Hæstiréttur íslands
Mál nr. 640/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013. |
|
Nr. 640/2013:
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 29. október 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærða X, kt. [...], verði gert að sæta farbanni, allt til þriðjudagsins 29. október 2013, nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi í gærkvöldi um kl. 22.00, handtekið kærða eftir eftirför lögreglu. Í gærkvöldi kl. 21.05 hafi verið tilkynnt um árekstur á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Selásbrautar í Reykjavík. Þar hafi kærði ekið bifreiðinni [...], sem hann hafði tekið heimildarlaust, yfir á rauðu ljósi undir áhrifum áfengis og eða ávana- og fíkniefna inn í hlið bifreiðarinnar [...], með þeim afleiðingum að bifreiðarnar staðnæmdust laskaðar. En kærði hafi svo tekið bifreiðina [...] heimildarlaust, en hann hafi dregið bílstjórann út úr bifreiðinni og ekið þeirri bifreið síðan um götur Reykjavíkur og Kópavogs án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og langt yfir leyfilegum hámarkshraða og þannig raskað umferðaröryggi og stofnað lífi og heilsu vegfarenda á akstursleiðinni á ófyrirleitinn hátt í augljósa hættu. Kærði hafi ekið bifreiðinni [...] Breiðholtsbraut til vesturs í átt að Kópavogi, vestur Hlíðarhjalla, norður Bröttubrekku, austur Álfhólsveg, þá hafi dekkið á bifreiðinni verið sprungið. Við Álfhólsskóla hafi bifreiðinni verið ekið til vesturs og lögreglubifreiðar hafi komið sér þannig fyrir til að stöðva bifreiðina, en kærði hafi ekið hratt að bifreiðunum við gatnamót Skálaheiðar, þar sem lögreglubifreiðunum hafi verið bakkað frá til að hindra ákomu. Við Túnbrekku í Kópavogi hafi hann farið yfir á öfugan vegarhelming, og ekið á allt að 100 km hraða á klst, þar sem leyfður hraði sé 30 og 50 km á klst. Kærði hafi svo ekið bifreiðinni inn á Kringlumýrarabraut til norðurs á akreinum sem ætlaðar eru fyrir umferð til suðurs, en talsverð umferð hafi verið á móti bifreiðinni og mikil hætta hafi skapast á þeim vegarkafla. Eftir það hafi fjórar lögreglubifreiðar haldið á eftir kærða, þar sem lögreglubifreið hafi verið ekið aftan á bifreið kærða. Kærði hafi svo komið út úr bifreiðinni og í hendinni verið með vínflösku, sem hann hafi kastað í læri lögreglumanns.
Kærði sé einnig undir sterkum grun um eftirgreind brot sem séu til meðferðar fyrir dómi og hjá ríkissaksóknara:
Mál lögreglu nr. 007-2012-2704. Kærði sé undir sterkum grun um kynferðisafbrot, sbr. ákæru ríkissaksóknara frá 4. janúar sl, sem hafi fengið málsnúmerið s-4/2013, við héraðsdóm Reykjavíkur, en þar sé kærði ákærður fyrir nauðgun, sbr. 194. gr. alm. hgl.
Mál lögreglu nr. 007-2012-38711. Lögreglustjóri hafi gefið út ákæru 4. júní sl. á hendur kærða fyrir fíknefnalagabrot, vegna ræktunar á 70 kannabisplöntum. Teljist þetta varða við 2. og 4., sbr. 5. 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974. Ákæran hafi verið endursend lögreglustjóra, þar sem upplýst hafi verið að kærði væri farinn úr landi.
Mál lögreglu nr. 007-2012-48088. Þar sé kærði grunaður um kynferðisafbrot og hafi það mál verið sent ríkissaksóknara til meðferðar og bíði þar afgreiðslu. Ætlað brot sé talið varða við 194. gr. alm. hegningarlaga.
Samkvæmt gögnum lögreglu hafi kærði farið úr landi þegar taka átti fyrir ákæru ríkissaksóknara frá 4. jan. sl. (lögreglu nr. 007-2012-2704) hjá héraðsdómi og hafi málið verið endursent ríkissaksóknara. Kærði sé samkvæmt upplýsingum lögreglu nýkominn til landsins eða þann 17. september sl. og því sé hætta á að hann kunni að koma sér úr landi og þannig undan málsmeðferð fyrir dómi.
Til að tryggja nærveru ákærða/kærða á meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum og lögreglu, og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna, sé þess krafist, að ákærði verði úrskurðaður í farbann með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti er farið fram á að kærða verði gert að sæta farbanni til þriðjudagsins 29. október nk. kl. 16.00.
Lögregla hefur nú til rannsóknar mál á hendur kærða auk þess sem gefnar hafa verið út tvær ákærur á hendur honum sem ekki hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum vegna fjarvista hans frá landinu. Kærði upplýsti fyrir dóminum að hann ætti fjölskyldu bæði í [...] og á Íslandi og kveðst jafnvel fara til [...] verði farbanninu hafnað. Því verði að telja líkur á að hann fari af landi brott áður en framangreindum málum verði ráðið til lykta. Fallist er á það með lögreglu að kominn sé fram rökstuddur grunur um brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Þegar litið er til þess að ákærði fór af landi brott áður en unnt var að leiða til lykta sakamál á hendur honum vegna brota sem honum var fullkunnugt um að voru til meðferðar þykir skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100 gr., laga nr. 88/2008 uppfyllt. Vegna þessa verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina og kærða gert að sæta farbanni eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, kt. [...], sæti farbanni, allt til þriðjudagsins 29. október 2013, nk. kl. 16:00.