Hæstiréttur íslands
Mál nr. 75/2000
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Höfundarréttur
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2000. |
|
Nr. 75/2000. |
Karl G. Karlsson (Garðar Valdimarsson hrl.) gegn Flugleiðum hf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) og gagnsök |
Vinnusamningur. Höfundarréttur.
K var starfsmaður F í fullu starfi, en gegndi jafnframt sérstöku launuðu aukastarfi sem tækniráðgjafi F. K hannaði forrit fyrir hleðsluútreikninga vegna flugvéla F og afkastagetu flugbrauta. F tók forritið í notkun í ágúst 1984 og taldist leiga fyrir það vera innifalin í þóknun til K fyrir störf sem tækniráðgjafi. Á árinu 1990 var síðan tekin í notkun endurbætt gerð forritsins og þá samið um eingreiðslu til K fyrir afnot þess, en jafnframt að hann fengi tiltekna fasta þóknun fyrir að halda forritinu við. Átti sú þóknun að vera sömu fjárhæðar og þóknunin, sem K hafði fengið allt frá 1984 vegna starfs tækniráðgjafa. Árið 1994 gerði F samning við nemendur í Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands um að gera hugbúnað fyrir jafnvægis- og þyngdarútreikninga fyrir flugvélar fyrirtækisins. Var það forrit tekið í notkun síðar á því ári og samkomulagi K og F sagt upp. K höfðaði mál og krafðist greiðslu á því, sem hann taldi vanta upp á fulla greiðslu þóknana samkvæmt samningum sínum við F frá 1984 og 1990, auk skaðabóta vegna óheimillar notkunar forritsins eftir 1994 og brota á höfundarrétti. Hæstiréttur taldi K ekki hafa sýnt fram á að hann ætti rétt á frekari þóknun en hann hefði þegar fengið frá F, en til þess var einnig litið að K hafði ekki hreyft athugasemdum út af greiðslu hennar fyrr en eftir uppsögn samnings þeirra. Hæstiréttur féllst ekki á að K ætti rétt til bóta vegna óheimilla afnota þar sem F hefði greitt fyrir ótímabundinn afnotarétt af forritinu. Því hefði notkuninni ekki verið markaður ákveðinn tími og F þar af leiðandi heimil afnot þess eftir uppsögn á samningi við K án frekari greiðslna. Að endingu taldi Hæstiréttur ósannað að fyrrnefndum nemendum hefði verið veittur slíkur aðgangur að forriti K að það gæti talist brot á höfundarrétti hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2000. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 11.642.000 krónur ásamt málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 13. júní 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins var aðaláfrýjandi ráðinn til starfa hjá gagnáfrýjanda á árinu 1979 sem flugstjóri á flugvélum af gerðinni Fokker F 27, en þar á undan hafði hann unnið sem flugmaður hjá gagnáfrýjanda um nærri fimmtán ára skeið. Með bréfi 20. október 1984 var aðaláfrýjanda falið aukastarf sem tækniráðgjafi hjá gagnáfrýjanda. Átti aðaláfrýjandi einkum að hafa umsjón með atriðum, sem vörðuðu útreikninga á þyngd og jafnvægi við hleðslu flugvéla, en jafnframt skyldi vera innifalin „leiga á V/O og W&B progrömum fyrir flugvélar félagsins.” Vegna þessa aukastarfs átti aðaláfrýjandi að fá 9% álag á laun frá 1. júlí 1984 að telja.
Þessi ráðning aðaláfrýjanda í aukastarf virðist hafa átt þann aðdraganda að hann hafi að ósk gagnáfrýjanda látið til sín taka ýmis verkefni varðandi hleðsluskráningu flugvéla af áðurnefndri gerð. Í framhaldi af því kveðst aðaláfrýjandi hafa farið að semja forrit á leikjatölvu fyrir hleðsluútreikninga og síðan forrit um afkastagetu flugbrauta. Til samans hafi þessi forrit myndað eina heild og fengið heitið KALEX. Hafi gagnáfrýjandi fengið það til notkunar í ágúst 1984 fyrir flugvélar sínar af gerðinni F 27 og hafi verið um leigu á því að ræða samkvæmt fyrrgreindum ummælum í bréfi hans 20. október sama árs.
Aðaláfrýjandi kveðst hafa orðið flugstjóri sumarið 1987 á vélum gagnáfrýjanda af gerðinni DC 8. Hafi flugrekstrarstjóri félagsins beðið hann í framhaldi af því að gera tölvuforrit til sambærilegra nota fyrir þotur þess. Í því skyni kveðst aðaláfrýjandi hafa á eigin kostnað keypt einmenningstölvu ásamt hugbúnaði og hafist handa við verkið eftir að hafa aflað sér nauðsynlegrar þekkingar. Hafi þetta forrit síðan orðið til í frumgerð á árinu 1989. Gagnáfrýjandi hafi um þær mundir ákveðið að kaupa nýjar þotur af gerðinni B 737 og B 757 og óskað eftir að aðaláfrýjandi miðaði forritið við notkun þeirra. Hann hafi lokið gerð þess haustið 1989 og gagnáfrýjandi afhent það reiknistofnun Háskóla Íslands til athugunar, en þar hafi það fengið jákvæða umsögn í febrúar 1990. Í apríl á því ári hafi gagnáfrýjandi falast eftir kaupum á forritinu fyrir 200.000 krónur, en því hafi aðaláfrýjandi hafnað. Í september 1990 hafi gagnáfrýjandi síðan óskað eftir því við aðaláfrýjanda að eldra forritið fyrir flugvélar af gerðinni F 27 yrði endurgert til notkunar í nýjum tölvubúnaði og hafi hann tekið það að sér.
