Hæstiréttur íslands
Mál nr. 41/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
|
|
Þriðjudaginn 8. febrúar 2005. |
|
Nr. 41/2005. |
M(Jón Magnússon hrl.) gegn K (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna.
M krafðist þess að vikið yrði á nánar tiltekinn hátt frá helmingaskiptum við opinber skipti til fjárslita milli hans og K vegna hjónaskilnaðar. Hjúskapur aðila hafði staðið í þrjú ár og á þeim tíma hafði myndast með þeim fjárhagsleg samstaða. Að öllum atvikum virtum var ekki talið að skilyrði væru til þess að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Þá var K gert að greiða M leigu fyrir þann tíma sem hún hafði búið í íbúð þeirra eftir samvistarslit.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar aðilanna skyldi á nánar tiltekinn hátt vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við opinberu skiptin verði sér heimilað að taka að óskiptu úr hjúskapareign eignir eða verðgildi eigna samtals að fjárhæð aðallega 7.219.184 krónur, en til vara 6.816.784 krónur, auk þess innbús sem hann átti við stofnun hjúskapar. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði heimilað að taka að óskiptu eignir eða verðgildi eigna, sem hann átti við stofnun hjúskapar, auk þess innbús sem hann þá átti. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðili greiði sér 544.000 krónur í húsaleigu fyrir þann tíma, sem hún bjó eftir samvistaslit í íbúð þeirra að X, Reykjavík, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2004 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði stóð hjúskapur aðila máls þessa í þrjú ár. Verður ekki annað séð af gögnum málsins en að á þeim tíma hafi myndast með þeim fjárhagsleg samstaða. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2005.
Með úrskurði dómsins 23. apríl 2004 var ákveðið að fram færu opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar málsaðila. Ágreiningsefni þessa máls var skotið til dómsins með bréfi skiptastjórans, er barst 14. september. Málið var tekið til úrskurðar 16. desember sl.
Sóknaraðili er M [...]. Varnaraðili er K [...].
Sóknaraðili krefst þess aðallega að við skipti milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og að sóknaraðila verði heimilað að taka af óskiptu eignir eða verðgildi eigna samtals að fjárhæð kr. 7.219.184. Til vara krefst hann þess að honum verði heimilað að taka af óskiptu eignir eða verðgildi eigna samtals að fjárhæð kr. 6.816.784. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að honum verði heimilað að taka af óskiptu eignir eða verðgildi eigna sem hann flutti í búið. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum húsaleigu fyrir þann tíma sem hún bjó í íbúðinni að X, kr. 40.000 á mánuði frá því að hjúskaparslit urðu 18. júní 2003 til 1. ágúst 2004, þegar varnaraðili flutti úr íbúðinni, samtals kr. 544.000 auk dráttarvaxta frá 1. ágúst 2004 til greiðsludags. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um frávik frá helmingaskiptum verði hafnað. Þá krefst hún þess að hafnað verði kröfu hans um greiðslu húsaleigu. Til vara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila um greiðslu til hans af óskiptu verði lækkuð og verði aldrei hærri en kr. 2.000.000. Jafnframt verði krafa um húsaleigu lækkuð til muna. Samhliða aðalkröfu krefst varnaraðili málskostnaðar, en ella að hann verði felldur niður.
Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1998 og eignuðust barn í maí 1999. Þau gengu í hjúskap í júní 2000. Sambúðinni var slitið í júní 2003 og hófust opinber skipti til fjárslita eins og áður segir með úrskurði 23. apríl 2004.
Er aðilar hófu sambúð átti sóknaraðili íbúð í fjölbýlishúsi við Y. Varnaraðili átti ekki umtalsverðar eignir. Talsverðar skuldir hvíldu á íbúðinni. Þau eignuðust barn í maí 1999. Eftir að þau gengu í hjúskap var keypt íbúð við X og íbúðin við Y seld. Þau voru bæði þinglýstir eigendur íbúðarinnar við X og eignarhlutföll voru ekki tilgreind. Sambúð þeirra var slitið 18. júní 2003 og flutti þá sóknaraðili úr íbúðinni. Varnaraðili bjó í íbúðinni ásamt dóttur þeirra til 1. ágúst 2004.
