Hæstiréttur íslands

Mál nr. 326/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Uppgjör
  • Endurupptaka bótaákvörðunar


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. mars 2009.

Nr. 326/2008.

Erling Viðar Sæmundsson

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

dánarbúi Ósvalds Gunnarssonar og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Uppgjör. Endurupptaka bótaákvörðunar.

E höfðaði mál vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir 8. október 1995. T hafði greitt honum skaðabætur 12. ágúst 1998 á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 30. júní 1998, þar sem varanlegur miski hans var metinn 25 stig og örorka 60%. Um lokauppgjör hafði verið að ræða og hafði greiðslan verið móttekin án fyrirvara af hálfu E. Frá árinu 2001 hafði E ítrekað leitað til lækna vegna vaxandi óþæginda og gengist undir ýmsar rannsóknir. Fékk hann nýtt álit örorkunefndar 10. janúar 2006, þar sem fram kom að engar breytingar hefðu orðið á heilsu hans sem ekki mátti búast við þegar fyrra matið fór fram. Í kjölfarið fékk E dómkvadda tvo matsmenn, sem hækkuðu varanlega örorku E úr 60% í 80%, en töldu varanlegan miska óbreyttan. Með matsbeiðninni var óskað heildarmats á varanlegum afleiðingum líkamstjóns þess sem E hlaut í slysinu, en ekki var óskað eftir mati á þeirri breytingu sem kynni að hafa orðið á varanlegum afleiðingum slyssins frá því fyrri álitsgerð örorkunefndar lá fyrir. Þá voru matsmenn ekki sérstaklega beðnir um að svara því hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á varanlegum miska hans eða örorku frá fyrra mati. Skilyrði fyrir endurupptöku ákvörðunar bóta fyrir líkamstjón eru að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og af því leiði að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Taldi Hæstiréttur að þar sem E hefði ekki sýnt fram á að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á varanlegum miska eða varanlegri örorku hans frá 30. júní 1998, sem rekja mætti til slyssins, voru D og T sýknaðir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2008. Hann krefst þess að stefndu greiði sér óskipt 7.828.328 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 8. október 1995 til 20. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast stefndu lækkunar á kröfu áfrýjanda og að hún beri 4,5% ársvexti frá 30. október 2002 til dómsuppsögudags, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og niðurfellingar málskostnaðar.

Áfrýjandi slasaðist alvarlega í umferðarslysi 8. október 1995. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiddi honum skaðabætur 12. ágúst 1998 á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 30. júní 1998, þar sem varanlegur miski hans var metinn 25 stig og varanleg örorka 60%. Um lokauppgjör var að ræða og var greiðslan móttekin án fyrirvara af hálfu áfrýjanda.

Um endurupptöku ákvörðunar bóta fyrir líkamstjón fer samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði slíkrar endurupptöku eru tvíþætt, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og af því leiði að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. 

Frá árinu 2001 hefur áfrýjandi ítrekað leitað til lækna vegna vaxandi óþæginda frá hálsi og baki, höfuðverkja og svefntruflana. Hefur hann gengist undir ýmsar rannsóknir og dvaldist á endurhæfingarmiðstöðinni að Reykjalundi í um fimm vikur vorið 2005. Áfrýjandi fékk nýtt álit örorkunefndar 10. janúar 2006. Niðurstaða nefndarinnar var að engar breytingar hefðu orðið á heilsu hans sem ekki mátti búast við þegar fyrra matið fór fram. Áfrýjandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og fékk dómkvadda tvo matsmenn. Í matsgerð þeirra segir að í matsbeiðni sé óskað svara við eftirfarandi spurningum: „1. Hver sé varanlegur miski af völdum slyssins sbr. 4. grein laga nr. 50/1993. 2. Hver sé varanleg örorka af völdum slyssins sbr. 5. gr. laga nr. 50/1993.“ Matsmenn taka fram að slitbreytingar í hálsi geti komið fram hjá öllum einstaklingum með aldrinum, en ekki sé útilokað að í tilviki áfrýjanda sé um ótímabærar slitbreytingar að ræða. Þeir taka fram að hann hafi fyrst kvartað verulega um óþægindi frá baki hausið 1997. Þau hafi þá verið rakin til þess áverka sem hann hlaut á vinstra fót, en ekki sé útilokað að hann hafi fengið mjóbakstognun í slysinu. Matsmenn hækkuðu varanlega örorku úr 60% í 80%, en töldu varanlegan miska óbreyttan. Eins og fram er komið var matsbeiðni háttað þannig að óskað var heildarmats á varanlegum afleiðingum líkamstjóns þess sem áfrýjandi hlaut í slysinu. Ekki var óskað eftir mati á þeirri breytingu sem kynni að hafa orðið á varanlegum afleiðingum slyssins frá því álitsgerð örorkunefndar 30. júní 1998 lá fyrir, svo sem rétt hefði verið. Þá voru matsmenn ekki sérstaklega beðnir um að svara því hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari áfrýjanda. Áfrýjandi hefur því ekki sýnt fram á að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á varanlegum miska eða varanlegri örorku hans frá 30. júní 1998, sem rekja megi til slyssins. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eins og aðstæðum er hér háttað þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 26. febrúar sl., er höfðað með stefnu, birtri 30. október 2006.