Í málinu liggur fyrir skjal frá 14. september 1990, sem eftir efni sínu átti að geyma samkomulag milli aðilanna. Sagði þar að gagnáfrýjandi kaupi af aðaláfrýjanda hleðsluforrit fyrir flugvélar af gerðinni F 27, B 737-400 og B 757-200, svo og flugtaksgetuforrit fyrir fyrstnefndu flugvélarnar til notkunar á Reykjavíkurflugvelli. Fyrir þetta skyldi gagnáfrýjandi greiða í einu lagi 500.000 krónur. Að auki átti aðaláfrýjandi að leggja til viðhaldsþjónustu vegna þessara forrita, en fyrir hana fengi hann 9% álag á laun sín. Þetta skjal var undirritað af hálfu gagnáfrýjanda, en ekki af aðaláfrýjanda. Með bréfi 8. október 1990 tilkynnti síðan flugrekstrarstjóri gagnáfrýjanda ýmsum öðrum starfsmönnum hans og loftferðaeftirlitinu að samkomulag hefði náðst við aðaláfrýjanda um kaup og not af „hleðsluforriti hans fyrir vélar félagsins”, sem gagnáfrýjandi tæki í notkun 15. sama mánaðar. Óumdeilt er að gagnáfrýjandi greiddi aðaláfrýjanda fyrrnefndar 500.000 krónur, svo og að aðaláfrýjandi hafi eftir sem áður fengið 9% álag á laun sín.
Aðaláfrýjandi hefur lagt fram í málinu skjal með fyrirsögninni „drög að samningi um afnotarétt að KALEX forriti”, sem dagsett er 9. október 1990, og annað skjal með fyrirsögninni „samkomulag vegna afnotaréttar að KALEX forriti”, dagsett 23. maí 1991. Bæði þessi skjöl mun aðaláfrýjandi hafa gert með það fyrir augum að úr yrði samningur milli aðilanna, en hvorugt þeirra var undirritað. Í flestum atriðum voru þau samhljóða, en samkvæmt þeim átti gagnáfrýjandi að kaupa afnotarétt af forritinu. Greint var frá inntaki afnotaréttarins, svo og hvernig staðið yrði að breytingum á forritinu og endurbótum, leiðbeiningum um notkun þess og greiðslum til aðaláfrýjanda. Var jafnframt ráðgert að aðaláfrýjanda yrði frjálst að selja öðrum forritið og skyldi gagnáfrýjandi liðsinna honum í því efni. Aðilarnir undirrituðu hins vegar 22. maí 1991 samkomulag, sem hófst með eftirfarandi orðum: „Í framhaldi af því samkomulagi er gert var á milli Karls Karlssonar flugstjóra og Flugleiða hf., um afnotarétt af hugbúnaði, er hér með sett fram hvernig samskiptum aðila í þessu efni skuli háttað og staðfesta báðir það með undirskrift sinni.” Var því síðan lýst þar að aðaláfrýjandi skyldi afhenda tölvudeild gagnáfrýjanda til geymslu „eintak af frumkóda hugbúnaðarins”, að aðeins skyldi vera í notkun ein útgáfa forritsins á hverjum tíma, að safna ætti saman óskum um breytingar á því, sem ráðist yrði í þegar aðilarnir yrðu sammála um það, og að óheimilt væri nema við nánar tilteknar aðstæðar að gera breytingar á forritinu án samþykkis þeirra beggja.
Fram er komið í málinu að síðari hluta árs 1991 hafi aðaláfrýjandi byrjað vinnu við endurgerð forritsins til notkunar fyrir nýjar flugvélar gagnáfrýjanda af gerðinni Fokker F 50. Mun þessi breytta gerð þess hafa verið tekin í notkun 15. febrúar 1992, en óumdeilt virðist að aðaláfrýjandi hafi ekki fengið sérstakar greiðslur fyrir störf að þessu. Þá er einnig fram komið að gagnáfrýjandi tók í notkun 17. mars 1992 nýtt tölvukerfi á Keflavíkurflugvelli, sem meðal annars leysti af hólmi forritið frá aðaláfrýjanda þar.
Gagnáfrýjandi gerði 28. mars 1994 samning við þrjá nemendur í svokölluðum lokaverkefnishópi við Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands um að gera hugbúnað „fyrir jafnvægis- og þyngdarútreikninga fyrir flugflota fyrirtækisins”. Áttu nemendurnir að hanna og forrita þennan hugbúnað í samvinnu við gagnáfrýjanda, sem legði til þekkingu, aðstöðu og prófun á kerfinu, en ef árangur yrði fullnægjandi fengi hann kerfið til eignar og afnota án frekari greiðslu en sem svaraði námsgjöldum nemendanna á skólaönninni þegar verkefnið yrði leyst af hendi. Með bréfi til aðaláfrýjanda 12. júlí 1994 tilkynnti gagnáfrýjandi að forrit þetta hefði verið gert og að ákveðið hefði verið að taka það í notkun í ágúst á sama ári. Frá sama tíma yrði hætt að nota KALEX forritið. Væri því sagt upp samkomulagi aðilanna frá 22. maí 1991, en aukagreiðslur til aðaláfrýjanda vegna umsjónar með KALEX forritinu myndu falla niður frá 1. október 1994 að telja.
