Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2009
Lykilorð
- Félagsdómur
- Dómstóll
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Mánudaginn 21. desember 2009. |
|
Nr. 147/2009. |
Félag íslenskra náttúrufræðinga(Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Félagsdómur. Dómstólar. Frávísun máls frá héraðsdómi.
F krafðist viðurkenningar á því að þeir félagsmenn hans, sem störfuðu á L og unnu með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, ættu rétt á eins launaflokks hækkunar samkvæmt gildandi stofnanasamningi aðila og fylgiskjala með honum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tækju þau lög til dómsmála, sem hvorki sættu sérstakri meðferð eftir ákvæðum annarra laga né ættu undir sérdómstóla lögum samkvæmt. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna ætti ágreiningur um skilning á kjarasamningi eða gildi hans undir Félagsdóm. Málið varðaði skýringu á stofnanasamningi, sem samkvæmt 1. gr. hans væri hluti kjarasamningsins, sbr. 11. kafla kjarasamningsins, og umrædd fylgiskjöl í málinu væru hluti af stofnanasamningnum. Að þessu virtu þótti ágreiningsefnið heyra undir valdsvið Félagsdóms og var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. mars 2009. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi að þeir félagsmenn áfrýjanda, sem starfa á veirudeild á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, taka laun samkvæmt gildandi kjarasamningi félagsins við stefnda og vinna með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þar með talið krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), eigi rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulagi milli áfrýjanda og Landspítala - háskólasjúkrahúss 25. júlí 2001. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að viðurkenningarkrafa áfrýjanda verið takmörkuð við tímamark eftir 22. febrúar 2004 og að málskostnaður falli niður.
Á grundvelli kjarasamning sem að stofni til er frá 2001 gerðu áfrýjandi og Landspítali - háskólasjúkrahús svonefndan stofnanasamning 25. júlí 2001. Honum fylgja tvö skjöl, nefnd fylgiskjöl 1 og 2, sem eru hluti hans. Ágreiningur aðila snýr að því hvort samningurinn beri með sér samkvæmt orðanna hljóðan, að endanlega hafi verið samið um launaflokka tiltekins hóps starfsmanna á veirudeild spítalans eða hvort, meðal annars með vísan til fylgiskjals 2 og minnisblaðs sem dagsett er sama dag og stofnanasamningurinn, að þessir starfsmenn eigi rétt til eins launaflokks til viðbótar því sem tilgreint er á fylgiskjali 1. Í stofnanasamningnum er vísað til beggja fylgiskjalanna um „þá starfshætti sem metnir hafa verið“, en á milli fylgiskjalanna er hins vegar visst ósamræmi. Deila aðilar um þýðingu þessa og um það hvort önnur ákvæði stofnanasamningsins merki að mati á starfsþáttum til launaröðunar hafi ekki verið að fullu lokið. Ágreiningsefnið var lagt fyrir samstarfsnefnd í samræmi við 5. gr. stofnanasamningsins og 11. kafla kjarasamningsins, en þar fékkst ekki niðurstaða. Málavöxtum og málsástæðum aðila er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála taka þau lög til dómsmála, sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir ákvæðum annarra laga né eiga undir sérdómstóla lögum samkvæmt. Félagsdómur er annar tveggja sérdómstóla ríkisins, sbr. 3. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna heyrir ágreiningur um skilning á kjarasamningi eða gildi hans undir valdsvið Félagsdóms. Deilumál þetta varðar skýringu á stofnanasamningi, sem samkvæmt 1. gr. hans er hluti kjarasamnings, sbr. og 11. kafla kjarasamningsins. Greind fylgiskjöl eru hluti stofnanasamningsins. Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að skýra þessi skjöl og þýðingu annarra gagna sem tengjast gerðs stofnanasamningsins.
