Hæstiréttur íslands

Mál nr. 277/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ákæra
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 277/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Líkamsárás. Ákæra. Kröfugerð. Frávísun frá héraðsdómi. Sératkvæði.

Með dómi héraðsdóms var X sakfelldur fyrir líkamsárás. Dóminum var áfrýjað af hálfu ríkissaksóknara og X. Engin ný gögn voru lögð fyrir Hæstarétt. Málatilbúnaður ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti fólst einkum í því að lýsa efasemdum um réttmæti þess að gefa út ákæru í málinu og síðan að sakfella X, jafnframt því sem haldið var til streitu kröfu um að hann yrði sakfelldur og honum refsað. Engin haldbær skýring kom fram á þessum ákæruháttum við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Að svo vöxnu var talið að ákæruvaldinu hafi borið að krefjast sýknu samkvæmt meginreglu 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Málatilbúnaður ákæruvalds fyrir Hæstarétti væri þannig í slíkri mótsögn við þá afstöðu, sem hafi legið að baki því að ákæra var gefin út og fylgt var eftir fyrir héraðsdómi, að allur grundvöllur málsins hafi gjörbreyst. Samkvæmt þessu yrði að líta svo á að í raun væri fallið frá öllum fyrri röksemdum fyrir kröfugerð ákæruvalds. Af þessum sökum væri óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krafðist þess í áfrýjunarstefnu að refsing ákærða yrði þyngd. Endanleg kröfugerð ákæruvalds fyrir Hæstarétti er sú að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða og um sakarkostnað og að hann verði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.

Ákærði krefst sýknu og að laun skipaðra verjenda hans í héraði og fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.

I.

Með ákæru lögreglustjórans [...] 9. febrúar 2004 var ákærða gefin að sök líkamsárás á Y 15. desember 2003, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Var brot ákærða talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði neitaði sök. Með dómi Héraðsdóms Austurlands 13. maí 2004 var ákærði sakfelldur fyrir þær sakargiftir, sem í ákæru greindi, og honum gert að sæta fangelsi í einn mánuð. Var refsingin skilorðsbundin í tvö ár. Þá var hann dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar segir í upphafi að héraðsdómara hafi ekki þótt varhugavert að leggja frásögn brotaþola til grundvallar um að ákærði hafi í umrætt sinn ráðist á hana með þeim hætti, sem hún lýsi. Sé krafist staðfestingar héraðsdóms með vísan til forsendna hans. Síðan segir: „Ekki verður framhjá því horft að mál þetta er á allan máta afar sérstætt. Atlaga ákærða beinist að 16 ára gamalli stúlku sem ákærði hefur að því er virðist verið í ástarsambandi við í 2 ½ ár .... Foreldrar kæranda stóðu með beinum hætti að kæru með þeim hætti sem greinir í kæruskýrslu. Bæði rannsókn málsins hjá lögreglu en þó einkum dómsrannsóknin ... varð miklu ítarlegri en kæruefnið gaf tilefni til enda í löngum rannsóknum farið langt út fyrir sakarefnið samkvæmt kæru og síðar ákæru og virðist öðrum þræði hafa haft þann tilgang að hafa áhrif á áðurgreint samband aðila málsins, en það stóð að einhverju leyti áfram eftir hinn kærða atburð. Hér vakna því spurningar, eins og hvort ákæra átti á grundvelli fyrirliggjandi lögreglurannsóknar og hvort sakfella átti að dómsrannsókninni lokinni, eins og hér var háttað málsatvikum og meiðslum brotaþola. Af þessum ástæðum er mál þetta flutt af hálfu ákæruvalds með nokkrum efasemdum um grundvöll sakfellingar á áfrýjunarstigi málsins. Til greina virðist því bæði geta komið frávísun máls frá héraðsdómi og sýkna af ákæru en dómkröfur ákæruvalds eru sem áður greinir að staðfestar verði niðurstöður héraðsdóms.“

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hálfu ákæruvalds að draga mætti úr þeim orðum að rannsóknin hafi öðrum þræði haft þann tilgang að hafa áhrif á áðurnefnt samband „aðila málsins“. Að öðru leyti væri staðið við umfjöllun í greinargerð.

II.

