Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-192
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Þinglýsing
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 29. maí 2019 leitar HM2 hótel ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 14. sama mánaðar í málinu nr. 208/2019: Reitir - hótel ehf. gegn HM2 hótel ehf., á grundvelli 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Reitir - hótel ehf. leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort mistök hafi verið gerð við þinglýsingu þegar kvöð um heimila starfsemi í fasteign að Hallarmúla 2 í Reykjavík var afmáð úr þinglýsingabók árið 1993 á grundvelli yfirlýsingar. Héraðsdómur staðfesti ákvörðun sýslumanns um að hafna kröfu gagnaðila um að færa kvöðina í þinglýsingabók að nýju. Með fyrrnefndum úrskurði tók Landsréttur á hinn bóginn kröfu gagnaðila til greina. Í úrskurðinum kom fram að kvöðin hafi upphaflega stuðst við yfirlýsingu þáverandi eiganda fasteignarinnar frá 9. apríl 1974 en yfirlýsingunni hafi aldrei verið þinglýst á eignina. Á hinn bóginn hafi verið vísað til kvaðarinnar í afsali fyrir eigninni 15. júní 1975 sem jafnframt væri heimildarskjal fyrir þinglýsingu kvaðarinnar. Með fyrrnefndri yfirlýsingu frá 1993 hafi allar kvaðir á fasteigninni verið afmáðar, þar á meðal kvöð um heimila starfsemi í henni, þrátt fyrir að yfirlýsingin hafi samkvæmt efni sínu eingöngu snúið að afléttingu kvaða um forkaupsrétt og kauprétt. Þá hafi kvaðarinnar aftur verið getið í afsali fyrir fasteigninni 20. apríl 1994. Var því talið að kvöðin hafi verið ranglega afmáð úr þinglýsingabók.
Leyfisbeiðandi byggir á að kæruefnið hafi fordæmisgildi um hvaða kröfur eigi að gera til stofnskjals við þinglýsingu kvaða á fasteignir og hvaða heimildir þinglýsingarstjóri hafi til að leiðrétta mistök samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga.
Líta verður svo á að úrlausn um þau atriði sem leyfisbeiðandi vísar til myndi hafa fordæmisgildi. Er umsókn um kæruleyfi því tekin til greina.