Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2007
Lykilorð
- Óvígð sambúð
- Fasteignakaup
- Samningur
- Forsenda
- Fjárskipti
- Auðgun
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2008. |
|
Nr. 200/2007. |
K(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) gegn M (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Óvígð sambúð. Fasteignakaup. Samningur. Forsendur. Fjárskipti. Auðgun.
M og K bjuggu í óvígðri sambúð frá mars 1998 til maí 2004. K hafði fest kaup á íbúð fyrir 11.400.000 krónur við upphaf sambúðarinnar og fjármagnaði kaupin með sölu annarrar fasteignar og tveimur veðlánum að fjárhæð 6.035.000 krónur. Á sambúðartímanum greiddi M afborganir af áhvílandi lánum, sem samtals námu 3.454.207 krónum. Eftir sambúðarslitin krafðist M endurgreiðslu þessarar fjárhæðar úr hendi K. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að töluverð fjárhagsleg samstaða virtist hafa verið með M og K á sambúðartímanum. M var ekki talinn hafa leitt sönnur að því að þessar greiðslur hefðu átt að vera framlag hans samkvæmt samningi um hlutdeild í eign K sem honum bæri að fá endurgreitt vegna brostinna forsendna. Yrði frekar að telja að þær hefðu verið framlag hans til heimilisins án sérstaks samkomulags um að þær leiddu til eignamyndunar. Þá var ekki fallist á að M hefði sýnt fram á að grundvöllur væri fyrir kröfu hans samkvæmt óskráðri bótareglu um óréttmæta auðgun. Var K því sýknuð af kröfu M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. apríl 2007. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og nánar greinir í héraðsdómi hófu aðilar máls þessa óvígða sambúð í mars 1998 er stefndi flutti í fasteign áfrýjanda sem hún hafði keypt samkvæmt kaupsamningi 30. janúar 1998 fyrir 11.400.000 krónur. Kaup sín fjármagnaði áfrýjandi með sölu annarrar fasteignar og með tveimur veðlánum samtals að fjárhæð 6.035.000 krónur. Mánaðarlegar afborganir af lánunum munu hafa numið um það bil 55.000 krónum. Í byrjun janúar 1999 hóf stefndi að greiða afborganir af lánunum og gerði hann það allt til og með maí 2004. Sambúð aðila lauk 1. júní 2004. Samtals námu greiðslur þær sem stefndi innti af hendi 3.454.207 krónum, sem er sú fjárhæð er héraðsdómur dæmdi áfrýjanda til að greiða stefnda með tilgreindum dráttarvöxtum frá þingfestingardegi málsins í héraði.
Telja verður að málatilbúnaður stefnda sé nægilega glöggur um að ekki sé reist á sjónarmiðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. varðandi sameiginlegt framlag til eignamyndunar á sambúðartíma, heldur að hann reisi kröfu sína aðallega á því að sérstakur samningur hafi komist á milli málsaðila um eignarrétt hans að hlut í fasteigninni sem nemi þeim fjárhæðum sem hann innti af hendi í þessu skyni. Forsendur samningsins hafi brostið er sambúð aðilanna lauk og hafi stefndi þá öðlast rétt til endurgreiðslu á því fé, sem hann lét af hendi í þessu skyni, í stað þeirra umsömdu verðmæta er hann fékk ekki. Einnig byggir stefndi á því að honum beri endurgreiðsla umræddrar fjárhæðar burtséð frá því hvort sönnun hafi tekist um slíkan samning eða hvort áfrýjandi hafi viðurkennt skyldu sína til endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Líta beri svo á að stefndi hafi með greiðslunum einum og sér átt að eignast hlutdeild í fasteigninni. Þær hafi verið bundnar þeirri forsendu að aðilar væru í óvígðri sambúð, en sú forsenda hafi brostið er sambúð þeirra lauk. Þá hefur stefndi reist kröfu sína á ólögfestri reglu um óréttmæta auðgun.
II
Samkvæmt framansögðu freistar stefndi þess í fyrsta lagi að sanna að hann hafi greitt afborganir af veðlánum er hvíldu á fasteign áfrýjanda til þess að eignast ótilgreindan hluta af fasteigninni á grundvelli samkomulags þess efnis milli þeirra. Málsaðilar gerðu ekki með sér skriflegan samning, en stefndi telur að vegna greiðslna sinna sé nægilega í ljós leitt að slíkur samningur hafi komist á og hvert efni hans hafi verið.