Við meðferð málsins hjá skiptastjóra komu fram þær kröfur sem sóknaraðili gerir hér fyrir dómi og var leyst úr þeim á skiptafundi sem haldinn var 22. júlí 2004. Rétt er að taka hér upp orðrétt hluta af bókun skiptastjóra:
„Við mat á því hvort tilefni sé til skáskipta ber m.a. að líta til lengdar hjúskapar. Það er háð mati hvað sé skammur hjúskapur og hvað ekki. Dómar sýna að við mat á því hvort hjúskapur sé "skammur" þykir ekki eiga að taka tillit til þess hvort hjón hafi búið í óvígðri sambúð fram til stofnunar hjúskapar, sbr. Hrd. 1985:332.
Í því máli sem hér um ræðir voru aðilar í hjúskap frá júní 2000 - júní 2003 eða í 3 ár. Að teknu tilliti til þeirra dóma sem fallið hafa, verður að telja að um skamman hjúskap í skilningi lagaákvæðisins hafi verið að ræða.
Líta ber til fjárhags hjónanna og þess hvort annað hjóna hafi átt miklu meiri eignir en hitt við hjúskaparstofnun. Átt er við eignir sem til voru við hjúskaparstofnun en ekki þær sem til staðar voru við stofnun óvígðrar sambúðar, hafi hún verið undanfari hjúskapar, sbr. Hrd. 1985:322. Í því máli sem hér um ræðir átti maðurinn fasteign við upphaf hjúskapar. Fasteignin var seld og í staðinn keypt sú eign sem deilt er um í máli þessu. Það er þannig ljóst að maðurinn átti meiri eignir en konan við upphaf hjúskapar. Sannað er að meginuppistaðan í fasteigninni að X á rætur að rekja til hreinnar eignar mannsins í fasteigninni að Y. Þar sem maðurinn hefur sýnt fram á þetta og konan fallist á að svo hafi verið verður að telja að þinglýsing um jafna eignaraðild í fasteigninni að X breyti engu hér um. Konan hefur hvorki andmælt því að maðurinn hafi fjármagnað eignina að X eða sýnt fram á eigin framlög til eignarinnar. Á grundvelli þessa verður að telja að skilyrði ákvæðisins um að eignir stafi að mestu frá öðrum aðila sé fullnægt.
Jafnframt ber að líta til þess hvort veruleg fjárhagsleg samstaða hafi skapast með aðilum. Við úrlausn á þessu er rétt að líta þess að aðilarnir virðast ekki hafa staðið saman að eignamyndun eða aukningu á verðgildi fasteignarinnar eða að öflun eigna að öðru leyti. Þá liggur fyrir að maðurinn stóð aðallega straum af heimilisrekstri fjölskyldunnar með aflafé sínu. Að mati skiptastjóra hefur það ekki úrslitaáhrif við mat á fjárhagslegri samstöðu þó aðilar hafi verið með sameiginlegan útgjaldareikning. Þá er það skoðun skiptastjóra að ekki skipti máli þó málsaðilar hafi eignast saman barn í hjúskapnum. Skáskiptareglur hjúskaparlaga byggjast ekki á sjónarmiðum um framfærslu fjölskyldu eða barna. Vísað er til Hrd. 9:1985 en í dómnum var beitt skáskiptum þó málsaðilar hefðu eignast barn í hjúskapnum.
Að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir skiptastjóra telur hann að fullnægt sé skilyrðum 104 gr. hjskl. er leiða til þess að víkja skuli frá helmingaskiptum við fjárskipti hjónanna. Skiptastjóri telur að taka skuli til greina varakröfu mannsins um að hann fái að taka að óskiptu verðgildi eigna samtals að fjárhæð kr. 6.816.184.
Ekki er unnt að taka til greina kröfu mannsins um að hann fái að taka af óskiptu það innbú sem hann átti við stofnun hjúskapar. Ekkert liggur fyrir um hvaða muni er að ræða eða sönnum fyrir því hver greiddi kaupverðið.
Krafa mannsins um að konunni verði gert að greiða honum húsaleigu að fjárhæð kr. 40.000 er tekin til greina. Krafan á sér stoð í 104. gr. skl. en í ákvæðinu er gert ráð fyrir að auk eigna sem til staðar eru á viðmiðunardegi skuli koma til skipta arður, vextir og tekjur sem hafa fengist síðar af þeim eignum. Eðlilegt er að tekið sé tillit til afnota konunnar af eigninni og þess verðmætis sem í þeim felst enda ljóst að húsaleigutekjur hefðu komið til skipta við fjárskipti hjónanna hefði eignin verið leigð á almennum markaði. Skiptastjóri telur eðlilegt að upphafstími leigugreiðslna sé 1. október 2003.”
