Hæstiréttur íslands
Mál nr. 523/2009
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Uppgjör
- Afhendingardráttur
- Galli
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 2010. |
|
Nr. 523/2009. |
Gylfi Lárusson og (Heimir Örn Herbertsson hrl.) Haraldur Lárusson (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Plåtteknik i Kumla AB (Garðar Briem hrl.) |
Lausafjárkaup. Uppgjör. Afhendingardráttur. Galli. Dráttarvextir.
Árið 2004 gerði S samninga við A, nú P, um kaup á tilgreindum vörum. Vegna þessara viðskipta gaf A út sex reikninga og einn inneignarreikning. S greiddi fyrsta reikninginn og hluta af næsta. P höfðaði síðar mál og krafði G og H, forsvarsmenn S, um greiðslu á því sem félagið taldi vangoldið samkvæmt útgefnum reikningum, samtals að fjárhæð 1.187.778 sænskar krónur. G og L kröfðust sýknu og töldu meðal annars að hluti varanna hefði verið gallaður, þeir hefðu ekki fengið allar vörur sem reikningar hefðu verið gerðir fyrir og að um afhendingardrátt hefði verið að ræða af hálfu A. Fallist var á að verulegur afhendingardráttur hefði orðið af hálfu A. Hins vegar var talið að verulega skorti á að G og H hefðu sett fram kröfu vegna tjóns af þessum sökum með fullnægjandi og skýrum hætti og að hún væri studd nauðsynlegum sönnunargögnum. Þá var einnig talið að hluti varanna hefði verið gallaður og hluti þeirra hefði skemmst í flutningi. G og H hefðu þó ekki tryggt sér sönnun fyrir tjóni sínu og orsökum þess og auk þess fengið greiddar tryggingarbætur vegna þessa. Samkvæmt framansögðu var því hafnað að krafa P yrði lækkuð vegna tjóns G og H. Hins vegar var talið að P hefði ekki skýrt síðasta reikninginn á fullnægjandi hátt, en hann var gefinn út allnokkru eftir að viðskiptasambandi aðila lauk. Var því talið ósannað að P hefði afhent þær vörur sem þar greinir og niðurstaða miðuð við kaupverð þeirra vara sem viðurkennd var móttaka á. Ekki var fallist á að P hefði glatað kröfu sinni fyrir tómlæti. Var G og H gert að greiða P 486.849 sænskar krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. júlí 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 19. ágúst 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjuðu þeir héraðsdómi öðru sinni 11. september 2009. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.
Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi. Verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um málskostnað en krefjist að auki málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Einkahlutafélagið Sökkull gerði verksamning við Framkvæmdasýslu ríkisins vorið 2004 um smíði og uppsetningu innréttinga fyrir grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands. Innflutningsfyrirtækið Sökkull sf. annaðist pöntun á skápum, hillum, lausu gleri í hillur og sýningarbása og fleira frá fyrirtækinu Artsec AB í Kumla, Svíþjóð. Artsec AB var selt stefnda í árslok 2004. Sökkli sf., sem var sameignarfélag áfrýjenda, var slitið í september 2005.
Vegna framangreindra viðskipa Sökkuls sf. og Artsec AB gaf Artsec AB út sex reikninga og einn inneignarreikning. Er í stefnu gerð grein fyrir efni reikninganna, útgáfudegi þeirra og gjalddaga, númeri og fjárhæð og er þeim þannig lýst í héraðsdómi. Fyrstu fimm reikningarnir nr. 132, 133, 134, 135 og 136 voru gefnir út þegar vara var send frá Svíþjóð, en uppgjörsreikningur nr. 138, vegna ýmissa hluta og kostnaðar, og inneignarreikningur nr. 139 voru gefnir út nokkrum mánuðum síðar. Gerð er grein fyrir því að fyrsti reikningurinn nr. 132 að fjárhæð 275.240 sænskar krónur hafi verið greiddur að fullu auk 100.000 sænskra króna inn á reikning nr. 133. Stefndi höfðaði mál þetta til innheimtu á því sem hann telur vangoldið samkvæmt þessum reikningum. Af hálfu beggja áfrýjenda er látið að því liggja að málatilbúnaður stefnda sé frá upphafi svo óskýr að erfitt sé að verjast sökinni. Eigi því að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Höfðu þeir uppi sams konar athugasemd við málflutning í héraði.
Stefndi telur sig hafa afhent ákveðna vöru samkvæmt pöntun félags áfrýjenda og séu reikningarnir vegna endurgjalds fyrir hana. Áfrýjendur verjast kröfunni á grundvelli þess að um afhendingardrátt af hálfu stefnda hafi verið að ræða, hluti vörunnar hafi verið gallaður, þeir hafi ekki fengið allar vörur sem reikningar eru gerðir fyrir og ennfremur að stefndi hafi sýnt tómlæti við innheimtu kröfunnar. Þó að ákveðinn sönnunarvandi sé uppi í málinu vegna þess tíma sem liðinn er frá viðskiptunum, einkum vegna deilu aðilanna um samskipti sín á þessu tímabili, verður ekki fallist á með áfrýjendum að málsgrundvöllur stefnda sé ekki nægilega skýr.
II
Upplýst telst að samskipti um viðskiptin á milli Sökkuls sf. og Artsec AB vegna Þjóðminjasafns hafi hafist í árslok 2003. Þau virðast að mestu hafa farið fram munnlega og í tölvupóstum. Artsec AB gerði skriflega pöntunarstaðfestingu 19. febrúar 2004, sem áfrýjendur hafa viðurkennt að rétt sé. Þar er heildarfjárhæð pöntunar talin nema 1.258.884 sænskum krónum. Um afhendingartíma segir að um hann fari eftir síðara samkomulagi. Gert er ráð fyrir að reikningar séu gerðir við afhendingu og greiðslufrestur 30 dagar. Virðist því ljóst að í upphafi hafi ekki verið samið um fastan afhendingartíma, en fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að eðlilegur afgreiðslutími á pöntun hefði verið sex til átta vikur. Hinn 19. mars 2004 sendi Artsec AB, áfrýjanda Haraldi símbréf með áætlun sinni um afhendingartíma vegna einstakra verkþátta. Samkvæmt þessari áætlun áttu síðustu sendingar að koma um miðjan maímánuð, en þó er gerður fyrirvari um að ekki verði farið fram á breytingar á verkinu sem krefjist frekari vinnu. Í verksamningi Sökkuls ehf. og verkkaupa segir að framkvæmdum skuli að fullu lokið eigi síðar en 7. apríl 2004, en ljóst er að undirritun samningsins og framkvæmdum seinkaði og að snemma sumars 2004 var opnun safnsins endanlega ákveðin 1. september það ár.
