Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 302/2003. |
Benedikt Karlsson(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Björgvin Ásgeirssyni og (Othar Örn Petersen hrl.) sýslumanninum á Selfossi (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala.
BK kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns um að fella ekki niður nauðungarsölu á fasteign hans og taka við greiðslu á hluta söluverðs hennar úr hendi BÁ til samþykkis á boði hans í eignina. Við uppboð á eigninni var BÁ hæstbjóðandi og var honum greint frá því að boð hans yrði samþykkt ef greiðsla bærist samkvæmt því og í samræmi við breytta uppboðsskilmála. BK sem var viðstaddur uppboðið, ritaði undir bókun um það í gerðabók, svo og sérstakt skjal um framangreinda breytingu á uppboðsskilmálum. Um það leyti sem BÁ bar að inna af hendi greiðslu til samþykkis boðs síns, leitaðist BK við að fá nauðungarsöluna fellda niður. BÁ innti af hendi greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum á þeim tíma sem ákveðinn hafði verið og var boð hans í fasteignina þar með samþykkt. Boð BK um greiðslu á 500.000 krónum upp í tæplega 6.500.000 kr. kröfu, sem sýslumaðurinn leitaði fullnustu á við nauðungarsöluna, skyldaði hann á engan hátt til að fella niður beiðni sína um hana og það gerði hann heldur ekki. Án tillits til þess hvort aðrir gerðarbeiðendur hefðu fyrir samþykki boðs BÁ í eigninga verið búnir að fella niður beiðnir sínar voru af þessum ástæðum engin efni til að fella niður nauðungarsöluna í heild vegna ákvæða 1. mgr. og 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991. Breytti engu í þessu sambandi að sýslumaðurinn hefði ekki mátt vænta greiðslu upp í kröfu sína af þeirri fjárhæð, sem varnaraðilinn BÁ hafði boðið í fasteignina. Þegar af þessari ástæðu var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. júní 2003, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um að fella ekki niður nauðungarsölu á fasteigninni Hlíðartungu í Sveitarfélaginu Ölfusi og um að taka við greiðslu á hluta söluverðs hennar úr hendi varnaraðilans Björgvins Ásgeirssonar til samþykkis á boði hans í hana. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði að sýslumanni hafi borið að fella niður nauðungarsölu á fyrrgreindri fasteign, svo og að honum hafi ekki verið rétt að taka við greiðslu á hluta söluverðs hennar til samþykkis á boði hæstbjóðanda. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðilinn Björgvin Ásgeirsson krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn sýslumaðurinn á Selfossi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Aðalkrafa varnaraðilans Björgvins er einkum reist á því að kæra sóknaraðila hafi ekki komið fram í tæka tíð. Hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp á dómþingi 25. júní 2003, sem aðeins var sótt af hendi varnaraðilans sýslumannsins á Selfossi, en lögmönnum annarra málsaðila hafi verið sendur úrskurðurinn með símbréfi 26. sama mánaðar. Kærufresti hafi þannig lokið 10. júlí 2003, en kæran fyrst komið fram degi síðar.
Í gögnum málsins liggur ekki fyrir staðfesting, hvorki af hendi héraðsdómara né sóknaraðila, um hvenær sá síðastnefndi kann að hafa fengið hinn kærða úrskurð sendan og þar með fengið vitneskju um efni hans, sbr. 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991. Af þeim sökum er ekki unnt að slá því föstu að sóknaraðila eða lögmanni hans hafi orðið kunnugt um lyktir málsins svo fljótt að kærufrestur geti talist hafa verið liðinn þegar kæra kom fram. Vegna þessa og með því að varnaraðili hefur ekki fært önnur haldbær rök fyrir aðalkröfu sinni verður henni hafnað.
II.
Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara hélt sýslumaðurinn á Selfossi 12. desember 2002 áfram uppboði við nauðungarsölu á fasteigninni Hlíðartungu. Gerðarbeiðendur við nauðungarsöluna voru Lífeyrissjóðurinn Framsýn, tollstjórinn í Reykjavík og sýslumaðurinn á Selfossi, en sóknaraðili var gerðarþoli. Áður en leitað var boða í eignina var uppboðsskilmálum breytt á þann veg að frestur kaupanda til að greiða fjórðung söluverðs hennar til að fá boð sitt samþykkt var ákveðinn til 16. janúar 2003, en bjóðendur skyldu vera bundnir við boð sín til og með 23. sama mánaðar. Við uppboðið varð varnaraðilinn Björgvin hæstbjóðandi. Honum var greint frá því að boð hans yrði samþykkt ef greiðsla bærist samkvæmt því og í samræmi við breytta uppboðsskilmála 16. janúar 2003 kl. 15. Sóknaraðili, sem var viðstaddur uppboðið, ritaði undir bókun um það í gerðabók, svo og sérstakt skjal um framangreinda breytingu á uppboðsskilmálum.
