Hæstiréttur íslands
Mál nr. 422/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 14. ágúst 2007. |
|
Nr. 422/2007. |
Ákæruvaldið(Jón H.Snorrason saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. ágúst 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans eru til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 31. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. ágúst 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, [kt.], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans eru til meðferðar fyrir æðri dómi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 31. október nk.
Krafan er reist á ákvæðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Fyrir dóminum mótmælti ákærði kröfu lögreglustjórans um áframhaldandi gæsluvarðhald. Lagði ákærði fram bréf sitt til Ríkissaksóknara dags. 25. júlí sl. þar sem hann lýsir yfir áfrýjun dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 12. júlí sl. Byggir ákærði í fyrsta lagi á því að þar sem lýst hafi verið yfir áfrýjun málsins af hans hálfu hafi forræði á því að óska eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir honum færst yfir til Ríkissaksóknara og því sé lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ekki lengur réttur sóknaraðili málsins. Þá byggir hann einnig á því að hann hafi verið leystur úr gæsluvarðhaldi vegna máls þess sem dæmt var 12. júlí sl. þann 2. júlí. Hann hafi frá 6. júlí sætt gæsluvarðhaldi vegna ákæruefna sem dæmd hafi verið í dag og séu ekki skilyrði til að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi vegna þeirra brota, enda sé með gæsluvarðhaldsvist sinni frá 6. júlí sl. langt kominn með að afplána það 45 daga fangelsi sem hann hafi verið dæmdur til í dag. Þar sem hann sæti ekki í gæsluvarðhaldi vegna brota sem dæmt hafi verið um 12. júlí sl. séu skilyrði 106. gr. laga nr. 19/1991 ekki fyrir hendi til að byggja á kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli hins fyrri dóms.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að þann 30. janúar sl. hafi dómþoli verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðahaldi til 2. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra nr. R-6/2007. Með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 73/2007 hafi honum verið gert að sæta áfram gæsluvarðahaldi með vísan til c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 2. mars og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-153/2007, hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 30. mars og aftur með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-63/2007, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar 3. apríl sl. í máli nr. 183/2007, til 23. apríl sl. Með dómi Hæstaréttar nr. 219/2007 hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 11. maí, sem aftur hafi verið framlengt til 13. júní, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness nr. R-97/2007, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 268/2007. Dómþola hafi enn verið gert að sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-121/2007 til 27. júní sl. Héraðsdómur Reykjaness hafi úrskurðað dómþola 27. júní með úrskurði R-126/2007 til að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 11. júlí sl. Hinn síðastnefndi úrskurður hafi verið felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar Íslands 2. júlí sl. nr. 345/2007.
Hinn 6. júlí sl. hafi dómþoli að nýju verið úrskurðaður af hérðasdómi Reykjaness til að sæta gæsluvarðhaldi með á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 til 16. júlí sl. Gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt til 13. ágúst nk. með úrskurði hérðasdóms Reykjaness nr. R-138/2007 og hafi sá úrskurður verið staðfestur í Hæstarétti, sbr. dóm réttarins í máli nr. 383/2007.
Í hinum síðastnefnda gæsluvarðhaldsúrskurði nr. R-138/2007, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti með vísan til forsendna, hafi sérstaklega verið litið til þess að með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí sl. nr. S-64/2007 hafi dómþola verið gert að sæta 30 mánaða fangelsisrefsingar fyrir fjölmörg auðgunar- og fjármunabrot, auk fíkniefna- og umferðarlagabrota. Ljóst sé að grundvöllur þessa gæsluvarðhaldsúrskurðar hafi m.a. verið hin fjölmörgu brot sem dómþoli hafði verið sakfelldur fyrir, auk þeirra nýju brota sem hann var grunaður um eftir að hann var látinn laus úr síbrotagæslu 2. júlí sl.
Ofangreindur dómur nr. S-64/2007 sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómþoli hafi lýst yfir áfrýjun til Hæstaréttar Íslands. Ekki hafi enn verið gefin út áfrýjunarstefna í málinu.
Í dag hafi gengið dómur í héraðsdómi Reykjaness, í máli nr. S-622/2007, þar sem dómþoli hafi verið sakfelldur fyrir auðgunar- og umferðarlagabrot sem framin hafi verið eftir að hann hafi verið látinn laus úr síbrotagæslu 2. júlí sl. Sé dómur þessi hegningarauki við dóminn frá 12. júlí sl. Hafi dómþoli tekið sér frest til að taka afstöðu til áfrýjunar dómsins og hann þar af leiðandi ekki fullnustuhæfur.
Telja verði að dómþoli sé vanaafbrotamaður í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot þau sem hann hafi verið sakfelldur fyrir í ofanangreindum tveimur dómum, séu annars vegar framin á tímabilinu 30. nóvember 2006 til 30. janúar 2007 og hins vegar þann 5. júlí sl., þ.e. þremur dögum eftir að hann hafi verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi 2. júlí sl.
Við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að hann hefði verið í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram brotum verði hann látinn laus. Fyrir liggi í máli þessu mat Hæstaréttar Íslands, sbr. dóma þá sem vísað hafi verið til hér að ofan, að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt. Telja verði að það mat hafi styrkst með hinum nýju brotum sem dómþoli hafi verið sakfelldur fyrir í dag.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 383/2007 sem upp var kveðinn 19. júlí sl. var staðfestur úrksurður Héraðsdóms Reykjaness um að skilyrði væru til að ákærði sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengi í málum hans, þó ekki lengur en til 13. ágúst nk. Með dómi Hérðasdóms Reykjaness fyrr í dag var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 45 daga en sá dómur er ekki orðinn fullnustuhæfur, enda tók ákærði sér árýjunarfrest við uppkvaðningu dómsins. Með þessum dómi lauk framangreindu gæsluvarðhaldi, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991. Þá liggur fyrir að ákærði var dæmdur til 30 mánaða fangelsisvistar í dómi 12. júlí sl. og hefur hann lagt fyrir dóminn afrit bréfs til Ríkissaksóknara dags. 25. júlí sl. þar sem hann lýsir yfir áfrýjun þess dóms, en áfrýjunarstefna hefur ekki verið gefin út í málinu. Forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 29/2007 sem kveðinn var upp 12. janúar sl. verða vart skildar á annan hátt en þar sé kveðið á um að forræði kröfu sem þeirrar sem hér er til meðferðar flytjist yfir til Ríkissaksóknara með útgáfu áfrýjunarstefnu. Er því ekki unnt að fallast á þær röksemdir ákærða að kröfugerðin sé ekki á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrir liggur að ákærði var í dag sakfelldur fyrir tilraun til þjófnaðar og umferðarlagabrot og voru brotin framin þremur dögum eftir að honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi sem hann hafði sætt óslitið frá 30. janúar 2007. Sýnir þessi háttsemi ákærða að full ástæða er til að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi svo koma megi í veg fyrir frekari brotastarfsemi af hans hálfu þar til meðferð mála hans er lokið fyrir æðri dómi og fallast verður á með lögreglustjóra að skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 teljist uppfyllt. Verður ekki talið að mótmæli ákærða sem getið er um hér að framan breyti hér nokkru og þykir sýnt að full ástæða sé til að ákærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan málum hans er ólokið fyrir æðri dómi. Með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem og atvika málsins að öðru leyti, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en þar er krafist, enda liggur ekki fyrir hvenær mál ákærða verða flutt fyrir Hæstarétti.
Halldór Björnsson, settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans eru til meðferðar fyrir æðri dóm, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 31. október 2007 kl. 16.