Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Lífeyrisréttindi
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2003. |
|
Nr. 433/2002. |
Jóhanna Gísladóttir(Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn Einari Þór Bárðarsyni og Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Lífeyrisréttindi. Gjafsókn.
J varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 1992. Í álitsgerð tveggja lækna á árinu 1995 var varanleg læknisfræðilega örorka hennar metin 5%, en fjárhagsleg örorka engin. Samdi J á grundvelli þessa við vátryggingafélagið T hf. um bætur vegna slyssins með fyrirvörum um rétt sinn til frekari bóta. Lutu þeir að rétti J til frekari bóta annars vegar ef henni yrði síðar metin fjárhagsleg örorka og hins vegar ef dómaframkvæmd þróaðist á þann veg að eingöngu bæri að miða bætur við læknisfræðilega örorku vegna slysa, sem orðið hefðu fyrir gildistöku skaðabótalaga. Í álitsgerð tveggja lækna á árinu 1999 var varanleg læknisfræðileg örorka J metin 20% og varanleg fjárhagsleg örorka sú sama. J taldi sig á hinn bóginn með öllu ófæra um að afla sér vinnutekna og krafði T hf. um bætur fyrir 100% varanlega örorku o.fl. Bauð T hf. henni þá bætur í samræmi við niðurstöðu álitsgerðarinnar um 20% varanlega örorku auk miskabóta, vaxta, kostnaðar vegna þóknunar lögmanns ásamt útlögðum kostnaði að frádregnu verðmæti greiðslunnar sem félagið innti af hendi á árinu 1995. Tók J við greiðslu samkvæmt boðinu, en gerði fyrirvara um fjárhæð einstakra liða hennar. Höfðaði hún í framhaldi af því mál á hendur T hf. til greiðslu mismunarins auk bóta vegna tannlækniskostnaðar o.fl. Undir rekstri málsins fékk J dómkvadda tvo lækna sem komust að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorku hennar væri 20%, en fjárhagsleg örorka 60%. Í dómi Hæstaréttar voru ekki taldar forsendur til að víkja frá þeirri aðferð að leggja læknisfræðilega örorku til grundvallar varðandi verðmæti tapaðra framtíðartekna vegna örorku þótt matsgerð dómkvaddra manna hafi leitt í ljós að fjárhagsleg örorka væri meiri en læknisfræðileg örorka. Þá var T hf. í uppgjörinu frá 1995 ekki talið hafa skuldbundið sig við hugsanlega endurupptöku til að greiða J bætur fyrir varanlega örorku til samræmis við fjárhagslega örorku. Var J því talin þegar hafa fengið varanlega örorku sína hæfilega bætta frá T hf. Þá var T hf. jafnframt sýknað af öðrum liðum í kröfu J með vísan til þess að hún hafi þegar fengið þá bætta eða þeir væru ósannaðir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2002. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér aðallega 20.268.339 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. október 1992 til 27. febrúar 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 300.000 krónum og 3.326.329 krónum, sem hún hafi fengið greiddar 18. ágúst 1995 og 31. maí 2000. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og nánar tilteknir ársvextir dæmdir frá 28. júní 1997 til þess dags, sem dómur verður kveðinn upp í málinu, en frá þeim tíma beri krafan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Verði málskostnaður þá látinn falla niður.
I.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir meiðslum þegar hún ók bifreið sinni af Langholtsvegi inn á Sæbraut í Reykjavík 21. október 1992, en árekstur varð þá milli bifreiðar hennar og bifreiðar stefnda Einars Þórs Bárðarsonar, sem ók yfir gatnamótin gegn rauðu umferðarljósi. Í málinu er ekki ágreiningur um bótaskyldu stefndu vegna tjóns, sem áfrýjandi hlaut af slysinu, en bifreið stefnda Einars var vátryggð hjá Tryggingu hf., sem hefur síðan sameinast stefnda Tryggingamiðstöðinni hf.
Hinn 21. mars 1995 gerðu Trygging hf. og áfrýjandi sameiginlega beiðni til tveggja nafngreindra lækna um að þeir legðu meðal annars mat á tímabundna og varanlega örorku hennar, bæði læknisfræðilega og fjárhagslega örorku. Í álitsgerð læknanna 17. maí sama árs var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi með öllu verið óvinnufær í tvær vikur eftir slysið. Varanleg læknisfræðileg örorka hennar væri 5%, en fjárhagsleg örorka engin. Að fengnu þessu áliti beindi lögmaður, sem þá gætti hagsmuna áfrýjanda, kröfu um skaðabætur til Tryggingar hf. 27. júní 1995 og kvaðst þar leggja til að „uppgjör skaðabóta fari fram í anda nýju skaðabótalaganna“ með nánar tilteknum fyrirvörum. Lutu þeir að rétti áfrýjanda til frekari bóta annars vegar ef henni yrði síðar metin fjárhagsleg örorka og hins vegar ef dómaframkvæmd myndi þróast á þann veg að eingöngu bæri að miða bætur við læknisfræðilega örorku vegna slysa, sem orðið hafi fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Á þessum grunni var gerð krafa áfrýjanda um þjáningabætur, samtals 63.450 krónur, bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 207.050 krónur og 2% ársvexti frá slysdegi, 14.821 krónu, eða alls 285.321 krónu auk 53.242 króna í þóknun lögmanns. Þessu svaraði Trygging hf. 5. júlí 1995 með orðsendingu, þar sem sagði að félagið væri reiðubúið til að bæta líkamstjón áfrýjanda með 300.000 krónum að meðtöldum vöxtum, auk þóknunar lögmanns að fjárhæð 54.000 krónur. Lögmaðurinn tók 18. ágúst 1995 við greiðslu samkvæmt þessu boði Tryggingar hf., en í kvittun fyrir henni voru fyrrnefndar 300.000 krónur í einu lagi sagðar vera „samkomulagsbætur“.
Með bréfi 23. september 1998 til Tryggingar hf. greindi lögmaður áfrýjanda frá því að komið væri fram að örorka hennar væri talsvert meiri en ætlað var við framangreint uppgjör skaðabóta á árinu 1995. Vísaði lögmaðurinn um þetta til vottorðs læknis, sem fylgdi bréfinu, og fór þess á leit að málið yrði tekið upp á ný. Þessi beiðni var ítrekuð með bréfi 19. janúar 1999, sem frekari læknisfræðileg gögn fylgdu. Af þessu tilefni gerðu áfrýjandi og Trygging hf. á ný sameiginlega beiðni 18. mars 1999 til tveggja lækna um að þeir legðu mat á tímabundna og varanlega örorku áfrýjanda. Í álitsgerð þessara lækna 12. janúar 2000 var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi verið tímabundið óvinnufær í samtals 16 mánuði af völdum slyssins. Varanleg læknisfræðileg örorka hennar var metin 20% og varanleg fjárhagsleg örorka sú sama. Í framhaldi af þessu aflaði áfrýjandi útreiknings tryggingarfræðings 8. febrúar 2000 á tjóni sínu. Þar voru bætur vegna tímabundins atvinnutjóns hennar taldar nema 1.524.938 krónum, en vegna varanlegrar örorku 3.695.116 krónum. Þá sagði þar að miðað við heilsufar áfrýjanda mætti ætla að slysið leiddi ekki til taps lífeyrisréttinda, en yrði það reiknað í hlutfalli við tekjumissi væri fjárhæð þess 292.130 krónur.
Með bréfi 26. apríl 2000 krafði lögmaður áfrýjanda stefndu Tryggingamiðstöðina hf. um greiðslu frekari skaðabóta. Kom þar fram sú skoðun að áfrýjandi væri í reynd með öllu ófær um að afla sér vinnutekna og var vitnað því til stuðnings til ýmissa ummæla í áðurnefndum vottorðum um heilsufar hennar og álitsgerðum um örorku. Þá kom einnig fram að áfrýjandi hafi haldið óskertum launum þann tíma, sem hún væri talin hafa verið tímabundið óvinnufær. Á þessum grunni krafðist áfrýjandi þess að sér yrðu greiddar skaðabætur fyrir 100% varanlega örorku, sem næmu fimmfaldri fjárhæð, sem tryggingarfræðingur hafði reiknað fyrir 20% örorku, eða 18.475.580 krónum, en vegna skattfrelsis bóta og hagræðis af eingreiðslu skyldi síðastnefnd fjárhæð lækka um 15% eða 2.771.337 krónur. Þá var krafist bóta vegna missis lífeyrisréttinda, sem með sams konar útreikningi töldust að fjárhæð 1.460.650 krónur. Þá krafðist áfrýjandi 2.500.000 króna í miskabætur og 965.933 króna vegna þóknunar lögmanns og útlagðs kostnaðar, en frá öllu framangreindu voru dregnar 300.000 krónur, sem greiddar voru 18. ágúst 1995. Auk heildarfjárhæðar þessara liða, 20.330.826 króna, krafðist áfrýjandi nánar tilgreindra vaxta frá slysdegi til greiðsludags. Hið stefnda félag svaraði þessari kröfu áfrýjanda með bréfi 19. maí 2000, þar sem boðnar voru fram bætur í samræmi við niðurstöðu fyrrnefndrar álitsgerðar um 20% varanlega örorku eða 3.000.000 krónur, auk miskabóta að fjárhæð 400.000 krónur, 125.176 króna í vexti og samtals 329.079 króna í þóknun lögmanns ásamt útlögðum kostnaði. Til frádráttar kæmu 293.900 krónur, sem væru verðmæti greiðslunnar frá 18. ágúst 1995 á slysdegi, en samkvæmt því voru áfrýjanda boðnar 3.560.355 krónur í bætur. Tekið var fram í bréfinu að áfrýjandi nyti bóta úr almannatryggingum, en í boði félagsins fælist að hvorki kæmu þær til frádráttar né bætur úr lífeyrissjóði. Lögmaður áfrýjanda tók við greiðslu samkvæmt þessu boði 31. maí 2000, en gerði fyrirvara um fjárhæð einstakra liða hennar, enda litið á hana sem innborgun.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 28. júní 2001 og krafðist greiðslu á 20.268.339 krónum. Sú fjárhæð var sundurliðuð á sama hátt og krafa áfrýjanda í áðurgreindu bréfi 26. apríl 2000 að því er varðar bætur fyrir 100% varanlega örorku, lækkun þeirra bóta vegna skattfrelsis og hagræðis af eingreiðslu, bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda og miskabætur, en alls nema þessir liðir 19.664.893 krónum. Við þá var bætt kröfu um bætur vegna tannlækniskostnaðar, 503.455 krónur, auk kröfu um 99.991 krónu vegna vangreiddrar lögmannsþóknunar í uppgjöri 31. maí 2000.
Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk áfrýjandi dómkvadda tvo lækna til að meta meðal annars tímabundna og varanlega læknisfræðilega og fjárhagslega örorku hennar. Í matsgerð 6. mars 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi tímabundið verið óvinnufær vegna slyssins í samtals 17 mánuði. Varanleg læknisfræðileg örorka var metin 20%, en fjárhagsleg örorka 60%.
II.
Samkvæmt því, sem áður greinir, liggur fyrir í málinu matsgerð dómkvaddra manna, sem er í samræmi við álit tveggja lækna, sem aðilarnir höfðu áður sammælst um að leita til 18. mars 1999, um að varanleg læknisfræðileg örorka áfrýjanda sé 20%. Svo sem ítrekað hefur verið tekið fram í dómum Hæstaréttar í málum, þar sem krafist hefur verið skaðabóta vegna líkamstjóns frá því fyrir gildistöku laga nr. 50/1993, hefur í dómaframkvæmd varðandi verðmæti tapaðra framtíðartekna vegna örorku almennt verið litið til læknisfræðilegrar örorku og lagt til grundvallar að hundraðshluti tekjutaps sé sá sami og þannig ákveðið örorkustig. Þótt matsgerð dómkvaddra manna hafi leitt í ljós að fjárhagsleg örorka áfrýjanda sé meiri en læknisfræðileg örorka eru ekki forsendur til að víkja hér frá framangreindri aðferð til ákvörðunar bóta fremur en í öðrum tilvikum, þar sem líkt hefur staðið á. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að ákveða eigi bætur handa henni eins og um væri að ræða 100% varanlega læknisfræðilega örorku eða annað lægra örorkustig umfram það, sem dómkvaddir matsmenn komust að niðurstöðu um.
Eins og áður er getið setti áfrýjandi fram í bréfi til Tryggingar hf. 27. júní 1995 skaðabótakröfu, sem reiknuð var út eftir reglum laga nr. 50/1993, þótt þau tækju ekki til tjóns hennar vegna ákvæðis 28. gr. þeirra. Að fram kominni þeirri kröfu bauð félagið áfrýjanda tiltekna heildarfjárhæð í bætur, sem reyndar var hærri en hún hafði krafist. Í orðsendingu félagsins 5. júlí 1995, þar sem þetta boð var gert, var í engu lýst afstöðu til aðferða áfrýjanda við útreikning kröfunnar og hvorki beint né óbeint samsinnt að beita ætti þar ákvæðum laga nr. 50/1993. Í kvittun fyrir greiðslu þessara bóta var fjárhæðin sem fyrr segir nefnd samkomulagsbætur. Að þessu athuguðu eru ekki efni til að líta svo á að stefndu hafi með þessu uppgjöri skuldbundið sig við hugsanlega endurupptöku þess til að greiða áfrýjanda bætur fyrir varanlega örorku til samræmis við fjárhagslega örorku hennar, svo sem ákvæði laga nr. 50/1993 miða við. Þess ber að geta að óumdeilt er fyrir Hæstarétti að áfrýjandi hafi haldið fram málsástæðu á þessum grunni við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi, en til þess hafði hún fyrst tilefni að framkomnu áðurgreindu mati dómkvaddra manna, þar sem gerður var greinarmunur á örorkustigi hennar eftir því hvort miðað væri við læknisfræðilega örorku eða fjárhagslega.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að áfrýjandi hafi fengið varanlega örorku sína hæfilega bætta með greiðslu stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 31. maí 2000 á 3.000.000 krónum.
Við áðurnefnt bótauppgjör hins stefnda félags við áfrýjanda var í engu fallist á kröfu hennar um bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, en samkvæmt útreikningi tryggingarfræðings 8. febrúar 2000 myndi fjárhæð þeirra nema 292.130 krónum ef tekið væri mið af 20% varanlegri örorku, svo sem lagt er til grundvallar hér að framan. Varðandi þennan lið í kröfu áfrýjanda er til þess að líta að hún hefur engin gögn lagt fram til stuðnings því að óvinnufærni hennar hafi í raun skert þau lífeyrisréttindi, sem hún hefði getað áunnið sér með áframhaldandi störfum við embætti tollstjórans í Reykjavík, en samkvæmt gögnum málsins vann hún þar frá árinu 1978 þar til hún lét endanlega af störfum síðla árs 1999 vegna heilsubrests. Í þessu efni verður ekki horft fram hjá því að lok iðgjaldagreiðslna og taka örorkulífeyris leiða ekki ávallt sjálfkrafa til skerðingar á lífeyrisréttindum ríkisstarfsmanna, sbr. meðal annars lokamálslið 2. mgr. 26. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Af þessum sökum verður ekki komist hjá því að hafna þessum lið í kröfu áfrýjanda, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi.
Í öðrum atriðum en að framan greinir verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jóhönnu Gísladóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2002.
I
Mál þetta var höfðað 28. júní 2001 og dómtekið 30. maí 2002.
Stefnandi er Jóhanna Gísladóttir, kt. 311040-4139, Sæviðarsundi 31, Reykjavík en stefndu eru Einar Þór Bárðarson, kt. 180372-3939, Ingólfsstræti 6, Reykjavík og Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða henni bætur að fjárhæð 20.268.339 krónur en til vara lægri fjárhæð að mati dómsins auk vaxta í báðum tilvikum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989 frá 21. október 1992 til 27. febrúar 2000 og dráttarvaxta skv. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum miðað við stöðu skuldarinnar á greiðsludögum þeirra, 18. ágúst 1995 300.000 krónur og 31. maí 2000 3.326.329 krónur. Þá gerir stefnandi kröfur um málskostnað að skaðlausu og að málskostnaður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og málið sé ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk leyfi dómsmálaráðherra til gjafsóknar 16. júlí 2001.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara gera þeir kröfu til verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla. Ef bætur verði að einhverju leyti tildæmdar krefjast stefndu þess að ársvextir af hinni tildæmdu fjárhæð verði sem hér segir: 1,0% frá 28.6. 1997 til 1.5. 1998, 0,7% frá þeim degi til 1.12. 1998, 0,6% frá þeim degi til 1.5. 1999, 0.7% frá þeim degi til 1.2. 2000, 1,0% frá þeim degi til 8.2. 2000 og 4,5% frá þeim degi til þess dags þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp. Frá þeim degi til greiðsludags beri tildæmdar bætur dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
II
Málavextir eru þeir að 21. október 1992 lenti stefnandi í umferðarslysi á mótum Langholtsvegar og Sæbrautar í Reykjavík. Hún ók bifreið sinni KV-177 norður Langholtsveg og stöðvaði við gatnamótin á rauðu ljósi, en ók af stað inn á gatnamótin, þegar grænt ljós kviknaði fyrir akstursstefnu hennar. Stefndi Einar Þór Bárðarson ók bifreið sinni Ö-2743 austur Sæbraut og inn á gatnamótin, en þá logaði rautt ljós fyrir akstursstefnu hans, og ók hann á vinstri hlið bifreiðar stefnanda. Bifreið stefnda Einars Þórs var tryggð ábyrgðartryggingu hjá Tryggingu hf., en stefnandi hafði ökumanns-, farþega og ábyrgðartryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Þessi tvö tryggingafélög hafa nú sameinast undir nafni Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sem yfirtekið hefur öll réttindi og skyldur Tryggingar hf. Er bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda viðurkennd en ágreiningur er um grundvöll bóta og bótafjárhæðir.
Eftir áreksturinn leitaði stefnandi til slysadeildar Borgarspítalans og samkvæmt vottorði Tryggva Þorsteinssonar læknis 26. júlí 1993 benti skoðun til þess að um tognun væri að ræða, svokallaðan whiplash-áverka. Að lokinni skoðun fór hún heim og fékk með sér bólgueyðandi töflur. Næst kom stefnandi til eftirlits á slysadeildina 3. nóvember 1992 og kvartaði undan því að hún fengi oft höfuðverk en aðallega kvartaði hún um óeðlilega þreytu og það sama kom fram í skoðun á slysadeild 17. nóvember 1992. Síðast kom hún til skoðunar á slysadeild Borgarspítala 1. desember 1992 og kvartaði enn um höfuðverk. Var hún í kjölfarið send til Einars Valdimarssonar taugalæknis þann 10. desember 1992 en við skoðun fann hann ekkert “neurologiskt” sem skýrt gat höfuðverkinn.
