Hæstiréttur íslands

Mál nr. 208/2008


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Fasteignakaup
  • Húsaleiga
  • Afnotaréttur
  • Viðskeyting
  • Auðgunarkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. mars 2009.

Nr. 208/2008.

Óskar Helgi Jacobsen og

Arnar Helgi Óskarsson

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

gegn

Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf.

Gifsmúr ehf. og

Oddi Theódóri Guðnasyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

og gagnsök

 

Kaupsamningur. Fasteignakaup. Húsaleiga. Afnotaréttur. Viðskeyting. Auðgunarkrafa. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

 

Málsaðilar deildu um hvort kaupsamningur hefði stofnast vorið 2004 milli Ó og A sem kaupenda og G sem seljanda um fasteignina Lónsbraut 6. E fékk eigninni afsalað 16. júní 2005. Atvik voru þau að Ó tók að sér að annast viðgerðir á bifreið fyrir fyrirtækið F. D, einn fyrirsvarsmanna F, afhenti Ó lykla að fasteigninni Lónsbraut 6, sem var í eigu G og D hafði afnotarétt að. Nýtti Ó húsnæðið í framhaldinu til viðgerða. Óumdeilt var að Ó og D sömdu um að Ó myndi greiða G 800.000 krónur, og innti A greiðsluna af hendi 30. júní 2004. Aðilar deildu um hvort sú greiðsla hefði verið innborgun á kaupverð fasteignarinnar, eins og A og Ó héldu fram, eða greiðsla fyrir afnot húsnæðisins, eins og G, E og O héldu fram. A og Ó byrjuðu að stækka milliloft sem var í fastegininni og innréttuðu þar litla íbúð. Umtalsverðir fjármunir fóru í þessa viðskeytingu en óumdeilt var að ekki hefði verið aflað leyfis byggingaryfirvalda fyrir henni. Talið var ósannað að náðst hefði samkomulag um kaupverðið. Ó og A gerðu ekki skriflegt tilboð í fasteignina, þrátt fyrir ábendingar fyrirsvarsmanna G. Var ósannað að komist hefði á kaupsamningur milli aðila vorið 2004, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 40/2002, og var héraðsdómur því staðfestur um sýknu G af kröfu Ó og A, um að viðurkennt yrði að kaupsamningur hefði stofnast um fasteignina. Jafnframt var hafnað kröfu þeirra um að G yrði dæmdur til að gefa út afsal fyrir fasteigninni gegn greiðslu á 6.000.000 krónum eða hærri fjárhæð. Í samræmi við framangreinda niðurstöðu var einnig hafnað kröfu A og Ó um greiðslu skaðabóta vegna afnotamissis, vegna þess að lokað var fyrir rafmagn til fasteignarinnar og þeir hefðu orðið fyrir tjóni sökum þess, þar sem krafan var reist á þeirri forsendu að Ó og A hefðu verið rétt komnir að umráðum fasteignarinnar. Til vara kröfðust Ó og A greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar þeirra af fyrrnefndri viðskeytingu á eigninni. Ekki var talið að Ó og A hefðu leitt sönnur að því að O hefði með gáleysislegu framferði sínu, sem stjórnamaður bæði í G og E, valdið þeim tjóni við að viðskeytingin hefði tapast hjá þeim. Þá var síðast nefnda krafan á hendur E einnig reist á því að um sé að ræða kröfu um endurgreiðslu óréttmætrar auðgunar. Ekki var talið unnt að dæma þá kröfu þar sem matið er lagt var fram um verðmæti viðskeytingarinnar var ekki reist á þeim forsendum að leyfi byggingaryfirvalda lá ekki fyrir til viðskeytingarinnar og beiðni um það yrði líklega hafnað samkvæmt framburði byggingarfulltrúa fyrir dómi. E gerði í gagnstefnu í héraði kröfu um greiðslu húsaleigu fyrir fasteignina vegna fyrstu tíu mánaða ársins 2005. E gerði kröfu um húsaleigu vegna fyrstu 10 mánuði ársins 2005 og lagði fram matsgerð kröfu sinni til stuðnings. Þótt í matsbeiðninni hafði, samkvæmt þeim skýringum sem hafðar voru þar eftir matsbeiðandi, verið óskað eftir mati á því hvað væri hæfilegt leigugjald fyrir eignina, eftir að búið væri að loka fyrir rafmagn til hennar, varð ekki ráðið af niðurstöðu matsmanns að álit hans á hæfilegri húsaleigu hefði verið miðað við þessar forsendur. Varð því ekki dæmt um kröfu um húslegu á svo óljósum forsendum. Niðurstaða héraðsdóms um að A og Ó skyldu rýma fasteignina og að hafnað yrði kröfu G, E og O um að það skyldi gert að viðlögðum dagsetum var staðfest.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 28. febrúar 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. apríl það ár. Með heimild í 4. gr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjuðu þeir héraðsdómi öðru sinni 17. apríl 2008. Þeir krefjast þess aðallega að viðurkennt verði að kaupsamningur um fasteignina Lónsbraut 6, Hafnarfirði, eignarhluti merktur 01-0124, hafi tekist vorið 2004 á milli aðaláfrýjenda og gagnáfrýjanda Gifsmúrs ehf. Jafnframt krefjast þeir ógildingar á afsali gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. 16. júní 2005 á fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði til gagnáfrýjandans Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. og ennfremur að gagnáfrýjandanum Gifsmúr ehf. verði gert að gefa út afsal til handa aðaláfrýjendum fyrir téðri fasteign, gegn greiðslu aðallega á 6.000.000 krónum, en til vara hærri fjárhæð, sem gangi fyrst til greiðslu á áhvílandi veðskuldum á fasteigninni að viðlögðum dagsektum 50.000 krónum fyrir hvern dag frá þeim degi er aðaláfrýjendur bjóða fram greiðsluna. Þá krefjast þeir þess að gagnáfrýjendum, Gifsmúr ehf. og Oddi Theódóri Guðnasyni, verði gert að greiða aðaláfrýjendum 373.500 krónur í skaðabætur vegna afnotamissis.