Í XIV. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eru reglur um saksókn og undirbúning málsmeðferðar. Samkvæmt 112. gr. laganna skal ákærandi athuga, eftir að hafa fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið, hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en ella höfðar hann opinbert mál með útgáfu ákæru. Komi sú staða upp undir rekstri máls að ákæruvald telji ekki líklegt að framangreind skilyrði 112. gr. til saksóknar séu uppfyllt er því rétt að afturkalla ákæru þannig að mál verði fellt niður, sbr. b. lið 132. gr. laganna. Þá er ríkissaksóknara heimilt samkvæmt 2. málslið 148. gr. laga nr. 19/1991 að áfrýja dómi ákærða til hagsbóta. Hefur reynt á það í nokkrum málum á síðari árum að ríkissaksóknari hafi áfrýjað dómi og krafist þess að ákærði yrði sýknaður eða gert slíka kröfu undir rekstri máls fyrir Hæstarétti, sbr. nú síðast dóm réttarins 12. febrúar 2004 í máli nr. 467/2003. Eðli máls samkvæmt reynir fyrst og fremst á ákvæðið komi fram nýjar upplýsingar eftir uppkvaðningu héraðsdóms, sem leiða til breyttrar afstöðu ákæruvalds.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, hafa engin ný gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Málatilbúnaður ákæruvalds hér fyrir dómi hefur hins vegar einkum falist í því að lýsa efasemdum um réttmæti þess að gefa út ákæru í málinu og síðan að sakfella ákærða, jafnframt því sem haldið er til streitu kröfu um að hann verði sakfelldur og honum refsað. Engin haldbær skýring kom fram af hálfu ákæruvalds á þessum ákæruháttum við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Eins og málið liggur fyrir er ljóst að afstaða ríkissaksóknara um forsendur þess að gefa út ákæru og um sönnun sakargifta á hendur ákærða er ekki sú sama og þess handhafa ákæruvalds, sem tók ákvörðun um ákæru og rak málið fyrir héraðsdómi. Á þeim grundvelli var ríkissaksóknara unnt að gera kröfu fyrir Hæstarétti ákærða til hagsbóta þótt ekki væri við ný gögn að styðjast í málinu, sbr. til hliðsjónar 2. málslið 2. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991. Sú meginregla felst í 112. gr. laganna að ekki skal ákæra mann nema ákærandi telji að fyrirliggjandi gögn nægi til að sanna sekt. Í málinu háttar hins vegar svo til að krafa ákæruvalds fyrir Hæstarétti um sakfellingu og refsingu er nær einvörðungu studd rökum, sem ganga í gagnstæða átt. Að svo vöxnu bar ákæruvaldi að krefjast sýknu samkvæmt reglu 112. gr. laga nr. 19/1991, en því er ekki aðeins skylt að hlutast til um að sekur maður sé saksóttur heldur einnig að saklaus maður verði ekki dæmdur, sbr. 31. gr. laganna. Málatilbúnaður ákæruvalds fyrir Hæstarétti er þannig í slíkri mótsögn við þá afstöðu, sem lá að baki því að gefa út ákæru og fylgt var eftir fyrir héraðsdómi, að allur grundvöllur málsins hefur gjörbreyst. Verður að líta svo á að í raun sé fallið frá öllum fyrri röksemdum fyrir kröfugerð ákæruvalds. Er af þessum sökum óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, í héraði, Evu Dísar Pálmadóttur héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Meirihluti dómenda hefur komist að þeirri niðurstöðu, að ætlaðir annmarkar á málflutningi ákæruvalds fyrir Hæstarétti eigi að leiða til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Á þetta er ekki unnt að fallast.

Við meðferð málsins fyrir dómi gaf Z vitnaskýrslu, en þetta vitni hafði ekki verið yfirheyrt við lögreglurannsókn málsins. Vitnið kvaðst hafa fylgst með ákærða og Y út um glugga á húsi sínu þann tíma sem ákærði og Y höfðu viðdvöl á þeim stað á götunni, þar sem líkamsárásin er sögð hafa átt sér stað. Felst í framburði þessa vitnis eindreginn stuðningur við framburð ákærða í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 69. gr. stjórnarskrár skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Í samræmi við þetta kveður 45. gr. laga nr. 19/1991 á um að sönnunarbyrði um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu. Þarf ákæruvald að færa fram sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, svo sem það er orðað í 46. gr. laganna. Samkvæmt því sem að framan segir er ekki einungis ósannað, að ákærði hafi framið þann verknað, sem hann er ákærður fyrir, heldur má telja að sönnunarfærslan í málinu bendi sterklega til hins öndverða. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella ákærða er því fjarstæð.