Um það leyti dags 16. janúar 2003, sem varnaraðilanum Björgvin bar að inna af hendi greiðslu til samþykkis boðs síns, leitaðist sóknaraðili við að fá nauðungarsöluna fellda niður. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði barst sýslumanni bréf frá lögmanni Lífeyrissjóðsins Framsýnar kl. 14.26 þennan dag, þar sem kom fram að hæstbjóðandi í fasteignina hafi komið veðskuld við lífeyrissjóðinn í skil. Nokkru eftir kl. 15 barst síðan sýslumanni annað bréf frá lögmanninum, þar sem lýst var yfir að hann afturkallaði beiðni sína um nauðungarsölu, en þar með hafði þeirri afstöðu verið lýst af hendi annarra gerðarbeiðenda en sýslumannsins. Þá liggur fyrir að sama dag bauð sóknaraðili sýslumanni greiðslu að fjárhæð 500.000 krónur upp í skuld, sem sá síðastnefndi hafði krafist nauðungarsölu til að fá fullnægt, en heildarfjárhæð hennar mun hafa verið 6.459.599 krónur. Vildi sóknaraðili fá beiðni sýslumanns afturkallaða gegn þessari greiðslu, en hann varð ekki við því. Varnaraðilinn Björgvin innti af hendi greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum á þeim tíma, sem ákveðinn hafði verið. Var boð hans í fasteignina þar með samþykkt.
III.
Svo sem að framan greinir var varnaraðilinn sýslumaðurinn á Selfossi meðal gerðarbeiðenda við nauðungarsöluna á fasteigninni Hlíðartungu, sem mál þetta varðar. Áðurnefnt boð sóknaraðila 16. janúar 2003 um greiðslu á 500.000 krónum upp í kröfuna, sem þessi varnaraðili leitaði fullnustu á við nauðungarsöluna, skyldaði hann á engan hátt til að fella niður beiðni sína um hana. Það gerði varnaraðilinn heldur ekki. Án tillits til þess hvort aðrir gerðarbeiðendur hafi fyrir samþykki boðs varnaraðilans Björgvins í eignina verið búnir að fella niður beiðnir sínar voru af þessum ástæðum engin efni til að fella niður nauðungarsöluna í heild vegna ákvæða 1. mgr. og 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991. Breytir engu í því sambandi að varnaraðili þessi hafi ekki mátt vænta greiðslu upp í kröfu sína af þeirri fjárhæð, sem varnaraðilinn Björgvin hafði boðið í fasteignina. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilanum Björgvin kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en að öðru leyti verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Benedikt Karlsson, greiði varnaraðila, Björgvin Ásgeirssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. júní 2003.
Mál þetta var þingfest 20. febrúar sl., en tekið til úrskurðar hinn 10. júní sl.
Með bréfi lögmanns sóknaraðila, Benedikts Karlssonar, Hlíðartungu, Sveitarfélaginu Ölfusi, dagsettu 23. janúar 2003, sem móttekið var í Héraðsdómi Suðurlands þann sama dag, voru gerðar svofelldar dómkröfur:
Að eftirfarandi ákvarðanir Sýslumannsins á Selfossi verði ógiltar:
a) Ákvörðun sýslumanns frá 16. janúar 2003 sem innheimtumanns ríkissjóðs að neita að afturkalla uppboðsbeiðni vegna eignarinnar Hlíðartungu gegn innborgun á skuld sóknaraðila og ávísun kaupsamningsgreiðslna vegna eignarinnar samkvæmt samþykktu gagntilboði í eignina frá Heiðrúnu Árnadóttur, frá 12. janúar 2003.
b) Ákvörðun sýslumanns sem uppboðshaldara frá 16. janúar 2003 um að samþykkja tilboð hæstbjóðanda í eignina og þar með stytta samþykkisfrest úr 6 vikum í 5 þrátt fyrir að viðstöddum á uppboðsstað hafi borið saman um að 6 vikna frestur hefði verið veittur.
Þá krefst sóknaraðili þess að Sýslumaðurinn á Selfossi greiði sér málskostnað að mati dómsins, en við munnlegan flutning málsins féll sóknaraðili frá upphaflegri kröfu sinni um málskostað úr hendi Björgvins Ásgeirssonar.