Eins og að framan greinir flutti stefndi í fasteign áfrýjanda við upphaf sambúðar þeirra og bjó þar án sérstakrar leigugreiðslu meðan á sambúð þeirra stóð, en greiddi á tilteknu tímabili afborganir af lánum sem hvíldu á húsinu, eða um 55.000 krónur í hverjum mánuði. Er fjárhagslegum samskiptum aðila málsins lýst frekar í héraðsdómi, en svo virðist sem töluverð fjárhagsleg samstaða hafi verið með þeim. Aðspurður fyrir héraðsdómi um hvort aðilar hefðu rætt eitthvað um að greiðslur þessar skyldu leiða til þess að stefndi myndi eignast hlutdeild í fasteign áfrýjanda þá sagði stefndi: „Sko ég á mjög erfitt með að fara að endurtaka svona eitthvað eftir öll þessi ár en það var allavega imprað á þessu, ég man það.“ Síðar við skýrslugjöfina kom fram að hann hefði líklega ekki nefnt við áfrýjanda að hann myndi koma með endurkröfu síðar eða líta á þessar greiðslur sem einhvers konar lán. Þegar litið er til framanritaðs og þess að málsaðilar voru í óvígðri sambúð, þar sem fjárhagsleg samstaða tókst með þeim, verður ekki talið að stefnda hafi tekist sönnun fyrir því að greiðslur þessar hafi átt að vera framlag hans samkvæmt samningi um hlutdeild í eign áfrýjanda sem stefnda beri að fá endurgreitt vegna brostinnar forsendu samningsins. Verður frekar að telja framangreindar greiðslur framlag stefnda til heimilisins á sambúðartíma án sérstaks samkomulags um að þær ættu að leiða til eignamyndunar. Heildarskipti á búi aðila eru ekki til meðferðar í þessu máli. Loks hefur stefndi ekki sýnt fram á að grundvöllur sé fyrir kröfu hans samkvæmt óskráðri bótareglu um óréttmæta auðgun. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.
Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, K, skal vera sýkn af kröfu stefnda, M.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M, [...], Reykjavík, gegn K, [...], Kópavogi, með stefnu birtri 30. júní 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 10.192.265 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. október 2004 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi að stefnda greiði stefnanda 3.454.207 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. október 2004 til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi að stefnda greiði stefnanda fjárhæð að mati dómsins ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. október 2004 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er krafist vaxtavaxta og að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til innheimtuskyldu lögmanna á virðisaukaskatti í ríkissjóð.
Málsatvik
Stefnandi og stefnda hófu sambúð í mars 1998 þegar stefnandi flutti ásamt 10 ára gömlum syni sínum inn í fasteign stefndu að X sem hún var þá nýbúin að festa kaup á. Þau skráðu sig hins vegar ekki í óvígða sambúð fyrr en frá og með 1. janúar 2002. Stefnda átti áður 4-5 herbergja íbúð í [...] í Kópavogi og seldi hún hana í ársbyrjun 1998. Á þessum tíma skuldaði stefnandi 4.500.000 kr. en þá hafði stefnandi selt sína eign í [...]. Sambúðinni lauk svo 1. júní 2004. Við sambúðarslit flutti stefnandi út úr húsnæðinu en stefnda seldi fasteignina X. Stefnandi greiddi afborganir af lánunum sem á íbúðinni hvíldu á sambúðartímanum. Ágreiningur er milli aðila um það hvort svo hafi samist með þeim að stefnandi tæki ekki þátt í greiðslu útborgunar við kaup fasteignarinnar heldur tæki að sér að greiða mánaðarlegar afborganir af lánum sem stefnda tók til að fjármagna fasteignakaupin. Telur stefnandi að milli aðila hafi verið samkomulag um það að hann myndi með þessu eignast ótilgreinda hlutdeild í fasteigninni. Samtals greiddi stefnandi 3.454.207 kr. í afborganir af lánum sem hvíldu á fasteigninni á tímabilinu frá byrjun janúar 1999 til loka maí 2004. Um var að ræða afborganir af tveimur fasteignaveðbréfum vegna lána sem stefnda tók. Stefnda ber því hins vegar við að afborganir af húsnæðislánum hafi verið greiddar af reikningi stefnanda með skuldfærslu einungis vegna hagræðis, en stefnandi hafi haft þjónustufulltrúa í sínum viðskiptabanka. Allt eins hefði verið hægt að greiða af reikningi hennar, en litið hafi verið á allan reksturskostnað heimilisins sem eitt. Töluverðar endurbætur voru gerðar á fasteigninni sem stefnda keypti á sambúðartíma aðila. Á sambúðartíma lagði stefnandi mánaðarlega inn á reikning stefndu fjárhæð á bilinu 100.000 til 200.000 kr. Samtals greiddi stefnandi þannig 6.738.058 kr. á tímabilinu frá 16. október 1998 til 21. janúar 2005.