Með bréfi 15. maí 2004, eftir sérstaka ferð til Kumla í byrjun sama mánaðar, brýndi áfrýjandi Haraldur seljandann á því, að vörurnar yrðu að komast í skip 21. og 28. maí og 4. júní, ella myndi Sökkull ehf. lenda í vanefndum með sitt verk gagnvart Þjóðminjasafni.
Fyrsta sending frá Artsec AB fór í skip 28. maí 2004. Um var að ræða textabox og lykilgripaskápa. Reikningur vegna þessarar sendingar, nr. 132 að fjárhæð 275.240 sænskar krónur, var gefinn út sama dag með gjalddaga 14. júní. Samkvæmt pöntunarstaðfestingunni var greiðslufrestur 30 dagar. Reikningurinn var greiddur 7. júlí sama ár. Önnur sendingin, laust gler, fór í skip 11. júní 2004. Reikningur nr. 133 vegna hennar að fjárhæð 301.242 sænskar krónur var gefinn út degi fyrr með gjalddaga 25. sama mánaðar. Inn á hann greiddi Sökkull sf. 100.000 sænskar krónur 9. júlí 2004. Þriðja, fjórða og fimmta sending fóru í skip 18. og 24. júní og 9. júlí 2004, og loks komu vörur með flugi 29. júlí. Eru reikningar vegna þeirra vara gefnir út í samræmi við pöntunarstaðfestinguna á svipuðum tíma og vörurnar voru sendar. Eru þeir ógreiddir auk eftirstöðva reiknings nr. 133 og uppgjörsreiknings nr. 138 sem síðar var gefinn út.
Stefndi kveður ekki hafa verið samið um neinn afhendingartíma. Telja verður að í viðskiptum sem þessum verði að miða við eðlilegan afhendingartíma, sé ekki sérstaklega um hann samið. Forsvarsmaður stefnda taldi hann vera sex til átta vikur og hefur það ekki sætt andmælum af hálfu áfrýjenda. Samkvæmt þessu stóð stefndi ekki við umsaminn afhendingartíma. Hann stóð ekki heldur við eigin áætlun um afhendingartíma, sem hann hafði kynnt fyrir áfrýjanda Haraldi, og telja verður skuldbindandi fyrir stefnda. Þá lagði forsvarsmaður Artsec AB til nýja afgreiðsluáætlun í tölvubréfi 11. maí 2004 sem ekki stóðst. Samkvæmt minnisblaði Línuhönnunar hf., sem var eftirlitsaðili með verkinu, var enn farið yfir stöðuna á fundi með fulltrúa Artsec AB í Kumla 21. júní og gerð afgreiðsluáætlun, en ekki var staðið við hana.
Stefndi heldur því fram að engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu Sökkuls sf. Eins og áður er sagt fóru menn á vegum áfrýjenda og safnsins til Kumla í maí 2004 til þess að ganga eftir efndum á verkinu. Í bréfi dagsettu 15. maí 2004 er kvartað yfir því að afgreiðsla sé langt á eftir áætlun, sem gerð hafi verið í marsmánuði, og gerð krafa um að varan fari í skip á tilteknum dögum. Með tölvubréfi 11. júní 2004 framsendir áfrýjandi Haraldur til Artsec AB bréf eftirlitsaðila dagsett sama dag þar sem fjallað er um afgreiðsludrátt Sökkuls ehf. og brýnir fyrir honum alvöru málsins. Í minnisblaði eftirlitsaðila um stöðu verksins 17. júlí sama ár kemur m.a. fram að yfirvofandi sé ákvörðun „um riftun vörukaupa Sökkuls frá birgja Artsec“. Kemur meðal annars fram að Artsec AB hafi ekki svarað formlegum fyrirspurnum og kvörtunum Sökkuls sf. frá byrjun júní og hafi því verið haldinn verktakafundur í Kumla 21. sama mánaðar. Þar hafi verið farið yfir „hvernig staðið yrði að lokaafgreiðslu vöru og lagt upp afgreiðsluplan“. Það hafi ekki gengið eftir og ekki sé svarað síma eða tölvupósti hjá stefnda. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið hafa áfrýjendur sýnt fram á að gerðar voru athugasemdir við drátt á afhendingu og Artsec AB var brýnt á því að standa við afhendingartíma.
Stefndi heldur því fram að beðið hafi verið um breytingar á verkinu. Ekki er að finna beiðni um breytingu frá áfrýjendum í gögnum málsins, en í tölvubréf frá Artsec AB 11. maí 2004 kemur fram að gera þurfi breytingu sem arkitektinn hafi samþykkt. Af viðbrögðum eftirlitsaðila daginn eftir má ráða að þessi breyting hafi ekki verið í samráði við verkkaupa, en teikningar af verkinu lágu fyrir. Því er einnig hafnað af áfrýjanda Haraldi í tölvupósti 28. júní 2004 að beðið hafi verið um breytingar.
Loks heldur stefndi því fram að reikningar hafi ekki verið greiddir á réttum tíma og hafi það leitt til dráttar á afhendingu. Í tölvupósti 29. júní segir forsvarsmaður Artsec AB að reikningar hafi ekki verið greiddir og erfitt sé að segja til um afhendingartíma. Ljóst er að fyrsti reikningurinn var greiddur innan greiðslufrests, og að kvartað var vegna annarrar sendingar sem greidd var að hluta. Auk þessa hafði afgreiðsla þegar dregist mikið þá er fyrstu tvær sendingarnar komu. Sökkull sf. hafði opnað bankaábyrgð í þágu Artsec AB sem var í gildi frá 19. mars til 15. júní 2004, hafði því ekki skort fé til að greiða reikninga fyrir rétta afgreiðslu. Af öllu framangreindu er ljóst að fallast má á það með áfrýjendum að verulegur afhendingardráttur hafi orðið af hálfu stefnda, sem að lokum leiddi til þess að áfrýjendur snéru sér annað um aðföng til að geta lokið verkinu.