Af hálfu ákæruvaldsins hefur meðal annars þessi aðstaða orðið til þess við áfrýjun málsins, að málið hefur verið flutt „með nokkrum efasemdum um grundvöll sakfellingar á áfrýjunarstigi málsins“, eins og komist er að orði í greinargerð ákæruvalds. Þrátt fyrir þetta krefst ákæruvaldið staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms.

Fallast má á með meirihluta dómenda, að ákæruvaldinu hafi, með hliðsjón af afstöðu sinni til sakarefnisins, verið rétt að krefjast sýknu fyrir Hæstarétti, svo sem heimilt er samkvæmt 2. málslið 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ljóst er, að þá hefði ákærði verið sýknaður en málinu ekki vísað frá héraðsdómi. Sú staðreynd að ákæruvald hefur við áfrýjun málsins krafist staðfestingar á sakfellingu héraðsdómsins, en ekki sýknu, getur ekki valdið því að málatilbúnaður fyrir héraðsdómi teljist ekki lengur uppfylla kröfur laga. Ætlaðir annmarkar á kröfugerð og málflutningi fyrir Hæstarétti geta ekki að lögum varðað frávísun máls frá héraðsdómi. Raunar eru ekki að mínu mati neinir formlegir annmarkar á því af hálfu ákæruvalds, að krefjast við áfrýjun staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en benda í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti á málsatriði sem teljast til hagsbóta fyrir ákærða, svo sem raunin er í þessu máli. Þessi háttur á málflutningi ákæruvalds fyrir Hæstarétti getur því ekki, hvernig sem á málið er litið, varðað frávísun málsins frá héraðsdómi.

Maður sem sætt hefur ákæru fyrir refsiverða háttsemi hefur ríka og lögmæta hagsmuni af því að verða sýknaður, standi efni máls og sönnunarfærsla til slíkrar niðurstöðu. Við frávísun frá héraðsdómi er sá möguleiki enn fyrir hendi að formi til, að ný ákæra verði gefin út. Reglur laga nr. 19/1991 standa ekki til þess háttar málsúrslita við áfrýjun nema undirbúningi undir málshöfðun í héraði hafi verið áfátt í meginatriðum, svo sem það er orðað í lokamálslið 1. mgr. 156. gr. þeirra. Dæmi um slíka úrlausn er að finna í dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2004 í máli nr. 467/2003, þar sem rangur aðili var ákærður og báðir málsaðilar, ákæruvald og ákærði, kröfðust raunar frávísunar frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar 14. október 2004 í máli nr. 142/2004, urðu málsúrslit þau sömu en þar stóð svo á að verknaðarlýsing ákærunnar fékk ekki stoð í lögreglurannsókn. Í því máli sem hér er til meðferðar hlýtur umtalsverður vafi að hafa leikið á að sá málsgrundvöllur, sem lá fyrir eftir rannsókn lögreglu, hafi getað talist líklegur til að leiða til sakfellis ákærða. Lá fyrir ákæruvaldinu að meta þetta samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991. Undirbúningi undir málshöfðun í héraði telst hins vegar ekki áfátt í meginatriðum í skilningi 1. mgr. 156. gr. laganna, þó að fyrirfram megi telja vafa leika á því að sönnunarfærsla ákæruvalds geti leitt til sakfellis. Það er ekki hlutverk dómstóla að endurskoða mat ákæruvaldsins samkvæmt 112. gr. Taki ákæruvald ákvörðun um málshöfðun í tilvikum þar sem sönnunarfærsla er veik leiðir það eftir atvikum til sýknu en ekki frávísunar, sbr. til hliðsjónar athugasemd um þetta í forsendum dóms Hæstaréttar 26. febrúar 2004 í máli nr. 414/2003, þar sem þetta var raunar tengt hugleiðingu um ómerkingu héraðsdóms í stað frávísunar frá héraði svo sem rétt hefði verið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið tel ég að ákærði eigi að vera sýkn af sakargiftum samkvæmt ákæru í máli þessu.

