Hæstiréttur íslands

Mál nr. 570/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kæra L til Hæstaréttar uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. september 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í símtæki í umráðum varnaraðila með símanúmerið [...] og önnur símanúmer sem hann hefur í notkun eða umráð yfir frá og með uppkvaðningu úrskurðar til og með 11. október 2017. Kæruheimild er í i lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.

Af hálfu varnaraðila hefur lögmaður sem skipaður var til að gæta hagsmuna hans ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 segir að í skriflegri kæru til héraðsdóms skuli greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru sóknaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á, en ekki stoðar að þær komi fram í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu frá Hæstarétti.  

Dómsorð:

  Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, mánudaginn 11. september 2017

 

Héraðsdómi Reykjaness barst í dag krafa lögreglustjórans á Suðurnesjum um að embættinu verði heimilt að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símtæki í umráðum X, kt. [...], með símanúmerið [...] og önnur símanúmer sem X, kt. [...], hefur í notkun eða umráð yfir, frá og með uppkvaðningu úrskurðar til og með 11. október 2017, en jafnframt sé heimilt að nema SMS-sendingar, þar með talið SMS-sendingar í lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með númerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf téðra númera á sama tíma.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að lögreglan hafi undanfarið haft til rannsóknar mál þetta er varði innflutning á ætluðum ávana- og fíkniefnum hingað til lands. Hinn 19. ágúst sl. hafi Y, kt. [...], komið með flugi [...] frá Barcelona á Spáni. Hafi hann verið handtekinn í kjölfar afskipta tollvarða vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í fórum sínum. Í ljós hafi komið að í fölskum botni í ferðatösku sem hann hafði meðferðis hafi verið 2.022,53 g af kókaíni.

Lögregla hafi haft upplýsingar um að kærði, X, og meðkærði, Z væru viðriðnir málið. Við rannsóknaraðgerðir í kjölfar framangreinds hafi lögregla fylgst með ferðum kærða X sem hafi sótt meðkærða Y við komuna hingað til lands á BSÍ að morgni 20. ágúst. Hafi þeir ekið að [...] í Reykjavík þar sem Y hafi farið inn með töskuna og kærði haldið á brott. Síðar um daginn hafi kærði farið að [...], sótt töskuna og farið í beinu framhaldi að [...], Hafnarfirði, dvalarstað meðkærða. Hafi kærði verið handtekinn þar ásamt meðkærða í þágu rannsóknar málsins. Hinn 21. ágúst sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna aðildar sinnar að málinu, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis frá 21. ágúst sl. Kærði hafi aftur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins en gert sé ráð fyrir að hann losni seinna í dag þann 11. september 2017. Vísað er nánar til meðfylgjandi gagna.

Rannsókn málsins snýr að innflutningi á miklu magni hættulegra ávana- og fíkniefna hingað til lands og beinist að ákvæðum 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974. Miklu skipti fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fengin sé heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu svo unnt sé að upplýsa málið og upplýsa frekar hverjir mögulegir samverkamenn kærðu séu. Þá telji lögreglustjóri jafnframt að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þetta upplýsist. Vísað er nánar til meðfylgjandi upplýsingaskýrslna.

Með vísan til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 er þess krafist að krafa þessi sæti meðferð fyrir dómi án þess að þolandi eða símafyrirtæki þau sem krafan beinist að verði kvödd  á dómþing.

Vísað er til framangreinds, framlagðra gagna og 81. og sbr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er þess krafist að fallist verði á hina umbeðnu kröfu.

II

Fyrir þingfestingu málsins féllst dómari á kröfu lögreglustjóra þess efnis að krafa hans hlyti meðferð fyrir dómi, án þess að kærði eða síma- og fjarskiptafyrirtæki þau sem krafan beinist að yrðu kvödd á dómþing, sbr. ákvæði 1. mgr. 103. gr. og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki ellegar við síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns, sbr. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Skilyrði fyrir aðgerðum samkvæmt 81. gr. er að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru framangreindum heimildum settar þröngar skorður vegna friðhelgi einkalífs manna sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944.

Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er sakborningi óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök, sbr. einnig 2. mgr. 113. gr. sömu laga. Þessi réttur sakaðs manns nýtur einnig verndar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Með því að heimila umrædda rannsóknaraðgerð yrði lögreglu að mati dómsins gert kleift að hlíða á möguleg samtöl sakborninga í þessu máli sem njóta fyrrgreinds réttar, án þess að þeir hafi vitneskju um að á þá sé hlýtt. Ljóst er einnig að umbeðin rannsóknaraðgerð er víðtæk og mun að öllum líkindum snerta fleiri en þann sem krafan beinist nú að.

Ekki þykir verða kveðið fastar að orði en að umbeðin rannsóknaraðgerð muni mögulega skila árangri. Að því gættu þykir ekki uppfyllt fyrrgreint skilyrði 81. gr. laga nr. 88/2008 um að ástæða verði að vera til að ætla að upplýsingar, sem skipt geti miklu fyrir rannsókn máls, fáist með hinni umbeðnu rannsóknaraðgerð. Enn fremur þykir hlustun og upptaka samtala sakbornings við fyrrgreindar aðstæður, ef til kæmi, fara gegn áðurlýstum rétti hans samkvæmt lögum nr. 88/2008 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verður kröfu lögreglustjóra því hafnað.

Kröfum lögreglustjórans á Suðurnesjum um að Héraðsdómur Reykjaness heimili lögreglustjóranum á Suðurnesjum að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...] og önnur símanúmer X hefur í notkun eða umráð yfir á umbeðnu tímabili, er hafnað.

Þóknun Dórisar Óskar Guðjónsdóttur hdl., sem skipuð var til þess að gæta hagsmuna kærða, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, þykir hæfilega ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfum lögreglustjórans á Suðurnesjum um að Héraðsdómur Reykjaness heimili lögreglustjóranum á Suðurnesjum að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símtæki í umráðum X, kt. [...], með símanúmerið [...] og önnur símanúmer sem hann hefur í notkun eða umráð yfir frá og með uppkvaðningu úrskurðar til og með 11. október 2017, er hafnað.

Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila er ákveðin 73.780 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.