Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Fimmtudaginn 10. mars 2011. |
|
|
Nr. 57/2011. |
Bjartmar Ingi Sigurðsson (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Nadege D. Prat og (enginn) Hafnarfjarðarkaupstað (Ólafur Helgi Árnason hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B gegn N og H var vísað frá dómi. Í málinu krafðist B þess að N og H yrðu dæmdir óskipt skaðabótaskyldir vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir er tiltekin fasteign var rifin en fasteignin var sambyggð fasteign B. Reisti B kröfu sína á hendur N á 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og taldi tjónið á fasteign sinni felast í því að veggur sem skildi húsin að hafi staðið óeinangraður eftir þegar hús N var rifið. Tjón hans hafi einnig falist í því að leigutaki sem bjó í fasteign hans rifti leigusamningi sínum við hann. Kröfu sína á hendur H reisti B á sakareglunni og taldi hann hina skaðabótaskyldu háttsemi felast í því að H hefði tekið að sér og látið framkvæma niðurrif á húsinu án þess að hafa gætt að því að ekki hlytist tjón af þeim framkvæmdum fyrir B. Varnaraðilar höfðu ekki upp þá málsástæðu í héraði að B hefði ekki orðið fyrir tjóni og mótmæltu því heldur ekki að það yrði rakið til niðurrifs hússins. Í Hæstarétti var talið að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnisúrlausnar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar eins og ekki væri um að ræða gjafsóknarmál.
Varnaraðilinn Hafnarfjaðarkaupstaður krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Nadege D. Prat hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili hefur fengið gjafsókn fyrir Hæstarétti vegna kærumáls þessa.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta í héraði gegn varnaraðilum og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að þeir yrðu dæmdir óskipt skaðabótaskyldir vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir er fasteignin Hverfisgata 41A, Hafnarfirði, var rifin, en fasteignin var sambyggð fasteign sóknaraðila, sem er númer 41 við sömu götu. Í stefnu er gerð grein fyrir því á hvaða rökum krafan er reist, annars vegar gagnvart varnaraðilanum Nadege D. Prat og hins vegar gagnvart varnaraðilanum Hafnarfjarðarkaupstað. Er krafan á hendur hinum fyrrnefnda reist á 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en tjónið á fasteigninni kveður sóknaraðili í stefnu felast í því að veggur, sem skildi húsin að, hafi staðið óeinangraður eftir, þegar hús þessa varnaraðila var rifið. Hafi tjón hans einnig falist í því að leigutaki, sem þar hafðist við, hafi rift leigusamningi og farið úr húsinu vegna kulda. Kröfuna á hendur Hafnarfjarðarkaupstað kveðst sóknaraðili reisa á sakarreglunni og hafi hin skaðabótaskylda háttsemi falist í því að þessi varnaraðili hafi tekið að sér og látið framkvæma niðurrif á húsinu án þess að hafa gætt að því að ekki hlytist tjón af þeim framkvæmdum fyrir sóknaraðila.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.
Í greinargerð varnaraðilans Hafnarfjarðarkaupstaðar í héraði tefldi hann fram þeim málsástæðum að nauðsynlegt hefði verið að rífa húsið, enda stafaði hætta frá því fyrir nærliggjandi hús. Ástæða þess hve illa var komið fyrir húsinu hafi verið vanræksla á viðhaldi þess í áratugi. Hann kveður málið hafa verið alvarlegt og atbeini hans að niðurrifi hússins hafi verið í þágu almannahagsmuna. Niðurrifið hafi verið á ábyrgð eiganda hússins. Reynt hafi verið að hafa upp á sóknaraðila áður en framkvæmdir hófust, en það ekki tekist. Ekki hafi verið unnt að bíða vegna þess að niðurrif hússins varð að eiga sér stað á meðan kalt var í veðri. Hann kveður sóknaraðila hafa vitað frá því í lok janúar 2009 að hús hans var óeinangrað að hluta en þó ekki hlutast til um að takmarka tjón sitt. Hafnar þessi varnaraðili því að hann hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart sóknaraðila.
