Hæstiréttur íslands
Mál nr. 42/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 1.apríl 2004. |
|
Nr. 42/2004. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Ellert Hannessyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás.
E var dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og var helmingur refsingarinnar skilorðsbundinn til þriggja ára.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ellert Hannesson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. desember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 15. október 2003, á hendur Ellert Hannessyni, [kt. og heimilisfang] „fyrir líkamsárás á veitingastaðnum Mamma Mia, Hafnargötu 5a, Sandgerði, aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2003, með því að hafa slegið X í andlitið með bjórglasi sem brotnaði við höggið, með þeim afleiðingum að hann skarst á nefi, hlaut djúpan skurð vinstra megin á efri vör og smáskurð á enni.“
Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þar er jafnframt getið bótakröfu, sem X gerir á hendur ákærða. Krefst hann þess nú að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 250.000 krónur, þjáningabætur að fjárhæð 6.650 krónur, bætur vegna tímabundins atvinnutjóns að fjárhæð 51.947 krónur og útlagðan kostnað og annað fjártjón að fjárhæð 83.485 krónur, eða samtals 392.082 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. maí 2003 til 11. október 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög frekast leyfa. Þá er þess krafist að bótakrafa X sæti lækkun.
I.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst henni tilkynning um klukkan 2:30 aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2003 þess efnis, að líkamsárás hefði átt sér stað á veitingastaðnum Mamma Mia í Sandgerði. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var þeim skýrt frá því að Ellert Hannesson, ákærði í máli þessu, hefði ráðist að X og slegið hann í andlitið með bjórglasi. Hafi X verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.
Samkvæmt vottorði Árna Leifssonar læknis, sem er ritað 1. september 2003, kom X á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þann 25. maí 2003 klukkan 3:00. Í því segir meðal annars: „Það er 2.5 cm skáskurður yfir nefi. Djúpur skurður vi. megin á efri vör, 0.5 cm skurður á enni. Það blæddi úr hæ. nös. Sjón og augnhreyfingar eðlilegar. Sárin voru saumuð og tróði komið fyrir í hæ. nös.“
Vitnið X skýrði svo frá í skýrslu hjá lögreglu 26. maí 2003 að hann hafi verið að skemmta sér á veitingastaðnum Mamma Mia umrædda nótt ásamt unnustu sinni og nokkrum vinum. Hefðu hann og unnusta hans verið að dansa þegar maður hafi komið þar að og farið að ónáða þau. Hafi X sagt manninum að koma sér í burtu. Hafi þá maður þessi slegið hann fyrirvaralaust í andlitið með bjórflösku, sem brotnað hafi við höggið. Kvaðst X ekki hafa vankast við höggið þótt það hefði verið þungt, en hins vegar hafi mikið blætt úr andliti hans.
Vitnið O greindi svo frá í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hafi verið samferða ákærða á veitingastaðinn Mamma Mia umrædda nótt og hafi ákærði verið mjög ölvaður. Inni á veitingastaðnum kvaðst O hafa séð ákærða ganga að X og unnustu hans með hálft bjórglas í hendi og hafi ákærði slegið X í andlitið með glasinu algjörlega að tilefnislausu.
Vitnin H og A greindu svo frá í skýrslum sínum hjá lögreglu að þau hefðu verið að skemmta sér á umræddum veitingastað aðfaranótt 25. maí 2003. Þau hefðu verið að dansa á dansgólfinu og séð þegar ákærði veittist að X og sló hann með bjórglasi í andlitið, algjörlega að tilefnislausu og án þess að X kæmi vörnum við. Kvað A ákærða hafa verið mjög ölvaðan.
II.
Þegar ákærði var við þingfestingu málsins inntur eftir afstöðu sinni til sakargifta samkvæmt ákæru kvaðst hann ekki muna eftir atvikum í umrætt sinn. Ætti minnisleysið rót sína að rekja til ölvunarástands hans. Í skýrslu við upphaf aðalmeðferðar kvaðst ákærði sem fyrr ekki muna eftir atvikum. Þegar fimm af þeim átta vitnum sem komu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins höfðu gefið skýrslu lýsti ákærði því hins vegar yfir að ekki væri lengur dregið í efa af hans hálfu að hann hafi í umrætt sinn gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.
