Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2008
Lykilorð
- Lögreglurannsókn
- Ákæra
- Dráttur á máli
- Skaðabætur
|
|
Miðvikudaginn 6. maí 2009. |
|
Nr. 445/2008. |
Gunnar Örn Kristjánsson(Kristinn Bjarnason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sigurður Gísli Gíslason hrl.) |
Lögreglurannsókn. Ákæra. Dráttur á máli. Skaðabætur.
G krafði íslenska ríkið um bætur eftir að hætt hafði verið lögreglurannsókn á hendur honum vegna ætlaðrar vanrækslu hans á skyldum í starfi sem löggiltur endurskoðandi. Byggði hann kröfu sína á því að honum hafi að ósekju verið gefin réttarstaða sakbornings, en ekki hafi verið réttlætt eða skýrt hvers vegna játningar annars manns um blekkingar gagnvart honum hafi ekki verið rannsakaðar. Talið var að með því að G hafi verið grunaður um refsiverða háttsemi sem sætti rannsókn lögreglu hafi ekki verið um annað að ræða en að tekin yrði skýrsla af honum sem sakborningi. Þótti ósannað að sérstök rannsókn á blekkingum gagnvart G hefði komið í veg fyrir að hann hefði haft stöðu sakbornings. G byggði einnig á því að lögreglurannsókn á hendur honum hafi verið í ósamræmi við 31. gr. laga um meðferð opinberra mála og ekki náð markmiðum 67. gr. laganna. Talið var að G hafi ekki sýnt fram á að afstaða lögreglu um sök hans hafi legið fyrir strax frá upphafi rannsóknar eða að ekki hafi verið gætt hlutlægni við rannsókn og meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Þótt refsimáli á hendur G hafi í Hæstarétti verði vísað frá héraðsdómi, m.a. vegna annmarka á rannsókn, sbr. 67. gr. laga um meðferð opinberra mála, yrði ákvörðunin um útgáfu ákæru ekki talin saknæm og ólögmæt. G byggði einnig á því að hann ætti rétt til skaðabóta vegna dráttar á málinu. Talið var að sá tími sem liðið hafi frá útgáfu ákæru til dóms í Hæstarétti hafi verið hóflegur miðað við umfang málsins. Liðið hafi rúmt ár frá því rannsókn hófst að nýju þar til málið hafi verið fellt niður, en ekki hafi þó orðið óeðlilegur dráttur á málinu. Var ríkið því sýknað af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 147.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. mars 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2008.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 29. apríl 2008 var höfðað 9. maí 2007. Stefnandi er Gunnar Örn Kristjánsson, Mánalind 5, Kópavogi, en stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 449.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. mars 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
II
Málavextir eru þeir helstir að stefnandi varð löggiltur endurskoðandi árið 1985 og vann sem slíkur til ársloka 1993 er hann hóf störf sem forstjóri Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda hf. (SÍF). Þar starfaði hann til loka janúar 2004. Á árinu 1986 tók stefnandi að sér að endurskoða reikninga Tryggingasjóðs lækna og hélt því áfram, þrátt fyrir að hafa látið af störfum sem endurskoðandi að öðru leyti, allt til loka ársins 2000, en hann endurskoðaði síðast ársreikning tryggingasjóðsins fyrir árið 2000 sem hann áritaði 11. júní 2001.
Á þeim tíma, sem stefnandi starfaði sem endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna, starfaði Lárus Halldórsson endurskoðandi hjá sjóðnum sem framkvæmdastjóri. Hafði hann starfað þar frá árinu 1969 sem verktaki og sá endurskoðunarskrifstofa hans um reikningsskil og bókhald fyrir sjóðinn.
Stefnandi kveður að fyrir hann hafi verið lagðir ársreikningar sem voru staðfestir og undirritaðir af stjórn tryggingasjóðsins. Hafi endurskoðun farið fram á skrifstofu sjóðsins sem hafi jafnframt verið endurskoðunarskrifstofa Lárusar. Hafi Lárus látið stefnanda í té þau gögn sem hann óskaði eftir vegna endurskoðunarinnar og ekkert komið fram við hefðbundna endurskoðun stefnanda sem bent hafi til þess að reikningar sjóðsins gæfu ekki í aðalatriðum rétta mynd af fjárhag sjóðsins. Þá hafi stjórn sjóðsins heldur ekki orðið vör við að eitthvað skorti á fjárreiður framkvæmdastjórans.
Í byrjun maí 2002 beindi Lárus Halldórsson því til ríkislögreglustjóra að tekin yrðu til rannsóknar brot sem hann hefði framið í starfi framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs lækna. Kvaðst hann hafa dregið sér fé, farið gáleysislega með fjármuni, brotið gegn lögum um bókhald og ársreikninga og blekkt stjórn sjóðsins og endurskoðanda. Hafi þetta einkum verið á árunum 1984 til 1994. Í skriflegri samantekt Lárusar frá 30. apríl 2002 kom fram að honum væri ekki ljóst hversu mikið fé hann hefði dregið sér þar sem bókhaldið væri í slíku horfi að ekki yrði komist að því nema með tímafrekri rannsókn. Kvaðst Lárus hafa endurgreitt sjóðnum 27.100.000 krónur sem hann taldi geta svarað til fjárdráttarins. Í samantektinni kom enn fremur fram að ekki væri heil brú í bókhaldi sjóðsins. Væru daglegar færslur og afstemmingar bankareikninga í lagi en allt væri löngu gengið úr skorðum varðandi reikningsskil, svo og tengsl sérstaks skuldabréfabókhalds og bókhalds séreignarsjóðs við aðalbókhald sem ekki hafi stemmt saman um árabil. Útreikningar vaxta í séreignasjóði hafi að litlu leyti stuðst við raunverulega afkomu tryggingasjóðsins en hann hafi hagað málum þannig að ekki yrði kvartað undan henni. Af því hafi leitt að skuldabréfaeign tryggingasjóðsins væri stórlega ofmetin. Þá tók hann fram að daglegt bókhald hefði verið fært af starfsmönnum á skrifstofu hans en hann hafi sjálfur sinnt allri vinnu við uppgjör og gerð ársreikninga. Þá segir orðrétt í samantektinni: „Það, að þessi afglöp hafi getað staðið allan þennan tíma, án þess að upp kæmist, er fyrst og fremst vegna þess að stjórn sjóðsins og endurskoðandi hafa ranglega dregið þá ályktun að ég væri trausts þeirra verður. ...Um núverandi endurskoðanda sjóðsins gildir það að ég tel að hann hafi, vegna gamallar vináttu við mig, áritað reikninga sjóðsins enda hefur hann alla tíð talið að ekkert væri athugavert við rekstur sjóðsins. Ég hef auk þess lagt fyrir hann fölsuð gögn, sem áttu að sýna að rétt væri að öllu staðið.“
Mál Lárusar sætti rannsókn hjá ríkislögreglustjóra og með heimild í 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála leitaði lögregla til Grant Thornton endurskoðunar ehf. vegna sérfræðilegrar rannsóknar á bókhaldi og meðferð fjármuna hjá sjóðnum.
Lögregluskýrsla var tekin af Lárusi hinn 8. maí 2002 um þau sakarefni sem hann hafði upplýst um. Þar ítrekaði Lárus það sem hann hafði áður sagt um að fjárdráttur hans hefði byrjað á árinu 1984 og jafnvel staðið fram yfir árið 1996. Hann hafi dregið sér fé í fyrsta lagi með því að taka fé af bankareikningi og færa fjárhæðina í bókhaldi sem kaup á verðbréfum. Í öðru lagi hafi hann greitt sjálfum sér fyrir vinnu, umfram það sem honum hafi borið og í þriðja lagi hafi hann dregið sér fé með því að taka til sín tékka fyrir greiðslu á iðgjöldum til sjóðsins, en ráðstöfun á andvirði iðgjaldanna hafi hann fært í bókhaldið sem kaup á verðbréfum og endurgreiðslur á iðgjöldum til sjóðsfélaga, sem hafi þá ekki verið tengdar bókhaldi yfir séreignarsjóði þeirra.
Varðandi blekkingar í garð stefnanda og sjóðsstjórnar tók Lárus fram að hann hefði lagt fölsuð gögn fyrir stefnanda sem endurskoðanda. Hafi stefnandi lært til endurskoðanda hjá honum á sínum tíma og verið samstarfsmaður hans um nokkurra ára skeið auk þess sem persónuleg vinátta væri milli þeirra. Samstarfi þeirra hafi verið þannig háttað að stefnandi hafi borið til hans fyllsta traust. Hafi Lárus alltaf verið nálægur þegar stefnandi hafi farið yfir bókhaldið, vitandi það sem löggiltur endurskoðandi um hvað stefnandi kynni að spyrja. Hann hafi því haft þau gögn tilbúin sem nauðsynleg voru vegna endurskoðunarinnar. Sérstaklega aðspurður um kunningsskap þeirra Lárusar við aðalmeðferð máls þessa neitaði stefnandi því að um persónulega vináttu hefði verið að ræða milli þeirra.
Með bréfi til ríkislögreglustjóra 4. febrúar 2003 skilaði Grant Thornton endurskoðun ehf. skýrslu um rannsókn á bókhaldi sjóðsins vegna ætlaðs fjárdráttar Lárusar og tók rannsóknin til áranna 1992-2002. Í þeirri skýrslu kemur fram að umrædd ár hafi bókhald verið fært fyrir sjóðinn en afstemmingum verið verulega áfátt. Í mörgum tilvikum hafi færslur ýmist ekki stuðst við fullnægjandi fylgiskjöl eða engin gögn verið þar að baki. Þá hafi skort tengingar og tengsl við undirkerfi í bókhaldi. Heildarniðurstöður skýrsluhöfunda voru þær að á umræddu tímabili hafi Lárus dregið sér fé af tveimur bankareikningum tryggingasjóðsins samtals að fjárhæð 75.330.552 krónur, af skuldabréfi 1.192.367 krónur, með blekkingarfærslum í bókhaldi 759.730 krónur, með færslum í bókhaldi án fylgiskjala 581.586 krónur og af greiðslu iðgjalda fyrir sjóðfélaga 8.517.653 krónur, eða samtals 86.926.091 krónu, en í þeirri fjárhæð var ekki tekið tillit til þeirrar endurgreiðslu sem Lárus innti af hendi.
Eftir að Lárus gaf skýrslu aftur hjá lögreglu þar sem framangreind rannsóknarskýrsla var kynnt honum, var skýrslan endurskoðuð og endanleg niðurstaða var sú að Lárus hefði dregið að sér 75.330.552 krónur. Í kjölfarið höfðaði ríkislögreglustjóri mál á hendur Lárusi með ákæru 6. febrúar 2004 þar sem honum var gefinn að sök framangreindur fjárdráttur og nánar tilgreind bókhaldsbrot. Fyrir dómi gekkst Lárus við sakargiftum um fjárdrátt og að verulegu leyti um bókhaldsbrot og var hann sakfelldur fyrir þau brot sem hann gekkst við með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2004.
Í kjölfar þess að Lárus játaði á sig langvarandi fjárdrátt frá Tryggingasjóði lækna og athugun leiddi í ljós að sjóðurinn væri mjög illa staddur fjárhagslega var ákveðið að slíta honum og var skilanefnd skipuð hinn 19. febrúar 2003.
Ríkislögreglustjóri óskaði liðsinnis Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda, við undirbúning skýrslutöku af stefnanda vegna málefna Tryggingasjóðs lækna. Var tekin skýrsla í fyrsta sinn af stefnanda vegna málsins 24. september 2003. Við upphaf skýrslutöku var honum tjáð að við rannsókn á ætluðum brotum Lárusar hafi vaknað grunur um að stefnandi kynni í störfum sínum sem löggiltur endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna að hafa gerst sekur um brot gegn lögum nr. 18/1997 um endurskoðendur, lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 144/1994 um ársreikninga og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi neitaði sök. Í lok skýrslutökunnar afhenti hann lögreglu öll þau vinnugögn og skjöl sem hann hafði í sínum fórum vegna endurskoðunarvinnu sinnar fyrir sjóðinn.
Í kjölfar lögregluskýrslu af stefnanda leitaði ríkislögreglustjóri álits Árna Tómassonar á framburði stefnanda og í minnisblaði 26. september 2003 lét Árni þá skoðun uppi að margt benti til að ekki stæðist að stefnandi hefði fylgt góðri endurskoðunarvenju í starfi sínu fyrir Tryggingasjóð lækna og benti á ýmis úrræði sem væru til þess fallin að tryggja betur grundvöll málsins.
Ríkislögreglustjóri fól Grant Thornton endurskoðun ehf. að fara yfir vinnugögn stefnanda sem hann hafði afhent við skýrslugjöf hjá lögreglu 24. september 2003 og bera þau saman við bókhald og önnur gögn varðandi Tryggingasjóð lækna. Í niðurstöðum skýrslu endurskoðendanna 3. nóvember 2003 kom fram að gögn þessi gætu ekki talist nægur rökstuðningur fyrir áliti stefnanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins fyrir árin 1992 -2000.
Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu aftur 27. nóvember 2003 og var framangreind skýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf. kynnt honum. Gerði hann athugasemdir við skýrsluna og taldi rangt að hann hefði ekki aflað fullnægjandi gagna til stuðnings því áliti sem hann hefði látið uppi í áritun. Óskaði stefnandi eftir frekari rannsókn á því hvernig samræmi hefði verið milli skuldabréfakerfis tryggingasjóðsins og raunverulegrar skuldabréfaeignar hans þegar uppgjör fór fram svo og hvort eitthvað í gögnum sjóðsins benti til þess að fyrirliggjandi skuldabréfalistar væru falsaðir. Voru atriði þessi borin undir Grant Thornton endurskoðun ehf. sem komst að því í skýrslu sinni 8. desember 2003 að í ljós hafi komið að samtölur í sumum skuldabréfalistum þeim sem voru í vinnugögnum stefnanda væru augljóslegar rangar.
Í kjölfar þessa afhenti stefnandi tvær álitsgerðir Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda, aðra dagsetta 16. desember 2003 en hina 3. febrúar 2004. Var það álit hans að ef til þess kæmi að stefnandi yrði ákærður væri nauðsynlegt að dómkveðja matsmenn til að rannsaka málið frá grunni. Þá taldi hann að áður en til álita kæmi hvort stefnandi hefði unnið eftir endurskoðunarstöðlum yrðu öll atriði málsins að liggja skýrt fyrir. Því var Árni Tómasson ósammála og í minnisblaði hans, dagsettu 4. febrúar 2004, kemur fram að fyrir liggi játning á verulegum fjárdrætti og niðurstaða um frávik frá áritaðri eignastöðu samkvæmt ársreikningum og raunverulegum eignum, þrátt fyrir að öll vafatilvik séu metin stefnanda í hag. Sé því eðlilegt að stefnandi leggi fram gögn um hvaða endurskoðunaraðgerðum hann hafi beitt við endurskoðun hvert ár sem leitt hafi til þeirrar niðurstöðu að hann áritaði reikninga tryggingasjóðsins.
Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því að Grant Thornton endurskoðun ehf. gerði yfirlit um eignir tryggingasjóðsins í árslok 2000 og bæri saman við ársreikning fyrir sama ár miðað við upplýsingar í bókhaldi sjóðsins. Grant Thornton endurskoðun ehf. skilaði skýrslu 7. febrúar 2004 og er niðurstaðan sú að mismunur milli eigna sem í reynd hafi verið fyrir hendi og þeirra sem greindi í ársreikningi hafi alls numið 55.968.681 krónu.
Enn á ný var tekin skýrsla af stefnanda hjá lögreglu 2. mars 2004 og ítrekaði hann þá fyrri athugasemdir varðandi það að ekki hefði verið rannsakað hvernig Lárus Halldórsson hefði blekkt hann.
Ríkislögreglustóri höfðaði mál á hendur stefnanda með ákæru 16. apríl 2004 þar sem honum var gefið að sök að hafa á árunum 1993-2000 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi með því að hafa, eftir endurskoðun á ársreikningum Tryggingasjóðs lækna, áritað þá án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af afkomu og efnahag og breytingu á handbæru fé, án þess að hafa aflað fullnægjandi gagna og kannað á fullnægjandi hátt fyrirliggjandi gögn og þannig ekki hagað endurskoðun sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Stefnandi neitaði að öllu leyti sök í málinu.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 30. nóvember 2004, var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004, var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem verulega hefði skort á að lögregla hefði, eins og hún hagaði rannsókn sinni, náð því markmiði sem mælt sé fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, auk þess sem verknaðarlýsing í ákæru væri áfátt.
Ríkissaksóknari óskaði eftir því við ríkislögreglustjóra með bréfi 31. maí 2005 að undirbúið yrði framhald rannsóknar máls á hendur stefnanda í samræmi við athugasemdir í forsendum hæstaréttardómsins frá 12. maí 2005. Var stefnanda tilkynnt með bréfi ríkislögreglustjóra 20. október 2005 um að ákveðið hafi verið að taka málið til rannsóknar að nýju og ráða bót á þeim annmörkum sem Hæstiréttur hefði talið vera á rannsókn málsins. Í kjölfarið krafðist stefnandi úrskurðar héraðsdóms um meðal annars að óheimilt væri að hefja lögreglurannsókn að nýju og að úrskurðað væri að stefnandi hefði ekki réttarstöðu sakbornings vegna þeirra sakarefna sem voru grundvöllur ákæru í fyrrgreindu hæstaréttarmáli. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 16. nóvember 2005, sem staðfestur var í Hæstarétti 22. nóvember 2005 var kröfum stefnanda hafnað.
Í tengslum við framangreinda rannsókn máls á hendur stefnanda óskaði ríkislögreglustjóri eftir dómkvaðningu matsmanna hinn 9. nóvember 2005. Mótmælti stefnandi kröfunni og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 17. febrúar 2006, var beiðni ríkislögreglustjóra um dómkvaðningu matsmanna hafnað. Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi 14. mars 2006. Með ákvörðun 24. mars 2006 ákvað héraðsdómari að matsmenn skyldu dómkvaddir en með dómi Hæstaréttar 7. apríl 2006 var ákvörðun þessi felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til efnislegrar meðferðar.
Enn á ný var uppi ágreiningur um dómkvaðningu matsmanna og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006 var niðurstaðan sú að dómkvaddir skyldu tveir matsmenn til að meta þau atriði sem greindi í matsbeiðni ríkislögreglustjóra. Var úrskurður þessi staðfestur með dómi Hæstaréttar 30. maí 2006.
Hinn 20. júní 2006 voru Guðmundur Óskarsson og Gunnar Sigurðsson, löggiltir endurskoðendur, dómkvaddir í verkið. Með bréfi til dómsins 23. júní 2006 tilkynnti Guðmundur Óskarsson að hann væri óhæfur til verksins. Af gögnum málsins verður ekki séða að nokkuð hafi verið aðhafst í að dómkveðja nýjan matsmann fyrr en matsbeiðandi fór að grennslast fyrir um hvar málið væri statt í september 2006. Þá var boðað til fyrirtöku í málinu en málinu frestað þar sem erfiðlega hafði gengið að finna hæfan matsmann sem var tilbúinn að taka að sér verkið. Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögreglustjóra 31. ágúst 2006 var þess krafist að málið yrði fellt niður enda dráttur sá sem orðinn væri á málinu skýlaust brot á réttindum stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkissaksóknara 18. október 2006 var þess farið á leit að hann skoðaði málið og gæfi eftir atvikum ríkislögreglustjóra fyrirmæli um að fella umrædda rannsókn máls niður. Ríkissaksóknari óskaði í kjölfarið upplýsinga um stöðu málsins með bréfi 24. október 2006 og í svarbréfi ríkislögreglustóra 30. október 2006 var upplýst að erfiðlega gengi að fá hæfan löggiltan endurskoðanda í matið en formaður Félags löggiltra endurskoðenda væri að kanna málið og stæðu vonir til að það tækist fljótlega.
Ríkissaksóknari óskaði eftir því í bréfi til ríkislögreglustjóra 13. nóvember 2006 að honum yrðu send þau gögn sem bæst hefðu við rannsóknargögn málsins eftir 31. maí 2005 og fór þess á leit að ríkislögreglustjóri hlutaðist til um að Héraðsdómur Reykjavíkur frestaði dómkvaðningu matsmanns í stað Guðmundar Óskarssonar.
Í bréfi ríkissaksóknara til ríkislögreglustjóra 20. nóvember 2006 kom fram að dráttur sá sem orðið hefði á að skapa grundvöll til að taka ákvörðun um hvort ákæra bæri á ný í málinu væri orðinn óhæfilegur og því ekki lengur réttmætt af hálfu ákæruvalds að halda málinu áfram. Með bréfi ríkislögreglustjóra 5. desember 2006 til stefnanda var honum tilkynnt að rannsókn málsins vegna ætlaðra brot hans hefði verið hætt.
Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögmanns 16. febrúar 2007 var skaðabótakröfu stefnanda komið á framfæri vegna meintra stórfelldra ágalla á málsmeðferð lögreglu og ákæruvalds við rannsókn og ákæru í opinberu máli á hendur honum vegna starfa hans sem endurskoðanda Tryggingasjóðs lækna. Með svarbréfi ríkislögmanns 4. apríl 2007 var bótakröfu stefnanda hafnað.
III
Stefnandi byggir á því að hin bótaskyldu atvik sem stefndi beri ábyrgð á og leitt hafi til tjóns hans séu eftirfarandi:
Í fyrsta lagi sú ákvörðun að hann skyldi fá réttarstöðu sakbornings vegna starfa sinna við endurskoðun Tryggingasjóðs lækna. Á engan hátt hafi verið réttlætt eða skýrt af hverju játningar Lárusar Halldórssonar um blekkingar og falsanir gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsakaðar.
Í öðru lagi hvernig staðið hafi verið að lögreglurannsókn vegna sakargifta á hendur stefnanda frá 24. september 2003 til 16. apríl 2004, en sú rannsókn hafi verið fjarri því að vera í samræmi við 31. gr. laga nr. 19/1991 og því að ná markmiði 67. gr. sömu laga.
Í þriðja lagi sú ákvörðun ákæranda að gefa út ákæru á hendur stefnanda á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknar og efni ákærunnar enda hljóti ákæranda að hafa verið eða mátt vera ljóst að rannsóknin hafi ekki uppfyllt skilyrði 67. gr. laga nr. 19/1991.
Í fjórða lagi sú ákvörðun að stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings að ósekju og mun lengur en verið hefði ef rannsókn og saksókn hefði farið fram í samræmi við lög um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Bæði sé um að ræða drátt sem hafi orðið vegna ákvörðunar um ákæru á grundvelli ófullnægjandi rannsóknar og án fullnægjandi verknaðarlýsingar og drátt sem orðið hafi eftir að málinu var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar Íslands 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004. Dráttur þessi hafi á engan hátt verið réttlættur og sé alfarið á ábyrgð stefnda.
Stefnandi kveður að þrátt fyrir það að Lárus Halldórsson hafi strax í upphafi viðurkennt hjá lögreglu að hann hefði beitt stefnanda blekkingum hafi hann aldrei verið spurður út í það hver þau gögn væru sem hann hefði falsað eða hvaða blekkingum hann hefði beitt stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei verið kallaður til skýrslutöku vegna brota Lárusar Halldórssonar, hvorki hjá lögreglu né vegna meðferðar máls á hendur Lárusi fyrir dómi. Þá hafi ekki verið óskað eftir upplýsingum eða gögnum frá stefnanda til þess að staðhæfa fullyrðingar Lárusar um að hann hefði falsað skjöl og viðhaft blekkingar gagnvart stefnanda. Af þeim sökum hefðu vinnupappírar stefnanda ekki verið afhentir lögreglu fyrr en um 17 mánuðum eftir að Lárus hafi verið yfirheyrður fyrst.
Ríkislögreglustjóri hafi hinn 6. febrúar 2004 gefið út ákæru á hendur Lárusi Halldórssyni, en þar hafi Lárus ekki verið ákærður fyrir skjalafals eða rangfærslur með því að hafa lagt fyrir stefnanda skjöl sem hann hafði falsað og/eða rangfært. Engar skýringar hafi komið fram á því af hverju brot Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsökuð.
Stefnandi byggir á því að brotið hafi verið alvarlegra gegn honum með því að sakir Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsakaðar, enda hlyti slík rannsókn að hafa leitt í ljós að endurskoðunarstörf stefnanda hefðu ekki með neinum hætti brotið í bága við lög. Með slíkri rannsókn hefði komið fram að Lárus hefði beitt stefnanda blekkingum sem ekki verði metið honum til lasts að hafa ekki tortryggt. Að mati stefnanda sé niðurstaða um blekkingar og falsanir Lárusar gagnvart honum grundvallaratriði um endurskoðunarstörf stefnanda fyrir Tryggingasjóð lækna. Hljóti lögreglu og ákæranda að hafa verið ljóst mikilvægi þess að rannsaka þessar falsanir og blekkingar þegar í upphafi og samhliða öðrum sakarefnum á hendur Lárusi, enda sakarefnin tengd. Þá megi ljóst vera að líklegast hefði verið hægt að fá upplýsingar frá Lárusi um þessi brot hans í upphafi rannsóknar.
