Hæstiréttur íslands
Mál nr. 183/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 20. mars 2013. |
|
Nr. 183/2013. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. mars 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að kærða, X, fæddur [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til mánudagsins 25. mars 2013, kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í greinargerð segir að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar skömmu eftir miðnætti 3. mars 2013, um að kærði hafi verið stöðvaður á tollhliði, ásamt manni að nafni A, fæddum [...], vegna gruns um að þeir kynnu að hafa fíkniefni falin í fórum sínum við komu þeirra hingað til lands með flugi FI455 frá London. Kærði og A hafi ferðast saman hingað til lands. Ekkert saknæmt hafi fundist við leit í farangri kærða eða A en strokupróf, sem tekin hafi verið af kærða og A og prófuð í Itemizer greiningarvél Tollstjóra, hafi gefið sterka svörun á amfetamín. Grunur hafi því vaknað um að kærði og A kynnu að hafa fíkniefni falin innvortis. Hafi þeir því verið færðir í röntgenmyndatöku og niðurstaðan orðið sú að röntgenlæknir hafi talið ljóst að A hefði aðskotahlut í kviðarholi. Viðurkenndi A að hafa gleypt pakkningar sem innihéldu fíkniefni. Hafi A skilað 46 pakkningum af fíkniefnum sem hann hafði falið í líkama sínum. Hvað kærða varði hafi niðurstaða röntgenlæknis verið sú að hann hefði ekki aðskotahluti í líkama sínum. Í farangri kærða hafi hins vegar fundist símanúmer íslensks aðila.
Samkvæmt niðurstöðu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi pakkningarnar sem A hafði falið í líkama sínum, innihaldið samtals 283,29 g af meintu kókaíni. Þegar lögreglu hafi orðið ljóst að kærði hefði ekki falin fíkniefni í líkama sínum eða í farangri sínum hafi kærða verið sleppt úr haldi lögreglu síðdegis sunnudaginn 3. mars sl. Við skýrslutökur yfir kærða sem hafi farið fram sunnudaginn 3. mars og mánudaginn 4. mars hafi komið m.a. fram að kærði þekkti A og þeir væru góðir kunningjar. Hafi kærði gefið þá skýringu á ferðalagi sínu hingað til lands að hann hafi ætlað að hitta íslenskan aðila hér á landi og símanúmerið sem hafi fundist í fórum kærða tilheyrði þeim aðila. Ætlaði kærði meðal annars að skoða sig um hér á landi og mynda tengsl við hugsanlega viðskiptafélaga en kærði starfi í fasteignabransanum að eigin sögn. Hvað A varði þá hafi kærði greint frá því að hann hafi greint A frá því að hann hygðist fara til Íslands í stutt frí og A hafi því næst spurt hvort að hann mætti koma með. Kærði hafi tekið vel í það og lánað A peninga fyrir flugfarinu, en A hafi að sögn kærða verið atvinnulaus um hríð og eigi ekki mikla peninga. Spurður um hvort að kærði hafi vitað að A hefði haft fíkniefni falin í líkama sínum sagðist kærði ekki hafa hugmynd um það.
A hafi verið yfirheyrður í tvígang vegna málsins. Við fyrri yfirheyrsluna hafi hann greint frá því að hann hafi ætlað að flytja fíkniefnin hingað lands og selja þau. Hann hafi heyrt að hér væri auðvelt að selja fíkniefni og fyrir þau fengist gott verð. A kvaðst ekki þekkja neinn hér á landi en taldi að það yrði ekki erfitt að finna aðila hér á landi sem hægt væri að selja efnin til. Spurður um það hvort að kærði hefði átt einhvern þátt í því að flytja fíkniefnin hingað til lands hafi A neitað því.
Við seinni yfirheyrsluna yfir A hafi hann breytt fyrri framburði sínum, meðal annars á þann veg að hann hafi verið fenginn til að flytja fíkninefnin hingað til lands gegn greiðslu. Hann hafi átt að afhenda fíkniefnin Íslendingnum sem kærði hefði verið með símanúmerið hjá. Kærði hafi séð um öll samskipti við Íslendinginn. Spurður um það hvort kærði hafi vitað af því að A hefði haft fíkniefni í fórum sínum hafi A svarað því að það gæti svo sem vel verið að hann hafi vitað eitthvað. A hafi staðfest þennan framburð sinn í síðari yfirheyrslum.
Það sé mat lögreglu að kærði hafi verið full meðvitaður um að A hefði fíkniefni falin í líkama sínum og hann hafi verið einskonar fylgdarmaður A. Vísað sé til gagna málsins.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Lögregla vinni nú að því að rannsaka aðdragandann að ferð kærða og A hingað til lands og tengsl þeirra við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi eða erlendis, auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Lögregla telji sig vita hvaða aðili hér á landi hafi átt að taka við fíkniefnunum og vinni nú að rannsókn varðandi þann aðila. Þá vinni lögregla einnig að því staðreyna hvort að hinn breytti framburður A eigi við rök að styðjast en ýmislegt í fyrirliggjandi gögnum málsins bendi til þess að svo sé.
Lögregla telji að hin meintu fíkninefni sem hafi fundist í fórum A hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að kærði eigi beina aðild að innflutningnum. Þá telji lögregla einnig, miðað við það magn meintra fíkniefna sem hald hafi verið lagt á í málinu, að háttsemi kærða og A kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hann, af hendi samverkamanna kærða, gangi hann laus.
Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. mars 2013 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.
Svo sem fram er komið var kærði handtekinn 3. mars síðastliðinn vegna rökstudds gruns um að vera með fíkniefni innvortis. Svo reyndist ekki vera en rannsókn málsins er samkvæmt upplýsingum lögreglu enn í fullum gangi og beinist nú að hugsanlegri aðild aðila hér á landi sem taka hafi átt við fíkniefnum sem samferðamaður kærða bar innvortis við komu þeirra til landsins. Ætlað brot kærða getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er ekki lokið. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála er fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. mars 2013, kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.