Til vara krefjast aðaláfrýjendur þess að gagnáfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða aðaláfrýjendum 2.432.065 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi í héraði, 14. september 2005, til greiðsludags. Þá er þess krafist að hinum áfrýjaða dómi verði breytt á þá leið að aðaláfrýjendur verði sýknaðir af öllum kröfum gagnáfrýjenda í gagnsök í héraði. Loks er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 27. júní 2008. Þeir krefjast staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem þeir krefjast óskipt úr hendi aðaláfrýjenda. Þá krefst gagnáfrýjandinn Gifsmúr ehf. sýknu af kröfu aðaláfrýjenda um að félagið verði dæmt til að greiða þeim 2.432.065 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá uppsögu héraðsdóms til greiðsludags. Til vara er þess krafist að þessi kröfuliður verði lækkaður. Þá krefjast gagnáfrýjendur málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsaðila greinir á um hvort stofnast hafi kaupsamningur milli aðaláfrýjenda og gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. um fasteignina að Lónsbraut 6, Hafnarfirði. Miðar krafa aðaláfrýjenda við að þetta hafi gerst vorið 2004. Atvik voru þau að annar aðaláfrýjenda, Óskar Helgi, tók að sér að annast viðgerðir á bifreið sem fyrirtækið Flotgólf ehf. hafði keypt af þáverandi vinnuveitanda hans. Flotgólf ehf. átti hluta fjöleignarhúss sem Lónsbraut 6 tilheyrir, en gagnáfrýjandinn Gifsmúr ehf. átti síðast nefnda fasteign, sem var við hliðina á eignarhluta Flotgólfs ehf. Davíð Egill Guðmundsson, einn fyrirsvarsmanna Flotgólfs ehf., sem einnig er fyrirsvarsmaður gagnáfrýjandans Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf., hafði undir höndum lykla að Lónsbraut 6 og sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hefði haft afnotarétt að húsnæðinu. Varð að samkomulagi að Davíð Egill afhenti aðaláfrýjandanum Óskari Helga lyklana og nýtti hann húsnæðið í framhaldinu til viðgerða. Óumdeilt er að talast hafi svo til með aðaláfrýjandanum Óskari Helga og Davíð Agli að sá fyrrnefndi greiddi gagnáfrýjandanum Gifsmúr ehf. 800.000 krónur og innti hinn aðaláfrýjandinn, Arnar Helgi, greiðsluna af hendi 30. júní 2004. Aðilar deila um hvort sú greiðsla var innborgun á kaupverð fasteignarinnar, eins og aðaláfrýjendur halda fram, eða greiðsla fyrir afnot húsnæðisins, eins og gagnáfrýjendur halda fram. Fyrir liggur að aðaláfrýjendur leituðu eftir kaupum á eigninni og gagnáfrýjandinn Gifsmúr ehf. virðist hafa haft áhuga á að selja. Aðilar gengu út frá því í samskiptum sínum að téð greiðsla yrði talin innborgun á kaupverð, ef til kaupa kæmi. Aðaláfrýjendur hófust handa um að stækka milliloft sem var í fasteigninni og innréttuðu þar einnig litla íbúð. Lögðu þeir umtalsverða fjármuni í viðskeytingu þessa. Óumdeilt er að ekki var aflað leyfis byggingaryfirvalda til hennar.

II

Þótt lítið hafi borið á milli um kaupverð og aðra skilmála kaupa í viðræðum aðila er ósannað að náðst hafi samkomulag um kaupverðið. Aðaláfrýjendur gerðu ekki skriflegt tilboð í fasteignina, þrátt fyrir ábendingar gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. og fyrirsvarsmanns félagsins, gagnáfrýjandans Odds Theódórs. Er ósannað að komist hafi á kaupsamningur með aðaláfrýjendum og gagnáfrýjandanum Gifsmúr ehf. vorið 2004, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Verður héraðsdómur því  staðfestur um sýknu gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. af kröfu aðaláfrýjenda um að viðurkennt verði að stofnast hafi kaupsamningur um fasteignina. Af þeirri niðurstöðu leiðir að hafnað verður kröfu aðaláfrýjenda um ógildingu með dómi á afsali gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. 16. júní 2005 til gagnáfrýjandans Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. Af henni leiðir einnig að hafnað verður aðal- og varakröfum aðaláfrýjenda um að gagnáfrýjandinn Gifsmúr ehf. verði dæmdur til að gefa út afsal fyrir fasteigninni til aðaláfrýjenda gegn greiðslu á 6.000.000 krónum eða hærri fjárhæð, svo sem varakrafa miðar við, svo og kröfu um dagsektir.

Krafa aðaláfrýjenda um skaðabætur 373.500 krónur úr hendi gagnáfrýjendanna Gifsmúrs ehf. og Odds Theódórs vegna afnotamissis er reist á því að kostir aðaláfrýjenda til að hagnýta sér fasteignina, sem þeir höfðu í vörslum sínum, hefði takmarkast er þessir gagnáfrýjendur létu loka fyrir rafmagn til hennar. Hafi aðaláfrýjendur orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Krafan er reist á þeirri forsendu að aðaláfrýjendur hafi verið rétt komnir að umráðum fasteignarinnar og segir í héraðsstefnu að krafan taki til tímabilsins frá því að lokað var fyrir rafmagnið en lok tímabilsins eru ekki tilgreind. Í samræmi við framangreinda niðurstöðu um að hafna kröfu um viðurkenningu á því að kaupsamningur hafi stofnast um fasteignina verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu þessara gagnáfrýjenda af þessum kröfulið staðfest.

