Hæstiréttur íslands

Mál nr. 447/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta


Þriðjudaginn 16

 

Þriðjudaginn 16. desember 2003.

Nr. 447/2003.

Atlantsskip ehf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A ehf. var vísað frá dómi. Var kröfugerð félagsins í tveimur liðum þar sem þess var annars vegar krafist að viðurkennt yrði að forvalsnefnd væri óheimilt að setja nánar tiltekin skilyrði fyrir vali á íslenskum fyrirtækjum vegna vöruflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna og hins vegar að málsmeðferð forvalsnefndar yrði ógilt. Fallist var á með A ehf. að það hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn fyrir dómi um lögmæti þeirra skilyrða, sem því var gert að hlíta til að fá að taka þátt í útboðinu. Yrði að líta til þess að í bréfi til A ehf. hefði því verið lýst yfir að tilkynning til Bandaríkjahers um heimild félagsins til að taka þátt í útboðinu yrði afturkölluð 10 dögum fyrir lok tilboðsfrests hefði það þá ekki staðið við sett skilyrði. Hin umdeildu skilyrði væru því enn í gildi að því er varðaði heimild félagsins til að fá að taka þátt í útboðinu. Var úrskurðurinn að því er varðaði þennan kröfulið felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka hann til efnismeðferðar. Hins vegar var úrskurður héraðsdóms staðfestur varðandi síðari lið kröfugerðarinnar sem ekki var talinn vera í samræmi við skilyrði e- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur málsaðila að ákvörðunum svokallaðrar forvalsnefndar utanríkisráðuneytis, sem starfar samkvæmt III. kafla laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, og skal samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna vera ráðuneytinu til aðstoðar við meðferð annarra samninga en starfssamninga. Auglýsti nefndin í Morgunblaðinu 17. júlí 2003 eftir „aðilum til að taka þátt í forvali vegna útboðs ...“ vegna sjóflutninga, sem síðan var gerð nánari grein fyrir. Var tekið fram að auglýst væri eftir þeim íslensku skipafélögum, sem áhuga hefðu á að taka þátt í útboðinu og uppfylltu öll skilyrði, sem fram komi í reglugerð nr. 493/2003 um forval og skilgreiningu íslenskra fyrirtækja vegna útboðs á grundvelli sjóflutningasamnings. Öll íslensk félög, sem uppfylltu umrædd skilyrði, yrðu tilgreind af íslenskum stjórnvöldum sem íslensk skipafélög í skilningi samnings Íslands og Bandaríkjanna um sjóflutninga frá 1986 og verði þeim „sem slíkum heimilað að bjóða í hinn íslenska hluta útboðsins.“ Skyldu íslensk skipafélög, sem áhuga hefðu á þátttöku, skila inn tilkynningu um það og hvernig þau uppfylltu skilyrði áðurnefndrar reglugerðar. Eftir að hafa leitað eftir og fengið skýringu utanríkisráðuneytis á efni b. liðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 493/2003 lýsti sóknaraðili yfir að hann teldi lagastoð bresta fyrir því að varnaraðili mætti setja skilyrði um hvaða skip bjóðendur í verkefnið mættu nota og lytu að því að íslenskt skipafélag, sem í hlut ætti, hefði húsbóndavald yfir áhöfnum skipanna og ráðningarsamninga við þær. Tilkynnti sóknaraðili forvalsnefnd jafnframt um þátttöku sína í forvalinu. Gerði hann um leið fyrirvara um lögmæti túlkunar ráðuneytisins á efni reglugerðarinnar. Í svarbréfum nefndarinnar 25. og 28. júlí 2003 kemur fram að varnaraðili telji umrætt skilyrði í reglugerð hafa lagastoð. Umsækjendur þyrftu hins vegar ekki að hafa þá þegar skip til reiðu, sem uppfylltu skilyrðin svo fremi þeir gæfu skýr og skilyrðislaus fyrirheit um að nota slík skip til flutninganna. Yrði sóknaraðili að staðfesta skriflega að umsókn hans væri sett fram með vitneskju um að ef ekki yrði staðið við þetta fyrirheit eigi síðar en 10 dögum fyrir lok tilboðsfrests myndi ráðuneytið afturkalla tilnefningu hans til þeirrar stofnunar bandaríska hersins, sem annist samninga um vöruflutninga fyrir hann. Með bréfi til forvalsnefndar 28. júlí 2003 gekkst sóknaraðili síðan undir þau skilyrði, sem nefndin setti fyrir þátttöku hans í forvalinu. Í málatilbúnaði sínum nú lýsir sóknaraðili því yfir að hann hafi verið þvingaður til að falla frá áðurnefndum fyrirvara um lögmæti reglugerðarinnar. Er í málinu deilt um lögmæti þeirra skilyrða, sem forvalsnefnd setti sóknaraðila fyrir þátttöku í útboði um sjóflutningana. Málavöxtum er nánar lýsti í hinum kærða úrskurði sem og málsástæðum aðilanna. Með úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi meðal annars á þeirri forsendu að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar.

Í kæru sóknaraðila er því andmælt að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn um sakarefnið. Vísar hann til þess að hann hafi verið knúinn til að gangast undir ólögmæt skilyrði til að fá að taka þátt í útboðinu um sjóflutninga. Vofi þannig yfir honum að tilnefning hans til Bandaríkjahers sem íslensks skipafélags í merkingu sjóflutningasamningsins frá 1986 verði afturkölluð ef sett skilyrði verði ekki uppfyllt, hvað sem líði ólögmæti þessara skilyrða. Sóknaraðili hafi því lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar, enda skipti það hann máli þegar kemur að því að gera tilboð í flutningana að þau skilyrði, sem nefndin setti og hann telur vera ólögmæt, verði ekki hluti af efnislegum forsendum tilboðsgerðarinnar. Það skipti hann verulegu máli við tilboðsgerðina hvaða forsendum hann eigi að reikna með. Er jafnframt tekið fram í kæru til Hæstaréttar að „með þessu móti setur forvalið því kæranda efnisleg skilyrði fyrir þátttöku í útboði á vegum Bandríkjahers og gildir þar einu hvort kærandi hefur farið í gegnum forvalsferlið eða ekki því skilyrðin hafa efnahagsleg áhrif fyrir kæranda.“

II.