Stefnandi er læknir að mennt og starfaði sem slíkur á meðan sambúð aðila stóð með góðar tekjur. Sonur stefnanda bjó á heimili aðila og tvær dætur stefndu, önnur í eitt ár en hin í eitt og hálft ár. Stefnandi fékk meðlagsgreiðslu með syni sínum. Stefnda vann fyrir sambúðina með stefnanda fullan vinnudag og fram í október 1999. Þá minnkaði stefnda starfshlutfall í 60% og vann svo á bilinu 60-80% þar til hún fór aftur að vinna fullan vinnudag í september 2003. Stefnandi framkvæmdi fjölda svæfinga á dag sem svæfingalæknir. Stefnda kvaðst hafa minnkað vinnu sína gagngert í því skyni að hugsa um son stefnanda og heimilishald. Þá sinnti hún ritarastörfum fyrir stefnanda. Stefndu voru ekki greidd laun fyrir vinnu sína. Stefnda kveðst hafa lagt til hliðar starfsframa í þágu velgengni stefnanda. Stefnda er menntaður sjúkraþjálfari.
Stefnda kveðst hafa séð um uppeldi sonar stefnanda og verið til staðar á heimilinu. Með því hafi stefnandi stundað vinnu sína áhyggjulaus um velferð sonarins. Stefnda sá um heimilið og að mestu leyti um innkaup og snúninga fyrir heimilið. Framlögð afrit kreditkortareikninga og bankayfirlita stefndu sína þetta glögglega. ´
Á sambúðartímanum fjárfesti stefnandi í svæfingavél, sem seld var í janúar 2005 á 3.000.000 kr., vélsleða fyrir 700.000 kr. og Terrano jeppa fyrir 5.000.000 kr. Auk þessa byggði stefnandi upp einkahlutafélagi Y.
Aðilar hafa ekki náð samkomulagi um fjárskipti sín eftir sambúðarslitin og hefur stefnandi af þeim sökum höfðað mál þetta.
Málsástæður stefnanda
Aðalkrafa stefnanda um að stefnda greiði honum kr. 10.162.265 er tvíþætt og sundurliðist þannig:
1. Vegna afborgana af fasteignaláni stefndu 3.454.207 kr.
2. Vegna innborgana inn á reikning stefndu 6.738.058 kr.
Stefnandi byggir kröfu um greiðslu 3.454.207 kr. á því að hann hafi greitt allar afborganir af fasteignalánum stefndu frá ársbyrjun 1999 til maí 2004 og þar með talið sig hafa eignast ótilgreindan hlut í fasteign stefndu og að samkomulag hafi verið milli aðila um það. Er sambúð aðila lauk hafi forsendur þessa samkomulags brostið með þeim afleiðingum að stefnandi hafi öðlast rétt til endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hann hafi látið af hendi rakna til afborgana af áhvílandi veðlánum.
Stefnandi byggir kröfu um greiðslu 6.738.058 kr. á því að hann hafi greitt reglulega inn á bankareikning stefndu á sambúðartíma samtals þessa fjárhæð. Ljóst sé miðað við opinberar tölur frá Hagstofu Íslands um meðalneysluútgjöld sambýlisfólks án barna 2002 að framfærslukostnaður slíkrar fjölskyldu sé liðlega 3,5 m.kr. Stefnandi telji þannig að á sambúðartímanum hafi hann sjálfur innt af hendi a.m.k. sinn helming í eðlilegum reksturskostnaði heimilisins en til viðbótar greitt að stórum hluta hlutdeild stefndu í þessum kostnaði. Bankayfirlit stefnanda sýni að í gegnum reikninga hans hafi farið margvísleg heimilisútgjöld. Stefnandi geri því kröfu um að stefnda endurgreiði honum greiðslur vegna innborgana hans inn á reikning hennar.