Aðaláfrýjendur krefjast til vara greiðslu á 2.432.065 krónum úr hendi gagnáfrýjenda. Rökstyðja þeir kröfuna svo að um sé að ræða skaðabótakröfu vegna kostnaðar þeirra af fyrrnefndri viðskeytingu á eigninni. Ef fallist yrði á kröfur gagnáfrýjenda yrðu aðaláfrýjendur sviptir þessari eign sinni. Fæli sú ráðstöfun í sér bæði tjón fyrir þá og auðgun fyrir gagnáfrýjandann Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf. Aðaláfrýjendur halda því fram að gagnáfrýjendur beri sameiginlega ábyrgð á þessu tjóni þeirra. Um fjárhæð kröfunnar vísa þeir til matsgerðar dómkvadds manns sem taldi að kostnaður aðaláfrýjenda við efni og vinnu til að stækka milliloft og útbúa litla íbúð þar hefði numið þessari fjárhæð. Skaðabótakrafan er reist á því að gagnáfrýjandinn Oddur Theódór hafi með gáleysislegu framferði sínu, sem stjórnarmaður bæði í gagnáfrýjendunum Gifsmúr ehf. og Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf. valdið aðaláfrýjendum tjóni við að viðskeytingin tapist þeim. Er skaðabótakrafan á hendur gagnáfrýjandanum Gifsmúr ehf. reist á sömu sjónarmiðum. Krafan á hendur gagnáfrýjandanum Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf. er sögð reist á meginreglum bæði skaðabótaréttar og eignaréttar. Aðaláfrýjendur hafa ekki leitt sönnur að því að gagnáfrýjendur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við samningsumleitanir þeirra eða afnot aðaláfrýjenda af fasteigninni. Verða gagnáfrýjendur því sýknaðir af skaðabótakröfu aðaláfrýjenda.

Af málatilbúnaði aðaláfrýjenda verður ráðið að þeir reisi síðast nefnda kröfu á hendur gagnáfrýjandanum Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf. öðrum þræði á því að um sé að ræða kröfu um endurgreiðslu óréttmætrar auðgunar, sem félagið hafi notið við að fá fasteigninni afsalað án þess að greiða neitt fyrir viðskeytinguna. Í beiðni um dómkvaðningu matsmanns leituðu aðaláfrýjendur svara við þeirri spurningu hvert væri ,,markaðslegt verðmæti þeirrar viðskeytingar sem felst m.a. í stækkun millilofts og innréttingu lítillar íbúðar í rýminu ef fasteignin væri seld?“ Skyldi matið miðað við tvær dagsetningar, meðal annars 16. júní 2005, er eigninni var afsalað þessum gagnáfrýjanda. Í matsgerð kemur fram það álit matsmanns að markaðsverð fasteignarinnar þennan dag hafi verið 9.100.000 krónur. Þá segir: ,,Ef viðbótar milliloftið er tekið með gerir þetta kr. 10.100.000.“ Af þessu má ráða að matsmaðurinn telur að markaðsvirði viðskeytingarinnar á þessum degi sé 1.000.000 krónur. Eins og fram er komið er óumdeilt að ekki var aflað leyfis byggingaryfirvalda í Hafnarfirði til þessara breytinga á millilofti fasteignarinnar. Aðilar deila um hvort unnt sé að fá slíkt leyfi ef um það yrði sótt. Í skýrslu starfsmanns byggingarfulltrúa í Hafnarfirði fyrir héraðsdómi kom fram að svæðið sem um ræðir sé skilgreint sem atvinnusvæði og að búseta sé þar ekki heimil. Hann fullyrti jafnframt að umsókn um slíkt leyfi yrði hafnað. Engu að síður kunna að felast verðmæti í viðskeytingunni. Um það liggur þó ekkert fyrir í málinu, enda matsgerð reist á öðrum forsendum. Er því ekki unnt að dæma um kröfuna á réttum grundvelli og verður henni því vísað frá héraðsdómi.

