Hæstiréttur íslands
Mál nr. 279/2001
Lykilorð
- Verksamningur
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
- Kyrrsetning
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2002. |
|
Nr. 279/2001. |
Nóntindur ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Verkiðn ehf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) |
Verksamningur. Ómerkingu héraðsdóms hafnað. Kyrrsetning.
V tók að sér sem undirverktaki N tiltekinn þátt í verki sem N hafði tekið að sér fyrir H. Eftir að deilur höfðu staðið um nokkra hríð rifti N samningnum við V, sem í framhaldi af því gerði N reikning fyrir því, sem stóð eftir ógreitt fyrir verkið, auk annars. Með dómi héraðsdóms fékk V dæmdar 6.127.729 krónur og staðfest var kyrrsetning í tilteknum eignum N fyrir þeirri fjárhæð. Fyrir Hæstarétti var aðalkröfu N um ómerkingu héraðsdóms hafnað. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um rétt V til greiðslu samkvæmt reikningi og fyrir aukaverk sem V hafði tekið að sér í tengslum við verkið. Þá var og staðfest niðurstaða héraðsdóms um hækkun verklauna V vegna þess að N hafði látið hjá líða að inna tiltekna undirbúningsvinnu af hendi. Gagnkröfum N var að mestu leyti hafnað þar sem þær þóttu ýmist ósannaðar eða órökstuddar. Niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð kröfu V á hendur N var samkvæmt þessu staðfest. Ekki var tekin afstaða til áðurnefndrar kyrrsetningargerðar, þar sem V krafðist ekki staðfestingar héraðsdóms að því leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 25. maí 2001. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 11. júlí sama árs og áfrýjaði hann á ný 30. sama mánaðar með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara krefst hann sýknu af kröfu stefnda og að kyrrsetning, sem sá síðastnefndi fékk gerða fyrir kröfu sinni 10. október 2000, verði felld úr gildi. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að krafa sín að fjárhæð 6.127.729 krónur „verði viðurkennd með dráttarvöxtum frá 7. september 2000 til skuldajafnaðar á móti dómkröfum stefnda“, en til ítrustu vara að hann verði sýknaður að svo stöddu. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur þannig að áfrýjanda verði gert að greiða sér 6.127.729 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.665.029 krónum frá 7. september 2000 til „stefnubirtingardags“ og af 6.127.729 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefndi þess að niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verði staðfest og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins mun áfrýjandi hafa gert verksamning 16. maí 2000 við Hitaveitu Dalabyggðar ehf., þar sem hann tók að sér að leggja aðveituæð frá borholu í Reykjadal til Búðardals, sem virðist alls hafa verið rúmlega 23 km að lengd. Eins og nánar greinir í héraðsdómi gerðu aðilar máls þessa samning 4. sama mánaðar, þar sem stefndi tók að sér sem undirverktaki áfrýjanda „alla útkeyrslu lagnaefnis, útlagningu lagna og alla samsuðu og frágang við lagnir í hitaveitulögn fyrir Hitaveitu Dalabyggðar“, allt samkvæmt tilteknum magntölum og verði. Nokkru eftir miðjan maí 2000 hófu aðilarnir störf hvor við sína verkþætti, en í meginatriðum mun áfrýjandi hafa ætlað sjálfur að sinna jarðvegsvinnu í tengslum við lögnina. Eftir að deilur höfðu staðið um nokkra hríð milli aðilanna um framkvæmd verksins fór svo að áfrýjandi rifti samningnum með skriflegri yfirlýsingu 30. ágúst 2000, þar sem greint var í þremur liðum frá ætluðum vanefndum stefnda, sem áfrýjandi taldi gefa tilefni til riftunar, en af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi munnlega kynnt stefnda ráðagerð sína um þetta 24. sama mánaðar. Í framhaldi af yfirlýsingu áfrýjanda um riftun var staðan á verki stefnda tekin út 5. september 2000 og virðist enginn ágreiningur hafa orðið um hana. Á grundvelli þessarar úttekar gerði stefndi áfrýjanda reikning 7. sama mánaðar fyrir því, sem stóð eftir ógreitt fyrir verkið. Var sá reikningur að fjárhæð 3.664.029 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Auk þessa taldi stefndi sig eiga ógreiddar 654.400 krónur vegna aukaverka, sem fallið hafi til á verktímanum, ýmist samkvæmt beiðni áfrýjanda eða hitaveitunnar, svo og 2.326.400 krónur vegna viðbótarkostnaðar af verkinu sökum þess að áfrýjandi hafi ekki lagt vegarslóða við lagnastæði á öllum stöðum, sem þess hefði verið þörf. Taldi stefndi að slíka slóða hafi vantað á köflum, sem væru alls 5.816 m að lengd, en viðbótarkostnaðinn áætlaði hann 400 krónur fyrir hvern metra.
Stefndi leitaði 26. september 2000 til sýslumannsins í Búðardal um kyrrsetningu á eignum áfrýjanda til tryggingar framangreindum kröfum ásamt 350.000 krónum í lögmannskostnað og 11.500 krónum vegna gjalds í ríkissjóð fyrir kyrrsetningargerð eða alls 7.006.329 krónum. Þá krafðist stefndi í beiðni sinni að kyrrsetningin tæki jafnframt til tveggja annarra liða, annars vegar kröfu um 1.876.500 krónur í bætur vegna verktafa og hins vegar um 4.726.500 krónur í bætur vegna ólögmætrar riftunar á samningi aðilanna. Frá þessum tveimur síðastnefndu kröfuliðum féll stefndi áður en sýslumaður tók fyrir beiðni hans 10. október 2000, en þann dag náði kyrrsetningin fram að ganga fyrir áðurgreindum 7.006.329 krónum. Var kyrrsett annars vegar innistæða að fjárhæð 3.664.029 krónur á reikningi nr. 300528 við Búnaðarbanka Íslands hf. og hins vegar fasteign að Grundarbraut 4 í Ólafsvík.
Stefndi fékk útgefna 13. október 2000 réttarstefnu í máli þessu, en fyrir héraðsdómi krafðist hann þess að áðurnefnd kyrrsetning yrði staðfest og áfrýjandi dæmdur til að greiða sér 7.112.634 krónur. Var þar um að ræða fyrrgreindar 7.006.329 krónur að viðbættu gjaldi fyrir þinglýsingu kyrrsetningargerðarinnar og stimpilgjaldi, samtals 106.305 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjanda gert að greiða stefnda kröfu samkvæmt reikningi hans frá 7. september 2000 að fjárhæð 3.664.029 krónur, ásamt 654.400 krónum vegna aukaverka og 2.000.000 krónum vegna viðbótarkostnaðar af því að vegarslóða hafi vantað á verkstað, en að frádreginni gagnkröfu áfrýjanda vegna fæðiskostnaðar, 190.700 krónur. Fékk stefndi þannig dæmdar 6.127.729 krónur úr hendi áfrýjanda og var kyrrsetning staðfest fyrir þeirri fjárhæð. Stefndi unir þeirri niðurstöðu, en gerir þó kröfu áfrýjanda í hag um breytingu á þeim dráttarvöxtum, sem dæmdir voru í héraði.
II.
Aðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er einkum reist á því að héraðsdómur, sem var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, hafi ekki gengið á vettvang verksins, sem málið á rætur að rekja til. Hafi þetta meðal annars valdið því að dómendur í héraði hafi ekki fengið rétta mynd af því hvort nauðsynlegt hafi verið að gera vegarslóða við lagnastæði í þeim mæli, sem dómkrafa stefnda tekur mið af.
Um þessa röksemd fyrir ómerkingu hins áfrýjaða dóms er til þess að líta að undir rekstri málsins hefur stefndi ekki lagt fram ljósmyndir eða viðhlítandi uppdrætti af vettvangi til að sýna fram á að nauðsyn hefði borið til að gera vegarslóða, svo sem hann heldur fram, og þá eftir atvikum í hvaða mæli. Um þetta hefur stefndi heldur ekki lagt fram matsgerð dómkvadds manns. Hann hefur þess í stað stutt kröfu sína af þessu tilefni við eigin áætlun, sem ekki er rökstudd nánar í gögnum málsins að því er varðar heildarlengd þeirra vegarslóða, sem hann telur að vantað hafi á verkstað. Í hinum áfrýjaða dómi var ekki metið sjálfstætt að hvaða marki þessara vegarslóða hafi verið þörf, heldur var þar lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi á nánar tilgreindan hátt viðurkennt að nauðsynlegt hefði verið að gera slóða við lagnastæðið á 4 til 5 km bili. Var niðurstaðan um þennan lið í kröfu stefnda á því reist. Eins og hér háttar til hefði engu breytt hvort dómendur í héraði hefðu gengið á vettvang.
