Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vinnusamningur
  • Samkeppni
  • Lögbann


Mánudaginn 30

 

Mánudaginn 30. maí 2005.

Nr. 202/2005.

Iceland Seafood International ehf.

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

Sigurði Sigfússyni

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Vinnusamningur. Samkeppni. Lögbann.

S hafði starfað frá árinu 1994 fyrir IS og voru ákvæði í ráðningarsamningi hans um takmörkun á heimildum hans til að starfa í þágu samkeppnisaðila í eitt ár frá starfslokum. Þann 22. nóvember 2004 gerði ISI samning um að S veitti félaginu ráðgjöf en jafnframt lét S af fyrra starfi. S hóf síðan störf fyrir US og freistaði ISI þess í málinu að fá lagt lögbann við störfum S í þágu þess félags. Talið var að á grundvelli þeirra gagna sem ISI hafði lagt fram í málinu yrði ekki fullyrt að ráðningarsamband S við IS hefði flust til ISI eins og félagið hélt fram og gat ISI því ekki reist kröfu um lögbann á ákvæðum um samkeppnishömlur í ráðningarsamningi S og IS. Þótti ISI ekki heldur hafa sýnt fram á eða gert líklegt að S myndi brjóta gegn rétti félagsins þannig að í bága færi við 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 eða önnur ákvæði þeirra laga og var því kröfu ISI hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili réði sig í þjónustu Seafood Union ehf. eða héldi við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður eða sjálfstæður verktaki, eða tæki á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess til 22. nóvember 2005. Þá var jafnframt hafnað kröfu sóknaraðila um að leggja lögbann við því að varnaraðili hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu sóknaraðila sem vera kunni í vörslu varnaraðila eða kynnu að komast í hans vörslur. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við umræddum athöfnum varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt útskrift úr hlutafélagaskrá þar sem fram kemur að varnaraðili sé samkvæmt ákvörðun fundar 20. febrúar 2005 formaður stjórnar Seafood Union ehf.

I.

Meðal gagna málsins er ódagsettur ráðningarsamningur milli Sölusambands íslenskra fiskframleiðanda hf. (SÍF hf.) og varnaraðila. Er óumdeilt að sá samningur hafi verið gerður á árinu 1994. Með samningnum réði varnaraðili sig sem forstöðumann söluskrifstofu SÍF hf. á Ítalíu. Í 3. gr. samningsins eru ákvæði um „viðskiptaleyndarmál og samkeppnishömlur“ þar sem segir: „Meðan Sigurður Sigfússon er í starfi hjá SÍF hf. og fyrsta árið eftir að ráðningarsambandi er slitið gildir eftirfarandi regla um samkeppnishömlur: A. Sigurði Sigfússyni er óheimilt án skriflegs samþykkis frá stjórn SÍF hf., að taka þátt í starfsemi sem rekin er í sama eða svipuðum tilgangi og SÍF hf., eða í beinni samkeppni við það. B. Einnig er Sigurði Sigfússyni óheimilt að ráða sig til vinnu hjá eða vinnu fyrir samkeppnisfyrirtæki, hvort heldur sem stjórnarmaður eða ráðgefandi starfsmaður. C. Brjóti Sigurður Sigfússon ofanskráðar reglur um samkeppnishömlur er SÍF hf. heimilt að leggja lögbann við störfum hans, án þess að setja tryggingu lögum samkvæmt, og brot á reglum um samkeppnishömlur valda skaðabótaskyldu gagnvart SÍF hf. Einnig skuldbindur Sigurður Sigfússon sig til að greiða févíti kr. 500.000 - fimmhundruðþúsund 00/100 í hvert sinn sem reglan er brotin. D. Með því að láta af störfum, er átt við þá stund er Sigurður Sigfússon hættir að taka laun hjá SÍF hf., án tillits til þess hvort hann hættir störfum áður.“ Samkvæmt 4. gr. samningsins var hann til  þriggja ára. Óumdeilt er að varnaraðili hélt áfram störfum hjá SÍF hf. eftir það og 4. janúar 1999 gerðu aðilar samningsins samkomulag um að hann framlengdist næstu þrjú ár. Í greinargerð í héraði hélt varnaraðili því fram að „fyrir um fjórum árum“ hafi SÍF hf. stofnað dótturfélag á Ítalíu undir nafninu SIF Italia og að hann hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri þess. Engin gögn eru í málinu er að þessu lúta. Sóknaraðili kveðst reka inn- og útflutningsstarfsemi með sjávarafurðir. Telur hann að ráðningarsamningar þeirra manna sem störfuðu við sölu- og útflutningsdeild SÍF hf., þar á meðal ráðningarsamningur varnaraðila, hafi verið „fluttir yfir“ til sín. Ekki er fullljóst af málatilbúnaði sóknaraðila hvenær það hafi átt að gerast en flest þau skjöl sem hann vitnar til í þeim efnum eru dagsett frá því í síðari hluta nóvember 2004 til janúar 2005. Þann 22. nóvember 2004 undirrituðu sóknaraðili og varnaraðili samning um ráðgjöf. Er þar tekið fram að varnaraðili láti „af störfum sem launþegi SÍF hf. / Iceland Seafood þann 31.12. 2004.“ Jafnframt taki varnaraðili að sér ráðgjafastörf fyrir sóknaraðila vegna sölu saltfiskafurða til Ítalíu. Tekið er fram að samningurinn taki við af ráðningarsamningi varnaraðila. Engin ákvæði um samkeppnishömlur eru í samningi þessum. Tók hann gildi 1. janúar 2005 og skyldi gilda til loka þess árs.