Varnaraðilinn Nadege D. Prat lét málið ekki til sín taka í héraði.
Samkvæmt framansögðu höfðu varnaraðilar ekki þá málsástæðu uppi í héraði að sóknaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni og mótmæltu því heldur ekki að það verði rakið til niðurrifs hússins. Varnaraðilinn Hafnarfjarðarkaupstaður færir á hinn bóginn rök gegn skaðabótaábyrgð sinni á því tjóni.
Sóknaraðili hefur samkvæmt því sem áður greinir uppfyllt framangreind skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og hefur því lögvarða hagsmuni af því að krafa hans verði tekin til efnislegrar meðferðar. Verður hinum kærða úrskurði því hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnisúrlausnar.
Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði og gjafsóknarkostnað bíði efnisúrlausnar málsins.
Varnaraðilinn Hafnarfjarðarkaupstaður verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað, sem renni í ríkissjóð og verður nánar ákveðinn eins og segir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilinn Hafnarfjarðarkaupstaður greiði 200.000 krónur í kærumálskostnað, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember sl., var höfðað 14. og 21. júlí 2010.
Stefnandi er Bjartmar Ingi Sigurðsson, Barðastöðum 45, Reykjavík.
Stefndu eru Nadege D. Prat, Hverfisgötu 41A, Hafnarfirði og Hafnarfjarðarkaupstaður, Strandgötu 6, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndu séu in solidum skaðabótaskyld gagnvart stefnanda vegna tjóns sem varð á fasteign stefnanda að Hverfisgötu 41, Hafnarfirði, fastanúmer 207-6454, við niðurrif eignarinnar að Hverfisgötu 41A, Hafnarfirði, fastanúmer 207-6455, í janúar 2009, og annars fjártjóns stefnanda sem rekja má til niðurrifsins.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða honum málskostnað að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði, óháð gjafsóknarleyfi stefnanda.
Stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Stefnda Nadege D. Prat hefur ekki látið málið til sín taka.
I
Stefnandi er eigandi fasteignarinnar Hverfisgötu 41 í Hafnarfirði. Um er að ræða hús sem er sambyggt húsinu við Hverfisgötu 41A, sem er í eigu stefndu Nadege D. Prat. Stefnandi, sem hefur verið síðastliðin misseri við nám í Skotlandi, hefur leigt fasteign sína. Stefnandi lýsir atvikum svo að hann hafi séð frétt þann 14. janúar 2009 á vefsíðu Ríkisútvarpsins þar sem greint hafi verið frá niðurrifi á innviðum fasteignarinnar að Hverfisgötu 41A í Hafnarfirði, en um það hafi stefnandi ekki vitað. Síðar hafi komið í ljós að ástæður niðurrifs á innviðum hússins hafi verið að veggjatítlur hafi hreiðrað um sig í húsnæðinu og hafi það af þeim sökum verið óíbúðarhæft.
Með bréfi dagsettu 8. desember 2008 óskaði stefnda, Nadege D. Prat, eftir aðstoð bæjarstjórnar stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar við niðurrif og eyðingu timburs í innviðum Hverfisgötu 41A, svo að hún gæti hafist handa við enduruppbyggingu eignarinnar. Í framkvæmdaáætlun skipulags- og byggingarsviðs stefnda vegna hreinsunar timburverksins, dagsettri 12. desember 2008, kemur fram að verkið verði unnið á vegum framkvæmdasviðs stefnda, sem jafnframt hafi eftirlit með framkvæmdinni. Úttektarmaður skipulags- og byggingarsviðs muni taka verkið út að því loknu. Einnig að samið verði við verktaka um framkvæmdina og að verkið verði unnið á ábyrgð húseiganda en framkvæmdin greidd af framkvæmdasviði. Á fundi bæjarráðs stefnda 16. desember 2008 var tekið fyrir erindi stefndu, Nadege D. Prat, og bæjarstjóra og sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs falið að vinna að úrlausn málsins.
Stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður lýsir því svo að mikilvægt hafi verið að fara í verkið sem fyrst til að koma í veg fyrir útbreiðslu veggjatítlunnar. Áður en niðurrifið hafi farið fram hafi verið reynt að ná sambandi við eiganda Hverfisgötu 41 og meðal annars hafi verið haft samband við leigjendur hússins sem hafi ekki getað gefið neinar upplýsingar um heimilisfang eiganda hússins erlendis né umboðsmann á Íslandi. Það hafi því verið tekin ákvörðun á grundvelli almannahagsmuna að fara í niðurrif þrátt fyrir að ekki hafi náðst í eiganda hússins. Verktakafyrirtækið Fura ehf. hafi annast niðurrifið sem hafi farið fram 29. desember 2008 til 4. janúar 2009. Sá tími hafi meðal annars verið valinn vegna ákjósanlegra veðuraðstæðna til niðurrifs. Samkvæmt óundirrituðum verksamningi milli eiganda Hverfisgötu 41A og Furu ehf. komi fram að Fura ehf. beri enga ábyrgð vegna verksins á hugsanlegu tjóni á húsinu eða öðrum húsum í grenndinni. Eigandi hússins viti um áhættuna af verkinu og samþykki það. Við úttekt á niðurrifinu hafi komið í ljós að veggur milli húsanna hafi verið óeinangraður og í framhaldinu, nánar tiltekið 28. janúar 2009 hafi bæjarstjóri haldið fund með foreldrum stefnanda, Sigurði Óskarssyni og Málfríði Björnsdóttur, svo og Magnúsi Kristjánssyni, umboðsmanni stefndu Nadege, þar sem handsalað hafi verið samkomulag um að eigandi hússins nr. 41A gengi í það verk að einangra vegg hússins í kjölfar niðurrifsins.
Stefnandi lýsir atvikum einnig svo að athygli stefndu, Nadege D. Prat, hafi verið vakin á því að veggur milli húsanna hafi verið óeinangraður og stefnda hafi þá sagst ætla að einangra vegginn. Þar sem veggurinn hafi verið óeinangraður hafi fasteign stefnanda verið óíbúðarhæf eftir að innviðir Hverfisgötu 41A hafi verið rifnir. Þeir aðilar sem hafi haft fasteignina á leigu hafi rift leigusamningi og farið út úr húsinu í byrjun mars 2009. Stefnandi hafi frá þeim tíma greitt af áhvílandi lánum án þess að hafa haft tekjur á móti. Stefnandi sé námsmaður og tekjulaus og hafi ekki haft fjárhagslega burði til að hlutast til um lagfæringar á húsnæðinu í því skyni að takmarkað tjón sitt sem aukist að umfangi með hverjum mánuði.
Stefnandi leitaði eftir úrlausn stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar á málinu sem hafnaði skaðabótaskyldu. Í bréfi til stefnda dagsettu 11. maí 2009 var óskað eftir því að lausn fyndist á máli stefnanda hið fyrsta þar sem hann hefði orðið fyrir tjóni vegna niðurrifsins. Engin viðbrögð urðu af hálfu bæjarins við bréfinu. Stefnandi sendi þá bréf til skipulags- og byggingarsviðs stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar, dagsett 29. júní 2009, þar sem gerð er grein fyrir slæmri stöðu stefnanda í kjölfar niðurrifsins. Þann 30. júlí 2009 var haldinn fundur með starfsmönnum skipulags- og byggingasviðs stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar og með bréfi dagsettu 24. september 2009 fór stefnandi þess á leit við stefnda að teknar yrðu upp samningaviðræður við bæinn þar sem komið yrði til móts við stefnanda vegna fjártjóns sem hann hafi orðið fyrir í tengslum við niðurrif á eigninni að Hverfisgötu 41A. Með bréfi dagsettu 25. september 2009 svaraði stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður erindinu og hafnaði allri bótaskyldu.
Þann 25. febrúar 2010 fékk stefnandi gjafsóknarleyfi í tilefni af fyrirhugaðri málssókn á hendur stefndu.