Stefnandi er Erling Viðar Sæmundsson, til heimilis að Skúfslæk, Flóahreppi, Árnessýslu.

Stefndu eru dánarbú Ósvalds Gunnarssonar, síðast til heimilis að Fannafold 46, Reykjavík og Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6, einnig í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 7.828.328 krónur, auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 8. október 1995 til 20. október 2006, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. s.l., af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð og málskostnaður þá felldur niður.

Málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi slasaðist í mjög hörðum árekstri á Suðurlandsvegi 8. október 1995. Var hann ökumaður bifreiðarinnar R-1218 og ók austur Suðurlandsveg. Bifreiðinni YJ-790, sem kom úr gagnstæðri átt, var ekið yfir á öfugan vegarhelming og framan á bifreið stefnanda. Ökumaður YJ-790, Ósvald Gunnarsson, lést í slysinu, en bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf., og er bótaskylda vegna slyssins óumdeild. Stefnandi var í kjölfar slyssins fluttur á slysadeild, þar sem hann gekkst undir aðgerð á fæti og gert var að öðrum áverkum hans.

Með álitsgerð örorkunefndar 30. júní 1998 var varanlegur miski stefnanda metinn 25% og varanleg örorka hans 60%. Með uppgjöri 12. ágúst 1998 voru stefnanda greiddar skaðabætur á grundvelli álitsgerðarinnar.

Í stefnu kemur fram að frá því að örorkumat fór fram hafi stefnandi lýst versnandi líðan, stirðleika og verkjum frá hálsi, auk höfuðverkja. Þá hái honum vaxandi slit í ristarlið og þurfi hann m.a. að nota sérsmíðaða skó. Vegna þessa hafi hann ákveðið að óska eftir endurupptöku á máli sínu hjá örorkunefnd og í því skyni aflað gagna frá þeim læknum sem hafi haft hann til meðferðar á undanförnum árum.

Örorkunefnd skilaði áliti sínu 10. janúar 2006, en stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., hafði í millitíðinni samþykkt að fresta fyrningu í málinu. Niðurstaða örorkunefndar var sú sama og fyrr, þ.e. að varanlegur miski stefnanda væri 25% og varanleg örorka 60%.

Stefnandi sætti sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar og óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta varanlegan miska og varanlega örorku sína vegna slyssins. Dómkvaddir voru Sigurður Á. Kristinsson bæklunarlæknir og Jörundur Gauksson héraðsdómslögmaður, og er matsgerð þeirra dagsett 13. október 2006. Mátu þeir varanlegan miska stefnanda til 25 stiga, en varanlega örorku 80%. Á grundvelli þessa óskaði stefnandi eftir því að stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., endurupptæki fyrri bótaákvörðun í máli hans. Með símbréfi 23. október 2006 var beiðninni hafnað með þeim rökum að ekki væru uppfyllt skilyrði um endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi getur ekki fallist á þá niðurstöðu tryggingafélagsins og er mál þetta sprottið af þeim ágreiningi.