Í bréfi 7. nóvember 1994 til gagnáfrýjanda fann aðaláfrýjandi að því að felld hefði verið niður greiðsla á 9% álagi á laun sín um síðustu mánaðamót, en það álag hefði hann fengið samkvæmt samningi frá 20. október 1984, sem hefði ekki verið sagt upp. Þá vísaði aðaláfrýjandi einnig til þess að sér hefði verið falið að gera nýja útgáfu KALEX forritsins á árinu 1990, sem gagnáfrýjandi hefði notað upp frá því til ársins 1994, en gagnáfrýjandi hefði aldrei fengist til að undirrita samning um það efni. Meðal þess, sem samkomulag hefði þó tekist um, væri að gagnáfrýjanda bæri að greiða 9% álag á laun aðaláfrýjanda fyrir viðhaldsþjónustu við forritið. Þetta álag hefði hins vegar aldrei verið greitt. Gagnáfrýjandi hefði jafnframt í andstöðu við samkomulag aðilanna veitt öðrum frjálsan aðgang og afnot af KALEX forritinu til að gera nýtt forrit, sem búið væri að taka í notkun. Hefði þetta verið gert án samráðs við aðaláfrýjanda og með því brotinn höfundarréttur hans.
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 9. júlí 1998. Endanlega kröfu sína fyrir Hæstarétti sundurliðar hann þannig að í fyrsta lagi sé krafist 9% álags á laun, eða 33.000 krónur á mánuði, í 46 mánuði fyrir tímabilið frá október 1994 til júlí 1998 á grundvelli samnings um ráðgjöf frá 20. október 1984, samtals 1.518.000 krónur, en þeim samningi hefði aldrei verið sagt upp. Í öðru lagi krefst hann sama álags á laun í 48 mánuði fyrir tímabilið frá október 1990 til sama mánaðar 1994 vegna þjónustu við viðhald KALEX forritsins samkvæmt samningi frá 8. október 1990, eða alls 1.584.000 krónur. Í þriðja lagi krefst hann skaðabóta að fjárhæð 660.000 krónur vegna óheimillar notkunar gagnáfrýjanda á sama forriti í 20 mánuði frá október 1994 til maí 1996, en aðaláfrýjandi miðar hér bótafjárhæð við áðurnefnt álag á laun sín hjá gagnáfrýjanda. Í fjórða lagi krefst aðaláfrýjandi loks bóta vegna brota á höfundarrétti að fjárhæð 7.880.000 krónur. Er dómkrafa aðaláfrýjanda þannig samtals 11.642.000 krónur eins og áður er getið.
II.
Í áðurnefndu bréfi gagnáfrýjanda 20. október 1984, þar sem greint var frá ráðningu aðaláfrýjanda í aukastarf sem tækniráðgjafi, kom fram að með þeirri þóknun, sem þar var ákveðin og nam 9% álagi á laun hans, fengi hann meðal annars greidda leigu fyrir tölvuforrit til ákveðinna nota. Mun þetta hafa verið forritið, sem aðaláfrýjandi afhenti gagnáfrýjanda til notkunar í ágúst 1984. Eins og áður greinir endurbætti aðaláfrýjandi þetta forrit og tók gagnáfrýjandi nýja útgáfu þess í notkun 15. október 1990. Aðaláfrýjandi fékk um þær mundir greiddar 500.000 krónur frá gagnáfrýjanda fyrir afnotarétt af forritinu, en fyrir þjónustu við það átti aðaláfrýjandi að fá samkvæmt óundirrituðu samkomulagi frá 14. september 1990 sem svaraði 9% álagi á laun sín hjá gagnáfrýjanda. Í málinu hafa ekki komið fram markvissar skýringar aðaláfrýjanda á þeim sérstöku verkum, sem hann sinnti í reynd sem tæknilegur ráðgjafi gagnáfrýjanda frá árinu 1984, og hvort eða hvernig þau verkefni breyttust í tengslum við samninga á árinu 1990. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi fékk greitt 9% álag á laun sín allar götur frá árinu 1984 þar til uppsögn gagnáfrýjanda á samningi um umsjón með forritinu kom til framkvæmda 1. október 1994. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um að aðaláfrýjandi hafi nokkru sinni gert athugasemdir við gagnáfrýjanda fyrr en í áðurnefndu bréfi 7. nóvember 1994 um að greiða ætti umrætt álag tvöfalt, með því að samningur um það frá árinu 1984 væri enn í gildi samhliða samningi þeirra frá haustinu 1990. Þegar þetta er virt í heild verður að fallast á með gagnáfrýjanda að líta verði svo á að síðarnefndi samningurinn hafi hvað þóknun varðar komið í stað þess fyrrnefnda, enda verður ekki annað séð en að framkvæmdin hafi orðið með þeim hætti í reynd án þess að aðaláfrýjandi hreyfði við því athugasemdum. Á þessum grunni telst gagnáfrýjandi hafa sagt endanlega upp samningi aðilanna um sérstakt álag á laun aðaláfrýjanda frá 1. október 1994 að telja. Þessu til samræmis verður að hafna með öllu tveimur fyrstu liðunum í dómkröfu hans.
