Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skuldajöfnuður


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. janúar 2008.

Nr. 6/2008.

Glitnir banki hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Sigurði Pétri Haukssyni

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Gjaldþrotaskipti. Skuldajöfnuður.

Bú S var tekið til gjaldþrotaskipta árið 1992 en skiptum lauk 1996 og var Í forveri G, meðal kröfuhafa í búið. Skiptin voru endurupptekin og veitti skiptastjóri þrotabúsins S heimild til að reka dómsmál gegn G til hagsbóta fyrir þrotabúið en á eigin reikning. Lauk því máli svo að G var dæmdur til að greiða þrotabúi S tilgreinda fjárhæð ásamt 1.500.000 krónum í málskostnað. Var gert fjárnám hjá G að kröfu S vegna fyrrnefnds málskostnaðar, en G taldi að krafan hefði verið greidd með skuldajöfnuði við kröfur sem G lýsti í þrotabú S. Talið var að þar sem S hafði rekið umrætt dómsmál á eigin kostnað, en til hagsbóta fyrir þrotabúið, bæri honum greiðsla málskostnaðarins úr hendi G og henni yrði ekki að réttu skuldajafnað við lýstar kröfur, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var hin umþrætta fjárnámsgerð því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. janúar 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2007, þar sem staðfest var fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila 21. september 2007. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að ofangreint fjárnám verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Glitnir banki hf., greiði varnaraðila, Sigurði Pétri Haukssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2007.

Í málinu, sem tekið var til úrskurðar 22. nóvember sl., krefst sóknaraðili, Glitnir banki hf., [kt.], Kirkjusandi 2, Reykjavík, þess að aðför sem fram fór hjá honum 21. september sl. að kröfu varnaraðila, Sigurðar P. Haukssonar, [kt.], Espigerði 6, Reykjavík, verði ógilt. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Þá krefst hann þess að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, en tekið verði tillit til að varnar­aðili er ekki virðisaukaskattskyldur. Þá er þess krafist að hafnað verði í úrskurði héraðs­dóms að málskot til Hæstaréttar fresti frekari fullnustuaðgerðum.

I

Með aðfararbeiðni dags. 31. júlí 2007 krafðist varnaraðili þess að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila fyrir kr. 1.500.000 ásamt dráttarvöxtum og kostnaði samkvæmt Hæsta­réttardómi frá 15. apríl 2003 í málinu nr. 461/2002. Við fyrirtöku að­far­ar­beiðninnar 13. september lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að krafan væri greidd með skuldajöfnuði. Var málinu frestað til 17. sama mánaðar og aftur til föstudaginn 21. september 2007. Í bókun sýslumanns kemur fram að fulltrúi sýslumanns telji að fyrir­svarsmaður sóknaraðila hafi ekki fært nægar sönnur fyrir fullyrðingu sinni um að krafan hafi verið greidd. Krafan nái því fram að ganga. Var fjárnám gert fyrir kröfu varnar­aðila í innistæðu á bankareikningi í eigu sóknaraðila.

Með Hæstaréttardóminum frá 15. apríl 2003 var Íslandsbanki hf., forveri sóknar­aðila, meðal annars dæmdur til að greiða varnaraðila samtals kr. 851.253 krónur auk vaxta, sem kveðið er á um í forsendum dómsins að renni í þrotabú hans, og máls­kostnað að fjárhæð 1.500.000 krónur. Í hæstaréttardómnum kemur fram að bú varnar­aðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 14. maí 1992 en skiptum lokið 30. september 1996. Skiptin hafi síðan verið endurupptekin af bústjóra í tilefni dómsmálsins og 23. janúar 2001 hafi skiptastjóri veitt varnaraðila umboð til málshöfðunar fyrir eigin reikning.

Fyrir liggur að skiptum á búi varnaraðila hefur ekki verið lokið og að nýr skipta­stjóri var skipaður 10. október sl.