II.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um lögbann fyrst og fremst á framangreindum ákvæðum um samkeppnishömlur í 3. gr. samnings SÍF hf. og varnaraðila frá 1994. Telur hann að SÍF hf. og varnaraðili hafi haldið áfram samstarfi sínu á grundvelli samningsins eftir að hann rann út þótt ekki njóti skriflegra gagna um framlengingu hans, ef undan er skilið samkomulagið frá 4. janúar 1999. Þar með hafi einnig framlengst ákvæði samningsins um samkeppnishömlur. Hafi réttindi og skyldur samkvæmt samningnum síðan flust yfir til sóknaraðila er hann yfirtók sölustarfsemi SÍF hf. og hafi öll ákvæði hans, þar á meðal ákvæðin um samkeppnishömlurnar, enn verið í gildi milli aðila þessa máls þegar þeir gerðu samning sín á milli 22. nóvember 2004 um ráðgjöf varnaraðila. Vísar sóknaraðili í þeim efnum til framangreinds ákvæðis ráðgjafarsamningsins um starfslok varnaraðila sem launþega. Einnig vísar sóknaraðili þessu til stuðnings til yfirlýsinga tveggja nafngreindra starfsmanna SÍF hf. frá fyrri hluta desember 2004 þess efnis að þessir starfsmenn hafi verið upplýstir um að innkaupa- og sölustarfsemi SÍF hf. hafi verið færð yfir til sóknaraðila og að þessum starfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir því að við breytinguna færðust ráðningarsamningar starfsfólks SÍF hf. til sóknaraðila. Loks vísar sóknaraðili til ýmissa gagna frá nóvember 2004 og janúar 2005 um innra skipulag sóknaraðila.

Í málinu nýtur eins og að framan greinir afar takmarkaðra gagna um hvort, hvenær og að hvaða marki sú sölustarfsemi SÍF hf. á Ítalíu, sem varnaraðili starfaði við, fluttist til sóknaraðila. Þá verður ekki fullyrt á grundvelli þeirra gagna sem sóknaraðili hefur lagt fram að ráðningarsamband það sem var milli varnaraðila og SÍF hf. hafi flust yfir til sóknaraðila. Benda gögn málsins fremur til þess að SÍF hf. hafi verið vinnuveitandi varnaraðila allt fram að starfslokum hans. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna því að sóknaraðili geti reist rétt á þeim samkeppnishömlum sem varnaraðili gekkst undir með fyrrgreindum ráðningarsamningi við SÍF hf. á árinu 1994. Sóknaraðili hefur í ljósi þess sem að framan er rakið heldur ekki sýnt fram á eða gert líklegt að varnaraðili muni brjóta gegn rétti hans þannig að í bága fari við 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 eða önnur ákvæði þeirra laga. Þar sem engin ákvæði um samkeppnishömlur eru heldur í ráðgjafasamningi aðila frá 22. nóvember 2004 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Iceland Seafood International ehf., greiði varnaraðila, Sigurði Sigfússyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2005.