Fyrir dómi gáfu skýrslur Sigurður Óskarsson og Málfríður Björnsdóttir, foreldrar stefnanda, svo og Lúðvík Geirsson, Bjarki Jóhannesson, Sigurður Haraldsson, Hrólfur Sigurður Gunnlaugsson, Erling Ólafsson skordýrafræðingur og Magnús Kristjánsson.
II
Stefnandi kveðst byggja á því að með niðurrifi hússins að Hverfisgötu 41A í Hafnarfirði hafi Hafnarfjarðarkaupstaður og eigandi Hverfisgötu 41A bakað stefnanda tjón sem þeim beri óskipt skylda til að bæta honum.
Stefnandi byggi á því að stefnda Nadege D. Prat beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans vegna þess að í umrætt sinn, er hugað hafi verið að hagsmunum hennar sem eiganda fasteignarinnar að Hverfisgötu 41A, hafi ekki verið gætt að hagsmunum stefnanda. Byggi stefnandi skaðabótaábyrgðina á því að stefnda Nadege, beri ábyrgð gagnvart honum á grundvelli 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þar sem í umrætt sinn hafi orðið mistök við meðferð séreignarinnar og viðhald hennar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 51. gr. laganna Sé stefnda því skaðabótaskyld gagnvart stefnanda bæði vegna beins tjóns á fasteign stefnanda, nánar tiltekið vegg sem skilur húsin að og sé nú óeinangraður, og einnig vegna tjóns sem leiði af framangreindu tjóni, þ.e. tjón vegna afnotamissis af fasteigninni. Eins og áður greini hafi stefnandi ekki getað nýtt eignina eftir að umræddar aðgerðir fóru fram og sé því um að ræða tjón vegna afnotamissis sem stefndu verði þá einnig gert að bæta í samræmi við 2. mgr. 51. gr. laga nr. 26/1994 sem beinlínis mæli fyrir um bótaskyldu vegna afleidds tjóns.
Stefnandi byggi á því að stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður beri sameiginlega með stefndu Nadege ábyrgð á tjóni stefnanda en í umrætt sinn aðhafðist stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður í þágu, og í samráði við, stefndu Nadege. Byggi stefnandi skaðabótaábyrgð Hafnarfjarðarkaupstaðar á því að stefnda hafi, þegar hann hafi tekið að sér niðurrif eignar stefndu Nadege, borið að gæta þess að ekki hlytist tjón af þeim framkvæmdum fyrir stefnanda. Sú vanræksla stefnda á að kanna aðstæður við niðurrif og að bæta ekki úr þegar ljóst hafi verið orðið að tjón hafi hlotist við niðurrifið á eign stefnanda leiði til þess að kaupstaðurinn hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda á grundvelli sakarreglunnar. Stefnandi byggi á því að framkvæmd niðurrifs á eign stefndu Nadege hafi í senn verið saknæm og ólögmæt aðgerð sem hafi ekki farið fram í samráði við stefnanda eins og skylt hafi verið að gera vegna reglna laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og framkvæmdir við sameiginlegan hluta hússins. Sá veggur sem skilji að eignir stefnanda og stefndu Nadege sé án vafa sameign í skilningi 6. gr. laga nr. 26/1994. Eins og áður hafi verið lýst hafi umræddur veggur verið óeinangraður og hafi eign stefnanda verið óíbúðarhæf eftir niðurrif innviða húss stefndu Nadege vegna kulda en klaki hafi myndast á veggnum inni í húsi stefnanda. Stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður hafi viðurkennt að ekki hafi verið kannað að fullu fyrir niðurrif hver áhrif þess yrðu fyrir fasteign stefnanda en eftir niðurrifið hafi komið í ljós að milliveggurinn hafi verið óeinangraður. Tjón stefnanda megi því ótvírætt rekja til aðgerða stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar á fasteign stefndu Nadege D. Prat.
