Hæstiréttur íslands
Mál nr. 37/1999
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Aðild
- Sjóveð
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 1999. |
|
Nr. 37/1999. |
Guðsteinn Júlíus Ágústsson (Andri Árnason hrl.) gegn Hannesi Sigurðssyni (Baldur Guðlaugsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Aðild. Sjóveð.
G gerði ráðningarsamning við félagið I og var í framhaldinu lögskráður á skip, sem félagið K hafði framleigt til I. G krafði H, eiganda skipsins, um greiðslu ógreiddra launa vegna starfa sinna á skipinu. Byggði hann kröfuna á því að sjóveðréttur væri í skipinu fyrir launakröfu hans samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og mál til fullnustu kröfu, sem tryggð væri með sjóveðrétti í skipi, mætti hvort heldur höfða gegn eiganda þess eða skipstjóra, sbr. 1. mgr. 212. gr. siglingalaga. Ekki var talið að 1. mgr. 212. gr. siglingalaga yrði skýrð svo að hún leiddi sjálfkrafa til þess að eigandi skips bæri persónulega ábyrgð á greiðslu kröfu sem sjóveðréttur væri fyrir í skipi. H hefði ekki tekið slíka ábyrgð sérstaklega að sér og var G ekki talinn geta beint kröfu sinni um greiðslu skuldar að H. Var H sýknaður af kröfu G um greiðslu launa. G hafði hvorki áður beint lögsókn um launakröfuna gegn I né gerði hann kröfu á hendur félaginu í málinu. Því var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi að því er varðaði kröfu G um staðfestingu sjóveðréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 1999. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 558.438 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1997 til greiðsludags, svo og að viðurkenndur verði sjóveðréttur til tryggingar kröfunni í Mars HF 53, áður Hjörleifi ÁR 204, skipaskrárnúmer 1441. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins leigði stefndi félaginu Kaldari ehf. fiskiskip sitt, Hjörleif, til 39 mánaða með samningi 20. febrúar 1997. Það félag mun hafa framleigt skipið til félags með heitinu Ice-Gam Ltd. Virðist þetta hafa verið gert án samráðs við stefnda, þótt tekið væri fram í samningnum að það væri óheimilt án samþykkis leigusala. Stefndi rifti leigusamningnum með ódagsettri yfirlýsingu frá 1. júlí 1997 að telja. Sagði þar að rift væri vegna vanefnda á greiðslum samkvæmt samningnum.
Áfrýjandi gerði samning við Ice-Gam Ltd. 24. febrúar 1997, þar sem hann var ráðinn til tveggja ára frá 4. sama mánaðar til að gegna starfi 2. stýrimanns „um borð í skipum okkar hjá Ice-Gam Ltd., sem starfar í Gambíu“, eins og þar sagði. Átti áfrýjandi að fá í mánaðarlaun 134.550 krónur ásamt svokölluðum veiðibónus og greiðslu fyrir yfirvinnu. Þá bar Ice-Gam Ltd. að greiða í lífeyrissjóð fjárhæð, sem svaraði til 7% af grunnlaunum áfrýjanda að viðbættum veiðibónus á móti 4% framlagi hans. Einnig var mælt fyrir um að áfrýjandi skyldi eiga rétt á launum í orlofi í tvo daga fyrir hvern mánuð, sem hann væri við störf. Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi lögskráður sem 2. stýrimaður á Hjörleifi 22. febrúar 1997 og mun þetta hafa verið gert að tilhlutan skipstjóra.
Fyrir liggur að Hjörleifi var siglt frá Íslandi 26. febrúar 1997 og kom til Gambíu 13. mars sama árs. Þaðan mun skipinu hafa verið haldið til veiða til 19. maí 1997, en síðari hluta þess mánaðar mun lánardrottinn Ice-Gam Ltd. í Dakar í Senegal hafa fengið það kyrrsett. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandi hafa farið frá Gambíu í júní 1997 og sjálfur borið kostnað af ferð sinni heim. Á ráðningartímanum hafi hann fjórum eða fimm sinnum fengið greiðslur að fjárhæð 14.000 krónur upp í laun og eitt skipti 5.000 eða 6.000 krónur, en ekkert eftir það. Þá staðfesti hann að honum hafi verið séð fyrir fæði á ráðningartímanum um borð í skipinu án sérstaks endurgjalds.