I

         Málið var þingfest 4. febrúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum mál­flutningi 30. mars sl.

         Sóknaraðili er Iceland Seafood International ehf., Fornubúðum 5, Hafnarfirði.

         Varnaraðili er Sigurður Sigfússon sem á lögheimili á Ítalíu.

         Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að hafna kröfu hans um að lögbann verði lagt við því að varnaraðili ráði sig í þjónustu Seafood Union ehf. eða haldi við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórn­armaður eða sjálfstæður verktaki, eða taki á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess til 22. nóvember 2005. Þá krefst sóknaraðili þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslu­mannsins í Reykjavík um að hafna kröfu um að leggja lögbann við því að varnaraðili hag­nýti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu sóknaraðila sem vera kunna í vörslu varnaraðila eða kunna að komast í hans vörslur. Sóknaraðili krefst þess einnig að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við ofan­greindum athöfnum varnaraðila.    

         Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Hann krefst einnig máls­kostnaðar.

II

         Með samningi frá árinu 1994 réð Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda hf. (SÍF hf.) varnaraðila sem forstöðumann söluskrifstofu félagsins á Ítalíu.  Sá hluti starfsemi SÍF hf., sem varnaraðili vann við, færðist síðar yfir til sóknaraðila.  Framangreindur samn­ingur, sem er ódagsettur, gilti til 3 ára og voru í honum ákvæði sem bönnuðu varnaraðila að taka þátt í sömu eða svipaðri starfsemi og SÍF hf. hefur með höndum eða í samkeppni við það í eitt ár eftir starfslok hans.  Samningur þessi var framlengdur um 3 ár með sam­komu­lagi 4. janúar 1999.

         Með samningi 22. nóvember 2004 var samið um að varnaraðili léti af störfum hjá sókn­araðila frá og með 31. desember sl., en tæki þess í stað að sér ráðgjafastörf fyrir hann frá og með 1. janúar sl.  Samningurinn gilti út árið 2005 og átti að endurskoða hann í nóvember næstkomandi.  Í honum eru engin ákvæði er leggja hömlur á atvinnu varnar­aðila.

         Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi lýst því yfir að hann hygðist taka þátt í starfsemi fyrirtækisins Seafood Union ehf., sem sé í samkeppni við sig.  Þessu er mót­mælt af hálfu varnaraðila.  Sóknaraðili krafðist þess 14. janúar sl. að sýslumaður legði lög­bann við því að varnaraðili réði sig í þjónustu Seafood Union ehf. eða héldi við slíkri ráðn­ingu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður eða sjálfstæður verktaki, eða tæki á nokkurn hátt þátt í starfsemi þess til 22. nóvember 2005. Jafnframt krafðist hann þess að lagt yrði lögbann við því að gerðarþoli hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnu­leynd­ar­mál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu sóknaraðila, sem vera kynnu í vörslu varn­ar­aðila eða kynnu að komast í vörslur hans.  Sýslumaður hafnaði kröfunni um  lögbann 24. janúar sl. þar sem ekki hefði verið sýnt fram á eða gert sennilegt að athafnir varnaraðila brytu eða myndu brjóta gegn lögvörðum rétti sóknaraðila.

