Hæstiréttur íslands

Mál nr. 672/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns


                                     

Miðvikudaginn 14. október 2015.

Nr. 672/2015.

A

(Teitur Már Sveinsson hdl.)

gegn

B

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Kærumál. Vistun barns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að A yrði vistaður utan heimilis í tólf mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. september 2015, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðili skyldi vistaður utan heimilis í tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað, en til vara að vistun utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. september 2015.

I.

Hinn 4. ágúst 2015 barst dóminum krafa sóknaraðila, B, dagsett sama dag, um vistun barns utan heimilis á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Varnaraðilar eru C, [...], [...], og ólögráða sonur hennar, A, með sama lögheimili.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær „að varnaraðili, verði vistaður utan heimilis í 12 mánuði á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“ og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Af hálfu varnaraðila, A, hér eftir kallaður varnaraðili, er þess krafist aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að hinni umkröfðu fósturráðstöfun verði markaður skemmri tími en 12 mánuðir. Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu að mati réttarins, með hliðsjón af tímaskýrslu, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Fyrir liggur að móðir varnaraðila, C, hefur samþykkt að sonur hennar verði vistaður utan heimilis og gerir hún ekki kröfu í máli þessu.     

II.

Fram kemur í greinargerð aðila að varnaraðili sé af [...] uppruna. Býr hann með móður sinni, C, og tveimur systkinum, bróðurnum D og systurinni E, á [...]. Varnaraðili fluttist hingað til lands [...], eftir að hafa dvalið í [...] í [...] Áður hafði fjölskyldan búið í [...] í [...] Fjölskyldan flúði þaðan í kjölfar þess að faðir varnaraðila var myrtur á árinu 2006, en á þeim tíma bjuggu [...] í [...] við miklar ofsóknir.

Fram kemur í greinargerð varnaraðila að honum hafi gengið nokkuð brösuglega að aðlagast íslensku samfélagi, svo sem eðlilegt megi teljast. Gefi augaleið að þær hremmingar sem varnaraðili hafi gengið í gegnum á lífsleiðinni og þau áföll sem hann hafi orðið fyrir, þrátt fyrir ungan aldur, séu þess eðlis að þau myndu setja mark sitt á hvern þann sem fyrir yrði. Þá fylgi því að sjálfsögðu mikið álag að flytja á milli svo ólíkra menningarheima sem varnaraðili hafi gert. Í samræmi við þetta hafi varnaraðili glímt við erfiðleika í skóla og þá hafi B haft afskipti af varnaraðila á heimili hans.

Afskipti barnaverndaryfirvalda munu hafa hafist í mars 2011 á grundvelli tilkynningar samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga. Af gögnum málsins verður ráðið að síðan þá hafi varnaraðili tvisvar farið í fóstur utan heimilis, í fyrra sinnið í október 2011 fram til maí 2012 og aftur í sumarbyrjun 2014 og fram til hausts sama ár. Þá hefur varnaraðili verið vistaður neyðarvistun á Stuðlum nokkrum sinnum og sótt meðferð hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Auk þessa hefur varnaraðili verið til meðferðar hjá sálfræðingum og geðlækni.

Hinn 19. janúar 2015 skrifaði móðir varnaraðila undir yfirlýsingu á grundvelli 25. gr. laga nr. 80/2002, þar sem hún samþykkti að varnaraðili yrði vistaður á fósturheimili á vegum B frá janúar 2015 og til 18 ára aldurs. Í kjölfarið mun hafa verið sótt um styrkt fóstur til Barnaverndarstofu. Hinn 12. maí 2015 skrifaði móðir varnaraðila undir áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002 þar sem markmiðum fyrirhugaðrar vistunar var lýst og farið yfir þann stuðning sem fyrirhugað var að veita. Kom og fram í áætluninni að úrskurður barnaverndarnefndar um vistun utan heimilis myndi liggja fyrir áður en til fósturvistunar kæmi, en gert var ráð fyrir að varnaraðili myndi byrja á því að fara á Stuðla þar sem hann yrði undirbúinn fyrir vistunina. Hinn 11. júní 2015 tilkynnti Barnaverndarstofa B svo að hún veitti samþykki sitt fyrir vistun varnaraðila á Stuðlum, enda lægi fyrir úrskurður barnaverndarnefndar í þá veru.