Stefnandi byggi á því að bótaskylda stefnda hafi þegar stofnast af þeim sökum að brot Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsökuð og ekki ákært fyrir þau. Af þeim gögnum sem fyrir liggi verði ekki ráðið með óyggjandi hætti hvort um beinan ásetning þeirra sem stýrðu rannsókn og saksókn hafi verið að ræða eða stórfellt gáleysi. Um bótaskylduna gildi það einu enda byggi stefnandi á almennu skaðabótareglunni utan samninga og reglunni um húsbóndaábyrgð hvort sem um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða.
Hefði verið staðið að lögreglurannsókn á brotum Lárusar Halldórssonar með lögmætum hætti hefði það leitt til þess að stefnandi hefði ekki fengið réttarstöðu sakbornings vegna endurskoðunarstarfa sinna fyrir Tryggingasjóð lækna. Hafi bótaábyrgð stofnast við það að stefnandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings sem honum var kynnt þegar hann mætti boðaður til skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra 24. september 2003. Ákvörðun rannsóknaraðila hafi verið tekin vegna þeirrar saknæmu og ólögmætu háttsemi að láta hjá líða að rannsaka brot Lárusar Halldórssonar gagnvart stefnanda sem hann hafði játað í öndverðu og höfðu á þessum tíma verið til rannsóknar í um 17 mánuði.
Byggi stefnandi á því að saknæm og ólögmæt háttsemi rannsóknaraðila og kunnáttumanna sem hann beri ábyrgð á hafi leitt til þess að stefnandi hafi að ósekju fengið réttarstöðu sakbornings, en þá stöðu hafi stefnandi haft í rúmlega þrjú ár. Fyrir stefnanda hafi það haft mjög skaðlegar afleiðingar að fá þessa réttarstöðu, bæði vegna starfs þess sem hann sinnti sem forstjóri virts fyrirtækis á almennum hlutabréfamarkaði og einnig vegna möguleika hans til að starfa sem endurskoðandi.
Við lok skýrslutöku af stefnanda hjá lögreglu 24. september 2003 hafi stefnandi afhent lögreglu vinnupappíra sína vegna endurskoðunarvinnu fyrir Tryggingasjóð lækna fyrir allt það tímabil sem hann hafi unnið að endurskoðun fyrir sjóðinn. Meðal þeirra hafi verið þau skjöl sem Lárus Halldórsson hafi afhent stefnanda við endurskoðunarvinnuna. Tveimur dögum eftir að stefnandi hafi gefið sína fyrstu skýrslu hafi tilkvaddur kunnáttumaður, Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, lýst því yfir við rannsóknaraðila að hann teldi skylt að láta reyna á ábyrgð endurskoðandans. Hafi Árni lagt slíka áherslu á þetta atriði að hann hafi talið að líta mætti svo á að annars væri embætti ríkislögreglustjóra að brjóta gegn lögboðnum skyldum sínum. Hafi Árni með þessu komist að þeirri fortakslausu niðurstöðu að stefnandi væri sekur án þess að hafa kannað vinnupappíra þá sem afhentir höfðu verið.
Róbert Bjarnason lögreglufulltrúi sem stýrði lögreglurannsókninni hafi gert framangreinda skoðun hins tilkvadda kunnáttumanns um sök stefnanda að sinni í bréfi sem hann hafi ritað Þórunni Guðmundsdóttur, hæstaréttarlögmanni og formanni skilanefndar Tryggingasjóðs lækna, hinn 16. október 2003. Í því bréfi kveði hann að niðurstaða rannsóknar á sakargiftum á hendur stefnanda sé sú að ekki verði komist hjá því láta reyna á ábyrgð hans. Megi ljóst vera að yfirlýsingar þessara aðila um að sakaður maður skuli sæta ábyrgð geti ekki þýtt neitt annað en ákveðið hafi verið að ákæra stefnanda og krefjast þess að hann sæti refsingu, enda geti ábyrgð sakaðs manns í þessu samhengi ekki verið önnur.
Í greinargerð Þórunnar Guðmundsdóttur til fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins 13. nóvember 2003 komi skýrt fram hvernig hún hafi skilið framangreinda fullyrðingu í bréfi Róberts Bjarnasonar, en í upphafi greinargerðarinnar sé vitnað til umrædds bréfs og síðar í henni fullyrt að ákveðið hefði verið að ákæra stefnanda. Þegar tilgreindur yfirmaður rannsóknarinnar hafi ritað umrætt bréf til formanns skilanefndar hefðu vinnupappírar stefnanda ekki verið afhentir kunnáttumönnum til rannsóknar, enda hafi þeir fyrst verið afhentir Grant og Thornton endurskoðun ehf. hinn 20. október 2003. Hafi þessi afstaða rannsóknaraðila á sök stefnanda því legið fyrir áður en nokkur rannsókn hafi farið fram á vinnupappírum stefnanda og áður en hann og/eða aðrir hafi verið spurðir um hvernig stefnandi hafi unnið endurskoðunarvinnuna, og án þess að nokkur athugun hefði fram á því að hvað hafi falist í orðum Lárusar Halldórssonar um að hann hefði blekkt endurskoðanda sjóðsins og lagt fyrir hann fölsuð skjöl. Megi því ljóst vera að fyrir hafi legið í upphafi lögreglurannsóknar fyrir fram gefin niðurstaða um sök stefnanda án þess að nokkur viðhlítandi rannsókn hefði farið fram.
Stefnandi byggir á því að augljóslega megi sjá að rannsókn og saksókn málsins hafi goldið alla tíð fyrir þessa fyrir fram gefnu niðurstöðu um að stefnandi hefði hagað endurskoðunarvinnu sinni í andstöðu við lög. Í málsmeðferð þessari felist brot á lögum um meðferð opinberra mála og beri allt framhald málsins merki þess að verið sé að verja þá fyrir fram gefnu niðurstöðu fremur en að rannsaka af hlutlægni bæði það sem kynni að vera til sektar og sýknu, eins og skylt sé.
Stefnandi hafi síðan verið kallaður til skýrslutöku að nýju 27. nóvember 2003, en þá hafi honum verið kynnt skýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf., dagsett 3. nóvember 2003, um vinnupappíra þá sem stefnandi hafði afhent 24. september 2003. Í skýrslunni komi fram að í þeim vinnugögnum sem lögð hafi verið fram séu eingöngu staðfestingar um stöðu bankareikninga um áramót og útprentanir úr bókhaldi sjóðsins. Útprentanir úr bókhaldi sjóðsins á viðskiptareikningum, stöðulistum og útprentanir úr skuldabréfakerfi sjóðsins geti ekki talist staðfestingar einar sér. Upplýsingar um endurskoðun allra annarra þátta í starfsemi lífeyrissjóðsins vanti. Að mati skýrsluhöfunda geti gögnin ekki talist nægilegur rökstuðningur fyrir áliti stefnanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins fyrir árin 1992-2000. Stefnandi kveður að í framangreindri skýrslu sé í engu getið hvað höfundar telji að vanti upp á gögnin til þess að fyrirvaralausar áritanir gætu hafa átt sér stað. Þá verði ekki heldur séð að skýrsluhöfundar hafi orðið þess varir að í vinnupappírum hafi verið skjöl, sem stefnandi hafi fengið afhent við endurskoðunarvinnuna, sem hafi verið rangfærð og/eða fölsuð. Fullyrðingar um annað í vitnisburðum endurskoðendanna fyrir héraðsdómi, við meðferð ákæru á hendur stefnanda, fái ekki staðist þegar önnur gögn málsins séu skoðuð. Auk þess hljóti að vera sérstaklega ámælisvert og augljóst brot á lögum að geta ekki um fölsuð eða rangfærð gögn ef þeir hefðu komið auga á þau við yfirferð vinnupappíranna.
Í skýrslu stefnanda frá 27. nóvember 2003 hafi hann tjáð sig um þau sakarefni sem til rannsóknar voru og skýrt vinnu sína og afstöðu í stuttu máli. Í lok hennar hafi stefnandi meðal annars óskað eftir að kannað yrði hvort eitthvað í gögnum sjóðsins benti til þess að skuldabréfalistar sem voru meðal vinnupappíra hans væru rangir eða falsaðir. Að beiðni rannsóknaraðila hafi Grant Thornton endurskoðun ehf. verið fengnir til þess að kanna hvort í vinnupappírunum væru fölsuð skjöl. Í skýrslu þeirra 8. desember 2003 komi fram að við skoðun á þeim skuldabréfalistum sem hafi verið í vinnuskjölum stefnanda hafi komið í ljós að samlagning á listunum hafi ekki stemmt við samtölur þeirra og séu niðurstöður þeirra augljóslega rangar. Ekki sé ljóst hvað felist í orðunum „augljóslega rangar“ og séu skýringar skýrsluhöfunda í vitnisburði fyrir dómi óljósar í þeim efnum. Svo virðist sem umræddum endurskoðendum hafi yfirsést þetta atriði við upphaflega rannsókn á vinnupappírunum og fölsun þessi því væntanlega ekki augljós í þeim skilningi að hún blasi við. Þá hafi Árni Tómasson endurskoðandi í bréfi til ríkislögreglustjóra 21. júní 2004 kallað fölsun á skuldabréfalista ársins 1993 lævíslega og fagmannlega, og talið að ekki væri hægt að áfellast vinnubrögð endurskoðandans vegna þeirrar fölsunar.
Af umræddu bréfi og minnisblaði Árna 4. febrúar 2004 vegna greinargerðar Jóns Hilmarssonar endurskoðanda 3. febrúar 2004, megi ljóst vera að Árna hafi ekki verið kunnugt um þá rannsóknarniðurstöðu Grant Thornton endurskoðunar ehf. frá 8. desember 2003 að allir skuldabréfalistar sem voru meðal vinnupappíra stefnanda væru falsaðir með sambærilegum hætti.
Í lok framangreindrar skýrslu frá 8. desember 2003, án þess þó að rannsóknaraðili virðist hafa spurt sérstaklega um það, segi hinir tilkvöddu kunnáttumenn að einu ytri staðfestingar sem liggi fyrir í vinnuskjölum stefnanda séu staðfestingar á stöðu bankareikninga um áramót. Það sé því niðurstaða þeirra að vinnuskjöl og upplýsingar um vinnu endurskoðandans varðandi aðra liði en stöðu bankareikninga um áramót vanti. Ekkert sé um það fjallað hvaða gögn sé eða geti verið um að ræða. Fái þessi ályktun ekki staðist og beri hún ekki vott um hlutlægni. Eins og tilkvöddum kunnáttumönnum og rannsóknaraðila hafi átt að vera ljóst hafi einu ytri gögn Tryggingasjóðs lækna verið gögn frá bönkum um stöðu bankareikninga og spariskírteina. Starfsmaður sjóðsins hafi sjálfur séð um að útbúa skuldabréf vegna lána sjóðsfélaga, innheimta þau, senda út greiðsluseðla, bóka innborganir og þess háttar.
Hafi síðasta lögregluskýrslan verið tekin af stefnanda 2. mars 2004. Þar hafi stefnandi gert grein fyrir því á grundvelli eigin athugunar og endurskoðanda á hans vegum, að hann teldi blekkingar Lárusar gagnvart sér felast í fölsun afstemminga og skuldabréfalista, fölsun ljósrita spariskírteina ríkissjóðs, fölsun á tölvulistum skuldabréfa ársins 1998, færsla á tveimur útgáfum á bókhaldi og fölsun skuldabréfalista.
Af hálfu verjanda stefnanda hafi í lok skýrslutökunnar verið bókað að svo sem fram komi í gögnum þeim sem stefnandi hafi afhent lögreglunni sé ljóst að engin viðhlítandi rannsókn hafi farið fram á sakargiftum á hendur stefnanda. Sé það afstaða stefnanda að þar hafi hann í einu og öllu beitt forsvaranlegum vinnubrögðum þó hann hafi ekki séð í gegnum blekkingar sem framkvæmdastjóri sjóðsins hafi beitt. Það geti aldrei orðið viðhlítandi grundvöllur undir ákæru á hendur stefnanda að sanna fjárdrátt Lárusar Halldórssonar án þess að rannsaka starfshætti stefnanda. Það geti heldur ekki verið hlutverk hans að sanna sakleysi sitt gagnvart slíkum sakargiftum.
Á fundi sem haldinn hafi verið þann 17. mars 2004 hafi Theódór Sigurbergsson, endurskoðandi hjá Grant Thornton endurskoðun ehf., upplýst að hann teldi þau gögn sem fram höfðu komið af hálfu stefnanda og þeirra sem störfuðu fyrir hann engu breyta um niðurstöðu rannsóknarinnar á endurskoðunarvinnu stefnanda. Þrátt fyrir ábendingar stefnanda varðandi falsanir og blekkingar hafi ekki frekar en áður verið talið nauðsynlegt af hálfu lögreglu að taka skýrslu af Lárusi Halldórssyni um þær eða þær rannsakaðar frekar með öðrum hætti.