Þann 10. febrúar 1993 leitaði stefnandi til Torfa Magnússonar sérfræðings í heila-og taugasjúkdómum og er niðurstaða hans eftir þá skoðun að stefnandi hafi höfuðverk eftir minni háttar höfuðáverka. Hún fór aftur í skoðun til hans 3. mars 1993 og var þá ákveðið að senda hana til Kjartans Kjartanssonar geðlæknis. Hún kom síðan aftur til Torfa 17. mars 1993 og fékk lyfjameðferð.
Stefnandi leitaði til Harðar Sævaldssonar tannlæknis 22. júní 1993 vegna tannáverka sem hún hlaut í slysinu. Kemur fram í vottorði læknisins sem dagsett er 3. ágúst 1993 að tönnin 2 hafi skábrotnað, þó ekki alvarlega og tönnin 6 sem hafi áður verið rótfyllt hafi brotnað þannig að setja þyrfti á hana gullkrónu. Þá hafi tönnin +6 skaddast og skemmst alvarlega er hún hafi þurft að taka lyf við þunglyndi og hafi þurft að taka þá tönn úr. Kostnaður við að laga tannskaða stefnanda taldi læknirinn vera 103.000 krónur. Samkvæmt reikningi sama tannlæknis 17. nóvember 1993 greiddi Trygging hf. 66.900 krónur fyrir tannlækningar stefnanda.
Samkvæmt beiðni þáverandi lögmanns stefnanda gerði Sverrir Bergmann sérfræðingur í taugalækningum mat á stefnanda og svaraði spurningum sem lögmaðurinn lagði fyrir hann. Samkvæmt bréfi hans 20. febrúar 1995 er það niðurstaða hans að sennilega hafi stefnandi fengið vægan heilahristing í slysinu en fyrst og fremst svonefndan whiplash-áverka. Telur læknirinn að höfuðverk stefnanda og óeðlilega þreytu megi rekja til áverka þeirra sem hún hlaut í slysinu. Kemur og fram í bréfi læknisins að hin umtalsverða skerðing sem stefnandi búi við á starfsorku vegna þreytu verði tvímælalaust rakin til umferðarslyssins.
Lögmenn aðila óskuðu örorkumats læknanna Sigurðar Thorlacius og Ragnars Jónssonar og er matsgerð þeirra dagsett 17. maí 1995. Er það niðurstaða þessara matsmanna að tímabært sé að leggja mat á varanlegt heilsutjón stefnanda og að tímabundin læknisfræðileg örorka hennar sé hæfilega metin 100% í tvær vikur og varanleg læknisfræðileg örorka 5%. Þá telja þeir tímabundna fjárhagslega örorku af völdum slyssins hæfilega metna 100% í tvær vikur og að varanleg fjarhagsleg örorka af völdum slyssins sé engin.
Stefnandi leitaði upphaflega bóta á árinu 1995 og 18. ágúst 1995 varð að samkomulagi milli Tryggingar hf. og þáverandi lögmanns hennar um fullnaðarbætur henni til handa vegna slyssins að upphæð 300.000 krónur að meðtöldum vöxtum auk innheimtuþóknunar með virðisaukaskatti 54.000 krónur. Þá bætti félagið einnig lyfja- og lækniskostnað stefnanda 30.000 krónur.
Að ósk lögmanns stefnanda gaf Magnús Ólason læknir vottorð vegna hennar 19. maí 1997 og kemur þar fram að ekki sé ósennilegt að stefnandi þurfi síðar að minnka við sig starfshlutfall.
Samkvæmt greinargerð Sverris Bergmann, sem dagsett er 10. september 1998 og lögmaður stefnanda óskaði eftir, kemur fram að ljóst sé að í bifreiðaslysinu hafi stefnandi fengið áverka á tennur og vægan heilahristing en fyrst og fremst slæman hnykkáverka með tognun á hálsvöðva og vinding á bak. Er það skoðun læknisins að ósennilegt sé að stefnandi fari aftur til starfa, það séu hinar endanlegu afleiðingar. Hún yrði þá aðeins að vera í hluta þess starfs sem hún hafi verið í áður.
Stefnanda fannst lítið gert úr afleiðingum slyssins í matsgerð þeirra Sigurðar Thorlacius og Ragnars Jónssonar og fór fram á það við lögmann stefndu að málið yrði endurupptekið 23. september 1998. Til grundvallar kröfu stefnanda um endurupptöku bótamálsins aflaði hún taugasálfræðilegs mats hjá dr. Þuríði J. Jónsdóttur taugasálfræðingi sem framkvæmdi einnig svonefnt MMPI próf á stefnanda. Í samantekt Þuríðar 18. janúar 1999 kemur fram að taugasálfræðilegar niðurstöður, MMPI niðurstöður, trúverðugar lýsingar stefnanda sjálfrar og sonar hennar, á núverandi ástandi hennar og þeim breytingum sem átt hafi sér stað á henni eftir umrætt slys, renni sterkum stoðum undir þá kenningu að hún hafi hlotið verulegan heilaskaða við slysið. Hin taugasálfræðilegu eftirslysaheilkenni spanni allt í senn vitræn, skynræn og geðræn einkenni. Vitrænu einkennin komi fram sem alvarleg minnisskerðing, einbeitingarskortur, athyglisbrestur, skortur á hugrænum sveigjanleika, brengluð sjónræn úrvinnsla og hæg hugsun. Skynrænu einkennin komi fram sem höfuðverkur og úthaldsleysi og óeðlileg þreyta. Geðrænu einkennin komi einkum fram sem brottfallseinkenni, þar er að segja depurð, kvíði, kjarkleysi, framtaksleysi, uppgjöf og geysilegt vonleysi. Persónuleikabreytingar í kjölfar höfuðmeiðsla og/eða alvarlegra hálshnykksáverka séu sterkar vísbendingar um að heilaskaði í framheila hafi átt sér stað. Í álitsgerðinni kemur einnig fram að endanleg einkenni stefnanda séu hugsanlega alls ekki komin fram. En jafnvel þótt öll eftirslysaheilkenni hennar séu þegar komin fram sé ljóst að þau muni ekki réna með vaxandi aldri og eðlilegri aldurshrörnun. Kemur fram hjá Þuríði að vissulega sé ástæða til að endurupptaka bótamálið og hnígi gögn málsins og fyrirliggjandi upplýsingar í þá átt að örorka stefnanda hafi verið gróflega vanmetin í fyrrgreindri matsgerð. Telur Þuríður að það hafi líklega komið stefnanda í koll að hún hafi barist hetjulegri baráttu við að halda vinnu sinni. Það hafi annars vegar leitt til þess að hún hafi ánetjast verkjastillandi og róandi lyfjum og hins vegar til þess að lágt örorkumat hennar hafi verið byggt á röngum forsendum. Er það mat taugasálfræðingsins að engar líkur séu á frekari bata og að stefnandi sé með öllu óvinnufær vegna allra ofangreindra taugasálfræðilegra einkenna.
Þann 15. september 1999 framkvæmdi Gauti Arnþórsson tryggingalæknir mat á örorku stefnanda vegna lífeyristrygginga. Taldi hann ljóst að starfsgeta stefnanda væri mikið skert og litlar sem engar horfur á að hún endurheimti hana. Mat hann örorku stefnanda frá 1. september 1999 til 31. ágúst 2000 75% og lagði til að endurmat færi fram að þeim tíma liðnum.
Stefnandi leitaði til sjúkraþjálfara og samkvæmt vottorði Hilmis Ágústssonar löggilts sjúkraþjálfara 17. nóvember 1999 telur hann að starfsþrek stefnanda dugi ekki til að sinna athöfnum daglegs lífs á heimili og að hann sé vantrúaður á að veruleg breyting verði á því.
Lögmaður stefndu taldi rétt að kallað yrði eftir svokölluðu tveggja lækna mati áður en afstæða væri tekin til kröfu stefnanda um endurupptöku bótamálsins og með bréfi 18. mars 1999 fóru aðilar þess á leit við læknana Aron Björnsson og Kristófer Þorleifsson að þeir mætu örorku stefnanda. Í matsgerð þeirra sem dagsett er 12. janúar 2000 kemur fram að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna slyssins á árinu 1996 frá 4. janúar til 19. janúar og frá 9. október til 17. október. Á árinu 1997 frá 6. janúar til 6. apríl, en frá 26. janúar dvaldist hún á Reykjalundi. Þá hafi hún verið óvinnufær frá 4. janúar til 15. febrúar 1998 og frá 9. mars 1998 til 1. september 1999, en á síðara tímabilinu dvaldist hún á Reykjalundi frá 19. apríl 1998 til 28. júní 1998. Í september 1999 hafi stefnandi endalega gefist upp við störf og farið á örorku og verið metin meira en 75% öryrki hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Hefur komið fram hjá stefnanda að hún hafi haldið óskertum launum í veikindaforföllum sínum, en allt frá slysinu hafi hún verið í fullu starfi hjá tollstjóranum í Reykjavík að undanskildum tímabilum sem hún hafi verið frá vegna verkja eða til meðferðar á Reykjalundi.
