Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Aðilaskýrsla
|
|
Föstudaginn 28. maí 1999. |
|
Nr. 178/1999. |
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Dreifingu ehf. (Hreinn Loftsson hrl.) |
Kærumál. Aðilaskýrsla.
Hlutafélagið D, sem höfðað hafði mál til endurgreiðslu sérstaks jöfnunargjalds, krafðist þess að fyrirsvarsmaður íslenska ríkisins, ráðherrann G, gæfi aðilaskýrslu fyrir dómi. Sýnt þótti að G, sem ekki hafði gegnt starfi ráðherra þegar atvik málsins áttu sér stað, gæti engu svarað um þau. Þá þótti ekki verða ætlast til þess að fyrirsvarsmaður kæmi fyrir dóm til þess að svara spurningum um hvers vegna hann kysi að bera tilteknar málsástæður fyrir sig. Samkvæmt þessu þótti skýrsla G fyrir dómi þarflaus og var kröfu D því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 1999, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, yrði kvaddur fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu í málinu. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að kveðja Geir H. Haarde fyrir dóm til skýrslugjafar. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði varnaraðili málið til að krefja sóknaraðila um endurgreiðslu sérstaks jöfnunargjalds, sem varnaraðili kveður sér hafa verið gert að greiða á tímabilinu frá júní 1988 til ágúst 1995 við innflutning á kartöflum og vörum unnum úr þeim. Varnaraðili telur þessa gjaldtöku, sem sóknaraðili hafi reist á ákvæðum reglugerðar nr. 223/1987 með síðari breytingum, svo og reglugerð nr. 468/1993, hafa verið ólögmæta og vísar því til stuðnings einkum til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1996, bls. 4260. Þá telur varnaraðili kröfu sína að engu leyti fyrnda, en í því sambandi vísar hann meðal annars til 7. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Einnig vísar varnaraðili til þess að með bréfi, sem var ritað í fjármálaráðuneytinu 11. júlí 1997 vegna samsvarandi kröfu Ekrunnar hf. á hendur sóknaraðila, hafi því verið lýst yfir að við hugsanlega málsókn þess félags myndi hann ekki bera fyrir sig fyrningu þess hluta kröfunnar, sem gæti hafa fyrnst eftir 9. apríl 1997. Á grundvelli jafnræðisreglu hljóti það sama að gilda um kröfu varnaraðila.
Í greinargerð til Hæstaréttar færir varnaraðili þau rök fyrir kröfu sinni um að Geir H. Haarde verði kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar að þótt hann hafi ekki verið fjármálaráðherra á þeim tíma, sem varnaraðili greiddi fyrrnefnd gjöld, þá hafi hann gegnt því starfi þegar málið var höfðað og tekið ákvarðanir, sem ráði miklu um réttarstöðu varnaraðila. Í því sambandi vísar varnaraðili sérstaklega til bréfs síns til fjármálaráðherra 28. apríl 1998, þar sem hann hafi óskað eftir að fá að njóta sömu stöðu og Ekran hf. varðandi fyrningu kröfu sinnar. Þar sem ráðherrann hafi ekki svarað þessari ósk varnaraðila hafi hann í reynd tekið ákvörðun um að neita þeim síðarnefnda um að fá að njóta sömu stöðu og forveri ráðherrans í starfi hafi veitt Ekrunni hf. Varnaraðili kveðst telja stjórnvöldum ekki vera stætt á að víkjast undan að gefa skýrslu um svo mikilvæga ákvörðun sem þessa, sem snerti réttindi borgaranna og atvik mála þeirra gegn stjórnvöldum. Geir H. Haarde hafi tekið umrædda ákvörðun, sem varði grundvöll máls varnaraðila á hendur sóknaraðila, og sé ekki unnt að slá föstu fyrirfram að svör hans fyrir dómi skipti engu fyrir málið þegar fram í sæki.
II.
Samkvæmt auglýsingu nr. 21/1998 um staðfestingu forsetaúrskurðar um breytingu á forsetaúrskurði nr. 75 23. apríl 1995, um skipting starfa ráðherra tók Geir Hilmar Haarde við starfi fjármálaráðherra 16. apríl 1998. Hann gegndi því ekki starfinu þegar varnaraðili greiddi gjöldin, sem málið snýst um, eða ákvarðanir voru teknar um að leggja þau á. Er þannig sýnt að hann geti engu svarað um atriði, sem varða þessi atvik málsins.
Af málatilbúnaði sóknaraðila er ljóst að fjármálaráðherra hefur ákveðið að hafna ósk varnaraðila, sem kom fram í áðurnefndu bréfi 28. apríl 1998, um að sóknaraðili bæri ekki fyrir sig fyrningu til varnar gegn kröfum varnaraðila. Eðli málsins samkvæmt verður ekki ætlast til að fyrirsvarsmaður sóknaraðila komi fyrir dóm til að svara spurningum um ástæður þess að hann kjósi að bera þessa málsástæðu fyrir sig, enda er á færi málflytjanda að skýra það eftir þörfum við munnlegan flutning málsins. Hafi fjármálaráðherra brotið með þessari ákvörðun gegn jafnræðisreglu, svo sem varnaraðili heldur fram, getur huglæg afstaða þess fyrrnefnda til réttmætis ákvörðunarinnar engu breytt. Varnaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum getið annarra spurninga, sem hann hefði hug á að leggja fyrir fjármálaráðherra við skýrslugjöf í málinu. Verður því að fallast á með sóknaraðila að skýrsla ráðherrans fyrir dómi sé þarflaus, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. og 4. mgr. sömu greinar verður að hafna kröfu varnaraðila um að Geir H. Haarde komi fyrir dóm til skýrslugjafar í málinu.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Dreifingar ehf., um að Geir H. Haarde fjármálaráðherra verði kvaddur fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu í málinu.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.