Ég er sammála atkvæði meirihlutans um sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 13. maí 2004.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans [...], dagsettri 9. febrúar 2004 á hendur X, kennitala [...], “fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 15. desember 2003 veist að Y, kt. [...], á móts við hús nr. [...] við [...], gripið aftan í hana svo hún féll fram fyrir sig í götuna og slegið hana nokkur hnefahögg í hnakkann og víðar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar neðan og aftan við hægra eyra, mar og bólgu yfir hálsvöðva, roða og þrota á hægri kinn, bólgu og sprungu á efrivör, eymsli á nefbeini, veruleg eymsli og roða á hálsi, verk í hnakka, mikil eymsli og blæðingu undir húð á tveimur stöðum vinstra megin á höfði, mar fyrir ofan ökkla á báðum fótum og bólgu vinstra megin í baki”.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákvörðun refsingar verði frestað en til þrautavara að refsing ákærða verði svo væg sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði tildæmdur úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.

I.

Þriðjudaginn 16. desember 2003, kl. 18:00 kom Y á lögreglustöðina á [...] í fylgd móður og fósturföður, og lagði fram kæru á hendur X, ákærða í máli þessu, fyrir líkamsárás á [...] á milli kl. 00:00 og 00:30 aðfaranótt mánudagsins 15. desember 2003.

Ákærði og kærandi, vitnið Y, höfðu verið að renna sér á sleða á [...] umrædda nótt. Þau voru fyrrverandi par og höfðu ýmist verið sundur eða saman um nokkurn tíma.

Í lögregluskýrslu lýsir Y árásinni þannig að hún hafi ætlað að hlaupa heim eftir rifrildi við ákærða. Ákærði hafi elt hana og gripið aftan í hana og hún fallið í götuna og hafnað á maganum. Ákærði hafi síðan lamið hana í hnakkann en hún muni ekki alveg hvað gerðist. Þetta hafi ekki staðið lengi og höggin hafi ekki verið mjög þung en heldur ekki laus. Hún geri sér ekki grein fyrir hvar hann lamdi hana né hve oft en höggin geti hafa verið um það bil sex. Þegar hún hafi litið upp hafi hún séð ákærða hlaupa í burtu. Hún hafi síðan sest upp en verið hálf ringluð og haft það á tilfinningunni að hún þyrfti að kasta upp.

Samkvæmt vottorði A heilsugæslulæknis kom Y til hans þann 16. desember 2003. Í vottorðinu er skráð lýsing vitnisins á hinni meintu árás og er hún í samræmi við lýsingu þá sem vitnið gaf hjá lögreglu. Í vottorðinu segir síðan orðrétt: Við skoðun er hún greinilega miður sín og liggur við gráti allan tímann. Er með marblett neðan og aftan við hæ. eyra sem kemur heim og saman við högg eftir hnefa eða flatan lófa og þá með miklum krafti. Þá er hún með mar og bólgu yfir sterno cleido mastoidevöðvanum á hálsi, þar er einnig greinilegt fingrafar, sennilega eftir þumalfingur. Þetta mar nær einnig upp á við og bak við eyrað hliðlægt. Ekki óhugsandi og ekki ólíklegt að um sé að ræða fleiri en einn áverka á sama svæði sem renna saman í einn. Þá er hún með roða og þrota á hæ. kinn þar sem um er að ræða í raun þrjá afmarkaða áverka, allir striklaga og mynda næstum hringlaga blett og ekkert mar þar á milli, þetta gæti komið heim og saman við klemmuáverka t.d. ef hert hefur verið að trefli. Þá er hún bólgin á efrivör sem er sprungin rétt hliðlægt um miðja vegu vi. megin, ekki blæðing nú þegar ég skoða hana, ekki að sjá áverka á neðri vör. Finnur fyrir eymslum við þreifingu á nefbeini en þar er ekki að sjá mar, ekki áberandi roði, ekki glóðarauga hins vegar rauð í báðum augum, sennilega vegna geðshræringar og gráts. Kvartar um verk aftan í hnakkanum en þar ekki hægt að sjá klár merki um áverka, er einnig með verk aftan í hnakkanum en þar ekki hægt að sjá klár merki um áverka, er einnig með verk í hálsliðum þar sem hálshryggur og mjóhryggur mætast. Veruleg eymsli og roði rétti í kringum og neðan við útbungunina sem kemur við sjöunda hálslið. Verkur vi. megin í höfði og þar er hematoma ekki mjög stórt ca. 2,5 x 1,5 cm og liggur í svokallaðri horisontal lóðréttri línu. Þar eru veruleg þreifieymsli. Hematomað er á sama svæði og hún kvartar um verk í höfðinu. Þá er hún með annað hematoma þ.e. blæðingu milli húðar og kúpu yfir parientalbeini sömu megin sem er ca. 1 fercm að flatarmáli veruleg þreifieymsli og er hér mjög líklega um áverka eftir högg að ræða.

