Hæstiréttur íslands
Mál nr. 329/2009
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Dánarbætur
- Lögheimili
|
|
Fimmtudaginn 18. febrúar 2010. |
|
Nr. 329/2009. |
Hermann Stuart Crosbie (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Dánarbætur. Lögheimili.
H leitaði dóms um rétt sinn til dánarbóta úr fjölskyldutryggingu, sem faðir hans, F, hafði tekið hjá T, en F lést í sjóslysi 10. september 2005. Við úrlausn málsins reyndi á skýringu ákvæða vátryggingarskilmála T, þar sem fram kom að réttur maka eða sambýlismaka vátryggðs til greiðslu dánarbóta gengi framar rétti barna hans. Óumdeilt var að F var í óvígðri sambúð með M þegar slysið varð, en M lést einnig í slysinu. Þá var talið fullnægt því skilyrði vátryggingarskilmála að F og M hefðu átt sameiginlegt lögheimili. Var M því sambýlismaki F í skilningi vátryggingarskilmála. Samkvæmt gögnum málsins lá fyrir að F lést er báturinn, sem þau voru um borð í, steytti á skeri, en M drukknaði tæpri hálfri klukkustund síðar er bátnum hvolfdi. Var því talið að tveir aðskildir atburðir hefðu valdið því að F og M létust og M væri því rétthafi dánarbóta eftir F. Sú niðurstaða var talin leiða til þess að bætur rynnu inn í dánarbú M til hagsbóta fyrir erfingja hennar, V og A, sem hafði verið stefnt til réttargæslu í málinu. Var T því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði fyrst látin bera dráttarvexti frá uppsögu dóms. Þá krefst stefndi aðallega málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vigfúsi Daða Vigfússyni og Arnari Frey Vigfússyni til réttargæslu. Þeir hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í héraðsdómi leitar áfrýjandi með máli þessu dóms um rétt sinn til dánarbóta úr fjölskyldutryggingu, sem faðir hans, Friðrik Ásgeir Hermannsson, hafði tekið hjá stefnda, en Friðrik lést af slysförum aðfaranótt 10. september 2005. Óumdeilt er að Friðrik hafi verið í óvígðri sambúð með Matthildi Victoriu Harðardóttur þegar sá atburður gerðist. Fyrir liggur að Hagstofu Íslands barst 22. nóvember 2004 tilkynning Friðriks um flutning á lögheimili hans 30. sama mánaðar á þann stað, þar sem Matthildur átti heimili, en af ástæðum, sem ekki skipta hér frekar máli, höfðu upplýsingar samkvæmt þessari tilkynningu ekki verið færðar í þjóðskrá þegar hann lést, heldur var það fyrst gert í nóvember 2005. Með því að afhenda þessa tilkynningu gerði Friðrik það, sem á hans valdi stóð, til að fá breytta skráningu á lögheimili sínu, en óumdeilt er að hann hafi á dánardegi haft fasta búsetu í skilningi 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili á sama stað og Matthildur. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaður dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristin Crosbie, 3 Albert Square, Paddington, NSW 2021, Ástralíu, fyrir hönd ólögráða sonar síns, Hermanns Stuart Crosbie, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu birtri 12. mars 2008. Til réttargæslu er stefnt Arnari Frey Vigfússyni og Vigfúsi Daða Vigfússyni, Reykási 26, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., verði dæmd til að greiða sér kr. 3.500.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 10. október 2005 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Til vara er þess krafist að tildæmdar bætur beri dráttarvexti fyrst frá endanlegum dómsuppsögudegi að telja og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, ella að málskostnaður verði felldur niður.