Kröfugerð sóknaraðila er í tveimur liðum auk kröfu um málskostnað, svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Í hinum fyrri er þess krafist að viðurkennt verði að forvalsnefnd sé óheimilt að setja nánar tiltekin skilyrði fyrir vali á íslenskum fyrirtækjum vegna vöruflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna, en sá síðari felst í því að málsmeðferð forvalsnefndar verði ógilt. Verður fallist á með sóknaraðila að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn fyrir dómi um lögmæti þeirra skilyrða, sem honum var gert að hlíta til að fá að taka þátt í útboðinu. Kemur í því sambandi einungis til álita sú viðbára varnaraðila að hagsmunir sóknaraðila af því að fá úrlausn um fyrri kröfuna hafi liðið undir lok í síðasta lagi þegar forvalinu lauk með bréfi forvalsnefndar 28. júlí 2003 og áður var getið um. Varðandi þetta verður að líta til þess að af hálfu varnaraðila var í nefndu bréfi lýst yfir að tilkynning til Bandaríkjahers um heimild sóknaraðila til að taka þátt í útboðinu yrði afturkölluð 10 dögum fyrir lok tilboðsfrests hafi hann þá ekki staðið við sett skilyrði. Hin umdeildu skilyrði eru því enn í gildi að því er varðar heimild sóknaraðila til að fá að taka þátt í útboðinu. Verður samkvæmt því ekki fallist á að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um fyrri liðinn í kröfugerð sinni. Varnaraðili er íslenska ríkið og er utanríkisráðherra réttilega stefnt til fyrirsvars fyrir aðilann. Verður samkvæmt öllu framanröktu fallist á kröfu sóknaraðila um þennan lið í kröfugerð hans.

Úrskurður héraðsdóms um síðari lið kröfugerðar sóknaraðila verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Staðfest er sú niðurstaða í hinum kærða úrskurði að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila, Atlantsskips ehf., um að „málsmeðferð við forval forvalsnefndar skv. III. kafla laga nr. 82/2000, fyrir hönd Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, vegna sjóflutninga, sem hófst með auglýsingu nefndarinnar í Morgunblaðinu 17. júlí 2003, verði ógilt frá þeim degi að telja, eða síðara tímamarki.“

Felldur er úr gildi sá hluti hins kærða úrskurðar að vísa frá dómi þeirri kröfu sóknaraðila að „viðurkennt verði með dómi, að forvalsnefnd skv. III. kafla laga nr. 82/2000, sé óheimilt að setja skilyrði fyrir vali íslenskra fyrirtækja vegna fraktflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna, sem boðnir eru út á grundvelli samnings milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna frá 24. september 1986 og samkomulags varðandi þann samning frá 24. september 1986, sem hófst með auglýsingu nefndarinnar í Morgunblaðinu 17. júlí 2003, þess efnis að „skip sem íslensk skipafélög gera út“ skuli einvörðungu teljast skip, sem eru undir yfirstjórn og yfirráðum íslenskra skipafélaga og að í því felist að íslensk skipafélög skuli hafa húsbóndavald yfir áhöfn skips og ráðningarsamband við áhöfn þess.“ Er lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2003.

I.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 24. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af ­Atlantsskipum ehf., kt. 480596-2349, Vesturvör 29, Kópavogi, með stefnu birtri  21. ágúst 2003 á hendur utanríkisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, kt. 080947-2329, Brekkuseli 22, Reykjavík, fyrir hönd utanríkisráðuneytisins, kt. 670269-4779, Rauðarárstíg 25, Reykjavík, vegna forvalsnefndar samkvæmt III. kafla laga nr. 82/2000 og fyrir hönd íslenzka ríkisins.

         Dómkröfur stefnanda eru þessar:

         Að viðurkennt verði með dómi, að forvalsnefnd samkvæmt III. kafla laga nr. 82/2000 sé óheimilt að setja skilyrði fyrir vali íslenzkra fyrirtækja vegna fraktflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna, sem boðnir eru út á grundvelli samnings milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna frá 24. september 1986 og samkomulags varðandi þann samning frá 24. september 1986, sem hófst með auglýsingu nefndarinnar í Morgunblaðinu 17. júlí 2003 þess efnis, að "skip sem íslenzk skipafélög gera út" skuli einvörðungu teljast skip, sem eru undir yfirstjórn og yfirráðum íslenzkra skipafélaga, og að í því felist, að íslenzk skipafélög skuli hafa húsbóndavald yfir áhöfn skips og ráðningarsamband við áhöfn þess.

         Að málsmeðferð við forval forvalsnefndar samkvæmt III. kafla laga nr. 82/2000, fyrir hönd Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, vegna sjóflutninga, sem hófst með auglýsingu nefndarinnar í Morgunblaðinu 17. júlí 2003, verði ógilt frá þeim degi að telja, eða síðara tímamarki.

         Auk ofangreindra dómkrafna gerir stefnandi kröfu til þess að stefnda, íslenzka ríkið, verði dæmt til að greiða honum málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins.  Til vara er þess krafizt, að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins.

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að 17. júlí 2003 birtist í Morgunblaðinu auglýsing, undirrituð af forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins, sem starfar samkvæmt III. kafla laga nr. 82/2000 að framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, þar sem auglýst var eftir aðilum til að taka þátt í forvali vegna útboðs á sjóflutningum fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.  Í auglýsingunni var tekið fram, að útboðið skyldi fara fram á grundvelli samnings Íslands og Bandaríkjanna um sjóflutninga frá 24. september 1986 og að áformað væri að bjóða sjóflutningana út sumarið 2003.  Auglýst var eftir íslenzkum skipafélögum, sem áhuga hefðu á að taka þátt í útboði á þeim flutningum, sem myndu falla í hlut íslenzkra skipafélaga samkvæmt fyrrgreindum samningi.  Þá var tekið fram í auglýsingunni, að íslenzku skipafélögin þyrftu að uppfylla öll þau skilyrði, sem greind væru í reglugerð nr. 493/2003 um forval og skilgreiningu íslenzkra fyrirtækja vegna útboðs á grundvelli sjóflutningasamningsins. Myndu öll íslenzk skipafélög, sem uppfylltu greind skilyrði, verða tilgreind af íslenzkum stjórnvöldum sem íslenzk skipafélög í skilningi sjóflutninga­samningsins og yrði sem slíkum heimilað að bjóða í hinn íslenzka hluta útboðsins.  Skyldu öll þau íslenzku skipafélög, sem áhuga hefðu á þátttöku, skila inn þátttökutilkynningum, ásamt ítarlegum upplýsingum um það, hvernig þau uppfylltu skilyrði reglugerðarinnar.