Eins og fram komi í dómi Hæstaréttar 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004 skorti mjög á að lögregla hafi hagað rannsókn sinni þannig að hún næði því markmiði sem mælt sé fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991, þ.e. að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að lokinni rannsókn að taka ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Hafi því ekki legið fyrir viðhlítandi rannsókn þegar ákæra hafi verið gefin út á hendur stefnanda 16. apríl 2004.
Byggi stefnandi á því að lögreglurannsókn á hendur honum hafi haft alvarlega ágalla og verið í andstöðu við lög og hafi bótaábyrgð stofnast vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi lögreglu og tilkvaddra kunnáttumanna við hana. Stefnandi heldur fram og byggir á að lögmæt lögreglurannsókn hefði leitt til þess að mál á hendur honum hefði verið fellt niður.
Þá kveður stefnandi að sú ákvörðun ákæranda að gefa út ákæru 16. apríl 2004 á grundvelli þeirrar rannsóknar sem um ræði hafi verið saknæm og ólögmæt og leiði hún til bótaskyldu fyrir stefnda, enda hafi það mátt vera ákæranda ljóst að rannsóknin gæti ekki verið grundvöllur fyrir ákvörðun um saksókn auk þess sem á hafi skort að aflað hefði verið nægjanlegra gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Þá hafi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands verið slegið föstu að verknaðarlýsing ákærunnar á hendur stefnanda hafi verið verulegum annmörkum háð og í andstöðu við lög.
Þá byggi stefnandi á því að útgáfa og birting ákæru á hendur honum hafi valdið honum verulegu tjóni ein og sér enda felist í slíku mikill álitshnekkir sem menn verði ekki að fullu hreinsaðir af, jafnvel þótt þeir verði sýknaðir. Fyrir löggiltan endurskoðanda sé ákæra sérstaklega alvarleg og feli í raun í sér sviptingu réttinda meðan málsmeðferð fari fram og einnig eftir það, sama hver úrslit máls verða.
Sá dráttur sem orðið hafi á því að málinu lyki gagnvart stefnanda sé að öllu leyti á ábyrgð lögreglu og ákæruvalds og verði á engan hátt talinn ásættanlegur eða afsakanlegur. Fyrir liggi að sú málsmeðferð sem hófst með útgáfu ákæru 16. apríl 2004 og lauk með frávísun Hæstaréttar Íslands hinn 12. maí 2005 hafi ekki skilað neinni efnislegri niðurstöðu. Málið hafi því í raun verið í sömu stöðu eftir frávísunardóminn og það hafi verið þegar ákæra var gefin út.
Eftir framangreindan frávísunardóm Hæstaréttar hafi ekkert verið aðhafst fyrr en stefnanda hafi verið afhent bréf 20. október 2005, eða tæpum sex mánuðum síðar, þar sem tilkynnt hafi verið um þá ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að hefja lögreglurannsókn á hendur stefnanda að nýju. Í kjölfar þess hafi verið tekin stutt vitnaskýrsla af Lárusi Halldórssyni þar sem lagðar hafi verið fyrir hann nánast sömu spurningar og hann hafði verið spurður af verjanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð fyrrgreinds sakamáls á hendur stefnanda. Hafi þær fyrst og fremst lotið að blekkingum hans og fölsunum gagnvart stefnanda.
Sú niðurstaða ríkissaksóknara, sem hann tilkynnti ríkislögreglustjóra með bréfi 20. nóvember 2006, að hætta skyldi rannsókn sakargifta á hendur stefnanda, hafi byggst á því að dráttur sá sem þegar hefði orðið á málinu væri orðinn óhæfilegur og því óréttmætt að halda málinu áfram. Þegar ríkislögreglustjóri svo tilkynnti stefnanda það með bréfi 5. desember 2006 að rannsókn á ætluðum brotum hans við endurskoðun ársreikninga fyrir Tryggingasjóð lækna hefði verið hætt hafi verið liðnir tæplega 19 mánuðir frá dómi Hæstaréttar sem hafi skýrt nákvæmlega í hverju rannsókn málsins hefði verið áfátt. Verði dráttur þessi á engan hátt afsakaður og feli hann í sér brot gegn lögvörðum rétti stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar. Hafi réttarstaða stefnanda sem sakbornings staðið frá 24. september 2003 til 5. desember 2006. Hafi rannsókn og saksókn á hendur stefnanda sem hafi farið fram á þessu tímabili ekki leitt í ljós að neitt hafi verið athugavert við störf hans fyrir Tryggingasjóð lækna. Byggi stefnandi á því að allur dráttur á málinu frá 12. maí 2005 til 5. desember 2006 sé bótaskyldur enda hafi hann verið í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrár nr. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um hæfilegan málshraða.
Beri stefndi bótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar utan samninga og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi lögreglu og ákæranda sem hafi valdið stefnanda stórfelldu tjóni. Leiði hvert og eitt framangreindra atriða til bótaskyldu. Að minnsta kosti hljóti hluti þeirra eða öll saman að leiða til bótaskyldu enda ágallar á málsmeðferðinni í heild stórfelldir og í brýnni andstöðu við lögvarin réttindi stefnanda. Hafi stefnandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og með því hafi verið brotið gegn mannréttindum hans sem tryggð séu í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu.
Þegar stefnandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings hafi hann verið forstjóri SÍF, sem þá hafi verið eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi með starfsemi út um allan heim. Stefnandi hafi á þessum tíma verið þekktur í viðskiptalífi hér á landi og víðar um heim á því sviði sem SÍF starfaði. Hann hafi meðal annars verið kosinn maður ársins í íslenska viðskiptalífinu árið 1999. Nokkru eftir að mál þetta hafi komið upp hafi stefnandi látið af forstjórastarfi hjá SÍF, eða frá og með 1. febrúar 2004, en samkomulag um starfslok hafi verið gert í janúar 2004. Tildrög þess að stefnandi hætti störfum hjá SÍF hafi verið að hann hafi ekki talið sér stætt í því starfi eftir að opinber rannsókn hófst á því hvort hann væri sekur um refsiverða háttsemi við störf sem hann hefði unnið á sama tíma og hann starfaði hjá SÍF, en hann hafi fengið af því fregnir í kringum áramót 2003/2004 að ákærandi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hefði þegar ákveðið að ákæra hann.
Í samræmi við ráðningarsamning hafi stefnandi haft takmarkaða vinnuskyldu hjá SÍF í eitt ár eftir starfslokin. Honum hafi hins vegar verið heimilt að ráða sig til starfa hjá öðrum aðila frá 1. febrúar 2004 án þess að það hefði áhrif á greiðslur frá SÍF eftir starfslok, enda væri hið nýja starf eða starfsemi ekki í samkeppni við starfsemi SÍF. Greiðslur þær sem stefnandi hafi fengið frá fyrrum vinnuveitanda á grundvelli ráðningarkjara hans séu eftirlaunaréttur sem hann hafði áunnið sér og skipti því ekki máli við mat á tjóni stefnanda.
Í fjölmiðlum hafi verið fluttar fréttir af því að stefnandi hafi sætt lögreglurannsókn vegna endurskoðunarstarfa sinna. Af fyrstu umfjöllun í dagblaðinu DV um málið verði ekki annað séð en blaðamaður hafi haft aðgang að upplýsingum úr lögreglurannsókn sem trúnaður hafi átt að vera um. Hafi þetta verið til þess fallið að auka tjón stefnanda. Við þær aðstæður sem upp hafi verið komnar hafi stefnandi hvorki verið gjaldgengur sem forstjóri SÍF né annarra fyrirtækja af svipaðri stærð. Honum hafi einnig verið lokuð sú leið að hefja störf að nýju sem endurskoðandi. Stefnanda hafi ekki boðist forstjórastarf eða starf við endurskoðun frá því mál þetta á hendur honum hafi komist í hámæli. Sú staða sem stefnandi hafi verið í hafi einnig takmarkað verulega möguleika hans á að taka að sér ýmiss konar trúnaðarstörf, svo sem setu í stjórnum fyrirtækja.
Eigi stefnandi rétt á skaðabótum sem nemi fjártjóni hans af því að hafa ekki getað haldið áfram í því starfi sem hann sinnti eða fengið sambærilegt starf annars staðar vegna hinna ólögmætu aðgerða lögreglu og ákæranda. Stefnandi byggi á því að hafa orðið að hætta störfum hjá SÍF og ekki átt kost á að ráða sig til sambærilegra starfa hér á landi hjá öðrum. Hafi stefnandi ekki verið í launuðu starfi frá 1. febrúar 2004 og hafi honum ekki boðist slíkt starf á þeim sviðum þar sem þekking hans, reynsla og menntun gæti nýst og tryggt honum sambærilegar vinnutekjur og hann hafi áður haft og mátt vænta að hafa áfram. Hafi verið útilokað fyrir stefnanda að fá starf sem forstjóri/framkvæmdastjóri stærri fyrirtækja á Íslandi meðan hann hafi haft réttarstöðu sakbornings. Þeirri réttarstöðu hafi lokið 5. desember 2006 og miðist bótakrafan við árslok þess árs.
Miði stefnandi bótakröfuna við að áætluð heildarlaun sem hann hefði getað vænst að fá sem forstjóri SÍF eða hjá öðrum sambærilegum aðila á verðlagi í febrúar 2007 séu að lágmarki 2.500.000 krónur á mánuði. Sé sú fjárhæð að fullu reiknuð frá 1. febrúar 2004 til ársloka 2007. Fjárhæðin sé áætluð enda ekki hægt að sanna hana með óyggjandi hætti, meðal annars vegna þess að laun stefnanda hjá SÍF hafi að nokkru tekið mið af afkomu.
Haldi stefnandi því fram að jafnvel þó málalyktir hafi orðið og hann hafi ekki lengur réttarstöðu sakbornings, þá muni þau atvik sem lýst hafi verið, hafa þau áhrif að stefnandi muni ekki eiga möguleika á að fá sambærilegt starf og hann var í þegar málið hófst. Það hversu lengi stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings og ekki verið gjaldgengur til þeirra starfa sem áður hafi verið lýst, geri tjón hans umfangsmeira en ella, enda erfitt að komast að nýju inn í hóp tiltölulega fámenns hóps hér á landi sem taldir séu eftirsóknarverðir sem forstjórar stórra fyrirtækja. Fjártjón stefnanda vegna þessa sé áætlað 1.500.000 krónur á mánuði frá 1. janúar 2007 þar til hann hafi náð 67 ára aldri. Miðað sé við að stefnandi geti aflað sér tekna af öðrum störfum en forstjórastarfi eða 1.000.000 króna á mánuði, og lækki því áætluð fjárhæð úr 2.500.000 krónur í 1.500.000 krónur. Eigi stefndi að bera áhættuna af óvissunni hvað orðið hefði, ef stefnandi hefði ekki orðið fyrir hinni bótaskyldu háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á.
Þá byggi stefnandi einnig á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þess að málarekstur á hendur honum hafi leitt til spjalla á lánstrausti og viðskiptahagsmunum hans. Fjárhæð þess tjóns sé metið að álitum 10.000.000 króna, en ómögulegt sé að sanna með óyggjandi hætti slíkt tjón. Fyrir mann í þeirri stöðu sem stefnandi hafi gegnt sé verulegur skaði fólginn í þeim álitshnekki sem felist því að vera sakaður um refsiverða háttsemi í starfi sínu, bæði varðandi möguleika á störfum og annarri þátttöku í viðskiptalífi.
Hafi stefnandi orðið fyrir stórfelldum miska og álitshnekki vegna lögreglurannsóknar, ákæru og málsmeðferðar fyrir dómi á endurskoðunarstörfum hans fyrir Tryggingasjóð lækna. Eigi 26. gr. skaðabótalaga við hér enda hafi verið brotið gegn persónu stefnanda, æru og friði. Hafi stefnandi mátt sæta því að hafa haft réttarstöðu sakaðs manns í ríflega þrjú ár, án þess að það leiddi til annarrar efnislegrar niðurstöðu en mál hafi verið fellt niður á hendur honum. Þurfi ekki að fara mörgum orðum um áhrif þess á flekklausan og gifturíkan feril stefnanda í íslensku viðskiptalífi eða hvaða áhrif mál þetta hafi haft á allt líf stefnanda og fjölskyldu hans. Auki það enn miska stefnanda að lögreglurannsókn og saksókn skuli beinast að störfum sem stefnandi hafi aflað sér menntunar og löggildingar til að sinna. Sé krafa um 50.000.000 króna í miskabætur hæfileg þegar litið sé til stöðu hans og atvika, þar á meðal þess langa tíma sem stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings án þess að viðhlítandi lögreglurannsókn eða saksókn hafi farið fram.
