Hæstiréttur íslands
Mál nr. 513/1998
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Bókhald
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 1999. |
|
Nr. 513/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Helga Marteini Gunnlaugssyni og (Björgvin Þorsteinsson hrl.) Stefáni Axel Stefánssyni (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) |
Virðisaukaskattur. Bókhald.
H og S, eigendur og fyrirsvarsmenn hlutafélagsins B, voru ákærðir fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, bókhaldslögum og lögum um ársreikninga. S, sem var hluthafi í B, átti ekki sæti í stjórn félagsins og hafði hvorki prókúruumboð né fór með framkvæmdastjórn B. Var ekki talið nægilega sannað að staða S hjá félaginu hefði verið slík að hann gæti borið refsiábyrgð vegna þeirra brota sem ákært var fyrir, hvorki sem aðalmaður né hlutdeildarmaður. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu S staðfest. Talið var sannað að H hefði gerst sekur um stórfelld brot gegn lögum um virðisaukaskatt og var um fjárhæðir byggt á útreikningum skattrannsóknarstjóra. Þá var H sakfelldur fyrir brot gegn lögum um bókhald, en ekki voru talin vera skilyrði til að sakfella hann fyrir brot gegn lögum um ársreikninga. Var H dæmdur til fangelsisrefsingar, sem var að hluta til skilorðsbundin, og til greiðslu sektar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 1998 af hálfu ákæruvalds og krefst þess að báðir ákærðu verði sakfelldir samkvæmt I. og III. kafla ákæru, refsing ákærða Helga Marteins Gunnlaugssonar þyngd og ákærða Stefáni Axel Stefánssyni gerð refsing.
Ákærði Helgi Marteinn Gunnlaugsson krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að því er hann varðar.
Ákærði Stefán Axel Stefánsson krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
I.
Krafa ákærða Stefáns um frávísun málsins frá Hæstarétti er reist á því að hann hafi með hinum áfrýjaða dómi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins á grundvelli mats héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar síns og annarra, sem gáfu skýrslur við meðferð málsins fyrir dómi. Samkvæmt c. lið 147. gr. og 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. og 19. gr. laga nr. 37/1994, verði það mat ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, enda hafi engar munnlegar skýrslur verið gefnar hér fyrir dómi.
Af þeim lagaákvæðum, sem að framan greinir, verður ályktað að Hæstiréttur geti metið hvort sönnun hafi tekist um sök ákærðs manns að því leyti, sem niðurstaða verður reist á mati á öðrum gögnum en munnlegum framburði eða ákvörðun um hvort sönnunarbyrði sé annars fullnægt. Af 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, svo sem greininni var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994, er og ljóst að Hæstiréttur getur lagt sjálfstætt mat á sönnunargildi munnlegs framburðar, þannig að til ómerkingar komi á héraðsdómi. Af þessum ástæðum er ekki hald í fyrrnefndum rökum fyrir því að vísa skuli málinu frá Hæstarétti.
II.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi stofnaði ákærði Helgi ásamt Ingvari Þórðarsyni og Laufeyju Hrönn Jónsdóttur hlutafélagið Blámenn hinn 6. nóvember 1993. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár var ákærði Helgi formaður stjórnar félagsins og prókúruhafi, Ingvar meðstjórnandi og Laufey varamaður í stjórn. Var þessi skipan óbreytt þar til Ingvar sagði sig úr stjórn félagsins með bréfi 31. janúar 1995, sem barst hlutafélagaskrá 28. febrúar sama árs. Mun enginn hafa tekið sæti hans í félagsstjórn. Samkvæmt frásögn ákærðu kom Ingvar í reynd aldrei að rekstri félagsins og seldi hann ákærða Stefáni hlut sinn í því, fjórðung hlutafjár, að virðist í janúar 1994. Félagið hafði með höndum rekstur veitingahúss með heitinu Berlín, sem var starfrækt að Austurstræti 22 í Reykjavík, frá því í nóvember 1993 til 15. janúar 1995. Munu ákærðu báðir hafa verið meðal starfsmanna félagsins meðan á þeirri starfsemi stóð, en ákærði Stefán þó frá þeim tíma, sem hann gerðist þar hluthafi.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á málefnum félagsins 3. mars 1995. Samkvæmt skýrslu um rannsóknina frá 8. júní sama árs kom fram við hana að skattstjóra hafi aldrei verið tilkynnt um að félagið hefði með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi og að hvorki hafi verið skilað virðisaukaskattskýrslum vegna starfseminnar né sá skattur greiddur innheimtumanni. Ekki hafi verið afhentar skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna eða tryggingargjalds og hafi félagið ekki verið á skrá um launagreiðendur. Skattframtölum hafi heldur ekki verið skilað. Engin bókhaldsgögn hafi komið í leitirnar eða gögn um tekjuskráningu félagsins. Við rannsóknina hafi komið fram sú skýring ákærða Helga á fyrstnefndu atriðunum að alltaf hafi staðið til að tilkynna skattstjóra um starfsemi félagsins, afhenda skýrslur og greiða virðisaukaskatt. Hafi ætlunin verið að láta þær aðgerðir bíða þar til félagið hefði ráð á að standa skil á skattinum, en af því hafi ekki orðið. Um bókhaldsgögn hafi sú skýring verið gefin að sjóðbók hafi verið haldin og fylgiskjöl varðveitt, jafnframt því að tekjur af öðru en sölu aðgöngumiða hafi verið færðar í sjóðvélar og skráðar þannig á pappírsstrimla. Þegar breytingar hafi staðið yfir á húsakynnum, þar sem starfsemi félagsins fór fram, hafi þessi gögn verið sett í pappakassa, sem voru síðan geymdir utandyra á svölum á þaki lægri hluta hússins að Austurstræti 22. Þangað hafi einnig verið sett rusl meðan á framkvæmdum stóð. Þegar það var fjarlægt muni bókhaldsgögnin jafnframt hafa verið tekin af vangá og þeim væntanlega fargað.
Samkvæmt umræddri skýrslu fékk skattrannsóknarstjóri í hendur við rannsóknina sjö virðisaukaskattskýrslur, sem voru fylltar út í nafni félagsins og undirritaðar ýmist af ákærða Helga eða ákærða Stefáni. Skýrslurnar hafi náð yfir tímabilið frá nóvember 1993 til loka desember 1994 og verið dagsettar, sú elsta 5. febrúar 1994 en sú yngsta sama dag á árinu 1996. Samkvæmt skýrslunum hafi velta félagsins á tímabilinu alls verið 19.284.949 krónur, en virðisaukaskattur að teknu tilliti til innskatts samtals 1.490.410 krónur. Skattrannsóknarstjóri hafi ekki talið fært að leggja þessar skýrslur til grundvallar, því bókhaldsgögn hafi vantað til að sannreyna upplýsingar í þeim. Hafi því verið gerð sérstök athugun á aðföngum félagsins til rekstrarins og farið þar eftir ábendingum ákærða Helga um hvaðan þeirra hafi verið aflað. Fengist hafi upplýsingar um innkaup á áfengi og tóbaki hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á öllu rekstrartímabili félagsins, innkaup á gosdrykkjum hjá Vífilfelli hf. frá nóvember 1993 til júní 1994 og kaup á skemmtanaskattsmiðum hjá tollstjóranum í Reykjavík frá nóvember 1993 til loka janúar 1995. Upplýsingar hafi hins vegar ekki komið fram um önnur aðföng, sem hafi getað myndað veltu hjá félaginu. Ákærði Helgi hafi greint frá því að húsakynni félagsins hafi verið leigð út undir skemmtanahald þrjú eða fjögur skipti fyrir 30.000 til 70.000 krónur hverju sinni. Hann hafi einnig borið að álagning á áfengi hafi að meðaltali verið 110% að teknu tilliti til rýrnunar og tilboða, en á tóbaki tæplega 40%. Gosdrykkir hafi verið seldir fyrir 100 krónur hvert glas, en verð á aðgöngumiða hafi verið 300 krónur.
Í niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar er greint frá því að gögn hafi komið fram um að nánar tiltekinn hluti af því áfengi, sem hafi verið keypt í nafni félagsins, hafi verið seldur til annarra veitingahúsa. Hafi því verið litið fram hjá þessu áfengi og gengið út frá því að það hafi verið endurselt á kostnaðarverði. Þá hafi verið miðað við að 1.000 skemmtanaskattsmiðar, sem voru keyptir í nafni félagsins í janúar 1995, hafi ekki skilað því tekjum. Að teknu tilliti til þess magns af áfengi og tóbaki, sem komið hafi fram að félagið hafi keypt, að frádregnu því áfengi, sem það endurseldi öðrum veitingahúsum, og á grundvelli fyrrnefndra upplýsinga ákærða Helga um álagningu á þeim vörum, komst skattrannsóknarstjóri að þeirri niðurstöðu að virðisaukaskattskyld velta félagsins vegna sölu þeirra hefði á árinu 1993 verið 5.030.182 krónur, á árinu 1994 21.910.291 króna, en á árinu 1995 384.494 krónur. Með samsvarandi hætti var komist að þeirri niðurstöðu að skattskyld velta vegna sölu á gosdrykkjum hefði verið 140.241 króna á árinu 1993, en 280.401 króna á tímabilinu frá ársbyrjun til loka júní 1994. Sala aðgöngumiða hafi myndað skattskylda veltu að fjárhæð 240.964 krónur á árinu 1993 og 963.856 krónur á árinu 1994, en enga á árinu 1995. Loks hafi útleiga á veitingasal félagsins skilað skattskyldri veltu á árinu 1994 að fjárhæð 140.562 krónur, en engri á árunum 1993 og 1995. Að þessu gættu hafi virðisaukaskattskyld velta félagsins numið alls 5.411.387 krónum 1993, 23.295.110 krónum 1994 og 384.494 krónum 1995, eða samtals 29.090.991 krónu. Virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð hafi verið 1.325.790 krónur á fyrstnefnda árinu, 5.707.302 krónur á því öðru, en 94.201 króna á því þriðja, eða alls 7.127.293 krónur. Innkaupsverð fyrrnefndra aðfanga að viðbættu kaupverði á vörum, sem upplýsingar hafi fengist um en ekki hafi nýst til endursölu, hafi að meðtöldum virðisaukaskatti verið 3.150.817 krónur á árinu 1993, 15.954.802 krónur 1994, en 227.950 krónur 1995, eða alls 19.333.569 krónur. Með þessu hafi myndast hjá félaginu innskattur að fjárhæð 611.885 krónur á fyrstnefnda árinu, 3.107.152 krónur á því öðru, en 44.858 krónur á því þriðja, eða samtals 3.763.895 krónur. Þegar tekið hafi verið tillit til þessa innskatts verði niðurstaðan sú að félagið hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti sem hér segir: Á árinu 1993 713.905 krónur, á árinu 1994 2.600.150 krónur og á árinu 1995 49.343 krónur, eða samtals 3.363.398 krónur.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra var jafnframt fjallað sérstaklega um rannsókn á launagreiðslum félagsins, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og stofn til álagningar tryggingargjalds. Ekki eru efni til að víkja hér nánar að þeim þætti rannsóknarinnar, enda tekur ákæra ekki til þeirra atriða, sem hann laut að.
Með bréfi 3. ágúst 1995 sendi skattrannsóknarstjóri skýrslu sína til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á opinberum gjöldum félagsins. Ríkisskattstjóri tilkynnti félaginu 17. sama mánaðar að fyrirhugað væri að breyta skattálagningu á grundvelli skýrslunnar, sem jafnframt var send því, og var því gefinn kostur á að hreyfa athugasemdum. Munu engar athugasemdir hafa komið fram. Hinn 30. maí 1996 ákvað ríkisskattstjóri hækkun á gjöldum félagsins. Var virðisaukaskattur frá árunum 1993, 1994 og 1995 ákveðinn samtals 7.411.250 krónur að viðbættu álagi, 1.482.250 krónum, eða alls 8.893.500 krónur. Þá var tekjuskattur vegna gjaldáranna 1994 og 1995 hækkaður frá fyrri áætlun skattstjóra, 1.518.000 krónum, um alls 10.374.375 krónur. Af gögnum málsins verður ekki séð að þessi endurákvörðun gjalda hafi verið kærð.
Með bréfum 28. júlí og 28. ágúst 1996 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ákærðu að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um refsimeðferð vegna þeirra atvika, sem greindi í áðurnefndri rannsóknarskýrslu. Ákærði Helgi óskaði eftir því með bréfi til skattrannsóknarstjóra 18. september 1996 að málinu yrði beint til yfirskattanefndar, en ákærði Stefán mun ekki hafa látið þetta erindi til sín taka. Skattrannsóknarstjóri beindi síðan málinu til rannsóknarlögreglu ríkisins með bréfi 30. júní 1997. Skýrslur voru teknar af ákærðu hjá ríkislögreglustjóra 7. og 8. maí 1998, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að teljandi aðgerðir hafi farið þar að öðru leyti fram til rannsóknar á því.
Fyrir liggur að bú Blámanna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. apríl 1996. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var upplýst af hálfu ákæruvalds að skiptum á búinu hafi nýlega verið lokið og greiðsla ekki fengist upp í lýstar kröfur.
Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru í málinu 23. júní 1998 og er meginefni hennar tekið orðrétt upp í hinum áfrýjaða dómi. Í I. kafla hennar voru ákærðu gefin að sök brot á lögum um virðisaukaskatt, í II. kafla brot á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en í III. kafla brot gegn bókhaldslögum og lögum um ársreikninga. Fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ákæruvalds verið fallið frá sakargiftum samkvæmt II. kafla ákærunnar.