         Í kjölfar birtingar auglýsingarinnar sendi stefnandi erindi, dags. 22. júlí 2003, til utanríkisráðuneytisins, þar sem óskað var eftir túlkun ráðuneytisins á b- lið l. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 493/2003 og fyrrgreindri auglýsingu forvalsnefndar í Morgunblaðinu, sérstaklega hvað varðaði skilgreiningu á íslenzkum fyrirtækjum vegna útboðsins.  Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 23. júlí 2003, undirrituðu af Sturlu Sigurjónssyni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir, að forvalsnefnd muni taka til efnislegrar meðferðar umsóknir fyrirtækja um að fá tilnefningu sem íslenzk skipafélög, þó svo að ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um eignarhald eða bindandi samninga um skip, sem uppfylli skilyrði umræddrar greinar.  Því muni forvalsnefnd ekki hafna að tilnefna fyrirtæki sem íslenzkt skipafélag við slíkar aðstæður, svo fremi sem viðkomandi fyrirtæki setti fram skilyrðislaus fyrirheit um að byggja tilboðsgerð sína á því, að slík skip yrðu notuð við flutningana og að þinglýsingarvottorð, eða að samningur þar að lútandi yrði afhentur ráðuneytinu eigi síðar en 10 dögum fyrir lok tilboðsfrests í útboð vegna sjóflutninga á vegum M.T.M.C., sem mun vera skammstöfun fyrir Military Traffic Management Command, sem er stofnun innan bandaríska hersins, sem sér um samninga um vöruflutninga fyrir Bandaríkjaher.  Auk þessa var viðkomandi fyrirtæki gert að staðfesta skriflega, að umsókn hans væri sett fram með þeirri vitneskju, að færi svo, að ekki yrði staðið við umrætt fyrirheit, myndi ráðuneytið afturkalla tilnefningu viðkomandi fyrirtækis til M.T.M.C. sem íslenzks fyrirtækis.

         Í svarbréfi lögmanns stefnanda, dags. 23. júlí 2003, kemur m.a. fram, að stefnandi telur lagastoð bresta fyrir skilyrði b- liðar l. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 493/2003, þar sem íslenzkum skipafélögum sé gert að sæta þröngri túlkun á því hvað teljist vera skip gert út af íslenzku skipafélag, og kveður stefnandi túlkun þá, sem þar komi fram verulega þrengda frá því, sem áður hafi verið miðað við og fram komi í samningi Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986 og sé ákvæðið í andstöðu við þann samning.  Þá hefði ramminn verið þrengdur enn frekar í bréfi skrifstofustjórans, frá því sem áður hefði verið gert með reglugerðinni.  Taldi stefnandi hvort tveggja, form- og efnisskilyrði, bresta til setningar reglugerðarinnar, og var þess því farið á leit við utanríkisráðuneytið, að forvalsferlið yrði stöðvað, meðan ráðuneytið kannaði lagastoð reglugerðarinnar.

         Með bréfi til forvalsnefndar, dags. 24. júlí 2003, tilkynnti stefnandi þátttöku félagsins í forvalinu. Eru þar m.a. talin upp hæfisskilyrði stefnanda, sem kallað var eftir í auglýsingu forvalsnefndarinnar, sem og fyrirheit hans um, að hann myndi byggja tilboðsgerð sína í útboðinu á því, að skip það, sem gert yrði út á siglingaleiðinni, yrði undir yfirstjórn og yfirráðum stefnanda, og að í því fælist að stefnandi myndi hafa húsbóndavald yfir áhöfn viðkomandi skips. Þá gerir stefnandi fyrirvara varðandi lögmæti túlkunar ráðuneytisins á hugtakinu "skip sem íslenzk skipafélög gera út".  Í niðurlagi umsóknarinnar segir síðan, að verði umdeilt ákvæði í b- lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar talið hafa lagastoð og vera bindandi fyrir MTMC muni stefnandi uppfylla ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan og nánari áskilnaði varnarmálaskrifstofu.

         Í kjölfarið barst stefnanda bréf utanríkisráðuneytisins, dags. 25. júlí 2003, undirritað af Matthíasi G. Pálssyni, formanni forvalsnefndar, en í því bréfi er vísað til bréfs stefnanda frá 23. júlí 2003.  Í bréfi þessu kemur m.a. fram, að ráðuneytið og forvalsnefnd telji reglugerðina hafa stoð í lögum nr. 82/2000.  Þá er því einnig mótmælt, að í bréfi ráðuneytisins frá 23. júlí til stefnanda hefðu skilyrði, sem uppfylla þyrfti til fraktflutninganna, verið þrengd.  Þvert á móti væri í bréfinu staðfest heimild til handa umsækjendum í forvalinu að uppfylla ekki þau efnislegu skilyrði, sem sett væru í auglýsingunni við lok forvalsfrestsins, svo fremi sem þau yrðu uppfyllt 10 dögum fyrir lok tilboðsfrests útboðsins sjálfs.  Það væri að mati ráðuneytisins með engu móti hægt að líta svo á, að rýmkandi túlkun tímafresta fæli í sér þrengingu á efnislegum skilyrðum þeirra reglna, sem í reglu­gerðinni fælust.  Var ósk stefnanda um, að forvalsferlið yrði stöðvað, því hafnað. 

