Hæstiréttur íslands
Mál nr. 50/2003
Lykilorð
- Frávísunarkröfu hafnað
- Kaupsamningur
- Greiðsla
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2003. |
|
Nr. 50/2003. |
Hannes Þ. Smárason(Othar Örn Petersen hrl.) gegn Arnari Hannesi Gestssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Frávísun frá héraðsdómi hafnað. Kaupsamningur. Greiðsla.
AG og H deildu um það hvort greiðsla með tékka, sem reyndist innstæðulaus við sýningu, teldist fullnægjandi. Tékkinn var notaður sem gjaldmiðill í tengslum við kaup H og AJ á öllum hlutum í einkahlutafélagi AG. Var það talin meginregla í kröfurétti að greiðsla með tékka leysi skuldara ekki undan greiðsluskyldu komi í ljós að ekki er innstæða fyrir tékkanum og gildi þá einu þótt gefin hafi verið út fyrirvaralaus kvittun. Var því ljóst að kaupsamningurinn hafði ekki verið efndur að þessu leyti gagnvart AG. Kröfur AG um efndir samkvæmt kaupsamningnum voru því teknar að fullu til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2003 og krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að áfrýjandi verði sýknaður af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að aðalkröfu áfrýjanda verði vísað frá Hæstarétti og hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir héraðsdómi krafðist áfrýjandi að málinu yrði vísað frá dómi. Var kröfu hans hafnað með úrskurði 25. október 2002. Er aðalkrafa áfrýjanda að niðurstöðu þess úrskurðar verði hnekkt. Með vísan til forsendna úrskurðarins verður aðalkröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi hafnað, en stefndi hefur ekki fært nein haldbær rök fyrir því að þeirri kröfu skuli vísað frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður þó þannig að tildæmd fjárhæð ber dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. apríl 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi, Hannes Þ. Smárason, greiði stefnda, Arnari Hannesi Gestssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 20. og 22. mars s.l.
Stefnandi er Arnar Hannes Gestsson, kt. 070154-3829, Birkihlíð 48, Reykjavík.
Stefndu eru Hannes Þ. Smárason, kt. 251167-3389, Blikanesi 9, Garðabæ og Arnar Jóhannsson, kt. 050165-4509, Bergstaðastræti 46, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 2.105.887 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 6. apríl 2000 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt reikningi.
Dómkröfur stefnda Hannesar Þórs eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
Þingsókn féll niður af hálfu stefnda Arnars áður en til þess kæmi að hann skilaði greinargerð í málinu. Verður málið því dæmt að því er þennan stefnda varðar á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi Hannes krafðist frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði upp kveðnum 25. október s.l.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að stefnandi seldi stefndu alla hluti í einkahlutafélaginu Hlíðasmára 6 með kaupsamningi dagsettum 6. apríl 2000, en félagið mun hafa verið eigandi allrar lóðarinnar Hlíðasmára 6 í Kópavogi. Umsamið kaupverð var kr. 65.090.000 og átti samkvæmt 1. tl. samningsins að greiðast með peningum við undirritun hans, kr. 18.984.113. Þá skyldi við undirritun greiða til Sparisjóðs vélstjóra skv. kostnaðaruppgjöri kr. 2.105.887 samkvæmt 2. tl. samningsins og að lokum með skilyrtu veðleyfi vegna láns frá Samvinnusjóði Íslands hf. með veði í 1. veðr. í umræddri lóð, kr. 44.000.000, sbr. 3. tl. samningsins. Í samningnum er ákvæði þess efnis að félagið sé ekki með þinglýsta eignarheimild fyrir lóðinni en báðum aðilum sé það fullljóst og fullmeðvitað að Sparisjóður vélstjóra, sem sé þinglýstur eigandi lóðarinnar, muni afsala lóðinni beint yfir á félagið um leið og greiðslur samkvæmt 1. og 2. tl. hafi átt sér stað.
Stefnandi heldur því fram að stefndi Arnar hafi gefið út tékka að fjárhæð kr. 2.168.850 dagsettan 11. apríl 2000, stílaðan á Sparisjóð vélstjóra í samræmi við 2. tl. kaupsamningsins. Þegar tékkinn var sýndur sama dag kom í ljós ekki var næg innstæða fyrir honum og mun stefnandi hafa innleyst andvirði tékkans 29. júní sama ár með greiðslu á kr. 2.279.882. Með yfirlýsingu sparisjóðsins dagsettri 6. mars s.l. var því lýst yfir að hann framseldi kröfu sína kr. 2.105.887 á hendur kaupendum skv. 2. tl. samningsins til stefnanda frá og með 29. júní 2000 og var því lýst yfir að honum væri heimilt að innheimta kröfuna og reikna dráttarvexti frá dagsetningu kaupsamningsins.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á því að hann hafi efnt ákvæði kaupsamningsins að fullu með afhendingu hluta sinna í félaginu og hafi hann að sjálfsögðu ætlast til að stefndu stæðu við greiðsluloforð sín samkvæmt efni samningsins. Stefndu hafi ekki staðið við greiðslu samkvæmt 2. tl. kaupsamningsins og beri því solidariska ábyrgð á því að þessi greiðsla verði réttilega efnd samkvæmt efni kaupsamningsins og almennum reglum kröfuréttar. Þeim hafi borið skylda til að greiða umsamda greiðslu samkvæmt 2. tl. samningsins til Sparisjóðs vélstjóra, en það hafi þeir enn ekki gert.