Með vísan til alls framangreinds krefjist stefnandi því viðurkenningar á því að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni því sem hafi orðið á fasteign stefnanda við niðurrif eignarinnar að Hverfisgötu 41A og afleiddu tjóni.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, auk almennra reglna skaðabótaréttar. Krafan um málskostnað sé reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt á málskostnað sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður kveðst mótmæla kröfum stefnanda, málsástæðum og lagarökum og vísar til þess að fyrir hafi legið á þeim tíma sem niðurrif Hverfisgötu 41A hafi átt sér stað að innviðir hafi í reynd verið ónýtir og að hætta hafi stafað af húsinu fyrir nærliggjandi hús. Það hafi því verið ljóst að niðurrif innviða hússins hafi verið nauðsynlegt með eða án aðkomu bæjarins. Frumorsök þess að húsnæðið hafi verið í jafn slæmu og alvarlegu ástandi og raun bar vitni sé að öllum líkindum alvarleg vanræksla á viðhaldi árum, jafnvel áratugum, saman. Í skýrslu Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings, komi meðal annars fram að klakgöt eftir bjöllur, sem verði til þegar þær hafi náð fullorðinsstigi eftir að hafa vaxið upp og þroskast inni í viðnum og skriðið út á yfirborðið, hafi fundust hvarvetna þar sem skoðað hafi verið. Sama hafi verið hvort sem um hafi verið að ræða útveggi eða milligólf, burðarbita eða gólf- og veggklæðningar. Víðast hvar hafi mátt finna klakgöt. Alvarlegastar hafi þó verið skemmdir í gólfi baðherbergis sem hafi ekki lengur mannhelt. Þar hafi mátt taka fisléttar gólffjalir og mylja í duft milli fingurgóma.
Í ljósi alvarleika málsins hafi stefndi tekið ákvörðun á grundvelli almannahagsmuna og neyðarréttarsjónarmiða að aðstoða eiganda Hverfisgötu 41A við niðurrif hússins án nokkurrar skyldu til að gera slíkt. Mikil hætta hafi getað skapast fyrir nærliggjandi hús, þar á meðal Hverfisgötu 41, ef veggjatítlur hefðu smitast yfir í önnur hús en öruggasti tíminn til að fjarlægja smitað timbur sé yfir vetrartímann þegar flugtími sé afstaðinn og þær lirfur sem kunni að hrökkva úr viðnum geti ekki lifað af. Niðurrifið hafi alfarið farið fram á ábyrgð eiganda og líkt og fram komi í bréfi eigandans til bæjarins þá hafi staðið til að hefja enduruppbyggingu eignarinnar í kjölfar niðurrifs. Aðstoð stefnda við nauðsynlegt niðurrif á ónýtum og sýktum innviðum hússins hafi ekki falið í sér að stefndi tæki með því ábyrgð á ástandi hússins eða næsta nágrennis í kjölfar niðurrifsins. Þegar í ljós hafi komið við úttekt að loknu niðurrifi að veggur milli húsanna hafi verið óeinangraður hafi umboðsmaður stefndu Nadege D. Prat, eiganda Hverfisgötu 41A, Magnús Kristjánsson, verið upplýstur um það og á fundi Lúðvíks Geirssonar, þáverandi bæjarstjóra, með Magnúsi og foreldrum stefnanda hafi verið handsalað samkomulag um að eigandi Hverfisgötu 41A gengi í það verk að einangra millivegginn. Ábyrgðin hafi því alfarið verið á herðum eigandans sem hafi borið að ganga frá veggnum með viðeigandi hætti að loknu niðurrifi á húseign hans.
Jafnframt sé ljóst að starfsmenn stefnda hafi reynt að hafa upp á eiganda Hverfisgötu 41 meðal annars með því að hafa samband við leigjendur hússins og láta þá vita af fyrirhuguðu niðurrifi. Ekki hafi þó náðst beint samband við eigandann á þessum tíma en talið var óforsvaranlegt að bíða með niðurrif enda kjöraðstæður í veðurfarslegu tilliti á þeim tíma sem niðurrifið fór fram.