III.
Samkvæmt því, sem áður greinir, liggur fyrir í málinu að ákærði Stefán, sem var meðal eigenda að hlutafélaginu Blámönnum og síðar samnefndu einkahlutafélagi, átti ekki sæti í stjórn félagsins, fór ekki með framkvæmdastjórn þess og hafði þar ekki prókúruumboð. Eins og nánar greinir í héraðsdómi hefur ákærði Helgi borið að ákærði Stefán hafi tekið ákvarðanir um allt, sem varðaði rekstur félagsins, til jafns við sig. Að öðru leyti en þessu eru einu gögn málsins, sem tengt geta ákærða Stefán við forræði á rekstri félagsins, áðurnefndar virðisaukaskattskýrslur, sem var þó aldrei skilað til yfirvalda. Gegn eindreginni neitun ákærða Stefáns verða þessi gögn ekki talin nægileg til að sanna að staða hans hjá félaginu hafi verið slík að hann geti borið refsiábyrgð vegna þeirrar háttsemi, sem greinir í I. og III. kafla ákæru, hvorki sem aðalmaður að broti né hlutdeildarmaður. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða Stefáns og sakarkostnað hvað hann varðar. Áfrýjunarkostnaður vegna þessa þáttar málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun vegna ákærða Stefáns, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
IV.
Í I. kafla ákæru er ákærða Helga gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki tilkynnt skattstjóranum í Reykjavík um virðisaukaskattskylda starfsemi Blámanna hf., að hafa vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu í rekstri félagsins á árunum 1993 til 1995 og ekki staðið tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti frá sama tímabili, samtals 3.363.398 krónum.
Með framburði ákærða Helga og öðrum gögnum málsins er sannað að hann hafi gerst sekur um umrædda vanrækslu á tilkynningu um virðisaukaskattskylda starfsemi félagsins. Hann hefur með þessari háttsemi brotið gegn ákvæði 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, svo sem greininni var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995, sem hér verður beitt eftir meginreglu 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sem í gildi var þegar brot ákærða var framið. Þá er með sama hætti sannað að ákærði hafi gerst sekur um að láta hjá líða að afhenda virðisaukaskattskýrslur vegna rekstrar félagsins. Með þeirri háttsemi braut hann gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, svo sem greininni var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995, sbr. áður sömu málsgrein sömu greinar, sem var í gildi þegar brotin voru framin.
Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði Helgi viðurkennt að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna starfsemi félagsins á fyrrnefndu tímabili, en hann telur fjárhæð skattsins hafa verið réttilega reiknaða í virðisaukaskattskýrslum, sem fram komu við rannsókn skattrannsóknarstjóra og áður er getið, eða alls 1.490.410 krónur. Af hálfu ákæruvalds eru sakargiftir á hendur ákærða á hinn bóginn reistar að þessu leyti á fyrrgreindri niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra 8. júní 1995 um virðisaukaskattskylda veltu félagsins frá nóvember 1993 til janúar 1995, virðisaukaskatt sem reiknaður verði af þeirri veltu, rekstrarútgjöld félagsins á sama tímabili og innskatt, sem af þeim myndast. Er þannig í ákæru talið að fjárhæð virðisaukaskatts, sem ákærði hafi látið hjá líða að greiða af fjármunum félagsins, eigi réttilega að teljast 3.363.398 krónur.
Í umræddri skýrslu skattrannsóknarstjóra er gerð ítarleg grein fyrir þeim forsendum, sem bjuggu að baki niðurstöðu um framangreint efni. Svo sem áður er rakið var þar stuðst við gögn, sem fengust um kaup félagsins á áfengi, tóbaki, gosdrykkjum og skemmtanaskattsmiðum, og fundið þannig kostnaðarverð aðfanga til rekstrarins. Ekki var þó byggt til fullnaðar á þessum gögnum, því bæði var tekið tillit til frásagnar ákærða um endursölu á hluta áfengisins til annarra veitingahúsa og til þess að hluti skemmtanaskattsmiða gæti ekki hafa komið félaginu að notum. Þá var jafnframt látið við það sitja að miða innkaup félagsins á gosdrykkjum við fyrirliggjandi upplýsingar um viðskipti þess við Vífilfell hf., sem þó lauk í júní 1994. Eru því bersýnilega vantalin innkaup á slíkum vörum upp frá því og þar til rekstri félagsins lauk. Eru engin haldbær rök til að efast um að þessi gögn gefi rétta mynd af lágmarki þeirra aðfanga, sem félagið aflaði til rekstrar síns.
Eins og áður greinir áætlaði skattrannsóknarstjóri á grundvelli þessara upplýsinga um aðföng hver sala félagsins á vörum og þjónustu gæti hafa verið. Um álagningarhlutfall á áfengi og tóbak er hermt þar að stuðst hafi verið við upplýsingar frá ákærða Helga. Eins hafi verið stuðst við frásögn hans um söluverð gosdrykkja og aðgöngumiða, svo og um tekjur af útleigu á veitingasal. Um álagningarhlutfallið, sem var lagt til grundvallar varðandi áfengi, er þess að geta að af hálfu ákæruvalds voru lagðir fyrir Hæstarétt nýir útreikningar skattrannsóknarstjóra á tekjum, sem félagið gæti hafa aflað sér miðað við það magn áfengis, sem fyrir liggur að það keypti, og útsöluverð þess á veitingum samkvæmt verðkönnun samkeppnisstofnunar frá apríl 1994, sem tók til 107 veitingahúsa á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal veitingahússins Berlínar. Í þessum útreikningum kemur meðal annars fram að álagning félagsins á áfengi hafi verið á bilinu frá 217,5% til 248,8% eftir einstökum tegundum. Að þessu gættu og öðru, sem liggur fyrir í málinu, er álagningarhlutfallið 110%, sem stuðst var við í upphaflegum útreikningum skattrannsóknarstjóra, sýnilega í hóf stillt. Verður ekki fallist á þá málsvörn ákærða að þar skorti á að tekið sé nægilegt tillit til rýrnunar vörubirgða og lækkunar á álagningu vegna tímabundinna tilboða á einstökum vörum. Um önnur atriði í forsendum fyrir útreikningum skattrannsóknarstjóra, sem að framan greinir, hafa ekki komið fram rökstudd andmæli. Ekki eru efni til að vefengja áreiðanleika niðurstöðu skattrannsóknarstjóra um vörusölu þótt í skýrslu hans sé lagt til grundvallar að aðföng hafi nýst félaginu að fullu til tekna á sama virðisaukaskattstímabili og þeirra var aflað. Er þá litið til þess að engu skiptir fyrir niðurstöðu málsins á hvaða tíma tekjur hafi nákvæmlega skilað sér af aðföngum, enda ræðst hvorki refsinæmi vanskila á virðisaukaskatti né viðurlög vegna þeirra af því hvenær ætluð brot í málinu voru framin. Auk þess, sem að framan greinir, hefur ákærði borið því við að útreikningar skattrannsóknarstjóra fái ekki staðist, því þar sé ekki tekið tillit til þess að þegar félagið hætti starfsemi hafi það selt rekstur sinn, þar á meðal áfengisbirgðir, en með þær sé allt að einu farið í útreikningum eins og seldar væru í veitingarekstri. Um þetta verður ekki litið fram hjá því að ákærðu hafa borið að Stuðlafell ehf. hafi keypt umræddan rekstur, en samkvæmt framlögðu vottorði hlutafélagaskrár eru þeir sjálfir einu stjórnarmennirnir í því félagi. Engin gögn hafa verið lögð fram um sölu rekstrarins, þótt ákærða Helga hefði vegna stöðu sinnar hjá kaupandanum verið í lófa lagið að koma slíkum gögnum á framfæri. Eru því ekki efni til að taka þessa málsvörn ákærða til greina.
Samkvæmt öllu framangreindu er ekki varhugavert að telja nægilega sannað að ákærði Helgi hafi látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskatti vegna rekstrar Blámanna hf. frá nóvember 1993 til janúar 1995 að minnsta kosti sem nemur 3.363.398 krónum. Með þeirri háttsemi hefur hann gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, svo sem lögunum var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga verður ákvæðinu með áorðnum breytingum þó ekki beitt við ákvörðun refsingar, heldur 1. mgr. 40. gr. fyrstnefndu laganna eins og hún hljóðaði þegar brotin voru framin.
Eins og að framan greinir hefur ákærði Helgi gerst sekur um þrenns konar brot gegn 40. gr. laga nr. 50/1988. Að þeim samanlögðum telst brot hans stórfellt. Auk þess, sem áður er getið, verður háttsemi hans því heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. áður 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sem var í gildi þegar brot ákærða voru framin.
V.
Í III. kafla ákæru er ákærða Helga gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að halda lögboðið bókhald fyrir félagið á árunum 1993, 1994 og 1995 og gera ársreikninga fyrir það.
Fyrir dómi bar ákærði að haldið hafi verið bókhald fyrir félagið, en það hafi glatast með þeim hætti, sem hann lýsti við skýrslugjöf hjá skattrannsóknarstjóra og áður er getið. Öll frásögn ákærða í þessum efnum er fjarstæðukennd. Með henni hefur hann þó gengist við því að hafa farið þannig með bókhaldsgögn, sem kunna að hafa verið tiltæk, að engar líkur voru fyrir öðru en að þau færu forgörðum. Hefur ákærði þannig brotið gegn ákvæði 36. gr., sbr. 4. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, svo sem þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 39/1995, að því leyti sem verknaður ákærða var í andstöðu við 16. gr. laga nr. 51/1968 um bókhald, sbr. 3. gr. laga nr. 47/1978, og 262. gr. almennra hegningarlaga á þeim tíma, sem hann var framinn. Þessi háttsemi ákærða rúmast innan þeirrar verknaðarlýsingar í ákæru, sem áður er getið.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki fallist á að skilyrði séu til að sakfella ákærða sérstaklega fyrir að hafa vanrækt að gera ársreikninga fyrir félagið.
VI.
Brotin, sem ákærði Helgi er sakfelldur fyrir samkvæmt framansögðu, eru stórfelld. Samfelld háttsemi hans í atvinnurekstri, sem stóð yfir í nærri 15 mánuði, ber ótvírætt vitni um einbeittan ásetning til brota. Verður við ákvörðun refsingar að líta til ákvæða 1., 2., 5., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Svo sem greinir í héraðsdómi hefur ákærði þrívegis sætt refsingu fyrir umferðarlagabrot eftir að brotin, sem um ræðir í þessu máli, voru framin. Verður því við refsiákvörðun jafnframt að gæta að ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur hins vegar ekki áður sætt refsingu, svo áhrif hafi við úrlausn þessa máls. Einnig verður að líta til þess verulega dráttar, sem áður er greint frá að hafi orðið á meðferð málsins í höndum skattyfirvalda og lögreglu frá því að skattrannsóknarstjóri lauk rannsókn sinni með skýrslu 8. júní 1995.
Að gættu framangreindu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði, en af henni skulu fimm mánuðir verða skilorðsbundnir í þrjú ár. Þá verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða í ríkissjóð 1.500.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæta ella fangelsi í þrjá mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað að því er ákærða Helga varðar.
Ákærði Helgi verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti og helming áfrýjunarkostnaðar vegna málsins, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Helgi Marteinn Gunnlaugsson, sæti fangelsi í átta mánuði. Fullnustu fimm mánaða af þeirri refsingu skal frestað og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Helgi greiði í ríkissjóð 1.500.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu ákærða, Stefáns Axels Stefánssonar, af kröfum ákæruvaldsins.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði Helgi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur. Hann greiði jafnframt helming alls áfrýjunarkostnaðar af málinu.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Stefáns fyrir Hæstarétti, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 125.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 4. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni, settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 639/1998: Ákæruvaldið gegn Helga Marteini Gunnlaugssyni og Stefáni Axel Stefánssyni sem tekið var til dóms 8. október sl.
Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans, dagsettri 23. júní 1998 á hendur ákærðu, Helga Marteini Gunnlaugssyni, Veghúsum 31, Reykjavík, kt. 180766-3839 og Stefáni Axel Stefánssyni, Laugavegi 22, Reykjavík, kt. 291170-2939.
„I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða Helga Marteini sem stjórnarformanni og ákærða Stefáni Axel, báðum sem fyrirsvarsmönnum og eigendum hlutafélagsins Blámanna hf., kt. 511193-2309, sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði upp kveðnum 12. janúar 1996, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því, að hafa ekki tilkynnt til Skattstjórans í Reykjavík um virðisaukaskattskylda starfsemi félagsins, að hafa vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu vöru og þjónustu sem fram fór í starfsemi félagsins sem fólst í rekstri skemmtistaðarins Berlínar við Austurstræti á árunum 1993, 1994 og 1995 og að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á innheimtum virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfsemi hlutafélagsins, í samræmi við það sem lög áskilja, samtals að minnsta kosti kr. 3.363.398, og sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
Vantalin velta: |
Vangreiddur innheimtur útskattur: |
|
Árið 1993 |
|
|
|
Nóvember - desember |
kr. 5.411.387 |
kr. 713.905 |
|
Samtals |
kr. 5.411.387 |
kr. 713.905 |
|
Árið 1994 |
|
|
|
Janúar - febrúar |
kr. 5.163.769 |
kr. 619.221 |
|
Mars - apríl |
kr. 4.374.932 |
kr. 376.933 |
|
Maí - júní |
kr. 3.796.115 |
kr. 329.360 |
|
Júlí - ágúst |
kr. 4.122.828 |
kr. 542.955 |
|
September - október |
kr. 3.323.054 |
kr. 405.497 |
|
Nóvember - desember |
kr. 2.514.412 |
kr. 326.184 |
|
Samtals |
kr. 23.295.110 |
kr. 2.600.150 |
|
Árið 1995 |
|
|
|
Janúar - febrúar |
kr. 384.494 |
kr. 49.343 |
|
|
kr. 384.494 |
kr. 49.343 |
|
Samtals: |
kr. 29.090.991 |
kr. 3.363.398 |
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.
II. Fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt og eignaskatt.
Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að skila skattaskýrslum og telja fram til skatts tekjur félagsins, á árunum 1993, 1994 og 1995 sem námu að lágmarki kr. 9.255.805 og félaginu bar að greiða af tekjuskatt samkvæmt, B-lið 7. gr. laga nr. 75, 1981, um tekjuskatt og eignaskatt og að hafa með þessari hegðun orðið þess valdandi að félagið komst undan greiðslu tekjuskatts af þessum tekjum samtals að fjárhæð kr. 3.054.415 og sundurliðast sem hér segir:
|
Tímabil: |
Vantaldar tekjur: |
Vangreiddur tekjuskattur: |
Tekjuskatts prósenta: |
|
Árið 1993 |
kr. 2.325.730 |
kr. 767.491 |
(33 %) |
|
Árið 1994 |
kr. 6.853.980 |
kr. 2.261.813 |
(33 %) |
|
Árið 1995 |
kr. 76.095 |
kr. 25.111 |
(33 %) |
|
Samtals: |
kr. 9.255.805 |
kr. 3.054.415 |
|
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 107. gr. laga nr. 75, 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sjá nú 1. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr., almennra hegningarlaga, nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 um breytingu á þeim lögum.
III. Brot gegn bókhaldslögum og lögum um ársreikninga.
Þá er ákærðu gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að halda lögboðið bókhald fyrir hlutafélagið á árunum 1993, 1994 og 1995 og að gera ársreikninga fyrir það.
Telst þetta varða við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 25. gr. laga nr. 51, 1968, um bókhald, sjá nú 1., 2., 4 og 5. tölul. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr., 1. gr. laga 39, 1995, og 2. tölul. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga, sbr. 3. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr., 1. gr. laga 39, 1995.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot."
Málavextir:
Samkvæmt skráningu Hlutafélagaskrár var hlutafélagið Blámenn, kt. 511193-2309, stofnað 6. nóvember 1993. Hlutafé félagsins var tilgreint ein milljón króna. Í stjórn félagsins og jafnframt stofnendur voru ákærði, Helgi Marteinn formaður, Ingvar H. Þórðarson meðstjórnandi, og Laufey Hrönn Jónsdóttir til vara. Tilgangur félagsins var sagður rekstur veitingahúss, lánastarfsemi og rekstur fasteigna o.fl. Félagið rak skemmtistaðinn Berlín, Austurstræti 22 í Reykjavík.
Bú Blámanna hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. apríl 1996. Skiptum er ekki lokið svo kunnugt sé. Með tilkynningu til Hlutafélagaskrár, dagsettri 31. janúar 1995, en móttekinni 28. febrúar sama ár, tilkynnti Ingvar H. Þórðarson um úrsögn sína úr stjórn félagsins.
Þann 3. mars 1995 hóf embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins rannsókn á bókhaldi, tekjuskráningu, skattskyldri veltu og virðisaukaskattskilum og rekstrargjöldum félagsins auk fleiri þátta sem hér skipta ekki máli. Var upphaf rannsóknarinnar rakið til þess að á fylgiskjali úr bókhaldi annars aðila sem sætti rannsókn sama embættis kom fram nafn veitingahússins Berlínar ásamt kennitölu, sem við eftirgrennslan reyndist vera kennitala Blámanna hf. Við frekari athugun kom í ljós að þetta hlutafélag var ekki á skrá yfir virðisaukaskattskylda aðila og vaknaði því grunur um að rekstur félagsins væri óskráður.
Rannsókn skattrannsóknarstjóra tók yfir tímabilið frá og með nóvember 1993 til 15. janúar 1995. Hófst rannsóknin með því að stjórnarformanni félagsins, ákærða, Helga Marteini, var afhent bréf dagsett 23. febrúar 1995 þar sem honum var tilkynnt að hafin væri skattrannsókn á félaginu. Rannsóknin leiddi í ljós að engin skattskil af einu eða neinu tagi höfðu átt sér stað til skattyfirvalda og að af hálfu félagsins var aldrei skilað neinum gögnum sem gætu gefið til kynna að um starfsemi væri að ræða hjá félaginu. Meðal annars kom í ljós að aldrei var sótt um virðisaukaskattsnúmer og því var félagið ekki á skrá yfir aðila með virðisaukaskattskylda starfsemi þá 14-15 mánuði sem það starfaði.
Af hálfu embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins var leitað eftir því að bókhald fyrirtækisins yrði afhent, svo sem fylgiskjöl bókhalds og bókhaldsbækur varðandi starfsemi félagsins, en slíkum gögnum var ekki til að dreifa. Þá reyndust sjóðvélar þær sem voru á staðnum vera ónothæfar.
Niðurstöður rannsóknarinnar um þau atriði er lúta að ákærunni voru þær að stjórnarformaður skattaðila, ákærði, Helgi Marteinn, hefði orðið uppvís að því að starfrækja í um það bil 14 mánuði skemmtistaðinn Berlín í nafni Blámanna hf., án þess að skrá starfsemina hjá skattyfirvöldum. Í öðru lagi hefði ekkert bókhald eða önnur gögn vegna starfsemi skattaðila komið fram í rannsókninni. Hefðu forráðamenn skattaðila að eigin sögn sett bókhaldsgögnin út á þak skemmtistaðarins þaðan sem það hefði horfið. Í þriðja lagi hefði stjórnarformaður skattaðila viðurkennt í skýrslutöku að hafa vísvitandi hvorki skilað virðisaukaskattskýrslum né skráð virðisaukaskattskylda starfsemi skattaðila hjá skattyfirvöldum, til að komast hjá innheimtuaðgerðum skattyfirvalda vegna vangoldins virðisaukaskatts og til að koma í veg fyrir að skemmtistaðnum yrði lokað í kjölfar fyrirsjáanlegra innheimtuaðgerða. Þá hafi forráðamenn skattaðila vísvitandi vantalið virðisaukaskattskylda veltu félagsins og innheimtan virðisaukaskatt frá og með nóvember 1993 til og með 15. janúar 1995. Samtals hefðu forráðamenn félagsins vantalið skattskylda veltu félagsins á greindu tímabili um 29.090.991 kr. og innheimtan virðisaukaskatt samtals að fjárhæð 7.127.293 kr. Vantaldar tekjur félagsins fyrir sama tímabil næmu samtals 29.090.991 kr.
Með bréfi dagsettu 30. júní 1997 kærði skattrannsóknarstjóri ríkisins síðan forráðamenn Blámanna hf., ákærðu í máli þessu, til rannsóknarlögreglu ríkisins, fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um virðisaukaskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um bókhald og almennum hegningarlögum. Við lögreglurannsóknina voru ákærðu báðir yfirheyrðir, ákærði, Helgi Marteinn, þann 7. maí síðast liðinn og ákærði, Stefán Axel, þann 8. sama mánaðar.
Við upphaf skattrannsóknarinnar fengu rannsóknarmenn í hendur sjö virðisaukaskattskýrslur, þar af fjórar undirritaðar af ákærða, Helga Marteini, og þrjár af ákærða, Stefáni Axel. Niðurstaða þessara skýrslna, sem taka til tímabilsins nóvember 1993 til og með desember 1994, er sú að virðisaukaskattskyld velta félagsins á tímabilinu hafi verið 19.284.949 krónur og innheimtur en vangoldinn virðisaukaskattur hafi numið 1.490.410. krónum. Munar þar 1.872.988 krónum miðað við það sem byggt er á í ákæru.
Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna.
Ákærði, Helgi Marteinn, kvaðst vera stofnandi Blámanna hf. og hafa verið stjórnarformaður félagsins þann tíma sem það starfaði. Stofnendur auk hans hefðu verið Laufey Hrönn Jónsdóttir og Ingvar H. Þórðarson. Meðákærði hefði komið inn í félagið í ársbyrjun 1994, þegar Ingvar seldi honum hlut sinn í félaginu, þ.e. 25% hlutafjár. Ákærði kvað félagið aldrei hafa haft virðisaukaskattsnúmer meðan það starfaði. Bæri hann ábyrgð á að hvorki var sótt um virðisaukaskattsnúmer né tilkynnt um virðisaukaskattskylda starfsemi félagsins til skattstjóra. Hefði hann staðið í þeirri trú að nægilegt væri að sækja um skráningu þegar kæmi að greiðslum virðisaukaskatts fyrir fyrsta rekstrartímabil félagsins, sem hefði átt að hafa gerst í síðasta lagi 5. febrúar 1994. Starfsemi félagsins kvað ákærði hafa verið fólgna í rekstri skemmtistaðarins Berlínar við Austurstræti, hér í borg, og hefði reksturinn staðið yfir frá nóvember 1993 fram í janúarbyrjun 1995. Viðurkenndi ákærði að á framangreindu tímabili hefðu aldrei verið staðin skil á virðisaukaskatti til tollstjórans í Reykjavík. Ákærði kvað tölurnar í ákærunni varðandi virðisaukaskattinn ekki réttar. Réttu tölurnar væru í þeim sjö virðisaukaskattskýrslum sem væru meðal gagna málsins.
Ákærði staðfesti að félagið hefði ekki skilað skattskýrslum til skattyfirvalda. Í ársbyrjun 1995 hefði uppgötvast að bókhaldsgögn vantaði og væri það skýringin á því að ekki hefði reynst unnt að skila inn skattframtölum. Kvaðst ákærði í fyrstu hafa séð um bókhaldið, en eftir að meðákærði kom til skjalanna hefðu þeir séð um það í sameiningu.
Ákærði kvað félagið hafa verið rekið með tapi frá upphafi og því fengi hann ekki séð hvernig það hefði átt að geta borið tekjuskatt. Kvaðst hann vísa þeim tölum sem nefndar væru í II. kafla ákæru á bug. Þær ættu sér enga stoð í raunveruleikanum.
Ákærði kvað það vera rangt að látið hefði verið undir höfuð leggjast að halda lögboðið bókhald fyrir félagið. Til hefði staðið að gera ársreikning vegna áranna 1993 og 1994 saman þar sem um mjög skamman tíma hefði verið að ræða á árinu 1993 sem félagið var í rekstri. Ársreikningur hefði ekki verið gerður og áður væri komin fram skýring á því hvers vegna svo var ekki gert.
Varðandi þátt meðákærða í rekstrinum kvað ákærði hlutverkaskipti þeirra ekki hafa verið skilgreind nákvæmlega. Þeir hefðu báðir tekið þátt í rekstrinum og séð um hann sameiginlega. Um nákvæma verkaskiptingu hefði ekki verið að ræða. Þannig hefðu þeir skipt á milli sín vöktum, þegar þannig stóð á að hinn gat ekki verið viðstaddur á opnunartíma staðarins.
Ákærði kvað afskipti skattrannsóknarstjóra hafa hafist með heimsókn á starfsstöð félagsins og síðan hefði vinna rannsóknarmanna verið í því fólgin að gera sér grein fyrir rekstrinum. Hann hefði þó ekki kynnt sér ítarlega á hverju áætlun þeirra væri byggð. Honum væri þó ljóst að hún byggði á upplýsingum frá ÁTVR um áfengiskaup að frádregnu því áfengi sem selt hefði verið til annarra. Eftir ábendingum ákærða hefðu rannsóknarmenn aflað sér upplýsinga hjá birgjum um kaup á gosdrykkjum og tóbaki. Ákærða var bent á að frá og með júní 1994 væri engum gosdrykkjakaupum til að dreifa og að eftir það væri ekki um önnur kaup að ræða en áfengis- og tóbakskaup. Spurður um hvort hann kynni skil á þessu kvað ákærði sig reka minni til að á einhverju tímabili hefði verið lokað fyrir viðskipti á fyrirtækið hjá Vífilfelli hf. vegna skulda. Minnti ákærða að um skeið hefði verið farin sú leið að fá annað veitingahús til að kaupa gosdrykki fyrir fyrirtækið og greiða það þannig, þótt hann teldi að það hefði ekki verið svo langur tími.
Ákærða var bent á að í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra segði hann að álagning hefði verið 110%. Spurður um hvort svo hefði verið allan rekstrartímann kvaðst ákærði ekki geta svarað því með vissu. Hvort álagningin hefði verið í hærri eða lægri kantinum miðað við annan rekstur og við hvað hefði verið miðað kvaðst ákærði ekki muna gjörla og auk þess myndi hann ekki gjörla hvernig þeir hefðu fundið út þessa tölu. Þessi álagningarprósenta hefði verið einhvers konar málamiðlun milli ákærðu og rannsóknarmannanna. Álagningin hefði verið misjöfn eftir tegundum og einnig hefði selst mismikið eftir tegundum. Það hefði því verið erfitt að sjá út hver meðalálagningin var. Upphæð sú sem áætluð væri sem reiknaðar tekjur fyrir leigu á staðnum í þrjú til fjögur skipti kvað ákærði vera nærri lagi.