Réttargæslustefndu krefjast málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Aðfararnótt laugardagsins 10. september 2005 steytti skemmtibáturinn Harpa á Skarfaskeri í Viðeyjarsundi með þeim afleiðingum að Friðrik Ásgeir Hermannsson, fyrrverandi sambýlismaður Kristinar Crosbie og faðir Hermanns Stuart Crosbie, lést af völdum áverka sem hann hlaut þegar báturinn skall á skerinu. Fjórir aðrir farþegar voru um borð þegar slysið átti sér stað. Um tuttugu mínútum eftir áreksturinn losaði Jónas Garðarsson bátinn af skerinu, þá stórskemmdan og tók stefnu austur Viðeyjarsund. Skömmu síðar hvolfdi bátnum með þeim afleiðingum að farþeginn Matthildur Harðardóttir, móðir réttargæslustefndu og unnusta Friðriks drukknaði. Í refsimáli á hendur stjórnanda bátsins, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli nr. 429/2006 var honum gerð refsing m.a. fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir til bjargar farþegum eftir að stórlega laskaður báturinn losnaði af skerinu, eins og rakið er nánar í dóminum.
Hinn látni, Friðrik Ásgeir Hermannsson, var með fjölskyldutryggingu hjá Tryggingarmiðstöðinni hf.
Með tölvupósti þann 7. nóvember 2006 sendi lögmaður stefnanda erindi til stefnda þar sem gerð var grein fyrir því að Hermann Stuart Grosbie ætti rétt til dánarbóta á grundvelli tilgreindrar tryggingar föður hans.
Með bréfi lögmanns réttargæslustefndu til stefnda, dags. 13. nóvember 2007, var gerð krafa á hendur stefnda um dánarbætur þeim til handa á grundvelli fjölskyldutryggingarinnar.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 23. nóvember 2007, var ítrekuð krafa stefnanda á hendur stefnda og óskað eftir afstöðu hið fyrsta.
Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 20. janúar 2008, var gerð grein fyrir því að réttargæslustefndu hefðu einnig krafið vátryggingarfélagið um greiðslu dánarbóta vegna andláts Friðriks. Teldu þeir sig vera réttmæta viðtakendur umræddra dánarbóta. Taldi stefndi sér ekki fært að ganga til uppgjörs dánarbótanna án þess að fyrir lægi annaðhvort samkomulag aðilanna um ráðstöfun bótanna eða dómur sem skæri úr um það hver eða hverjir væru rétthafar bótanna.
Þar sem kröfum stefnanda um dánarbætur hefur verið hafnað af hálfu stefnda hefur stefnandi höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á vátryggingarskilmálum fjölskyldutryggingar stefnda.
Í 32. gr. vátryggingaskilmála ,,151 Fjölskyldutryggingu“ stefnda segir svo:
,,Valdi slys dauða vátryggðs innan eins árs frá slysadegi, greiðist maka eða sambýlismaka, sbr. 1. gr. þessara skilmála, sú fjárhæð sem tilgreind er á vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun. Sé maki eða sambýlismaki vátryggðs eigi á lífi greiðast dánarbætur til barna vátryggðs.“
Fyrir liggi að Friðrik Ásgeir Hermannsson var ekki kvæntur á slysdegi en hafi búið með Matthildi Harðardóttur. Á þeim degi var Friðrik með skráð lögheimili að Skriðustekk 14, Reykjavík, ásamt stefnanda og Kristinu Crosbie. Hins vegar hafi legið fyrir hjá þjóðskrá óafgreidd beiðni um lögheimilisflutning Friðriks á lögheimili Matthildar.
Í 1. gr. sömu skilmála segir:
,,Vátryggðir eru vátryggingartaki, maki hans eða sambýlismaki og ógift börn, enda eigi þessir einstaklingar sameiginlegt lögheimili og búi á sama stað.“
Samkvæmt greininni séu því tvö skilyrði sett fyrir því að sambýlismaki verði talinn rétthafi. Annars vegar að hann og vátryggður búi saman og hins vegar að hann og vátryggður eigi sama lögheimili.
Orðið ,,og“ í ákvæðinu hafi úrslitaþýðingu við afmörkun á merkingarfræðilegum ramma greinarinnar. Almennt verði að leggja til grundvallar að upptalning tilvika í slíkum ákvæðum, sem kveði á um tiltekin skilyrði, þar sem orðið ,,og“ sé notað, útiloki að byggt sé á annarri merkingu en þeirri að öll skilyrðin þurfi að vera uppfyllt til að réttur eða skylda sem ákvæðið mæli fyrir um verði virk. Samkvæmt skilmálaákvæðinu sé ekki nægilegt að vátryggði og maki hans búi á sama stað, heldur sé kveðið á um að þeir þurfi að eiga saman lögheimili. Verði því að leggja til grundvallar að formleg skráning af hálfu þjóðskrár um lögheimili þurfi að vera fyrir hendi á þeim degi sem vátryggingaratburður gerist og að ekki dugi í þeim efnum að fyrir liggi óafgreidd beiðni um lögheimilisflutning sem færð sé í þjóðskrá eftir vátryggingaratburð.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili geti enginn átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn.