Við aðalmeðferð gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum. Lýsti hann afleiðingum umferðarslyssins er hann varð fyrir 8. október 1995, svo og þeim breytingum sem hann taldi að orðið hefðu á heilsu sinni frá því að álitsgerð örorkunefndar lá fyrir á árinu 1998. Sagðist hann búa við nær stöðuga verki í hálsi og ætti af þeim sökum erfitt með svefn og að aka bíl. Í kjölfar verkja í hálsi kæmi oft höfuðverkur, sem orsakaði ljósfælni. Verstur væri höfuðverkurinn þegar hann æki bíl. Hann kvaðst einnig eiga erfitt með langar göngur vegna verkja frá vinstri rist, sem síðan leiddu upp í mjóbak.

Dómkvaddir matsmenn, Sigurður Á. Kristinsson læknir og Jörundur Gauksson héraðsdómslögmaður, komu einnig fyrir dóminn til skýrslugjafar og staðfestu matsgerð sína.

Spurður um niðurstöður matsgerðar tók Sigurður Á. Kristinsson fram að röntgenmyndir af  hálsliðum stefnanda hefðu í upphafi ekki sýnt neinar slitbreytingar, en síðar hafi slitbreytingar komið í ljós. Sé þar um breytingar að ræða frá árinu 1998. Hins vegar kvaðst vitnið ekki vera viss um að nokkur tengsl væru milli verkja í ofanverðum hálsi og slitbreytinga í neðanverðum hálshrygg. Spurður um aukin mjóbaksóþægindi stefnanda taldi vitnið að þau gætu stafað af rangri beitingu ganglima.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagði Jörundur Gauksson héraðsdómslögmaður að mat hans og Sigurðar á afleiðingum slyss stefnanda væri sjálfstætt mat, unnið út frá forsendum á matsdegi. Þótt niðurstöður matsgerðarinnar væru ekki þær sömu og í fyrri matsgerðum, fælist ekki í matsgerðinni endurskoðun á fyrri matsgerðum.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að ákvæði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi við í máli hans. Telur hann að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt og verði hið stefnda tryggingafélag að taka nýja ákvörðun um bætur vegna varanlegrar örorku, enda hafi ófyrirsjáanlegar breytingar orðið á heilsu hans. Einnig liggi fyrir að örorkustig hans sé verulega hærra vegna afleiðinga slyssins en miðað hafi verið við þegar uppgjör á tjóni stefnanda fór fram á sínum tíma. Meðal gagna málsins séu læknisvottorð og matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem staðfesti að breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá þeim tíma er bótauppgjör fór fram á grundvelli álits örorkunefndar á árinu 1998. Í þeim gögnum komi fram að afleiðingar slyssins hafi orðið verulega meiri en ráð var fyrir gert. Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna byggi á ítarlegri skoðun matsmanna á gögnum málsins, viðtali við stefnanda og mati á þeim áhrifum sem slysið hafi haft fyrir hann. Matsgerðin sé einnig ítarlegri og betur rökstudd en álitsgerð örorkunefndar, og beri því að hafa hana til hliðsjónar við mat á því hvaða afleiðingar slysið hafi haft fyrir heilsu og starfsorku stefnanda. Liggi þannig fyrir að einkenni stefnanda og tjón sé meira en gengið hafi verið út frá í áliti örorkunefndar. Bendir stefnandi á að hann hafi m.a. þurft að gangast undir áframhaldandi meðferð og endurhæfingu á undanförnum árum, síðast á árinu 2005. Að dómi stefnanda séu það einkum fjögur atriði, sem staðfesti að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans frá því álit örorkunefndar lá fyrir á árinu 1998, auknir verkir, slitbreytingar á hálsliðum, tognun á mjóbaki og kæfisvefn.

Stefnandi telur að sú 20% hækkun á varanlegri örorku hans, sem dómkvaddir matsmenn hafi metið, nú 80% í stað 60% áður, sé veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga, hvort sem horft sé til hækkunar í prósentustigum eða til þeirrar bótafjárhæðar sem stefnandi eigi tilkall til vegna tjóns síns. Því beri tryggingafélaginu að taka málið til endurskoðunar og greiða honum bætur fyrir það viðbótartjón sem hann hafi orðið fyrir vegna slyssins.

Kröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:

Bætur vegna varanlegrar örorku (4.941.726,- x 7,5 x 80%)

kr. 29.650.356,-

Frádráttur vegna aldurs 8%          

(kr.  2.372.028,-)

Áður greitt frá TM 12. ágúst 1998

(kr. 19.450.000,-)  

Samtals

kr. 7.828.328,-

 

auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og málskostnaðar, þ.m.t. útlagðs kostnaðar vegna læknisvottorða, matsgerðar örorkunefndar og matsgerðar dómkvaddra matsmanna, samtals 478.270 krónur.

Við útreikning á bótum miðar stefnandi við tekjur sínar síðustu 12 mánuði fyrir slys og eru þær tilgreindar í stefnu. Tekjuviðmið til örorkuútreiknings er 4.941.726 krónur. 

Um útreikning bótakröfu vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdegi. Um heimild til endurupptöku er sérstaklega vísað til 11. gr. skaðabótalaga og almennra reglna fjármunaréttarins, en um bótarétt og aðild málsins vísar hann til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sérstaklega 1. mgr. 97. gr. þeirra laga. Krafa um dráttarvexti er reist á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður stefndu og lagarök

Stefndu byggja aðallega á því að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku fyrri bótaákvörðunar séu ekki fyrir hendi. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola, þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður hafi verið talið. Þessum skilyrðum sé ekki fullnægt. Þvert á móti sé það afdráttarlaus niðurstaða örorkunefndar í áliti nefndarinnar frá 10. janúar 2006 að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi ekki orðið á heilsu stefnanda frá því fyrra mat var framkvæmt. Komi sú afstaða örorkunefndar fram í forsendum álitsgerðarinnar, þar sem segi m.a.: „Í gögnum málsins kemur fram að tjónþoli hefur verið vel rannsakaður og ekkert hefur greinst við segulómun eða nýrri rannsóknir á hálsi, baki eða rist, sem ekki var reiknað með í álitsgerðinni, sem dagsett er 30. júní 1998. Breyting á kvörtunum tjónþola og niðurstöður skoðunar hafa ekki orðið aðrar en þær, sem við mátti búast, þegar afleiðingar slyssins 8. október 1995 voru metnar 30. júní 1998.“

Þrátt fyrir niðurstöðu dómkvaddra matsmanna í matsgerð þeirra frá 13. október 2006, um að varanlegur miski stefnanda sé 25 stig og varanleg örorka hans 80%, benda stefndu á að matsmenn hafi ekki tekið afstöðu til þess álitaefnis hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því sem áður hafi verið talið, enda hafi ekki verið óskað eftir slíku mati í matsbeiðni. Með öllu sé því ósannað að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því afleiðingar slyssins voru fyrst metnar. Slíkt sé þó forsenda endurupptöku bótaákvörðunar samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga. Og jafnvel þótt litið yrði framhjá því að dómkvaddir matsmenn hafi ekki tekið sérstaka afstöðu til þess hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda, telja stefndu að slík niðurstaða verði heldur ekki lesin úr niðurstöðum matsgerðarinnar. Þannig sé varanlegur miski stefnanda, þ.e. hinar læknisfræðilegu afleiðingar slyssins, metinn nákvæmlega hinn sami og í tveimur álitsgerðum örorkunefndar. Sjúkdómseinkenni af völdum slyssins séu með öðrum orðum óbreytt, eða a.m.k. svo lítið breytt að mat á varanlegum miska sé hið sama. Telja stefndu nærtækara að álykta að engar, hvorki fyrirsjáanlegar né ófyrirsjáanlegar, breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því afleiðingar slyssins voru fyrst metnar.

Til frekari stuðnings málsástæðu sinni vísa stefndu til greinargerðar með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum nr. 50/1993, en í skýringum við 11. gr. segi m.a.: „Svo sem fyrr segir er skilyrði fyrir endurupptöku eftir frumvarpinu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola. Ekki er því heimilt að beita ákvæði þessu þótt örorkustig reynist hærra en áður var gert ráð fyrir ef ástæða þess er ekki breytingar á heilsu tjónþola.“ Í fyrirliggjandi matsgerð dómkvaddra matsmanna sé örorkustig stefnanda metið 80%, í stað 60% áður, en varanlegur miski sé hinn sami. Telja stefndu að hækkun á varanlegri örorku megi rekja til annarra atvika en breytinga á heilsu stefnanda. Því veiti 11. gr. skaðabótalaga honum ekki heimild til endurupptöku.