Í áðurgreindum gögnum um samningsgerð aðilanna haustið 1990 kemur ekkert fram um að notum gagnáfrýjanda af tölvuforritinu, sem þar var fjallað um, hafi átt að vera markaður ákveðinn tími. Verður að leggja til grundvallar að samningi aðilanna hafi að þessu leyti réttilega verið lýst í óundirrituðu samkomulagi frá 14. september 1990, þar sem kom fram að aðaláfrýjandi fengi nánar tiltekna greiðslu í einu lagi fyrir afnotarétt gagnáfrýjanda af forritinu, sem hafi þannig verið ótímabundinn, en mánaðarlegar greiðslur til hans yrðu fyrir viðhald forritsins eða umsjón með því. Leggja verður þann skilning í áðurnefnt bréf gagnáfrýjanda frá 12. júlí 1994 að með því hafi eingöngu verið sagt upp samningi um þjónustu aðaláfrýjanda í tengslum við viðhald forritsins eða umsjón með því, án þess að hreyft væri við ótímabundnum afnotarétti gagnáfrýjanda, sem þegar hafði verið greitt fyrir. Að þessu gættu var gagnáfrýjanda heimilt að nota forritið áfram eftir 1. október 1994 án sérstaks endurgjalds til aðaláfrýjanda. Verður því ekki fallist á þriðja liðinn í dómkröfu hans.
Með fjórða lið dómkröfu sinnar leitar aðaláfrýjandi bóta á þeim grunni að gagnáfrýjandi hafi brotið gegn höfundarrétti hans að KALEX forritinu með því að hafa veitt áðurnefndum nemendum, sem gerðu nýtt forrit fyrir gagnáfrýjanda á árinu 1994, aðgang að því, enda hafi nýja forritið verið að hluta eftirgerð af forriti aðaláfrýjanda. Þessu til stuðnings hefur aðaláfrýjandi öðru fremur skírskotað til myndrænnar framsetningar upplýsinga, sem komi fram í nýja forritinu en hafi áður eingöngu verið að finna í KALEX forritinu. Gagnáfrýjandi hefur eindregið neitað því að umræddir nemendur hafi fengið aðgang að forriti aðaláfrýjanda að öðru leyti en að sjá það í notkun á flugvelli. Þeirri staðhæfingu var ekki hnekkt með framburði þeirra, sem komu fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Aðaláfrýjandi hefur hvorki aflað matsgerðar dómkvadds manns né annarra viðhlítandi sérfræðilegra gagna til að leiða að því líkur að forritið, sem var gert 1994, hafi í einhverjum atriðum verið reist á hugarsmíð hans. Þegar af þeirri ástæðu verður þessum lið í dómkröfu aðaláfrýjanda hafnað.
Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda. Er þó rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Flugleiðir hf., er sýkn af kröfu aðaláfrýjanda, Karls G. Karlssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dómþinginu, með stefnu birtri 9. júlí 1998 og þingfestri 1. september 1998, af Karli G. Karlssyni, kt. 170837-4529, Álfhólsvegi 54, Kópavogi á hendur Flugleiðum hf., kt. 601273-0129, Reykjavíkurflugvelli.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta innan samninga, almennra fébóta utan samninga og miskabóta, samtals 12.500.000 krónur. Auk þess krefst stefnandi þess, að stefnda, Flugleiðum, verði skilyrðislaust gert að hætta allri ólögmætri notkun á forritunum að viðlögðum dagsektum.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, að mati dómsins.
Til vara gerir stefndi þær dómkröfur, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
II.
Ágreiningur aðila snýst um notkun stefnda á tölvuforritunarkerfinu KALEX og meintu höfundarréttarbroti stefnda gagnvart stefnanda, þóknun til handa stefnanda vegna viðhaldssamnings og greiðslu fyrir ráðgjafarvinnu stefnanda í þágu stefnd.
Stefnandi starfaði hjá hinu stefnda fyrirtæki sem flugmaður í um það bil 30 ár, en hann lét af störfum vegna veikinda á árinu 1995. Árið 1984 réð stefndi stefnanda, sem tæknilegan ráðgjafa og var það aukastarf hjá stefnanda, sem greitt var fyrir með 9% álagi á mánaðarlaun hans. Fólst starf hans m.a. í því að hafa umsjón með hleðsluútreikningum. Stefnandi hannaði og samdi á eigin vegum hleðsluforrit, sem hann nefndi KALEX og var það tekið í notkun af stefnda á árinu 1990. Stefndi gerði stefnanda tilboð um kaup á afnotarétti á forritinu fyrir 500.000 krónur auk 9% aukagreiðslu ofan á mánaðarlaun, fyrir viðhaldsþjónustu. Stefnandi undirritaði ekki það skjal. Hins vegar liggur frammi í málinu samningsdrög frá stefnanda um sama efni og er það jafnframt óundirritað. Stefndi greiddi stefnanda 500.000 krónur fyrir afnot af tölvuforritinu, en auk þess fékk hann áfram greitt 9% álag á mánaðarlaun sín.