Á skiptafundi 10. september lýstu aðilar afstöðu sinni til þessarar niðurstöðu skiptastjóra. Sóknaraðili féllst á niðurstöðu skiptastjórans, en varnaraðili hafnaði henni og var málinu því vísað til héraðsdóms.
Málsaðilar gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Málsútlistun og málsástæður sóknaraðila.
Aðalkröfu sína byggir sóknaraðili á því að hann hafi lagt fram kr. 7.219.184 vegna kaupa á íbúðinni að X. Af framlögðum bankareikningum og yfirlitum megi sjá að þessi fjárhæð hafi verið millifærð í tengslum við eignaskiptin þegar íbúðin við Y var seld og íbúð að X keypt. Hér telji hann einnig til gjöld vegna þinglýsingar og annars sem til hafi þurft vegna kaupanna.
Varakrafa varnaraðila er miðuð við að hann hafi greitt alla útborgunargreiðslu vegna kaupa á eigninni að X, Reykjavík og nemi sú fjárhæð kr. 6.816.784.
Þrautavarakröfu sína byggir sóknaraðili á því að hann hafi komið með eignir í búið en varnaraðili ekki og krefst hann þess að honum verði heimilað að taka verðmæti þeirra eigna að óskiptu.
Þá byggir sóknaraðili kröfu sína um húsaleigu á því að varnaraðili hafi nýtt sér íbúðina frá því að sambúðarslit urðu til 1. ágúst 2004 og krefst hann húsaleigu fyrir það tímabil, kr. 40.000. á mánuði. Segir hann þessari kröfu mjög í hóf stillt, einkum þar sem hann telji sig eiga meginhluta eignarinnar.
Frávik frá helmingaskiptareglu styður sóknaraðili með því að helmingaskipti séu bersýnilega ósanngjörn og að öll skilyrði 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaganna séu uppfyllt. Hjúskapurinn hafi staðið skamman tíma, rétt þrjú ár. Allar eignir búsins hafi komið frá honum, ef frá séu taldir verðlitlir innbúsmunir. Hann hafi greitt alla útborgunargreiðslu í fasteign aðila og staðið undir heimilisrekstrinum meginhluta hjúskapartímans. Því væri bersýnilega ósanngjarnt að víkja ekki frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga.
Sóknaraðili segir að fjárhagsleg samstaða þeirra hafi verið mjög takmörkuð. Stóran hluta tímans hafi hann aflað mun meiri tekna og greitt allan kostnað við heimilishald aðila. Þá kveðst hann einnig byggja á því að þegar varnaraðili hafi byrjað að vinna eftir barnsburðarleyfi hafi aðilar greitt jafnt til heimilishaldsins og eftir það hafi hvorugt þeirra verið fjárhagslega háð hinu.
Aðilar hafi ekki fjárfest í öðru en íbúðinni, sem hann hafi sjálfur greitt. Þau eigi hvort sína bifreið og sé verðgildi þeirra áþekkt.
Sóknaraðili kveðst hafa viljað gera kaupmála áður en þau gengu í hjúskap, en varnaraðili hafi þá hótað honum því að ekki yrði neitt úr hjúskapnum og hún mundi fara með barn þeirra og gera samskipti hans við barnið erfið. Hann hafi því fallist á að ganga í hjúskap án þess að kaupmáli væri gerður. Hann hafi orðað gerð kaupmála aftur er íbúðin við Y var seld, en allt hafi farið á sama veg. Sóknaraðili kveðst telja að varnaraðili hafi stofnað til hjúskaparins fyrst og fremst til að komast yfir eignir sínar.
Það sé óeðlilegt og ósanngjarnt að varnaraðili hagnist á helmingaskiptum eftir svo skamman hjúskap. Slíkt fari í bága við vilja löggjafans og sjónarmið þau sem búi að baki 103. gr. hjúskaparlaganna.
Varðandi kröfu um leigugreiðslur segir sóknaraðili að þeirri kröfu sé í hóf stillt. Vill hann miða við að heildarleiga fyrir íbúðina nemi kr. 80.000 og krefur um helming þeirrar fjárhæðar.
Loks vísar sóknaraðili til sjónarmiða sem fram komu í niðurstöðu skiptastjóra og áður eru rakin.
Málsútlistun og málsástæður varnaraðila.