III

Gagnáfrýjandinn Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf. gerði í gagnstefnu í héraði kröfu um 1.245.000 krónur í húsaleigu fyrir fasteignina vegna fyrstu tíu mánaða ársins 2005 eða 124.500 krónur á mánuði. Krafan er, að því leyti sem hún tekur til húsaleigu fyrir tímann fram til 16. júní 2005, þegar félagið fékk eigninni afsalað, reist á framsali gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. ,,frá og með 1. janúar að telja“. Í matsbeiðni var óskað mats á því hvert væri ,,eðlilegt leigugjald fyrir rýmið á mánuði frá byrjun júní 2005 til dagsins í dag?“ Matsmaður tiltekur í matsgerð sinni að lögmaður matsbeiðanda hafi skýrt þennan matslið svo að miðað sé við tímann þegar rafmagnið var tekið af fasteigninni. Í matsgerðinni segir um þennan matslið: ,,Samkvæmt upplýsingum sem matsmaður hefur aflað sér var eðlilegt leiguverð fyrir þetta húsnæði kr. 80.000 á mánuði í júní 2005 og er í dag kr. 90.000 eða meðalverð yfir tímabilið kr. 85.000.“ Taldi matsmaðurinn til samræmis við þetta að eðlilegt leigugjald fyrir tímabilið 1. júní 2005 til 30. september 2006 væri 1.360.000 krónur (85.000 x 16). Hvorki í kröfugerð gangáfrýjenda í héraði né í málatilbúnaði þeirra ella er getið um kröfu um húsaleigu vegna ársins 2004 og er því ekki um það dæmt í héraðsdómi. Héraðsdómur dæmdi aðaláfrýjendur til að greiða gagnáfrýjandanum Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf. 850.000 krónur í húsaleigu fyrir tíu fyrstu mánuði ársins 2005. Fyrir Hæstarétti lagði gagnáfrýjandi fram skjal með breytingu á kröfugerð um húsaleigu. Þar er krafist 630.000 króna í húsaleigu auk dráttarvaxta í stað þeirra 850.000 króna sem héraðsdómur dæmdi. Er breyting þessi skýrð svo í skjalinu: ,,Matsmaður metur hæfilega húsaleigu af Lónsbraut 6 Hafnarfirði kr. 85.000 á mánuði frá 1.6.2004 að telja. Áfrýjendur greiddu kr. 800.000 í júní 2004 sem er til greiðslu á húsaleigu í 9 mánuði eða 1. júní 2004 til febrúar loka 2005 og kr. 35.000 upp í húsaleigu fyrir mars mánuð 2005. Þá er ógreitt fyrir mars 2005 kr. 50.000 og síðan bætast við kr. 85.000 um hver mánaðamót.“ Breyting þessi felur í sér verulega röskun á grundvelli þessa kröfuliðar eins og hann var lagður í héraði. Í hinni breyttu kröfu felst að sú nýja málsástæða er höfð uppi fyrir Hæstarétti að nota megi innborgun aðaláfrýjenda 800.000 krónur 30. júní 2004 sem innborgun á húsaleigu fyrir það tímabil sem tilgreint er að framan. Þá hafa gagnáfrýjendur ekki skýrt hvort gagnáfrýjandinn Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf. fer með þessa kröfu og þá hvernig félagið sé að henni komið, en aðaláfrýjandinn Arnar Helgi greiddi fjárhæðina inn á reikning gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. sem innborgun á væntanleg kaup á fasteigninni. Þessi breyting fer í bága við 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður ekki á henni byggt fyrir Hæstarétti. Dómur héraðsdóms er reistur á niðurstöðu matsmanns um hæfilegt leigugjald. Þótt í matsbeiðni hafi, samkvæmt þeim skýringum sem hafðar eru þar eftir matsbeiðanda, verið óskað eftir mati á því hvað væri hæfilegt leigugjald fyrir eignina, eftir að búið væri að loka fyrir rafmagn til hennar, verður ekki ráðið af niðurstöðu matsmanns að álit hans á hæfilegri húsaleigu hafi verið miðað við þessar forsendur. Lokað var fyrir rafmagnið í byrjun júní 2005. Ljóst má vera að það skiptir sköpum um möguleika til hagnýtingar atvinnuhúsnæðis hvort lokað hefur verið fyrir aðgang að rafmagni eða ekki. Verður ekki dæmt um kröfu um húsaleigu á svo óljósum forsendum, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem slíkir annmarkar eru á málatilbúnaði um þennan kröfulið verður honum vísað frá héraðsdómi.

Niðurstaða héraðsdóms um að aðaláfrýjendur skuli rýma fasteignina og um að hafna kröfu gagnáfrýjenda um að það skuli gert að viðlögðum dagsektum verður staðfest með vísan til forsendna dómsins.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verða aðaláfrýjendur dæmdir óskipt til að greiða gagnáfrýjendum upp í málskostnað þeirra fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um sýknu gagnáfrýjenda Gifsmúrs ehf., Odds Theódórs Guðnasonar og Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. af kröfu aðaláfrýjenda Óskars Helga Jacobsen og Arnars Helga Óskarssonar um viðurkenningu á að kaupsamningur hafi stofnast milli þeirra og gagnáfrýjandans Gifsmúrs ehf. um fasteignina Lónsbraut 6, Hafnarfirði skal vera óraskað.

Gagnáfrýjendur Gifsmúr ehf. og Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf. eru sýknaðir af kröfu aðaláfrýjenda um að ógilt verði með dómi afsal 16. júní 2005 fyrir fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði.

Gagnáfrýjandinn Gifsmúr ehf. er sýknaður af kröfu aðaláfrýjenda um að gefa út afsal til þeirra fyrir fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði gegn greiðslu á 6.000.000 krónum eða hærri fjárhæð að viðlögðum dagsektum.

Gagnáfrýjendur Gifsmúr ehf. og Oddur Theódór Guðnason eru sýknaðir af kröfu aðaláfrýjenda um skaðabætur vegna missis afnota af Lónsbraut 6, Hafnarfirði.

Gagnáfrýjendur eru sýknaðir af kröfu aðaláfrýjenda um skaðabætur vegna kostnaðar við viðskeytingu á fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði.

Kröfu aðaláfrýjenda á hendur gagnáfrýjandanum Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf. um endurgreiðslu óréttmætrar auðgunar vegna viðskeytingar á fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði er vísað frá héraðsdómi.

Kröfu gagnáfrýjandans Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. á hendur aðaláfrýjendum um húsaleigu er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um skyldu aðaláfrýjenda til að rýma fasteignina Lónsbraut 6, Hafnarfirði skal vera óraskað.

Aðaláfrýjendur greiði óskipt gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti 150.000 krónur hverjum.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember síðastliðinn, var höfðað 14. september 2005. Núverandi dómari fékk málið til meðferðar  4. október sl.

Stefnendur og gagnstefndu eru Óskar Helgi Jacobsen, Lónsbraut 6, Hafnarfirði, og Arnar Helgi Óskarsson, Ásbraut 17, Kópavogi.

Stefndu eru Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf., Miðhrauni 15, Garðabæ, sem einnig er gagnstefnandi, Oddur Theódór Guðnason og Gifsmúr ehf., báðir síðasttöldu til heimilis að Sveighúsum 9, Reykjavík.

Í stefnu gera stefnendur þær dómkröfur aðallega að viðurkennt verði að kaupsamningur um fasteignina Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-0124, hafi tekist um vorið 2004 á milli stefnenda og Gifsmúrs ehf., að afsal stefnda Gifsmúrs ehf., dags. 16. júní 2005, á fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-0124 til handa Eignarhaldsfélaginu Á.D ehf, verði ógilt með dómi, að stefnda Gifsmúr ehf. verði gert með dómi að gefa út afsal til handa stefnendum fyrir fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-0124, gegn greiðslu á kr. 6.000.000 af hálfu stefnenda sem gengi fyrst til greiðslu á áhvílandi veðskuldum á fasteigninni að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 50.000 hvern dag frá þeim degi sem greiðslan er boðin fram af hálfu stefnenda. Þá gera stefndu þær kröfur að Gifsmúr ehf. og Oddi verði gert að greiða stefnendum kr. 373.500 í skaðabætur vegna afnotamissis.