Fyrir héraðsdómi kvaðst stefndi hafa haft spurnir af því í mars 1997 að skipið hafi verið skráð í Gambíu og hafi hann þá sjálfur látið afskrá áhöfn þess hér á landi 20. þess mánaðar. Honum hafi verið tilkynnt 22. júní 1997 um kyrrsetningu skipsins. Hann hafi þá rift leigusamningi um það og haldið utan til að fá það leyst undan kyrrsetningu, sem hafi tekist. Hann kvaðst engin afskipti hafa haft af útgerð skipsins, enda hefði leigutakinn og framleigutaki verið sér óviðkomandi.
Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu á föstum mánaðarlaunum samkvæmt ráðningarsamningi, 134.550 krónum, fyrir tímabilið frá 1. febrúar til 31. maí 1997, alls 538.200 krónur, auk umsamins 7% framlags í lífeyrissjóð, 37.672 krónur, og 10,17% af þeim fjárhæðum samanlögðum í orlofsfé, eða 58.566 krónur. Alls eru þetta 634.438 krónur, en frá þeirri fjárhæð dregur áfrýjandi fyrrnefndar innborganir, samtals 76.000 krónur, og er mismunurinn, 558.438 krónur, fjárhæð dómkröfu hans í málinu.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lagði áfrýjandi fram gögn um að heiti Hjörleifs ÁR 204 hafi verið breytt í Mars HF 53, en skipið sé sem fyrr í eigu stefnda.
II.
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að sjóveðréttur sé í skipi stefnda fyrir launakröfu hans samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Mál til fullnustu kröfu, sem tryggð sé með sjóveðrétti í skipi, megi hvort heldur höfða gegn eiganda þess eða skipstjóra, sbr. 1. mgr. 212. gr. sömu laga. Telur áfrýjandi sér þannig heimilt að beina máli um launakröfu sína að stefnda, sem beri jafnframt sem eigandi skipsins persónulega ábyrgð á greiðslu hennar vegna síðastnefnds lagaákvæðis.
Í 250. gr. siglingalaga nr. 56/1914 var mælt svo fyrir að kröfueigandi væri sjálfráður að höfða mál hvort sem hann vildi á hönd útgerðarmanni eða skipstjóra til fullnægingar sjókröfu, sem veð væri fyrir í skipi eða farmgjaldi. Þetta ákvæði var leyst af hólmi með 231. gr. siglingalaga nr. 66/1963, sem var efnislega samhljóða því, en orðalagi þó hagað þannig að umrædd leið yrði farin til málsóknar til fullnægingar kröfu, sem sjóveð væri fyrir í skipi eða farmgjaldi. Með dómi Hæstaréttar, sem er birtur í dómasafni 1966, bls. 985, var því slegið föstu að með útgerðarmanni væri í ákvæðinu átt við eiganda skips. Að því gættu er núgildandi regla í 1. mgr. 212. gr. laga nr. 34/1985 um að mál megi höfða hvort heldur gegn eiganda skips eða skipstjóra á sama veg og ákvæði eldri siglingalaga. Hvergi verður séð að vikið hafi verið sérstaklega í lögskýringargögnum að þessu atriði núgildandi reglu eða eldri ákvæða, sem reynir á í málinu.
Að meginreglu fylgir veðrétti ekki persónuleg ábyrgð eiganda veðs á greiðslu veðkröfu, nema hann hafi sérstaklega gengist undir þá skuldbindingu eða lög mæli fyrir um hana. Sé slík ábyrgð ekki fyrir hendi verður ekki án skýrrar lagaheimildar gengið að veði, nema fyrir liggi heimild til fullnustugerðar eftir almennum reglum, eftir atvikum með því að aflað hafi verið á hendur þeim, sem skuld hvílir á, dómsúrlausnar um kröfu, sem leitað verður síðan fullnustu á með fjárnámi í veðinu.