Það fylgi því mikið opinbert vald að lögum að fara með lögreglurannsóknir og ákvörðun um saksókn og þar með mikil ábyrgð. Þó játa verði þeim sem fari með vald þetta nokkurt svigrúm til ákvarðanatöku geti það ekki leitt til þess að heimilt sé að standa þannig að málum að fari í bága við lög og grundvallarmannréttindi borgaranna. Þegar út af bregði, með svo alvarlegum hætti eins og í þessu máli, beri að bæta allt það tjón sem valdið hafi verið með saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna stefnda, enda séu uppfyllt skilyrði um orsakasamband og sennilega afleiðingu.
Stefnukröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:
|
Fjártjón |
|
|
Töpuð laun frá 1. feb. 2004 til 1. jan. 2007, 2.500.000 x 47 |
kr. 117.500.000 |
|
Töpuð laun frá 1. janúar 2007 til 67 ára aldurs, 1.500.000 x 181 |
kr. 271.500.000 |
|
Spjöll á viðskiptahagsmunum og lánstrausti |
kr. 10.000.000 |
|
Ófjárhagslegt tjón |
|
|
Miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 |
kr. 50.000.000 |
|
Samtals bótakrafa |
kr. 449.000.000 |
Stefnandi krefjist dráttarvaxta frá 16. mars 2007 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því bótakrafa á hendur stefnda hafi verið sett fram, en það hafi verið gert með kröfubréfi 16. febrúar 2007.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og hvað snertir bætur fyrir spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum byggir stefnandi auk almennu skaðabótareglunnar á meginreglu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. eða lögjöfnun frá því ákvæði, enda séu tilvik eðlislík að því leyti að í báðum tilvikum séu líkindi fyrir að tjón verði en erfitt eða ómögulegt að sanna það. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Stefndi kveður óhjákvæmilegt að í skýrslutöku hjá lögreglu 24. september 2003 hafi stefnandi haft stöðu sakbornings. Hafi annað verið löglaust með hliðsjón af því að til rannsóknar hafi verið ætluð refsiverð afglöp hans við endurskoðun vegna Tryggingasjóðs lækna. Í stöðu sakbornings felist tiltekin réttindi en ekki áfellisdómur. Réttarstaðan tryggi aðeins ákveðin réttindi sem sakborningur hafi umfram aðra menn sem framburðarskýrsla sé tekin af en ekki sé um annað að ræða en að maður fái annað hvort vitnastöðu eða stöðu sakbornings. Fái maður ranglega vitnastöðu þegar verið sé að rannsaka möguleg afbrot hans geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir framhald og rannsókn máls auk þess sem með því sé brotið gegn réttindum sakbornings. Hefði þannig getað horft til sakarspjalla og ónýtingar máls að gefa stefnanda vitnastöðu á þessum tíma.
Í framangreindri lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnanda, hafi sakarefnið verið tilgreint á þann veg að við rannsókn á ætluðum bókhalds- og auðgunarbrotum Lárusar Halldórssonar hafi vaknað grunur um að stefnandi kynni að hafa gerst brotlegur við lög í störfum sínum sem endurskoðandi fyrir Tryggingasjóð lækna. Hafi stefnanda verið kynnt að ætluð brot hans gætu varðað við þar til greind lög. Samkvæmt framburði og upplýsingum Lárusar hafi verið um að ræða gamalgróna vináttu milli Lárusar og stefnanda, en ætla verði að slík atriði styrki grun um slæleg vinnubrögð við endurskoðunina og/eða grun um ástæðu eða vilja til að leyna auðgunarbroti annars manns, en á þessum tíma hafi Lárus verið undir sterkum rökstuddum grun um auðgunarbrot.
Telur stefndi að um hafi verið að ræða réttmætan og eðlilegan rökstuddan grun. Fyrir hafi legið að Lárus hafi árum saman getað dregið sér tugi milljóna úr sjóðum Tryggingasjóðs lækna og að bókhald sjóðsins hafi verið ranglega fært og illa. Þá hafi legið fyrir að tilfærðar eignir hafi ýmist verið færðar allt of hátt eða þær ekki til. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi endurskoðað reikninga og bókhald sjóðsins og áritað ársreikninga athugasemdalaust. Það hafi hann gert þótt á honum hafi hvílt ríkari skylda sem endurskoðanda til að gera sjálfstæða könnun og eftir atvikum að afla gagna frá þriðja aðila, vegna þess að ljóst hafi verið að ekkert innra eftirlit hafi verið hjá Tryggingasjóði lækna. Þá hafi legið fyrir að inneignir sjóðfélaga hafi verið greiddar út í trássi við reglur sjóðsins og samþykktir hans, og félögum þannig verið mismunað verulega.
Bendi stefndi á að lögregla hafi notið aðstoðar og liðsinnis kunnáttumanna á þessu sviði og hafi farið fram rækileg rannsókn áður en stefnandi var boðaður til fyrstu yfirheyrslu. Hafi ekki verið um órökstutt og illa grundað mat lögreglu að ræða eins og stefnandi vilji vera láta, heldur rökstuddan grun sem stuðst hafi við álit sérfræðinga.
Við undirbúning skýrslutöku yfir stefnanda 24. september 2003 hafi lögregla notið liðsinnis Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda. Í yfirheyrslu hafi stefnandi verið spurður um ætlaðar sakargiftir og hafi hann neitað sök og afhent lögreglu öll vinnugögn og skjöl sem hann hafi haft í fórum sínum og meðferðis, en lögregla hafi áður lagt hald á bókhaldsgögn Tryggingasjóðs lækna eftir ábendingu Lárusar. Í framburði stefnanda hafi komið fram að við endurskoðun sína hefði hann ekki aflað neinna gagna á sjálfstæðan hátt. Hann hafi ekki farið yfir lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr sjóðnum, þrátt fyrir að þetta væru meðal mikilvægustu þátta í bókhaldinu. Þá hafi hann ekki farið yfir aðrar greiðslur til sjóðfélaga eða farið yfir slíka lista og borið saman við ársreikning. Þá hafi stefnandi upplýst að hann hefði ekki farið yfir inneign sjóðfélaga og fyrirkomulag á þeirri inneign. Þá hafi hann ekki kannað hvort listum um séreignarsjóði bæri saman við ársreikninga, en talið að sjóðfélagar hafi fengið yfirlit um inneign sína hver fyrir sig. Þetta hefði stefnandi þó ekki sannreynt.
Með hliðsjón af framburði stefnanda hafi lögregla talið ljóst að ekki hafi verið lögð fyrir stefnanda fölsuð gögn í blekkingarskyni svo neinu næmi og síst svo að það hefði haft úrslitaáhrif um vinnu hans enda hefði stefnandi sjálfur ekki aflað gagna varðandi flesta af mikilvægustu þáttunum í starfi Tryggingasjóðs lækna. Frá því hafi þó verið sú undantekning að í 4 tilfellum af 9 hafi stefnandi fengið falsaða skuldabréfalista. Komið hafi fram hjá Lárusi að einu fölsuðu gögnin sem hann hefði lagt fyrir stefnanda hafi verið skuldabréfalistarnir auk þess sem hann hefði einu sinni sýnt stefnanda falsað ljósrit af ríkisskuldabréfi. Það hafi verið eina skiptið sem stefnandi hafi spurt um slíkt þó svo að ríkulegur hluti eigna sjóðsins hafi verið sagður í slíkum bréfum. Í vinnugögnum stefnanda vegna endurskoðunarstarfsins hafi ekki fundist frekari fölsuð gögn.
Mótmæli stefndi því að rannsókn hafi ekki beinst að því í nægilega ríkum mæli hvaða fölsuðu gögn og rangfærslur Lárus hafi lagt fyrir stefnanda við endurskoðunina. Fyrir liggi að um hafi verið að ræða mjög óveruleg gögn og hafi meginástæða þess að Lárusi tókst að blekkja stefnanda ekki verið sú að gögn hafi verið fölsuð og rangfærð gögn heldur að stefnandi hafi ekki borið sig eftir gögnum og ekki gengið úr skugga um það með sjálfstæðri aðgerð að staða sjóðsins væri eins og hún hafi verið látin líta út og að áritun hans á ársreikning stæðist. Hefði stefnandi borið sig eftir að fá að sjá hvað hafi verið að baki hinum röngu skuldabréfalistum þá hefði blasað við að maðkur væri í mysunni. Frá upphafi hafi legið fyrir af hendi Lárusar að meginástæða þess að ekki hafi komist upp um hann hafi verið sú að endurskoðandinn hafi borið til hans óverðskuldað traust. Jafnframt sé ljóst að ástæða þess að ekki hafi komist upp um fjárdráttinn og raunverulega stöðu sjóðsins sé sú að stefnandi hafi látið hjá líða að framkvæma aðgerðir sem hefðu leitt hið sanna í ljós. Rangfærðir skuldabréfalistar og falsað ljósrit af spariskírteini ríkissjóðs breyti engu þar um.
Áður en framburðarskýrsla hafi verið tekin aftur af stefnanda 27. nóvember 2003 hafi lögregla notið liðsinnis kunnáttumanna til að fara yfir fyrri framburð stefnanda, vinnugögn hans og annað sem máli skipti, ásamt því að leggja drög eða grunn að frekari spurningum til stefnanda. Um hafi verið að ræða sérfræðileg atriði varðandi bókhald, gerð ársreikninga og endurskoðun sem lögreglumenn séu ekki sérmenntaðir í og því rétt og eðlilegt að leita til kunnáttumanna þó svo að lögregla fari eftir sem áður með stjórn á rannsókn máls.
Hafi álit þeirra kunnáttumanna sem lögreglan leitaði til verið að þau vinnugögn sem fram hefðu verið lögð gætu ekki talist vera nægilegur rökstuðningur fyrir áliti stefnanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga Tryggingasjóðs lækna fyrir árin 1992-2000, sbr. samantekt Grant Thornton endurskoðunar ehf. 3. nóvember 2003. Þá hafi Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, sem veitt hafi aðstoð fyrir og eftir skýrslutökuna af stefnanda 24. september 2003, talið rúmlega 84% eigna sjóðsins ranglega tilgreind og að engin raunveruleg eign væri þar á bak við. Árni hafi látið lögreglu í té minnisblað 26. september 2003, vegna fyrri skýrslunnar sem tekin var af stefnanda. Þar hafi hann bent á ýmislegt sem úrskeiðis hefði farið í störfum stefnanda sem endurskoðanda Tryggingasjóðs lækna og sett fram þá skoðun sína að ekki yrði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð stefnanda.
Mótmælir stefndi því að framangreint orðalag um að ekki yrði komist hjá að láta á ábyrgð stefnanda reyna og að tiltekið orðalag í bréfi Róberts Bjarnasonar, lögreglufulltrúa við embætti ríkislögreglustjórans 16. október 2003, sé órækt vitni þess að hlutleysisskylda lögreglu hafi ekki verið virt við rannsókn málsins. Í fyrsta lagi skipti skoðanir aðkeyptra sérfræðinga ekki máli að þessu leyti enda fari þeir ekki með rannsókn eða saksókn máls og taki þar engar ákvarðanir. Í öðru lagi verði orðalag Árna ekki túlkað öðruvísi en svo að hann telji óhjákvæmilegt að lögregla taki möguleg brot endurskoðandans til rannsóknar. Ekki sé vikið að ákæru eða saksókn í bréfi Árna og þyki stefnda of langt seilst að túlka bréf þetta á þann veg að Árni hafi nánast gefið ríkislögreglustjóra fyrirmæli um að stefnandi skyldi ákærður og að útgáfa ákæru væri óhjákvæmileg. Tilvitnað orðalag vísi aðeins til þeirrar einkaskoðunar Árna að eðlilegt sé að málið sæti rannsókn. Annað sé heimildarlaus túlkun stefnanda og á hans ábyrgð. Þá bendi stefndi á að í nefndu bréfi Árna séu tínd til ýmis atriði stefnanda til málsbóta.
Varðandi orðalag í bréfi Róberts vill stefndi taka fram að þó að hann hafi verið skráður stjórnandi rannsóknarinnar hafi hann verið á þeim tíma settur undir boð- og ákvörðunarvald yfirmanna sinna við embætti ríkislögreglustjórans, þar með talið saksóknara og ríkislögreglustjóra. Hafi Róbert því ekki haft sjálfstætt ákvörðunarvald um hvað sætti rannsókn og hvað ekki og enn síður hafi hann haft vald til ákvörðunar um saksókn. Orðalag í bréfi hans verði heldur ekki túlkað þannig að slík ákvörðun hafi verið tekin, heldur verði í mesta lagi af bréfinu dregin sú ályktun að hann telji fjölmargt benda til þess að ekki verði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð endurskoðandans, en vera kunni að það vísi til útgáfu ákæru. Ekkert sé fullyrt um útgáfu ákæru. Bréf hans verði hins vegar að skoða í því ljósi að tilgangur þess sé að gefa brotaþola kost á að koma bótakröfu að í opinberu máli, eins og lögreglu sé skylt að gera við rannsókn máls. Allar fullyrðingar stefnanda um brot gegn hlutlægnisskyldu lögreglu og ákæruvalds við meðferð málsins séu því úr lausu lofti gripnar og haldlausar.