III
Áfrýjendur halda því fram að varan sem pöntuð var hjá Artsec AB hafi verið gölluð að hluta. Annars vegar hafi hluti glersins brotnað og hins vegar hafi hluti af glerinu verið með framleiðslugalla. Áfrýjendur fullyrða að þegar opnuð var sendingin sem fór í skip 11. júní 2004, sbr. reikning nr. 133, hafi komið í ljós að hluti glersins var brotinn. Eru í málsskjölum gögn um samskipti aðila vegna þessa frá síðari hluta júnímánaðar. Ágreiningslaust er að Artsec AB gekk frá sendingunni, en samkvæmt pöntunarstaðfestingu skyldi afhending vörunnar vera við verksmiðjudyr. Varan var því ekki á ábyrgð seljanda meðan á flutningi stóð. Áfrýjendur hafa ekki látið meta eða tryggt sér á annan hátt sönnun fyrir orsökum þess að glerið brotnaði og hafa ekki orðið við áskorunum stefnda um að leggja fram gögn frá tryggingafélagi. Hafa áfrýjendur því ekki sannað að tjónið verði að einhverju leyti rakið til atvika sem stefndi ber ábyrgð á. Tjón vegna þess að gler brotnaði í flutningi og tafa sem urðu vegna þess að útvega þurfti nýtt gler er því ekki á ábyrgð hans.
Gögn málsins sýna að hluti glersins var gallaður að því leyti að á því voru rispur og sandblástur ekki fullnægjandi. Var glerinu hafnað af verkkaupa. Hér var um að ræða gler í sýningarstöð sem hafði vinnuheitið „kirkja“. Þetta gler virðist hafa komið í annarri sendingu um miðjan júní. Samkvæmt málsgögnum er kvartað við Artsec AB vegna þessa galla 24. og 28. júní 2004 og kvörtun eftirlitsaðila við Sökkul ehf. var framsend til Artsec AB 1. júlí sama ár. Ekki er að sjá að Artsec AB hafi brugðist við þrátt fyrir kröfu um nýja vöru. Við úttekt eftirlitsaðila 6. júlí 2004 kemur fram að enn vantar ýmislegt sem upphaflega var pantað eða hafði reynst gallað og að ákveðið hefur verið að leita annarra úrræða. Utanréttarvottorð frá Þjóminjasafni og Framkvæmdasýslu ríkisins staðfesta að gæði glers sem hafi verið móttekið í „kirkju“ í lok júní 2004 hafi ekki uppfyllt „kröfur útboðsgagna um fagleg og vönduð vinnubrögð.“ Var það jafnframt staðfest í vætti Bjarka Guðmundssonar, sem var starfsmaður eftirlitsaðilans Línuhönnunar hf. Þykir með öllu framangreindu sannað, þrátt fyrir mótmæli stefnda, að hinn sandblásni hluti glersins í „kirkjuna“ hafi verið gallaður.
IV
Byggja verður á því að 19. febrúar 2004 hafi endanlegur samningur komist á milli Sökkuls sf. og Artsec AB um kaup á vörum til Þjóðminjasafns, sem gert var ráð fyrir að myndu kosta 1.258.884 sænskar krónur. Stefndi krefur áfrýjendur um greiðslu samkvæmt sex reikningum vegna vöru sem hafi verið afhent, en að frádregnum inneignarreikningi, samtals um 1.187.778 sænskar krónur, eftir leiðréttingu. Óumdeilt er að áfrýjendur hafa greitt vegna reikninga stefnda 375.240 sænskar krónur. Mismunur er 812.538 sænskar krónur. Á fundi aðila vegna uppgjörs þeirra á milli 8. mars 2005 gerðu áfrýjendur gagnkröfu til skuldajafnaðar á stefnda að fjárhæð 643.749 sænskar krónur vegna glers og annars efnis sem þeir hafi þurft að kaupa frá öðrum vegna vanefnda stefnda og auk þess kröfðust þeir 120.000 sænskra króna vegna áætlaðs kostnaðar af vanefndunum. Frá því buðust þeir til að draga tryggingarbætur sem þeir höfðu fengið greiddar vegna gallaðs glers og brotins samtals 169.385 sænskar krónur. Var heildarkrafa þeirra þannig 594.364 sænskar krónur (643.749+120.000-169.385 =594.364).
Reikningur Artsec AB nr. 138 að fjárhæð 436.260 sænskar krónur var gefinn út 27. október 2004. Hann ber með sér að vera einhvers konar lokareikningur og er frábrugðinn hinum reikningum fyrirtækisins, sem um er fjallað í málinu, að því leyti að ekki er í gögnum málsins að finna upplýsingar um sendingartíma eða sendingarhátt á þeim vörum sem hann tekur til. Hann er heldur ekki gerður í samræmi við þann skilmála, sem greinir í pöntunarstaðfestingunni 19. febrúar 2004, að reikningar skuli gerðir við afhendingu vörunnar. Í greinargerð áfrýjenda í héraði var kröfu stefnda mótmælt meðal annars á þeirri forsendu að Artsec AB hefði ekki afhent vörur nema fyrir
862.098 sænskar krónur, en ekki 1.187.778 sænskar krónur eins og samtala reikninganna hljóðar um. Byggði hann þetta á yfirliti sem hann hafði útbúið og lagt fyrir fulltrúa stefnda á fundi 8. mars 2005, en þessa fundar er getið að framan.
Með hliðsjón af því að þessi síðasti reikningur Artsec AB var gerður nokkrum mánuðum eftir að Sökkull sf. hafði slitið viðskiptasambandinu við fyrirtækið og stefndi hefur ekki gert sérstaka grein fyrir þessari reikningsgerð, meðal annars með því að skýra út hvenær vörurnar sem hann er gerður fyrir voru sendar til Íslands, og hvers vegna reikningurinn var ekki gerður þá um leið, telst stefndi ekki hafa fært fram í málinu fullnægjandi sönnur fyrir því að hafa afhent Sökkli sf. þessar vörur. Þetta leiðir til þess að áfrýjendur verða ekki dæmdir til að greiða stefnda hærri fjárhæð en nemur kaupverði þeirra vara sem þeir hafa viðurkennt að hafa tekið við, 862.089 sænskar krónur, að frádregnum greiðslum sem fyrr var getið samtals að fjárhæð 375.240 sænskar krónur, en mismunurinn nemur 486.849 sænskum krónum.