Ekki sé dregið í efa að Matthildur og Friðrik hafi búið saman þann 10. september 2005. Fyrir liggi hins vegar að þau hafi ekki verið skráð í þjóðskrá á sama lögheimili þegar þau létust þennan dag. Þetta staðfesti framlagðar útprentanir úr þjóðskrá dags. 22. september 2007 og 7. nóvember 2007.
Að öllu framangreindu verði því að telja að Matthildur Harðardóttir hafi ekki uppfyllt skilyrði til að teljast sambýlismaki Friðriks Ásgeirs Hermannssonar í skilningi 32. gr. vátryggingarskilmála stefnda þegar vátryggingaratburður gerðist og því eigi dánarbú hennar og erfingjar ekki tilkall til þeirra dánarbóta sem vátrygging vátryggingartaka kvað á um.
Á því sé byggt að af þessu leiði óhjákvæmilega að stefnandi, sem sé eina barn hins látna vátryggingartaka, sé rétthafi dánarbóta úr hendi stefnda vegna tilgreindrar fjölskyldutryggingar.
Verði þrátt fyrir framangreint talið að Matthildur hafi uppfyllt skilyrði skilmála til að teljast sambýlismaki sé á því byggt að um einn vátryggingaratburð hafi verið að ræða þannig að ekki hafi stofnast réttur til handa Matthildi Harðardóttur samkvæmt umræddri tryggingu sem dánarbú hennar og/eða erfingjar geti leitt rétt frá og stefnandi því rétthafi af þeim sökum einnig.
Samkvæmt framangreindu sé á því byggt að stefnandi sé rétthafi dánarbóta samkvæmt fjölskyldutryggingu föður stefnanda hjá stefnda en ágreiningslaust sé að höfuðstólsfjárhæð hennar sé kr. 3.500.000 samkvæmt vátryggingarskírteini. Stefnandi krefst þeirrar fjárhæðar úr hendi stefnda auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Af hálfu stefnanda sé á því byggt með vísan til 1.mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 sem gilda um tilvik þetta að stefnda beri að greiða dráttarvexti frá 10. október 2005 en þá verði að telja að liðnir hafi verið að minnsta kosti 14 dagar frá því stefndi átti þess kost að afla upplýsinga sem þörf var á til að meta vátryggingaatburðinn og upphæð bóta.
Réttargæslustefndu sé stefnt í máli þessu þannig að þeim gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna enda hafa þeir lýst því yfir gagnvart stefnda að dánarbú móður þeirra, Matthildar Harðardóttur, og/eða erfingjar hennar séu rétthafar dánarbóta eftir föður stefnanda en ekki stefnandi og krafist dánarbótanna á þeim grundvelli. Tekið er fram að skiptum á dánarbúi Matthildar er lokið.
Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 20/1954, sbr. og lög nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Þá sé vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samninga og efndir fjárskuldbindinga. Einnig sé vísað til laga nr. 21/1990 um lögheimili eftir því sem við á.
Krafa um dráttarvexti styðst við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er tekið fram að Friðrik Ásgeir Hermannsson heitinn hafi á dánardægri haft í gildi hjá stefnda fjölskyldutryggingu sem hafði að geyma svokallaða frítímaslysatryggingu. Málsaðilum hafi verið tjáð bréflega að þar sem tveir aðilar hafi gert tilkall til sömu bóta telji félagið sér ekki fært að ganga til uppgjörs nema fyrir lægi annaðhvort samkomulag aðilanna um ráðstöfun bótanna eða niðurstaða dóms um það hver eða hverjir séu rétthafar þeirra.