Hafi verðbréfaeign verið langstærsti hluti bókfærðra eigna Tryggingasjóðs lækna og með þeim lið hafi ekkert innra eftirlit verið. Stefndi telur það hafa verið ófullnægjandi vinnubrögð hjá stefnanda að afla ekki frekari staðfestinga um þá eign en að fá um hana innri gögn frá starfsmanni sjóðsins. Ekki komi neitt fram um það í vinnugögnum stefnanda hvernig hann hafi staðreynt umrædda eign umfram það að skoða skuldabréfalista og þá aðeins í hluta tilfella. Hafi að mati stefnda verið réttmætt og eðlilegt að á stefnanda hafi fallið rökstuddur grunur og óhjákvæmilegt í því ljósi að við skýrslutökur af stefnanda hafi honum verið gefin staða sakbornings.
Það að fá stöðu sakbornings við rannsókn máls leiði ekki til bótaréttar og heldur ekki að ákæra sé gefin út á hendur manni hvorki samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála né heldur samkvæmt þeim lagareglum sem stefnandi tilgreini. Ekkert liggi fyrir um að sú staðreynd að stefnandi hafi fengið stöðu sakbornings hafi verið ólögmæt og saknæm háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda, eða að í því hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Stefnandi hafi ekki fært rök fyrir því að í rannsóknartökum eða útgáfu ákæru hafi falist ólögmæt og/eða saknæm háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda. Það sé rangt hjá stefnanda að við rannsókn málsins og ákvörðun um útgáfu ákæru hafi ekki verið gætt réttra aðferða og hlutlægnisskyldu. Hafi engin rök verið að því færð að þeir starfsmenn stefnda sem tekið hafi ákvarðanir um rannsókn og saksókn hafi verið óvilhallir eða haft um það fyrir fram gefnar skoðanir eða niðurstöður um að stefnandi væri sekur fremur en saklaus, eða að þeir hafi ekki gætt réttra aðferða, s.s. hlutlægnisskyldunnar, enda hafi þeir ekki haft neinna persónulegra hagsmuna að gæta.
Ákæra í málinu hafi verið gefin út af Jóni Snorrasyni saksóknara, en hann hafi á þessum tíma verið yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans og sem slíkur haft ákvörðunarvald um rannsóknir og rannsóknartök. Í stefnu sé ekki vikið orði að saksóknaranum eða því hvernig hann hafi ekki gætt réttra aðferða. Sama gildi um ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. Séu fullyrðingar um saknæma og/eða ólögmæta háttsemi starfsmanna stefnda, sem tóku ákvarðanir í málinu, því úr lausu lofti gripnar og með öllu órökstuddar. Sama gildi um að í háttsemi þeirra og ákvörðunum hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Meintar og ósannaðar skoðanir undirmanna og aðkeyptra sérfræðinga geti þar engu breytt. Sá skortur sem stefnandi kveði vera á því að rannsakað hafi verið til þrautar hvaða fölsuðu gögn voru lögð fyrir stefnanda breyti engu. Bæði sé að þetta hafi sætt rannsókn, en fölsuð og röng gögn hafi ekki verið meginástæða þess að ekki hafi komist upp um fjárdráttinn, heldur slæleg vinna endurskoðandans. Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið gætt hlutlægnisskyldu og annarra lögmæltra sjónarmiða og aðferða við rannsókn og meðferð máls hjá lögreglu og ákæruvaldi.
Í niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 509/2004 sé bent á vankanta við rannsókn málsins og enn fremur við ákærusmíð í máli því sem höfðað hafi verið gegn stefnanda. Þó Hæstiréttur hafi metið það svo að ágallar væru þar á, með hliðsjón af réttarfarslögum, valdi það ekki ólögmæti og/eða saknæmi í skilningi skaðabótaréttar. Ekki sé unnt að setja samasemmerki milli þess annars vegar að rannsókn hafi verið ófullkomin að því leyti sem Hæstiréttur telji, og ákæran ekki nægilega nákvæm, og hins vegar að háttsemi þeirra starfsmanna stefnda sem unnu verkið hafi verið saknæm og ólögmæt og/eða falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda.
Með ákæru ríkislögreglustjóra, dags. 16. apríl 2004, hafi verið höfðað opinbert mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnanda. Þann dag hafi verið tekin ákvörðun um ákæru og ekki fyrr. Þá hafi verið liðinn 141 dagur frá því að stefnandi gaf sína síðari skýrslu hjá lögreglu og 205 dagar frá því hann fékk stöðu sakbornings. Það verði ekki talinn langur tími og síst svo að gangi gegn réttarfarslögum og/eða ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 6. gr. hans. Verði engin bótaskylda á þessu byggð.
Hafi gangur málsins fyrir héraðsdómi verið eðlilegur og hafi stefnandi ekki gert athugasemdir við hann. Í þessu sambandi verði einnig að benda á að stefnandi hafi á þessum tíma aldrei nýtt sér heimildir sínar til að bera rannsóknaraðgerðir lögreglu undir dóm á rannsóknarstigi, sbr. 75. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Málið hafi fyrst verið tekið fyrir í héraðsdómi 25. júní 2004 og þá frestað til 9. september 2004. Þann dag var málið tekið fyrir að nýju og aðalmeðferð ákveðin 9. nóvember 2004. Áður en aðalmeðferð hafi farið fram hafi málið verið tekið fyrir 22. september 2004 og 4. október 2004. Samkvæmt áætlun hafi aðalmeðferð farið fram 9. nóvember 2004 og dómur kveðinn upp 30. nóvember 2004. Hafi stefndi verið sýknaður í héraðsdómi og að mati stefnda hafi hann notið réttlátrar málsmeðferðar í héraðsdómi. Málshraði hafi verið eðlilegur og hvergi brotið gegn rétti stefnanda við dómsmeðferðina.
Ákæruvaldið hafi áfrýjað sýknudómi héraðsdóms og áfrýjunarstefna hafi verið gefin út 16. desember 2004, en málið verið dæmt í Hæstarétti 12. maí 2005. Stefndi telur að ekki hafi hallað á stefnanda eða á honum brotinn réttur við áfrýjunarmeðferð málsins og ekki hafi orðið dráttur á meðferð málsins við áfrýjun þess og hafi meðferð þess verð í samræmi við lög og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Frá útgáfu ákæru 16. apríl 2004 til dóms Hæstaréttar 12. maí 2005 hafi liðið rúmt ár. Það verði ekki talinn vera langur tími til að ljúka dómsmeðferð í slíku máli. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að ámælisverður dráttur hafi orðið á málinu frá því að hann var kallaður til yfirheyrslu 24. september 2003 þar til dómur Hæstaréttar gekk.
Eins og rakið hafi verið hafi málinu verið vísað frá héraðsdómi þar sem rannsókn og saksókn hafi ekki uppfyllt skilyrði réttarfarslaga en þýði ekki að rannsókn og saksókn teljist hafa verið ólögmætar og saknæmar eða hafi falið í sér ólögmæta meingerð. Öllum skilyrðum um rannsókn og saksókn varðandi heimildir lögreglu og valdmörk hafi verið fullnægt. Lögreglu og ákæruvaldi hafi verið heimilt að lögum að rannsaka mál stefnanda og gefa út ákæru, en það valdi ekki ólögmæti þeirra athafna að á þeim hafi ekki þótt fært að byggja refsidóm. Í því efni bendi stefndi á að stefnandi byggi ekki á bótaákvæðum 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála, en rannsókn og saksókn séu ekki meðal þeirra athafna sem bótaskyldar geti verið. Komi þannig aðeins til skoðunar almennar bótareglur skaðabótaréttar og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Ríkissaksóknari hafi talið ríkislögreglustjóra hafa fullt tilefni til að ákæra stefnanda á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fram hafði farið, og jafnframt að ákæra væri nægilega glögg og hefði að geyma næga lýsingu á refsiverðum verknaði. Jafnvel þó að rannsóknargögn yrðu ekki talin hafa gefið tilefni til útgáfu ákæru, með hliðsjón af sjónarmiðum 112. gr. laga um meðferð opinberra mála, þá verði það ekki tilefni skaðabótaskyldu. Það að ákæru sé vísað frá eða sýknað af sakargiftum verði ekki til þess að bótaskylda stofnist sjálfkrafa á hendur ríkinu. Stefnandi hafi ekki náð að sýna fram á að lögreglumenn hafi farið offari í aðgerðum sínum gegn honum við rannsókn á brotum þeim sem málið varði eða að ómálefnalegar ástæður hafi búið að baki því að grunur féll á hann og að opinbert mál var höfðað. Hafi málinu ekki verið vísað frá héraðsdómi vegna þess að rannsókn og saksókn hafi verið ólögmætar, heldur vegna þess að á henni hafi verið vankantar þess eðlis að Hæstiréttur hafi ekki talið unnt að byggja sakfellingu í refsimáli á henni. Á þessu sé ríkulegur eðlismunur.
Eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 12. maí 2005 hafi verið ljóst að málið væri í raun komið í sömu stöðu og það var í áður en ákæra var gefin út. Í framhaldi af því hafi ríkissaksóknari hinn 31. maí 2005 mælt fyrir um það að ríkislögreglustjóri léti sem fyrst undirbúa framhald rannsóknar málsins í samræmi við athugasemdir í forsendum hæstaréttardómsins og hafi stefnanda verið tilkynnt það með bréfi 20. október 2005 að ákveðið hefði verið að taka málið til rannsóknar á ný og ráða bót á þeim annmörkum sem Hæstiréttur hafi talið vera á rannsókninni. Hinn 26. október 2005 hafi verið tekin framburðarskýrsla af Lárusi Halldórssyni vegna rannsóknarinnar og hinn 9. nóvember 2005 hafi ríkislögreglustjórinn óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu matsmenn í málinu. Töluverðar tafir hafi orðið á málinu þó ekki væru þær af völdum lögreglu. Matsmenn hafi verið dómkvaddir 20. júní 2006 og þeim strax daginn eftir send gögn málsins. Annar matsmanna hafi beðist undan matsstörfum og sent dóminum bréf um það 23. júní 2006 en upplýsingar um það hafi hins vegar ekki borist lögreglu fyrr en í september sama ár þegar lögregla hafi grennslast fyrir um hvar málið væri statt hjá matsmönnum. Lögregla hafi þá sent bréf til dómsins og óskað upplýsinga og í kjölfarið hafi verið boðað til nýs þinghalds 18. október 2006 til að skipa nýjan matsmann. Fram hafi komið að ekki hafi tekist að finna matsmann til að taka verkið að sér, en ríkissaksóknari hafi hlutast til um að frestað yrði dómkvaðningu meðan hann færi yfir gögn málsins. Hann hafi tekið um það ákvörðun 20. nóvember 2006 að hætta þeirri rannsókn sem mælt hafi verið fyrir um 31. maí 2005 og með bréfi 5. desember 2006 hafi lögregla tilkynnt stefnanda að rannsókn málsins væri hætt.
Stefndi byggir á því að heimilt hafi verið að taka rannsókn málsins upp á ný eftir frávísunardóm Hæstaréttar 12. maí 2005, en þetta verði ráðið af dómi Hæstaréttar 22. nóvember 2005. Af þeim dómi verði jafnframt ráðið að heimilt og eðlilegt hafi verið að stefnandi hefði stöðu sakbornings við rannsóknina.
Leggja verði mat á rannsókn málsins og meðferð þess út frá hlutlægum sjónarmiðum og telur stefndi að málið allt hafi ekki tekið óeðlilega langan tíma í meðförum hjá lögreglu og ákæruvaldi. Stefnandi hafi ekki haldið fram að málsmeðferð dómara hafi verið lögum andstæð, en dómari hafi ákvörðunarvald um hvenær þinghöld séu háð í máli. Sé þannig ekki til umfjöllunar dráttur sem kunni að hafa orðið af völdum annarra en lögreglu og ákæruvalds.
Tíminn frá því að stefnandi fékk stöðu sakbornings til útgáfu ákæru hafi verið skammur. Rannsókn málsins hafi aldrei legið niðri. Dómsmeðferð málsins hafi öll tekið rúmt ár, sem geti ekki talist langur tími fyrir dómsmeðferð í héraðsdómi og Hæstarétti. Frá dómi Hæstaréttar 12. maí 2005 hafi liðið allnokkrar vikur uns stefnanda var tilkynnt að ákveðið hefði verið að hefjast handa á ný við rannsókn málsins. Sá tími hafi ekki verið langur og hafi ekki komið stefnanda að sök, enda hafi hann ekki verið undir rannsókn á þeim tíma. Geti það tímaskeið ekki talist til dráttar á máli. Frá tilkynningu um rannsókn þar til hafist var handa um að fá dómkvadda matsmenn og taka skýrslu af Lárusi Halldórssyni hafi liðið nokkrir dagar. Dráttur málsins eftir það sé ekki á ábyrgð lögreglu sem geti ekki stjórnað og beri ekki ábyrgð á málshraða hjá dómstólum.