Meðal gagna málsins er bréf sóknaraðila til lögmanns varnaraðila dags. 22. apríl 2003 þar sem lýst er yfir skuldajöfnuði að því er varðar málskostnaðarkröfu varnar­aðila, með „samþykktum og viðurkenndum kröfum bankans á hendur Sigurði, samtals að fjárhæð kr. 13.476.309,- að viðbættum vöxtum.“

Þá er meðal gagna málsins yfirlýsing skiptastjóra, dags. 29. sama mánaðar þar sem skiptastjóri lýsir því yfir að þær fjárkröfur búsins á hendur Íslandsbanka hf. sem leiða af dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 461/2002 og sæta ekki skuldajöfnuði af hálfu bankans séu framseldar lögmanni varnaraðila, Halldórs H. Backman, til upp­gjörs á málskostnaði, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, allt að frádregnum kr. 150.000 sem skuli renna til búsins.

Einnig er meðal gagna málsins umboð varnaraðila til Halldórs H. Backman hdl. dags. 9. maí 2003 til að annast gæslu hagsmuna hans vegna bankaviðskipta við Íslands­banka hf. Rakið er hvað í umboðinu felst. Þá segir „Í umboðinu felst einnig sérstök heimild af minni hálfu til að framangreindur lögmaður og Sigurmar K. Alberts­son hrl. taki við greiðslum fyrir mína hönd sem leiða af dómi Hæstaréttar Íslands í máli 461/2002 og sæta ekki skuldajöfnuði af hálfu Íslandsbanka hf., enda séu slíkar greiðslur til uppgjörs á málskostnaði skv. 1. sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991.“

II

Sóknaraðili byggir á því að krafan sem gert var fjárnám fyrir 21. september sl. hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Kröfurnar hafi verið hæfar til að mætast og önnur skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og almenns kröfuréttar fyrir skulda­jöfnuði hafi verið uppfyllt.

Engin mótmæli hafi komið fram við skuldajöfnuði af hálfu lögmanna varnaraðila eða frá honum sjálfum en þeim hafi sannanlega verið kunnugt um yfirlýsingu bankans þar að lútandi, sbr. umboð til lögmanna 9. maí 2003. Það að lögmenn varnaraðila gerðu enga gangskör að innheimtu málskostnaðarkröfunnar og tómlæti varnaraðila við inn­heimtu sé til vitnis um að enginn grundvöllur sé fyrir kröfunni.

Þess finnist heldur engin merki að þrotabú varnaraðila hafi við uppsögu marg­nefnds dóms eða síðar haft uppi athugasemdir við skuldajafnaðarkröfunni en ljóst sé að skiptastjóra hafi verið kunnugt um greiðslumátann. 

Eindregnar vísbendingar séu um réttmæti staðhæfinga sóknaraðila um skulda­jöfnuð. Gögn skorti hins vegar frá skiptastjóra en hann verði tæpast látinn bera hallann af vanköntum á starfa opinbers sýslunarmanns.

Sóknaraðili byggir einnig á að varnaraðila skorti umboð til reksturs málsins þar sem bú hans sé enn undir skiptum. Í málavaxtalýsingu í dómi Hæstaréttar komi fram að skiptin hafi verið endurupptekin. Hvorki skiptastjóri né varnaraðili hafi sýnt fram á að skiptum hafi verið lokið eftir það tímamark. Aðfararbeiðni verði að telja upphaf nýs málareksturs sem þrotabú verði að samþykkja enda beri það kostnað og taki við greiðslum ef til komi. Jafnframt þýði það að gagnkröfur bankans séu ófyrndar og takist ekki sönnun fyrir skuldajöfnuði í kjölfar dóms Hæstaréttar 2003 þá gefi sóknar­aðili þá yfirlýsingu einfaldlega út á ný gagnvart þeirri kröfu sem nú sé uppi af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðili styður kröfu um málskostnað við 96. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

III

Varnaraðili mótmælir því að lagaskilyrði séu fyrir að sóknaraðili geti skulda­jafnað málskostnaði í hæstaréttarmáli nr. 461/2002. Samkvæmt 100. gr. laga um gjald­þrota­skipti nr. 21/1991, sé réttur til skuldajafnaðar háður því að kröfuhafi eignist kröfu til skuldajafnaðar áður en þrír mánuðir voru til frestdags enda hafi krafa þrotabús á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Krafa á hendur sóknaraðila hafi stofnast löngu eftir frestdag og sé til komin vegna málareksturs varnaraðila á hendur sóknaraðila. Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti heimili því ekki skuldajöfnuð á grundvelli 100. gr.