Af hálfu varnaraðila, Björgvins Ásgeirssonar, er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Sýslumaðurinn á Selfossi krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir hann kröfu um að sóknaraðili greiði honum málskostnað að mati dómsins.
II. Málavextir
Fimmtudaginn 12. desember 2002 fór fram nauðungarsala á fasteigninni Hlíðartungu, Sveitarfélaginu Ölfusi á eigninni sjálfri. Gerðarbeiðendur munu hafa verið Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Tollstjórinn í Reykjavík og Sýslumaðurinn á Selfossi, en sóknaraðili var gerðarþoli. Sóknaraðili kveðst hafa óskað eftir því að 8 vikna samþykkisfrestur yrði veittur. Áður en leitað var boða í eignina var uppboðsskilmálum breytt þannig að frestur kaupanda til að greiða fjórðung söluverðs hennar til að fá boð sitt samþykkt var ákveðinn til 16. janúar 2003, en bjóðendur skyldu vera bundnir við boð sín til og með 23. sama mánaðar. Varnaraðilinn, Björgvin Ásgeirsson, var hæstbjóðandi við uppboðið. Honum var tilkynnt að boð hans yrði samþykkt ef greiðsla bærist samkvæmt því og í samræmi við breytta uppboðsskilmála 16. janúar 2003, klukkan 15.00. Undirritaði sóknaraðili sérstakt skjal um breytta uppboðsskilmála er lagt var fram við nauðungarsöluna, þar sem segir m.a.: „Boð hæstbjóðanda í eignina verður samþykkt berist greiðsla samkvæmt því 16. jan. 2003. Skulu þeir sem gera boð vera skuldbundnir samkvæmt þeim til og með 23. jan. 2003.”
Þá var eftirfarandi bókað í nauðungarsölubók: „Í tilefni af boði Björgvins Ásgeirssonar, og með vísan til 6. mgr. 32. gr. nsl. tilkynnir sýslumaður, að það skilyrði er sett fyrir því, að boð hans verði tekið til álita, að hann setji tryggingu fyrir allri uppboðsfjárhæðinni, sem hann skal leggja fram í formi bankaábyrgðar eða reiðufé hjá sýslumanni fyrir kl. 12°° þann 16. desember 2002.
[...]
Hæstbjóðanda er greint frá því að boð hans í eignina verði samþykkt ef greiðsla berst samkvæmt því í samræmi við breytta uppboðsskilmála þann 16. janúar 2003 nk kl. 15°°.” Undir þetta rita viðstaddir, þar með taldir aðilar þessa máls.
Sóknaraðili kveðst hins vegar hafa misskilið sýslumann og án þess að viðstaddir hafi áttað sig á hafi sýslumaður virst viljað haga málum þannig að hinn samþykkti 6 vikna samþykkisfrestur hafi átt við þá sem næsthæst buðu, en 5 vikna frestur veittur hæstbjóðanda.
Um það leyti dags, fimmtudaginn 16. janúar 2003, sem varnaraðilanum Björgvin Ásgeirssyni bar að inna af hendi greiðslu til samþykkis boðs síns, leitaðist sóknaraðili við að fá nauðungarsöluna fellda niður. Hins vegar lagði varnaraðilinn, Björgvin, fram greiðslu á tilsettum tíma og tók sýslumaður við greiðslu hans á uppboðsandvirðinu klukkan 15:00 fimmtudaginn 16. janúar sl. Fyrir þann tíma, en eftir að uppboði lauk, höfðu þeir bjóðendur sem úthlutað áttu að fá af uppboðsandvirði afturkallað uppboðsbeiðnir sínar, nema hvað aðilar deila um hvort Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi afturkallað uppboðsbeiðni fyrir þann tíma. Þá afturkallaði Sýslumaðurinn á Selfossi ekki uppboðsbeiðni sína, en upplýst er að hann hefði ekki fengið úthlutað af uppboðsandvirði eignarinnar.
Í gögnum málsins er svofellt bréf lögmanns Lífeyrissjóðs Framsýnar, sent með myndsendi til Sýslumannsembættisins á Selfossi klukkan 14:26, fimmtudaginn 16. janúar 2003:
„Efni: Nauðungarsala fasteignarinnar Hlíðartungu, Ölfushreppi, Árnessýslu, þann 12. desember 2002.