Til vara krefst stefnandi þess að stefnda greiði honum 3.454.207 kr. vegna afborgana af fasteignaláni stefndu. Varakrafa sé hin sama og aðalkrafa að öðru leyti en því að frá höfuðstól hafi verið dregnar allar innborganir stefnanda inn á bankareikning stefndu, með þeim rökum að hægt væri að líta svo á að þessar greiðslur hafi verið til að standa straum af sameiginlegum útgjöldum heimilisins, þrátt fyrir það að stefnandi hafi borið stóran hluta þeirra gegnum eigin bankareikninga. Um rökstuðning fyrir varakröfu er vísað til umfjöllunar hér að framan um aðalkröfu.
Þrautavarakröfu sína um að stefnda greiði stefnanda fjárhæð að mati dómsins byggir stefnandi á því að gögn málsins sýni skýrt að hann hafi greitt til stefndu langt umfram það sem venjulegur framfærslukostnaður heimilisins hafi verið á sambúðartímanum. Hann eigi því á hana endurgreiðslukröfu, sem hann leggi í mat dómsins.
Stefnandi byggir kröfur sínar á almennri auðgunarreglu sem meðal annars hafi komið fram í dómi Hæstaréttar frá 19. júní 2003 í máli nr. 39/2003. Fjárkröfur stefnanda byggi þannig á því að honum sé rétt að hafa uppi auðgunarkröfu vegna fjárskipta hans og stefndu á sambúðartímanum og að líta verði á endurkröfur hans að því er varði innlagnir á bankareikning stefndu sem endurkröfur af þeim toga. Þá byggir stefnandi kröfur sínar á dómafordæmum sem myndast hafa um fjárskipti sambúðarfólks við sambúðarslit.
Stefnandi hafi fyrst krafið stefndu um endurgreiðslu með bréfi dags. 10. september 2004 og krefjist í öllum tilvikum dráttavaxta frá 10. október 2004 í samræmi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi hefur mótmælt öllum gagnkröfum stefndu í málinu og byggt á því sérstaklega að kröfu fyrir ritarastörf, sem stefnda hafi unnið fyrir félagið Y., sé ranglega beint að stefnanda.
Málsástæður stefndu
Kröfu sína um sýknu vegna endurgreiðslu á 3.454.207 kr., byggir stefnda á því að ekki hafi verið samkomulag um að stefnandi greiddi afborganir fasteignalána gegn því að eignast hlut í fasteign stefndu. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir slíkum fullyrðingum og gegn andmælum stefndu sé engin slík sönnun fyrir hendi. Stefnandi setji ekki aðrar málsástæður fram fyrir þessari kröfu sinni en að forsendur fyrir meintu samkomulagi hafi brostið og því eigi hann rétt til endurkröfu á greiddum fjárhæðum. Stefnandi beri sönnunarbyrði eins og áður segi fyrir staðhæfingum um slíkt samkomulag. Stefnda byggir á því að ekki hafi verið samið með þessum hætti og því hafi engar forsendur brostið. Sýkna beri því af þessari kröfugerð stefnanda.
Þá byggir stefnda á því að með aðilum hafi verið samkomulag þess efnis að umræddar fjárhæðir yrðu skuldfærðar af reikningi stefnanda í hagræðingarskyni, enda stefnandi með bankaþjónustu umfram stefndu. Með aðilum hafi verið víðtæk fjárhagsleg samstaða og húsnæðiskostnaður hluti rekstrarkostnaðar heimilisins. Stefnda hafi lagt til húsnæði og eigið fé í eign sinni, í stað þess að njóta ávöxtunar af því með öðrum hætti. Stefnandi hafi á móti greitt afborganir, vexti og verðbætur lána.