Samkvæmt framansögðu og með því að áfrýjandi hefur ekki að öðru leyti fært haldbær rök fyrir því að ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm verður aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti hafnað.
III.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um skyldu áfrýjanda til að greiða stefnda kröfu samkvæmt reikningi að fjárhæð 3.664.029 krónur.
Stefndi hefur sem fyrr segir krafist þess að áfrýjanda verði gert að greiða sér 654.400 krónur vegna aukaverka, sem stefndi hafi tekið að sér í tengslum við verkið samkvæmt samningi aðilanna. Fyrir liggur í málinu að stefndi hefur ekki gert áfrýjanda reikning vegna þessara aukaverka eða staðið skil á virðisaukaskatti af þeirri fjárhæð, sem hann krefst fyrir þau. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að þau atvik geti neinu breytt um rétt stefnda til að krefjast í málinu greiðslu fyrir þessi aukaverk. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þennan kröfulið staðfest með vísan til forsendna hans.
Varðandi kröfu stefnda um hækkun verklauna vegna þess að vegarslóða hafi vantað við lagnastæði verður að líta til þess, sem greinir í héraðsdómi, að áfrýjandi lýsti því yfir bæði í greinargerð sinni í héraði og í athugasemdum, sem hann beindi til sýslumannsins í Búðardal vegna kröfu stefnda um kyrrsetningu, að „engin þörf var á veglagningu nema í mesta lagi ca. 4 til 5 kílómetra leið.“ Í málinu liggur fyrir fundargerð frá verkfundi 8. júní 2000, sem forsvarsmenn beggja málsaðila sóttu ásamt eftirlitsmanni verkkaupans. Þar kom fram af hendi áfrýjanda að ráða mætti af loftmyndum að vatnsrör, sem yrðu lögð á eða við tún, gætu verið um 5.000 m að lengd. Kostnaður af því að leggja vegarslóða á þessum stöðum gæti numið alls um 4.550.000 krónum. Þennan kostnað mætti spara, en áfrýjandi legði til að þeim sparnaði yrði skipt til helminga milli sín og verkkaupans. Verkkaupi tók sér frest til að svara þessari tillögu. Í bréf 19. júlí 2000 frá Vélaverki ehf., sem mun hafa hannað umrædda heitavatnslögn, til Hitaveitu Dalabyggðar ehf. og eftirlitsmanns hennar kom loks fram ráðagerð um að þessari tillögu áfrýjanda yrði hafnað. Samkvæmt dagskýrslum um verk áfrýjanda, sem liggja fyrir í málinu, virðist hann hafa unnið við gerð vegarslóða frá 30. maí til 21. júní og frá 17. til 28. ágúst 2000. Af gögnum málsins að dæma var þessi vinna áfrýjanda á fyrra tímabilinu leyst af hendi áður en verkkaupinn hafði tekið afstöðu til áðurgreindrar tillögu hans um að draga úr kostnaði af verkinu með því að gera ekki vegarslóða þar sem vatnslögnin yrði á eða við tún. Verður því að leggja til grundvallar að framkvæmdir áfrýjanda við gerð slóða á því tímaskeiði hljóti að hafa beinst að öðrum svæðum. Vinna áfrýjanda við slóða á seinna tímabilinu fór fram um sömu mundir og stefndi var að ljúka því, sem hann vann af umsömdu verki. Þær framkvæmdir geta því ekki hafa nýst stefnda við verk hans svo neinu skipti. Að gættu þessu og fyrrgreindum yfirlýsingum í málatilbúnaði áfrýjanda eru ekki efni til annars en að leggja til grundvallar að hann hafi látið hjá líða að gera á verktíma stefnda vegarslóða á köflum, sem áfrýjandi taldi sjálfur á þeim tíma að væru samtals um 5 km að lengd. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að stefnda beri greiðsla að fjárhæð 2.000.000 krónur vegna þessa liðar í kröfu sinni.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað gagnkröfu, sem áfrýjandi hefur gert í málinu til skuldajafnaðar við kröfu stefnda, að öðru leyti en um fæðiskostnað að fjárhæð 190.700 krónur. Verður og á sama grunni hafnað kröfu áfrýjanda um sýknu að svo stöddu.
Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að áfrýjanda beri að greiða stefnda 6.127.729 krónur. Áfrýjandi hefur ekki sérstaklega mótmælt kröfu stefnda um að kröfuliður að fjárhæð 3.664.029 krónur beri dráttarvexti frá 7. september 2000 og verður því á hana fallist. Málið var höfðað með því að héraðsdómsstefna var birt fyrir lögmanni áfrýjanda. Við áritun hans á stefnuna um birtingu er ekki greint frá því hvenær hún fór fram. Eru því ekki skilyrði til að verða við kröfu stefnda um að krafa hans beri að öðru leyti en að framan greinir dráttarvexti frá birtingardegi stefnunnar. Verða þeir því dæmdir frá þeim degi, sem málið var þingfest í héraði, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest áðurnefnd kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Búðardal gerði hjá áfrýjanda 10. október 2000 til tryggingar kröfu stefnda. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms fékk stefndi löggeymslu 21. júní 2001 fyrir kröfu sinni í sömu eignum og áður höfðu verið kyrrsettar. Samkvæmt hljóðan kröfugerðar stefnda fyrir Hæstarétti krefst hann ekki að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um staðfestingu kyrrsetningarinnar. Verður því ekki tekin efnisleg afstaða til þess.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Nóntindur ehf., greiði stefnda, Verkiðn ehf., 6.127.729 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.664.029 krónum frá 7. september 2000 til 25. október sama árs og af 6.127.729 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. maí 2001.
Mál þetta var þingfest 25. október 2000, tekið til dóms 29. mars sl., endurupptekið í dag og dómtekið á ný. Stefnandi er Verkiðn ehf., kt. 561097-2089, Bakkastöðum 147, Reykjavík, en stefndi er Nóntindur ehf., kt. 540499-2259, Suðurvangi 4, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 7.112.634 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 3.664.029 krónum frá 7. september 2000 til stefnubirtingardags, en af 7.112.634 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 7. september 2001.
Þá krefst stefnandi þess að staðfest verði með dómi kyrrsetning á fasteigninni Grundarbraut 4, Ólafsvík og bankareikningi nr. 300528, markaðsreikningi við útibú Búnaðarbanka Íslands hf. að Hamraborg 9, Kópavogi, samkvæmt kyrrsetningargerð er fram fór hjá sýslumanninum í Búðardal þann 10. október 2000.
Stefnandi krefst þess ennfremur að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað.
Dómkröfur stefnda eru þær að ekki verði orðið við kyrrsetningarbeiðni stefnanda og að hún verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að til kyrrsetningar komi mun lægri fjárhæð en krafa stefnanda kveður á um.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum fjárkröfum stefnanda, til vara krefst stefndi skuldajafnaðar við kröfu stefnanda. Er þess krafist að skuldajafnaðarkrafa stefnda að fjárhæð 7.112.634 krónur verði viðurkennd. Til þrautavara er krafist að stefndi verði að svo stöddu sýknaður af dómkröfum stefnanda. Til þrautaþrautavara er krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega.
Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu.
Málavaxtalýsing stefnanda.
Krafa stefnanda á rætur sínar í verksamningi aðila, dagsettum 4. maí 2000 vegna framkvæmda við hitaveitulögn í Dalabyggð. Stefnandi tók að sér sem undirverktaki rafsuðuvinnu, frágang lagna og fleira sem nánar er sundurgreint í verksamningnum og skyldi verkið unnið samkvæmt verklýsingu frá Hitaveitu Dalabyggðar, sem var hluti samningsins. Framkvæmdir hófust síðari hluta maí 2000 og stóðu yfir til loka ágúst s.á.
Þann 30. ágúst 2000 rifti stefndi verksamningnum en stefnandi taldi riftunina ólögmæta og ástæðulausa. Vegna riftunarinnar fór fram magnúttekt þann 5. september 2000 að viðstöddum fulltrúum stefnanda og stefnda. Stefnandi gerði reikning að fjárhæð 3.664.029 krónur þann 7. september 2000 og sendi stefnda. Nemur reikningsfjárhæðin mismun á niðurstöðutölu magnúttektarinnar, 15.481.720 krónur, og greiðslna frá stefnda til stefnanda sem þá höfðu verið inntar af hendi, 11.817.691 króna.
Stefnandi krafði jafnframt stefnda um greiðslu fyrir aukaverk og fleira, samtals 654.400 krónur, samkvæmt lista sem stefnandi sendi stefnda. Segir stefnandi þessi aukaverk hafa verið unnin að beiðni stefnda eða eftirlitsmanns verkkaupa, Hitaveitu Dalabyggðar og sé einnig vegna magnaukningar ýmissa liða.