Fallist hefur verið á með áfrýjendum að gler hafi að hluta verið gallað. Þeir tryggðu sér hins vegar ekki sönnun fyrir tjóni sínu og hafa að auki viðurkennt að hafa fengið greiddar tryggingabætur vegna þessa. Einnig er fallist á með áfrýjendum að stefndi hafi vanefnt samninginn með því að afhenda ekki vöru á umsömdum tíma. Hafa þeir leitt líkum að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa, annars vegar vegna tafabóta sem þeir hafi þurft að greiða verkkaupa og hins vegar þar sem þeir hafi þurft að kaupa gler og fleira frá öðrum. Verulega vantar þó á að þeir hafi sett kröfu sína fram með fullnægjandi og skýrum hætti og stutt hana nauðsynlegum sönnunargögnum. Þeir hafa heldur ekki sýnt fram á að þeir hafi tímanlega gert stefndu grein fyrir henni. Verður því að hafna því að krafa stefnda verði lækkuð vegna tjóns áfrýjenda.
Áfrýjendur byggja loks á því að stefndi hafi ekki haldið kröfu sinni fram án ástæðulauss dráttar og því glatað henni vegna tómlætis. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um þessa málsástæðu er henni hafnað og verða áfrýjendur dæmdir óskipt til að greiða stefnda 486.849 sænskar krónur. Þar sem stefndi fylgdi ekki reikningskröfu sinni eftir fyrr en með birtingu stefnu 31. júlí 2007, án þess að séð verði að gild ástæða hafi staðið til þess að draga það í þrjú ár, þykir rétt með hliðsjón af 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að dráttarvextir greiðist frá þeim degi er málið var höfðað og til greiðsludags.
Áfrýjendum verður óskipt gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Gylfi Lárusson og Haraldur Lárusson, greiði óskipt stefnda, Plåtteknik i Kumla AB, 486.849 sænskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. júlí 2007 til greiðsludags.
Áfrýjendur greiði óskipt stefnda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., var höfðað 31. júlí 2008 af Plåtteknik i Kumla, Viagatan 23, 69235 Kumla, Svíþjóð, gegn Gylfa Lárussyni, Trönuhólum 8, Reykjavík, og Haraldi Lárussyni, Trönuhólum 10, Reykjavík.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða
stefnanda in solidum 842.815 sænskar krónur (SEK) auk dráttarvaxta samkvæmt
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Málavextir eru þeir að Sökkull sf., sameignarfélag stefndu, flutti inn vörur frá fyrirtækinu Artsec AB í Kumla í Svíþjóð, skápa, hillur og laust gler í hillur og sýningarbása og fleira til uppsetningar í Þjóðminjasafni Íslands. Í málinu hefur verið lagt fram tilboð Artsec AB frá 19. febrúar 2004 í gler og fleira til framangreindrar notkunar að fjárhæð 1.258.884 SEK en ágreiningslaust er að það hafi verið gert á grundvelli teikninga og útboðslýsingar. Breytingar voru gerðar frá því tilboðið var gert þar til afhending á glerinu hófst, m.a. breytingar á hönnun. Varan var afhent á tímabilinu maí 2004 til október sama ár.
Stefnandi hefur lagt fram reikninga í málinu fyrir vöruna sem hann lýsir í stefnu og einnig hvað greitt hafi verið af hálfu Sökkuls sf. Stefnandi krefst þess að stefndu greiði eftirstöðvar reikninganna, en félaginu hafi verið slitið og beri stefndu saman persónulega ábyrgð á skuldinni.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að reikningarnir séu of háir en Sökkull sf. hafi aðeins fengið vörur, gler og önnur verðmæti, fyrir 862.098 SEK. Sökkull sf. hafi greitt 375.240 SEK og því hafi skuldin aldrei getað verið hærri en 486.858 SEK. Af hálfu stefndu er því jafnframt haldið fram að Sökkull sf. hafi orðið fyrir útgjöldum og tjóni vegna vanefnda Artsec AB. Sökkull sf. hafi orðið að kaupa gler og annað efni frá öðrum vegna vanefndanna. Kostnaður hafi verið 643.749 SEK. Til frádráttar þessari kröfu á hendur Artsec AB hafi komið tryggingabætur, að fjárhæð 169.385 SEK. Vegna tafa hafi Sökkull sf. orðið fyrir tjóni sem nemi 120.000 SEK. Sökkull sf. hafi því átt kröfu á hendur Artsec AB að fjárhæð 107.506 SEK.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að reikningar hafi aðeins verið gerðir fyrir vörum sem afhentar voru samkvæmt pöntun og breytingum sem hafi verið gerðar á afhendingartíma. Því er mótmælt af hálfu stefnanda að gler eða annað hafi vantað í sendingar til Sökkuls sf. eða að vörur hafi verið gallaðar eða með skemmdum sem stefnandi beri ábyrgð á. Því er haldið fram að stefndu hafi hvorki sýnt fram á það né að seinkun hafi orðið á afhendingu sem valdið hafi stefndu eða fyrirtæki þeirra tjóni.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að fyrirtækið Artsec AB hafi sent Sökkli sf. eftirtalda reikninga vegna afgreiðslu á gleri og öðrum vörum: Reikning nr. 132, fyrir skápum, gefinn út 28. maí 2004, með gjalddaga 14. júní s.á., að fjárhæð 275.240 SEK, reikning nr. 133, fyrir lausu gleri og vinnu við fræsun og borun, gefinn út 10. júní 2004, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð 301.242 SEK, reikning nr. 134, fyrir lausu gleri og fræsun, gefinn út 17. júní s.á., með gjalddaga 2. júlí s.á., að fjárhæð 62.221 SEK, reikning nr. 135, fyrir lausu gleri og fíber-efni, gefinn út 23. júní s.á., með gjalddaga 9. júlí s.á., að fjárhæð 83.991 SEK, reikning nr. 136, fyrir lausu gleri, gefinn út 4. júlí s.á., með gjalddaga 19. júlí s.á., að fjárhæð 63.766 SEK, reikning nr. 138, uppgjörsnóta vegna hluta sem tengdust lykilhlutum í safninu, vegna glers og skápa, vegna flutningskostnaðar og áfallins aukakostnaðar, gefinn út 27. október s.á., með gjalddaga 10. nóvember s.á., að fjárhæð 436.260 SEK. Síðan hafi verið gefin út kreditreikningur nr. 139 vegna lýsingar 27. október s.á., að fjárhæð 4.665 SEK. Allt gler, sem greiðslu er krafist fyrir með framangreindum reikningum, hafi verið afhent.