Í 1. mgr. 212. gr. laga nr. 34/1985 er ekki mælt berum orðum fyrir um persónulega ábyrgð eiganda skips á kröfu, sem sjóveðréttur er fyrir. Þeirri málsókn, sem sérregla ákvæðisins tekur til, er þar lýst sem máli „til fullnustu kröfu“, sem er tryggð með sjóveðrétti. Tilvitnuð orð gefa fremur til kynna að ákvæðið taki til máls, sem er höfðað sérstaklega til að tryggja heimild til að ganga með fullnustugerð að skipi í skjóli sjóveðréttar, svo sem máls til staðfestingar á veðrétti, en að það eigi að taka til máls, sem er höfðað með almennum hætti til að afla dóms um skyldu manns eða persónu að lögum til að greiða kröfu. Áðurgreind forsaga ákvæðisins bendir jafnframt eindregið til að því sé aðeins ætlað að ná til málsóknar um heimild til að ganga að skipi til fullnustu sjóveðkröfu. Er þá haft í huga að annað fengi vart staðist en að ótvírætt hefði komið fram í lögskýringargögnum ef ætlun löggjafans hefði verið sú að breyting á reglu um málsaðild, sem eftir hljóðan eldra ákvæðis var útgerðarmanns og færðist með því yngra til eiganda skips, hafi ein út af fyrir sig átt að færa á milli manna persónulega ábyrgð á greiðslu kröfu. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með áfrýjanda að ákvæði 1. mgr. 212. gr. laga nr. 34/1985 verði skýrt svo að það leiði sjálfkrafa til þess að eigandi skips beri persónulega ábyrgð á greiðslu kröfu, sem sjóveðréttur er fyrir í skipinu. Stefndi hefur ekki tekið slíka ábyrgð sérstaklega að sér, svo sem eigandi skips taldist hins vegar hafa gert í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í dómasafni 1966, bls. 985. Getur áfrýjandi því ekki beint kröfu sinni um greiðslu skuldar að stefnda, sem verður þannig sýknaður af kröfunni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Áfrýjandi hefur hvorki áður beint lögsókn að Ice-Gam Ltd. um launakröfu sína né gerir hann kröfu á hendur félaginu í þessu máli. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi að því er varðar kröfu áfrýjanda um staðfestingu sjóveðréttar.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður óraskað. Í ljósi niðurstöðu málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Guðsteins Júlíusar Ágústssonar, um staðfestingu sjóveðréttar er vísað frá héraðsdómi.
Að öðru leyti er stefndi, Hannes Sigurðsson, sýkn af kröfum áfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 1998.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. október sl., er höfðað af Guðsteini Júlíusi Ágústssyni, kt. 311272-3599, Sætúni 6, Suðureyri, með stefnu þingfestri 2. desember 1997 á hendur Hannesi Sigurðssyni, kt. 060550-4179, Hrauni, Ölfusi, persónulega og f.h. skrásetts einkafirma hans, Fiskiðjunnar Vers, Óseyrarbraut 20, Þorlákshöfn. Undir rekstri málsins var fallið frá kröfum á hendur Fiskiðjunni Veri.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 633.460, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 158.365 frá 01.03.1997 til 01.04. sama ár, en af kr. 316.730 frá þeim degi til 01.05. sama ár, en af kr. 475.095 frá þeim degi til 01.06. sama ár, en af kr. 633.460 frá þeim degi til greiðsludags. Frá kröfunni dragist kr. 70.000, sem greiddar voru inn á kröfuna. Enn fremur er þess krafizt, að stefnda verði gert að þola sjóveðrétt til tryggingar kröfunni í skipinu Hjörleifi ÁR 204, skipaskrárnr. 1441. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu, en til vara, að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður milli aðila verði felldur niður.
II.
Málavextir
Málavextir eru þeir, að stefnandi réð sig samkvæmt ráðningarsamningi við fyrirtæki að nafni Ice-Gam, dags. 24. febrúar 1997, til starfa sem stýrimaður um borð í skip félagsins, sem starfaði í Gambíu. Var samningurinn gerður til tveggja ára og skyldi gilda frá 4. febrúar 1997. Eru skip félagsins tilgreind í samningnum sem „frystibátarnir Guðrún Hlíf og Saga Hlíf”.