Varnaraðili hafi fengið heimild þrotabús til að höfða mál á hendur sóknaraðila. Hafi dómkröfur varnaraðila verið teknar til greina að stórum hluta og honum til­dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila.

Samkvæmt 143. laga um gjaldþrotaskipti sé þeim sem gert sé að sæta riftun og greiða þrotabúi fé skv. 142. gr. eða öðrum ákvæðum þessara laga eða afhenda þrota­búinu verðmæti skv. 144. gr. skylt að inna sína greiðslu af hendi til þrotabúsins án tillits til þess hvenær úthlutun fari fram úr búinu. Skuli honum heimilt að koma að upp­haflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánar­drottna sem hafi jafnréttháar kröfur.

Samkvæmt þessu gildi sú almenna regla að greiðslur kröfuhafa til þrotabús vegna rift­unarmála eða annarra atvika sem verði eftir frestdag skuli inntar af hendi án tillits til gagnkrafna á hendur þrotabúinu. Af þessu leiði að sóknaraðili verði að greiða um­ræddan málskostnað til varnaraðila í samræmi við dómskyldu sína.

Ljóst sé að varnaraðili hafi fengið heimild þrotabús síns til höfðunar máls á hendur sóknaraðila, sbr. 130. gr. i.f. laga um gjaldþrotaskipti, sem kveði á um að hafi lánar­drottinn eða þrotamaður tekið að sér hagsmuni þrotabúsins skv. 1. eða 2. mgr. geti skiptastjóri hvenær sem er tekið við þeim á ný, enda greiði þá þrotabúið hlutað­eiganda um leið þann kostnað sem hafi fallið til af þessum sökum. Af þessu leiði að ávinningur af málsókn í þágu þrotabús sé háður því að sá sem standi að málsókn í þágu þrotabús verði áður gerður skaðlaus af málarekstrinum. Greiðsla á máls­kostn­aðarskuld sóknaraðila renni því ekki til þrotabúsins nema að því marki sem þrotabúið hafi haldið varnaraðila skaðlausum af málarekstrinum gegn sóknaraðila sbr. áður­greind 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Að því marki sem greiðslan rynni í þrotabúið kæmi hún því til úthlutunar í samræmi við lögmælta réttindaröð krafna í búið og gengi kostnaður varnaraðila við málsóknina framar öðrum kröfum.

Í samræmi við framangreint séu kröfurnar ekki af sömu rót runnar og skilyrði skorti til að sóknaraðili geti skuldajafnað hinum tildæmda málskostnaði við kröfur sínar á hendur varnaraðila eins og á standi. Beri því að staðfesta fjárnámsgerðina.

IV

Fyrir liggur að bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 14. maí 1992 og lauk þeim skiptum 30. september 1996. Skiptin voru endurupptekin og þann 23. janúar 2001 veitti skiptastjóri varnaraðila umboð til málshöfðunar á hendur Íslandsbanka hf., forvera sóknaraðila, fyrir hönd þrotabúsins, en fyrir eigin reikning. Hinn 31. janúar 2001 höfðaði varnaraðili mál á hendur Íslandsbanka hf. Dómi í því máli var áfrýjað til Hæsta­réttar Íslands og var Íslandsbanki hf. með dómi réttarins í málinu nr. 461/2002 frá 15. apríl 2003 m.a. dæmdur til að greiða varnaraðila 1.500.000 krónur í máls­kostnað.

Þann 22. apríl 2003 lýsti Íslandsbanki hf. yfir skuldajöfnuði gagnvart máls­kostn­að­arkröfunni með samþykktum og viðurkenndum kröfum bankans á hendur varnar­aðila, samtals að fjárhæð kr. 13.476.309 að viðbættum vöxtum.

Þann 21. september sl. fór fram hjá sýslumanninum í Reykjavík, að kröfu varn­ar­aðila, aðför í eigum sóknaraðila til tryggingar málskostnaðarkröfu varnaraðila samkvæmt dóminum, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði.

Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti er það skilyrði fyrir skulda­jöfnuði að lánardrottinn hafi eignast kröfuna, sem hann hyggst nota til skulda­jafnaðar, áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Þá er það einnig tímalegt skilyrði, að krafa þrotabúsins á hendur honum hafi orðið til fyrir frestdag. Þannig falla utan við reglur gjaldþrotaskiptalaganna um skuldajöfnuð bæði kröfur sem þrotabúið sjálft eignast eftir upphaf skipta og kröfur þrotamanns sem ekki renna til þrotabúsins.

