Hæstiréttur íslands

Mál nr. 29/2011


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón


                                                                                              

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011.

Nr. 29/2011.

Hagar hf.

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Inge E.M. Löwner

(Kristján Stefánsson hrl.)

Skaðabótamál. Líkamstjón.

Deilt var um hvort H hf. bæri bótaábyrgð á líkamstjóni I sem hún varð fyrir er hún steig á döðlu sem lá á gólfi við ávaxtaborð í verslun H hf. og féll. Var það niðurstaða Hæstaréttar að ekki væri hægt að rekja slys I til saknæmrar vanrækslu starfsmanna H hf. heldur yrði að telja að um óhappatilviljun hefði verið að ræða. Var H hf. því sýknað af kröfu I.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefndu og að málskostnaður verði þá felldur niður. 

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti er óumdeilt að stefnda meiddist í verslun áfrýjanda, Hagkaupum við Eiðistorg á Seltjarnarnesi, 6. nóvember 2005 er hún féll á gólf verslunarinnar. Af gögnum málsins um afleiðingar slyssins verður ráðið að hagsmunir nái áfrýjunarfjárhæð, sbr. 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi datt stefnda og slasaðist er hún steig á döðlu sem lá á gólfi við ávaxtaborð í fyrrnefndri verslun áfrýjanda. Verður lagt til grundvallar að daðlan hafi fallið af ávaxtaborðinu á gólf verslunarinnar svo sem ávallt kann að gerast við aðstæður sem þessar. Fallist verður á með áfrýjanda að ógjörningur sé fyrir starfsmenn hans að koma í veg fyrir að ávextir falli á gólf verslunarinnar eða að fylgjast svo nákvæmlega með að jafnan sé strax unnt að bregðast við þegar slíkt gerist. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á með stefndu að slys hennar verði rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna áfrýjanda heldur verði að telja að um óhappatilviljun sé að ræða sem áfrýjandi geti ekki talist bera ábyrgð á gagnvart stefndu.

Með vísan til þess sem hér var rakið verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu, en rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Hagar hf., er sýkn af kröfu stefndu, Ingu E. M. Löwner.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.   

                                                             

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 12. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Inge E.M. Löwner, kt. 20.06.41-8339, Grænumýri 8, Seltjarnarnesi, með stefnu, birtri 23. nóvember 2009, á hendur Högum hf. kt. 67.02.03-2120 Skútuvogi 7, Reykjavík, og til réttargæzlu Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt: 650909-1270, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni er hún varð fyrir er hún féll í verslun stefnda við Eiðistorg þann 6. nóvember 2005.

Þá er krafist málskostnaðar, stefnanda að skaðlausu, skv. málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram í málinu eða að mati dómsins. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og því er þess krafist að málkostnaður beri virðisaukaskatt.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, en til vara, að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu réttargæzlustefnda eru ekki gerðar kröfur í málinu.

II

Málavextir

Hinn 6. nóvember 2005 (ranglega sagt 2006 í stefnu) varð stefnandi fyrir slysi í verzlun Hagkaupa á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi.  Slysið varð með þeim hætti, að stefnandi steig á döðlu, sem var á gólfi verzlunarinnar við ávaxtaborð, og rann við það til og skall á vinstra hné og féll í gólfið.

Við þetta hlaut stefnandi nokkur meiðsl.  Kveðst stefnandi hafa verið flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar.  Stefnandi hefur verið, vegna þessa slyss, undir læknishendi Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi.  Stefnandi starfaði, er slysið varð, í þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar og var óvinnufær, skv. læknisvottorði, í um 10 daga.  Stefnandi kveðst búa enn að afleiðingum slyssins og hafa orðið fyrir talsverðu tjóni og óþægindum vegna þess.

Stefndi var með ábyrgðartryggingu í gildi hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., og var slysið tilkynnt félaginu.  Félagið hafnaði bótaskyldu í málinu á þeim grundvelli að ógerningur væri fyrir starfsfólk og rekstraraðila verzlana að koma alfarið í veg fyrir slíkt tjón, jafnvel þótt fyllsta aðgæzla væri viðhöfð við þrif og eftirlit.  Væri því um óhappatilvik að ræða.

Óskað var eftir því, að vátryggjandi endurskoðaði afstöðu sína en með tölvupósti 14. apríl 2009 var ákvörðun félagsins staðfest.