B kvað upp úrskurð í máli varnaraðila 16. júní 2015. Í niðurstöðu úrskurðarins kemur fram að varnaraðili hefði sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun gagnvart móður sinni og systkinum. Þá hafi verið reynd ýmis úrræði til stuðnings fjölskyldunni og varnaraðila en þau ekki skilað tilætluðum árangri. Væri það álit barnaverndarnefndar að fullreynt væri að hafa varnaraðila á heimili með móður sinni og systkinum. Stæðu því brýnir hagsmunir móður og systkina til þess að varnaraðili færi af heimilinu og að hann fengi viðeigandi meðferð og hjálp til að vinna bug á hegðunarvanda sínum. Var því tekin ákvörðun um að vista varnaraðila utan heimilis í allt að tvo mánuði á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002, frá 5. júní að telja, til að hefja meðferð í samræmi við fyrirliggjandi meðferðaráætlun sem móðir varnaraðila hafði þegar samþykkt.

Hinn 25. júní 2015 skrifuðu varnaraðili og móðir hans undir aðra áætlun samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt áætluninni var það markmið hennar að koma í veg fyrir ofbeldi á heimili, að varnaraðili myndi sinna sínu, eins og það var orðað, og að móðir varnaraðila myndi vernda börnin heima og láta vita ef ofbeldi yrði beitt heima fyrir. Kom og fram í áætluninni að ef ítrekaðar uppákomur yrðu heima þætti ljóst að fullreynt yrði að hafa varnaraðila heima og yrði þá að skoða aðra dvalarstaði fyrir hann, s.s. meðferð á vegum ríkisins eða heimili sem rekin væru af ríkinu.

Hinn 30. júlí 2015 gerði B áætlun samkvæmt 33. gr. laga nr. 80/2002. Kom þar fram að varnaraðili hefði þá verið vistaður neyðarvistun á Stuðlum. Væri óskað eftir því að hann myndi komast á meðferðardeild Stuðla með það að markmiði að gert yrði mat á frekari meðferðarþörf hans og barnaverndarnefnd gefnar tillögur þar að lútandi varðandi næstu skref. Kom og fram að fullreynt væri að varnaraðili dveldist á heimili sínu og ljóst væri að hann þyrfti önnur úrræði svo að unnt væri að tryggja öryggi fjölskyldu hans og hans sjálfs.

Á fundi B 4. ágúst 2015 var mál varnaraðila enn tekið fyrir og tekin ákvörðun um að fela lögmanni að gera kröfu fyrir héraðsdómi um vistun varnaraðila utan heimilis í 12 mánuði. Kom fram að varnaraðili hefði verið ófús að ræða við starfsmenn barnaverndarnefndar þegar þeir hefðu farið til fundar við hann á Stuðlum nokkrum dögum fyrr og þá hefði hann afþakkað talsmann. Var það mat nefndarinnar að það hefði verið þýðingarlaust að fá varnaraðila á fund nefndarinnar.

Við aðalmeðferð málsins var tekin símaskýrsla af forstöðumanni Stuðla, , Funa Sigurðssyni.

III.

Sóknaraðili vísar til þess að ástæða úrskurðar barnaverndarnefndar hafi verið sú að varnaraðilinn, A, hafi ítrekað sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun gagnvart móður sinni og systkinum og áreitt móður sína kynferðislega. Þá hafi hann einnig haft í frammi hótanir um að drepa sjálfan sig og aðra.

Varnaraðili sé 16 ára gamall, en hann hafi flutt til landsins með móður sinni og systkinum árið [...] sem [...] frá [...]. Allt frá komu hans til landsins hafi félagsþjónusta [...] og starfsmenn barnaverndar haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar. Reynd hafi verið ýmis úrræði til stuðnings fjölskyldunni og drengnum en þau hafi ekki borið árangur. Samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir hafi drengurinn engan skilning á þeim vanda sem hegðun hans valdi og hafi hann ekki sýnt mikinn vilja til þess að takast á við hegðunarvanda sinn. Lögregla hafi þurft að hafa afskipti af heimilinu vegna hegðunar varnaraðila en hann hafi m.a. stungið bróður sinn í handlegginn í átökum.

Sóknaraðili vísar til þess að í fyrirliggjandi gögnum sé rakið hvernig varnaraðili hafi beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi og tilgreind þau fjölmörgu úrræði sem hafi verið reynd til þess að aðstoða hann og fjölskylduna vegna málsins. Þannig hafi varnaraðili verið í viðtölum hjá sálfræðingum og barna- og unglingageðlæknum. Þá hafi hann einnig verið vistaður nokkrum sinnum á meðferðardeild Stuðla og á barna- og unglingageðdeild, ásamt því að hafa verið í fóstri.