Sökkull sf. hafi greitt reikning nr. 132 að fullu, 275.240 SEK, og síðan hafi hann greitt 100.000 SEK 9. júlí 2004 inn á reikning nr. 133. Eftirstöðvar kröfunnar hafi Sökkull sf. og eigendur þess félags ekki fengist til að greiða þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.
Eignir fyrirtækisins Artsec AB hafi verið seldar stefnanda með kaupsamningi 22. desember 2004. Meðal hins selda hafi verið krafan sem deilt er um í málinu.
Við innheimtutilraunir og á samningafundi hafi forsvarsmenn og eigendur Sökkuls sf. haldið því fram að gler hafi brotnað í flutningi og verið skemmt þegar það kom til starfstöðvar fyrirtækisins. Stefnandi telji að hvorki Artsec AB né hann geti borið ábyrgð á þeim skemmdum sem honum hafi verið tjáð að hafi orðið á glerinu. Forsvarsmenn stefnanda hafi upplýsingar um að Sökkull sf. hafi fengið skaðabætur vegna brotins glers frá vátryggingarfélagi en fjárhæðin hafi ekki verið gefin upp.
Þá hafi forsvarsmenn Sökkuls sf. borið því við að seinkun hafi orðið á afhendingu glers, sem hafi leitt til þess að grípa þurfti til kostnaðarsamra úrræða, og bæri Artsec AB ábyrgð á því tjóni. Þessu mótmæli stefnandi. Þykkt glers hafi þurft að breyta en það hafi fengist samþykkt. Þetta kunni að hafa valdið nokkurri seinkun. Um óverulegan hluta verkefnis hafi verið að ræða. Sökkull sf. geti ekki átt bótarétt vegna þessa, m.a. vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að tjón hafi orðið vegna seinkunarinnar. Að öðru leyti hafi ekki verið sýnt fram á að gler hafi ekki verið afhent innan þeirra tímamarka sem skuldbinding Artsec AB náði til.
Stefndu hafi borið því við að í mörgum tilvikum hafi verið um rangar afgreiðslur að ræða, að gler hafi vantað í sendingar eða stærðir verið rangar. Loks hafi verið staðhæft að í nokkrum tilvikum hafi gler verið gallað og í því sambandi byggt á gögnum frá eftirlitsmanni framkvæmdarinnar. Stefnandi mótmæli þessu og haldi því fram að í einhverjum tilvikum hafi Sökkull sf. talið að gler hafi verið gallað, sbr. t.d. í tölvupósti 4. febrúar 2005, en í raun hafi verið um skemmdir í flutningi að ræða. Stefnandi hafi upplýsingar um að gámar hafi orðið fyrir hnjaski og gler í þeim brotnað, auk þess sem sjór hafi komist í a.m.k. einn þeirra gáma sem glerið var flutt í og raki dregist upp á milli sandblásinna glerskífa með þeim afleiðingum að þær hafi eyðilagst. Engar úttektir hafi farið fram sem leitt hafi í ljós að um galla á gleri hafi verið að ræða eða að ranglega hafi verið afhent.
Fyrirtækinu Sökkli sf., sem hafi verið sameignarfélag beggja stefndu, hafi verið slitið og félagið afmáð úr firmaskrá 29. desember 2005. Stefndu beri persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins in solidum.
Um lagarök sé vísað til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um vexti vísist til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu lýsa málsatvikum þannig að Framkvæmdasýsla ríkisins hafi boðið út smíði og uppsetningu innréttinga í Þjóðminjasafni Íslands fyrir menntamálaráðuneytið í október 2003. Ráðgjafar ráðuneytisins við framkvæmd þessa hafi verið Codesign Sweden, Línuhönnun hf. og Rafhönnun. Samkvæmt útboðsgögnum hafi verið gert ráð fyrir að verkinu lyki 22. mars 2004. Einkahlutafélag stefndu, Sökkull ehf., hafi orðið hlutskarpast og fengið verkið.
Félagið hafi þegar hafist handa um undirbúning og framkvæmd verksins sem falist hafi í smíði innréttinga og uppsetningu þeirra á verkstað. Innréttingarnar hafi átt að smíða úr spónlögðum viði, gleri, stáli og öðrum sértilgreindum efnum. Um hafi verið að ræða innréttingar, sem samanstæðu af 80 sérgerðum stöðvum fyrir ólíka sýningaþætti Þjóðminjasafnsins, eins og fram komi í verksamningi um verkið. Verksamningurinn hafi, af ástæðum ókunnum forsvarsmönnum Sökkuls ehf., fyrst verið undirritaður 24. maí 2004, en í honum sé ákvæði um verklok 7. apríl s.á., þó að við undirskrift hafi legið fyrir að öllum framkvæmdum við Þjóðminjasafnið hefði seinkað verulega af ýmsum ástæðum.
Meðal þess sem Sökkull ehf. hafi þurft að kaupa til efnda á verkskyldum sínum hafi verið skápar, hillur og laust gler í hillur og sýningarskápa. Sænski ráðgjafinn, Codesign Sweden, hafi lagt til að keypt yrði af fyrirtækinu Artsec AB og hafi nafn þess verið á teikningum sem fylgt hafi útboðsgögnum.
Stefndu hafi á verktímanum átt sameignarfélagið Sökkul, sem séð hafi um allan innflutning á vörum fyrir verktakafyrirtæki þeirra, þar á meðal innflutning frá Artsec AB vegna vinnu við Þjóðminjasafnið. Félaginu hafi verið slitið 1. september 2005 og eigur þess lagðar inn í Sökkul ehf.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að viðskiptin við Artsec AB hafi einkennst af vanefndum af hálfu þess fyrirtækis. Artsec AB hafi ekki staðið við tímasetningar um afhendingu framleiðslu sinnar fyrir Sökkul sf. Þegar framleiðslan hafi borist hafi hún verið gölluð og henni hafnað af eftirlitsmönnum verkkaupa, eins og sjá megi dæmi um í tölvupósti eftirlitsmanns 24. júní 2004. Samskipta og viðskiptasögunni sé lýst nánar á uppgjörsblaði stefndu. Gallar á gleri og öðru, sem Artsec AB hafi afhent, hafi m.a. leitt til þess að leita hafi þurft til annarra framleiðenda svo Sökkull ehf. gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart verkkaupa. Stefnt hafi verið að opnun Þjóðminjasafnsins 1. september 2004.