Með kaupleigusamningi, dags. 20. febrúar 1997, leigði stefndi skip sitt, Hjörleif, skipaskrárnúmer 1441, til fyrirtækisins, Kaldari ehf., kt. 620196-2159, og tók leigusamningurinn gildi þann dag.
Þann 26. febrúar 1997 var stefnandi lögskráður á skipið, sem lét úr höfn til Gambíu þann dag. Því er haldið fram í málinu, að fyrirtækið, Kaldari, hafi framleigt skipið til fyrirtækisins Ice-Gam Ltd., en sá samningur liggur ekki fyrir í málinu. Þann 20. marz 1997 afskráði stefndi alla skipverja af skipinu og kveður ástæðu þess vera þá, að hann hafi þá verið búinn að fá upplýsingar um, að skipið hefði verið framleigt til hins gambíska félags, sem hafi verið óheimilt samkvæmt kaupleigusamningnum við Kaldari ehf. Stefndi tilkynnti áhöfninni ekki um afskráninguna.
Skip stefnanda, Hjörleifur ÁR 204, var kyrrsett í Gambíu einhvern tímann eftir miðjan maí 1997. Stefnandi kveður skipið hafa verið kyrrsett í lok maí og hafi hann verið á skipinu fram að því en haldið síðan heim flugleiðis til Íslands. Hann kveðst ekki hafa fengið greidd umsamin laun samkvæmt ráðningarsamningi sínum við Ice-Gam Ltd., að frátöldum fimm greiðslum, ca. kr. 14.000 í hvert skipti auk ca. kr. 4 - 5.000 eingreiðslu.
Stefnandi krefur stefnda um greiðslu ógreiddra launa, auk þess sem honum verði gert að þola sjóveð vegna skuldarinnar í skipinu, Hjörleifi ÁR-204.
Stefnandi kveður fyrirtækið Ice-Gam Ltd. ekki finnast skráð hér á landi og hafi ekki reynzt unnt að afla upplýsinga um fyrirsvarsmenn þess.
Stefndi hafnar greiðsluskyldu.
Ekki er ágreiningur um útreikning launakröfunnar.
III.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að samkvæmt 1. tl. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 séu launakröfur tryggðar með sjóveðrétti í skipi. Þrátt fyrir að ekki verði séð, að stefndi hafi verið í fyrirsvari fyrir Ice-Gam Ltd., sem gerði ráðningarsamning við stefnanda, verði launakröfunni haldið uppi gagnvart honum, sbr. ákvæði 212. gr. siglingalaga, þar sem segi, að höfða megi mál til fullnustu kröfu, sem tryggð sé með sjóveðrétti í skipi, hvort heldur sem sé á hendur eiganda skips eða skipstjóra. Ljóst sé, að sjóveðréttinum fylgi nokkurs konar hlutlæg ábyrgð eiganda skips á launakröfum skipverja. Stefndi sé því sem eigandi skipsins ábyrgur fyrir launakröfunni, enda verði honum einum gert að þola sjóveð í skipinu til tryggingar kröfunni. Í þessu sambandi vísi stefnandi til Hrd. 1966:985 sem og 1986:1252 að breyttu breytanda. Þá sé einnig ljóst, að stefndi hafi að einhverju leyti komið nálægt útgerð skipsins, t.d. með því að sjá um lögskráningu skipverja.
Af hálfu stefnanda sé því alfarið hafnað, að lögskráning hans úr skipsrúmi hafi nokkur réttaráhrif í máli þessu. Stefndi hafi ákveðið upp á sitt eindæmi að afskrá áhöfnina, þrátt fyrir skýlaust ákvæði 13. gr. l. nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna, þar sem þess sé krafizt, að skipsverji sé viðstaddur afskráningu eða látinn vita um hana tafarlaust, og hafi stefnandi verið í góðri trú um, að hann væri lögskráður á skipið. Engu breyti í þessu sambandi, þótt skipinu hafi verið haldið til veiða utan íslenzku efnahagslögsögunnar, enda beri allt að einu að lögskrá skipverja í slíkum tilfellum, sbr. 4. gr. l. nr. 43/1987.