Loks krafði stefnandi stefnda um greiðslu vegna viðbótarkostnaðar hans og óhagræðis við framkvæmdirnar þar sem stefndi hafi ekki lagt vegslóða meðfram lagnastæði. Krefst stefnandi þess að fá greiddar sem viðbótarkostnað 400 krónur á hvern metra lagnarinnar í vegleysunni, eða á samtals 5.816 metrum. Nemur krafa stefnanda samkvæmt þessum kröfulið samtals 2.326.400 krónur.
Stefnandi kveðst hafa talið sig eiga rétt á að fá uppgjör eftir að verksamningi hafi verið rift. Af því hafi ekki orðið og kveðst stefnandi hafa talið ástæðu til að óttast um að hann fengi ekki greiðslu krafna sinna úr hendi stefnda. Hafi hann því farið fram á kyrrsetningu í eignum stefnda til tryggingar kröfum sínum. Gerðin hafi farið fram 10. október 2000 hjá sýslumanni í Búðardal. Að ábendingu forsvarsmanns stefnda hafi fasteignin Grundarbraut 4, Ólafsvík verið kyrrsett ásamt innistæðu á markaðsreikningi nr. 300528 við útibú Búnaðarbanka Íslands hf. að Hamraborg 9, Kópavogi.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig:
1. Reikningur dagsettur 7. september 2000 kr. 3.664.029
2. Aukaverk samkvæmt lista kr. 654.400
3. Krafa um viðbótarkostnað vegna vegleysu kr. 2.326.400
4. Lögmannskostnaður kr. 350.000
5. Aðfarargjald til ríkissjóðs kr. 11.500
6. Þinglýsingar- og stimpilgjald vegna kyrrsetningarinnar kr. 106.305
Samtals kr. 7.112.634
Málsástæður og lagarök stefnanda.
1.Krafa samkvæmt reikningi.
Úttekt fór fram á verkinu 5. september eftir að verksamningi hafði verði rift. Málsaðilar voru viðstaddir og undirrituðu niðurstöðumagn úttektar. Segir stefnandi að reikningur hans sé byggður á þessari úttekt. Stefnandi hafi reynt að fá reikninginn greiddan en ekki tekist þrátt fyrir að stefndi hafi viðurkennt réttmæti reikningsins. Stefndi hafi jafnframt fengið þennan reikning greiddan hjá verkkaupa.
2. Krafa um greiðslu fyrir aukaverk.
Stefnandi byggir kröfu sína á greiðslu fyrir aukaverk á því að hann hafi þurft að vinna ýmis verk fyrir stefnda, ýmist samkvæmt beiðni stefnda eða eftirlitsmanns aðalverkkaupa. Þessi verk hafi ekki verið hluti af samningi aðila eða þá að magntölur hafi verið hærri en tilgreindar hafi verið í verksamningi. Stefnandi byggir ennfremur kröfu sína undir þessum lið á því að vegna vanefnda stefnda hafi stefnandi þurft að verja töluverðum tíma og fyrirhöfn til að sinna verkefnum sem með réttu hafi átt að vera á hendi stefnda. Samkvæmt meginreglum verksamningsréttar eigi verktaki rétt á greiðslu fyrir aukaverk og fyrir magnaukningu. Nánar sundurliðar stefnandi aukaverk sín þannig:
16. maí. Flutt grafa fyrir Nóntind frá Rvk í Dalina.
300 km x 150 kr. = 45.000,-
18. maí. Leitað að pípulagnaefni og rætt við hönnuði og eftirlitsmann.
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
19. maí. Leitað að pípulagnaefni og rætt við hönnuði og eftirlitsmann
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
31. maí. Urðum að hætta vinnu við lögn á mel við Reykjadalá. Vegur upp
að borholu ekki tilbúinn, u.þ.b. 1 km eftir. Fluttum okkur þá upp á
Svarfhólstún, (Fellsendatún þar á milli en okkur bannað að fara inn á það
Og þar að auki átti eftir að setja út lögn þar).
2 menn x 2 klst x 2.500.- = 10.000,-
Grafa 1 klst x 4.800.- = 4.800,-
1. júní. Skift út skemmdu röri á Svarfhólstúni.
Grafa 1 klst x 4.800.- = 4.800,-
Leitað að pípulagnaefni og rætt við hönnuði og eftirlitsmann vegna þess.
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
2. júní. Skoðaðar skemmdir á rörum með manni frá framleiðanda, legar
lagnar með Úlfari, en hann sá um að setja út legu lagnar og leitað að efni.
10 klst x 2.500.- = 25.000,-
6. júní. Skift út skemmdum rörum 2 stk. á Svarhólstúni.
Grafa 2 klst x 4.800.- = 9.600,-
7. júní. Leitað að pípulagnaefni og rætt við hönnuði vegna þess.
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
8. júní. Endurraðað lögn á Svarfhóls túni, bætt við tæmingum á milli.
Grafa 4 klst x 4.800.- = 19.200,-
Leitað að pípulagna efni og rætt við hönnuði vegna þess.
4 klst x 2.500.- = 10.000,-
9. júní. Teiknuð 90 gráðu beygja við dælustöð en á að vera 120 gráður,
aukaferð vegna þess. Leitað að endakrumpum, kom þá í ljós að ekki var
búið að panta þær.
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
13. júní. Leitað að pípulagnaefni, kom í ljós að ekki var búið að panta.
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
26. júní. Lagaðir vegslóðar við Háafell. (vegslóðar ófærir)
grafa 2 klst x 4.800.- = 9.600,-
29. júní. Soðnar tæmingar inn í lögn þar sem búið var að sjóða lögn saman
á milli Svarfhóls og Háafells.
Suða 5 klst x 2.500.- = 12.500,-
Grafa 4 klst x 4.800.- = 19.200,-
1. júlí. Lögn stytt og soðin saman á mel við Reykjadalsá, skurður styttri
en pípulögn.
4 klst x 2.500.- = 10.000,-
3. og 4. júlí. Leitað að pípulagnaefni, enn og aftur vantar tæmingar og
samskeytaeinangrun og búið að vanta í viku.
5 klst x 2.500.- = 12.500,-
6. júlí. Leitað að pípulagnaefni.
2 klst x 2.500.- = 5.000,-
8. ágúst. Lögn stytt og soðin saman í sveignum vestur Svarfhóls.
Fannar skar hana í sundur (Skurður styttri en lögn).
4 klst x 2.500.- = 10.000,-
8. ágúst. Skift út 2.5 m lögnum rörbút við Háafell, (skemmdur).
8 klst x 2.500.- = 20.000,-
11. ágúst. Mokað upp tæming og mokað yfir lögn í Svarfhhólstúni.
2 klst x 2.000.- = 4.000,-
Grafa 1,5 klst x 4.800.- = 7.200,-
29. og 30. ágúst. Lögn skorin í sundur, soðin saman aftur og gengið
frá einangrun samskeyta á þrem stöðum vegna rafmagns og vatnslagna
er þveruðu skurðinn (aðalverktaki ekki búin að láta sóna þá út er
við lögðum og suðum lögnina).
3 x 10.000 = 30.000,-
Gert við skemmdir á hlífðarkápu röra 37 stk x 3.000.- = 111.000,-
Soðnar tæmingar inn í lögn. 20 stk x 10.000.- = 200.000,-
Samtals með vsk. = 654.400,-
3. Krafa um greiðslu viðbótarkostnaðar vegna vegleysu.
Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu á viðbótarkostnaði sem hann hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi þurft að athafna sig án vegslóða meðfram hitaveitulögninni. Stefnda hafi borið að sjá til þess að stefnandi hefði viðunandi aðgang að lagnastæðinu með efni og tækjabúnað. Leiði þetta m.a. að meginreglum verksamningsréttar um skyldur verkkaupa til að sjá um að verktaki hafi ætíð greiðan aðgang að þeim stað sem unnið sé á hverju sinni. Í verksamningi stefnda og verkkaupa, Hitaveitu Dalabyggðar, sé gert ráð fyrir lagningu vegslóða meðfram hitaveitulögninni. Stefnandi lýsir aðstæðum á verkstað þannig: Hitaveitulögnin hafi verið lögð úr borholu til Búðardals. Hún sé um 15 cm í þvermál auk einangrunar og kápu. Heildarþvermálið sé um 25 cm. Þungi hvers rörs sé 200 kg og um 12 metrar á lengd. Rörin hafi verið 7 í búnti. Til þess að vinna verkið af sem mestri hagkvæmni og í samræmi við það sem tíðkist í verkum af þessu tagi hafi verið ætlun stefnanda að aka með rörin að lagnastæði. Til þess hafi hann ætlað að nota vörubifreið með krana með 12 metra löngum vagni. Þannig hafi hann náð að flytja í einu 6 búnt af rörum. Rörabúntunum hafi átt að dreifa meðfram lagnastæðinu en síðan tæki vélgrafa, með sérstökum búnaði, rörin eitt og eitt í einu og raðaði þeim meðfram lagnastæðinu.