Stefndu hafi gert forsvarsmönnum Artsec AB grein fyrir öllum kröfum sínum vegna vanefnda þeirra og hafnað því að greiða reikningana sem mál þetta snúist um.
Stefndu hafi síðan fengið vitneskju um að Artsec AB hafi selt eignir sínar til stefnanda, þar á meðal kröfuna á hendur Sökkli sf. Við kaupin hafi sú krafa verið talin að fjárhæð SEK 842.815, eins og fram komi í kaupsamningi. Sú fjárhæð byggist á viðskiptayfirliti, en samkvæmt því hafi verið útskuldað á Sökkul sf. 1.222.720 SEK, bakfærðar 4.665 SEK og greitt af Sökkli sf. 375.240 SEK.
Stefndu haldi því fram að höfuðstóll skuldarinnar, eins og hann sé tilgreindur í dómskjölum stefnanda, sé rangur. Þeir vísa til þess að Artsec AB hafi aðeins afhent vörur, gler og önnur verðmæti fyrir 862.098 SEK á verktímanum, eins og fram komi í uppgjöri. Sökkull sf. hafi greitt Artsec 375.240 SEK og því hafi skuldin aldrei getað verið hærri 486.858 SEK.
Eigendur stefnanda, sem að mestu væru hinir sömu og komu að Artsec AB, hafi óskað eftir fundi með eigendum Sökkuls sf. í febrúar 2005. Fundurinn hafi verið haldinn á skrifstofu Sökkuls ehf. 8. mars það ár. Fundinn hafi setið auk stefndu m.a. Bjarki Guðmundsson byggingartæknifræðingur sem haft hafi eftirlit með framkvæmdum við Þjóðminjasafnið. Á fundinum hafi forsvarsmönnum stefnanda og lögmanni þeirra verið gerð grein fyrir því, sem þeir hefðu fengið vitneskju um meðan þeir voru eigendur Artsec AB, að Sökkull sf. hefði hafnað framlögðum reikningum og hefði greitt þá kröfu sem á milli félaganna stæði með skuldajöfnuði en félagið hefði orðið fyrir útgjöldum og tjóni vegna vanefnda Artsec AB, sem næmi hærri fjárhæð en framlagðir reikningar. Forsvarsmönnum stefnanda og lögmanni þeirra hafi verið afhent gögn þessu til staðfestingar. Í uppgjörsgögnum komi fram að Sökkull sf., hefði orðið að kaupa gler og akrýl frá öðrum vegna vanefnda Artsec AB og flytja til landsins í flugi. Kostnaður Sökkuls sf. af þessu hafi verið 643.749 SEK. Sökkull sf. hefði greitt Artsec AB 375.240 SEK en það sé óumdeilt og komi fram í stefnu og á viðskiptayfirliti. Vegna skemmda á gleri í flutningum hafi Sökkull sf. fengið greiddar bætur að fjárhæð 169.385 SEK, sem hafi komið til frádráttar kröfum á hendur Artsec AB. Sökkull ehf. hafi talið sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tafa á verkinu vegna vanefnda Artsec AB. Sú krafa hafi verið talin nema um 120.000 SEK. Sökkull sf. hafi talið sig eiga kröfu að fjárhæð 107.506 SEK á hendur Artsec AB á fundinum 8. mars.
Ekkert hafi heyrst frá forsvarsmönnum stefnanda í framhaldi af þessum fundi og hafi stefndu litið svo á að málinu væri lokið. Stefndu hafi því komið á óvart þegar þeir fengu vitneskju um að lögmaður stefnanda hefði hringt í lögmann þeirra 13. júní 2007, liðlega tveimur árum eftir fund aðilanna, og spurst fyrir um hvort hann myndi skrifa upp á stefnu vegna kröfu stefnanda á hendur þeim. Í kjölfarið hafi verið sent bréf til lögmannsins þar sem krafist hafi verið uppgjörs á 842.815 SEK auk vaxta og kostnaðar.
Stefndu byggi sýknukröfu sína á því að þeir eigi og hafi átt kröfu til skuldajafnaðar á hendur Artsec AB vegna vanefnda félagsins á samningi um framleiðslu á skápum, gleri og fleiru. Sú mótbára stefndu haldi gildi sínu gagnvart stefnanda. Um viðskiptin gildi lög um lausafjárkaup nr. 50/2006. Kaupin séu ekki alþjóðleg þar sem þau séu milli íslensks og sænsks aðila, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Líta verði á viðskipti stefndu og Artsec AB sem pöntunarkaup í skilningi 1. mgr. 2. gr. laganna.
Fyrir liggi í gögnum málsins að Artsec AB hafi vanefnt samninginn þar sem galli hafi verið á því sem Artsec AB tók að sér að framleiða fyrir Sökkul sf. Þá hafi framleiðslunni ekki verið skilað á réttum tíma. Þetta hafi leitt til þess að stefndu hafi orðið að gera aðrar ráðstafanir til að efna verksamning sinn við verkkaupa. Forsvarsmönnum Artsec AB hafi verið gerð grein fyrir þessum vanefndum og að félagið yrði gert ábyrgt fyrir öllum kostnaði og tjóni stefndu vegna vanefndanna. Forsvarsmenn Artsec AB hafi ekki hreyft andmælum fyrr en í mars 2005 þegar þeir hafi verið búnir að selja stefnanda kröfuna og aðrar eignir Artsec AB. Stefndu hafi ítrekað afstöðu sína á fundi 5. mars s.á. án þess að stefnandi hreyfði nokkrum mótbárum. Skilyrði væru til skuldajafnaðar í máli þessu, eins og krafa hafi verið gerð um alla tíð af hálfu stefndu.
Verði ekki fallist á framangreint krefjist stefndu sýknu vegna tómlætis stefnanda. Stefndu hafi um leið og tilefni var til kvartað undan vanefndum Artsec AB. Forsvarsmenn Artsec AB hafi hins vegar ekki hirt um að halda uppi kröfu sinni gagnvart viðsemjanda sínum fyrr en 28 mánuðum eftir að stefnanda voru kynntar mótbárur stefndu. Dráttur þessi sé með öllu óafsakanlegur og andstæður hagsmunum stefndu, sem eins og aðrir aðilar viðskiptalífs verði að geta treyst því að viðsemjendur þeirra lýsi kröfum sínum tafarlaust á hendur þeim.