Til vara, verði ekki fallist á útgáfu afsals skv. ofangreindu, er þess krafist að stefnda Gifsmúr ehf. verði gert með dómi að gefa út afsal til handa stefnendum fyrir fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-0124, gegn greiðslu á hærri fjárhæð að mati dómsins, þó þannig að greiðslur verði nýttar til að greiða upp áhvílandi veðskuldir á eigninni áður en þær gangi til stefnda Gifsmúrs ehf. að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 50.000 hvern dag frá þeim degi sem greiðslan er boðin fram af hálfu stefnenda.

Til þrautavara, verði ekki fallist á aðal- og varakröfu stefnenda, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnendum in solidum kr. 2.432.065 ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingardegi.

Stefndu gerðu kröfu um frávísun á hluta krafna stefnenda og var þeirri kröfu hafnað með úrskurði þann 5. nóvember 2007. Að öðru leyti krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar.

Með framlagningu stefnu í dómi þann 19. október 2005 höfðaði Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf. gagnsök á hendur stefnendum í aðalsök.

Dómkröfur gagnstefnanda, Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf., eru:

Að gagnstefndu verði með dómi eða úrskurði gert að rýma húsnæðið að Lónsbraut 6 Hafnarfirði 010124 ásamt öllu sem þeim tilheyrir og bornir út úr húsnæðinu frá uppkvaðningu dóms að viðlögðum dagsektum kr. 25.000 á dag.

Að gagnstefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda kr. 1.245.000 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 124.500 frá 1.2.2005 til 1.3.2005, af kr. 249.000 frá þeim degi til 1.4.2005, af kr. 373.500 frá þeimdegi til 1.5.2005. af kr. 498.000 frá þeim degi til 1.6.2005, af kr. 622.500 frá þeim degi til 1.7.2005, af kr. 747.000 frá þeim degi til 1.7.2005, af kr. 871.500 frá þeim degi til 1.8.2005, af kr. 996.000 frá þeim degi til 1.9.2005, af kr. 1.120.500 frá þeim degi til 1.10.2005 og af kr. 1.245.000 frá þeim degi til greiðsludags.

Við munnlegan flutning málsins var höfð upp sú varakrafa að því er varðar fjárkröfuna að gagnstefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda kr. 850.000 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 85.000 frá 1.2.2005 til 1.3.2005, af kr. 170.000 frá þeim degi til 1.4.2005, af kr. 255.000 frá þeimdegi til 1.5.2005. af kr. 340.000 frá þeim degi til 1.6.2005, af kr. 425.000 frá þeim degi til 1.7.2005, af kr. 510.000 frá þeim degi til 1.7.2005, af kr. 595.000 frá þeim degi til 1.8.2005, af kr. 680.000 frá þeim degi til 1.9.2005, af kr. 765.000 frá þeim degi til 1.10.2005 og af kr. 850.000 frá þeim degi til greiðsludags

Þá er gerð krafa um málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur gagnstefndu eru þær aðallega að þeir krefjast sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda í málinu en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega og að sýknað verði af kröfu um dagsektir. Þá krefjast þeir þess að gagnstefnandi, Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf., verði dæmt til að greiða gagnstefndu málskostnað að mati réttarins.

Málavextir:

Stefnandi kveður málavexti vera þá að vorið 2004 hafi stefnandi Óskar unnið fyrir stefnda Gifsmúr ehf. og hafi vinnan farið fram fyrir utan fasteignina Lónsbraut 6, Hafnarfirði. Komið hafi til tals að fasteign sú sem hér er deilt um væri í eigu stefnanda Gifsmúrs og væri til sölu fyrir 6.600.000 krónur. Hafi orðið úr að stefndi Gifsmúr ehf. hafi tekið tilboði stefnenda í eignina miðað við ofangreint uppsett verð. Greitt hafi verið inn á kaupverðið 800.000 krónur þann 30. júní 2004, en gert hafi verið ráð fyrir að greitt yrði fyrir eignina aðallega með yfirtöku eða uppgreiðslu lána, en útborgun væri í kringum 900.000-1.000.000 krónur. Hafi stefnendur fengið eignina afhenta um svipað leyti og greiðslan var innt af hendi. Stefnendur hafi strax eftir afhendingu hafið að endurbæta eignina og auka verðmæti hennar, meðal annars hafi þeir stækkað milliloft og innréttað litla íbúð í því rými.

Frá því ofangreind greiðsla hafi farið fram og fram í október-nóvember 2004 hafi stefnandi Óskar gengið eftir því við stefnda Odd að gengið yrði frá kaupunum með formlegum hætti, en án árangurs.

Stefndi Oddur hafi í desember 2004 vísað stefnanda Óskari á fasteignasöluna FMH í Hafnarfirði sem ætti að ganga frá kaupsamningi. Stefnandi hafi haft samband við fasteignasöluna, sem hafi staðfest að stefndi Óskar hefði falið henni að ganga frá kaupsamningi, en að enn skorti upplýsingar af hálfu seljanda svo hægt væri að boða til kaupsamnings. Hálfum mánuði síðar hafi stefnandi Óskar fengið þær upplýsingar að ekki hefði náðst í stefnda Odd til að ganga frá málinu og leituðu stefnendur þá til lögmanns í því skyni að knýja fram kaupsamningsgerð vegna eignarinnar.