Áfrýjandi gerir viðurkenningarkröfu með vísan til framangreindra samninga. Eins og ágreiningsefnið er lagt fyrir dóminn þykir það samkvæmt framansögðu heyra undir valdsvið Félagsdóms, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 og verður því að vísa máli þessu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður fellur niður á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. nóvember sl., var höfðað 22. febrúar sl. af Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Borgartúni 6, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að þeir félagsmenn stefnanda, sem starfa á veirudeild á Landspítalaháskólasjúkrahúsi, taka laun samkvæmt gildandi kjarasamningi félagsins við stefnda og vinna með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), eigi rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulagi milli stefnanda og Landspítalaháskólasjúkrahúss 25. júlí 2001. Einnig er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að viðurkenningarkrafa stefnanda verði takmörkuð við tímamark eftir 22. febrúar 2004 og að málskostnaður verði felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi og Landspítali-háskólasjúkrahús gerðu samkomulag 25. júlí 2001, svonefndan stofnanasamning, um forsendur starfsröðunar hjá sjúkrahúsinu samkvæmt ákvæðum kjarasamnings málsaðila. Af hálfu stefnanda er vísað til gildandi kjarasamnings sem sé að stofni til frá 2001 með gildistíma frá 1. júlí það ár til 30. nóvember 2004. Kjarasamningurinn hafi verið framlengdur með ýmsum breytingum með samkomulagi aðila 18. mars 2005 og gildi til 30. apríl 2008. Stefnandi hefur lagt fram samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningnum frá 28. júní sl. en samkvæmt því var gildandi kjarasamningur framlengdur frá 1. júní sl. til 31. mars 2009.
Í samkomulaginu frá 2001 segir að grunnröðun starfa/starfsmanna í launaramma og launaflokka sé í fyrsta lagi gerð á grundvelli skilgreininga á römmum A, B og C í kjarasamningi, í öðru lagi á grundvelli reglna um röðun eins og þær eru skilgreindar í samningnum og fylgiskjölum 1 og 2 og í þriðja lagi á grundvelli breytinga og viðbóta sem kunni að verða ákveðnar í samstarfsnefnd. Störfum er lýst í samkomulaginu og tilgreind starfsheiti og grunnröðun. Í fylgiskjali 1, sem vísað er til í stofnanasamningnum, sést í töflum hvernig grunnur er ákveðinn í A, B og C-ramma. Þar segir að mat á lágmarksröðun starfa náttúrufræðinga á Landspítala-háskólasjúkrahúsi byggist á sundurliðun starfsþátta sem fram komi í töflunum. Lagðar væru til grundvallar grunnskilgreiningar launaramma A, B og C og þeir starfsþættir sem tilteknir væru í fylgiskjali 2. Í því fylgiskjali er tilteknir þættir flokkaðir í 0, 1 og 2. Ákvæðið, sem hér skiptir máli og stefnandi vísar sérstaklega til í fylgiskjali 2, fjallar um sérstaka áhættu þar sem 0 stig er veitt þegar ekki er unnið með smit- og/eða eiturefni að staðaldri, 1 stig þegar unnið er að staðaldri með blóðsýni og almenn ræktunarsýni og unnið með lífræn leysiefni og/eða ofnæmisvaldandi efni (skaðleg) en 2 stig þegar unnið er að auki með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg).
Af hálfu stefnanda er því lýst að fjórir félagsmenn, sem starfað hafi á veirudeild Landspítalaháskólasjúkrahúss, hafi hver fyrir sig sent yfirlækni deildarinnar bréf í júlí 2002 og óskað eftir launahækkun með vísan til fylgiskjals 2 með stofnanasamningi stefnanda og spítalans. Yfirlæknirinn hafi framsent þessi erindi til skrifstofu starfsmannamála á spítalanum. Með bréfi til yfirlæknisins 11. október 2002 hafi erindum allra þessara starfsmanna verið hafnað og yfirlækninum falið að gera þeim grein fyrir þeirri afstöðu. Höfnunin hafi verið rökstudd með því að við grunnröðun starfsmannanna hafi verið tekið tillit til þessara þátta, þ.e. vinnu með eiturefni o.fl., þannig að þeir ættu ekki að fá viðbótarflokk út á það sama.
Starfsmennirnir fjórir hafi óskað eftir því með bréfi 30. október s.á. að samstarfsnefnd aðila, sem starfi á grundvelli kjarasamningsins, tæki þetta mál til skoðunar. Í erindi þeirra komi fram að þeir hafi fengið einn launaflokk metinn á grundvelli fylgiskjals 2, en af einhverjum ástæðum fáist stofnunin ekki til að veita þeim seinni launaflokkinn sem þeir telji sig eiga tilkall til vegna þess að þeir vinni að staðaldri með efni sem lýsingin í hinu tilvitnaða ákvæði eigi beint við. Erindið hafi verið tekið fyrir á fundum samstarfsnefndarinnar 14. og 29. nóvember s.á. Afstaða fulltrúa stofnunarinnar hafi verið hin sama og tilkynnt var með bréfinu 30. október s.á. Þar af leiðandi hafi starfsmennirnir enga leiðréttingu fengið, enda náist hún ekki fram nema allir nefndarmenn verði sammála.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að af gögnum málsins verði skýrlega ráðið að vinna starfsmannanna á veirudeild með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, sem falli undir hið tilvitnaða ákvæði fylgiskjals 2, sé ekki metin til launaflokks eða launaflokka við grunnröðun þeirra í launaflokk. Stefnandi hafi ítrekað en árangurslaust reynt að fá þessari afstöðu breytt og því leiti hann úrlausnar dómsins um ágreininginn.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að umræddir félagsmenn hafi fengið þá launahækkun sem stofnanasamningurinn kveði á um. Röðun starfsmannanna í launaflokk hafi verið lögmæt en því sé mótmælt að þeir hafi verið hlunnfarnir í launakjörum og að synjun um launaflokkshækkun feli í sér brot á stofnanasamningnum.