Launakrafa stefnanda sundurliðast svo:
|
1. Laun frá 01.02.-01.06.1997, skv. ráðningarsamningi sbr. dskj. nr. 3 |
kr. 538.200 |
|
2. Mótframlag í lífeyrissjóð, 6% |
kr. 32.292 |
|
3.Orlof, 10,17% |
kr. 62.968 |
|
Samtals |
kr. 633.460 |
Krafa stefnanda um viðurkenningu á sjóveðrétti í skipinu, Hjörleifi ÁR 204, sé byggð á 1. tl. 197. gr. l. nr. 34/1985 og langri og athugasemdalausri dómvenju þar að lútandi.
Stefnandi vísar til meginreglna vinnuréttar og samninga- og kröfuréttar.
Launakrafa á hendur stefnda er studd við 212. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Krafa um sjóveð er studd við 1. tl. 197. gr. s.l. Krafa um mótframlag í lífeyrissjóð er studd við 2. gr. l. nr. 55/1980 og krafa um orlof við 1. gr. l. nr. 30/1987. Dráttarvaxtakrafa er studd við III. kafla l. nr. 25/1987 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað við l. nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður stefnda:
Stefndi kveðst vera eigandi togarans, Hjörleifs ÁR-104, og hafa leigt hann kaupleigu þann 20. febrúar 1997 til Kaldari ehf., kt. 620196-2159, Ólafsfirði.
Togarinn hafi haldið frá Reykjavíkurhöfn þann 26. febrúar 1997 áleiðis til Gambíu, Afríku, þar sem leigutaki hugðist reyna fyrir sér við veiðar. Stefnda sé ekki kunnugt um, hvenær togarinn kom til Gambíu, en telji líklegt, að það hafi tekið um 15-20 daga að sigla þangað, og hafi togarinn ekki verið kominn þangað fyrr en um miðjan marz 1997. Um 20. marz hafi stefndi frétt, að Kaldari ehf. hafi látið togarann í hendur á gambisku félagi, Ice-Gam Ltd., og að heiti hans hafi verið breytt í Ice-Gam 1. Að því er stefndi bezt viti, standi að hluta til sömu aðilar að baki félaginu, Ice-Gam Ltd., og Kaldari ehf. Stefndi hafi strax mótmælt þessari ráðstöfun og tilkynnt fyrirsvarsmönnum Kaldari ehf., að hann hafnaði því alfarið, að togarinn væri gerður út af gambísku félagi og að nafni hans væri breytt, enda hafi hann talið hagsmunum sínum stefnt í aukna hættu af þessum sökum. Í framhaldi af þessum upplýsingum hafi hann afskráð alla skipverja á Hjörleifi ÁR, enda hafi hann talið forsendur fyrir lögskráningu þeirra vera brostnar. Auk þess hafi stefndi farið að vinna að því að fá kaupleigusamningnum rift og togaranum skilað.
Þann 22. júní 1997 hafi stefndi fengið tilkynningu frá Gambíu um að togarinn hefði verið kyrrsettur vegna skulda fimm vikum áður, eða um miðjan maí. Stefndi hafi að svo búnu haldið til Gambíu til þess að reyna að ná aftur togaranum og hafi tekizt að forða honum frá nauðungarsölu. Í för sinni hafi stefndi hitt fyrirsvarsmenn Kaldari ehf. og tilkynnt þeim um riftun á kaupleigusamningi félagsins þann 1. júlí 1997.
Hafi stefndi frá þessum tíma unnið að því að selja togarann án árangurs.
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að ósannað sé, að stefnandi hafi verið ráðinn til starfa um borð í Hjörleifi ÁR. Stefnandi hafi lagt fram ráðningarsamning við Ice-Gam Ltd., dags. 4. febrúar 1997. Umrætt félag hafi hins vegar aldrei haft neinar heimildir yfir togaranum eða verið lögmætur útgerðaraðili hans. Stefndi hafi leigt togarann kaupleigu þann 20. febrúar 1997 til Kaldari ehf., og hafi í þeim samningi sérstaklega verið tekið fram, að framleiga hans og/eða framsal leiguréttinda væri með öllu óheimilt, án fyrir fram skriflegs samþykkis stefnda. Stefndi hafi ekki samþykkt framleigu eða heimildir Ice-Gam Ltd. yfir togaranum, og því hafi það félag ekki verið lögmætur umráðaaðili eða útgerðaraðili togarans. Stefndi hafi rift kaupleigusamningi Kaldari ehf. þann 1. júlí 1997. Byggi stefndi á því, að það sé skilyrði þess, að sjóveð stofnist til tryggingar launakröfu, að launamaður hafi verið ráðinn til starfa um borð af til þess bærum aðila. Þetta grundvallarskilyrði til stofnunar sjóveðréttar í skipi stefnda sé ekki uppfyllt, og þurfi stefndi ekki að þola veðrétt til tryggingar launakröfum, sem stofnað sé til við aðra en lögmæta útgerðaraðila togarans.