Hafi ákvarðanir rannsóknaraðila verið bornar undir héraðsdóm og ákvarðanir og úrskurðir héraðsdóms kærðar til Hæstaréttar og sé ljóst að það hafi frekar verið stefnandi sem efnt hafi til ágreinings, svo sem réttur hans hafi staðið til, en sá dráttur sem af því hlaust verði ekki kenndur öðrum. Ekki hafi fengist endanleg niðurstaða í þær deilur fyrr en í lok maí 2006 og skömmu síðar hafi matsmenn verið dómkvaddir.
Jafnvel þó að sá tími sem rannsóknin tók eftir frávísunardóminn 12. maí 2005 hafi ekki verið á ábyrgð lögreglu þá hafi ríkissaksóknari allt að einu tekið ákvörðun um að hætta rannsókninni þar eð drátturinn hafi verið orðinn óhæfilegur.
Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir stórkostlegu tjóni vegna málsins. Tjón stefnanda sé allt ósannað. Hafi stefnandi allt að einu orðið fyrir tjóni, þá telji stefndi ósannað allt orsakasamhengi þess við athafnir og/eða athafnaleysi starfsmanna stefnda. Þá telji stefndi meint tjón stefnanda alltof hátt metið, og hafi stefnandi orðið fyrir tjóni, þá verði það að mestu leyti eða öllu rakið til eigin sakar stefnanda sjálfs. Þá hafi stefnandi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að takmarka tjón sitt eftir föngum.
Samkvæmt gögnum málsins hafi stefnandi sjálfur tekið ákvörðun um að segja lausu starfi sínu hjá SÍF. Hvergi komi fram í málinu að hann hafi verið beittur þrýstingi til að segja því lausu. Þá verði ekki ráðið af ráðningarsamningi stefnanda, eða öðrum gögnum málsins, að honum hafi borið skylda til að segja starfi sínu lausu við þær aðstæður sem uppi voru en í samningi hans við SÍF sé því lýst hvað teljist vera vanefndir á samningnum og hvaða háttsemi teljist vera ósamrýmanleg starfi stefnanda, sbr. 3. og 11. gr. samningsins.
Verði því ekki annað séð en að stefnandi hafi sjálfur kosið að segja starfi sínu lausu vegna eigin samvisku og sómakenndar og þess að hann hafi sjálfur ekki talið sér stætt í starfinu. Á því beri stefndi ekki ábyrgð. Meginorsök þess að stefnandi telji sig ekki hafa átt kost á endurskoðunarvinnu eftir umrætt mál felist í vinnubrögðum stefnanda sjálfs auk þess sem ekki liggi fyrir að stefnandi hafi kært sig um að stunda slíka vinnu um langt árabil utan vinnu hans fyrir Tryggingasjóð lækna.
Stefndi kveður ósannað að stefndi sé ekki gjaldgengur í forstjórastarf hjá stórfyrirtækjum eftir að sakamálið kom upp vegna álitshnekkis sem það hafi valdið honum. Þá telur stefndi að meginorsök hins meinta álitshnekkis, sem stefnandi kveðist hafa orðið fyrir, sé sú að hann hafi misst traust vegna vanrækslu við endurskoðunarstörf sín fyrir Tryggingasjóð lækna. Það hvernig stefnandi hafi sinnt endurskoðendaskyldum sínum fyrir sjóðinn sé mun líklegra til að hafa valdið honum álitshnekki í viðskiptalífinu heldur en rannsókn og málsmeðferð sakamálsins sjálfs og athafnir starfsmanna stefnda í því sambandi. Í þessu efni bendi stefndi á að vinnubrögð stefnanda við endurskoðun sjóðsins hafi aldrei fengið efnislega umfjöllun í dómi og sé það stefnanda að sanna að vinnubrögð hans hafi verið forsvaranleg. Stefndi telji megin orsök meints álitshnekkis stefnanda vera hans eigin vinnu en ekki störf og vinnubrögð starfsmanna stefnda. Beri stefnandi þannig sjálfur alla sök á þeim álitshnekki sem málið kann að hafa valdið honum og jafnframt því tjóni sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna þess.
Ekkert liggi fyrir um af hvaða störfum stefnandi hafi misst og hvaða tækifæri hafi gengið honum úr greipum vegna málsins. Verði ekki ráðið af stefnu og framlögðum gögnum að stefnandi hafi borið sig eftir nokkru starfi eða að á þetta hafi reynt. Séu þannig allar fullyrðingar stefnanda um skerta starfsmöguleika ósannaðar. Jafnframt þyki stefnandi ekki hafa sinnt þeirri skyldu sinni að takmarka meint tjón sitt eftir megni.
Þá kveður stefnandi fjárhæðir meints tjóns stefnanda dæmalausar. Ekkert liggi fyrir um hver laun stefnanda hafi nákvæmlega verið meðan hann starfaði hjá SÍF og séu fjárhæðir ósannaðar að því leyti. Ekkert liggi fyrir um hversu lengi stefnandi hefði haldið slíkum launum og hversu lengi hann hafi verið í slíku starfi eða hvað hefði tekið við hjá honum að því starfi frágengnu. Þannig séu fjölmargir óvissuþættir þetta varðandi og geti stefnandi ekki fullyrt að hann hefði haldið slíkum launum til fullnaðs 67 ára aldurs eins og hann byggi kröfu sína á. Sé verulegur hluti tekna stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi falinn í hagnaðarhlutdeild. Ekki sé unnt að fullyrða hvernig hagnaður fyrirtækisins verði á næstu áratugum og sé þetta, með öðru, slíkur óvissuþáttur að fjárhæðir krafna stefnanda séu úr lausu lofti gripnar. Séu eiginleg laun í samningi tilgreind rúmar 1.400.000 krónur á mánuði.
Þá sé ekki upplýst hver séu núverandi laun stefnanda og hversu langt þau séu frá þeim tekjum sem hann telji að hann hefði haft í starfi sínu hjá SÍF. Laun stefnanda nú kunni að koma til frádráttar á meintu tjóni hans.
Fyrir liggi að stefnandi hafi notið starfslokasamnings og greiðslna samkvæmt honum. Telji stefndi að allar greiðslur sem stefnandi hafi fengið samkvæmt þeim samningi og aðrar greiðslur sem stafi frá SÍF og tengdum félögum beri að draga frá kröfum hans, en starfslokasamningurinn dragi einmitt úr meintu tjóni stefnanda. Sé óeðlilegt að fyrir þann tíma sem stefnandi hafi notið greiðslna samkvæmt starfslokasamningi njóti hann einnig fullra launa enda ekki gert ráð fyrir að maður hagnist á tjóni.
Þá mótmæli stefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna spjalla á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Þetta sé ekki útskýrt í stefnu en vísað sé til þess að hann hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki í viðskiptalífinu. Vísi stefndi til þess sem fyrr sé sagt um háttsemi stefnanda sjálfs sem frumorsök þess meinta álitshnekkis sem hann kveðist hafa orðið fyrir. Ekki sé af hálfu stefnanda gerð grein fyrir á hvaða hátt lánstraust stefnanda hafi skerst en ef litið sé til skattframtala stefnanda sýnist hann njóta umtalsverðs lánstrausts. Þá liggi ekkert fyrir um það í hvaða viðskiptum og lántökum stefnandi hafi verið eða hyggist vera í persónulega, en persónulegt lánstraust hans og viðskiptasambönd séu ekki það sama og lánstraust og viðskiptasambönd fyrirtækis sem hann stýri eða kunni að stýra. Sé með öllu órökstutt tjón á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem stefnandi meti til 10.000.000 króna. Þá sé lýsing stefnanda á því tjóni sú sama og lýsing á ætluðum miska hans. Sé þannig ekki ljóst að um sé að ræða raunverulegt fjártjón.
Stefndi mótmæli miskabótakröfu að fjárhæð 50.000.000 króna. Hafi stefnandi ekki verið handtekinn og hann ekki sætt neinum þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu vegna rannsóknarinnar. Málið hafi ekki dregist á langinn svo að ólögmætt verði talið. Ekki hafi verið beitt ólögmætum aðferðum og/eða sjónarmiðum við meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Sá miski sem stefnandi lýsi standi allur í tengslum við annars vegar vinnubrögð hans sjálfs við endurskoðunina, og hins vegar þá ákvörðun hans að segja þáverandi starfi sínu lausu. Þá sé fjárhæð miskabótakröfu fjarri öllu lagi og í ósamræmi við alla dómaframkvæmd og venju á sviði miskabóta. Séu skilyrði 26. gr. sakaðbótalaga nr. 50/1993 og annarra réttarreglna um bótaskyldu ekki uppfyllt. Ekki sé um að ræða ólögmæta meingerð svo sem áskilið sé. Það að hafa stöðu sakbornings og sæta síðan ákæru feli ekki í sér ólögmæta meingerð. Til þess þurfi annað til að koma, s.s. að lögreglumenn hafi farið offari í aðgerðum sínum gegn manni við rannsókn á brotum þeim, sem málið varði, eða ómálefnalegar ástæður hafi búið að baki því að grunur hafi fallið á hann, eða opinbert mál hafi verið höfðað, eða málsmeðferð hafi dregist úr hömlu eða á annan hátt hafi verið beitt ólögmætri aðferð eða aðgerð reistri á ólögmætum sjónarmiðum.
Vegna meints tjóns af fjölmiðlaumfjöllun um mál stefnanda bendi stefndi á að ekki liggi fyrir að slík umfjöllun hafi valdið stefnanda tjóni. Ekkert liggi heldur fyrir um að óeðlileg upplýsingagjöf hafi verið frá starfsmönnum stefnda til fjölmiðla um mál stefnanda en þinghöld í opinberum málum séu háð í heyranda hljóði. Þá sé óútskýrð krafa um laun frá 1. febrúar 2004 1. janúar 2007.
Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á almennu skaðabótareglunni, reglum um húsbóndaábyrgð og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki er byggt á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Eins og að framan greinir heldur stefnandi einkum uppi fjórum málsástæðum í málinu.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi bótakröfu sína á því að hann hafi að ósekju fengið réttarstöðu sakbornings vegna starfa sinna sem endurskoðandi fyrir Tryggingasjóð lækna og hafi á engan hátt verið réttlætt eða skýrt af hverju játningar Lárusar Halldórssonar um blekkingar og falsanir gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsakaðar. Hafi verið brotið alvarlega gegn stefnanda og bótaskylda stofnast með því að brot Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsökuð og ekki ákært fyrir þau.
Í tengslum við rannsókn á ætluðum auðgunar- og bókhaldsbrotum Lárusar í störfum hans sem framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna vaknaði hjá lögreglu grunur um að stefnandi kynni að hafa í störfum sínum sem löggiltur endurskoðandi sjóðsins gerst brotlegur við lög um endurskoðendur nr. 18/1997, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og lögum um ársreikninga nr. 144/1944 sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var stefnandi þannig grunaður um refsiverða háttsemi sem sætti rannsókn lögreglu og var því ekki um annað að ræða en að tekin yrði skýrsla af honum sem sakborningi.
Stefnandi heldur því fram að ef þeir sem stóðu að rannsókn sakamáls á hendur Lárusi Halldórssyni hefðu ekki látið hjá líða að rannsaka meintar blekkingar og falsanir Lárusar gagnvart stefnanda hefði stefnandi ekki fengið réttarstöðu sakbornings. Fyrir liggur að stefnandi hafði um langt árabil endurskoðað og áritað reikninga Tryggingasjóðs lækna. Samkvæmt gögnum málsins var Tryggingasjóður lækna séreignarsjóður og hlutverk hans að vera uppsöfnunarsjóður til greiðslu lífeyris og að hafa forgöngu um að læknum stæði til boða hagkvæmir tryggingavalkostir á hverjum tíma. Um sjóðinn giltu því ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 42. gr. laganna ber endurskoðanda, verði hann var við verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, þegar í stað að gera stjórn sjóðsins og Fjármálaeftirlitinu viðvart um þessi atriði. Ljóst er því að ríkar skyldur hvíldu á stefnanda varðandi endurskoðun á sjóðnum.
Þegar í ljós kom við rannsókn á meintum brotum Lárusar Halldórssonar að stefnandi hafði áritað ársreikning sjóðsins vegna ársins 2000 án athugasemda og í ljós hafði verið leitt við rannsókn málsins gagnvart Lárusi að uppsafnaður fjárdráttur hans næmi yfir 75 milljónum króna en hrein eign samkvæmt ársreikningi þess árs væri rúmar 84 milljónir verður að telja að þegar af þeirri ástæðu hafi verið full ástæða til að hefja rannsókn á því hvort stefnandi hefði sinnt skyldum sínum sem endurskoðandi sjóðsins og veita honum við þá rannsókn réttarstöðu sakbornings. Þykir allsendis ósannað að sérstök rannsókn á meintum fölsunum og blekkingum Lárusar gagnvart stefnanda og útgáfa ákæru á hendur honum vegna þeirra hefði orðið til þess að stefnandi hefði ekki verið yfirheyrður sem sakborningur og þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefndi þegar orðið bótaskyldur gagnvart stefnanda.