Varnaraðili hafi neitað að nýta sér persónulega ráðgjafa, stuðningsfjölskyldu og önnur úrræði sem honum hafi verið boðið. Þá hafi hann einnig neitað að nýta sér þjónustu talsmanns sem honum hafi verið skipaður við meðferð máls hans hjá barnaverndarnefnd. Móðir hans hafi reynt allt sem hún geti til að bæta ástandið á heimilinu en nái ekki að setja drengnum skýr mörk. Hinn 19. janúar 2015 hafi hún veitt samþykki sitt fyrir vistun drengsins á fósturheimili á vegum sóknaraðila til 18 ára aldurs hans, sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga.

Að mati barnaverndarnefndar sé fullreynt að hafa drenginn á heimili  með móður sinni og systkinum og brýnir hagsmunir móður og systkina hans leiði til þess að farið sé fram á að hann verði áfram vistaður utan heimilis í 12 mánuði meðan reynt verði að veita honum viðeigandi meðferð og hjálp til að vinna bug á hegðunarvanda sínum. Varnaraðili hafi lýst því yfir að hann sé ósáttur við þá ráðstöfun og vilji fara aftur heim til móður sinnar og systkina.

IV.

Varnaraðili bendir í fyrsta lagi á að hann hafi hvorki notið aðstoðar talsmanns eða lögmanns þegar áðurgreindur úrskurður B um vistun hans utan heimilis var kveðinn upp. Liggi þannig fyrir að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp án þess að varnaraðili fengi komið að sjónarmiðum sínum og mótmælum. Fór svo fram þrátt fyrir að skýrlega sé tekið fram í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 80/2002, sbr. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að aðili barnaverndarmáls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þ.m.t. með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lúti að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveði upp úrskurð. Er og tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni, sem sé aðili máls, fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. greinarinnar og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála.

Varnaraðila hafi í tvígang verið skipaður talsmaður vegna meðferðar málsins hjá barnaverndaryfirvöldum. Í báðum tilvikum muni hins vegar hafa verið um að ræða talsmann sem barnaverndarnefnd sjálf hafi valið, án aðkomu varnaraðila. Þá hafi í báðum tilvikum verið um að ræða kennara en ekki lögmann. Varnaraðili hafi hins vegar átt skýlausan rétt á að njóta aðstoðar lögmanns samkvæmt greindu ákvæði 47. gr. laga nr. 80/2002, allt frá því að hann hafi orðið aðili málsins við 15 ára aldur, sbr. 1. mgr. 46. gr. laganna, og sérstaklega þegar fyrir hafi legið að til stæði að kveða á um vistun hans utan heimilis með úrskurði á grundvelli 27. gr. laga nr. 80/2002. Hafi varnaraðili átt rétt á því að velja sér þann lögmann sjálfur án aðkomu barnaverndaryfirvalda. Þá hafi varnaraðili átt skýlausa kröfu til þess að honum yrði leiðbeint um þann rétt, sbr. 40. gr. laga nr. 80/2002, sbr. og 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafa verði í huga í þessu sambandi að varnaraðili sé einungis 15 ára gamall og hafi alist upp við aðstæður og menningu sem sé gjörólík því sem þekkist hér á landi. Sé því ekki unnt að slá föstu að hann geri sér grein fyrir þýðingu eða mikilvægi þeirra réttinda sem honum séu tryggð í lögum nema þau séu útskýrð nákvæmlega fyrir honum, eftir atvikum með aðstoð túlks. Sé þá haft í huga að ekki liggi fyrir hversu vel varnaraðili skilji íslenskt mál. Þá megi enn fremur gera ráð fyrir að varnaraðili líti á afskipti barnaverndaryfirvalda sem yfirgang og persónulega aðför gegn sér. Leiði hvort tveggja til þess að það hafi verið enn mikilvægara en ella að varnaraðila væri ítarlega leiðbeint um rétt sinn til að njóta aðstoðar löglærðs talsmanns samkvæmt ofangreindum ákvæðum. Þessa hafi hins vegar í engu verið gætt en látið við það sitja að bóka um það í fundargerð að varnaraðili hefði afþakkað talsmann og að talið væri þýðingarlaust að fá hann á fund barnaverndarnefndar. Verði og að hafa í huga í þessu sambandi að þessi annmarki á málsmeðferð barnaverndaryfirvalda hafi leitt til þess að varnaraðili hafi orðið af þeim rétti sínum að kæra úrskurð barnaverndarnefndar frá 16. júní 2015 til héraðsdóms skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002. Sé þetta sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að krafa sóknaraðila um vistun varnaraðila utan heimilis í 12 mánuði byggist á umræddum úrskurði barnaverndarnefndar, sbr. 28. gr. laga nr. 80/2002. Að mati varnaraðila leiði þessi stórfelldi annmarki á meðferð málsins þá þegar til þess að hafna verður kröfu sóknaraðila.