Varnaraðili byggir fyrstu aðalkröfu sína, um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að vikið verði frá helmingaskiptareglu, á því að forsendur skáskipta samkvæmt 104. gr. hjúskaparlaga, séu ekki fyrir hendi. Ákvæði 104. gr. hjúskaparlaga feli í sér undantekningu frá meginreglu hjúskaparlaga, helmingaskiptum. Helmingaskiptareglan taki bæði til eignamyndunar eftir að hjúskapur er stofnaður og einnig til hlutdeildar í eignum sem hjón fluttu með sér í búið.
Varnaraðili mótmælir því að fjárskipti skv. meginreglu hjúskaparlaga um eignir aðila yrðu bersýnilega ósanngjörn. Sóknaraðili hafi lagt 2 milljónir króna til kaupa á íbúðinni við Y, en hún verið keypt fyrir lánsfé að öðru leyti.
Varnaraðili segir að strax við upphaf óvígðrar sambúðar hafi myndast fjárhagsleg samstaða með aðilum. Varnaraðili hafi greitt sóknaraðila mánaðarlega með ávísun fjárhæð sem hann notaði til að borga af íbúð og til að standa straum af sameiginlegum útgjöldum vegna reksturs húsnæðis og annars sameiginlegs. Þessar greiðslur varnaraðila hafi hafist strax í desembermánuði 1998. Allar aðrar tekjur varnaraðila frá því að sambúð hófst hafi runnið til heimilisins, til matarinnkaupa o.fl.
Varnaraðili segir að það dugi ekki til að skáskiptum verði beitt að sóknaraðili hafi átt meiri eignir við upphaf sambúðar. Við aðalmeðferð mótmælti hún því að sóknaraðili hefði haft meiri tekjur en hún þann tíma er hún vann úti. Beri enn fremur til þess að líta að það tímabil sem varnaraðili var heimavinnandi hafi hún helgað allan sinn tíma sameiginlegu heimili aðila og barni. Hafi verið samkomulag með aðilum um viðhalda slíkri verkaskiptingu. Við mat á því hvort skilyrðum 104. gr. hjúskaparlaga sé fullnægt beri að meta heildstætt þá þætti sem til skoðunar koma í samanburði aðila.
Það hafi verið skilningur beggja að þau væru að fjárfesta í íbúðinni í sameiningu. Þau hafi bæði farið í greiðslumat vegna lántöku hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna. Þau hafi bæði verið þinglýstir eigendur. Með tilliti til alls framangreinds telji varnaraðili að ekki sé fram komin sönnun þess að skilyrði 104. gr. hjúskaparlaga séu uppfyllt, en um það beri sóknaraðili sönnunarbyrðina.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu að hún hafi stofnað til hjúskapar með sóknaraðila til þess að komast yfir eignir hans. Hér vegi sóknaraðili ómaklega að henni. Allan þann tíma sem þau bjuggu saman, fyrst í óvígðri sambúð og síðan í hjúskap, hafi allar tekjur hennar farið til sameiginlegra þarfa.
Kröfu um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að varnaraðili greiði honum leigu byggir varnaraðili á því að hún ásamt sameiginlegu barni aðila hafi búið í húseigninni. Hún hafi til jafns við sóknaraðila borgað af öllum sameiginlegum skuldum þann tíma sem hún bjó ein með barninu í íbúðinni. Þá hafi hún ein greitt allan rekstrarkostnað. Sóknaraðili hafi ekki stofnað til fasteignakostnaðar á tímabilinu þar sem hann bjó endurgjaldslaust í húsnæði hjá foreldrum sínum. Engin ástæða sé því til þess að gera varnaraðila að greiða sóknaraðila húsaleigu. Þá vill varnaraðili benda á að sóknaraðili hafi ekki sinnt framfærsluskyldu sinni gagnvart varnaraðila og barni þeirra frá því að sambúð var slitið í júní 2003.
Fyrri varakröfu sína kveðst varnaraðili byggja á því að meginhluta eignamyndunar í íbúðinni við Y megi rekja til mikilla verðhækkana á íbúðarhúsnæði. Sóknaraðili hafi lagt 2 milljónir króna til kaupa á íbúðinni og verði talið að skilyrðum 104. gr. hjúskaparlaga sé fullnægt sé ekki hægt að líta til annars en þessarar fjárhæðar. Verðhækkana á húsnæði eigi þau bæði að njóta.
