Hæstiréttur íslands
Mál nr. 465/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 29. nóvember 1999. |
|
Nr. 465/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími varðhaldsins lengdur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli ákæruvalds á hendur honum, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 24. nóvember 1999. Hann krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til miðvikudagsins 15. mars 2000.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila. Í ljósi umfangs málsins eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhaldsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. mars 2000 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 24. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður, kveðinn upp úrskurður um kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, að [...] verði látinn sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 15. mars 1999, kl. 16.00.
Málavextir.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að [...] verði látinn sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 15. mars 1999, kl. 16.00. Krafan er rökstudd með því að kærði sé grunaður um að hafa framið fíkniefnabrot sem varðað geti hann fangelsisrefsingu í allt að 10 ár samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Standi almannahagsmunir til þess að þeir sem grunaðir séu um slík brot fari ekki frjálsir ferða sinna. Er um þetta vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.
Kærði mótmælir kröfunni og hefur hann neitað því við yfirheyrslur hjá lögreglu og fyrir dómi að vera viðriðinn brotin.
[...]
Niðurstaða.
Kærði er undir sterkum grun um að eiga þátt í stórfelldu fíkniefnamisferli. Hafa aðrir sakborningar borið um þátt hans í því og benda símhleranir til hin sama. Gæti brot kærða varðað hann allt að 10 ára fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Dómarinn álítur það nauðsynlegt vegna almannahagsmuna og heimilt samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála að kærði sæti varðhaldi vegna málsins þar til dómur gengur í því, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar nk., kl. 16.00.
Það athugast að rökstuðningi fyrir kröfu lögreglunnar er áfátt að því leyti að vísað er til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála um lagaskilyrði fyrir varðhaldinu. Þessi galli er þó ekki slíkur að hafna beri kröfu lögreglunnar.
Úrskurðarorð:
Kærði, [...], sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 5. janúar nk. kl. 16.00