Ákærði taldi upphæð vangoldins virðisaukaskatts vera of háa. Til staðar hefðu verið þættir sem upplýsingar vantaði um varðandi innskatt og kostnaðarhliðar í rekstrinum sem ekki hefði verið lögð mikil vinna í að leita uppi. Ákærða var bent á að þegar borin væri saman samantekt um innskatt samkvæmt virðisaukaskattskýrslum félagsins annars vegar og það sem rannsóknarmenn fundu með því að rekja innkaupin hins vegar, væri innskatturinn á skýrslunum frá félaginu í mörgum tilvikum lægri en rannsókn leiddi í ljós. Hann kvað skýringuna þá að í útreikningum ákærðu hefðu ekki verið færðir inn reikningar sem búið var að gefa út, en voru ógreiddir. Hjá skattrannsóknarstjóra hefðu reikningarnir verið teknir eins og þeir voru út gefnir og settir inn í viðkomandi virðisaukaskattstímabil. Ákærðu hefðu einungis tekið þá reikninga sem búið var að greiða, en ekki eingöngu reikninga sem búið var að gefa út. Ákærða var bent á að heildarmismunur innskatts samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra og samkvæmt þeim skýrslum sem fyrir lægju hjá félaginu næmi innan við 130.000 krónum. Mismunur á heildarveltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum félagsins og heildarveltu samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra væri u.þ.b. tíu milljónir króna. Útgjöldin hefðu því bersýnilega ekki verið miklu meiri samkvæmt skýrslum félagsins en rannsóknarmenn hefðu komist að niðurstöðu um. Spurður um hvort hann teldi að mismunurinn lægi í því að tekjurnar hefðu ekki verið eins miklar og rannsóknarmenn hefðu komst að niðurstöðu um kvað ákærði það vera skýringuna að hluta til, en sjálfsagt lægi einnig einhver munur í innskattshliðinni, þar sem það hefði verið talsvert af reikningum sem ekki hefði verið færður innskattur fyrir vegna þess að þeir hefðu enn verið ógreiddir þegar skýrslurnar voru gerðar. Hluta af upplýsingum vantaði samkvæmt því inn í þær tölur sem rannsóknarmenn hefðu gefið sér í athugunum sínum.
Ákærði kvaðst hafa gert meðákærða grein fyrir því sérstaklega þegar hann kom inn í fyrirtækið að starfsemi þess væri óskráð hjá yfirvöldum. Kvaðst hann hafa gert meðákærða grein fyrir þessu á fyrstu dögum þess er hann kom inn í reksturinn í byrjun árs 1994, sennilega í janúar og eigi síðar en 5. febrúar.
Ákærða var bent á að þegar starfsmenn skattrannsóknarstjóra komu í húsakynni fyrirtækisins í marsbyrjun 1995 hefðu engir afgangar fundist af skemmtanaskattsmiðum. Spurður um hvort búið hefði verið að nota þá miða sem keyptir höfðu verið hjá tollstjóra kvaðst ákærði ekki geta svarað því. Hann hefði verið í áfengismeðferð frá 10. janúar til 28. febrúar. Ákærða var bent á að keyptir hefðu verið sjö þúsund skemmtanaskattsmiðar hjá tollstjóra, en síðustu þúsund miðarnir sem keyptir voru væru ekki taldir með þar sem rúllan hefði ekki fundist og væri ekki talin með. Spurður um hvort ekki hefði verið búið að nota miðana kvað ákærði að svo hlyti að vera úr því að þeir væru ekki taldir með.
Ákærði kvað áætlun skattrannsóknarstjóra á virðisaukaskatti vera of háa miðað við virðisaukaskattskýrslur félagsins. Spurður um hvort það gæti stafað af rýrnun eða að áætlunin væri of há, hvort rangt væri að miða við 110% jafnaðarálagningu á áfengi, kvað ákærði það vera sambland af þessu tvennu. Reksturinn hefði gengið illa og því hefðu þeir reynt ýmsar leiðir til að koma honum á réttan kjöl. Meðal annars hefðu þeir verið með alls konar tilboð á áfengi á ákveðnum tímum og þar af leiðandi miklu lægri álagningu en aðrir. Væri þetta ástæða þess að álagningin hjá þeim hefði verið lægri en annars staðar. Sjálfsagt hefði einnig verið um talsverða rýrnun að ræða. Álagning á algengasta áfenginu sem selt var hefði ekki nálgast að vera 110%, enda þótt meðaltalsálagning hefði náð því að vera 110%.
Spurður um samskipti ákærða og meðákærða varðandi daglegan rekstur, svo sem færslu bókhalds og röðun fylgiskjala, kvað ákærði þá báða hafa séð um það sem og önnur verk. Hefði það farið eftir því hvernig á stóð hjá hvorum þeirra um sig hvor gerði hvað og mætti meðal annars sjá það af virðisaukaskattskýrslunum að þær væru jöfnum höndum undirritaðar af þeim báðum og sama hefði verið um færslu bókhalds og meðferð fylgiskjala. Spurður um hvor þeirra hefði séð um fjármál félagsins, gert upp sjóðvélar og greitt reikninga, kvað ákærði þá hafa gert það báða. Til að byrja með hefði ákærði séð um greiðslu fleiri reikninga en meðákærði, þar sem hann hefði verið prókúruhafi á tékkareikningi félagsins. Það hefði breyst er líða tók á reksturinn. Þá hefði tékkareikningi félagsins verið lokað og sambýliskona meðákærða tekið að sér að fara með tékkareikning fyrirtækisins. Meðan á því stóð hefði meðákærði haft meira með greiðslur reikninga að gera en ákærði. Allir fjármunir, bæði reiðufé og greiðslukortagreiðslur hefðu farið inn á tékkareikningana. Prókúruhafi hefði því að mestu leyti séð um útgjaldahliðina.
Ákærði kvað annað fyrirtæki hafa verið búið að taka við rekstri staðarins þegar starfsmenn skattrannsóknarstjóra komu í fyrirtækið í marsbyrjun 1995 og hefði það tekið við rekstrinum í byrjun janúar sama ár.
Ákærði kvað að þegar þeir Ingvar ákváðu að fara út í þennan rekstur hefði eignaraðild í raun verið þannig háttað að hann hefði átt að eiga 75% hlut en Ingvar 25% hlut. Aðstæður Ingvars hefðu breyst svo mjög þegar í upphafi að hann hefði aldrei getað sinnt rekstrinum og þar sem ákærði hefði ekki séð sér fært að standa í þessu einn hefði meðákærði komið inn í reksturinn með kaupum á hlut Ingvars. Laufey Hrönn hefði bæði komið inn sem ábyrgðarmaður fyrir ákærða og til að uppfylla formskilyrði laga. Ákærði kvaðst ekki kunna á því skýringu hvers vegna Ingvar fór ekki með tilkynningu um úrsögn sína úr stjórn félagsins til Hlutafélagaskrár fyrr en 28. febrúar 1995. Tók ákærði fram að viðskipti meðákærða og Ingvars hefðu ekki farið fram fyrir milligöngu hans. Meðákærði hefði haft áhuga á að koma inn í reksturinn og leitað til ákærða um upplýsingar, en síðan átt sín viðskipti við Ingvar.
Varðandi II. kafla ákæru var ákærða gerð grein fyrir að þar væru útgjöldin dregin saman eins og þeim væri lýst í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Dregin væru saman öll vörukaup áranna 1993, 1994 og 1995 og laun sem rannsóknarmenn hefðu fundið út svo og tryggingagjald, og þessar tölur væru dregnar frá heildarveltunni, 29.090.991 kr. Á bls. 15 í skýrslunni væri tafla um launagreiðslur skattaðila. Þar væri gerð áætlun um hvaða launaútgjöld kynni að hafa verið um að ræða og að þau hefðu verið samtals á öllu tímabilinu fjórar milljónir króna. Síðan væru útgjöldin dregin saman í töflum á bls. 16 og með þessu móti væru útgjöld komin á móti þeim tekjum sem næmi heildarveltu samkvæmt rannsóknarniðurstöðunni. Með þessu móti væri fengin fjárhæð sem væri grundvöllur álagningar um tekjur og tekjuskatt. Ákærði kvað það ekki koma fram hvað það væri nákvæmlega sem lægi að baki þessari upphæð. Spurður um hvort hann vefengdi niðurstöðuna í skýrslunni um reikninga varðandi áfengis- og gosdrykkjakaup sem vikið væri að í II. kafla ákæru, þ.e. hvort 29 milljónirnar þar væri of há tala og hvort 12 milljónirnar þar væri of lág tala sem útgjöld, þ.e. hvort hann teldi að útgjöldin hefðu verið meiri. Ákærði kvað svo vera því bæði vantaði útgjöld vegna ógreiddra reikninga sem voru til staðar þegar virðisaukaskattskýrslurnar voru gerðar og aðra hluta af útgjaldaþættinum.
Bókhaldið kvað ákærði hafa verið fært á skrifstofu fyrirtækisins og hefði það verið handfært að öllu leyti. Taldi ákærði að færslulistarnir hefðu verið í sama geymsluformi og bókhaldsgögnin. Öll þessi gögn hefðu verið geymd á sama stað og öll misfarist á sama hátt. Breytingar hefðu staðið yfir á þeim tíma á húsnæðinu, m.a. á skrifstofunni, og kvaðst ákærði halda að breytingunum hefði ekki verið að fullu lokið þegar starfsmenn skattrannsóknarstjóra komu þangað, en hann hefði ekki verið til staðar þegar stór hluti breytinganna átti sér stað. Eftir því sem hann vissi best hefði þessum gögnum verið komið fyrir á vísum stað, en þegar óskyldir aðilar tóku að sér að framkvæma hreingerningar eftir breytingarnar hefðu gögnin óvart glatast.
Þegar ákærði byrjaði starfsemina kvaðst hann hafa keypt rekstur sem var þarna í gangi, en hagnaður hefði aldrei orðið af fyrirtækinu. Hann hefði keypt innréttingar og tæki af Sigurði Hilmari Ólasyni, en hjá honum hefði hann átt talsvert fé og hefði sér þótt einsýnt að hann myndi ekki fá það greitt með öðru móti en með einhvers konar samningum. Þannig hefði það komið til að hann eignaðist þennan rekstur. Hann hefði verið að reyna að ná aftur kröfu sem hann átti á hendur Sigurði og þeir hefðu samið um tiltekið verð sem hefði reynst allt of hátt þar sem reksturinn hefði engan veginn gengið upp eins og fyrirheit höfðu verið gefin um. Kaupverðið hefði verið meira en tíu milljónir króna, en krafan sem hann átti á hendur Sigurði hefði numið þremur eða fjórum milljónum króna. Kvaðst ákærði muna að hluti af þeirri milligjöf sem hann átti að greiða Sigurði til að þeir yrðu kvittir eftir þessi viðskipti hefði verið skuldabréf að fjárhæð á fimmtu milljón króna sem Laufey Hrönn hefði undirritað.
Húsaleigu fyrir staðinn kvað ákærði hafa verið um 400.000 krónur á mánuði og leigusali Sýr hf., í eigu Gunnars Hjaltalín og Þórarins Ragnarssonar. Þá hefði rafmagns- og hitunarkostnaður verið mjög hár þar sem húsið hefði verið meira og minna óeinangrað og erfitt að halda á því hita, en það hefði verið gert bæði með rafmagni og vatni. Þar af leiðandi hefði rekstur hússins reynst mjög dýr. Auk þess hefði viðhaldskostnaður verið mikill því um gamalt hús hefði verið að ræða. Helstu kostnaðarliði við reksturinn að frátöldum áfengiskaupum, launagjöldum og húsaleigu kvað ákærði hafa verið rekstur húsnæðisins, þ.e. viðhalds- hita- og vatnskostnað. Talsvert hefði einnig verið lagt í auglýsingar. Gjöld í rekstrinum væru því verulega vantalin í skýrslunni og tekjur oftaldar.
Ástæða þess að ekki var skilað skattskýrslu vegna tekjuársins 1993 kvað ákærði þá að ákærðu hefðu ætlað að sameina þennan litla hluta þess árs árinu 1994. Ómögulegt hefði reynst að ganga frá þessu þar sem öll gögn voru farin forgörðum. Þegar það kom í ljós hefði framtalsfrestur lögaðila ekki verið runninn út. Fyrirtækið hefði síðan verið lýst gjaldþrota í byrjun árs 1996 og skiptastjóri skipaður og þar með hefði rekstur þessi verið úr þeirra höndum.
Varðandi III. kafla ákæru skýrði ákærði svo frá að þegar kom að því að ganga frá fyrsta framtalinu og ársreikningnum hefði bókhaldið ekki verið til staðar. Þau gögn varðandi bókhaldið sem áður hafði verið fært hefðu ekki fundist svo unnt yrði að útbúa ársreikninginn. Spurður um hvað þá hafi verið búið að færa af bókhaldinu kvað ákærði það allt hafa verið fært jafnóðum og þannig frá gengið að hægt hefði verið að reikna út virðisaukaskatt og standa skil á honum fyrir hvert tímabil um sig. Þá hefðu öll fylgigögn verið til staðar í möppum. Hefðu ákærðu báðir séð um að svo væri. Lögboðið bókhald hefði því verið fært fyrir þessi ár, en ársreikningar ekki gerðir af þeim ástæðum sem áður getur.