Nauðsynleg hafi því verið að leggja vegslóða víða meðfram lagnastæðinu til þess að verkið gengi geiðlega fyrir sig. Sums staðar hafi þó verið unnt að notast við náttúrulegar aðstæður, t.d. tún. Stefndi og eftirlitsmaður með verkinu hafi metið það svo að nauðsynlegt hafi verið að leggja vegslóða á allt að 5000 metrum meðfram lögninni.
Vegna vanefnda stefnda á að leggja vegslóða meðfram lagnastæðinu hafi stefnandi neyðst til að vinna verkið við miklu verri aðstæður en hann hafi átt rétt á samkvæmt verksamningi. Stefnandi hafi bent ítrekað á þetta meðan á framkvæmdum hafi staðið en án árangurs. Hafi umkvartanir hans verið bókaðar á verkfundum og meira að segja hafi stefnandi stöðvað verkið í nokkra daga til þess að knýja á um efndir. Hafi stefnandi talið sér óheimilt að halda áfram með verkið án vegslóðans. Loks hafi stefndi skipað svo fyrir að stefnandi skyldi halda áfram þótt vegslóðinn væri ekki lagður. Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum töfum af þessum sökum og viðbótarkostnaði. Í stað þess að geta ekið rörabúntum með vörubifreið og dreift þeim meðfram lagnastæðinu hafi stefnandi neyðst til þess að skilja búntin eftir á þjóðvegi eða annars staðar þar sem aðstæður leyfðu, fjarri lagnastæði. Vélgrafa hafi síðan sótt eitt til tvö rör í einu og flutt á lagnastæði. Þetta hafi allt tekið mun lengri tíma og hlotist af því meiri kostnaður vegna tækjanotkunar. Þar að auki hafi rafsuðumenn þurft að draga rafsuðuvélar sínar á jeppabifreiðum í stað fólksbifreiða, sem ekki hafi getað athafnað sig í vegleysunni. Af þessu hafi hlotist aukakostnaður. Loks hafi svokallaðir „krumparar“ átt eftir að fara meðfram lögninni og setja hólk og einangrun um samskeyti. Vegleysan hafi því valdið stefnanda verulegum töfum og kostnaði.
Vinna við þessar aðstæður hafi verið miklu erfiðari og tafsamari heldur en ef unnt hefði verið að athafna sig á vegslóða. Úthaldið hafi orðið allt miklu dýrara. Rafsuðumenn geti við eðlilegar aðstæður lokið við 14 til 16 suður á dag að meðaltali, en við þessar aðstæður hafi afköst farið niður í 8 til 10 suður á dag. Marga daga seinkun hafi hlotist af þessu.
Stefnandi telur sig eiga kröfu á hendur stefnda vegna þessa. Samkvæmt samningi aðila hafi einingaverð fyrir útlögn lagna, samsuðu og frágang á 150 mm rörum verið 900 krónur á metra. Stefnandi telur viðbótarkostnað sem hlotist hafi af vanefndum stefnda vera mjög varlega metinn 400 krónur á metra á þeim hluta hitaveitulagnarinnar þar sem þörf hafi verið á vegslóða. Stefnandi telur þá vegalengd vera 5.816 metra. Þannig telur hann sig eiga kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 2.326.400 krónur vegna þessa kröfuliðar.
4. Lögmannskostnaður, aðfarargjald, kostnaður af þinglýsingu.
Stefnandi telur riftun verksamningsins hafa verið ástæðulausa og ólögmæta. Eftir riftunina hafi hann þurft að leita lögmannsaðstoðar við að innheimta þá fjármuni er hann taldi sig eiga inni hjá stefnda. Stefnandi bendir á í þessu sambandi að hann hafi gefið stefnda upp magntölu um 20. ágúst 2000 og að stefndi hafi fengið greiddan reikning hjá verkkaupa sem m.a. byggist á þessum magntölum. Stefndi hafi hins vegar ekki greitt sér eða boðið fram greiðslu. Af þessum sökum hafi stefnanda verið óhjákvæmilegt að leita lögmannsaðstoðar til að gæta hagsmuna sinna. Við kyrrsetningargerðina þann 10. október hafi lögmannskostnaður verið orðinn 350.000 krónur sem stefnandi telji sig eiga rétt til greiðslu á úr hendi stefnda vegna vanefnda hans. Kröfu um kostnað vegna aðfarargjalds og kostnað við þinglýsingu styður stefnandi einnig við vanefndir stefnda, en nauðsynlegt hafi verið að stofna til þessa kostnaðar til að tryggja hagsmuni stefnanda.
Kyrrsetningargerðina styður stefnandi þeim rökum að hann hafi haft ástæður til að ætla að erfitt kynni að reynast að fá kröfur sínar greiddar af stefnda. Af þeim sökum hafi verið krafist kyrrsetningar. Sýslumaður hafi fallist á röksemdir stefnanda fyrir beiðninni. Krafan styðjist við ákvæði 6. kafla laga um kyrrsetningu og lögbann o. fl. nr. 31/1990. Stefnandi styður kröfur sínar að öðru leyti við meginreglur verksamningsréttar en einnig við meginreglur almenns samninga-og kröfuréttar. Kröfu sína um greiðslu reikningsins, um greiðslu á viðbótarkostnaði vegna vegleysu, nánar til tekið umkrafið einingarverð, sem og kröfu sína samkvæmt lista um aukaverk, byggir stefnandi einnig á meginsjónarmiðum 5. gr. kaupalaga, eftir atvikum með lögjöfnun. Kröfur um vexti, dráttarvexti og vaxtavexti styðjist við ákvæði vaxtalaga nr. 25/1987 og krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málavaxtalýsing stefnda.
Stefndi kveður ágreining hafa risið með forsvarsmönnum aðila þegar í upphafi verktímans. Ágreiningurinn hafi staðið um hvernig standa skyldi að verkinu. Hins vegar hafi verið brýnt að aðilar gætu unnið verkið þannig að samræmi væri með framkvæmdum. Fljótlega hafi komið í ljós að framkvæmdastjóri stefnanda hafi lítið verið á verkstað og neitað að vinna á sama úthaldstíma og menn stefnda. Stefnandi hafi valið úr bestu leggina til suðu en skilið þá erfiðustu eftir þar til síðast. Eftir riftun samningsins hafi sá verkþáttur lent á stefnda.
Stefnandi hafi hætt verki sínu um hálfan mánuð, dagana 9. júlí til 17. júlí 2000. Ástæðan hafi verið deila um vegstæði meðfram lögninni. Magnskrá geri aðeins ráð fyrir einum kílómetra en hins vegar hafi eftirlistmaður verksins og forsvarsmaður stefnda talið að aðstæður kölluðu á 4 til 5 kílómetra vegslóðalagningu. Meðfram lögninni séu víðast slétt tún og melar og þar hafi ekki þurft vegslóða. Stefnandi haldi hins vegar fram að samkvæmt útboðsgögnum komi fram að lögnin sé aðeins 15 metra frá þjóðvegi. Allar teikningar sýni hins vegar að svo er ekki. Það hafi valdið stefnda miklu tjóni þegar stefnandi hafi stöðvað verkið í hálfan mánuð í júlí 2000.
Stefndi kveðst ekki hafa fengið greitt fyrir aukaverk hjá verkkaupa og af þeim sökum sé krafa stefnanda ekki orðin virk.