13. janúar 2005 hafi lögmaður stefnenda skrifað lögmanni stefnda Gifsmúrs ehf bréf og leitað eftir því að kaupsamningur yrði gerður. Lögmaður stefnda Gifsmúrs ehf hafi staðfest í svari við því bréfi að samkomulag hefði tekist um kaupin, en ágreiningur virtist hafa verið um verð auk nokkurra framkvæmdaatriða. Stefnendur hafi með bréfi dags. 20. janúar 2005 komið til móts við sjónarmið stefnda Gifsmúrs ehf og enn leitast eftir því að kaupsamningur yrði gerður. Með bréfi dags. 23. janúar hafi lögmaður stefnenda enn leitað eftir því að gerður yrði skriflegur kaupsamningur en jafnframt sent yfirlýsingu frá KB-banka um fjármögnum. Lögmenn aðila hafi auk þessa skipst á tölvubréfum og þeim samskiptum lokið 9. júní  2005.

Í byrjun júní hafi stefndi Gifsmúr ehf fyrir tilstilli stefnda Odds tekið rafmagn af eignarhlutanum og komið því þannig fyrir að stefnendur gátu ekki opnað fyrir rafmagnið. Stefnendur hafi því ekki getað nýtt eignina sem skyldi frá þeim tíma.

Með afsali 16. júní 2005 hafi stefndi Gifsmúr ehf, selt Eignarhaldsfélaginu ÁD ehf fasteign þá er félagið hafi áður selt stefnendum. Um sé að ræða skyld félög eins og fram komi í framlögðum vottorðum frá Hlutafélagaskrá. Stefndi Gifsmúr ehf. hafi á þessum tíma hvorki rift samingi sínum við stefnendur né krafið þá um efndir samkvæmt hinum munnlega kaupsamningi. Eignarhaldsfélagið ÁD ehf hafi með greiðsluáskorun dags. 21. júlí 2005 krafið stefnendur um leigu frá 30. júní 2004. Greiðsluáskoruninni hafi verið mótmælt með tveimur bréfum lögmanns stefnenda dags. 29. júlí 2005.

Í greinargerð stefndu í málinu kemur fram að þeir telji málavexti ekki rétta eins og þeim sé lýst í stefnu. Þeir telja upphaf málsins hafa verið að Óskar Helgi Jacobsen hafi í samtali við Davíð Guðmundsson falast eftir húsnæðinu að Lónsbraut 16 í Hafnarfirði, til leigu eða, ef hann gæti, til kaups. Hafi honum verið bent á að setja sig í samband við fasteignasöluna FMH í Hafnarfirði og gera formlegt tilboð sem stjórn Gifsmúrs ehf. gæti tekið afstöðu til. Hugmyndir hafi verið uppi um að söluverð yrði 6.800.000 krónur, um yfirtöku lána og um virðisaukaskattskvöð á eigninni. Lánveitendur hefðu ekki samþykkt stefnendur sem lántaka og ekki hafi komið staðfesting varðandi virðisaukaskattskvöðina. Hafi hugmyndir um kaup því verið úr sögunni. Stefnendur hafi síðan verið í samskiptum við Davíð Guðmundsson, sem ekki hafi haft umboð til bindandi ráðstafana á eigninni. Leiguráðstöfun hafi komið til greina, enda hafi þegar á þessum tíma verið búið að ákveða að hætta rekstri Gifsmúrs ehf sem ekki hafi haft neinn atvinnurekstur með höndum frá apríl 2004 og selt allar eignir sínar.

Það hafi svo gerst sumarið 2004 að stefnandi Arnar Helgi Óskarsson hafi greitt kr. 800.000 til húseigenda og hafi haft leiguafnot af húsnæðinu, þó að ekki hafi verið undirritaður formlegur leigusamningur.

Enginn heildarsamningur sem kalla megi samþykkt kauptilboð hafi tekist á milli aðila og ekki heldur bindandi kaupsamningur; til þess hafi allt of mörg grundvallaratriði samningaréttar verið óleyst eða ekki verið samið um.

Málsástæður og lagarök stefnenda í aðalsök

Málsástæður sem stefnendur byggja á eru að bindandi kaupsamningur hafi tekist á milli stefnda Gifsmúrs ehf og stefnenda vorið 2004. Stefnendur hafi efnt kaupsamninginn að miklu leyti. Þá er byggt á því að ekki hafi tekist að ljúka formlegri kaupsamningsgerð vegna atvika er varða stefnda Gifsmúr ehf. Þeir byggja á því að kaupsamningurinn hafi þrátt fyrir þetta fullt gildi, en honum hafi ekki verið rift af hálfu stefnda Gifsmúrs ehf.

Krafa stefnenda um bætur vegna afnotamissis sé tilkomin vegna lokunar stefnda Gifsmúrs ehf fyrir rafmagn á eignarhlutanum og með því hafi stefndi Gifsmúr ehf. og stefndi Oddur valdið stefnendum tjóni þar sem ekki hafi verið unnt að nýta eignina. Fjárhæð sé miðuð við leigugjald sem stefnda Fasteignafélagið Á.D. ehf telji hæfilegt.

Varakrafa um útgáfu afsals geri ráð fyrir því að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að kaupsamningur hafi komist á en að hann sé annars efnis en stefnendur gera ráð fyrir eða að stefnendum beri að greiða meira en 6.800.000 krónur fyrir eignina.

Þrautavarakröfu um greiðslu á 2.432.065 krónum byggja stefnendur á mati dómkvadds matsmanns og almennum reglum skaðabótaréttar og eignaréttar. Þeir byggja á því að viðskeyting sú sem þeir hafi byggt við eignina hafi kostað þá þessa fjárhæð samkvæmt matsgerð sem liggur fyrir í málinu og að hún sé jafnframt þess virði fyrir seljanda og kaupanda eignarinnar.

Krafa stefnenda á hendur stefnda Oddi er á því byggð að hann hafi með gáleysislegu framferði sem stjórnarmaður í hinum stefndu félögum valdið stefnendum tjóni með því að varanleg viðskeyting við fasteignina hafi tapast fyrir stefnendur. Krafa á hendur stefnda Gifsmúr ehf byggist á sömu sjónarmiðum.