Eftir að í ljós hafi komið að engin innstæða hafi reynst á tékkareikningi stefnda Arnars hafi stefnandi ákveðið að standa Sparisjóði vélstjóra skil á kostnaðaruppgjörinu samkvæmt 2. tl. samningsins og þannig uppfyllt skyldu stefndu. Með greiðslu stefnanda og yfirlýsingu sparisjóðsins um kröfuframsal hafi stefnandi eignast kröfuna á hendur stefndu. Stefndu hafi ekki fengist til að greiða umrædda fjárhæð þrátt fyrir áminningar í tölvupósti 9. mars 2001 og innheimtubréf 8. maí sama ár.
Stefnandi vísar til laga nr. 7/1936 og almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu og efndir fjárskuldbindinga og framsal kröfuréttinda. Dráttarvaxtakrafa stefnanda er byggð á III. kafla vaxtalaga og krafa um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.
Stefndi Hannes byggir á því að með umræddum kaupsamningi hafi stefnandi selt alla hluti í félaginu án nokkurra fyrirvara eða skilyrða gagnvart kaupendum. Í kaupsamningi sé tekið fram að greiðslur séu inntar af hendi við undirritun enda hafi stefndu tekið við hlutunum sama dag. Með slíkri einhliða yfirlýsingu hafi stefnandi misst þann rétt sem hann hefði hugsanlega getað átt á hendur stefnda Hannesi. Þá bendir stefndi á að hafi tékkinn verið til greiðslu á hluta kaupverðs hafi stefnanda verið í lófa lagið að kanna hvort innstæða væri fyrir hendi við móttöku hans. Stefndi Hannes hafi greitt fyrir sinn hlut í kaupunum og hafi ekki verið kunnugt um greiðslufall tékkans fyrr en um ári eftir kaupin. Eigi stefnandi kröfur vegna tékkans sé það eingöngu á hendur meðstefnda Arnari. Hafi stefndi Hannes mátt vera í góðri trú um það að allar greiðslur hefðu verið inntar af hendi án eftirmála. Sé réttur stefnanda, hafi hann verið fyrir hendi, fallinn niður sakir tómlætis.
Stefndi byggir á því að stefnandi geti ekki haft uppi kröfu vegna tékkans þar sem framsal hans hafi sannanlega ekki farið fram þegar stefnandi innleysti hann. Sé krafa samkvæmt tékkanum fallin niður og geti stefnandi einungis átt skaðabótakröfu á hendur útgefanda tékkans. Sparisjóðurinn geti ekki átt kröfu samkvæmt kaupsamningnum og því geti stefnandi ekki öðlast kröfu frá sparisjóðnum fyrir framsal. Stefnandi geti einungis átt kröfu á hendur meðstefnda Arnari á grundvelli tékkans. Ekkert beint réttarsamband sé samkvæmt tékkanum á milli stefnanda og stefnda Hannesar. Stefnandi hafi kvittað fyrirvaralaust fyrir greiðslu á seldum hlutum samkvæmt skýru efni kaupsamningsins.
Stefndi reisir málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Eins og að framan er rakið verður málið dæmt að því er stefnda Arnar varðar á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, en þingsókn féll niður af hans hálfu áður en til þess kæmi að hann skilaði greinargerð.
Ágreiningur stefnanda og stefnda Hannesar í máli þessu snýst um það hvort greiðsla stefnda Arnars samkvæmt 2. tl. kaupsamnings með tékka, sem reyndist innstæðulaus við sýningu, teljist fullnægjandi.
Í máli þessu verður að telja nægilega upplýst að tékki sá sem mál þetta snýst um var notaður sem gjaldmiðill í tengslum við kaup stefndu á öllum hlutum í einkahlutafélaginu Hlíðarsmára 6. Samkvæmt 2. tl. kaupsamningsins var svo um samið að stefndu greiddu við undirritun kr. 2.105.887 samkvæmt kostnaðaruppgjöri til Sparisjóðs vélstjóra. Hefur verið upplýst í málinu að stefndi Arnar afhenti fyrirsvarsmanni sparisjóðsins tékka að fjárhæð kr. 2.168.850 en hann reyndist innstæðulaus við sýningu nokkrum dögum síðar. Í kaupsamningi er ekki vikið að því að þessi háttur skyldi hafður á og er ósannað að stefnanda hafi verið um það kunnugt. Réttar efndir samningsins að þessu leyti gagnvart stefnanda hefðu því verið þær að sparisjóðnum hefði borist fullnægjandi greiðsla frá stefndu í samræmi við 2. tl. samningsins. Stefnandi hefur innleyst umræddan tékka og hafa innheimtutilraunir hans ekki borið árangur. Telja verður það meginreglu í kröfurétti að greiðsla með tékka leysi skuldara ekki undan greiðsluskyldu sinni komi í ljós að ekki er innstæða fyrir tékkanum og gildir þá einu þótt gefin hafi verið út fyrirvaralaus kvittun. Af framansögðu er því ljóst að stefndu hafa enn ekki efnt kaupsamninginn að þessu leyti gagnvart stefnanda. Ekki verður fallist á að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis, enda verður að telja að hann hafi haldið kröfu sinni nægilega til haga. Stefnandi innleysti tékkann 29. júní 2000 og samkvæmt gögnum málsins gerði hann reka að málshöfðun í byrjun mars árið eftir. Verða kröfur stefnanda því teknar að fullu til greina.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda in solidum kr. 350.000 í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Hannes Þ. Smárason og Arnar Jóhannsson, greiði in solidum stefnanda, Arnari Hannesi Gestssyni, kr. 2.105.887 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 6. apríl 2000 til greiðsludags og kr. 350.000 í málskostnað.