Hæstiréttur íslands
Mál nr. 555/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Miðvikudaginn 19. október 2011. |
|
Nr. 555/2011.
|
Guðrún Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Guðmundur Hákon W. Guðnason (Erlendur Gíslason hrl.) gegn Guðrúnu Frímannsdóttur (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem GS og GH var gert að greiða GF málskostnað í máli hennar á hendur þeim, sem að öðru leyti var lokið með dómsátt. Hæstiréttur vísaði til þess að GF hefði eftir höfðun málsins fengið kröfu sinni framgengt að verulegu leyti. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur og þeim GS og GH gert að greiða GF kærumálskostnað.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2011, þar sem sóknaraðilum var gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað í máli hennar á hendur þeim sem að öðru leyti var lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál þetta 15. desember 2010 til heimtu eftirstöðva kaupverðs fasteignar sem hún seldi sóknaraðilum með kaupsamningi 2. september 2010. Krafðist varnaraðili þess að sóknaraðilum yrði gert að greiða sér 3.594.078 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2010 til greiðsludags. Þá krafðist hún málskostnaðar. Sóknaraðilar kröfðust sýknu auk málskostnaðar.
Samkvæmt kaupsamningi um eignina skyldi lokagreiðsla að fjárhæð 6.156.256 krónur innt af hendi einum mánuði eftir afhendingu fasteignarinnar. Samkvæmt gögnum málsins var fasteignin afhent 8. október 2010 og mánuði síðar greiddu sóknaraðilar 2.704.633 krónur inn á eftirstöðvar kaupverðsins en héldu eftir mismuninum þar sem þau töldu að fasteignin væri haldin galla. Studdust sóknaraðilar í því efni við kostnaðaráætlun sem þau höfðu aflað frá húsasmíðameistara. Með bréfi lögmanns varnaraðila til lögmanns sóknaraðila 16. nóvember 2010 var skorað á sóknaraðila að greiða eftirstöðvar kaupverðs en með bréfi 18. sama mánaðar var því hafnað á þeim forsendum að þau væru í fullum rétti að halda eftir eftirstöðvum kaupverðs vegna ætlaðs galla á þaki hússins.
Við meðferð málsins í héraði öfluðu sóknaraðilar matsgerðar dómkvadds manns um galla á fasteigninni, meðal annars á þaki, en kostnað af viðgerð þeirra taldi hann nema 1.362.000 krónum. Í kjölfar matsgerðarinnar greiddu sóknaraðilar varnaraðila 2.708.517 krónur. Við aðalmeðferð málsins lækkaði varnaraðili höfuðstól kröfu sinnar í 675.561 krónu en málinu var svo lokið með sátt þar sem niðurstaðan var sú að sóknaraðilar skyldu greiða varnaraðila 337.780 krónur gegn útgáfu afsals. Ágreiningur var því aðeins um málskostnað sem leyst var úr með hinum kærða úrskurði.
Í ljósi þess sem að framan greinir hefur varnaraðili eftir höfðun málsins fengið kröfu sinni framgengt að verulegu leyti og ber því að dæma sóknaraðila til að greiða henni málskostnað sem er hæfilega ákveðinn í hinn kærða úrskurði. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Guðrún Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Guðmundur Hákon W. Guðnason, greiði sameiginlega varnaraðila, Guðrúnu Frímannsdóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðrúnu Frímannsdóttur, Útgarði 7, Egilsstöðum gegn Guðrúnu Sigurbjörgu Guðmundsdóttur og Guðmundi Hákoni Guðnasyni, báðum til heimilis að Urðarvegi 54, Ísafirði, með stefnu birtri 15. desember 2010.
Dómkröfur stefnanda samkvæmt stefnu eru þær, að stefndu verði gert að greiða sér 3.594.078 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 15. nóvember 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
Hinn 29. apríl 2011 greiddu stefndu stefnanda 2.708.517 kr., en þá lá fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns. Í aðilaskýrslu fyrir dómi bauðst stefnandi til að taka á sig kostnað vegna viðgerðar í þvottahúsi (40.000 kr.) og tengingu hitalagnar í bílaplani (170.000 kr.) eða samtals 210.000 kr.
Endanleg krafa stefnanda er að stefndu greiði sér 675.561 kr. auk dráttarvaxta, sbr. stefnu svo og er krafist málskostnaðar.
Lögmenn hafa náð sátt í máli þessu að öðru leyti en því að óskað er úrskurðar um málskostnaðarkröfur þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, skal málskostnaður ákveðinn með úrskurði dómsins, þegar svo stendur á.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað. Þegar málið er virt í heild sinni, meðferð þess og umfang, er hæfilegt að stefndu greiði stefnanda 300.000 kr. í málskostnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Stefndu, Guðrún Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Guðmundur Hákon W. Guðnason, greiði stefnanda, Guðrúnu Frímannsdóttur, 300.000 kr.