         Þann 28. júlí 2003 sendi Matthías G. Pálsson tölvubréf til stjórnarformanns stefnanda þann 29. júlí 2003.  Þar kemur fram sá skilningur forvalsnefndar utanríkisráðuneytisins, að í bréfi varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins til stefnanda, dagsettu 23. júlí 2003, hefði verið slakað á kröfum til fyrirtækja um að hafa þá þegar til reiðu skip, sem uppfylltu skilyrði reglugerðar nr. 493/2003, svo fremi sem skýr og skilyrðislaus fyrirheit um að nota slík skip yrðu gefin af umsækjendum.  Jafnframt kemur fram, að forvalsnefnd telur þann fyrirvara, sem fram kom í umsókn stefnanda, dags. 24. júlí 2003, ekki samrýmast því að fela í sér skilyrðislaust fyrirheit um að byggja tilboðsgerð sína á, að slík skip yrðu notuð til flutninganna.  Telur forvalsnefnd stefnanda hafa rétt til að gera fyrirvara um lögmæti reglugerðar nr. 493/2003 og geta áskilið sér bótarétt í því sambandi í mögulegu dómsmáli um lögmæti reglugerðarinnar.  Hins vegar telur forvalsnefnd ekki hægt að gefa skilyrðislaus fyrirheit um að byggja tilboðsgerð á að nota tiltekin skip, en segja jafnframt, að svo verði aðeins gert að tilteknum skilyrðum uppfylltum.  Þurfi því, að mati forvalsnefndar, að liggja fyrir skilyrðislaust fyrirheit stefnanda þess efnis, að hann myndi byggja tilboðsgerð sína á því, að slík skip yrðu notuð við flutningana, óháð því, hvort félagið teldi lagastoð bresta fyrir skilyrðinu, eða það áskildi sér rétt til að vísa ágreiningi þar um til dómstóla.  Þá hefði stefnandi jafnframt þurft, svo unnt yrði að samþykkja tilnefningu hans, án þess að fyrir lægju allar upplýsingar um þau skip, sem notuð yrðu, að staðfesta skriflega, að umsókn hans væri sett fram með þeirri vitneskju, að færi svo, að hann stæði ekki við umrætt fyrirheit og staðfestingu þeirra (sic) eigi síðar en 10 dögum fyrir lok tilboðsfrestsins, myndi ráðuneytið afturkalla tilnefningu fyrirtækisins til M.T.M.C. sem íslenzks fyrirtækis.  Þá kemur fram í bréfinu, að til þess að bæta úr þessum ágalla þátttökutilkynningarinnar að mati forvalsnefndar þurfi formlegt viðbótarerindi að berast frá stefnanda, þar sem tiltekin atriði þyrftu að koma fram.

         Með bréfi stefnanda til forvalsnefndar utanríkis­ráðuneytisins, dags. 28. júlí 2003, undirgekkst stefnandi þau skilyrði, sem að mati forvalsnefndar voru talin nauðsynleg til þátttöku í forvalinu.  Kveður stefnandi, að með þessu hafi hann verið þvingaður til að falla, að svo stöddu, frá þeim fyrirvara, sem hann hafði áður sett fram um lögmæti reglugerðarinnar.

         Stendur ágreiningur í máli þessu um lögmæti þeirra skilyrða, sem tilgreind eru í b- lið l. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 493/2003 og þá jafnframt um lögmæti þeirra skilyrða, sem forvalsnefnd setti stefnanda fyrir þátttöku í útboði á vegum M.T.M.C.

         Stefndi lýsir forsögu forvalsins svo, að allt frá gerð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna árið 1951 hafi íslenzkir ríkisborgarar starfað fyrir varnarliðið og íslenzk fyrirtæki komið að verktöku fyrir Bandaríkjaher.  Slíkt byggi á samningum íslenzkra og bandarískra stjórnvalda þar um.  Í viðauka um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra hafi verið kveðið á um samþykki íslenzkra stjórnvalda á vinnu íslenzkra aðila fyrir varnarliðið, og með samningi frá 1954 hafi íslenzkum stjórnvöldum verið falinn réttur til að tilnefna þau íslenzku fyrirtæki, sem varnarliðinu væri heimilt að semja við.  Hefðbundin túlkun 4. tölul. 6. gr. viðbætisins við varnarsamninginn, sbr. lög nr. 110/1951, hafi verið sú, að íslenzkum stjórnvöldum beri að tilnefna hæfa viðsemjendur til samninga við varnarliðið.  Á sviði farmflutninga hafi leitt af fákeppni á siglingaleiðum milli Íslands og Bandaríkjanna framan af samningstíma varnarsamningsins, að íslenzk skipafélög flyttu aðföng og búnað til og frá varnarstöðinni.  Árið 1984 hafi bandarískt skipafélag, Rainbow Navigation, krafizt þess að fá alla flutninga fyrir varnarstöðina, með vísan til bandarískrar löggjafar - Cargo Preference Act frá 1904.

         Íslenzk stjórnvöld hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessa atburðarás strax árið 1984 og bent á, að samgöngur á sjó til og frá landinu væru grundvallaratriði í öryggislegu tilliti fyrir Ísland, og að án tryggra samgangna á sjó væri öryggi landsins stefnt í hættu.  Mikilvægt væri, að fraktflutningar til varnarstöðvarinnar styddu við þá sjóflutninga, sem væru milli Íslands og bandalagsríkjanna við Atlantshafið með reglubundnum hætti, en væru ekki afhentir í einu lagi erlendu fyrirtæki, sem hefði engin tengsl við landið og sigldi aðeins til og frá landinu vegna þessara flutninga.

         Samkomulag hafi orðið milli ríkjanna um lausn, sem byggði á þeim grundvallarviðhorfum, sem hér hafi verið rakin.  Árið 1986 hafi verið undirritaður samningur við Bandaríkin til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna auk samkomulags, sem gert hafi verið á sama tíma.

         Við útboð vegna sjóflutninga fyrir varnarliðið árið 1998 hafi íslenzkt fyrirtæki, Atlantsskip ehf., í eigu bandarískra aðila og undir stjórn, sem var sameiginleg stjórn bandarísks systurfélags, fengið þann hluta flutninga fyrir varnarliðið, sem áskilinn var íslenzkum bjóðendum, en bandaríska systurfélagið hafi fengið bandaríska hlutann.  Þar með hafi flutningarnir því verið komnir á eina hendi, þvert gegn markmiðum samningsins frá 1986.  Þá hafi hið íslenzka félag engin tengsl haft við Ísland og ekki rekið hér neina starfsemi.