III

         Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafa verið starfsmaður sinn og SÍF hf. til margra ára. Hinn 22. nóvember 2004 hafi aðilar gert með sér samning um ráðgjafarstörf varnar­aðila fyrir sóknaraðila. Varnaraðili hafi skömmu eftir undirritun ofangreinds samn­ings um ráðgjöf lýst því yfir við forsvarsmenn sóknaraðila að hann hygðist taka þátt í starf­semi í samkeppni við sóknaraðila. Þá hafi verið sagt frá því í fjölmiðlum að varnar­aðili hygðist hefja störf hjá Seafood Union ehf. Tilgangur þess fyrirtækis sé, samkvæmt hluta­félagaskrá, inn- og útflutningur og kaup og sala sjávarafurða, umboðsviðskipti með þær, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Ljóst sé að Seafood Union ehf. starfi í beinni sam­keppni við sóknaraðila. Þá hafi nokkrir einstaklingar, þar með talinn varnaraðili, í nafni Seafood Union ehf., átt samtöl og samningaviðræður við framleiðendur sjávarfangs, sem til langs tíma hafi átt í viðskiptum við SÍF hf. og sóknaraðila, í því skyni að fá þá til við­skipta við Seafood Union ehf. Af öllu ofangreindu telji sóknaraðili ljóst að athafnir sem varnaraðili og einstaklingar honum tengdir og sem hættu störfum hjá sóknaraðila í lok árs 2004, allir á sama tíma, hafi staðið fyrir að undanförnu beri með sér að þeir séu í þann veginn að byrja eða jafnvel byrjaðir  starfsemi sem sé í beinni samkeppni við sókn­ar­aðila. Að minnsta kosti sé ljóst að slík starfsemi sé yfirvofandi.

         Í ráðningarsamningi varnaraðila séu ákvæði þess efnis að honum sé óheimilt að taka þátt í starfsemi sem teljist vera í samkeppni við sóknaraðila í eitt ár frá því að ráðn­ing­ar­samn­ingi sé slitið. Ráðningarsamningurinn hafi verið gerður á árinu 1994 og gilt til þriggja ára. Ljóst sé að aðilar hafi haldið áfram samstarfi sínu á grundvelli samningsins til 22. nóvember 2004 þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skrifleg gögn um framlengingu hans, utan þess sem aðilar samþykktu 4. janúar 1999 um að hann framlengdist í þrjú ár, þ.e. til 2002. Þá hafi í ráðgjafarsamningnum verið vísað til þess að ráðningarsamningnum væri slitið með gerð hins nýja samnings. Enn fremur komi fram í ráðgjafarsamningnum að varnar­aðili njóti jafnframt fullra launa og hlunninda samkvæmt starfssamningi í þrjá mán­uði, sem komi til greiðslu fyrir árslok 2004. Ráðningarsamningurinn hafi því enn verið í gildi á milli aðila 22. nóvember 2004.  Launakjör og önnur kjör varnaraðila hafi verið með sama hætti undanfarin ár og ekkert breyst fram til 31. desember 2004. Sóknaraðili telji vera ljóst að aðilar hafi því framlengt upphaflega ráðningarsamninginn samkvæmt efni hans allt til 22. nóvember 2004 og launakjörin samkvæmt honum til 31. desember 2004.  Auk þess megi leiða líkur að því að við gerð ráðningarsamningsins hafi varnaraðili verið búinn að taka ákvörðun um að fara í samkeppni við sóknaraðila. Hafi ráð­gjaf­ar­samn­ingurinn því verið gerður gegn betri vitund. Sóknaraðili telji að ráð­gjaf­ar­samn­ing­ur­inn frá 22. nóvember hafi slitið ráðningarsambandi aðila og gildi samkeppnisbann sbr. 3. gr. ráðningarsamningsins því til 22. nóvember 2005.

         Sóknaraðili byggir á því að athafnir varnaraðila sem miði að því að hefja eða halda áfram starfsemi sem sé í samkeppni við sóknaraðila feli í sér brot á ákvæðum um sam­keppnis­bann í ráðningarsamningnum. Sóknaraðili hafi einnig upplýsingar um að í ein­hverjum tilfellum hafi atvinnuleyndarmál og trúnaðarupplýsingar í eigu sóknaraðila verið sendar frá tölvupóstföngum hjá sóknaraðila í tölvupóstföng fyrrum starfsmanna hans gagn­gert í því skyni að nýta mætti þær í þágu Seafood Union ehf. Varnaraðila sé samkvæmt 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 óheimilt að veita upplýsingar um eða hag­nýta sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál sóknaraðila án hans samþykkis.