Þá er þess að geta að samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir það mat Grant Thornton endurskoðunar ehf. að þau gögn sem stefnandi hafði sjálfur undir höndum gætu ekki talist nægilegur stuðningur fyrir áliti hans og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins. Þá liggur fyrir mat Árna Tómassonar löggilts endurskoðanda um að margt bendi til þess að stefnandi hafi ekki fylgt góðri endurskoðunarvenju í starfi sínu fyrir tryggingasjóðinn. Bar honum sem endurskoðanda að afla gagna og gera nauðsynlegar kannanir til að fá vissu fyrir því að ársreikningar væru í samræmi við lög um ársreikninga, góða reikningsskilavenju og samþykktir sjóðsins. Af gögnum málsins verður ráðið að þau gögn sem Lárus afhenti stefnanda og voru fölsuð voru skuldabréfalistar auk þess sem hann hefði einu sinni sýnt honum falsað ljósrit af ríkisskuldabréfi. Stefnandi bar hjá lögreglu að hann hefði ekki aflað neinna gagna sjálfstætt. Hann hafi ekki farið yfir lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr sjóðnum, sem þó virðast mikilvægir þættir í bókhaldi sjóðsins. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að meint takmörkuð rannsókn lögreglu á meintum blekkingum og framvísun falskra gagna af hálfu Lárusar hafi verið saknæm og ólögmæt og stefndi sé skaðabótaskyldur af þeim sökum gagnvart stefnanda.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að lögreglurannsókn vegna sakargifta á hendur stefnanda frá 24. september 2003 til 16. apríl 2004 hafi verið fjarri því að vera í samræmi við 31. gr. laga nr. 19/1991 og því að ná markmiði 67. gr. sömu laga. Samkvæmt 31. gr. laganna skulu þeir sem fara með ákæruvald vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þá segir í 67. gr. laganna að markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar.
Stefnandi byggir meðal annars á því að Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, sem ríkislögreglustjóri hafði tilkvatt sem kunnáttumann við rannsókn málsins, hefði lýst þeirri skoðun sinni tveim dögum eftir að stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu, að hann teldi skylt að láta reyna á ábyrgð stefnanda og hafi hann lagt slíka áherslu á þetta atriði að hann hafi talið að annars væri embætti ríkislögreglustjóra að brjóta gegn lögbundum skyldum sínum. Hafi hann þannig komist að þeirri fortakslausu niðurstöðu að stefnandi væri sekur án þess að hafa kannað þá vinnupappíra sem stefnandi hafi afhent við skýrslutökuna. Þá hafi Róbert Bjarnason, lögreglufulltrúi, sem stýrt hafi rannsókninni gert þessa skoðun Árna um sök stefnanda að sinni í bréfi til formanns skilanefndar Tryggingasjóðs lækna.
Í minnisblaði Árna Tómassonar sem hann lét lögreglu í té vegna yfirheyrslu yfir stefnanda og er dagsett 26. september 2003 lætur Árni uppi þá skoðun að margt bendi til þess að ekki fái staðist að stefnandi hafi fylgt góðri endurskoðunarvinnu í starfi sínu fyrir Tryggingasjóð lækna og vísar um það nánar til ýmislegs sem fram hafði komið í skýrslu stefnanda. Kemur fram hjá honum að hann telji ekki unnt að líta fram hjá því að stefnandi hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um endurskoðendur eða fylgt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Verði að horfa til þess að þeir sjóðfélagar sem greiði í sjóðinn í góðri trú, stjórn sjóðsins að vissu marki og opinberir eftirlitsaðilar verði að geta treyst því að óháðir ytri endurskoðendur sinni störfum sínum af kostgæfni og gangi úr skugga um að starfsemi sjóðsins sé í meginatriðum í lagi að því er fjárhagslega og lagalega þáttinn varði. Sé ljóst að í þessu tilfelli hafi þetta verulega brugðist, hvort sem horft sé til umfangs, tímalengdar eða annarra atriða. Var það því niðurstaða Árna að hann teldi að ekki verði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð endurskoðanda í þessu tilviki. Gerði ríkislögreglustjóri það ekki mætti áfellast embætti hans fyrir að sinna ekki lögbundum skyldum sínum.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 leitar rannsóknari kunnáttumanna þegar þörf er á sérfræðingi í rannsókn. Nýtti ríkislögreglustjóri sér þessa heimild samkvæmt framanskráðu. Samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaði Árna taldi hann ekki verða hjá því komist og að ríkissaksóknara bæri skylda til að á ábyrgð stefnanda yrði látið reyna. Í minnisblaði þessu setur Árni fram skoðun sína á málinu sem ráðgjafi ríkislögreglustjóra og verður ekki annað af orðum hans ráðið en að hann telji rétt að rannsaka þátt stefnanda. Ákvörðun um saksókn var í höndum ríkislögreglustjóra en ekki hins sérfróða kunnáttumanns.
Í bréfi Róberts Bjarnasonar lögreglumanns til formanns skilanefndar tryggingasjóðsins 16. október 2003 getur hann þess að við rannsókn á meintum brotum Lárusar Halldórssonar hafi vaknað grunur um refsiverð brot af hálfu stefnanda. Þá kemur fram hjá honum að niðurstaða rannsóknar varðandi þátt stefnanda sé sú að fjölmargt bendi til þess að góðri endurskoðunarvenju hafi ekki verið fylgt og að verulega hafi skort á að svo væri og yrði því ekki komist hjá því að láta reyna á ábyrgð stefnanda. Þykir augljóst að þarna er lögreglumaðurinn að gera orð Árna að sínum en af þeim verður ekkert fullyrt um að ákvörðun hefði verið tekin á þessari stundu að stefnandi yrði ákærður enda var slík ákvörðun ekki á valdi lögreglumannsins.
Stefnandi telur augljóst að endurskoðendur frá Grant Thornton hafi við skoðun á vinnupappírum stefnanda, sbr. skýrsla þeirra 3. nóvember 2003 látið blekkjast eins og hann af hinum fölsuðu skuldabréfalistum þar sem þeir hafi ekki tekið eftir því strax að samtölur þeirra stemmdu ekki. Að mati stefnanda hafi fölsun því ekki verið augljós í þeim skilningi að hún hafi blasað við þótt endurskoðendur hafi eftir frekari skoðun gagnanna sagt í skýrslu sinni 8. desember 2003 að við skoðun á þeim skuldabréfalistum sem voru í vinnugögnum stefnanda hafi komið í ljós að samlagning á listunum stemmdi ekki við samtölur þeirra og séu niðurstöður þeirra augljóslega rangar. Þá komi fram hjá Árna Tómassyni í bréfi sínu til ríkislögreglustjóra 21. júní 2004 að hann hafi kallað fölsun á skuldabréfalista ársins 1993 lævíslega og fagmannlega og talið að ekki væri hægt að áfellast vinnubrögð stefnanda vegna þeirrar fölsunar.
Í lok framangreindrar skýrslu 8. desember 2003 komi fram að einu ytri staðfestingar sem liggi fyrir í vinnuskjölum stefnanda séu staðfestingar á stöðu bankareikninga um áramót. Sé það því niðurstaða skýrsluhöfunda að vinnuskjöl og upplýsingar um vinnu endurskoðandans varðandi aðra liði en stöðu bankareikninga vanti. Ekkert sé þó fjallað um hvaða gögn það séu eða gæti verið um að ræða. Standist þessi ályktun ekki og beri hún ekki vott um hlutlægni.
Ekki verður séð að hvaða leyti fullyrðingar hinna sérfróðu kunnáttumanna um gagnaskort við endurskoðun stefnanda beri í sér vott um hlutdrægni þannig að í bága fari við ákvæði 31. gr. laga nr. 91/1991 enda fara skýrsluhöfundar ekki með ákæruvald heldur eru aðeins ráðgjafar ríkislögreglustjóra.
Af því sem nú hefur verið lýst hefur stefnandi ekki sýnt fram á það að við lögreglurannsókn vegna sakargifta áhendur stefnanda hafi afstaða rannsóknara um sök stefnanda legið fyrir strax við upphaf rannsóknar málsins eða að ályktun Grant Thornton endurskoðunar ehf. um vinnupappíra stefnanda sýndi fram á að ríkislögreglustjóri hafi ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar og annarra lögmæltra sjónarmiða og aðferða við rannsókn og meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Verður því ekki séð að rannsóknin hafi að þessu leyti brotið í bága við ákvæði 31. gr. og 67. gr. laga nr. 19/1991 og þannig verið saknæm og ólögmæt.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að sú ákvörðun ákæranda að gefa út ákæru á hendur stefnanda á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fyrir lá og þess efnis sem hún var þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst að rannsóknin uppfyllti ekki skilyrði 67. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið saknæm og ólögmæt og leiði til bótaskyldu stefnda. Auk þess að ákæranda hefði mátt vera ljóst að rannsóknin væri ófullnægjandi og hefði mjög skort á að aflað hefði verið nægra gagna til undirbúnings málsmeðferðar.
Samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 á það alfarið undir ákæruvaldið að meta fram komin rannsóknargögn og meta hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki. Var það mat ákæruvaldsins að svo væri þegar ákvörðun var tekin um útgáfu ákæru á hendur stefnanda. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli 504/2004 að eins og lögregla hagaði rannsókn skorti mjög á að hún hefði náð því markmiði sem mælt er fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991 auk þess sem vankantar væru á ákærusmíð og væri því ófært að leggja efnisdóm á málið. Framangreind niðurstaða Hæstaréttar þykir ekki renna stoðum undir þær fullyrðingar stefnanda að sú ákvörðun að gefa út ákæru á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknar hafi verið saknæm og ólögmæt og falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi friði, æru eða persónu stefnanda þannig að leiði til bótaskyldu.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að hann hafi haft réttarstöðu sakbornings að ósekju mun lengur en verið hefði ef rannsókn og saksókn hefði fari fram í samræmi við lög um meðferð opinberra mála, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Bæði vegna dráttar vegna ákvörðunar um ákæru á grundvelli ófullnægjandi verknaðarlýsingar og dráttar eftir frávísun ákæru með dómi Hæstaréttar. Er það mat dómsins að sá tími sem leið frá ákæru 16. apríl 2004 þar til dómur féll í Hæstarétti 12. maí 2005 hafi verið hóflegur miðað við umfang málsins og ekkert í málinu sem bendir til þess að stefndi beri nokkra ábyrgð á þeim málstíma. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki fallist á það að þótt niðurstaða Hæstaréttar hafi verið að málið hefði ekki verið nægilega rannsakað þegar ákæra var gefin út og ákæran ekki í samræmi við réttarfarslög að sá tími sem leið þar til dómur féll hafi verið óhæfilegur dráttur sem fari í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Sá tími sem leið frá því að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar til ákvörðun var tekin um að taka málið til rannsóknar að nýju voru rúmir fimm mánuðir. Á þeim tíma hafði stefnandi ekki réttarstöðu sakbornings. Frá þeim tíma sem ákvörðun var tekin um að hefja rannsókn á ný hinn 20. október 2005 þar til ákvörðun var tekin um að fella málið niður 5.desember 2006 leið rúmt ár. Á þeim tíma var leyst úr hinum ýmsu ágreiningsefnum milli ríkislögreglustjóra og stefnanda fyrir dómstólum, ekkert síður vegna krafna stefnanda. Tafði það málið óhjákvæmilega auk þess sem dróst úr hófi að fá dómkvadda matsmenn sem ákæruvaldið ber ekki ábyrgð á. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að óeðlilegur dráttur hafi verið á málinu sem stefndi beri ábyrgð á þannig að hann hafi verið í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á það að rannsóknaraðilar eða ákæruvald hafi við rannsókn og saksókn máls vegna sakargifta á hendur stefnanda sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi eða ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda og að meint tjón stefnanda vegna tapaðra launa, miska og spjalla á viðskiptahagsmunum og lánstrausti verði rakið til sakar stefnda. Þegar af þeim ástæðum verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili beri sinn kostnað við málið.
Af hálfu stefnanda flutti málið Kristinn Bjarnason hrl., en af hálfu stefnda flutti málið Sigurður G. Gíslason hdl.
Dóminn kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari sem formaður dómsins og meðdómendurnir, Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari og Bjarni Frímann Karlsson, viðskiptafræðingur og lektor við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Arnar Kristjánssonar.
Málskostnaður fellur niður.