         Íslenzk stjórnvöld hafi í kjölfarið gert alvarlegar athugasemdir við úthlutun samningsins til Atlantsskipa ehf. og talið, að með henni væri gengið skýrt gegn ákvæðum og markmiðum samningsins frá 1986.  Bandarísk stjórnvöld hafi bent á, að hugtakið „íslenzkt skipafélag“ í skilningi samningsins frá 1986 væri ekki skilgreint sérstaklega í íslenzkri löggjöf, og því væri bandarískum stjórnvöldum heimilt að túlka það eftir sínum skilningi við úthlutun samningsins.  Öðru máli hafi gegnt um hugtak á borð við „skip, sem sigla undir bandarískum fána“ (e.: US Flag Carrier), þar sem hið bandaríska hugtak væri skilgreint í bandarískri löggjöf.  Íslandi væri að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að setja í lög eða reglur skilgreiningu á hugtakinu „íslenzkt skipafélag“ í skilningi samningsins frá 1986, sem myndi þá binda hendur bandarískra stjórnvalda um skilning á því hugtaki.

         Eftir að undirréttur í Bandaríkjunum felldi úr gildi samning Atlantsskipa og bandarískra stjórnvalda um flutningana í ársbyrjun 1999, hafi utanríkisráðuneytið ákveðið að efna til forvals hæfra fyrirtækja til að sinna flutningum fyrir varnarliðið.

         Niðurstaða forvalsnefndar hafi verið sú, að stefnandi hafi ekki verið talinn uppfylla þau hæfnisskilyrði, sem tilgreind voru sem forsenda forvalsins.  Stefnandi hafi kært þá niðurstöðu til utanríkisráðherra, en kæruheimild ákvarðana forvalsnefndar til ráðherra hafi verið við lýði á þessum tíma.  Utanríkisráðherra hafi staðfest niðurstöðu forvalsnefndar í úrskurði á haustmánuðum 1999.  Aldrei hafi komið til þess, að stefnandi yrði útilokaður frá tilboðsgerð á grundvelli þessarar niðurstöðu, þar sem áfrýjunarréttur í Bandaríkjunum hafi fellt niðurstöðu undirréttar úr gildi.

         Um þessa málsmeðferð hafi orðið nokkur ágreiningur milli íslenzkra og bandarískra stjórnvalda.  Til að skapa sátt um málið hafi lög nr. 82/2000, sem íslenzk stjórnvöld hefðu talið gilda á grundvelli viðbætisins við varnarsamninginn og sjóflutningasamningsins, verið sett, sem setji fram með skýrum hætti meginviðmið um skyldu íslenzkra stjórnvalda til að tilnefna hæfa viðsemjendur,.

         Síðastliðinn vetur hafi náðst samkomulag milli Íslands og Bandaríkjanna um, að bandarísk stjórnvöld myndu túlka hugtökin: “gerð út af íslenzkum skipafélögum”  (e.:"operated by Icelandic Shipping companies") til samræmis við skilgreiningu íslenzkra stjórnvalda á því, hvað fælist í að vera íslenzkt skipafélag.  Þetta hafi verið í samræmi við ábendingu bandarískra stjórnvalda á sínum tíma, þess efnis að unnt væri að skýra efnislegar kröfur til íslenzkra skipafélaga með íslenzkri löggjöf eða reglum, ef íslenzk stjórnvöld kysu það.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að ákvæði b- liðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 493/2003 um forval og skilgreiningu fyrirtækja vegna útboðs á grundvelli sjóflutningsamningsins skorti lagastoð. Hafi skilyrði um, að skipafélag skuli einungis teljast íslenzkt, ef það hafi húsbóndavald yfir áhöfn skips og ráðningarsamninga við hana, eingöngu verið sett af hálfu utanríkisráðuneytisins í því augnamiði að gera stefnanda erfiðara fyrir við að bjóða í flutninga fyrir varnarliðið, sem hann hafi haft með höndum sl. 5 ár til hagsbóta fyrir önnur íslenzk skipafélög, en stefnandi telji, að þeim sé vandkvæðum bundið að leigja skip til slíkra flutninga af skipseigendum, sem sérhæfi sig í leigu á skipum með áhöfn, svokallaðri tímaleigu.

         Stefnandi telji, að samkvæmt b- lið l. mgr. l. gr. reglugerðarinnar sé skipafélögum gert að sæta þröngri túlkun á því, hvað teljist vera skip gert út af íslenzku skipafélagi, og telji stefnandi lagastoð bresta til reglugerðarsetningar að þessu leyti.  Sé hér um að ræða verulega þrengda túlkun frá því, sem fram komi í milliríkjasamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986 og áður hafði verið unnið eftir, og sé tilvitnaður b- liður l. mgr. 2. gr. í andstöðu við ákvæði samningsins.  Samkvæmt orðanna hljóðan beri að leggja ákvæði milliríkjasamningsins til grundvallar í forvalinu og eftirfarandi útboði.

         Í 3. gr. tilvitnaðrar reglugerðar sé vísað til lagaheimilda fyrir setningu hennar og sé þar stuðzt við j- lið l. gr., l. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 82/2000.  Í tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 82/2000, sem fram komi í 3. gr. reglugerðarinnar, sé ekki að finna heimild til að setja í reglugerð skilgreiningu þá, sem komi fram í b- lið l. mgr. 2. gr. hennar.  Þar sé fyrst og fremst til ákvæðis 4. tl. l. mgr. j- liðar l. gr. laganna að líta, þar sem segi, að íslenzk fyrirtæki þurfi að uppfylla önnur skilyrði, sem leiði af einstökum afleiddum samningum, eftir því sem við eigi.  Ráðuneytinu hafi ekki verið heimilt með reglugerðarsetningu að skilgreina "skip sem íslenzk skipafélög gera út" á þann hátt, sem ráðuneytið geri í tilvitnaðri reglugerð með vísan í samning Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmdarmáta flutninganna.  Í samningnum komi fram, að flutningarnir skuli falla í skaut aðila, sem geri út "U.S. flag carriers" og skipa "operated by Icelandic shipping companies".  Sé ráðuneytinu óheimilt að binda í reglugerð túlkun á hugtakinu "operated by Icelandic shipping companies" á þann veg, sem gert sé í reglugerðinni nr. 493/2003.

         Enda þótt fram komi í l., 2. og 3. tl. j- liðar l. mgr. l. gr. laga nr. 82/2000 skilgreining á því, hvað teljist vera íslenzkt fyrirtæki samkvæmt lögunum, og í 4. tl. komi fram, að setja megi önnur skilyrði fyrir því, að fyrirtæki teljist vera íslenzk, verði þau skilyrði að taka mið af ákvæðum afleiddra samninga, þ.e. samningum milli Íslands og Bandaríkjanna, sem byggðir séu á varnarsamningnum, samkvæmt orðanna hljóðan eða eðli máls, samkvæmt b- lið l. mgr. l. gr. laganna, en sá eini afleiddi samningur, sem hér geti átt við, sé samningur Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986.  Þar sé hins vegar hvergi að finna ákvæði þess efnis, að íslenzk skipafélög verði að hafa húsbóndavald yfir áhöfnum skipanna, né heldur ráðningarsambönd við áhafnir þeirra, enda hafi aldrei áður verið gerðar kröfur um slíkt.