Málsástæður og lagrök stefnanda
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefnandi sé stéttarfélag sem geri kjarasamninga fyrir félagsmenn sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Á grundvelli kjarasamningsins frá 2001 hafi stefnandi gert samkomulag við Landspítalaháskólasjúkrahús um forsendur röðunar starfa í launaflokka og sé gildistími þess frá og með 1. júlí 2001. Það samkomulag sé að stofni til enn í gildi, en á því hafi verið gerðar breytingar með samkomulagi aðila 28. júní 2006 og úrskurði á grundvelli bókunar 4 með kjarasamningnum 18. mars 2005.
Launakerfið sem samið var um í kjarasamningnum 2001 sé byggt upp þannig að hver starfsmaður skuli fá svokallaða grunnröðun í tiltekinn launaflokk. Ákvörðun um launaflokk hvers starfsmanns ráðist síðan af samningi stefnanda við þá ríkisstofnun sem viðkomandi starfi hjá. Slíkir samningar séu í daglegu tali nefndir stofnanasamningar, en samkomulagið frá 25. júlí 2001 sé slíkur samningur. Fyrirmælin um gerð stofnanasamninga séu í grein 11 í kjarasamningnum.
Í grein 4.2 í stofnanasamningum segi að stofnunin geti við launaákvörðun umfram grunnröðun starfsheitis tekið mið af persónubundnum þáttum umfram þau sem tilgreind séu í grein 4.1, en það ákvæði fjalli um hvernig skólamenntun skuli metin við launaákvörðun, og tekið tillit til starfsþátta sem ekki teljist innifaldir í skilgreindu starfsheiti. Slíka ákvörðun skuli faglegur yfirmaður, t.d. yfirlæknir einingar, taka í samráði við skrifstofu starfsmannamála.
Í 5. gr. stofnanasamningsins komi fram að starfsmaður eigi rétt á að fá röðun sína endurmetna telji hann að honum sé ekki rétt raðað miðað við fyrirliggjandi forsendur. Einnig ef starfsmaður telji að hann sinni starfi sem innihaldi starfsþætti umfram það sem getið sé um í röðun starfsins, sbr. fylgiskjal 1 og 2, eigi hann rétt á að fá röðun sína endurmetna. Ágreiningsmálum skuli skotið til samstarfsnefndar, sbr. 11. kafla kjarasamnings og fylgiskjal 2.
Í fylgiskjali 2, sem sé hluti stofnanasamningsins, séu tilgreindir þeir þættir sem varði einstaklingsbundna þætti sem eigi að hafa áhrif til hækkunar frá grunnröðun samkvæmt samningnum. Þar sé ýmsum þáttum gefið sérstakt vægi sem í öllum tilvikum veiti svigrúm til hækkunar um allt að tvo launaflokka.
Í fylgiskjalinu séu eftirfarandi viðmiðanir tilgreindar undir lið sem beri yfirskriftina: Sérstök áhætta umfram það sem almennt gerist:
0 Ekki er unnið með smit- eða eiturefni að staðaldri.
1 Unnið er að staðaldri með blóðsýni og almenn ræktunarsýni. Unnið með lífræn leysiefni og/eða ofnæmisvaldandi efni (skaðleg).
2 Að auki unnið með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg). Vísað er í 1. kafla í Reglum um efnanotkun á vinnustöðum Stjtíð B. nr. 496/1996 og skilgreiningar á líffræðilegum skaðvöldum í Reglum um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum Stjtíð B. nr. 554/1996.
Þessi viðmiðun gildi hvort sem starfsmaður hafi fengið grunnröðun í ramma A eða B samkvæmt stofnanasamningnum.