Í maí 1991 undirrituðu aðilar samkomulag um að eintak af frumkóða hugbúnaðarins yrði afhent stefnda til geymslu og notkunar ef nauðsyn krefði. Stefndi kveðst hafa skilað því eintaki til stefnanda í janúar 1995.
Viðhaldsþjónustusamningi við stefnanda var sagt upp í júlí 1994 og kom sú uppsögn til framkvæmda þann 1. október sama ár. Frá og með sama degi felldi stefndi niður áður um samið 9% álag á mánaðarlaun stefnanda
Í mars 1994 gerði stefndi samning við svokallaðan lokaverkefnishóp Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands, um gerð hugbúnaðar fyrir jafnvægis- og þyngdarútreikninga fyrir flugflota stefnda. Forrit þetta, nefnt Powerloader, var, að sögn stefnda, tekið í notkun hinn 18. júlí 1994. Stefndi kveður að notkun KALEX forritsins hafi þá verið hætt á Reykjavíkurflugvelli og allt forritið þurrkað út af harða diski tölvunnar. Stefndi kveður stefnanda, síðar og án beiðni, hafa sett flugtaksgetu- hluta forritsins aftur inn og þann hluta forritsins vera notaðan enn í dag. Stefndi kveðst hafa eytt KALEX kerfinu er nýja forritið hafi verið sett upp á flugvöllum utan Reykjavíkur.
Stefndi kveður að fyrrgreindum nemum hafi verið látin í té aðstaða í geymsluhúsnæði stefnda. Hins vegar hafi nemarnir ekki fengið aðgang að frumkóða KALEX kerfisins. Þeim hafi aðeins verið sýnt hvernig verkið væri unnið með því að sýna þeim notkun á KALEX forritinu. Við prófun nýja forritsins hafi verið búnar til hleðsluskrár á grundvelli sömu upplýsinga og notaðar hefðu verið við gerð hleðsluskrár í KALEX og niðurstöðurnar bornar saman. Ekki hafi verið aðgangur að KALEX gegnum nýja forritið. Hins vegar hafi verið hægt að ræsa KALEX forritið eins og önnur forrit, meðan það hafi verið inni í tölvum stefnda.
III.
Stefnandi byggir kröfu sína, um greiðslu vegna ráðgjafastarfa, á samningi aðila og krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslna samkvæmt honum, þ.e.a.s. frá því að greiðslur hafi hætt að berast í október 1994 og þar til samningnum verði sagt upp með lögmætum hætti. Stefnandi kveður aðila málsins hafa samið um það sín á milli, hinn 20. október 1984, að stefnandi fengi 9% álag á laun sín fyrir ráðgjafastörf á sviði öryggis- og hagræðingarmála í flugrekstri. Ráðgjafasamningnum hafi aldrei verið sagt upp, en greiðslur samkvæmt honum hafi hætt að berast stefnanda eftir að viðhaldssamningi vegna KALEX hafi verið sagt upp. Stefnandi kveðst hafa haldið áfram að sinna ráðgjafahlutverki sínu eftir að greiðslur hafi hætt að berast og hafi margsinnis, bæði munnlega og skriflega, skorað á stefnda að bæta úr þessum málum, en án árangurs.
Stefnandi kveður 9% álag á laun vera áætlað á núvirði 33.000 krónur á mánuði, eða 1.518.000 miðað við tímabilið október 1994 til júlí 1998.
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda, um greiðslu fyrir afnot af tölvuforriti og viðhaldsvinnu við þau, á því að stefndi hafi aldrei, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda þar um, gengið formlega frá samningum um kaup stefnda á afnotarétti á KALEX tölvuforritum. Hinn 8. október 1990, sbr. bréf stefnda dagsett 14. september 1990, hafi aðilar gert samkomulag um að stefndi keypti afnotarétt af tölvuforritunum gegn 500.000 króna eingreiðslu auk 9% álags fyrir viðhaldsþjónustu við forritin. Drög að skriflegum samningi hafi legið fyrir og verið samkomulag um öll efnisatriði samningsins og ákveðið að undirritun færi fram fljótlega. Þá hafi verið gefin út formleg tilkynning um að notkun KALEX hæfist hinn 15. október 1990. Hins vegar hafi greiðslur samkvæmt samningnum aldrei verið efndar utan þess að greiddar hafi verið 500.000 krónur. Hinn 22. maí 1991 hafi aðilar málsins ritað undir samkomulag um afnotarétt stefnda af tölvuforritunum og sé þar vitnað í fyrrgreindan samning frá 8. október 1990. Í því samkomulagi sé kveðið á um, að óheimilt sé að gera breytingar á hugbúnaðinum nema með samkomulagi aðila. Stefnandi kveður forsendur undirritunar sinnar á þetta samkomulag hafa verið tilvitnun í samninginn frá 1990 og loforð forsvarsmanna stefnda að ganga formlega frá undirskrift þess samnings. Hins vegar sé ljóst, samkvæmt þessu, að full sátt hafi verið með aðilum um tilvist þess samnings.