Er slysið varð og Friðrik Ásgeir lést hafi hann verið með skráð lögheimili að Skriðustekk 14, Reykjavík, en þar hafði hann búið ásamt fyrri sambýliskonu sinni, Kristinu Crosbie, og syni þeirra, stefnanda í máli þessu. Hins vegar sé ekki um það deilt að þá hafi hann verið í sambúð með Matthildi heitinni að Hjallabrekku 2b, Kópavogi, en samkvæmt tilkynningu til Hagstofu Íslands, dags. 22. nóvember 2004, flutti hann heimili sitt 30. nóvember 2004 að Hjallabrekku 2b. Ekki sé ástæða til að bera brigður á að frá því tímamarki hafi þau Friðrik Ásgeir og Matthildur verið í sambúð uns þau létust 10. september 2005.
Samkvæmt grein 29.1 í skilmálum fjölskyldutryggingar, sem Friðrik Ásgeir hafði keypt hjá stefnda og í gildi voru á slysdegi, skulu dánarbætur slysatryggingar í frítíma greiðast maka eða sambýlismaka, sbr. gr. 1.1 í skilmálunum. Í téðri gr. 1.1 segir að vátryggingartaki, maki hans eða sambýlismaki og ógift börn séu vátryggð, enda eigi þessir einstaklingar sameiginlegt lögheimili og búi á sama stað. Hugtakið lögheimili sé ekki skilgreint sérstaklega í skilmálunum. Verði að skilgreina það á sama veg og gert sé í lögum um lögheimili nr. 21/1990. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna sé lögheimili manns sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. sömu gr. telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Lögheimili manns sé þannig ákveðið þar sem hann hafi fasta búsetu og sé alveg óháð ákvörðunarvaldi viðkomandi eða hvar hann hafi skráð sig til heimilis. Ekki fari á milli mála að Friðrik Ásgeir heitinn hafði hinn örlagaríka dag fasta búsetu að Hjallabrekku 2b, Kópavogi, og þar var hans lögheimili í skilningi laga. Þar bjuggu þau Friðrik og Matthildur einnig óumdeilanlega saman. Með því að þau áttu samkvæmt framangreindu sameiginlegt lögheimili og bjuggu á sama stað verður ekki um það villst að Matthildur var sambýlismaki Friðriks í skilningi gr. 1.1 í skilmálunum.
Fyrrgreind flutningstilkynning Friðriks Ásgeirs heitins var ekki afgreidd hjá Hagstofu Íslands fyrr en í nóvember 2005, að telja verður, og þá með afturvirkum hætti miðað við að sambúð hans með barnsmóður sinni hafi verið slitið um áramót 2003/2004. Því verði heldur ekki fram hjá því litið að á dánardægri hans var skráð lögheimili hans í reynd að Hjallabrekku 2b, Kópavogi.
Friðrik Ásgeir mun hafa látist nær samstundis eftir að bátur sá, sem þau voru farþegar í, steytti á Skarfaskeri um kl. 1:38 aðfaranótt 10. september 2005. Matthildur lést hins vegar nær hálfri klukkustund síðar er bátnum hvolfdi á Viðeyjarsundi. Sé engum vafa undirorpið að Matthildur lifði Friðrik þótt um skamma hríð hafi verið. Verði því að telja að þá þegar hafi stofnast réttur hennar til þeirra dánarbóta sem stefnda beri að greiða úr vátryggingunni, sbr. gr. 29.1 í þeim skilmálum er þá giltu. Rétturinn til bóta hafi svo erfst til réttargæslustefndu sem sona Matthildar við andlát hennar.
Í gr. 29.1 í fyrrgreindum skilmálum segi auk þess sem áður getur að dánarbætur greiðist til barna vátryggðs sé maki eða sambýlismaki eigi á lífi. Í ljósi þessa og með því að Friðrik Ásgeir átti sambýlismaka á lífi, er hann lést, geti ekki til þess komið að stefnandi eigi rétt til hinna umdeildu dánarbóta.