Að því er varðar kröfu á hendur stefnda Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf er á því byggt að félagið hafi eignast viðskeytingu stefnenda án þess að greiða fyrir hana og beri félaginu að greiða stefnendum fullt verð fyrir viðskeytinguna.

Stefnendur vísa máli sínu til stuðnings til almennra reglna samninga-, kröfu-, eignar- og skaðabótaréttar og til reglna laga um fasteignakaup nr. 40/2002.

Málsástæður og lagarök stefndu í aðalsök

Stefndu byggja á því að enginn heildarsamningur sem kalla megi samþykkt kauptilboð hafi tekist á milli aðila og ekki heldur bindandi kaupsamningur; til þess séu of mörg grundvallaratriði óleyst eða ekki um þau samið. Eigi það við um heildarverð, staðfestingu á yfirtöku virðisaukaskattskvaðar og yfirtöku áhvílandi láns. Stefndi Gifsmúr ehf hafi neyðst til að greiða allan rekstrarkostnað húsnæðisins, þar á meðal hita og rafmagn, án þess að nokkuð af þessu væri greitt af stefnendum og hafi Gifsmúr ehf orðið að láta loka fyrir rafmagn til þess að losna við frekari útgjöld og kostnað.

Það liggi fyrir að enginn kaupsamningur hafi komist á með aðilum þessa máls um umrædda fasteign að Lónsbraut 6. Það eina sem liggi fyrir sé að ein peningagreiðsla hafi verið innt af hendi og hún tengist leigu á húsnæðinu og hugsanlegum kaupum. Stefnandi hafi fengið að fara inn í húseignina, en öll efnisatriði séu óleyst eða ósamið um þau.

Stefndi Eignarhaldsfélagið Á.D ehf hafi keypt umrædda fasteign og fari með umráð hennar án nokkurra kvaða gagnvart stefnendum. Félagið hafi verið grandlaust um viðskipti Gifsmúrs ehf við stefnendur og verði engin meint réttindastofnun við fyrri eiganda lögð á félagið með bindandi hætti. Hins vegar hafi stefndi Eignarhaldsfélagið Á.D ehf keypt eignina með öllu réttindum og skyldum og fengið framsal á eldri leiguskuld stefnanda vegna eignarinnar og hafi krafið stefnendur um greiðslu leiguskuldar og í framhaldi af því tilkynnt um riftun leigusamnings.

Málsástæður og lagarök stefnanda í gagnsök

Gagnstefnandi byggir kröfu sína í gagnsök á því að eftir að Arnar Helgi Óskarsson hafi greitt 800.000 krónur til húseiganda hafi hann haft húsnæðið í höndum sem leigutaki, þrátt fyrir að aldrei hafi verið undirritaður formlegur leigusamningur og verði að meta samskipti aðila eftir það sem hugmyndir um hugsanleg kaup sem aldrei varð úr. Þar sem gagnstefnandi hafi ekki haft upplýsingar um annað en að Arnar Helgi væri leigutaki hafi honum verið send greiðsluáskorun og hún birt honum af stefnuvotti með kröfu um greiðslu húsaleiguskuldar, 818.500 krónur, auk dráttarvaxta, 56.013 krónur, og innheimtukostnaðar, 78.900 krónur, samtals 953.413 krónur með áskorun um greiðslu innan 7 sólarhringa að viðlagðri riftun. Af hálfu gagnstefnanda hafi greiðsluáskorun verið mótmælt á þeim grundvelli að ekki hefði verið leigusamningur og að gagnstefndi væri eigandi eignarinnar að eigin áliti. Gagnstefnandi vísar til greinargerðar stefndu í aðalsök varðandi staðhæfingar gagnstefndu um eignarrétt þeirra á eigninni.

Leigugreiðslukrafa er byggð á greiðslu húsaleigu, 124.500 krónum á mánuði frá 1. janúar 2005, en í málflutningi við aðalmeðferð málsins kom fram af hálfu gagnstefnanda að hann gæti til vara sætt sig við lægri leigufjárhæð eða kr. 85.000 á mánuði eins og fram komi í matsgerð.

Gagnstefnandi vísar til meginreglna kröfu- og samningaréttar og eignar- og skaðabótaréttar. Vísað er í lög um fasteignakaup nr. 38/2001 og til húsaleigulaga og aðfararlaga um rétt til útburðar úr eigninni.

Málsástæður og lagarök stefndu í gagnsök

Gagnstefndu vísa að mestu leyti í það sem fram hefur komið í aðalsök. Þeir hafi keypt fasteignina að Lónsbraut 6 af stefnda í aðalsök, Gifsmúr ehf, og því er harðlega mótmælt að leigusamningur hafi verið í gildi á milli aðila og að greiðsla á 800.000 krónum hafi verið leigugreiðsla, enda komi skýrt fram á greiðsluseðli að um sé að ræða greiðslu vegna kaupa á eigninni. Tekið hafi verið athugasemdalaust við greiðslunni og kaupsamningi, sem glögglega komi fram í gögnum málsins að hafi tekist á milli aðila, hafi hvorki verið rift né skorað á gagnstefndu að greiða kaupverðið að viðlagðri riftun.

Gagnstefndu mótmæla málavaxtalýsingu gagnstefnanda sem rangri og ósannaðri. Byggt er á því að gagnstefnandi verði að sanna tilvist leigusamnings enda sé fullyrðing um leigusamning í beinni andstöðu við gögn málsins. Verði að sýkna af kröfu um leigugjald ef ekki verði sýnt fram á leigusamning. Þar sem enginn leigusamningur sé fyrir hendi séu kröfur um útburð merkingarlausar og beri að sýkna af þeim.