Með því að varnaraðila hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að andmælum sínum og gæta að öðru leyti réttinda sinna við meðferð málsins fyrir barnaverndarnefnd, og þá með aðstoð lögmanns, sé ljóst að barnaverndaryfirvöld hafi brotið gegn lögmæltri rannsóknarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 80/2002, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Gefi augaleið að mál geti aldrei talist nægjanlega rannsakað þegar aðilum þess sé ekki gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, allra síst þegar sérstaklega sé áréttað í lögum að sjónarmið aðila eigi að fá að koma fram, sbr. hér 2. mgr. 46. gr. laga nr. 80/2002. Að mati varnaraðila leiði þetta eitt og sér til þess að hafna verði kröfu sóknaraðila.

Með vísan til framangreinds ákvæðis 2. mgr. 46. gr. laga nr. 80/2002 sé ljóst að taka beri réttmætt tillit til afstöðu varnaraðila til hinnar framkomnu kröfu sóknaraðila. Sú afstaða varnaraðila sé skýr. Varnaraðili hafni kröfunni og sé alfarið mótfallinn því að hann verði vistaður utan heimilis síns í 12 mánuði. Telji hann enga þörf á hinni fyrirhuguðu vistun og að hans mati muni slík vistun verða honum fremur til ills en góðs. Að mati varnaraðila séu önnur vægari úrræði fyrir hendi til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt.

Hafa verður í huga að þótt varnaraðila hafi gengið brösuglega að fóta sig eftir komuna hingað til lands þá standi hann vel á ýmsum sviðum. Þannig hafi hann lokið grunnskóla og hafi nú innritað sig í nám við Fjölbrautaskóla [...]. Standi vilji hans eindregið til þess að stunda þar nám með jafnöldrum sínum og félögum. Þá stundi hann líkamsrækt af kappi og hafi hann m.a. um tíma verið í skólahreystiliði grunnskóla síns. Hafi varnaraðili hug á því að dvelja á heimavist fjölbrautaskólans á meðan á námi hans standi, en að mati varnaraðila kynni þar að vera komin lausn á því vandamáli sem félagsmálayfirvöld telji að felist í búsetu hans á heimili fjölskyldu sinnar.

Í ljósi eindreginnar neikvæðrar afstöðu varnaraðila, sem sé að nálgast 16 ára aldur, til hinnar umkröfðu fósturvistunar, sé ljóst að ekki sé unnt að fallast á kröfu sóknaraðila um vistun hans utan heimilis í 12 mánuði.

Varnaraðili bendir á að skv. 2. mgr. 1. gr. barnalaga verði alltaf að hafa í huga það sem barni sé fyrir bestu. Þá beri skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002 að beita þeim ráðstöfunum í barnaverndarstarfi sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og þá skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Að mati varnaraðila sé það augljóst að það geti ekki verið tæplega 16 ára barni fyrir bestu að vista það utan heimilis í fullkominni andstöðu við vilja þess sjálfs. Að mati varnaraðila sé slík ráðstöfun einungis til þess fallin að auka á þann vanda sem til staðar sé og eigi það bæði við meðan vistunin standi og til lengri framtíðar litið. Sé áréttað í því sambandi að taka beri fullt tillit til sjónarmiða varnaraðila hvað þetta varði, en það sé mat hans að hin umkrafða vistun stríði gegn hagsmunum hans og sé honum ekki fyrir bestu. Hafi sóknaraðili ekki fært fram sönnur fyrir hinu gagnstæða. Að mati varnaraðila leiði þetta eitt og sér til þess að hafna verði kröfu sóknaraðila.

Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002 skuli barnaverndaryfirvöld gæta þess eftir föngum að almenn úrræði séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Skuli þannig aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Ljóst sé að auðveldlega megi grípa til vægari úrræða en vistunar utan heimilis í 12 mánuði í því tilviki sem hér um ræði. Liggi þannig fyrir að vilji varnaraðila standi til þess að dvelja á heimavist Fjölbrautaskólans [...] á meðan hann stundi þar nám sitt. Fæli slík ráðstöfun að sjálfsögðu í sér mun vægara úrræði en vistun utan heimilis en af kröfu sóknaraðila verður ráðið að markmið hennar sé fyrst og fremst það að koma varnaraðila út af heimili sínu.

Verði ekki talið fært að varnaraðili dveljist á heimavist fjölbrautaskólans geri varnaraðili þá kröfu að hann fái að dvelja áfram á heimili sínu. Þurfi vart að fara mörgum orðum um hve þungbært það muni verða varnaraðila að verða tekinn af heimili fjölskyldu sinnar og vistaður utan þess í eitt ár, hvað þá þegar slík ráðstöfun hafi verið samþykkt af móður hans. Gefi augaleið að undir slíkum kringumstæðum verði öll önnur úrræði að hafa verið reynd til hlítar áður en til greina komi að samþykkja slíka ráðstöfun. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að það hafi verið gert, t.d. með auknum stuðningi eða frekari meðferð til þess bærra aðila, en um það beri sóknaraðili að sjálfsögðu alla sönnunarbyrði.

Hafa verði í huga í þessu sambandi að fyrri vistanir varnaraðila utan heimilis hafi ekki borið þann árangur sem að hafi verið stefnt. Verði þvert á móti ekki annað ráðið en að barnaverndaryfirvöld telji að sá vandi sem felist í dvöl varnaraðila á heimili sínu hafi farið vaxandi, svo sem hin framlagða vistunarkrafa þeirra sýni. Á það sama við um tortryggni varnaraðila gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Sé samkvæmt því enn mikilvægara að önnur og vægari úrræði séu reynd til þrautar áður en gripið verði til jafn íþyngjandi úrræðis og að vista varnaraðila utan heimilis í eitt ár, enda fæli slíkt aðeins í sér að verið væri að færa ætlaðan vanda úr stað, í stað þess að ráðast að rótum hans.

Varnaraðili árétti jafnframt í þessu sambandi að þrátt fyrir ungan aldur hafi hann þurft að ganga í gegnum miklar hremmingar á lífsleiðinni og upplifa mikil áföll. Sé því enn mikilvægara en ella að reyna til þrautar öll hugsanleg úrræði til þess að varnaraðili geti fengið að þroskast og dafna í eðlilegu umhverfi. Að teknu tilliti til fortíðar varnaraðila verður að forðast í lengstu lög að grípa til aðgerða sem fela það í sér að hann sé færður gegn eigin vilja frá heimili sínu og öllum þeim sem hann þekkir og þykir vænt um og á stað sem honum er ókunnugur.

Vilji svo ólíklega til að kröfu sóknaraðila verði ekki hafnað á grundvelli framangreindra sjónarmiða verði að mati varnaraðila í öllu falli að marka hinni umkröfðu fósturvistun mun skemmri tíma en tólf mánuði með hliðsjón af áðurgreindum meðalhófssjónarmiðum. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili í engu sýnt fram á nauðsyn þess að hin umkrafða vistun standi svo lengi sem krafa hans standi til, en um það beri sóknaraðili alla sönnunarbyrði. Verði sérstaklega að hafa í huga í því sambandi þann litla árangur sem fyrri vistanir hafi borið. Þar til sóknaraðili hafi sýnt fram á nauðsyn þess að vistun varnaraðila standi í fulla tólf mánuði verði að hafna kröfu hans þar um og marka ráðstöfuninni skemmri tíma að mati dómsins. 

Með vísan til alls þess sem að ofan greini telji varnaraðili ljóst að hafna verði kröfu sóknaraðila. Komi þar bæði til þeir stórfelldu annmarkar sem meðferð barnaverndaryfirvalda á máli varnaraðila hafi verið haldin sem og skortur á nauðsyn þess að vista varnaraðila utan heimilis síns, hvað þá í svo langan tíma sem krafist sé. Varnaraðili bendi á að um verulega íþyngjandi úrræði sé að ræða, sem feli í sér verulegt inngrip í einkalíf og friðhelgi hans, sem þó eigi að njóta verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

V.