Umbj. m., Lífeyrissjóðurinn Framsýn, kt. 561195-2779, er veðhafi í ofangreindri eign samkvæmt veðskuldabréfi nr. 602131 útgefnu af Svanhvíti B. Tómasdóttur, kt. 141257-2349, til Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar, nú Lífeyrissjóðsins Framsýnar, þann 26. apríl 1995, upphaflega að fjárhæð 700.000 kr., bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 172,0, tryggt með 6 veðrétti í eigninni.
Fyrir hönd umbj. m. Lífeyrissjóðsins Framsýnar er hér með staðfest að hæstbjóðandi í eignina hefur nú þegar greitt veðskuldabréfið í skil og hefur umbj. m. heimilað að bréfið hvíli áfram á ofangreindri eign að eftirst. 426.359 kr. Fjárhæð eftirstöðva miðast við stöðu bréfanna 16. janúar 2003. Virðingarfyllst, f.h. Atla Gíslasonar hrl., Karl Ó. Karlsson, hdl. (sign).” Aðilar deila um hvort líta beri á bréf þetta sem afturköllun uppboðs eða ekki.
Þá er í gögnum málsins ljósrit áður sendrar kröfulýsingar frá Lífeyrissjóðnum Framsýn er vélrituð höfðu verið á eftirfarandi orð og undirrituð af Karli Ó. Karlssyni hdl., í stimpil Lögmannsstofu Alta Gíslasonar hrl.:
„16.1.2003
Afturkallast mér [svo] með, með fyrirvara um að aðrir geri slíkt hið sama.”
Undir þetta mun lögmaður lífeyrissjóðsins hafa ritað.
Kröfulýsing þessi með framangreindri áritun mun hafa verið send sýslumannsembættinu klukkan 15:05 fimmtudaginn 16. janúar 2003 gegnum bréfsíma.
Sóknaraðili heldur því einnig fram að hann og bróðir hans hafi gert sýslumanni grein fyrir því fyrir klukkan 15:00 fimmtudaginn 16. janúar 2003 að þeir sem átt hafi rétt til úthlutunar samkvæmt nauðungarsölunni hafi afturkallað uppboðsbeiðnir sínar.
Sýslumaðurinn á Selfossi rekur eftirfarandi um samskipti sín við sóknaraðila og menn á hans vegum:
Það hafi ekki verið fyrr en 16. janúar 2003 að Örn Karlsson, bróðir sóknaraðila, hafi hringt í sýslumann og viljað ræða málefni sóknaraðila. Þegar sýslumaður hafi tjáð Erni að hann hefði ekki heimild til að ræða málefni sóknaraðila við annan en sóknaraðila sjálfan nema fyrir lægi skriflegt umboð, hafi sóknaraðili fengið símtólið og óskað eftir því við sýslumann að uppboðið yrði fellt niður. Sýslumaður kvaðst hafa svarað því til að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, þyrfti að afturkalla allar kröfur uppboðsbeiðenda. Síðar sama dag hafi Örn Helgason frá fasteignasölunni Þingholti spurt hvort senda mætti gögn sem dygðu sem trygging fyrir greiðslu, en fengið þau svör hjá sýslumanni að annað hvort þyrfti að greiða með peningum eða setja fram tryggingu banka eða sparisjóðs til þess að uppboðskrafa sýslumanns yrði afturkölluð. Ekki hafi verið orðið við því. Síðar hafi lögmaður sóknaraðila hringt og honum verið gefin sömu svör. Örn Karlsson hafi hringt á ný og fengið sömu svör og fyrr um þörf umboðs og þá hafi sóknaraðili talað við sýslumann í símann og boðið sýslumanni 500.000 króna greiðslu upp í kröfu ríkissjóðs, er verið hafi að fjárhæð 6.459.599 krónur. Sýslumaður kvaðst mundu taka við greiðslu en sú greiðsla myndi ekki duga til afturköllunar. Á meðan þetta símtal stóð yfir hafi hæstbjóðandi komið á skrifstofu sýslumanns og greitt uppboðsandvirðið klukkan 15:00. Afturköllun frá Lífeyrissjóðnum Framsýn hafi hins vegar ekki borist sýslumanni fyrr en klukkan 15:17.
Með úrskurði dómsins 4. apríl sl. var máli þessu vísað frá dómi. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar og með dómi Hæstaréttar 7. maí sl. var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Málið var því tekið fyrir á ný 10. júní sl. og tekið þá til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi, eins og áður segir.
II.