Gagnstefndu vísa til almennra reglna kröfu-, samninga-, fasteignakaupa- og skaðabótaréttar máli sínu til stuðnings auk skráðra lagareglna á þessum réttarsviðum. Þeir vísa að öðru leyti til málavaxta, málsástæðna og lagaraka í stefnu í aðalsök og byggja í gagnsök einnig á þeim sjónarmiðum er þar koma fram.

Niðurstaða

Það liggur fyrir að nokkrar viðræður áttu sér stað á milli aðila um möguleg kaup stefnenda á fasteigninni Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-0124, og af gögnum málsins og framburðum aðila og vitna fyrir dómi má ráða að á einhverju stigi málsins hafi menn litið svo á að samkomulag hafi verið með aðilum um að kaupin færu fram. Hins vegar liggur fyrir að aldrei var gerður formlegur kaupsamningur um eignina og ekki virðist heldur hafa verið lagt fram formlegt kauptilboð af hálfu stefnenda.  Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 er samningur um kaup á fasteign bindandi þegar skriflegt tilboð hefur verið samþykkt af móttakanda þess með undirskrift, enda felist í því skuldbinding um greiðslu kaupverðs og afhendingu fasteignar. Að þessu virtu verður að líta svo á að ekki hafi komist á bindandi samningur á milli aðila. Verður því að hafna þeim hluta aðalkröfu stefnenda í aðalsök að viðurkennt verði að kominn hafi verið á kaupsamningur á milli aðila um fasteignina Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-0124. Þegar af þeirri ástæðu verða stefndu sýknuð af kröfum stefnenda um að afsal á milli Gifsmúrs ehf og Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf verði ógilt með dómi og að Gifsmúr ehf verði gert með dómi að gefa út afsal til handa stefnendum fyrir umrædda fasteign gegn greiðslu á 6.000.000 krónum. Af þessu leiðir einnig að hafna verður varakröfu aðalstefnenda um útgáfu afsals til þeirra gegn hærri greiðslu að mati dómsins.

Að því er varðar kröfu stefnenda um greiðslu skaðabóta vegna afnotamissis, þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að þeir hafi sýnt nægilega fram á tjón sitt og verða stefndu sýknaðir af henni.

Þrautavarakrafa stefnenda lýtur að bótum til þeirra vegna kostnaðar sem þeir lögðu í með því að byggja við fasteignina og auka þannig verðmæti hennar, á meðan þeir töldu að þeir væru að eignast hana. Eins og fram hefur komið liggur fyrir í málinu mat dómkvadds matsamanns á verðmæti þeirrar viðskeytingar og hefur því mati ekki verið hnekkt. Verður því hið stefnda félag, Gifsmúr ehf, dæmt til að greiða stefnendum kr. 2.432.065 með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur að miða upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögu. Ekki verður séð að stefndi Oddur geti persónulega borið hér skaðabótaábyrgð, og verður hann sýknaður af þessari kröfu.

Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefndu verði dæmdir til að greiða honum 1.245.000 krónur, en til vara 850.000 krónur, í húsaleigu vegna 10 mánaða á árinu 2005 með dráttarvöxtum. Þar sem óumdeilt er í málinu að gagnstefndu höfðu afnot umrædds húsnæðis og í ljósi þeirrar niðurstöðu málsins að kaupsamningur hafi ekki komist á, verður að líta svo á að gagnstefnendum beri að greiða fyrir afnotin. Í matsgerð sem liggur frammi í málinu kemur fram að 85.000 krónur sé hæfileg mánaðarleiga fyrir umrætt húsnæði og verður fallist á varakröfu gagnstefnanda um greiðslu á 850.000 krónum vegna húsaleigu með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Þá er þess krafist í gagnstefnu að gagnstefndu verði með dómi eða úrskurði gert að rýma húsnæðið að Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-124 að viðlögðum dagsektum 25.000 krónum á dag. Í ljósi þeirrar niðurstöðu í aðalsök að kaupsamningur hafi ekki komist á  og þess að gagnstefnandi hefur sent gagnstefndu greiðsluáskorun og yfirlýsingu um riftun leigusambands aðila í framhaldi af henni, verður að fallast á það að gagnstefndu eigi ekki rétt til afnota húsnæðisins og megi því fallast á kröfu um að þeir rými húsnæðið. Ekki verður séð að krafa gagnstefnanda um dagsektir eigi lagastoð eða stoð í samningi á milli aðila og verða gagnstefndu því sýknaðir af þeirri kröfu.

Rétt þykir að virtri þessari niðurstöðu málsins og atvikum þess öllum að hver aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum og verður málskostnaður felldur niður.

Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari, sem fékk málið til meðferðar 4. október 2007, kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndu Oddur Theódór Guðnason  og Eignarhaldsfélagið Á.D. ehf eru sýknaðir af öllum kröfum stefnenda Óskars Helga Jacobsen og Arnars Helga Óskarssonar.

Stefndi Gifsmúr ehf greiði stefnendum Óskari Helga Jacobsen og Arnari Helga Óskarssyni. 2.432.065 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Gagnstefndu, Óskar Helgi Jacobsen og Arnar Helgi Óskarsson greiði Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf 850.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 85.000 frá 1.2.2005 til 1.3.2005, af kr. 170.000 frá þeim degi til 1.4.2005, af kr. 255.000 frá þeim degi til 1.5.2005. af kr. 340.000 frá þeim degi til 1.6.2005, af kr. 425.000 frá þeim degi til 1.7.2005, af kr. 510.000 frá þeim degi til 1.7.2005, af kr. 595.000 frá þeim degi til 1.8.2005, af kr. 680.000 frá þeim degi til 1.9.2005, af kr. 765.000 frá þeim degi til 1.10.2005 og af kr. 850.000 frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnstefndu Arnari og Óskari er gert að rýma húsnæðið að Lónsbraut 6, Hafnarfirði, 01-124.

Málskostnaður fellur niður.