Stefnandi vísi um heimild sína til öflunar viðurkenningardóms um kröfur sínar til 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi byggi viðurkenningarkröfuna á því að félagsmenn, sem starfi á veirudeild Landspítalaháskólasjúkrahúss, hafi með ólögmætum hætti verið hlunnfarnir í launakjörum með því að stofnunin hafi við launaflokkaröðun þverskallast við að taka tillit til sérstakra áhættuþátta í störfum þeirra sem sérstaklega hafi verið samið um að gera. Stefnandi vísi í því sambandi til ákvæðis í fylgiskjali 2 með stofnanasamningi stefnanda við Landspítalaháskólasjúkrahús.
Stefnandi byggi einnig á því að synjun um þá launaflokkahækkun sem málið snúist um feli í sér brot á stofnanasamningnum sem stefnandi geti borið undir dómstóla þegar ekki sé hægt að fá hana leiðrétta í samstarfsnefnd aðila. Synjunin sé ólögmæt, þar sem stofnuninni hafi borið bein skylda til að hækka starfsmennina um tvo launaflokka á grundvelli samningsins.
Um málskostnaðarkröfuna vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991. Þess sé krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hafi ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti vegna lögmannskostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi á grundvelli kjarasamnings frá 2001 gert samkomulag við Landspítala um forsendur röðunar starfa í launaflokka (stofnanasamning). Stofnanasamningur sé sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta hins miðlæga kjarasamnings að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna hverrar stofnunar. Einn veigamesti þáttur hins miðlæga kjarasamnings, sem stofnun og viðkomandi stéttarfélagi sé ætlað að útfæra, sé hvaða þættir og forsendur skuli ráða röðun starfa. Þar að auki sé heimilt að semja um aðra eða nánari útfærslu á vinnutímakafla hins miðlæga hluta hvers kjarasamnings og nokkur önnur atriði.
Stofnanasamningur eigi að byggjast á starfsmanna- og launastefnu viðkomandi stofnunar. Hann eigi að stuðla að skilvirku launakerfi, sem taki mið af þörfum og verkefnum stofnunar og sjá til þess að framkvæmd, bæði starfsmannastefnunnar og launakerfisins, raski ekki þeim heildarmarkmiðum sem fjárlög setji stofnuninni hverju sinni.
Stofnanasamningur sé hluti af þeim kjarasamningi sem gerður sé við viðkomandi stéttarfélag. Ekki sé hægt að segja honum sérstaklega upp eða beita verkfalli til að þvinga fram breytingar á honum sem slíkum. Ef til ágreinings komi um túlkun stofnanasamnings, sem ekki sé leyst úr í samstarfsnefnd, þá sé hægt að bera slíkan ágreining undir dómstóla, alveg með sama hætti og ágreining um hin miðlægu ákvæði viðkomandi kjarasamnings.
Í fylgiskjali 1 með stofnanasamningnum sé sundurliðun starfsþátta starfa náttúrufræðinga á Landspítala við mat á lágmarksröðun starfanna. Til grundvallar séu lagðar grunnskilgreiningar launaramma A, B og C, og þeir starfsþættir sem tilteknir eru í fylgiskjali 2, þar á meðal sérstök áhætta umfram það sem almennt gerist.
Í fylgiskjali 1 og 2 með stofnanasamningnum sé yfirlit yfir þá starfsþætti sem metnir voru við ákvörðun grunnröðunar starfsheita og nánari lýsing á störfum innan hverrar einingar á Landspítala, sbr. ákvæði lokamálsgreinar 3. gr. samningsins. Samkvæmt ákvæðinu hafi verið tekið tillit til þeirra þátta starfsins sem stefnandi krefjist viðurkenningar á (þ.e. vinnu með eiturefni o.fl.) við ákvörðun um grunnröðun starfa í samningnum. Því séu ekki forsendur til breytinga á stofnanasamningi sem leiða eigi til launahækkunar. Félagsmenn stefnanda, sem starfi á veirudeild Landspítala og stefnan taki til, hafi notið hækkana eins og stofnanasamningurinn frá 25. júlí 2001 segi til um og því sé enginn grundvöllur til að taka kröfu stefnanda til greina.