Stefndi kveðst benda á að stefnandi hafi haft vitneskju um að hús hans væri óeinangrað að hluta frá því í lok janúar 2009. Þrátt fyrir það hafi hann ekki hlutast til um að einangra vegginn og hafi því ekki dregið þannig úr því tjóni sem hann telji sig hafa orðið fyrir út af óeinangraða veggnum.
Stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður hafni því alfarið að stefndi hafi með aðstoð sinni við niðurrif Hverfisgötu 41A bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda og beri samkvæmt því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Hvað lagarök varði vísi stefndi til almennra reglna skaðabótaréttarins. Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á reglum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.
IV
Í máli þessi leitar stefnandi viðurkenningardóms um það að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi beggja stefndu in solidum. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að höfða mál og krefjast dóms um viðurkenningu á tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, en þá er áskilið að stefnandi þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr um slíkt og leiði að minnsta kosti líkum að því að hann kunni að hafa orðið fyrir tjóni vegna þess atburðar sem krafan beinist að.
Krafa stefnanda á hendur stefndu hljóðar um skaðabætur vegna tjóns á fasteign stefnanda, Hverfisgötu 41 í Hafnarfirði vegna þess að þak og innviðir í sambyggðu húsi, Hverfisgötu 41A, voru rifnir og fargað til að útrýma veggjatítlu, og vegna annars fjártjóns, sem leiddi af niðurrifinu. Meint tjón stefnanda er talið felast í því að sambyggður veggur milli húsanna nr. 41 og 41A við Hverfisgötu, fasteigna stefnanda og stefndu; Nadege D. Prat, hafi verið óeinangraður og því hafi fasteign stefnanda orðið óíbúðarhæf í kjölfar niðurrifsins vegna kulda í íbúðinni og hafi leigjendur rift leigusamningi af þeim sökum og yfirgefið húsið í byrjun mars 2009 og hafi stefnandi orðið fyrir fjárhagstjóni vegna þess.
Stefnandi hefur lagt fram afrit af tímabundnum leigusamningi frá 14. ágúst 2008 milli hans, sem leigusala, og Algis Lileikis sem leigutaka um leigu á parhúsi stefnanda að Hverfisgötu 41. Upphafstími leigunnar er tilgreindur 17. ágúst 2008 og lok leigutíma 1. september 2009. Engra gagna nýtur við í málinu um ástand á húsi stefnanda eða notagildi þess eða um vegg þann milli húsanna Hverfisgötu 41 og 41A sem sagður er vera óeinangraður og hafa valdið því að íbúð stefnanda varð óíbúðarhæf. Í stefnu er fullyrt að áðurnefndum leigusamningi um húsið hafi verið rift vegna þess að íbúðin hafi verið óíbúðarhæf í kjölfar niðurrifsins. Engin gögn málsins styðja þessa fullyrðingu stefnanda.
Við beitingu heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að hafa eingöngu uppi kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, er almennt litið svo á að beiting heimildarinnar sé háð því skilyrði, að stefnandi leiði viðhlítandi líkum að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af tilgreindu tilefni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felist. Að mati dómsins getur stefnandi ekki talist hafa leitt líkur að tjóni með því einu að vísa til þess að veggur milli húsanna Hverfisgötu 41 og 41A sé óeinangraður og að það hafi leitt til tjóns á fasteign hans og afleiddu tjóni vegna missis leigutekna og til kostnaðar af fasteigninni. Hefur stefnandi þannig ekki lýst því með fullnægjandi hætti af hvaða ástæðum leigutaki hætti að leigja húsið. Í þessu felst að stefnandi hefur ekki í málatilbúnaði sínum reifað með viðhlítandi hætti atriði sem varða skilyrði fyrir dómkröfu hans á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Stefnanda var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa með bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins dagsettu 25. febrúar 2010. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þar með talinn málflutningsþóknun lögmanns hans, Þóru Björgu Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, er þykir hæfilega ákveðin eins og greinir í úrskurðarorði.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þóru Bjargar Jónsdóttur hdl. 753.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.