Stefndi kveðst fallast á kröfu stefnanda að fjárhæð 3.664.029 krónur, en hún sé samkvæmt úttekt aðila sem fram hafi farið eftir að samningi hafi verið rift. Stefndi kveðst vera búinn að leggja þessa fjárhæð inn á bankareikning en telur sér ekki unnt að greiða hana til stefnanda fyrr en leyst sé úr ágreiningi aðila vegna vinnusvika stefnanda. Í þessu sambandi vísar stefndi til úttektar hönnuðar verksins, Vélaverks ehf., frá 22. september 2000. Þar segi m.a.: „Samkvæmt mælingum undirritaðs á þenslustykkjum eftir forhitun á lögn, er frífærsla á þönum frá 0 til 100 mm, þ.e.a.s. þanar eru allt frá 100% þjappaðir og niður í 5% samanþjöppun. Orsök er að finna í vanefndum suðuverktaka við að forspenna þenslustykki fyrir ísetningu samkvæmt forskrift útboðsgagna og ennfremur hefur suðuverktaki ekki fest þana nægjanlega vel saman fyrir niðusetningu, sem veldur því, að jarðvegsverktaki brýtur rafsuðuþanana við niðurlögn á stofnæð með þeim afleiðingum að tognun eða samþjöppun hefur orðið á þennslustykkjum við átök sem myndast við niðurlögnina. Vegna vanefnda suðuverktaka við að forspenna þenslustykki í stofnæð athugaði undirritaður styrk þenslustykkja og hafði samráð við framleiðanda þanana um álit þeirra á að rafsjóða þenslustykkin föst og læsa þeim í þeirri stöðu sem þeir eru núna.“
Þá segi ennfremur í úttektinni: „Með ofangreindri niðurstöðu er ábyrgð verktaka enn í fullu gildi gagnvart kröfu verkkaupa vegna hugsanlegra skemmda á þönun eða afleiðingar af þeirra völdum sem rekja má til rangrar meðhöndlunar verktaka eins og getið er um hér að ofan.“
Samkvæmt þessari úttekt hafi starfsmenn stefnanda ekki unnið verkið eins og til hafi verið ætlast. Þeir hafi látið hjá líða að forspenna þenslustykkin eins og krafa sé gerð um í verklýsingu. Stefnandi hafi ekki lagt fram verktryggingu í upphafi verktímans og því hafi stefndi enga tryggingu gagnvart stefnanda, lendi ábyrgð á stefnda vegna vanefnda stefnanda. Ábyrgðin hangi því yfir stefnda eins og Mídasarsverð. Stefnandi hafi í raun viðurkennt þetta, sbr. bréf hans til Hitaveitu Dalabyggðar 24. nóvember sl. Í því bréfi bjóðist stefnandi til að taka ábyrgð á þessum vanefndum sínum. Stefndi tekur fram að þessir þanar séu samtals 90 á 30 km langri leið. Til að lagfæra þá til bráðabirgða eins og gert sé ráð fyrir í ofangreindu áliti, þurfi rafsuðumann, dráttarvélagröfu og bíl. Telur stefndi að það kosti allavega um 50.000 krónur á hvern þana, eða samtals 4.500.000 krónur.
Eftirlistmaður hafi einnig staðfest að stefnandi hafi lagt þrjár heimæðar á röngum stað. Stefndi hafi þurft að lagfæra tvær þeirra og sé kostnaður við það verk 200.000 krónur.
Þá skuldi stefnandi stefnda fæðiskostnað að fjárhæð 190.700 krónur. Ótalið sé það tjón sem stefndi hafi orðið fyrir þá daga í júlí sl. þegar stefnandi hafi lagt niður vinnu. Þann tíma hafi stefndi ekki getað haldið áfram með verkið. Kostnaðarúthald stefnda sé 300.000 krónur á dag og því sé tjón stefnda vegna þessarar verktafar ekki minni en 3.300.000 krónur, en slíkar tafir hafi þar að auki ýmsar víxlverkanir sem erfitt sé að meta.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir fyrst og fremst á því að komið hafi í ljós verulegir gallar á verki stefnanda. Stefndi beri ábyrgð á gallanum gagnvart verkkaupa, Hitaveitu Dalabyggðar. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda hvað þennan kröfulið varðar. Þessi galli veiti stefnda rétt til þess að halda eftir af greiðslum til stefnanda.
Stefndi kveður aðrar kröfur stefnanda úr lausu lofti gripnar og ekki sé unnt að taka mark á þeim. Það sé grundvallaratriði að krafan sé byggð á vinnu sem eftirlitsmaður hafi staðfest. Engin fyrirliggjandi gögn staðfesti að svo sé. Þess vegna beri að sýkna stefnda að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda.
Krafa vegna vegleysu að fjárhæð 2.326.400 krónur sé til umfjöllunar hjá eftirlitsmanni. Stefndi hafi tilkynnt stefnanda að hann mótmæli ekki þessari kröfu ef hún fáist viðurkennd hjá verkkaupa. Eins og fram komi í bréfi eftirlitsmanns hafi krafan ekki verið samþykkt. Beri því að sýkna að svo stöddu.
Stefndi byggir á því að gagnkröfur hans upphefji kröfur stefnanda. Tafir hafi orðið á verkinu í 4 daga í júní, 11. daga í júlí og 10. daga í ágúst, eða samtals 25 daga. Byggir stefndi á því að hver dagur leggi sig á 300.000 krónur að lágmarki. Samtals sé því skuldajafnaðarkrafa stefnda vegna tafa að fjárhæð 7.500.000 krónur. Annað tjón stefnda vegna vinnu stefnanda sé færsla á heimæðum við Álfheima og Miðskóga að fjárhæð 123.130 krónur. Endursuða við Kvennabrekku, Miðskóga og Álfheima, 19 stykkir þanar, samtals 776.008 krónur. Þá sé ógreiddur fæðiskostnaður að fjárhæð 190.700 krónur. Samtals sé því skuldajafnaðarkrafa að fjárhæð 8.589.838 krónur.
Framburður aðila og vitna.
Forsvarsmaður stefnanda, Sigurður Rúnar Sigurðsson, kvaðst hafa unnið við rafsuðu síðustu 20 ár og frá 1988 eingöngu við lagningu hitaveitu. Í upphafi verks hafi vantað efni, útsetningu á lögn og vantað teikningar. Þá hafi verið eftir að leggja veg að borholu eins og kveðið sé á um í verklýsingu. Hvergi hafi því verið unnt að byrja á verkinu. Þeim hafi einnig verið meinað að fara inn á Fellsendatún vegna sauðburðar. Vinna hafi því verið slitrótt í upphafi verks. Sigurður Rúnar kvað suðuvinnu þurfa fara fram í þokkalegu veðri. Ekki sé unnt að sjóða í rigningu og miklum vindi því þá komi loftbólur í suðuna. Ekki þýði að tjalda yfir þegar lagnir séu grannar vegna þess að suða taki þá tiltölulega skamma stund á hverjum stað. Ákveðið hafi verið með aðilum að leggja lögnina fyrst og grafa síðan skurð með henni. Hafi verið hælað út fyrir skurði og lögnin soðin saman á jörðinni. Þanar séu settir með um 150 metra millibili. Þar sem landið sé flatt sé unnt að ganga frá löngum leiðslum án þess að skurður sé fyrir hendi. Sigurður Rúnar kvaðst hafa reiknað með vegslóða meðfram leiðslunni innan 15 metra frá miðlínu vegar eins og samningur aðila hljóðaði á um. Það sé nauðsynlegt að hafa vegslóða meðfram lögninni þar sem land sé erfitt yfirferðar. Á þessum 30 km kafla hafi land verið allt frá sléttum túnum og melum upp í mýri, klapparholt, hæðir, gil og læki. Hann hafi því krafist þess á verkfundum að vegslóði yrði lagður á tilteknum svæðum. Hann hafi aldrei fengið afdráttarlaust svar um hvort að slóði yrði lagður eða ekki. Sigurður Rúnar sagði það rangt hjá stefnda að stefnandi hafi ekki haft nægilegan mannskap. Hann hafi ekki vitað í upphafi verks að það ætti að forspenna þanana, en fengið vitneskju um það fljótlega. Það sé mjög sjaldgæft nú orðið að þanar séu forspenntir. Það hefði verið um 5-10 mínútna viðbótarvinna að forspenna þá jafnóðum. Hins vegar hafi hönnuður og eftirlitsmaður aldrei gert athugasemdir við frágang þeirra.
Forsvarsmaður stefnda, Fannar Eyfjörð Skjaldarson, kvaðst hafa spurt Sigurð Rúnar margoft að því hvort þanar væru ekki forspenntir. Sigurður hafi jafnan svarað því að svo væri. Hann sagði að úttektin 5. september 2000 miði við að búið væri að sjóða eina langa lengju. Svo hafi hins vegar alls ekki verið, heldur hafi verið búið að sjóða búta hér og þar á þeim stöðum þar sem stefnanda hafi þótt hagstæðast að byrja. Stefndi hafi því þurft að leggja í kostnað við að klára verk stefnanda og sé vinna vegna suðu við Álfheima og Miðskóga að fjárhæð 123.130 krónur. Þá hafi staðið eftir samsuða við Kvennabrekku, Miðskóga, Álfheima og Þorbergsstaði og hafi það kostað stefnda 776.008 krónur. Úttektin 5. september 2000 hafi ekki gert ráð fyrir þessum kostnaði sem lent hafi á stefnda. Fannar sagði að vegslóðar hafi alls ekki verið nauðsynlegir nema sums staðar. Varðandi aukaverk sagði Fannar að stefnandi hafi boðist til að flytja gröfuna ókeypis. Að öðru leyti gæti hann fallist á kröfur stefnanda vegna aukaverka svo framarlega sem hann fengi kröfuna greidda hjá verkkaupa. Tafir af völdum stefnanda hafi leitt til þess að verkið hafi dregist fram í desember og orðið allt miklu dýrara en ella. Fannar tók undir það með stefnanda að verkkaupi hafi staðið sig illa við undirbúning verksins og hafi það valdið töfum á verkinu. Það sé einnig rétt hjá stefnanda að efni hafi ekki alltaf verið tiltækt. Hann heldur því fram að vegslóðar hafi verið lagðir þar sem þess hafi þurft. Fannar er vélstjóri að mennt en kvaðst hafa unnið við suðu árum saman. Þetta hafi þó verið hans fyrsta hitaveituverkefni.