Stefndu mótmæli upphafstíma vaxtakröfu fari svo ólíklega að krafa stefnanda verði tekin til greina að öllu eða einhverju leyti.
Stefndu byggi kröfur sínar á lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnun og tómlæti og 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um gagnkröfu til skuldajafnaðar án sjálfstæðs dóms. Krafa um málskostnað sé byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Við munnlegan málflutning kom fram af hálfu stefndu að málatilbúnaður stefnanda væri ófullnægjandi og því ætti að vísa málinu frá dómi án kröfu. Þessu var mótmælt af hálfu stefnanda. Kröfur stefnanda eru byggðar á reikningum, sem lagðir eru fram í málinu, en þeir eru frá árinu 2004 og er lýst nánar í stefnu. Í fylgiskjölum með þessum reikningum, að einum undanskildum, þ.e. frá 27. október 2004, er vörunni lýst og vísað til númera, sem fram koma á teikningum, sem fylgdu útboðsgögnum. Með vísan til þessa og viðhlítandi lýsinga í stefnu verður að telja málatilbúnað stefnanda fullnægjandi og er því ekki ástæða til að vísa málinu frá dómi án kröfu.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnandi geti ekki átt kröfu á hendur þeim þar sem vanefndir hafi orðið af hálfu seljanda vörunnar. Eins og hér að framan er lýst byggja stefndu á því að vörur hafi vantað, að vara hafi verið gölluð eða að afhent hafi verið of seint. Stefndu hafi þurft að útvega vörur frá öðrum framleiðanda og orðið fyrir töfum við verkið. Tjón vegna þessa komi til skuldajöfnunar kröfu stefnanda. Ekki er um það deilt að stefndu geti haft þessar mótbárur uppi gagnvart stefnanda í málinu en stefnandi leysti til sín kröfu seljanda á árinu 2005.
Atvik málsins um upphaf viðskipta um umræddar vörur eru óljós. Af gögnum málsins verður þó ráðið að pöntun hafi farið þannig fram að seljandinn, Artsec AB, hafi haft í höndum teikningar af því sem Sökkull sf. átti að setja upp í Þjóðminjasafninu. Fram kemur í gögnum málsins að teikningar og útfærslur hafi verið unnar í samráði við Artsec AB. Þá hefur komið fram að Artsec AB sendi Sökkli sf. pöntunarstaðfestingu, „Ordererkännande“, sem er dagsett 19. febrúar 2004, en þar segir að tilboð hafi verið gerð 17. desember 2003 og 9. janúar 2004. Verklýsing var á íslensku en takmörkuð verklýsing á sænsku er á teikningum. Óumdeilt er að breytingar voru gerðar frá upphaflegum teikningum á þeim tíma sem vörurnar voru afhentar. Fram kemur í pöntunarstaðfestingunni að vörurnar skyldi afhenda hjá seljanda og að afhendingartími yrði ákveðinn síðar.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að þeir hafi gert forsvarsmönnum Artsec AB grein fyrir öllum kröfum sínum vegna vanefnda þeirra og hafnað því að greiða reikninga Artsec AB. Þetta kemur fram í greinargerð stefndu en nánari lýsing á því hvernig það fór fram kemur ekki fram þar. Af skjölum málsins verður ekki ráðið að kaupandi hafi hafnað vörunni við móttöku á henni. Kvartanir stefndu í tilefni af meintum vanefndum seljanda komu fyrst fram í tölvupósti stefnda Haraldar til fyrirsvarsmanns Artsec AB 18. júní 2004, þar sem tilvísanir og mál eru gefin á fimm brotnum glerstykkjum. Þar er einnig óskað upplýsinga um afhendingartíma á vörum sem þar er lýst. Í tölvupósti 19. sama mánaðar eru þrjú glerstykki í kirkju sögð brotin og í tölvupósti 23. s.m. er fimm glerstykki sagt vanta í kirkju, þar af fjögur skemmd, en vonast sé til að ekki verði gerðar athugsemdir við rispur í gleri. Í tölvupósti eftirlitsmanns til stefndu og Artsec AB 24. s.m. er gler í kirkju sagt óviðunandi vegna skemmda á yfirborði og lélegra þrifa eftir sandblástur. Óskað er eftir að afgreiðslu verði hraðað og upplýsingum um afhendingartímann. Í tölvupósti stefnda Haraldar til fyrirsvarsmanns Artsec AB 28. júní s.á. er kvartað undan því að ekki hafi verið afhent samkvæmt áætlun frá 11. maí s.á.
Málsaðilar héldu fund 8. mars 2005 en stefnendur höfðu þá leyst til sín kröfuna sem hér um ræðir frá Artsec AB. Á fundinum var lagt fram uppgjör stefndu en því fylgir yfirlit yfir helstu samskipti stefndu og Artsec AB frá nóvember 2003 til 28. júní 2004. Vísað er í tilboðsskrá og tekinn saman listi yfir þær vörur sem stefndu halda fram að hafi vantað. Á fundinum náðist ekki samkomulag um uppgjör sem hafði verið markmiðið með fundinum. Á framangreindu uppgjöri koma fram meintar vanefndir Artsec AB og sundurliðun á þeim kostnaði sem stefndu telja sig hafa orðið fyrir vegna þeirra vanefnda. Af því sem fram hefur komið í málinu af beggja hálfu er óljóst hvað verið var að panta og dagsetningar eru mjög á reiki, bæði varðandi pantanir og breytingar á þeim. Ótvírætt er enn fremur að ekki var samið um dagsetningar á afhendingu.
Lýsingar stefndu á því hvað hafi vantað í sendingar frá Artsec AB eða hvað af vörunni hafi verið skemmt eða brotið koma ekki fram í greinargerð þeirra. Í greinargerðinni er því hins vegar lýst að stefndu hafi orðið fyrir kostnaði og tjóni vegna vanefnda seljanda og vísað í því sambandi til uppgjörsins sem legið hafi fyrir á fundinum 8. mars 2005. Sökkull sf. hafi orðið að kaupa gler og annað efni frá öðrum framleiðanda vegna vanefndanna. Kostnaður Sökkuls sf. af þessu hafi verið 643.749 SEK. Af greinargerð stefndu verður þó ekki ráðið hverju af því sem fram kemur í reikningum stefnanda og fylgiskjölum með þeim er mótmælt. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að gerðir hafi verið reikningar fyrir öðrum vörum en þeim sem voru afhentar. Stefndu hafa því ekki sýnt fram á að krafa sé gerð í málinu af hálfu stefnanda um greiðslur fyrir vörur sem hafi vantað og voru þar með ekki afhentar.