Í matsgerð þeirra Arons og Kristófers lýsa þeir verulegum einkennum hennar við skoðun 10. janúar 2000 og kveða ljóst að starfsgeta hennar hafi verið mjög skert allt frá því hún varð fyrir slysinu þó svo að hún hafi getað pínt sig til vinnu með hléum allt þar til hún hætti endanlega í september 1999. Í niðurstöðum matsmannanna segir að fyrir bifreiðaslysið hafi stefnandi verið heilsuhraust, haft fulla starfsorku og stundað ýmis áhugamál eins og golf og badminton í frítímum sínum. Fyrir slysið hafi hún ekki átt við höfuðverk, hálsóþægindi eða bakóþægindi að stríða. Hún hafi ekki átt erfitt með svefn né strítt við nein geðræn vandamál. Það eina sem hafi hrjáð hana fyrir slys hafi verið vanstarfsemi á skjaldkirtli, sem hún hafi fengið rétta meðhöndlun við og hafi ekkert truflað líf hennar. Við slysið sé ljóst að stefnandi hafi fengið höfuðhögg og vægan heilahristing svo og hálshnykk. Þó ekki hafi verið sjáanlegir miklir áverkar hafi heilsu hennar stöðugt hrakað frá því að hún varð fyrir slysinu.
Þá segir í niðurstöðum læknanna tveggja að allt frá slysdegi hafi höfuðverkur þjáð stefnanda og í vaxandi mæli síþreyta og einkenni um fjölvöðvagigt. Fljótlega eftir slys hafi hún orðið að hætta allri tómstundaiðkun en getað keyrt sig áfram til vinnu með notkun sterkra verkjalyfja og svefnlyfja. Orkuleysi hennar og almennt getuleysi hafi leitt til þess að hún hafi endanlega gefist upp við störf og þarfnist ennfremur hjálpar heima við í formi heimilisaðstoðar. Þá hafi hún frá slysinu haft vaxandi einkenni um minnistruflanir, einbeitingarskort, en ekki hafi verið til staðar nein einkenni þunglyndis. Sé ljóst að áverki sá sem hún hlaut við bifreiðaslysið hafi breytt stöðu hennar í lífinu og nú endanlega gert hana óhæfa til starfa. Ekki verði séð að önnur slys eða sjúkdómar eigi nokkurn þátt í örorku eða núverandi ástandi stefnanda og telja læknarnir að einkenni hennar muni ekki réna með tímanum og sýnt að hún muni ekki snúa til starfa á ný. Er það niðurstaða matsmanna að tímabundin læknisfræðileg örorka stefnanda af völdum slyssins sé hæfilega metin 100% í 16 mánuði og varanleg læknisfræðileg örorka 20% og það sama gildi um tímabundna fjárhagslega örorku, hún sé hæfilega metin 100% í 16 mánuði og varanleg fjárhagsleg örorka af völdum slyssins sé 20%.
Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. féllst á endurupptöku málsins á grundvelli hins nýja mats og að uppgjör færi fram í samræmi við áralanga dómvenju í sams konar bótamálum. Féllst félagið þannig á að bæta nú líkamstjón stefnanda með 3.560.355 krónum sem greiddar voru stefnanda 31. maí 2000.
Við útreikning bótakröfu byggði stefndi Tryggingamiðstöðin hf. á útreikningi Guðjóns Hansen tryggingastærðfræðings 8. febrúar 2000. Til grundvallar tjónsútreikningi sínum lagði tryggingafræðingurinn vinnutekjur stefnanda fyrir árin 1989-1991 og umreiknaði þær með tilliti til almennra breytinga á kauptöxtum svo og með hliðsjón af upplýsingum Kjararannsóknarnefndar um launaþróun. Þannig reiknuðust árlegar vinnutekjur:
Árið 1992 kr. 1.164.427
Árið 1993 kr. 1.164.427
Árið 1994 kr. 1.164.427
Árið 1995 kr. 1.214.562
Árið 1996 kr. 1.297.077
Árið 1997 kr. 1.356.959
Árið 1998 kr. 1.472.794
Eftir þann tíma kr. 1.557.082
Miðað við þennan tekjugrundvöll og tekjutap í samræmi við örorkumat eins og það kemur fram í matsgerð þeirra Arons og Kristófers reiknaðist tryggingafræðingnum að verðmæti tapaðra vinnutekna á slysdegi næmu:
Vegna tímabundins orkutaps í 16 mánuði kr. 1.524.938
Vegna varanlegs orkutaps eftir þann tíma kr. 3.695.116
Samtals kr. 5.220.054
Kemur fram í greinargerð tryggingafræðingsins að með hliðsjón af heilsufari stefnanda megi ætla að slysið leiði ekki til beins taps lífeyrisréttinda. Sé hins vegar reiknað með tapi slíkra réttinda í hlutfalli við tekjutap hækki ofangreint verðmæti tapaðra launatekna um 292.130 krónur. Lífeyrisréttindi séu þá reiknuð þannig til fjár að þau teljist jafnvirði 6% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Við útreikning þennan var ekki tekið tillit til greiðslna vegna slyssins frá Tryggingastofnun ríkisins eða öðrum aðilum. Reiknað er með töflum um starfsorkulíkur, samræmdum eftirlifendatöflum íslenskra kvenna 1976-1980. Vextir eru reiknaðir þannig að frá slysdegi til útreikningsdags er reiknað með almennum sparisjóðsvöxtum Landsbanka Íslands eins og þeir hafa verið á hverjum tíma en síðan með 4,5% ársvöxtum til frambúðar.
Ekki er ágreiningur um að miða útreikning tjóns stefnanda við framangreindan útreikning Guðjóns Hansen en stefnandi byggir í útreikningi sínum á því að varanleg örorka hennar sé 100% í stað 20%. Stefnandi féllst því ekki á þær bætur sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. bauð fram og greiddi þann 31. maí 2000 og tók við þeirri greiðslu með fyrirvara.
Þann 31. júlí 2000 gerði Haraldur Jóhannsson tryggingalæknir örorkumat á stefnanda vegna lífeyristrygginga og var það niðurstaða hans að örorka hennar væri 75% frá 1. september 2000 til 30. september 2002 og að endurmat skyldi fara fram að því tímabili loknu.
Stefnandi lenti í öðru bifreiðaslysi 4. ágúst 2000 er hún var ökumaður bifreiðar sem hafði numið staðar á rauðu ljósi og bifreið var ekið aftan á hennar bifreið. Samkvæmt vottorði Björns Gunnlaugssonar læknis 18. september 2000 kemur fram að stefnandi hafi við þetta slys verið greind með nýja hálstognun, með væg eymsli og mjög stirð í hálsliðum. Kemur fram í vottorði læknisins að í kjölfar þessa slyss hafi óþægindi stefnanda frá stoðkerfi espast mikið upp.
Við meðferð máls þessa fyrir héraðsdómi lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna þann 30. október 2001. Voru Sigurjón Stefánsson sérfræðingur í taugalífeðlisfræði, taugalæknisfræði, geðlæknisfræði og tryggingar-lækningum og Stefán Carlsson sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum dómkvaddir í því skyni og er matsgerð þeirra dagsett 6. mars 2002.
Í matsbeiðni til hinna dómkvöddu matsmanna er óskað eftir rökstuddu áliti á eftirfarandi: 1) Hvort fallast megi á örorkumat læknanna Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum og ef ekki hver sé hæfilega metin tímabundin og varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins. 2) Hvort fallast megi á örorkumat læknanna Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar út frá fjárhagslegum sjónarmiðum, þ.e. að matsbeiðandi hafi af völdum slyssins 21. október orðið fyrir eða muni til frambúðar verða fyrir raunverulegri tímabundinni og varanlegri skerðingu á getu til öflunar vinnutekna, þegar litið er til starfs hennar, menntunar, kunnáttu, starfsorku og þeirra kosta, sem hún eigi til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt sé að ætlast til að hún starfi við, eða með öðrum orðum hvort hún hafi orðið fyrir fjárhagslegri örorku af völdum slyssins og ef svo er hvort fallast megi á fjárhagslegt örorkumat læknanna Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar, en ef ekki hver sé hæfilega metin tímabundin og varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda af völdum slyssins. 3) Hvort fallast megi á það álit læknanna Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar að tímabært hafi verið að leggja mat á varanlegt heilsutjón stefnanda af völdum slyssins og önnur slys eða sjúkdómar eigi ekki þátt í örorku hennar.
Í matsgerð þeirra kemur fram sú afstaða að þeir séu sammála Aroni Björnssyni og Kristófer Þorleifssyni um að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda sé hæfilega metin 20%. Þeir telja tímabundna læknisfræðilega og fjárhagslega örorku 100% í 17 mánuði og varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda sé 60%. Hún hafi verið 52 ára þegar slysið varð og engin ástæða sé til að ætla annað en að hún hefði unnið til 70 ára aldurs ef hún hefði ekki orðið fyrir slysinu, og þar sem hún hafi orðið að hætta vinnu 59 ára eða 11 árum áður en vænta mátti hafi starfsferill hennar eftir slysið styst um 60%. Þá voru hinir dómkvöddu matsmenn sammála þeim Aroni og Kristófer að tímabært hefði verið að leggja mat á varanlegt heilsutjón stefnanda 12. janúar 2000 og að önnur slys eða sjúkdómar eigi ekki þátt í örorku hennar.
Stefnandi aflaði kostnaðaráætlunar frá Herði Sævaldssyni tannlækni og samkvæmt greinargerð hans 18. mars 2002 er það hans mat að besti kostur stefnanda eins og munnur hennar sé í dag sé sá að gerðir verði vitallium í efri og neðri góm.
Tannpartur í efri góm með krónu á eina stoðtönn kr. 200.000
Tannpartur í neðri góm kr. 160.000
Samtals kr. 360.000
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu vitnin Stefán Carlsson, Sigurjón Stefánsson, Þuríður Jónsdóttir, Hörður Sævaldsson, Sigurberg Guðjónsson og Sverrir Bergmann.