Nánar aðspurður um virðisaukaskattskýrslurnar kvað ákærði Sigurð Jensson og annan starfsmann skattrannsóknarstjóra hafa fundið þær við vettvangsrannsókn í skrifstofu fyrirtækisins. Spurður um vínlager veitingahússins kvað ákærði hann yfirleitt hafa verið að verðmæti á bilinu ein til tvær milljónir króna að innkaupsverði. Þegar rekstur vínveitingahússins var seldur til Stuðlafells hf. í byrjun janúar 1995 hefði söluverð lagersins verið um 1.570.000 krónur. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að rannsóknarmenn skattrannsóknarstjóra hefðu spurt sig út í hvort lager Blámanna hf. hefði verið seldur.
Afstaða ákærða, Stefáns Axels, til ákærunnar er að hann sé saklaus af þeirri háttsemi sem honum er þar gefin að sök. Ákærði kvaðst hafa verið 25% hluthafi í félaginu, en hvorki setið í stjórn þess né gegnt þar stjórnarstöðum. Hann hefði ekki vitað fyrr en í árslok 1994 að virðisaukaskattsnúmer var ekki fyrir hendi. Hann hefði keypt hlut Ingvars Þórðarsonar, en kaupin gæti hann ekki dagsett nákvæmar en svo að þau hefðu átt sér stað í ársbyrjun 1994, á tímabilinu janúar til mars. Ákærði kvað hlutverk sitt í rekstrinum hafa verið fólgið í samskiptum við starfsfólk, pöntun aðfanga og umsjón með vöktum. Umsjón hans með vöktunum hefði verið í því fólgin að setja upp vaktaplön fyrir starfsfólk, pöntun aðfanga og að sjá til þess að húsið væri í lagi. Þá hefði það falist í þeim vöktum sem hann sá um að hafa verkstjórn og yfirumsjón með meðan opið var. Færslu bókhalds hefði hann ekki séð um. Eftir því er hann best vissi hefði meðákærði séð um færslu þess. Spurður um bókhald félagsins kvað hann það hafa verið fært eftir því er hann best vissi, hann teldi að svo hefði verið. Nánar aðspurður kvaðst ákærði þó ekki geta svarað spurningunni öðruvísi en svo að hann teldi að það hefði verið fært. Spurður um á hverju hann byggði það kvaðst hann byggja það á þeim staðgreiðsluuppgjörum og þeim möppum sem hann hefði séð í hillum á staðnum, en í möppunum hefðu m.a. verið staðgreiðslunótur. Einnig hefðu verið þar fylgiskjalamöppur, en hreyfingalista um færslu á bókhaldi hefði hann aldrei séð.
Ákærði kannaðist við að hafa útfyllt nokkrar virðisaukaskattskýrslur. Hefði hann staðið að útfyllingu þeirra að beiðni meðákærða með þeim gögnum sem fyrir lágu um virðisaukaskattskylda veltu. Nánar tiltekið hefðu gögnin verið staðgreiðsluuppgjör og fylgiskjöl. Minnti ákærða að um hefði verið að ræða samandregnar tölur um gögnin. Eftir því sem hann minnti hefði hann ekki sannreynt þær í gögnunum. Nánar tiltekið kvaðst ákærði hafa farið eftir þeim tölum sem lágu fyrir honum á blöðum í samantekt á þessum skjölum. Spurður um hvernig fyrirliggjandi gögn hefðu verið og hvers konar gögn það hefðu verið sem lágu fyrir þegar hann útfyllti skýrslurnar kvað ákærði það hafa verið staðgreiðsluuppgjör og fylgiskjalamöppu. Spurður um hvort hann hefði dregið þessar tölur upp úr gögnunum svaraði ákærði að búið hefði verið að draga saman tölurnar þegar hann fékk þær. Kvað ákærði sig ekki reka minni til þess að hafa sannreynt tölurnar í gögnunum.
Spurður um kaup á aðföngum til veitingastaðarins, fjölda gesta og sölu veitinga kvaðst ákærði halda að kaup á gosdrykkjum hefðu ekki átt sér stað hjá öðrum en Vífilfelli hf. og önnur aðföng hefðu ekki verið frá öðrum en Gripið og greitt hf. Kvaðst ákærði telja þetta vera nokkurn veginn tæmandi talningu varðandi kaup á aðföngum. Hann kynni þó enga skýringu á því hvers vegna hvergi kæmu fram kaup á gosdrykkjum til rekstursins frá júnílokum 1994. Með hvaða hætti aðföng voru þá fengin kvaðst ákærði ekki muna. Spurður um hvort þau hefðu verið fengin annars staðar frá kvaðst ákærði ekki muna það. Kvað ákærði sér vera ókunnugt um hvers vegna viðskiptum við Vífilfell hf. var hætt.
Ákærða var bent á að umfang rekstursins hvað varðar fjölda gesta væri byggður á fjölda rúllumiða sem keyptir voru hjá tollstjóraembættinu, þó að frádregnum eitt þúsund miðum. Aðspurður hvort hann kynni skýringu á því hvers vegna þessir eitt þúsund miðar sem keyptir voru síðast á rekstrartímabilinu væru ekki taldir með kvaðst ákærði ekki kunna á því skýringu, en væntanlega væru þeir ónotaðir ef þeir hefðu ekki verið taldir með. Ákærði staðfesti að staðurinn hefði verið leigður út tvisvar til þrisvar sinnum. Kvaðst hann telja nærri lagi að leiguverðið hefði verið 50-70.000 krónur í hvert skipti.
Ákærði kvað sér vera ókunnugt um hver álagning hefði verið á vörum veitingahússins, en meðákærði hafi ákveðið hana. Í gildi hefði verið ákveðin verðskrá, en auk þess hefði verið um tilboð að ræða. Starfsfólkið hefði farið eftir verðskrá varðandi þau tilboð sem í boði voru á hverjum tíma. Hann kvaðst ekki vera viss um hver álagningin var, en ítrekaði að töluvert hefði verið um tilboð. Spurður um hvort hann teldi niðurstöðutölur um virðisaukaskattskylda veltu vera réttar kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það.
Ákærði kvaðst ekki kunna á því skýringu hvers vegna yfirlýsing Ingvars H. Þórðarsonar um úrsögn hans úr stjórn Blámanna hf. væri ekki dagsett fyrr en 31. janúar 1995. Hann kvaðst ekki vita til að Ingvar hefði haft afskipti af rekstri félagsins eftir að ákærði kom inn í félagið. Þá kvaðst ákærði ekki vita til að stjórnarfundir hefðu verið haldnir í félaginu.
Ákærði staðfesti að einhver hluti af veltu félagsins hefði farið um tékkareikning hjá sambýliskonu hans. Hún hefði verið ráðin af meðákærða sem gjaldkeri með samkomulagi þeirra í milli. Nærri þeirri ráðningu hefði hann hvergi komið.
Ákærði var inntur nánar eftir útfyllingu virðisaukaskattskýrslnanna. Kvað hann allar tölurnar hafa verið samandregnar og kvaðst álíta að þær stöfuðu frá meðákærða. Þær virðisaukaskattskýrslur sem væru undirritaðar af sér hefði hann einnig útfyllt að öðru leyti. Ákærða var bent á að í skýrslu hans hjá lögreglu 8. maí sl. hefði hann verið spurður um þetta atriði og þar hefði hann sagt að skýrslurnar væru útfylltar samkvæmt þeim dagsetningum sem á þeim væru, en síðan segði hann að meðákærði hefði beðið sig að útfylla þær skýrslur sem hann hefði undirritað og jafnframt hefði meðákærði gefið honum upp fjárhæðir sem færa skyldi á þær. Ákærði kvað tölurnar hafa legið fyrir, hann hefði fengið þær í hendur frá meðákærða. Spurður um skýrslu á gjalddaga 5. febrúar 1995 og hvort hún hefði verið unnin með sama hætti kvaðst ákærði ekki muna gjörla hvernig þetta var í öllum tilvikum. Eins og hann hefði áður sagt hefði hann í sum skipti annast þetta að beiðni meðákærða og í önnur skipti hefði þetta verið í samantekt. Skýrslan frá 5. febrúar 1995 væri ekki unnin að frumkvæði ákærða. Ákærða var bent á að meðákærði hefði á þessum tíma verið búinn að vera í áfengismeðferð í tæpan mánuð. Hann kvað þá hafa verið í símasambandi. Spurður um hvort meðákærði hefði hringt til ákærða og gefið honum upp tölur kvaðst ákærði ekki muna gjörla í hvaða formi hvert skipti var.
Að því er varðar II. kafla ákæru kvaðst ákærði hvorki hafa verið í stjórnunarstöðu hjá félaginu né hafa séð um að skila bókhaldi fyrir félagið og heldur ekki að skila skattyfirvöldum skýrslum þess efnis. Um tölulegar niðurstöður þessa ákæruliðar kvaðst ákærði ekkert hafa að segja. Spurður um hvort hann vissi eitthvað um raunverulega veltu í fyrirtækinu kvað ákærði svo ekki vera. Hvort hann hefði haft möguleika á að meta gildi þeirra talna sem fram kæmu og hvernig rannsóknarmenn hefðu sett þær fram kvaðst ákærði enga möguleika hafa haft til þess.
Varðandi III. kafla ákærunnar kvaðst ákærði telja að það hefði ekki verið í sínum verkahring að halda bókhald fyrir félagið, það hefði ekki verið hans starf.
Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið sendar skýrslur varðandi úttekt skattyfirvalda á málefnum félagsins og engin bréf fengið í hendur. Það hefði ekki verið fyrr en hann mætti til yfirheyrslu hjá lögreglu sem hann fékk að vita um niðurstöður skattrannsóknarinnar.
Ákærði kvað Stuðlafell hf. hafa tekið við rekstrinum af Blámönnum hf. í byrjun árs 1995. Nákvæmlega hvenær myndi hann ekki, en hann hefði verið í meirihlutaeign í því félagi.
Ákærði staðfesti að Blámenn hf. hefðu selt vínlager félagsins til Stuðlafells hf. fyrir tæpar 1.600.000 krónur. Kvað hann starfsmenn skattrannsóknarstjóra ekki hafa spurt sig út í hvort lager Blámanna hf. hefði verið seldur. Ákærði kvaðst koma nærri rekstri vínveitingahúss um þessar mundir. Kvað hann vínlagerinn að jafnaði vera að verðmæti 2,3 til 2,4 milljónir króna að innkaupsverði. Vínveitingahús þetta væri af sömu stærðargráðu og Berlín var og vínlagerinn væri sambærilegur og þar hefði verið. Loks staðfesti ákærði að starfsmenn skattrannsóknarstjóra hefðu fundið virðisaukaskattskýrslurnar í skrifborðsskúffu í skrifstofu fyrirtækisins.
Vitnið, Gunnar Hjaltalín, staðfesti í dóminum að hafa verið í fyrirsvari fyrir leigusala vegna Austurstrætis 22. Vitnið kvað Blámenn hf. hafa yfirtekið leigusamning um húsnæðið af Sigurði Ólasyni, en leigusali, Sýr hf., hefði eignast leigusamninginn frá Róm hf. Húsaleiga hefði verið 350.000 krónur á mánuði með byggingarvísitölunni 188,6. Samningurinn hefði einnig verið kaupsamningur um innréttingar staðarins og í því sambandi hefði annars vegar verið um að ræða skuldabréf og hins vegar greiðslur samkvæmt kaupsamningi. Kvað vitnið leigusala hafa fengið greiddar 225.000 krónur á mánuði af skuldabréfinu og 256.000 krónur á mánuði samkvæmt kaupsamningnum. Samtals hefði leigusali því verið að fá greiddar um 830.000 krónur á mánuði frá Blámönnum hf. þar til skuldabréfið og kaupsamningurinn greiddust upp að viðbættri vísitöluhækkun vegna húsaleigunnar. Kvað vitnið kvittanir hafa verið gefnar út til Blámanna hf. Skuldabréfið hefði upphaflega verið að fjárhæð 3.150.000 krónur og ekki borið vexti. Það hefði átt að greiðast með 14 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta skipti 15. mars 1993. Greiðslur samkvæmt kaupsamningnum, upphaflega að fjárhæð 7.000.000 króna bundið lánskjaravísitölunni 3273, hefði borið að greiða með 28 mánaðarlegum greiðslum, í fyrsta skipti 5. apríl 1993. Auk þessa hefðu leigutakar átt að greiða fyrir hita og rafmagn samkvæmt mæli til orkuseljenda.
Vitnið kvað starfsmenn skattrannsóknarstjóra hafa haft samband við sig og minnti vitnið að hann hefði látið þá hafa yfirlit yfir öll þessi viðskipti og teldi hann að þau ættu að hafa legið fyrir í málinu.
Vitnið, Ragnar Björnsson, var starfsmaður hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þegar skattrannsókn fór fram á Blámönnum hf. Kvaðst vitnið hafa verið forstöðumaður hjá embættinu á þessum tíma og Sigurður Jensson undirmaður hans. Vitnið kvaðst hafa séð um að skipuleggja rannsóknina og rannsóknaraðferðir, en Sigurður hefði borið undir vitnið ýmislegt í rannsókninni. Sigurður hefði séð um hina eiginlegu rannsókn, þ.e. gagnaöflun, textagerð og uppsetningu, en síðan hefði vitnið lesið það yfir og gert breytingar og lagfæringar.