Marblettir framan á báðum fótum, rétt ofan við ökkla, gætu hafa komið við t.d. spark eða rekið sig í, ekki sár. Gætu einnig hafa komið við að brugðið hafi verið fyrir hana fæti, þarna undir eru greinileg hematom. Þá kvartar hún um í mjóbaki, heldur meira vi. megin við hrygginn, það er ekki að sjá mar, get ekki þreifað aukna fyrirferð en vottar fyrir bólgu þar sem eymslin eru mest og ekki ósennilegt að mar eigi enn eftir að koma fram.

Lít svo á hana aftur þ. 17.12. og þá er hún greinilega komin með einkenni frá hálsi vi. megin, komin með fingurlagað mar í láréttu plani. Veruleg eymsli á þeim stað en erfitt að greina það frá bólgu í mjúkpörtum og bólgu í hálsi og koki. Stúlkunni er greinilega mjög brugðið og líður illa, hefur grátið mikið og greinilega post traumatisk stresseinkenni.

Ákærði neitar því alfarið að hafa ráðist á Y í umrætt sinn. Hann lýsir atvikum umrætt kvöld þannig að hann og Y hafi farið út að renna sér á sleða eftir að hafa fengið sér í glas heima hjá honum. Margt fólk hafi verið að renna sér á sleðum. Þau hafi rennt sér tvær eða þrjár ferðir en þá farið til félaga hans þar sem þau hafi setið nokkra stund og drukkið áfengi og spjallað. Þegar félaginn hafi þurft að leggja sig hafi þau farið aftur út og haldið áfram að renna sér. Þegar þau hafi svo verið á leið upp [...] eftir að hafa rennt sér tvær ferðir hafi Y beðið hann að útvega meira áfengi. Hann hafi sagt henni að hann gæti það ekki því hann ætti ekkert áfengi og félagi hans væri farinn að sofa og hann væri líka búinn með sitt áfengi. Hann vissi ekki um neinn sem gæti útvegað áfengi. Hún hafi þá orðið æst og hann reynt að róa hana. Hann hafi haldið að hún væri orðin róleg og þau farið að spjalla frekar rólega. Síðan hafi hún æst sig aftur. Hann hafi þá gripið í höndina á henni og sagt henni að róa sig niður. Hann hafi útskýrt fyrir henni að þetta gengi ekki og myndi enda með að þau myndu rífast allt kvöldið. Hann hafi síðan kysst hana létt og hann farið í átt að Heiðmörk þar sem hann búi en hún niður [...]. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði aðspurður ekki muna út af hverju hann og Y hefðu farið að rífast í umrætt sinn og nefndi ekki að hún hefði viljað að hann útvegaði meira áfengi.

Ákærði kveðst aldrei hafa lagt hendur á Y fyrir utan einu sinni á [...] en þá hafi hann bitið hana í kinnina til að verja sig. Ákærði kveðst halda að kæran sé tilkomin vegna þess að Y hafi orðið mjög reið vegna þess að hann gat ekki útvegað áfengi og ætlað að hefna sín á honum fyrir það.

Ákærði kveður þau hafa hist aftur nokkrum dögum seinna og síðan daglega yfir jólin. Þau hafi gefið hvort öðru jólagjafir. Síðan hafi þau hist um hverja helgi og daglega um páskana. Y hringi í hann á föstudögum og spyrji hann hvernig helgin verði hjá honum.