III
Stefnandi kveður að þær forsendur, sem læknarnir Sigurður Thorlacius og Ragnar Jónsson hafi gefið sér, um að stefnandi væri í sömu vinnu og hún var í fyrir slysið og áformi að halda því áfram og það mat þeirra að einkenni hennar muni með tímanum réna, hafa brugðist. Hafi hún því leitað sér lögmannsaðstoðar að nýju á árinu 1997 til að fá bótamálið endurupptekið.
Kemur fram hjá stefnanda að hún hafi allt frá slysinu átt við stöðug veikindi að stríða en verið vel frísk fyrir það og engin óþægindi haft frá stoðkerfi. Vegna veikinda sinna, sem stefnandi telur vera vegna afleiðinga af umræddu slysi, hafi hún oft verið óvinnufær og haldið sér gangandi með lyfjum. Utan vinnutíma hafi hún enga starfsorku haft eða þrek til heimilisstarfa eða tómstundaiðkana.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu vegna varanlegrar örorku á því, að í aflahæfi manna séu fólgin eignarréttindi, sem njóti nú verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og áður, er atvik máls þessa gerðust, þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar.
Með matsgerð læknanna Kristófers Þorleifssonar og Arons Björnssonar sé því slegið föstu að aflahæfi stefnanda sé að fullu skert til frambúðar af völdum slyssins. Hafi þeir, þrátt fyrir þá niðurstöðu þeirra að áverkinn sem stefnandi hlaut í slysinu hafi nú endanlega gert hana óhæfa til starfa og að einkennin muni ekki réna með tímanum, metið varanlega læknisfræðilega og fjárhagslega örorku hennar 20%. Það hafi þeir einnig gert þrátt fyrir þá skoðun Sverris Bergmanns læknis að ósennilegt sé að stefnandi fari aftur til starfa og þá skoðun Þuríðar J. Jónsdóttur taugasálfræðings að stefnandi sé með öllu óvinnufær. Þá hafi niðurstaða þeirra einnig verið á þessa lund þrátt fyrir örorkumat Gauta Arnþórssonar tryggingalæknis þar sem fram hafi komið að ljóst væri að starfsgeta stefnanda væri mikið skert og litlar sem engar horfur á að endurheimta hana.
Telur stefnandi að þrátt fyrir að það hafi verið mat hinna dómkvöddu matsmanna að meta fjárhagslega örorku stefnanda 60% þá styðji gögn málsins svo ekki verði um villst að stefnandi búi við 100% fjárhagslega örorku. Sé varanleg örorka hennar og skerðing aflahæfis 100%. Það sé tjón hennar og við það eigi að miða bætur til hennar. Telur hann að fyrirliggjandi matsgerðir séu órökstuddar um örorku stefnanda.
Í samræmi við þær forsendur læknanna tveggja og álit Sverris Bergmann læknis, Þuríðar J. Jónsdóttur taugasálfræðings og Gauta Arnþórssonar tryggingalæknis hafi stefnandi með kröfubréfi 26. apríl 2000, gert bótakröfu miðað við algera örorku enda sé það mat stefnanda að fjárhagslegt tjón hennar af völdum slyssins sé mjög mikið vegna varanlegrar örorku, bæði samkvæmt læknisfræðilegu og fjárhagslegu mati, sem sé í raun 100%. Telur stefnandi að inn í örorkumatið megi ekki fléttast réttindi til lífeyrisgreiðslna eða annarra bóta sem stefnandi eigi og njóti frá lífeyrissjóði og almannatryggingum.
Miskabótakrafa stefnanda sé á því reist að slysið hafi haft víðtækar afleiðingar fyrir hana. Hafi það valdið henni umtalsverðum óþægindum og vanlíðan og heft hana verulega í daglegu lífi og tómstundum. Stefnandi hafi orðið að þola óvenju miklar þjáningar andlega og líkamlega og röskun á stöðu og högum.
Stefnandi byggir á því að með framlögðum gögnum, örorkutjónsútreikningi og öðrum gögnum málsins, sé fullkomlega sannað eða í öllu falli verulega líklegt að örorkutjón hennar og annað tjón, sem krafist sé bóta fyrir, verði rakið beint til umrædds umferðarslyss og leggja beri það til grundvallar dómi í málinu.
Stefnandi sættir sig ekki við þær bótagreiðslur sem hún hefur þegar fengið og sundurliðar bótakröfu sína þannig:
1. Vegna varanlegs orkutaps kr. 3.695.116 / 20 x 100 kr. 18.475.580
2. Tap lífeyrissjóðsréttinda kr. 292.130 / 20 x 100 kr. 1.460.650
kr. 19.936.230
3. Miski kr. 2.500.000
kr. 22.436.230
Lækkun vegna skattfrelsis bótanna og
hagræðis af eingreiðslu 15% af kr. 18.475.580 kr. - 2.771.337
Höfuðstóll bótakröfu alls kr. 19.664.893
Áður greiddar bætur að meðtöldum vöxtum 18. ágúst 1995 kr... - 300.000
Áður greidd innborgun að meðtöldum vöxtum 31. maí 2000 kr. - 3.125.176
kr. 16.239.717
4. Tannlækniskostnaður kr. 503.455
5. Lögmannsþóknun:
Þóknun af kr. 3.231.276
skv. gjaldskrá Lögmanna
Bæjarhrauni 8 kr. 241.883
VSK 24,5% kr. 59.261.
kr. 301.144
Áður greidd innborgun 31. maí 2000 kr. - 201.153 kr. 99.991
kr. 16.843.163
Innborganir kr. 3.425.176
Stefnukrafa kr. 20.268.339
Hvað snertir lið 1. þá sé byggt á örorkutjónsútreikningi Guðjóns Hansen tryggingafræðings 8. febrúar 2000, sem miðaðist við 20% varanlega örorku og hann færður upp miðað við 100% varanlega örorku. Varðandi lið 2 þá sé í samræmi við dómvenju gerð krafa um bætur vegna tapaðra lífeyrissjóðsréttinda sem reiknuð séu þannig til fjár, að þau teljist jafnvirði 6% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Sé þessi kröfuliður færður upp með sama hætti og kröfuliður 1.
Kröfuliður 4 sé byggður á kostnaðaráætlun Harðar Sævaldssonar tannlæknis 14. júní 2000, og kostnaðaryfirliti hans. 3. ágúst 1993. Hér sé um að ræða tjón sem sé afleiðing af völdum slyssins. Varðandi lið 5 þá byggi lögmannsþóknun á 3. gr., 4. gr. og 17. gr. Gjaldskrár Lögmanna Bæjarhrauni 8, sem stefndu hafi borið að miða við og reiknast með tilliti til hagsmuna sem fólgnir séu í hluta bótagreiðslu stefndu, eða 3.231.276 krónur sbr. 3. og 4. gr., og þeirrar vinnu lögmanns sem nauðsynleg hafi verið til að ná fram endurupptöku bótamálsins og innheimtu þeirrar fjárhæðar, en vinnustundir lögmanns að málinu fram til 31. maí 2000 hafi alls verið 35,25 og tímagjaldið 7.500 krónur auk virðisaukaskatts, sbr. 17. gr. Þessi þóknun lögmanns stefnanda sé hluti þess kostnaðar sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna slyssins og því hluti af tjóni hennar. Þessari kröfu sé í hóf stillt og hafi stefndu ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn eða óeðlileg eftir atvikum.
Bótakröfunni sé beint að stefnda Einari Þóri Bárðarsyni sem skráðum eiganda og ökumanni bifreiðarinnar Ö-2743 og stefndu Tryggingarmiðstöðinni hf., áður Tryggingu hf., sem ábyrgðartryggjanda hennar. Sé á því byggt að stefndi Einar Þór beri einn og óskipt sök á árekstri bifreiðanna.
Um lagarök að öðru leyti en þegar hafi verið rakið vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og til reglna skaðabótaréttar og dómafordæma um ákvörðun fjárhæðar miska- og annarra skaðabóta byggðra á mati læknisfræðilegrar örorku og áætluðu tekjutapi miðað við það mat og með hliðsjón af fjárhagslegri örorku. Vísað sé til 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til stuðnings miskabótakröfu, sbr. nú 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/ 1993.
Kröfur um málskostnað auk virðisaukaskatts styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lög nr. 50/1988.
IV
Stefndu telja að þar sem stefnandi hafi slasast fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 verði bætur fyrir líkamstjón hennar ákvarðaðar samkvæmt ólögfestum reglum skaðabótaréttar sem þá hafi gilt og eins og þær reglur hafi mótast af áralangri dómaframkvæmd.
Með sameiginlegri matsbeiðni Tryggingar hf. og lögmanns stefnanda þann 18. mars 1999 hafi aðilar óskað eftir mati tveggja lækna, þeirra Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar, á tímabundinni og varanlegri örorku stefnanda. Samkvæmt matsgerð þeirra 12. janúar 2000 sé varanleg læknisfræðileg örorka af völdum slyssins metin 20%. Sú niðurstaða um 20% læknisfræðilega örorku stefnanda hafi verið staðfest í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, þeirra Sigurjóns Stefánssonar og Stefáns Carlssonar. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem hnekki matsgerðum þessum. Kemur fram hjá stefndu að þann 8. febrúar 2000 hafi örorkutjón stefnanda verið reiknað út af Guðjóni Hansen tryggingafræðingi miðað við 20% varanlega örorku og hafi það numið 3.695.116 krónum, svo og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda 292.130 krónur. Hafi stefnanda síðan verið greiddar bætur þann 31. maí 2000 samtals að fjárhæð 3.560.355 krónur sem sundurliðist svo:
Bætur fyrir varanlega örorku kr. 3.000.000
Miskabætur kr. 400.000
Frádr. slysdvm, bótauppgj. 18.8.1995 - kr. 293.900
Vextir 18.3.1995 til 19.5.2000 kr. 125.176
Útlagður kostnaður lögmanns kr. 127.926
Innheimtuþóknun ás. 24,5% vsk. kr. 201.153
Samtals kr. 3.560.355
Þegar litið sé til hinna ólögfestu reglna, sem gilt hafi um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón stefnanda, verði að telja að með þessum greiðslum hafi stefnandi fengið líkamstjón sitt af völdum slyssins að fullu bætt. Því beri að sýkna stefndu í máli þessu.