         Sóknaraðili byggir einnig á því að framferði varnaraðila gagnvart sér sé brot á góðum við­skiptaháttum og sé andstætt 20. gr. samkeppnislaga. Varnaraðili hafi á þeim tíma sem hann starfaði hjá SÍF hf. og sóknaraðila viðað að sér mikilli sérþekkingu. Hafi varnaraðili haft ótakmarkaðan aðgang að þeirri sérþekkingu í störfum sínum fyrir SÍF hf. og sóknar­aðila. Sóknaraðili eigi ekki að þurfa að þola að varnaraðili geti komið allri þeirri sér­þekk­ingu til Seafood Union ehf. án þess að það félag þurfi að kosta öðru til en að ráða varnar­aðila og fáeina aðra starfsmenn til starfa. Slíkt myndi leiða til þess að samkeppnisaðilinn öðlaðist óréttmætt forskot með því að láta sóknaraðila í raun greiða fyrir sig slíka upp­bygg­ingu. Þess háttar athæfi brjóti gegn góðum viðskiptaháttum og sé í beinni andstöðu við tilgang samkeppnislaga.

         Tjón sóknaraðila af því að varnaraðili starfi fyrir Seafood Union ehf. sé svo mikið að reglur um skaðabætur tryggi hagsmuni hans engan veginn fyrir því tjóni sem sóknaraðili verði fyrirsjáanlega fyrir vegna réttarbrota varnaraðila gagnvart honum. Sóknaraðili verði því að freista þess að afstýra tjóninu með lögbanni. Ómögulegt sé á þessu stigi að sýna fram á hversu mikið tjón sé yfirvofandi en sóknaraðili telji augljóst miðað við umfang starf­seminnar og þá fjármuni sem viðskiptin snúist um að varnaraðila væri ofviða að greiða slíkar bætur. Sóknaraðili telji einnig að refsiviðurlög samkeppnislaga tryggi ekki þessa hagsmuni hans. Tjóninu verði ekki afstýrt ef sóknaraðili þurfi að bíða dóms í almennu einkamáli.

IV

         Varnaraðili byggir á því að samkvæmt skriflegum ráðningarsamningi milli SÍF hf. og varnar­aðila frá 1994 hafi hann verið ráðinn forstöðumaður söluskrifstofu SÍF á Ítalíu. Samkvæmt 4. gr. samningsins hafi hann verið til þriggja ára en gert hafi verið ráð fyrir að varnar­aðili kæmi til starfa hjá SÍF hf. eftir að starfsamningi lyki. Eftir að samningur þessi hafi runnið út 1997 hafi varnaraðili haldið áfram starfi hjá SÍF hf. en ekki hafi verið gerður nýr skriflegur ráðningarsamningur. Ekkert ákvæði sé í ráðningarsamningnum um að hann framlengist sjálfkrafa. Ráðningarsamningur SÍF hf. og varnaraðila hafi verið fram­lengdur um þrjú ár 4. janúar 1999. Eftir það hafi gilt munnlegur samningur milli þessara aðila en varnaraðili hafi ekki tekið á sig þær skyldur sem sóknaraðili heldur fram eftir að hinn skriflegi ráðningarsamningur rann sitt skeið.

         Fyrir fjórum árum hafi SÍF hf. stofnað dótturfélag á Ítalíu sem fékk nafnið SIF Italia og hafi varnaraðili verið ráðinn framkvæmdastjóri þess. Réttindi og skyldur varnaraðila samkvæmt ráðningarsamningi við SÍF hf. hafi aldrei verið færð til sóknaraðila, hvorki með samningi né öðrum hætti.