Fyrir liggur að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila stofnuðust áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Hins vegar stofnaðist krafa varnaraðila á hendur sókn­ar­aðila undir búskiptunum, en eins og áður greinir fór varnaraðili með málið gegn sókn­ar­aðila í umboði búsins. Þar sem fyrir liggur samkvæmt því að krafa þrotabúsins á hendur sóknaraðila stofnaðist eftir frestdag, voru þegar af þeirri ástæðu ekki laga­skilyrði fyrir hendi, fyrir skuldajöfnuði þeim sem sóknaraðili byggir á.  Breytir því engu þó að yfirlýsingunni um skuldajöfnuð hafi ekki verið mótmælt.

Um umboð það sem varnaraðili fékk til málarekstursins gegn Íslandsbanka hf. liggur ekkert annað fyrir en það sem fram kemur í dómi Hæstaréttar frá 15. apríl 2003, en þar segir að þann 23. janúar 2001 hafi skiptastjóri veitt varnaraðila umboð til máls­höfðunar fyrir hönd þrotabúsins. Ljóst er að umboðið hefur verið veitt á grundvelli heimildar í 130. gr. laga nr. 21/1991. Það er mat dómsins að umboð sem veitt er á grund­velli ákvæðisins nái óhjákvæmilega, ef ekki er annað tekið fram, til allra nauð­synlegra aðgerða til að halda uppi þeim hagsmunum þrotabúsins sem það varðar, þar með talið aðgerðir til fullnustu dóms og málareksturs sem af kann að hljótast enda ber sá sem tekið hefur að sér að halda hagsmunum þrotabúsins uppi kostnað og áhættu af að­gerðum sínum. En á það er að líta að samkvæmt 3. mgr. 130. gr. getur skiptastjóri hvenær sem er tekið við hagsmununum á ný, að því tilskildu að þrotabúið greiði þann kostnað sem til hefur fallið.

Hin umþrætta aðför var eins og áður greinir gerð til tryggingar málskostnaði sem varn­ar­aðila var dæmdur með dómi Hæstaréttar frá 15. apríl 2003. Í forsendum dóms­ins kemur fram að með málskostnaðurinn sé málskostnaður fyrir héraði, þar með talinn matskostnaður, og fyrir Hæstarétti. 

Sá sem tapar máli í öllu verulegu skal að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað, þ.e. þau útgjöld sem hann hefur haft af málarekstrinum. Varnaraðili máls þessa fékk leyfi skiptastjóra til málarekstursins gegn Íslandsbanka hf., fyrir eigin reikning. Af 130. gr. laga 21/1991 i.f. leiðir að ávinningur þrotabús af mál­sókn er háður því að kostnaður vegna hennar hafi áður verið greiddur. Þannig gengur það fyrir ávinningi þrotabús af málssókn að halda þeim skaðlausum sem haldið hefur uppi hagsmunum þrotabúsins. Málskostnaður sá sem um ræðir var tildæmdur varn­araðila og rann þannig ekki til þrotabúsins eins og skuld sú sem sóknaraðili var dæmdur til að greiða varnaraðila og sérstaklega var kveðið á um í forsendum Hæsta­réttar­dómsins að rynni til búsins. Enda ekki um það að ræða að þrotabúið hafi haldið varnar­aðila skaðlausum af málarekstrinum.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hin umþrætta aðfargerð staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. 31/1990 frestar málsskot úrskurðar samkvæmt 15. kafla laganna ekki frekari fullnustuaðgerðum, nema fallist hafi verið á kröfu þess efnis í úrskurðinum. Ekki er í málinu höfð uppi krafa um að úrskurður fresti frekari fulln­ustu­gerðum. Kemur krafa um að kröfu þar að lútandi verði hafnað því ekki til álita.

Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 230.000 krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

   Aðför sem fram fór hjá sóknaraðila, Glitni banka hf., þann 21. september 2007, að kröfu varnaraðila, Sigurðar P. Haukssonar, er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 230.000 krónur í málskostnað.