Sóknaraðili segir það almenna reglu hjá sýslumannsembættum landsins að þegar veittur sé tiltekinn samþykkisfrestur, þá sé bætt viku aftan við veittan frest svo unnt sé að taka tilboðum frá hæstbjóðendum, falli þeir frá sínum tilboðum af einhverjum ástæðum eða geti ekki staðið við greiðsluskilmála. Sóknaraðili segir að án þess að viðstaddir hafi áttað sig á því hafi Sýslumaðurinn á Selfossi hins vegar haft þann háttinn á að hinn sex vikna samþykkisfrestur hafi átt við þá sem næsthæst hafi boðið, en fimm vikna frestur hafi verið veittur hæstbjóðanda. Sóknaraðili hafi að vísu undirritað uppboðsskilmála vegna nauðungarsölunnar og þar hafi reyndar komið fram að boð hæstbjóðanda í eignina yrði samþykkt, bærist greiðsla fyrir 16. janúar 2003. Einnig komi fram að aðrir þeir sem boð hefðu gert í eignina hafi verið skuldbundnir við boð sín til 23. janúar sama ár. Segir sóknaraðili það skiljanlegt að hann hafi dregið þá ályktun að hann hefði ráðrúm til 23. janúar 2003 þar sem orðalag skilmála hefði verið villandi að þessu leyti.
Sóknaraðili bendir einnig á að sýslumaður, sem innheimtumaður ríkissjóðs, hefði ekki fengið kröfu sína greidda af uppboðsandvirði. Þá bendir sóknaraðili á að í kjölfar uppboðsins hafi fasteignin verið sett á sölu hjá fasteignasölu, en hinn 12. janúar 2003 hafi samningar tekist um kaup Heiðrúnar Árnadóttur á eigninni fyrir 28.800.000 krónur.
Sóknaraðili kveðst hinn 15. janúar síðastliðinn hafa haft samband við embætti Sýslumannsins á Selfossi til að undirbúa afturköllun uppboðsins, enda hafi hann talið sig hafa frest til 23. janúar 2003 til að ganga frá afturköllunum. Þá hafi hins vegar komið á daginn að fresturinn fyrir hæstbjóðanda til að greiða uppboðsandvirði hafi verið til 16. janúar 2003. Sóknaraðili kvaðst þá hafa haft samband við alla uppboðsbeiðendur og fengið þá til að afturkalla uppboðsbeiðnir og hafi þeir allir gert það nema Sýslumaðurinn á Selfossi, þrátt fyrir að kaupsamningur hafi verið kominn á um eignina, búið hafi verið að afturkalla aðrar kröfur og boðin væri fram greiðsla upp í kröfuna og ávísun kaupsamningsgreiðslna upp í þá kröfu sem sýslumaður hafi haft til innheimtu. Þá segir sóknaraðili að sýslumaður hafi ekki haft lögvarða hagsmuni af því að hafna afturköllun þar sem hann hefði ekki fengið úthlutað af söluandvirði fasteignarinnar. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til 37. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar sóknaraðili til 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, þar sem samþykkisfrestur hafi ekki verið útrunninn og til 5. mgr. 36. gr. sömu laga.
Með bréfi, dagsettu 27. janúar 2003 en mótteknu af dómnum hinn 29. sama mánaðar, sendi sóknaraðili svokallaðan viðauka við fyrri kæru sína og vísaði jafnframt til þess að af ákvæðum 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991 megi ráða að beiðni Sýslumannsins á Selfossi um nauðungarsölu hafi fallið niður, þar sem ekki hafi fengist boð upp í kröfu hans.
III.