Þar sem einungis hafi verið greitt fyrir ráðgjafavinnu frá 1984 til 1994 hafi stefndi vanefnt greiðslur samkvæmt viðhaldssamningnum frá október 1990 til október 1994, þegar uppsögn hans hafi tekið gildi. Hinn 12. júlí 1994 hafi afnotasamningnum formlega verið sagt upp og hafi uppsögn hans tekið gildi tæpum þremur mánuðum síðar eða hinn 1. október 1994. Samkvæmt áætluðu núvirði sé 9% álag á laun flugstjóra um það bil 33.000 krónur á mánuði, sem geri 1.584.000 krónur á tímabilinu frá október 1990 til október 1994.
Stefnandi kveður að forritið hafi, þrátt fyrir fyrrgreinda uppsögn, verið í notkun síðan. Það hafi verið í fullri notkun á árinu 1995 og í dag sé það a.m.k. notað við flugtaksgetureikninga á Reykjavíkurflugvelli. Fyrir þessi afnot af forritinu hafi aldrei verið greitt. Vanefnd stefnda vegna þessarar ólögmætu notkunar fyrir tímabilið frá október 1994 til júlí 1998 sé 1.518.000 krónur. Miðað sé við 33.000 krónur á mánuði.
Stefnandi byggir og á því að stefndu hafi brotið hugverkasamning og höfundarrétt. Á árinu 1994 hafi stefndi, í sparnaðarskyni, fengið nokkra tölvunarfræðinema til að gera fyrir sig forrit, sem að sögn hafi ekki mátt vera lakara en KALEX. Hafi stefndi látið nemunum í té forrit stefnanda til viðmiðunar þrátt fyrir skýlausan samning aðila um að höfundarréttur yrði virtur, m.a. með ákvæði í samningi aðila um að forritið yrði ekki látið þriðja aðila í té. Stefnandi kveður hið nýja forrit að hluta vera eftirgerð af KALEX, eins og sjá megi af samskonar myndrænni framsetningu, sem einungis sé að finna í KALEX. Þá hafi verið hægt að opna KALEX í hinu nýja forriti fram til ársins 1995. Hins vegar hafi notkun KALEX í hinu nýja forriti verið hætt eftir að stefnandi hafi gert við þetta athugasemdir. Stefnandi kveður stefnda með þessari háttsemi sinni hafa valdið sér tilfinnanlegu tjóni. Stefnandi hafi með gerð forritsins meðal annars sameinað reynslu sína sem flugmaður og áhugamaður um tæknilegar framfarir. Afrakstur þess hafi verið KALEX forrit stefnanda, sem ávallt hafi reynst mun betur en rándýr sérfræðiforrit, sem keypt hafi verið að utan. Stefnandi hafi með mikilli vinnu og sérfræðiþekkingu á báðum fyrrgreindum sviðum skapað stefnda áðurgreint hugverk, sem fyrirtækið hafi keypt af stefnanda lágu verði. Með því að láta gera nýtt forrit, sem til hliðsjónar hafi stuðst við útreikninga og hugsmíð stefnanda, hafi verið framið skýlaust brot á skriflegu samkomulagi aðila um að láta forritið ekki í té þriðja aðila. Framtíðartekjumöguleikar stefnanda vegna hugverks síns hafi með þessu verið skertir verulega. Stefnandi krefur stefnda um fébætur vegna missis á framtíðartekjum og miskabætur. Með hliðsjón af 56. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 krefur stefnandi stefnda um 7.880.000 krónur.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði skilyrðislaust gert að hætta allri ólögmætri notkun á forritinu að viðlögðum dagsektum.
Um lagarök vísar stefnandi til reglna samninga- og skaðabótaréttar og laga nr. 73/1972, um höfundarrétt, með síðari breytingum, einkum 56. gr. laganna.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Þar sem stefnandi hafi ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi og geti því ekki nýtt sé greiddan virðisaukaskatt, sem innskatt, beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
IV.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi þegar fengið allar þær greiðslur, sem honum hafi borið að fá vegna samninga aðila um afnot af tölvuforritum hans og þjónustu við stefnda. Stefnandi eigi því ekki frekari kröfur á hendur stefnda vegna þessa. Stefndi kveður ásakanir stefnanda, um heimildarlausa notkun og ólögmæta dreifingu á tölvukerfinu KALEX, vera bæði rangar og ósannaðar. Stefndi hafi á engan hátt gerst brotlegur við samkomulag aðila frá 22. maí 1991 né við lögvarin höfundarrétt stefnanda.
Stefnandi hafi með ráðningarsamningi, sem gerður hafi verið við hann árið 1984, tekið að sér ákveðin ráðgjafastörf, sem fyrst og fremst hafi miðast við uppbyggingu og framkvæmd tölvuvæðingar hleðslugagna vegna vigtar og jafnvægisútreikninga. Samningi þessum hafi síðan verið breytt með samkomulagi milli aðila árið 1990, um afnotarétt stefnda á KALEX tölvukerfinu og þjónustu stefnanda vegna þess. Samningur þessi hafi að mestu tekið til sömu þátta og samningurinn frá 1984. Samningurinn frá 1990 hafi verið víðtækari, þar sem allar flugvélategundir stefnda hafi verið inni í forritinu. Samkvæmt síðastgreinda samningnum hafi þóknun verið jafnhá og áður, þ.e.a.s. 9% álag á laun fyrir þjónustu stefnanda og hvergi komi fram að sú greiðsla hafi átt að koma til viðbótar fyrra álagi. Eina viðbótargreiðslan hafi verið 500.000 króna eingreiðsla vegna afnotaréttar af forritinu. Samkvæmt því hafi samningurinn frá 1984 fallið niður hvað greiðsluþáttinn varði. Viðbrögð stefnanda staðfesti þann skilning stefnda, þar sem stefnandi hafi ekki haft uppi neinar kröfur eða kvartanir vegna vangreiddra álagsgreiðslna fyrr en fjórum árum eftir samningsgerðina, eða um leið og samningnum hafi verið sagt upp. Stefnandi hafi því tapað öllum hugsanlegum rétti vegna aðgerðarleysis.