Síðari varakrafa varðar lækkun leigufjárhæðar þeirrar sem sóknaraðili krefst. Bendir hún hér á sömu atriði og rakin eru að framan til stuðnings aðalkröfu um þennan þátt.
Forsendur og niðurstaða.
Eins og rakið er í áðurgreindum forsendum skiptastjóra er svonefnd helmingaskiptaregla, sem fram kemur í 103. gr. laga nr. 31/1993, meginregla um fjárskipti milli hjóna. Heimild er til að víkja frá henni í 104. gr. laganna. Aðalskilyrði þess að undantekning verði gerð er það að hún sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir að skipti verði „bersýnilega ósanngjörn”. Síðan eru tilgreind fáein atriði sem skipta máli við mat á sanngirni skipta.
Þegar þau atriði eru borin saman við atvik þessa máls verður fyrst fyrir að sóknaraðili átti íbúð áður en aðilar hófu sambúð, en að varnaraðili átti nær engar eignir. Skuldir voru nokkrar vegna íbúðarinnar. Gögn málsins upplýsa að sóknaraðili hafði keypt íbúðina í mars 1995 og að kaupverð hennar var kr. 5.600.000. Hann greiddi kr. 1.960.000 á einu ári, en gaf út veðskuldabréf að höfuðstól kr. 3.640.000. Íbúðin er þriggja herbergja.
Íbúðina seldi sóknaraðili 22. október 2002. Söluverð var kr. 11.300.000. Þar af voru yfirteknar skuldir kr. 3.865.219. Nokkrum dögum síðar, 1. nóvember, keyptu málsaðilar íbúðina við X og var kaupverð hennar kr. 14.900.000. Athygli vekur að þau eru bæði tilgreind kaupendur og sagt að eignarhlutur sé jafn.
Af þessu má sjá að sóknaraðili átti nokkra fjármuni er aðilar hófu sambúð. Hér verður að miða við upphaf sambúðartíma aðila, en ósannað er að viðhöfð hafi verið skýr aðgreining í fjárhag þeirra eftir að sambúð hófst. Skiptir hér ekki máli hvaða reikninga hins sameiginlega heimilishalds hvort um sig greiddi.
Ekki kemur fram að aðilar hafi þegið arf eða umtalsverðar gjafir. Þá má telja að tekjuöflun aðila sé sambærileg, en vinnu varnaraðila á heimili um rúmlega árs skeið verður hér að leggja að jöfnu við launavinnu sóknaraðila. Hjúskapur stóð í þrjú ár í beinu framhaldi af óvígðri sambúð, sem stóð í tvö ár. Málsaðilar eiga saman eitt barn.
Samkvæmt þessu mæla öll atriði utan íbúðareign sóknaraðila gegn því að vikið verði frá helmingaskiptareglunni. Þá verður ekki hjá því komist að lesa nokkra merkingu í þá ákvörðun aðila að kalla sig sameigendur að íbúðinni í X. Að öllu virtu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 104. gr. laga nr. 31/1991 til að víkja frá helmingaskiptum.
Varnaraðili dvaldi í íbúð aðila í rúmlega eitt ár eftir að sambúð var slitið. Ósannað er að hún hafi fallið frá réttmætum kröfum um barnalífeyri eða aðrar greiðslur. Verður ekki hjá því komist að gera henni að greiða nokkurt endurgjald fyrir afnot íbúðarinnar. Skiptastjóri taldi hæfilegt að miða upphaf leigugreiðslna við 1. október 2003, en varnaraðili flutti úr íbúðinni 1. ágúst 2004. Má fallast á þessa viðmiðun skiptastjóra. Þó ósannað sé hvað telja megi hæfilega leigu er að álitum rétt að heildargreiðsla fyrir þetta tíu mánaða tímabil skuli nema 350.000 krónum. Rétt er að dráttarvextir reiknist á þessa fjárhæð degi eftir að úrskurður þessi er kveðinn upp.
Þar sem varnaraðili hefur unnið málið í þeim þætti sem telja má mun stærri er rétt að sóknaraðili greiði hluta af málskostnaði hennar. Er rétt að hann greiði henni þannig 125.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Við skipti milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skal beitt reglu 103. gr. laga nr. 31/1993 og er hafnað kröfum sóknaraðila um frávik frá þeirri reglu.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur með dráttarvöxtum frá 12. janúar 2005 til greiðsludags.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 125.000 krónur upp í málskostnað.