Varnaraðilinn Björgvin Ásgeirsson segir að hafna beri kröfum sóknaraðila samkvæmt eftirfarandi rökum:
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, geti gerðarbeiðandi fellt niður beiðni sína hvenær sem er fram að því að boð er samþykkt í eignina við nauðungarsölu. Falli beiðnir allra gerðarbeiðenda niður verði ekki frekar af nauðungarsölu. Fram að samþykki boðs geti nauðungarsalan í heild því fallið niður, jafnvel þótt boð hafi komið fram og uppboði sé því lokið á eign, aðeins ef það hefur ekki verið samþykkt áður. Spurningin sé því hvernig hugtakið „samþykki boðs” verði skilgreint. Samkvæmt endurriti úr nauðungarsölubók hafi boði varnaraðila, Björgvins Ásgeirssonar, verið tekið og honum greint frá því að það yrði samþykkt ef greiðsla bærist, samkvæmt boðinu og í samræmi við breytta uppboðsskilmála, þann 16. janúar 2003, klukkan 15:00. Hafi öllum á uppboðinu verið þetta kunnugt þar á meðal sóknaraðila, sem ritað hafi nafn sitt í nauðungarsölubók því til staðfestingar, auk þess sem hann hafi undirritað hina breyttu uppboðsskilmála. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, teljist boð sjálfkrafa samþykkt ef greiðsla berst á tilteknum tíma, þ.e. í þessu tilviki klukkan 15:00, 16. janúar 2003. Þetta ákvæði sé skýrt þannig í greinargerð að orðalagið „á tilteknum tíma” sé hugsað sem andstæða við orðalagið „innan tiltekins tíma”, þannig að boðið teljist ekki samþykkt fyrr en á þeim tímapunkti sem tilgreindur er. Það ráðist af því að þar sem 15. gr. laganna heimili að gerðarþoli geti náð samningum við gerðarbeiðendur um að afturkalla beiðnir sínar þótt uppboði sé lokið á eign, sé óeðlilegt að það ráðist af vilja bjóðanda hvenær innan tiltekins tímamarks hann gangi frá greiðslu uppboðsandvirðis. Því verði greiðslan að berast á hinum tiltekna tíma og boðið teljist ekki samþykkt fyrr en á þeim tímapunkti sem tilgreindur sé. Gerðarþoli hafi því svigrúm til að komast hjá sölunni innan þess tíma. Fyrir liggi að afturköllun á nauðungarsölubeiðni Lífeyrissjóðsins Framsýnar hafi ekki borist sýslumanni fyrr en klukkan 15:05 þann 16. janúar 2003. Boð í eignina hafi hins vegar verið samþykkt klukkan 15:00 í samræmi við skilmála. Afturköllun hafi því borist of seint. Þá hafi sýslumaður heldur ekki afturkallað beiðni sína fyrir tilgreint tímamark og hún hafi því ekki verið fallin niður á grundvelli 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, eins og sóknaraðili haldi fram.
Þá mótmælir varnaraðili kröfum sóknaraðila um að samþykkisfrestur samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, hafi ekki verið liðinn er boð varnaraðila var samþykkt. Eins og fyrr greini liggi fyrir að í nauðungarsölubók sem og uppboðsskilmálum hafi verið tiltekið hvenær samþykkisfrestur hafi runnið út. Lýsing í kæru á skilningi viðstaddra á uppboðinu sé ekki í samræmi við bókun sýslumanns og undirritun aðila í nauðungarsölubók.
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar varnaraðili sérstaklega til 15. gr., 36. gr., 39. gr. og 73. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu og 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkröfu sína reisir varnaraðili á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum á 129. gr. og 130. gr. laganna, en krafa hans um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Að öðru leyti kveðst varnaraðili vísa til málsástæðna og lagaraka Sýslumannsins á Selfossi, en þær eru eftirfarandi:
Varðandi a lið kröfu sóknaraðila þá tekur Sýslumaðurinn á Selfossi fram að af hans hálfu hafi ekki hafi verið um að ræða sérstaka ákvörðun um að taka við greiðslu varnaraðilans Björgvins Ásgeirssonar klukkan 15:00, 16. janúar 2003. Það hafi verið gert í samræmi við auglýsingu dómsmálaráðherra nr. 41/1992, um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum o. fl. Þessir skilmálar hafi verið settir samkvæmt ákvæðum 28. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Ekki hafi verið um ákvörðun að ræða, heldur skyldu samkvæmt fyrri ákvörðunum, þegar lokið hafi verið að leita boða á uppboði í umrædda eign, í samræmi við 5. gr. nefndra skilmála. Sýslumanni hafi því borið að taka við framboðinni greiðslu hæstbjóðanda, enda hafi ekki allir uppboðsbeiðendur afturkallað uppboðsbeiðnir sínar, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.
Þá tekur sýslumaður fram að hæstbjóðanda á nefndu uppboði hafi verið gert skylt að leggja fram, eigi síðar en klukkan 12:00 þann 16. desember 2002, tryggingu banka eða sparisjóðs til sönnunar því að hann gæti staðið við boð sitt. Það hafi hæstbjóðandi gert klukkan 10:15 þann dag og hafi sú ábyrgð gilt til 1. júlí 2003. Þá tekur sýslumaður fram að engin mótmæli hafi komið fram við uppboðið við að lokið yrði að leita boða og að boði hæstbjóðanda yrði tekið legði hann fram bankatryggingu.
Þá kveðst sýslumaður ekki hafa afturkallað kröfu sína, sem innheimtumanns ríkissjóðs, um uppboð vegna þess að engin tilraun hafi verið gerð til að greiða upp í kröfuna, eða leggja fram tryggingu. Sýslumanni hafi því verið óheimilt að afturkalla kröfu þá er hann fór með fyrir hönd ríkissjóðs. Ekki skipti máli í þessu sambandi hvort ríkissjóður hefði fengið eitthvað upp í kröfu sína af uppboðsandvirði, svo fremi að einhver uppboðsbeiðenda hefði fengið greitt upp í kröfu sína.
