Hæstiréttur íslands
Mál nr. 131/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Verjandi
|
|
Þriðjudaginn 25. febrúar 2014. |
|
Nr. 131/2014.
|
Ákæruvaldið (enginn) gegn X (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Verjandi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem skipan verjanda X var felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014 þar sem skipun Jóhannesar Bjarna Björnssonar hæstaréttarlögmanns sem verjanda varnaraðila var felld úr gildi. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 5. gr. laga nr. 52/2010. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið mál þetta til sín taka fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var höfðað með ákæru embættis sérstaks saksóknara 15. mars 2013 á hendur varnaraðila og átta öðrum einstaklingum.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2014 var sækjandi inntur eftir því af héraðsdómara hvort sóknaraðili hygðist draga til baka skýrslu um hljóðritað samtal eins ákærðu í málinu og verjanda framangreinds varnaraðila og lýsa því jafnframt yfir að verjandinn yrði ekki leiddur sem vitni í málinu. Svaraði sækjandinn því til að umrætt skjal yrði ekki dregið til baka. Þá hefði sóknaraðili á þeirri stundu ekki í hyggju að leiða verjandann sem vitni, en ekki væri útilokað að þær aðstæður gætu skapast að svo yrði gert.
Ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 er fortakslaust um að ekki megi skipa þann verjanda sem kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli. Samkvæmt því og að virtu svari sóknaraðila við fyrrgreindri spurningu héraðsdómara er einboðið að staðfesta verður hinn kærða úrskurð.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014.
Við þingfestingu málsins 24. apríl 2013 var Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. skipaður verjandi ákærða X að hans ósk. Í þinghaldi 17. febrúar síðastliðinn bókaði dómarinn að honum hefði orðið ljóst að meðal gagna málsins væri skýrsla lögreglu um hlustun á samtali lögmannsins og ákærða Y. Þeir áttu þetta símtal 12. apríl 2010. Í þinghaldinu spurði dómarinn sækjandann hvort hann hygðist draga skýrslu þessa til baka og lýsa því yfir að lögmaðurinn yrði ekki leiddur sem vitni í málinu. Sækjandinn kvaðst ekki vilja draga skýrsluna til baka. Hann kvaðst ekki hafa í hyggju á þessari stundu að leiða lögmanninn sem vitni í málinu en útilokaði ekki að þær aðstæður gætu skapast að hann yrði leiddur sem vitni. Eftir að þessi svör höfðu fengist frá sækjandanum ákvað dómarinn, með vísun til 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 að fella niður skipun lögmannsins sem verjanda ákærða. Lögmaðurinn mótmælti þessari ákvörðun og var hún tekin til úrskurðar eftir að hann hafði tjáð sig um hana. Sækjandinn lét álitaefnið ekki til sín taka. Verjendur hafa lýst því yfir að þeir muni ekki leiða lögmanninn sem vitni.
Í nefndu ákvæði laga nr. 88/2008 segir að ekki megi skipa þann verjanda sem kunni að verða kvaddur til að gefa skýrslu í máli. Eins og að framan getur hlustaði lögreglan á samtal lögmannsins og eins hinna ákærðu. Um þetta var rituð skýrsla sem er meðal gagna málsins. Ekki er útilokað að lögmaðurinn verði kvaddur til að gefa skýrslu í málinu og voru því ekki skilyrði til að skipa hann verjanda á sínum tíma eins og gert var. Það er því óhjákvæmilegt að fella skipun hans úr gildi.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Skipun Jóhannesar Bjarna Björnssonar hrl. sem verjanda ákærða X er felld úr gildi.