Samkvæmt málsgögnum liggi fyrir að Friðrik Ásgeir lést er báturinn steytti á Skarfaskeri. Eftir að báturinn losnaði af skerinu um 20 mínútum síðar var bátnum siglt áleiðis inn á Viðeyjarsund uns honum hvolfdi og Matthildur drukknaði. Sá atburður gerðist tæpri hálfri klukkustund eftir að báturinn steytti á skerinu. Stjórnandi bátsins var sakfelldur sérstaklega fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir til bjargar farþegum eftir að báturinn losnaði af skerinu. Sé alveg ljóst að tvö aðskild atvik ollu því að þau Friðrik Ásgeir og Matthildur létust. Verði því ekki hjá því komist að ætla að sitt hvor vátryggingaratburðurinn hafi orðið þeim að aldurtila. Staðhæfingum stefnanda um að Matthildur hafi ekki orðið rétthafi sökum þess að þau hafi látist við einn og sama vátryggingaratburðinn sé því mótmælt sem röngum.
Bótaréttur stefnanda sé mjög umdeilanlegur í máli þessu að því marki sem hann yfir höfuð kunni að vera fyrir hendi. Samkvæmt skilmálum þeim sem um vátrygginguna gilda og reglum erfðaréttarins hafi réttargæslustefndu gert tilkall til dánarbótanna. Stefnandi hafi sem erfingi Friðriks Ásgeirs heitins ennfremur gert tilkall til bótanna. Vegna kröfu þessara aðila til sömu dánarbóta sé stefnda óheimilt að greiða stefnanda sem og réttargæslustefndu bæturnar fyrr en úr því hafi verið skorið með dómi eða sátt milli aðila hver eigi rétt á fjárhæðinni, sbr. 3. mgr. 104. gr., sbr. 122. gr., laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, sem í gildi voru er vátryggingaratburðurinn varð í september 2005. Meðan svo háttar um kröfu stefnanda eins og hér hafi verið lýst sé ótækt að hún beri dráttarvexti, sbr. fyrri málslið 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Geti því fyrst til þess komið að krafan beri dráttarvexti frá endanlegum dómsuppsögudegi að telja.
Varðandi málskostnaðarkröfur stefnda er vísað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og að framan greinir sé stefnda ógerlegt að greiða hinar umdeildu dánarbætur fyrr en úr því hafi verið leyst með dómi eða samkomulagi milli stefnanda og réttargæslustefnda hverjum beri að greiða bæturnar. Dómsmál þetta sé því ekki höfðað vegna atvika sem stefndi hafi á valdi sínu. Sé því óhjákvæmilegt annað en dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað hver svo sem málsúrslit verða eða eftir atvikum fella hann niður. Af sömu ástæðu geti heldur ekki til þess komið að stefnda verði gert að greiða réttargæslustefndu málskostnað.
Málsástæður réttargæslustefndu
Réttargæslustefndu séu synir og skylduerfingjar Matthildar V. Harðardóttur, en Friðrik Ásgeir Hermannsson hafi verið sambýlismaður hennar. Hann hafði keypt fjölskyldutryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. sem var í gildi á slysdegi. Samkvæmt ákvæði 1.1. í skilmálum tryggingarinnar, sem giltu á slysdegi, séu vátryggðir vátryggingataki, maki hans eða sambýlismaki og ógift börn, enda eigi þessir einstaklingar sameiginlegt lögheimili og búi á sama stað. Samkvæmt grein 29.1 greiðist dánarbætur til maka eða sambýlismaka, sbr. ákvæði 1.1. í þeim skilmálum er í gildi voru á slysdegi. Sé maki eða sambýlismaki eigi á lífi greiðist dánarbætur til barna vátryggðs. Lögheimili manns sé, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili, sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Nánari skilgreining á því hvað teljist föst búseta sé svo í 2. mgr. ákvæðisins. Óumdeilt sé að Friðrik heitinn hafi verið í sambúð með Matthildi heitinni á slysdegi og að þau bjuggu að Hjallabrekku 2b í Kópavogi. Lögheimili Friðriks hafi þó verið skráð í þjóðskrá að Skriðustekk 14 í Reykjavík, þar sem Friðrik og barnsmóðir hans, Kristin Crosbie, höfðu áður verið í skráðri sambúð, en henni hafði ekki formlega verið slitið. Sambúð Friðriks og Kristinar hafi þó í raun lokið í árslok 2002 er Kristin fluttist til Sidney í Ástralíu með son þeirra Friðriks, Hermann Stuart Crosbie.