Rúnar Magnússon vélaverkfræðingur hannaði lagnirnar. Hann kvaðst hafa athugað suðu þanana um miðjan september og þá hafi komið í ljós að þanar voru ekki forspenntir. Hann kvaðst hafa haft samband við framleiðanda þanana og fengði þær upplýsingar að fullnægjandi væri, úr því sem komið væri, að rafsjóða þanana saman í þeirri stöðu sem þeir væru í. Hafi verið ákveðið að auka þykkt suðunnar um einn mm. til þess að tryggja að suðan hefði sama styrk og lögnin að öðru leyti. Þetta hafi verið gert og telji hann sem hönnuður verksins þennan frágang fullnægjandi skil á verkinu hvað þana varðar. Heildarverkið hafi verið tekið út 15. desember 2000 og engar frekari athugasemdir gerðar við frágang þana af hálfu verkkaupa
Jón Ágúst Guðmundsson, verkfræðingur og eftirlitsmaður af hálfu verkkaupa, sagði að stefnandi hafi oft kvartað vegna efnisskorts og hafi þær kvartanir verið réttmætar. Útboðsteikningar hafi verið fyrir hendi en þær hafi ekki sýnt nákvæmlega hvar leggja ætti lögnina. Hann sagði stefnanda hafa lagt heimæðar á röngum stað og hafi þurft að laga þær.
Böðvar Magnússon suðumaður var undirverktaki hjá stefnanda. Hann sagðist hafa farið með Sigurði Rúnari á fyrsta verkfund. Þar hafi verið rætt um að verkið yrði unnið þegar veður leyfði. Hann sagðist hafa komið á verkstað 15. maí 2000 en ekki getað byrjað fyrr en 27. maí. Það hafi valdið þeim miklum erfiðleikum að vegslóðar hafi ekki verið meðfram lögnina. Lögnin hafi ennfremur verið mun lengra frá þjóðvegi heldur en gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum.
Einar Pálsson suðumaður var einnig undirverktaki stefnanda. Hann sagði að það hafi valdið þeim miklum vandræðum að engir vegslóðar hafi verið meðfram lagnastæði. Aðstæður hafi oft verið mjög erfiðar, mýri, leðja og skurðir.
Sigurður Bjarni Sigurðsson, sonur forsvarsmanns stefnanda, Sigurðar Rúnars, vann hjá stefnanda. Hann kvaðst hafa unnið við hitaveitulögn áður og verið á gröfu síðustu þrjú árin. Hann hafi unnið sem verkstjóri í Búðardal og jafnframt við að leggja út rörin. Hafi hann sótt þau upp á þjóðveg og dreift þeim við lagnastæðið. Þetta hafi þurft að gera í smáskömmtum.
Völundur Þorsteinn Hermannsson var verkstjóri hjá stefnda þetta sumar. Hann sagði að fjarvistir hefðu verið miklar hjá suðumönnum stefnanda. Sérstaklega hafi verið bagalegt að forsvarsmaður stefnanda, Sigurður Rúnar Sigurðsson, hafi ekki verið alltaf á staðnum. Þess vegna hafi vantað alla verkstjórn.
Þá kom einnig fyrir dóminn Jóhannes Jóhannsson verkfræðingur en hann hefur aðstoðað stefnda við tilboðsgerð og fleira.
Gögn málsins.
Í samningi aðila sem undirritaður var 4. maí 2000 kemur fram í 1. gr. að undirverktaki taki að sér fyrir aðalverktaka alla útkeyrslu lagnaefnis, útlagningu lagna og alla samsuðu og frágang við lagnir í hitaveitulögn fyrir Hitaveitu Dalabyggðar. Í 2. gr. kemur fram að undirverktaki vinni verkið að öllu leyti samkvæmt verklýsingu frá Hitaveitu Dalabyggðar sem fylgi samninginum þessum og sé hluti hans.
Í bréfi stefnda til stefnanda dagsettu 30. ágúst 2000 rifti stefndi verksamningi aðila. Í bréfinu kemur fram að helstu ástæður riftunar séu skipulagsleysi stefnanda og illa gangi að hafa samráð. Kvartað er yfir fjarveru og óstundvísi Sigurðar Rúnars og segja megi að Sigurður Rúnari hafi ekki verið á svæðinu til daglegrar stjórnunar. Enginn verkstjóri sé því á staðnum. Þá er kvartað í bréfinu yfir verkstoppi dagana 9. júlí til 23. júlí sem hafi verið vegna deilna um útlagningu röra. Að lokum segir í bréfinu að undanfarið hafi borið á illu umtali Sigurðar Rúnars um framkvæmdastjóra stefnda, Fannar Eyfjörð. Sé svo komið að trúnaðartraust milli aðila sé löngu brostið.
Stefnandi svaraði bréfi þessu 31. ágúst 2000. Segir hann m.a. að fljótlega hafi komið í ljós í byrjun verks að forsvarsmaður stefnda hafi enga reynslu haft af svona verkum og hafi það valdið strax miklum áhyggjum. Stefnandi hafi þurft í byrjun verks að færa sig úr einum stað í annan vegna skipulagsleysis af hálfu stefnda. Aldrei hafi staðið til að Sigurður Rúnar yrði stöðugt á staðnum og annaðist verkstjórn. Sigurður Bjarni hafi verið verkstjóri í fjarveru Sigurðar Rúnars. Fyrstu tvær til þrjár vikurnar hafi stefnandi lítið getað unnið, mestur tími hafi farið í að útvega teikningar, efni og fleira varðandi undirbúning. Þetta hafi aðalverktaki að sjálfsögðu átt að gera. Stefnandi hafi farið fram á hækkun á einingarverði við útlögn röra þar sem ekki hafi verið vegur eða vegslóði meðfram lögninni. Þetta hafi verið gert skriflega á verkfundi. Þegar ljóst hafi verið að ekki ætti að taka á þessu máli hafi stefnandi ákveðið að leggja niður vinnu í bili. Það hafi loks verið Rúnar Magnússon, hönnuður verksins, sem hafi kallað saman fund og í framhaldi af því hafi stefnandi byrjað að vinna aftur.
Í bréfi stefnanda 21. júní 2000 til stefnda segir meðal annars að þann 19. maí, er stefnandi hafi ætlað að byrja á verkinu, hafi ekki verið búið að hæla út lögnina, engar teikningar legið fyrir, vantað allt efni og vantað alla ákvörðunartöku í sambandi við lagningu leiðslanna. Suða hafi loks getað byrjað 27. maí, en þetta hafi valdið miklum aukakostnaði og aukavinnu fyrir stefnanda. Þann 31. maí hafi verið lokið við að sjóða við Reykjadalsá, en vegslóði ekki tilbúinn til að halda verkinu þar áfram og hafi stefnandi því þurft að flytja sig á annað vinnusvæði. Þann 2. júní hafi vantað efni og stefnandi þurft að hætta verki. Vegur upp að borholu hafi loks verið tilbúinn 14. júní, en hann hafi átt að vera tilbúinn í upphafi verks. Þann 1. júlí hafi nánast allir slóðar verið ófærir ennþá og enn vantað mikið af slóðum. Nú þegar hafi orðið tugþúsunda tjón á bílum vegna lélegra vegslóða. Stefnandi kveðst hafa gert ráð fyrir að fimm menn myndu duga í þennan verkhluta, en þar sem allar forsendur hafi brostið hafi stefnandi bætt við sex mönnum. Þar sem verkið hafi verið svo illa skipulagt af hálfu stefnda hafi stefnandi þurft að vaða úr einu í annað allan tímann til þess að koma þó einhverju í framkvæmd.
Í bréfi lögmanns stefnanda 17. nóvember 2000 segir m.a. að stefnandi hafi þurft að vinna verk sitt án teikninga stóran hluta leiðarinnar eða um alls 12 km. Hann hafi staðsett heimæðatengingar á þessum hluta lagnarinnar samkvæmt því sem skynsamlegt hafi verið talið að höfðu samráði við eftirlitsaðila verksins. Enginn vandkvæði hafi hlotist af þessu.