Í máli þessu virðist stefnandi byggja kröfur sínar um frekari bætur á því að varanleg örorka hennar sé önnur og meiri en fram komi í matsgerðum þeim sem fyrir liggi í málinu, eða 100% en í samræmi við áratugalanga dómaframkvæmd sé engum vafa undirorpið að örorkutjón stefnanda beri að bæta í samræmi við læknisfræðilega örorku af völdum slyssins en hún sé 20% samkvæmt fyrirliggjandi matsgerðum.
Í vottorði Magnúsar Ólasonar, sérfræðings í orku- og endurhæfingarlækningum á Reykjalundi 19. maí 1997 komi fram að stefnandi hafi haft viðvarandi einkenni frá stoðkerfi, einkum frá höfði og hálsi, en einnig í nokkrum mæli frá baki. Segulómun af hálshrygg hafi sýnt slitbreytingar sem vafalítið hafi verið til staðar fyrir slysið, en hafi mögulega gert afleiðingar þess verri en ella. Að lokinni rúmlega tveggja mánaða endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi frá janúar og fram í apríl 1997 hafi stefnandi ekki verið einkennalaus frá stoðkerfi, en tekist að losa sig við verkjalyf og taka þess í stað gigtarlyf. Telur læknirinn óvíst að stefnanda takist að halda áfram í fullu starfi það sem eftir sé starfsævinnar. Í niðurlagi vottorðsins segi að ekki þyki ósennilegt að hún þurfi, þótt síðar verði, að minnka við sig starfshlutfall.
Í læknisvottorði Sverris Bergmann, sérfræðings í taugalækningum 10. september 1998 komi fram að stefnandi hafi fengið áverka á tennur í slysinu 1992, einnig hafi hún fengið vægan heilahristing, en fyrst og fremst hafi hún fengið slæman hnykkáverka með tognun á hálsvöðva og vinding á sjálft bakið. Hún hafi búið við viðvarandi verki og fengið út frá því nokkra vefjagigt, en fyrst og fremst hafi verkirnir leitt til mikils úthaldsleysis. Hafi hún verið í vinnu með því að nota óhóflega mikið af lyfjum sem tvívegis hafi leitt til þess að hún hafi þarfnast að vera tekin úr umferð og sett í meðferð. Þá segi í vottorðinu að það sé skoðun læknisins að ósennilegt sé að stefnandi fari aftur til starfa. Hún yrði þá aðeins að vera í hluta þess starfs sem hún hafi áður verið í. Aðeins þannig megi vænta þess að hún geti átt eitthvert starfsþrek utan starfsins og aðeins þannig megi vænta þess að hún geti að nýju lifað lífi óháð lyfjum til að komast áfram frá einum degi til annars. Loks segi í niðurlagi vottorðsins að ástæður fyrir ástandi eins og stefnandi búi við hafi verið vandskýrðar hjá ákveðnum hluta þeirra einstaklinga sem lendi í áverka af sama toga og hún. Að einhverju leyti valdi hér um verkir vegna tognunar og sú vefjagigt, mikil eða litil, sem fylgi í kjölfarið, en að einhverju leyti breyting sem orsaki óeðlilegt þreytuástand vegna miðtaugaáverka eins og stefnandi hafi hlotið, þótt tiltölulega vægur væri.
Taugasálfræðilegt mat og svokallað "MMPI" próf sem framkvæmt hafi verið af dr. Þuríði J. Jónsdóttur klinískum taugasálfræðingi þann 8. janúar 1999 kunni að gefa til kynna að áverkar sem stefnandi hafi hlotið í slysinu og þau sjúkdómseinkenni sem hún búi við af þeim sökum, og staðreynd hafi verið af læknum, eigi hugsanlega við rök að styðjast. Að öðru leyti geti mat þetta eða próf ekki haft þýðingu í málinu. Sé af og frá að á því verði að einhverju leyti byggt við mat á því hver sé varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins.
Í niðurstöðu matsgerðar læknanna Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar komi fram að ljóst sé að stefnandi hafi fengið höfuðhögg, vægan heilahristing svo og hálshnykk. Þótt miklir áverkar hafi ekki verið sjáanlegir hafi heilsu hennar stöðugt hrakað frá slysinu. Allt frá þeim tíma hafi höfuðverkur hrjáð hana og síðan í vaxandi mæli síþreyta og einkenni um fjölvöðvagigt. Hún hafi hætt tómstundaiðkun fljótlega eftir slysið, en getað keyrt sig áfram í vinnu með notkun sterkra verkjalyfja og svefnlyfja. Vaxandi orkuleysi og almennt getuleysi hafi leitt til þess að hún hafi gefist endanlega upp í starfi og þarfnist heimilisaðstoðar. Frá slysinu hafi hún haft vaxandi einkenni um minnistruflanir, einbeitingarskort, en einkenni þunglyndis hafi ekki verið til staðar. Hafi áverkar þeir, sem hún hlaut í slysinu, breytt stöðu hennar í lífinu og nú endanlega gert hana óhæfa til starfa.
Með vísan til þeirra gagna sem nú hafa verið rakin telja stefndu mega ráða að stefnandi hafi hlotið slæm einkenni af völdum hnykkáverka. Slíkur áverki hafi að jafnaði verið metinn til 20% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku og séu fyrirliggjandi matsgerðir í samræmi við það. Telja stefndu að gögn málsins gefi ekki tilefni til að frá því mati sé vikið. Lífeyristryggingamat hjá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum um almannatryggingar byggi á allt öðrum forsendum en slysaörorkumat sem lagt skuli til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir fyrir varanlega örorku af völdum slysa sem gerðust fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Slíkt lífeyristryggingamat geti því ekki skipt máli varðandi bótakröfur stefnanda á hendur stefndu.
Varðandi varakröfu sína kveða stefndu að í málatilbúnaði stefnanda sé í öllum verulegum atriðum ekki gerðar efnislegar athugasemdir við þær bætur sem inntar hafi verið af hendi af hálfu stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. í lok maí 2000. Einstakir liðir í kröfugerð stefnanda miði nú við 100% varanlega örorku en ekki 20% og telja stefndu óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við einstaka kröfuliði.
1. Bætur fyrir varanlega örorku..
Krafa stefnanda um bætur fyrir 100% varanlega örorku telur stefndi ekki eiga sér nokkra stoð í gögnum. Ekkert mat hafi verið framkvæmt sem gefi í skyn að örorka stefnanda sé meiri en 20%. Með öllu sé fráleitt að slíkt verði ráðið af læknisvottorði Sverris Bergmann eða fyrirliggjandi matsgerðum. Þótt þar hafi komið fram að stefnandi muni að líkindum ekki snúa til þeirra starfa sem hún hafi stundað fyrir slysið þá sé af og frá að þar sé eitthvað það staðhæft sem gefi tilefni til að ætla að varanleg örorka eigi að vera alger af völdum slyssins, enda sé það niðurstaða matsmanna að læknisfræðilega örorkan sé 20%. Telja stefndu þá niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna að fjárhagsleg örorka stefnanda sé 60% engu breyta hér um þar sem áralöng dómvenja sé fyrir því að reikna örorkubætur miðað við hina læknisfræðilegu örorku.
Ef niðurstaða máls þessa verði sú að taka til greina að stefnandi eigi rétt á frekari bótum fyrir varanlega örorku beri að lækka þær verulega vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis og mun meir en stefnandi geri ráð fyrir í kröfugerð sinni. Miðað við þær tekjur, sem lagðar séu til grundvallar í örorkutjónsútreikningnum, sé ljóst, að stefnandi hefði þurft að greiða fullan tekjuskatt af þeim tekjum, sem hún sé sögð hafa misst samkvæmt hinni metnu örorku, ef hún hefði aflað þeirra með vinnuframlagi sínu en nettóskatthlutfall af þessum tekjum sé 19,3%. Samkvæmt þessu sé alveg ljóst að lækka beri kröfu stefnanda vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis um að minnsta kosti 25-30%.
Verði örorkubætur dæmdar á svipuðum nótum og stefnandi geri kröfur um, þá beri afdráttarlaust venju samkvæmt að draga frá eingreiðsluverðmæti þeirra bóta sem stefnandi njóti úr almannatryggingakerfinu. Ennfremur bæri á sama hátt að taka tillit til þeirra lífeyrisgreiðslna sem hún njóti frá lífeyrissjóðum.
2. Bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi.
Kröfu um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi sé alfarið mótmælt. Stefnandi njóti fullra örorkubóta úr lífeyrissjóði þannig að miðað við forsendur kröfunnar geti ekki til þess komið að stefnandi hafi orðið eða verði fyrir fjártjóni vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Séu því engin rök til að taka til greina kröfu um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi.
3. Miskabætur.
Miskabótakröfu stefnanda mótmæla stefndu sem allt of hárri og ekki í nokkru samræmi við dómvenju. Telja stefndu sig hafa bætt stefnanda tjón vegna miska að fullu.
