þeirra almennu upplýsinga um hana sem seljandinn, framleiðandinn eða fulltrúar hans hafa sett fram“. Ákvæði laga nr. 48/2003 um neytendakaup sem að þessu lúta eru ekki sett fram með sama hætti og framangreint ákvæði tilskipunarinnar. Í 15. gr. laganna kemur fram að söluhlutur skuli, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiði af samningi. Ef annað leiðir ekki af samningi skal söluhlutur meðal annars „henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til“ og hafa „þá eiginleika til að bera sem neytandinn mátti vænta við kaup á slíkum söluhlut að því er varðar endingu og annað“, sbr. a- og b-liði 2. mgr. 15. gr. laganna. Þó að framsetningin sé ólík vísa bæði ákvæði tilskipunarinnar og laganna í meginatriðum til hliðstæðra sjónarmiða sem líta á til við mat á því hvort eiginleikar vöru séu þeir sem til er ætlast. Í báðum tilvikum verður meðal annars að horfa til þess hvort hægt sé að nota söluhlutinn á sama hátt og sambærilegir hlutir eru notaðir og hvort gæði hans samrýmist réttmætum væntingum neytandans við kaup á hlutnum. Í neytendalögunum er þó sérstaklega tilgreint að væntingar neytanda að þessu leyti geti náð til endingartími söluhlutar.

Stefndi virðist telja að með þessari tilvísun til endingartíma söluhlutar hafi löggjafinn gengið lengra en heimilt hafi verið í ljósi samningsskuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Löggjöfin sé að þessu leyti fallin til þess að skerða samkeppnisstöðu söluaðila á markaði og geti leitt til óbeinnar markaðshindrunar að mati stefnda. Eins og fyrr greinir hefur stefndi þó ekki gert grein fyrir því á hvað grundvelli þessar samningsskuldbindingar eru reistar. Þá er ekki ljóst af málatilbúnaði stefnda hvernig þessi skírskotun til þess, að söluvara þurfi að endast þannig að það samrýmist réttmætum væntingum neytanda við kaup á henni, stangist á við umrætt ákvæði tilskipunarinnar eða önnur ákvæði EES-samningsins, þó að þar sé ekki vikið sérstaklega að endingartíma vöru. Í því sambandi ber að árétta að um lágmarkstilskipun er að ræða. Þá verður að hafa í huga að ummæli í lögskýringargögnum munu hafa þýðingu við túlkun einstakra stafliða 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að við mat á væntingum neytanda verði „væntingar einstakra neytenda“ ekki lagðar til grundvallar, heldur verði það meðal annars reist á viðkomandi samningi, verði söluhlutar og upplýsingum sem hafi komið fram við kaupin, auk þess sem ábyrgðaryfirlýsing um hversu lengi hluturinn muni endast geti einnig skipt máli.

Í ljósi þess sem að framan greinir um málatilbúnað stefnda virðist í raun ekki byggt á því að fyrrgreint ákvæði 2. gr. tilskipunar 1999/44/EB og túlkun EFTA-dómstólsins á henni geti vísað veginn við skýringu á 15. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup þannig að þýðingu hafi fyrir það mál sem hér er til meðferðar. Af þessum sökum og með vísan til þess að við lögskipti aðila fari eftir íslenskum lögum um neytendakaup, sem hafi meðal annars verið sett til að uppfylla lágmarkstilskipun Evrópusambandsins 1999/44/EB, verður ekki séð á hvern hátt túlkun einstakra ákvæða EES-samningsins eða fyrrgreindrar tilskipunar Evrópusambandsins geti að þessu leyti breytt niðurstöðu í því ágreiningsmáli sem hér er til meðferðar.

Kröfu stefnda um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau atriði sem nánari grein er gerð fyrir í beiðni hans er samkvæmt framansögðu hafnað. Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar, sem hlotist hefur af rekstri þessa þáttar málsins, bíði lokaniðurstöðu þess.

Af hálfu stefnanda flutti málið Íris Ösp Ingjaldsdóttir hdl. v. Láru V. Júlíusdóttur hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Baldvin Hafsteinsson hrl.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er beiðni stefnda, Bifreiða og landbúnaðarvéla hf., um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu.

Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.