Varðandi lið b í kröfugerð sóknaraðila þá tekur sýslumaður fram að í 3. mgr. 3. gr. auglýsingar um uppboðsskilmála komi fram að bjóðendur skuli bundnir við boð sín í eignina í þrjár vikur frá því endanlega var lokið við að leita boða í eignina við uppboð. Gildi þetta jafnt um boð sem komi fram við byrjun uppboðs og við framhald uppboðs ef því er að skipta. Sóknaraðili hafi verið viðstaddur uppboðið og hafi öllum viðstöddum verið rækilega gerð grein fyrir því að greiðsla samkvæmt hæsta boði yrði samþykkt, bærist hún fyrir klukkan 15:00 hinn 16. janúar 2003 og jafnframt að aðrir bjóðendur myndu vera bundnir viku eða lengur, eða til loka sex vikna frestsins hinn 23. janúar 2003. Uppboðsskilmálar hafi verið kynntir og framkomin gögn og lýst hafi verið eftir athugasemdum við uppboðið og hafi þær engar verið. Að auki hafi sóknaraðili undirritað skilmálabreytingu er kveðið hafi skýrt á um hvað um var að vera.
Þá bendir sýslumaður á að afturköllun frá lögmannsstofu Lífeyrissjóðsins Framsýnar hafi verið skilyrt og ekki borist fyrr en klukkan 15:17, hinn 16. janúar sl. Sýslumaður mótmælir því sérstaklega að nokkuð hafi verið gert til að tryggja kröfu sýslumanns í uppboðsandlagið. Þá skipti engu hvort ríkissjóður hafi fengið nokkuð greitt af uppboðsandvirði eða ekki. Allar kröfur hafi þurft að afturkalla, en Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi fengið greiðslu upp í kröfu sína og því hafi uppboðinu lokið með árangri.
IV. Forsendur og niðurstöður
Dómkröfur sóknaraðila eru skildar þannig að með fyrra bréfi sínu til dómsins frá 23. janúar sl. sé hann í reynd að krefjast úrlausnar um að sýslumanni hafi borið 16. janúar 2003 að fella niður nauðungarsölu á fasteigninni Hlíðartungu vegna greiðslu, sem sóknaraðili telur gerðarbeiðendur hafa fengið á kröfum sínum. Með síðara bréfi sínu, svokölluðum viðauka við kæru, mun sóknaraðili vilja leita úrlausnar um að sýslumanni hafi ekki verið rétt að veita umræddan dag viðtöku úr hendi varnaraðilans greiðslu á hluta söluverðs fasteignarinnar til samþykkis boði hans í hana.
Eins og að framan er rakið var uppboðsskilmálum breytt áður en boða var leitað í eignina og skrifaði sóknaraðili undir skilmálana svo breytta. Er slíkt í samræmi við ákvæði V. kafla nauðungarsölulaga, nr. 90/1991, og eðlilegt ef til greiðslufalls varnaraðilans Björgvins hefði komið.
Fram að þeim tíma er sýslumaður tók við greiðslu í samræmi við þegar ákveðinn tíma samkvæmt uppboðsskilmálum gátu gerðarbeiðendur fellt uppboðsbeiðnir sínar niður, sbr. 1. mgr. 15. gr. nauðungarsölulaganna. Þá er í 2. mgr. 15. gr. laganna auk þess gert ráð fyrir því að beiðni um nauðungarsölu falli niður ef eitthvert þeirra skilyrða sem getið er um í 1.-5. tölulið málsgreinarinnar eru fyrir hendi. Í máli þessu kemur 5. töluliður 2. mgr. 15. gr. laganna sérstaklega til skoðunar. Þar segir að fram að því að boð er samþykkt í eign falli niður beiðni um nauðungarsölu ef lögð er fram sönnun fyrir greiðslu á þeirri kröfu sem gerðarbeiðandi krafðist nauðungarsölu til að fá fullnægt. Fyrir liggur að Lífeyrissjóðurinn Framsýn sendi tvær beiðnir um uppboð í umrædda eign, frá sitt hvorri lögmannsstofunni. Óumdeilt er að Tollstjórinn í Reykjavík afturkallaði sínar beiðnir fyrir lok samþykkisfrests. Þá er einnig óumdeilt að Lífeyrissjóðurinn Framsýn afturkallaði beiðni sína dagsetta 3. júní 2002 að fjárhæð ríflega 6 milljónir króna áður en samþykkisfrestur rann út kl. 15:00 þann 16. janúar sl. Í máli þessu er hins vegar ágreiningur um það hvort hin krafa Lífeyrissjóðsins Framsýnar, sem barst frá Lögmannsstofu Atla Gíslasonar hrl. og var að fjárhæð 746.485 krónur, hafi verið afturkölluð fyrir umræddan tíma.