Vitnið, Y, kveðst hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis í umrætt sinn. Hún hafi verið heima hjá ákærða þegar þau hafi ákveðið að fara út og renna sér á sleða. Þau hafi síðan farið að rífast og hún þá sagst ætla heim því hún vildi ekki rífast við ákærða. Ekki sé rétt, sem ákærði haldi fram, að þau hafi farið að rífast út af því að hún hafi viljað að hann útvegaði meira áfengi. Ákærði hafi ekki viljað að hún færi heim og ýtt við henni þannig að hún datt. Hún hafi staðið upp og hent vettlingunum hans upp götuna og hafi ákærði hlaupið eftir þeim. Hún hafi hins vegar hlaupið niður götuna í átt að heimili sínu en ákærði hafi komið á eftir henni. Hann hafi gripið í hana og hún dottið fram fyrir sig í götuna og lent á maganum. Ákærði hafi síðan ráðist á hana og lamið hana í bak, háls og höfuð með flötum lófa að hún haldi. Höggin hafi ekki verið mjög þung. Hún hafi eins og dottið út en þegar hún hafi rankað við sér hafi ákærði verið farinn ofar í götuna. Þegar hún hafi staðið upp hafi hana svimað og verið óglatt. Það hafi ekki verið vegna þess að hún var búin að drekka. Hún hafi svo gengið af stað áleiðis heim en þegar þangað kom hafi ákærði verið í garðinum fyrir ofan húsið. Hún hafi beðið hann að fara en hann neitað að gera það nema hún segðist elska hann. Hún hafi því sagst elska hann en þá hafi ákærði beðið hana um að koma nær sér en hún neitað því. Hún hafi ætlað að labba til ömmu sinnar en þegar hún hafi séð að ákærði fór í burtu hafi hún hlaupið inn heima hjá sér. Foreldrar hennar hafi ekki verið heima og hafi hún byrjað á að hringja í móður sína en ekki náð sambandi við hana. Hún hafi því næst reynt að ná sambandi við fósturföður sinn en án árangurs. Svo hafi hún hringt á skrifstofuna þar sem mamma hennar sé að vinna og þá hafi henni verið sagt að mamma hennar myndi hringja í hana sem hún hafi gert. Mamma hennar hafi svo fengið B til að koma og vera hjá henni þar til hún kæmi heim.

Henni hafi liðið mjög illa eftir árásina og verið hrædd. Hún hafi fundið til í höfðinu, andlitinu, bak við eyrað og bakinu. Þá hafi hún verið með marbletti á fótunum. Henni hafi þótt skrýtið að þetta skyldi hafa gerst. Hún og ákærði séu engir óvinir í dag og hittist. Hún hringi í hann og hann í hana. Henni finnist ákærði geðveikt fínn gaur. Þau hafi gefið hvort öðru jólagjafir.

Y hefur lýst því að ákærði hafi áður ráðist á hana. Í annað skiptið hafi ákærði bitið hana en í hitt skiptið hafi hann klórað hana á hálsinum. Fyrra tilvikinu lýsti hún þannig hjá lögreglu að hún hafi verið á skemmtun á [...] sl. sumar og viljað fara en ákærði hafi ekki viljað að hún færi. Þau hafi síðan farið að slást og á endanum hafi ákærði bitið hana. Síðara tilvikinu lýsti hún þannig að helgina áður hafi hún verið á leið heim til sín gangandi eftir skemmtun. Þegar hún hafi verið á móts við pósthúsið hafi ákærði komið á móti henni og ekki viljað að hún færi heim. Hann hafi síðan gripið um hálsinn á henni en hún dottið og þannig losnað frá honum. Hún hafi náð að hringja í C sem verið hafi á veitingastaðnum [...] og hafi hann komið út og kallað í ákærða sem þá hafi hætt.

Vitnið Z kveðst hafa orðið vör við læti í Y eftir að hún og ákærði voru orðin ein eftir úti. Hún hafi fylgst með þeim út um glugga á húsi sínu á milli klukkan tólf og hálf eitt. Y hafi verið eins og hún væri að sturlast, öskraði á ákærða og ýtti við honum. Síðan hafi þau gengið í sitt hvora áttina. Y hafi síðan komið til baka og aftur ýtt við ákærða. Ákærði hafi þá tekið fram fyrir hendurnar á henni og öskrað á hana að róa sig. Síðan hafi þau gengið í sitt hvora áttina. Ákærði hafi ekki barið Y. Kveðst vitnið vera þess fullvisst að það hafi orðið vitni að samskiptum ákærða og Y umrædda nótt. Hún hafi hins vegar ekki tengt atvikið við kæruna fyrr en henni hafi verið sagt í tengslum við aðalmeðferð málsins að hin meinta árás hefði átt sér stað fyrir utan pósthúsið.