4. Tannlækniskostnaður.
Stefndu mótmæla sem ósönnuðu og órökstuddu að kostnaður vegna tannviðgerðar, verði rakið til tannáverka sem stefnandi hafi hlotið í slysinu í október 1992. Í bréfi tannlæknisins, Harðar Sævaldssonar, sem fyrst hafi komið fyrir sjónir stefnda við þingfestingu málsins, sé á engan hátt gerð grein fyrir tannáverkunum sem kostnaðaráætlunin byggi á eða einstaka kostnaðarliðir rökstuddir. Þá sé heldur engin grein gerð fyrir tengslum þessarar kostnaðaráætlunar og þeirrar kostnaðaráætlunar sem sami tannlæknir hafi gert í ágúst 1993. Með reikningi tannlæknisins að upphæð 66.000 krónur sem greiddur hafi verið 23. nóvember 1992 hafi tjón stefnanda vegna þeirra tannáverka sem hún hlaut í slysinu verið að fullu bætt. Ekkert liggi fyrir um að kostnaður vegna tannáverkanna hafi numið hærri fjárhæð. Sú upphæð, sem greidd hafi verið hafi legið fyrir og um hana samið þegar bótauppgjör fór fram 18. ágúst 1995. Frekari bætur fyrir tannlækniskostnað geti því ekki komið til álita. Beri því að sýkna stefndu af þessum kröfulið.
5. Lögmannsþóknun
Kröfu stefnanda um eftirstöðvar lögmannsþóknunar að fjárhæð 99.991 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna bótauppgjörsins 31. maí 2000 mótmæla stefndu sem óhæfilega hárri, rangri og órökstuddri. Þá hafi krafa þessi ekki næga lagastoð. Við umrætt uppgjör hafi stefnandi fengið 201.153 krónur greiddar að meðtöldum virðisaukaskatti vegna lögmannsþóknunar. Sú upphæð hafi verið ákveðin með hliðsjón af gjaldskrá nokkurra lögmannsstofa sem í nokkrum mæli annist uppgjör bóta fyrir líkamstjón. Sú lögmannsþóknun sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafi greitt með þessum hætti um margra ára skeið vegna uppgjörs bóta fyrir líkamstjón hafi aldrei sætt athugasemdum. Sé þóknunin sem stefnanda hafi verið greidd hæfileg og sanngjörn og þannig í fullu samræmi við það sem telja verði hæfilega lögmannsþóknun sem lögmaður megi áskilja sér skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Engin skilyrði séu til að greiða stefnanda frekari bætur vegna lögmannsþóknunar en þegar hafi verið gert.
Áfallnir vextir eldri en 4 ára, er málið var höfðað 28. júní 2001 kveða stefndu fyrnda skv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Upphafsdagur ófyrndra vaxta sé því 28. júní 1997.
Réttur stefnanda til frekari bóta en þegar hafi verið inntar af hendi sé mjög umdeilanlegur. Að því marki sem frekari bætur kunni að koma til álita sé ljóst að þær verði ekki byggðar á fyrirliggjandi gögnum um tjón stefnanda. Sé fráleitt að stefnandi geti í raun krafist frekari bóta fyrr en endanlegur dómur hafi verið kveðinn upp. Samkvæmt þessu og langri dómvenju beri frá 28. júní 1997 til útreikningsdags örorkutjóns, 8. febrúar 2000, að reikna sömu vexti og gert sé ráð fyrir í örorkutjónsútreikningnum á þessu tímabili, vexti af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands. Frá þeim degi og þar til endanlegur dómur gangi þyki rétt að stefnandi eigi rétt á að hugsanleg bótakrafa beri sömu vexti og miðað sé við í útreikningi örorkutjónsins eftir útreikningsdag, eða 4,5% vexti á ári. Frá þeim tíma sé hins vegar ekki gerður ágreiningur um rétt stefnanda til dráttarvaxta af dómsfjárhæð, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkröfur stefndu, bæði í aðalkröfu og varakröfu, séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988.
Eins og dómkröfur stefnanda séu úr garði gerðar virðist sem ætlast sé til að málskostnaður verði ákveðinn af 20.268.339 krónum, en til vara annarri lægri fjárhæð að mati dómsins, áður en dregnar verði frá þeir bætur sem stefnandi hafi þegar fengið greiddar. Þessu mótmælir stefndi sem röngu og ólögmætu. Í báðum tilvikum þegar bætur voru greiddar stefnanda hafi bætur vegna lögmannsþóknunar að viðbættum virðisaukaskatti verið greiddar, fyrst 56.000 krónur og síðan 201.153 krónur. Sé ljóst að þóknun til lögmanns vegna þessara tveggja uppgjöra hafi verið greidd að fullu. Til þess verði að líta, ef stefnanda verði tildæmdur málskostnaður.
V
Eins og rakið hefur verið er ekki í máli þessu deilt um bótaskyldu stefndu. Stefndu vilja miða bótauppgjör við þær forsendur að varanleg örorka stefnanda sé 20% enda eigi að miða við hina varanlegu læknisfræðilegu örorku, en stefnandi hins vegar telur að öll gögn málsins styðji það að í raun sé varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda 100% og eigi við það að miða við útreikning bóta. Þá greinir aðila á um fjárhæðir annarra kostnaðarliða í dómkröfu stefnanda.
Í málinu liggja fyrir mikill fjöldi gagna sem stefnandi hefur aflað bæði frá læknum, taugasálfræðingi og sjúkraþjálfara. Matsgerðirnar tvær sem áður hefur verið vitnað til eru samhljóða varðandi hina varanlegu læknisfræðilegu örorku stefnanda, eða 20%. Við gerð þeirra matsgerða lágu fyrir öll þau gögn sem stefnandi hafði aflað frá hinum ýmsu sérfræðingum.
Til skamms tíma var mat á læknisfræðilegri örorku yfirleitt lagt til grundvallar ákvörðunar á tjóni viðkomandi aðila. Slíkt mat hefur hins vegar ekki verið einhlít viðmiðun þar sem ýmis atvik geta haft áhrif á niðurstöðu til hækkunar eða lækkunar bóta, en meginregla íslensks skaðabótaréttar er sú að bótaskyldur aðili skuli bæta tjónþola allt það tjón sem hann hefur sannanlega orðið fyrir. Dómari sker hverju sinni úr um vægi sönnunargagna samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Almennt verður að líta svo á að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi meira vægi sem sönnunargagn í dómsmáli heldur en vottorð læknis vegna þeirrar lögbundnu málsmeðferðar sem matsmál sæta. Í því ljósi verður litið svo á að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, Sigurjóns Stefánssonar og Stefáns Carlssonar vegi þyngra sem sönnunargagn um örorku stefnanda heldur en matsgerð þeirra Arons Björnssonar og Kristófers Þorleifssonar og öll þau vottorð lækna og annarra sérfræðinga sem stefnandi hefur einhliða kallað eftir, en þess ber jafnframt að geta að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna byggði á þeim gögnum meðal annars. Verður matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna því lögð til grundvallar í máli þessu enda hefur henni ekki verið hnekkt.
Eins og fram hefur komið er það niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda sé 20% en varanleg fjárhagsleg örorka hennar 60% sem byggir á því að starfsferill hennar hafi í raun og veru styst um 60%. Byggir þetta mat á því að stefnandi hafi orðið að hætta að vinna 59 ára gömul. Með vísan til þess sem að framan er rakið um sönnunargildi matsgerðarinnar þykir sannað að varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda sé í raun 60% og þykja framlögð gögn annarra sérfræðinga um óvinnufærni stefnanda ekki breyta þessari niðurstöðu heldur þvert á móti styðja hana, enda er það mat hinna dómkvöddu matsmanna að vegna þess að stefnandi hafi verið óvinnufær eftir 59 ára aldur sé örorkan 60%.
Eins og kröfugerð stefnanda er háttað verður ekki frekar fjallað í máli þessu um tímabundna örorku stefnanda.
1. Varanleg örorka
Tjónsatburður sá sem mál þetta fjallar um varð á árinu 1992. Við uppgjör bóta vegna líkamstjóna sem urðu fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 hefur verið höfð hliðsjón af örorkutjónsútreikningi sem byggður er á örorkumati og viðmiðunartekjum miðað við tiltekna framtíðarávöxtun. Er ljóst af gögnum málsins að slysið hefur haft víðtækar afleiðingar fyrir stefnanda og er niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna við það miðuð.
Kom fram í vitnisburði matsmannsins Stefáns Carlssonar fyrir dómi að farið hafi verið eftir þeim hefðum og venjum sem hafi tíðkast við slys af þessu tagi fyrir gildistöku skaðabótalaganna. Þá kom fram hjá vitnunum Sigurjóni Stefánssyni, Þuríði Jónsdóttur og Sverri Bergmann að afleiðingar slyssins fyrir stefnanda væru ekki óvenjulegar heldur væru þær þekktar.
Í úrlausnum dómstóla um verðmæti tapaðra framtíðartekna vegna örorku hefur almennt verið litið til hinnar læknisfræðilegu örorku og lagt til grundvallar að hundraðshluti tekjutaps sé hinn sami og læknisfræðileg örorka. Hefur Hæstiréttur í fjölda dóma á undanförnum árum, þar sem reynt hefur á örorkutjónsútreikninga vegna slysa sem áttu sér stað fyrir gildistöku skaðabótalaga, hafnað því að mat um fjárhagslega örorku verði lagt til grundvallar við útreikning örorkutjóns. Eins og mál þetta er vaxið þykja ekki vera forsendur til að víkja frá þeirri hefðbundnu aðferð og því við það miðað að varanleg örorka stefnanda sé 20%.