Vitnið kvað grun um skattsvik af hálfu forráðmanna félagsins hafa vaknað vegna rannsóknar embættisins á öðru fyrirtæki. Eftir athugun á virðisaukaskattskilum Blámanna hf., en þau hefðu reynst vera engin, hefði verið farið á starfsstöð félagsins og óskað eftir að bókhald og önnur gögn varðandi reksturinn yrðu lögð fram. Engin gögn hefðu legið fyrir og því hefði rannsóknin beinst að því að reyna að finna þá birgja sem selt höfðu fyrirtækinu. Leitað hefði verið eftir upplýsingum frá ÁTVR, Vífilfelli hf. og fleirum til þess að ná utan um vörukaup félagsins og síðan hefði verið reynt, út frá upplýsingum um álagningu, að leggja mat á hugsanlega sölu. Ákærði, Stefán Axel, hefði í skýrslu sinni tilgreint sem birgja ÁTVR, Vífilfell hf., Gripið og greitt hf., Tengi hf. og Rekstrarvörur hf. Taldi vitnið sig geta fullyrt að ekki hefði verið farið út fyrir það sem ákærðu svöruðu til um af hverjum þeir keyptu. Innkaupin hefðu því verið miðuð við ábendingar ákærðu þar að lútandi. Reyndar hefðu rannsóknarmenn leitað eftir upplýsingum hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni hf. varðandi gosdrykkjakaup, en þau hefðu engin verið.
Vitninu var bent á að í skýrslunni kæmi fram að frá lokum júní 1994 væri engum innkaupum á gosdrykkjum til að dreifa. Vitnið kvað það næsta víst að þrátt fyrir það hefði verið um að ræða innkaup og sölu á gosdrykkjum, enda hlyti það að fylgja rekstri staðar sem þessa. Hins vegar hefðu athuganir rannsóknarmanna leitt í ljós að hvorki hefði verið um að ræða kaup frá Vífilfelli hf. né Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni hf. og því hefði ekki verið ráðist í frekari könnun hvað þetta varðar. Ákærðu hefðu því verið látnir njóta vafans í þessum efnum sem leitt hefði til þess að útgjöld, tekjur og álagning urðu að sama skapi lægri.
Vitnið kvað embættið enga viðmiðun hafa haft varðandi álagningarprósentuna. Hún væri byggð á upplýsingum sem fram hefðu komið í skýrslutöku þar sem spurt hefði verið hver álagning hefði verið í rekstrinum að teknu tilliti til tilboða og rýrnunar og því verið svarað að hún hefði að meðaltali numið 110%. Óhætt væri að segja að það væri mjög lág álagningarprósenta í samanburði við aðra staði, en embættið hefði rannsakað talsvert af sambærilegum stöðum. Ætla mætti að sambærileg álagning væri á bilinu 200-300%, en 110% álagning væri lítt trúleg. Sú tala, 110%, byggðist eingöngu á frásögn ákærðu.
Spurður um hvernig virðisaukaskattskýrslur þær sem um getur í gögnum málsins hefðu legið frammi, kvað vitnið engin gögn hafa verið á staðnum þegar starfsmenn embættisins komu þangað. Skýrslurnar hefðu verið lagðar fram nokkru seinna. Hvenær það var kvaðst vitnið ekki geta fullyrt, en það hefði verið nokkru eftir að rannsóknin hófst. Spurður um hvort ekki hefði verið ástæða til að leggja skýrslur ákærðu til grundvallar í málinu kvað vitnið að það hefði þeim ekki fundist sökum þess að við rannsókn á vörukaupum og álagningu hefði salan reynst vera talsvert hærri.
Vitninu var bent á að rannsóknarmenn hefðu unnið virðisaukaskattsþáttinn með þeim hætti að tekin hefðu verið öll áfengiskaup og gert væri ráð fyrir að öll sala á því magni hefði átt sér stað í sömu mánuðum og það var keypt. Spurður um hvort ekki væri varhugavert að ganga út frá að barir tæmdust með öllu um hver mánaðamót kvað vitnið rannsóknarmenn hafa orðið að gefa sér einhverjar forsendur þar sem þeir hefðu ekkert haft í höndunum og til einföldunar hefði þessi aðferð verið viðhöfð. Vitninu var bent á að þekkt væri í vínveitingahúsum að ýmsar tegundir lægju og seldust nánast aldrei, en þær yrði þó að hafa. Spurður um hvort ekkert tillit hefði verið tekið til þessa kvað vitnið rýrnunina koma inn í álagninguna þannig að hún skilaði sér þar, en hann teldi að óvinnandi væri að ætla að hafa frestun eða seinkun á milli kaupa og sölu. Spurður um hvort ekki væri alveg ljóst að salan yrði ekki með þeim hætti sem þeir gerðu ráð fyrir, þ.e. að það tæmdist ekki allt fyrir hvert og eitt virðisaukaskattstímabil, kvað vitnið það vitaskuld ekki gerast. Þessu hefði verið stillt upp með þessum hætti til einföldunar þannig að einhver vegur yrði að vinna þetta.
Vitninu var bent á að áður hefði verið nefnt í sambandi við álagningu á áfengi að miðað hefði verið við 110% álagningu að teknu tilliti til rýrnunar, en að í veitingahúsum sem þeir hefðu kannað væri hún 200-300%. Spurður um hvort það fengi staðist að álagning væri 200-300% í vínveitingahúsum kvað vitnið svo vera, en hann gæti ekki nefnt neinar tölur í því sambandi.
Vitninu var bent á að fram hefði komið að innskatturinn hefði verið vanreiknaður í sumum tilvikum hjá stjórnendum félagsins og því borið við að það hefði verið reiknað þannig í þeim skýrslum sem gerðar voru að innskatturinn hefði yfirleitt verið tekinn af greiddum reikningum. Spurður um hvort það gæti ekki staðist og skýrt þennan mismun kvaðst vitnið ekkert hafa fyrir sér um hvernig hann hefði verið reiknaður, það hefði aldrei komið fram. Ákærðu hefðu að vísu haldið því fram að það hefði verið gert á grundvelli bókhalds. Vitnið vissi ekki skýringuna á því af hverju það væri misræmi þarna á milli, vera kynni að það væri skýring, hún væri hugsanleg. Ef eitthvað væri ógreitt af vörukaupum og innskattur byggði á greiddum reikningum þá væri hann augljóslega lægri en ella og ylli þá einhverri skekkju síðar.
Vitninu var bent á að í II. kafla ákæru væru dregnar saman vantaldar óframtaldar tekjur. Þær væru heildarvelta að frádregnum útgjöldum og tekjuskattsprósentan 33%. Hann var spurður um hvers vegna ekki hefði verið fundinn út greiddur tekjuskattur. Vitnið kvaðst halda að ekki hefðu verið birtar tölulegar niðurstöður varðandi vangoldna skatta, heldur skattstofna eða vantaldar tekjur og vantalda staðgreiðslu. Ekki hefði verið venja að birta vantalinn tekjuskattstofn heldur hefði ríkisskattstjóra verið látið eftir að tíunda það í úrskurði. Þetta væru því forsendur þess að á þessum tölum væri byggt. Ástæða þess væri sú, að það sem þeir kölluðu möguleg gjöld og mögulegan innskatt, væri ekki tíundað í tölulegu niðurstöðunum með því að samkvæmt skattalögum ættu aðilar ekki rétt á innskatti og gjöldum nema það byggðist á færðu bókhaldi. Úrskurður ríkisskattstjóra tæki því ekki tillit til þessa mögulega innskatts og þessara mögulegu gjalda.
Vitninu var bent á að í útreikningum rannsóknarmanna á tekjum og gjöldum félagsins fyrir árin 1993, 1994 og 1995 tækju þeir sem gjöld einungis þau gjöld sem þeir áætluðu eða sem væru með virðisaukaskatti. Ekki væru tekin með í reikninginn útgjöld á borð við húsaleigu, rafmagn, hita og auglýsingar og þannig leitað eftir hvaða gjöld þarna hefðu átt að koma til frádráttar. Vitnið kvað engin gögn hafa legið fyrir í þeim efnum. Vitninu var þá bent á að við rannsóknina hefði Gunnar Hjaltalín, fulltrúi leigusala, verið kallaður fyrir þótt þess sæi ekki stað í gögnum skattrannsóknarstjóra, en Gunnar hefði gefið skýrslu fyrir dómi. Spurður um hvers vegna þeirra upplýsinga, sem þeir hefðu fengið hjá honum um útgjaldaliði rekstrarins, væri hvergi getið svaraði vitnið að hann hefði ekki rætt við Gunnar og gæti því ekki upplýst hvað hann sagði. Spurður um hvort ekki væri eðlilegt að draga frá tekjum þætti á borð við húsaleigu, rafmagn og hita kvað vitnið forráðamenn hafa verið spurða um helstu birgja. Vitninu var bent á að leigusali flokkaðist ekki undir slíka. Vitnið kvað það vera ógjörning að ætla að ná fullkomlega utan um alla útgjaldaliði rekstrar sem þessa. Á hinn bóginn hefði ákærðu verið hægur vandi að koma því að í málinu eftirá. Vitnið kvað ákærðu ekki hafa verið spurða út í aðra kostnaðarþætti í rekstrinum en varðandi innkaup og birgja. Vitninu var bent á að í skýrslunni væri stofnkostnaðar hvergi getið. Spurður um hvort ekki hefði verið eðlilegt að taka stofnkostnað með í reikninginn, eignfærðan og afskrifaðan, þannig að hann kæmi til frádráttar, kvað vitnið þennan þátt ekki hafa verið kannaðan. Spurður um hvort eðlilegt væri að taka allt slíkt með áður en skattar væru álagðir svaraði vitnið að ef menn gætu sýnt fram á kostnað væri e.t.v. hægt að segja að það væri eðlilegt. Vitninu var þá bent á að rannsóknarmenn hefðu verið að rannsaka meinta refsiverða háttsemi og að þeim hefði einnig borið að kanna það sem væri sakborningum í hag. Vitnið kvað ætlun þeirra ekki hafa verið að undanskilja neitt, en meira en það sem fram kæmi í málinu hefði ekki verið kannað.
Vitninu var bent á að í skýrslugjöf ákærða, Helga Marteins, hjá skattrannsóknarstjóra 24. apríl 1995 hefði hann nefnt nöfn nokkurra birgja, svo sem Gripið og greitt hf. og Tengis hf. og viðskiptamanna svo sem Húsasmiðjunnar hf. og BYKO hf. auk tveggja útvarpsstöðva sem félagið hefði keypt auglýsingar hjá. Spurður um hvort haft hefði verið samband við þessi fyrirtæki kvaðst vitnið ekki geta fullyrt neitt um það, enda hefði hann ekki séð um upplýsingaöflun hjá þessum fyrirtækjum. Hann teldi þó að það hefði verið kannað. Spurður um hvort skoðað hefði verið hvort um staðgreiðsluviðskipti gæti hafa verið að ræða, þannig að þessi viðskipti hefðu ekki verið bókfærð sem reikningsviðskipti og hvort verið gæti að þar kæmi fram eitthvert frávik eða hvort eitthvað hefði verið staðgreitt sem kæmi ekki fram á viðskiptamannayfirliti svaraði vitnið að þeir vissu ekki hvort félagið hefði átt staðgreiðsluviðskipti til að mynda um gosdrykki. Beðið hefði verið um upplýsingar varðandi öll viðskipti við Blámenn hf. Í ljósi þess að eingöngu væru upplýsingar um viðskipti við ÁTVR og Vífilfell, fyndist vitninu líklegt að ekki hefði verið um að ræða viðskipti hjá öðrum.
Vitnið var beðið að láta uppi álit á því hve nákvæma hann teldi rannsóknina vera í tölum, hve mikið frávik hann teldi vera varðandi fjárhæðir. Vitnið kvað það mat sitt varðandi tekjurnar að um algjörar lágmarksfjárhæðir væri að ræða og vísaði þar um til álagningarprósentunnar sem hann teldi of lága. Síðan væri hugsanlegt að um væri að ræða einhver útgjöld eins og komið hefði fram varðandi húsaleigu og rekstur á húsnæði, en hver þau hefðu verið væri ómögulegt að segja.
Varðandi álagningu á tóbak kvað vitnið það hafa komið fram í skýrslutöku að ákærðu teldu hana hafa verið 40% og reiknað væri með því varðandi þann þátt. Spurður um hvort rannsóknarmenn hefðu sundurgreint áfengið með einhverjum hætti, svo sem léttvín, sterkt vín og bjór og skoðað álagninguna í því samhengi og reynt að finna út hvernig salan skiptist milli þessara flokka kvað vitnið að um hefði verið að ræða mismunandi álagningu að einhverju leyti, en til einföldunar hefði 110% meðalálagningin verið notuð. Vitnið kvað rýrnunina hafa verið tekna með, þannig að spurt hefði verið hver álagning hefði verið á þessa þætti að teknu tilliti til tilboða. Spurður um hvort rannsóknarmenn hefðu einhverjar upplýsingar um hvað teldist eðlileg rýrnun á stöðum sem þessum eða hver mætti ætla að rýrnunin væri í ljósi þess að í sumum vöruflokkum, svo sem bjór, einkum kranabjór, væri oft veruleg rýrnun vegna ýmis konar vandamála sem þar kæmu upp, kvað vitnið einhvern tíma hafa verið reynt að meta þetta og alls konar svör komið fram, en hann hefði heyrt nefnda 5-10% rýrnun.