Til stuðnings varakröfu sinni, um lækkun bóta, byggja stefndu á því að stefnandi hafi þegar fengið greiddar bætur vegna 60% örorku, og því beri eingöngu að reikna út varanlega örorku miðað við þau 20% sem metin séu sem viðbótarörorka í matsgerð dómkvaddra matsmanna, þannig:

4.941.726 x 7,5 x 92% x 20% = 6.819.581.

Stefndu mótmæla þannig þeirri aðferð sem stefnandi noti við útreikning kröfu sinnar, þ.e. að reikna út heildarbætur vegna 80% varanlegrar örorku, og draga síðan frá þær bætur sem greiddar hafi verið við uppgjör. Þá mótmæla þeir kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Áfallna vexti, eldri en fjögurra ára, telja stefndu fyrnda samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Um lagarök vísa stefndu að öðru leyti til laga nr. 50/1993. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Í álitsgerð örorkunefndar frá 30. júní 1998 kemur fram að tjónþoli, stefnandi í máli þessu, hafi í umræddu slysi hlotið hálstognun, svo og brot á ristarbeinum og liðhlaup í ristarliðum. Röntgenrannsóknir sýndu engin áverkamerki á hálshrygg, en tekið var fram að tjónþoli væri með viðvarandi einkenni frá hálsi, sem ykjust við álag og í kuldum. Þá sé hann einnig með minnkað stöðuþol í vinstri fæti og vegna misbeitingar ganglima hafi hann fundið til bakóþæginda. Taldi örorkunefnd ólíklegt að tjónþoli ætti afturkvæmt til fyrri starfa sinna, sem vélstjóri til sjós. Niðurstaða nefndarinnar var sú að varanlegur miski stefnanda var metinn 25% og varanleg örorka hans 60%. Á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar greiddi stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., stefnanda skaðabætur 12. ágúst 1998. Í tjónskvittun kemur fram að um lokauppgjör sé að ræða og að fjárhæðin sé lokagreiðsla vegna tjónsins. Kvittunin er árituð af lögmanni stefnanda um móttöku greiðslunnar.

Stefnandi heldur því fram að einkenni frá hálsi og baki hafi aukist eftir að álit örorkunefndar lá fyrir, og lýsi þau sér sem stirðleiki og miklir verkir, en einnig sem höfuðverkir. Eigi hann því erfitt með svefn og hafi jafnframt verið greindur með kæfisvefn. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi gekkst undir röntgenrannsóknir á hálslið á árunum 2001 og 2004 og var á sama tíma til meðferðar og eftirlits hjá Ragnari Jónssyni bæklunarskurðlækni. Þá liggur fyrir að á árinu 2005 var stefnandi til meðferðar á endurhæfingarmiðstöðinni að Reykjalundi.

Síðla árs 2005 óskuðu stefnandi og hið stefnda vátryggingafélag eftir því að örorkunefnd endurupptæki mál stefnanda vegna afleiðinga slyssins. Örorkunefnd skilaði áliti sínu 10. janúar 2006. Kemur þar fram að við skoðun hafi tjónþoli skertan hreyfiferil í hálshrygg og talsverð eymsli. Hann hafi líka óþægindi, verki og eymsli neðst í mjóhrygg, svo og skertar hreyfingar í vinstri fæti vegna brots á ristarbeinum og liðhlaups í vinstri rist og endurtekinna aðgerða vegna þess. Þá segir þar að ekkert hafi greinst við segulómun eða nýrri rannsóknir á hálsi, baki eða rist, sem ekki var reiknað með í fyrri álistgerð nefndarinnar, og að breytingar á kvörtunum tjónþola og niðurstöður skoðunar hafi ekki orðið aðrar en þær sem við mátti búast, þegar afleiðingar slyssins voru metnar 30. júní 1998. Niðurstaða örorkunefndar um mat á varanlegum miska og örorku stefnanda var því hin sama og fyrr, 25% varanlegur miski og 60% varanleg örorka.