Þann 24. nóvember 2000 sendi stefnandi stefnda greinargerð vegna fullyrðingar stefnda um að stefnandi hafi valdið töfum á heildarverkinu. Í upphafi greinargerðarinnar segir stefnandi að rétt sé að gera grein fyrir því að suðuvinna við hitaveitulögn sé háð veðri. Suðan sé viðkvæm fyrir lofti og bleytu í roki og rigningu. Hætta sé á að í hvassviðri setji í suðuna loftbólur þannig að suðan standist ekki þær kröfur sem gerðar séu til hennar. Þá sé rétt að benda á að vinna við samskeyti með gasloga verði erfiðari í hvassvirði vegna vindkælingar. Veðurfar hafi því áhrif á vinnu og vinnutíma en þetta hafi þó alls ekki valdið töfum á verkinu. Stefnandi segir að fljótlega eftir að framkvæmdir hafi hafist við borholuna í Reykjadalsá hafi stefnandi þurft að breyta verkáætlun sinni vegna þess að ekki hafi verið búið að ýta upp vegslóða frá borholu meðfram Grafarmúla, rúmlega hálfa leið til dælustöðvar. Verkkaupi hafi átt að sjá um þennan verkþátt. Þá hafi stefnandi þurft að fresta vinnu á túni við Fellsenda vegna sauðburðar. Stefnandi telur það af og frá að hann hafi valdið töfum á verkinu. Er það rakið í bréfinu að orsakir tafa hafi verið vegna veðurs og vegna þess að vegslóða hafi vantað. Stefnandi metur það svo að framkvæmdir hafi tafist 7 til 10 daga vegna þess að stefndi hafi ekki lagt vegslóða eins og áskilið hafði verið. Hins vegar hafi þetta ekki komið að sök vegna þess að stefndi hafi verið svo langt á eftir stefnanda í sínu verki.
Í málinu hafa einnig verið lagðar fram nokkrar fundargerðir verkfunda. Á verkfundi 26. maí 2000 kemur fram að verktaki kvartar yfir því að ekki sé búið að ganga frá samningum við landeigendur um efnistöku í námum. Vinna við malarflutning hafi því ekki getað hafist fyrr en 24. maí. Fram að þeim tíma hafi því verið mjög léleg nýting á tækjum og mannskap. Á verkfundi 8. júní 2000 kvartar verktaki yfir lagermálum. Þau séu í ólestri og alltof mikill tími fari í útvegun efnis og erfitt sé að ná til umsjónarmanns. Stundum komi í ljós að ekkert efni sé til staðar. Á verkfundi 7. júlí 2000 er bókað eftir stefnanda að hann geri kröfu um viðbótargreiðslu fyrir pípulögn. Krafan sé byggð á því að meira en 10 til 15 metrar séu frá vegi. Gerð sé krafa um 400 krónur fyrir hvern meter vegna þess að aðrar ráðstafanir hafi ekki verið gerðar til að auðvelda stefnanda aðgengi að lagnastæði.
Fram hafa verið lögð í málinu svör Rafns Kristjánssonar byggingatæknifræðings við fyrirspurn stefnanda varðandi verktilhögun almennt við sambærileg verk. Kemur m.a. fram í svörunum að algengast sé að verktaki leggi vegslóðann með allri æðinni. Unnt sé að sleppa vegslóða á þeim köflum þar sem lögnin liggi í gegnum tún eða eftir sléttum melum. Vegslóðar þessir séu fyrst og fremst lagðir til að tryggja það að unnt sé að komast að skurðinum með efni og tæki og til að koma í veg fyrir að landi sé spillt og ekki myndist drulluvilpa meðfram æðinni t.d. í mikilli rigningartíð. Þó séu þess dæmi að hitaveitulagnir hafi verið lagðar án þess að þurft hafi að leggja vegslóða. Þar sem farið sé yfir þýft land sé nauðsynlegt að leggja vegslóða með skurðstæði. Einnig þar sem farið sé yfir mýrlendi eða blaut tún. Þá geti verið nauðsynlegt að leggja síudúk undir vegslóða til að auka burðargetu slóðans. Þung tæki og flutningatæki geti auðveldlega sokkið í yfirborðið og fest sig með ófyrirséðum kostnaðarauka. Venjan sé sú að vegslóði sé hafður eins nærri lagnastæði og eðlilegt geti talist, þ.e.a.s. 1 til 1 1/2 meter frá skurðbakka. Venjulegast sé að pípur séu soðnar á skurðbakka á timburbitum og síðan settar á skurðbotninn þegar búið er að sanda hann. Gera megi ráð fyrir því að vanur suðumaður geti soðið 8 til 9 suður á dag að meðaltali en á góðum degi náist oft 10 til 12 suður. Ljóst sé að vegleysa meðfram skurðstæði geti tafið suðuvinnu og frágang samskeyta. Flutningur frá einum stað á annan taki mun lengri tíma heldur en að vinna verkið í samfellu með því að flytja rafsuðuvélar og annan búnað eftir vegslóða.
Á verkfundi 19. desember 2000 er bókað að verkkaupi hafi tekið við aðalæð hitaveiturnnar og hafið rekstur veitunnar. Þrýstiprófun lagnarinnar hafi verið gerð undir stjórn hönnuðar, Rúnars Magnússonar. Niðurstaðan hafi verið sú að lögnin hafi staðist prófanir. Verkinu sé því að fullu lokið.
Niðurstaða.
Stefndi tók að sér sem aðalverkaki að leggja hitaveitulögn fyrir verkkaupa, Hitaveitu Dalabyggðar. Lögnin er frá borholusvæði við Grafarlaug í Reykjardal og að byggð í Búðardal, um 30 km. leið. Stefndi sá um jarðvinnuþáttinn sjálfur en stefnandi tók að sér sem undirverktaki útkeyrslu lagnaefnis, útlagningu lagna og alla suðuvinnu og frágang við lagnir. Gerðu málsaðilar með sér samning þar að lútandi þann 4. maí 2000. Hafði stefnandi í sinni þjónustu suðumenn sem undirverktaka og önnuðust þeir hluta verksins. Framkvæmdir hófust síðari hluta maímánaðar en vinnu stefnanda lauk í lok ágúst er stefndi rifti samningi við hann. Samkomulag var um að taka verk stefnanda út eins og það stóð er riftun fór fram og var það gert 5. september 2000. Málsaðilar undirrituðu magnúttekt ásamt tæknifróðum fulltrúum sínum. Samkvæmt úttektinni skuldar stefndi stefnanda 3.664.029 krónur og er fyrsti kröfuliður stefnanda byggður á þeirri fjárhæð. Stefndi hefur viðurkennt réttmæti þessa reiknings svo og kröfur stefnanda um greiðslur vegna aukaverka að fjárhæð 654.400 krónur. Stefndi heldur því aftur á móti fram að hann eigi gagnkröfur á móti vegna galla á verkinu og tafa af hálfu stefnanda vegna vinnubragða hans og skipulagsleysis.
Stefnandi lét kyrrsetja eigur stefnda 10. október 2000 til tryggingar kröfum sínum.
Hitaveitulögnin var þrýstiprófuð í desember 2000 og stóðst prófanir. Hitaveita Dalabyggðar tók þá við aðalæð hitaveitunnar og hóf rekstur hennar án þess að gera athugasemdir við frágang stefnanda á hans verkþætti.
1. Reikningur vegna magnúttekta.
Krafa stefnanda samkvæmt þessum lið er byggð á magnúttektinni 15. september 2000 eftir riftun samningsins. Í úttektinni er reiknað út hversu mikið stefnandi hafi unnið af heildarverkinu. Niðurstaða aðila var að stefndi skuldaði stefnanda 3.664.029 krónur. Stefndi hefur viðurkennt reikninginn og fengið andvirði hanns greiddan hjá verkkaupa. Ber því að taka þennan kröfulið stefnanda til greina.
2. Aukaverk.
Krafa stefnanda vegna aukaverka að fjárhæð 654.400 krónur er í 22 liðum. Krafan er m.a. vegna flutnings á gröfu fyrir stefnda, aukaverka stefnanda við að útvega efni, vegna lagningar vegslóða, vegna þess að skipta hafi þurft um gölluð rör og fleira. Stefndi hefur mótmælt 1. lið vegna flutnings á gröfu á þeirri forsendu að stefnandi hafi lofað að flytja gröfuna ókeypis fyrir sig. Að öðru leyti hefur stefndi ekki mótmælt efnislega kröfu stefnanda um aukaverk. Ber því að taka kröfuna í heild sinni til greina enda ósannað gegn andmælum stefnanda að samist hafi svo um að flutningur gröfunnar yrði ókeypis.