Við gerð stofnanasamningsins hafi verið samið um að þær launahækkanir, sem samningurinn hafi mátt bera með sér, færu til hækkunar á grunnröðun ásamt mati á persónubundnum þáttum hjá hverjum og einum starfsmanni, sbr. 4. gr. samningsins. Við gerð samningsins hafi fulltrúar stéttarfélagsins auk þess fengið lista yfir alla félagsmenn sem störfuðu á sjúkrahúsinu ásamt upplýsingum um röðun þeirra og mat á persónubundnum þáttum sem tekið skyldi tillit til við launasetningu þeirra eftir samningsgerðina. Rætt hafi verið og fullt samkomulag verið milli aðila um það hvernig túlka skyldi ákvæði samningsins, m.a. varðandi eiturefni.
Þá sé á því byggt að stefnandi hafi samþykkt þessa túlkun samningsins við undirritun hans þar sem þá hafi legið fyrir upplýsingar um þessa túlkun ásamt endanlegri röðun allra viðkomandi starfsmanna.
Því sé mótmælt sem röngu að þeir félagsmenn stefnanda sem starfi á veirudeild Landspítala hafi verið hlunnfarnir í launakjörum. Einnig sé því mótmælt sem röngu að synjun um þá launaflokkahækkun sem málið snúist um hafi falið í sér brot á stofnanasamningnum og verið ólögmæt.
Varakrafa stefnda, um að viðurkenningarkrafa stefnanda verði takmörkuð við tímamark eftir 22. apríl 2004, sé byggð á því að krafa stefnanda sem nái frá samningsgerð 25. júlí 2001 fram að tímamarki fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu, þ.e. 22. febrúar 2004, sé fyrnd, sbr. lög nr. 14/1905, aðallega 2. tl. 3. gr. laganna en nauðsynlegt sé að setja kröfuna fram með þessum hætti til þess að dómari taki tillit til þess, fallist hann á sjónarmið stefnanda. Að öðru leyti vísi stefndi til sömu sjónarmiða og fram komi hér að framan varðandi umfjöllun um aðalkröfu.
Niðurstaða
Óumdeilt er að félagsmenn stefnanda, sem kröfugerð stefnanda nær til, taki laun samkvæmt grunnröðun í launaflokk A08. Leggja verður til grundvallar við úrlausn málsins að sú launaflokkaröðun sé í samræmi við samkomulagið frá 25. júlí 2001 og jafnframt í samræmi við fylgiskjal 1, þar sem fram kemur töluleg sundurliðun starfsþátta og samlagning þeirra, enda bera skjölin það með sér. Í málinu hefur ekki komið fram að í samkomulaginu felist efnislegt misræmi á því sem þar kemur fram og því sem þá var um samið milli stefnanda og Landspítala-háskólasjúkrahúss.
Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda vísað til þess að í minnisblaði formanns launa- og kjaranefndar 25. júlí 2001 komi fram að röðun náttúrufræðinga á veirufræðideild verði af hálfu Landspítalans tekin til endurskoðunar strax eftir undirritun stofnanasamningsins. Við munnlegar skýrslutökur fyrir dóminum kom fram að röðun náttúrfræðinga hafi verið tekin til endurskoðunar eftir samningsgerðina í júlí 2001 en sú endurskoðun hafi ekki náð til áhættuþátta. Einnig kom fram að fylgiskjal 2 hafi verið gert með stofnanasamningi, sem gerður var á undan samningnum 25. júlí 2001, en fylgiskjalið hafi verið notað sem vinnuskjal og gátlisti við gerð síðari stofnanasamningsins. Með stofnanasamningnum í júlí 2001 og röðun umræddra starfsmanna í launaflokk hafi verið tekið tillit til áhættuþátta. Einnig hafi sameiginlegur skilningur samningsaðilanna verið sá að tekið hafi verið tillit til áhættu vegna vinnu með eiturefni við samningsgerðina en það hafi verið gert með því að veita stig fyrir sérstaka áhættu. Báðir samningsaðilar hafi undirritað þennan sameiginlega skilning.
Þegar litið er til alls þessa verður að telja ósannað að röðun umræddra starfsmanna í launaflokka, eins og gert var af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss, hafi falið í sér brot á stofnanasamningnum. Þótt fram komi á fylgiskjali 2 að sérsök áhætta umfram það sem almennt gerðist skyldi metin 0, 1 eða 2 og að 2 ætti við þegar unnið væri að auki með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), verður ekki talið að með því hafi verið sýnt fram á að röðunin samkvæmt samkomulaginu og fylgiskjali 1 sé röng, enda hafa ekki verið lögð fram gögn af hálfu stefnanda sem veita fullnægjandi sönnun um það. Verður þar með ekki fallist á að umræddir starfsmenn eigi rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulaginu. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Félags íslenskra náttúrufræðinga.
Málskostnaður fellur niður.