Stefnandi kveður að í aflahæfi manna séu fólgin eignarréttindi sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Má ráða af málatilbúnaði stefnanda að hann líti svo á að önnur niðurstaða en sú að stefnandi fái bætur miðað við 100% örorku sé brot á þeim rétti. Ekki verður fallist á það með stefnanda að sú niðurstaða að bæta henni tjón hennar í samræmi við varanlega læknisfræðilega örorku gangi í berhögg við stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda enda sú niðurstaða við það miðuð að tjónþoli fái fullar bætur fyrir tjón sitt.
Útreikningum Guðjóns Hansen tryggingafræðings hefur ekki verið mótmælt en miðað við gefnar forsendur um tekjugrundvöll og tekjutap í samræmi við 20% örorku reiknaði hann verðmæti tapaðra vinnutekna á slysdegi vegna varanlegs orkutaps 3.695.116 krónur. Samkvæmt dómvenju þykir rétt að bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku sæti frádrætti vegna hagræðis við eingreiðslu bóta og skattfrelsis þeirra. Að þessu virtu og þegar litið er til læknisfræðilegrar örorku og útreiknings tryggingafræðings þykja bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda hæfilega metnar 3.000.000 krónur. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hefur þegar greitt stefnanda bætur sem nemur þeirri fjárhæð vegna þessa kröfuliðar og verða stefndu því sýknaðir af þessum kröfulið.
2. Tap lífeyrissjóðsréttinda
Þegar umræddur útreikningur Guðjóns Hansen fór fram, þann 8. febrúar 2000 lá fyrir að stefnandi var hætt að vinna. Kemur fram í greinargerð Guðjóns að með hliðsjón af núverandi heilsufari stefnanda megi ætla að slysið leiði ekki til taps lífeyrisréttinda. Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn sem hnekkja þessu áliti tryggingafræðingsins en fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi hefur notið örorkubóta úr lífeyrissjóði og hefur stefnandi því ekki sýnt fram á það svo óyggjandi sé að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna tapaðra lífeyrisréttinda og verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Verða stefndu því sýknaðir af þessum kröfulið.
3. Miski
Stefnandi hefur gert kröfu um miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hefur hins vegar fallist á að að greiða henni miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur. Ljóst er af gögnum málsins að stefnandi hefur liðið þjáningar og orðið fyrir röskun á stöðu og högum vegna áverka þeirra sem hún óneitanlega hefur orðið fyrir vegna slyssins, sem meðal annars lýsir sér í því að hún getur ekki lengur sinnt þeim áhugamálum sem hún hafði fyrir slysið. Með hliðsjón af þessu og sjúkrasögu stefnanda þykja bætur fyrir miska hæfilega ákvarðaðar 400.000 krónur. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hefur þegar greitt stefnanda 400.000 krónur í miskabætur og verða stefndu því sýknaðir af þessum kröfulið.
4. Tannlæknakostnaður
Stefnandi krefst bóta vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 503.455 og byggir það á mati Harðar Sævaldssonar tannlæknis, áætlun hans 3. ágúst 1993 að fjárhæð 103.000 krónur og 14. júní 2000 að fjárhæð 400.455 krónur. Forveri stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., Trygging hf.. hafði greitt stefnanda samkvæmt reikningi tannlæknisins 17. nóvember 1993, 66.900 krónur vegna tannviðgerða stefnanda. Stefndu hafa mótmælt þessum kostnaðarlið í kröfugerð stefnanda sem of háum og órökstuddum. Vitnið Hörður Sævaldsson kom fyrir dóminn og kom fram hjá honum að það væri þekkt að þunglyndislyf hefðu slæm áhrif á tannheilsu manna og hann vissi að stefnandi hefði tekið inn þunglyndislyf. Taldi hann að óbeint mætti rekja slæmt ástand tanna stefnanda til þeirrar lyfjanotkunar. Í bréfi Harðar 18. mars 2002 til lögmanns stefnanda kemur fram að tannskaðar stefnanda hafi verið taldir upp í vottorði hans 22. júní 1993, hafi tönnin 2 verið löguð og gerð brú vegna missis tannarinnar +6 og hafi þessar viðgerðir verið greiddar af Tryggingamiðstöðinni 23. nóvember 1993. Ekki liggur fyrir í málinu vottorð frá 22.júní 1993 og er tannlæknirinn væntanlega að vísa í kostnaðaráætlun sína 3. ágúst 1993. Þar er er að auki talað um krónuuppbygging á tönninni 6 en í bréfi læknisins 18. mars 2002 kemur fram að sú tönn hafi verið dregin úr stefnanda.
Í bréfi tannlæknisins 18. mars 2002 kemur einnig fram að eftir þann langa tíma sem liðinn sé frá slysinu sé erfitt að meta hvaða tennur hafi glatast vegna slyssins að öðru leyti en því sem fram komi í fyrrnefndu vottorði hans og sem greitt hafi verið fyrir. Dregist hafi að gera við margt í munni stefnanda og telur hann að það sem þurfi að gera nú muni kosta 360.000 krónur og dregur hann til baka áætlun sína frá 14. júní 2000.
Ekki er öðrum gögnum til að dreifa um meintan kostnað við tannviðgerðir en kostnaðaráætlun fyrrnefnds tannlæknis og að því virtu sem að framan er rakið hefur þeim gögnum sem stefnandi byggir kröfur sínar á verið hnekkt. Þá verður og að telja að áætlun tannlæknisins frá 18. mars 2002 sé ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að tannviðgerðakostnaður þessi sé afleiðing af slysi því sem stefnandi varð fyrir og er það því niðurstaða varðandi þennan lið að stefnandi hafi fengið bætt það tjón sem varð á tönnum hennar í slysinu.
5. Lögmannsþóknun
Samkvæmt gjaldskrá lögmanns stefnanda segir um innheimtur að grunngjald skuli vera 2.200 krónur en við bætist 25% af fyrstu 29.000 krónum 10% af næstu 195.000 krónum 5% af næstu 1.900.000 og 3% af næstu 4.300.000 og um tjónabætur segir að fyrir uppgjör og samninga um tjónabætur skuli við þóknun sem að framan greinir bætast 30% ef gagnaöflun sé samfara. Miðað við þessar forsendur og höfuðstól þann sem stefnandi miðar við 3.231.276 krónur er innheimtukostnaður 254.376 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ef ekki er bætt við 30% álagi verður útkoman 195.674. Með vísan til umfangs þess verks sem unnið var af lögmanni stefnanda og með vísan til dóms Hæstaréttar 26. október 1995 í máli nr. 204/1995 þykir rétt að innheimtuþóknun lögmanns stefnanda miðist við gjaldskrá hans án 30% álags enda verður að telja þá þóknun hæfilega samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Þykir rétt að miða við þann gjaldstofn sem lögmaðurinn reiknaði út frá enda hefur honum ekki verið andmælt sérstaklega. Í ljósi þessarar niðurstöðu og því að stefndi Tryggingamiðstöðin hefur greitt 201.153 krónur inn á þennan kröfulið hefur stefnanda verið bættur tjón sitt að þessu leyti og verða stefndu því sýknaðir af þessum kröfulið.
6. Vextir
Stefndu kveða áfallna vexti sem eru eldri en 4 ára fyrnda. Við útreikning vaxta þegar stefndi Tryggingamiðstöðin hf. gerði upp tjón stefnanda 19. maí 2000 reiknaði hann með að undirritun matsbeiðni 18. mars 1999 hafi rofið fyrningu vaxtanna og greiddi vexti sem féllu til eftir 18. mars 1995. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast vextir á 4 árum og verður að fallast á það með stefndu að vextir, að minnsta kosti þeir sem eru eldri en frá 18. mars 1995 séu fyrndir enda stefnandi ekki sýnt fram á að fyrning hafi verið rofin á öðrum tíma. Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem að framan er rakin þykja ekki efni til að fjalla um þá málsástæðu stefndu að vextir eldri en frá 28. júní 1997 séu fyrndir.
Af gögnum málsins verður ráðið að af þeirri fjárhæð, 300.000 krónur, sem stefnanda voru greiddar 18. ágúst 1995 hafi vextir verið um 6.100 krónur. Þegar tekið er tillit til þess svo og þess að stefnanda voru þann 31. maí 2000 greiddar 3.400.000 krónur inn á bætur fyrir varanlega örorku og miska og með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu um tjón stefnanda er ljóst að stefnandi hefur fengið greidda hærri fjárhæð en sem nemur höfuðstól tjóns hennar. Þá er ljóst að við útreikning vaxta sem greiddir voru þann 31. maí 2000 er miðað við að höfuðstóll kröfunnar sé 3.400.000 að frádreginni innborgun þann 18. ágúst 1995 293.900 krónur. Þessum útreikningi hefur ekki verið andmælt og við það miðað að vextir af dæmdum höfuðstól hafi verið að fullu greiddir með fyrrgreindum innborgunum. Er það því niðurstaða máls þessa að stefnandi hafi fengið það tjón sem hún varð fyrir í slysinu þann 21. október 1992 að fullu bætt og ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum hennar í máli þessu.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hver aðili um sig beri sinn kostnað af málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, að fjárhæð 1.091.140 þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hlöðvers Kjartanssonar hrl. sem þykir hæfilega ákveðin 735.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hlöðver Kjartansson hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Valgeir Pálsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Einar Þór Bárðarson og Tryggingamiðstöðin hf. skulu vera sýknir af kröfum stefnanda Jóhönnu Gísladóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.091.140 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hlöðvers Kjartanssonar hrl., 735.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.