Eins og áður er lýst, sætti stefnandi sig ekki við álit örorkunefndar og fór þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til þess að meta varanlegan miska og örorku eftir umrætt slys. Dómkvaddir matsmenn skiluðu matsgerð 13. október 2006 og var niðurstaða þeirra sú að varanlegur miski stefnanda var metinn til 25 stiga, en varanlega örorka hans 80%. Í forsendum matsgerðar segja hinir dómkvöddu matsmenn m.a. svo um mat á varanlegri örorku stefnanda: „Starfsorka tjónþola er einnig skert til allra léttra ófaglærðra starfa og matsmenn telja útilokað að hann geti unnið annað en hluta úr degi en yfirvinna og álagsstörf með öllu útilokuð. Matsmenn telja að þegar tjónþoli lendir í slysinu 32 ára gamall hafi hann notið starfsöryggis eins og best verður með fastráðningu og menntun hans nýttist honum að fullu. Þegar það er borið saman við störf sem hann gæti mögulega unnið nú og í framtíðinni, telja matsmenn að um verulega varanlega tekjuskerðingu verði að ræða og telja að varanleg örorka sé hæfilega metin 80%.“

Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er skilyrði til endurupptöku bótaákvörðunar að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola, þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Í ákvæðinu felst að bæði skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi, þ.e. að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola, og ætla megi að þær breytingar hafi valdið verulegri hækkun á miska- eða örorkustigi tjónþola. Af greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að skaðabótalögum nr. 50/1993 er jafnframt ljóst, að ekki er heimilt að beita ákvæðinu þótt örorkustig reynist hærra en áður var gert ráð fyrir, ef ástæða þess er ekki breytingar á heilsu tjónþola. Fyrr er þess getið að hinir dómkvöddu matsmenn töldu varanlega örorku stefnanda 80%, en áður hafði varanlega örorka hans verið metin til 60%. Hins vegar mátu dómkvaddir matsmenn varanlegan miska stefnanda hinn sama og örorkunefnd hafði áður talið, eða 25%.

Við ákvörðun varanlegs miska er litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola, sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Af áðurnefndri matsgerð dómkvaddra matsmanna verður ekki ráðið að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá álitsgerð örorkunefndar í júní 1998, a.m.k. ekki í þeim mæli að hafi áhrif á mat á miskastigi. Einu breytingarnar sem getið er um í matsgerðinni eru slitbreytingar á hálsliðum stefnanda, en um þær segir svo í matsgerðinni: „Slitbreytingar geta komið hjá öllum einstaklingum með vaxandi aldri en ekki er hægt að útiloka að hér sé um ótímabærar slitbreytingar að ræða.“ Sérstaklega spurður um þær breytingar kvaðst annar dómkvaddra matsmanna, Sigurður Á. Kristinsson læknir, þó ekki vera viss um að nokkur tengsl væru milli verkja í ofanverðum hálsi stefnanda og slitbreytinga í neðanverðum hálshrygg.

Stefnandi hefur sjálfur haldið því fram að hinar ófyrirsjáanlegu breytingar sem orðið hafi á heilsu hans frá árinu 1998 lýsi sér einkum í auknum verkjum, slitbreytingum á hálsliðum, tognun á mjóbaki og kæfisvefni. Einkenna þessara er getið, bæði í álitsgerð örorkunefndar frá 10. janúar 2006 og matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 13. október 2006, án þess að þau hafi haft áhrif til hækkunar á varanlegum miska hans. Af því verður sú ályktun aðeins dregin að ekki sé um ófyrirsjáanlegar breytingar að ræða á heilsufari stefnanda frá álitsgerð örorkunefndar 30. júní 1998. Samrýmist það og mati hinna sérfróðu meðdómsmanna á gögnum málsins. Samkvæmt því eru ekki fyrir hendi skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku á fyrri bótaákvörðun í máli stefnanda. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Dóminn kváðu upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari, sem dómsformaður, og meðdómsmennirnir Björn Pétur Sigurðsson og Yngvi Ólafsson, bæklunarskurðlæknar.

Dómsorð:

Stefndu, dánarbú Ósvalds Gunnarssonar og Tryggingamiðstöðin hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda í máli þessu, Erlings Viðars Sæmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.