Stefndi kveðst hafa hætt að nýta sér þjónustu stefnanda eftir 1. október 1994. Fundir og bréfaskipti eftir þann tíma hafi verið að frumkvæði stefnanda og stefnda með öllu óviðkomandi.
Stefndi kveðst hafa keypt afnot af KALEX tölvuforritinu fyrir 500.000 krónur samkvæmt samkomulagi frá 1990 og enginn áskilnaður hafi verið gerður um frekari greiðslur fyrir það. Stefndi hafi þar með fengið ótímabundin afnot af forritinu þó svo að notagildi þess hafi verið háð viðhaldi, sem stefnandi hafi séð um. Stefndi kveður stefnanda hafa fengið greitt fyrir þessa vinnu sína, samkvæmt samkomulagi aðila. Stefnandi hafi hvorki haft uppi kröfu um greiðslu til viðbótar þeirri þóknun sem hann hafi þegar fengið né haft uppi fyrirvara þar um. Hefði stefnandi haft ástæðu til að geta þess við gerð samningsuppkasts, sem gert hafi verið rúmu hálfu ári eftir að forritið hafi verið tekið í notkun, ef hann hafi talið sig vanhaldinn.
Stefndi telur sig þegar hafa greitt fyrir ótímabundin afnotarétt af KALEX forritinu og verði því ekki krafinn um frekari greiðslur vegna þess, þó svo að stefndi hafi kosið að segja þjónustusamningnum upp. Krafa stefnanda eigi sér hvorki stoð í samningi aðila né verði hún reist á bótasjónarmiðum. Stefndi kveður KALEX forritið auk þess hafa verið tekið úr notkun þegar Powderloader kerfið hafi verið tekið upp.
Stefndi kveðst ekki á neinn hátt hafa brotið gegn höfundarrétti stefnanda með aðstoð sinni við samningu Powerloader forritsins og síðari notkun sinni á því forriti. Stefndi kveðst að öllu leyti hafa virt samskiptasamning aðila. Aðeins hafi ein útgáfa af KALEX forritinu verið í gangi á hverjum tíma. Engar breytingar hafi heldur verið gerðar á forritinu án samþykkis og atbeina stefnanda. Jafnframt neitar stefndi því að forritinu hafi verið dreift eða það framselt til þriðja aðila. Nemendur, sem hannað hafi Powerloader forritið, hafi ekki fengið aðgang að KALEX forritinu og ekki fengið afrit af því. Powerloader sé því ekki eftirgerð af KALEX forritinu. Verulegur munur sé á þessum tveimur forritum. Powderloader sé samhæfður Windowshugbúnaður og fylgi stöðlum þess forrits. Þá noti Powerloader gagnagrunn til að halda utan um allar forsendur. Þeir sem vinni með forritið geti því breytt forsendum þess án þess að breyta þurfi forritakóða. Í KALEX forritinu hafi forsendurnar hins vegar verið kóðaðar í forritinu. Í Powderloader sé einnig reynt að villuathuga innslátt og litir notaðir í því skyni. Þá bendir stefndi á að myndræna framsetningu sé að finna á öllum handgerðum jafnvægiseyðublöðum. Til að spara tíma hafi aðeins hluti jafnvægisrammans verið prentaður á báðum forritunum.
Dagsektarkrafa stefnanda eigi sér hvorki stoð í samningi aðila né lögum.
Stefndi byggir varakröfu sína á því að tjón stefnanda sé bæði ofmetið og ósannað. Stefnandi hafi þegar fengið fulla greiðslu vegna afnotaréttar stefnda af KALEX forritinu. Auk þess sem stefnandi hafi ætíð haft rétt til þess að selja öðrum forritið. Með tilliti til þeirrar þróunar sem orðið hafi á þessum markaði séu hverfandi líkur á að framtíðartekjur stefnanda hafi verið skertar. Miskabótakrafa stefnanda sé órökstudd með öllu og engin skilyrði samkvæmt ákvæðum höfundarlaga til þess að dæma miskabætur.
Þá sé krafa stefnanda vegna meintrar vangreiðslu á þóknun fyrir ráðgjafastörf og viðhaldsvinnu frá október 1990 til júlí 1998 miðaðar við núvirði, eða 33.000 krónur á mánuði.
Um lagarök vísar stefndi til höfundarlaga nr. 73/1972, reglna samninga- og skaðabótaréttar og vaxtalaga nr. 25/1987.
Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.
V.
Eins og áður greinir snýst ágreiningur aðila um tvennt. Annars vegar um hvort stefndi hafi brotið höfundarrétt stefnanda með notkun stefnda á tölvukerfinu KALEX, og greiðslur til handa stefnanda fyrir meinta óheimila notkun stefnda á forritinu og hins vegar um þóknun til handa stefnanda vegna viðhalds- og ráðgjafavinnu.