Stefnda hafi lagt stefnanda og syni hans til húsnæði allan sambúðartímann og því eðlilegt að taka tillit til þess í lok sambúðar, ef skoða á mál aðila á annað borð aftur í tímann. Þannig beri að reikna stefndu endurgjald fyrir dvöl stefnanda og sonar hans í íbúð stefndu á sambúðartímanum. Á því sé byggt að hæfilegt endurgjald stefnanda til stefndu sé að minnsta kosti sama fjárhæð og stefnandi greiddi í afborganir lána, þ.e. í vexti, verðbætur og höfuðstól. Þeirri kröfu sé einnig haldið uppi til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfulið.
Stefnda byggir kröfu sína um sýknu vegna innborgana stefnanda á reikning stefndu að fjárhæð 6.738.058 kr. á því að samkvæmt reikningsyfirliti yfir bankareikning hennar sjáist að heimilisútgjöld, hvort sem voru matarinnkaup, fatnaður, gjafavara eða þessa háttar, hafi verið greidd af þessum reikningi. Á yfirlitinu komi einnig fram að öll laun stefndu hafi farið inn á þennan reikning. Yfirlit yfir reikning stefndu sýni skýrlega að öll umsýsla heimilisins hafi verið unnin af stefndu, flest allir snúningar og mest öll innkaup. Stefnda kveðst hafa séð um matarinnkaup, kaup á fatnaði fyrir son stefnanda og oftar en ekki stefnanda sjálfan. Stefnda hafi keypt fatnað og gjafir handa sjö barnabörnum stefnanda. Úttektir af framlögðum reikningi stefnanda sýni hverfandi útgjöld hans samanborið við reikning stefndu. Sama eigi við um augljósa fyrirhöfn vegna útgjaldanna. Sýknukrafa stefndu byggi á því að um sameiginleg útgjöld hafi verið að ræða. Stefnandi hafi verið að greiða reksturskostnað heimilisins. Þá hafi greiðslurnar verið inntar af hendi án fyrirvara og án sérstaks áskilnaðar um endurheimtu þess fjár úr hendi stefndu. Stefnandi hafi aðspurður neitað að upplýsa hvers vegna hann lagði umræddar fjárhæðir inn á reikning stefndu.
Stefnda byggir á því að heimilishald aðila hafi verið útgjaldafrekara en á meðalheimili. Stefnandi leggi fram yfirlit yfir meðalneyslu á heimilum á árinu 2002. Í stefnu sé miðað við meðaltölur miðað við tvo í heimili. Réttara væri að miða við útgjöld sambýlisfólks með börn auk þess að taka þyrfti tillit til neyslumynsturs aðila. Sérstaklega verði að líta til þess að stefnda hafi ekki verið framfærsluskyld gagnvart syni stefnanda. Sé því ekki hægt að byggja á þessu með þeim hætti sem stefnandi gerir. Stefnda byggir á því að miðað við fyrirkomulag aðila hafi verið eðlilegt að stefnandi greiddi hærra hlutfall rekstrarkostnaðar heimilisins en stefnda, sem á móti hafi minnkað við sig vinnu í því skyni að auðvelda starfsframa stefnanda.
Varakrafa stefnanda byggi á sömu málsásæðum og í aðalkröfu. Stefnda vísar til framangreindra málsástæðna sinna fyrir sýknu. Þrautavarakrafa byggi á almennri óskráðri auðgunarreglu. Stefnda byggir á að ekki séu færð nein rök fyrir því með hvaða hætti hún hafi auðgast á sambúðartímanum. Stefnda hefði átt íbúð í upphafi sambúðar og í lok sambúðar. Stefnda hafi lagt öll sín laun í rekstur heimilisins auk sparifjár. Hún hafi unnið heimilisstörf, minnkað við sig vinnu og gengið syni stefnanda í móðurstað. Af reikningsyfirlitum sem stefnda leggi fram sé ljóst að stefnda hafi ekki auðgast á kostnað stefnanda. Þá sé því hafnað að stefnandi hafi lagt fram til heimilishaldsins fjármuni langt umfram framfærslukostnað heimilisins. Þegar litið sé til launamunar á sambúðartímanum sé ekki óeðlilegt að stefnandi greiði mun stærri hluta rekstrarkostnaðar heimilisins en stefnda. Stefnandi sé því í skuld við stefndu séu sambúðarárin gerð hlutlægt upp.