Hinn 22. nóvember 2004 hafi Friðrik heitinn tilkynnt Þjóðskrá Hagstofu Íslands um flutning á lögheimili sínu frá Skriðustekk 14, Reykjavík að Hjallabrekku 2 í Kópavogi, miðað við 30. nóvember 2004. Í tilkynningu Friðriks komi fram að sambúð hans og Kristinar hefði lokið þann 31. desember 2002. Flutningstilkynningin var afgreidd eftir andlát Friðriks og var lögheimili hans fært að Hjallabrekku 2, afturvirkt miðað við 30. nóvember 2004. Lögheimili Friðriks hafi samkvæmt þessu verið að Hjallabrekku 2b í Kópavogi á dánardegi hans. Það hafi því komið í hlut sýslumannsins í Kópavogi að óska eftir opinberum skiptum á dánarbúi Friðriks og úrskurður um að bú hans væri tekið til opinberra skipta hafi verið kveðinn upp af Héraðsdómi Reykjaness. Það hafi því enga þýðingu við úrlausn máls þessa þótt formsins vegna hafi lögheimilisskráning Friðriks Ásgeirs ekki verið framkvæmd af viðkomandi stofnun fyrr en eftir dánardag hans og þá með afturvirkum hætti. Réttargæslustefndu mótmæla því að túlka eigi ákvæði 1.1. í skilmálum umræddrar tryggingar með þeim hætti sem gert sé í stefnu.
Með vísan til framanritaðs hafi réttargæslustefndu gert kröfur vegna fjölskyldutryggingar hjá stefnda á nafni Friðriks Ásgeirs Hermannssonar, þ.e. annars vegar um dánarbætur vegna Matthildar og hins vegar um dánarbætur vegna Friðriks Ásgeirs. Kröfu réttargæslustefndu um dánarbætur vegna andláts Friðriks Ásgeirs hafi verið hafnað af hálfu stefnda þar sem af hálfu stefnanda hefði einnig verið gerð krafa um greiðslu sömu bóta. Stefndi féllst hins vegar á greiðslu dánarbóta til réttargæslustefndu sem barna vátryggðs vegna andláts Matthildar V. Harðardóttur á þeim grundvelli að óumdeilt væri að Matthildur og Friðrik hefðu verið í sambúð á slysdegi og að eftir andlát Friðriks hafi lögheimili hans verið fært að Hjallabrekku 2b í Kópavogi afturvirkt m.v. 30. nóvember 2004. Þannig hafi verið uppfyllt skilyrði ákvæðis 1.1 í skilmálum fjölskyldutryggingar sem Friðrik Ásgeir hafði hjá stefnda um það hverjir te1jist vátryggðir samkvæmt ákvæðinu. Í samræmi við ákvæði 29.1 í fyrrgreindum skilmálum, sem í gildi voru á slysdegi, töldust réttargæslustefndu rétthafar dánarbóta vegna andláts Matthildar V. Harðardóttur. Af hálfu réttargæslustefndu sé talið ljóst að stefndi hafi þannig þegar fallist á að Matthildur hafi uppfyllt skilyrði ákvæðis 1.1. í viðkomandi tryggingarskilmálum til að teljast sambýlismaki Friðriks Ásgeirs. Réttargæslustefndu móttóku greiðslu dánarbóta vegna Matthildar frá stefnda með öllum fyrirvara um rétt þeirra til dánarbóta vegna andláts Friðriks Ásgeirs Hermannssonar.
Byggja réttargæslustefndu á því, eins og stefndi Tryggingamiðstöðin hf., að Matthildur hafi látist eftir andlát Friðriks og að um hafi verið að ræða sitt hvorn vátryggingaratburðinn. Því hafi stofnast réttur til handa Matthildi til dánarbóta eftir Friðrik Ásgeir. Við andlát hennar hafi dánarbú hennar tekið við þeim rétti og síðar erfingjar hennar, réttargæslustefndu.
Réttargæslustefndu sem erfingjar Matthildar teljist samkvæmt framangreindu réttmætir viðtakendur dánarbóta eftir Friðrik Ásgeir. Beri því að hafna kröfum stefnanda á hendur stefnda um dánarbætur vegna andláts Friðriks Ásgeirs.