Stendur ágreiningur í máli þessu um bótaskyldu stefnda.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því, að hún hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni, þegar hún átti leið inn í eina verzlun stefnda, sem reki fjölda stórverzlana um land allt.  Stefndi laði að sér viðskiptavini með auglýsingum, og því sé lagt á verzlunareigendur að tryggja öryggi viðskiptavina sinna með öllum þeim leiðum, sem sanngjarnar megi telja, enda eigi neytendur erindi inn í verzlanir á hvaða tímum dags, sem er.

Samkvæmt upplýsingum stefnda fari þrif fram í versluninni að næturlagi, en auk þess beri starfsmönnum að hreinsa aðskotahluti og bleytu af gólfi jafnóðum eftir því sem þörf krefur.  Í samskiptum við vátryggjanda stefnda komi fram, að starfsmönnum stefndu hafi ekki mátt vera kunnugt um, að daðla hefði fallið á gólfið á þessum stað, eða að þrif hefðu verið vanrækt.  Engu að síður liggi ljóst fyrir, að stefnandi hafi runnið á ávexti á gólfi, líkt og stefndi hafi viðurkennt.  Stefndi hafi runnið á ávextinum af því að þrif hafi verið vanrækt.

Algengt sé, að ávextir falli á gólf nálægt grænmetis- og ávaxtabökkum verzlana.  Í verzlun Hagkaupa á Eiðistorgi sé þessu þannig háttað, að aðalgönguleið verzlunarinnar liggi um ávaxta- og grænmetisdeild.  Hvort sem viðskiptavinir ætli að kaupa þessar vörur eða ekki, þurfi þeir að ganga í gegnum þessa deild, sem liggur við inngang verzlunarinnar.  Megi því ætla, að enn ríkari skylda hvíli á rekstararaðila til eftirlits og til að sjá til þess, að gólfi sé haldið hreinu á þessum stað.

   Eðli málsins samkvæmt geti það gerzt, að ávöxtur liggi á gólfi um stund, áður en starfsmaður verði þess var.  En það geti vart talizt eðlileg og ásættanleg niðurstaða, að viðskiptavinur beri áhættu af því tjóni, sem kunni að hljótast vegna þess.  Eðlilega beri rekstraraðili verzlunar, er laði til sín viðskiptavini, að tryggja öryggi viðskiptavina sinna og bera þannig áhættu af því tjóni, sem kunni að hljótast.  Til þess að lágmarka slíka áhættu, beri rekstraraðila að hreinsa burt aðskotahluti og bleytu af gólfi, líkt og vinnureglur stefnda beri með sér.  Það liggi hins vegar ljóst fyrir, að svo hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti, með þeim afleiðingum, að stefnandi hafi fallið um ávöxtinn og slasazt.  Eftirliti hafi verið ábótavant og það því haft í för með sér slysahættu fyrir þá, sem áttu þar leið um.  Slys stefnanda verði gagngert rakið til þessa aðgæzluleysis stefnda og beri því að viðurkenna bótaskyldu stefnda í málinu.

Stefnandi reisi kröfur sínar á meginreglum einkamálalaga nr. 91/1991 og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.  Kröfur um málskostnað séu reistar á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda

Upphaflega gerði stefndi kröfu um, að málinu yrði vísað frá dómi, en féll frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.

Stefndi byggir á því, að samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns.  Byggi stefndi á því, að ósannað sé, að meint tjón stefnanda verði rakið til þeirra atvika, sem stefnandi byggi á í stefnu.  Engin samtímagögn liggi fyrir um slys stefnanda, önnur en tjónstilkynning á dskj. nr. 3, þar sem segi, að stefnandi hafi runnið á ávexti á gólfinu.  Í máli þessu liggi ekkert fyrir um, að starfsmönnum stefnda hafi mátt vera kunnugt um, að daðla hefði fallið á gólfið á þessum stað í umrætt sinn.  Jafnframt liggi fyrir, að ekki sé óalgengt, að ávextir falli á gólf nálægt ávaxtaborði af völdum viðskiptavina, þar sem slíkar vörur séu seldar í lausasölu.  Liggi í augum uppi, að rekstraraðilum verzlana sé algerlega ómögulegt að búa svo um hnútana, að litlir ávextir, eins og döðlur, falli aldrei á gólfið.  Jafnframt sé verzlunarmönnum ógerlegt að viðhafa slíka aðgæzlu, að allt, sem falli á gólfið, sé samstundis hreinsað upp.  Vísist í þessu sambandi til niðurstöðu í Hæstaréttar í máli nr. 354/1996.