         Það stoði ekki fyrir stefnda að vísa til heimildar í 2. mgr. j- liðar l. mgr. l. gr. laganna, því þar séu tæmandi talin upp þrjú viðbótarskilyrði, sem setja megi eftir eðli máls og í ljósi hvers verkefnis fyrir sig, sem augljóslega eigi ekki við í því máli, sem hér um ræði.  Í ákvæðinu sé ekki minnzt á heimild til handa ráðherra að mæla á um önnur viðmið í reglugerð.

         Lagaákvæði það, sem stefndi byggi reglugerðarsetninguna á, sé væntanlega að finna í 4. tl. l. mgr. j- liðar l. gr. laga nr. 82/2000  -þó að þar sé ekki að finna skýlausa heimild til reglugerðarsetningar- þar sem segi, að íslenzk fyrirtæki þurfi m.a. að uppfylla önnur skilyrði, sem leiði af einstökum afleiddum samningum, eftir því sem við eigi.  Sé fráleitt, að þetta ákvæði megi túlka með þeim hætti, að ráðuneytinu sé heimilt að setja skilyrði varðandi einstaka afleidda samninga.  Bendi stefnandi á, að samningur um flutningaviðskiptin standi einfaldlega einn og sér sem tvíhliða samningur milli Íslands og Bandaríkjanna, og sé íslenzkum yfirvöldum óheimilt að setja fram einhliða túlkun með þeim hætti, sem gert sé í reglugerð nr. 493/2003.  Framlögð bréf bandarískra þingmanna til Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ann E. Dunwoody, M.T.M.C. og A. Elizabeth Jones, bandaríska utanríkisráðuneytinu, styðji jafnframt þessa afstöðu stefnanda.  Bandarísk stjórnvöld gætu þá sett fram túlkun á nákvæmlega sömu atriðum í reglugerð eða lög þar í landi og vísað til flutningasamningsins.  Þá myndu liggja fyrir tvær mismunandi skilgreiningar á sömu atriðunum.  Ef vilji íslenzkra stjórnvalda hefði staðið til þess að fá fram breyttan skilning á íslenzkum skipafélögum í flutningasamningnum, eða skilning í þá veru, sem ráðuneytið reyni að setja fram í reglugerðinni, hefði íslenzkum yfirvöldum borið að semja um slíkt við bandarísk stjórnvöld, sérstaklega þegar haft sé í huga, að breytingin hafi í för með sér verulega hækkun kostnaðar fyrir hin síðarnefndu.  Í því sambandi megi benda á, að viðbótarsamningur við flutningasamninginn geri beinlínis ráð fyrir, að samningnum og samningsskilmálum megi breyta með samþykki beggja samnings­aðilanna.

         Í bréfi formanns forvalsnefndar utanríkisráðuneytisins, dags. 25. júlí 2003, sé afstöðu ráðuneytisins til lagastoðar reglugerðarinnar lýst.  Vísi ráðuneytið þar til greinargerðar með lögum nr. 82/2000 til stuðnings því, að reglugerðin eigi sér lagastoð.  Komi fram í bréfinu sá skilningur ráðuneytisins, að reglugerðin hafi verið sett með skýrri lagaheimild, sem byggi m.a. á 2. mgr. 9. gr. laga nr. 82/2000, þar sem ekki sé litið til allra þeirra þátta, sem lúti að verkreynslu og hæfni bjóðenda, við forval á grundvelli sjóflutningasamningsins, sbr. 8. gr. laganna.  Samkvæmt tilvitnuðu bréfi telji ráðuneytið það vera "skýra lagaheimild", þegar mælt sé fyrir um eitt eða annað í greinargerð með lögum, burtséð frá hinum eiginlega lagatexta.  Í tilvitnuðu bréfi sé fyrst og fremst fjallað um formskilyrði fyrir setningu reglugerðarinnar og þann skilning ráðuneytisins, að formleg heimild hafi verið til staðar.  Ekkert komi hins vegar fram í bréfinu, er varði hið eiginlega álitaefni, sem stefnandi hafi verið að benda á, þ.e.a.s. að hið efnislega innihald reglugerðarinnar bryti í bága við lög og gildandi samninga og ætti sér ekki lagastoð.

         Sé útilokað fyrir íslenzk stjórnvöld að bera sig að, eins og þau geri varðandi reglugerðarsetninguna, og telji stefnandi, að ótvírætt sé, að reglugerðin brjóti í bága við milliríkjasamning Íslands og Bandaríkjanna.  Sé jafnframt fráleitt, að bandarísk yfirvöld verði talin bundin af slíkum einhliða túlkunar­ákvæðum, sem sett hafi verið af íslenzkum stjórnvöldum með tilvísun í milliríkja­samning, þar sem fyrir liggi, að kosti Bandaríkjahers til samningsgerðar yrði verulega þröngur stakkur sniðinn, og kostnaður við flutningana myndi enn fremur vafalítið aukast verulega.  Væri þessi einhliða túlkun íslenzkra stjórnvalda til þess fallin, að samningsaðilinn, M.T.M.C., sem íslenzk stjórnvöld teldu sig vera í hagsmunagæslu fyrir, ásamt hagsmunum Íslendinga, hefði verulega bundnar hendur við framkvæmd útboðs og frágang samninga, sem íslenzk yfirvöld komi raunverulega lítið sem ekkert að.  Lýsi bandarískir þingmenn þessum áhyggjum sínum í framlögðum erindum til Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ann E. Dunwoody, M.T.M.C. og A. Elizabeth Jones, bandaríska utanríkisráðuneytinu, dags. 14. ágúst 2003.