Réttargæslustefndu vísa til laga nr. 20/1954 sbr. og lög nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Einnig vísa réttargæslustefndu til laga nr. 21/1990 um lögheimili, einkum 1. gr. Þá er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga. Krafa réttargæslustefndu um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.
Niðurstaða
Í málinu er það ágreiningsefni hver sé rétthafi dánarbóta úr fjölskyldutryggingu Friðriks Á. Hermannssonar, sem lést 10. september 2005. Við úrlausn þess reynir á túlkun greinar 29.1 í tryggingarskilmálum stefnda, sbr. grein 1.1 í þeim skilmálum, sem í gildi voru þegar slysið átti sér stað.
Í 29. gr. vátryggingaskilmála ,,151 Fjölskyldutryggingu“ stefnda segir:
,,Valdi slys dauða vátryggðs innan eins árs frá slysadegi, greiðist maka eða sambýlismaka, sbr. 1. gr. þessara skilmála, sú fjárhæð sem tilgreind er á vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun. Sé maki eða sambýlismaki vátryggðs eigi á lífi greiðast dánarbætur til barna vátryggðs.“
Í 1. gr. sömu skilmála segir hverjir séu vátryggðir:
,,Vátryggðir eru vátryggingartaki, maki hans eða sambýlismaki og ógift börn, enda eigi þessir einstaklingar sameiginlegt lögheimili og búi á sama stað.“
Samkvæmt skilmálum þessum gengur maki eða sambýlismaki vátryggðs framar rétti barna hans til greiðslu dánarbóta.
Fyrir liggur að Friðrik og Matthildur heitin bjuggu saman að Hjallabrekku 2b í Kópavogi þegar slysið varð. Friðrik hafði áður verið í sambúð með Kristinu Crosbie og höfðu þau búið á Skriðustekk 14, Reykjavík, ásamt syni sínum, stefnanda málsins. Friðrik óskaði eftir flutningi lögheimilis frá Skriðustekk 14 að Hjallabrekku 2b hinn 30. nóvember 2004 eftir sambúðarslit við Kristinu Crosbie. Sú tilkynning hafði ekki verið afgreidd er Friðrik lést af slysförum. Lögheimilisskráningin var hins vegar færð á Hjallabrekku 2b afturvirkt í nóvember 2005 og miðað við að fyrri sambúð hafi verið slitið um áramót 2003/2004.
Hugtakið lögheimili er skilgreint í lögum um lögheimili nr. 21/1990. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Óumdeilt er að þau Friðrik og Matthildur höfðu fasta búsetu að Hjallabrekku 2b, Kópavogi, er slysið varð, sem er og í samræmi við þá skráningu lögheimilis, sem gengið var frá eftir á. Matthildur var því sambýlismaki Friðriks í skilningi vátryggingarskilmála.
Samkvæmt gögnum máls liggur fyrir að Friðrik lést er báturinn steytti á Skarfaskeri. Eftir að báturinn losnaði af skerinu um 20 mínútum síðar var honum siglt áleiðis inn á Viðeyjarsund uns honum hvolfdi og Matthildur drukknaði. Sá atburður gerðist tæpri hálfri klukkustund eftir að báturinn steytti á skerinu. Voru það þannig tveir aðskildir atburðir sem ollu því að þau Friðrik og Matthildur létust. Samkvæmt því var Matthildur rétthafi dánarbóta eftir Friðrik. Sú niðurstaða leiðir til þess að bætur renna inn í dánarbú Matthildar til hagsbóta fyrir erfingja hennar, réttargæslustefndu í málinu, og sýkna ber því stefnda af kröfum stefnanda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.
Báðir aðilar hafa andmælt málskostnaðarkröfu réttargæslustefndu í málinu. Af máltilbúnaði réttargæslustefndu í málinu verður ekki annað ráðið en að málskostnaðarkröfu þeirra sé eingöngu beint að stefnanda málsins. Ber að hafna þeirri kröfu.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kristinar Crosbie, fyrir hönd ólögráða sonar síns, Hermanns Stuart Crosbie, í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Málskostnaðarkröfu réttargæslustefndu á hendur stefnanda er hafnað.