Stefndi byggir á því, að hvort heldur sem stefnandi hafi unnið einhvern tíma um borð í Hjörleifi ÁR eða ekki, sé meint launaskuld Ice-Gam Ltd. við hann ekki tryggð með sjóveðrétti í togara stefnda, enda hafi Ice-Gam Ltd. ekki haft lögmætar heimildir yfir togaranum og ráðstafanir þess félags því ekki skuldbindandi gagnvart stefnda.
Stefndi telji ósannað, að stefnandi hafi unnið um borð í Hjörleifi ÁR á þeim tíma, sem um ræði, þ.e. frá 4. febrúar til 4. júlí 1997. Kaldari ehf. hafi ekki fengið skipið leigt fyrr en 20. febrúar 1997 og þá hafi skipið verið í Reykjavíkurhöfn. Það taki u.þ.b. 20 daga að sigla frá Reykjavík til Gambíu og eflaust nokkra daga enn að undirbúa skipið til veiða. Sé þannig ómögulegt, að skipinu hafi verið haldið til veiða í Gambíu fyrr en um eða upp úr miðjum marz 1997. Engin gögn liggi frammi um að stefnandi hafi farið að veiða með skipinu þá eða seinna.
Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn eða upplýsingar um það, hvenær Ice-Gam Ltd. eigi að hafa tekið við útgerð skipsins, eða hvenær stefnandi telji sig hafa unnið um borð í togaranum á grundvelli ráðningarsamnings við það félag.
Samkvæmt upplýsingum stefnanda hafi hann verið lögskráður á skipið þann 26. febrúar 1997 en afskráður af stefnda þann 20. marz 1997.
Krafa stefnanda um persónulega greiðsluskyldu stefnda eigi sér ekki stoð í lögum né verði hún leidd af ákvæðum 212. gr. siglingalaga nr. 34/1985 eða þeim dómum, sem stefnandi vísi til. Byggi stefndi á því, að efni og innihald ákvæða siglingalaga um sjóveðrétt séu vel þekkt og margdæmt, að sjóveðsþoli beri ekki persónulega greiðsluábyrgð gagnvart kröfueiganda.
Verði ekki á aðalkröfu stefnda fallizt krefst hann verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Í fyrsta lagi sé stefnandi samkvæmt ráðningarsamningi sínum við Ice-Gam Ltd. ekki ráðinn í ákveðið skipsrúm og alls ekki í skipsrúm á Hjörleifi ÁR. Sé samningur stefnanda við Ice-Gam Ltd. þannig, að hann sé ekki einungis ráðinn til að gegna störfum 2. stýrimanns hjá félaginu á því skipi, sem félagið kjósi hverju sinni, heldur einnig til að vinna í landi þau störf, sem félagið kjósi að fela honum hverju sinni.
Hugsanlegur sjóveðréttur í skipi stefnda nái eingöngu til vinnu stefnanda um borð í Hjörleifi ÁR, en ekki til vinnu hans í landi eða um borð í öðrum skipum Ice-Gam Ltd. Fjárhæð þeirrar kröfu, sem veðréttinum sé ætlað að tryggja, ráðist af því, hvað stefnandi hafi sannanlega unnið marga daga um borð í Hjörleifi ÁR.
Stefndi telji, að fjárhæð hugsanlegrar launakröfu stefnanda geti ekki tekið mið af samningi stefnanda og Ice-Gam Ltd., enda geti sá samningur ekki myndað lögmætar kröfur á hendur stefnda, heldur verði að miða við laun samkvæmt kjarasamningum Sjómannasambandsins við útgerðarmenn. Samkvæmt þeim samningum sé kauptrygging á mánuði fyrir 2. stýrimann á fiskiskipi kr. 90.933.