Vitnið D móðir Y hefur greint frá því að Y hafi hringt í hana í vinnuna í kringum miðnætti í umrætt sinn og verið hágrátandi og sagt henni að ákærði hefði ráðist á hana og meitt hana. Hafi Y beðið hana að koma heim því hún væri svo hrædd. Þar sem að það hefði tekið hana um hálftíma að komast heim hafi hún hringt í mágkonu sína og beðið hana að fara til Y. Þegar hún hafi svo sjálf komið heim hafi ástand Y verið skelfilegt og hafi hún helst verið að hugsa um að hringja í lækni þar sem hún hafi haldið að Y væri að fá taugaáfall. Y hafi verið mjög hrædd og í mjög miklu uppnámi. Y hafi sagt henni að ákærði væri búinn að vera á vappi í kringum húsið. Hafi Y verið með marblett bak við eyrað og á báðum fótum. Þá hafi hún verið með sprungna vör. Auk þess hafi hún kvartaði um í baki og á fleiri stöðum. Y hafi verið í marga klukkutíma að jafna sig og ekki sofnað fyrr en undir morgun.

Vitnið kveðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði beitti Y líkamlegu ofbeldi þó oft hafi gengið mikið á. Y hafi einu sinni áður greint henni frá því að ákærði hefði beitt hana ofbeldi og þá með því að taka hana kverkataki þannig að áverki hlaust af. Hún hafi hins vegar orðið vitni að því að ákærði beitti Y andlegu ofbeldi með afbrýðisemi og hegðun t.d. með því að rjúka út og skella á eftir sér. Eftir umrætt atvik hafi þeim þótt nóg komið og ákveðið að kæra.

Vitnið B kveður fósturföður Y hafa hringt í sig umrædda nótt um klukkan eitt og beðið hana um að fara til Y því hún væri ein heima og í miklu uppnámi eftir slagsmál. Þegar hún hafi komið til Y hafi hún verið grátandi, skjálfandi og í miklu uppnámi rétt eins og hún væri að fá taugaáfall. Hún hafi ekki getað greint að Y væri undir áhrifum áfengis. Hún hafi reynt að hugga hana og ræða við hana. Y hafi skýrt henni samhengislaust frá því sem gerðist. Fram hafi komið hjá henni að hún hefði verið að drekka heima hjá ákærða. Þau hefðu síðan farið út og þegar hún hafi viljað fara heim hafi hann viljað að hún segði að henni þætti vænt um hann en hún ekki viljað það. Hún hafi endað í götunni og hann haldið henni þar til hún sagði að henni þætti vænt um hann. Hún hafi ekki greint áverka á Y aðra en far á hálsinum neðan við eyra. Þá hafi Y verið bólgin í framan og í kringum munninn en hún viti ekki nema það hafi verið eftir grát. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað vitnið sér finnast eins og Y hefði eitthvað minnst á að ákærði hefði barið hana í bakið eða eitthvað slíkt.

Vitnið E, vinkona ákærða og vitnisins Y kveðst hafa orðið vitni að því að Y hafi slegið ákærða þannig að hann missti næstum gleraugun sín. Ákærði hafi þá tekið Y og bitið hana í kinnina. Kveður vitnið þau alltaf fara að rífast þegar þau séu að drekka og Y verði geðveikt æst.

Vitnið C staðfestir að Y hefði hringt í hann eins og hún heldur fram að hún hafi gert helgina fyrir umrætt sinn. Hann kveður ákærða og Y hafa verið búin að rífast allt kvöldið en hann hafi ekki orðið vitni að því að ákærði réðist á hana.

II.

Kærandi, vitnið Y, kveður ákærða hafa ráðist á sig umrætt kvöld á [...] þar sem þau höfðu verið að renna sér á sleða. Engin vitni voru að árásinni. Þegar Y kom heim var enginn heima og kveðst hún strax hafa reynt að ná símasambandi við móður sína, vitnið D og einnig fósturföður. Kveður móðir Y hana hafa verið hágrátandi í símanum og hafa sagt að ákærði hefði ráðist á hana og meitt hana. Var vitnið B, fengin til að fara heim til Y og vera hjá henni.