Því er ekki sérstaklega mótmælt af hálfu stefnanda að einhver glerstykki kunni að hafa verið brotin eða rispuð og horn eða kantar á skápum verið skökk sem komið hafi í ljós þegar varan var tekin úr kössum eða umbúðum. Ekki er heldur um það deilt að vöruna skyldi afhenda hjá seljanda, við verksmiðjudyr. Þá hefur komið fram að vörur gátu hafa orðið fyrir skemmdum þegar gámur féll við útskipun. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta að rispur í gleri hafi verið framleiðslugalli. Engin tjónaskoðunarskýrsla hefur verið lögð fram í málinu um meinta galla á umræddum vörum og af hálfu stefndu hafa ekki verið lögð fram gögn í málinu sem staðfesta að við afhendingu hafi verið gallar á þeim eða skemmdir sem seljandi beri ábyrgð á. Samkvæmt þessu verður að telja ósannað að vörurnar sem um ræðir hafi verið gallaðar þegar þær voru afhentar til flutnings.
Í gögnum málsins kemur ekki fram að samið hafi verið um afhendingartíma að öðru leyti en því að varan skyldi afhent eins fljótt og unnt var. Tímaáætlun liggur heldur ekki fyrir. Samkvæmt þessu verður að telja ósannað að dráttur hafi orðið á afhendingu þannig að um vanefnd hafi verið að ræða af hálfu seljanda.
Af framangreindu leiðir að hafna verður því að skaðabótakrafa stefndu, sem þeir telja að verði rakin til vanefnda seljanda, komi til álita sem skuldajöfnunarkrafa við kröfur stefnanda samkvæmt framangreindum reikningum. Breytir engu í því sambandi þótt stefndu haldi því fram að þeir hafi gert seljanda vörunnar grein fyrir vanefndum hans og að hann yrði gerður ábyrgur fyrir öllum kostnaði og tjóni vegna vanefndanna án þess að seljandi eða stefnandi hreyfði andmælum við því fyrr en í mars 2005.
Reikningar stefnanda eru sundurliðaðir og þykja allir nægilega rökstuddir að frátöldum einum lið í reikningi 27. október 2004 vegna aukakostnaðar að fjárhæð 211.977 SEK. Skýringar stefnanda og rökstuðningur fyrir því sem þar um ræðir koma fram á skjali frá 11. febrúar 2005 sem lagt var fram í málinu við upphaf aðalmeðferðar 23. mars sl. Þarna er um verulegan tímafjölda að ræða vegna vinnu við hönnun og útfærslu án þess að fullnægjandi skýringar komi fram af hálfu stefnanda á því hverju það sætti. Með vísan til þess hve skýringar eru seint fram komnar og að þær verða að teljast ófullnægjandi telur dómurinn að hafna verði því að taka þennan kröfulið stefnanda til greina. Kemur þá fjárhæðin, 211.977 SEK, til frádráttar kröfu stefnanda í málinu.
Stefndu halda því fram að tómlæti stefnanda eigi að leiða til sýknu af kröfum stefnanda í málinu. Stefndu styðja það þeim rökum að þeir hafi um leið og tilefni varð til kvartað undan vanefndum Artsec AB. Forsvarsmenn Artsec AB hafi hins vegar ekki hirt um að halda uppi kröfu sinni á hendur viðsemjanda sínum fyrr en 28 mánuðum eftir að stefnanda voru kynntar mótbárur stefndu. Þessi dráttur á því að bera fram kröfu sína gagnvart kaupandanum væri með öllu óafsakanlegur og andstæður hagsmunum stefndu. Á þetta fellst dómurinn ekki. Reikningar voru sendir þegar varan hafði verið afgreidd á árinu 2004. Þeir voru ekki greiddir en eins og að framan var lýst var haldinn fundur 8. mars 2005 þar sem reynt var að leiða til lykta ágreining málsaðila vegna reikninganna án þess að það leiddi til niðurstöðu. Málið var höfðað 31. júlí 2007. Stefndu gátu á þessum tíma ekki búist við því að krafan hefði fallið niður vegna tómlætis stefnanda. Framangreindum röksemdum stefndu um það er því hafnað.
Að öllu þessu virtu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda in solidum 630.838 sænskar krónur (SEK), þ.e. 842.815 SEK að frádregnum 211.977 SEK. Stefndu mótmæla upphafstíma vaxtakröfu stefnanda, eins og fram kemur í greinargerð þeirra en að öðru leyti er dráttarvaxtakröfu stefnanda ómótmælt. Í framangreindri pöntunarstaðfestingu kemur fram að greiðsluskilmálar teljast 30 dagar. Upphafstíma dráttarvaxta verður samkvæmt því og 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að telja réttilega reiknaða að liðnum 30 dögum frá útgáfudegi reikninga. Dráttarvexti ber því að greiða samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 201.242 SEK frá 10. júlí 2004 til 17. júlí sama árs, af 263.463 SEK frá þeim degi til 23. júlí s.á., af 347.454 SEK frá þeim degi til 9. ágúst s.á., af 411.220 SEK frá þeim degi til 27. nóvember s.á. og af 630.838 SEK frá þeim degi til greiðsludags.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingaverkfræðingi og Þórdísi Zoëga, húsgagna- og innanhússarkitekt.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Gylfi Lárusson og Haraldur Lárusson, greiði stefnanda, Plåtteknik i Kumla, in solidum 630.838 sænskar krónur (SEK) ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu af 201.242 SEK frá 10. júlí 2004 til 17. júlí sama ár, af 263.463 SEK frá þeim degi til 23. júlí s.á., af 347.454 SEK frá þeim degi til 9. ágúst s.á., af 411.220 SEK frá þeim degi til 27. nóvember s.á. og af 630.838 SEK frá þeim degi til greiðsludags og 1.500.000 krónur í málskostnað.