Kröfu stefnanda um sérstaka greiðslu vegna lífeyrisréttinda sé mótmælt, enda hafi lífeyrisgreiðslur samkvæmt samningi aðila átt að renna í sérstakan lífeyrissjóð, sem Ice-Gam Ltd. hafi haldið eða haldi fyrir starfsmenn. Með sama hætti sé kröfu stefnanda um greiðslu 10,17% orlofs mótmælt, enda engin slík ákvæði í samningi hans við Ice-Gam Ltd. Þá bendi stefnandi á, að tilvitnuð lagaákvæði varðandi rétt til lífeyrisgreiðslna og orlofsgreiðslna eigi ekki við um vinnusamninga við erlend fyrirtæki um vinnu erlendis. Réttur stefnanda til launa úr hendi Ice-Gam Ltd. ráðist af gambiskum lögum, enda sé Ice-Gam Ltd. gambískt félag.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti sé mótmælt og þess krafizt, að ekki verði viðurkenndur sjóveðréttur fyrir dráttarvöxtum fyrr en frá dómsuppsögu. Dráttarvaxtakrafa stefnanda gagnvart stefnda eigi sér enga stoð í III. kafla l. nr. 25/1987. Þá bendi stefndi á, að réttur stefnanda til vaxta úr hendi Ice-Gam Ltd. fari eftir gambískum lögum.
Um málskostnaðarkröfu stefnda vísar stefndi til XXI. kafla l. nr. 91/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Aðilar málsins gáfu skýrslu fyrir dómi og auk þeirra vitnið, Sigursteinn Pálsson vélstjóri.
Stefnandi var lögskráður á Hjörleif ÁR 204 26. febrúar 1997 og afskráður, svo sem fram er komið, 20. marz sama ár. Samkvæmt skipsdagbók skipsins var stefnandi við störf á skipinu frá 27. febrúar allt til 19. maí, þegar dagbókarfærslum lýkur. Þá staðfesti vitnið, Sigursteinn, að stefnandi hefði starfað um borð í skipinu á þessum tíma, en sjálfur kvaðst hann hafa starfað á skipinu frá miðjum febrúar til marzloka 1997.
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á samningi, sem hann gerði við gambíska fyrirtækið Ice-Gam Ltd.
Þegar stefnandi var lögskráður um borð í skip stefnda, hafði fyrirtækið Kaldari ehf. skipið á kaupleigu, og sést ekki af skjölum málsins, að fyrirtækið Ice-Gam hafi á einhvern hátt tengzt því fyrirtæki eða útgerð skipsins. Óljósar upplýsingar eru um það í málinu, að Kaldari ehf. hafi framleigt skipið á einhverjum tímapunkti til Ice-Gam ehf., en engin gögn hafa verið lögð fram um það. Í 20. gr. fylgiskjals með kaupleigusamningi stefnda og Kaldari ehf. er tekið fram, að óheimilt sé að framselja leigusamninginn eða framleigja skipið án fyrir fram fengins skriflegs samþykkis eigenda, og liggur ekki fyrir, að slíks samþykkis hafi verið aflað. Af hálfu stefnanda kom fram við yfirheyrslur, að fyrirsvarsmaður Kaldari ehf., Skúli nokkur Pálsson, hafi jafnframt verið í fyrirsvari fyrir Ice-Gam hér á landi. Ekki sýnist hafa verið gerð tilraun til að kveðja hann fyrir dóminn til skýrslugjafar.
Eins og mál þetta liggur fyrir, er ósannað, að nokkur lögtengsl hafi verið milli stefnda og fyrirtækisins Ice-Gam á þeim tíma, sem stefnandi réð sig á skipið. Verður ekki á það fallizt, að hann geti byggt launakröfur sínar á hendur stefnda á samningi, sem hann gerði við þriðja aðila, án þess að fyrir liggi, að sá aðili hafi haft lögmæt yfirráð yfir skipinu. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Hannes Sigurðsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Guðsteins Júlíusar Ágústssonar, í máli þessu.