3. Vegleysa. Vegslóðar.
Þessi krafa stefnanda að fjárhæð 2.326.400 krónur er byggð á því að hann hafi víða þurft að athafna sig á vegslóða meðfram hitaveitulögninni. Stefnda hafi borið að sjá til þess að stefnandi hefði viðunandi aðgang að lagnastæðinu. Stefnandi hefur gert grein fyrir því að tilboð hans í verkið hafi meðal annars verið byggt á þeirri forsendu að hann gæti ekið vörubifreið og öðrum tækjum eftir lagnastæðinu og flutt þannig rörin í búntum á verkstað, allt að 6 búntum í ferð eða 42 rör. Það hafi ekki gengið eftir vegna vegleysunnar og því hafi hann þurft að sækja eitt og eitt rör upp á þjóðveg og nota til þess vélgröfu í stað vörubifreiðar. Mikið óhagræði hafi verið að þessu en auk þess hafi mannskapurinn átt í erfiðleikum með að flytja önnur efni og tæki milli staða eftir lögninni eins og til dæmis rafsuðuvélar.
Ekki er kveðið sérstaklega á um það í samningi aðila hvernig með vegslóða skuli fara, en í honum segir þó að verkið skuli unnið samkvæmt verklýsingu frá Hitaveitu Dalabyggðar, sem fylgir samningnum og er hluti hans. Sannað þykir af skjölum málsins að útboðsaðili, Hitaveita Dalabyggðar, áætlaði að leggja þyrfti vegslóða með lögninni að hluta til. Í verklýsingu, kafla 2.2.1 segir: „Þar sem nauðsynlegt er að byggja slóða ofaná núverandi land er verktaka heimilt að nota fyllingarefni eins og notað er í undirbyggingu lagnar.“ Þá hefur komið fram við munnlegan málflutning að í útboðsgögnum var óskað eftir einingarverði í slóðagerð meðfram lögninni. Það er almenn tilhögun við verk eins og hér um ræðir að leggja slóða meðfram lögninni þar sem landfræðilegar aðstæður krefjast, annars vegar til að hlífa landi og hins vegar til að greiða fyrir flutningum á efni og tækjum að og frá vinnustað. Þetta er staðfest í umsögn Rafns Kristjánssonar, byggingartæknifræðings, sem minnst er á hér að framan. Þegar verk, eins og hér um ræðir, eru boðin út, er það ekki þekkt á hve löngum kafla muni þurfa að leggja slóða. Þess vegna er farið þannig að, að verkkaupi óskar í útboði eftir einingarverði, sem fastsett er í tilboðsskrá og er hluti verksamnings, en magntölur eru mældar út af fulltrúum samningsaðila í sameiningu eftir því sem verkinu miðar áfram og verkliðurinn gerður upp á grundvelli þeirra. Þótt stefndi hafi gert Hitaveitu Dalabyggðar tilboð í einingarverð í hvern meter slóða, þá er ekkert slíkt einingarverð fastsett í verksamningi stefnanda og stefnda.
Krafa stefnanda er um greiðslu á 5.816 metrum á kr. 400 krónur hvern meter. Í bréfi stefnda til sýslumanns, dags. 6. október 2000, og í greinargerð stefnda frá 6. desember 2000 kemur fram að hann telji ekki þörf á vegalagningu „nema í mesta lagi ca. 4 til 5 kílómetra leið.“ Hér er hann því að staðfesta það álit sitt að einhverra slóða hafi verið þörf. Einingarverð það sem stefnandi leggur til grundvallar er hóflegt að mati dómsins og með hliðsjón af framansögðu fellst dómurinn á réttmæti kröfu um endurgjld fyrir slóðalögn. Ekki hefur verið sýnt fram á að heildarlengd slóða hafi verið ákvörðuð af fulltrúum aðila í sameiningu. Af skjölum málsins svo sem af fundargerðum og áðurnefndri greinargerð stefnda frá 6. desember 2000, þar sem rætt er um sameiginlegt mat forráðamanna stefnda og eftirlitsmanns varðandi þá vegalengd, sem þörf hefði verið á vegslóða, telur dómurinn hana hæfilega ákvarðaðan 5000 metrar. Því er fallist er á að stefndi greiði stefnanda alls krónur 2.000.000 upp í þennan kröfulið. 4. Lögmannskostnaður og annar kostnaður vegna kyrrsetningargerðar.
Samkvæmt 1. tl. 129. greinar laga nr. 91/1991 fellur þessi kostnaður undir málskostnað og verður fjallað hér á eftir um þann þátt fyrir málið í heild.
5. Gagnkröfur stefnda.
Þanar.
Stefndi telur verk stefnanda gallað að því leyti að hann hafi ekki forspennt þana eins og áskilið hafi verið í útboðslýsingu. Þanarnir séu samtals 90 að tölu á 30 kílómetra leið. Telur hann að það muni kosta um 4.500.000 krónur að gera við þanana. Rúnar Magnússon, verkfræðingur hannaði hitaveitulögnina fyrir verkkaupa. Hann kom fyrir dóm og sagði að hann hefði gert athugasemdir við frágang þana 22. september 2000 þar sem þeir væru ekki forspenntir. Í samráði við framleiðanda þananna hafi verið ákveðið að styrkja þó suðu þana um 1 mm.
Í máli Rúnars kom jafnframt fram að verkkaupi hafi talið þennan frágang fullnægjandi skil á verkinu. Að framansögðu verður þessi gagnkrafa stefnda ekki tekin til greina.
Tafir.
Stefndi byggir þessa gagnkröfu á því að verkið hafi tafist um 25 daga af völdum stefnanda. Hver dagur leggi sig á 300.000 krónur og sé því skuldajafnaðarkrafa stefnda vegna tafa að fjárhæð 7.500.000 krónur.
Stefndi hefur lagt fram nokkur gögn þessari kröfu til stuðnings, þ.á.m. dagskýrslu. Heldur stefndi því fram að verkið hafi dregist m.a. vegna þess að stefnandi hafi ekki haft nægilegan mannskap í verkinu og að skort hafi skipulag og verkstjórn. Stefnandi hefur aftur á móti mótmælt þessari fullyrðingu stefnda og segir að tafir hafi orðið m.a. vegna þess að teikningar og efni hafi vantað í upphafi verks, vegna veðurs og vegna deilna um vegslóða.
Stefnandi var undirverktaki hjá stefnda. Í samningi þeirra er ekki kveðið á um hvenær einstaka verkþáttum skyldi lokið. Aðeins er kveðið á um í útboðsgögnum verkkaupa, sem var einnig hluti af samning aðila, að heildarverkinu skuli lokið 25. ágúst 2000. Dómurinn telur ósannað að þær tafir sem urðu á heildarverkinu stafi af verkþætti stefnanda.
Heimæðar og endursuða.
Stefndi telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna færslu á heimæðum við Álfheima og Miðskóga að fjárhæð 123.130 krónur. Stefnandi ber því við að hann hafi þurft að vinna þetta verk án teikninga og staðsett heimæðatengingar samkvæmt því sem skynsamlegt gat talist að höfðu samráði við eftirlitsaðila verksins. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda og verður því þessi gagnkrafa ekki tekin til greina enda þykir hún að öðru leyti órökstudd. Krafa vegna endursuðu hefur ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti og verður hún því ekki tekin til greina.
Fæðiskostnaður.
Stefnandi hefur samþykkt þessa gagnkröfu stefnda að fjárhæð 190.700 krónur og verður hún því tekin til greina. Stefnda er heimilt að skuldajafna þessa kröfu við kröfur stefnanda.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú að stefndi verður dæmdur til þess að greiða stefnanda 3.664.029 krónur vegna magnúttektar, 654.400 krónur vegna aukaverka og 2.000.000 krónur vegna vegleysu eða samtals 6.318.429 krónur. Til frádráttar kemur gagnkrafa stefnda að fjárhæð 190.700 krónur. Niðurstaðan verður því sú að stefndi verður dæmdur til þess að greiða stefnanda samtals 6.127.729 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er í stefnu en vaxtakröfu hefur ekki verið mótmælt.
Skilyrði kyrrsetningar þykja vera fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. Verður hún því staðfest fyrir ofangreindum fjárhæðum.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun og útlagðs kostnaðar stefnanda vegna þinglýsingar- og stimpilgjalda vegna kyrrsetningarinnar og annarra gjalda í ríkissjóð.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Gunnari Torfasyni og Ragnari Ingimarssyni verkfræðingum.
DÓMSORÐ
Stefndi, Nóntindur ehf, greiði stefnanda, Verkiðn ehf, 6.127.729 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 7. september 2000 til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað.
Staðfest er kyrrsetning sem gerð var 10. október 2000 fyrir ofangreindum fjárhæðum í Grundarbraut 4, Ólafsvík og í markaðsreikningi nr. 300528 í Búnaðarbanka Íslands hf., Kópavogi.