         Bendi stefnandi jafnframt á, að samningur Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd flutninga á sjó sé frá árinu 1986.  Hafi nú þegar a.m.k. fimm útboð farið fram á grundvelli samningsins, án þess að sérstakar útfærslureglur eða skilgreiningar hafi þurft til að koma.  Sé því ótvírætt að fara eigi eftir sams konar leikreglum nú, þ.e.a.s. milliríkjasamningnum, eins og hann standi, og sé íslenzkum stjórnvöldum óheimilt að þrengja skilyrðin nú með því að setja fram einhliða túlkun á einstökum hugtökum samningsins, 17 árum eftir að hann gekk í gildi.  Sá framgangsmáti, sem hingað til hafi verið viðhafður, sé venjuhelgaður og eigi jafnframt við í hinu væntanlega útboði, sem mál þetta sé sprottið af.

         Við meðferð frumvarps til laga nr. 82/2000, um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, hafi breytingatillögu Guðmundar Hallvarðssonar alþingismanns, sem lotið hafi að því, að íslenzk skip, mönnuð íslenzkum áhöfnum, skyldu hreppa hinn íslenzka hluta flutninga­samninganna, verið hafnað af Alþingi Íslendinga.  Hafi breytingatillagan verið felld í meðförum Alþingis, en með henni hafi þess verið freistað að lögfesta skilning á "íslenzku skipafélagi" í skilningi flutningasamningsins.  Enga slíka skilgreiningu sé því að finna í lögum nr. 82/2000 og sé stefnda óheimilt að setja skilgreininguna svona fram nú, beinlínis í andstöðu við vilja Alþingis.  Auk alls framangreinds brjóti umrætt reglugerðarákvæði í bága við 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 13. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.  Setji reglugerð nr. 493/2003 íslenzkum skipafélögum skorður á framkvæmd viðskipta þeirra og sé óheimilt að kveða á um slíkar skorður og takmarkanir á annan hátt en í lögum.  Þar sem hin nýja, sértæka túlkun komi fram í reglugerð brjóti téð ákvæði í bága við tilvitnað ákvæði stjórnarskrárinnar, og því sé forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins óheimilt að byggja skilyrði útboðs á þeirri reglugerð.

         Hvað varði aðra dómkröfu stefnanda þess efnis, að málsmeðferð forvalsnefndar verði ógilt frá og með 17. júlí 2003, eða síðara tímamarki, bendir stefnandi á, að honum sé nauðsyn á að setja fram dómkröfu þessa.  Ástæða þess sé sú, að verði forvalið talið bundið ólögmætum skilyrðum, verði að krefja forvalsnefnd um að hefja ferlið að nýju, bundið sömu skilyrðum og áður hafi gilt, þ.e. skilyrðum milliríkjasamnings Íslands og Bandaríkjanna.  Að öðrum kosti stæðu eftir hin ólögmætu skilyrði og yrðu lögð til grundvallar í eftirfarandi útboði.

         Að síðustu bendi stefnandi á, að hann telji, að tilvitnað sértækt skilyrði reglu­gerðarinnar sé sett til höfuðs honum og brjóti þar af leiðandi gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá séu kröfur þær, sem settar hafi verið fram af hálfu ráðuneytisins, þess efnis að stefnandi afturkallaði fyrirvara þá, sem hann setti um lögmæti forvalsins, valdníðsla og brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. laganna.

         Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda:

Aðalkrafa stefnda í máli þessu er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er einungis sá þáttur málsins hér til umfjöllunar.

         Stefndi byggir á því í fyrsta lagi, að varnaraðild málsins og hvernig hún tengist dómkröfum sé svo óljós og ómarkviss að leiða eigi til frávísunar.

         Í raun sé dómkröfum beint að forvalsnefnd samkvæmt III. kafla laga nr. 82/2000 í þessu máli og dómkröfur stefnanda lúti að störfum forvalsnefndar. Sé þetta í ósamræmi við 1. mgr. 16. gr., 5. mgr. 17. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en forvalsnefnd verði tæplega stefnt í málinu, eins og atvikum málsins sé háttað.  Þannig hagi til, að stefnandi telji, að reglugerð nr. 493/2003 hafi ekki lagastoð, en á hinn bóginn sé ljóst, að reglugerðin sé ekki sett af forvalsnefnd.  Nefndin beri þannig ekki ábyrgð á gildi reglugerðarinnar að lögum.  Að því er varðar beitingu reglugerðarinnar lúti fyrsti hluti dómkröfu stefnanda að því, að viðurkennt verði með dómi, að nefndinni sé óheimilt að setja skilyrði fyrir vali íslenzkra fyrirtækja vegna fraktflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna. Hér gæti einnig ósamræmis í málatilbúnaði stefnanda gagnvart lagagrundvelli og atvikum málsins. Byggi málsóknin þannig á rangri ályktun. Engin skilyrði hafi verið sett af hálfu forvalsnefndarinnar í auglýsingu þeirri, sem birtist í Morgunblaðinu 17. júlí 2003, umfram það, sem komi fram í reglugerð nr. 493/2003, sem sett hafi verið af ráðherra.  Engin önnur skilyrði komi fram í umræddri auglýsingu.  Forvalsnefndin hafi ekki sett fram nein sjálfstæð skilyrði, en forvalsnefnd sé utanríkisráðherra til aðstoðar við meðferð annarra samninga en starfssamninga, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 82/2000.  Lögum samkvæmt sé málsmeðferð, er varði forval, svo og ákvörðunarvald um tilgreiningu hæfra fyrirtækja, á ábyrgð utanríkisráðuneytis, samkvæmt 7. og 8. gr. laganna.  Utanríkisráðuneytið meti lögum samkvæmt samningstilkynningar og tilgreini þau skilyrði, sem fyrirtæki þurfi að uppfylla til að teljast íslenzk fyrirtæki, sbr. ákvæði j- liðar 1. gr., þar með talin sértæk skilyrði, sem leiða kunni af einstökum afleiddum samningum. 

         Stefnandi sé í raun að eigna forvalsnefnd ákvörðunarvald, sem hún hafi hvorki á valdi sínu, né tekið ákvörðun um að lögum.  Þannig gæti ósamræmis í kröfugerð stefnanda, sem fer í bága við ákvæði d-e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem aðild málsins sé vanreifuð með tilliti til atvika málsins.