Stefnandi hafi á sambúðartímanum aukið eignir sínar með stórfelldum hætti. Bæði með hreinum sparnaði og kaupum á lausafjármunum og uppbyggingu atvinnurekstrar. Stefnda hafi gert stefnanda kleift að byggja upp fyrirtæki og aðstoðað stefnanda með því að draga úr eigin vinnu til að geta sinnt syni hans og aðstoðað stefnanda í rekstri hans. Sá aðili sem hafi auðgast sé því stefnandi sjálfur en ekki stefnda.
Stefnda haldi uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar við hverjum þeim kröfum stefnanda sem viðurkenndar kunni að verða á hendur stefndu.
Stefnda kveður að gagnkrafan sé til komin vegna þóknunar fyrir vinnuframlag í þágu stefnanda við innslátt, reikningagerð og utanumhald vegna starfsemi stefnanda.
Stefnda hefur gert þá grein fyrir þessu starfi í þágu stefnanda að hún hafi fært í tölvu alla reikninga stefnanda og fyrirtækis hans fyrir svæfingar til Tryggingastofnunar ríkisins. Þetta hafi verið slegið inn í forrit sem stefnandi hafði sjálfur hannað. Forritið reiknaði út gjald sjúklings annars vegar og Tryggingastofnunar ríkisins hins vegar. Þetta hafi stefnda skráð á reikninga. Stefnda hafi svo, oftast mánaðarlega, gert reikninga á Tryggingastofnun ríkisins og flokkað þá í möppur og farið með þá til bókara stefnanda. Miðað við umsvif rekstrar stefnanda hafi starf stefndu verið umtalsvert. Ársreikninga rekstrar Y hafi verið aflað hjá Lánstrausti ehf. Þeir reikningar sýni nettóhagnað. Rekstrarhagnaður samkvæmt upplýsingum Lánstrausts ehf. hafi verið með svofelldum hætti:
Árið 1999 kr. 4.003.000,-
Árið 2000 kr. 12.833.000,-
Árið 2001 kr. 17.509.000,-
Árið 2002 Fannst ekki
Árið 2003 kr. 3.753.000,-
Stefnda byggir á því að hæfilegt endurgjald fyrir þessi störf sé að meðaltali 100.000 kr. pr. mánuð, eða 1.200.000 kr. á ári í sex og hálft ár alls kr. 7.800.000,-. Ekki sé krafist sjálfstæðs dóms um eftirstöðvar. Á því sé byggt að krafan hafi gjaldfallið við lok sambúðartíma.
Gagnkrafan sé einnig komin til vegna vinnutaps stefndu sem hafi hlotist af því að stefnda minnkaði við sig vinnu gagngert vegna stefnanda niður í 60-80 % starfshlutfall. Áætlað tjón stefndu vegna þessa sé 10.000.000 kr. yfir allan sambúðartímann.
Stefnda byggir á því að hefði hún ekki þurft að minnka við sig vinnu vegna umsýslu í þágu stefnanda og vegna heimilishalds þá hefði hún haldið fullum launum. Þannig sé auðvelt að reikna út hreint fjártjón hennar. Bara þessi skerðing á aflafé stefndu nemi hærri fjárhæð en fjárhæð kröfu stefnanda vegna íbúðalána. Byggt sé þá á því að verði fallist á kröfur stefnanda á grundvelli forsendubrests, þá veki sami forsendubrestur upp gagnkröfur stefndu á hendur stefnanda.