Stefndi byggi á því, að í máli þessu sé þannig ekkert, sem bendi til þess, að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér vanrækslu í umrætt sinn.  Ástæða hins meinta óhapps sé miklu frekar að rekja til aðgæzluleysis stefnanda sjálfrar og eða óhappatilviljunar.  Verði því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Loks byggi stefndi á því, að stefnandi hafi sýnt af sér fullkomið tómlæti vegna hinnar meintu bótakröfu sinnar á hendur stefnda.  Slysið hafi átt sér stað í nóvembermánuði 2005, en mál til viðurkenningar á bótaskyldu sé ekki höfðað fyrr en í lok árs 2009, þegar fjögur ár hafi verið liðin frá hinu meinta óhappi.  Ekkert sé fram komið, sem réttlæti þann mikla drátt af hálfu stefnanda.

Verði ekki fallizt á sýknukröfu stefnda, sé gerð varakrafa um, að félagið verði aðeins talið skaðabótaskylt að hluta vegna eigin sakar stefnanda.  Byggi stefndi á því, að stefnandi beri í öllu falli ábyrgð á stærstum hluta tjóns síns vegna eigin sakar í umrætt sinn.  Um röksemdir fyrir varakröfu vísist að öðru leyti til málsástæðna í aðalkröfu, eftir því sem við á.

Um lagarök vísi stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola og til reglna um sönnun og sönnunarbyrði.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi sem og Hermann Sigurðsson, fyrrum verzlunarstjóri hjá stefnda.

Stefndi byggir á því m.a., að ósannað sé, að tjón stefnanda verði rakið til þeirra atvika, sem hún byggir kröfur sínar á, þar sem engin samtímagögn liggi fyrir um slysið.

Stefnandi hefur lagt fram ljósrit af kvittun fyrir komu á slysa- og bráðasvið Landspítalans hinn 6. nóvember 2005.  Þá kemur fram í læknisvottorðum á dskj. nr. 7 og 11, að til séu læknabréf frá 6. nóvember 2005, en þangað hafi hún leitað strax eftir slysið.  Er málsástæðu þessari því hafnað.

Þá byggir stefndi á því, að um óhappatilvik hafi verið að ræða í umrætt sinn, og beri stefnda sjálf ábyrgð á tjóni sínu.

Eins og fyrirkomulagi er háttað í umræddri verzlun liggur leiðin inn í verzlunina um ávaxta- og grænmetisdeild hennar, og þurfa allir viðskiptavinir að fara þar í gegn, ætli þeir inn í verzlunina.  Mátti stefnandi gera ráð fyrir, að leiðin inn í verzlunina væri hættulaus og verður henni ekki virt það til eigin sakar, að hafa ekki haft augun á gólfinu, þegar hún gekk um ávaxtadeildina, en samkvæmt upplýsingum þáverandi verzlunarstjóra, sem kvaðst reyndar ekki hafa verið á vakt umrætt sinn, var ekki að finna neina aðvörun til viðskiptavina um, að gólfið gæti reynzt hált eða varasamt af völdum matvæla eða af öðrum orsökum.

Stefnda var hins vegar kunnugt um áhættuna af matvælum á gólfinu í umræddum hluta verzlunarinnar, en í greinargerð stefnda kemur fram, að algengt sé, að ávextir falli á gólf verzlunarinnar.  Bar honum því þegar af þeim sökum að hafa sérstaka aðgát með þeim hluta verzlunarinnar, þar sem búast mátti við ávöxtum, grænmeti eða öðrum matvælum á gólfi hennar, og verður stefndi að bera áhættuna af því, að slys kunni að verða af þeim sökum, að nægileg aðgát er ekki viðhöfð.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti þar sem um fjögur ár hafi liðið frá slysinu, þar til hún höfðaði mál þetta.

Í málinu liggja fyrir gögn, sem sýna, að lögmaður stefnanda var í sambandi við tryggingafélag stefnda, frá árunum 2007 og 2009, vegna bótakrafna stefnanda.  Er því þegar af þeim sökum ekki fallizt á tómlætismálsástæðu stefnda.

Samkvæmt framansögðu er fallizt á kröfur stefnanda.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 740.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

    Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Viðurkennt er, að stefndi ber skaðabótaábyrgð á líkamstjóni, sem stefnandi varð fyrir, er hún féll í verzlun stefnda við Eiðistorg þann 6. nóvember 2005.

Stefndi, Hagar hf., greiði stefnanda, Inge E.M. Löwner, kr. 740.000 í málskostnað.