         Á því sé byggt, að forvali því, sem mál þetta snúist um, hafi lokið með bréfi forvalsnefndar 29.8. 2003 til stefnanda, en þar komi m.a. fram, að utanríkisráðuneytið hefði tilkynnt MTMC ákvörðun um að tilnefna stefnanda sem íslenzkt skipafélag í skilningi sjóflutningasamningsins frá 1986, en stefnandi hafi sjálfur sótt það fast að komast í gegnum forvalið og tekizt það.  Næsta skref í ferlinu sé útboð fyrir varnarliðið á sjóflutningum, sem bandarísk stjórnvöld annist alfarið sjálf.  Hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr sakarefni málsins fyrir dómi, a.m.k. hafi þeir liðið undir lok í síðasta lagi, þegar forvalinu lauk með bréfi ráðuneytisins, dags. 29.8. 2003, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

         Í öðrum lið dómkröfu stefnanda sé gerð krafa um, að málsmeðferð forvalsnefndar verði ógilt.  Eins og áður segi, sé forvalinu lokið, en Eimskip hf., Samskip hf. og stefnandi hafi öll á endanum komizt í gegnum það.  Á því sé byggt, að stefnanda sé nauðsynlegt vegna fyrsta og annars liðar dómkrafna stefnanda að stefna öllum, sem komizt hafi í gegnum forvalið, enda sé vart annað að sjá en að dómur, sem tæki kröfur stefnanda til greina, myndi hafa áhrif á réttarstöðu þeirra, en um sé að ræða verulega hagsmuni Eimskipa hf. og Samskipa hf.  Vísist um þetta til 18. gr. laga nr. 91/1991.  Einnig vísist til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 278/2003: Nýherji hf. gegn íslenzka ríkinu og Skýrr hf. til réttargæslu.

         Stefndu telji, að annar liður dómkröfu stefnanda sé ekki í samræmi við skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.  Samhengi dómkrafna og málsástæðna sé óljóst að mati stefndu.  Þar sé ekki krafizt ógildingar tiltekinnar stjórnvaldsákvörðunar, heldur ógildingar málsmeðferðar í forvali, sem stefnandi hafi komizt í gegnum.  Stefndu telji það rökleysu.  Í 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 felist til dæmis, að dómsúrslausn um sakarefnið verði að vera það ákveðin, að hún leiði ein sér til málaloka um sakarefnið.

         Á því sé byggt, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um stefnukröfur sínar, þar sem hann hafi þegar komizt í gegnum forvalið, en einnig felist í kröfugerð stefnanda beiðni til dómstóla um lögfræðilegt álit, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

 

Sjónarmið stefnanda varðandi frávísunarkröfu stefnda:

Stefnandi gerir þær kröfur í þessum þætti málsins, að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því í fyrsta lagi, að varnaraðild málsins sé ómarkviss, en kröfum sé í raun beint að forvalsnefnd.

         Fallast má á það með stefnda, að ekki kemur skýrlega fram í kröfugerð, hvernig varnaraðild málsins er háttað; hvort kröfum, öðrum en málskostnaðarkröfu, sé einungis beint að forvalsnefnd eða jafnframt að meðstefnda, íslenzka ríkinu.  Þá er aðild forvalsnefndar að málinu óljós og ekki skýrð í sóknargögnum.  Forvalsnefnd starfar samkvæmt l. nr. 2000/1982.  Segir svo í 7. gr. laganna um hlutverk forvalsnefndar:  “Sérstök forvalsnefnd er utanríkisráðuneytinu til aðstoðar við meðferð annarra samninga en starfssamninga.”  Með hlutverk nefndarinnar í huga verður ekki séð, að tilefni sé til að beina kröfum að nefndinni. 

         Í annan stað byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því, að ósamræmi sé í málatilbúnaði stefnanda gagnvart lagagrundvelli og atvikum málsins. 

         Í fyrri lið dómkröfu stefnanda er gerð krafa um, að viðurkennt verði með dómi, að forvalsnefnd sé óheimilt að setja skilyrði fyrir vali íslenzkra fyrirtækja vegna fraktflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna, sem boðnir eru út á grundvelli nánar tilgreinds samnings til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna og samkomulags varðandi framangreindan samning, sem hófst með auglýsingu nefndarinnar í Morgunblaðinu 17. júlí 2003 þess efnis, að “skip sem íslenzk skipafélög gera út” skuli einvörðungu teljast skip, sem eru undir yfirstjórn og yfirráðum íslenzkra skipafélaga og að í því felist, að íslenzk skipafélög skuli hafa húsbóndavald yfir áhöfn skips og ráðningarsamband við áhöfn þess. 

         Ljóst er, að skilyrði þau, sem fram koma í nefndri auglýsingu byggja á reglugerð nr. 493/2003, sem sett var af utanríkisráðherra 1. júlí 2003.  Svo sem að framan er rakið verður ekki skýrt ráðið af málatilbúnaði stefnanda, að þessum þætti kröfunnar sé beint að meðstefnda, íslenzka ríkinu, svo sem rétt hefði verið, sbr. 5. mgr. 17. gr. l. nr. 91/1991.  Er málatilbúnaður stefnanda óljós að þessu leyti og í andstöðu við d- og e- liði 80. gr. l. nr. 91/1991.

         Síðari hluti kröfu stefnanda lýtur að því, að málsmeðferð forvalsnefndar verði ógilt frá birtingu framangreindrar auglýsingar eða síðara tímamarki.

         Er fallizt á með stefnda, að kröfugerðin sé ekki í samræmi við skilyrði e- liðar 1. mgr. 80. gr. l. nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.  Ekki er krafizt ógildingar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar, sem leiddi af málsmeðferð forvalsnefndar, heldur eingöngu málsmeðferðinni sjálfri. 

         Auk þess, sem að framan er rakið, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á, að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar, en fyrir liggur, að stefnandi var samþykktur hæfur til að bjóða í sjóflutningana, skömmu eftir að málið var höfðað og áður en það var þingfest, sbr. bréf forvalsnefndar, dags. 29. ágúst 2003.   Eru forsendur málshöfðunarinnar þar með brostnar, og krafa stefnanda felur þannig í sér kröfu um lögfræðilega álitsgerð, sem ekki verður lögð fyrir dómstóla, sbr. 1. mgr. 25. gr. l. nr. 91/1991.  Að öllu framansögðu virtu ber að vísa málinu í heild sinni frá dómi.

         Eftir atvikum þykir rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Málinu er vísað frá dómi.

         Málskostnaður fellur niður.