Gagnkrafan sé einnig komin til vegna hlutdeildar í eignamyndun stefnanda á sambúðartímanum. Þannig hafi stefnandi lagt til hliðar umtalsverðar fjárhæðir í sparifé, keypt jeppabifreið, fellihýsi, lækningatæki og innbúsmuni, sem hann átti í lok sambúðar. Stefnandi leggi ekki fram skattframtöl sín, eða yfirlit yfir sparireikninga sína. Erfitt sé því fyrir stefndu að gera nákvæmar fjárkröfur að þessu leyti. Á því er byggt að hlutdeild stefndu í eignamyndun stefnanda nemi 50 % og að verðmæti eigna sé 20.000.000 kr. Gagnkrafa stefndu vegna þessa sé því 10.000.000 kr. Þar sem stefnandi leggi ekki fram gögn um eignir í sambúðarlok beri hann halla af því. Fjárkrafan byggir á því að stefnda hafi með vinnuframlagi sínu, bæði á heimili og í þágu atvinnu stefnanda, eignast hlut í eignamyndun hans á sambúðartímanum. Fjárkrafa sem svari til verðmætis þessarar eignamyndunar komi til skuldajafnaðar við hverjar þær kröfur stefnanda sem viðurkenndar kunni að verða á hendur stefndu. Stefnandi hafi ekki getað myndað þessa eign sína nema með því að stefnda tók að sér að annast son hans og halda heimili fyrir þá, gert þeim kleift að búa í íbúð sinni og annast heimilishald. Auk þess hafi stefnda sparað stefnanda stórfelldan kostnað við að ráða ritara með því að annast alla frágangsvinnu við gerð reikninga og uppgjör við Tryggingastofnun ríkisins fyrir stefnanda. Þetta framlag stefndu kveður stefnda að leiða eigi til þess að hún eigi 50 % í eignamyndun stefnda á sambúðartímanum, samkvæmt ýtrustu kröfugerð. Að minnsta kosti hluti þessarar eignamyndunar sé í reiðufé og hluta lausafjár hafi stefnandi selt.
Stefnda byggir á því að líta beri til allra málsatvika í heild sinni og að ótækt sé að horfa á þrönga meinta eignamyndun stefnanda í fasteign stefndu og líta fram hjá eignamyndun stefndu í eignaaukningu stefnanda á sambúðartímanum. Stefnda ber við að verði á það fallist að stefnandi geti haft uppi fjárkröfur á hendur stefndu vegna eignamyndunar hans, þá sé stefndu rétt að halda uppi gagnkröfum af sama toga, byggðum á eignarmyndun hennar.
Þá byggir stefnda á því að sérstaklega verði að líta til þess við úrlausn málsins, stefndu til hagsbóta, að sonur stefnanda, sem stefnda sé ekki framfærsluskyld gagnvart, hafi í raun verið á framfærslu stefndu á sambúðartímanum.
Stefnda mótmælir dráttarvaxtakröfum stefnanda sérstaklega. Tilvísun stefnanda í dómafordæmi mótmælir stefnda einnig enda sé ekki til sambærileg fordæmi í dómasafni.
Niðurstaða
Fyrir liggur að stefnda hafði fest kaup á íbúð að X, Reykjavík, þegar sambúð aðila hófst. Ekki er ágreiningur um það að stefnandi greiddi afborganir af áhvílandi veðlánum þeim sem stefnda tók fyrir íbúðarkaupunum á sambúðartíma sem samtals nemi 3.454.207 kr. Stefnandi heldur því fram að með þessum greiðslum hafi hann talið sig vera að eignast ótilgreindan hlut í eigninni og að samkomulag hafi verið milli aðila um það. Stefnda kveður hins vegar ekkert samkomulag hafa verið milli aðila um að stefndi greiddi afborganir fasteignalána gegn því að eignast hlut í fasteign stefndu, heldur hafi þetta einungis verið gert í hagræðingarskyni að greiðslur fóru af hans reikningi.
Gegn andmælum stefndu er ósannað að aðilar hafi gert sín á milli sérstakt samkomulag um það að með afborgunum eignaðist stefnandi hlut í fasteigninni. Hins vegar verður að fallast á það með stefnanda að hann hafi innt af hendi afborganir af lánunum á þeirri forsendu að hann væri að leggja fé af mörkum til eignamyndunar í þágu beggja málsaðila, enda lagði hann, auk þess, mikið fé til reksturskostnaðar heimilis. Þá er ósannað gegn andmælum stefnanda að samkomulag hafi verið um það með aðilum að fjárhæðir þessar yrðu skuldfærðar af reikningi stefnanda í hagræðingarskyni. Verður því fallist á þá málsástæðu stefnanda að við sambúðarslit aðila hafi stefnandi öðlast rétt til endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hann hafi innt af hendi til afborgana af áhvílandi veðlánum, alls 3.454.207 kr., sem ekki er tölulegur ágreiningur um.