Spurður um hvort hann gæti nefnt tölu um sambærileg fyrirtæki sem hann hefði tekið þátt í að rannsaka um svipað leyti og rannsókn þessi fór fram. Vitnið giskaði á að hann hefði komið nærri rannsókn tveggja til fimm slíkra fyrirtækja. Ítrekað spurður hversu áreiðanlega vitnið teldi þessa áætlun vera og hve mikil frávik hann gæti hugsanlega ímyndað sér kvað vitnið að varðandi tekjurnar væri byggt á framburði forráðamanna varðandi álagninguna, sem hann teldi of lága. Því áliti hann að salan hefði verið talsvert meiri en tölurnar segðu til um. Þessi niðurstaða byggði eingöngu á ákveðnum forsendum varðandi álagningu og vörukaup. Rannsóknarmenn hefðu fengið upplýsingar frá ákærðu um vörukaup fyrirtækisins á þessum tíma og einnig upplýsingar um álagningu á hinar aðkeyptu vörur. Eins og hann hefði áður sagt teldi hann álagninguna vera hærri og þá gæfi það auga leið að salan hefði verið töluvert hærri en þetta. Þetta væri lágmarksfjárhæð að mati vitnisins, byggð á framburði ákærðu og gögnum varðandi vörukaup og engu við bætt í því tilliti. Frávikið yrði því fremur til hækkunar en lækkunar.
Vitnið, Sigurður Jensson, vann að skattrannsókninni ásamt vitninu, Ragnari Björnssyni. Vitnið kvaðst við upphaf rannsóknarinnar, þann 3. mars 1995, hafa farið í starfsstöð félagsins. Lýsti vitnið aðkomu starfsmanna skattrannsóknarstjóra þannig að starfsmaður, sem eftir því sem vitninu skildist var að vinna við ræstingar eða hreinsun, hefði hleypt þeim inn. Forráðamenn félagsins hefðu ekki verið á staðnum, en síðar um daginn hefðu rannsóknarmenn hitt ákærða, Helga Martein, raunar annars staðar, farið með honum í Austurstræti 22 og afhent honum bréf skattrannsóknarstjóra, dagsett 23. febrúar 1995. Þegar spurst var fyrir um bókhaldið, hefði þeim verið sagt að það hefði glatast. Það hefði verið sett út á þak skemmtistaðarins sem hreinsunardeild borgarinnar hefði hreinsað af og í þeim aðgerðum hefði bókhaldið verið tekið. Spurður um hvort rannsóknarmenn hefðu framkvæmt húsleit svaraði vitnið að þeir hefðu skoðað inn í eitt herbergjanna sem bent hefði til að væri skrifstofuaðstaða. Þeir hefðu skoðað sig um og leitað eftir bókhaldsgögnum og litast um eftir stað sem hugsanlegt væri að bókhaldsgögn væru geymd á. Kvaðst vitnið ekki minnast þess að nokkuð hefði fundist nema ef vera kynni ein minnisbók. Virðisaukaskattskýrslurnar sem fyrir lægju í málinu hefðu ekki verið á starfsstöð félagsins þegar rannsóknin hófst. Þær hefðu borist síðar og þá verið afhentar í skrifstofu embættis skattrannsóknarstjóra. Vitninu var þá bent á að þetta væri ekki rétt. Vitnið kvað sig minna að skýrslurnar hefðu a.m.k. ekki verið fyrirliggjandi samdægurs. Spurður um hvernig virðisaukaskattskýrslurnar hefðu komist í hendur rannsóknarmanna kvað vitnið að í huga sínum væri það ákærði, Helgi Marteinn, sem hefði afhent þær. Kvaðst vitnið ekki muna gjörla hvernig þær komu, en hann héldi því fram að þær hefðu ekki verið afhentar sama dag og rannsóknin hófst.
Vitnið kvað öll bókhaldsgögn hafa vantað og þar sem þau voru ekki til staðar hefði þurft að finna einhverja leið til að átta sig á umfangi rekstrarins. Sú leið hefði verið farin að skoða gjöldin í starfseminni og í því sambandi hefðu verið send bréf til ÁTVR, Vífilfells hf. og fleiri aðila og þannig reynt að nálgast upplýsingar um hvað hugsanlega hefði verið selt til gesta veitingahússins. Út frá gögnunum sem bárust við fyrirspurnunum hefði verið lagður grunnur að áframhaldandi rannsókn málsins. Komið hefðu fram gögn sem bent hefðu sterklega til að þarna hefði verið umtalsverð starfsemi á þessu tímabili. Kvað vitnið þau gögn sem á væri byggt varðandi innkaup félagsins á áfengi, að frádregnu því áfengi sem það hefði selt öðrum, kaup á gosdrykkjum frá Vífilfelli hf. og kaup frá Gripið og greitt hf., m.a. á tóbaki, vera samkvæmt ábendingum ákærðu, einkum ákærða Helga Marteins. Vitninu var bent á að í ljós hefði komið að eftir mánaðamótin júní/júlí 1994 hefðu engin kaup átt sér stað á gosdrykkjum og þar af leiðandi engin sala. Vitnið kvað rannsóknarmenn engar frekari upplýsingar hafa haft en fram að þeim tímapunkti sem þeir fengu gögn um, og því hefðu þeir ekki farið út í að áætla neitt umfram það. Spurður um hvort reynt hefði verið að fara út fyrir útskýringar ákærðu varðandi gosdrykkjakaup kvað vitnið það ekki hafa verið gert. Þó minnti vitnið að haft hefði verið samband við Ölgerðina Egil Skallagrímsson hf., en úr þeirri könnun hefðu engar niðurstöður komið. Benti vitnið á að mögulegt hefði verið að kaupa gosdrykkina í matvöruverslunum, en rannsóknarmenn hefðu engar forsendur haft til að nálgast slíkar upplýsingar. Tók vitnið fram að ekki hefði verið leitað til annarra fyrirtækja en þessara tveggja varðandi gosdrykkjakaupin.
Vitninu var bent á að reiknað væri með gestafjölda miðað við þá aðgöngumiða sem keyptir voru hjá tollstjóra að frádregnum þúsund miðum sem keyptir hefðu verið í ársbyrjun 1995. Spurður um hvort þessir þúsund miðar hefðu verið til staðar ónotaðir á staðnum kvað vitnið sig ekki reka minni til þess að hafa séð þá þar. Rannsóknarmenn hefðu metið það svo að vafasamt væri að taka þá með í útreikninga sína sökum þess um hve stutt tímabil var að ræða. Því hefðu þeir ákveðið að halda þessum miðafjölda utan við útreikningana þar sem ekkert hefði legið fyrir um að þeir hefðu verið notaðir.
Varðandi álagningu á vínveitingum og gosdrykkjum var vitninu bent á að reiknað væri með 110% sem ákærði Helgi Marteinn hefði lýst sem álagningunni. Vitnið var spurt hvort grundvöllur þessa hefði verið kannaður nánar og hvort þessi tala væri trúleg, líkleg eða eðlileg. Vitnið kvað hafa staðið yfir hjá embættinu rannsókn á öðrum veitingahúsum og miðað við gögn í þeim málum hefði hún verið í lægra lagi eða lágmarki. Ekki hefði verið farið út í að senda fyrirspurnir til annarra aðila. Framburður ákærðu hefði verið látinn standa, þótt rannsóknarmenn hefðu metið það svo að álagningin væri í lægra lagi. Spurður um hvort einhverju hefði munað sem máli skipti kvað vitnið þá hafa heyrt og séð álagningartölur uppá 250-300%, en 200% hefði ekki verið óeðlileg álagningartala.
Vitninu var bent á að í skýrslunni væri húsaleiga ekki tekin með í reikninginn. Spurður um hvort hann teldi að hún myndi hafa haft áhrif á virðisaukaskattinn kvað vitnið svo ekki vera. Sá þáttur hefði engu breytt varðandi þann kafla ákæru er tæki til virðisaukaskattsins.
Vitninu var bent á að fram hefði komið hjá vitninu, Gunnari Hjaltalín, að tekin hefði verið af honum skýrsla um húsaleigu og þann kostnað sem leigutaki hefði þurft að bera varðandi rekstur á húsinu, en um þetta kæmi ekkert fram í gögnum málsins. Vitnið kvað sig reka minni til að hafa farið til Gunnars og rætt við hann, en hann hefði ekki tekið skýrslu af honum. Spurður um eftir hvaða upplýsingum rannsóknarmenn hefðu verið að leita kvað vitnið þá hafa verið að fá það staðfest að Blámenn hf. hefðu haft starfsemi í umræddu húsnæði. Á þessu tímamarki hefðu þeir einkum verið að leita staðfestingar á að virðisaukaskattskyld starfsemi hefði farið fram í húsinu. Hann hefði ekki spurt Gunnar út í annan virðisaukaskattskyldan kostnað, svo sem hita og rafmagn. Þau atriði hefðu ekki verið rannsökuð frekar.
Vitninu var bent á að fram kæmi í skýrslunni að ákærði, Helgi Marteinn, hefði tilgreint ákveðna birgja sem félagið hefði átt viðskipti við. Einungis væri um að ræða upplýsingar um tvo þeirra, þ.e. ÁTVR og Vífilfell hf. Spurður um hvort hann kynni á þessu skýringu kvað vitnið rannsóknarmenn hafa fengið upplýsingar frá ÁTVR og Vífilfelli hf. og að þeir hefðu tekið tillit til gjalda og mögulegs innskatts frá þeim aðilum sem þeir hefðu fengið svör frá um viðskipti þessara aðila. Vitninu var bent á að gögn málsins bæru hvorki með sér að fyrirspurnir hefðu verið gerðar né svör fengist. Eins og gögnin væru fram sett mætti ætla að engar fyrirspurnir hefðu verið gerðar til þessara aðila. Vitnið kvað einhverjar fyrirspurnir hafa verið gerðar með því að hringja í viðkomandi. Sér fyndist að þannig hefði það verið með Tengi hf. Kvaðst vitnið álíta að starfsmenn þess fyrirtækis hefðu ekki fundið kennitölu Blámanna hf. á skrá hjá sér sem viðskiptamanns.
Vitninu var bent á að í skýrslunni kæmi fram að við útreikning virðisaukaskattsins tækju skýrsluhöfundar innkaup á hverju virðisaukaskattstímabili og reiknuðu síðan út eins og allt hefði verið selt á sama tímabili. Spurður um hvort þessi aðferð væri ekki bersýnilega röng þar sem samkvæmt henni liti út fyrir að veitingastaðurinn hefði tæmst af vörum í lok hvers virðisaukaskattstímabils, þar sem varan þyrfti ekki endilega öll að hafa selst á því tímabili. Vitnið kvað svo ekki þurfa að vera því vera kynni að verið væri að kaupa og selja fyrir dag og dag í senn.
Niðurstaða.
Ákærðu ber engan veginn saman um ábyrgð ákærða, Stefáns Axels, á rekstri Blámanna hf. Báðir hafa þeir lýst verksviði sínu hjá félaginu og hefur ákærði, Stefán Axel, verið þaulspurður þar um. Ákærði, Helgi Marteinn, heldur því fram að ákærði, Stefán Axel, hafi tekið þátt í ákvörðunum um hvaðeina er laut að rekstri félagsins til jafns við hann sjálfan, en því hefur sá síðarnefndi staðfastlega mótmælt. Þannig hefur ákærði, Stefán Axel, neitað því að störf hans hjá félaginu hafi verið stjórnunarstörf af neinu tagi. Þá fullyrðir hann að fjármálastjórn og færsla bókhalds hafi alfarið verið á verksviði og ábyrgð ákærða, Helga Marteins. Einu gögn málsins sem tengja ákærða, Stefán Axel, við fjármál félagsins eru þrjár virðisaukaskattskýrslur sem hann hefir staðfest að hafa útfyllt og undirritað, en það hafi hann gert að beiðni meðákærða og í því efni stuðst við tölur sem unnar voru upp úr bókhaldi félagsins af meðákærða. Enda þótt framburður ákærða sé lítt trúverðugur í þessum efnum þykir þó ekki unnt að hafna honum sem marklausum. Verður að telja að réttmætur vafi leiki á um þátt ákærða, Stefáns Axels, í ákvarðanatökum um þau málefni félagsins sem ákæra tekur til. Samkvæmt framansögðu og eins og gögnum málsins er háttað verður að telja ósannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Verður ákærði, Stefán Axel, því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Með játningu ákærða, Helga Marteins, og öðrum gögnum málsins er sannað að hann sem stjórnarformaður og einn af eigendum hlutafélagsins Blámanna hf. hafi ekki tilkynnt til skattstjórans í Reykjavík um virðisaukaskattskylda starfsemi félagsins og vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu vöru og þjónustu sem fram fór í starfsemi þess eins og nánar greinir í I. kafla ákæru.
Svo sem að framan greinir fundu rannsóknarmenn skattrannsóknarstjóra engin bókhaldsgögn þegar þeir komu í starfsstöð Blámanna hf. þann 3. mars 1995. Hins vegar fengu þeir afhentar, að líkindum síðar sama dag, sjö útfylltar virðisaukaskattskýrslur, fjórar undirritaðar af ákærða, Helga Marteini, og þrjár af ákærða, Stefáni Axel. Ákærði, Helgi Marteinn, fullyrðir að skýrslur þessar hafi ákærðu unnið á grundvelli bókhalds Blámanna hf. Takmarkast viðurkenning ákærða samkvæmt I. kafla ákæru á vangoldnum innheimtum útskatti við samtölu skýrslnanna, 1.490.410 krónur.