Vitnið X bar að öllu leyti á sama veg fyrir dómi og hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið að dansa við unnustu sína þegar ákærði hóf að ýta við þeim. Hafi X beðið ákærða um að láta af ónæðinu. Hafi ákærði brugðist við þeirri beiðni með því að reka bjórflösku í andlit hans af fullum þunga. Kvaðst X aldrei fyrr hafa séð ákærða og ekkert sökótt hafa átt við hann og hafi árásin því verið með öllu tilefnislaus.
Vitnið E bar fyrir dómi að hún hafi verið að dansa við unnusta sinn X þegar ákærði hafi byrjað að ónáða þau. Hafi X beðið ákærða um að koma sér í burtu. Skyndilega hafi henni verið litið til hliðar og þá séð ákærða reiða hendi sína á loft og kvaðst hún þá hafa gripið fyrir andlit sitt. Því næst hafi hún séð X alblóðugan í framan. E kvaðst ekki vita hvort ákærði beitti bjórglasi eða bjórflösku við verknaðinn.
Vitnin O, H, A, R og I báru öll fyrir dómi að þau hefðu séð ákærða slá X í andlitið án þess að hann kæmi vörnum við. Vitnisburður V hnígur í sömu átt. Hafi X verið alblóðugur í framan eftir höggið. Vitnin O og A báru staðfastlega að ákærði hafi beitt bjórglasi við verknaðinn, en H, I og R kváðust ekki vera viss um hvort ákærði hafi slegið X með bjórglasi eða bjórflösku. Öll báru þau á þann veg að árásin hafi með öllu virst tilefnislaus. Í vitnisburði O kom fram að hann og ákærði hefðu farið saman á veitingastaðinn hina umræddu nótt ásamt öðru fólki. Síðar um nóttina hafi vitnið veitt ákærða athygli þar sem hann gekk að borði sem vitnið sat við. Ákærði hafi haldið á hálfs líters bjórglasi í hendinni og hafi verið „slatti í því“. X hafi verið að dansa þarna rétt hjá. Skyndilega hafi ákærði slegið X í andlitið með glasinu. Lýsti vitnið þessu svo að ákærði hafi „skellt glasinu fram í hann“. Glerbrotum hafi ringt yfir vitnið þar sem það sat. Öllum bar vitnunum saman um að ákærði hafi verið talsvert ölvaður.
III.
Með vitnisburði þeirra X, E, O, H, A, R, V og I, sem er skýr og eindreginn um þau atriði sem máli skipta við sakarmat, er fyllilega sannað að ákærði hafi, aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2003, á veitingastaðnum Mamma Mia í Sandgerði, slegið X með glerhlut í andlitið. Með vætti þessara vitna, vottorði Árna Leifssonar læknis og framlögðum ljósmyndum telst einnig sannað að þessi atlaga ákærða hafi haft þær afleiðingar sem í ákæru greinir. Vitnisburður þeirra O og A er skýr og afdráttarlaus um það að ákærði hafi haldið á bjórglasi og slegið X í andlitið með því. Að X undanskildum hafa önnur vitni ekki treyst sér til að staðhæfa að um glas frekar en flösku hafi verið að ræða. Þykir rétt svo sem hér hagar til að leggja vitnisburð þeirra O og E til grundvallar að því er þetta atriði varðar. Er samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þá er fallist á það með ákæruvaldinu að háttsemi ákærða sé réttilega heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Ákærði gekkst 30. mars 2000 undir sektargreiðslu með viðurlagaákvörðun, sbr. 124. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, fyrir áfengislagabrot. Öðrum refsingum hefur hann ekki sætt.
Árás ákærða var með öllu tilefnislaus og hrottafengin og hefði hæglega getað leitt til stórkostlegra líkamsmeiðsla og örkumla.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi þess hversu háskaleg árás ákærða var þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans í heild sinni. Þegar hins vegar er litið til sakaferils ákærða samkvæmt framansögðu þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að hluta og svo sem nánar greinir í dómsorði.
IV.
Skaðabótakrafa X samkvæmt ákæru nemur svo sem fram er komið 392.082 krónum. Af hálfu ákærða hefur bótakröfunni ekki verið mótmælt að öðru leyti en því, að krafist er lækkunar á kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, en hún nemur svo sem fram er komið 250.000 krónum. Þá er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt sérstaklega.
Svo sem ekki er um deilt er fullnægt skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga til að dæma ákærða til að greiða X miskabætur, sem með hliðsjón af dómvenju þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða X 342.082 krónur í skaðabætur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundasonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns X, Nökkva Más Jónssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ellert Hannesson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X 342.082 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. maí 2003 til 25. október sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns X, Nökkva Más Jónssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.