Y hefur skýrt nokkuð skilmerkilega frá árás ákærða og verið sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni. Hún sagði móðir sinni grátandi frá árásinni í síma og síðan nánar eftir að móðir hennar kom heim. Þá greindi Y B, sem fengin var til að vera hjá henni, frá því að ákærði hefði ráðist á hana. Loks er frásögn Y af árásinni skráð í vottorð læknisins A. Er sú frásögn efnislega samrýmanleg framburði Y fyrir dómi.

Ákærði neitar hins vegar að hafa ráðist á Y. Fyrir dómi lýsti ákærði samskiptum þeirra umrætt kvöld skilmerkilega og því hvernig Y hefði reiðst því að hann hafi ekki getað útvegað áfengi. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hins vegar ekki muna út af hverju þau fóru að rífast í umrætt sinn og minntist ekki á ágreining út af áfengi. Þykir frásögn ákærða af atvikum ótrúverðug.

Það að ákærði hafi ekki ráðist á Y í umrætt sinn fær stoð í framburði vitnisins Z sem þykir verða að meta með hliðsjón af því að hún kveðst hafa fylgst með atvikum út um stofuglugga á húsi sínu í nokkurri fjarlægð. En einnig í ljósi þess að hún tengdi atvik þau sem hún kveðst hafa orðið vitni að fyrst við mál þetta skömmu fyrir aðalmeðferð.

Y kveðst hafa verið hrædd eftir árásina og kveður sér hafa liðið mjög illa. Vitnið B kveður Y hafa verið grátandi þegar hún kom til hennar um nóttina og í miklu uppnámi eins og hún væri að fá taugaáfall. Móðir Y kveður hana hafa verið mjög hrædda og í mjög miklu uppnámi. Ástand Y hafa verið skelfilegt og hafi hún verið að hugsa um að hringja á lækni því hún hafi haldið að Y væri að fá taugaáfall. Það hafi tekið Y marga klukkutíma að jafna sig og hún ekki sofnað fyrr en undir morgun. Þá kemur fram í vottorði A læknis að Y hafi greinilega verið mjög brugðið og henni liðið illa, hún hafi grátið mikið og að hún sé greinilega með post traumatisk stresseinkenni. Af framanröktu þykir ljóst að Y hefur borið öll merki þess að hafa lent í einhverju mjög alvarlegu.

Y hefur staðfastlega borið að ákærði hafi ráðist á hana og er frásögn hennar trúverðug að mati dómsins. Fær frásögnin stoð í framburðum vitna sem hún greindi frá árásinni og vottorði læknis sem skráði frásögn af árásinni eftir henni. Þá þykir framburðir vitna um andlegt ástand hennar og vottorð læknis þar um renna styrkum stoðum undir frásögn hennar. Loks koma áverkar þeir sem hún var með og lýst er í læknisvottorði heim og saman við frásögn hennar af árás ákærða. Þegar þetta er virt annars vegar og hins vegar ótrúverðugur framburður ákærða þykir ekki vera varhugavert að leggja frásögn Y til grundvallar um að ákærði hafi í umrætt sinn ráðist á hana með þeim hætti sem hún hefur lýst og greinir í ákæruskjali að öðru leiti en því að leggja þykir verða til grundvallar með hliðsjón af framburði Y, að ákærði hafi slegið hana með flötum lófa. Þá þykir mega leggja til grundvallar að afleiðingar árásarinnar hafi orðið þær sem í ákæru greinir aðrar en mar fyrir ofan ökkla á báðum fótum sem ekki þykir verða rakið til árásarinnar eins og henni er lýst af Y. Þykir brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði var með dómi 28. janúar 2003 dæmdur til greiðslu sektar vegna brots gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, 5. gr. og 1. mgr. 35. gr. umferðarlaga.

Ákærði hefur gerst sekur um fólskulega líkamsárás gegn barnungri stúlku sem hann hafði áður átt í ástarsambandi við. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og ákveða að hún skuli niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Eftir niðurstöðu málsins verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 1 mánuð. Fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.