Fyrir liggur að klukkan 14:27 þann 16. janúar sl. barst Sýslumanninum á Selfossi símbréf, undirritað af Karli Ó. Karlssyni hdl., f.h. Atla Gíslasonar hrl. Í bréfinu segir orðrétt eins og áður hefur verið rakið: „Fyrir hönd umbj.m. Lífeyrissjóðsins Framsýnar er hér með staðfest að hæstbjóðandi í eignina hefur nú þegar greitt veðskuldabréfið í skil og hefur umbj. m. heimilað að bréfið hvíli áfram á ofangreindri eign að eftirst. 462.359 kr. Fjárhæð eftirstöðva miðast við stöðu bréfanna 16. janúar 2003.” Þá liggur einnig fyrir að klukkan 15:05 umræddan dag, eftir að hæstbjóðandi hafði greitt sýslumanni í samræmi við uppboðsskilmála, barst sýslumanninum í símbréfi afrit áður sendrar kröfulýsingar Lögmannsstofu Atla Gíslasonar hrl., f.h. Lífeyrissjóðsins Framsýnar, þar sem vélritað var inn afturköllun með fyrirvara um að aðrir gerðu slíkt hið sama eins og áður hefur verið rakið.
Fallast má á það með sóknaraðila að það veki athygli að einn og sami gerðarbeiðandi, þ.e. Lífeyrissjóðurinn Framsýn, falli frá annarri og mun stærri kröfu sinni, en ekki þeirri minni. Því hefði sýslumaður, eftir móttöku bréfs Karls Ó. Karlssonar hdl., f.h. Atla Gíslasonar hrl., klukkan 14:27 þann 16. janúar sl., jafnvel mátt staldra við og kanna málið nánar þar sem honum hafði áður borist tilkynning um að þessi gerðabeiðandi hafði fellt niður uppboðsbeiðni vegna mun hærri kröfu. Hins vegar verður ekki fallist á það með sóknaraðila að það orðalag framangreinds bréfs að „hæstbjóðandi” í eignina hefði komið veðskuldabréfinu í skil hefði mátt leiða til nánari skoðunar sýslumanns. Helgast það af því að það tíðkast að hæstbjóðendur komist að samkomulagi við uppboðsbeiðendur um greiðslu og jafnframt um yfirtöku áhvílandi lána. Er slíkt samkomulag einnig í samræmi við ákvæði 40. gr. nauðungarsölulaganna.
Samkvæmt framansögðu voru ekki skilyrði til að telja framangreinda uppboðsbeiðni Lögmannsstofu Atla Gíslasonar hrl., f.h. Lífeyrissjóðsins Framsýnar, niður fallna klukkan 15:00 16. janúar 2003. Því mátti sýslumaður veita viðtöku greiðslu varnaraðilans Björgvins á því tímamarki. Þar sem ekki er fallist á það með sóknaraðila að framangreind beiðni hafi fallið niður fyrir umræddan tíma, koma ekki til skoðunar ákvæði 5. mgr. 36. gr. nauðungarsölulaganna, eins og sóknaraðili hefur vísað til. Er því staðfest sú ákvörðun Sýslumannsins á Selfossi að fella ekki niður nauðungarsöluna og veita viðtöku greiðslu varnaraðilans Björgvins á hluta söluverðs fasteignarinnar til samþykkis á boði hans í eignina.
Eftir þessum úrslitum er rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila Björgvin 140.000 krónur í málskostnað. Hins vegar þykir rétt að málskostnaður falli að öðru leyti niður.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Sýslumannsins á Selfossi um að fella ekki niður nauðungarsölu í fasteigninni Hlíðartungu, Sveitarfélaginu Ölfusi, en veita viðtöku greiðslu varnaraðilans, Björgvins Ásgeirssonar, á hluta söluverðs fasteignarinnar til samþykkis á boði hans í eignina.
Sóknaraðili, Benedikt Karlsson, greiði varnaraðila, Björgvin Ásgeirssyni, 140.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.
Ólafur Börkur Þorvaldsson