Ekki þykja efni til að fallast á það með stefndu að reikna henni endurgjald fyrir dvöl stefnanda og sonar hans í íbúð stefndu á sambúðartímanum enda voru aðilar í sambúð og héldu heimili saman. Gagnkröfu stefnda er að því lýtur er hafnað.
Á sambúðartíma greiddi stefnandi reglulega fjárhæðir inn á bankareikning stefndu, alls 6.738.058 kr. Stefnandi telur sig hafa á sambúðartímanum sjálfur innt af hendi a.m.k. sinn helming í eðlilegum reksturskostnaði heimilisins en til viðbótar greitt að stórum hluta hlutdeild stefndu í þessum kostnaði. Fallast verður á það með stefndu að yfirlit það sem stefnandi lagði fram í máli þessu um meðalneyslu á heimilum eigi ekki við um aðila þessa máls, sem voru með börn á heimili sínu auk þess að taka verði tillit til neyslumynsturs aðila. Fyrir liggur að stefnda sá um flest öll innkaup og snúninga fyrir heimilið, keypti vörur og fatnað fyrir stefnda, son hans og barnabörn. Einnig þykir ljóst að heimilishald aðila hafi verið útgjaldafrekara en á meðalheimili. Verður því að telja innborganir þessar á reikning stefndu óafturkræft framlag hans til reksturs heimilisins og að um sameiginleg útgjöld hafi verið að ræða, enda eðlilegt að stefnandi greiddi hærra hlutfall af reksturskostnaði heimilisins þar sem hann vann lengri vinnudag en stefnda og var tekjuhærri á meðan hún sinnti heimili. Verður því hafnað kröfu stefnanda um endurgreiðslu greindrar fjárhæðar úr hendi stefndu.
Stefnda byggir gagnkröfu sína m.a. á því að hún hafi sinnt ritarastörfum í þágu stefnanda vegna starfssemi Y. en henni hafi ekki verið greidd laun fyrir þá vinnu og þannig hafi stefnandi sparað sér launagreiðslur og launatengd gjöld. Fallast verður á það með stefnanda að sú gagnkrafa til skuldajafnaðar er ekki beint að réttum aðila, sbr. 1. mgr. 28. gr. l. 91/1991 og ber því að sýkna stefnanda af henni, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.
Stefnda byggir gagnkröfu sína enn fremur á því að hún hafi orðið fyrir vinnutapi við að minnka við sig vinnu niður í 60-80% starfshlutfall á sambúðartíma vegna umsýslu í þágu stefnanda og vegna heimilishalds. Hefur stefnda áætlað tjón sitt 10.000.000 kr. af þessum sökum. Sú krafa er órökstudd og stefnandi ber ekki að lögum ábyrgð á því fjártjóni sem stefnda kann að hafa orðið fyrir við að minnka starfshlutfall sitt. Er þeirri gagnkröfu stefndu hafnað.
Stefnda byggir einnig gagnkröfu sína á hlutdeild sinni í eignamyndun stefnanda á sambúðartíma. Ljóst er að stefnandi eignaðist ýmsar eignir á sambúðartíma, m.a. jeppabifreið, fellihýsi, lækningatæki og innbúsmuni. Stefnda heldur því fram að með vinnuframlagi sínu, bæði á heimili og í þágu atvinnu stefnanda, hafi hún eignast hlut í eignamyndun hans á sambúðartímanum. Fallast verður á það með stefnanda að það sé meginregla í fjárskiptum í óvígðri sambúð að hver sú eign sem hvor sambúðaraðili kaupir fyrir sína fjármuni á sambúðartímanum skuli vera eign viðkomandi. Óumdeilt er að stefnandi greiddi fyrir þessa muni af sínum reikningum og teljast þeir því tilheyra honum.
Þessari gagnkröfu stefndu er einnig hafnað.
Samkvæmt framansögðu er öllum gagnkröfum stefndu hafnað og verður stefnda því dæmd til að greiða stefnanda 3.454.207 kr., eins og í dómsorði greinir. Dráttarvextir reiknast frá þingfestingardegi málsins, 30. júní 2005, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 250.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, K, greiði stefnanda, M, 3.454.207 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 30. júní 2005 til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.