Í máli þessu er til úrslausnar krafa sóknaraðila um að varnaraðili, A, 15 ára að aldri, verði vistaður utan heimilis síns í tólf mánuði á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en áður hafði B komist að þeirri niðurstöðu með úrskurði 16. júní 2015 að varnaraðili skyldi vistaður utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 5. júní að telja.

Enda þótt varnaraðili hafi við uppkvaðningu úrskurðar barnaverndar verið orðinn 15 ára gamall, og þar af leiðandi talist sjálfstæður aðili framangreinds máls fyrir barnaverndarnefnd skv. 47. gr. laga nr. 80/2002, er óumdeilt að hann naut ekki lögmannsaðstoðar við meðferð málsins fyrir nefndinni eins og honum bar á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis heldur einungis aðstoðar ólöglærðs skipaðs talmanns. Hefur varnaraðili borið því við að þetta ásamt fleiri atriðum er hann telur að hafi verið áfátt við undirbúning framangreindrar ákvörðunar hljóti að hafa þá réttarverkan að hafna beri kröfu sóknaraðila hér fyrir dómi. Þrátt fyrir að dómkrafa sóknaraðila miðist við að vistun varnaraðila utan heimilis í tólf mánuði komi í framhaldi af vistun hans á grundvelli úrskurðar barnaverndarnefndar, og sé þannig nátengd þeim úrskurði, þá var sú ákvörðun nefndarinnar ekki borin undir dóminn með heimild í 2. mgr. 27. gr. og getur gildi hennar því ekki komið til umfjöllunar í máli þessu. Verður því þegar af þeirri ástæðu ekki á það fallist með varnaraðila að hafna beri kröfu sóknaraðila á þeim forsendum.

Fyrir liggur í málinu að starfsmenn barnaverndaryfirvalda og lögregla hafa í fjölmörg skipti, allt frá því í mars 2011, þurft að hafa afskipti af varnaraðila vegna ofsakasta hans á heimili hans, sem sérstaklega hafa beinst að móður hans eða systkinum. Hefur varnaraðili verið vistaður neyðarvistun á Stuðlum nokkrum sinnum vegna ógnandi hegðunar og sótt meðferð hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þá hefur hann tvisvar farið í fóstur utan heimilis, í fyrra sinnið í október 2011 fram til maí 2012 og aftur í sumarbyrjun 2014 og fram til hausts sama ár, auk þess sem hann var til meðferðar hjá sálfræðingum og geðlækni. Fyrir liggja í málinu umsagnir meðferðaraðila, bæði sálfræðinga og félagsráðgjafa, sem hafa haft varnaraðila til meðferðar með einum eða öðrum hætti sem hníga eindregið í þá átt að dvöl hans hjá fósturforeldrum hafi haft jákvæð áhrif á framkomu hans og tilfinningalegt jafnvægi. Verður og ráðið að móðir varnaraðila sé engan veginn í stakk búin til að setja syni sínum skýr mörk og sinna honum á þann hátt sem nauðsyn krefur og að það sé bæði honum og fjölskyldu hans fyrir bestu að hann verði vistaður utan heimilis þar sem hann muni fá aðstoð og stuðning sem hann þurfi á að halda. Hafa ekki komið fram sérfræðileg gögn, sem ganga gegn þessu mati. Verður hvorki séð að vægari úrræði eins og dvöl hans á heimavist fjölbrautaskólans né áframhaldandi dvöl hans á heimilinu með auknum stuðningi, geti komið í stað þessa þannig að sömu markmiðum verði náð.

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið, og að virtu samþykki móður sem áður hefur verið lýst, er það niðurstaða dómsins að þrátt fyrir eindregna andstöðu varnaraðila sjálfs verði ekki hjá því komist að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði vistaður utan heimilis í tólf mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðarins að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hans, 900.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnaður lögmannsins, 34.336 krónur.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan en uppkvaðningin hefur dregist fram yfir þann frest sem tiltekinn er í 6. mgr. 63. gr. laga nr. 80/2002 vegna veikinda dómara.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, til heimilis að [...], [...], sem lýtur forsjár varnaraðila, C, skal vistaður utan heimilis, á vegum sóknaraðila, í tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, A greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hans, 900.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnaður lögmannsins, 34.336 krónur.