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því með hvaða hætti starfsmenn skattrannsóknarstjóra ríkisins fundu út og áætluðu vantalda virðisaukaskattskylda veltu félagsins og hvernig vangreiddur innheimtur útskattur var fundinn. Byggir I. kafli ákæru á þeirri rannsókn. Hefur ákærði, Helgi Marteinn, mótmælt þessum áætlunum og útreikningum og að þær verði lagðar til grundvallar í málinu, heldur eigi í þeim efnum að fara eftir játningu hans.
Áður er því lýst að þegar starfsmenn skattrannsóknarstjóra komu í starfsstöð félagsins fundust þar engin bókhaldsgögn, svo og hvaða skýring þeim var gefin á afdrifum bókhaldsgagnanna. Telja rannsóknarmennirnir í skýrslu sinni frásögn ákærðu um varðveislu bókhalds og bókhaldsgagna afar ótrúverðuga. Þá telja þeir að ekkert bendi til að fullyrðingar ákærðu varðandi bókhald og tekjuskráningu félagsins séu réttar. Ákærðu hafa hins vegar verið samsaga um það við rannsókn og meðferð málsins að bókhald hafi verið haldið. Þá halda þeir því báðir fram að virðisaukaskattskýrslurnar sem rannsóknarmennirnir fengu afhentar byggi á upplýsingum úr uppfærðu bókhaldi félagsins.
Sem fyrr greinir mótmælir ákærði, Helgi Marteinn, framangreindum útreikningum og áætlunum. Byggir hann mótmæli sín einkum á því að álagningarprósenta áfengis sé of há og einnig því að í áætlununum sé gengið út frá því að ekkert áfengi hafi verið til í veitingahúsinu við upphaf hvers virðisaukaskattstímabils. Þá heldur hann því fram að þegar félagið hætti starfsemi hafi það selt Stuðlafelli hf. áfengislager fyrirtækisins.
Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 segir: „Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslur eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð.” Skilja verður orðalag greinarinnar svo að andlag brots sé grundvöllur ákvörðunar sektar. Engar reglur eru lögfestar um það hvernig andlag brots gegn 1. mgr. 40. gr. laganna er ákvarðað og er sönnunarmatið því frjálst. Það er álit dómsins að ákæruvaldið hafi ekki lagt fram gögn sem gera dóminum kleift að meta sjálfstætt og á grundvelli rannsóknargagna hvort um vantalda skattskylda veltu í starfsemi félagsins og vantalinn virðisaukaskatt hafi verið að ræða umfram það sem ákærði, Helgi Marteinn, hefur viðurkennt og hver sú fjárhæð myndi verða. Mat dómsins yrði því að byggjast á áætlunum og mati, á sambærilegan hátt og gert er í skýrslu skattrannsóknarstjóra, en í því fælist að verið væri að áætla andlag brotsins. Í ljósi þess að grundvöllur refsiákvörðunar verður ekki reistur á áætlunum án sérstakrar lagaheimildar, sem eins og fyrr segir er ekki til að dreifa, verða áætlanir þær sem ákæra er reist á ekki lagðar til grundvallar. Ákærði, Helgi Marteinn, hefur eins og áður getur viðurkennt að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 1.490.410 krónur. Með játningu ákærða sem fær að þessu leyti stoð í gögnum málsins telst sannað að hann hafi sem stjórnarformaður og einn af eigendum hlutafélagsins Blámanna hf. ekki staðið tollstjóranum í Reykjavík skil á ofangreindri fjárhæð svo sem lög áskilja. Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Í II. kafla ákæru er ákært fyrir brot gegn lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981. Ákærði, Helgi Marteinn, mótmælir útreikningum þeim og áætlunum er liggja til grundvallar II. kafla ákæru. Byggir hann mótmæli sín á sömu forsendum og varðandi I. kafla ákæru, en til viðbótar bendir hann á að engin rannsókn hafi farið fram á frádráttarbærum útgjaldaliðum á borð við húsaleigu. Þetta sé einnig staðfest af vitnunum Ragnari Björnssyni og Sigurði Jenssyni.
Í 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995 segir: „Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um tekjuskatt sinn eða eignaskatt skal hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Skattur af álagi skv. 106. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.” Skilja verður tilvitnaða lagagrein með sama hætti og 1. mgr. 40. gr. laganna um virðisaukaskatt, það er að andlag brots sé grundvöllur ákvörðunar sektar og þar sem engar reglur séu lögfestar um það hvernig andlag brots er ákvarðað sé sönnunarmatið frjálst. Með sama hætti og áður greinir er það álit dómsins að ákæruvaldið hafi ekki lagt fram gögn sem gera dóminum kleift að meta sjálfstætt og á grundvelli rannsóknargagna hvort tekjur félagsins hafi numið þeirri fjárhæð sem haldið er fram í II. kafla ákæru og að vangreiddur tekjuskattur hafi þar með numið þeirri fjárhæð sem þar greinir. Að öðrum kosti yrði mat dómsins að byggjast á fyrirliggjandi áætlunum, en í því fælist að verið væri að áætla andlag brotsins. Í ljósi þess að grundvöllur refsiákvörðunar verður ekki reistur á áætlunum án sérstakrar lagaheimildar, sem er ekki til að dreifa í lögum þessum, verða áætlanir þær sem II. kafli ákæru er reistur á ekki lagðar til grundvallar. Verður ákærði samkvæmt því sýknaður af II. kafla ákæru um framangreind atriði.
Í 6. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. mgr. laga nr. 42/1995 segir svo: „Hafi maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni samkvæmt ákvæðum 91., 92. eða 94. gr. skal hann sæta sektum eða varðhaldi.” Ákærði hefur viðurkennt að hafa látið undir höfuð leggjast að skila skattskýrslu og telja fram til skatts tekjur félagsins vegna gjaldársins 1993. Með játningu ákærða er sú háttsemi hans sönnuð. Áður hefur verið gerð grein fyrir afdrifum bókhaldsgagna félagsins og því að af þeim sökum hafi ekki reynst unnt að skila skattaskýrslu og telja fram til skatts tekjur félagsins vegna gjaldársins 1994. Líta verður svo á að meðferð þeirra gagna sem bókhald félagsins átti að byggjast á lýsi stórkostlegu hirðuleysi og vanrækslu. Þykir verða að gera ákærða ábyrgan fyrir meðferðinni á bókhaldsgögnunum sem varð þess valdandi að skattframtali var ekki skilað til skattstjóra vegna gjaldársins 1994. Framanlýst háttsemi ákærða varðar við 6. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995.
Samkvæmt 3. mgr. 93. gr. laga nr. 75/1981 er framtalsfrestur lögaðila 31. maí ár hvert. Bú Blámanna hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. apríl 1996. Var forræði ákærða á málefnum félagsins þar með úr höndum hans. Í ljósi þess verður ekki felld sök á ákærða fyrir að láta hjá líða að skila skattframtali vegna gjaldársins 1995. Verður ákærði samkvæmt því sýknaður af II. kafla ákæru að því er það ár varðar.
Í III. kafla ákæru er ákært fyrir brot gegn bókhaldslögum og lögum um ársreikninga. Ákærði, Helgi Marteinn, hefur við rannsókn og meðferð málsins staðfastlega haldið því fram að lögboðið bókhald hafi verið haldið fyrir félagið og ákærði, Stefán Axel, telur að svo hafi verið. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til að fullyrðingar ákærðu varðandi bókhald og tekjuskráningu séu réttar. Engin gögn séu til staðar sem rennt geti stoðum undir framburð þeirra. Framburður ákærðu um þetta ákæruatriði er lítt trúverðugur, en ekki þykja þó efni til að hafna honum sem marklausum. Að því virtu og gegn eindreginni neitun ákærða, Helga Marteins, verður að telja sannað að lögboðið bókhald hafi verið haldið fyrir hlutafélagið Blámenn hf. á árunum 1993, 1994 og 1995.
Í 82. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1995 segir svo: „Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara á þann hátt sem lýst er í 84.-87. gr. skal sæta fésektum, en brot gegn 83. gr. og önnur meiri háttar brot brot gegn 84. og 85. gr. varða varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum skv. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar.” Í 1. mgr. 83. gr. sömu laga, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1995 segir: „Svofelld háttsemi stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félaga skv. 1. gr. telst ætíð meiri háttar brot gegn þeim.” Síðan segir í 2. tl. 1. mgr.: „Ef þeir rangfæra ársreikning, samstæðureikning eða einstaka hluta þeirra, byggja ekki samningu þeirra á niðurstöðu bókhalds eða láta rangar eða villandi upplýsingar fylgja, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga.” Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekki látið gera ársreikning fyrir félagið vegna ársins 1993 og borið því við að hann hafi ætlað að taka það ár með við gerð ársreiknings 1994 sökum þess hve skammur rekstrartíminn var á árinu 1993. Í 91. grein laganna segir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1995 og skuli gilda um ársreikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst frá og með þeim tíma. Ljóst er samkvæmt framansögðu að lögin taka ekki til áranna 1993 og 1994. Verður ákærða því ekki refsað fyrir brot gegn lögunum að því er þau ár varðar. Lögin eiga hins vegar við um ætlað brot ákærða að því er varðar árið 1995. Í því sambandi er þess að geta að bú Blámanna hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. apríl 1996. Var forræði ákærða á málefnum félagsins þar með úr höndum hans. Í ljósi þess verður ekki felld sök á ákærða fyrir að láta hjá líða að gera ársreikning fyrir félagið vegna ársins 1995. Verður ákærði samkvæmt því sýknaður af III. kafla ákæru að því er það ár varðar.
Áður en lögin um ársreikninga voru sett var engum slíkum lögum til að dreifa. Hins vegar voru sérstök ákvæði um ársreikninga í III. kafla bókhaldslaga nr. 51/1968 og XII. kafla hlutafélagalaga. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. síðarnefndra laga skal reikningsár hlutafélags vera tólf mánuðir, en við stofnun félags getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó ekki lengra en átján mánuðir. Sambærilegt ákvæði er í 8. gr. laganna um ársreikninga. Ákærði hefur gefið þá skýringu að hann hafi ætlað að gera saman ársreikning fyrir árin 1993 og 1994, en það hefði honum verið heimilt samkvæmt tilvitnuðu ákvæði í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 32/1978, enda var félagið ekki stofnað fyrr en snemma í nóvember 1993. Honum hefði einnig verið heimilt á sama grundvelli að láta ársreikninginn taka til starfsemi félagsins allt árið 1994. Þegar haft er í huga að félagið hætti í raun starfsemi í byrjun árs og með vísan til þess sem að framan greinir verður ákærði einnig sýknaður af III. kafla ákæru að því er varðar gerð ársreiknings vegna ársins 1994.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess að brotastarfsemi hans stóð yfir í rúmt ár og að ákveðin leynd hvíldi yfir henni þar sem aldrei var tilkynnt um hina virðisaukaskattskyldu starfsemi til skattyfirvalda. Á hinn bóginn ber að líta til þess að starfsemi félagsins fólst í rekstri skemmtistaðar sem hafði vínveitingaleyfi og að ákærði átti í þeim umsvifum sem fyrirsvarsmaður félagsins viðskipti við opinber fyrirtæki og stofnanir á borð við ÁTVR, tollstjórann í Reykjavík og lögreglustjórann í Reykjavík. Þá ber og að líta til þess að ákærði veitti fúslega umbeðnar upplýsingar og torveldaði á engan hátt rannsókn málsins. Jafnframt ber að hafa hliðsjón af þeim tíma sem leið frá upphafi rannsóknarinnar þar til ákæra var út gefin.
Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu við refsiákvörðun að öðru leyti en því að honum verður gerður hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, við þrjár sáttir sem hann gekkst undir fyrir akstur sviptur ökurétti í mars og júní 1995 og janúar 1996.
Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Unnt þykir með hliðsjón af atvikum öllum að ákveða að fresta skuli fullnustu refsingarinnar í þrjú ár frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Þá verður ákærði einnig dæmdur til greiðslu sektar til ríkissjóðs er þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur og komi fangelsi í 70 daga í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Marteins Gunnlaugssonar, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, þykja hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Verður ákærði dæmdur til greiðslu málsvarnarlaunanna að 2/5 hlutum, en 3/5 hlutar þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Axels Stefánssonar, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Þar sem ákærði er sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu verða málsvarnarlaunin felld á ríkissjóð.
Saksóknarlaun í ríkissjóð eru hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Rétt þykir að ákærði, Helgi Marteinn, verði dæmdur til að greiða þau að 1/3 hluta, en ríkissjóður að 2/3 hlutum. Loks þykir rétt að ákveða að annan sakarkostnað greiði ákærði að 1/3 hluta, en 2/3 hlutar hans verði lagðir á ríkissjóð.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, Helgi Marteinn Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar í 3 ár frá uppkvaðningu dóms þessa, og falli hún niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 70 daga.
Ákærði, Stefán Axel Stefánsson, er sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu.
Ákærði, Helgi Marteinn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur, að 2/5 hlutum, en 3/5 hlutar greiðist úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Axels, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Saksóknarlaun í ríkissjóð, 180.000 krónur, greiði ákærði, Helgi Marteinn, að 1/3 hluta, en ríkissjóður að 2/3 hlutum. Annan sakarkostnað greiði ákærði, Helgi Marteinn, að 1/3 hluta, en ríkissjóður að 2/3 hlutum.