Stefnandi starfaði sem flugmaður hjá stefnda og fyrir liggur að stefnandi er ekki lærður forritari. Á fyrstu dögum heimilistölvunnar hóf stefnandi að hanna hleðsluforrit fyrir flugvélar með leikjatölvu. Stefnanda tókst að leysa þessa flóknu útreikninga með áðurgreindri leikjatölvu. Samkvæmt gögnum málsins og framburði fyrir dómi kemur fram að vegna þessarar framsýni stefnanda og áhuga hafi aðilar málsins gert með sér svokallaðan ráðgjafasamning á árinu 1984 og samkvæmt þeim samningi skyldi greiða stefnanda 9% álag á laun. Samkvæmt framlögðum samningsdrögum verður að telja að báðir aðilar hafi gert ráð fyrir að stefnandi fengi greitt 9% álag á laun fyrir viðhaldsþjónustu og fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda 500.000 krónur fyrir afnot af tölvuforritinu. Þó svo að stefndi hafi komið sér hjá því að ganga frá samningi við stefnanda vegna þessara afnota en nýtti sér bæði hugverk stefnanda og viðhaldsvinnu án nokkurs fyrirvara verður að líta svo á að stefndi hafi samþykkt framlögð samningsdrög stefnanda og þar með samþykkt að greiða stefnanda 9% álag á laun fyrir viðhaldsþjónustu auk þess að greiða stefnanda 500.000 krónur fyrir afnot af forritinu.
Þá liggur ekki fyrir að fyrri samningi aðila hafi verið sagt upp eða að hinn nýi samningur kæmi í stað þess fyrri, enda kveður fyrri samningurinn á um tækniráðgjöf en hinn síðari á um viðhaldsþjónustu. Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda fyrir afnot af forritunum með eingreiðslu en hinsvegar ber að líta til þess að langur tími leið, eða um fjögur ár, án þess að séð verði að stefnandi hafi gert athugasemdir við framkvæmd þessa samnings. Með vísan til þess verður að telja að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að með því hafi hann firrt sig frekari rétti til greiðslu vegna samningsins um viðhaldsþjónustu.
Eins og áður greinir tók stefnandi við 500.000 króna eingreiðslu fyrir afnot af margnefndu KALEX kerfi. Þar sem ekki var um annað samið milli aðila ber að líta svo á að stefndi hafi með því öðlast rétt til ótímabundinna afnota af kerfinu. Samkvæmt því hafði stefndi fulla heimild til að setja KALEX upp á allar valmyndir í tölvukerfi fyrirtækisins og því ekki óeðlilegt að hægt sé að ræsa KALEX upp frá nýja kerfinu.
KALEX kerfi stefnanda er skrifað í QBasic og vinnur ekki með hefðbundinn gagnagrunn. Hið nýja kerfi stefnda er hins vegar skrifað í forritunarmálinu C/C ++ og vinnur með gögn í gagnagrunninum Access. Báðum þessum kerfum var og er ætlað að leysa flókna útreikninga á æskilegri hleðslu flugvéla, sem áður voru handunnir. Kunnugt er um að til eru önnur forrit frá öðrum framleiðendum sem ætluð eru til sams konar útreikninga. Þá er grunnur umræddra kerfa mjög ólíkur. Með hliðsjón af því verður ekki talið að forrit stefnanda til lausnar á þessum útreikningi sé sértækt hugverk stefnanda eða að stefndi hafi notfært sér forrit stefnanda með ólögmætum hætti.
Stefnandi hefur haldið því fram að ákveðin myndræn framsetning hleðsluforritsins sé hugarsmíð hans og vera mikla einföldun á flóknari mynd, sem notuð sé þegar hleðsla sé handreiknuð. Samkvæmt framlögðum gögnum er myndræn framsetning í hinu nýja forriti stefnda sláandi lík mynd í KALEX forriti stefnanda. Hins vegar telja dómendur að þessi myndræna framsetning sé það lítill hluti af kerfinu, að ekki sé um höfundarréttarbrot að ræða. Þá ber og að líta til þess, samanber framanritað, að stefnandi fékk sérstaklega greitt fyrir störf sín sem tæknilegur ráðgjafi varðandi hagræðingar- og öryggismál og því verður að telja að þróun þessarar myndrænu framsetningar hafi verið hluti af því starfi stefnanda og því ekki eign hans.
Samkvæmt þessu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda vanefnd á samningi frá 1984, þar sem honum hefur ekki verið löglega sagt upp, eða frá 1. október 1994 til 1. nóvember 1995, er stefnandi lét af störfum hjá stefnda, samtals 429.000 krónur.
Samkvæmt framanrituðu telst notkun stefnda á forritum stefnanda ekki vera ólögmæt, ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda vegna ólögmætrar notkun á forritunum.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dóminn kváðu upp Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Eymundi Sigurðssyni, verkfræðingi og Guðna B. Guðnasyni, tölvunarfræðingi.
DÓMSORÐ :
Stefndi, Flugleiðir hf., greiði stefnanda, Karli G. Karlssyni, 429.000 krónur.
Stefndi, Flugleiðir hf, er sýkn af kröfu stefnanda, Karls G. Karlssonar, um að stefnda verði gert að hætta notkun á KALEX forritinu að viðlögðum dagsektum.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.