         Með samningi 22. nóvember 2004 hafi orðið samkomulag um starfslok varnaraðila hjá SÍF hf. /SIF Italia. Jafnframt hafi varnaraðili gert samning við sóknaraðila um ráðgjöf svo sem nánar greinir í samningnum. Í samningi þessum séu í engu settar hömlur í þá veru sem lögbannskrafa sóknaraðila lúti að, enda sé ekki á því byggt af hálfu sóknaraðila. Í þessum samningi komi heldur ekkert fram um að varnaraðili sé bundinn sóknaraðila með einhverjum öðrum hætti en í samningnum sjálfum greinir. Krafa sóknaraðila styðjist ein­ungis við ákvæði í tímabundnum ráðningarsamningi, sem gilti í afmarkaðan tíma. Varnar­aðili hafi ekki undirgengist neinar samkeppnishömlur gagnvart SÍF eða sóknar­aðila eftir að hinn skriflegi ráðningarsamningur rann sitt skeið. Ljóst sé að til þess að slíkar skuldbindingar héldu gildi sínu áfram hefði varnaraðili þurft að undirgangast þær sér­staklega. Þegar af þessum ástæðum beri að fallast á kröfur varnaraðila enda hvorki sannað eða gert sennilegt að sóknaraðili eigi þau réttindi sem hann vill beina lögbanninu að né að varnaraðili hafi undirgengist umræddar skyldur gagnvart honum.

         Verði ekki fallist á þetta byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi með þeim samn­ingi, sem hann sjálfur byggi rétt sinn á í málinu, firrt sig rétti til að leita lögbanns í tilefni af meintum brotum á samningi hans og varnaraðila.  Varnaraðili byggir á því að með 10. gr. ráðningarsamnings hans og SÍF hf. hafi sá síðarnefndi skuldbundið sig til að leggja sér­hvern ágreining vegna samningsins fyrir Gerðardóm Verslunarráðs Íslands.

         Þá er byggt á því að krafa sóknaraðila um lögbann leiði ekki af þeim samningi sem hann byggir kröfur sínar á og að hann eigi því ekki allan þann rétt á hendur varnaraðila sem hann krefst að verði viðurkenndur með lögbanni. Varnaraðili bendi á að b-liður 3. gr. samnings aðila, sem byggt er á í málinu af hálfu sóknaraðila, leggi einungis þau höft á varnar­aðila að honum sé óheimilt að ráða sig í vinnu eða vinna fyrir samkeppnisfyrirtæki sem annað hvort stjórnarmaður eða ráðgefandi starfsmaður.  Varnaraðili telji því að ekkert í samningi aðila leggi höft á heimild hans til að ráða sig sem almennan starfsmann, þ.e. launþega, hjá samkeppnisaðila né heldur taka í verktöku að sér verkefni fyrir slíkan aðila. Sérstaklega sé á því byggt að ákvæði a-liðar 3. gr. samningsins þar sem mælt er fyrir um bann við því að taka þátt í samkeppnisrekstri eða rekstri sem hliðstæður sé rekstri sóknaraðila verði ekki túlkað á annan hátt en þann að ákvæðið leggi bann við því að varnaraðila teljist óheimilt að eiga hlut í eða taka þátt í slíkum rekstri á þann hátt að hann njóti hagnaðar eða þoli tap af honum.

         Enn fremur byggir varnaraðili á að synja beri kröfu sóknaraðila um lögbann á hag­nýt­ingu varnaraðila á trúnaðarupplýsingum og atvinnuleyndarmálum sóknaraðila þar sem krafa sóknaraðila hafi að þessu leyti enga sjálfstæða þýðingu.  Varnaraðili bendir á í þessu sambandi að á því sé byggt í málinu af hálfu sóknaraðila að sú háttsemi varnaraðila, sem krafist er lögbanns á í þessu sambandi, fari gegn 20. og 27. gr. samkeppnislaga nr. 25/1993. Þau ákvæði leggi annars vegar bann við því að aðhafast nokkuð það sem brjóti í bága við góða viðskiptahætti og mæli hins vegar fyrir um að sá sem hafi fengið vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan aðila megi ekki veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Ljóst sé því að sóknar­aðili krefjist lögbanns við háttsemi sem þegar sé með skýrum hætti bönnuð með lögum. Varnaraðili telji af þeim sökum að það hafi enga sjálfstæða þýðingu í máli þessu að leysa úr því hvort krafa sóknaraðila um lögbann skuli ná fram að ganga og bendir á að vegna refsi­ákvæða XIII. kafla samkeppnislaga og almennra skaðabótareglna myndi brot varnar­aðila gegn lögbanni, næði það fram að ganga, hafa í för með sér sömu afleiðingar fyrir hann og brot hans gegn umræddum lagaákvæðum. Auk þess séu hagsmunir þeir sem sókn­araðili leitist við að vernda þegar nægilega tryggðir með reglum refsi- og skaða­bóta­réttar, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann.

