Hæstiréttur íslands
Mál nr. 471/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 6. desember 1999. |
|
Nr. 471/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. mars 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdómara til að fá hann felldan úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 1999.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. mars nk., kl. 16.00
Kærði hefur verið í gæsluvarðahaldi í þágu málsins frá 2. október sl. og úrskurður um gæsluvarðhald frá þeim tíma rennur út þann 8. desember n.k.
[...]
Samkvæmt 1. mgr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal hver sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, sæta fangelsi allt að 10 árum. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skál sá sæta sömu refsingu, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana-og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt sem greinir í 1. mgr.
Eins og að framan greinir hefur kærði játað að hafa átt þátt í innflutningi á hættulegum vímuefnum sem hefðu getað stofnað heilsu fólks í hættu hefðu þau komist í umferð. Er því sterkur grunur um að kærði hafi brotið gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940. Brot það sem hann er grunaður um að hafa framið getur varðað allt að 10 ára fangelsisrefsingu. Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála má úrskurða mann í gæsluvarðhald ef sterkur grunur er um að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Af því sem nú hefur verið rakið þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 til að úrskurða megi kærða í gæsluvarðhald og er því krafa lögreglustjóra er tekin til greina eins og hún er fram sett.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði X sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. mars nk. kl. 16.00.