         Loks sé á því byggt að hvorki hafi verið sannað né gert sennilegt í skilningi 24. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann að þær athafnir sem krafist er lögbanns á séu byrjaðar eða yfirvofandi. Sóknaraðili hafi engin gögn lagt fram sem talist geti viðhlítandi sönn­un­ar­gögn um að sú háttsemi sem hann krefst lögbanns á sé byrjuð eða yfirvofandi. Engin sönn­unargögn séu lögð fram um að varnaraðili taki þátt í starfsemi Seafood Union ehf. sem hluthafi eða starfsmaður eða hyggist gera það á þeim tíma sem lögbannskrafan nær til. Fullyrðingar sóknaraðila og óstaðfestar yfirlýsingar geti ekki talist sönnunargögn í þessu sambandi auk þess sem meginhluti þeirra gagna sem sóknaraðili hafi lagt fram til stuðn­ings kröfu sinni séu varnaraðila með öllu óviðkomandi. Við mat á réttmæti lög­banns­kröfu sóknaraðila verði að hafa í huga að atvinnufrelsi manna sé varið í stjórnarskrá og að lögbann sé bráðabirgðaaðgerð sem beri að beita sem neyðarúrræði. Allan vafa um efni slíkra ákvæða og heimild til að beita þeim verði að túlka starfsmanni í hag.

V

         Krafa sóknaraðila lýtur í fyrsta lagi að því að felld verði úr gildi ákvörðun sýslu­mannsins í Reykjavík að hafna kröfu hans um að leggja lögbann við því að varnaraðili vinni á tilgreindan hátt fyrir fyrirtækið Seafood Union ehf.  Sóknaraðili hefur engin gögn lagt fyrir dóminn, önnur en eigin fullyrðingu, sem sanna eða gera líklegt að varnaraðili starfi eða hyggi á störf fyrir þetta fyrirtæki.  Það eru því engin efni til þess að lögbann verði lagt á eins og sóknaraðili krefst og er þessum lið kröfu hans hafnað.

         Í öðru lagi lýtur krafa sóknaraðila að því að felld verði úr gildi ákvörðun sýslu­mann­sins í Reykjavík um að hafna kröfu um að leggja lögbann við því að varnaraðili hagnýti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu sóknaraðila sem vera kunna í vörslu varnaraðila eða kunna að komast í hans vörslur.  Samkvæmt 27. gr. sam­keppnislaga nr. 8/1993 er óheimilt í atvinnustarfsemi, sem lögin taka til, að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir at­vinnu­leynd­armálum starfseminnar.Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnu­leyndar­málum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan má ekki án heimildar veita upp­lýs­ingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið.           Ef brotið er gegn þessu getur það varðað refsingu samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna.  Sá sem sekur reynist um brot á þessu ákvæði getur og bakað sér skaðabótaskyldu á grundvelli almennra reglna bótaréttarins.  Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða dómsins að réttarreglur um refsingu og skaðabætur tryggi nægi­lega hugsanlega röskun hagsmuna sóknaraðila.

         Samkvæmt öllu framansögðu er kröfum sóknaraðila hafnað og skal hann greiða varnar­aðila 100.000 krónur í málskostnað.

         Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

         Kröfum sóknaraðila, Iceland Seafood International ehf., er hafnað og skal hann greiða varnaraðila, Sigurði Sigfússyni, 100.000 krónur í málskostnað.